Alisson Becker til Liverpool (Staðfest)

Ekkert vesen á Alisson í læknisskoðun og hafa bæði lið nú staðfest kaupin á kappanum. Dýrasti markmaður sögunnar takk fyrir og góða kvöldið. Liverpool á aftur óumdeilanlega einn af bestu markmönnum deildarinnar sem er frábær tilfinning.


Continue reading

Podcast – Alisson

Það hefur ekkert vantað upp á stórtíðindi í þessari viku og varla annað hægt taka þetta saman í podcasti. Alisson Becker er kominn til Englands til að klára viðræður við Liverpool og lækinsskoðun áður en hann verður kynntur sem langdýrasti markmaður sögunnar. Kaupin á Shaqiri voru kláruð í síðustu viku sem er gott þar sem í dag var tilkynnt að Ox-Chamberlain verður líklega ekkert með á næsta tímabili. Að lokum er Nabil Fekir ennþá talin vera möguleiki í þessum mánuði. Klopp líður greinilega ekki helvítis hálfkák.

Kafli 1: 00:00 – Vangaveltur um Alisson
Kafli 2: 33:50 – Hvað verður um núverandi markmenn Liverpool?
Kafli 3: 42:40 – Frábær breyting á innkaupastefnu Liverpool
Kafli 4: 54:00 – Hvað eru hin toppliðin að gera á markaðnum?
Kafli 5: 01:08:50 – Ox meiddur – Shaqiri inn
Kafli 6: 01:12:10 – Fekir síðastur inn í sumar?

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn og Maggi (Ath: Hljóðið í Magga lagast eftir um hálftíma þátt)

MP3: Þáttur 199

Liverpool búið að bjóða í Alisson (Uppfært: Tilboði tekið!)

Uppfært: Roma og Liverpool hafa komist að samkomulagi um kaupverð á Alisson Becker sem hljóðar upp á 66 milljónir punda og verður hann þar með dýrasti markvörðurinn í bransanum ef og þegar skiptin ganga í gegn. Liverpool hefur því fengið grænt ljós á að ræða við leikmanninn (sem er nú líklega komið langt á leið samkvæmt ítölskum miðlum) og taka hann í læknisskoðun. Eflaust fáum við fleiri tíðindi af þessu á næstu tímum eða dögum.

Það er komið út um allar trissur núna í netheimum að Liverpool hafi formlega lagt fram boð í Alisson Becker, markvörð AS Roma

Um met upphæð er að ræða fyrir markvörð. Heildarverðmæti tilboðsins er talið vera um 62 milljónir punda, 53 milljón punda strax og 9 milljónir punda í árangurstengdar greiðslur. Þetta eru algjör RISA tíðindi og ef þetta gengur eftir, þá er þetta enn eitt dæmið um að Jurgen Klopp vill aðeins fá fyrsta kostinn sinn, ekkert annað. Þetta er ROSALEGT statement hjá félaginu. Ef þessu tilboði verður tekið, þá erum við að tala um að Liverpool hafi keypt dýrasta varnarmann í heimi og dýrasta markvörð í heimi á rúmu hálfu ári.

Það er líka algjörlega ljóst að Alisson hefur verið kostur númer eitt hjá Klopp í langan tíma. Þetta er nútíma markvörður sem virkar vel fyrir aftan vörn sem spilar hátt uppi á vellinum, getur spilað sem nokkurs konar „Sweeper“. Við fylgjumst spennt með framvindu mála.

