Flokkaskipt greinasafn: Enski Boltinn

Podcast – Uppgjör á deildinni

Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV mætti aftur og gerði upp tímabilið á Englandi með okkur. Hugurinn er auðvitað að mestu kominn til Kiev og eitthvað horft þangað einnig. Nóg að ræða og þáttur í lengra lagi sem er í góðu lagi enda ekki eins og við Íslendingar séum mikið út í sólinni um þessar mundir.

Kafli 1: 00:00 – Intro og vangaveltur fyrir Kiev
Kafli 2: 11:00 – Hvaða einkunn fær þetta tímabil í deildinni
Kafli 3: 16:00 – Hvað gerist hjá Arsenal?
Kafli 4: 27:00 – Sammy Lee hoppandi kátur frá Everton
Kafli 5: 33:50 – Var búið að lesa Chelsea í vetur?
Kafli 7: 42:50 – Mourinho að hefja þriðja ár
Kafli 8: 53:00 – Man City leikur 100 stig ekki eftir aftur
Kafli 9: 56:10 – Pochettino mikilvægastur hjá Tottenham
Kafli 10: 01:02:00 – Frábært hjá nýliðunum
Kafli 11: 01:07:00 – Gamli skólinn féll, guði sé lof.
Kafli 12: 01:08:30 – Annað West Brom að koma upp.
Kafli 13: 01:11:00 – King Eddie Howe, ótrúlegur.
Kafli 14: 01:12:50 – Vel talað um árangur Roy Hodgson!!!!!!!
Kafli 15: 01:16:00 – Pellegrini til West Ham
Kafli 16: 01:21:00 – Jack Butland til Man Utd?
Kafli 17: 01:22:30 – HM hópur Englands.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV

MP3: Þáttur 195

Upphitun: Lokaleikur gegn Brighton & Hove Albion á Anfield

Hvítu mávar, segið þið Brighton.
Að mitt hjarta slái aðeins fyrir stig.

Hér erum við komin að loknum 37 deildarleikjum í vetur og hin stórfína staða er sú að Liverpool þarf aðeins jafntefli á heimavelli gegn nýliðum Brighton & Hove Albion til að tryggja okkur í Meistaradeildina á næsta tímabili. Í fótbolta er ekkert sjálfgefið frekar en fyrri daginn og þrátt fyrir að við hefðum óskað okkur að topp 4 sæti hefði verið gulltryggt fyrir nokkrum vikum síðan að þá er þetta kjörstaða fyrir okkar menn. Hefði okkur verið boðið þetta dauðafæri í byrjun tímabils með útréttri hendi þá hefðum við gleypt gylliboðið upp að öxl. Til viðbótar eigum við úrslitaleik í Meistaradeildinni sem er stærsta kirsuber sem hægt er að setja á kökutoppinn.

Vinargreiði svaramannsins Wagner fyrir úrvalsvin sinn Klopp var kærkominn og létti þeirri pressu á Liverpool að verða að vinna Brighton í síðasta leiknum ellegar gætu Chelsea stolist upp fyrir þá með sigri á St. James’ Park. En að sama skapi er alltaf hættuspil ef spila á upp á jafntefli þar sem eitt slysamark á lokasekúndum gæti haft hörmulegar afleiðingar. Því trúi ég því að Klopp muni áfram láta sem ekkert hafi breyst varðandi sigurþörfina og spili vonandi glymrandi sóknarbolta á heimavelli til að ná sigurstöðu sem fyrst í leiknum. Þar getur Anfield líka haft sinn þátt að spila með því að hafa stuðningsstemmningu í staðinn fyrir stress í stúkunni. En skoðum liðin.

Mótherjinn

Mávarnir frá Brighton & Hove geta vel við unað eftir sitt fyrsta tímabil í efstu deild enskrar knattspyrnu síðan 1983. Rúmri þrjátíu ára þrautagöngu um hinar ýmsu neðri deildir er lokið með niðurstöðu sem fæstir hefðu gert ráð fyrir í byrjun tímabils. Liðið var aldrei í fallsæti í vetur, reyndi ávallt að spila sæmilegan fótbolta og það hefur skilað þeim virðingarverðri stöðu í 14.sæti deildarinnar. Leikmenn og stuðningsmenn geta því verið stoltir af sinni frammistöðu í vetur og farið að velta fyrir sér liðsstyrk í sumar fyrir næsta vetur í úrvalsdeildinni.

