íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Endasprettur toppliðanna

  Seinni hálfleikur er vel á veg kominn á þessu óhemju spennandi tímabili í enska boltanum. Stigasöfnun Liverpool það sem af er tímabili er eins sú alllra besta í sögunni en samt er liðið aðeins fjórum stigum á undan Man City sem gefur ekki tommu eftir. Vonandi hafa leikmenn Liverpool sterkari taugar í þetta en við stuðningsmenn því eftir því sem leikjunum fækkar eykst spennustigið. Það er hægt að horfa á svona leiki eins og gegn Crystal Palace um helgina sem morðtilraun!

  Það er vonlaust að segja til um hvað gerist núna á vormánuðum og undanfarin ár eru ekkert endilega mælikvarði á hvað gerist núna í framhaldinu. Engu að síður langaði mig aðeins að skoða þróun Liverpool á þessu tímabili vs. Liverpool undanfarin fimm tímabil og bera okkar menn saman við hin toppliðin (og Leicester). Sjá hvort þar sé að finna einhver trend sem gefa okkur kannski smá tilefni til bjartsýni.

  Liverpool er með 2,61 stig að meðaltali í leik það sem af er þessu tímabili sem er sjónarmun minna en Man City var með á síðasta tímabili sem er fullkomlega galið. Yfirstrikað með grænu eru liðin sem unnu deildina það tímabilið og má þarna t.d. sjá að stigasöfnun Chelsea var mjög góð bæði árin sem þeir unnu á meðan Leicester hitti á ævintýralega slappt tímabil hjá öllum toppliðunum.

  Undanfarin fimm tímabil áður en núverandi tímabil hófst var Liverpool fimmta besta lið Englands að meðaltali en alls ekki langt frá United, Tottenham og Arsenal.

  Það sem af er þessu tímabili er stigasöfnun Liverpool að meðaltali 0,73 stigum betri en ef við tökum meðaltal af stigasöfnun tímabilin á undan. Þessi stigasöfnun núna er 0,40 stigum betri að meðaltali í leik en hún var tímabilið 2013/14 sem er okkar besta tímabil í þessum tímaramma.

  Ef við heimfærum þetta upp á stigasöfnun kemur það svona út:

  Öll toppliðin (plús Leicester) eru með betri stigasöfnun núna en meðaltals stigasöfnun undanfarinna ára en aðeins Liverpool er að bæta stigasöfnun m.v. sitt besta tímabil.

  Það kemur líklega engum á óvart að það sem helst stingur í stúf þegar maður horfir á þetta svona er hversu galið Meistaratímabil Leicester var. Þeir voru nýliðar árið áður og svo gott sem fallnir á þessum árstíma árið 2015 neðstir í deildinni.

  Stigasöfnun eftir 23 umferðir vs stigasöfnun í síðustu 15 umferðunum.

  Það kemur væntanlega ekki mikið á óvart að stigasöfnun Liverpool var öllu verri seinni hluta tímabilsins enda félagið með flugeldasýningu í Meistaradeildinni á sama tíma. Hópurinn var ekki nógu stór fyrir tvær keppnir. Það sem við erum samt að sjá núna er rosalega mikil bæting og kannski viðbúið að liðið gefi eitthvað eftir á lokakaflanum.

  Man City var með 2,7 stig að meðaltali í leik eftir 23 umferðir í fyrra eða 62 stig. Þeir gáfu rétt eins og Liverpool eftir á lokakaflanum. Auðvitað gæti spilað þar inní að þeir unnu deildina löngu áður en mótinu lauk. Það er samt áhugavert að þeir töpuðu aðeins tveimur leikjum á síðasta tímabili, einum færri en liðið hefur nú þegar tapað í vetur.

  Til að sjá betur hversu mikilvæt hvert einasta stig er þá er hægt að skoða hver stigasöfnunin væri heilt yfir tímabilið m.v. stigasöfnun fyrstu 23 umferðirnar vs stigasöfnun seinustu 15 umferðirnar.

  Fyrir utan síðasta tímabil sem á sér eðlilegar skýringar hefur Liverpool annaðhvort nánast staðið í stað eða bætt enn frekar í síðustu fimmtán umferðirnar. Þarna klippum við reyndar út nokkra leiki í janúar sem hjálpar væntanlega mikið við að laga þessa tölfræði enda janúar mánudagur dagatalsins.

