Latest stories

  • Liðið gegn Everton – kveðjum Goodison með sigri!

    Svosem ekki margt sem kemur á óvart, einna helst að Díaz byrji uppi á topp frekar en Nunez sem þó spilaði bara hálfan leikinn um helgina á meðan Díaz spilaði allar mínúturnar:

    Bekkur: Kelleher, Trent, Quansah, Tsimikias, Endo, Jones, Elliott, Jota, Nunez

    Það væri rooooosalega vel þegið að krækja í stigin þrjú í kvöld.

    KOMA SVOOOOO !!!!!

  • Grannaslagurinn mikilvægi á morgun

    Annað kvöld fer fram útileikurinn gegn Everton sem var frestað fyrr í vetur og hefur sá leikur mögulega gífurlegt vægi í titilbaráttunni og er því mikið undir. Takist Liverpool að vinna leikinn sitja þeir á toppnum með níu stiga forskot á næsta lið og búa sér til ansi gott svigrúm fyrir strembinn og þéttan febrúarmánuð.

    Liverpool datt úr leik í FA bikarnum um síðastliðna helgi eftir óvænt tap gegn Plymouth með mjög róteruðu liði. Það er vissulega fúlt að detta úr bikarkeppni en fari deildarleikirnir í febrúar ágætlega þá opnar það tap á ágætis pásu og fínt leikjaprógram í mars sem myndi nú balancera febrúar mánuðinn ágætlega en byrjum á fyrsta af fimm verkefnum á næstu fimmtán dögum – Everton.

    Everton lét Sean Dyche fara fyrir svo löngu síðan og réðu aftur David Moyes og hefur hann komið þeim á ágætis skrið og hafa þeir meðal annars unnið Tottenham, Brighton og Leicester í síðustu þremur deildarleikjum sínum. Nýr stjóri og fínt skrið, síðasti grannaslagur þeirra á Goodison Park og tækifæri til að mögulega trufla för Liverpool í átt að Englandsmeistaratitli – ég yrði nú ansi hissa ef Everton muni ekki mæta í þennan leik með kjafti og klóm og reyna hvað þeir geta til að koma höggi á Liverpool.

    Arne Slot sagði á blaðamannafundi að hann væri mjög meðvitaður um allt svona og að hans menn þurfi að hafa hausinn í lagi í þessum leik og það er ekki spurning. Spennustigið mun pottþétt vera ansi hátt og mikið en vonandi eitthvað sem Liverpool mun geta nýtt sér, það er allavega ansi oft sem manni hefur fundist Liverpool díla vel við svona andlegar áskoranir í vetur.

    Joe Gomez fór meiddur út af gegn Plymouth bara strax í upphafi leiks og verður ekki með og held ég að það sé svona eina dæmið þar sem leikmaður verður bókað ekki með. Jones var í einhverju smá brasi fyrir Plymouth leikinn en var á bekknum, Nunez eignaðist víst barn á dögunum og var ekki á æfingu í dag ef marka má umræðu á Twitter en líklega verður hann nú samt í hópnum og Trent gæti verið með svo allt þetta ofan á það að flest allir lykilmenn fengu hvíld um helgina þá verður ekki hægt að skýla sér á bakvið neina þreytu eða álíka.

    Alisson

    Bradley – Konate – Van Dijk – Robertson

    Mac Allister – Gravenberch – Szoboszlai

    Salah – Nunez – Gakpo

    Ætli ég spái ekki byrjunarliðinu einhvern vegin svona. Helstu lykilmenn koma inn í liðið aftur og ætli stærsta spurningarmerkið sé ekki það hvort að Bradley byrji í hægri bakverðinum eða hvort að Trent sé í nægilega góðu standi til að gera það og hver mun spila í strikernum – ég ætla að giska á Nunez án þess að hafa neitt fyrir mér í þeim efnum annað en það að Diaz og Jota spiluðu báðir allan leikinn gegn Plymouth um helgina.

    Krafan er auðvitað sigur á morgun og sækja stigin þrjú sem gætu reynst svo ofboðslega dýrmæt fyrir restina af leiktíðinni. Ekkert endilega “make or break” leikur en engu að síður leikur sem gæti nú alveg verið stórt skref í átt að því að vinna Englandsmeistaratitilinn. Sjáum hvað setur!

