Hull á morgun

Það sem huggar mann mest við tvö töpuð stig um helgina er að það er annar leikur strax. Okkar menn eiga leik inni í deildinni og á morgun skal hann leikinn, á útivelli gegn Hull.

Hull

Heimamenn standa í ströngu þessa dagana. Þeir unnu frábæran 2-0 útisigur á Crystal Palace um helgina sem hélt þeim stigi fyrir ofan fallsæti. Draugurinn sá hefur þó ásótt þá í allan vetur og það er nokkuð ljóst að þeir verða í þeirri baráttu fram á síðasta leikdag þetta árið. Steve Bruce er enn stjóri tígranna þótt það hafi verið heitt undir honum í allan vetur en sá stjóri hefur í gegnum tíðina haft gott lag á að ná úrslitum gegn Liverpool.

Þýðing: þetta verður langt því frá auðveldur leikur.

Af hættulegum leikmönnum ber helst að nefna gömlu Everton-kempuna Nikica Jelavic sem er markahæstur með heil átta mörk hjá þeim (ekki hlæja, okkar markahæsti maður er með sex…) og svo Dame N’Doye sem skoraði tvennu um helgina og hefur verið að leika vel að undanförnu.

Liverpool

Af okkar mönnum er lítið að frétta. Maður býst við að sömu leikmenn verði í leikmannahóp og léku um helgina, spurningin er bara hvort Rodgers breytir einhverju til að reyna að blása lífi í sóknarleikinn. Liðið hélt hreinu í 14. sinn á leiktíðinni og því efa ég að hann breyti vörninni en ég yrði hissa ef Alberto Moreno komi ekki inn á ný fyrir Glen Johnson og eins get ég ímyndað mér að Mario Balotelli víki fyrir Adam Lallana eða Lazar Markovic, sem myndi þýða að Phil Coutinho spili á ný í falskri níu eins og gafst svo vel gegn Newcastle fyrir tveimur vikum.

Ég spái liðinu sem sagt svona:

Mignolet

Can – Skrtel – Lovren

Ibe – Gerrard – Henderson – Moreno

Lallana – Coutinho – Sterling

Hvað sem Rodgers ákveður skulum við vona að það virki og liðið skori mörk á morgun. Það segir samt sitt að ég sé að spá því að okkar besta von til að glæða sóknarleikinn lífi sé að fjarlægja framherjana og nota Coutinho „frammi“. Það verða keyptir framherjar í sumar.

Mín spá

Sko, ég er að fara til Liverpool um helgina og eftir að United steinlá gegn litla bróður okkar í gær er Liverpool í þeirri stöðu að geta, með sigrum á Hull annað kvöld og QPR á laugardag, verið komnir stigi á eftir United þegar þeir eiga næst leik. Ef það gerist er þetta allt í einu séns á nýjan leik. Lítill séns, en samt séns. Og þetta bara verður að gerast.

Við vinnum þennan leik 1-0. Adam Lallana skorar markið. Og hana nú!

YNWA

Eitt sæti laust!

Vegna óviðráðanlegra forfalla er laust eitt pláss í hópferð Kop.is og Úrval Útsýnar!

Farið verður út á fimmtudagsmorgun og komið heim á mánudag eftir viku. Um er að ræða flugsæti fyrir einn og gistingu í eins manns herbergi á lúxushóteli. Nánar um dagskrá ferðarinnar hér.

Áhugasamur/söm getur haft samband við íþróttadeild Úrval Útsýnar í síma 585-4000.

Vill einhver taka slaginn og skemmta sér með okkur um næstu helgi? Fyrstur kemur fyrstur fær.

Brendan Rodgers?

Hvað segiði, eigum við að reka Brendan Rodgers?

RodgersWestBrom

Það gustar um lágvaxna knattspyrnustjórann okkar þessa dagana. Þrjú slæm töp á tæpum mánuði hafa kálað því sem eftir lifði af vonum og draumum tímabilsins og skyndilega virðist hann sestur aftur í sjóðheita sætið sem hann hefur haft svo mikið fyrir að sleppa úr síðan í desember. Mikið er rætt um framtíð Rodgers og sitt sýnist hverjum.

Mín skoðun? Hún er sú að það er ómögulegt að ætla að leggja alla sök að fótum Rodgers, rétt eins og það er ómögulegt að firra hann allri sök vegna ytri aðstæðna. Þannig að áður en við getum kvaðið upp einhvern dóm um framtíð Rodgers er rétt að við förum yfir hvað hefur gerst á þessu tímabili.

