Latest stories

 • Liverpool 90 stig +

  Liðið okkar stefnir í það að ná í 90 stig eða fleiri á þessu tímabili (getum farið í 92 stig) og gerist það ekki oft að lið ná þessum árangri.
  Þetta er frábær árangur og til þess að styðja það þá er ágæt að skoða hversu oft hefur lið náð 90 stigum eða fleiri frá árinu 1990. Ákvað að hafa bara gamla meistara árið okkar sem upphafspunkt.

  Hversu oft hefðu 90 stig eða fleiri dugað til sigurs í deildinni?
  1990 90 stig eða fleiri hefðu dugað til að verða meistara
  1991 meistarar
  1992 meistarar
  1993 meistarar
  1994 Man utd náði 92 stigum en í 42 leikja deild.
  1995 meistarar
  1996 meistarar
  1997 meistarar
  1998 meistarar
  1999 meistarar
  2000 Man utd náði í 91 stigi
  2001 meistarar
  2002 meistarar
  2003 meistarar
  2004 Arsenal náði í 90 stig
  2005 Chelsea náði í 95 stig
  2006 Chelsea náði í 91 stig
  2007 meistarar
  2008 meistarar
  2009 Man utd náði í 90 stig
  2010 meistarar
  2011 meistarar
  2012 meistarar
  2013 meistarar
  2014 meistarar
  2015 meistarar
  2016 meistarar
  2017 Chelsea náði í 93 stig
  2018 Man City náði í 100 stig
  2019 Man City náði í 98 stig og Liverpool 97 stig
  2020 Liverpool náði í 99 stig
  2021 meistara
  2022 Man City og líklega Liverpool ná bæði yfir 90 stigum

  Frá 1990 s.s 33 tímabil þá hefur aðeins 11 sinnum meistara liðið náð í eða yfir 90 stig(eitt í 22 liða deild) og ef við sigrum Wolves og náum í 92 stig þá hefur aðeins 6 lið náð þeim stiga fjölda og unnið)
  Aðeins einu sinni í sögunni hefur lið náð yfir 90 stigum og ekki orðið meistara og það voru við 2019 og svo í ár verða það annað hvort við eða Man City sem bætist í þennan hóp.
  Það sem liðið okkar er að gera núna er ótrúlegt og þótt að þetta endi ekki í meistaratitlinum þá held ég að allir sem vilja vita er að okkar lið í dag er í algjöri elítu með bestu liðum allra tíma og hefði liðið okkar oftar en ekki slátrað deildinni með þessum árangri í vetur. Það sem gerir þennan árangur í deild en þá merkilegri er að við erum í úrslitum meistaradeildar og höfum unnið FA Cup og deildarbikarinn svo að leikjaálagið er rosalegt á liðið.

  YNWA – Liverpool 2022 er eitt besta lið allra tíma og ég tala nú ekki um ef það bætist við einn eða má láta sér dreyma tveir bikarar í viðbót.

  [...]
 • Southampton 1-2 Liverpool

  1-0  Redmond  13. mín

  1-1  Minamino  27. mín

  1-2  Matip  67. mín

  Þrátt fyrir miklar breytingar á okkar liði sáum við svipaðan leik og undanfarinn misseri þar sem andstæðingarnir lágu gríðarlega djúpt og ógnuðu með skyndisóknum. Þannig náðu þeir að fá fyrsta færi leiksins þegar það kom langur bolti fram á Broja. Matip gerði vel og þvingaði hann í þröngt færi þar sem Alisson varði auðveldlega frá honum. Það fór þó ekki jafnvel nokkrum mínútum síðar þegar Southampton unnu boltann af Diogo Jota, með því að brjóta á honum og ótrúlegt að ekkert hafi verið dæmt, og náðu að koma boltanum út á Redmond sem sótti í átt að teignum og tók skot rétt fyrir utan í tánna á James Milner og þaðan fór boltinn framhjá Alisson upp í fjærhornið og Southampton leiddi 1-0.

  Liverpool svöruðu um leið þegar Firmino skoraði með skalla eftir aukaspyrnu en var réttilega dæmdur rangstæður.Forustan lifði þó ekki lengi því fjórtán mínútum síðar jafnaði Liverpool þegar Jota kom boltanum inn á Minamino sem þrumaði boltanum í netið og skoraði gegn sínum gömlu félögum.

  Liverpool setti svo pressu á Southampton það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en náði ekki að brjóta þá á bak aftur. Rétt áður en flautað var til hálfleiks meiddist Joe Gomez þegar Tella lennti á fætinum á honum eftir baráttu um boltann. Leit ekki vel út og vonum að þetta séu ekki enn einn löngu meiðslin hjá Joe.

  Diogo Jota var nálægt því að skora í byrjun seinni hálfleiks þegar hann setti boltan rétt framhjá eftir sendingu frá Tsimikas. Það var svo eftir hornspyrnu frá Tsimakas sem sigurmarkið kom en hann kom boltanum inn í teig þar sem Matip og Walker-Peters virtust báðir hafa náð að skalla boltann sem fór í fallegan boga í netið.

