Chelsea 1 Liverpool 0

Liverpool beið í kvöld lægri hlut gegn Chelsea í undanúrslitum enska Deildarbikarsins. Lokatölur urðu 1-0 fyrir heimamenn á Stamford Bridge og þurfti framlengingu til að fá niðurstöðu í einvígið.

Brendan Rodgers stillti upp nánast sínu sterkasta liði í kvöld. Nánast, fyrir utan einn endalaust mikilvægan leikmann.

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Markovic – Henderson – Lucas – Moreno

Gerrard – Sterling – Coutinho

Bekkur: Ward, Lovren, Johnson (inn f. Sakho), Allen, Lallana, Balotelli (inn f. Markovic), Lambert (inn f. Moreno).

Ég ætla að fjalla sem minnst um andstæðinga okkar í kvöld. Læt aðra um það í ummælum þessarar skýrslu. Þeir eru topplið Englands og það af góðri ástæðu; frábærlega vel þjálfað og agað lið þar sem rándýra heimsklassaleikmenn er að finna í hverri stöðu. Þeir eru með markakónginn, mest skapandi miðjumann deildarinnar, bestu vörn deildarinnar og þegar það allt þrýtur markvörð sem bjargaði þeim margsinnis fyrir horn í þessu einvígi. Og fleiri orðum eyði ég ekki í þá enda óþolandi með öllu að hafa staðið jafnfætis þeim í 210 mínútur og samt tapað, eins og venjulega.

Nei, þess í stað langar mig að tala um hvers vegna Liverpool tapaði þessum leik.

Fyrst: viðureignin tapaðist að hluta til af því að Liverpool náði bara 1-1 jafntefli á heimavelli þrátt fyrir fádæma yfirburði. Þar gaf ungur varnarmaður klaufalegt víti sem kom þeim á sporið og þrátt fyrir mýmörg færi tókst okkur ekki að innbyrða sigurinn. Gerrard skaut framhjá í dauðafæri, Lallana hélt að hann hefði unnið leikinn en frábær markvarsla sá við honum, og svo framvegis. Það er erfitt að vinna svona einvígi gegn svona andstæðingum ef þú vinnur ekki heimaleikinn þinn.

Þá að viðureign kvöldsins.

Liverpool tapaði í kvöld af því að liðið var miklu betri aðilinn í fyrri hálfleik og fékk mörg færi, þar af þrisvar einir gegn markverði, en náði ekki að nýta þau. Fyrst gat Sterling ekki rennt boltanum á Gerrard sem hefði verið aleinn á markið, þá lét Moreno verja frá sér vinstra megin í teignum og loks lék Coutinho sér frábærlega í gegn en aftur var varið. Eftir að liðið lenti svo undir í framlengingunni fékk Henderson einn opnasta skalla tímabilsins í Englandi en tókst að skalla framhjá, á meðan Sterling lagði upp kjörið skot fyrir Balotelli sem skaut út á bílastæði. Ef þú nýtir ekki eitt einasta af þessum færum á Stamford Bridge, þá taparðu.

Liverpool tapaði líka í kvöld af því að Sturridge vantaði. Eins og svo oft áður í vetur þýðir fjarvera hans að það er hreinlega betra að spila án framherja en að nota valkosti B, C og D. Í 70 mínútur tuðaði ég yfir því hvað hreyfingar Sterling væru vitlausar af framherja, hvað hann hlypi stundum illa í eyðurnar sem opnast í vörn andstæðinganna. Hann hefur staðið sig frábærlega, verandi tvítugur stráklingur sem er ekki framherji en er beðinn um að spila þá erfiðu stöðu fyrir liðið, en hann er ekki framherji að eðlisfari og það gerist svona fimm sinnum í hverjum leik sem hann spilar þarna að ég segi „þarna hefði Sturridge verið mættur í svæðið“ við sjónvarpið. Það er ekki honum að kenna að varaskeifur Sturridge í leikmannahópnum séu vonlausir, en það var meðal annars þess vegna sem Liverpool tapaði í kvöld.

