Latest stories

 • Gullkastið – Lognið á undan storminum

  Það eru ennþá heilir 11 dagar í veisluna í Mddríd sem verða góða 48 daga að líða. Fókusinn var því ekki á Madríd í þessum þætti heldur meira hvað sé næst hjá okkar mönnum á leikmannamarkaðnum. Eins snertum við aðeins á vandamálum Man City utanvallar, þrumuskitu UEFA þegar kemur að úrslitaleikjunum í báðum Evrópukeppnunum og enduðum á því að skoða aðeins Arsenal og Chelsea.

  Stjórnandi: Einar Matthías

  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 239

  [...]
 • Opinn þráður

  Það er komin vika síðan deildinni lauk, og ískyggilega langt í úrslitaleikinn í Madrid.

  Okkar menn eru reyndar komnir til Spánar, og æfa á Marbella eins og þeir gerðu í vetur. Hópurinn er þarna nánast allur, meira að segja Keita er með þó hann sé nú tæpast búinn að ná sér. Hann gæti þó mögulega sést á bekknum í úrslitaleiknum, enda mega liðin tilnefna 12 leikmenn á varamannabekkinn í úrslitaleiknum, og mega svo skipta fjórða manni inná ef það kemur til framlengingar. Við munum því sjálfsagt sjá alls konar sjaldséð andlit á leikskýrslu.

  Jafnvel þó svo að glugginn hafi opnast formlega fyrir nokkrum dögum síðan, þá hefur verið gefið út að ekkert verði hróflað við hópnum fyrr en eftir leikinn í Madrid, og það er nokkuð skiljanlegt. Eins og gengur eru alls konar leikmenn orðaðir við klúbbinn, þannig kom fram orðrómur um De Ligt á dögunum, en ef eitthvað er að marka Pearce þá er Klopp ekki að leita að miðverði, og er sáttur við þá menn sem hann er með í hópnum. Og vissulega er það þannig að Gomez, Matip og Lovren eru allir ágætir miðverðir, þegar þeir eru heilir. Það er bara þetta litla smáatriði sem maður hefur áhyggjur af. Nú og svo hefur það nú gerst áður að klúbburinn hafi gefið út að ekki verði keypt í tiltekna stöðu, en svo kemur tilkynning nokkrum dögum síðar um að nýr leikmaður hafi verið keyptur í akkúrat þá stöðu. Er skemmst að minnast þess þegar það var talað um að Danny Ward myndi fá sénsinn sem aðalmarkvörður, en svo var Alisson kynntur til sögunnar nokkrum dögum síðar og Ward seldur. Við skulum því bara spyrja að leikslokum þegar glugginn lokar í haust. Það þykir víst líklegt að helst verði keyptir leikmenn til að bakka upp Trent og Robertson annars vegar, og svo sóknarsinnaðan leikmann hins vegar. En þetta verður allt skoðað nánar í sérstökum færslum hér á síðunni.

  Sá leikmaður Liverpool sem hefur verið helst í eldlínunni síðustu daga er Ki-Jana Hoever, sem lék með U17 landsliði Hollendinga og vann með þeim Evróputitilinn með því að sigra Ítali 4-2. Hoever átti þátt í einu markanna með því að skjóta í stöng úr aukaspyrnu og svo var skorað úr frákastinu. Þá skoraði hann gott mark gegn Belgum í fjórðungsúrslitum. Það er fjallað um Hoever í grein á Liverpool Echo, og það virðist ennþá vera litið á hann sem framtíðarmann í liðinu, en þó tekið fram að hann eigi enn nokkuð í land með að ná þeim líkamlega styrk sem er nauðsynlegur í PL.

  Annars er orðið laust, um hvaðeina sem viðkemur liðinu okkar.

  [...]
 • Gullkastið: Hatrið hefur sigrað

  Liverpool setti nýtt og áður óþekkt viðmið í að vanta bara herslumuninn til að vinna deildina á mögnuðu tímabili. Gríðarleg vonbrigði en það er eitt stórt verkefni framundan og núna ljóst hverjir andstæðingarnir verða í Madríd.

  Stjórnandi: Einar Matthías

  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 238

  (more…)

  [...]
 • Hvað næst?

  Þriðjudagskvöldið bjargaði tímabilinu enn sem komið er fyrir okkur og gerði höggið aðeins vægara að vinna ekki deildina með 97 stig. Það eru þrjár vikur eftir af mótinu fyrir okkar menn en að sama skapi ljóst að nokkrir hafa líklega spilað sinn síðasta leik. Líklega er enginn að þeim sem byrjar leikinn í Madríd að fara spila sinn síðasta leik fyrir Liverpool það kvöld. Eins er spurning hvort það það stefni í algjört Tottenham sumar hjá okkar mönnum á leikmannamarkaðnum?

  Hvaða leikmenn hafa spilað sinn síðasta leik? 

  Alberto Moreno sem hefur spilað 253 leiki fyrir Liverpool á fimm tímabilum fer í sumar. Hann er svipað toxic og Mignolet og Karius voru orðnir í fyrra. Hann átti ágæta spretti í byrjun síðasta tímabils en hefur ekki séð til sólar eftir að Andy Robertson varð bókstaflega besti vinstri bakvörður í heimi.