  Undir lok leiks fóru Southampton menn að henda mönnum fram og náðu að komast í nokkur hálffæri en leikurinn endaði 2-1.

  Frammistöður leikmanna

  Minamino skoraði gott mark til að koma okkur aftur í leikinn en sást ekki mikið fyrir utan það, Konate var mjög góður í leiknum vann boltann ítrekað tilbaka og var gríðarlega stekur í teignum þegar Southampton reyndi að sækja í lokinn. Milner og Jones voru flottir á miðsvæðinu en í seinni hálfleik þurfti Milner að redda hægri bakverði þar sem Trent var ekki í hóp í dag og leysti það ágætlega. Annars fer þessi leikur ekkert í sögubækurnar fyrir frammistöður en 3 stig í hús og lykilmenn hvíldir.

  Umræðan

  • Titilbaráttan lifir – vissulega ekki miklar líkur á því að City misstígi sig gegn Aston Villa en það getur allt gerast í fótbolta og þessi sigur tryggir það að við getum enn nýtt okkur það ef það gerist.
  • Rotation – það er ekki oft síðan ég byrjaði að fygjast með fótbolta þar sem Liverpool hefur getað gert níu breytingar á byrjunarliði og eru samt að stilla upp gríðarlega sterku byrjunarliði.
  • Mörk úr öllum áttum – Matip með sigurmarkið í dag og Minamino kemur úr frystikistunni og skorar virðast allir geta skorað í þessu Liverpool liði.

  Næsta verkefni

  Næst er það lokaumferðinn á sunnudaginn klukkan þrjú en þar mætum við Wolves. Tveir leikir eftir af tímabilinu og í besta falli endum við með fernuna!

  [...]
 • Southampton á þriðjudaginn

  Það er skammt stórra högga á milli, skjótt skipast veður í lofti og sjaldan er ein báran stök í tólf vindstigum. Möguleikinn á fjarkanum er ennþá galopinn eftir atburði helgarinnar, þar sem Liverpool tryggði sér bikar nr. 2 á leiktíðinn af X mörgum. Kannski verða þeir “bara” tveir, kannski þrír og kannski fjórir…? Ég veit ekki með ykkur, en ef einhver hefði boðið mér það í upphafi leiktíðar að Liverpool myndi vinna 2 bikara, þá hefði ég tekið því án þess að hugsa mig tvisvar um. En núna? Mikill vill meira!

  Og áður en lengra er haldið: þetta mark er árs gamalt. Við þreytumst ekkert að rifja upp þessi tilþrif hjá Alisson:

  Staðan í deildinni

  Eftir að West Ham og City gerðu jafntefli (takk Fabianski og Bowen!), þá er allt galopið ennþá. Vissulega eru líkurnar ennþá City megin, enda liðið núna með 4ra stiga forskot á toppnum, en það er ennþá svigrúm fyrir meiri dramatík. Skoðum aðeins hvaða möguleikar eru í stöðunni. Það eru þrír leikir eftir hjá City og Liverpool:

  Southampton – Liverpool (þriðjudaginn 17. maí)
  City – Villa (sunnudaginn 22. maí)
  Liverpool – Wolves (sunnudaginn 22. maí)

  Ef City vinna leikinn gegn Villa verða þeir meistarar, og ef Liverpool tapar a.m.k. öðrum leiknum hefur það sömu áhrif. Þá er bara að sjá til þess að hvorugur þessara möguleika komi upp. Gefum okkur að City geri jafntefli við Villa. Þá þurfa Liverpool að vinna báða sína leiki, og vinna þá deildina með 92 stig, en City enda með 91. Allt annað en tveir sigrar hjá Liverpool í þessu tilfelli, og City verða meistarar, svo við látum það ekki gerast heldur. Þá eigum við eftir að skoða möguleikann sem kemur upp ef City tapar gegn Villa. Þá myndast sá möguleiki að Liverpool vinni annan leikinn og geri jafntefli í hinum, og þá ræðst þetta á markatölu. Þá enda bæði lið með 90 stig, en City er í dag með 7 mörk í plús. Ef þeir tapa gegn Villa þá fer sá munur að lágmarki niður í 6 mörk, og ef Liverpool gerir jafntefli í öðrum leiknum þá þarf að vinna hinn með a.m.k. 6 marka mun. Semsagt, ekki útilokað…

  Hafandi farið yfir allt þetta, þár þarf Liverpool að klára sína leiki, og vona að Steven Gerrard, Philippe Coutinho og Danny Ings geri okkur greiða (og restin af Villa liðinu svosem líka). Við munum að Villa menn voru allt annað en auðunnir í leik liðanna sl. þriðjudag, og vonandi nær Captain Fantastic að gíra sína menn upp í ennþá meiri geðveiki gegn hinum ljósbláu. Mögulega spilar líka inn í að þarna mun Jack Grealish mæta sínum gömlu félögum, og vonandi spilar það enn meira inn í gírunina hjá Villa mönnum. En mögulega spilar líka inn í að Villa spilar leik í millitíðinni (á fimmtudaginn, gegn Burnley), á meðan City fær heila viku til að undirbúa sig. Að lokum spilar svo inn í að City hafa alveg átt það til að missa hausinn þegar á ögurstundu er komið (sjá: undanúrslitin gegn Real sem dæmi).

