Latest stories

 • Gullkastið – Meistaradeildin í aðalhlutverki

  Meistaradeildarsæti á næsta tímabili er orðið raunhæfara í dag en það fyrir ekki svo löngu síðan en baráttan um sæti í 8-liða úrslitum á þessu tímabili er orðin töluvert snúnari. Fórum yfir misjafna leiki gegn Aston Villa og Real Madríd. Liverpool hefur auðvitað séð það svartara gegn spænskum risa fyrir leik á Anfield. Leeds bíður svo handan við helgina. Einfaldlega stærsta vika tímabilsins framundan.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 330

  [...]
 • Real heimsækja Anfield

  Það er stundum talað um að eitthvað sé skrifað í skýin.

  Tökum sem dæmi þátttöku Liverpool í meistaradeildinni í ár, og svo fyrir 16 árum síðan:

  • Liverpool fer inn í 8 liða úrslitin eftir að hafa sigrað þýskt lið.
  • Úrslitaleikurinn verður spilaður í Istanbúl, og ekki bara einhvers staðar í Istanbul heldur á Atatürk leikvanginum.
  • Á sama tíma er Liverpool að ströggla við að komast í topp 4 í deildinni.
  • Það er vitað að ef Liverpool kemst í undanúrslitin eru allar líkur á að liðið mæti Chelsea.
  • Hvorki Messi né Ronaldo eru með í 8. liða úrslitum, en a.m.k. annar þeirra hefur verið í 8. liða úrslitum frá árinu 2006 til og með ársins 2020.

  Er þar með skrifað í skýin að Liverpool vinni CL í vor?

  Skoðum líka næsta leik Liverpool í Meistaradeildinni:

  • Andstæðingarnir koma frá Spáni.
  • Liverpool tapaði útileiknum, og fékk þar á sig 3 mörk.
  • Liverpool þurfti að grafa virkilega djúpt í deildarleiknum milli leikjanna í meistaradeildinni, og náði aðeins að knýja fram sigur með marki í kringum 90. mínútu.

  Jú mikið rétt, þetta gæti hvort sem er átt við um seinni viðureign Liverpool gegn Barcelona árið 2019, eða seinni viðureign Liverpool gegn Real Madrid núna á miðvikudaginn.

  Er þá skrifað í skýin að Liverpool komist áfram á miðvikudaginn?

  Tja, skoðum samanburð við annan leik, sem fór fram fyrir rétt rúmlega ári síðan:

  • Andstæðingarnir koma frá Madrid á Spáni
  • Liverpool nægir að vinna 2-0 til að komast áfram
  • Leikurinn fer fram í skugga Covid-19

  Já mikið rétt, það eru líka ýmis líkindi með seinni leiknum gegn Atletico Madrid fyrir rúmu ári síðan. Er kannski skrifað í skýin að Liverpool detti út á miðvikudaginn, rétt eins og í seinni leiknum gegn Atletico?

  Ég skal segja ykkur smá leyndarmál, og hef það úr innsta búri veðurfræðinnar: Það er ekkert skrifað í skýin.

  Ef Liverpool vill komast áfram í undanúrslit CL árið 2021, þá þarf liðið að vinna leikinn á miðvikudaginn, að lágmarki með 2ja marka mun.

  Ef Liverpool vill vinna Meistaradeildina núna í vor, þá verður liðið að komast áfram núna á miðvikudaginn, vinna svo samtals í undanúrslitum, og svo að lokum að vinna úrslitaleikinn á Atatürk í vor.

  Engir afslættir, ekkert gefins, ekkert skrifað í skýin.

  Ég vona að Jürgen Klopp nái að koma þessum skilaboðum skýrt og skilmerkilega í hausinn á leikmönnum: Það er ekkert gefins, þeir verða að vinna fyrir hverju einasta marki og hverjum einasta sigri.

  Við vitum fyrir víst að ef Liverpool ætlar að spila seinni leikinn eins og það spilaði þann fyrri, þá er liðið á útleið úr Meistaradeildinni þetta árið. Mjög einfalt mál. Liðið verður líklega að ná svipuðum leik eins og það gerði gegn Barcelona á Anfield vorið 2019. Og í þetta skiptið verður það að gerast án áhorfenda, sem gerir þetta svona u.þ.b. 400% erfiðara. Já, Klopp lét hafa eftir sér að sigurinn gegn Barca forðum daga hafi verið svona 80% vegna áhorfenda.

  Líkleg byrjunarlið

  Real Madrid var í engu smá verkefni núna um helgina, en tóku sig til og unnu El Clásico. Þeir hafa svolítið verið að slást við meiðsli á síðustu dögum, þannig er Militao eitthvað tæpur, Vasquez er víst frá út tímabilið, og Valverde sem kom inná í leiknum á þriðjudaginn er líka tæpur. En málið með þetta Madridar lið er að það eru engir aukvisar í röðinni fyrir aftan, og þá oft leikmenn sem hungrar í að sýna hvað í þeim býr þegar tækifæri gefst. A.m.k. eru litlar líkur á að þessi leikur verði eitthvað auðveldur, eða að það verði einhverjir aumingjar í byrjunarliðinu hjá þeim.