Reyndar hefur útivallarformið þeirra verið eitt það versta í deildinni og af einungis tveimur útisigrum BHA þá var sá síðasti þeirra í byrjun nóvember. Það að Brighton hefur ekki unnið útileik á árinu 2018 ætti að kæta okkur Púlara í leik sem við megum ekki tapa en hins vegar hafa þeir verið að stríða stórliðunum upp á síðkastið með heimasigrum á Man Utd og Arsenal að viðbættu jafntefli gegn Tottenham. Liðinu hefur gengið illa að skora og eru með innan við mark að meðaltali í leik eða 33 mörk í 37 leikjum en að sama skapi hefur vörnin verið nokkuð traust miðað við nýliða og t.d. fengið á sig einu færra mark en Arsenal eða bara 50 mörk fengin á sig.

Pascal Groß hefur vakið mesta athygli í vetur með sín 7 mörk og 8 stoðsendingar og hefur átt sína bestu leiki sem framliggjandi sókndjarfur miðjumaður. Sigurmarkið gegn Man Utd um daginn gerir hann bæði að auðfúsugest allra Púlara en einnig að hættulegasta leikmanni gestanna. En þó að Groß hafi unnið vel fyrir sínum fyrirsögnum þá hefur hávaxna hafsentaparið Shane Duffy og Lewis Dunk verið bestu leikmenn liðsins í vetur með flottar frammistöður og góðar tölfræðilegar einkunnir skv. WhoScored (7,19 og 7,04). Þeir félagar misstu samanlagt bara úr einn leik í vetur, samstarf þeirra verið sérlega stabílt og t.d. toppar einkunn Duffy mörg stærri nöfn í sömu leikstöðu eins og Otamendi, Koscielny og Azpilicueta.

Brighton hafa verið heppnir með fá meiðsli í vetur og það hefur hjálpað liðinu í að geta oftast stillt upp sína sterkasta liði og sú verður raunin á sunnudaginn á Anfield. Hin fallega föðurnefnda varnarlína Bong-Dunk-Duffy-Bruno verður væntanlega á sínum stað. Liðið mun líklega verða stillt upp svona með einni breytingu frá tapinu í miðri viku gegn Man City þar sem sóknarmaðurinn Murray kemur inn fyrir Ulloa:

Líklegt byrjunarlið Brighton í leikkerfinu 4-4-1-1

Liverpool

Klopp og hans kátu kappar hafa haft þann lúxus að geta safnað kröftum og stillt saman strengi alla vikuna. Að öllum líkindum munum við stilla upp okkar sterkasta liði til að koma í veg fyrir katastrófu, vitandi það að við höfum svo tvær vikur fram að úrslitaleiknum í Kænugarði. Vikan hefur verið notuð í taktískar æfingar á Melwood en einnig í verðlaunaafhendingar þar sem Liverpool úthlutuðu sínum viðurkenningum fyrir tímabilið á fimmtudagskvöldinu. Engum kom á óvart að Mohamed Salah var leikmaður ársins hjá klúbbnum og meðal leikmanna enda hefur egypski snillingurinn orðið hlutskarpastur í vali á Liverpool-leikmanni mánaðarins í heil sjö skipti í vetur. Trent Alexander-Arnold hlaut nafnbótina besti ungi leikmaður ársins og Harry Wilson besti akademíuleikmaðurinn. Mark ársins var þrumufleygur Alexander Oxlade-Chamberlain gegn Man City í Meistaradeildinni og það er vel þessi virði að endurnýja gæsahúðina sem maður fær við að sjá það mark aftur.

