Latest stories

 • Gullkastið – Ofur Október

  Enski boltinn fer aftur af stað með látum um helgina og Meistaradeildin í næstu viku eftir ótrúlega langa bið. Kvennalið Liverpool hefur fengið sviðið undanfarið meðan karlaliðið hefur nánast verið í pásu en tímabilið var að hefjast hjá þeim með Liverpool á ný deild þeirra bestu. Fókusinn á þetta og fleira í þætti vikunnar og var Daníel Brandur með í þessari viku nýkominn af Anfield þar sem hann sá Liverpool – Everton fyrir fullum velli.

  Stjórnandi: Maggi
  Viðmælendur: SSteinn og Daníel Brandur

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils Gull       Húsasmiðjan          Sólon           Jói Útherji         Ögurverk ehf

  MP3: Þáttur 397

  [...]
 • Derby slagur á Anfield hjá stelpunum

  Það fer að bresta á með leik kvennaliða Liverpool og Everton sem fer fram síðar í dag, eða kl. 17:45 að íslenskum tíma. Við uppfærum færsluna með upplýsingum um byrjunarliðið um leið og það verður gefið út, en við vitum þó að Leanne Kiernan verður frá fram yfir áramót vegna ökklameiðslanna sem hún lenti í um síðustu helgi, og munar um minna. Þá vitum við líka að Shanice van de Sanden er ekki leikfær þó hún hafi sést á myndum af æfingasvæðinu í vikunni. Matt Beard talaði um að hún yrði jafnvel frá í mánuð. Það er því spurning hvernig verður stillt upp á eftir, líklegast er kannski að Yana Daniels komi beint inn í framlínuna, en mögulega verður haldið áfram með tilraunina að setja Taylor Hinds fram og setja þá Megan Campbell í vinstri vængbakvörðinn. Kemur í ljós á eftir.

  Leikurinn verður sýndur á Viaplay eins og síðast, og líklega á The FA Player (en gæti þurft VPN tengingu fyrir Bretland).


  UPPFÆRT: liðið lítur svona út:

  Laws

  Flaherty – Fahey – Matthews

  Koivisto – Holland – Kearns – Campbell

  Lawley – Stengel – Hinds

  Bekkur: Cumings, Kirby, Robe, Silcock, Roberts, Furness, Humphrey, Wardlaw, Daniels

  Það er semsagt lagt upp með uppstillinguna eins og hún var eftir að Kiernan fór útaf meidd í síðasta leik með Hinds í vinstri framherja og Megan Campbell í vinstri vængbakverði. Innköstin hennar gætu vegið þungt í kvöld.

  Nýliðinn Emma Koivisto á afmæli í dag og við óskum henni að sjálfsögðu þriggja stiga í afmælisgjöf.

  KOMA SVO!!!


  UPPFÆRT AFTUR: ekki okkar dagur, því bláklædda liðið vann 0-3. Frammistaðan í fyrri hálfleik var bara alls ekki nógu góð, Everton meira með boltann og miklu ákveðnari. Í raun heppni að fara bara 0-2 inn í hálfleik. Rachel Furness kom inná fyrir Missy Bo í hálfleik, og það ásamt einhverju tiltali frá Matt Beard gerði það að verkum að leikurinn jafnaðist heldur, en ekki nóg til að okkar konur næðu að skora. Í staðinn náðu Everton konur að bæta við þriðja markinu undir lok leiks.

  Það komu vissulega einhver færi og með smá heppni hefðu e.t.v. einhver þeirra ratað inn. Stengel vann boltann og slapp í gegn en náði ekki skoti um miðjan fyrri hálfleikinn, og Ceri Holland fékk ákjósanlegt tækifæri nokkru síðar en skaut framhjá. Undir lok leiksins hefðu svo bæði Yana Daniels og Katie Stengel mögulega náð að pota inn boltanum, en þetta féll ekki með okkar konum.

