Liverpool – WBA (liðið komið)

Þá er það næsta verkefni, WBA lið Tony Pulis kemur í heimsókn.

Sturridge fær sér sæti á bekknum og Lallana kemur inn, það verður því Firmino sem leiðir línuna í dag. Klopp stillir þessu annars svona upp í dag:

Karius

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Lallana – Henderson – Can

Mané – Firmino – Coutinho

Bekkur: Mignolet, Moreno, Klavan, Lucas, Wijnaldum, Sturridge, Origi
WBA og hinn eini sanni Pulis

Já, við erum varla búin að jafna okkur eftir heimsókn Tony Pulis Jr. með lið sitt, þegar hinn eini sanni birtist. Þrátt fyrir að þetta sé orginallinn, þá er hann með ansi mikið ódýrara lið, en byggir á sömu hlutunum. Nú fáum við að sjá fyrir alvöru hvort Jurgen Klopp hafi lært eitthvað af leiknum á mánudaginn. Má ég samt biðja um eitt? Vinsamlegast hefjið leikinn í fyrri hálfleik drengir, ég bara get ekki aftur að horfa á hálf máttlaust lið eiga aðeins 45 mínútur til að brjóta varnarmúrinn á bak aftur. Það er nokkuð ljóst að þeim mun fyrr sem menn ná að brjóta ísinn, því mun meiri eru líkurnar á að sópa þeim upp. Já, þetta er djúp lógík, ég veit. Við sáum þetta gerast gegn Hull og einnig gegn Leicester. Meira að segja á útivelli gegn Chelsea, þá var þetta einhvern veginn alltaf í öruggum höndum okkar eftir að hafa keyrt yfir þá af krafti í byrjun.

Þetta WBA lið er nokkuð vel mannað aftarlega á vellinum og viðurkenni ég fúslega að það er engin haka í gólf þegar maður kemst að því. Þeir eru með reynslubolta sem kunna enska boltann alveg frá a-ö. Yfirleitt kíki ég á Physioroom síðuna þegar ég á upphitun og það er ekki oft sem maður sér að það sé 0 í listanum hjá einhverju liði, en það er raunin með WBA, það eru allir leikmenn hjá þeim heilir og ekki einn einasti sem flokkaður er tæpur fyrir leikinn. Engu að síður verða þeir án Johnny Evans í vörninni, þar sem hann tekur út leikbann. Ætli við fáum ekki hinn bráðskemmtilega Jonas Olsson inn í hans stað. Þeir verða því væntanlega með Ben Foster í markinu og fyrir framan hann verða Craig Dawson, Gareth McAuley, Jonas Olsson og Allan Nyom. Það verða svo ekki margir metrarnir í þá Claudio Jacob og Darren Fletcher. Ætli þeir Chadli og Rondon teljist ekki vera mesta ógnin þeirra upp við okkar mark. Rondon er gríðarlega líkamlega sterkur leikmaður og Chadli er ansi seigur. McAuley er þriðji markahæstur hjá þeim, enda eru þeir ansi sterkir í föstum leikatriðum.

Lið WBA er ósigrað í 4 leikjum í röð í deildinni. Þrír síðustu leikir þeirra hafa endað með 1-1 jafntefli. Þeir náðu sterku stigi heima gegn Tottenham um síðustu helgi, en sóttu svo aðeins tvö stig í heimsóknum sínum til Sunderland og Stoke. Þar áður höfðu þeir flengt West Ham heima, en það hafa svo sem flestir stundað þá iðju þetta haustið. Þeir sitja í tólfta sæti með 10 stig eftir þessa fyrstu 8 leiki. Þeir hafa skorað 9 mörk en aðeins fengið á sig 8 mörk. Þessi tölfræði í byrjun tímabils segir mikið um þá, þetta eru baráttuglaðir leikmenn sem fórna sér öllum í verkefnið og fylgja ákveðnu skipulagi sem allir gjörþekkja út og inn. Tony Pulis er einn af morðingjum fótboltans, en hann má eiga það að hann stendur fast á sinni hugmyndafræði og hann hefur ekki sömu fjárráð og stóru liðin. Hann er sem sagt góður í því sem hann gerir, hversu leiðinlegt það er svo fyrir hinn almenna knattspyrnuunnanda. Þeir sem ráða hann vita vel að þeir eru ekki að fara að sjá liðið sitt spila einhvern Samba bolta, en mjög líklega halda þeir sæti sínu í deildinni. Ég persónulega mun ekkert gráta mig í svefn þegar Pulis og hans hugmyndafræði hætta afskiptum af knattspyrnu. Ekki það að góður varnarleikur geti ekki verið fínasta skemmtun, en þessi bolti hjá kappanum flokkast undir eitthvað allt annað. Breytingin frá mánudeginum er sú að við eigum alveg von á að WBA noti skyndisóknir og láti reyna almennilega á vörnina okkar.