  Hvað kemur í staðin? 

  Ekkert nýtt er mitt gisk. Andy Robertson spilar alla leiki þegar hann er heill og væntanlega er erfitt að hafa back up fyrir hann í sambærilegum gæðaflokki nema það sé leikmaður eins og Milner eða Gomez sem spila allajafna aðra stöðu líka. Moreno hefur ekki verið næsti kostur inn fyrir Robertson undanfarið sem gefur töluverða vísbendingu. Eins hefur Adam Lewis verið orðaður við sæti í hópnum og það væri alls ekki ólíkt Klopp að skoða hann sem þennan 2-3 kost.

  Daniel Sturridge hefur vonandi spilað sinn síðasta leik einnig. Meiðslasaga hans er ein stærsta ástæða þess að Liverpool hrundi svona hrikalega illa eftir 2013/14 tímabilið. Hann fékk risastóran samning sem ætlaður var aðalsóknarmanni félagsins og hefur ekki spilað meira en 25% leikja liðsins á neinu tímabili síðan þá. Samtals er hann með 160 leiki á sjö árum og entist sjaldnast í 90 mínútur í þessum leikjum. Undanfarin tvö ár hefur hann reyndar bara ekkert komist í liðið. Samningurinn er loksins að renna út og tími til komin að finna level við hæfi.

  Hvað kemur í staðin?

  Rihan Brewster virðist vera augljós arftaki og Divock Origi er að verða að því skrímsli sem efni stóðu til þegar hann fór 17 ára á HM með Belgum. Bobby Firmino hefur ekki gefið mikið svigrúm fyrir aðra framherja og spilar vonandi megnið af næsta tímabili. Liverpool þarf einn sóknarmann til í Coutinho klassa til að rótera við þríeykið en sá flokkast varla sem arftaki Sturridge. Ekki nema þá hvað launapakka varðar.

  Adam Lallana er ekki að renna út á samningi en eftir tímabil þar sem hann spilaði minna en Sturridge hlítur hann að ná skilaboðunum. Keita og Ox ættu að koma miklu meira inn á næsta tímabili sem takmarkar möguleika Lallana ennfrekar. Það var mikil þörf á fullfrískum Lallana á tímabili í vetur þegar Keita var að fóta sig og Ox meiddur. Sérstaklega eftir að Fekir kaupin duttu uppfyrir. Hann stóðst enganvegin álagið. Hann hefur komið við sögu í 156 leikjum undanfarin fimm tímabil og aðeins náð 1/3 af síðustu tveimur tímabilum. Algjör synd þar sem Klopp elskaði Lallana.

  Hvað kemur í staðin? 

  Allt þetta tímabil hef ég haldið því fram að Liverpool væri betur sett með Harry Wilson en Adam Lallana og væri alveg til í að láta reyna á það næsta vetur. Ef ekki Wilson þá jafnvel hinn 18 ára Curtis Jones.

  Alex Oxlade-Chamberlain færir samt Lallana ennþá aftar í goggunarröðina og sama má segja um Naby Keita sem ætti að koma klár inn í næsta tímabil. En takist að losna við þennan launapakka sem og pakkann sem Sturridge er með myndast töluvert svigrúm fyrir fjórða heimsklassa sóknarþenkjandi leikmanninum. Einhverjum með svipað profile og Salah, Firmino og Mané voru með áður en þeir komu til Liverpool en verður orðinn betri en þeir allir eftir tvö ár.

  Simon Mignolet vildi ólmur fara síðasta sumar og þar sem það er mjög óvanalegt að Liverpool/Klopp standi í vegi fyrir ósáttum leikmönnum ætti að vera ljóst að hann fer í sumar. Hann er á launum sem sæma markmanni númer eitt hjá Liverpool og því enn eitt svigrúmið sem hægt er að búa til á launaskrá án þess að það komi niður á hópnum. Hann hefur verið mjög fagmannlegur í vetur og á allt gott skilið, það vantaði ekkert upp á vilja eða hugarfarið. En ég mun ekki gráta sölu á honum.

  Hvað kemur í staðin?

  Það er fátt sem ég skil minna í fótbolta en kaup á markmönnum. Liverpool kaupir eitt mesta efnið í álfunni fyrir hvert tímabil sem sést síðan aldrei aftur. Kelleher er númer 3 núna ásamt líklega Grabara sem var á láni í vetur. Ef að þeir fá ekki sénsinn kemur líklega einhver nýr sem skiptir ekki máli enda sá aldrei að fara í byrjunarliðið. Ef ég ætti að giska tel ég næsta víst að James Milner verði varamarkvörður næsta vetur.

  Danny Ings fer til Southampton eftir tímabilið fyrir £18-20m. Synd að hann hafi meiðst í fyrstu viku Klopp hjá Liverpool. Líklega eitthvað sem hann á eftir að svekkja sig á þar til hann deyr því hann ætti að henta leikstíl Klopp gríðarlega vel. Liverpool hefði vel getað notað fullfrískan Danny Ings undanfarin tvö tímabil.

  Hvað kemur í staðin?