  Breyting stigalega yfir heilt tímabil væri því svona:

  Liverpool og City gáfu svipað mikið eftir á lokakaflanum, Chelsea hrundi fram af kletti á meðan Tottenham átti sterkan endasprett. Þeir voru ekki bara sprækir í deildinni heldur var aðdáunarvert hvernig þeim tókst að tapa fyrir Juventus í Meistaradeildinni eftir að hafa tætt þá í sig á löngum kafla í því einvígi. Endasprettur Tottenham á þar síðasta tímabili var engu að síður töluvert betri.

  Þetta er samt aðeins villandi enda þarna miðað við stigasöfnun yfir heilt tímabil. Raunveruleg breyting á stigasöfnun í fyrstu 23 umferðrunum vs síðstu 15 umferðunum er svona:

  Með því að hugsa þetta svona má segja að síðustu 15 umferðirnar á síðasta tímabili þegar Liverpool var með fókusinn á Meistaradeildina hafi kostað okkur 2,79 stig. Þarna er auðvitað ekki tekið inn í myndina að líklega hefði Liverpool bætt stigasöfnunina ennfrekar á lokakaflanum frekar en að halda sig á pari við stigasöfnun í fyrstu 23 umferðunum.

  Liverpool 2013/14 vs Liverpool 2018/19

  Þessar töflur sýna okkur einnig að endaspretturinn 2013/14 var frábær, mun betri en fyrri hluti tímabilsins og því verulega ósanngjarnt að tala um að félagið hafi tapað titlinum í stökum leik gegn Chelsea eða Crystal Palace það tímabil. Liverpool var með 2,53 stig að meðaltali í leik í þessum 15 lokaleikjum eða 38 stig af 45 mögulegum. Eitt tap og tvö jafntefli. Hinsvegar tapaði liðið fimm leikjum og gerði fjögur jafntefli í fyrstu 23 umferðunum og það var mun frekar það sem kostaði á endasprettinum enda svigrúmið ekkert.

  Risastór munur á liðinu 2013/14 og núna 2018/19 er auðvitað varnarleikurinn á meðan miðja og sókn eru svipað solid og breiddin mun betri. Við fáum hroll við tilhugsunina af fleiri svona 4-3 leikjum eins og við horfðum á um síðustu helgi á meðan lið Brendan Rodgers 2013/14 byggði titlbaráttu sína á þannig leikjum.

  Varnarleikurinn var byggður rétt eins og Landeyjarhöfn á sandi, Martin Skrtel spilaði 36 leiki á meðan Toure, Sakho og Agger skiptu milli sín 15-17 leikjum hver við hliðina á honum og stöðugleikinn var í samræmi við það. Glen Johnson spilaði 74% leikjanna í hægri bakverði á meðan Jon Flanagan, Aly Cissokho og Jose Enrique sáu til þess að það væri a.m.k. jafnt í liðum (og varla það). Til að skýla vörninni var 34 ára gamall Steven Gerrard seinni hluta mótsins og fyrir aftan allt þetta var Simon F****g Mignolet. Hvernig þetta lið komst svona nálægt titlinum er svipað magnað og að Leicester hafi unnið hann.

  Markatalan eftir 23 umferðir var 57-28 en er núna 54-13. Liverpool er með 14 stigum meira núna en 2013/14 liðið var með en gleymum ekki að Suarez og félagar áttu geggjaðan endasprett og voru bara að spila í einni keppni.

  Að bera saman Alisson og Mignolet er svipað og að bera saman gæðamuninn á Thomas Brolin i núverandi ástandi og Mo Salah (ekki vanmeta Brolin samt). Fyrir Martin Skrtel höfum við Van Dijk og fyrir Ripp, Rapp og Rupp 2013/14 höfum við núna Gomez, Lovren og Matip sem því miður virðast svipað mikið meiddir og bræðurnir frá Andabæ voru.

  Alberto Moreno er eins og Ashely Cole í samanburði við vinstri bakvarðaflóruna 2013/14 og hann er bara varaskeifa í algjörri neyð fyrir Andy Robertson sem er þá eins og Paolo Maldini í samanburði. Liverpool var svo að lána manninn sem kom í stað Glen Johnson, svo mikið betri en Alexander-Arnold.

