Fréttaflakk á langri viku (opinn þráður)

Það má nú segja að ýmislegt sé í umræðunni hjá alrauðu englunum okkar sem vert er að spjalla um til að reyna að stytta þessa löngu viku.

Fyrst virðist hafa verið sett upp ansi mikið átak í næringarmálum á Anfield, það er ekki langt síðan við gerðum samning við Dunkin’ Donuts og í dag birtast fréttir um að klúbburinn sé sá fyrsti á Englandi til að gera samning við Subway um samstarf.

Þetta gleður mig bara töluvert, það hefur ekki verið mikil gleði í næringarmálum manns á ferðum á völlinn hingað til en það er að breytast og er vel, sennilega eru sveittir lauktómatsósuborgarar á útleiðinni. Markaðsdeildin í góðum málum.

Að því sögðu þá komu Daily Mail með frétt um að tilkynnt verði um stækkun Anfield fyrir leikinn gegn Chelsea og settu myndir í loftið af fyrirhugaðri stækkun. Þessar myndir sýna gríðarlegar breytingar á Aðalstúkunni (Main Stand) og aðkomunni að vellinum á þeirri hlið, viðbótarhúsum undir búðina og veitingastað og ég veit ekki hvað. Stækkun þessi á að koma vellinum yfir 50 þúsund áhorfenda markið og síðan er talið að Annie Road endinn verði stækkaður og völlurinn muni þá rúma 55 – 60 þúsund manns.

Mikið vona ég nú að þetta sé rétt hjá þessu blaði sem ekki er gaman að vísa í, því þetta vallarmál er að verða eina skrefið eftir í því að maður bara sannfærist algerlega um eigendurna okkar.

Uppfært Babu: Hér eru betri myndir af vellinum eftir breytingar (óstaðfest)

Inni á vellinum er auðvitað allt augnsamband á leik sunnudagsins. Mourinho blessaður lætur auðvitað eins og véfréttin í Delfí og hefur tekist að snúa allri pressunni á hvað FA séu vondir við þá og hann bara spili varaliðinu sínu á Anfield. Við ræddum þetta allt í podcastinu okkar og meiðsli Chelseamanna á þriðjudaginn voru auðvitað þannig að þar fóru tveir af leiðtogum liðsins sem mun skipta þá máli að hafa ekki á skoppandi Anfield.

Hins vegar eru töluvert margir leikmenn utan við hefðbundið byrjunarlið Chelsea sem að geta gert skráveifu, ljóst t.d. að miðjan þeirra verður Mikel, Matic, Lampard og Salah auk annað hvort Willian/Schurle og með annað hvort Torres eða Demba Ba uppi á topp þá geta þeir gert ýmislegt framávið. Mourinho mun hamast svona alveg þar til kl. 13 á sunnudaginn en ég stend við það að hann vill ekki koma á Anfield og leggja niður lappirnar án nokkurs, til þess er egoið hans alltof stórt. Kannski á móti Villa eða Norwich, en varla á Anfield.

Hins vegar stend ég enn við það að þetta snýst bara um okkur.

Umræðan um Meistaradeildarsætið okkar næsta vetur hefur ekki náð hæðum en Rodgers lýsti í viðtali við Echo-ið ánægju eigendanna og vilja þeirra til að styrkja liðið fyrir átökin í Meistaradeildinni næsta vetur og treysta stöðu klúbbsins til lengri tíma.

Frábærar fréttir.

Og sko, nú er 15 mínútum styttra fram að kick off á Anfield næstkomandi sunnudag!

Moyes rekinn (staðfest)

Dagurinn byrjar ekki vel því að Manchester United hafa fært okkur þær slæmu fréttir að David Moyes hefur verið rekinn.