Meiðslalistinn hjá Liverpool er bara óvenju lítill núna. Wijnaldum er stóra spurningamerkið fyrir leikinn, en eitthvað var einnig að angra Milner. Þar fyrir utan þá eru það bara Joe Gomez og Ojo, en það eru afskaplega jákvæðar fréttir af Gomez þar sem hann hefur hafið æfingar að nýju með aðalliðinu. Þessi stutti listi er afskaplega óvenjulegur þegar Liverpool á í hlut og er ég viss um að við þurfum ekki að bíða lengi eftir að sjá hann “eðlilegan” aftur. Karius mun halda sinni stöðu í markinu, tel það nokkuð ljóst fyrst hann hélt sinni stöðu í síðasta leik. Vörnin ætti einnig að vera algjörlega óbreytt, sé enga ástæðu til að hrófla neitt við henni. Hún er líklegast það jákvæðasta undanfarið, því hún virðist vera að ná að spila sig aðeins saman og mikið voðalega gott væri að það færi að komast á smá stöðugleiki þar. Það hefst fyrst og fremst með því að menn nái að spila sig saman nokkra leiki í röð og það virðist vera að gerast núna. Jordan Henderson er svo byrjaður að blómstra á ný sem aftasti miðjumaður og það er alveg fáránlega jákvætt, sér í lagi eftir að hann fékk (réttilega oftast) á sig mikla gagnrýni á síðustu tveim tímabilum. Adam Lallana VERÐUR svo að koma inn í sína stöðu á miðjunni, hann er að verða fáránlega mikilvægur sá drengur. Breytingin á liðinu eftir hans innkomu í síðasta leik var í raun rosalega, og ég hálf vorkenndi Daniel Sturridge að hann skildi skipta við hann, því hann leit enn verr út fyrir bragðið, er nokkuð viss um að hann hefði fengið úr meiru að moða með Lallana á miðjunni. Ég er svo aðeins í vafa með þriðju miðjustöðuna. Emre Can var ferlega dapur framan af leik gegn Man.Utd, en vann sig svo inn í hann. Spurningin er hvort það eigi ekki hreinlega að halda Coutinho á miðjunni og keyra á þetta WBA lið, halda áfram með þá Firmino og Mané úti á vængjunum og svo annað hvort Sturridge eða Origi á toppnum. Jú, Sturridge var ekki góður í síðasta leik, en í mínum huga er bara tímaspursmál hvenær hann hrekkur í gang í markaskoruninni og þá erum við komnir með eitt alvöru vopn til viðbótar. Finnst umræðan um endalok hans hjá Liverpool vera ansi hreint dapra eftir nokkra leiki án þess að skora. Komist hann í gír, þá er hann einn allra besti framherji deildarinnar. Annað sem mælir með því að Coutinho byrji leikinn er að Pulis sleppir oft miðjunni í sínu skipulagi, þ.e. boltanum er spilað yfir miðjuna og því varnarhlutverkið minna mikilvægt hjá mönnum eins og Coutinho og Lallana, þó það sé alltaf eitthvert. Mér finnst líklegt að Can byrji leikinn og að Sturridge setjist á bekkinn, en ég ætla engu að síður að stilla liðinu upp eins og ég myndi vilja sjá það í leiknum.

Karius

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Lallana – Henderson – Coutinho

Mané – Sturridge – Firmino

Það má búast við því að okkar menn verði mikið með boltann og því skiptir gríðarlegu máli að menn séu að hreyfa sig hratt og mikið án bolta, reyna að teygja á skipulaginu hjá mótherjum okkar. Það mun reyna mikið á hugmyndaflugið hjá þessum tæknilega góðu mönnum eins og Firmino, Coutinho, Lallana og Mané. En við megum ekki gleyma okkur, ein dúndra fram völlinn á Rondon getur sett okkur í mikla hættu. Ég er orðinn aðeins rólegri yfir stórum og sterkum framherjum eftir komu Matip, en þetta er samt alltaf eitthvar sem blundar í okkur. Eins er það með föstu leikatriðin, þau eru ennþá gríðarlega mikil ógn og ég tala nú ekki um þegar lið er í heimsókn sem gerir út á slíkt. Karius, ég er að horfa til þín núna. Hann hefur verið smá hikandi núna í byrjun Liverpool ferilsins, en ég trúi því og treysti að það sé bara byrjendaskjálfti. Hann er búinn að mæta Man.Utd á Anfield, þannig að sá skjálfti ætti að fara að hverfa. Vonandi nær hann að halda markinu hreinu annan leikinn í röð af því að ég hef akkúrat enga trú á því að við eigum eftir að sjá annan leikinn í röð á Anfield þar sem við skorum ekki mark, ég bara neita að trúa því. Ég vil sjá okkur í virkilegri hápressu þegar við missum boltann, því þar liggja stóru tækifærin gegn svona liðum, refsa þeim strax aftur og um leið og þau telja sig hafa tækifæri á að sækja.