  Eini gallinn er að andstæðingurinn er ennþá sá sami nema bara miklu betri en 2013/14.

  Man City

  Man City gaf ekki mikið eftir síðasta vetur og jafnan ættu stærri liðin að vera sterkari eftir því sem liður á tímabilið enda með stærri og sterkari hópa. Mögulega er ekkert sem fær stoppað þetta Man City lið og þeir vinna rest. Það mun mjög líklega duga þeim til sigurs í deildinni. Þeir eru hinsvegar ennþá í báðum bikarkeppnum og eiga eftir að spila þrjá leiki núna áður en Liverpool á næst leik.

  Mjög líklega bætast a.m.k. tveir bikarleikir við það til viðbótar og eins er alveg ljóst að félagið ætlar sér ekki bara lengra í Meistaradeildinni heldur en í fyrra, þeir ætla sér alla leið.

  Vonandi kemur þetta leikjaálag þeirra eitthvað niður á þeim í deildinni því eins og þessar töflur sýna munar ótrúlega mikið um hver þrjú stig í svona harðri toppbaráttu.

  Það er ekki beint hughreystandi að bera þá leiki sem Man City á eftir í vetur saman við sömu eða sambærilegar viðureignir á síðasta tímabili. Þeir unnu þrettán af þeim og gerðu jafntefli í tveimur.

  Það er samt ekki þar með sagt að þeir endurtaki leikinn núna og þessir leikir voru ekkert í þessari röð á síðasta tímabili. Eins hafa þeir það sem af er þessu tímabili tapað 11 stigum í leikjum sem þeir unnu síðasta vetur en unnið á átta stig í öðrum leikjum. Verra er að þeir eru með aðeins þremur stigum minna núna en í sömu eða sambærilegum viðureignum á síðasta tímabili, tímabili þar sem þeir náðu 100 stigum!!! Betra er að þeir hafa skorað fimm mörkum minna og fengið þremur mörkum meira á sig.

  Líkega þarf ekki 100 stig til að vinna deildina í vetur en ef City ætlar að jafna eða bæta stigaskor sitt mega þeir ekki misstíga sig meira í vetur.

  Liverpool

  Ef að glasið er hálffullt má segja að Liverpool hafi mun meira svigrúm til að bæta stigasöfnun síðasta tímabils í þessum fimmtán umferðum sem eftir eru. Ef að glasið er hálftómt þá er leikjaprógramm Liverpool mun erfiðara því að Liverpool fékk aðeins 28 stig af 45 í boði í sömu eða sambærilegum leikjum á síðasta tímabili.

  Endurtekning á því myndi gera þetta að 88 stiga tímabili hjá okkar mönnum sem er það besta sem Liverpool hefur náð í Úrvalsdeildinni. Við værum þannig að tala um sigasöfnun upp á 1,87 stig að meðaltali í leik síðustu fimmtán umferðirnar sem er vissulega það sama og liðið gerði innan sama tímaramma síðasta vetur. Þetta væri hinsvegar hrap upp á 0,74 stig í leik miðað við stigasöfnun (2,61) það sem af er þessu tímabili.

  Liverpool er líka búið að fara á erfiða útivelli og spila megnið af stórleiknum tímabilsins. Old Trafford og Goodison Park eru eftir og koma þeir leikir ofan í Meistaradeildarleikina gegn Bayern en það er gott að vera búnir með Etihad, Emirates, Stamford og Wembley.

  Stigasöfnun það sem af er vetri upp á 2,61 stig myndi gefa okkur 99 stig í lok tímabilsins. Liverpool er nú þegar með 15 stigum meira úr sömu eða sambærilegum viðureignum það sem af er vetri eða 25% og haldi sú þróun áfram mætti vænta 2,34 stiga að meðaltali úr síðustu fimmtán umferðunum eða 35 stiga. Ef að 95 stig duga ekki til að vinna mótið þá bara fair play Man City (fyrir utan FFP svindlið og Olíuauðlindasjóðinn augljóslega).