Klúbburinn sem rekur ekki þjálfara og þar sem að stuðningsmennirnir styðja alltaf þjálfarann „no matter what“ hefur brugðist knattspyrnuheiminum og látið Moyes fara þrátt fyrir að hann hafi glatt okkur Liverpool stuðningsmenn í hverri viku allt þetta tímabil. Það er kannski við hæfi að rifja upp uppáhalds atvikin tengd Moyes á þessu ári. Fyrir mig persónulega þá mun ég sakna mest viðtalanna eftir leik þar sem hann hrósar liðinu fyrir að vera yfirspilað af liðum í neðri hluta deildarinnar.

Já, og fagnið þegar að United komst yfir gegn Fulham á heimavelli. Já, og töpin tvö gegn Liverpool, sérstaklega 3-0 tapið á Old Trafford. Já, og The Chosen One bannerinn! Já, og aðdáendurnir (sem styðja alltaf þjálfarann) sem leigðu flugvél til að fljúga yfir völlinn með skilaboð um að það ætti að reka Moyes. Já, og allir Manchester United stuðningsmennirnir sem við þekkjum, sem hættu algjörlega að hafa áhuga á fótbolta. Já, og svo var svo frábært að sjá hvern einasta United stuðningsmann styðja við sitt lið og Moyes í gegnum alla erfiðleikana. Já, og allir United stuðningsmennirnir sem vældu sífellt yfir slæmu gengi eftir að hafa haldið með liði sem var á toppnum í 25 ár. Þeir eru hetjur.

Ó David Moyes, við eigum eftir að sakna þín.

Kop.is Podcast #58

Hér er þáttur númer fimmtíu og átta af podcasti Liverpool Bloggsins!

KOP.is podcast – 58. þáttur

Þið getið hlustað á þáttinn beint með því að nota spilarann hér fyrir ofan en þið getið líka smellt á DOWNLOAD-takkann og sótt mp3-skrána ykkur til hæginda. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að þættinum á iTunes með því að setja þennan link, í RSS-áskrift undir podcast-lið iTunes.

Ég (Kristján Atli) stýrði þættinum. Með mér að þessu sinni voru Babú, SSteinn, Maggi, Einar Örn og Eyþór.

Í þessum þætti ræddum við sigurinn á Norwich City, yfirvofandi brottrekstur David Moyes hjá United, óvænta gjöf Sunderland og hituðum upp fyrir leikinn gegn Chelsea.

Norwich 2 – Liverpool 3

Það var alltaf klárt að við værum að fara að naga neglur, naglabönd, jakkaermar og hvað annað lauslegt áður en að þetta tímabil myndi klárast og það var sko sannarlega á ferðinni í dag á Carrow Road.

Við urðum að bregðast við því að Jordan Henderson er kominn í þriggja leikja bann og úr varð að Rodgers ákvað að halda sig við demantinn sinn og færa Sterling upp á topp. Svona var liðið:

Mignolet
Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan
Lucas – Coutinho – Gerrard (c) – Allen
Sterling – Suarez

Á bekknum: Jones, Toure, Agger, Cissokho, Moses, Alberto, Aspas

Næ ekki að hlaða inn tactics borðinu en Gerrard var aftastur með Lucas og Allen fyrir framan sig og Coutinho uppi á topp með Sterling og Suarez fremsta.

Ég gladdist mjög að sjá uppstillingu Norwich, þeir stilltu líka upp í demantsmiðju og pressuðu strax frá byrjun. Eitthvað sem er alveg dásamlegt að sjá gegn okkar mönnum, enda komumst við í 0-2 á ellefu mínútum auk þess sem Ruddy þurfti að hafa sig allan við að verja frá Joe Allen.

Fyrsta markið kom á 4.mínútu þegar Raheem Sterling ákvað bara að negla boltanum upp í hornið af 20 metrum á meðan flestallir í vörn Norwich voru í því að horfa á Luis Suarez. Frábært mark í alla staði. Eftir 11 mínútur var svo forystan aukin um helming. Flanno gerði mjög vel í að koma boltanum upp völlinn og á Sterling sem stakk innfyrir vörnina. Luis Suarez losaði sig við hafsent með flottri líkamssveigju og skoraði í fjærhornið. Hans mark númer 30 í vetur og mark númer 44 á útivelli hjá drengjunum, sem er enn eitt félagsmetið.