Væntingar

Liðið er í 5. sæti í dag og vinnur ekki dollu á tímabilinu. Þetta þýðir að Brendan Rodgers er fyrsti knattspyrnustjóri Liverpool síðan 1950 til að vinna ekki eina dollu á sínum fyrstu þremur árum sem stjóri. Á blaðamannafundi fyrir helgina sagði Rodgers að liðið væri nokkurn veginn á pari ef þú berð saman getu liðsins og frammistöðu. En talaði hann svoleiðis í haust? Eða yfirmenn hans, eigendur félagsins?

Þann 16. ágúst í fyrra sagði Rodgers að stefnan væri sæti í topp 4 og bikar:

„The aim for us is we’d like to win a trophy like all of the top clubs and we want to be minimum in the top four and those will be the expectations for us.“

Degi áður hafði hann sagt nokkurn veginn það sama:

„Our aim is to be competitive. Like the top teams, we want to win a trophy. That would be an aim. In the league, it’s about sustaining Champions League football. For that you want to arrive in fourth. Once you have consolidated that, you can look beyond that. That’s certainly our aim this season.“

Hvernig eigum við að lesa orð stjórans öðruvísi en þau að hann og klúbburinn hafi verið að stefna á Meistaradeildarsæti og bikar? Það var stefnan, markmiðið og krafan. Og nú hafa bæði þessi markmið mistekist. Það er alveg sama hvað Rodgers segir í dag um að liðið sé „á pari“ miðað við getu, 5. sæti og undanúrslit voru ekki markmiðin í haust og því getum við ekki lýst neinu öðru yfir en að þetta tímabil sé slæmt. Engin markmið náðust = slæmt tímabil. Það þarf ekkert að ræða það frekar.

Á móti má hins vegar spyrja: voru menn að ofmeta þetta lið og klúbbinn í heild sinni þegar stefnan var sett á topp 4 síðasta sumar? Paul Tomkins, sem var á Íslandi um helgina, skrifaði í haust frábæran pistil sem ætti að vera skyldulestur fyrir aðdáendur Liverpool: „Why Liverpool never win the league“. Þar sýnir hann með tölfræði fram á svo að ekki verður um villst að liðin sem borga þrjá hæstu launapakkana vinna deildina alltaf og að lið eins og Liverpool, sem borgar talsvert minna í laun, á ekki séns.

Hvar er Liverpool í launastiga Úrvalsdeildarinnar? Í 5. sæti. Liverpool FC borgar 5. hæstu launin í deildinni, talsvert langt frá launapakka þriggja dýrustu liðanna. Það sama gildir um kostnað liða (þ.e. leikmannakaup). Þar er Liverpool aftur með 5. dýrasta liðið.

Er 5. sæti í deildinni þá ekki bara „á pari“ eins og Rodgers sagði?

Við skulum vinda okkur í tímabilið, skoða gengið aðeins nánar og sjá hvort hægt hefði verið að ná betri stöðu en 5. sæti í deildinni, eða lengra í öðrum keppnum.

Frammistaða

Evrópa

Svo við höldum áfram með golf-lingóið: ef 5. sæti er annað hvort á pari eða skolli þá er óhætt að segja að Rodgers hafi sprengt skorkortið á Evrópubrautinni, tekið par 5 holu með tíu höggum eða meira. (Ókei, nóg af golfi í bili.) Drátturinn í riðil Meistaradeildar var okkur nokkuð hliðhollur; við vissum að Evrópumeistarar Real væru sennilega of stór biti og það reyndist satt en samt voru menn svekktir að sjá þá labba svona auðveldlega yfir okkar menn á Anfield í haust. Basel eru gott lið en voru sennilega veikasta liðið úr potti 2, á pappír, á meðan Ludogorets voru nýliðar í Meistaradeildinni. Liverpool vann einn leik af fjórum gegn þessum tveimur liðum. Það er bara langt frá því að vera nógu gott.