Það VAR mikið

Fátt hefur meira verið á milli tannanna á fótboltaunnendum en hið svokallaða VAR (Video Assistant Referee) og kannski ekki skrítið. Það hafa skapast heitar umræður um þessa nýju tækni í boltanum og sitt sýnist hverjum. Heimsmeistarakeppnin er í fullum gangi og þar hefur VAR svo sannarlega komið við sögu og er í rauninni fyrsta risakeppnin þar sem þessi tækni er nýtt til fulls. Reyndar hefur þetta verið í gangi í efstu deildunum á Ítalíu og í Þýskalandi á síðustu leiktíð og við fengum aðeins að kynnast þessu í bikarkeppnunum á Englandi í vetur. Í mínum huga er þetta ekki spurning, VAR er komið til að vera, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Ein af helstu rökum þeirra sem alfarið eru á móti þessu eru þau að leikurinn eigi að vera eins hjá 4. flokki Sindra á Hornafirði og á leik á stórmóti. Sorry, en það er bara ekki þannig. Það er ekki þannig, hefur ekki verið þannig og mun ekki vera þannig. Þótt leikurinn hafi sömu grunn undirstöður, þá er það liggur við ekki sama íþrótt sem er stunduð á þessum mismunandi „levelum“. Þótt við förum í að bera saman meistaraflokksleiki, þá er himinn og haf á milli leikja í 4. deildinni á Íslandi og í Úrvalsdeildinni á Englandi. Við erum jú að tala um 11 menn í hvoru liði, svipað stóran grasvöll, einn bolta, tvö mörk og grunnreglurnar þær sömu. En aðstöðumunurinn, hraðamunurinn, munurinn á fjölda þeirra sem fylgjast með og munurinn á því sem er í húfi, hann er gígantískur.

Það var stórt skref stigið fyrir nokkrum árum þegar marklínutæknin var tekin upp. Þá voru einnig margir afar mikið á móti henni og vildu ekki skemma þennan fallega leik sem fótboltinn er. Eins og gefur að skilja, þá mun marklínutæknin aldrei verða innleidd í 4. deildinni á Íslandi. Líklegast verður hún bara aldrei innleidd á Íslandi. Kannski er þetta gamla góða, aldrei að segja aldrei, vel við hæfi. En eins og staðan er í dag, þá er þetta talsvert flókin tækni sem tók mörg ár að þróa og er gríðarlega kostnaðarsöm. En hver veit, kannski verður þetta einfaldara í framtíðinni, en það er langt í það í það minnsta. Marklínutæknin er hreint út sagt frábær. Það er alveg ömurlegt þegar gilt mark er skorað (boltinn inn fyrir línuna) en ekki dæmt vegna þess að aðstoðardómari er blokkaður eða of seinn niður á línuna. Eins og þetta er í dag, þá tekur engan tíma að skera úr um þetta, dómarinn fær bara strax í úrið hjá sér hvort boltinn hafi farið inn eða ekki. Gott dæmi um það hvernig tæknin getur hjálpað til við að gera leikinn betri.

Maður heyrði á sínum tíma þau rök gegn marklínutækninni að þetta væri fyrsta skrefið til að taka út þann faktor að geta skipst á skoðunum eftir leik um umdeilda hluti. Taka „passion“ úr leiknum. Mér fannst þau rök fíflaleg á sínum tíma og mér finnst þau ennþá fíflalegri í dag. Það er ekkert verið neitt að taka „passion“ úr boltanum að mörk þar sem boltinn fer yfir línuna séu dæmd sem mörk, eða að mörk sem voru ekki skoruð séu ekki dæmd sem mörk. Menn vilja varla að dómskerfið væri svona, dæma menn hægri vinstri þó ekkert tilefni sé til, bara svo menn geti skipst á skoðunum eftirá (ekki hægt að leiðrétta dóminn þó svo að hið rétta yrði sannað). Auðvitað erfitt að bera þetta tvennt saman þar sem við erum jú „bara“ að tala um fótboltaleik, en meira svona sett fram til að setja þetta í samhengi við annað. Marklínutækni…JÁ TAKK.