Þarna áttaði stjóri Norwich sig á að hans menn myndu ekkert ráða við að spila á þennan hátt. Hann fór að spila 4-4-1-1 og lét kantmennina og framherjana pressa okkar lið hátt. Mér fannst miðjan vera mjög lengi að átta sig á þessu öllu, sérstaklega vantaði það að fá hlaup eins og þau sem Hendo vanalega býður uppá til að hjálpa varnarmönnunum að losa pressuna og því komu langir kaflar þar sem trukkarnir okkar dúndruðu boltanum bara fram og þar var lítil vinnsla á litlu mönnunum. Það var þó án þess að mikil hætta skapaðist, mér fannst liðið batna þegar á leið og bara sáttur að fá þá inn með tveggja marka forystu.

Brendan brást við leikaðferð Norwich í hálfleik.

Fór úr demantinum í 4-5-1/4-3-3

Mignolet
Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan
Gerrard (c)
Sterling Lucas – Allen – Coutinho
Suarez

Klárlega til að reyna að auðvelda bakvörðunum að losa pressuna. Sem tókst ekki, Norwich var komið með blóð á tennurnar en þrátt fyrir að vera um 70% með boltann virtust þeir ekki ná að skapa mikið.

Ég skrifaði pistil fyrir nokkru um það að nú myndi mikið ráðast af fjölda mistaka okkar manna undir pressu. Á 54.mínútu sáum við stór mistök. Mignolet karlinn ákvað að vaða út í teiginn í fyrirgjöf sem Skrtel hefði nú sennilega stangað frá. Hann hitti ekki boltann betur en svo að slá hann til Gary Hooper sem þakkaði pent fyrir sig, minnkaði muninn og kveikti heldur betur í vellinum. Game on!

Suarez fékk fínt færi stuttu seinni til að auka muninn á ný en skaut rétt framhjá, Norwich hélt áfram að pressa, en á 62.mínútu vann Sterling boltann á okkar vallarhelmingi, tók 50 metra sprett og skoraði með skoti sem hafði góða viðkomu í Johnny Howson og í boga yfir Ruddy.

Game over surely?

Onei, ekki svo gott. Við áttum mjög erfitt uppdráttar í leiknum og á 77.mínútu skoruðu heimamenn. Þar var að verki Robert Snodgrass með skalla sem hann átti aldrei að fá svo frían. Sakho fékk boltann yfir sig og Flanno bara sneri baki í manninn sem skallaði í fjær. 2-3 og allt snarvitlaust.

Adams stjóri heimamanna henti inn öðrum senter, okkar maður brást við með Moses og Agger og stillti upp þriðja leikkerfinu, núna 5-3-2:

Mignolet
Johnson – Skrtel – Agger – Sakho – Flanagan
Lucas -Gerrard (c) – Sterling
Moses – Suarez

Þegar hér var komið sögu voru okkar menn einfaldlega hættir að sækja og neglurnar hrundu af í salnum sem ég horfði á leikinn í allavega. Hins vegar náðum við meira að höndla boltann þarna og báðar innáskiptingarnar virkuðu ágætlega, drengirnir tveir þorðu að fá boltann og spila honum, auk þess sem Agger karlinn var með kjaftinn vel opinn sýndist mér. Norwich náði ekki að skapa sér mörg færi, við getum þakkað dómara leiksins fyrir að flauta ekki á Sakho karlinn þegar hann braut klaufalega af sér á vítateigslínunni og Mignolet fyrir að verja einn skalla.

Lucas Leiva fékk svo færi til að klára leikinn í uppbótartímanum en varnarmenn þeirra gulu komu í veg fyrir það. Eftir fjögurra mínútna uppbótartíma gall lokaflautið og 800 kílóa sekkur datt af mínum öxlum allavega, sigur gegn Norwich.