  • Gullkastið – Síðasta ferðin yfir Stanley Park

    Liverpool fer í síðasta skipti þennan tæplega kílómeter sem er frá Anfield yfir á Goodison núna á miðvikudaginn í alvöru mikilvægum nágrannaslag. Tap þarna síðast og það er ekki í boði aftur. Um helgina eru það svo Úlfarnir sem mæta á Anfield og því tveir deildarleikir í þessari viku.

    Síðasta vika var bikarleikavika, Liverpool er komið í úrslit í öðrum bikarnum en tapaði gegn versta liði Championship deildarinnar í hinum.

    Ögurverk liðið er á sínum stað og fagmaðurinn í boði Deloitte

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    Egils Gull / Deloitte / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    Afsláttarkóði í febrúar á WoktoWalk.is – 25% afsláttur með afsláttarkóðanum Liverpoolerubestir

    MP3: Þáttur 508

  • Plymouth 1 – 0 Liverpool

    Liverpool er úr leik í FA bikarnum eftir að hafa tapað gegn neðsta liði B-deildarinnar.

    Markið

    1-0 Hardie (víti) (53. mín)

    Hvað gerðist markvert í leiknum?

    Í fyrri hálfleik gerðist nákvæmlega ekkert markvert, annað en það að Joe Gomez meiddist eftir 7 mínútna leik og þurfti að fara af velli. Diogo Jota fékk fyrirliðabandið, og Isaac Mabaya kom inná í hægri bakvörðinn. Fékk þar með sínar fyrstu mínútur með Liverpool.

    Í seinni hálfleik gaf Elliott víti þegar hann ákvað að fara í atlögu á boltann með báðar hendur upp fyrir höfuð, fékk boltann í hendurnar og ekkert annað en víti hægt að dæma. Kelleher fór í vitlaust horn og Hardie skoraði.

    Slot notaði skiptingu nr. 2 til að skipta varamanninum úr fyrstu skiptingunni – Mabaya – útaf, og Nunez kom í staðinn. Undir lokin þá fékk svo Trent Kone-Doherty sínar fyrstu mínútur þegar hann kom inná fyrir Trey Nyoni. Undir lokin gerði Liverpool svo fyrst alvöru atlögu að markinu og líklega var Nunez næstur því að jafna þegar hann átti skalla eftir horn, en Hazard varði.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Það er voða erfitt að ætla að nefna einhverja. Enginn stóð upp og sagði “ég á heima í byrjunarliðinu”.

    Það eina jákvæða er að það var hægt að hvíla aðalliðið, og nú fá menn örlítið ráðrúm til að anda á þeim dögum þegar FA bikarinn á leikdaga.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Sérstaklega slæm frammistaða hjá mönnum eins og Elliott og Díaz, og frekar slappt hjá mörgum öðrum, líklega flestum í liðinu. Líka spurning hvað Slot var að spá með skiptingarnar, hann átti Jones á bekknum, var hann e.t.v. eitthvað tæpur? Miðjan okkar var alls ekki nógu sterk og Jones hefði komið með ákveðin gæði. Mögulega var Slot að sýna okkur – bæði með uppstillingunni og skiptingunum – að hann er þarna að setja FA bikarinn í neðsta sætið.

    Umræðan eftir leik

    Það væri þá aðallega hvernig við metum stöðu þessara leikmanna sem byrjuðu í dag, og hversu líklegt er að þeir eigi hlutverk með aðalliði Liverpool fyrst þeir náðu ekki að vinna neðsta liðið í B-deildinni. T.d. spyr maður sig hver framtíð Elliott hjá félaginu verði, greinilegt að Slot hefur ekki litið á hann sem byrjunarliðsmann hingað til, og gerir það sjálfsagt enn síður eftir þennan leik. Eins hefði verið gaman að sjá Díaz í forminu sem hann var í í haust, en það er orðið allnokkuð síðan við sáum svoleiðis frammistöður frá honum.

    Hvað er framundan?

    Næst er það heimsókn á Goodison Park í deildinni. Það verður að segjast að sá leikur er margfalt mikilvægari en þessi sem nú var að klárast, og gríðarlega mikilvægt að Slot nái að gíra menn upp í að hirða 3 stig þar.