  Niðurstaða

  Ég hef ekki hugmynd, hver og einn túlkar þetta að vild. Vonandi er þetta ekki ruglingslegt hjá mér en það er ljóst að sama hvernig á þetta er litið er staðan vænleg hjá okkar mönnum í dag en spennan og pressan jafnframt að magnast með hverjum leik. Við grátum ennþá tapið á Etihad um daginn enda þar dauðafæri að komast í betri stöðu. Vonandi verður Liverpool bara á undan að ná sjö stiga forskoti frekar en að City nái að minna forskotið enn frekar. Crystal Palace sýndi hvað þessi deild er erfið en þeir voru svosem búnir að sýna það ennþá betur á Etihad um jólin.

  Það lið sem var fyrst til að ná 60 stigum hefur alltaf unnið deildina undanfarin ár en auðvitað þurfti munurinn að vera sá minnst sem verið hefur á þessu tímabili…

 • Liverpool 4-3 Crystal Palace

  Mörkin

  0-1   Andros Townsend 34.mín
  1-1   Mohamed Salah 46.mín
  2-1   Roberto Firmino 53.mín
  2-2   James Tomkins 65.mín
  3-2   Mohamed Salah 75.mín
  4-2   Sadio Mané 93.mín
  4-3   Max Meyer 95.mín

  Leikurinn

  Frá byrjun stóðst leikurinn allar væntingar að því leyti að Crystal Palace lágu djúpt aftur og Liverpool sýndu þolinmæði og yfirvegun í að reyna að sækja í djúpið. Heimamönnum gekk illa að brjóta niður varnarmúrinn og fátt var um fína drætti þó að við hefðum ágætis stjórn á leiknum. Matip fékk hættulegt skallafæri en náði ekki að setja hann á rammann.

  En vangaveltur hvort þetta yrði endurtekning á þolinmæðisverkinu gegn Brighton hurfu út um gluggann þegar að Andros Townsend skoraði upp úr þurru eftir rúman hálftímaleik. Zaha sprengdi framhjá Milner og sendu út í teiginn þar sem City-baninn Townsend slúttaði snyrtilega í netið. Þetta var grátlegt að því leytinu til að örfáum mínútum síðar hefði átt að dæma víti á téðan Townsend fyrir hendi í vítateig Palace. Sjokk fyrir systemið hjá liðinu sem leiðir deildina og vitandi hvernig fór þegar Ernirnir unnu Man City í síðasta mánuði þá var skjálfti í heimamönnum.

  0-1 í hálfleik

  Vonin var að hálfleiksræða Klopp myndi hleypa lífi í Rauða herinn en það gerðist hraðar en bjartsýnustu Púlarar hefðu vonast eftir. Á innan við mínútu hafði Mohamed Salah jafnað metin eftir mikinn klaufaskap í vörn gestanna þar sem að frákast af skoti frá van Dijk var listavel klárað af stóru vinstri tánni af Salah og framhjá markverðinum. 1-1 & game on!

  Eftir þessa draumabyrjun á hálfleiknum þá setti Liverpool mikinn kraft í sóknarleikinn. Anfield tók við sér og allt var að gerast. Vallargestir þurfti ekki að bíða lengi og á 53.mín komst Firmino inn í teiginn og setti hann með grasinu út við stöng. Liverpool komnir á beinu brautina eða hvað?

  Liverpool sótti stíft eftir að komast yfir og augljóst að toppliðið vildi steindrepa leikinn í þessum blússandi meðvindi. En þá kom löðrungurinn í andlitið. Á 65.mínútu fengu Palace hornspyrnu og með fagmannlegum blokkeringum í ætt við körfu- og handbolta losnaði James Tomkins á fjærstöng og skallaði fagmannlega í netið. Handbók Hodgson í föstum leikatriðum skilaði árangri í þetta skiptið og gamlir draugar hornspyrna fyrri tíma að herja á heimamenn.

  Sóknarleikur Liverpool hafði ekki verið nógu skeinuhættur fram að þessu og Klopp ákvað að leita til þess sem hafði virkað fyrr í vetur með því að hleypa Shaqiri inná fyrir Keita. Stuttu síðar gaf lafði lukka Liverpool koss á kinn þegar að Milner komst inn í teiginn og sendi fyrir en Speroni gerir hrapaleg mistök með því að blaka boltanum inn að marki þar sem Salah gaf náðarhöggið yfir marklínuna. Enn voru Liverpool að sýna karakter í að koma til baka í ljósi mikils mótlætis.

