Menn eða mýs?

Nú reynir á. Eftir langa og flotta sigurgöngu þá kom heldur betur bakslag í hlutina um síðustu helgi. Þessi 15 mínútna svefn sem liðið ákvað að taka á móti Bournemouth sló menn all svakalega niður á jörðina frægu. Það hefur svo sannarlega myndast tími til að fara vel yfir hlutina. Skoða myndbandið aftur og aftur og aftur og aftur. Það þarf ekkert að segja við þessa drengi, bara sýna þeim það hvernig þeir stimpluðu sig út úr vinnunni áður en vinnudagurinn kláraðist. Vonandi eigum við ekki eftir að berja hausnum við vegginn í vor og harma þessi stig sem töpuðust gegn Bournemouth og skiptu algjörlega sköpum í uppgjöri tímabilsins. Vonandi ekki. Það er allavega eitt sem er algjörlega á tæru, það getur enginn gert nokkurn skapaðan hlut í þessum málum núna. Sá leikur er búinn og við náum engu að breyta varðandi hann. Menn hafa aftur á móti svaðalegt tækifæri á að læra mikið af þeim leik og nýta þann lærdóm í þann næsta.

Þannig að nú reynir á. Það eru allir sem eitthvað smá vit hafa á fótbolta, sammála um það að þetta Liverpool lið hefur verið eitt það allra besta á tímabilinu og í þokkabót það lið sem skemmtilegast er að horfa á. Menn rifu sig upp á rasshárunum eftir vond úrslit gegn Burnley (voru óheppnir að taka bara eitt stig gegn Spurs á þeirra heimavelli) og litu hreinlega aldrei um öxl. Stóra málið var að þeir lærðu af mistökunum. Núna kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir, eru menn alvöru menn eða bara mýs sem skríða inn í holuna sína við mótlætið. Auðvitað eru meiðsli að herja á lykilmenn liðsins þessa dagana, en hópurinn er nokkuð stór og vel stór sé mið tekið af því að liðið er ekki í Evrópukeppni. Nú reynir á að Klopp komi þeim í gang á ný. Eitt stykki Barcelona æfingaferð ætti ekki að hafa gert mikið ógagn í því að berja menn saman.

Þetta West Ham lið er alveg með ólíkindum. Voru verulega sterkir í fyrra og náðu mörgum frábærum úrslitum gegn stærstu liðunum. Þeir kvöddu sinn gamla heimavöll á ári sem þeir náðu inn í Evrópukeppni. En hvað? Hvað gerðist? Hvernig getur þetta vel mannaða lið með Bilic í brúnni verið í sautjánda sæti í deildinni, stigi fyrir ofan fallsæti og þrem stigum frá botnsætinu. Þetta allt eftir heilar 14 umferðir í deildinni. Á nýjum heimavelli og búnir að styrkja liðið talsvert án þess að missa frá sér neina lykilmenn. Hvernig fóru þeir í þetta? Heimavöllurinn er vonlaus, hreinlega ónýtur sem fótboltavöllur. Eitthvað hefur verið um meiðsli. Þeir duttu þráðbeint út úr Evrópukeppninni. Hvað er að? Er það Bilic? Er það völlurinn? Eru það stuðningsmennirnir? Eru það meiðslin? Er það skipulagið? Eru það mótherjarnir? Eru það vond kaup? Ætli það sé hreinlega ekki sitt lítið af hverju. Völlurinn og stuðningsmennirnir eru ekki að hjálpa þeim, en það getur aldrei verið lykilástæðan. Það er sko gras á vellinum og boltinn rúllar þar svipað og á öðrum grasvöllum. Þeir hafa heldur ekkert verið að brillera á útivöllum, sömu útivöllum og þeir stóðu sig vel á, á síðsta tímabili. Svei mér þá, Bilic hlýtur bara að eiga svolítið stóran þátt í þessari niðursveiflu.

Þeirra markahæsti leikmaður er kantur/væng bakvörður, það segir okkur talsvert um vandamálið þeirra. Talsverð gagnrýni hefur verið á varnarleik Liverpool á tímabilinu, en liðið hefur fengið á sig 18 mörk í 14 leikjum, sem er of mikið. West Ham hafa fengið á sig heil 29 mörk. Það væri kannski minna alvarlegt ef þeir hefðu ekki skorað heilum 20 mörkum færra en leikmenn Liverpool hafa gert í deildinni. Það er nefninlega ákveðið vandamál ef þú skorar lítið og færð mikið af mörkum á þig. Aðeins eitt lið í deildinni hefur fengið fleiri mörk á sig en West Ham en 5 lið hafa skorað færri mörk. Þetta skilar liðum einfaldlega í botnbaráttu, svo einfalt er það nú.