  Áhorfendafjöldinn var rétt undir 30 þúsund sem er betra en í leiknum árið 2019, setið í neðri hluta allra stúknanna, og Kop endinn var nánast alveg fullur. Hins vegar vantaði talsvert upp á stemminguna og söngvana, enda talsvert öðruvísi aldurssamsetning á áhorfendaskaranum en í leikjum karlaliðsins. Auk þess var það talsvert til vansa að í þrjú skipti hlupu áhorfendur inná og trufluðu leikinn. Svona lagað á auðvitað ekki að sjást.

  Auðvitað skammt liðið á leiktíðina og ekki gott að leggja mat á stöðuna alveg strax, en liðið er um miðja deild með 3 stig eftir fyrstu tvo leikina. Næstu þrír leikir verða allt annað en auðveldir: Spurs, Arsenal og City. Og stelpurnar okkar mæta til Lundúna um næstu helgi og mæta þar Vicky Jepson og co hjá Spurs. Vonum að þær mæti betur stemmdar í þann leik en í dag.

  [...]
 • Gullkastið – Lognið á undan storminum

  Sannarlega lognið á undan storminum þessa dagana, Liverpool leik helgarinnar var frestað og landsleikjahlé hefur tekið við. Nýttum tækifærið til að rýna betur í leikmannakaup Liverpool undanfarin ár og þeirri vegferð sem félagið er á. Skoðuðum rosalegt leikjaprógramm október mánaðar og byrjun tímabilsins í deildinni.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils Gull       Húsasmiðjan          Sólon           Jói Útherji         Ögurverk ehf

  MP3: Þáttur 396

  [...]
 • Liverpool 2 – 1 Chelsea

  Það er nú ekki annað hægt en að henda í sérstakan póst í ljósi úrslitanna, en Liverpool vann Englandsmeistara síðustu 3ja ára 2-1 á Prenton Park. Leikurinn byrjaði hræðilega því Chelsea unnu vítaspyrnu í sinni fyrstu sókn á 2. mínútu, og Fran Kirby gerði engin mistök þegar hún skoraði úr spyrnunni. Leikurinn eftir það var í járnum, Emma Koivisto fékk úrvals færi til að jafna metin en náði ekki að leggja boltann fyrir sig og setti hann yfir með hnénu. Kiernan átti skot í stöng en reyndist hafa verið rangstæð í aðdraganda sóknarinnar (lítið vafamál þar). Sam Kerr skoraði mark en var dæmd rangstæð (og það var mjög tæpt), og komst aftur í gegn skömmu síðar en aftur rangstæð. Staðan 0-1 í hálfleik og það var líklega alveg sanngjörn staða. Í síðari hálfleik fengu hins vegar okkar konur víti þegar varnarmaður Chelsea fékk boltann í hendina, Katie Stengel fór á punktinn og skoraði af öryggi. Hún vann svo annað víti (og því það þriðja í leiknum) nokkrum mínútum fyrir leikslok eftir að hafa unnið boltann úti við hliðarlínu, og vaðið inn í teig en var þar felld. Aftur skoraði hún af punktinum við mikinn fögnuð viðstaddra. Uppbótartíminn var afar tens, og Bethany England var nálægt því að jafna alveg undir lokin, en náði ekki að pota í boltann eftir skalla frá Sam Kerr. Gríðarleg fagnaðarlæti hjá 3000 áhorfendum á Prenton Park þegar dómarinn flautaði til leiksloka.

  Einu neikvæðu fréttirnar úr leiknum eru þær að Leanne Kiernan meiddist á ökkla um miðbik síðari hálfleiks og gæti verið frá í næstu leikjum, en við fréttum sjálfsagt af því á næstu dögum.

  Þetta voru reyndar ekki einu áhugaverðu úrslit helgarinnar því Aston Villa unnu City 4-3. Arsenal unnu sinn leik á föstudaginn 4-0, og United unnu sinn leik í gær, Tottenham unnu sinn leik fyrr í dag. Jú og Dagny Brynjars og félagar í West Ham unnu Everton 1-0.

  Næsti leikur er svo á Anfield eftir viku, en þá mæta Everton í heimsókn. Heldur betur gott að mæta inn í þann leik með þessi úrslit í farteskinu, og verður gaman að sjá hve margir mæta!