  Ég hef rætt það áður að ég tel að það sé nákvæmlega ekkert skrifað í skýin af þessu tilefni. Jújú, Gerrard gæti alveg “unnið deildina fyrir Liverpool”, en hinn möguleikinn er líka alveg raunhæfur og jafnvel líklegri enda munu City menn spila á heimavelli og vita alveg hvaða áhrif það mun hafa ef þeir vinna ekki.

  En munum hvað Klopp sagði.

  From doubters to believers

  Það væri auðvelt að gefa bara upp vonina strax, þá væri hægt að segja ef allt fer á versta veg: “æ ég vissi að svona færi og var ekkert að gera mér vonir um annað”. En svo má líka einfaldlega leyfa sér að halda í vonina. Það hefði verið einfalt að segja við sjálfan sig þegar Sadio Mané klikkaði á sínu víti í bikarúrslitaleiknum: “æ nú eiga Chelsea eftir að vinna þetta”. En það gerðist ekki. Það hefði líka verið hægt að segja á 89. mínútu í leik City og Real “jæja þetta er búið, City eiga eftir að hirða CL þetta árið”. En það gerðist ekki.

  Never give up.

  Tölum líka aðeins um “ef og hefði”. Það væri auðvelt að segja “ef Salah hefði ekki klikkað á vítinu gegn Leicester”. “Ef liðið hefði ekki fengið á sig 3 mörk gegn Brentford”. “Ef liðið hefði ekki misst niður tveggja marka forystu gegn Brighton”. Og svo framvegis. En áttum okkur á því að ef ein úrslit á tímalínunni breytast, þá getur það haft áhrif á önnur. Hefðu City fengið á sig tvö mörk gegn West Ham ef Liverpool hefði verið efst í töflunni á þeim tímapunkti? Hefðu City tapað stigum gegn Palace og Spurs eins og raunin varð ef Liverpool hefði verið nær þeim í stigum? Það er nefnilega engin leið að segja. Eins með atvikið þar sem Rodri fékk boltann í höndina gegn Everton. Kannski hefði sá leikur átt að fara öðruvísi. En það er bara engin leið að segja hvað slík breyting hefði haft að segja varðandi næstu leiki á eftir.

  Svona er staðan, og miði er ennþá möguleiki. Vissulega getur Liverpool ekki stólað eingöngu á eigin frammistöðu, heldur þurfa aðrir hlutir að falla með okkar mönnum. En leyfum okkur að vona að þeir hlutir muni gera akkúrat það. Klopp og hans teymi þurfa svo bara að einbeita sér að einum leik í einu, og sá næsti er einmitt gegn Southampton.

  Næstu andstæðingar

  Það er nú tæpast hægt að segja að lið Southampton hafi að miklu að keppa komandi inn í þennan leik. Liðið er í 15. sæti með 40 stig, næsta lið fyrir neðan er Everton með 36 stig og næsta fyrir ofan er Newcastle með 43 stig. Öll þessi lið eiga 2 leiki eftir, þ.e. nú í miðri viku og svo á sunnudaginn. Líkurnar á því að Southampton endi í 16. eða 14. sæti eru ekki núll, en klárlega er líklegast að liðið sé búið að finna sinn stað í töflunni. Þá hefur gengi þeirra í síðustu leikjum ekki verið neitt sérstakt, vissulega unnu þeir Arsenal 1-0 fyrir mánuði síðan, en hafa síðan gert eitt jafntefli (gegn Brighton) og tapað þrem leikjum (gegn Burnley, Palace og Brentford). Það er James Ward-Prowse sem er þeirra hættulegastur, og er í efsta sæti yfir bæði skoruð mörk og stoðsendingar. Meiðslalistinn hjá þeim er ekki langur: Livramento er frá út tímabilið. Annars skulum við bara reikna með þeirra sterkasta liði, vonandi semí- búið að stimpla sig út og á leið í sólina.