En það þýðir ekki það að ekki finnist hættulegir leikmenn í liði mótherja okkar, síður en svo. Það kemur líka að því að fótboltalið með þetta góða einstaklinga hrökkvi í gang. Vonandi gerist það ekki í þessum leik, en hversu dæmigert væri það nú samt? Maður eins og Payet er einfaldlega gæða knattspyrnumaður sem þarf að hafa góðar gætur á. Sama má segja um Antonio og Lanzini og nokkra fleiri. Menn eins og Collins, Kouyate, Sakho, Tore og Byram verða líklegast ekki með. Koyate telst líklegast sem lykilmaður hjá þeim, en aðrir síður.

En að okkar mönnum. Aðeins er byrjað að meitlast úr þessu frábæra liði okkar. Lykilmaður eins og Coutinho verður ekki með á næstunni og sama má segja um Daniel Sturridge. Ings er auðvitað frá út tímabilið og Sakho ennþá tognaður í toppstykki. Matip og Mané ættu að ná leiknum, en þeir eru búnir að vera að kljást við meiðsli. Adam Lallana fer vonandi að nálgast sitt “gamla” form, enda fékk hann aðeins að hlaupa í síðasta leik. Ég verð reyndar að fá að nýta mér tækifærið og halda áfram að hrósa honum Matip mínum, hann bara virðist ekki geta gert neitt rangt þessa dagana. Hann er sem sagt búinn að útiloka það að hann yfirgefi Liverpool í janúar til að taka þátt í Afríkukeppninni. Vel gert minn maður Matip (Sadio, ég er að horfa á þig núna…).

Sem sagt, allt klárt í að koma okkur aftur á beinu brautina. Firmino búinn að klára dapra leikinn sinn í bili og allt í standi til að taka annað álíka “rönn” og síðast. Karius heldur sæti sínu í markinu, ekki nokkur spurning um það og Klopp búinn að taka af allan vafa í viðtölum í dag. Clyne á auðvitað hægri bakk stöðuna og Milner mun girða sig í brók vinstra megin og sýna aftur af hverju hann er talinn sá besti í þeirri stöðu á tímabilinu. Matip og Lovren fá svo aftur tækifæri á að rækta sitt samband í vörninni. Hendo heldur áfram þar fyrir framan, en ég er í talsverðum vandræðum með að ákveða mig hvað ég eigi að giska á hverjir verði þar fyrir framan. Lallana klár á ný og svo erum við með Can og Wijnaldum. Einn mun verða útundan, það er ljóst. Ef ég fengi að ráða, þá myndi ég fara inn í leikinn með Lallana, allan tímann. Hann er bara það skapandi á miðjunni að ég vil helst ekki vera án hans. Þá er það bara beint val á milli Gini og Can. Can skoraði í síðasta leik, en mér fannst hinn heilt yfir betri í leiknum. Auðvitað er alltaf meira áberandi þegar menn skora, en mér fannst Hollendingurinn spila betur og því myndi ég byrja með hann. Ég held þó að Klopp fari ekki eftir mínum ráðum og að hann muni spila þeim Can og Wijnaldum saman. Firmino og Mané verða svo fyrir aftan Origi. Sterkt lið, engin spurning og vonandi að þeir bara skili þessum 3 stigum í hús sem við þurfum svo mikið á að halda.

Karius

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Wijnaldum – Henderson – Can

Mané – Origi – Firmino

Og hvað? Hvað er til ráða? Ég man eftir teiknimyndasögum frá því þegar ég var ungur. Fótboltafélagið Falur hétu þessar bækur. Þegar allt gekk á afturfótunum hjá liðinu, þá var breskur þjálfari ráðinn sem var ekkert að stressa sig mikið yfir því að þjálfa þessa snillinga sem hann fékk upp í hendurnar. Hann sagði þeim bara að spila fótbolta, og það á ensku. Þegar búið var að þýða það fyrir drengina, þá gerðu þeir það einmitt, spiluðu fótbolta og fóru að vinna leiki. Þetta lið okkar er ekkert Falslið, en þeir kunna svo sannarlega fótbolta. Klopp mun einfaldlega segja þeim að vaða út á þennan völl og spila sinn leik. Geri þeir það, án þess að taka sér 15 mínútur í væran blund, þá munu þeir keyra yfir þetta West Ham lið sem við gátum ekki sigrað í fjórum tilraunum á síðasta tímabili. Það er bara ein F*****g regla, bara negla…þetta West Ham lið. Meira var það ekki.

Newport/Plymouth í 3.umferð

Í kvöld var dregið í 3.umferð FA bikarsins.

Steven Gerrard og Ian Wright stjórnuðu drættinum og við fengum heimaleik við annað tveggja D-deildarliða, Newport sem eru í neðsta sæti þeirrar deildar eða Plymouth sem eru í þriðja sætinu í League Two.

Við hljótum að ætlast til þess að komast áfram úr þeirri viðureign.

Leikurinn er leikinn á bilinu 6. – 9.janúar.