  Á 82. mínútu fékk Milner gult spjald fyrir að taka Zaha niður og það átti eftir að draga dilk á eftir sér 7 mínútum síðar þegar að sami Milner fór aftur í sama Zaha. Annað gula spjaldið og rautt spjald því staðreynd. Liverpool manni færri á 89.mínútu og við það blésu Crystal Palace til sóknar á lokamínútunum. Við það opnaðist sóknarfæri sem að Liverpool nýtti sér til að keyra upp þar sem Robertson sendi á Mané sem kláraði fagmannlega út við stöng. 4-2 og leikurinn búinn.

  Eða hvað? Þetta var þannig eftirmiðdagur að risaeðlan var ekki til í að sætta sig við sitt hlutskipti að deyja drottni sínum og til að toppa daginn þá setti Max Meyer mark í teignum eftir góðan undirbúning Connor Wickham. Staðan 4-3 og 3 stigin mikilvægu enn og aftur í hættu! Blessunarlega blés dómarinn til leiksloka og þessum stórhættulega leik lauk með sigri rauða hersins.

  Bestu leikmenn Liverpool

  Heilt yfir þá voru ekki margir leikmenn okkar manna að gera hluti yfir meðallagi. Robertson var líflegur og hans framlag skipti miklu máli en hann var einnig mistækur inn á milli. Vörnin var veik fyrir og kannski of mikið að hafa Matip og neyðarbakvörðinn Milner saman gegn hinum ofurspræka Zaha en hann skapaði gríðarlegan usla niður þann vænginn. Keita gerði ekki nógu mikið fyrir sinn aðdáendahóp þó að Klopp hafi sagt hann frábæran á æfingu í vikunni. Auðvitað skoraði Salah tvö mörk og fyrir það fær hann nafnbótina maður leiksins hjá Liverpool í dag.

  Vondur dagur

  Það var erfitt hlutskipti sem að James Milner fékk í dag að leysa hægri bakvörðinn gegn einum hraðasta og öflugasta vængframherja deildarinnar. Zaha keyrði miskunnarlaust á heldri manninn og fór framhjá honum að vild. Milner fór að láta finna fyrir sér á móti en endaði með tvö gul spjöld og rautt í kjölfarið. Gamli maðurinn er enginn skúrkur í dag þó að þetta hafi verið of erfitt verkefni sem hann var beðinn um að bjarga. En vondur var dagurinn engu að síður.

  Tölfræði

  Í fyrsta sinn á tímabilinu fengu Liverpool á sig fleiri en eitt mark á Anfield og það kom óþægilega á óvart að það var Hodgson og félagar sem settu heil 3 mörk á okkur. En svona er bara enski boltinn og í lok dagsins þá fengum við 3 stig þannig að hverjum er ekki sama.

  Umræðan

  Það verður margt til að ræða um eftir svona epískan leik en aðalatriðið er að niðurstaðan er sigur fyrir okkar menn í toppbaráttunni. Það er áhugaverður samanburður í þessum leik hjá okkur við Palace eins og hjá City við sama lið í desember en bæði toppliðin fá á sig 3 mörk gegn Hodgson en við náum að vinna okkur í gegnum þetta og klára 3 stig. Þess vegna erum við með 7 stig á toppnum í dag og getum tekið góða pásu í 11 daga fram að næsta leik. Sú pása gæti gert mikið fyrir liðið og á meðan munu City þurfa að spila leiki í bikarkeppnunum.

  Lokaniðurstaðan er sigur í dag sem var erfiður eins og búast mátti við en líklega dramatískari en flestir héldu. Top of the league!!!

  YNWA

 • Byrjunarliðið gegn Crystal Palace á Anfield

  Það verður Fuglastríðið í Liverpool-skógi þegar Liverfuglarnir mæta Örnunum úr Kristalshöllinni á Anfield í dag. Rauði herinn býður velkominn aftur einn sinn vonlausasta hershöfðingja í formi herra Hodgson hundraðshöfðingja. Vitringurinn Woy má þó eiga það að hann gerði okkur gríðarlegan greiða gegn Man City nýlega en stóra spurningin í dag er hvort að hann geri okkur grimman grikk. Jafnvel enn grimmari grikk en að hafa verið þjálfarinn okkar!

