Ludogorets 2 Liverpool 2

Okkar menn héldu til Búlgaríu í kvöld og gerðu 2-2 jafntefli í gríðarlega ergilegum leik.

Brendan Rodgers gerði nokkrar breytingar á liðinu sem tapaði gegn Crystal Palace um helgina. Kolo Touré kom inn í stað Dejan Lovren í vörninni, Lucas Leiva fékk loksins tækifæri í varnartengiliðnum á meðan Steven Gerrard var færður framar á kostnað Philippe Coutinho. Þá kom Jordan Henderson á ný inn eftir veikindi í stað Adam Lallana:

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Touré – Johnson

Henderson – Gerrard – Lucas – Allen – Sterling

Lambert

Bekkur: Jones, Lovren, Moreno (inn f. Sterling), Can, Coutinho, Lallana, Borini.

Það var fátt um fína drætti í þessum leik, það verður að segjast. Heimamenn lágu aftarlega og lokuðu svæðum og treystu á hættulegar skyndisóknir sem komu okkar mönnum nær alltaf í uppnám. Rodgers lagði áherslu á sterka miðju sem gæti verndað brothætta vörn okkar manna og því vorum við meira með boltann án þess þó að skapa mikið af viti fram á við.

Fyrsta markið kom strax á 3. mínútu. Eftir hnoð fyrir utan teig okkar manna fékk einn heimamanna allt í einu frítt skot á markið. Boltinn fór í grasið og þaðan í Mignolet sem reyndi að grípa hann en missti frá sér og Dani Abalo skoraði auðveldlega úr frákastinu. Skelfileg mistök Mignolet og okkar menn varla byrjaðir. Sem betur fer kom jöfnunarmarkið næstum strax, á 8. mínútu kom bolti inn fyrir á Rickie Lambert sem skallaði hann en missti aðeins frá sér, en náði þó öðrum skalla þökk sé sofandahætti hjá vörn og markverði Ludogorets. Hann setti boltann auðveldlega í fjærhornið í öðrum skallanum. 1-1 og Lambo búinn að skora í tveimur leikjum í röð.

Á 37. mínútu komst Liverpool svo yfir. Raheem Sterling slapp upp vinstri kantinn og gaf frábæra sendingu fyrir á fjær þar sem hægri kantmaðurinn Jordan Henderson kom aðvífandi og kláraði færið auðveldlega. 2-1 fyrir Liverpool í hálfleik. Eftir hlé gerðist nákvæmlega ekki neitt að neinu marki. Liverpool-menn þreyttust þegar leið á og heimamenn reyndu að pressa á jöfnunarmarkið án þess að skapa sér mikið. Sterling slapp einn í gegn á 81. mínútu og gat gert út um leikinn en skotið beint á markvörðinn.

Á 88. mínútu kom svo jöfnunarmarkið; hornspyrna frá hægri var skölluð áfram inn á fjærstöngina þar sem fimm varnarmenn Liverpool réðu ekki við einn sóknarmann Ludogorets. Það var Georgi Terziev sem skoraði markið og þar við sat, 2-2 jafntefli.

Hvað getur maður sagt? Það er svo sem jákvætt að tapa ekki fimmta leiknum í röð og ég sagði fyrir leik að ég myndi þiggja jafntefli ef það gæfi okkur séns á að komast áfram með sigri í lokaleiknum gegn Basel á Anfield. Það stóðst, við náðum í betri úrslit en Basel sem töpuðu heima fyrir Real Madrid og því er staðan einföld: sigur á Anfield í lokaleik og við förum áfram, allt annað og þá er það líklega Evrópudeildin eftir áramót.

Þetta er jákvætt, ekki satt? Nema hvað, ef ég hefði þegið jafnteflið fyrir leik þá er ég algjörlega grautfúll yfir því hvernig það spilaðist í kvöld. Rodgers gerði að mínu mati (loksins) jákvæðar breytingar með því að taka Lovren út fyrir Kolo Touré í vörninni og að leyfa Lucas Leiva loksins að vernda vörnina en ég var ekki sáttur að sjá Johnson halda áfram í vinstri bakverði, og það kom á daginn að Ludogorets-menn sóttu nær eingöngu þeim megin upp með góðum árangri.