  • Seinni leikur dagsins: liðið gegn Plymouth

    Það er orðið ljóst hverjir eiga að sjá um að koma Liverpool í 16 liða úrslit bikarsins:

    Bekkur: Jaros, Nallo, Mabaya, Norris, Young, Jones, Kone-Doherty, Ngumoha, Nunez

    Miðað við slúðrið þá átti maður allt eins von á fleiri kjúklingum í byrjunarliði, í raun eru Nyoni og McConnell einu alvöru kjúklingarnir þannig séð. En svo eru nokkrir þeirra á bekknum og það kæmi ekki á óvart þó einhverjir fengju mínútur undir lok leiks ef staðan býður upp á það.

    Sigur takk, og það væri gaman að losna við meiðsli.

    KOMA SVO!!!!!

  • Fyrri leikur dagsins: stelpurnar mæta Rugby Borough

    Bæði liðin okkar eru að spila í bikarnum í dag, og bæði eru að spila við lið úr neðri deildunum. Leikurinn hjá stráknum hefst kl. 15, en stelpurnar spila núna kl. 12:30.

    Það kemur að sjálfsögðu inn þráður fyrir leikinn hjá strákunum gegn Plymouth um kl. 14 – hint: það lítur út fyrir að “stóru” nöfnin eins og Alisson, Virgil Salah, Grav, Szobo, og mögulega talsvert fleiri hafi hreinlega ekki flogið með liðinu suðureftir, og að við eigum eftir að sjá nöfn eins og Nyoni, Ngumoha og fleiri í byrjunarliði.

    En nóg um það í bili. Stelpurnar okkar mæta liði sem heitir Rugby Borough og undirritaður ætlar nú bara ekkert að þykjast vita um það lið. Þær eru þó a.m.k. tveim deildum fyrir neðan okkar konur, og allajafna myndi maður ætla að þá væri tækifærið til að spila einhverskonar varaliði, en Matt Beard er heldur betur ekki á þeim buxunum:

    Laws

    Daniels – Bonner – Clark

    Bernabé – Shaw – Nagano – Bartel – Hinds

    Roman Haug – Kapocs

    Bekkur: Micah, Kirby, Parry, Evans, Kerr, Höbinger, Kiernan, Enderby

    Það eru nokkrar fréttir þarna: Faye Kirby er komin tilbaka úr langvarandi meiðslum sem héldu henni á sjúkrabekknum í meira en ár, og byrjar á bekk. Hún spilaði með U21 í vikunni og verður vonandi klár í að byrja fljótlega. Tölfræðin hjá Laws og Micah er ekki það góð að það veiti nokkuð af samkeppni um markmannsstöðuna.

    Þá lítur út fyrir að Beard ætli að spila Daniels í miðverði, nema undirritaður sé að lesa eitthvað vitlaust úr uppstillingunni. Látum það koma í ljós.

    Þá eru þær Julia Bartel og Alejandra Bernabé að byrja sína fyrstu leiki, en Sam Kerr er á bekk. Zara Shaw byrjar hins vegar sinn fyrsta leik síðan einhverntímann fyrir jól, svosem komin meiri samkeppni um stöðurnar þarna á miðjunni sem er ágætt. Nú og svo er Sophie Roman Haug að byrja sinn fyrsta leik í allnokkurn tíma síðan hún meiddist, og alveg ljómandi gott að sjá hana aftur í byrjunarliði.

    Leikinn má sjá á Youtube rás bikarkeppninnar.

    KOMA SVO!!!!

  • Plymouth-Liverpool í FA Cup

    Þetta kemur þétt og ört þessar vikurnar og það er bara gaman. Næst á dagskránni er eitthvað sem ætti að vera formsatriði, Plymouth, botnlið Championship með Guðlaug Victor Pálsson í broddi fylkingar.

    Borgin

    Plymouth Argyle FC er félag frá samnefndri borg á Cornwall, suðvesturtánni á Englandi. Hún er stærsta borgin þar, með tæpa 300.000 íbúa. Næstu bæir heita m.a. Mousehole, Flushing, Falmouth, Dartmouth, Teignmouth, Exmouth og Sidmouth. Margir munnar að fæða þarna en næstu borgir eru Exeter, Torquay, héraðið heitir Devon og næstu fótboltaborgir eru Bournemouth, Southampton og Portsmouth.