Hluti af slæmu gengi í Meistaradeild er hægt að skrifa á reynsluleysi og slíkt en Rodgers átti sjálfur nokkrar gloríur sem erfitt er að útskýra eða afsaka. Hann stillti upp varaliðinu á Santiago Bernabeau, sagði á þeim tíma að leikmennirnir sem töpuðu helgina áður í Newcastle hefðu átt skilið að missa sæti sitt í liðinu, nema að svo setti hann þá leikmenn alla í liðið aftur gegn Chelsea helgina á eftir þrátt fyrir að „varaliðið“ hafi staðið sig þokkalega gegn Real. Þá átti hann að mínu mati verstu liðsuppstillingu sína í úrslitaleik riðilsins, gegn Basel á Anfield; ótrúlega hægt og miðjusinnað lið með engan sóknarþunga í leik sem varð að vinnast.

Rodgers stóð sig einfaldlega illa í Evrópu í vetur. Á móti er hægt að benda á hárfín atriði sem höfðu mögulega úrslitaáhrif í riðlinum – rauða spjald Lazar Markovic strax eftir hlé gegn Basel, þegar blása átti til sóknar, eða kæruleysisvörn sem gaf Ludogorets jöfnunarmark í uppbótartíma á útivelli – en liðið átti einfaldlega að gera betur og þar þarf Rodgers að axla ábyrgð.

Evrópudeildin sýndi í raun meira af því sama. Naumur 1-0 sigur heima og svo 1-0 tap úti þar sem liðið bakkaði allt of aftarlega í seinni hálfleik. Þeirri keppni lauk svo í vítaspyrnukeppni og enginn þjálfari í sögunni hefur verið gagnrýndur fyrir að tapa þeim.

Bikarkeppnir

Deildarbikarinn var góður. Liðið fór í undanúrslit og féll þar út í framlengingu á Stamford Bridge, gegn sterkasta liði Englands. Það var svekkjandi en það er engin leið að skamma stjórann fyrir það. Deildarbikarinn skrifast sennilega sem okkar best heppnaða þátttaka í keppni þetta tímabilið.

Það var aðeins meira bras í ensku Bikarkeppninni. Liðið þurfti umspil á útivelli gegn tveimur neðrideildarliðum (Bolton og Blackburn) til að komast á Wembley og þar átti Rodgers síðan næstum því jafn lélega liðsuppstillingu og gegn Basel. Sá leikur tapaðist sanngjarnt og þótt Villa sé ekki slæmt lið (hafa unnið okkur tvisvar í vetur) verður það að teljast ótrúlega svekkjandi að hafa ekki farið lengra hérna.

Samt, undanúrslit í báðum bikarkeppnum. Svekkjandi að ná í hvorugan úrslitaleikinn en enginn skandall, svo sem. Rodgers stóð sig betur hér en í Evrópu, svo mikið er víst.

Úrvalsdeildin

Liðið situr þegar þetta er skrifað í 5. sæti eftir 34 umferðir og með leik til góða á liðin í kringum sig. Samt er of langt í liðin fyrir ofan til að hægt sé að láta sig dreyma. 4. sætið er farið þetta árið, það var endanlega gulltryggt með þessu daufa jafntefli gegn West Brom í gær.

En hvernig metum við þetta tímabil, að því gefnu að 5. sæti sé hámarksniðurstaða? Við vonuðumst eftir meiru eins og á hverju tímabili en er raunhæft að segja að Rodgers hefði átt að geta betur gegn fjórum klúbbum sem eru með dýrari lið og hærri launapakka? Blindaði Öskubuskuævintýrið (sem breyttist í martröð rétt fyrir miðnætti) í fyrra okkur og lét okkur halda að liðið væri betra en það er? Eða er það algjört klúður að hafa ekki náð topp 4 í ár?

Fyrir mér, þegar við tölum um Úrvalsdeildina erum við að tala um tvær frammistöður hjá Liverpool. Hér er fyrri frammistaðan, þetta er staðan í deildinni í fyrstu 12 umferðunum eða fram til 24. nóvember:

Fyrstu12

Þarna er liðið í 12. sæti og þegar búið að gefa liðunum sem keppast um topp 4 á bilinu 3-18 stiga forskot. Þetta er einfaldlega skelfileg byrjun á tímabili og þegar við horfum yfir heildina er þetta ástæðan fyrir því að liðið var ekki með í baráttunni í ár.