Þá verð ég að játa að ég skil ekki innáskiptingu Rodgers í kvöld, né hinar tvær sem hann gerði ekki. Gerrard er 34 ára, Lambert 32 ára og Johnson þrítugur og þeir voru allir orðnir mjög þreyttir og kraftlitlir þegar leið á seinni hálfleikinn. Þeir fengu allir að klára þennan leik, nánast á hnjánum af þreytu. Eins var Allen ekki með eftir hlé en fékk að klára þrátt fyrir að Can, Lallana og Coutinho væru allir á bekknum. Eina skiptingin var þegar þreyttur Sterling fékk hvíld í lokin og Alberto Moreno kom inná (til að hjálpa Johnson sem átti í erfiðleikum með að stöðva sóknir upp sín megin). Það skilaði þó litlu.

Fraus Rodgers á línunni? Er pressan að segja til sín? Hann virtist bara ekki hafa kjark í að gera meira. Ég var farinn að grátbiðja um að a.m.k. annar hvor af Gerrard og Lambert færu út af eftir 65 mínútur. Hann hefði getað sett Borini inn í pressuna fyrir þreyttan Lambert og svo annað hvort Lallana eða Coutinho fyrir Gerrard, og svo hefði ég viljað sjá Sterling eða Allen víkja fyrir Can í síðustu skiptingu. En nei, hann beið allt of lengi og tók svo loks Sterling út í nokkrar mínútur.

Verst af öllu er samt að hafa lagt svona mikla áherslu á sterka vörn og mjög mikla vernd frá miðjunni í dag og að það hafi samt engu skilað. Mignolet gefur þeim fyrsta markið og þetta lið bara getur ekki fyrir sitt litla líf klárað föst leikatriði í eins og einum leik. Það er ömurlegt að horfa upp á svona markvörslu og varnarvinnu þegar svona mikið liggur við.

Maður leiksins: Lambert skoraði í öðrum leiknum í röð, það er jákvætt (ég var búinn að gleyma hvernig heitur striker lítur út). Gerrard var betri í holunni en hann hefur verið undanfarnar vikur í varnartengiliðnum. Allen var fínn í fyrri hálfleik en vonlaus í þeim seinni, á meðan Henderson og Sterling voru flottir og unnu vel á köntunum. Manquillo varðist gríðarlega vel allan leikinn og hlýtur að vera að fara langt með að eigna sér þessa stöðu í bili, ekki síst á meðan allt slapp framhjá Johnson hinum megin. Kolo Touré og Skrtel stóðu sig ágætlega fyrir utan einn eða tvo skjálfta í fyrri hálfleik en bera auðvitað stóra ábyrgð með öðrum á öðru marki Ludogorets.

Ég ætla hins vegar að velja Lucas Leiva mann leiksins. Ég var hreinlega búinn að gleyma því hvernig það er að sjá leikmann sem hefur réttu staðsetningarnar til að loka á svæðin fyrir framan vörnina. Hann bara hlýtur að halda áfram þarna í næsta leik.

Næsti leikur er gegn Stoke City og það verður spennandi að sjá hversu ferskir Lambert, Gerrard, Johnson og Allen verða í þeim leik eftir örþreytandi 90 mínútur í kvöld. Afsakið á meðan ég æli.

Liðið gegn Ludogorets

Byrjunarlið kvöldsins er komið og er það sem hér segir:

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Touré – Johnson

Henderson – Lucas – Gerrard – Allen

Sterling – Lambert

Bekkur: Jones, Lovren, Moreno, Can, Lallana, Coutinho, Borini.

Ég teikna þetta upp sem 4-4-2 en það verður alveg að koma í ljós hver spilar hvar á vellinum. Annars er þetta nokkuð áhugavert lið; á pappírnum er þetta gífurlega varnarsinnað og ljóst að áherslan verður lögð á sterka miðju og (loksins) alvöru varnartengilið (að því gefnu að Lucas spili þar en ekki framar). Sterling og Lambert eiga svo að reka smiðshöggið á (vonandi) sterka stöðu okkar á miðjunni.

Vonandi virkar þetta. Ég er sáttur við að sjá Lovren víkja fyrir Kolo Touré en að sama skapi svekktur að sjá Johnson valinn aftur fram yfir Moreno í vinstri bakverði. Hefði einnig frekar viljað sjá Lallana en Allen á miðjunni.

Liverpool er annars í þeirri undarlegu stöðu í kvöld að ef Real vinnur Basel í Sviss skiptir engu hvort við vinnum, gerum jafntefli eða töpum í kvöld, liðið þarf alltaf að vinna tveggja marka sigur á Basel á Anfield í lokaumferðinni til að komast áfram. Það er spes staða og við verðum að vonast eftir greiða frá Madrídingum í kvöld.

