íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Old Trafford á sunnudag

  Það er ansi langt síðan Liverpool lék síðast deildarleik og þegar flautað verður til leiks á Old Trafford á sunnudaginn eru orðnir einhverjir fjórtán eða fimmtán dagar síðan Liverpool rúllaði yfir Bournemouth á Anfield. Þá hófst tíu daga „frí“ hjá Klopp og leikmönnum liðsins sem nýttu það í æfingarferð til Spánar og reyna að slípa sig betur saman fyrir atlöguna að titlinum.

  Síðastliðin þriðjudag tók Liverpool á móti Bayern Munchen í Meistaradeildinni þar sem liðin skildu jöfn í fyrri viðureign liðana og tekur nú við ansi áhugaverð hrina deildarleikja sem hefst á sunnudaginn þegar Liverpool heimsækir Man Utd á Old Trafford.

  Eins og staðan er í dag situr Liverpool í öðru sæti deildarinnar á markahlutfalli en á leik inni á Man City svo hagstæð úrslit úr leiknum mun skjóta Liverpool aftur í bílstjórasætið í deildinni. Það er því ansi mikið sem veltur á þessum leik fyrir Liverpool.

  Frammistaða Liverpool í leiknum gegn Bayern var nokkuð góð miðað við að það var enn einu sinni rót á miðvarðarstöðunni þar sem Van Dijk var í banni og Fabinho var í hjarta varnarinnar með Matip. Þeir sáu til þess að sterkir sóknarmenn Bayern, með Robert Lewandowski í fararbroddi, áttu ekki skot á markið í allan leikinn. Miðjan var ógnarsterk og Henderson alveg hreint frábær, sóknin átti nokkur góð augnablik en tókst ekki að taka færin sín.

  Ákveðnar frammistöður leikmanna munu klárlega setja Klopp í mjög erfiða stöðu þegar kemur að því að hann muni þurfa að velja byrjunarliðið fyrir þennan leik. Henderson var nær óaðfinnanlegur á miðjunni, Keita var líflegur og verið á góðu róli undanfarið, Wijnaldum var rosalega flottur og svo auðvitað hefur Fabinho verið mikilvægur hlekkur á miðju Liverpool en hann leysti af í miðverði í síðasta leik og átti góðan leik þar. Van Dijk kemur aftur í liðið og mun eflaust spila við hlið Joel Matip nema þá að Klopp hyggist nota Fabinho í miðverðinum og geta haft hina þrjá áfram á miðjunni. Hver veit?

  Trent Alexander Arnold er kominn aftur á ról eftir meiðsli og er það frábært, hann gefur Liverpool allt aðra vídd fram á við og er mikilvægur partur í uppspili Liverpool svo það er frábært að hann komi aftur inn. Það losar svo auðvitað um Milner svo hann getur komið aftur inn í myndina á miðjunni svo breiddin eykst töluvert við þetta.

  Lovren og Gomez eru enn frá vegna meiðsla, það var nokkuð vitað með Gomez en þetta dæmi með Lovren er orðið ansi böggandi enda ekki spilað síðan hann skokkaði í þessar tvær mínútur eða hvað það nú var gegn Wolves í upphafi árs. Fabinho hefur verið mjög flottur í miðverðinum þegar hann hefur þurft að spila það hlutverk en ég vil helst ekki þurfa að sjá hann þar aftur mikið lengur, hann á heima á miðjunni.

  Oxlade-Chamberlain og Brewster hafa tekið mjög jákvæð skref í endurhæfingu sinni frá meiðslum sínum og virðist Oxlade-Chamberlain vera byrjaður að æfa meira og meira með liðinu undanfarið en er enn frá. Það eru jákvæðar fréttir og vonandi munum við sjá hann aftur á vellinum á leiktíðinni.