  Okkar menn koma furðu heilir inn í þennan leik. Það hafa ekki borist fréttir af neinum nýjum meiðslum, en það hefur verið áhugavert að fylgjast með varamannabekk Liverpool í síðustu leikjum. Fyrir það fyrsta þá hefur Neco Williams t.d. ekkert sést síðan í landsleikjahléinu, hann spilaði þá fyrir Wales (t.a.m. í vinstri bak). Hann er ekki á opinbera meiðslalistanum, en undirritaður hefur lúmskan grun um að ef hann hefði t.d. verið heill fyrir fyrri leikinn gegn Real, þá hefði hann fengið pláss á bekknum á undan Jake Cain. Nú svo er Origi víst meiddur, og jú Curtis Jones var síðasti leikmaðurinn til þess að komast á meiðslalista klúbbsins þetta tímabilið núna á laugardaginn, en fram að því hafði hann verið a.m.k. í hóp (ef ekki í byrjunarliði) í hverjum einasta leik liðsins fram að þessu, og var sá eini sem hafði ekki misst úr leikdag vegna meiðsla. Hans meiðsli eiga þó að vera lítil, sem í okkar tilfelli þýða væntanlega að hann verður frá í 3-4 vikur (5 tops, aldrei meira en 6-8 vikur. 10 algert hámark). OK grínlaust þá er ekkert útilokað að hann nái leiknum á miðvikudaginn. Þá er Kelleher ennþá frá, svo hver veit nema Adrián fái tækifæri til að bæta fyrir frammistöðuna gegn Atletico ef Alisson forfallast (krossum fingur að þeir haldist bara báðir heilir!).

  Henderson er sá leikmaður sem ég hefði helst viljað fá til baka, en sem stendur er talað um seinnipartinn í apríl. Liðið er vissulega búið að sýna það í síðustu deildarleikjum að liðið *getur* unnið sigra án fyrirliðans, en tilfinningin er sú að líkurnar séu talsvert betri þegar hann er inná. Mögulega þarf liðið bara á því að halda að vera með leiðtoga inni á vellinum, er það e.t.v. tilviljun að Milner er búinn að vera inná í tveim síðustu deildarleikjum (sem unnust), en ekki inná í síðasta CL leik (sem tapaðist)? A.m.k. er undirritaður á því að Gini Wijnaldum sé ekki fyrirliði í eðli sínu, en hann hefur fengið það hlutverk í síðustu leikjum þegar Milner er ekki inná.

  Það er svo áhugavert að velta stöðu Trent aðeins fyrir sér. Ef við skoðum markið sem hann skoraði gegn Villa um helgina, þá má segja að hann hafi byrjað og endað þá sókn, og það sem meira er: hann byrjaði sóknina með því að fá boltann inni á miðri miðjunni:

  Við eigum ekki því að venjast að sjá Trent oft á nákvæmlega þessum stað. Hann er vissulega mjög oft framarlega, en þá yfirleitt frekar langt úti á kanti. Vissulega hjálpaði til að plássið sem hann hafði var talsvert, en var þetta e.t.v. taktísk ákvörðun þarna í lokin? Eða bara eitthvað sem honum datt í hug að gera án þess að spyrja kóng eða prest? Shaqiri var kominn út á hægri kantinn, ég átta mig ekki almennilega á því hvort einhver hafi verið í hægri bakverði og þá hver. Það sem Trent gerði líka sem gladdi undirritaðan var að gera árás á vörnina, í staðinn fyrir að stoppa með boltann, hika aðeins, leita að sendingarmöguleika, þá bara hljóp hann í það auða svæði sem hann sá og “the rest is history” eins og skáldið sagði. Persónulega væri ég alveg til í að sjá meira af þessu, kannski ekki endilega þannig að Trent verði færður í CAM stöðuna fyrir fullt og allt, heldur kannski meira þannig að þetta verði taktískt vopn í vopnabúrinu á tilteknum augnablikum í leiknum.

  Jæja, Klopp mun alveg örugglega vilja stilla upp sínu sterkasta liði í þessum leik. Nú fyrst reynir á hvort hann telji miðvarðarparið okkar endanlega klárt í bátana, eða mun hann freistast til að taka Fabinho aftur yfir í miðvörðinn? Ég er ekki sannfærður, en ég er reyndar ekki heldur sannfærður um að Ozan Kabak sé framtíðarleikmaður fyrir félagið. Nat Phillips finnst mér hafa gert mun meira til að eigna sér miðvarðarstöðuna, klárlega ekki besti knattspyrnumaður sem klúbburinn hefur alið, en er með þetta Liverpool hjarta sem er svo nauðsynlegt að sé til staðar. Auk þess er hann fáránlega öflugur þegar kemur að því að vinna skallabolta. Rétt að taka fram að við gerum okkur vonandi öll grein fyrir því að hann hefur sínar takmarkanir sem knattspyrnumaður, en eins og máltækið segir: “Betri er einn heill (þó hægur sé) miðvörður í byrjunarliði en tveir hraðir á meiðslalistanum”.

  Undirritaður spáir því að Gini Wijnaldum fái enn eitt tækifærið í byrjunarliðinu, þó svo að hann hafi ekki sýnt mikið í síðasta leik til að rökstyðja að hann eigi það skilið. Eða ætlar Klopp kannski að eiga hann á bekknum, líkt og í leiknum gegn Barcelona forðum? Það væri nú ekki ónýtt.