  [...]
 • Opnunarleikur tímabilsins hjá kvennaliðinu – Chelsea mæta á Prenton Park

  Já krakkar mínir, vissulega er búið að fresta einum Liverpool-Chelsea leik sem átti að fara fram í dag, en leikur kvennaliðsins er á dagskrá, og fer fram á Prenton Park. Fyrsti leikur tímabilsins í ljósi þess að leikjunum um síðustu helgi var frestað.

  Matt Beard sýnir aðeins spilin sín með uppstillingunni í dag:

  Laws

  Flaherty – Fahey – Matthews

  Koivisto – Holland – Kearns – Hinds

  Lawley – Stengel – Kiernan

  Bekkur: Cumings, Kirby, Robe, Roberts, Campbell, Silcock, Furness, Humphrey, Daniels

  Það er nýtt andlit á bekknum: Faye Kirby er ungur markmaður sem kom frá Everton bara núna rétt fyrir helgina, og bætist í sterkan hóp markvarða. Rachael Laws er þó ennþá greinilega númer eitt. Shanice van de Sanden er hvergi sjáanleg, spurning hvor hún sé að glíma við eitthvað hnjask. Eins er Charlotte Wardlaw ekki í hóp, ekkert komið fram hvað veldur. EDIT: hún er auðvitað ekki í hóp því hún er leikmaður Chelsea og er á láni. Stundum er maður bara svolítið seinn til höfuðsins.

  Akademíuleikmaðurinn Hannah Silcock er á bekk, en hún verður 18 ára í dag og það væri nú heldur betur gaman ef hún fengi eins og eitt eða þrjú stig í afmælisgjöf. Við getum víst ekki reiknað með að þetta verði auðveldur leikur enda Chelsea meistarar síðustu þriggja tímabila, en látum á það reyna hvort stelpurnar geti ekki strítt þeim duglega.

  Leikurinn er sýndur á Viaplay, og eins á The FA Player.

  Við uppfærum annars færsluna síðar í dag með úrslitum.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Gullkastið – Elísabet kveður

  Þetta er farið að minna á Covid ruglið, það er frestað deildarleikjum Liverpool tvær helgar í röð verða fráfalls Elísabetar Englandsdrottningar og ástæðurnar fyrir þessu raski eru vægast sagt tæpar. Einu leikir Liverpool undanfarið eru því tveir afar mismunandi Meistaradeildarleikir.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils Gull       Húsasmiðjan          Sólon           Jói Útherji         Ögurverk ehf

  MP3: Þáttur 395

  (more…)

  [...]
 • Liverpool 2 – 1 Ajax

  Liverpool bætti örlítið fyrir hræðilegan leik í síðustu viku, og unnu góðan en óþarflega tæpan 2-1 sigur á Ajax á Anfield í kvöld.

  Mörkin

  1-0 Salah (17. mín)
  1-1 Kudus (27. mín)
  2-1 Matip (89. mín)

  Gangur leiksins

  Það var allt annað lið sem mætti á Anfield í kvöld heldur en fyrir viku. Vissulega átti það við um hluta leikmannahópsins, því Matip, Tsimikas, Thiago og Jota byrjuðu allir en voru ekki í byrjunarliðinu fyrir viku. Á hinn bóginn voru svo hinir leikmennirnir – þeir sömu og byrjuðu fyrir viku – augljóslega allt öðruvísi stemmdir, og betur tilbúnir í leikinn. Þetta bar ávöxt á 17. mínútu þegar löng sending fram frá Alisson rataði á kollinn á Díaz, þaðan barst boltinn á Jota á miðjunni sem fann Salah í eyðu hægra megin, og egypski konungurinn gerði engin mistök og skoraði verðskuldað fyrsta mark leiksins. Á næstu mínútum fengu svo okkar menn færi sem á mjög góðum degi hefðu breytt stöðunni í 4-0: Díaz með skot rétt framhjá eftir aukaspyrnu, Jota með skot fyrir utan teig sem fór líka rétt framhjá, og Salah var nálægt því að bæta við öðru marki eftir aðra sendingu frá Alisson upp völlinn. En á 27. mínútu jöfnuðu Ajax menn, vissulega var varnarleikurinn hjá Trent ekki til útflutnings, en á hitt ber að líta að afgreiðslan frá Kudus var upp á tíu, hann negldi boltanum einfaldlega í þverslána og inn, alveg út við stöng. Smá munur á þeirri afgreiðslu og svo mörgum hjá okkar mönnum sem iðulega skutu eða skölluðu beint á markvörð gestanna. Það gerðist t.d. eftir hornspyrnu þar sem Virgil átti góðan skalla, en hefði bara gjarnan mátt setja boltann aðeins nær annarri hvorri stönginni.