  Innkaup Michael Edwards og Klopp hafa verið svo rosalega markviss og öflug að félagið er að spara fullt af peningum í svona leikmönnum sem áður þurftu að vera partur af hópnum. Það fæst gott verð fyrir Ings en Liverpool þarf ekkert að kaupa fyrir hann beint.

  Nathaniel Clyne er að fá sorglegan endi á feril sinn hjá Liverpool. Hann lendir í fyrsta skipti í mjög alvarlegum meiðslum og þegar hann kemur til baka er liðið búið að þróast framúr því sem hann var að bjóða uppá þegar hann var upp á sitt besta.

  Hvað kemur í staðin? Liverpool var að spila miðjumönnum í bakverði á tímabili í vetur sem segir okkur að það er klárlega þörf á meiri og betri breidd í þessari stöðu. Sama hvaða álit þið hafið á varnarleik TAA þá er allt of mikið drop off þegar hann er ekki leikfær. Jafnvel þegar Joe Gomez kemur í hægri bakvörðinn. Rafa Camacho gaf það skýrt til kynna að hann væri ekki framtíðar hægri bakvörður og því spurning hvort reynt verði að kaupa leikmann í stað Clyne. Eins er það skoðun margra að alvöru góður hægri bakvörður gæti fært TAA á miðjuna sem er líklega mun hentugri staða fyrir hans hæfileika.

  Ki-Jana Hoevar er wild card í þessu þetta er miðvörður sem mun líklega byrja sem bakvörður í aðalliðsfótbolta. Hann er nógu góður til að koma mjög ungur inn í hópinn en líklega kemur næsta tímabil of fljótt fyrir hann. Nota bene hann væri líklega orðin fyrirliði Ajax.

  Grujic, Ejaria, Kent, Ojo og Wilson gætu allir skapað tekjur sem skipta alveg máli. Grujic er líklega aldrei undir £20m og sama má segja um Wilson. Kent var svo besti ungi leikmaðurinn í Skotlandi. Líklega ná þeir ekki í gegn hjá Liverpool en þarna gætu legið £30-50m.

  Til að koma í staðin fyrir þá er Liverpool núna með besta unglingalið Englands.

  Aðrir sem gætu farið í sumar?

  (more…)

  [...]
 • Liverpool 2 – 0 Wolves

  Liverpool kláraði tímabilið með því að sigra Úlfana 2-0 á heimavelli, og ná þar með 97 stigum í deildinni, sem því miður reyndist ekki nóg til að vinna titilinn.

  Mörkin

  1-0 Mané (16. mín)
  2-0 Mané (81. mín)

  Leikurinn

  Leikurinn bar þess svolítið merki að menn væru annaðhvort eftir sig eftir leikinn á þriðjudaginn, eða með annað augað á leik Brighton gegn City, eða bæði. Þrátt fyrir þetta náðu okkar menn að skora frekar snemma leiks, þegar Trent og Hendo léku fallega saman hægra megin nálægt vítateig Wolves, Trent gaf svo fyrir (mjög svipuð sending og í fyrra marki Wijnaldum á þriðjudaginn), Mané fékk boltann rétt fyrir innan vítateig og skoraði örugglega. 11 mínútum síðar bárust þær fréttir að Brighton hefðu skorað gegn City, og líklega óhætt að segja að bæði leikmenn og áhorfendur hafi misst einbeitinguna við þær fréttir, en því miður dofnaði gleðin skömmu síðar þegar fréttist af jöfnunarmarki City. Robertson átti gott skot sem Patricio varði, en fátt markvert gerðist fram að leikhléi, annað en að City skoraði annað mark, og var þar með komið í bílstjórasætið.

  Í síðari hálfleik áttu Úlfarnir alveg ágæta möguleika á að jafna, en Alisson varði a.m.k. tvisvar meistaralega. Mané skoraði svo annað mark á 81. mínútu, aftur eftir sendingu frá Trent. Var líklega ögn rangstæður, en markið stóð. Á meðan bættu City við tveim mörkum, svo það var ljóst megnið af seinni hálfleik að þetta yrði ekki okkar dagur.

  Úrslitin urðu því 2-0, en Brighton náðu ekki að gera okkur þennan greiða sem við óskuðum, umfram það að hafa verið með forystu í eina mínútu og héldu jöfnu fram á 38. mínútu. Ekki við þá að sakast.

  Umræðan eftir leik

  Það hefur svosem lengi verið vitað að það gerist ekki oft að lið sem er fyrir utan topp 3 vinni svo titilinn árið eftir (Leicester eru undantekningin sem sannar regluna, eins og í fleiru). Það var því vitað að það yrði alltaf erfitt að ætla að sækja titilinn í vetur, rétt eins og sést í spánni sem við hjá kop.is gerðum í haust, en þar spáðum við allir því að City tæki titilinn. Engu að síður komst liðið eins nálægt því eins og hugsast getur. Það eru alveg nógu margir sem hafa bent á að 97 stig hefðu dugað til að vinna í 116 af 119 tímabilum sem enska deildin hefur verið spiluð, en það bara dugði ekki núna.

