íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Leikir hjá kvennaliðinu og U23

  Það er nóg að gera hjá Liverpool FC, í augnablikinu stendur yfir leikur U23 liðsins við Derby, og kvennaliðið tekur á móti West Ham núna á eftir. Staðan hjá U23 er 1-0 í augnablikinu, fyrirliðinn Virtue með markið. Þá ber það til tíðinda að Ben Woodburn spilar með liðinu þrátt fyrir að vera á láni hjá Sheffield United, en hann hefur lítið fengið að spila þar upp á síðkastið.

  Leikurinn við West Ham hjá kvennaliðinu er áhugaverður að ýmsu leyti. T.d. mæta okkar konur þarna Matt Beard sem stýrði Liverpool einmitt á árunum 2013-2014 þegar Katrín Ómars lék með liðinu og tveir titlar komu í hús. Meðal leikmanna West Ham eru svo t.d. Kate Longhurst sem lék með Liverpool þangað til í sumar.

  Kirkland og Jepson stilla svona upp í dag:

  Kitching

  S.Murray – Bradley-Auckland – Matthews – Robe

  Robert – Coombs – C.Murray

  Charles – Clarke – Sweetman-Kirk

  Bekkur: Preuss, Little, Fahey, Rogers, Daniels, Babajide, Linnett

  Kirsty Linnett fer semsagt aftur á bekkinn þrátt fyrir að hafa skorað sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn í síðasta leik, og Preuss er orðin leikfær en byrjar á bekknum.

  Við uppfærum svo færsluna með úrslitum, bæði hjá U23 og hjá kvennaleiknum.


  Leik lokið með sigri Liverpool, 0-1. Courtney Sweetman-Kirk með markið í fyrri hálfleik, eftir góða fyrirgjöf Jess Clarke. Það var mikil barátta á síðustu mínútunum, og það munaði ekki miklu að okkar konur bættu við öðru marki en það var dæmt af vegna rangstöðu. Í uppbótartíma meiddist svo Kirsty Linnett á höfði þegar West Ham tóku hornspyrnu, og þar sem það var búið að nota allar skiptingar þurfti að klára leikinn með 10 leikmenn. Það hafðist sem betur fer. Liðið er því komið í 4 sæti með 9 stig eftir 5 leiki: 3 sigurleikir og 2 tapleikir. Það að lesa úr töflunni er þó ekkert endilega mjög einfalt, þar sem fjöldi liðanna í deildinni er oddatala, og því mismargir leikir búnir hjá hverju liði. Þannig eru t.d. Birmingham konur í 2. sæti með 13 stig, en eru búnar að spila 6 leiki. Arsenal eru á toppnum og hafa unnið alla sína leiki.

  U23 liðinu gekk ekki eins vel en sá leikur endaði 2-3 fyrir Derby.

 • Huddersfield 0 – 1 Liverpool

  Okkar menn heimsóttu Huddersfield í dag. Fyrr um daginn gerðu Chelsea og United jafntefli, en City vann Burnley stórt, og því ljóst að liðið yrði að sigra til að missa City ekki fram úr sér.

  Mörkin

  0-1 Salah (24. mín)

  Gangur leiksins

  Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður tvítaði (tveit?) Ian Doyle á þá leið að það hefði ekkert gerst, og það var nokkuð nærri lagi. En þá tóku Gomez, Shaqiri og Salah sig til og bjuggu til mark upp úr nánast engu. Næsta korterið gerðust svosem engin ósköp heldur, Huddersfield áttu þó skot í stöng, Lallana fékk gult spjald fyrir litlar sakir, og svo fengu þeir bláu og hvítu aukaspyrnu 6 mínútum fyrir leikhlé og áttu gott skot sem fór rétt framhjá. Á 43. mínútu fékk svo Milner boltann í höndina innan teigs en réttilega ekkert dæmt, og örskömmu síðar náðu Huddersfield að koma boltanum í netið en það var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Staðan 0-1 í hálfleik, svosem réttilega, en okkar menn alls ekkert að heilla nein ósköp.

  Winjaldum kom inná fyrir Henderson í hálfleik, þar sem sá síðarnefndi tognaði víst aftan í læri, en vonandi er það ekki alvarlegt hjá fyrirliðanum. Á 63. mínútu hefði Salah getað komið okkur í 0-2 eftir góða sendingu inn fyrir frá Sturridge, en hann setti boltann rétt framhjá. Á 70. mínútu var svo Lallana sprunginn, svo Fabinho hlaut frumraun sína í deildinni. Síðasta skipting Klopp kom svo á 76. mínútu þegar Firmino kom inn á. Flestir héldu að hann myndi koma inn á í staðinn fyrir Sturridge, en nei, það var Milner sem fór af velli, og Firmino fór á miðjuna. Síðustu mínúturnar voru svo spennandi, okkar menn áttu alveg efnilegar sóknir en ákvarðanatakan var á köflum ansi hæpin. Lokatölur 0-1, og enn einn leikinn eru hinir rauðklæddu alls ekki að heilla eins og við vitum að liðið getur gert. Við skulum orða það þannig að ef liðið hefði sýnt svona spilamennsku gegn betri andstæðingum hefði þessi leikur vel getað tapast.