Fimm stiga forysta í alla vega eina viku, orðið klárt að við munum leika í Meistaradeildinni næsta árið þar sem við verðum aldrei neðar en í þriðja sæti deildarinnar og draumurinn verður stærri og sterkari.

Samantekt liðs og leiks

Þetta var sko ekki neitt annað en taktískt stríð. Frábært fyrsta kortérið vann hann fyrir okkur og það var örugglega að hluta til vegna uppstillingar heimamanna sem voru ansi ævintýragjarnir.

Síðustu 75 mínúturnar áttum við í miklu basli. Þar kom að mínu viti það stærst til að ef litið er framhjá varnarlínunni og Gerrard voru mjög fáir að vinna í því að losa pressu og fá boltann. Joe Allen reyndi þó og Lucas átti kafla. Það er lykilatriði þegar á þig er pressað að allt liðið taki þátt í að losa pressuna og það gekk ekki vel. Það varð svo alltof oft til þess að varnarmennirnir tóku rangar ákvarðanir, voru alltof lengi með boltann og dúllandi honum á milli. Sérstaklega auglýsti ég eftir Luis Suarez í seinni hálfleik til að vinna þá vinnu að berjast uppi á topp til að halda blöðrunni betur.

Skrtel bar af í varnarleiknum, Johnson og Flanno áttu báðir erfitt lengst af Sakho gerir nokkur mistök í leik, en slapp með það. Gerrard skilaði sínu og Allen átti ágæta innkomu, Lucas er ekki vanur að vera svona ofarlega allan leikinn, Coutinho átti jafn dapran dag í dag og frábæran síðast. Suarez skorar alltaf gegn Norwich og er fyrsti LFC leikmaðurinn tl að skora 30 mörk eftir stofnun Úrvalsdeildarinnar. En hann átti erfiðan seinni hálfleik fannst mér.

Agger og Moses komu flott inn í þennan leik en bestur fannst mér Raheem Sterling án nokkurs vafa. Tvö frábær mörk og ódrepandi duglegur í öllum sínum aðgerðum. Hann hefur verið ótrúlegur síðustu vikur, megi svo vera áfram.

Leikur margra mistaka og erfiðisvinnu gegn spræku liði kanarífuglanna að baki.

Það eina sem þurfti að gerast í dag var að ná þremur stigum

Það tókst og fyrir það fá allir þeir þrettán leikmenn og þjálfarateymið hæstu einkunn frá mér. Næst er það Chelsea, sigur þar mun tryggja okkur a.m.k. annað sætið í þessari deild og ramma vel inn síðustu mögulegu skrefin.

Við sáum það sama á okkar liði og sást hjá City á miðvikudaginn og Chelsea í dag. Þrungandi spennu í líkama leikmanna sem vita alltof vel hvað er í húfi. Ólíkt hinum liðunum tveimur þá skiluðu okkar menn öllum stigunum.

Það krakkar mínir….eru merki MEISTARALIÐA!!!

WeGoAgain

Byrjunarliðið gegn Norwich mætt

Einhvern tíma síðustu dagana var settur upp frasinn um að „þetta margir úrslitaleikir“ séu eftir.

Oft hefur þetta verið nokkuð eingöngu klisja, en guð á himnunum hvað þetta er ekki klisja hjá okkar mönnum.

Vikan hefur verið liðinu einfaldlega ótrúleg og það sendir út hrikalega sterk skilaboð að taka þrjú stig á Carrow Road í dag.

Rodgers hefur valið það lið sem hann telur líklegast til að ná stigunum með heim og er eftirfarandi:

Mignolet
Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan
Allen – Gerrard (c) – Lucas
Sterling – Suarez – Coutinho

Á bekknum: Jones, Toure, Agger, Cissokho, Moses, Alberto, Aspas

Þetta lið lítur vel út. Sjáum hvernig uppstillingin er og höfum hana hárrétta eftir leik, set þetta upp svona núna.

Elsku drengirnir okkar, allar okkar vonir og draumar liggja í fótum ykkar dásemdarpungar.

MakeUsBelieve #WeGoAgain