    Borg þessi er mikil hafnarborg og hún er sennilega frægust fyrir það að pílagrímar fóru þaðan yfir til Ameríku á 17.öld. Þaðan tekur félagið einmitt gælunafn sitt, Pilgrims. Það gerðist þó ýmislegt fyrir þann tíma, t.d. var Plymouth höfuðvígi Breta í sjóorrustum við hinn spænska sjóher Armada, en fyrir þá sem ekki vita þá þýðir Armada einmitt sjóher eða vopnuð skip. Leifar um mannabústaði frá bronsöld hafa fundist í hellum á svæðinu og því má ætla að svæðið hafi ansi snemma talist ákjósanlegt til búsetu. En nóg um söguna í bili, þetta er frekar afskekkt svæði á Bretlandi en ég held að það sé að sama skapi frekar fallegt og ekki eins mikið um túrisma og víða annars staðar. Kjörið að bregða sér í sveitarúnt til suðurs, það er líka margfalt betra veður þarna heldur en víðast annars staðar á eyjunni.

    Félagið

    Plymouth Argyle FC hefur einfaldlega aldrei náð neinum teljandi árangri í fótbolta. Þrátt fyrir að vera frá alveg sæmilega stórri borg hafa þeir frá örófi alda verið í b- eða c-deild enska boltans og margoft flakkað þar á milli. Ég sé ekki betur en að þeir hafi aldrei spilað í efstu deild og besti árangur þeirra í sögunni var að komast í undanúrslit enska bikarsins árið 1984 þar sem þeir töpuðu fyrir Watford. Árið 1991 réðu þeir Peter Shilton sem framkvæmdastjóra, í kjölfarið komu nokkrir ljúflingar á borð við Neil Warnock, Tony Pulis, Peter Reid og  Wayne Rooney svo einhverjir séu nefndir. Núna heitir þjálfarinn Miron Muslic og miðað við söguna þá verður hann ekkert mjög lengi í starfi.

    Liðið

    Liðið heitir eiginlega Guðlaugur Victor og félagar. Guðlaugur leikur númer 44 í hjarta varnarinnar, honum er þó víðast ekki spáð í byrjunarlið af miðlum sem vita meira um liðið en ég. En það tekur því samt varla að nefna neina aðra leikmenn liðsins hér. Það situr á botni Championship deildarinnar og virðast örlög þeirra vera að falla um deild þetta árið en þeir eru þó komnir í 4.umferð FA Cup eftir sigur á Brentford. En þeir fara nú ekkert lengra en það.

    Líklegt byrjunarlið þeirra er eitthvað á þessa leið:

    5-4-1:

    Hazard (ekki Eden)

    Sorinola-Talovierov-Katic-Pleguezuelo-Puchacz

    Randell-Boateng-Baidoo-Hardie

    Bundu

    Austur-Evrópskur blær á þessu liði enda er þjálfarinn austurrísk-bosnískur.

    Liverpool

    Hvað er hægt að segja? Arne Slot hefur náð því út úr þessu liði sem hægt er að ná út úr því. Það er enginn (!) ég endurtek, það er enginn (!) á meiðslalistanum í augnablikinu og ég held ég hafi ekki frétt af því síðan 1982. Allavega aldrei í tíð Klopp. Og Rodgers. Og meira að segja Roy Hodgson, og þá hefðu nú svona 10-20 manns mátt vera meiddir mín vegna. En það breytir ekki því að Arne Slot mun rótera rækilega í þessum leik. Hann spilaði með nánast allt a-liðið gegn Spurs á fimmtudaginn og svo er þokkalega strembið deildarprógramm framundan með leiki gegn Everton, Wolves, Aston Villa, Manchester City og Newcastle á 14 dögum. Hann mun því nota hvert tækifæri til að hvíla eftir þennan leik, taka menn útaf og slíkt, en einhverjir fá bara frí, aðrir munu spila lítið en minni og yngri spámenn fá að spreyta sig í þessum leik.

    Joe Gomez og Trent Alexander Arnold eru tæpir, þ.e. þeir gætu náð að spila eitthvað í þessum leik ef með þyrfti, en mér finnst líklegra að þeir verði sparaðir. Jayden Danns er farinn á láni en mér skilst að Morton sé að glíma við axlarmeiðsli. McConnelly er klár í slaginn ásamt t.d. Trey Nyoni og Rio Ngumoha sem hvíldu í U21 leik á laugardag. Jota og Nunez þurfa helst báðir að spila og skora, kannski stillir hann þeim saman, en mér finnst líklegra að þeir skipti með sér hálfleikjum. Konate, Robertson, Szoboszlai, Gakpo og Salah spiluðu ansi mikið gegn Spurs og fá í það minnsta frí frá því að byrja, ef ekki bara alveg. Setjum þetta upp:

    Ef ég er með 7 rétta þá er ég sáttur. Held að Tsimikas, Quansah, Bradley, Elliot og Chiesa séu öruggir nema eitthvað sé að plaga þá. Allt hitt gætu verið allt aðrir leikmenn, t.d. er Diaz eflaust í fínu standi og óþreyttur, Nunez örugglega líka, McAllister, Jones og Kelleher gætu allir byrjað.