  Slæmur dagur

  Já. En liðið vann nú samt og hélt hreinu. Það var slæmt að missa Henderson útaf í hálfleik, vonum að það sé ekki alvarlegt. Enginn okkar manna var að heilla brjálæðislega, en svosem enginn sem átti eitthvað afspyrnu lélegan leik.

  Maður leiksins

  Ég ætla að tilnefna Joe Gomez, hann hóf sóknina sem gaf mark, og var allt í öllu í vörninni.

  Umræðan

  Næsti leikur er gegn Rauðu stjörnunni í meistaradeildinni, vonum að liðið sýni betri leik þá, og að sóknarleikurinn fari nú að smella. Við erum satt að segja búin að bíða eftir því í allt haust.

  Það jákvæða er að sjálfsögðu að liðið er enn ósigrað í deildinni, varnarleikurinn er ennþá solid (reyndar er þetta besta byrjun liðsins varnarlega í sögu úrvalsdeildarinnar), liðið er enn jafnt City að stigum á toppnum (þetta er auk þess jöfnun á bestu stigasöfnun í upphafi tímabils í úrvalsdeildinni hjá liðinu), en City eru hins vegar kominir með mun betri markamun, og það gæti skipt máli í lokin. En við sjáum til, titlarnir sem hafa unnist í október eru nú ekki margir.

 • Liðið gegn Huddersfield

  Nú er klukkutími í að leikur Huddersfield og Liverpool hefjist, og svona ætlar Klopp að stilla upp gegn David Wagner og félögum:

  Alisson

  Gomez – Lovren – Van Dijk – Robertson

  Milner – Henderson – Lallana

  Shaqiri – Salah – Sturridge

  Bekkur: Mignolet, Matip, Trent, Fabinho, Winjaldum, Origi, Firmino

  Hér vekja nokkur atriði athygli: Gomez fer aftur í bakvörðinn, Milner kominn aftur úr meiðslum og beint í byrjunarliðið, Winjaldum á bekknum, eins Firmino, bæði Sturridge og Shaqiri byrja, og svo sjáum við andlit sem hefur ekki sést í langan tíma: Divock Origi á bekknum. Nú svo getur vel verið að þetta verði eitthvað afbrigði af 3-5-2 frekar en 4-3-3 eins og oftast.

  Þó svo að Huddersfield sé enn án sigurs í deildinni, og Liverpool á toppnum, þá er þetta sýnd veiði en ekki gefin. Það er rétt að minna á að af síðustu 9 útileikjum í deildinni þar sem Liverpool hefur spilað á móti liði sem var í fallsæti í byrjun dags, þá hafa 5 af þessum leikjum tapast. Enginn af síðustu 6 svona leikjum hefur unnist. Og eins og Höddi B benti á í athugasemdum við upphitunina hjá Ólafi Hauki, þá er þetta lið sem vann United á síðustu leiktíð. Semsagt, sýnd veiði en svo alls ekki gefin. Klopp var ekkert viss um að hann vildi að liðið heyrði af þessari tölfræði, en líklega mun hann einmitt nota hana til að brýna menn til dáða. Nú þar að auki mega okkar menn alveg færa núverandi fyrirliða kvennaliðs Liverpool – Sophie Bradley-Auckland – sigur í afmælisgjöf, því hún á 29 ára afmæli í dag.

  KOMA SVO!!!

 • Huddersfield á laugardag

  Á laugardaginn hefst enska deildin aftur eftir landsleikjahlé sem var nú ansi glatað á svo margan hátt. Í fyrsta lagi var gengi Íslands ekki nægilega gott en fínt jafntefli úti gegn Frökkum kom í æfingaleik fyrir tapleik gegn Sviss í Þjóðardeildinni og í öðru lagi þá enduðu ansi margir lykilmenn Liverpool í einhverjum óþarfa meiðslum og vandræðum í landsliðsverkefnum sínum.

  Virgil Van Dijk skoraði ásamt Gini Wijnaldum í sigurleik Hollendinga gegn Þýskalandi í Þjóðardeildinni en Van Dijk var sendur heim fyrir seinni leikinn þar sem hann er búinn að vera að stríða við einhver meiðsli í rifbeini undanfarnar vikur, Wijnaldum fékk svo einnig frí í þeim leik og gat sömuleiðis snúið fyrr aftur heim til æfinga fyrir leikinn um helgina.