Kvöldinu var þó ekki lokið hjá Mohamed Salah sem brunaði til höfuðborgarinnar til að taka við verðlaunum frá Football Writers Association sem besti leikmaður ársins. Með þessu fullkomnar Mo Salah þrennuna í þeirri ágætu nafnbót og á ennþá möguleika á að næla í gullskóinn til viðbótar. Bjartsýnustu spekingar og faraóar hefðu ekki geta spáð svona mögnuðu fyrsta tímabili hjá Egyptanum elskulega og við þurfum allir að finna okkur viðeigandi höfuðfat til að taka hatt okkar að ofan fyrir meistaratöktum Mo Salah á þessu tímabili.

Mohamed Salah er leikmaður ársins hjá Football Writers Association

Vonandi hefur þessi vika gert sitt gagn fyrir leikmenn í að hvíla lúin bein og fyrir Klopp til að fara yfir taktískar áherslur fyrir næsta leik eftir tapið gegn Chelsea. Sú neikvæðni og gildishlöðnu ofsögur af aumingjaskap okkar manna var reyndar full mikið fyrir minn smekk þar sem mér fannst við ekki alslæmir í þeim leik. Leikmenn voru aðallega uppgefnir á líkama og sál eftir afrekið í Rómaveldi og þungir fætur eru ekki heppilegir fyrir gegenpressen eða til að brjóta niður ítalskættaðan varnarmúr fráfarandi Englandsmeistara á þeirra eigin heimavelli.

Meiðslastaðan hefur lítið skánað nema hvað að Adam Lallana ætti kannski séns á sæti á bekknum eftir að hafa verið í leikmannahópnum sem flaug til Rómaborgar. Gomez fór í aðgerð í vikunni og Emre Can er ekki að braggast nógu hratt þannig að hvorugur verður í boði um helgina né í Kiev. Gróusögurnar í greipvíninu hafa reyndar verið að hvísla í eyra hinna alheyrandi að Buvac the Brain sé á leiðinni aftur á Anfield en enn sem komið er hefur það ekki verið staðfest. Það væru þó kærkomnir endurfundir hans og Klopp ef svo væri og vel tímasett lyftistöng fyrir þessa síðustu tvo leiki tímabilsins.

Mín tilfinning fyrir þennan leik er að Klopp muni stilla upp sínu sterkasta liði og það liðsval er nokkurn veginn sjálfvalið miðað við meiðslalistann. Hér er uppkast að mínum töflufundi og liðsuppstillingu í lokaleiknum:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Liverpool mun ekki láta þetta happ sér úr hendi sleppa og munu klára þennan úrslitaleik um Meistaradeildarsætið á sama hátt og árið áður. Ég spái sömu markatölu og í fyrra eða 3-0 lokaniðurstaða með tveimur mörkum frá Mo Salah og einu marki frá Firmino. Það ætti að duga þreföldum leikmanni ársins til að fá gylltan fótabúnað, nema ef ske kynni að Harry Kane krefjist allra marka sem skoruð verða í lokaumferðinni.

YNWA

WBA 2-2 Liverpool

Mörkin

0-1  Danny Ings 4.mín
0-2  Mohamed Salah 72.mín
1-2  Jake Livermore 79.mín
2-2  Salomón Rondón 88.mín

Leikurinn

Okkar menn hefðu varla geta pantað betri byrjun því á fjórðu mínútu leiksins tók Liverpool stutta hornspyrnu og Mané sýndi snilldartakta með því að komast framhjá Rodriguez og leggja boltann út í teiginn. Þar stoppaði Wijnaldum boltann og stillti honum upp fyrir Danny Ings til að skora með lágu vinstrifótarskoti í markið.

Glæsileg byrjun og eftir þetta mark réðu rauðliðar gangi leiksins, héldu boltanum vel og sóttu þegar þeir nenntu því. Á 11.mínútu komst Salah inn í teiginn hægra megin og var við það að smyrja boltann í fjærskeytin en stóra táin á WBA-varnarmanni kom í veg fyrir glæsimark. WBA fór að komast meira inn í leikinn eftir því sem á hann leið og voru vel studdir af sínum áhangendum sem langaði ekki til að falla úr úrvalsdeildinni alveg strax. Liverpool voru þó áfram með tögl og haldir í leiknum og ógnuðu með fyrirgjöf Milner á kollinn á Ings og einnig fór ágæt aukaspyrna Salah rétt framhjá.