  Ég ætla að giska á að Klopp muni stilla liðinu upp á þennan hátt:

  Alisson

  TAA – Matip – Van Dijk – Robertson

  Fabinho – Henderson – Gini

  Salah – Firmino – Mané

  Van Dijk mun augljóslega koma aftur inn í hjarta varnarinnar og ég held að hann muni færa Fabinho aftur á miðjuna. Ég held að Henderson og Wijnaldum munu pottþétt byrja þennan leik líka. Það er hálf ósanngjarnt en ég held að Keita muni taka sér sæti á bekknum og Klopp muni stilla upp hinum þremur, þó svo að þeir hafi ekki sama óútreiknanlega neista og Keita þá held ég að Klopp muni velja hina þrjá til að gera miðjuna eins þétta og öfluga og hann hugsanlega getur.

  Framlínan verður eflaust nokkuð augljós en það er þá kannski einna helst stöður þeirra og hlutverk sem gætu hliðrast eitthvað til en þessir þrír verða þarna. Það er alveg pottþétt. Í síðustu viðureign liðana stillti Klopp upp 4231 með Keita á vinstri væng og Mane á hægri en ég efast um að hann geri það sama fyrir þennan leik. Leikstíll og nálgun Man Utd er allt annað nú en síðast þegar liðin mættust á Anfield svo ég hugsa að Klopp muni leggja þetta upp með ögn meiri varkárni og muni virða útivöllinn og aðstæðurnar.

  Ég held að þessi leikur sé kannski á nokkurn hátt meira leikur sem má ekki tapast heldur en leikur sem þurfi endilega að vinnast svona ef við rýnum í stöðuna í deildinni og þá leiki sem eru eftir. Eins og áður segir þá mun eitt stig úr leiknum setja Liverpool alfarið í bílstjórasætið í deildinni áfram. Stig í pottinn og Liverpool er áfram skrefi á undan Man City sem þýðir að sama hvaða galdratölur City gætu komið með þá skipti það engu máli ef Liverpool skilar sínu. Það er staðan sem við viljum vera í og liðið ætlar sér að vera í. Þrjú stig eru auðvitað betri en eitt og ég efast ekki í augnablik um að það verði í huganum á Klopp og leikmönnum þegar leikurinn fer að hefjast. Ég að sama skapi held að sama hvað, liðið muni alls ekki vilja tapa þessum leik. Þetta eina stig er lágmarkið í leiknum, það telur og vegur þungt upp á framhaldið.

  Þetta verður þó líklega engin dans á rósum og má búast við mjög erfiðum leik. Þetta Man Utd lið er allt annað lið en við sáum koma á Anfield. Það lið var í algjöru þroti, hafði enga trú á verkefni sínu eða hreinlega vilja til að berjast fyrir stolti sínu. Algjört þrot og Liverpool kaffærði þeim eins og þetta væri bara lið eins og Newcastle, Watford eða eitthvað álíka lið að mæta á Anfield. Með fullri virðingu fyrir þeim liðum og allt það en Liverpool kom fram við Man Utd eins og lið sem var næstum tuttugu stigum á eftir þeim frekar snemma á leiktíðinni.

  Jose Mourinho var rekinn og Ole Gunnar Solskjær var ráðinn inn í tímabundna stöðu stjóra Man Utd og snéri gengi liðsins við. Þeir fóru á gott run og hafa unnið einhverja þrettán af fimmtán leikjum sínum í öllum keppnum síðan þá. Þeir gerðu jafntefli við Burnley í deildinni og töpuðu gegn PSG í Meistaradeild. Margt hafa verið þessir standard „skyldusigrar“ sem lið með slíkan hóp á að klára sama undir hvaða kringumstæðum þeir ættu að vera í en þarna eru líka stórir sigrar gegn liðum eins og Chelsea, Arsenal og Tottenham.

  Helstu breytingarnar við þessi stjóraskipti þeirra er að það er komin meiri ástríða og gleði í þeirra leik og greinilegt að þungu fargi var létt af þeim eftir að Jose Mourinho var látinn fara. Það sést að mér finnst einna helst í þeirra helstu sóknarmönnum. Leikmenn eins og Rashford, Martial og sérstaklega Paul Pogba hafa fundið annan gír í sínum leik. Liðið er farið að skora meira, sækja af meiri frjálsræði og er meira skapandi en þrátt fyrir bros á vör og gaman þá eru enn ákveðin vandamál í þeirra liði sem slíkt getur ekki lagað bara sí svona.