  Við gætum rifjað upp marga leiki þessara liða frá fyrri árum, en látum duga að rifja upp söng stuðningsmanna úr bikarleik liðanna í lok árs 2015 þar sem VVD og Mané voru ennþá að spila fyrir suðurstrandarliðið, og máttu þola 6-1 tap gegn Jordon Ibe og Brad Jones:

  He’s winning six one
  He’s winning six oooooone
  Adam Lallana
  He’s winning six one

  Okkar menn

  Það ætti nú ekki að hafa farið framhjá neinum að okkar menn voru alveg á síðustu bensíndropunum, jafnvel bara á gufunni í lok leiksins gegn Chelsea. Og í ljósi þess að möguleikinn í deildinni er enn til staðar, þá er ljóst að það er ekki hægt að hvíla allt aðalliðið og spila Cannonier, Balagizi, Musialowski og félögum (hefði samt verið alveg nógu gaman að sjá þá fá mínútur…) Það er því líklegt að liðið gegn dýrlingunum verði sambland af þeim úr aðalliðinu sem enn standa á löppunum, plús þeim leikmönnum sem minna hafa fengið að spila.

  Fabinho er klárlega ennþá frá, Klopp staðfesti það á blaðamannafundinum. Salah og Virgil eru meiri spurningamerki, báðir sögðu þeir að þeir hefðu getað spilað áfram á laugardaginn en að Klopp hafi tekið gerræðislega ákvörðun um að taka þá af velli. Sem var hárrétt eftir á að hyggja, og ekki ólíklegt að þeir verði báðir sparaðir á morgun. Eins var Robbo tekinn út af með krampa, og því ekki ólíklegt að hann fá smá pásu. Ef liðið væri í svipuðum málum eins og í úrslitaleiknum 2018 gegn Madrid þar sem næsti sóknarmaður inn af bekknum var Solanke, og næsti miðjumaður var Woodburn, þá væri þetta kannski svolítið öðruvísi. En núna eru raunverulega til fínir fótboltamenn á bekknum og uppi í stúku sem geta komið inn í staðinn. Spurningin er einna helst hvað Klopp ætlar að grafa djúpt til að stilla upp byrjunarliði. Veðjum á þetta svona:

  Alisson

  Trent – Matip – Gomez – The Greek Scouser™

  Ox – Milner – Jones

  Jota – Firmino – Origi

  Hér er ég t.d. ekki með markahæsta leikmann deildarbikar- og bikarkeppnanna: Takumi Minamino. Kannski fær hann sénsinn. Eins vantar Harvey Elliott, leikmaður sem var að byrja leiki í haust, meiddist svo illa og hefur verið lítt sjáanlegur síðan þá, rétt svo tekið einn leik með U23. Það kæmi ekki á óvart ef við sæjum þá a.m.k. á bekk, og útilokum bara alls ekkert að annar eða báðir byrji.

  Þarna eru auðvitað allnokkur spurningamerki. Ox er t.d. búinn að vera í algjöru frosti síðustu vikur, hefur tæpast verið á bekk hvað þá meira. Trent er búinn að spila heilan heeeeeellllling síðustu vikur, og kannski er kominn tími á að gefa honum smá pásu. Mögulega fer þá Gomez í hægri bak, og þá líklegast Konate í miðvörðinn við hlið Matip, þrátt fyrir að hafa spilað allar 120 mínúturnar í síðasta leik. Miðjan er eitt stórt spurningamerki, en Milner spilaði ekki svo margar mínútur á laugardaginn, á meðan Keita var tekinn frekar seint af velli. Alls ekkert útilokað að hann byrji samt.

  Klopp segist alltaf vera að horfa bara einn leik fram í tímann, en ég yrði samt mjög hissa ef hann sé ekki a.m.k. með leikinn í París aðeins í huga. Getum við hætt á að missa leikmenn í álagsmeiðsli á þessum tímapunkti? Hendo og Trent eru kannski mikilvægastir, og má vart á milli sjá hvor er mikilvægari. Trent í stuði er einfaldlega besti hægri bakvörður í heiminum í dag, og Hendo er fyrirliði liðsins, sá sem drifur menn áfram þegar á móti blæs. Það er bara mjög mikilvægt að þeir verði báðir til taks í París, þó svo Hendo gæti alveg þurft að færa sig á bekkinn ef NFT miðjan byrjar (Naby, Fab, Thiago).

  En svo má liðið ekki verða of “cocky” gegn Southampton. Þetta er nefnilega ekki leikur sem er unninn fyrirfram. Í ljósi þess að það eru litlar líkur á að markamunurinn spili neina rullu úr þessu, þá verðum við bara mjög sátt með þessi 3 atriði: a) 3 stig, b) enginn meiðist, c) höldum hreinu.