  1-1 í hálfleik, sú markatala var ekki að endurspegla færin, en það eru gömul sannindi og ný að það er ekki spurt um færanýtinguna heldur markatöluna.

  Síðari hálfleikur var öllu meira streð, og minna um færi a.m.k. framan af. Eftir rúmlega 60 mínútna leik fóru Jota og Elliott af velli. Elliott var alveg ógnandi, en varnarlega séð á hann ýmislegt eftir ólært, átti bæði til að missa boltann og eins að tapa mönnum fram hjá sér. Jota var hins vegar mjög nálægt sínu besta, var kominn með stoðsendingu og góða marktilraun, en er klárlega enn að koma til baka úr meiðslatímabilinu. Inná komu Firmino og Nunez, hvorugur virtist ná almennilegum takti í leiknum. Bobby var jú líka að spila meira eins og alvöru nía frekar en þessi falska, og spurning hvort hann sé almennilega búinn að setja sig í þann gírinn? Færin voru færri, eitt hættulegasta færið kom þegar Blind skallaði hárfínt framhjá fjærstönginni hjá Alisson. Okkar menn fengu líka einhver færi, en héldu áfram að skjóta allt of nálægt markverðinum. Nunez átti fínt hlaup upp að endamörkum og gaf á Díaz en markvörðurinn rak litlaputta í boltann og þar fór það forgörðum. En örfáum mínútum fyrir leikslok átti Salah skot sem fór af varnarmanni í samskeytin og í horn. Tsimikas tók hornið, gaf beint á pönnuna á Matip sem skallaði að marki. Blind reyndi að bjarga á línu, en marklínutæknin sagði dómaranum frá því að boltinn hefði farið inn, og endursýningar sýndu að það var aldrei spurning. Fagnaðarlætin voru gríðarleg, og þá sérstaklega hjá Kamerúnanum knáa sem var þarna að skora sitt fyrsta meistaradeildarmark í 9 ár. Milner og Bajcetic komu inná fyrir Díaz og Thiago, spænski unglingurinn fékk líklega eitthvað rétt tæplega mínútu, og kom tæpast við boltann. Milner fékk það hlutverk að verja stigin þrjú, og gerði það eins og honum einum er lagið.

  Afar mikilvægur sigur í höfn, og riðillinn galopinn.

  Frammistaða leikmanna

  Það voru sem betur fer engar hörmungarframmistöður hjá neinum leikmanni í kvöld. Jú, Trent hefði mátt gera betur í markinu, en þetta var samt ekki jafn hörmuleg frammmistaða og hann gerði sig sekan um hvað eftir annað fyrir viku. Var þetta besti leikur Trent? Nei alls ekki, en heilt yfir allt í lagi. Varnarlega bætti hann sig undir lokin, nú og svo saknar hann kannski Robbo þarna hinu megin á kantinum. Elliott hefur líklega átt betri dag, og spurningin um það hver hans besta staða sé er ennþá hangandi í loftinu. Maður hefði haldið að hann nyti sín e.t.v. betur í stöðunni hans Salah, en það er jú ekki staða sem er laus. Mögulega á hann eftir að þroskast betur upp í þessa miðjustöðu, en það munaði gríðarlega að hann var með Thiago við hliðina á sér frekar en Milner.