  Liðið er enn í smá basli varnarlega, þó ekki eins miklu og áður en þeir fá á sig færi og eiga oft í vandræðum með að halda hreinu og hafa til að mynda ekki haldið hreinu á heimavelli undir stjórn Solskjær. Það má því alveg búast við að Liverpool fái færi og tækifæri gegn þeim en að sama skapi er þetta lið Man Utd töluvert líklegra til að refsa á móti. Ég hef ekki glóru um það hvernig ég haldi að þessi leikur muni fara en ég mun ekki vera hissa ef hvorugt liðið heldur hreinu.

  Ég tel Liverpool vera betra liðið af þessum tveimur og ætti klárlega að teljast sigurstranglegra liðið þó svo að þessi leikur sé á Old Trafford og allt það. Liverpool er það lið sem er með meira í húfi í þessum leik þó svo að Man Utd sé í harðri baráttu um 4.sætið þá er auðvitað 1.sætið undir hjá Liverpool og langþráður titill í húfi svo pressan er að sama skapi nær öll á Liverpool.

  Allt tal í kringum leikinn virðist snúast meira og minna um það hvort Liverpool nái aftur að grípa í stírið í baráttunni, hvernig þeim tekst að yfirstíga yfir þessa hindrun eða þá hvort að Man Utd takist að skemma titilvonir Liverpool. Það er rosalega lítið um það að menn séu að velta fyrir sér hvort að Meistaradeildarvonir Man Utd séu í húfi eða hvaða afleiðingar leikurinn geti haft á þá, það er meira á þá veg hvort þeim takist að skemma fyrir Liverpool. Það er held ég eitthvað sem ansi marga stuðningsmenn þeirra dreymir um frekar en það að næla í þrjá punkta.

  Nálgun Solskjær og Klopp á blaðamannafundum sínum fyrir leikinn fannst mér einkennast svolítið af þessu. Klopp talar um þetta sem eins og hvern annan leik þar sem stig er stig og allt það en Solskjær fer yfir í eitthvað tilfinningarunk, talar meðal annars eitthvað um að íhuga að gefa Alex Ferguson orðið í klefanum fyrir leik og eitthvað svona rugl. Hann vill kveikja á ástríðu sinna stuðningsmanna og talar upp þennan slag, sem er skiljanlegt en Liverpool sem er ekki í neinni beinni keppni við Man Utd virðist horfa á þetta aðeins öðrum augum. Eflaust ranglega orðað en önnur hlið leiksins virðist vilja virkja hjartað en hin virkja heilann.

  Þetta verður hörkuleikur tveggja liða á mjög ólíkum stöðum, undir mjög ólíkri pressu, með mjög ólíka eiginleika og mjög ólíka nálgun á þennan leik. Þetta verður fróðlegt og ansi erfitt en mikilvægt verkefni fyrir Liverpool vilji leikmenn landa þeim stóra í vor. Deildin ræðst auðvitað ekki bara á þessum leikjum en það eru fjögur ansi stórar viðureignir eftir sem gætu spilað ansi stórt hlutverk í því hver endar sem sigurvegari í vor – bæði Man City og Liverpool eiga eftir að mæta á Old Trafford og bæði lið eiga eftir að fá Tottenham í heimsókn, þarna gætu verið ansi stór og mikilvæg stig í boði fyrir þessi þrjú lið. Liverpool þarf að byrja á sínu og koma sér í bílstjórasætið með því að sækja stig, helst í fleirtölu, á Old Trafford.

 • Árshátíð: Miðasala á 25 ára afmælishátíð Liverpool klúbbsins

  Setjum þetta bara beint frá klúbbnum – þetta er alltaf frábært partý


  Sælir kæru félagar.

  Eins og kynnt hefur verið þá munu Tékkarnir Patrick Berger og Vladimir Smicer heiðra okkur á árshátíðinni 6. apríl næst komandi.

  Við lofum miklu fjöri að vanda, en ljóst er að þessi hátíð verður með þeim glæsilegri á 25 ára afmælisári klúbbs okkar góða.

  Við erum að opna fyrir miðasölu á heilum borðum fyrir 10 aðila alls, en alls fara 12 heil borð í sölu af 24.

