Ég heiti Sigursteinn Brynjólfsson og hef verið mikill stuðningsmaður Liverpool FC frá því ég man fyrst eftir mér. Það ku hafa verið í kringum 4 ára aldurinn sem ég límdist fyrir framan sjónvarpið á laugardögum og hreifst mjög svo af þessu nafni á félaginu (mér er allavega tjáð það af móður minni sem ávallt hefur verið algjörlega laus við fótboltaáhuga). Liverpool FC hefur allar götur síðan, verið stór partur af mínu lífi. Það er í raun merkilegt hvað knattspyrnufélag úti í heimi getur haft mikil áhrif á manneskjur svona langt í burtu. Núna eru sem sagt liðin 30 ár og áhuginn er akkúrat ekkert að minnka, hann virðist hreinlega aukast með hverju árinu sem líðu.

Það eru margir hápunktar hjá mér þegar kemur að atburðum tengdum Liverpool. Suma hverja upplifði maður á pöbbnum í góðra félaga hópi, en aðra á vellinum. Auðvitað standa leikir meira upp úr þegar maður er staddur í eigin persónu á sjálfum vellinum. Það er orðið erfitt að gera upp á milli einstaka leikja, þegar leikir sem maður hefur farið á standa einhversstaðar í kringum fimmta tuginn. Það er þó alveg á tæru að það er ekkert, og mun væntanlega ekkert, toppa það að hafa upplifað Istanbul ævintýrið. Það næsta sem kemst því var ferðin í vor til Cardiff. En það eru svo mörg augnablik og leikir í viðbót sem vert er að minnast á, þannig að ég ætla að sleppa því svo menn sofni hreinlega ekki við þennan lestur.

Það er einnig erfitt að skýra frá því hvaða leikmenn Liverpool FC í gegnum tíðina hafa verið í mestu uppáhaldi. Þrír skipa þó ávallt stóran sess í huga mínum. Ég hef aldrei farið leynt með það hversu mikill aðdáandi Robbie Fowler ég er. Hann hafði, hefur og mun alltaf eiga vissan sess í mínum huga. Það er heldur aldrei hægt að tala um Liverpool og goðsagnir, án þess að minnast á menn eins og King Kenny Dalglish og Ian Rush.

Mikið af mínum tíma undanfarin 8 ár, hafa farið í störf fyrir Liverpoolklúbbinn á Íslandi. Fyrstu mánuðina eftir að vefsíðan liverpool.is fór í loftið, sá ég um nánast allt sem sneri að fréttaflutningi á síðunni. Núna, eftir að hafa lagt stjórnarstörf fyrir klúbbinn á hilluna, hefur aukist sá tími sem ég hef aflögu, og því þurfti maður að finna sér vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Er til betri mögulegur staður en Liverpoolbloggið? Held ekki. Áfram munu væntanlega slæðast inn fréttir frá mér á liverpool.is, en núna mun þessi síða verða minn vettvangur til að koma skoðunum mínum á framfæri, og vil ég þakka þeim góðu mönnum sem stýra þessari síðu fyrir að bjóða mér þetta tækifæri. Eitt er víst, ég mun ekki liggja á skoðunum mínum þegar kemur að Liverpool FC.