  Stillum þessu upp svona:

  Alisson

  Trent – Nat – Kabak – Robbo

  Gini – Fab – Thiago

  Salah – Bobby – Jota

  Já ég spái því að Mané fái að dúsa aftur á bekknum, enda var hann ekkert að heilla mann eitthvað brjálað með þessum örfáu mínútum sem hann fékk gegn Villa. En svo gæti auðvitað alveg verið að Klopp taki upp á einhverju öðru: henda fjórmenningunum öllum í byrjunarliðið (með Firmino dýpri, Fab og Gini þar fyrir aftan), svona sem dæmi.

  Það væri frábært ef liðið kæmist í undanúrslit, og þetta lið á alveg að vera fært um það. En guð minn almáttugur hvað verkefnið er mörgum sinnum erfiðara með enga áhorfendur á Anfield. Munum samt að árhorfendur eru engin trygging fyrir því að leikurinn vinnist, samanber leikurinn gegn Atletico í fyrra. Þetta mun því að mjög miklu leyti snúast um hvernig Klopp tekst að mótívera mannskapinn. Kemur hann með aðra línu á borð við “It’s probably impossible, but because it’s you, I think we have a chance”?

  Ef einhver getur það, þá er það Jürgen Klopp.

  [...]
 • Liverpool 2-1 Aston Villa

  Liverpool vann í dag mikilvægan sigur í baráttunni um Meistaradeildarsæti þegar liðið vann Aston Villa 2-1 í skringilega sjaldgæfum sigri á Anfield. Klopp gerði tvær breytingar frá tapleiknum gegn Real Madrid en Mane og Keita settust á bekkinn fyrir þá Firmino og Milner.

  Liverpool var nú töluvert betra liðið allt frá upphafi leiks. Stjórnaði leiknum, áttu nokkur ágætis færi og svona öllu jafna hefði maðu sagt að það væri bara tímaspursmál hvenær Liverpool myndi skora. Við búum hins vegar ekki lengur á þannig tímum svo hver sókn sem fór forgörðum gerði mann alltaf meira og meira stressaðan. Liverpool lendir svo undir gegn gangi leiksins þegar Ollie Watkins kom Aston Villa yfir eftir vandræðagang í vörn Liverpool og skot sem Alisson hefði átt að verja.

  Í raun brást Liverpool ágætlega við því og jafnaði metin þegar Firmino skoraði af stuttu færi en það var svo dæmt af í enn einu VAR sirkus atriðinu svo gestirnir leiddu inn í hálfleikinn. Klopp hélt óbreyttu liði inn á vellinum í síðari hálfleik og Liverpool hélt áfram að stjórna leiknum en var ekki alveg að ná að skapa sér eins mikið og það gerði svona fyrri part leiksins.

  Það var svo Mo Salah, en ekki hvað, sem skallaði boltann inn af stuttu færi eftr skot Robertson sem var varið. Fín skyndisókn Liverpool og 19.deildarmark Salah komið. Hann er hársbreidd frá því að vera kominn með þrjátíu í öllum keppnum í vetur sem er virkilega impressive í frekar bitlausu Liverpool-liði.

  Mér fannst Klopp og Liverpool nýta momentin eftir markið frekar illa. Ég hefði viljað sjá þá gera skiptingu og fórna jafnvel bæði Milner og Wijnaldum út af fyrir Thiago og Mane en það var ekki gert og momentumið tók að fjara aðeins út og Aston Villa komst aðeins meira aftur í leikinn og fóru sjálfir að sækja. Til að mynda átti leikmaður þeirra skot í innanverða stöngina, náði sjálfur frákastinu og boltinn framhjá. Liverpool skrapp heldur betur með skrekkinn þar.

  Klopp setti Thiago inn á fyrir Wijnaldum sem var ágætis skipting þannig lagað en á þeim tíma breyttist ekki mikið í leiknum, hann tók svo Firmino út af fyrir Mane sem mér fannst eiginlega bara gera hlutina verri og Mane náði aldrei að mér fannst takti við leikinn. Rétt undir lok venjulegs leiktíma tók Klopp Kabak út af fyrir Shaqiri og þá fóru hlutirnir að gerast. Svissneski fermeterinn fékk boltann á hægri vængnum, lyfti honum með hægri fæti inn í boxið og á Thiago sem á skot af stuttu færi sem var vel varið út í teiginn. Boltinn barst fyrir Trent í teignum sem þrumaði boltanum í netið í uppbótartíma. Geggjað mark og geggjaður sigur í ansi þéttri baráttu um Meistaradeildarsæti.

  Salah og Jota eru yfirburðarsóknarmenn í þessu Liverpool liði og mér fannst það sjást í dag. Þeir voru kannski ekki upp á sitt allra, allra besta en það var ógn af þeim og þeir áttu nokkur góð moment og hefðu báðir getað og átt að skora í dag fannst mér. Firmino átti góðan leik og sýndi ágætlega hve mikilvægur hann er í þessu liði þó hann sé ekki upp á sitt besta í vetur.

  Fabinho var sterkur á miðjunni eins og yfirleitt alltaf og Gini og Milner fínir en manni finnst þeir geta og eiga að geta gert betur, þá sérstaklega Gini. Trent skoraði gott mark en hefur átt betri leiki. Kabak fannst mér hafa getað gert betur í markinu en átti annars fín moment, Nat Phillips átti fínan leik og enn og aftur tapar hann varla skallaboltum.

  Ég held ég þurfi samt að gefa Andy Robertson titilinn sem maður leiksins en hann var að mér fannst sá sem stóð hvað mest upp úr. Flottur í vörninni og fór mikinn frammi í sókninni.