En það átti eftir að breytast og WBA náðu góðum tíu mínútna kafla þar sem þeir fengu margar hornspyrnu og voru ítrekað að komast framhjá bakvörðunum okkar en það var algengt þema í leiknum. Hættulegasta færi þeirra kom á 38.mínútu þegar hinn mjög svo líflegi Phillips átti fyrirgjöf á fjærstöng á McClean sem sendi fyrir markið og það munaði bara skónúmerinu að Rodriguez skoraði. Þessi spræki kafli WBA fjaraði þó út og á 42.mínútu fékk Danny Ings dauðafæri en Ben Foster varði frábærlega í markinu.

0-1 í hálfleik

Seinni hálfleikur var rétt nokkurra mínútna gamall þegar að Danny Ings var augljóslega felldur við það að pressa markvörð WBA í þeirra vítateig en vel staðsettur dómari leiksins dæmdi ekki greinilegt víti. Leikurinn hélt áfram sem ekta breskur barningur þar sem WBA fengu blessun títtnefnds dómara til að spila fastar er reglubókin leyfir og m.a. þótti í fínu lagi að leyfa Hegazi að kýla liggjandi Danny Ings með krepptum hnefa í magann. Hegazi slapp á undraverðan hátt allan leikinn við að fá réttláta refsingu en hann komst upp með að teika Salah í fyrri hálfleik og að lemja samlanda sinn svo viljandi í andlitið í þeim síðari.

Um miðjan síðari hálfleik gerði Klopp tvöfalda skiptingu og inná komu Firmino og Oxlade-Chamberlain fyrir Ings og Mané. Skiptingin lífgaði sóknarleik Liverpool við og fimm mínútum síðar sendi Ox-Cham boltann á Salah sem slúttaði með snyrtilegu chippi yfir Ben Foster. Í flestum tilvikum væri þetta leik lokið en gamlir ósiðir í varnarleik Liverpool fóru að gera vart við sig og WBA gáfust ekki upp. Stuttu síðar sóttu heimamenn grimmt og boltinn féll fyrir Dawson í teignum en skot hans var glæsilega varið af Karius. Því miður féll boltinn fyrir fætur Livermore sem náði að skófla honum í netið.

Vonarneistinn var kveiktur hjá WBA og þeir héldu áfram að sækja. Karius bjargaði vel þegar að hik kom á Klavan og varði vel frá Rondon. Klopp nýtti síðustu skiptingu sína til að hvíla Salah og styrkja vörnina með hafsentinum Lovren. En stuttu fyrir leikslok fengu heimamenn aukaspyrnu á vallarhelming Liverpool og góð fyrirgjöf Brunt var stönguð í netið af Rondon. Lovren á mikla sök á markinu en hann hélt ekki varnarlínu og lék framherja WBA réttstæða með því að spila ekki yfirvegaðan varnarleik. Vonbrigði fyrir Liverpool að missa niður svo vænlega leikstöðu en það þarf að gefa WBA hrós fyrir að gefast aldrei upp.

Bestu menn Liverpool

Á miðjunni var Milner sprækur fram á við og duglegur í vinnslunni að vanda og með honum á miðjunni voru Wijnaldum og Henderson líka þokkalegir. Oxlade-Chamberlain átti einnig líflega innkomu og lagði upp mark. Danny Ings fær plús í kladdann fyrir sitt mark og dugnað en hefði mátt skora úr sínu dauðafæri til að verða aðalhetjan í dag. Minn maður leiksins er Mohamed Salah sem var líflegur og skapandi og skoraði metamark sem hefði átt að duga til sigurs.

Vondur dagur

Báðir bakverðir okkar, Gomez og Moreno, áttu afar slakan dag á varnarvaktinni. Gomez missti boltann ítrekað á hættulegum stöðum og var illa staðsettur varnarlega á meðan Moreno var eins og snúningshurð fyrir Phillips sem lék hann grátt allan leikinn. Innkoman hjá Lovren var heldur ekkert til að hrópa húrra yfir þar sem að markið kemur eftir hans agaleysi í að halda agaða varnarlínu.

