Flokkaskipt greinasafn: Enski Boltinn

Upphitun: Watford / CL dráttur: Man City

Uppfært (EMK):
UEFA fékk Shevchenko til að draga í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar og hann dró að sjálfsögðu það einvígi sem stuðningsmenn City og Liverpool vildu líklega hvað síst. Hundleiðinlegt að ensku liðin hafi dregist saman á þessu stigi

Svona raðast þetta:
Liverpool – Manchester City
Juventus – Real Madrid
Barcelona – Roma
Sevilla – Bayern Munchen

Ekki að þetta verði ekki hörku leikir, Liverpool er eina liðið sem hefur unnið Man City í deildinni í vetur en það er ljóst að okkar menn þurfa að eiga toppleik til að endurtaka leikinn. Hjálpar ekki að seinni leikurinn er á útivelli.

Til gamans má geta þess að 1% lesenda Kop.is vildu þetta einvígi:

Kunni betur við Shevchenko þegar hann var að láta Dudek verja frá sér vítaspyrnu!


Íslendingasagan

Fyrir gráglettni örlaganna fellur upphitun fyrir Watford aftur mér í skaut en ég gerði fyrri leik liðanna skil í upphafsleik leiktíðarinnar. Sú upphitun dugði þó eingöngu til góðs sóknarleiks Liverpool en lakari varnarframmistöðu í 3-3 jafntefli og því dugar ekkert annað en betrumbætur í annarri tilraun. Þar sem sagnfræði milli Watford og Liverpool var sæmilega afgreidd í það skiptið þá er vel við hæfi að fjalla lítillega um Íslands-sagnfræði hinna gulrauðu í staðinn.

Af mörgu er að taka en langefstur á blaði í því ættartré er Dalvíkingurinn Heiðar Helguson sem spilaði 228 leiki fyrir Watford og skoraði í þeim 76 mörk. Herra Helguson þarf enga kynningu en sá sem rífur kröftugan kjaft við Kahn er með sönnu karl í krapinu og enginn snáði í snjónunum. Árið 1999 var hann keyptur á 1,5 milljón punda til Lundúna-liðsins frá Lilleström og var þá dýrasti leikmaður í sögu liðsins en það áttu eftir að reynast kjarakaup. Með réttu er hetjan Heiðar í hávegum hafður þar á bæ og nýlega deildi Watford þessari mögnuðu markasyrpu af bestu bombum bardaga-blondínunnar en eitt markanna er gegn LFC árið 2000 í 2-3 sigri grænklæddra Liverpool-manna á Vicarage Road.

Suðurnesjakappinn Jóhann Birnir Guðmundsson spilaði einnig með liðinu í tvö ár og afrekaði 2 mörk í 22 leikjum en hápunktur í veru hans hjá Watford kom máske á Laugardalsvelli þegar hann skoraði 2 mörk í 2-3 sigri gestanna á stórveldi Knattspyrnufélags Reykjavíkur í 100 ára afmælisleik svart-hvítu hetjanna. Meistari Sigursteinn Gíslason og Bjarki Gunnlaugsson skoruðu mörk heimamanna en KR voru gríðarlega vel mannaðir þetta árið með goðsagnirnar Gumma Ben og Þormóð Egilsson í liðinu sem varð svo Íslandsmeistari um haustið eftir 31 ára eyðumerkurgöngu. Því ber að leggjast á bæn og fara með Fowler-vorið um að bið okkar Púlara verði skammvinnari en Evrópuvina þeirra í Vesturbænum. Þá ber einnig að nefna að af sama 100 ára afmælistilefni var haldin epísk Elton John helgi á Rauða Ljóninu þar sem Maggi Kjartans og Ruth Reginalds héldu uppi fjörinu langt fram á nótt. Ó hvað glöð var vor aldraða æska á síðustu öld.

