West Ham á morgun

KOMDU MEÐ KOP.is Á STÓRLEIK LIVERPOOL OG MANCHESTER UNITED Á ANFIELD Í JANÚAR!

Sigur á morgun myndi gera þetta bestu byrjun Rodgers sem stjóra í efstu deild. Haldi liðið hreinu verður það í fyrsta skipti sem Liverpool heldur hreinu fjóra leiki í röð síðan Dalglish var stjóri. Sigur á morgun myndi þýða að Liverpool hafi byrjað þetta tímabil frábærlega. Það var í svona leikjum sem Liverpool missteig sig allt of oft á síðasta tímabili og þetta er enn eitt prófið fyrir þennan árgang til að sanna að þetta ár verður ekki endurtekning á því síðasta.

Liðið sem vann Arsenal 0-0 á Emirates á mánudaginn ætti að hefja leik óbreytt gegn West Ham þó reyndar ætli ég að spá einni breytingu. Fyrirliðinn er ennþá meiddur, Allen og Lallana eru báðir að glíma við „smávægileg“ meiðsli og verða það líklega út tímabilið. Sturridge er kominn til æfinga en ekki kominn í leikform og búið er að lána Balotelli og Markovic ári eftir að þeir komu til félagsins fyrir samtals 36m!

Rodgers staðfesti eftir síðasta leik að Lucas verði áfram leikmaður Liverpool eftir góða frammistöðu gegn Arsenal en ég ætla samt að spá því að hann komi út fyrir þennan leik og inn komi Ibe eða Ings.

Liverpool - West Ham

Bekkur: Bogdan, Sakho, Moreno, Rossiter, Lucas, Ings, Origi.

Með þessu færi Coutinho aftur fremst á miðjuna og Can í hlutverk Henderson. Það er viðbúið að West Ham leggi leikinn allt öðruvísi upp heldur en Arsenal rétt eins og að Liverpool spilar ekki eins heima gegn West Ham og þeir gera úti gegn Arsenal. Því sé ég Rodgers alveg fara inn í þennan leik með sókndjarfara lið.

Ibe var alls ekki að standa sig í síðasta leik og hefur átt erfitt í byrjun þessa tímabils en ég efa að Rodgers hafi gefið hann upp á bátinn strax. Ef ekki hann gæti alveg verið komið að Ings sem ætti að fá sénsinn mjög fljótlega.

West Ham hefur byrjað þetta tímabil undarlega, þökk sé Petr Cech unnu þeir Arsenal 0-2 á Emirates í fyrsta leik tímabilsins. Bilic stillti upp varnarsinnuðu liði í þeim leik enda lítið annað í boði gegn Arsenal og vann öflugan sigur. Síðan þá hafa þeir tapað tveimur leikjum illa og spilað mjög illa á köflum. Leicester vann þá á Upton Park 1-2 og nýliðar Bournemouth gerðu það líka nema bara 3-4. Leicester og Bournemouth blésu bæði til sóknar og hefðu bæði getað unnið mun stærri sigra.

Bilic er án nokkura sterkra leikmanna af ýmsum ástæðum. Adrian er ennþá í banni eftir ansi hart þriggja leikja bann sem hann fékk í upphafi tímabilsins. Jenkinson sem var ömurlegur gegn Bournemouth er í banni eftir klaufalegt rautt spjald í þeim leik. Joey O´Brien sem væri líklegastur til að koma inn fyrir hann er mjög tæpur vegna meiðsla.

Kevin Nolan sem var í byrjunarliðinu í síðasta leik hefur nú yfirgefið félagið á frjálsri sölu. „Fóstursonur hans“ Andy Carroll er nýkominn aftur til æfinga og nær þessum leik ekki. Valencia og Zarate eru einnig frá vegna meiðsla. Hinsvegar er Sakho klár í slaginn eftir að hafa verið skráður tæpur í vikunni.

Líkleg byrjunarlið West Ham
West Ham

Spá:
Vængbrotið lið West Ham og Liverpool lið á góðu skriði, þetta er ekki formúla til að fylla mann bjartsýni. Vonum nú samt að þetta lið okkar haldi áfram að vaxa og komist í 3-4 gír í þessum leik. Það dugar gegn West Ham. Spái 2-0 sigri í þessum leik með mörkum frá Lovren og Milner.