  Klopp the King of the Kop with a Kop flop

  Blekið hefur varla þornað á samningum bakvarðanna okkar en Andy Robertson og Trent Alexander-Arnold hafa glatt okkur Púlara með því að skuldbinda sína framtíð í blóðrauðu treyjunni til næstu 5 ára. Það þýðir að megnið af kjarnanum í liðinu er með langtímasamning og á besta aldri til að gera góða hluti til lengri tíma.

  TAA nær þó ekki að halda upp á tímamótin með fótboltaleik því að hann er meiddur í dag og inn kemur hinn fjölhæfi Milner til að leysa hægri bakvarðarstöðuna. Matip er einnig orðinn tímabundið heill heilsu og kemurinn í hafsentinn en Fabinho færir sig upp á miðjuna. Naby Keita kemur einnig inn í liðið en það verður áhugavert að sjá hvernig hann nýtir það tækifæri og einnig hvort að hann verði hluti af þremur miðjumönnum í 4-3-3 kerfi eða spili framar í 4-2-3-1 kerfi sem hefur verið notað reglulega upp á síðkastið. Camacho er með síðasta sæti á bekknum og spurning hvort að hann fái mínútur í dag. En svona hefur Jurgen okkar Klopp stillt upp sínu liði í dag:

  Bekkurinn: Mignolet, Sturridge, Moreno, Lallana, Shaqiri, Origi, Camacho

  Roy Hodgson stillir upp sínum Kristals-her svona en auðvitað eru helstu ógnirnar þar Zaha og Townsend. Vinur okkar Benteke er tilbúinn á bekknum og fær eflaust létt lófaklapp ef hann kemur inná.

  Í ljósi þess að heimsóknin kemur úr höfuðborginni þá er við hæfi að upphitunarlag dagsins sé Lundúna-stríðssöngur með The Clash sem undanfari fyrir „the clash“ gegn Crystal Palace. Hækkið í græjunum, leitið að óíslenskri sjónvarpsstöð sem er ekki í kúguðum klakaböndum og sýnir okkur toppliðið í deildinni spila sinn leik.

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


   

 • Trent skrifar undir nýjan samning

  Slúðrið í gær og fyrradag var að Trent Alexander-Arnold væri mjög nálægt því að skrifa undir nýjan langtímasamning við klúbbinn, og það var tilkynnt opinberlega núna í morgunsárið. Skv. Pearce er samningurinn til 2024, en ekki kemur fram hvað hann fær í laun.

  Þetta var svosem viðbúið, persónulega er ég ekki að sjá Trent spila fyrir neitt annað félag, nema þá helst að hann taki Gerrard á þetta og eigi tímabil í bandarísku deildinni þegar sígur á seinni hluta ferilsins. Við skulum a.m.k. vona að við fáum að njóta krafta þessa scousers sem allra allra lengst.

  Hver veit, kannski er þetta framtíðarfyrirliði liðsins? Liðið er reyndar afskaplega ríkt af fyrirliðaefnum, því bæði Virgil van Dijk og Andy Robertson myndu sóma sér vel sem slíkir.

  Nú eru margir að kalla eftir því að næsti maður til að framlengja samning sinn við klúbbinn verði Klopp sjálfur. Hann er með samning til 2022, og hefur ekki gefið neitt út um hvað hann geri eftir það. Vonum það besta.

 • Strákarnir hans Hodgson koma í heimsókn

  Það kom mér pínu á óvart árið 2015 að saga tímabilsins yrði að miklu leyti að Liverpool hefði tapað titlinum á Selhurst Park, í leik sem var oft kallaður Crystanpul af hreint út sagt ótrúlega svakalega hrikalega sniðugum orðasmiðum.

  Vissulega var leikurinn dramatískur, þar sem Liverpool náði að klúðra niður 3-0 forystu á mettíma, en liðið var enga síður í þeirri stöðu að þurfa skora einhver 15 mörk í tveim leikjum til að ná City á markatölu. Fyrir mér fór titillinn viku fyrr en gegn Chelsea, en síðan hefur sagan gefið þessum leikjum jafnt vægi.