Ég hætti samt að tuða yfir Sterling á 70. mínútu. Þá kom nefnilega Balotelli inná og ég sagði upphátt að ég myndi fyrirgefa allt sem hefur gerst (eða ekki gerst öllu heldur) í vetur ef hann bara gerði gæfumuninn í kvöld. Neibb. Hann var skammaður eftir Bolton-leikinn, þar sem Rodgers hafði hann ekki í hóp, og þá sagði Rodgers orðrétt að „ef þú ekki pressar spilarðu ekki fyrir Liverpool, sama hvað þú heitir.“ Balotelli fékk séns í kvöld eftir skilaboðin og ætlaði aldeilis að sanna sig. Nema hvað, hans hugmynd um pressu er að taka sprett á manninn með boltann og þegar sá sendir á samherja hættir Balotelli að hlaupa og horfir á hina pressa. „Ég gerði mitt, nú vil ég sjá ykkur vinna boltann.“ Berið það saman við þrotlausa vinnu Sterling við að loka á svæði og sendingarleiðir í 120 mínútur í kvöld og þá er erfitt annað en að gnísta tönnum. Rodgers hugsaði þessa skiptingu hárrétt að mínu mati, taktískt séð, en því miður setti hann gjörsamlega vonlausan valkost inná völlinn. Þess vegna, meðal annars, tapaði Liverpool í kvöld.

Þar með var þætti Balotelli ekki lokið, samt. Hann hafði líka áhrif í vörninni, því miður. Hann gaf kærulausa sendingu á miðjum vallarhelmingi Liverpool í upphafi framlengingar. Andstæðingarnir komust inn í boltann, Lucas lenti í ómögulegri stöðu og varð að brjóta af sér. Í fylgjandi aukaspyrnu tölti Balotelli inn á teiginn og eins og endursýningin sýndi klárlega átti hann að dekka markaskorarann en ákvað að horfa á boltann og gaufa í stað þess að fylgja sínum manni, sem skoraði að sjálfsögðu af vítapunktinum.

Það eru margar ástæður fyrir því að Liverpool tapaði í kvöld en stór hluti þeirra leiðir að sömu niðurstöðunni: Mario Balotelli var panikkeyptur í lok ágúst, eftir að valkostir 1 og 2 í stað Luis Suarez höfðu klikkað. Sénsinn var tekinn, teningunum kastað og því miður sprakk þetta litla veðmál í andlitið á Rodgers, Ayre, FSG, kokkinum, saumakonunni og okkur öllum hinum. Þessi leikmaður skilur ekki pressu, skilur ekki hlutverk sitt í liðinu, hefur ekki snefil af því hugarfari sem þarf til að vera varaskeifa fyrir Sturridge, hvað þá staðgengill Luis Suarez í liði Brendan Rodgers hjá Liverpool. Því fyrr sem menn slútta þessari tilraun, því betra.


Þetta var samt ekki alslæmt. Langt því frá. Mig langaði að koma neikvæðu hlutunum frá mér, pirringnum sem snýr allur að framherjastöðunni okkar. Restin af liðinu getur borið höfuðið hátt. Mignolet hefur heldur betur lifnað við á síðustu dögum og var aftur gjörsamlega frábær í markinu í kvöld (fyrir utan blessuð útspörkin, en hey ég ætla ekki að vera frekur í bili). Can, Skrtel og Sakho voru einnig enn og aftur frábærir í kvöld og þótt það síðasta sem Sakho gerði hafi verið mislukkuð sending sem gaf andstæðingunum færi sýndi mikilvægi hans sig í því að liðið missti fótana og átti slakan kafla um leið og hann fór út af. Við verðum að vona heitt og innilega að meiðsli hans séu ekki slæm, ég get vart hugsað þá hugsun til enda að fara að missa hann út akkúrat núna. Ekki núna. Hann er búinn að vera svo góður.