  Næst er seinni leikurinn gegn Real Madrid þar sem liðið er í ansi óspennandi stöðu eftir fyrri leikinn sem tapaðist 3-1 og eftir það eru eiginlega bara eftir deidlarleikir sem að Liverpool á að vinna ef maður horfir svona á pappírinn. Man Utd á Old Trafford er svona eini leikurinn sem telst stórleikur og er eftir svo maður setur kröfur á þetta lið að þeir safni stigum í þessum leikjum og sjái svo bara til hvar við endum í lok leiktíðar.

  Fyrst Real Madrid og Meistaradeildin og vonandi náum við öðru comeback-i gegn spænsku stórveldi á Anfield.

  [...]
 • Liðið gegn Aston Villa – Mane á bekknum

  Liverpool er að fara að mæta Aston Villa á Anfield eftir klukkustund og hefur Klopp gert tvær breytingar á byrjunarliði sínu frá tapleiknum gegn Real Madrid í miðri viku.

  Alisson

  Trent – Kabak – Phillips – Robertson

  Milner – Fabinho – Wijnaldum

  Salah – Firmino – Jota

  Bekkur: Adrian, Thiago, Mane, Keita, Chamberlain, Tsimikas, Shaqiri, Ben Davies, Rhys Williams

  James Milner og Firmino koma inn í liðið fyrir Naby Keita og Sadio Mane sem áttu alls ekki góðan leik gegn Real Madrid. Keita kom nokkuð óvænt inn í það byrjunarlið en svona fyrirfram var ágætis pæling í því en hann líkt og flestir leikmenn, og sérstaklega miðjumenn, Liverpool átti ekki góðan leik og var tekinn út af í fyrri hálfleik. Wijnaldum sem var nú alls ekki mikið skárri heldur sæti sínu í liðinu og gæti nú alveg talist heppinn að gera það.

  Það er enginn Jack Grealish hjá Aston Villa í dag sem eru vonandi ágætis fréttir fyrir Liverpool sem þarf mikið á sigri að halda í dag til að halda sér í baráttunni um Meistaradeildarsætið og vonandi kveikja neista fyrir erfiðan seinni leik gegn Real Madrid í næstu viku.

  [...]
 • Upphitun: Villa mætir á Anfield

  Eftir sigur gegn Arsenal í síðustu umferð og úrslitum liða í kringum fjórða sætið er aftur orðinn möguleiki að tryggja Meistaradeildarsæti í gegnum deildina. Liðið er nú þremur stigum frá West Ham sem situr í fjórða sæti eins og er. Á morgun mæta Aston Villa á Anfield, liðin mættust í október í fyrri leik liðanna í stórundarlegum leik í fjórðu umferð deildarinnar þegar Villa menn gjörsamlega gengu frá okkar mönnum og unnu 7-2 sigur á ríkjandi meisturum og var það kannski okkar fyrsta vísbending um það undarlega tímabil sem við vorum að ganga inn í.

  Aston Villa hefur átt ágætis tímabil og var lengi með í baráttu um Meistaradeildarsæti, allt þar til Jack Grealish þeirra langbesti leikmaður meiddist en hann hefur misst af síðustu sjö deildarleikjum. Villa menn hafa aðeins náð að sækja átta stig í þessum sjö leikjum án Grealish og er ekki búist við að hann nái leiknum á morgun og gæti jafnvel verið frá í mánuð í viðbót eftir bakslag um síðustu helgi. Ef það reynist rétt er ljóst að Aston Villa er fallið úr allri evrópubaráttu sem hefði getað verið raunveruleg í ár.

  Dean Smith þjálfari Aston Villa hefur náð að skapa skemmtilegt lið með áhugaverðum og góðum kaupum síðasta sumar en þeir sóttu meðal annars Emiliano Martinez frá Arsenal sem hefur verið frábær í markinu hjá þeim og tvo stráka úr Championsship deildinni, þá Matty Cash og Ollie Watkins sem hafa báðir reynst happafengur.

  Liverpool

  Eftir góðan sigur gegn Arsenal um síðustu helgi áttum við afleitan leik gegn Real Madrid í vikunni og komum okkur í ansi erfiða stöðu fyrir seinni leikinn næstkomandi miðvikudag. Liðið er þó nýkomið úr landsleikjahléi þar sem margir leikmenn fengu frí og það eru fjórir dagar milli leikja svo ég tel að við sjáum lítið hvílt milli þessara leikja.

  Keita og Trent áttu skelfilegan dag gegn Real í vikunni. Þeir voru langt frá því að vera þeir einu sem áttu vondan dag en flestir voru slakir í vikunni. Keita var skipt útaf í fyrri hálfleik og Trent á stóra sök í fyrstu tveimur mörkum Real. Báðir urðu fyrir kynþáttafordómum á samfélagsmiðlum í kjölfarið og hefur það eignað sér fyrirsagnirnar í vikunni. Umræðan um fordóma í fótbolta er of stór til að taka í upphitun og eins slæmt og það er að lesa um svona árásir á eigin leikmenn, eða á hvern sem er, þá er spurningin einnig hvað Klopp gerir með þá tvo eftir frammistöðuna. Klopp hefur oftar en ekki reynt að gefa mönnum séns á að svara fyrir sig strax í næsta leik og er nokkuð ljóst að Trent fær að byrja en Keita er stærri spurning.