Hvað sem því líður er ömurleg tilhugsun að tapa fimmta leiknum í röð. Plís strákar, vinnið bara!

Áfram Liverpool!

Ludogorets á morgun

Mikið væri nú einfalt að henda sér bara beint út í eymdar og volæðis tjörnina á þessum tímapunkti, enda ástandið ansi fjarri því að vera gott hjá okkar ástkæra félagi. Liðið sem færði okkur fremst á sófabrúnina á síðasta tímabili, hefur nú neglt okkur fast að stólbakinu svo í brakar. Það eru margar og stórar spurningar á lofti hjá stuðningsmönnum og einnig hjá hinum sem fylgjast með enska boltanum. Fullt af fólki líka með svörin á reiðum höndum, vita upp á hár hvað er að og hvernig skuli vinna úr málunum. Við sófaspekingarnir erum nefninlega alveg skarp gáfuð kvikindi upp til hópa, allavega að okkar mati. En þessi veröld fótboltans (frekar en þessi almenna) er ekki bara svört og hvít þótt það virðist stundum vera þannig. Hún getur líka verið svolítið grá. En einhvern tíman heyrði ég speki á þá leið að fortíðin sé gagnslaus að mestu leiti, það sem eigi að nota hana í er að læra af henni. Annars skuli huga að núinu með augastað á framtíðina.

Þótt ástandi sé slæmt, þá er það ekki þannig að tækifærin liggi ekki fyrir framan okkur. Á morgun er leikur í deild þeirri sem við höfum stefnt á í fjölda ára og vitið þið hvað? Leikurinn byrjar í stöðunni 0-0, það er magnaður fjandi. Vitið þið annað? Innan okkar vébanda eru fjöldinn allur af virkilega öflugum landsliðsmönnum sem hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit í alltof langan tíma. Hættu menn að kunna að sparka fótbolta, bara svona allt í einu? Það er afskaplega ólíklegt og mætti frekar ætla að eitthvað sé ekki alveg í lagi sem snýr að andlega þættinum. Það sem fer langmest í taugarnar á mér við núverandi ástand er þetta bölvaða andleysi sem virðist vera yfir flestum leikmönnum liðsins þegar þeir stíga inn á leikvöllinn. Auðvitað er hægt að hrópa og kalla á Brendan Rodgers, og á hann skilið alveg hellings skerf af ástandi liðsins eins og það er núna. En gleymum því samt ekki að þetta eru atvinnumenn í fótbolta, þeir gera lítið annað en að stunda þessa vinnu sína sem er jafnframt þeirra (flestra) helsta áhugamál. Það á ekki að þurfa að peppa þessa gaura í að vinna fyrir feitum launatékkunum sínum.

Eins og ég segi, þá er alveg hægt að leggjast í tuðið og horfa bara í svartnættið. Persónulega finnst mér skemmtilegra að reyna að berja mér á brjóst og vonast til þess að fleiri hugsi eins og þar með rífi upp stemmninguna. Það er alveg sama á hvern er horft þar. Það vantar stemmarann í stjórann. Það vantar stemmarann í leikmenn. Það vantar stemmarann í stuðningsmennina á Anfield. Það vantar stemmarann í stuðningsmenn á Spot. Það vantar stemmarann í stuðningsmennina á Kop.is. Það er líka alltaf létt mál að benda á þann næsta við hliðina og velta fyrir sér orsökum og afleiðingum. Myndast betri stemmning ef liðið spilar vel? Spilar liðið betur ef stemmningin er betri? Ég hef lesið nokkur kommentin hérna inni um það að menn hafi ekki lengur áhuga á að horfa á Liverpool spila leiki. Gott og vel, þá snúa menn sér að einhverju öðru. Vonandi verður bara fjör í því sem frítíminn fer þá í. Ég er bara ekki í þeim hópi og get helst ekki hugsað mér það að missa af einni einustu mínútu hjá liðinu. Ég gæti líka alveg verið án þess að sjá yfirlýsingar um þetta efni trekk í trekk, finnst sjálfum lítil stemmning í því.