Sjálfur hef ég dæmt mikið af fótboltaleikjum í nokkuð mörg ár. Ég hef dæmt í öllum deildum á Íslandi, fyrir utan sjálfa Pepsi deild karla. Ég veit það fyrir víst af eigin reynslu og dómarar eru fyrst og fremst með eitt í huga þegar þeir labba inn á völlinn. Þeir vilja dæma öll atriði sem koma upp í leiknum á sem réttasta hátt. Sjálfur dómarinn hefur sem betur fer nokkrar leiðir til að hjálpa sér við að ná þessum markmiðum. Í flestum leikjum er hann með tvo aðstoðarmenn sem eru með flagg í hendi og hjálpa honum við að reyna að sjá það sem hann kannski sér ekki. Við höfum líka í seinni tíð verið með fjórða dómara (varadómara) sem einnig hjálpar til við að koma auga á atvik. Í Evrópukeppnum höfum við svo séð líka svokallaða sprotadómara, sem standa við endalínurnar. Allt er þetta gert til að fá fleiri augu á leikinn þannig að hægt sé að fá sem réttasta niðurstöðu í atvik sem gerast í leiknum. Það varð líka ákveðin bylting þegar píp flöggin svokölluðu komu til sögunnar fyrir all mörgum árum síðan. Það auðveldaði mönnum að gera dómaranum viðvart um ákveðna hluti, hann ræður svo alveg hvort hann hunsi það eða ekki. Enn eitt hjálpartækið til að taka réttar ákvarðanir. Svo kom samskiptabúnaðurinn til leiks, það er líklegast mesta bylting sem orðið hefur í boltanum, sem snýr að dómaramálum. Það er himinn og haf á milli þess að dæma fótboltaleik með samskiptabúnað eða ekki. Þarna strax sjáum við mikinn mun á hlutunum þegar kemur að sama leik hjá 4. flokki Sindra eða liðum í Pepsi deildinni. Með samskiptabúnaðinum geta allir 3 (eða fjórir og jafnvel 6) dómararnir rætt um hin ýmsu sjónarhorn á hlutina. Oft hefur t.d. verið talað um að sprotadómararnir geri aldrei neitt. Þeir eiga ekki að sýna eitt eða neitt, þeir eiga bara að koma með sitt mat í kerfið, ýta á takka á sprotanum og koma með sitt input. Áhorfandinn sér aldrei hversu mikið eða lítið sprotadómararnir koma við sögu.

En þá að VAR. Ég lít á þetta dæmi sem algjörlega frábært hjálpartæki til að ná réttri niðurstöðu í dómgæslu þegar kemur að stærstu atriðunum. Það að geta ekki rætt lengur eftir leik um ósanngjarnt rautt spjald, ólöglegt mark sem var skorað eða árás sem einhverra hluta vegna fór framhjá dómurum leiksins, það finnst mér bara allt í lagi. Það er margt í hverjum fótboltaleik sem hægt er að ræða fram og tilbaka, hluti sem menn verða áfram ósammála um og menn geta þá pælt út og suður um einstaka mistök leikmanna og þjálfara. Leikurinn þarf bara að vera sanngjarn að því leiti að honum sé stýrt innan lagarammans sem fótboltinn býr við. Menn geta svo alveg verið ósammála ákveðnum reglum í boltanum, það er allt önnur umræða.

En hvað er það sem menn eru helst ósáttir við fyrir utan þessa aðila sem vilja geta rætt vitlausa dóma sem hafa stórkostleg áhrif á leikinn? Jú, stóra málið er tíminn sem það tekur að fá rétta niðurstöðu. Ég er algjörlega handviss um að það sé hlutur sem eigi eftir að slípa til. Við höfum til að mynda séð það á þessu Heimsmeistaramóti að framkvæmdin getur tekið mjög stuttan tíma. Sumir af þessum dómurum hafa greinilega pælt mikið í þessum hlutum og menn verða lítið sem ekkert varir við tafir út af þessu og við fáum sanngjarna niðurstöðu í flestum þessum tilvikum. Í mínum huga er það algjört lykilatriði upp á framtíðina að gera að það komi upp sama traust til VAR dómara eins og ríkir á milli dómaranna á vellinum. Ef dómarinn missir einhverra hluta vegna af stóru atriði, gulu spjaldi, rauðu spjaldi eða víti, þá lætur aðstoðardómarinn hann vita í kerfinu og dómarinn dæmir út frá hans ráðleggingum í flestum tilvikum. Hann treystir sínum aðstoðarmönnum, enda þeir búnir að fara vel yfir samstarfið fyrir leikinn. Hann fær ekkert að fara sjálfur að kíkja á málið, enda ekki hægt. Í mínum huga þarf nákvæmlega það sama að gerast með þessa VAR tækni. Í VAR búrinu eru alvöru dómarar, dómarar sem hafa margoft verið í sömu sporum og þeir sem á vellinum eru. Þeir sem í búrinu eru geta séð atriðin hægt í endursýningu og frá nokkrum hliðum. Líkt og þegar aðstoðardómarinn metur atvikin og lætur dómarann vita, þá ætti það sama að vera uppi á teningnum í þessum tilvikum. Dómarinn fer þá ekkert til að horfa sjálfur á einhverjum skjá, hann bara treystir sínum samstarfsmönnum sem áður og dæmir eftir þeim ráðleggingum. Þar með ætti þetta ekki að taka langan tíma, max 30 sekúndur. Það er einmitt tíminn sem þetta hefur verið að taka að meðaltali í t.d. Ítalska boltanum.