Hér eru svo næstu 21-22 leikir, eða frá 24. nóvember og til dagsins í dag:

Seinni21

Þetta er rúmlega hálft tímabil, fimm mánuðir, og hér er Liverpool í 3. – 4. sæti með 44 stig. Á þessum tíma hafa aðeins þrír af 21 deildarleik tapast; United í desember og svo United aftur og Arsenal í mars/apríl. Gengið var á tíma það gott að í aðdraganda United-leiksins á Anfield fyrir mánuði var liðið ósigrað í fjóra mánuði, með besta gengið í deildinni frá áramótum og menn voru jafnvel að spá liðinu 2. sætinu.

Hvernig metum við Rodgers þá eftir svona tímabil í deild? Að mínu mati er hægt að skipta frammistöðu hans í deildinni á nokkuð hreinan hátt sem hér segir:

Slæmt: Hann missti Suarez og svo Sturridge en reyndi samt að spila sömu taktík án þeirra. Þá barði hann höfðinu allt of lengi við steininn þegar ljóst var orðið í haust að sú taktík myndi ekki virka með núverandi leikmannahópi.

Gott: Þegar allt virtist glatað í desember, og á tíma þar sem hann hefur sjálfur viðurkennt að hafa óttast starfsöryggi sitt, þá fann hann einhverja leið út úr ógöngunum. 3-4-3 leikkerfið náði því besta úr tiltækum leikmönnum og lífgaði á ótrúlegan hátt við tímabil sem var steindautt snemma í desember.

Slæmt: Þegar leikmenn á borð við Sturridge, Lucas og Gerrard komu aftur inn úr meiðslum reyndi hann að troða þeim inn í 3-4-3 kerfið sem varð til þess að of margir leikmenn voru að spila úr stöðu í kerfi sem hentaði hópnum ekki lengur. Þetta þýddi að liðið missti flughæð gegn Swansea og hrapaði svo til jarðar gegn United og Arsenal í þremur slæmum deildarleikjum í röð.

Þannig lít ég allavega á þetta. Rodgers er að sjálfsögðu vorkunn að hafa misst Suarez síðasta sumar, og svo Sturridge í meiðsli, og svo Sakho og svo Gerrard og svo Lucas og svo framvegis. Þetta var erfitt, hann fékk mjög slæma hönd á þessari leiktíð og ekki bætti úr skák að í stað Suarez og Sturridge fékk hann þrjár myglaðar rúsínur í framlínuna. En hann átti engu að síður að geta betur. Töp í haust gegn Aston Villa heima og Newcastle, West Ham og Crystal Palace úti voru rándýr og eru enn að kosta okkur. Bara fjögur jafntefli þar hefðu skipt sköpum í keppninni um fjórða sætið nú í vor. Hann vær samt mikið hrós fyrir að lífga tímabilið við og gengið á köflum var frábært í febrúar/mars, þar til það hrundi á ný og 4 stig af síðustu 12 í deildinni hafa gert út um vonir okkar.

Niðurstaðan: bikarkeppnirnar voru viðunandi, Evrópa var skelfileg og deildin hefur á heildina verið slæm en með stórum góðum kafla í miðjunni. Spurningin sem situr eftir er þessi: er þessi frammistaða nóg til að gefa Rodgers vinnufrið í sumar? Áður en ég kveð upp Stóradóm þurfum við að skoða tvo aðra þætti félagsins. Þetta er nefnilega ekki allt Brendan Rodgers að kenna.

FSG og innkaupastefnan

Þetta er nokkuð stórt mál og efni í aðra, langa grein. Fyrir mér horfa eigendamálin í hnotskurn svona: fyrir fjórum og hálfu ári komu inn menn sem keyptu félagið og björguðu því frá talsvert djúpum skít. FSG hafa fært félaginu stöðugleika og undir þeirra stjórn hefur fyrirtækið LFC blómstrað, eins og sést á auglýsingasamningum og því að stækkun Anfield er í fullum gangi þessa dagana. Þeir hafa einnig nútímavætt ansi margt í kringum félagið og staðið sig vel þar. Þetta er það sem þeir kunna best og gera best og þarna eru þeir að toppa sig.

Hvað knattspyrnuna sjálfa varðar hafa hlutirnir verið, tja, erfiðir. Þeir eru á þriðja knattspyrnustjóranum á þessum stutta tíma eftir að hafa rekið bæði Hodgson og Dalglish, auk þess sem Damien Comolli var ráðinn og svo rekinn fyrir óljósar sakir. Þeir hafa sveiflast frá því að setja stórar upphæðir í enska leikmenn (Carroll, Downing, Henderson) í það að leita að földum, ódýrum gimsteinum erlendis (Aspas, Luis Alberto, Manquillo, Coutinho) í það að vera núna aftur að yfirborga fyrir menn með Úrvalsdeildarreynslu (Lallana, Lovren, Lambert, Balotelli).

