Bournemouth næsti mótherji

Í kvöld var dregið í 8 liða úrslit Kapítalsbikarsins.

Þar munu okkar menn mæta liði Bournemouth annað hvort þriðjudaginn 16.desember eða miðvikudaginn 17.desember og fer leikurinn fram á suðurströndinni.

Í framhjáhlaupi mætti geta þess að Newcastle lék í þessari keppni í kvöld og vann sinn þriðja leik í röð, nú gegn Manchester City á Etihad og koma fullir sjálfstrausti í leikinn við okkur á laugardag.

En það er annað mál, við erum í dauðafæri að komast í undanúrslit í bikarkeppni!

Liverpool 2 Swansea 1

Liverpool vann í kvöld kærkominn 2-1 sigur á Swansea í 16-liða úrslitum enska Deildarbikarsins.

Rodgers stillti upp eftirfarandi liði í kvöld:

Jones

Manquillo – Touré – Lovren – Johnson

Henderson – Lucas – Coutinho

Borini – Lambert – Markovic

Bekkur: Mignolet, Skrtel, Moreno, Can, Rossiter, Lallana (inn f. Markovic), Balotelli (inn f. Lambert).

Bæði lið hvíldu lykilmenn í kvöld og það sást. Þessi leikur var mjög daufur lengst af og nánast ekkert um fína drætti fyrstu 60 mínúturnar. Það var ekki fyrr en á 65. mínútu að Swansea komust yfir með marki Marvin Emnes eftir (enn og aftur) skelfilegan varnarleik. Jonjo Shelvey sótti upp að teignum, gaf til vinstri á bakvörðinn Neil Taylor sem lyfti boltanum inn á markteiginn vinstra megin. Þar fékk Emnes að bíða í rólegheitunum eftir að boltinn dytti niður úr loftinu og tók hann viðstöðulaust í fjærhornið, óverjandi fyrir Brad Jones og alveg ótrúlegt að sjá Dejan Lovren bara horfa á þetta gerast í stað þess að henda sér fyrir eða loka á manninn.

Þetta virtist ætla að vera eina mark leiksins. Rodgers hafði valið byrjunarlið sem hafði bara skorað 2 mörk samtals í vetur og þótt hann setti Lallana og Balotelli inná höfðu þeir bara skorað sitt markið hvor hingað til og nákvæmlega ekkert sem benti til jöfnunarmarksins, enda höfðu Liverpool ekki skorað mark í 295 mínútur eða rétt tæplega fimm klukkustundir á heimavelli. Það er tölfræði sem á bara ekki að sjást.

En … heilladísirnar brostu við okkur því á 85. mínútu gaf Fabio Borini frábæra, háa fyrirgjöf djúpt utan af hægri kanti og inná markteiginn þar sem Mario Balotelli kom fyrstur að og setti hann óverjandi í markhornið nær. Eftir þetta lifnaði völlurinn við og okkar menn reyndu að pressa á sigurmark. Fernandez varnarmaður Swansea fékk beint rautt á 90. mínútu en það fannst mér fáránlega harður dómur og pressan jókst hjá okkar mönnum.

Það var svo á 95. mínútu að Dejan Lovren bætti fyrir mistökin hálftíma áður og skallaði aukaspyrnu Coutinho í tómt markið eftir skelfilega varnar- og markmannsvinnu Swansea-liðsins. Lokatölur 2-1 og það er óhætt að segja að Liverpool hafi stolið þessu í lokin.

Maður leiksins: Það er erfitt að velja einhvern úr því liðið var ákaflega dapurt í 85 mínútur í kvöld. Ég ætla þó að gefa Fabio Borini ákveðin heiðursverðlaun hér fyrir að leggja sig fram, sýna meiri baráttu og hjarta en flestir í kringum hann og fyrir frábæra stoðsendingu sem braut ísinn eftir allt of langa markaþurrð á Anfield. Meira svona Fabio, takk.

Þar með er liðið komið í 8-liða úrslit í þessari keppni en það er dregið í henni annað kvöld. Ég er nokkuð viss um að við fáum Chelsea á útivelli, það er bara alltaf þannig. Engu að síður vona ég að þessi sigur í kvöld hafi gefið mönnum það búst sem þeir þurfa; Balotelli skoraði, Lovren skoraði líka, markaþurrðin var brotin á bak aftur og liðið vann. Vonum að þetta lyfti liðinu á hærra plan gegn Newcastle um helgina.

Liðið gegn Swansea

Byrjunarlið kvöldsins er komið:

Jones

Manquillo – Touré – Lovren – Johnson

Markovic – Lucas – Henderson – Coutinho

Borini – Lambert

Bekkur: Mignolet, Skrtel, Moreno, Rossiter, Can, Lallana, Balotelli.

Þetta er mixað lið, aðalliðsmenn í bland við varamenn og svo hinn ungi Rossiter á bekknum. Lambert og Borini fá tækifæri frammi, Markovic fær einnig séns á vængnum sem og Lucas á miðjunni. Vonandi minna þeir allir á sig í kvöld.

