Spartak Moskva – Lið fólksins

Á nýjum heimavelli Spartak Moskva er óvenjulega staðsett stytta af fjórum mönnum fyrir aftan annað markið, þessir menn voru bræður og með því að kynna sér sögu þeirra er auðvelt að skilja afhverju þeim er sýndur slíkur heiður. Saga þeirra er samofin sögu Spartak og meiri goðsagnir muni stuðningsmenn Spartak líklega aldrei eignast.


Continue reading

Leicester 2 – 3 Liverpool

Það er sjaldan lognmolla í kringum Klopp-stýrt Liverpool og þessi leikur á King Power vellinum var engin undantekning. Hjartað var margsinnis í buxunum og stundum jafnvel eitthvað meira en það og þá erum við bara að tala um úthlaupin hjá Mignolet.

Leikurinn

Þetta byrjaði nokkuð þétt hjá okkar mönnum og við vorum vel inni í leiknum fyrstu mínúturnar á meðan bæði lið voru að stunda þreyfingar. Okkur óx ásmegin og Emre Can smellti góðu skoti í stöng og Salah feilaði frákastið á betri löppinni. Einni ögurstund síðar sendi Coutinho gylltan bananabolta á fjærstöng þar sem hinn egypski Messi skallaði boltann í netið framhjá erfðaefni Peter Schmeichel.

Eftir það var leikurinn okkar og þungi í sóknarleiknum. Á 25.mínútu fengum við aukaspyrnu 25 jarda frá marki. Coutinho ákvað að hlaða í fallega afsökunarbeiðni fyrir Barca-bullið í sumar með því að krulla glæsilegt skot út við stöng framhjá blondínubaunanum. Komnir á beinu brautina en Mignolet fannst þetta ögn of auðvelt og hafði aðrar hugmyndir um hvernig skemmtilegur knattspyrnuleikur á að þróast. Hann hafði daðrað við vandræði með hreinsun á snigilhraða en þegar að rétt var að detta í hálfleik fór flippið í gang. Samvinnuverkefni Símons og dómarans í röngum ákvörðun endaði með klúðurslegu marki á versta tíma sem aldrei átti að verða til.

1-2 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var óttaleg moðsuða framan af en allt í einu fór leikurinn á yfirsnúning þegar að Liverpool átti frábæra skyndisókn eftir að hafa verið djúpt í vörn. Sprengdum fram á margmenni og Henderson sem byrjaði manna dýpstur skeiðaði tignarlega upp allan völlinn, fékk fína sendingu frá varamanninum Sturridge og sendi hann framhjá vinalega danska draugnum í markinu.

Game over? Alls ekki enda væri það allt of auðvelt. Gray átti skot úr teignum sem Mignolet varði beint fyrir kollvikin á Vardy sem þakkaði fyrir sig með auðveldu marki. Þarna liðu 90 sekúndur á milli þess að sigur ætti að vera kominn á örugga siglingu en nú sigldi Liverpool á milli skers og báru. Einni ögurstundu síðar var það blindsker! Vardy fær stungu innfyrir og eltir boltann, Mignolet er á undan en kiksar boltann og straujar Jamie í leiðinni. Víti! Vardy kunni greinilega ekki góðu gömlu regluna um að sá tekur ekki vítið sem brotið er á og stígur upp móður og másandi. Símon segir víti skal varið og tekur til eftir eigið klúður með því að verja þrumuskot Vardy.

Eftir þetta var leikurinn alveg á hnífsegg en hvorugt lið fékk færin til að drepa eða jafna leikinn. Hendi á Can hefði getað sett leikinn í vitleysu en sem betur fer héldum við þetta út og kærkominn sigur staðreynd.

Bestu menn Liverpool

Coutinho lagði upp og skoraði þannig að hann er að nálgast sitt eðlilega form eftir farsakennt sumar með vottorð í leikfimi og yfirdrifið spænskt fáránleikhús. Að mínu mati var samt fyrirliðinn herra Henderson frábær í leiknum. Ódrepandi, stanslaust hlaupandi og skoraði á endanum sigurmarkið. Jordan Henderson fær Kop.is-kampavín leiksins.

Vondur dagur

Séra Símon hefur ekki haft gott af hvíldinni eða róteringardansinum sem Klopp hefur boðið upp í. Ákvarðanatakan og almenn fagmennska er úti á túni og vítamarkvarslan er rétt sárabót sem bjargar honum frá því að vera allsherjar skúrkur leiksins. Karius mun pottþétt byrja í marki í Moskvu og ef það endar ekki í stórslysi þá gæti hann haldið stöðunni lengur.