  Sadio Mane fingurbrotnaði og þurfti að gangast undir smávægilega aðgerð sem gekk vel. Hann æfði ekki með liðinu í dag og er tæpur fyrir leikinn um helgina, aðallega bara vegna óþæginda frekar en að hann sé alveg off. Naby Keita er hins vegar líklega frá næstu tvær vikurnar eftir að hafa tognað smávægilega aftan í læri í leik með sínu landsliði, aðstæðurnar þar sem þetta gerðist voru skelfilegar en þessi fimmtíu milljóna punda leikmaður þurfti að vera borinn út af vellinum á baki liðsfélaga síns því ekki voru börur á svæðinu. Það hefur ekki verið staðfest af Liverpool hve alvarleg meiðslin séu en fregnir í heimalandi hans segja að það séu tvær vikur.

  Mo Salah skoraði beint úr hornspyrnu í æfingaleik með Egyptalandi í fyrri leik þeirra í þessari törn og fór svo útaf meiddur á 88.mínútu í stöðunni 4-1. Hann var með einhverja verki aftan í læri og leit það alls ekki vel út. Hann fór aftur til Liverpool og var á æfingu í dag svo hann verður líklega leikfær um helgina og það eru frábærar fréttir.

  Eitthvað sá ég um að Trent Alexander-Arnold væri líka tæpur fyrir leikinn vegna einhverja smávægilegra meiðsla í baki en ekkert séð meira í kjölfarið og hann var á æfingu í dag með liðsfélugum sínum svo eflaust ekki alvarlegt það. Fabinho, Alisson og Firmino léku eitthvað smá með Brasilíu, Lovren með Króatíu sem mætti Englandi. Gomez átti góðan leik með enskum gegn Króötum og Henderson var svo góður að næla sér í spjald og var í banni í seinni leik Englendinga.

  Jákvæðar fréttir hafa svo borist af Milner sem fór meiddur út af í síðasta leik Liverpool fyrir hlé þar sem hann hafði tognað í læri og átti að vera frá í einhverjar fjórar vikur en hann er mættur aftur á æfingar og verður eflaust klár í slaginn um helgina – hann hefur greinilega haft einhver sambönd enn þá í City og náð að koma höndum yfir Dr.Cugat sem hefur gefið honum sömu „vítamínsprautur“ og hann gefur leikmönnum City svo þeir nái kraftaverkabata af sínum meiðslum, já eða að Milner sé hreinlega einhver robocop.

  Adam Lallana er sömuleiðis kominn aftur til baka og farinn að æfa á fullu með liðinu. Hann hefði víst geta verið klár fyrir síðasta leik en það var víst frekar tekin sú ákvörðun að láta hann ná fleiri æfingum áður en hann snéri aftur. Það verður flott að fá hann aftur inn í hópinn og þá sérstaklega þar sem Keita verður frá í smá tíma.

  Á tímapunkti leit þetta alveg hreint skelfilega út og það virtist stefna í að Klopp þyrfti að stilla upp hálfgerðu Deildarbikarliði en svo virðist ekki vera og að ástandið er ekki eins slæmt og stefndi í. Það virðist aðallega vera Keita sem mun missa af einhverjum leikjum þó að einhverjir gætu verið tæpir fyrir helgina.

  Nú er að hefjast sex leikja gluggi hjá Liverpool fram að næsta landsleikjahléi(!) þar sem liðið mun spila fjóra deildarleiki og tvo leiki í Meistaradeild. Ég ætla bara að gerast það kræfur að ætlast til þess að Liverpool eigi að sigra alla þessa leiki, það er aðeins útileikur við Arsenal sem maður gæti kannski sannfært sig um að eitt stig væri ásættanlegt en í raun finnst mér að við eigum að vera nægilega sterkir til að klára þá þar. Í þessari leikjahrynu eru heimaleikir gegn Cardiff, Red Star og Fulham og útileikir gegn Huddersfield, Red Star og Arsenal. Sex leikir, sex sigrar – ég ætla að fara fram á það, allt annað væru ákveðin vonbrigði.

  Fyrir umferðina er Liverpool með 20 stig ásamt Chelsea og Man City en með slakari markatölu en hin tvö og sitja í þriðja sætinu en þó líklega búnir með töluvert erfiðara leikja prógram. Chelsea byrja umferðina á því að mæta Man Utd og Man City taka á móti Burnley. Svo mætast Man City og Tottenham vikuna eftir svo þarna eru hugsanlega tveir leikir þar sem þau lið gætu misst einhver stig á meðan að Liverpool á að eiga tvo skyldusigra.