  Setjum nú samt áhersluna á jákvæðu hliðarnar:

  • Við erum með lið sem við vitum að er fært um að halda áfram í toppbaráttunni á næstu árum.
  • Við erum með lið sem verður í úrslitum meistardeildarinnar þann 1. júní, annað árið í röð.
  • Við erum aftur komin með markmann sem vinnur gullhanskann, en Alisson hlaut þann titil eftir að hafa haldið hreinu í 21 skipti.
  • Við erum með tvo leikmenn – Salah og Mané – sem deila gullskónum með Aubameyang, allir skoruðu þeir 22 mörk á tímabilinu.
  • Ekkert lið fékk færri mörk á sig í deildinni.
  • Við erum með besta bakvarðarpar deildarinnar og þó víða væri leitað, sem raða inn stoðsendingunum. Trent bætti tveim við í dag.
  • Við eigum leikmann ársins í Virgil van Dijk.

  Við óskum City til hamingju með árangurinn, þetta er lið sem fékk 54 af 57 mögulegum stigum í seinni hluta deildarinnar. Vonum svo auðvitað að þeir endurtaki ekki árangurinn á næsta ári.

  Hvað er framundan?

  Það er eitt stykki úrslitaleikur í meistaradeildinni eftir, þann 1. júní næstkomandi. Við getum hlakkað til þess leiks, rétt eins og við getum hlakkað til þess leiks.

  [...]
 • Against all odds – leikþráður

  UPPFÆRT: liðið hefur verið tilkynnt, og lítur svona út:

  Bekkur: Mignolet, Lovren, Gomez, Milner, Oxlade-Chamberlain, Shaqiri, Sturridge

  Enginn Firmino eins og var alltaf vitað, og sama með Keita. Robertson fær grænt ljós á að byrja frá læknateyminu. Ég set Origi vinstra megin en við vitum öll hvað fremstu þrír geta verið flæðandi.

  KOMA SVO!!!


  Þá er runninn upp leikdagur. Lokadagur tímabilsins. Og þó svo að líkurnar séu ekki með liðinu okkar, þá gefumst við ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Við höldum í vonina svo lengi sem tölfræðin leyfir. Ef þetta væri eingöngu í höndunum á okkar mönnum, þá værum við líklega mun rólegri. Það er hins vegar ekki alveg svo gott, því við þurfum jú bæði að sigra Úlfana á eftir, og að treysta á að Brighton töfri fram eitthvað á heimavelli. Hver veit?

  Liðið kemur svo hér inn eftir u.þ.b. klukkutíma.

  [...]
 • Lokaleikur kvennaliðsins: Derby slagur um borgina

  (Minnum á upphitun Ingimars fyrir lokaleik karlaliðsins hér að neðan)


  Í dag fór fram lokaleikur kvennaliðs Liverpool í deildinni. Eins og áður hefur komið fram var ekki að neinu að keppa fyrir stelpurnar okkar varðandi stöðuna í deildinni, því það varð ljóst eftir síðustu umferð að liðið yrði í 8. sæti. Nema hvað að þessi leikur var gegn bláklæddu stelpunum úr Liverpool borg, og við vitum að leikir Liverpool við Everton eru aldrei ómerkilegir. Leikurinn fór fram á Prenton Park, og Vicky Jepson stillti svona upp:

  Á bekknum voru eftirtaldir leikmenn: Preuss, Matthews, Hodson, Kearns, Babajide

  Það var fátt sem kom á óvart í uppstillingu liðsins, annað en e.t.v. að Niamh Charles var í framlínunni í fyrsta skiptið í langan tíma eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. Charles var m.a. framarlega í flokki þegar nýji búningurinn var kynntur á dögunum.

  Okkar stúlkur gerðu sér lítið fyrir og unnu Everton 3-1. Courtney Sweetman-Kirk (eða Captain Kirk eins og hún verður örugglega kölluð ef hún verður fyrirliði) braut ísinn á 26. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu frá Christie Murray, og skoraði þar hjá sínu gamla félagi. Niamh Charles bætti svo öðru marki við aðeins fjórum mínútum síðar, aftur eftir aukaspyrnu frá Murray. Everton náðu að minnka muninn skömmu fyrir leikhlé. Í hálfleik fór Yana Daniels út af og Rinsola Babajide kom inná. Ashley Hodson kom svo inná fyrir Niamh Charles þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum, en þar var einn framherji nýstiginn upp úr meiðslum að koma inná fyrir annan framherja nýstiginn upp úr meiðslum. Það var svo Amy Rodgers sem opnaði markareikning sinn fyrir félagið með skalla eftir hornspyrnu á 88. mínútu, enn eftir sendingu frá Christie Murray. Murray fór svo út af fyrir Bo Kearns mínútu síðar, en fleiri mörk voru ekki skoruð. Semsagt, góður sigur á Everton, og við fögnum ætíð slíku.

  Lokastaðan í deildinni er því þessi:

  Eins og sést þá enda okkar konur í 8. sæti deildarinnar, á nokkuð lygnum sjó, þó það sé nú ekki langt í næstu lið fyrir ofan. Arsenal stúlkur unnu öruggan sigur, voru tryggar með fyrsta sætið fyrir síðustu umferð, og það kom ekki í veg fyrir að þær myndu vinna City 1-0.