Tölfræðin

Leikina tvo á undan þessum átti Liverpool 56 markskot sem enduðu með einu ögurmarki en nú brustu stíflurnar með 3 mörkum í 23 skotum.

Umræðan

Það hlaut að koma að því að flóðgáttirnar myndu opnast og hægðatregðan fyrir framan markið myndi á endanum skila sér sína leið. Á þessari speki byggði tölfræðitröllið og einkavinur minn Biscant sinn spádóm með hárréttum úrslitum um 2-3 sigur. Biscant, take a bow!

Allir andstæðingar okkar í toppbaráttunni unnu sína leiki í dag og því var lífsnauðsynlegt fyrir okkur að fylgja hópnum. Þrátt fyrir rússíbanareið þessa leiks þá kláruðum við þó ferðina þrátt fyrir miklar meltingartruflanir og það mun væntanlega gera margt gott fyrir sjálfstraustið. Umræðan hafði skapað pressu á liðið og Klopp en í bili þá er því létt og vonandi beina brautin framundan.

Moscow Moscow here we come.

Byrjunarliðið gegn Leicester City

Þá er komið að seinni hlutanum í tvíleik vikunnar gegn Leicester City og vonandi gengur betur að þessu sinni gegn Refunum frá Eystri-Miðlöndum.

Byrjunarliðin eru klár og þau eru svona:

Á bekknum hjá Liverpool eru Karius, Klavan, Milner, Alexander-Arnold, Oxlade-Chamberlain, Solanke, Sturridge.

Sagnaskáldið Shakespeare stillir sínu liði svona upp:

Helstu tíðindi eru þau að Matip og Lovren hafa jafnað sig nógu tímanlega til að byrja báðir í hjarta varnarinnar. Can var líka tæpur en er nógu hraustur til að byrja inná ásamt Coutinho sem er vonandi að komast í almennilegt leikform.

Hjá Leicester þá eru allir þeirra sterkustu leikmenn komnir í byrjunarliðið eftir deildarbikarleikinn fyrr í vikunni. Vardy, Mahrez og Schmeichel allir mættir til leiks.

Koma svo Rauðliðar! Förum á refaveiðar og rífum þetta tímabil í gang! YNWA!

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: Leicester í deild

Eftir langa bið er loksins komið að því að Liverpool heimsæki Leicester, en þangað hafa okkar menn ekki komið síðan á þriðjudaginn. Reyndar eru líkur á því að þessir leikir verði alls ekkert líkir þegar kemur að liðsskipan, enda notaði Klopp breiddina í hópnum talsvert í deildarbikarnum. Þegar svona leikir tapast eins og gerðist á þriðjudaginn er þjálfarinn að jafnaði í „damned if you do, damned if you don’t“ aðstöðu, því ef þeir spila aðalliðinu og tapa þá eru þeir skammaðir fyrir að þreyta aðalliðið í ómerkilegri keppni, og ef þeir spila varaliðinu þá eru þeir skammaðir fyrir að nota ómögulega leikmenn og að henda inn handklæðinu fyrir leik.

Ég hef fulla trú á að Klopp hafi alls ekki verið að henda inn handklæðinu með liðsvalinu í síðasta leik, hann hafi einfaldlega viljað nýta breiddina, og gefa mönnum séns á að spila sig inn í aðalliðið. En það er augljóst að liðið er í einhverri krísu beggja vegna vallarins; sóknin er að skora vandræðalega fá mörk miðað við tilraunir, og vörnin er að fá á sig vandræðalega mörg mörk miðað við tilraunir andstæðinganna. Jú og miðjan er ekki að finna sig. Í raun virðist ekki skipta öllu máli hvaða leikmenn spila, þetta á við um allar uppstillingar. Eins og oft vill verða við svona kringumstæður þá vakna raddir sem fullyrða að hópurinn sé ömurlegur, þjálfarinn ómögulegur, sumarkaupin gjörsamlega misheppnuð og já, réttast væri að skipta bara öllu klabbinu út. Undirritaður er nú alls ekki í þeim hópi. Öll lið eiga lélega kafla, skemmst er að minnast septembermánaðar hjá Chelsea síðasta vetur, en þá unnu þeir ekki leik. Er það einhver afsökun? Nei, lið eiga ekki að sætta sig við það að spila illa eða ná lélegum úrslitum. Enda tel ég alveg ljóst að Klopp og félagar séu ekki par ánægðir með úrslitin í síðustu 4 leikjum, og séu að vinna að því að finna leiðir til úrbóta. Þetta kom berlega í ljós á síðasta blaðamannafundi þegar Klopp sagðist vera „sick of it“ í umræðu um mörkin sem liðið hefur verið að fá á sig.