En versta daginn átti samt Stuart Attwell dómari sem ítrekað ákvað að líta framhjá reglubókinni varðandi gul spjöld og missti af risastórum atriðum í leiknum með vítaspyrnu og rautt spjald. Þarna hefði VAR-dómgæsla veitt slökum dómara aðhald og gildir þá einu hvort að það taki nokkrar aukamínútur til að réttlætið nái fram að ganga. Skýrsluhöfundur sér í það minnsta ekkert sjarmerandi við skelfilega dómgæslu í hvora áttina sem hún fellur.

Tölfræðin

Mo Salah skoraði sitt 31 deildarmark og jafnar þar með met Luis Suarez, Cristiano Ronaldo og Alan Shearer í 38 leikja úrvalsdeildarkeppni, en Alan Shearer og Andy Cole skoruðu 34 mörk í 42 leikja deild. Einnig er Salah kominn með 41 mark í öllum keppnum og er enn að eltast við 47 marka met Ian Rush á einu LFC-tímabili.

Annar tölfræðimoli er að eingöngu eitt gult spjald var gefið í öllum leiknum í dag og það var á Liverpool. Fáránleikhús undir leikstjórn herra Attwell.

Umræðan

Þetta var ekki besti undirbúningurinn fyrir Roma-leikinn en á endanum færir þetta eina stig okkur nær okkar markmiði að vera í topp 4 og fara að nýju í CL. Nú vantar eingöngu 4 stig í 3 leikjum sökum yfirburðar markahlutfalls okkar í samanburði við Chelsea sem verða að vinna alla sína leiki. Auðvitað veldur það óþægilegu tvisti á plottinu að einn þessara þriggja leikja verði á Stamford Bridge en lykilatriðið er að klára heimaleikina gegn Stoke og Brighton og þá er björninn unninn. Svekkelsi að missa þetta niður í dag en verður vonandi á endanum léttvægt feilskref sem engu máli skiptir.

King Klavan-vaktin

Allt stefndi í enn eitt hreina lakið hjá King Clean Sheet Klavan þegar að örlögin gripu inní og björguðu jafntefli úr klóm glæsilegs sigurs. Meistari Ragnar átti að mörgu leyti ágætan leik með nokkrum mikilvægum stoppum og var djarfur í að spila boltanum fram á við en Eistinn átti einnig nokkur slæm mistök. Eista-Einkunn: 7,0

YNWA

Liðið gegn WBA í Miðlöndum

Rauði herinn er mættur í Vestur-Miðlöndin til að takast á við botnliðið West Bromwich Albion sem tókst að framlengja sitt óhjákvæmilega fall síðustu helgi með sérlega skemmtilegum útisigri á Old Trafford. The Baggies eru 9 stigum frá því að bjarga sér með 12 stig í pottinum og því bara spurning um stærðfræðilega tilkynningu á fallstundinni en lið í svo vonlausri stöðu hafa átt það til að gera öðrum liðum skráveifu eins og WBA sönnuðu gegn Man Utd.

Því er allur varinn góður þó að Liverpool hafi stærri fisk í huga í næstu viku og byrjunarliðið endurspeglar það að miklu leyti líkt og í Merseyside-slagnum um daginn. Herr Klopp hefur skilaði inn byrjunarliðsblaðinu og það er eftirfarandi:

Bekkurinn: Mignolet, Lovren, Firmino, Oxlade-Chamberlain, Robertson, Solanke, Alexander-Arnold.

Gomez kemur inn í liðið að nýju eftir meiðslafjarveru og Danny Ings fær einnig sénsinn. Moreno kemur einnig inn í vinstri bakvörðinn og King Clean Sheet Klavan fær tækifæri til að bæta sitt frábæra vinningshlutfall. Bekkurinn er firnasterkur ef á þarf að halda til að bjarga úrslitum eða bara til að hvíla lykilmenn.