  Spái 0-2 sigri okkar manna, mörk frá Jones og Minamino sem kemur inn af bekknum til að tryggja stigin 3.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Gullkastið – BIKARMEISTARAR

  Liverpool eru bikarmeistarar 2022 eftir annan sigur gegn Chelsea á Anfield South eftir vítaspyrnukeppni. West Ham gaf Liverpool svo líflínu í deildinni með því að taka stig af City en dauðþreytt Liverpool liðið á næsta leik, Southampton úti á þriðjudaginn.
  Sigur þar gerir næstu helgi spennandi, Liverpool fær Úlfana á Anfield á meðan Steven Gerrard og félagar fara á Etihad…

  Okkar allra besta Hanna Símonardóttir var með okkur að þessu sinni og fræddi okkur m.a. um Liverpool skólann sem verður í tíunda skipti hér á landi í sumar.
  1.mín – Bikarmeistarar
  17.mín Liverpool skóli Afureldingar
  25.mín – BOSS Night á Íslandi 19.maí
  29.mín – Líflína í deildinni

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti:
  Egils Gull (léttöl)
  Húsasmiðjan
  Sólon Bistro Bar
  Ögurverk ehf

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Hanna Símonardóttir

  MP3: Þáttur 381

  [...]
 • BIKARMEISTARAR!!!! (Skýrsla uppfærð)

  Aftur mættu Liverpool Chelsea á Wembley, aftur fór leikurinn í vító og AFTUR unnu Liverpool. Þvílíkt lið sem við erum að fylgjast með! Undir stjórn Jurgen Klopp haf þeir nú unnið alla titla sem þeir geta unnið!

   

  Fyrri hálfleikur

  Rétt eins og í undanúrslitunum gegn City komu Liverpool eins og fellibylur í byrjun. Eftir aðeins tíu mínutna leik voru okkar men búnir að skapa þrjú frábær færi, sem byggðu öll á því einfalda plani að koma boltanum á Diaz. Reece James hefur þakkað fyrir þegar liðsfélagar hans komu í betri hjálparvörn því hann réð einfaldlega ekkert við kólumbíumanninn.

  Eftir um 20 mínútur komust Chelsea í sitt fyrsta alvöru færi sem Pulisic brenndi af. Gulklæddir Chelsea men hófu að færa sig upp á skaftið og það hjálpaði þeim að takturinn datt aðeins úr Liverpool á meðan Alisson fékk aðhlynningu.

  Eftir hálftíma leik kom svo risa skellur þegar Salah þurfti að fara af vell vegna meiðsla í nára. Þetta er auðvitað skelfilegt og maður vonar að hann hafi bara verið tekið af velli vegna yfirvonandi meistaradeildarúrslitum.

  Það sem sem eftir lifði hálfleiks var jafnræði með liðunum, þó Chelsea hafi skapað betri færin. Maður vonar þegar þetta er skrifað að við sjáum ekki eftir þessum vannýttu færum í upphafi leiks, eins og maður vonar að hið gífurlega álag sem hefur verið á liðinu undanfarið segi ekki til sín.

  Seinni hálfleikur

  Við getum þakkað dýrlingnum Alisson Becker fyrir að hafa ekki verið komnir tvö núll undir eftir fimm mínútur í seinni. Chelsea keyrðu dýrvitlausir á vörn Liverpool sem virtist hafa misst af því að búið væri að flauta til leiks. Þessi ávani Liverpool til að geta ekkert til að byrja seinni hálfeiks er orðin virkilega hættuleg.

  En þeir rauðu stóðu af sér storminn og byrjuðu að skapa sér færi. Aftur náðu þeir yfirhöndinni í leiknum en það var ekki alveg ljóst hvort það væri útaf góðu spili eða að Chelsea væru að bakka. Lundúnaliðið áttu svo sannarlega ekki í erfiðleikum með að skapa sér færi þegar þeir á annað borð náðu að komast í sókn.

  Áfram komust okkar menn í ágætis stöður en eitthvað vantaði uppá að skora. Milner kom inn á fyrir Keita á 73. Mínútu. Það fór um okkur öll þegar Thiago virtist meiðast í skyndisókn, sem reyndist sem betur fer ekki alvarlegt. Þegar tíu mínútur voru eftir var komin alvarleg 0-0 lykt af leiknum.

  Diaz gerði sitt allra besta og var lang besti maður vallarins. Með stuttu millibili sendi hann boltann rétt framhjá og svo í utanverða stöngina. Þetta blés heldur betur lífi í okkar menn og Milner sendi gjörsamlega frábæra sendingu á Andy, sem skaut í hina bévítans stöngina!

  Síðasta færið kom í uppbótartíma þegar Diaz (hver annar) komst í gegn og skaut rétt framhjá. Leiktíminn rann út í sandinn og framlenging gegn Chelsea á Wembley staðreynd (aftur).

  Framlenging

  Í bryjun framlengingar fraus sjónvarpið mitt og þegar það virkaði aftur var Matip komin inn á fyrir Van Dijk. Diaz komst í einn á einn á móti Kante en náði ekki að nýta það. Það reyndist seinasta aðgerð hans í leiknum en Bobby Firmino kom inná fyrir hann og Traveling Kop leiddist ekki að syngja um Brasilíumanninn. Fyrri hálfleikur framlenginar reyndist ekki viðburða mikill og ljóst að steikjandi hitinn í London (24 gráður) var farin að segja til sín.

  Í hálfleik ómaði You‘ll Never Walk Alone á Wembley en það dugði ekki til að knýja liðið áfra síðasta korterið sem leið án stórra atvika. Aftur var vítaspyrnukeppni gegn Chelsea staðreynd.

