Upphitun: Rauði herinn suður með sjó í Bournemouth

 

Rauði herinn frá Norður-Englandi mætir í sjöunda himni til suðurstrandarinnar eftir galvaskan stórsigur gegn ónefndum erkifjendunum og mæta heimamönnum í Bournemouth sem þurftu að lúta allhressilega í gras fyrir rauðliðum fyrr í haust. 3 stig í boði fyrir atlögu að 4.sætinu! Upphitun!

Mótherjinn

Botnlið Bournemouth sitja á neðstir í töflunni með 21 stig ásamt nálægum grönnum sínum í Southampton en geta þó verið sæmilega vongóðir þar sem þeir eru eingöngu 1 stigi frá öryggi og bara 3 stigum frá 15.sæti. Botnfallið er því í þykkara og þéttara lagi þetta árið með flest liðin í neðri hlutanum í fallhættu en að sama skapi með væna vonarglætu um að bjarga sér fyrir horn.

Bournemouth virkuðu svo sannarlega sem líklegir fallkandídatar er þeir voru rækilega hamraðir 9-0 á Anfield í lok ágúst og létu í kjölfarið stjórann Scott Parker fjúka. Við tók annar fyrrum enskur miðjumaður með leikreynslu úr úrvalsdeildinni, núverandi stjórinn Gary O’Neill, en hann er Liverpool og Klopp ágætlega kunnur eftir að hafa verið aðstoðarmaður Bary Lewtas hjá U23 ára liði LFC í einn vetur áður en hann gekk í þjálfarateymi Jonathan Woodgate hjá Bournemouth.

Gary hefur ílengst í þjálfarateyminu undir Woodgate og Parker en síðan nýtt sitt tækifæri til bráðabirgða í stjórastólnum nógu vel til þess að vera enn í starfi hálfu ári síðar. Honum hefur að vissu leyti tekist að stoppa blæðinguna þar sem liðið hefur ekki tapað mjög stórt síðan 9-0 á Anfield nema fyrir toppliðum og góðir sigrar á Everton, Wolves og Leicester standa upp úr en betur má ef duga skal ef bjarga á liðinu frá falli.

Til þess að það gerist þá þurfa þeirra skástu leikmenn að standa sig og þar hefur Daninn Philip Billing átt ágætis mót með 5 deildarmörk og gæti verið skeinuhættur á morgun. Greinarhöfundur hefur þó mestan áhuga á enska þríeykinu í fyrstnefndum okkar fyrrum Dominic Solanke en sér í lagi hinum alhliða miðjumanni Marcus Tavernier sem hefur gert góða hluti ásamt fjölhæfa varnarmanninum Lloyd Kelly sem er gamalt téð skotmark LFC. Tveir hinna síðastnefndu gætu alveg verið money-ball áhugaverðir enskir og örfættir leikmenn úr afsláttarrekkanum fyrir Liverpool innkaup ef að Bournemouth falla næsta vor. En það er bara minn Championship Manager hugur að leika með mig.

Liverpool

Okkar menn hafa tekið sig hraustlega á í andlitinu í síðustu deildarleikjum og allt í einu er allt annar andi að svífa fyrir vötnum Merseyside-árinnar. Meistara Klopp hefur tekist að stoppa blæðinguna í varnarleiknum sem veitir allt í eínu stökkpall í blússandi skyndisóknir og skemmtilegheit. Back to basics segja margir með afturhvarfi til heavy metal football og lengi megi það flassbakk blífa með mest enskuslettandi setningu greinarhöfundar hingað til. Díl viþ it.

Klopp er klárlega búinn að finna sitt fínpússaðasta byrjunarlið síðustu vikur og mun lítið hverfa frá því en í ljósi Real Madrid leiksins á sjóndeildarhringnum að þá spá ég því að hann hlífi fyrirliðanum Henderson fyrir harkinu og gefi Bajcetic leik frá upphafi. Það er klók taktík aðgerð sem þýðir að hægt er að spila Jordan frá byrjun á Bearnabeu.

Að öðru leyti þá breytir maður ekki liði mikið sem rústaði, slátraði, saltaði, hakkaði, gatasigtaði, niðurlægði, kartöflustappaði, knésetti, yfirdiskóaði, úthugsaði, rassskellti, pæklaði, pillaði, gjaldþrotasetti, arfahreinsaði, rennitæklaði, yfirspilaði, bodyslammaði, klósettsturtaði, jarðsetti, lúftgítarsólóaði, niðurlægði, samanpakkaði, undirhælsetti, endurfjármagnaði (á verri vöxtum), aðalbláberjatýndi, ormahreinsaði, gagnaeyddi, þurrhreinsaði, endurmenntaði, upplýsti, gerilsneyddi, nauðrakaði, tjörufiðraði, mannætumönsjaði, punglúbarði, olíuhreinsaði, gjaldfellti, tannhvíttað og gjörsigraði í ágætum 7-0 sigri á Manchester United.