Bournemouth – Liverpool 4-3 [skýrsla]

Bestu leikmenn Liverpool
Svakalegur Jekyll & Hyde leikur hjá okkar mönnum. Sadio Mane skoraði gott mark, átti þátt í öðru markinu og lagði upp það þriðja. Hann var að vinna boltann mjög oft varnarlega og var tekinn útaf á 70.mínútu. Hann er klárlega maður leiksins hjá Liverpool. Hann á samt klárlega 1-3 gíra inni.

Can og Henderson voru líka góðir á miðjunni þar til liðið féll saman í heild sinni undir lokin. Lykilmanna eins og Coutinho og Matip var sárt saknað í dag og hafði það áhrif á holningu liðsins í heild.

Vondur dagur
Úff hvar á maður að byrja. Liðið í heild fær falleinkun fyrir að mæta ekki til leiks í seinni hálfleik og fá á sig fjögur fjandans mörk. Þeir héldu að þetta væri komið eftir frábæran fyrri hálfleik og það varð liðinu að falli í dag.

Liverpool þarf að skora of mörg mörk í of mörgum leikjum til að vinna, það er endalaust búið að vara við því að það gengur ekki endalaust og í dag var komið að skuldadögum. Þrjú mörk duga ekki gegn Bournemouth, galið. Lovren og Milner gera agaleg mistök í fyrsta markinu og koma Bournemouth mönnum á bragðið. Lovren er alls ekki sami leikmaður þegar hann hefur ekki Maitp með sér og öll tölfræði staðfestir það. Með Matip hefur Liverpool fengið á sig 9 mörk í 11 leikjum og ekki tapað. Án hans hefur liðið tapað 2 af 3 leikjum og fengið á sig 9 mörk. Lucas/Klavan eru ekki mikil samkeppni við Loven og Matip og er þetta staða sem mögulega er hægt að bæta. Á svona dögum hjálpar það alls ekki neitt að hafa leikmann eins og Sakho í skammarkróknum, þurfum þannig miðvörð til vara, bara aðeins gáfaðari.

Karius átti síðan mjög vondan dag fyrir aftan ömurlega vörn Liverpool, boltinn vissulega datt alltaf frábærlega fyrir Bournemouth menn en hann hefði líklega átt að gera betur í öðru markinu og eins fjórða markinu. Það var stundum eins og hann væri með smjör á hönskunum. Held samt að við ættum að slappa af í Mignolet köllum enn um sinn, Liverpool var að klúðra leikjum reglulega með svipuðum hætti í fyrra.

Firmino fannst mér vera úr stöðu á löngum köflum í þessum leik og liðið saknaði pressunar sem hann gefur sem fremsti maður. Origi skoraði gott mark en gerði sama og ekkert þar fyrir utan. Gríðarlega lélegur í seinni hálfleik og hefði farið útaf ef eitthvað eldra en 19 ára væri til vara.

En eins og áður segir, þá er hægt að taka alla leikmenn liðsins fyrir og kenna þeim um en þessi skita skrifast á liðið í heild. Þeir komu allt of værukærir til leiks í seinni hálfleik eftir frábæran fyrri hálfleik.

Umræðan eftir leik
Liverpool vinnur ekki titla með svona varnarleik, það er ljóst. Hvort er normið, liðið sem var farið að virka solid varnarlega undanfarnar vikur eða þetta lið sem við höfum séð reglulega undanfarin ár. Það væri fróðlegt að sjá tölfræði yfir það hversu oft t.d. Lovren og Clyne hafa verið í liði sem tapar niður 1-2 tveggja marka forystu. (Tek þá sem dæmi þar sem þeir hafa spilað með liðinu undanfarin ár). Þetta lið tapar ótrúlega oft niður “unnum” leik og það er gríðarlega svekkjandi. Áhyggjuefni.

Karius virðist ætla að fá á sig mesta þungan í gagnrýni eftir þennan leik. Hann verður að taka því en miðvarðaparið þarf að taka megnið af þeim skít á sig líka að mínu mati. Fjögur mörk í einum hálfleik gegn Bournemouth er ekki boðlegt.

Allt tal um titilbaráttu og pressa samhliða því færist núna (réttilega) af Liverpool á Chelsea og Arsenal. Liverpool er enn eitt árið að tapa stigum gegn liðum eins og Burnley, Bournemouth og fyrir stuttu Southampton. Það er mjög dýrt í maí og merki um óstöðugleika.

Tímabilið er langt í frá búið tapleikir gerast ekkert mikið meira óþolandi en þetta. Þetta lið sérhæfir sig í að koma stuðningsmönnum sínum harkalega niður á jörðina.

Næsta verkefni
West Ham heima, það lið gat ekki neitt í gær og það er eins gott fyrir okkar menn að bæta fyrir þennan leik. Okkar menn hafa ekki verið sannfærandi síðan eftir síðasta helvítis landsleikjahlé og þurfa að fara sýna klærnar aftur, allar 90 mínúturnar.