Lið WBA er eftirfarandi:

Helsta ógnunin er fram á við í Rondon og Rodriguez en þetta er lið sem hefur fengið langfæst stig í deildinni í vetur og því ættum við auðvitað að vera mun sterkari aðilinn. En fótbolti er fótbolti og allt getur gerst.

Það styttist í leik og allt fer að verða tilbúið. Klárið því vínarbrauðs-innkaupin í bakaríinu og hellið upp á kaffið eða finnið ykkar lukkubás á barnum með heppilegan drykk í hönd.

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: Watford / CL dráttur: Man City

Uppfært (EMK):
UEFA fékk Shevchenko til að draga í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar og hann dró að sjálfsögðu það einvígi sem stuðningsmenn City og Liverpool vildu líklega hvað síst. Hundleiðinlegt að ensku liðin hafi dregist saman á þessu stigi

Svona raðast þetta:
Liverpool – Manchester City
Juventus – Real Madrid
Barcelona – Roma
Sevilla – Bayern Munchen

Ekki að þetta verði ekki hörku leikir, Liverpool er eina liðið sem hefur unnið Man City í deildinni í vetur en það er ljóst að okkar menn þurfa að eiga toppleik til að endurtaka leikinn. Hjálpar ekki að seinni leikurinn er á útivelli.

Til gamans má geta þess að 1% lesenda Kop.is vildu þetta einvígi:

Kunni betur við Shevchenko þegar hann var að láta Dudek verja frá sér vítaspyrnu!


Íslendingasagan

Fyrir gráglettni örlaganna fellur upphitun fyrir Watford aftur mér í skaut en ég gerði fyrri leik liðanna skil í upphafsleik leiktíðarinnar. Sú upphitun dugði þó eingöngu til góðs sóknarleiks Liverpool en lakari varnarframmistöðu í 3-3 jafntefli og því dugar ekkert annað en betrumbætur í annarri tilraun. Þar sem sagnfræði milli Watford og Liverpool var sæmilega afgreidd í það skiptið þá er vel við hæfi að fjalla lítillega um Íslands-sagnfræði hinna gulrauðu í staðinn.

Af mörgu er að taka en langefstur á blaði í því ættartré er Dalvíkingurinn Heiðar Helguson sem spilaði 228 leiki fyrir Watford og skoraði í þeim 76 mörk. Herra Helguson þarf enga kynningu en sá sem rífur kröftugan kjaft við Kahn er með sönnu karl í krapinu og enginn snáði í snjónunum. Árið 1999 var hann keyptur á 1,5 milljón punda til Lundúna-liðsins frá Lilleström og var þá dýrasti leikmaður í sögu liðsins en það áttu eftir að reynast kjarakaup. Með réttu er hetjan Heiðar í hávegum hafður þar á bæ og nýlega deildi Watford þessari mögnuðu markasyrpu af bestu bombum bardaga-blondínunnar en eitt markanna er gegn LFC árið 2000 í 2-3 sigri grænklæddra Liverpool-manna á Vicarage Road.

Suðurnesjakappinn Jóhann Birnir Guðmundsson spilaði einnig með liðinu í tvö ár og afrekaði 2 mörk í 22 leikjum en hápunktur í veru hans hjá Watford kom máske á Laugardalsvelli þegar hann skoraði 2 mörk í 2-3 sigri gestanna á stórveldi Knattspyrnufélags Reykjavíkur í 100 ára afmælisleik svart-hvítu hetjanna. Meistari Sigursteinn Gíslason og Bjarki Gunnlaugsson skoruðu mörk heimamanna en KR voru gríðarlega vel mannaðir þetta árið með goðsagnirnar Gumma Ben og Þormóð Egilsson í liðinu sem varð svo Íslandsmeistari um haustið eftir 31 ára eyðumerkurgöngu. Því ber að leggjast á bæn og fara með Fowler-vorið um að bið okkar Púlara verði skammvinnari en Evrópuvina þeirra í Vesturbænum. Þá ber einnig að nefna að af sama 100 ára afmælistilefni var haldin epísk Elton John helgi á Rauða Ljóninu þar sem Maggi Kjartans og Ruth Reginalds héldu uppi fjörinu langt fram á nótt. Ó hvað glöð var vor aldraða æska á síðustu öld.