  Gengi David Wagner og hans manna hefur ekki verið gott í upphafi leiktíðar og þykir ansi, ansi líklegt að þeir muni fara niður í vetur. Þeir voru afar tæpir á því í fyrra en rétt sluppu fyrir horn og gerðu svo gott sem ekkert merkilegt í leikmannaglugganum í sumar og þykja bara ansi líklegir til að fara niður ásamt Cardiff. Þessi tvö lið líklega þau sem teljast hvað slökust í vetur.

  Huddersfield hafa átt nokkuð erfiða byrjun og allt það en þeir eru með þrjú stig fyrir umferðina og hafa gert þrjú jafntefli og tapað fimm með markatöluna 4-17. Ég nenni nú ekki að fara eitthvað rosalega djúpt í Huddersfield, það er ekki mikið af áberandi styrkleikjum í þeirra leik og þeir eru að fá einhverja leikmenn til baka úr meiðslum, þar á meðal þeirra besta leikmann Aaron Mooy.

  Alison

  TAA – Gomez – Van Dijk – Robertson

  Shaqiri – Henderson – Wijnaldum

  Salah – Firmino – Sturridge

  Ætla nú bara að taka skot út í bláinn með byrjunarliðið þar sem þeir Keita, Milner og Mane eru allir tæpir/meiddir fyrir helgina. Klopp gaf það nokkurn veginn til kynna eftir leikinn gegn Man City að hann hafi þurft að spila svolítið á hugmyndum síðustu leiktíðar og á þeim mannskap sem þekkti hvað best til hans í upphafi leiktíðar vegna þess hve þétt og erfitt prógramið var. Við höfum því lítið séð til leikmanna eins og Shaqiri, Keita og sérstaklega Fabinho en Klopp gaf í skyn að við munum sjá meira af þeim næstu vikurnar og jafnvel að við munum breyta ögn uppstillingu liðsins meira en við gerðum síðast. Það kæmi því kannski ekki rosalega á óvart ef að Klopp muni hafa liðið ögn „sókndjarfara“ í næstu 2-3 leikjum og muni koma Shaqiri inn í tíuna og við munum spila meira í anda 4-2-3-1 líkt og við sáum stundum í æfingaleikjunum í sumar eða jafnvel bæti við öðrum framherja og fari í þessa 4-2-2-2 uppstillingu sem við sáum stundum í fyrra.

  Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað hann hyggst gera fyrir þennan leik og ef Mane og Milner eru tæpir fyrir leikinn þá gæti það þýtt að við sjáum ansi áhugaverðar breytingar á liðinu. Ef þeir eru ekki klárir í að byrja leikinn finnst mér líklegt að Sturridge og Shaqiri muni koma inn en þó væri gaman að fá að sjá Fabinho með einhverjar mínútur líka en tvær nokkuð stórar breytingar er eflaust nóg fyrir þennan leik.

  Eins og ég segi þá finnst mér þetta eiga að vera skyldusigur fyrir Liverpool og leikur þar sem ég vil sjá stóran sigur. Það er vont ef leikmenn koma með vanmat í huga í leikinn en ég vona að Klopp sé með þá rétt fókuseraða fyrir þennan leik en þar sem ég sit nú bara heima að röfla um þetta þá ætla ég að fara fram á mikið. Ég vil clean sheet, ég vil dóminerandi frammistöðu, ég vil sjá nokkur mörk og lykilmenn í sókninni komast á blað og fá blóðbragð í kjaftinn. Skyldusigur og allt annað en þetta yrði vonbrigði.

  Mikið er gott að enski boltinn sé að byrja að rúlla aftur!

 • Gullkastið – Katrín Ómars

  Það er sannarlega ekki á hverjum degi sem við fáum fyrrum leikmann Liverpool á gestalistann hjá okkur og þáttur vikunnar því sannkallaður viðhafnarþáttur. Katrín Ómarsdóttir gerði auðvitað gott betur en það enda var hún partur af fyrsta meistaraliði kvennaliðs Liverpool í sögunni og fékk tvær gullmedalínur á þremur árum í borginni. Við fórum í Vesturbæinn og fengum Katrínu til að segja okkur aðeins frá tíma sínum hjá Liverpool, lífinu í borginni ásamt því auðvitað að skoða stöðu bæði karla og kvennaliðsins í dag.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi, SSteinn og Katrín Ómarsdóttir

  Við bendum hlustendum á að nú er hægt að finna þáttinn á Spotify undir Kop.is eða Gullkastið. Eins erum við á Itunes og öðrum podcast veitum.

  MP3: Þáttur 211

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!