Moreno og Markovic voru hljóðir sóknarlega á vængjunum en sýndu af sér mjög agaðan og þroskaðan leik. Þessir ungu strákar tóku sinn tíma í haust en hafa stimplað sig inn í þetta lið og það rækilega. Framtíðin er björt. Á miðjunni héldu Henderson og Lucas áfram að standast sér dýrari og frægari mönnum snúning og fyrir framan þá hélt Coutinho áfram að gera svokölluðum besta varnartengilið Englands erfitt fyrir. Fyrirliðinn okkar hefur átt betri leiki en barðist fyrir sínu og lék eiginlega betur eftir að hann færði sig niður á miðjuna, og Henderson út á vænginn, við taktísku breytinguna á 70. mínútu. Frammi var Sterling eins góður og hann gæti mögulega verið, miðað við að hann er ekki framherji. Þvílíkur leikmaður.

Eftir stendur gríðarlega jákvæð frammistaða gegn toppliði Englands í 210 mínútur. Eftir auma uppgjöf á Anfield gegn sama liði sýndu okkar menn í síðustu viku, og aftur í kvöld, að þeir hafa komið um langan veg síðan þá og óttast ekkert lengur. Það býr gríðarleg framtíð í þessu liði okkar og ég hlakka til að sjá það smella enn frekar í næstu leikjum, og eins svekktur og ég er með tapið í kvöld man ég að þetta er bara tap nr. 2 í síðustu 17 leikjum og alls ekkert til að missa svefn yfir.

Ég hlakka til næstu leikja með þessu frábæra Liverpool-liði. Þá verður Daniel Sturridge líka farinn að spila fótbolta aftur. Ekki seinna vænna.

Liðið gegn Chelsea

Byrjunarliðin eru komin og þau eru 100% eins og Óli spáði í upphitun.

Lið Liverpool:

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Markovic – Henderson – Lucas – Moreno

Gerrard – Sterling – Coutinho

Bekkur: Ward, Lovren, Johnson, Allen, Lallana, Lambert, Balotelli.

Sem sagt, Mario er kominn á bekkinn auk Johnson og Lallana. Sturridge er ekki hætt í þennan leik.

Lið Chelsea:

Courtois

Ivanovic – Terry – Zouma – Filipe

Fabregas – Matic – Oscar

Willian – Costa – Hazard

Hér er sterkasta lið Englands á þessu tímabili á ferðinni, og þeir ná að stilla upp sínu sterkasta liði (nema Zouma inni fyrir Cahill).

Þetta er ekkert flókið: þetta verður gríðarlega erfitt en alls ekki ómögulegt.

Koma svo Liverpool!

YNWA

Chelsea á morgun

Á morgun mætir Liverpool lærisveinum Jose Mourinho í seinni leik undanúrslita Deildarbikarsins á Stamford Bridge. Fyrri leikur liðana endaði með 1-1 jafntefli þar sem að Eden Hazard kom Chelsea yfir með vítaspyrnu og Raheem Sterling jafnaði muninn með góðu marki.

Í fyrri viðureign liðana var Liverpool frábærir. Líklega einn besti leikur liðsins á leiktíðinni. Pressan í liðinu var frábær, liðið vel skipulagt og boltinn gekk vel á milli. Liðið skapaði fín færi en ef það hefði ekki verið fyrir frábæran markvörð Chelsea þá hefði Liverpool getað farið með stóran sigur af hólmi.

Jose Mourinho viðurkenndi eftir leikinn að stuðningsmenn Liverpool séu betri en stuðningsmenn Chelsea og Anfield væri betri en Stamford Bridge … eða svona eiginlega. Hann hrósaði stuðningsmönnum Liverpool eftir leikinn og gaf stúkunni klapp áður en hann gekk til búningsklefa eftir leik. Margt má segja um Mourinho en maðurinn kann að meta góða hluti þó hann viðurkenni það kannski ekki alltaf.

Mourinho: “If Stamford Bridge can give us 25% of the emotion Anfield gives Liverpool, I think we can do it. Liverpool, instead of 40,000 fans, they will have five or 10 (thousand).

“Chelsea, instead of 1,000, will have 40,000. I hope that can make a difference in the atmosphere.”

Bæði lið léku í FA bikarnum um síðastliðna helgi og ollu bæði lið vonbrigðum í leikjum sínum. Liverpool gerði markalaust jafntefli við Bolton á Anfield en Chelsea gerði gott betur og tapaði 4-2 gegn Bradford City á Stamford Bridge.