  Það er ekki bara út af þessum leik sem stuðningsmenn Liverpool hafa ákveðin kvíðahnút í maganum fyrir leiknum á morgun. Síðan Crystal Palace komst upp í úrvalsdeild árið 2013 hafa þeir reynst Liverpool andskoti erfiðir. Þetta verður tíundi deildarleikur liðanna frá og með tímabilinu 2013-14. Síðustu ár hafa Liverpool unnið fjóra og Crystal Palace fjóra, auk áðurnefnds jafnteflis. Fyrir lið eins og Palace, sem hefur í besta falli verið um miðja deild, er þetta bara þrusugóður árangur. Leikurinn á morgun fer fram á Anfield en þar hefur Palace gengið vel á þessum tíma, unnið þrjá sigra. Með öðrum orðum, þetta verður hörkuleikur.

  Andstæðingurinn – Crystal Palace

  Á síðasta tímabili fóru Crystal Palace sögulega illa af stað. Þeir höfðu ráðið Sam Allardyce um veturinn til að bjarga liðinu frá falli eftir þjálfaratíð Alan Pardew en Sámur hætti eftir tímabilið. Að lokum var Frank De Boer ráðinn um sumarið. Hann reyndist starfinu engan vegin vaxinn, liðið skoraði ekki mark fyrr en í áttunda leik tímabilsins. Þegar þar var komið við sögu var búið að reka De Boer og kunnulegt andlit komið í brúnna.

  Þegar menn eru komnir með bakið upp við vegg þá þarf oft að grípa til örvæntingarráða. Það þarf að gera hluti sem enginn vill gera, hluti sem enginn getur verið stoltur af og jafnvel hluti sem flestir myndu skammast sín fyrir. Það gerðu Crystal Palace tólfta september 2017 þegar liðið réð Roy Hodgson sem aðalþjálfara liðsins. Með þessara ráðningu kláraði liðið líka á innan við ári ákveðna þrennu. Það er að segja gullþrennu enskra þjálfara sem fara milli miðlungsstórra liða, annað hvort klúðra og eru reknir eða tekst að bjarga liðinu frá falli.

  Þegar vel gengur byrja spekingar svo að spyrja af hverju ensku risaeðlurnar fá aldrei séns hjá stóru liðinu, fimm mínútum áður en klúbburinn ákveður að fara í nýja og spennandi átt (hæ Frank De Boer) og segja enska þjálfaranum upp. Þegar byrjar að halla undir fæti er þjálfarinn rekinn og næsti í ensku röðinni tekur við. Ég er að sjálfsögðu að tala um Pardew, Allerdyce og Hodgsons þrennuna.

  Mér er skelfilega illa við að hrósa Roy fyrir nokkurn skapaðan hlut en ætla samt að gera það. Það sem hann er búin að gera hjá Palace er bara alveg ágætt. Að skila liði sem var stiglaust eftir átta leiki í fyrra og koma því í ellefta sæti er virkilega fínn árangur. Eins og stendur í ár eru þeir með 22 stig, fjórum frá fallsæti og ættu að ná að halda sér uppi nokkuð öruggt. Þeir eru líka búin að grípa stig af stóru liðunum, náðu jafnteflum á móti Arsenal og United og unnu síðan Manchester City í desember.

  Leikstíll liðsins byggir á tveimur grunnstoðum: Öguðum varnarleik og Wilfried Zaha. Að kunna að liggja til baka og verja stigið er aðalsmerki Hodgson-boltans og þeir munu væntanlega liggja mjög, mjög djúpt á morgun. Wilfried Zaha fór aftur til uppeldisliðs síns eftir frekar glataðan tíma hjá Manchester United og er búin að finna sig frábærlega sem stór fiskur í lítilli tjörn Palace. Það eru ekki endilega mörk frá honum. Hann er flinkur með boltann, lætur spilið tikka og er öskufljótur. Varnamenn eiga það til að missa af honum og brjóta. Það gefur Palace föst leikatriði sem geta verið eitruð.