Talandi um æfingaleiki Watford hér á landi þá brá svo við að í janúar 1987 gerði vetur konungur vart við sig á Bretlandseyjum og þar sem enskurinn er frægur fyrir uppgjöf sína gagnvart smá slyddu og slabbi þá var fjölda leikja aflýst víða um breska grund. Haldið var norður til Íslands í margrómaða miðsvetrarblíðuna hér á landi og spilaður æfingaleikur á gervigrasinu í Laugardal gegn úrvalsliði úrKR, Fram og Val.

Áhugamennirnir íslensku í minniháttar leikæfingu náðu virðingarverðu 1-1 jafntefli gegn Watford með enska landsliðsmanninn Luther Blissett framlínunni en John Barnes var því miður hvíldur og hálfu ári síðar var hann seldur til Liverpool sælla minninga. Í úrvalsliðinu öfluga voru Guðni Bergsson og Þorgrímur Þráinsson hafsentar með Willum Þór Þórsson, Andra Marteinsson og Rúnar Kristinsson á miðjunni og Pétur Pétursson í framlínunni  svo einhverjir séu nefndir. Einvalalið einstakra víkinga en nóg um nostalgíuna og aftur í nútíðina.

Mótherjinn

Mikið er um meiðsli í herbúðum gestanna en þó verða Troy Deeney og Richarlison í framlínunni og í þeim felst talsverð ógn fyrir okkar misgóðu varnarlínu. Útivallarform þeirra gulrauðu hefur ekki verið gott og þeir eiga við það lúxusvandamál að vera í 10.sæti með 36 stig fjarri fallhættu þannig að stóra spurningin felst í hugarfarinu komandi inn í leikinn.

Hinn splúnkunýi  spænski þjálfari Watford sem tók við í janúar heitir Javi Gracia Carlos og hefur stýrt liðinu til sigurs og taps í hárfínu jafnvægi eða þrjú skipti hvort um sig. Við hverju má búast frá gestunum er því vandsvarað þar sem Arsenal fór létt með Watford í forleiknum á undan og ef okkar menn skora snemma leiks þá gæti eftirleikurinn verið auðveldur (7,9,13).

Liverpool

Rauði herinn mætir með sært stolt eftir síðustu helgi og þó að Þórðargleði í miðri viku hafi kætt stuðningsmenn þá breytir það litlu fyrir leikmennina sem þurfa að gíra sig aftur í gang og á sigurbraut. Eftir þennan leik verður langdregið landsleikjahlé og því þarf Klopp ekki að stunda neinar taktískar sparnaðaraðgerðir með næstu leiki í huga. Sterkasta liði verður stillt upp en þó geri ég ráð fyrir nokkrum breytingum í kjölfar misgóðrar frammistöðu sumra leikmanna á Old Trafford.

Mitt hundsvit segir mér að þríeykið í framlínunni verði óbreytt en á miðjunni taki kafteinninn Henderson við stýrinu á freygátunni og Wijnaldum snúi aftur úr pestabælinu. Lovren á skilið bekkjarsetu eftir síðasta leik og Alexander-Arnold líka þannig að mín spá er að Matip og Gomez fái þeirra sæti og jafnvel gæti Moreno fengið smá sprett en Robertson er þó líklegri til að halda byrjunarliðssætinu. Liðsuppstillingin væri því eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Það verður grjóthörð ákveðni hjá okkar mönnum að bæta upp fyrir skipbrotið í nágrannasveitarfélaginu þannig að allt kapp verður lagt á að komast aftur á beinu brautina og skora eins mörg mörk og hægt er fyrir landsleikjahlé. Mín bjartsýna spá verður sú að þau áform gangi fullkomlega eftir með vel matreiddri markasúpu að hætti hússins.

Niðurstaðan verður 4-0 sigur með mörkum frá Salah, Mané, van Dijk og Henderson úr víti en þó verður Firmino maður leiksins með 3 stoðsendingar. Bon appetit.