    En sama hvaða lið spilar fyrir okkur þá verður þetta veisla á Home Park, við vinnum leikinn 5-2 í miklu fjöri og opnum leik. Góða skemmtun og njótum þess að horfa á þetta frábæra lið spila frábæran fótbolta undir stjórn frábærs stjóra og þjálfara.

    YNWA

  • Liverpool 4 – Tottenham 0 – Wembley bíður

    Mörkin

    C. Gakpo 

    Mohamed Salah 

    D. Szoboszlai 

    V. van Dijk 

    Hvað gerðist markvert í leiknum

    Fyrsta korterið eða svo af þessu leik stefndi í að þetta yrði hádramatískur hitaleikur. Það var gífurlegur hrað báðum megin, ákveðið gerpi náði að vinna sannkallaðan leiksigur eftir brot Van Dijk, höfuð skullu saman svo úr blæddi í vítateig Spurs og Son tók meira segja smá tíma í að laga míkrafóninn í horninu hjá Kop stúku, nokkuð sem ég man ekki eftir að hafa séð áður.

    Svo kæfðu Liverpool Spurs. Eins og anakonda sem nær utan um sært dýr tóku okkar menn utan um hitt liðið, leyfðu þeim ekki að hreyfa sig og kaffærðu þeim.

    Það er erfitt að koma orðum að hversu miklir yfirburðir okkar manna voru í þessum leik. Í fyrri hálfleik var xG Tottenham 0.02, á einum tímapunkti um miðbik hálfleiks voru okkar menn búnir að vera 75% með boltann og þeim punkti var staðan 7-0 í skotum. Í ruslmínútunum í lok leiks náði Spurs smá að sparka frá sér og eiga ágætis skot, en þetta var aldrei í hættu eftir að Salah tvöfaldaði forystuna í byrjun seinni hálfleiks, gestirnir enduðu með xG upp á 0.19

    Svo virtist sem Ange hafi komið til Anfield til að verja forystuna. Gallinn frá hans sjónarhorni var að hann er með sundurtættan hóp vegna meiðsla og pressan hefur sjaldan verið betri hjá Liverpool í vetur. Niðurstaðan var að leikurinn fór meira eða minna fram í varnarþriðjungi Spurs, þar sem okkar menn sendu boltann af Slot þolinmæði fram og til baka þangað til þeir náðu að skapa glufur.

    Okkar menn gerðu bara sitt, fagmannlega, skipulega og með smá snafs af einstaklingsgæðum. Héldu algjörri stjórn á leiknum og sigldu síst til of stórum sigri heim.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Hér má telja upp nær alla leikmenn Liverpool. Salah var flottur, Nunez síhættulegur, miðjan okkar hafði algjöra yfirburði, bakverðirnir voru á milljón allan leikinn og Gakpo skoraði frábært mark. En fyrirliðinn var klárlega bestur, leiddi sýna menn eins og kóngur og stoppaði allt sem nálægt honum kom.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Ætla að nefna eitt og bara eitt: Í fyrri hálfleik enduðu ef við töldum rétt FJÓRAR hornspyrnur hjá Kelleher. Fjóar hornspyrnur sem Liverpool tóku hinum megin á vellinum! Það er ótrúlegt hversu daprir við erum alla jafnan í föstum leikatriðum (í sókn), þegar það virðist vera svo einfalt að láta geggjaða spyrnumenn senda boltann á Van Dijk, Konate, Jota eða Nunez.

    Umræðan eftir leik

    Liverpool eru komnir í dauðafæri til að verja dolluna frá því í fyrra og því ber að fagna.

    Á sama tíma þýðir þetta tilfærslur á leikjum. Frá og með næsta miðvikudegi spilar liðið fimm deildarleiki á 15 dögum: Everton (a) Wolves (h) Villa (a) City (a) Newcastle (h).

    Að lokum eitt skondið sem ég rakst á á meðan leik stóð:

    Næstu verkefni

    Áður en að þessu kemur er leikur gegn botnliði B-deildarinnar um helgina í FA bikarnum. Svo er það þessi rosalega törn.