  Ætla skjóta á að Keita fái tækifæri til að bæta fyrir leik sinn gegn Real og verði á miðsvæðinu með Fabinho og Thiago. Mane og Firmino hafa báðir verið langt frá sínu besta á tímabilinu og undanfarið hefur það verið Firmino sem hefur vikið þegar Jota kemur inn í liðið en hef það á tilfinningunni að Mane fái sér sæti á bekknum á morgun.

  Liverpool hefur ekki unnið heimaleik á Anfield síðan gegn Tottenham 16 desember en síðan þá höfum við spilað níu heimaleiki þar sem sex hafa tapast tvö jafntefli og eini sigurleikurinn var gegn Leipzig og var spilaður í Budapest. Ef Liverpool ætlar sér að komast í Meistaradeildarsæti og hvað þá snúa við eigvíginu gegn Real þá verður gegni liðsins á Anfield að lagast og fyrsta skrefið í þá átt er gegn Villa á morgun.

  Spá

  Eftir langa þrautagöngu á Anfield held ég að sigurinn komi loks á morgun þegar við vinnum 2-0 þar sem Jota og Salah setja sitt hvort markið.

  [...]
 • Real Madrid 3 – Liverpool 1 (Skýrsla uppfærð)

  Það er svo afskaplega spes hversu oft þetta lið kemur illa undirbúið inn í leiki. Strax frá fyrstu mínútu var eins og okkar menn hefðu enga trú á verkefninu. Í handbolta hefði maður sagt að þeir væru að reyna að skora tvö mörk í hverri sókn. Niðurstaðan: Menn bókstaflega runnu á rassinn oftar en einu sinni, sendingaklikk hægri vinstri og pressan máttlaus.

  Fyrri hálfleikur

  Fullkomnlega verðskuldað komust Real Madrid yfir á 25. Mínútu. Kroos átti sendingu yfir nánast allan völlinn á Vinícius sem átti frábæra fyrstu snertingu, stakk Nat Phillips af og slúttaði fagmannlega framhjá landa sínum. Ansi margir af okkar mönnum sem máttu gera betur þarna og spurning hvers vegna Kroos fékk svona langan tíma til að velja sér sendingu. Spurning sem var oft viðeigandi í kvöld. Maður vonaði innilega að þetta vekti okkar menn til lífsins.

  Það gerðist ekki. Þegar annað markið kom var maður mest hissa á að það hefði tekið heilar tíu mínútur. Aftur var það langur bolti en í þetta sinn var Trent algjörlega sökudólgurinn. Hann reyndi einhvers konar flugskalla á Alisson en misreiknaði sig herfilega og skallaði beint í lappirnar á Marco Ascencio sem lét ekki bjóða sér færið tvisvar og tvöfaldaði forystu heimamanna. Skömmu síðar fékk Mané gult fyrir mótmæli, heitt í hamsi eftir að hafa verið rúgbý tæklaður í bakið rétt fyrir markið.

  Þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks gerði Klopp nokkuð sem hann er alls ekki vanur: Breytingu snemma. Keita fór svekktur af velli og Thiago kom inn á í staðinn. Kabak gaf í kjölfarið Real gullið tækifærið til að komast í 3-0 og stuðningsmenn Liverpool komnir á bæn að hálfleikur væri flautaður á. Skelfing hreint út sagt. Liverpool ekki með skot! Notabene ekki núll skot á markið, núll skot!

  Seinni hálfleikur

  “Ok strákar, prófum að spila vel!” Sagði Jurgen Klopp væntanlega í hálfleik. Það var allt annað að sjá til Liverpool og liðið náði draumabyrjun. Wijnaldum, eftir að hafa verið ósýnilegur í fyrri, tók hlaup í átt að teig Real, gaf á besta portúgala í heimi sem skaut að sjálfsögðu. Skotið var klúðurslegt en datt fyrir lappirnar á Salah Konungi sem skaut í Curtois, slánna og inn! 2-1 og einvígið allt í einu galopið!

  Thiago hefur svo liðið eins og það vantaði eitthvað og náði sér í sitt vanabundna gula spjald, er einhver með tölfræðina yfir gul spjöld per 90 mínútur hjá honum? Hlýtur að vera með þeim hærri í þeirri tölfræði.

  Næstu mínútur jókst pressan á mark Real en færin komu á báða bóga. Það var darraðadans í vítateig Liverpool þegar þegar Thiago reyndi að vera of sniðugur. Svo gátu okkar men jafnað í skyndisókn en Mendy sýndi frábæra varnartakta. Eftir hornið náðu Real sinni eigin skyndisókn sem þurfti Hollywood varnartakta til að stoppa. En svo lagði Liverpool vörnin sig sem hóp og Modric hljóp beint í gegnum hana, gaf á Vinícius sem og kom Real í 3 -1 á 65. mínútu.

  Skelfilegt í alla staði og vindurinn horfin úr seglum okkar manna. Þetta mark steinrotaði okkar menn og í raun gerðu þeir ekkert markvert það sem eftir lifði leik. Eftir markið gerði Zidane breytingu og okkar menn fóru að vera mun meira með boltann. Gallinn var að Real voru að leyfa okkur að vera með boltann og þó boltinn gengi á milli okkar manna fyrir framan teiginn hjá Real þá avr enginn hætta á ferð.