  Þá er það spurningin um mann leiksins. Erfitt að taka einhvern einn út fyrir sviga, í spjalli okkar kop.is penna voru 4 leikmenn nefndir og gætu sjálfsagt verið fleiri. Matip, Thiago, Kostas og Fab voru allir að sýna mjög solid leik, og hefði mátt nefna fleiri (VVD, Alisson, Salah, jafnvel Díaz). Undirritaður kýs að gefa Thiago nafnbótina í þetta skiptið, þó ekki nema fyrir að sýna hvað hann er okkur mikilvægur.

  Umræðan og tölfræði

  • Trent var í kvöld að spila sinn 50. Evrópuleik fyrir félagið, og er yngsti leikmaður í sögu Liverpool til að ná þeim leikjafjölda í meistaradeildinni og öðrum Evrópukeppnum.
  • Þetta var fyrsti leikurinn á leiktíðinni þar sem okkar menn hlaupa meira heldur en andstæðingarnir. Skiptir það máli? Ég myndi segja það já.
  • Liverpool spilar næst þann 1. október. Galið.

  Næstu verkefni

  Næsti leikur hjá strákunum okkar er sumsé gegn Potter-lausum Brighton þann 1. október (nema hann verði rekinn frá Chelsea í millitíðinni og fari aftur til Brighton, sem ég reyndar efast um). Ætli Lallana stýri þeim blá- og hvítklæddu í þeim leik? Yrði gaman að sjá…

  Í millitíðinni gefst okkur færi að sjá stelpurnar okkar spila við Chelsea á Prenton Park næsta sunnudag, og svo við Everton á Anfield viku síðar.

  Sem betur fer förum við aðeins glaðari í bragði inn í þetta óþarflega langa landsleikjahlé, þökkum strákunum okkar fyrir það!

  [...]
 • Liðið gegn Ajax

  Þá er komið að einum af örfáum leikjum sem okkar ástkæra lið ætlar að spila í september, og það eru Ajax sem koma í heimsókn.

  Liðið lítur semsagt svona út:

  Bekkur: Adrian, Davies, Gomez, Phillips, Milner, Bajcetic, Arthur, Firmino, Carvalho, Nunez

  Ekkert mjög mikið sem kemur á óvart í liðsuppstillingunni, mögulega það að Jota byrji en samt ekki. Nunez þarf klárlega sinn tíma til að venjast.

  Þess má geta að U19 sýndi gott fordæmi og vann sinn leik fyrr í dag 4-0, þar sem Oakley Cannonier skoraði þrennu. Á þessi gutti eftir að spila fyrir aðalliðið? Það væri gaman, og enn skemmtilegra ef hann myndi nú skora eftir stoðsendingu frá Trent. En það bíður betri tíma.

  Nú væri frábært að ná í eins og einn sigur eða þar um bil.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Ajax heimsækir Anfield á morgun

  Leikjum Liverpool í ensku deildinni er frestað hægri vinstri þessa dagana eftir andlát Bretlands drottningar en það er ekki frestað Meistaradeildarleiknum sem fer fram annað kvöld þegar Ajax heimsækir Anfield.

  Síðast þegar Liverpool spilaði þá skeit liðið upp á bak í stóru tapi gegn Napoli í fyrsta leik riðlakeppninnar en Jurgen Klopp sagði það hafa verið líklega versta leik og frammistöðu sem hann hefur séð Liverpool spila undir hans stjórn. Hann hefur ekki rangt fyrir sér þarna og gaf hann í skyn að liðið þarf í ákveðna naflaskoðun til að finna þá hluti sem hafa verið að ganga illa til að geta lagað þá og vonandi hefur það tekist í þessari pásu sem liðið hefur fengið undanfarna daga.

  Á meðan Liverpool tapaði gegn Napoli þá fór Ajax ansi illa með Rangers í sínum leik. Það er klárlega mikið af góðum fótboltamönnum þarna í Ajax og þetta er sterkt lið sem hefur þó gengið í gegnum nokkuð stórar breytingar í sumar. Þeir selja meðal annars þá Lisandro Martinez og Antony til Man Utd, Sebastian Haller fór til Dortmund og Gravenberch fór til Bayern. Þá bæta þeir við sig leikmönnum eins og Steven Bergwijn frá Tottenham, Calvin Bassey frá Rangers, Brian Brobbey frá Leipzig og Lucas Ocampos frá Sevilla.