Auðvitað snýst þetta um æfingu, þetta er alveg nýtt og eins og áður sagði, þarf að slípa til. Við vitum líka að þetta setup eins og er á HM, er eitthvað sem verður líklegast ekki almenna uppsetningin. Þetta er RIIIIISA mót og því eru ansi margir í VAR herberginu. Líklegast verður þetta þannig að það verður bara einn VAR dómari með 2 tæknimenn með sér sem geta sýnt honum hlutina hratt og örugglega. Ef við segjum sem svo að þetta muni ekki taka svona langan tíma í framtíðinni, hvaða mótrök eru þá eftir? Eru það bara atriðin að geta rifist um glórulausa dóma sem geta ráðið úrslitum leikja á jafnvel mjög ósanngjarnan máta? Við erum ekki að tala um að nota VAR við ákvörðun einstaka aukaspyrna eða allra litlu hlutanna sem gerast í leiknum. VAR þarf að nota við stóru hlutina, líkt og verið er að gera núna á HM. Þar er VAR notað þegar um er að ræða víti/ekki víti, mark/ekki mark og rautt/ekki rautt. Það eru risadómarnir sem eru stóra málið í þessu. Ég bara neita að trúa því að menn vilji ekki hafa þá rétta, þó í einstaka tilvikum hagnist liðið manns á röngum dómi, þá yfir heildina viljum við sjá fair play. Það eru líka talsverð vafaatriði ennþá, þrátt fyrir VAR. Við sjáum nú bara úrslitaleikinn á HM. Dómarar út um allan heim eru ekki sammála um hvort vítið hafi verið réttur dómur eða ekki. Dómarinn fékk allavega öll þau sjónarhorn á málið sem hann þurfti og tók svo ákvörðun um vítið. Ekki allir sammála um það, en hann mat þetta svona. Stóra málið er að hann fékk allavega að sjá atvikið vel.

VAR er ekki fullkomið og verður það líklegast aldrei. Það mun hjálpa til við stóru atriðin og það er í rauninni óskiljanlegt að Enska Úrvalsdeildin skuli hafa ákveðið að fara ekki þessa leið fyrir næsta tímabil. HM hefur sannað að þetta er gríðarlega öflugt hjálpartæki og hefur jafnframt sýnt það að dómarar geta vel notað þetta án þess að það hafi mikil tefjandi áhrif á leikinn. VAR er komið til að VERA.

Hvern viljum við í markið?

Óskalisti nánast allra stuðningsmanna Liverpool inniheldur nýjan markmann fyrir næsta tímabil og alls ekkert að ástæðulausu. Sjálfur var ég hérna á meðan leik stóð 26.maí:

Þetta er ekkert flókið við viljum auðvitað heimsklassa markmann til Liverpool sem ekki gerir jafn ljót mistök og Karius gerði sig sekan um á stærsta sviði sem hann hefur spilað. Hinsvegar vandast málið aðeins þegar við förum að skoða þessa svokölluðu heimsklassamarkmenn og bera þá saman. Fyrir það fyrsta á Liverpool ekkert kost á að kaupa meirihlutan af þeim og þeir sem mögulega væri hægt að sannfæra um að koma til Liverpool standa til boða á álíka yfirverði og Andy Carroll var keyptur á. Þar fyrir utan gera þeir flestir sig einnig seka um slæm mistök af og til. Svo er alveg rosaleg tilviljun að þeir markmenn sem spila fyrir varnarsinnuð lið eins og Atlético Madríd og Man Utd séu bestu markmenn í heimi.
Continue reading