Flokkaskipt greinasafn: Enski Boltinn

Upphitun: Newcastle á St James’

Rafa Benitez
Rafa Benitez
La-la-la-la Benitez
Chancel Mbemba, Gino Wijnaldum, Shelvey & Perez

Svona kyrjuðu áhangendur Newcastle á Anfield síðast þegar við mættum þeim vorið 2016. Ástæðan var ástfengni þeirra á nýja stjóranum sínum og taktíska meistaranum frá Madrid. Þeir voru orðnir hugfangnir af Rafalution byltingunni . Við Púlarar þekktum þessa tilfinningu mætavel eftir byltingarkennt og árangursríkt ástarsamband og höfðum ekkert á móti því þó að söngnum okkar hefði verið stolið norður í land til að hylla Rafa „okkar“ Benitez. Reyndar keyptum við Wijnaldum úr erindinu stuttu síðar þannig að tónskáldin þurftu eitthvað að uppfæra söngtextann en því miður fyrir okkur þá svínvirkaði söngurinn sem áður var sunginn af ástríðu í The Kop og liðsstýring yrkisefnisins var formúlan til að ná í 2-2 jafntefli á þessum vordegi eftir að Liverpool hafði komist tveimur yfir. Þau úrslit dugðu Rafa til að vera áfram ósigraður í leikjum sem hann hefur stýrt gegn Liverpool en áður hafði hann náð nákvæmlega sömu úrslitum í einum leik með Chelsea og unnið tvo CL-leiki með Valencia.

En næsta sunnudag verður söngurinn mun háværari og sunginn af um það bil 50 þúsund upptjúnuðum Norðanmönnum. Og taktíski espanjólinn okkar fyrrverandi hefur unnið heimavinnuna sína samviskusamlega upp á 10,0 að vanda og mun mæta þýska þungarokkaranum okkar í þungum þönkum. Það verða því stálin stinn í fuglabardaga svarthvítu Skjóanna við eldrauða Liverfuglinn!

Hefjum upphitunina!

Sagan

Einvígi Liverpool og Newcastle hafa yfir sér áru sókndirfsku og sögulegra úrslita eftir marga frábæra leiki síðustu áratugina. Þar er auðvitað efst á blaði sá leikur sem oft er nefndur besti leikurinn í sögu Úrvalsdeildarinnar þegar meistaraefni Kevin Keegan lutu í gras 4-3 gegn mörkum Fowler og Stan the Man í apríl árið 1996. Upphitunarritari var svo lukkulegur að hafa einmitt farið á þann leik á Anfield í sínum fyrsta Liverpool-leik og séð berum augum þann kamakazi-fótbolta sem spilaður var það kvöldið. Meistari Beardsley var að sjálfsögðu í byrjunarliðinu fyrir þá röndóttu og hann er einn af fjölmörgum leikmönnum sem spilað hafa fyrir bæði lið. Viðskiptasamband liðanna er það sterkt að það skákar næstum tíðum innkaupaferðum okkar í Suðurhafnartúnum en á síðustu tveimur áratugum hefur Liverpool keypt leikmenn frá Newcastle fyrir yfir 75 milljónir punda samtals og tvívegis var keyptur þáverandi dýrasti leikmaður í sögu Liverpool.

Styrkleiki þeirra sem spilað hafa fyrir bæði lið er slíkur að ekki er annað hægt en að stilla upp í geysiöflugt sameiginlegt lið LiverCastle United FC. Taktíkin er að sjálfsögðu sókndirfska í ætt við kamakazi-fótbolta 4-3 leiksins og varnarleikurinn algert aukaatriði. Byrjunarliðið yrði svona:

Bekkur: Bellamy, Carroll, Shelvey, Wijnaldum, Venison, Stubbins

 

Mike Hooper fær hanskana verandi eini markvörðurinn í boði  og í hafsentastöðunum er bakvarðafílingur með Alan Kennedy, James Milner og Jose Enrique en sá síðastnefndi hefur reyndar hnykklað vöðvana í miðvarðarstöðunni í eitt skipti fyrir LFC. Varnartengiliðirnir eru ekki af verri taginu með keisarann Didi Hamann og og meistara Terry McDermott að verja baklínuna. Fram á við fer að færast fjör í leikinn með Digger Barnes á vinstri væng og Peter Beardsley fórnar sér fyrir málstaðinn að vanda með því að taka hægri vængframherjastöðuna. Keegan er settur í holuna til að mata markamaskínurnar Rush og Owen. Á bekknum er svo nóg af mönnum til að breyta gangi leiksins eða að lenda í tómu tjóni með golfkylfu. Þetta lið gæti spilað hinn líflegasta sóknarbolta með alla leikmenn upp á sitt besta og með grjótharða gutta aftar á vellinum til að strauja mann og annan. Ég yrði illa svikinn ef svona lið gæti ekki skilað 4-3 í flestum leikjum sínum.