  Það er ljóst að þetta var erfitt tímabil fyrir liðið okkar. Nánast alger endurnýjun á leikmannahópnum, nýr þjálfari sem sagði starfi sínu lausu eftir einn leik, og svo heilmikið um meiðsli. Sem dæmi hefur Jess Clarke ekkert sést á vellinum eftir að hún skrifaði undir nýjan samning.

  Nú er spurningin: hvað er framundan hjá stelpunum okkar? Það er vonandi að liðið styrki sig skynsamlega í sumar. Það er óhætt að segja að það er heilmikið af ungum og hæfileikaríkum stelpum í liðinu. Sem dæmi þá er Amy Rodgers – sem skoraði fyrsta mark sitt fyrir liðið í dag – aðeins 19 ára. Babajide verður 21 árs í júní, og hún leikur með enska U21 landsliðinu. Þá erum við með ungan og hæfileikaríkan stjóra sem er óhrædd við að gefa stelpum úr akademíunni tækifæri, sem sést á því hve oft Bo Kearns hefur komið inná í síðustu umferðum, en hún er nýorðin 18 ára. Niamh Charles er 20 ára, og svona mætti lengi telja. Svo erum við með reynslumiklar konur þar fyrir utan sem eru nær þrítugu, eins og Niam Fahey, Sophie Bradley-Auckland, Laura Coombs o.fl. Courtney Sweetman-Kirk er einnig um þrítugt, og hún var meðal markahæstu leikmanna deildarinnar. Leighanne Robe átti á tímabili (og hugsanlega ennþá) flestar tæklingar í deildinni. Það er því fullt af hæfileikum í liðinu, og verður gaman að sjá hvernig liðinu gengur á næstu leiktíð, með meiri stöðugleika í leikmannahópnum, með hóp sem hefur núna spilað saman í eitt tímabil, og vonandi með hæfilegu magni af styrkingum í sumar, en við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með því hér á kop.is.

  [...]
 • Allt eða eitthvað: Lokaleikurinn á Anfield – Upphitun

  Á morgun lýkur ensku Úrvalsdeildinni þegar heil umferð verður spiluð klukkan tvö á íslenskum tíma. Á Anfield munu Liverpool taka á móti Wolverhamptom Wanderers og freista þess að ljúka þessu ótrúlega tímabili á sigri, sem myndi þýða að Liverpool endar með 97 stig á töflunni. Á sama tíma ferðast olíuliðið sem hefur valdið okkur svo miklu hugarangri í vetur suður til Brighton. Það þarf kraftaverk til að Brighton taki punkta af dýrasta liði sögurnar. Eftir síðustu viku þá mun ég aldrei aftur segja að eitthvað sé ómögulegt í fótbolta.

  Mig langaði bara að staðfesta: Síðasti þriðjudagur gerðist. Þetta var ekki draumur. Síðustu tvær vikur hafa verið svo sturlaður rússibani að maður er enn þá pínu eftir sig. Förum örsnöggt yfir hvernig fótboltinn hefur verið fyrir stuðningsmenn Liverpool síðan í lok Maí.

  • 26.Apríl: Liverpool snýta Huddersfield, alsæla.
  • 28. Apríl: City rétt slefa sigur á Burnley, púllarar binda vonir sínar við Brendan Rogders og Jamie Vardy.
  • 1. Maí: Liverpool steinliggja fyrir Barca á Nou Camp. Liverpool spiluðu drullu vel á löngum köflum en Messi var Messi. Allt stefnir í titlalaust tímabil hjá Klopp.
  • 4. Maí: Divock Origi skorar með skalla eftir aukaspyrnu á 86. mínútu, leikur þar sem Liverpool voru að hrynja úr Evrópuþynnku og Newcastle jöfnuðu tvisvar. Það er ennþá von.
  • 6. Maí: Vincent fokking Kompany skorar fyrsta mark sitt í um það bil hálfa ævi, fyrir utan teig í seinni hálfleik og tryggir að City verði í bílstjórasætinu á lokadegi deildarinnar. Fótboltaþunglyndi á háu stigi hrjáir Liverpoolmenn, þórðargleði á hærra stigi kemur í stuðningsmenn annara liða. Þetta mark endar samt á að vera þriðja dramatískasta markið í heimsfótboltanum þessa viku.
  • 7. Maí. Engin Keita. Engin Firmino. Engin Salah. Henderson virtist meiðast í fyrri hálfleik. Robertson meiddur útaf í hálfleik. Gini Wijnaldum sem byrjaði á bekknum og var að eigin sögn brjálaður af reiði þegar hann sá byrjunarliði: hetja. Trent, uppalin hjá liðinu: Hetja. Divock Origi, leikmaður sem mátti fara í Janúarglugganum: goðsögn. Það ómögulega er mögulegt, af því að um þetta lið er að ræða. Liverpool er að fara að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar annað árið í röð, í þetta sinn sem reynda liðið sem allir spá sigri. Alsæla.