Tölfræðin

  • Liverpool hefur unnið Bournemouth í síðustu 7 leikjum í öllum keppnum.
  • Liverpool hefur haldið hreinu í síðustu 5 deildarleikjum og unnið 4 af þeim. Markatalan 13-0.
  • Markatala Liverpool – Bournemouth í síðustu 4 deildarleikjum er 17-1.

Upphitunarlagið

Grjóthart upphitunarlag þessa ágæta leiks einblínir á vikugamla fortíð í stað nálægrar framtíðar morgundagsins. Tilefnið er stærðfræðilegs og tölulegs eðlis þó að vissulega sé upplífgunarfaktorinn reiknaður inn í jöfnuna. Talan er 7 sem er númer kóngsins Kenny og fleiri góðra Púlara en fyrst og fremst er hún markatala sem lengi verður í minnum höfð um ónefnda erkifjendur. Við fáum Pixies inn sem undirverktaka í framkvæmdina (og í guðssamhenginu þá er Fowler vissulega nr.9 en við tökum viljann fyrir verkið):

If man is five
If man is five
If man is five
Then the devil is six
Then the devil is six
Then the devil is six
Then the devil is six
And if the devil is six
Then God is seven
Then God is seven
Then God is seven
This monkey’s gone to heaven

Kloppvarpið

Herr Jürgen Klopp mein damen und herrn!

Spaks manns spádómur

Eftir blússandi velgengni síðustu helgar að þá eru okkar menn engann veginn að fara að sleppa takinu af vinningsvelíðaninni gegn neðsta sætis liðinu. Við höfum haft fína hvíld alla vikuna og eftir viðvörina sem Arsenal fékk gegn Bournmouth að þá verðum algerlega á varðbergi gegn allri vitleysu.

Þetta verður sérlega öruggur sigur með þremur mörkum skoruðum fyrir útiliðið og enn einn leikurinn að halda hreinu. 0-3 segir sá spaklegi með 2 mörk frá Darwin og 1 stykki frá Salah.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

5 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæra upphitun að vanda Magnús og ef allt fer að líkum ætti spádómur þinn að rætast. Ég er samt áhyggjufullur um að liðið komi ekki með hausinn rétt skrúfaðan á og allt verði í voða. Svona getur maður nú verið bölsýnn eftir enn eitt Anfield uppgjörið við MU og vonandi að ástæðulausu.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  2. Magnús beitir að vanda sínu fágæta stílvopni til að örva kenndir manns í aðdraganda næsta hildarleiks. Fríkaður orgínall, takk.

    2
  3. Takk fyrir frábæra upphitun.
    Uppáhaldsorðið mitt úr henni var “aðalbláberjatýndi”, ég fékk vatn í munninn.
    Hvert var ykkar uppáhaldsorð?

    Ég spái hógværum 0-2 sigri okkar.

  4. Við fáum þarna 2 léttustu lið síðustu ára hvort á eftir öðru. Markatalan gegn Bourmouth er 17:1 eftir síðusu 4 leiki en 17:2 gegn MU. Tvö létt lið og ætti þetta með réttu hugarfari að vera leikur einn í dag.

    3
  5. Sæl og blessuð.

    Vonandi verða leikmenn jafn andríkir og pistlahöfundur, virkilega skemmtileg upphitun!

    Má ég vera herra svartsýnn mitt í alsælu stórsigursins? Látum okkur sjá:

    1. Hádegisleikur á laugardegi. Hvað segir statistíkin?
    2. Útivöllur. Hefur okkur gengið vel fjarri heimaslóð?
    3. Unnum síðast 9-0. Mögulegt vanmat?
    4. Hvítu óróabúningarnir. Hefur okkur gengið vel klæddir þeirri abstrakt?
    5. Kepptum við Bournmouth á miklu sigurrönni – held ég 2016 og glutruðum niður yfirburðarstöðu á núll einni. Einmitt þegar við vorum komin á gott skrið.

    Já, morgundagurinn kemur aldrei og ekki er kálið sopið…

    2

Andy Robertson

Byrjunarliðið gegn Bournemouth