En að sagnfræðilegum dagdraumum slepptum þá höfum við bara unnið 1 af síðustu 6 leikjum á St James’ Park og í heildina er sigurhlutfall Liverpool á þeim velli eingöngu 28% en þar höfum við tapað 44% af okkar leikjum. Nokkrir eftirminnilegir stórir sigrar hafa komið inn á milli eins og 0-6 árið 2013 og 1-5 árið 2008 en heilt yfir er þetta ekkert sérlega auðveldur útivöllur fyrir okkur þó að við tökum Newcastle oft í bakaríið á Anfield. Það er því engin sérstök ástæða til að vera sigurviss miðað við fyrri tíð.

Mótherjinn

Newcastle byrjaði tímabilið með tveimur töpum í deild og einum í deildarbikar og við það fór smá skjálftahrina í gang, sérstaklega sökum þess að Rafa hafði ekki fengið frjálsar hendur eða fjármagn til að annast sumarinnkaupin með aurapúkann Mike Ashley á handbremsunni. Aðgerða var þörf og Rafa fór í nýrnaaðgerð sem hafði svona aldeilis góð áhrif á liðið og það vann næstu 3 leiki í röð. Síðustu helgi tapaði liðið 1-0 fyrir Brighton en þeir sitja í 8.-10. sæti í deildinni með 9 stig og yrðu eflaust hæstánægðir með slíka niðurstöðu í deildinni næsta vor.

Þetta væri ekki lið undir Rafa ef það væri ekki vel skipulagt varnarlega og vörnin hjá Newcastle hefur eingöngu hleypt 5 mörkum í gegn í þessum 6 deildarleikjum. Enda eru varnarmennirnir í liðinu hæstir á einkunnalistanum skv. tölfræðinni hjá Whoscored og þar er bakvörðurinn Chancel Mbemba, varnartengiliðurinn Mikel Merino og hafsentinn Jamaal Lescalles efstir á blaði. Sprækastur fram á við er hinn skoski Matt Ritchie með 4 stoðsendingar en því miður fyrir okkur þá er hann lunkinn í föstum leikatriðum sem er alræmdur akkilesarhæll okkar. Það kæmi mér ekki á óvart ef Rafa myndi stíla inn á að fá sem flestar hornspyrnur til að gefa okkur hroll af stressi og reyna að pota inn marki eftir mistök.

Uppleggið hjá Newcastle er kunnugleg uppskrift með að liggja þéttir og skipulagðir aftarlega með snögga sóknarmenn sem bíða færis að sprengja fram á við. Þeir eru varla að fara að leggja langferðarbílnum á heimavelli en við getum gert ráð fyrir að þeir verði í kringum sitt 43%  meðaltal með boltann. Í takt við það þá eru þeir rétt með eitt mark að meðaltali í leik og varla von á flugeldasýningum í sóknarleiknum. Undir Rafa er sigurhlutfall Newcastle 55,7% en allan hans tíma með Liverpool þá var það 55,4% og því er hann kominn með þá á gott sigurról þó að vissulega megi rýna í deildir og andstæðinga í þessum samanburði. Þeir verða því ekkert lamb að leika sér við nema það sé þá helst úlfur í þeirri sauðagæru sem bíður í dans.