  Á áttugustu mínútu gerði Klopp loksins breytingar, Shaqiri og Firmino komu inn fyrir Kabak og Jota. Ákaflega spes breyting og vonandi var þetta ekki útaf meiðslum hjá Kabak því drottinn minn ég vil hafa Fabinho á miðjunni. Trent lét svo veiða sig all hressilega í gildru og uppskar gult fyrir mótmæli.

  Svo gerðist ekkert. Þessar loka tíu voru við meira með boltann en aldrei líklegir, Real lokaði einfaldlega búllunni og það er fjall að klífa á Anfield eftir.

  Maður leiksins

  Robbo? Hann og Salah áttu skítsæmilega leiki sem þýðir að þeir báru höfuð og herðar yfir aðra leikmenn Liverpool í þessum tiltekna leik,

  Slæmur dagur.

  Klopp fær þessa vafasömu nafnbót í dag. Þegar hálft liðið mætir með hausinn öfugan inn á völlinn og þjálfari hins liðsins rassskellir þig taktískt þá áttirðu slæman dag.

  Umræðupunktar eftir leik

  • Klopp ætlaði væntanlega að sjá við Real með því að setja Keita óvænt inn fyrir Thiago og hámarka þannig pressuna af miðsvæðinu. Það voru það gekk engan vegin, miðjan okkar náði engum takti og þess fyrir utan sá Zidane við þessu með því að láta sína menn dæla boltanum yfir miðjuna okkar.
  • Eftir slakan leik missti Trent alveg hausinn þegar fór að líða á leikinn. Hann er ennþá ungur og ungir leikmenn eru í eðli sínu óstöðugir en maður hélt að hann væri búin að ná því úr kerfinu á sér.
  • Hvað var í gangi með þessar skiptingar í seinni hálfleik? Hvað vorum við að reyna að gera?
  • Kabak og Nat eru mjög fínir miðverðir, en á þessu stigi þarf frábæra miðverði og það er Liverpool ekki með.
  • Keita var líklega að stimpla sig úr framtíðarplönum Klopp, þetta gífurlega efni hefur bara engan veginn náð að verða að þeim leikmanni sem stuðningsmenn Liverpool héldu að þeir væru að fá á sínum tíma. Bara svo það komi fram: Gini var líka slæmur í þessum fyrri hálfleik og það hefði alveg verið hægt að skipta honum út á sama tíma punkti.
  • Oh Mané Where Art Thou? Hvað er langt síðan kallinn átti góðan leik, skil ekki hvað er búið að koma fyrir hann í vetur.
  • Venjulega myndi ég alltaf veðja á að Liverpool gæti komið til baka á Anfield eftir svona leik. Ég er ennþá tilbúin að veðja á það… en það verður lág upphæð.

  Næst á dagskrá

  Aston Villa. Harmur að hefna. Laugardagurinn. Í svona hundraðasta sinn í vetur verða okkar menn að svara fyrir skitu. Ég hef trú á þeim. Ekki mikla, en hún hverfur ekki.

  [...]
 • Byrjunarliðið klárt: Keita og Jota byrja!

  Það er ekki ofsögum sagt að stærsti leikur tímabilsins (hingað til) er að bresta á og ljóst hvaða byrjunarlið fær það verkefni að ganga fram á æfingarvelli Real Madrid. Varnarlínan er eins og flestir bjuggust við en man ekki eftir að hafa séð marga spá Keita í byrjunarliðinu ásamt Fabinho og Wijnaldum. Jota er svo verðlaunaður fyrir frábæra innkomu um helgina með því að byrja. Það verður að teljast ágætt að eiga bæði Bobby og Thiago inni til að breyta leiknum. Einnig fæst það væntanlega staðfest í kvöld hvort Ben Davies sé til, en hann er allavega á bekknum.

  Lið Real er eftirfarandi:

   

   

  Fyrir þá sem eru að farast úr spenningi og vilja stytta sér stund fram að leik mæli ég auðvitað með Gullkasti gærkvöldsins.

   

  Hvernig líst ykkur á?

  [...]
 • Gullkastið – Frá höfuðborg Englands til höfuðborgar Spánar.

  Real Madríd bíður í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og hressandi yfirspilun á Emirates var einmitt upphitunin sem við þurftum fyrir það. Reyndar líka þessi upphitun frá því í gær. Baráttan um Meistaradeildarsæti er síður en svo búin en Liverpool nær að spila svona áfram.

  Stjórnandi: Maggi
  Viðmælendur: SSteinn og Einar Matthías

  MP3: Þáttur 329

  [...]
 • Helvítis Real Madríd

  Landslagið hefur breyst þó nokkuð á þeim skamma tíma sem er liðin frá því Liverpool mætti Real Madríd síðast í Meistaradeildinni. Hópur spænska liðsins samanstóð af leikmönnum með samanlagt yfir þúsund leiki í Meistaradeildinni á móti Liverpool liði sem var að mestu að stíga sín fyrstu skref í keppninni. Sá leikur fór eins og við þekkjum og Real Madríd vann sinn þriðja Meistaradeildartitil í röð og þann fjórða á fimm árum. Einfaldlega eitt af betri liðum sögunnar

  Tilfinningin þá var engu að síður sú að stutt gæti verið í endalok valdatíma spænsku risanna sem annars drottnuðu yfir öðrum áratug aldarinnar. Stuðningsmenn Liverpool vonuðust auðvitað eftir því að þeirra valdatíma myndi ljúka í Kiev og óbragðið eftir þá viðureign er síður en svo farið. Ágætt dæmi um þetta óbragð er t.d. þegar að einum stuðningsmanni Liverpool var boðið að hitta fyrirliða Real Madríd er hann var með pabba sínum að skoða aðstæður hjá spænska risanum. Ungi strákurinn sem var á leiknum í Kiev hafnaði boðinu pent og sagðist ekki hafa líkað það sem hann gerði Salah. Þetta var þáverandi unglingaliðsmaður Fulham og eitt mesta efnið í heimsfótboltanum, Harvey Elliott.