YNWA

Liverpool 4-1 West Ham

Eftir afslappandi 10 daga þá mætti Liverpool aftur til leiks á Anfield gegn Austur-Lundúnaliðinu West Ham með góðkunningjana David Moyes og Patrice Evra meðal mótherjanna. Í boði var að komast í 2.sætið og halda áfram góðu leikformi síðustu leikja. Úr varð hinn líflegasti laugardagsleikur og hin besta skemmtun eins og Klopp og Rauði herinn er orðinn alþekktur fyrir innan Englands sem utan.

Mörkin

1-0  Emre Can 29.mín
2-0  Mohamed Salah 51.mín
3-0  Roberto Firmino 57.mín
3-1  Michail Antonio 59.mín
4-1  Sadio Mané 77.mín

Leikurinn

Frá fyrstu mínútu var ljóst að Liverpool mættu einbeittir til leiks og þeir blésu strax til sóknar með stangarskoti frá Mo Salah á 3.mínútu. Leikurinn var alger eign rauðliða og eftir 10 mínútur höfðum við verið 81% með boltann. Því miður skiluðu yfirburðirnir ekki marki og því alltaf hætta á að fá skyndisókn í bakið. Í fyrstu sóknartilburðum West Ham eftir 15 mínútna leik þá keyrði Arnautovic í átt að vítateig hægra megin og vippaði listavel í átt að marki en Loris Karius varði stórglæsilega með fingurgómunum í þverslánna. Þjóðverjinn hefur verið að sýna sitt rétta andlit í síðustu leikjum og þetta var flott áframhald á fantagóðu formi á milli stanganna.

Eftir það hægðist á leiknum en Liverpool voru áfram meira með boltann gegn þéttskipaðri vörn gestanna. Eftir tæplega hálftíma leik tók Mo Salah hornspyrnu og Emre Can vann skallaeinvígið við Evra og stangaði boltann í netið. Þetta var 100 mark liðsins á tímabilinu og enn erum við í febrúar sem undirstrikar hversu bráðskemmtilegt sóknarlið þetta er. Eftir markið jókst tempóið og sóknarþunginn að nýju þar sem Liverpool freistaði þess að láta kné fylgja kviði. Salah fékk hættulegt skallafæri á fjær stöng eftir flotta fyrirgjöf Robertson og önnur hálffæri voru ekki nýtt þannig að tíminn fjaraði út í fyrri hálfleik.

1-0 fyrir Liverpool í hálfleik

Okkar menn héldu áfram þar sem frá var horfið og sóttu stíft strax í byrjun seinni hálfleiks. Uppskeran lét ekki bíða lengi eftir sér og Oxlade-Chamberlain tók góðan sóló-sprett sem endaði með sendingu inn fyrir á Mo Salah. Egyptinn hárfagri þakkaði pent fyrir þjónustuna og kláraði með laglegu skoti í gegnum klof varnarmannsins og út við stöng. Þetta var hans 23. mark á tímabilinu sem jafnar Harry Kane á toppi markahæstu manna úrvalsdeildarinnar. Magnaður árangur á hans fyrsta tímabili á Anfield og heimamenn komnir í 2-0.

Liverpool voru komnir á bragðið og héldu sóknarþunganum áfram með skoti Oxlade-Chamberlain í hliðarnetið eftir góða sóknaruppbyggingu. Skömmu áður en klukkutími var liðinn sendi Emre Can góða sendingu inn fyrir vörnina og Firmino lék laglega á Adrian í úthlaupinu og skoraði með hefðbundnu no-look -skoti sem Brasílíumaðurinn er orðinn þekktur fyrir. Staðan orðin vænleg og nóg eftir af leiknum til að halda áfram að raða mörkum inn á dapra mótherjana.

Eða það voru í það minnsta eðlilegar væntingar heimamanna en Moyes skipti Michail Antonio inná í kjölfar marksins og tveimur mínútum síðar hafði hann heldur betur launað stjóra sínum innáskiptinguna. West Ham unnu boltann á miðjunni og sending upp hægra megin kom Antonio í vænlega stöðu sem hann gernýtti með góðu skoti með grasinu og út við stöng. 3-1 og nóg eftir af leiknum.