Á þessum tíma hafa þeir einnig mætt tveimur stórum áskorunum: þegar Torres fór og þegar Suarez fór. Þegar Torres fór settu þeir það fé allt í kaup á tveimur leikmönnum, Suarez og Carroll. Annar þeirra reyndist einn besti leikmaður í sögu félagsins en hinn náði aldrei að standa undir nafni. Samt, þeir sýndu metnað og reyndu af fullum krafti þarna og í tíð Comolli virtist þetta einnig hafa verið þaulskipulagt sem er virðingarvert þar sem þetta gerðist allt seint í janúarmánuði fyrir fjórum árum.

Síðasta sumar fór Suarez svo fyrir metfé. Ef FSG og þeirra menn eru störfum sínum hæfir áttu þeir að vera búnir að undirbúa þá sölu í a.m.k. ár, vonast kannski eftir að hann yrði kyrr en búið til Plan A, Plan B og Plan C til öryggis. Svo fór þó ekki. Liðið reyndi að fá Alexis Sanchez í staðinn frá Barca en þegar hann vildi ekki koma gerðist ekkert í rúman mánuð og svo var farið í skyndiákvörðunarkaup á Mario Balotelli sem var orðinn svo illa séður á 18 mánuðum hjá AC Milan að stuðningsmenn þeirra nánast fögnuðu þegar hann var seldur.

Hafi restin af innkaupunum frá síðasta sumri sannað sig á köflum í vetur (það býr enn mikið í Can, Markovic, Lovren, Lallana og Moreno) að þá einfaldlega féllu menn á því prófi að bæta liðinu upp missinn á Luis Suarez. Það er ekki að furða að menn eru þegar byrjaðir að tala um það sem stóra verkefni komandi sumars, að kaupa leikmann eða leikmenn sem áttu að koma inn fyrir ári síðan.

Hvað sem mönnum finnst um störf Brendan Rodgers í vetur þá er eitt algjörlega óumdeilanlegt: hann hefði pottþétt staðið sig betur í vetur ef yfirmenn hans hefðu keypt betri staðgengla fyrir Suarez.

Mín skoðun á FSG er sú að þetta eru góðir eigendur og ég er hrifinn af mörgu sem þeir hafa gert en nú einfaldlega verða þeir að gera nauðsynlegar breytingar á vinnulaginu í sambandi við leikmannakaup og -sölur. Rodgers er þar hluti af teymi sem hefur staðið sig allt of illa og farið illa með háar fjárhæðir á síðustu fjórum árum. Það versta er að stefnan virðist ekki skýr, menn skiptast á að ofborga fyrir Englendinga og kaupa óþekkta leikmenn frá Evrópu á tombóluprís og sjaldan gengur eitthvað upp.

Hvort sem Rodgers eða einhver annar stýrir Liverpool á næstu leiktíð heimta ég að þessi mál verði endurskoðuð og ég krefst þess að sjá betri og skýrari innkaupastefnu strax í sumar.

Aðrir valkostir

Það er verið að ræða Rodgers mikið núna. Stór hluti af því er vegna frammistöðu liðsins í vetur og vonbrigða stuðningsmanna en stór hluti af því er einnig vegna þess hverjir eru mögulega á lausu í sumar.

Við vitum að Jurgen Klopp hættir hjá Dortmund. Einnig er talið nokkuð líklegt að Manuel Pellegrini hætti hjá Man City, Rafa Benítez hætti með Napoli og þá er slúðrað um að Carlo Ancelotti gæti hætt með Real Madrid. Ef af þessu verður fer af stað ákveðinn stjórakapall þar sem nokkrir þjálfarar gætu skipt stóru liðunum sín á milli. Ancelotti hjá City? Rafa hjá Real? Klopp hjá Real og Rafa hjá City? Og svo framvegis.

Þetta, í bland við lélegt tímabil Liverpool, gerir fólk órólegt. Eins og nokkrir stuðningsmenn höfðu orði á í podcasti frá The Anfield Wrap í vikunni: hvað ef Rodgers fær tíma, hlutirnir batna ekki í haust og það þarf að reka hann á næsta vetri eða næsta vor en þá verða allir toppstjórarnir komnir í önnur störf? Hvað ef gengið batnar ekki á næsta ári en við höfum misst af Klopp, Ancelotti, Rafa, Pellegrini og fleirum til?