  Raunar skilur saga Real Madríd eftir sig óbragð líkt og tekið hefur verið rækilega á í upphitunum fyrir síðustu viðureignir liðanna. Árið 2014 skoðuðum við hvernig Franco lagði með beinum og óbeinum hætti grunninn að því veldi sem þeir urðu á stofnárum Evrópukeppni Meistaraliða, m.a. með sínum manni Santiago Bernabeu. Þjófnaður þeirra á Di Stefnao er sérstaklega lýsandi fyrir félagið þá og ekki bendir margt til þess að þetta sé eitthvað mikið betra nú.

  Árið 2019 kynntum við okkur svo forseta félagsins Florentino Perez, langmikilvægasta mann félagsins. Hann endurvakti galaticos innkaupastefnu félagsins í kringum aldamótin. Perez stofnaði verktakafyrirtækið ACS sem er í dag alþjóðlegur risi, ekki síst einmitt þökk sé fjölmargra grunsamlega hagstæðra verkefna sem þeir fengu frá stjórnvöldum á Spáni. Besta dæmið er innkoma hans til Real Madríd um aldamótin er félagið var skuldum vafið. Verktakinn Florentino Perez seldi borgaryfirvöldum í Madríd æfingasvæði Real í miðborg Madríd á €480m sem var fullkomlega galin fjárhæð. Tæplega fjórum sinnum hærri fjárhæð en velta félagsins var þá. Real keypti í staðin land undir nýtt æfingasvæði fyrir brotabrot af þessari fjárhæð. Það var ekki allt heldur fór landið sem Real seldi í byggingu þriggja háhýsa sem ACS verktakafyrirtæki Florentino Perez var svo einstaklega heppið að fá. Hrein tilviljun auðvitað. Hið gríðarlega skuldsetta Real Madríd keypti þá um sumarið m.a. Figo frá Barcelona og Makalele.

  Real Madríd og Barcelona hafa undanfarna tvo áratugi haft töluvert samkeppnisforskot á keppinauta sína, ekki bara heima á Spáni heldur líka í Evrópu sem hefur hjálpað þeim við að sannfæra bestu leikmenn í heimi að ganga til liðs við félögin. Þessi félög hafa raunar í gegnum söguna jafnan keypt bestu leikmenn í heimi en það var ekkert lögmál áður fyrr að þeir nánast yrðu að fara til Real Madríd eða Barcelona ef þau lið sýndu áhuga. Áhugi bestu leikmanna frá Suður-Ameríku á þessum liðum er ekkert bara vegna þess að þetta er kúltúr og veðurfar sem þeir tengja betur við eða vegna þess að La Liga var sýnd í þeirra heimalandi. Þau gátu boðið þeim miklu betri kjör (og auðvitað fylgdi velgengni oftar en ekki með).

  Margt af þessu sem veitti spænsku risunum samkeppnisforskot á ekki lengur við, ekki í eins afgerandi mæli og líklega erum við nú þegar farin að sjá áhrifin. Enginn hefur talað meira fyrir sjálfstæðri Evrópskri Ofurdeild sem myndi tryggja enn meiri tekjur stærstu liðanna en Florentino Perez, ekki bara núna heldur undanfarin 20 ár. Aldrei meira en núna samt þegar Real Madríd hefur ekki það gríðarlega forskot á leikmannamarkaðnum sem það hafði.

  Beckham Law 2003

  Eitt af því sem hjálpaði La Liga að taka við keflinu af Seria A og Premier League sem heimavöllur stærstu stjarnanna á fyrsta áratug nýrrar aldar voru m.a. svokölluð Beckham lög sem sett voru á Spáni árið 2003. Lögin höfðu svosem ekkert með Beckham að gera beint utan þess að hann var fyrsta ofurstjarnan sem hagnaðist á þeim. Lögin voru sett til að laða erlenda ríkisborgara, helst vel efnaða til Spánar og gengu út á að þeir þurftu aðeins að greiða 23% skatt af tekjum sínum á Spáni fyrsta árið og svo í fimm á eftir það, samtals allt að sex ár. Þetta átti ekkert bara við um knattspyrnumenn en hafði auðvitað mikil áhrif fyrir lið eins og Real Madríd og Barcelona sem gátu samið á allt öðrum grundvelli en ensku, þýsku og ítölsku risarnir. Spænsku liðin höfðu fyrir forskot hvað tekjur á leikdegi og sjónvarstekjur varðar.

  Árið 2010 í kjölfar fjármálakreppu voru gerðar breytingar á þessum reglum þar sem þak var sett á hversu háar launatekjurnar máttu vera sem féllu undir þessi lög, það útilokaði flestar stærstu stjörnunar. Árið 2015 var lögunum svo breytt aftur þannig að íþróttafólk var sérstaklega tekið út fyrr sviga þannig að það fellur ekki undir Beckham regluna lengur. Skattur á erlenda knattspyrnumenn er því í takti við önnur lönd núna.