Dregið í Evrópudeildarriðla

Í dag var dregið í riðla Evrópudeildarinnar fyrir komandi vetur. Liverpool er í B-riðli ásamt Rubin Kazan, Bordeaux og Sion.

Vodki, vín og ostur. Sterkur riðill, í raun. Það verður áhugavert að sjá liðið tækla þessa áskorun. Divock Origi og Danny Ings, gólfið er ykkar.

Uppfært: Viðar Skjóldal er með hugmynd fyrir lesendur Kop.is í ummælum við þessa færslu. Ef ykkur langar í sérsniðin Liverpool-jakkaföt, skoðið þetta þá hjá honum.

Komdu með Kop.is á Anfield í janúar!

Komdu með Kop.is á stórleik Liverpool og Manchester United á Anfield í janúar!

Þá er komið að næstu hópferð okkar. Við förum aðeins eina í vetur og hún verður ekki af minni gerðinni en við ætlum á leik Liverpool og Manchester United á Anfield helgina 15. – 17. janúar n.k.!

Til að bóka ykkar pláss í ferðina farið þá á vef Úrval Útsýnar og fylgið leiðbeiningum þar.

Dagskrá ferðarinnar í grófum dráttum:

 • 3 dagar, 2 nætur
 • Íslensk fararstjórn
 • Flogið með leiguvél á vegum Úrval Útsýnar og Kop.is, eldsnemma á föstudagsmorgni
 • Flogið verður beint á John Lennon Airport í Liverpool
 • Innritun á Thistle Atlantic Tower, 4-stjörnu hótel í hjarta Liverpool, fyrir hádegi á föstudegi
 • Skoðunarferð á Anfield fyrir þá sem vilja
 • Frjáls dagskrá á föstudegi
 • Morgunmatur, upphitun fyrir leik og stórleikurinn sjálfur á laugardegi
 • Frjáls dagskrá á sunnudegi
 • Flogið heim frá John Lennon Airport seint á sunnudagskvöldi

Fararstjórn að þessu sinni annast:

 • Babú
 • Kristján Atli
 • Maggi
 • SSteinn

Þið lásuð rétt, fjórmenningarnir verða allir með að þessu sinni og lofa frábærri skemmtun að venju!

Verð er kr. 159.900,- á mann í tvíbýli.

Við látum vita um nánari dagskrá og slíkt þegar nær dregur, til dæmis á eftir að koma í ljós hvort leikurinn verður færður yfir á sunnudag, en við hvetjum fólk til að hika ekki heldur bóka sitt pláss strax á vef Úrval Útsýnar.

Við hvetjum United-aðdáendur endilega til að koma með líka. Þetta verður frábær ferð og ekki síður góð fyrir t.d. vini sem halda með sitt hvoru liðinu. Við tökum vel á móti United-aðdáendum í þessari ferð!

Kop.is Podcast #94

KOMDU MEÐ KOP.is Á STÓRLEIK LIVERPOOL OG MANCHESTER UNITED Á ANFIELD Í JANÚAR!

Hér er þáttur númer níutíu og fjögur af podcasti Liverpool Bloggsins!

KOP.is podcast – 94. þáttur

Þið getið hlustað á þáttinn beint með því að nota spilarann hér fyrir ofan en þið getið líka smellt á DOWNLOAD-takkann og sótt mp3-skrána ykkur til hæginda. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að þættinum á iTunes með því að setja þennan link, í RSS-áskrift undir podcast-lið iTunes.

Kristján Atli stýrði þættinum að þessu sinni og með honum voru Einar Örn og Maggi.

Í þessum þætti var rætt um leikinn gegn Arsenal, Mario Balotelli kvaddur og hitað upp fyrir West Ham.

Ath.: það var smá suð í hljóðnemanum hjá mér (Kristján Atli) í þættinum í kvöld. Ég biðst velvirðingar á því og vona að það trufli ekki hlustun.

Podcast: breyting á niðurhali

KOMDU MEÐ KOP.is Á STÓRLEIK LIVERPOOL OG MANCHESTER UNITED Á ANFIELD Í JANÚAR!

Hér er örlítil tilkynning: við höfum tekið út alla podcast-þætti á síðunni nema þá þrjá nýjustu. Framvegis verða aðeins þrír nýjustu þættirnir til niðurhals hverju sinni þannig að ekki bíða og safna upp þáttum til að hlusta á.

Næsti þáttur kemur inn í kvöld. Góðar stundir.