Á morgun er leikur í Meistaradeild Evrópu og nokkrir góðir félagar mínir ferðast núna langa leið til að komast á leikinn og fylgja liðinu sínu. Það er vonandi að þeir fái nú góðan leik og eins góð úrslit. Í mínum huga eru bjartir tímar framundan og ég er þess alveg viss að það sé bara tímaspursmál hvenær okkar menn rífi sig upp úr þessu sleni og sýni okkur eitthvað meira í ætt við það sem við sáum á síðasta tímabili. Það getur vel verið að ég sé í einhverjum Pollýönnuleik, en fjandinn hafi það, ég nenni ekki einhverju svartsýnisrausi. Ég bara hlýt að bera þá von í brjósti að þessir fínu fótboltamenn fari að sýna takta á vellinum og skemmta okkur svolítið. Við erum með hámenntað lið í þjálfunarfræðum sem hafa gert mikið af mistökum það sem af er, en ég hef líka trú á því að þeir finni réttu blönduna.

Það fyrsta sem ég sé í stöðunni er að Brendan sýni nú dug sinn og áræðni og geri alvöru breytingar á liðinu. Ég hef verið að æpa á það að taka Steven Gerrard úr varnartengiliðnum í talsverðan tíma núna og ekki ómerkari maður en Jamie Carragher er á nákvæmlega sömu skoðun. Vörnin lekur mörkum eins og enginn sé morgundagurinn, en við sjáum samt leik eftir leik, sömu þrjá sem eiga að covera þessar þrjár lykilstöður er snúa að varnarleiknum. Skrtel, Lovren og Gerrard eru bara óhagganlegir. Það eina sem haggar þeim eru sóknarmenn andstæðinganna, því þeir virðast alls ekki geta orðið í vegi fyrir þeim. Ég er ekkert endilega að segja að það eigi að droppa Gerrard á bekkinn, nei, ég tel hann hafa alveg helling uppá að bjóða. Ég vil sjá hann framar á vellinum. Nú er maður farinn að hljóma eins og illa rispuð plata. Ég skil heldur ekki af hverju Kolo Toure hélt ekki sæti sínu eftir Real Madrid leikinn um daginn. Nú veit ég ekki ástandið á Sakho, en mikið væri ég til í að sjá Kolo og Sakho í miðvarðarstöðunum, með Lucas sem sópara þar fyrir framan. Held þó að hann hafi ekki ferðast með liðinu og sé líklegur í næsta leik í deild. En við þurfum að hrista upp í þessu og fá inn hungraða menn. Rífa sig í gang.

Ég hef lítið spáð í þessu Ludogorets liði. Ágætis lið og allt það og hafa verið að sýna fína takta í nokkrum sinna leikja í þessari deild. Stóra málið er engu að síður okkar menn, erfiðustu andstæðingar þeirra eru þeir sjálfir og það vita allir sem eitthvað hafa séð til liðsins. Það er ennþá stór möguleiki á að komast áfram í 16 liða úrslit þessarar keppni og þá verða menn að nýta tækifærið í Sofia. Ef einhver hefði sagt það fyrir nokkrum mánuðum að til að komast í 16 liða úrslit í CL þá þyrftu okkar menn að vinna einn útileik við Lodogorets í Búlgaríu og svo heimaleik gegn Basel á Anfield, þá held ég að menn hefðu verið bara nokkuð til í það. Einhverji vilja halda því fram að Brendan Rodgers kunni einfaldlega ekki á þessa keppni, við þá vil ég segja eitt. Þetta er FÓTBOLTI. Er enska deildin öðruvísi en Meistaradeildin? Uhh, já. Er Brendan með mikla reynslu úr Meistaradeildinni? Nei, ekki mikla. Er búlgarska deildin öðruvísi en Meistaradeildin? Er sú svissneska öðruvísi? Er Paulo Sousa þrautreyndur þjálfari í Meistaradeildinni? Mér finnst þetta allt frekar slakar afsakanir og því sé ég þetta bara sem hefðbundna leiki sem eru alveg jafn vinnanlegir og aðrir, meira að segja aðeins meira vinnanlegir en aðrir.

Hvað um það. Eins og sést þá er þetta ekki hefðbundin upphitun. Ég bara varð að létta þessu af mér og þið sem ennþá eruð að lesa, þið eigið heiður skilinn. Best að fara að spá í liðið sjálft. Jon Flanagan, Daniel Sturridge, Suso, Sakho og Mario Balotelli eru allir fjarri góðu gamni og ferðuðust ekki með liðinu til Búlgaríu. Enrique og Henderson eru aftur heilir heilsu og eru klárir í slaginn. Ég ætla að skipta þessu í tvennt, annars vegar ætla ég að stilla upp liðinu eins og ég vil sjá það og hins vegar eins og ég held að Brendan muni stilla því upp.