Líklegt byrjunarlið Newcastle í taktíkinni 4-2-3-1

Liverpool

Það er sem einhver tilvistarkreppa sé að hefta framþróun Liverpool þessa dagana. Fornir draugar fyrri jóla eru mættir aftur til að valda vandræðum í vörn og markvörslu en núna er ný afturganga  í formi færanýtingar mætt á svæðið til að hrella sóknarmenn rauðliða. Eitthvað virðist vefjast fyrir okkur að skjóta síldina í tunnunni vopnaðir hríðskotabyssu og skæðadrífu af sóknarfærum dugar ekki til. Í síðustu 5 leikjum í öllum keppnum höfum við átt 119 skot að marki en það hefur eingöngu skilað okkur 7 mörkum sem er engan veginn nógu mikið þegar við getum sjaldnast haldið hreinu marki í hinum enda vallarins. Reyndar hafa gæðin ekki alltaf verið í takt við magnið en í þessum aragrúa af skotum leynast samt vannýttar vítaspyrnur, skot í tréverkið og markmannslausir galopnir markrammar sem illa gengur að hitta.

Heimspeki Klopp í knattspyrnulegri aðferðarfræði er rock & roll & go for goal og því er grundvallaratriði að nýta sóknarlega yfirburði þegar við erum að ná að skapa færin. Mörk breyta gangi leikja og 2-3 vel tímasett mörk af mýmörgum skotum á þessu tímabili hefðu klárað leiki sem við höfum misst í ósanngjörn jafntefli. Það má svo sem líka horfa á glasið ögn fyllra með því að benda á að við höfum eingöngu tapað 2 leikjum af 11 í öllum keppnum það sem af er tímabili og við erum í seilingarfjarlægð frá toppnum.  Sóknarleikurinn hefur verið líflegur og herslumuninn hefur vantað til að vinna fleiri leiki. Það þýðir því ekki að gráta Björn Tore Kvarme bónda og átta sig á að í næsta leik eru 3 stig í boði sem þarf að heyja af túni.

Einhver rótering mun eiga sér stað eftir Rússkí-karamba-ferðalagið og Klopp gæti komið eitthvað á óvart með liðsvalinu. Ég ætla að spá því að hann gefi Karius annan séns og að Skotinn Robertson fái leik í námunda við landamæri heimalandsins. Að mínu mati verður byrjunarliðið svona:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í taktíkinni 4-3-3

Spaks manns spádómur

Rafa hefur ekki tapað fyrir Liverpool, söguleg tölfræði er gegn okkur og hingað til hafa allir mínir upphitunarspádómar endað með jafntefli. Eina skynsamlega niðurstaðan er því að leikurinn endi í jafntefli en þar sem ég er meira þrjóskur en skynsamur þá spái ég okkur 1-2 útisigri með mörkum frá Mané og fyrsta útivallarmarki Wijnaldum á Englandi.

Upphitun: Alvöru verkefni! Manchester City úti.

Á hádegi á laugardag bíður okkar alvöru verkefni. Leikur gegn Manchester City og engin spurning að um gríðarlega mikilvægan leik er að ræða fyrir komandi toppbaráttu. Við pennarnir á Kop.is spáðum allir Manchester City Englandsmeistaratitlinum næstkomandi vor, og skyldi engan undra. Guardiola hefur eytt stjarnfræðilegum upphæðum í leikmenn og vonar að honum sé að takast að fullmóta liðið sitt eins og hann vill sjá það. Þrátt fyrir að stutt sé liðið á mótið er allt undir í þessum leik fyrir bæði lið og með sigri hjá hvoru liðinu sem er verða send skýr skilaboð inn í tímabilið.

Sagan

Liverpool og Manchester City hafa mæst tvöhundruð og sex sinnum í öllum keppnum. Í þessum viðureignum höfum við unnið hundrað og einu sinni, City hafa unnið fimmtíu og þrisvar og fimmtíu og tveir leikir hafa endað með jafntefli. Í síðustu tíu deildarleikjum hafa City unnið tvo leiki, þrír hafa endað með jafntefli og við unnið fimm. Fjórir af þessum fimm sigurleikjum okkar unnust á Anfield en aðeins einn á Etihad, en þá hafði Jurgen Klopp verið í stjórastólnum í um einn og hálfan mánuð og handverk hans kom berlega í ljós þegar við slátruðum City 1-4. Klopp hefur stýrt Liverpool fimm sinnum gegn City síðan hann tók við og aðeins tapað einu sinni. Það tap kom í úrslitum deildarbikarsins á Wembley eftir svekkjandi vítaspyrnukeppni.