Sakho, Sturridge og Flanagan eru meiddir og Gerrard, Allen og Sterling fá alveg frí, en það verður þá fyrsti leikurinn sem Sterling kemur ekkert við sögu á þessu tímabili. Enrique er að spila FIFA 15.

Henderson verður með fyrirliðabandið, gaman að sjá það.

Hjá Swansea er það helst að frétta að Gylfi er ekki með vegna meiðsla. Þeir eru með nálægt sinni sterkustu vörn og Jonjo Shelvey er á miðjunni en annars rótera þeir nokkuð.

Lið Swansea: Tremmel, Rangel, Fernandez, Williams (C), Taylor, Fulton, Shelvey, Emnes, Dyer, Montero, Gomis.

Koma svo Liverpool!

Kapítalsbikarinn – 16 liða úrslit

Það má með sanni segja að það sannist hið fornkveðna að það er enn mikilvægara þegar manni gengur ekki vel á vellinum að það er gott að hafa stutt á milli leikja og svoleiðis er það hjá okkar mönnum þessar vikurnar.

Eftir markalaust jafntefli gegn Hull um helgina þá er komið að annarri keppni, 16 liða úrslit Kapítalskeppninnar og mótherjarnir eru Walesverjarnir alhvítu, Swansea City sem slógu okkur út úr keppninni á þessu þrepi fyrir tveimur árum…sem voru þá nefndir fyrrum lærisveinar Rodgers…en eru það nú varla lengur.

Stjórinn Garry Monk er þó trúr þeirri hugmyndafræði sem Rodgers innleiddi hjá Swansea á sínum tíma. Þegar hann tók við Laudrup í fyrravetur þá voru nú margir á því að hann ætti ekki breik og yrði bara hafður í brúnni í stuttan tíma. En svo er nú heldur betur ekki því gengið á liðinu hefur verið býsna gott.

Swansea sigruðu þessa keppni 2013 og fengu þannig þátttökurétt í Evrópudeildinni og leggja því alveg heilmikið upp úr því að ná langt í henni. Svo ég held að við munum sjá flesta þeirra bestu menn inná vellinum á morgun þó reyndar mér skiljist að minn maður, Gylfi Sig, hafi meiðst í sigri þeirra um helgina og verði ekki með. En þeir munu stilla upp hörkuliði.

Okkar menn eru stærra spurningamerki. Ég held að við munum pottþétt sjá einhverja hvílda fyrir hádegisleik á laugardegi sem er undanfari Madrid-ferðar. Á sama hátt þá gengur ekki neitt ofboðslega vel, tveir heimaleikir í röð án þess að mark hafi verið skorað og ákveðinn pirringsstuðull á meðal áhangenda.

Bæði í borginni og á meðal okkar sófa/net-aðdáenda. Ég held að Brendan sé alveg meðvitaður um að það myndi gleðja fólk að sjá liðið stíga nær Wembleyferð í vor. Hann hefur talað um að eitt af næstu skrefum klúbbsins sé að komast í úrslit og hann hefur séð stimpilinn Brendan „No Trophy“ Rodgers á netinu, eða alla vega frétt af honum.

Ég held því að hann noti morgundaginn til að hvíla lykilleikmenn en muni einnig stilla upp liði sem hann vill að sigri leikinn. Eins og vanalega er það hálfgert lottó-gisk að skjóta á liðsskipan í deildarbikarnum, en here goes:

Jones

Manquillo – Skrtel – Kolo Toure – Smith

Markovic – Henderson – Can – Coutinho

Lambert – Borini

Svo gæti líka vel verið að hann haldi sig við 4-2-3-1 (þó ég voni það alls ekki) og þá kannski svona:

Jones

Manquillo – Skrtel – Kolo Toure – Smith

Henderson – Can
Markovic – Lallana – Coutinho

Lambert

Annað þessara liða myndi ég tippa á. Síðast spilaði hann Mignolet í deildarbikarnum til að koma honum í meiri spiltakt, hvurnig sem okkur fannst það nú ganga, en nú held ég að Jones fái mínútur. Á sama hátt getur vel verið að hann Enrique fái mínútur en ég held að eftir QPR-leikinn þá sé nú eiginlega fullreynt með þann ágæta dreng í okkar treyju og mun gáfulegra að sjá bara hvort þess ungi drengur sem fékk mínútur á Stamford Bridge í fyrra ráði við þær.

Á bekknum verður Balotelli held ég geymdur en mun koma inná, Rossiter líka og það kæmi mér ekki á óvart að við fengjum að sjá nýjan ungling allavega hita upp.

Spá:

Ég held að við sjáum enn um sinn svipuð þyngsli í spilamennskunni, þó vissulega hafi mér fundist mikil framför úti á vellinum og í pressunni um helgina. Þetta Swansea lið er býsna sprækt og kemur á Anfield til að fara áfram.

Ég held þó að eftir framlengingu verði það okkar menn sem vinni leikinn, 2-1. Ég er algerlega mát um það hver skorar fyrir okkur en þó held ég að Emre Can verði nálægt marki hið minnsta.

KOMA SVO!!!!!!!!!