Mitt lið:

Mignolet

Manquillo – Kolo – Lovren – Moreno

Lucas

Henderson – Lallana – Gerrard

Borini – Lambert

Já, ég er að vonast eftir tígulmiðju með Lallana fremstan og Borini sem hlaupatík frammi með Lambert. Stóra málið í mínum huga er að koma Stevie í meiri sóknarstöðu og fá Lucas til að verja vörnina. Því miður þurfti ég að velja á milli Lovren og Skrtel, því helst hefði ég viljað henda þeim báðum út, en af tveim slæmum, þá var Skrtel svo hörmulegur í síðasta leik að ég vil heldur halda Lovren inni og láta Kolo spila réttum megin í vörninni.

Spáin mín:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Lovren – Moreno

Henderson – Gerrard – Can

Coutinho – Lambert – Sterling

Sem sagt spái ég því að Moreno komi inn fyrir Manquillo og að Glen færist yfir hægra megin og að svo komi þeir Henderson og Can inn fyrir Allen og Lallana á miðjuna. Gott og vel, bæði þessi lið eiga að vera með gæðin til að klára þennan leik. En við vitum ansi hressilega af því að engir leikir vinnast á pappírum og stóra spurningin verður sú hvernig menn mæta til leiks, með hvaða hugarfari. Nú er bakið komið upp við vegg, menn þurfa nauðsynlega úrslit og ég er á því að menn bregðist rétt við þeim aðstæðum og sparki sér í gang. Ég ætla að spá okkur 1-3 útisigri og þarna stígum við eitt skref í áttina að því að komast upp úr þessum riðli. Bjartsýnn? Já. Óraunhæfur? Nei. Klár fyrir framan skjáinn á morgun? HELL YEAHHH.

Var Damien Comolli rekinn of snemma?

Innkaupastefna Liverpool undir stjórn FSG er orðin nokkuð skýr enda þeir búnir að eiga félagið í rúmlega fjögur ár. Þeir halda því ennþá fram að Liverpool geti keppt við hvern sem er þegar kemur að kaupverði og launum sé réttur leikmaður í boði en segja á sama tíma að stefna Liverpool sé að vera snjallari en andstæðingurinn og kaupa óslípaða demanta áður en þeir springa út. Þetta er reyndar stefna flest allra toppliða Evrópu nú þegar, ríku liðin kaupa þá bara og stjórna því svo hvert þeir eru lánaðir þar til þeir verða nógu góðir.

Liverpool gefur ungum leikmönnum samt séns og uppaldir leikmenn hafa í rúmlega áratug ekki átt eins mikinn séns á spilatíma hjá aðalliðinu en undir stjórn FSG og Brendan Rodgers. Þetta sáum við í fyrra og einnig á þessu tímabili. FSG hefur einnig sannað að þeir eru alveg tilbúnir að berjast við stóru liðin um unga og efnilega leikmenn og borga það sem þarf fyrir þá. Þeir landa eðlilega ekki alltaf þeim leikmönnum sem reynt er að fá og því síður eru öll þeirra leikmannakaup vel heppnuð en hvað þetta varðar skortir þá ekki kjark.

Ef við skoðum þá 25 leikmenn sem keyptir hafa verið undir stjórn Rodgers kemur í ljós að aðeins fjórir þeirra voru meira en 25 ára þegar þeir komu. Það eru Lallana og Lambert ásamt Iago Aspas og Kolo Toure. Þrír síðastnefndu voru aldrei hugsaðir sem annað en varaskeifur. Ef við tökum lánsmenn með þá bætist Aly Cissokho við. Þetta er svosem gott og blessað og ekki kvörtuðum við mikið í fyrravetur og ekki heldur í sumar þegar haldið var áfram á nánast sömu braut. Fyrir hjá félaginu voru menn á ágætum aldri.

Þegar nánast eingöngu er keypt inn leikmenn sem eiga það sameiginlegt að vera frekar óreyndir og eiga allir eftir að springa almennilega út á því plani sem Liverpool vill spila á verður að gera ráð fyrir því að þessi uppbygging eigi eftir að hitta á veggi. Það er allt að því gefið að það komi kaflar þar sem sýna þurfi meiri þolinmæði en kannski gengur og gerist. Liverpool er að ég held í miðjum svona kafla og þessi hugmyndafræði Liverpool sem gekk svo vel í fyrra hitti svo sannarlega á vegg núna.