  Það er svolítið erfitt að sjá fyrir sér hvað Klopp hyggst gera með Liverpool annað kvöld og hvort við megum búast við einhverjum nokkuð stórum breytingum á liðsvali eða uppstillingu. Chamberlain, Henderson, Keita, Konate og Jones eru pottþétt allir enn frá og ekki klárir í leikinn og tveir þeirra ekki einu sinni í hóp í Meistaradeildinni. Þá er Andy Robertson einnig meiddur svo Tsimikas mun að öllum líkindum taka sæti hans í liðinu.

  Thiago kom inn á gegn Napoli og var líflegur, Arthur kom einnig inn á sem og Joel Matip svo hópurinn er klárlega að breikka aftur. Þá var Carvalho ekki með í leiknum gegn Napoli vegna smávægilegra meiðsla en ætti að vera klár í slaginn á morgun.

  Síðast þegar Liverpool mætti Ajax í þessari keppni þá var það leiktíðina 2020/2021 en þá vann Liverpool báða leikina 1-0. Við viljum að sjálfsögðu að Liverpool sigri báða leikina gegn þeim aftur en miðað við undanfarna leiki þá tekur maður engum úrslitum sem gefnum eða sjálfsögðum hlut.

  Alisson

  Trent – Matip – Van Dijk – Tsimikas

  Elliott – Fabinho – Thiago

  Salah – Nunez – Diaz

  Ég ætla að giska á að það verði nokkrar breytingar frá því í leiknum gegn Napoli. Matip mun koma inn fyrir Gomez sem átti ömurlegan leik gegn Napoli og hefði í raun bara átt að vera kippt út af strax í upphafi leiksins. Tsimikas kemur sjálfkrafa inn fyrir Robertson.

  Það er erfitt að segja til með miðjuna en ég reikna með að Thiago byrji með Fabinho og þá bara spurning hvort þeir verði tveir á miðjunni eða hvort að Elliott yrði með þeim – jafnvel aðeins langsóttara hvort að þeir byrji með fjóra framherja og tvo miðjumenn.

  Salah og Diaz, sem hefur verið einn sá besti í liðinu undanfarna leiki, halda sínum sætum reikna ég með þó svo að Jota og Nunez séu mættir aftur til leiks eftir meiðsli og leikbann. Ég hugsa að annar þeirra muni byrja inn á og ætla ég að giska á Nunez þar sem hann ætti að vera ferskari en Jota sem er nýlega kominn til baka úr meiðslum og fengið minna undirbúningstímabil en hinir. Ég hlakka hins vegar mikið til að fá Jota aftur á fullu gasi inn í þetta og myndi ekki hata að fá að sjá þá báða inn á á einn eða annan hátt annað kvöld.

  Við setjum að sjálfsögðu kröfu á sigur í þessum leik og vonumst eftir því að Liverpool finni aftur dampinn og geti loksins byrjað leiktíðina af þeim standard sem frábært lið eins og Liverpool á að gera!

  [...]
 • Chelsea – Liverpool frestað

  Breska ríkið er búið að skera svo hressilega niður undanfarin ár að lögreglan í London (rúmlega níu milljón manna stórborg) ræður ekki við knattspyrnuleik á sunnudegi þar sem það er jarðarför á mánudeginum. Af þeim sökum er búið að fresta leik Chelsea og Liverpool um næstu helgi. Leikjum síðustu helgar var einmitt frestað vegna þess að breskan þjóðin er aðframkomin af sorg, eða hún kannski réttara sagt á að vera það.

  Næsti leikur Liverpool er engu að síður annað kvöld í Meistaradeildinni gegn Ajax og kemur upphitun fyrir hann inn bráðlega.

  Gullkastið sem vanalega er á mánudögum verður af þessum sökum á miðvikudaginn næsta, af virðingu við Elísabetu Drottningu auðvitað.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close