  Stuðningsmenn Liverpool er búnir að svífa um á bleiku skýi síðan. Þetta tímabil endar ekki á morgun, einn annar leikur eftir. En það þarf víst að klára deildina, að vinna eftirsóttasta bikarinn er ekki í okkar höndum, en í fyrsta sinn í fimm ár verður bikar á Anfield á lokadegi deildarinnar. Hið ómöguleg er mögulegt, það er bara þannig.

  Andstæðingarnir: Wolves.

   

  Fyrir utan Liverpool og City, hugsa ég að stuðningsmenn Wolves séu sáttastir allra með tímabilið í deildinni. Það er auðvelt að gleyma að þeir komu upp úr næst efstu deild á síðasta tímabili, klára árið í ár sama hvað gerist á Anfield í sjöunda sæti og komust alla leið í undanúrslit í bikarnum. Wolves hafa náð í hrúgu af flottum úrslitum gegn stóru liðunum. Ef svo líklega vill til að City klári Watford í úrslitum bikarsins eru Wolves að fara að spila í Evrópu á næsta tímabili. Það verður reyndar ekki í fyrsta sinn sem Wolves spila í Evrópu, þeir hafa meira segja spilað í úrslitaleik Evrópubikarsins (forvera Europa League), fyrsta árið sem keppnin var haldin. Sá leikur fór fram 1972, gegn Tottenham Hotspurs.

  Stór hluti af velgengni úlfana á þessu tímabili er þjálfarinn Nuno Espirito Santo, sem tók við liðinu í Maí 2017. Hann er einn mest spennandi ungi þjálfarinn í boltanum og Wolves eru með leikstíl sem er fastmótaður. Þeir spila með þriggja manna varnarlínu, í hjarta hennar scouserinn Connor Coady, og þegar Wolves eru með boltann reyna þeir að stækka völlinn eins mikið og þeir geta. Hafsentarnir báðum megin við Coady færa sig nær hliðarlínunum, vængmennirnir sækja hratt fram. Boltinn fer annað hvort beint frá vörninni og upp á téða vængmenn eða þeir reyna að spila hratt í gegnum miðjuna. Markmiðið er að koma boltanum á sóknarmennina tvo, áður en andstæðingurinn nær að stilla upp góðri varnarlínu.

  Þegar liðið fellur til baka er það síðan mun þéttara. Vængmennirnir koma inn í vörnina, annar sóknarmaðurinn verður að miðjumanni. Í sókninni spila þeir 3-5-2 eða 3-4-2-1 en í vörn er uppstillingin oftast 5-4-1. Þeir pressa andstæðinginn mun neðar á vellinum en t.d. Liverpool en sprengja svo upp völlinn þegar þeir ná boltanum. Til að þetta gangi upp þarf svakalega skipulagsvinnu á æfingasvæðinu, það þarf ekki nema einn að taka rangt hlaup og kerfið fer í köku.

  Það eru nokkrir lykilmenn sem þarf að hafa auga á. Coady er búin að vera frábær fyrir þá. Jimenez og Diego Jota eru stórhættulegui fram á við og að lokum verður að minnast á Matt Doherty, sem koma á sínum tíma til Wolves fyrir heil 75.000 pund og er komin með átta stoðsendingar og átta mörk af kantinum í öllum keppnum í vetur.

  Þeir mæta á Anfield vitandi að þeir munu enda í sjöunda sæti í deildinni. Það að hafa að engu að keppa í lokaumferðinni getur verið tvíeggja sverð. Stundum er lið komin á hálfa leið á ströndina, en stundum er eins og það að hafa enga pressu gefi liðnu frelsi og það spilar frábærlega. Liverpool er eina topp sex liðið sem Wolves hafa ekki tekið stig af í vetur (unnu okkur samt í bikarnum, óþarfi að ræða það frekar) og manni dettur í hug að þeir vilji leiðrétta það. Þeir eru líka lið sem spilar betur eftir því sem andstæðingarnir eru betri.

  Nuno þarf ekki að pæla í neinum meiðslum og getur stillt upp sínu sterkasta liði:

   

  Okkar menn:

  Ein snilldin við sigurinn á Barca er að í fyrsta sinn í marga mánuði mætir Liverpool til leiks alveg pressulaust. Í versta falli taka þeir við silfur medalíum og fara til Madrídar til að reyna að ná í Evrópubikar númer sex. Í besta falli gerist kraftaverk og 29 ára eyðimerkurgöngu lýkur. Þetta er bæði mjög fínir kosti.

  En verkefni númer eitt er að vinna Wolves. Liverpool hefur ekki tapað á Anfield á þessu tímabili og andskotinn hafi það ef það gerist núna. Fjögra daga frí frá síðasta leik ætti að þýða að Klopp þurfi lítið að pæla í þreytu eftir Barca og það er nógu langt í úrslitaleikinn að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hvíla fyrir hann. Einu spurningarmerkin eru leikmenn sem eru tæpir vegna meiðsla.

  Samkvæmt Klopp spila Bobby og Keita ekki leikinn, en Salah er orðin góður. Robertson og Hendo ættu að vera orðnir góðir eftir Barcelona leikinn, held reyndar að þeir tveir myndu segjast tilbúnir í leikinn þó þeir væru fótbrotnir. Chamberlain er líklega tilbúin aftur en Lallana er mjög líklega frá.