  • Byrjunarlið gegn Spurs: Nunez byrjar

    Jæja, okkar menn eru einum góðum leik frá fyrsta úrslitaleik undir stjórn Slot. Hollendingurinn hefur valið hér um bil sterkasta lið sem er í boði, utan þess að Bradley kemur inn fyrir meiddan Trent og Kelleher er að vanda í markinu í bikarnum. Svo geta menn deilt um hvort Nunez eða Diaz eru betri til að hefja leik, eins hátt upp og Spurs eiga til að spila held ég að sprengikraftur Nunez muni valda alls konar usla.

    Samkvæmt Pearce er Allison ekki meiddur, bara hvíldur í kvöld.

    Svona lítur þetta út:

     

     

    Hinum megin er þessi keppni besti séns Spurs að gera tímabilið eftirminnilegt. Þeirra byrjunarlið er eftirfarandi:

     

    Hörkuleikur framundan, ætla að spá okkar mönnum 3-1 sigri. Hvernig lýst ykkur á?

  • Upphitun: Spurs í deildarbikarnum

    Á morgun mætum við Tottenham í seinni undanúrslitaleik deildarbikarsins þar sem skýrist hvaða lið það verður sem mætir Newcastle í úrslitaleik eftir að þeir kláruðu Arsenal í kvöld. Tottenham leiðir 1-0 eftir umdeildan sigur í fyrri leik liðanna þar sem Bergvall skoraði eina mark leiksins andartökum eftir að hann átti að fá rautt spjald.

    Tímabil Tottenham hefur einkennst af óstöðugleika og meiðslum, eitthvað sem við könnumst við frá síðustu árum, en þeir leiða nú meiðslatöflu ensku Úrvaldsdeildarinnar með tíu menn frá vegna meiðsla. Radu Dragusin bættist á þann lista þegar hann kom inn á í hálfleik í Evrópudeildinni gegn Elfsborg og sleit krossband sem varð til þess að Tottenham fór á markaðinn og keypti Kevin Danso frá Lens til að reyna leysa miðvarðarvandamál sín og við gætum séð hann spila sinn fyrsta leik fyrir Tottenham á morgun ásamt Mathys Tel sem kom á láni frá Bayern.

    Tottenham sitja eins og er í fjórtánda sæti deildarinnar með þrettán tapleiki á tímabilinu og er Postecoglou undir mikilli pressu sérstaklega í leiknum á morgun þar sem hann er búinn að lofa stuðningsmönnum Tottenham titli í ár og þetta er einn af aðeins tveimur sem liðið hefur enn möguleika á því að vinna.

    Liverpool

    Okkar menn ættu að koma inn í leikinn með blóð á tönnunum eftir tapið í fyrri leiknum og koma inn í leikinn eftir sterkan en erfiðan 2-0 sigur gegn Bournemouth um síðustu helgi. Næsta helgi er FA-cup helgi og við dróumst þar gegn Plymouth þannig það ætti að vera upplagt að hvíla þá sem þurfa í þeim leik og því sjáum við líklega ansi sterkt lið á morgun.

    Trent fór útaf meiddur gegn Bournemouth og verður ekki með í þessum leik en betur fór en á horfðist og verður hann líklega aðeins frá í einhverja daga frekar en vikur. Hann er eini maðurinn á meiðslalistanum og verða því sterkir leikmenn sem ná ekki einu sinni á bekk á morgun.

    Geri ráð fyrir að Slot haldi sig að mestu leiti við sama lið og gegn Bournemouth, þó með tveimur breytingum. Bradley kemur augljóslega inn fyrir meiddan Trent og eitthvað segir mér að hann setji inn Nunez til að fá hefbundna níu gegn óvanri vörn Tottenham manna og eigi þá val af Diaz eða Jota inn af bekknum. Held skotið á Jota ef hann væri í betra leikformi en held að Nunez fái sénsinn á morgun.

    Spá

    Okkar menn mættu eitthvað daufir í fyrri leikinn og fundu sig aldrei en ég sé það ekki gerast aftur og held að við sjáum frekar eitthvað í líkingu við deildarleik liðanna sem endaði 6-3 Liverpool í vil. Ætla spá 4-1 sigri þar sem Salah verður stjarna kvöldsins, eins og flest kvöld, og setur þrennu.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close