Eftir leikinn á þriðjudaginn var undirritaður viss um að fæstir þeir sem spiluðu þann leik myndu koma við sögu í þessum leik á laugardaginn, en svo bárust fréttir af því að Lovren, Matip og Can væru að glíma við hnjösk. Sem betur fer er Can farinn að æfa aftur, en það er enn óljóst hvað verður með miðverðina okkar tvo. Sem betur fer höfum við Sakho á bekkn… æ nei alveg rétt. Jæja, við getum þá kallað Lucas inn í miðvö… já nei það er víst ekki hægt. Ekki þóttu Klavan og Gomez vera að heilla á þriðjudaginn, ætli það þurfi samt að spila þeim? Jæja það eru alltaf Masterson og Lloyd Jones úr U21 árs liðinu…

Hvað aðra varnarleikmenn varðar, þá er nokkuð ljóst að Ward fer aftur upp í stúku og Mignolet tekur við í marki. Þá á ég fastlega von á því að sjá Moreno og TAA koma í bakverðina.

Það er einna helst að miðjan fái að halda sér. Henderson, Winjaldum og Grujic voru þar á þriðjudaginn, og það er vitað að Grujic fer aftur upp í stúku eða á bekkinn. Ég tel líklegt að Can komi inn í þessum leik fyrst hann er farinn að æfa aftur, Coutinho spilaði í framlínunni fyrri hálfleikinn á þriðjudaginn og gæti komið aftur inn á miðjuna núna, en er þó tæpast kominn í fullt leikform, svo ég á ekki von á að sjá hann þar allan leikinn. Þá er möguleiki að við sjáum Milner detta þarna inn, þó að ég verði að viðurkenna að ég hálf sakna þess að hafa hann ekki bara í vinstri bak eins og á síðustu leiktíð.

Í framlínuna mæta svo sjálfsagt Firmino, Salah og einhver sem kemur í staðinn fyrir Mané sem mun taka út sinn þriðja og síðasta leik í leikbanni. Eins og svo oft áður þá er liðið að sakna Mané alveg svakalega, og við sem horfum söknum hans líka. Hvort það verður Sturridge sem kemur aftur inn eins og í síðasta deildarleik veit ég ekki. Nú sá ég ekki þann leik og get því ekki fullyrt um hvernig hann var að standa sig. Ég hef hins vegar á tilfinningunni að Firmino blómstri helst ef hann fær að vera fölsk nía, en sé ekki jafn effektívur úti á kanti með Sturridge fremstan. Sama held ég að gildi um Sturridge, hann fílar sig held ég best sem fremsti maður eða sem annar af tveim framherjum a la SAS. Engu að síður tel ég líklegast að Klopp tefli þeim tveim fram í fremstu víglínu, frekar en að setja Chamberlain þarna þó það sé vissulega möguleiki. Hann var kannski ekki að heilla neitt svakalega á þriðjudaginn, en e.t.v. þarf hann einmitt bara leikæfinguna og að fá að spila sig inn í hópinn.

Svo er auðvitað alltaf einhver smá séns á að Klopp hristi upp í þessu og spili 4-4-2 með tígulmiðju, bara til að hræra upp í hlutunum. Munum að hann gerði það í síðasta leiknum í vor, með ágætum árangri. Ég ætla þó ekki að gerast svo djarfur að spá því.

Allavega, ég ætla að tippa á að þetta verði uppstillingin:

Mignolet

TAA – Klavan – Gomez – Moreno

Can – Henderson – Coutinho

Salah – Sturridge – Firmino

Bekkur: Karius, Robertson, Masterson, Grujic, Milner, Chamberlain, Solanke.