  Framlínan velur sig sjálf, nema Klopp ákveði að fara að fikta með 4-4-2, sem ég efa stórlega. Held að Shaqiri detti út fyrir Salah og frammi verðum við með Mane-Origi-Salah. Það væri stórfurðulegt ef Gini, Fabinho og Hendo byrja ekki á miðjunni. Ég ætla að giska á að Andy fái hvíld og Milner taki stöðuna hans, svo er Van Dijk sjálfvalinn. Matip stóð sig frábærlega á móti Barca og ég held að hann haldi sinni stöðu og svo klára Alison og Trent hópinn:

  Grái kallinn er Milner.

  Spá:

  Þessu sturlaða, klikkaða, fáránlega og furðulega tímabili er að ljúka. Minningar frá því munu vekja bros á vör í áratugi, sama hvernig fer í þessum tveim síðustu leikjum. Wolves er það eina sem stendur á milli Liverpool og 97 stiga tímabils. Anfield verður í essinu sínu að fagna þessu tímabili, leikmenn finna einfaldlega ekki fyrir þreytu á svona dögum. Wolves er seigir, en þetta Liverpool lið er bara of gott. Ætla að spá 4-0 sigri, þar sem Mané skorar tvö, Salah eitt og Henderson eitt.

  KOMA SVO Í SÍÐASTA SINN Á ANFIELD Í VETUR

  -Ingimar Bjarni.

   

  [...]
 • Gullkastið – “We must turn from doubters to believers”

  Einvíginu er ALDREI lokið ef að Liverpool á seinni leikinn á Anfield Road. Alveg sama hvernig fyrri leikurinn fór, sama hvað leikjaálagið er miklu erfiðara fyrir Liverpool og sama hversu margir meiðast milli leikja eða jafnvel í leiknum sjálfum. Lið andstæðinganna má vera byggt upp að hluta til af fyrrum (bestu) leikmönnum Liverpool. Það er alltaf séns þegar seinni leikurinn er eftir á Anfield.

  Það sem við sáum í kvöld til að tryggja farseðilinn í Úrslitaleik Meistaradeildarinnar er eitthvað sem við sjáum á áratuga fresti. Flest lið upplifa svona kvöld aldrei.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og Istanbul-Steini

  MP3: Þáttur 237

  [...]
 • Liverpool 4-0 Barcelona

  Mörkin

  1-0   Divock Origi 7.mín
  2-0   Georginio Wijnaldum 54.mín
  3-0   Georginio Wijnaldum 56.mín
  4-0   Divock Origi 79.mín

  Leikurinn

  Áður en bolta var sparkað þá var hávær YNWA heiðraður og Suarez fékk hressilegt pú frá Púlurum sem voru ósáttir við framkomu hans í fyrri leiknum. Heimamenn byrjuðu með hápressu og mikilli aggressjón á hina gulklæddu frá Spáni. Það virkaði vel og gaf kröftugan tón fyrir framhaldið.

  Strax í fyrstu alvöru sókn Rauða hersins þá tókst okkur að koma boltanum í netið. Henderson tókst með mikilli lagni að þræða sig í gegnum vörn Barcelona og náði skoti af stuttu færi sem ter Stegen varði fyrir fætur meistara Origi sem gerði engin mistök fyrir opnu marki. Draumabyrjun fyrir Liverpool og Anfield ærðist!

  Örstuttu síðar prjónaði Mané sig inn í teiginn og féll við eftir snertingu að aftan frá varnarmanninum Roberto en dómari leiksins dæmdi ekkert. Vítaspyrna að mínu mati en dómarinn gaf tóninn fyrir sína frammistöðu með rangri niðurstöðu. Hiti var kominn í leikinn og Fabinho fékk gult spjald fyrir hraustlega tæklingu á Suarez en sá úrúgvæíski hafði frá byrjun leiks haldið áfram með skítlega framkomu sína sem hann hefur lagt rækt við að fullkomna á sínum ferli.

  Barca blés til sóknar og á örstuttum kafla fengu þeir tvö dauðafæri í upphlaupum sínum en blessunarlega þá varði Alisson í bæði skiptin frá Messi og Coutinho. Leikurinn var afar opinn og bæði lið að fá tækifæri. Robertson hlóð í fast skot utan af velli en ter Stegen varði vel og hinu megin setti Messi tvö skot rétt framhjá. Suarez gerði sitt besta til að slasa Robertson með tvöföldu hælsparki í leggina á skoska fyrirliðanum en eftir aðhlynningu þá hélt Andrew áfram en þurfti frá að hverfa fyrir seinni hálfleikinn. Busquets fékk gult spjald og Messi enn eitt færið áður en að blásið var til hálfleiks.

  1-0 fyrir Liverpool í hálfleik

  Wijnaldum kom inná í stað Robertson og Liverpool hóf seinni hálfleikinn með góðum krafti og Virgil ógnaði með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu. Barcelona ógnuðu strax með skyndisókn en Alisson varði vel. Á 54.mínútu og næstu 122 sekúndunum þar eftir snérist leikurinn alveg á haus. Mistök hjá Alba hleypti TAA í fyrirgjöf og Wijnaldum í skot og mark í teignum. Tveimur mínútum og tveimur sekúndum betur þá gerði Gini sitt besta til að herma fullkomlega eftir marki Gerrard í Istanbul. Shaqiri sendi inn örfætta fyrirgjöf frá vinstri vængnum og Wijnaldum reis upp til að hamra boltann inn með höfðinu. 3-0!!! Allt brjálað og leikar jafnir samanlagt!