Á milli Liverpool og Manchester City ríkir engin sérstakur kærleikur enda um nágrannaborgir að ræða. Þó er rígurinn á milli þessara liða ekkert í líkingu við ríginn á milli Liverpool og Manchester United, enda þau tvö sigursælustu lið Englands, og City tiltölulega nýorðið stórt lið með fúlgur fjár.  Það þykir ekki vinsælt að leikmenn spili fyrir bæði Liverpool og Manchester United en ef við horfum á Liverpool og Manchester City blasir annar veruleiki við. Frá stofnun úrvalsdeildarinnar hafa fjórtán leikmenn spilað fyrir bæði liðin. Þeir eru, í engri sérstakri röð: David James, Kolo Touré, Dietmar Hamann, Daniel Sturridge, Steve McManaman, Raheem Sterling, Craig Bellamy, Nigel Clough, Mario Balotelli, Nicolas Anelka, James Milner, Albert Riera, Mark Kennedy og sjálfur Guð A.K.A Robbie Fowler. Þar fyrir utan má ekki gleyma Steve McMahon. Peter Beardsley og Matt Busby. Þetta er engin smá listi og eru mennirnir á honum misdýrkaðir af okkur Liverpoolmönnum.

 

Manchester City

Manchester City eru með sjö stig eins og við. Þeir unnu Brighton 0-2 úti í fyrsta leik, gerðu 1-1 jafntefli heima gegn Everton og lentu í smá basli með Bournemouth úti í síðasta leik en náðu að knýja fram 1-2 sigur. Ég hef ekkert séð um meiðsli hjá þeim nema að Kompany missti af landsleik 3. sept vegna smávægilegra meiðsla en á að vera orðinn klár í slaginn. Ef ekki tekur Otamendi stöðu miðvarðar með Stones. Sterling vinur okkar er svo í banni fyrir að fagna of ákaft gegn Bournemouth. Gundogan hefur æft að fullu undanfarið en ég býst ekki við honum í byrjunarliðinu strax.

Svona tippa ég á að City stilli upp:

Ederson

Walker – Kompany – Stones – Mendy

Silva – Fernandinho – De Bruyne

Sane – Aguero – Jesus

 

Yaya Toure gæti svosem fengið stöðuna inni á miðri miðjunni en ég skýt á Fernandinho frekar.

 

Liverpool

Risastóra spurningin er hvort Coutinho verði í byrjunarliðinu eða bara í hóp yfirhöfuð. Moreno póstaði mynd af sér með honum skælbrosandi og engu líkara en hann hafi farið til tannhvítunarfræðingsins hans Firmino. Eins hafa birst nokkrar myndir af honum af Melwood skælbrosandi. Þetta er bara jákvætt og vonandi er hægt að salta þessa leiðindarumræðu í bili. Þó tel ég að Klopp hendi honum ekki strax í byrjunarliðið enda væru það sérstök skilaboð til frábærrar miðjunnar í síðasta leik. Ég skýt á að hann byrji á bekknum ásamt okkar nýjasta leikmanni Oxlade-Chamberlain. Fréttir bárust af einhverjum meiðslum Salah um helgina en hann spilaði allan leikinn með Egyptum gegn Uganda á þriðjudaginn svo hann er klár. Ég held að Trent Alexander taki sæti hægri bakvarðar á nýjan leik og Mignolet fari aftur í rammann eftir að Klopp sagði skýrt í viðtölum eftir Arsenal leikinn að hann væri markvörður nr. eitt.

Svona spái ég byrjunarliðinu hjá okkar mönnum:

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

 

Bekkur: Karius, Klavan, Gomez, Milner, Coutinho, Chamberlain, Sturridge

Nánast sami kjarni sem byrjar og undanfarna leiki en gleðifréttirnar eru breiddin. Þessi bekkur er mjög öflugur og ennþá eigum við Lallana og Clyne inni. Ward, Grujic og Solanke missa sæti sitt í hópnum í bili.