  Það er ekki á mann leggjandi að horfa þessar vítaspyrnukeppnir. Mané átti fimmtu spyrnuna og eftir klúður frá Azpilicueta gat Mané tryggt sigurinn en Mendy var fyrir, eins og markmenn fá víst borgað fyrir að vera. Ziech og Jota skoruðu og þá var komið að Alison Becker að vera fyrir!

  Kostas Tsimikas fór á punktinn og…. SKORAÐI! Hann tryggði með þessu bikarinn, ekki slæm tímasetning á fyrsta markinu fyrir Liverpool! Tveir bikarar staðreynd í ár og það er einn úrslitaleikur eftir….

  Maður leiksins:

  Diaz kallinn gerði allt nema að reka smiðshöggið á leikinn, hljóp sig gjörsamlega dauðan og var stanslaus ógn.

  Vondur dagur.

  Það voru ansi margir ekki á pari í dag: Salah, Trent, Mané og Jota hafa allir verið mun betri. En hey, hverjum er ekki drull þegar bikarinn næst?

  Einnig fær tölvan mín sérstaka áminningu í þessum lið fyrir að hrynja þegar skýrslan var tilbúin og neyða mig að endurskrifa í miðju Eurovision partýi.

  Næst á dagskrá.

  Það eru tveir leikir eftir í deildinni sem að öllum líkindum munu ekki skipta neinu máli. En svo er stærsti úrslitaleikurinn, okkar menn verða að spila betur í þeim leik. Maður vonar bara að Salah, Van Dijk og Fabinho verði orðnir góðir fyrir þann leik. En njótið kvöldsins meistarar! Þetta er besta Liverpool lið í áratugi, njótum!

  [...]
 • Byrjunarliðið í úrslitum klárt!

  Í búningsherbergi á Wembley velli eru 11 leikmenn klárir í að koma elsta og virtasta bikar heims aftur á Anfield:

   

   

  Áhugavert að sjá að Konate fái þennan stórleik, geggjað að sjá að Bobby er komin aftur á bekkinn. Vonum að þeir klári þennan leik í venjulegum leiktíma til að koma í veg fyrir deilur á heimilum Íslands um hvort eigi að klára leikinn eða skipta yfir á Eurovision!

   

  Orðið er frjálst, hvernig lýst ykkur á?

  [...]
 • Bikarúrslit á morgun!

  Á morgun fær Liverpool tækifæri á að gera eitthvað sem liðinu hefur ekki tekist að gera síðan árið 2006 og það er að landa enska bikarnum en liðið mun mæta Chelsea aftur á Wembley en liðin mættust einmitt fyrr á leiktíðinni þegar Liverpool landaði Deildarbikarnum eftir ansi langa vítaspyrnukeppni.

  Því miður virðist Englandsmeistaratitillinn vera runninn úr greipum en Liverpool hefur tvo sénsa til að gera leiktíðina engu að síður alveg stórkostlega. Nú þegar er einn titill kominn í hús og möguleiki á öðrum á morgun og þeim þriðja í lok mánaðar þegar Liverpool mætir Real Madrid í úrslitum Meistaradeildarinnar. Þannig að vonandi lifir vonin um bikarþrennuna eftir leikinn á morgun.

  Liverpool vann baráttu sigur á Aston Villa í miðri viku á meðan að Chelsea vann þægilegan sigur á Leeds. Helsti neikvæði punkturinn við sigurinn á Aston Villa er sá að Fabinho fór meiddur út af í fyrri hálfleik og mun ekki vera með á morgun né í loka leikjum deildarinnar en ætti að öllum líkindum að ná úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

  Það er eitthvað búið að vera talað um að þeir Kovacic, Jorginho og Kante gætu allir verið eitthvað tæpir fyrir leikinn en Kovacic og Kante æfðu í dag og á að meta stöðuna á þeim á morgun – sem þýðir nú yfirleitt alltaf að þeir muni 110% vera í byrjunarliðinu.

  Liverpool hefur verið á góðu róli undanfarnar vikur og það neikvæðasta er klárlega jafnteflið við Tottenham á Anfield sem gæti hafa gert út um vonir Liverpool á Englandsmeistaratitlinum. Fyrir utan jafnteflið þá hefur Liverpool verið að vinna sína leiki hvort sem þeir hafa spilað þá alla upp á sitt besta eða ekki, það var klárlega vottur af smá svona “þynnku” eftir Tottenham leikinn þegar Liverpool mætti Aston Villa en það var engu að síður frábær karaktersigur.

  Chelsea hefur verið mjög misjafnir undanfarnar vikur. Frá 20.apríl hafa þeir tapað gegn Arsenal og Everotn, gert jafntefli við Man Utd og Wolves og unnið West Ham og Leeds – sem voru bæði manni færri í þeim leikjum. Frammistaða þeirra hefur því verið mjög misjöfn og kannski erfitt að giska á hvaða Chelsea mætir til leiks á morgun – hins vegar þá er þetta eini “marktæki” leikur þeirra sem er eftir á leiktíðinni og þeir hafa harma að hefna frá því fyrr í vetur svo það má sterklega búast við því að þeir muni mæta í þennan leik með miklum krafti.