Við þetta kom tímabundinn kraftur í gestina og smávægileg skjálftavirkni í varnarvinnuna hjá rauðliðum. En Liverpool fundu taktinn fljótt aftur og settu að nýju í sóknargírinn. Á 70.mínútu þá átti Oxlade-Chamberlain ógnandi sprett sem hann lauk með sendingu inn fyrir vörnina á Sadio Mané sem var einn á móti markmanni en Senegalinn skaut í stöngina og út. Yfirburðirnir héldu áfram og eftir að Robertson hafði keyrt upp að endamörkum þá lagði hann boltann út í teig á Mané sem slúttaði skemmtilega í stöngin og inn í þetta skiptið.

Eftir þetta fóru báðir stjórar í trakteringar við mannaskiptingar og augljóslega komnir með hugann við næsta leik enda úrslitin ljós í þessu einvígi. 4-1 varð því niðurstaðan og flottur skyldusigur hjá okkar mönnum í bráðskemmtilegu sóknarfjöri og markasúpu.

Bestu menn Liverpool

Liðsheildin var frábær í leiknum og allir skiluðu sínum hlutverkum með sóma. Markið sem við fengum á okkur var óheppilegt en það er léttvægt umkvörtunarefni miðað við hina almennt flottu frammistöðu liðsins í öruggum markasigri. Sóknartríóið skilaði sínu með mörkum á hvern snilling. Oxlade-Chamberlain átti stórfínan leik á miðjunni og Robertson var mjög ógnandi niður vænginn og báðir luku leik með stoðsendingu á kjaft. Minn maður leiksins er Emre Can en Þjóðverjinn var keisaralegur á miðjunni og skoraði upphafsmarkið ásamt því að leggja upp mark með góðri stoðsendingu. Það væri sorglegt ef við næðum ekki samningum við Can því að hans vægi er sífellt að aukast með stabílum og stórgóðum frammistöðum. Bitte unterschreiben Sie den Vertrag Herr Kaiser! Bitte schön!

Vondur dagur

Enginn Púlari átti vondan dag og því þarf að leita til mótherjanna í leit að slíku. David Moyes bætti 16. leiknum í safnið yfir leiki á Anfield þar sem honum hefur ekki tekist að sigra en slíkt hefur honum aldrei auðnast og megi það safn stækka endalaust áfram. Þá var heppilegt að Patrice Evra hefði fengið sinn fyrsta leik fyrir West Ham því að það gaf áhorfendum kjörið tilefni til að dusta rykið af Suarez-söngvum og gaf leikmönnum eflaust væna gulrót að leggja slíkan pörupilt að velli. Vondur dagur hjá báðum sem er mikið gleðiefni fyrir okkur.

Tölfræðin

Markið hjá Salah var hans 20.mark með vinstri fæti og með því bætti hann met í Úrvalsdeildinni sem var sett af hinum guðlega Robbie Fowler tímabilið 1994-1995. Þetta er ekki í fyrsta skipti í vetur sem Salah bætir met hjá Fowler, Liverpool eða Úrvalsdeildinni og það undirstrikar í hversu mögnuðu formi hann hefur verið.

Hægt er að skoða ítarlega tölfræði úr leiknum á WhoScored.

Umræðan

Það verður eintóm hamingja í herbúðum Rauða hersins og þeir eru í ógnvænlegu formi að toppa á hárréttum tíma. Róteringar Klopp fyrr í vetur eru klárlega að margborga sig og nú þarf bara að halda dampi. Við erum komnir í 2. sætið og helstu mótherjar okkar í sætunum beint fyrir neðan mætast á morgun þannig að áhugavert verður að fylgjast með niðurstöðunni úr þeim leik. Næsti leikur Liverpool er á Anfield gegn Newcastle United og Rafa Benitez eftir viku en sá spænski skipulagssnillingur hefur aldrei tapað fyrir Liverpool sem stjóri annars liðs og því reynir mikið á að endurskrifa söguna.