Þessi stjórakapall hefur klárlega áhrif á hugsanagang fólks í sumar. Í sama podcast-þætti TAW kom annar góður punktur einnig fram. „The knives are out,“ sögðu þeir þar og vísuðu í skollaleik sem hefur verið leikinn nógu oft til að við þekkjum hann þegar hann fer af stað. Hugsið um umræðuna í kringum Liverpool allt frá tapinu gegn United. Blaðamenn grafa undan Rodgers, vísa í „innanbúðarmenn“ sem reyna að koma þessu eða hinu á framfæri í skjóli nafnleysis. Á sama tíma heyrum við sögur af stuðningsmönnum sem hrópa ókvæði að Rodgers í hvert sinn sem liðið fær á sig mark, svo berast fréttir af því að ákveðnir leikmenn rífist við Rodgers í klefa eftir leik, og svo framvegis. Umræðan á Kop.is og víðar á netinu hefur líka verið að færast í neikvæðara horf; þeim virðist fjölga stöðugt sem kalla eftir brottrekstri Rodgers og þolinmæðin virðist þverra, hratt.

Yfirleitt leiðir þetta allt að sömu endalokum: Rodgers hættir með Liverpool. Eini óvissuþátturinn er hversu langan tíma það tekur, eftir að skollaleikurinn fer af stað. Það tók rúmlega ár hjá Houllier, frá því að fyrst bar á „the knives are out“-hegðuninni þar til hann steig til hliðar. Það tók tæp þrjú ár hjá Rafa, frá frægum blaðamannafundi í Newcastle og þar til hann var rekinn. Dalglish hafði svo mikið goodwill að hnífarnir fóru aldrei út hvað hann varðaði, hann flaug bara til Boston eftir tímabilið og var tilkynnt þar um starfslok. En nú eru hnífarnir svo sannarlega á lofti og beint að Rodgers. Spurningin er í raun bara, tekur það hann mánuð eða ár eða þrjú að bugast? Ekkert annað en gríðarleg velgengni og bikarar á hverju tímabili dugir til að verjast hnífunum og í hvert sinn sem liðið á lélegan leik eða lélegan mánuð fjölgar hnífunum.

Þetta er töpuð barátta, um leið og hún fer af stað.

Niðurstaða

Ég spurði kollega mína hér á Kop.is eftir leikinn í gær hvort þeir vildu halda Rodgers eða láta hann fara. Óformleg könnun, sagði ég. Niðurstaðan var afgerandi: þeir sögðu allir að þeir vilji halda Rodgers og gefa honum meiri tíma.

Ég er sammála því. Ég fór ansi nálægt því að missa trúna á honum í byrjun desember en viðsnúningurinn síðan þá hefur orðið til þess að ég er ekki reiðubúinn að samþykkja að hann sé kominn á endastöð með liðið, jafnvel þótt endalok tímabilsins ætli að verða slök.

Þannig að við getum lýst því hér með yfir: Kop.is stendur við bakið á Brendan Rodgers og vill að hann fái annað tímabil til að gera betur. En… þá verða líka ákveðnir hlutir að breytast. Við viljum skýrari innkaupastefnu og metnað á leikmannamarkaðnum í sumar, til að tryggja að hlutir eins og meiðsli Sturridge (eini almennilegi framherjinn) eða meiðsli Lucas (eini varnartengiliðurinn) fatli ekki liðið í fleiri vikur í einu á næstu leiktíð.

Þá er ljóst að Rodgers, verði hann áfram, verður að læra af sínum mistökum í vetur. Of mikið af leikmönnum sem fá ekki að spila sína bestu stöðu, of stífur í taktík og leikmannavali, of lítil þolinmæði gagnvart ungum leikmönnum eins og Markovic (hve oft tekinn út af í hálfleik?) eða Manquillo (man einhver eftir honum?). Rodgers hefur gert mýmörg mistök í vetur og verði hann áfram vonum við að hann læri af þeim og þau styrki hann í starfi næsta vetur.