Talandi um æfingaleiki Watford hér á landi þá brá svo við að í janúar 1987 gerði vetur konungur vart við sig á Bretlandseyjum og þar sem enskurinn er frægur fyrir uppgjöf sína gagnvart smá slyddu og slabbi þá var fjölda leikja aflýst víða um breska grund. Haldið var norður til Íslands í margrómaða miðsvetrarblíðuna hér á landi og spilaður æfingaleikur á gervigrasinu í Laugardal gegn úrvalsliði úrKR, Fram og Val.

Áhugamennirnir íslensku í minniháttar leikæfingu náðu virðingarverðu 1-1 jafntefli gegn Watford með enska landsliðsmanninn Luther Blissett framlínunni en John Barnes var því miður hvíldur og hálfu ári síðar var hann seldur til Liverpool sælla minninga. Í úrvalsliðinu öfluga voru Guðni Bergsson og Þorgrímur Þráinsson hafsentar með Willum Þór Þórsson, Andra Marteinsson og Rúnar Kristinsson á miðjunni og Pétur Pétursson í framlínunni  svo einhverjir séu nefndir. Einvalalið einstakra víkinga en nóg um nostalgíuna og aftur í nútíðina.

Mótherjinn

Mikið er um meiðsli í herbúðum gestanna en þó verða Troy Deeney og Richarlison í framlínunni og í þeim felst talsverð ógn fyrir okkar misgóðu varnarlínu. Útivallarform þeirra gulrauðu hefur ekki verið gott og þeir eiga við það lúxusvandamál að vera í 10.sæti með 36 stig fjarri fallhættu þannig að stóra spurningin felst í hugarfarinu komandi inn í leikinn.

Hinn splúnkunýi  spænski þjálfari Watford sem tók við í janúar heitir Javi Gracia Carlos og hefur stýrt liðinu til sigurs og taps í hárfínu jafnvægi eða þrjú skipti hvort um sig. Við hverju má búast frá gestunum er því vandsvarað þar sem Arsenal fór létt með Watford í forleiknum á undan og ef okkar menn skora snemma leiks þá gæti eftirleikurinn verið auðveldur (7,9,13).

Liverpool

Rauði herinn mætir með sært stolt eftir síðustu helgi og þó að Þórðargleði í miðri viku hafi kætt stuðningsmenn þá breytir það litlu fyrir leikmennina sem þurfa að gíra sig aftur í gang og á sigurbraut. Eftir þennan leik verður langdregið landsleikjahlé og því þarf Klopp ekki að stunda neinar taktískar sparnaðaraðgerðir með næstu leiki í huga. Sterkasta liði verður stillt upp en þó geri ég ráð fyrir nokkrum breytingum í kjölfar misgóðrar frammistöðu sumra leikmanna á Old Trafford.

Mitt hundsvit segir mér að þríeykið í framlínunni verði óbreytt en á miðjunni taki kafteinninn Henderson við stýrinu á freygátunni og Wijnaldum snúi aftur úr pestabælinu. Lovren á skilið bekkjarsetu eftir síðasta leik og Alexander-Arnold líka þannig að mín spá er að Matip og Gomez fái þeirra sæti og jafnvel gæti Moreno fengið smá sprett en Robertson er þó líklegri til að halda byrjunarliðssætinu. Liðsuppstillingin væri því eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Það verður grjóthörð ákveðni hjá okkar mönnum að bæta upp fyrir skipbrotið í nágrannasveitarfélaginu þannig að allt kapp verður lagt á að komast aftur á beinu brautina og skora eins mörg mörk og hægt er fyrir landsleikjahlé. Mín bjartsýna spá verður sú að þau áform gangi fullkomlega eftir með vel matreiddri markasúpu að hætti hússins.

Niðurstaðan verður 4-0 sigur með mörkum frá Salah, Mané, van Dijk og Henderson úr víti en þó verður Firmino maður leiksins með 3 stoðsendingar. Bon appetit.

YNWA