  Í ljósi þess að Fabinho er meiddur þá held ég að það verði Henderson sem muni spila djúpt á miðjunni fyrir Liverpool og þeir Thiago og Keita sitthvoru megin við hann. Ég held að það sé alveg bókað að Diaz, Mane og Salah verði saman frammi, Trent og Robertson verða í bakvörðunum, Van Dijk á sínum stað og þá spurning hvort það sé Konate eða Matip með honum. Konate hefur verið að spila svolítið undanfarið og staðið sig frábærlega en Matip hefur einnig verið frábær á leiktíðinni og skoraði í vikunni. Það er ekki ólíklegt að þeir muni rótera þessum loka leikjum á milli sín og ég yrði ekki hissa ef Konate kemur inn á morgun og Matip sé frekar hugsaður í viðureignina gegn Real Madrid.

  Alisson

  Trent – Konate – VVD – Robertson

  Keita- Henderson- Thiago

  Salah – Mane – Diaz

  Vonandi mætir Liverpool almennilega til leiks á morgun og verða klárir í slaginn. Undanfarnir leikir við Chelsea hafa verið nokkuð erfiðir og þá sérstaklega þegar kemur að því að verjast hreyfanlegri sóknarmönnum þeirra eins og Mount og Havertz. Því gæti hraði Konate verið mikið vopn í leiknum og vont fyrir Liverpool að vera án Fabinho.

  Vonandi tekst Liverpool að vinna leikinn, næla sér í annan titilinn á leiktíðinni og eiga þá enn möguleika á glæsilegri bikarþrennu!

  [...]
 • Boss Night á Íslandi – Jamie Webster

  Boss Night er að koma til Íslands með Jamie Webster, Liverpool trúbadorinn, fremstan í fararbroddi.
  Viðburðurinn verður í Gamla Bíó 19. maí, mitt á milli úrslitaleiks FA bikarsins og lokaleiksins í deildinni.

  Miðar eru seldir á tix.is og hér má sjá nánar um viðburðinn á Facebook.

  Boss Night fékk heimsathygli með tónleikum fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madrid 2019 þegar yfir 50 Þúsund Liverpool aðdáendur komu saman.

  Hægt er að sjá flott Youtube myndband hérna.

  Við hverjum alla Poolara sem hafa gaman af því að skemmta sér og syngja með alvöru Liverpool lögum, að skella sér á þennan frábæra viðburð.

  [...]
 • Aston Villa 1 – 2 Liverpool

  Það var sko engin lautarferð hjá okkar mönnum til Birmingham í kvöld, því Villa gáfu allt í verkefnið og ekki hjálpaði dómgæslan til við að halda baráttunni niðri. En 3 stig í hús, og enn getum við leyft okkur að vona.

  Mörkin

  1-0 Luiz (3. mín)
  1-1 Matip (6. mín)
  1-2 Mané (65. mín)

  Gangur leiksins

  Maður var rétt svo búinn að dreypa á fyrsta Ribena sopanum þegar heimamenn voru komnir yfir. Reyndar klár rangstaða í aðdraganda marksins, en hei David Coote var í VAR herberginu svo þetta fékk auðvitað að slæda. En okkar menn létu þetta ekki slá okkur út af laginu eins og fyrir 18 mánuðum síðan á Villa Park, og jöfnuðu í svo gott sem næstu sókn. Sending eftir aukaspyrnu inn á vítateiginn, svolítil barátta um boltann, en að lokum náði Virgil boltanum við vinstra markteigshornið, renndi inn í markteiginn þar sem Joel Matip rak stórutána í boltann og setti hann í netið. 1-1 eftir 6 mínútur, og þó hlutfallið milli marka per mínútu hafi nú ekki haldist alveg svona hátt út leikinn var þetta vísbending um hraðann sem átti eftir að ríkja í leiknum.

  Okkar menn urðu fyrir allnokkru áfalli eftir hálftíma leik þegar Fabinho fékk tak aftan í læri og þurfti að fara af velli. Hendo kom í hans stað, og þetta setur örugglega aðeins strik í reikninginn fyrir bikarúrslitaleikinn um helgina. Bæði var sjálfsagt reiknað með að Fabinho myndi spila þann leik, og eins var varla planið að láta Hendo spila klukkutíma í kvöld. En þetta er staðan og ekkert annað að gera en að spila úr þeim spilum sem liðinu hafa verið gefin.