En gleðjumst kæru rauðliðuðu félagar meðan gleði er í boði og fögnum frábæru Liverpool-liði sem gerir fótbolta að listrænni skemmtun. Njótið!

You Never Walk Alone!

Byrjunarliðið gegn West Ham

Liðsskýrslur hafa verið kunngerðar og Liverpool stillir upp eftirfarandi mannskap í byrjunarliði dagsins gegn gestunum frá Austur-Lundúnum:

Bekkur: Mignolet, Lovren, Gomez, Moreno, Henderson, Lallana, Solanke.

Matip, Emre Can og Oxlade-Chamberlain koma aftur inn í liðið en Wijnaldum og Danny Ings eru veikir og ekki í hóp í dag.

West Ham stillir sínu liði upp á eftirfarandi hátt og fá mikinn liðstyrk í að endurheimta Lanzini í byrjunarliðið eftir að hafa verið meiddur í mánuð. Patrice Evra er einnig í byrjunarliðinu í sínum fyrsta leik fyrir West Ham en hann hefur ekki spilað frá því í lok október fyrir Marseilles.

Það verður ekkert gefið eftir og hið stórfína record að David Moyes hefur aldrei unnið á Anfield í 15 leikjum er lagt að veði. Hækkið því í græjunum, kaupið drykk við hæfi á barnum eða syngið ykkur hása ef þið eruð staddir á Anfield!

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: West Ham á Anfield

Sagan

Þó að tilfinningin sé oft á þann veg að lið eins og West Ham séu stanslaust að gera okkur skráveifu þá er staðreyndin sú að sögulega erum við í ansi fínum málum með þá sem andstæðinga á Anfield. Liverpool er með 66% vinningshlutfall gegn West Ham á okkar heimavelli frá upphafi og sárafá töp en það eru jafnteflin sem stríða okkur helst gegn þeim. Árið 2015 lutum við illilega 0-3 í gras gegn West Ham á heimavelli með brottrekstri hins brottfarna Coutinho en það var í fyrsta sinn síðan árið 1963 sem slíkur ósigur hafði átt sér stað á okkar heilögu grundu. Þeirri niðurlægingu fylgdum við eftir með tapi á útivelli  og jafntefli á Anfield en síðan þá hefur leiðin legið aftur upp á við. Eftir London-tilfærslu WHUFC þá er markatala liðanna 8-1 okkar í vil í tveimur leikjum. Megi meðaltal þeirra leikja viðhaldast sem lengst.

En þegar horft er í söguna þá er varla hægt annað en að horfa í þau tíðu viðskipti sem hafa átt sér stað milli liðanna síðustu ár. Það er sem viðskiptahömlum hafi verið sleppt árið 1993 en fram að þeim tíma höfðu eingöngu 3 leikmenn farið á milli liðanna en eftir það ártal hefur talan hlaupið upp í 16 leikmann sem hafa átt bein vistaskipti. Venjulega stefna leikmenn í suðurátt í ábatasömum sölum en einnig hafa gagnlegir leikmenn verið heiðraðir með blóðrauðri treyju eins og Benayoun og Mascherano.

En þessi öru viðskipti eru klárlega tilefni til að stilla upp í 11 manna liði sameiginlegra leikmanna. Og það þarf ansi slakan þjálfara til að gera ekki góða hluti með þetta ágætlega samsetta lið LiverHam FC með sinn kröftugan kjarna af enskum leikmönnum og eðal-útlenskum erindrekum:

Sölulið LiverHam FC í 4-4-2 demanta-kerfi & Joe Cole sem super-sub

Andstæðingurinn

West Ham byrjaði tímabilið með takmarkaðri velgengni undir stjórn Slaven Bilic og eftir erfiðleika síðasta tímabils þá voru dagar Króatans miskáta taldir í niðadimmum nóvembermánuði. Frá fyrrum Everton-leikmanni snéru stjórnendur WHUFC sér til fyrrum Everton-stjóra sem hafði reyndar haft viðkomu í ónefndu nágrannasveitarfélagi. David Moyes tók við West Ham í kjölfarið og upphitunarritari verður að viðurkenna sínar efasemdir með þá skipun enda eru þær neikvæðu vangaveltur staðfestar á upptöku á podcasti. Spá mín var fallbarátta og reyndar er stigasöfnunin í takt við það en meistari Moyes má eiga það að hann hefur stoppað blæðinguna og haldið lífi í liðinu. West Ham eru í 12. sæti í deildinni en sú staða er þó ekki öruggari en svo að þeir eru einungis 4 stigum frá fallsæti. Þeir eru því upplitsdjarfari og með meira sjálfstraust heldur en síðasta þegar við mættum þeim í miklum markaleik. David Moyes á hliðarlínunni ætti þó að reynast nægur innblástur fyrir Rauðliða til að spila sinn yfirburðarleik gegn vanmáttugri andstæðingi.

Liverpool

Eftir hinn glæsilega söng látúnsbarka okkar Kop.is-verja á Bola-TV í Portúgal (og einnig smáatriðið með 0-5 slátrun Liverpool á Porto) þá mæta okkar menn vel hvíldir til leiks eftir æfingabúðir í Spánarsólinni á Marbella og 10 daga leikleysu. Ekki bara að þeir hafa fengið góða hvíld fram að þessum leik heldur er að honum loknum heil vika í þann næsta gegn Newcastle á Anfield. Í kjölfarið kemur formsatriðið gegn Porto þar sem bekkjarmenn fá næsta víst tækifæri og svo loks stórleikurinn á Old Trafford. Liverpool fær því hálfgert vetrarfrí með þrennu af þægilegum heimaleikjum fram að örlagastundu gegn erkifjendunum en þessi meðvinds-móment hafa oft verið þau vandasömustu fyrir Rauða herinn og vonbrigðin oft þeim mun meiri þegar krosstrén bregðast. Það þarf því að vera fullkomin einbeiting á leikdegi, mikill sóknarkraftur frá fyrstu mínútu og áframhald á góðu varnarskipulagi gegn hinum vestlægu Hömrum.

Ég spái því að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði og spili með sókndjarfa bakverði sem verða að megninu til framliggjandi vængmenn, en með íhaldsamari miðju sem tekur bardagann við líkamlegt kraftspili gestanna.  Ég giska á að Matip fái þennan leik á kostnað Lovren og þá helst af því að við verðum mun meira með boltann en báðir hafa verið fínir við hlið VVD í síðustu tveimur hreinlakaleikjum. Karius heldur markmannshönskunum eftir sannfærandi spilamennsku og auðvitað verður hið seiðmagnaða sóknartríó okkar á sínum stað í framlínunni (og vonandi á markalistanum líka).

Svona er minn taktíski töflufundur framreiddur:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Klavan-vaktin

Það þurfti ekkert minna en dýrasta varnarmann heims til að koma varnarjaxlinum viljasterka frá Viljandi á varamannabekkinn. En einhörðum Eista verður aldrei haldið ævarandi fjarri fótboltavellinum og hinn rangnefndi Rangi-Ragnar fékk örfá  augnablik í sigrinum á Man City til að hífa vinningshlutfallið upp í 62,2% sem er með því hæsta hjá núverandi leikmönnum LFC. Lukkutröllsins ljúfa hefur reyndar verið sárt saknað í bekkjarsetunni í síðustu leikjum sökum óvenju góðrar heilsuhreysti hafsenta-hjálparsveina Virgils. Vonir standa þó til að Eistinn einstaki fái tækifæri til að syngja spyrnusöngva sína á Bola TV og jafnvel á sparkvellinum líka gegn Porto.

Spakra manna spádómur

Sigur skal það vera hvernig sem hann nú næst á endanum. Mitt getspaka gisk er 3-0 þægindi þar sem Salah, Mané og Robertson sjá um markaskorunina.

YNWA

Hvað þarf til?