Hvað FSG-menn gera er hins vegar erfitt að segja. Dalglish vann Deildarbikarinn, komst í úrslit enska Bikarsins og endaði á svipuðum slóðum og Rodgers er núna í deildinni. Það bjargaði honum ekki. FSG hafa sýnt að þeir eru hispurslausir þegar þessi mál eru annars vegar, bæði hjá Liverpool og Boston Red Sox í Ameríkudeildinni í hafnarbolta.

Mitt gisk? Það eru fimm deildarleikir eftir og ef liðið ætlar að spila þá alla illa og missa Tottenham og Southampton fram fyrir sig kostar það Rodgers starfið í vor. Það hefur áhrif á hugsanagang FSG að stjórar eins og Jurgen Klopp séu á lausu. Rodgers verður að rífa liðið í gang og sýna að það sé ennþá stígandi í verkefninu fram á vorið, þótt að engu sé að keppa.

Hlutirnir eru ekki svart/hvítir. Það er til fólk þarna úti sem vill kenna Rodgers um allt sem aflaga fer og fólk sem vill ekki heyra minnst á gagnrýni í hans átt og bendir á eigendurna. Sannleikurinn er sá að bæði Rodgers og FSG geta betur en hefur verið gert síðasta árið og við krefjumst þess að það verði sýnt í verki á næstu 13 mánuðum, innan og utan vallar.

Hvað finnst lesendum Kop.is?

Hvað á FSG að gera við Brendan Rodgers í vor?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

West Brom 0 Liverpool 0

Liverpool heimsótti WBA í nokkuð mikilvægum leik en fer heim með aðeins eitt af þremur stigum sem í boði voru þrátt fyrir mikla yfirburði í leiknum.

Leikurinn fór afar rólega af stað. Liverpool átti leikinn og stjórnaði honum en WBA voru mjög skipulagðir og þéttir fyrir í vörninni og vörðust á mörgum mönnum. Fyrsta færi Liverpool kom þegar aukaspyrna Gerrard fór rétt yfir markið um miðjan fyrri hálfleik.

Liverpool með alla yfirburði í leiknum en markið til að skilja að vantaði þegar flautað var til hálfleiks.

Svipaðir hlutir voru upp á teningnum í seinni hálfleik. Liverpool hélt áfram að þjarma að varnarlínu WBA en gekk illa að brjóta niður varnarmúrinn. Jordan Henderson og Coutinho áttu skot úr ágætis færum en markvörður WBA varði vel í tvígang. Skömmu síðar átti svo Jordon Ibe skot í þverslánna.

Smá kæruleysi í vörn Liverpool kostaði næstum mark en Dejan Lovren bjargaði á línu og minnstu munaði að hann yrði hetja leiksins en skalli hans fór rétt framhjá markinu í blálok leiksins. Markalaust jaftefnli varð því raunin í miklum vonbrigða leik.

Liðið virðist vera komið á sjálfstýringu og virðist ekki hafa að neinu að keppa lengur þar sem draumur um Meistaradeildarsæti virðist fjara út með leik eins og þessum. Liðið lék ekki illa heilt yfir en við sáum nákvæmlega það sem við höfum séð svo oft í vetur: liðið tekur takmarkaða sénsa í sóknarleiknum, vantar herslumuninn, frumlegheitin og hreinlega viljan til að brjóta niður mótherjana.

Maður ætlar rétt að vona að liðið muni enda deildina af krafti og setja tóninn fyrir næsta tímabil hvernig svo sem þetta mun fara. Það er ömurlegt að sjá lið bara fljóta í þessum leikjum sem þau eiga eftir.

Liðið gegn WBA

Brendan Rodgers hefur tilkynnt byrjunarlið sitt fyrir útileikinn gegn WBA sem hefst klukkan tvö í dag.

Mignolet

Can – Skrtel – Lovren

Johnson – Henderson – Gerrard – Ibe

Sterling – Balotelli – Coutinho

Bekkur: Jones, Toure, Manquillo, Lallana, Borini, Markovic, Allen

Nokkrar áhugaverðar breytingar. Balotelli kemur inn í liðið sem og Jordon Ibe og Glen Johnson. Allen og Markovic tilla sér á bekkinn en Moreno er ekki í hóp svo ætli hann sé ekki eitthvað tæpur. Lallana er kominn úr meiðslum og byrjar á bekknum.

Þetta er ágætt lið. Það verður afar mikilvægt að leikmenn mæti öflugir til leiks og skilji ömurlegan bikarleik eftir í fortíðinni.