 

Spá

Ég er mjög bjartsýnn fyrir þennan leik. Klopp hefur ekki tapað á Etihad með Liverpool og við virkum á góðri siglingu. City hafa ekki virkað neitt svakalega sannfærandi sem af er en það er bara tímaspursmál hvenær þeir setja vélina á fulla ferð. Vonandi bíða þeir eitthvað  með það, a.m.k. fram yfir þennan leik. Við erum alltaf að fara fá á okkur mark eða mörk en þeir líka og tel ég að bakverðir þeirra lendi í miklum vandræðum gegn skruggufljótum Mané og Salah. Miðjan þarf að eiga góðan leik og hjálpa vörninni allan tímann ásamt að tengja vel við efstu þrjá. Þetta verður erfitt en með hundrað prósent einbeitingu eigum við vel að geta unnið þetta City lið. Ég segi að við vinnum leikinn 2-3 og sigurmarkið verði dramatískt undir lok leiksins. Okkar mörk skora Mané 2 og fyrirliðinn Henderson 1. Hjá þeim setja Aguero og Jesus sitt markið hvor.

Koma Svo!!! YNWA!!

 

Peningamál 2017 (síðari hluti) – samkeppnisaðilarnir

Síðastliðinn föstudaginn fjallaði ég um ársreikning Liverpool FC, þróunina undir FSG og mína sín á framtíðina. Í dag vil ég taka þessar upplýsingar áfram og bera Liverpool saman við samkeppnisaðilana  og þá sérstaklega topp 6 liðin í ensku úrvalsdeildinni.

Tekjur

Mikið hefur verið rætt og ritað um misskiptingu auðs og er fótboltaheimurinn þar engin undantekning. Deloitte birtir árlega samantekt (Deloitte Football Money League) þar sem þeir fara yfir tekjur stærstu liða Evrópu og skoða samanburð á milli ára, hvaðan tekjurnar koma og framtíðarhorfur.

Samantekt Deloitte fyrir tímabilið 2015/16 er fróðleg og þá ekki síst sú staðreynd að Liverpool er eina liðið í topp 10 sem ekki spilar í Champions League!

Einnig vekur gríðarlegur vöxtur Manchester United athygli mína. Þeir eru tekjuhæsti fótboltaklúbbur í heimi (í fyrsta sinn síðan 2003/04) og bendir flest til þess að þeir haldi toppsætinu á núverandi leiktímabili og fari yfir £530 milljónir í veltu og það án Champions League!

Continue reading

Leicester 3 – Liverpool 1 (leikskýrsla)

1-0 Vardy á 28.mínútu
2-0 Drinkwater á 39.mínútu
3-0 Vardy á 60.mínútu
3-1 Coutinho á 67.mínútu

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Það er einn sem ekki þarf að skammast sín fyrir frammistöðu kvöldsins, Simon Mignolet bar af í arfalélegu Liverpool-liði, hefðum tapað mun stærra ef hann hefði ekki haldið okkur á floti.

VONDUR DAGUR

Allir útileikmenn sem tóku þátt í þessum leik, þeir tíu sem hófu hann og þeir tveir sem komu inná þegar eitthvað var eftir. Coutinho gat eitthvað í 5 mínútur en frammistaða annarra var sjokkerandi vond. Can sýndi endanlega að hann ræður ekki við að spila á miðju, Lucas vinur minn á aldrei að fá að spila hafsent aftur og Firmino svaraði pistil Óla Hauks. Við vinnum í dag ekki leiki með hann sem framherja – hvað þá mót. Hrein ömurð.

UMRÆÐA EFTIR LEIK

  • Hversu mikill óstöðugleiki er mögulegur í einu knattspyrnuliði. Liverpool FC er að svara því. Í toppsætum 1.janúar með öllu að keppa. Tveimur almanaksmánuðum síðar höfum við náð okkur í 6 stig í 7 leikjum í deild. Það er árangur liðs sem fellur eftir tímabil. Þetta er kannski ekki rannsóknarspurning því það er orðið svo augljóst að við eigum ekkert plan B. Að því næst.

  • Ég er enn með mancrush fyrir Jurgen Klopp og hef fulla trú á honum. Hins vegar hafa nú minni spámenn séð við honum. Paul Clement hjá Swansea, Sousa hjá Hull og nú Craig Shakespeare munu ekki koma sínu liði í Meistaradeild. En þeir hafa nú með stuttu millibili fundið út okkar leikplan og hann virðist engin svör kunna. Chelsea, City og Spurs komu ofarlega á okkur og spiluðu fótbolta. Til að vinna Klopp-lið Liverpool þarftu að þrýsta liðinu okkar út á vængi og leyfa okkur að krossa inn í box, sparka langt og klára sóknir. Þetta ræður liðið hans ekki við og hann kann engin ráð. Hann var öskrandi á hliðarlínunni vissulega en undirbúningur hans teymis fyrir þennan leik fær fullkomna falleinkunn og það er virkilega sláandi að hann virðist ekki læra af mistökum.