  Við vitum hvað Palace gerir á morgun, þeir munu verjast með öllum tiltækum mönnum, leyfa Liverpool að vera með boltann og beita skyndisóknum til að reyna að stela stigunum þremur. Ef leikurinn fer núll núll verða þeir meira en sáttir, spurningar hvort strákarnir hans Klopp nái að brjóta niður varnarmúrinn.

  Okkar menn

  Á laugardaginn braut Liverpool niður annað lið sem reyndi að liggja til baka og tryggði fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar í allavega viku í viðbót. Sigurinn var ekki alveg kostnaðarlaus. Í upphitun meiddist Trent okkar á hné, en spilaði leikinn samt og verður frá í fjórar vikur. Eins og stendur er því meiðslalistinn: Gomez, Trent, Lallana, Chamberlain, Lovrem, Brewster og þess að auki er Gini Wijnaldum eitthvað tæpur.  Daníel fór ágætlega yfir þetta í vikunni.

  Það léttir aðeins verkið að spá fyrir um byrjunarliðið, því það eru bara ekkert voðalega margir sem koma til greina. Alisson, Andy Robertson og Van Dijk verða á sínum stað. Ég held að Matip verði skellt aftur í byrjunarliðið, þó það myndi ekki trufla mig neitt að sjá Fabinho aftur í vörninni. Í hægri bak eru það svo Milner og Fabinho sem koma til greina. Svo fyrrnefndi getur skilað fínu dagsverki hvar sem er á vellinum, sá síðarnefndi hefur spilað bakvörðinn með Brasilíska landsliðinu. Ég ætla að tippa á Milnerinn þarna, svo að Fabinho komist fyrir inn á miðju.

  Fyrst Henderson er komin aftur í leikform held ég að hann byrji, ef ekki þá kemur hann klárlega inn sem varamaður. Með þeim kumpánum vil ég sjá Shaqiri. Svo segir framlínan sig sjálf.

  Grái kallinn er Milner

  Spá

  Ég held að þessi leikur verði ansi svipaður leiknum gegn Brighton. Crystal Palace eru bara örlitið verri en Brighton, en Liverpool munu væntanlega mæta peppaðari til leiks á heimavelli. Þetta verður þolinmæðisverk en ég hef bara enga trú á því að Crystal Palace nái að stöðva skytturnar þrjár í heilan leik. Að sama skapi hef ég enga trú að Alisson fái á sig mark í neinum leik, þannig þannig að ég set 2-0 á þennan leik, Salah með sitt skyldumark og svo held ég að Van Dijk nái að stanga einn inn í seinni bylgjunni eftir misheppnaða hornspyrnu.

  Smá auka – Útsendingin

  Í annað sinn í vetur þurfa púllarar að taka pirringskast yfir að leikur liðsins sé ekki sýndur í beinni. Það er ekki við Stöð2 að sakast þannig séð, þetta er vegna hrikalega gamaldags hugsunarháttar tjallans. Ef þú segir við Íslending „Það er blakkát klukkan þrjú“ mun hann væntanleg halda að þið séuð að fara á djamm sem endar illa. En ef þú notar sömu orð við Breta mun hann skilja að þú ert að tala skortinn á sjónvarpsútsendingum frá Úrvalsdeildinni.

  Á sjöunda áratugnum var formaður Burnley, Bob Lord, sannfærður um að útsendingar frá stórleikjum klukkan þrjú (sem er venjulegur leiktími í neðri deildunum) væri að minnka miðasölu hjá minni liðunum í minni deildunum. Hann byggði þetta á engum gögnum en tókst að sannfæra FA. En þann dag í dag er blakkátið virt á Englandi. Þess má geta að gögnin frá löndum án sambærilegs benda til að útsendingarbannið hafi nákvæmlega engin áhrif á aðsókn.

  Það er þessum manni að kenna að leikurinn er ekki í beinni

  Fyrir þá sem hafa ekki áhuga á að taka þátt í slíku mæli ég óhikað með LFC-radio á heimasíðu félagsins. Ég öskraði með útsendingunni á Arsenal leiknum á bílferð um Borgarfjörð og þeir félagar eru alveg lausir við allt óþarfa hlutleysi.

  KOMA SVO STRÁKAR!

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!