Chelsea hvíldu marga leikmenn sem byrjuðu inn á gegn Liverpool fyrir rúmri viku síðan, það voru aðeins Gary Cahill og Jon Obi Mikel sem byrjuðu báða leikina á meðan að Fabregas, Hazard og Willian komu inn á í 20 mínútur eða minna í þeim leik.

Liverpool hvíldi færri leikmenn gegn Bolton en sex leikmenn byrjuðu báða leikina og tveir sem byrjuðu gegn Chelsea komu inn á gegn Bolton, þar á meðal Markovic sem kom inn á í hálfleik sem er nokkuð drjúgt.

Ég held að reikna megi sterklega með að liðin verði svipuð og í fyrri leik liðana. Hazard, Willian, Fabregas, Costa, Terry og félagar munu koma aftur inn í byrjunarlið Chelsea. Líklega dettur Mikel út hjá Chelsea fyrir leikinn og líklegast kæmi þá Oscar inn í liðið. Mourinho mun líklega reyna að ná betri tökum á sóknarleiknum en í síðasta leik og hentar Oscar töluvert betur þar en Mikel.

Líklegt byrjunarlið Chelsea

Courtois

Ivanovic – Cahill – Terry – Luis

Fabregas – Matic

Willian – Oscar – Hazard
Costa

Af okkar mönnum þá tel ég líklegt að liðið verði eins og í síðasta leik ef Gerrard er heill heilsu annars gæti ég trúað að Lallana komi inn í hans stað. Lucas og Henderson verða á miðjunni, varnarlínan eins og síðast, Moreno og Markovic á vængjunum og Sterling leiðir línuna. Jákvæðar fréttir bárust frá Rodgers þegar hann sagði að hugsanlega gæti Sturridge tekið þátt í leiknum á morgun eða um helgina og yrði mikill styrkur að fá hann á bekkinn fyrir þennan leik.

Líklegt byrjunarlið Liverpool:

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Markovic – Henderson – Lucas – Moreno

Gerrard – Coutinho
Sterling

Bæði lið vilja vinna þennan titil þó hann sé ekki sá stærsti sem þessum liðum býðst og ég held að þetta verði jafn leikur og mun líklegast enda með jafntefli – eða þá í besta/versta falli mjög tæpum sigri annars liðsins. Chelsea verða líklega sterkari en í fyrri leiknum og þarf Liverpool að halda sama dampi og þeir gerðu í honum. Mín spá er 1-1 jafntefli eftir venjulegan leiktíma og úrslitin ráðast með Liverpool marki í framlengingu þegar Rickie Lambert kemur boltanum í netið.

Já, svo verður fróðlegt að fylgjast með þessari baráttu:

Samningsmál helsti höfuðverkur framtíðarinnar?

Tryggð Steven Gerrard við Liverpool allann sinn feril verður ekki síður það sem hans verður minnst fyrir heldur en þau verðlaun sem hann hefur unnið eða augnablikin sem hann skapaði. Hann fór í gegnum tíma þar sem félagið fór í mestu lægð sem það hefur farið í sögunni. Hann vildi vinna til verðlauna með Liverpool, hann vildi vinna lið eins og Real Madríd og Barcelona með Liverpool, ekki verða nógu góður með Liverpool til að geta spilað með þessum liðum.

Hann er sá eini af samherjum sínum sem getur sagt þetta. Af þeim sem voru nógu góðir þá fór Alonso til Real Mardríd með fyrstu vél, Mascherano til Barcelona, Suarez fór sömu leið og Torres fór í Olíubaðið hjá Chelsea. Arbeloa flækist með inn í þessa mynd og fór heim til Madríd á lítinn pening er búið var að kaupa mann í hans stöðu. Áður hafði hann séð á eftir bæði McManaman og stórvini sínum Michael Owen fara sömu leið (Real).

Það er ekkert óeðlilegt við þetta svosem en vonandi er planið til framtíðar að komast í auknum mæli hjá þessu. Liverpool á að stefna að því að ala upp leikmenn sem hafa það markmið helst að leiðarljósi að vinna lið eins og Real og Barca með Liverpool, ekki spila með þeim. Allir þessir leikmenn sem ég taldi upp (utan Suarez og Macca) tóku þátt í því sem leikmenn Liverpool að vinna bæði þessi lið sem og flest öll hin stórliðin í Evrópu.