Það er orðið nokkuð ljóst að keppnin í efri hluta deildarinnar er keppni um hvernig liðin raða sér í sæti 2-6. Það er alveg óhætt að taka lið Manchester City út úr umræðunni, það er nánast orðið formsatriði fyrir þá að vinna þessa blessuðu deild. Ef ekki væri fyrir þá, þá væri þetta alveg hörku, hörkuspennandi lokabarátta framundan. En þurfum við þá ekki að horfa bara á þetta eins og þetta er, mögnuð lokabarátta fyrir því að fá Þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta ári? Ég er allavega farinn að gera það. Auðvitað fæst enginn bikar fyrir það að komast í þá deild, en hún er engu að síður ákaflega mikilvæg fyrir liðin, leikmenn og stuðningsmennina. Skemmtilegir leikir í miðri viku í sterkustu deild í heimi, mikið magn af peningum og meira „Pulling Power“ þegar kemur að leikmannakaupum. Persónulega tæki ég bikar alltaf framyfir sætið í Meistaradeildinni, en menn hafa jú misjafnar skoðanir á því. Ég ætla hérna á eftir að fara aðeins yfir leikjaprógrammið hjá hverju og einu liði sem eru að berjast í þessari baráttu. Ég vil taka það skýrt fram að 4. sætið gefur nú orðið beinan þátttökurétt í riðlakeppninni, þannig að í rauninni skiptir ekki öllu máli hvort liðin lenda í öðru eða fjórða (samt meiri seðlar fyrir annað sætið). Við tökum þetta í þeirri röð sem liðin eru í núna:

Manchester United:
Það eru 12 leikir eftir í deildinni og þeir eru 7 stigum fyrir ofan Tottenham, sem eru í fimmta sætinu. Í heildina eru í rauninni 36 stig í boði og það styttist verulega í það að rauðu djöflarnir nánast tryggi sig í Meistaradeildina að ári. Næsta misstig Spurs nánast tryggir slíkt. Arsenal eru aftur á móti 11 stigum frá þeim, þannig að þar liggur enginn séns (nánast 12 stig út af markahlutfalli). Stóra baráttan hjá Man.Utd er í rauninni að reyna að enda tímabilið sem næst „besta“ liðið. Það eru 5 stig í Liverpool og ein innbyrðis viðureign eftir á milli liðanna. Sú viðureign gæti haft mikið að segja með lokaniðurstöðuna. Þetta eru sem sagt leikirnir sem þeir eiga eftir:

Newcastle (Ú)
Chelsea (H)
Crystal Palace (Ú)
Liverpool (H)
West Ham (Ú)
Swansea (H)
Man.City (Ú)
WBA (H)
Bournemouth (Ú)
Arsenal (H)
Brighton (Ú)
Watford (H)

Eins og sjá má á þessu, þá eiga þeir ekki neitt skítlétt prógram eftir. Margir innbyrðis leikir hjá þeim og nokkrir „tricky“ útileikir. Það er allavega morgunljóst að leikur þeirra gegn Chelsea og svo okkar mönnum, þeir verða alveg risastórir. Ég ætla að spá því að Man.Utd endi í þriðja sæti í deildinni þetta árið.

Liverpool:
Það er svo auðvelt að fá tröllatrú á þessu Liverpool liði, en jafnframt svo auðvelt að missa hana. Hefur einhver orðið vitni að slíku áður þegar um þetta blessaða lið er að ræða? Eins og staðan er núna, þá er liðið 2 stigum á undan Tottenham og 6 stigum á undan Arsenal. Það er varla hægt að vera meira í action heldur en okkar menn. Eftir gríðarlega svekkjandi lokasekúndur í leiknum gegn Spurs, þá þýðir ekkert annað en að bruna beint áfram. Það er stór helgi framundan þar sem sigur verður að vinnast á liði Southampton, þar sem Arsenal og Tottenham mætast í innbyrðis viðureign og þar tapast stig. Jafntefli þar væri fallegt og myndi nánast setja Arsenal út úr þessari baráttu…í bili. En þetta eru leikir Liverpool það sem eftir lifir tímabils:

Southampton (Ú)
West Ham (H)
Newcastle (H)
Man.Utd (Ú)
Watford (H)
Crystal Palace (Ú)
Everton (Ú)
Bournemouth (H)
WBA (Ú)
Stoke (H)
Chelsea (Ú)
Brighton (H)

Já, við höfum alveg séð erfiðara prógram en þetta á pappírum. En það eru jú bara pappírar. Sigur í leiknum gegn Man.Utd gæti skipt sköpum eins og áður sagði. Ég er bara nokkuð bjartur á okkar menn fram á vorið og ég er á því að við tökum annað sætið í deildinni. Má vel vera að það sé óskhyggja, en þetta er tilfinningin núna þegar horft er á það sem eftir er hjá liðunum.

Chelsea:
Chelsea hafa ekki verið sannfærandi undanfarið, en þeir eru meistararnir og eru með virkilega öflugt lið. Það er einungis tímaspursmál hvenær þeir detta í gírinn aftur. Eins og áður sagði, þá er risastór leikur fljótlega gegn Man.Utd sem gæti gefið tóninn fyrir framhaldið. Þeir eru einungis stigi á undan Tottenham og 5 á undan Arsenal.

WBA (H)
Man.Utd (Ú)
Man.City (Ú)
Crystal Palace (H)
Burnley (Ú)
Tottenham (H)
West Ham (H)
Southampton (Ú)
Huddersfield (H)
Swansea (Ú)
Liverpool (H)
Newcastle (Ú)

Langt frá því að vera einfalt hjá Chelsea. Manchester liðin hvort á eftir öðru og ætla ég hreinlega að spá því að Chelsea muni sitja eftir í 5. sætinu þetta árið.

Tottenham:
Tottenham liðið hefur verið nokkuð þétt í allan vetur og seiglast þetta áfram. Það verður risaleikur hjá þeim um helgina, þar sem þeir geta nánast hent Arsenal út úr myndinni.

Arsenal (H)
Crystal Palace (Ú)
Huddersfield (H)
Bournemouth (Ú)
Newcastle (H)
Chelsea (Ú)
Stoke (Ú)
Man.City (H)
Brighton (Ú)
Watford (H)
WBA (Ú)
Leicester (H)

Alls ekkert svo slæmt prógram eftir hjá þeim og ég held að þeir komi til með að enda í 4 sætinu, en eiga eftir að pressa verulega á sætin þar fyrir ofan.

Arsenal:
Ég held það þurfi eitthvað stórkostlegt að gerast hjá Arsenal til að þeir komist í efstu fjögur sætin. Of mörg lið þurfa að misstíga sig til að það sé mögulegt. Líklegast er þeirra besti séns í gegnum Europa League eins og Man.Utd gerðu í fyrra. Það er algjör lífsnauðsyn fyrir framhaldið í deildinni, að þeir vinni leikinn gegn Spurs um helgina:

Tottenham (Ú)
Man.City (H)
Brighton (Ú)
Watford (H)
Leicester (Ú)
Stoke (H)
Southampton (H)
Newcastle (Ú)
West Ham (H)
Man.Utd (Ú)
Burnley (H)
Huddersfield (Ú)

Já, næstu 2 leikir munu væntanlega skera úr um þetta hjá Arsenal, þ.e. hvort þeir verði eitthvað með í baráttunni um sæti 2-4. Þeir mega ekki við neinum skakkaföllum í þeirri baráttu, allavega ekki þegar kemur að innbyrðis viðureignum. Ég spái því að þeir endi þar sem þeir eru og geri svo góða tilraun til að komast baktjaldaleiðina inn.

Það er oft gott að setja fyrir framan sig þessa leiki sem eftir eru. Það er slatti af innbyrðis leikjum og þeir geta skipt sköpum í þessari baráttu. En svo mikið er víst, það er mikið eftir og við eigum eftir að sjá sviptingar. Þetta væri mergjað ef þetta væri nú baráttan um titilinn. Só Long Man.City og takk fyrir þetta.