Ég er bara bjartsýnn á þennan leik og er svo sannarlega að vona að hann setji af stað góða sigurhrinu sem sýni okkur það að við séum að fara að setja mark okkar á deildina þetta árið. Leikirnir sem framundan eru í deildinni á eftir þessum heimaleik gegn WBA eru Crystal Palace (Ú), Watford (H), Southampton (Ú), Sunderland (H), Bournemouth (Ú), West Ham (H), Middlesbrough (Ú) og svo Everton (Ú) og þá erum við dottnir í jólavertíðina og stutt í að deildarkeppnin sé hálfnuð. Við vitum svo sannarlega að það er ekki hægt að telja nein stig fyrr en þau eru komin í hús, þessi leikur er nákvæmlega þannig. Það er þó algjörlega ljóst að verkefnin sem framundan eru, þau eru bara þess eðlis að ef menn halda rétt á spöðunum og spila af krafti, þá geta menn komið sér í þá stöðu að það verði um allt að keppa á nýju ári. Mikið væri það nú skemmtilegt að fara inn í janúar og allt opið í allar áttir. Ég ætla að spá því að tónninn verði gefinn á morgun og að við tökum Pulis og hans menn og flengjum þá í beinni útsendingu. Karius heldur hreinu aftur og við setjum 4 kvikindi í mark andstæðinganna. Firmino (2), Coutinho og Sturridge setja mörkin.

Vangaveltur í kjölfar United leiksins

Leikskipulag United er aðalumræðuefnið eftir leikinn. Hrútleiðinleg umræða og erfitt að átta sig almennilega á því afhverju þetta er svona stórt atriði. Þegar lið Moutinho mæta í stóru leikina, sérstaklega á útivelli er lagt upp með það fyrst og fremst að verja stigið en auðvitað með opið fyrir það að stela sigrinum sem hans lið gera ósjaldan. Það er í svona leikjum sem maður veltir því fyrir sér hvað Tony Pulis gæti gert með sömu fjárráð og Mourinho en höfum líka í huga að þessi ömurlegu Stoke lið Pulis sitja eftir í minningunni vegna þess hversu erfitt að brjóta þau niður.


Continue reading

Liverpool – Man Utd 0-0 (Skýrsla)

Bestu leikmenn Liverpool

Rétt eins og þegar liðið er að spila vel þá var enginn að standa sérstaklega uppúr í dag. Til að velja einhverja úr þá fær miðvarðaparið heiðurinn í dag. Það var ekkert að frétta í sóknarleik United í dag og háir boltar sem óttast var fyrir leik voru ekkert til vandræða. Henderson var einnig góður á miðjunni en Coutinho og Can áttu erfiðara uppdráttar. Lallana gjörbreytti okkar liði eftir klukkutíma leik og var klárlega sárt saknað í dag.

Vondur dagur

Daniel Sturridge átti verulega erfiðan dag og það sást óþægilega vel þegar hann var tekinn af velli. Það er ekki langt í að Origi fari framfyrir hann í goggunarröðinni held ég svipað og við sáum á síðasta tímabili. Mané fannst mér ekki heldur ná neinum takti við leikinn og það gekk lítið upp hjá honum í dag. Can var lengi í gang en náði sér betur á strik þegar leið á leikinn.

Hvað þýða úrslitin

Afskaplega lítið. Mourinho fékk stigið sem hann er á höttunum eftir úr svona leikjum og þetta eru betri úrslit fyrir United heldur en Liverpool. Tímabilið var samt langt frá því að vera ráðast í dag, Liverpool hefur verið að safna stigum ágætlega undanfarið og það vinnur ekkert lið alla leiki. Liðið var engu að síður að spila ágætlega og vinnur svona leiki gegn liðum með verri markmann en United hefur.

Dómgæslan

Blessunarlega verður hann ekkert aðalatriði eftir leik, hann leyfði nokkrum United mönnum að brjóta ansi oft án þess að spjalda þá og hann lét Mourinho spila algjörlega með sig í uppbótartíma þegar hann bætti 7 sekúndum við þrátt fyrir skiptinguna á Young sem tók mínútu þar sem Young greyið skilur ekki klukku með “army time” og vissi ekki að hann ætti að fara útaf. Pirrandi en ekkert sem hafði stór áhrif á úrslit leiksins.

Umræðupunktar eftir leikinn

  • Mourinho er að spila sömu leikaðferð í svona leik eins og hann hefur alltaf gert og þetta hefur reynst honum mjög vel í gegnum tíðina. Smá spes að sjá þetta rándýra lið mæta í svona leik til að halda stiginu og nákvæmlega eins og rándýr útgáfa af Stoke undir stjórn Tony Pulis. Liverpool þarf að brjóta svona lið niður því þetta er það sem koma skal í vetur.