Auðvitað hefur ýmislegt gengið á undanfarið ár og barátta við þessi lið verið nokkuð fjarlægur draumur (þar til í fyrra) en eins og staðan er núna eru líklega ansi margir leikmenn á mála hjá Liverpool sem verða sannarlega samboðnir þessu liðum sem etja jafnan kappi í 8 – liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Aðal keppikefli næstu ára hjá Liverpool verður að halda þessum mönnum og fá þá til að springa út sem leikmenn Liverpool og njóta þeirra krafta áfram eftir það.
Lesa meira

Liverpool 0 – Bolton 0

Viðfangsefni dagsins var fjórða umferð FA-bikarsins, Boltonmenn í heimsókn á Anfield.

Á degi sem má segja að hafi verið sá óvæntasti í mörg ár, í kjölfar þess að BRADFORD sló út Chelsea á Brúnni, City tapaði heima fyrir Middlesboro og Swansea, Southampton og Tottenham töpuðu sínum leikjum líka óvænt.

Þetta vissu allir þegar þeir hlupu inn á Anfield-grasið, dagur „giant-killing“ heldur betur!

Rodgers gerði töluverðar breytingar frá síðasta leik og stillti svona upp:

Mignolet

Johnson – Can – Sakho

Manquillo – Henderson – Allen – Enrique

Lallana – Coutinho
Sterling

Bekkur: Ward, Lovren, Lambert, Lucas, Borini, Rossiter, Markovic.

Förum hratt yfir fyrri hálfleik. Hann var lélegur einfaldlega.

Nýju nöfnin í byrjunarliðinu voru ryðgaðir og skiluðu vondu verki í vörn og sókn. Sterling, Coutinho og Lallana virtus allir ætla að klára leikinn á einstaklingsframtaki eða langskotum. Bolton var hins vegar ekkert að gera sóknarlega heldur og alveg steindautt 0-0 í spilunum allan hálfleikinn.

Í hálfleik kom Markovic inn fyrir Enrique sem var víst að meiðast eitthvað smá…hans tími hlýtur að vera að líða.
En lítið breyttist við þessa skiptingu fyrst í stað. Upp úr mínútu 55 fór okkar lið þó að herða skrúfuna og vekja markmann Bolton aðeins, fyrst bjargaði hann með úthlaupi og varði síðan langskot. Á sama hátt fengu Bolton séns, Eiður skaut þó sem betur fer hátt yfir úr dauðafæri frá vítapunkti.

Skiptingar, Lucas og Borini inn fyrir vonlausa Allen og Manquillo. Sterling settur út á kant og Lucas í sína stöðu. Hendo hafði leyst hana fram að því.

Enn það sama. Lítið tempo, enginn ákafi. Einhvern veginn tilfinningin að verið væri að horfa frekar til London á þriðjudag en að klára þennan leik. Áttum að fá víti þegar Spearing fór í Hendo inní teig en ekkert dæmt…Borini fékk gott færi í uppbótartíma en skallaði framhjá og Hendo skaut hátt yfir stuttu seinna.

Lucas átti besta skotið úr síðustu sókninni en það var varið, stuttu seinna gall lokaflautið og við förum í annan leik, gegn Bolton á Macron Stadium. Gestirnir áttu það skilið út úr þessum leik.

Samantekt

Leiðinlegur leikur, sem markaðist af mörgum breytingum á byrjunarliði og algerum off-dag hjá sóknarmönnunum okkar sem voru hver öðrum hægari og slakari. Enginn þeirra sem fékk traust í dag getur verið glaður nema hugsanlega Johnson, aðrir sýndu ekki mikið.

Við áttum eitthvað um 20 skot en þau voru langflest af löngu færi og engin sköpuðu mikinn vanda.

Jákvæðast fannst mér að Emre Can lék vel í stöðu Skrtel og sýndi að hann getur leyst hana vel. Hann er minn maður leiksins.

Drífum okkur bara á Brúnna og gleyma þessu takk.