Hvað er til ráða? Eftir gærdaginn er ég feginn að vera ekki í stjórn FSG því ég hef sjaldan séð mína menn svona lélega og andlausa. Þetta er reyndar sama sagan leik eftir leik og nánast sama lið leik eftir leik.

Er ráðið að reka stjórann strax og byrja upp á nýtt?
Er málið að halda áfram á sömu braut með nýjum stjóra sem á þá eftir að setja inn sínar áherslur og krefst síns 2-3 ára aðlögunartíma?
Er málið að breyta alveg um innkaupastefnu?

Erfitt að segja en enn sem komið er hef ég alls engan áhuga á að gefast upp á Brendan Rodgers og svei mér ef áhugi minn á fótbolta myndi ekki dvína verulega yrði það niðurstaðan núna.
Lesa meira

C.Palace 3 – Liverpool 1

Leikskýrslan sjálf verður stutt, ætla meira að velta fyrir mér stöðu liðsins og stjórans eftir síðustu vikur.

Landsleikjahléi lokið, það verður ekki næst fyrr en í mars…en sennilega höfum við ekki saknað þess mikið og byrjunin að því loknu vekur ekki gleði.

Tap á Selhurst Park og í fyrsta sinn í sögunni vinnur Warnock okkar lið. Afsakið meðan ég æli!!!

Uppstillingin var svona:

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Lovren – Johnson

Lallana – Gerrard – Allen

Coutinho – Lambert – Sterling

Bekkur: Jones, Toure, Moreno, Lucas, Can, Borini og Markovic.

Balotelli meiddur, Henderson veikur. 4-2-3-1 kerfið áfram. Meira síðar.

Gangur leiksins

Við fengum draumabyrjun, eftir 89 sekúndur setti Rickie Lambert boltann snyrtilega framhjá Julian Speroni eftir draumasendingu Lallana. Rickie var meira en glaður og við glöddumst með honum.

Crystal Palace urðu að fara úr skotgröfunum strax en við redduðum þeim út úr því. Joe Allen fékk skurð á hausinn og var útaf í 5 mínútur…á þeim tíma náðu Palace upp pressu. Allen kom inná í 2 mínútur, aftur byrjaði að blæða og enn var farið í að laga hann til. Við aftur færri á miðjunni sem varð til þess að Palace nýtti sér þetta hringl til að jafna leikinn, reyndar eftir sofandahátt hjá Skrtel en ég er orðlaus yfir slíkum byrjendamistökum hjá bekknum okkar. Við byrjuðum nákvæmlega eins og við vildum en ég fer bara ekki ofan af því að það var grín að taka ekki Joe Allen útaf í seinni aðgerðinni og kostaði okkur mikið.

Staðan 1-1 í hálfleik.

Við áttum alveg rispur í samleik í seinni hálfleik en á 78.mínútu stútaði Bolasie honum Lovren úti á kanti og lagði upp annað mark Palace fyrir Ledley nokkurn og þrem mínútum seinna ákvað Skrtel að gefa Palace skotséns með því að brjóta upp úr engu og það nýtti Jedinak sér. 3-1 tap staðreynd í afar döprum leik.

Lið dagsins

Mignolet verður ekki sakaður um neitt í dag, átti bara fínar vörslur og fór út í teiginn. Vandinn liggur í heildarvörn liðsins vissulega og ég hef áður nefnt bullið sem mér fannst að vera einum færri á meðan við vorum yfir. Það afsakar ekki frammistöður Skrtel og Lovren. Skrtel var einfaldlega úti á þekju í þessum leik, Lovren átti ágætan dag en svo var honum stútað í marki nr. 2. Johnson átti erfitt vinstra megin og Manquillo er duglegur en geldur sóknarlega sem best sást þegar hann sendi boltann í innkast í stað þess að skjóta á markið.

Miðjan okkar var döpur. Ég veit að það er sett á einhverja ákveðna en þessi útgáfa af miðju var lögð upp af Rodgers til að halda boltanum og gerði það…meira síðar.

Rickie Lambert gerði flott mark og leiddi línuna ágætlega, hann er minn maður leiksins.

Og hvað svo???

Lesa meira