  Það voru ekki fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik, og staðan því 1-1 þegar menn gengu til búningsherbergja. Í upphafi síðari hálfleiks náði Díaz að skora en var ansi rúmlega rangstæður. Á 61. mínútu kom svo önnur skipting okkar manna, Curtis Jones kom af velli eftir að hafa verið ansi sprækur, og Thiago kom í hans stað. Það var svo aðeins 4 mínútum síðar sem þessi skipting bar árangur, en þá fékk Díaz boltann á vinstri kantinum, spilaði upp að vítateigshorni, gaf sendingu inn að vítapunkti þar sem Sadio Mané átti hnitmiðaðan skalla í hornið fjær, óverjandi fyrir Martinez sem hafði annars átt ágætan leik.

  Skömmu síðar var Coutinho tekinn af velli, og hafði nú ekki sett mark sitt á leikinn svo heitið gæti. Buendia kom í hans stað, og það var eins og við manninn mælt að pressan frá Villa jókst umtalsvert. Svo kom Salah inná fyrir Díaz, sem segir okkur að sá Kólumbíski er að fara að byrja gegn Chelsea á laugardaginn. Salah náði ekki að brjóta upp þetta markaþurrðartímabil sem hann er búinn að vera í, en var annars sprækur. Ings náði að skora undir lokin en var rangstæður og það réttilega dæmt svo. Keita varð fyrir hnjaski í uppbótartíma og ekki alveg ljóst hversu slæm þau voru, en okkar menn náðu semsagt að sigla þessu heim við mikinn fögnuð okkar Púlara en minni fögnuð Villa manna.

  Frammistaða leikmanna

  Þessi leikur var svolítið köflóttur. Sumir leikmenn voru almennt að ströggla, t.d. Tsimikas, en hann slapp þó frá þessu og Andy fékk dýrmæta hvíld fyrir helgina. Keita var köflóttur sömuleiðis, og var augljóslega sprunginn undir lokin. Jota hefur oft verið klínískari, en skilaði þó sínu. Þeir sem helst standa upp úr eru Luis Díaz og svo miðverðirnir okkar. Annars var þetta bara gamaldags baráttusigur, og það hvernig stigin þrjú komast í hús skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli ef þau nást í hús á annað borð.

  Umræðan eftir leik

  Auðvitað hljótum við að velta fyrir okkur hvort City muni misstíga sig í lokin. Það er ljóst að City þarf annaðhvort að tapa a.m.k. einum leik, og svo þurfum við að vona að okkar menn nái að vinna upp markamuninn (Saints eru t.d. ekki enn búnir að tapa 9-0 á þessari leiktíð #justsayin), nú eða þá að City geri tvö jafntefli. Þeir eiga bara 3 leiki eftir, og verða búnir að spila 2 þeirra áður en okkar menn taka á móti Southampton. Er líklegt að þetta falli með okkar mönnum? Við skulum bara orða það þannig að þetta verður alltaf ólíklegra. En er þetta búið? Alls ekki.

  Það þarf líka aðeins að ræða breiddina í framherjastöðunni. Luis Díaz er að koma þvílíkt sterkur inn, kannski ætti Liverpool að gera meira af því að taka inn leikmenn að nafni Luis í janúargluggunum? Það nákvæmlega hvar hann var að spila í kvöld var að vísu aðeins á reiki, það mátti greina örlítinn stöðuusla hjá okkar fremstu þremur, þá sérstaklega Díaz. Salah er ekki enn kominn að fullu til baka, núna hefur hann nákvæmlega fjóra leiki til þess (næsti leikur væri t.d. alveg tilvalinn). Mané er hægt og bítandi að stimpla sig inn meðal bestu knattspyrnumanna í heiminum í dag. Hann fer bara í þá stöðu sem hentar liðinu best, og er að spila allar þær mínútur sem hann er beðinn um að spila. Það er svolítið magnað að Diogo Jota sé svo í fjórða sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar (jafn Sadio Mané eftir leik kvöldsins), en á ekki lengur fast sæti í liðinu. Talandi um fyrstaheimsvandamál.

  Framundan

  Það er risaleikur um helgina. Úrslitaleikur númer 2 gegn Chelsea þessa leiktíðina. Mikið væri nú gaman að krækja í dollu númer 2 á tímabilinu. Hugsanlega þarf maður að hafa áhyggjur af leikjaálaginu á tilteknum leikmönnum: Keita spilaði 90 mínútur og þarf líklega að byrja á laugardaginn, Trent er búinn að spila 90 mínútur síðustu tvo leiki og mun sjálfsagt byrja sömuleiðis. Hendo átti örugglega ekki að spila klukkutíma, og það er nánast öruggt að við verðum án Fabinho. Mané spilaði 90 mínútur, getur verið að við sjáum Firmino byrja á laugardaginn? Virgil spilar allar mínútur ef hann er heill, ég held hann eigi að ráða við það en það væri samt gaman ef það gæfist tækifæri til að gefa honum smá andrými einhverntímann.

  Er á meðan er. Og munum að njóta þess að fylgjast með þessu frábæra liði okkar, það eru fjórir leikir eftir af þessari leiktíð og svo taka við laaaangir sumarmánuðir!

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close