  Coutinho hafði verið grútlélegur í leiknum og var skipt útaf beint í kjölfarið og gjaldkeri Liverpool tók bakföll af hlátri við þá skiptingu. Messi hélt áfram að sækja á vörn Liverpool og í eitt skiptið fórnaði Matip sér í brot og gult spald en í hitt skiptið varði Alisson fast sköt úr þröngu færi. Leikurinn jafnaðist nokkuð um miðbik hálfleiksins þar sem hvorugt liðið vissi hvort það vildi sækja eða halda fengnum hlut fram í framlengingu.

  Á 79.mínútu fékk Liverpool hornspyrnu. Trent Alexander-Arnold sýndi gáfumerki á Einstein-leveli með blöffi og leiftursnöggri spyrnu beint á Divock Origi sem smellti boltanum í Samúelinn af stuttu færi! 4-0 og heimamenn komnir yfir í einvíginu í fyrsta sinn af 170 mínútum af fótbolta. Kraftaverkið að gerast? Barca henti strax í skiptingu af Rakitic út fyrir Malcom og eftir það lögðumst við ansi djúpt til að verja sigurstöðu. Meiðsli og þreyta fóru að herja á heimamenn og Origi þurfti að víkja fyrir Gomez og síðan Shaqiri fyrir Sturridge.

  Stanslaust stress fylgdi næstu 10 mínúturnar fram í uppbótartíma en Barca ógnaði ekki alvarlega fram að lokaflautunum þremur sem var ein fallegasta sinfónía sem heyrst hefur á Anfield!

  4-0 sigur fyrir Liverpool! Úrslitaleikurinn í Madrid bíður okkar!!

  Bestu leikmenn Liverpool

  Allir útispilarar í rauðum búning og markmaður í gráu eru tímalausar hetjur fyrir þennan magnaða leik sem fram fór. Alisson var klettur í markinu og varði allt sem kom á rammann og greip allt sem máli skipti. Hafsentarnir glæsilegir í hjarta varnarinnar, Robertson stríðsmaður sem frá þurfti að hverfa og svo TAA sem átti gullstoðsendinguna úr hornspyrnunni. Fabinho var grjótharður í sinni nálgun og lét hina vafasömu í röndóttu ekki komast upp með neitt múður. Milner hljóp endalaust að vanda og fjölhæfni hans kom í góðar þarfir til að leysa vinstri bakvörðinn. Jordan Henderson magnaður og stanslaus og hans færi skapaði fyrsta markið. Shaqiri með stoðsendingu og keyrði sig alveg út fyrir málstaðinn. Mané stöðug ógn fram á við en varðist einnig eins og brjálæðingur. Wijnaldum reyndist vera super-sub með geggjuð tvö mörk á tveimur mínútum.

  Divock Origi heldur svo áfram að stimpla sig inn sem ein óvæntasta költ-hetja síðari ára með sín tvö mörk og ég gef honum titilinn mann leiksins fyrir að opna og ljúka markareikning liðsins í kvöld. Gullmörk sem bæði komu okkur í gang og komu okkur í úrslitaleikinn í Madrid þann 1.júní.

  Vondur dagur

  Luis Suarez. Var aftur upp á sitt versta og sannaði að innst inni í hjartanu er hann kominn langt fram yfir síðasta söludag með tilheyrandi rotnun. Slasaði Robertson, var sjálfum sér almennt til skammar og fékk makleg málagjöld fyrir vikið. Karma löggan var á vakt í kvöld og Suarez endaði í grjótinu. Réttlætinu fullnægt!

  Tölfræði

  Umræðan

  Gegn allri heilbrigðri skynsemi, líkindum og fótboltafræðum þá erum við komnir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir einn magnaðasta leik í sögu fótboltans. Að hafa hugrekki, kjark og karakter til að yfirvinna þessa hindrun Messi og 3-0 mótvind er ótrúlegt og trónir á toppinum með Istanbul hvað varðar kraftaverk af knattspyrnulegum toga.

  Þó allt mæli gegn því þá eigum við enn fræðilegan séns í deildinni og núna höfum við úrslitaleik af hæstu gráðu til að hlakka til í höfuðborg Spánar. Að þora að dreyma er eitthvað sem þessir leikmenn hafa hugrekki til að gera og við hinir erum dolfallnir í þeim ótrúlegheitum sem okkur er boðið uppá.

  Liverpool er ekkert venjulegt knattspyrnulið og enginn venjulegur klúbbur. Það hefur mesta karakter af öllum knattspyrnuliðum á byggðu bóli og við höfum bætt við enn einu ógleymanlegu augnablikinu í safnið sem þrælsannar það. Við höldum alltaf áfram!

  We are Liverpool. This means more. You Never Walk Alone.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close