  • Liverpool á að vinna svona leiki, stig er ekki nóg þegar tölfræðin er svona.

  • Upplegg United í dag sýnir á móti ágætlega hvert þetta Liverpool lið er komið og United verður ekki eina stórliðið sem fer inn í leik á Anfield með óttablandna virðingu fyrir sóknarleik Liverpool.

  • Meiðsli voru okkar mönnum erfið í dag. Það var enginn frá vegna meiðsla hjá United á meðan Liverpool þurfti að gera tvær breytingar á miðjunni sem veiktu liðið. Hópurinn er mun sterkari hjá Liverpool en hann var í fyrra en svona breytingar hjálpa nákvæmlega ekkert fyrir svona leik.

Næsta verkefni

Næst er það W.B.A. heima, á eftir þessum Tony Pulis leik er bókstaflega komið að Tony Pulis næst. Hans menn náðu í gott stig gegn Tottenham í þessari umferð og því ljóst að þeir verða erfiðir. Johnny Evans verður í banni sem er gott mál. Spili Liverpool eins og þeir gerðu í dag vinna þeir W.B.A.

Eftir allt þetta build-up endum við með steindautt 0-0 jafntefli.

Eins og Klopp orðaði það í viðtali eftir leik, JIBBÝ.

Liverpool – Man Utd 0-0 (Leik lokið)

Leik lokið
Steindautt 0-0 jafntefli í boði Jose Mourinho sem lagði upp með að ná jafntefli og náði því. David De Gea sá um þetta í dag fyrir United, Liverpool fékk tvö góð færi sem hann varði frábærlega. Fyrst Can sem kom sér í stöðu inni á teignum og náði góðu skoti sem De Gea varði vel. Coutinho náði svo seinna að hlaða í ekta Coutinho skot sem De Gea varði stórkostlega, ein af betri vörslum tímabilsins. Okkar menn hresstust verulega þegar Lallana kom inn fyrir Sturridge eftir klukkutíma leik sem sýnir aðeins hveru mikið hans var saknað í dag og eins hvað Sturridge er mikið úr takti í þessu liði.

Tímabilið ræðst ekki af þessum leik og við a.m.k. töpuðum ekki. Sigur á Old Trafford mun bæta þetta upp.
Hálfleikur
Leikplan United er að ganga ansi vel upp í dag og miðjan hjá Liverpool líður virkilega fyrir það að Lallana og Winjaldum vantar. Sturridge er ekki með í leiknum enn sem komið er og þetta er einnig erfitt hjá Can og Coutinho. Staðan 0-0 og afskaplega lítið að frétta sóknarlega hjá liðunum.

Byrjunarlið Liverpool
Ekkert óvænt miðað við það sem búist var við. Can og Sturridge koma inn fyrir Lallana og Winjaldum sem eru meiddir. Rosalega mikil breyting á miðjunni en vonandi kemur það ekki að sök. Lallana er á bekknum í dag.

Karius

Clyne – Lovren – Matip – Milner

Coutinho – Henderson – Can

Mane – Sturridge – Firmino

Bekkur: Mignolet, Grujic, Klavan, Moreno, Lallana, Lucas, Origi.

Lið United er svona

De Gea

Valencia – Bailly – Smalling – Blind

Herrera – Pogba – Fellaini

Young – Zlatan – Rasford

Bekkur: Romero, Rojo, Shaw, Carrick, Lingard, Mata, Rooney

Rasford kemur inn fyrir Lingard, Fellaini kemur inn fyrir Mata og Rooney kemst ekki í liðið. Það á að láta boltann fljúga í kvöld, það er ljóst og þeir hafa góða menn til að taka við boltanum frammi.

.

16:30 – EMK
Kop.is er einnig á twitter og við mælum alveg endilega með að þið fylgið okkur. Þar inni hentum við í tvær kannanir í dag um helstu umræðuefni fyrir leik hvað byrjunarliðið varðar.
16:20 – EMK
Þessir 16 dagar hafa heldur betur tekið sinn tíma, maður lifandi. Liverpool – Man Utd er klárlega stærsti deildarleikur hvað áhorf og áhuga varðar hér á landi og satt að segja á ég bágt með að sjá viðlíka áhuga á öðrum deildarleik en þessum í íþróttum almennt. Real Madríd – Barcelona mögulega en maður verður enganvegin var við nærri því jafn mikla spennu og fyrir þessa leiki. Áhugi á enska boltanum er a.m.k. 100x meiri en á þeim spænska í okkar heimshluta.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 en við uppfærum þessa færslu fram að leik, það er svo hægt að taka þátt í umræðunni á twitter með því að nota #kopis