Tek það fram að vegna þessara meiðslavandræða þá er þetta svolítið skot í myrkri. T.d. gæti alveg verið að Lovren fari á bekkinn eins og síðast, þó hann sé ekki tilbúinn í að spila 90 mínútur. Held það verði nú samt að setja einhvern miðvörð á bekkinn og þess vegna set ég Masterson þarna. Eins er aldrei að vita nema Woodburn fái einhvern séns, mér þykir hann alveg eiga það skilið, en kannski er Klopp ennþá að passa að honum verði ekki hent of snemma út í djúpu. Drengurinn enda nýskriðinn úr grunnskóla.

Hvað lið Leicester varðar, þá á ég ekki von á neinu öðru en að þeir mæti með sitt sterkasta lið. Vardy mætir sjálfsagt í framlínuna, Schmeichel í markið, og svo verða the usual suspects þar á milli. Við skulum jú muna að það er rúmt ár síðan þetta lið hampaði bikarnum, þó þeir séu reyndar búnir að missa menn eins og Kante, Drinkwater og fleiri síðan þá, en það kemur jú maður í manns stað.

Svona rétt í lokin er rétt að minna á að Liverpool Ladies eru að hefja sína leiktíð í kvöld, og fyrsti leikur er derby viðureign við erkifjendurna í Everton. Búast má við að leiknum verði útvarpað á Facebook síðu liðsins, fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á að fylgjast með Bonner, Chamberlain og öllum hinum stelpunum okkar.

Eigum við ekki bara að segja að bæði liðin taki sig til og vinni þessa leiki? 2-1 hjá strákunum og 1-0 hjá stelpunum? Díll?

Skítatap á King Power vellinum

Liverpool hóf og lauk þátttöku sinni í deildarbikarnum á þessu ári með 2-0 tapi gegn Leicester á King Power vellinum í dag. Leikurinn fór fram á hálfum hraða og var ekki mikil spenna í leiknum. Liverpool var mest megnis með boltan en ógnaði sjaldan. Coutinho fór af velli í hálfleik en Klopp hafði eitthvað talað um í vikunni að hann væri tæpur, í seinni hálfleik færðu Leicester menn sig framar á völlinn og fóru að valda ursla. Fyrra markið kom eftir fast leikatriði sem var hreinsað frá en boltinn barst að lokum til Okazaki sem var aleinn og skilaði boltanum í netið. Seinna markið skoraði Slimani sem hafði verið mjög hljóðlátur fram að þeim punkti en fékk smá svæði fyrir utan teig og smellti boltanum í fjærhornið. Liverpool spilaði vissulega ekki á sínu besta liði en það gerði Leicester ekki heldur. Sumir munu líklega segja að það hafi verið betra að tapa þessum leik til að fá meiri hvíld fyrir deildarleiki en lið af okkar stærðargráðu á hreinlega að fara í allar keppnir til að vinna þær og liðið sem byrjaði í dag hefði alveg getað unnið þennan leik ef menn hefðu eytt einhverri okru í þennan leik.

Bestu menn Liverpool

Það er erfitt að segja til um hverjir hafi verið bestu menn vallarins í dag. Robertson átti nokkra góða krossa sem engin mætti, Coutinho dansaði nokkrum sinnum framhjá leikmönnum en ekkert varð úr því, Ward átti flotta markvörslu og greip tvisvar vel inn í fyrirgjafir, Gomez var frekar sterkur í loftinu en í sannleika sagt þá var hundleiðinlegt að horfa á liðið í dag og ég get því hreinlega ekki valið neinn sem besta mann liðsins.

Umræðan

Liðið hefur verið frekar slakt síðan í landsleikjahléinu, að mínu mati er Kloppout umræðan orðinn alltof há miðað við stöðuna vissulega eru veikleikar í liðinu en fyrir landsleikjahlé og í fyrri hálfleik gegn Sevilla sáum við hvað liðið getur en þjálfari á hans stærðargráðu ætti að geta allavega stoppað aðeins upp í götin. Liðið getur ekki haldið áfram að geta ekki brotið niður afturliggjandi varnir og gefa ódýr mörk þá verður þetta langt, langt tímabil. Næstu helgi mætum við Leicester á sama velli í deildinni og mætum með okkar sterkasta lið, fyrir utan Mané, og þá vil ég sjá meiri ákafa og sigurvilja. Leikmenn Liverpool eyddu ekki miklum krafti í þennan leik og ég ætla ekki að eyða mikið meiri krafti enda frekar pirraður en er enn frekar bjartsýnn að liðið geti betur en síðustu tvær vikur gefa til kynna.