  • Hver það er sem tekur ákvarðanir um leikmannakaup fyrir þetta tímabil skal slá sig utanundir. Fast! Vissulega sóttum við Mané og Matip en svo bættum við við okkur varnarmanni sem ekki er treyst og markmann á varamannabekkinn, auk efnilegs miðjumanns sem hefur alls ekki sannfært alla. Bekkurinn okkar í kvöld var einfaldlega sjokkerandi og það að setja Moreno og Origi inn sem fyrstu valkosti til að breyta svona leik fær mann til að langa til að kasta upp. Það er algerlega orðið ljóst að í þetta lið okkar vantar a.m.k. afburða hafsent, afburða miðjumann og afburða striker til að klára heilt tímabil. Vanmat á leiktímabilinu í Englandi virðist algert, þetta eru bara alls ekki lengur einhver slys…

  • Þreyta er ekki lengur afsökun takk krakkar. Við vorum a.m.k. jafn lélegir núna eftir þetta 16 daga frí og þegar við spiluðum fleiri leiki. Öll þvælan um það að detta út úr bikarkeppnum og spila ekki í EL. Takið hana og troðið þar sem sólin ekki skín. Þessu liði vantar fleiri gæðaleikmenn og frammistöður undanfarið voru ekki vegna þreytu.

  • Liðið okkar er ekki hugað. Leicester tóku völdin með tæklingu eftir 25 sekúndur og héldu þeim í 60 mínútur. Alveg sama hvert litið var…við fengum ekki eitt gult spjald í þessum leik enda fórum við ekki í tæklingu í þessum leik. Þar fór miðjan fremst í flokki – það er þar sem baráttan byrjar og endar. Hjá okkur byrjaði hún aldrei.

  • Þetta lið spilar ekki í Meistaradeild á næsta ári. Sigurliðið í deildarbikarnum verður í toppsætum og því erum við nú í EL sæti. Það er að mínu mati það hæsta sem við getum horft til á þessu ári sem er orðið mesta vonbrigðatímabilið í mínum kolli bara, utan við mánuðina hjá Hodgson. Það er ekki auðvelt að elska þetta lið…það er hunderfitt.

  • Liverpool FC er heimsþekkt vörumerki þrátt fyrir arfaslaka frammistöðu síðustu ára. Ótrúleg frammistaða „Travelling Kop“ í kvöld bara enn ein sönnun þess. Hversu lengi heldur það þegar enn eitt tímabilið er runnið upp þar sem liðið hrynur fullkomlega undan væntingum okkar og er áfram utan toppsæta ensku deildarinnar?

  • Afsakið dramatíkina og niðurrifið hérna. Veit að það verða margir fúlir út í þessi skrif hérna en ég bara er ekki í neinu Pollýönnuskapi hérna eftir að liðið mitt eyðilagði enn eina tveggja klukkutíma setuna í mínu lífi!!!

NÆSTU VERKEFNI

Arsenal um næstu helgi. Það verða góðir vinir mínir margir á Anfield. Mikið vona ég að þau fái að sjá annað en þennan aumingjaskap sem pirraði mig svona svakalega í dag.

Það hlýtur að koma að því að topplið stúti okkur þó…því það er alveg klárt að við erum í frjálsu falli.

Englandsmeistarar Leicester!

Þetta var bara að gerast. Í alvöru:

Jafntefli Tottenham gegn Chelsea í kvöld þýðir að LEICESTER CITY eru Englandsmeistarar í knattspyrnu karla!

Þetta er ótrúlegur árangur. Svo magnað að maður hefur haft hálft tímabilið til að venjast tilhugsuninni og nær því ekki enn. Liðið var nánast dauðadæmt á botni deildarinnar fyrir 14 mánuðum áður en magnaður lokasprettur lyfti þeim upp úr fallsætunum. Síðasta sumar mætti svo Claudio gamli Ranieri á svæðið og liðið bara hélt áfram að vinna … og vinna … og vinna.

Og nú eru þeir Englandsmeistarar.

Það er ekki hægt annað en að óska Refunum innilega til hamingju með þetta. Þetta lið var einfaldlega besta liðið í vetur!