  Launatekjur stærstu stjarnanna eru reyndar ekki lengur eins mikilvægar og þær voru fyrir 15-20 árum, ímyndarrétturinn er öllu stærra mál í dag og eru þær tekjur jafnan meira í rekstrarfélögum og skattlagt sem rekstrarfélag (ekki einstaklingar). Spænski skatturinn hefur hjólað af hörku í stærstu stjörnurnar undanfarin ár enda kom á daginn að þeir voru flestir með tekjur sínar faldar í skattaskjólum utan spánar. Ronaldo og Messi voru t.a.m. báðir dæmdir fyrir slíka fjármálafimleika.

  Jafnari skipting sjónvarpstekna

  Árið 2015 var einnig gerð stór breyting á reglum La Liga sem hefur töluverð áhrif á Real Madríd og Barcelona. Spænsku risarnir höfðu fram að því réttinn á sínum leikjum og tóku auðvitað hagnaðinn af sjónvarpstekjum sinna leikja sem voru miklu hærri en minni liðin gátu aflað. Hin 18 liðin í deildinni höfðu lengi barist fyrir miklu jafnari skiptingu á sjónvarpstekjum og voru flest meira og minna í fjárhagserfiðleikum. Þau bentu á að án þeirra væri deildin lítið, krafan var svipað kerfi og þekkist á Englandi, sem hafðist loks árið 2015.

  Núna dreifast 50% af sjónvarpstekjum deildarinnar jafnt á öll liðin en hinum helmingurinn fer eftir árangri. Real og Barcelona fá ennþá langmest en ekki nálægt því þrefalt eða fjórfalt á við næstu lið eins og tíðkaðist fyrir árið 2015.

  Er enda von að forráðamenn Barcelona og Real Madríd eru meðal þeirra sem eru í fararbroddi um að stofna nýja ofurdeild í Evrópu, mjólkurkúin er hætt að gefa eins mikið. Skuldastaða beggja er þannig að núna tala þeir eins og Ofurdeild sé algjör nauðsyn fyrir framþróun fótboltans. Fögnum hverju ári meðan svo er ekki.

  Tími Messi og Ronaldo er liðin

  Einokun Barcelona og Real Madríd undanfarin áratug má að mjög miklu leiti rekja til Messi og Ronaldo sem eru báðir á topp fimm yfir bestu leikmenn sögunnar. Raunar erfitt að færa rök fyrir öðru en að þeir séu númer eitt og tvö á þeim lista. Messi þá að sjálfsögðu númer eitt.

  Þeir hafa báðir auðvitað verið partur af frábærum liðum sem munu alveg halda áfram að vera partur af elítunni. En án þeirra eru tennurnar töluvert teknar úr báðum liðum og það er enginn beinn arftaki í sjónmáli eins og staðan er núna. Bæði lið þurfa raunar að endurnýja liðin töluvert, ekki bara fylla þeirra skörð.

  Messi er vissulega ennþá hjá Barcelona, samningurinn rennur út í sumar og hann verður 34 ára í júní. Það er ágætt dæmi um hversu mikil bull hann og Ronaldo hafa verið að Messi er búinn að skora 23 mörk í deildinni í vetur og leggja önnur átta mörk upp í 24 leikjum. Samt er það í Barcelona liði sem er langt frá bestu Barca liðunum sem Messi hefur verið partur af. Guði hjálpi þeim sem ætlar að fylla þetta skarð. Hvorugur er partur af 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrsta skipti í 16 ár (samt spila þeir með Barcelona og Juventus).

  (more…)

  [...]
 • Leikir hjá kvennaliðinu og U23

  Þetta er ein af þessum helgum þar sem öll liðin okkar eru að spila. Aðalliðið afgreiddi Arsenal jú eftirminnilega í gær, en fyrr um daginn höfðu U18 afgreitt United 0-1 í útileik í bikarnum.

  Í dag eru svo tveir leikir – sem hófust reyndar báðir núna kl. 11. U23 liðið okkar mætir Brighton, og stilla svona upp:

  Hughes

  Gallacher – Beck – Savage – Boyes

  Clayton – Clarkson – Dixon-Bonner

  Longstaff – Hardy – Woodburn

  Sumir þeirra sem hafa verið að spila með U23 léku með U18 í gær, eins og Billy Koumetio t.d., og svo er Jake Cain á bekknum. Liðið er strax lent 0-1 undir þegar þetta er skrifað.

  Stelpurnar okkar eru svo að spila við Lewes, og þetta er byrjunarliðið hjá þeim:

  Foster

  Roberts – Fahey – Moore – Hinds

  Jane – Bailey – Holland

  Hodson – Linnett – Furness

  Bekkur: Heeps, Robe, Thestrup, Lawley, Rodgers, Kearns, Parry

  Aftur er Rachel Laws frá vegna meiðsla, og því heldur Rylee Foster stöðu sinni í markinu, enda nýbúin að framlengja samning sinn við liðið.

  Liðið er strax komið 1-0 yfir eftir sjálfsmark Lewes snemma leiks. Leikurinn er hvorki sýndur á The FA Player, né á opinberu rásinni hjá Liverpool, en hins vegar eru Lewes með streymi á sinni YouTube rás.

  Við komum svo með úrslit síðar í dag úr báðum þessum leikjum.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close