  Reynsla okkar í gegnum tíðina hefur verið að margir hópa sig saman fyrir hátíðina og kaupa heil borð.
  Pantanir á borði berast á netfang okkar felagaskraning@liverpool.is

  Við vonumst til að miðasölukerfið verði klárt strax í næstu viku og opnum þá á alla sölu til allra með 12 viðbótar borðum.

  Miðaverð er 11.900 kr eða sama og í fyrra.

  Allar nánari upplýsingar fást á facebook síðu hátíðarinnar eða á netfangi okkar.
  https://www.facebook.com/events/1074155256097600/?active_tab=about

  mkv stjórnin

 • Gullkastið: Þýska stálið er sterkt

  FC Bayern sýndi afhverju þeir eru langstærsta lið Þýskalands en um leið gaf upplegg þeirra á Anfield til kynna þá virðingu sem borin er fyrir Liverpool um þessar mundir. Þeim fækkar hratt liðunum sem þora að mæta á Anfield og leggja upp með að spila sinn leik. Næstu helgi er svo enn stærri leikur, stærsti leikur Liverpool og Man United í langan tíma.

  00:00 – Intro – Berger og Smicer á Árshátíð Liverpoolklúbbsins
  05:20 – Rimman gegn Bayern
  37:50 – United umræða

  Stjórnandi: Einar
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi.

  MP3: Þáttur 228

 • Liverpool – Bayern Munchen 0-0

  Það var gríðarleg stemmning á Anfield eins og venja er á CL kvöldum. Það verður ekki annað sagt en að fyrstu 45 mínúturnar hafi verið kaflaskiptar. Liverpool var í allskonar vandræðum fyrstu 25 mínúturnar eða svo. Bayern voru klókir í sínum leik, héldu boltanum vel og spiluðu yfir pressuna hjá Liverpool. Varnarleikur Liverpool einkenndist af óöryggi fyrstu mínúturnar, sem kannski var við að búast, en skánaði þegar leið á leikinn.

  Matip skoraði næstum sjálfsmark eftir um korters leik þegar hreinsun hans fór í öfuga átt en í brjóstkassann á Alisson. Brassinn var virkilega tæpur á boltann í nokkur skipti og skrítnar sendingar úr vörninni voru að skapa okkur allskonar vandræði hvað eftir annað og manni var alveg hætt að lítast á blikuna!

  Mo Salah var reyndar búinn að fá ágætisfæri fyrr í leiknum en hann fékk annað þegar sending frá Trent á fjarstöng endað með skalla framhjá, ágætis færi en Alaba var að bakka og gerði honum erfitt fyrir.

  Þegar hér var komið við sögu voru gestirnir búnir að vera 60% með boltann (eftir 25 mínútur) sem er ekki algeng sjón á Anfield. Eftir þetta fór Liverpool að vakna. Mané átti fínan sprett á 27 mínútu þar sem að Kimmick sparkaði hann niður og fékk gult spjald og verður því í banni í síðari leiknum.

  (meira…)

 • Liðið gegn Bayern

  Jæja! Risaleikur framundan og liðið eins og menn bjuggust kannski við úr því að Virgil er í banni og Lovren meiddur. Fabinho fer í vörnina við hlið Matip, Trent kemur aftur inn í liðið ásamt Henderson og Firmino er búinn að jafna sig á flensunni sem hann var með um helgina. Liðið er sem sagt svona:

  Alisson

  TAA – Matip – Fabinho – Robertson

  Keita – Henderson – Gini

  Salah – Firmino – Mané

  Bekkur: Mignolet, Moreno, Milner, Lallana, Shaqiri, Origi, Sturridge

  Maður er smá smeykur við þessa vörn, höfum séð hana sterkari. Robertson er sá einu hjá okkur sem er á spjaldi og má því ekki við öðru ef hann ætlar að ná leiknum í Munchen.

  Lið Bayern er að sama skapi svipað og maður átti von á nema að Martinez kemur inn í stað Goretzka sem er meiddur. Liðið er annars svona: Neuer, Sule, Hummels, Thiago, Martinez, Lewandowski, James, Gnabry, Alaba, Coman, Kimmich.

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!