Podcast – Sætt og sóðalegt í Sevilla

Hann var mikilvægur sólarhringurinn sem leið frá því flautað var af í Sevilla og þar til við hófum upptökur á podcast þætti vikunnar. Reiðin var runnin af mönnum, Maggi Þórarins átti afmæli og almenn léttleiki í mönnum. Helstu sökudólgarnir í Sevilla leiknum voru teknir fyrir, Southampton um helgina var einnig afgreiddur og spáð var í spilin fyrir stórleikinn um næstu helgi. Að auki var auðvitað mínútu þögn til heiðurs Tony Pulis sem er ekki stjóri í Úrvalsdeildinni í augnablikinu, við krefjumst þess að þið passið ykkur að njóta þess á meðan því varir.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Maggi Þórarins og Bjarki Már Elísson atvinnumaður í handbolta hjá Fuchse Berlin og toppmaður.

Twitter:
@einarmatt
@ssteinn
@bjarkiel4
@maggsbeardsley

MP3: Þáttur 171

Sevilla – Liverpool 3-3

Setjum inn leikskýrslu sem Eiríkur Már setti inn á facebook í gær úr því að kop.is er komin aftur í eðlilegt horf. Það verður svo podcast hjá okkur í kvöld.


Hvað er hægt að segja um svona leik? Leikur tveggja hálfleika þar sem okkar menn sýndu allar sínar bestu hliðar og skora 3 mörk en klúðra síðari hálfleik algjörlega og fá á sig 3 mörk.

Mörkin:
2′ Firmino 0-1
22′ Mané 0-2
30′ Firmino 0-3
45′ Banega 1-3
54′ Mercado 2-3
90+3′ Pizzaro 3-3

Leikurinn
Liverpool byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á annarri mínútu fengum við hornspyrnu sem Coutinho tók. Hann setti hann aðeins útí teiginn þar sem Wijnaldum flikkaði honum á óvaldaðan Firmino sem skoraði 0-1. Á 19. mínútu voru Henderson og Wijnaldum að dútla með knöttinn á miðjunni, tapa honum, Gomez selur sig dýrt og þeir fá dauðafæri sem Karius ver meistaralega. Strax á 20. mínútu fá þeir annað dauðafæri en klikka. Leikurinn var svo hraður þarna að það var erfitt að fylgjast almennilega með. á 21. Mínútu vann Henderson boltann á miðjunni, stakk honum innfyrir á Firmino sem komst í dauðafæri en markvörður þeirra Rico varði glæsilega í horn. Úr horninu skoruðu Liverpool nánast nákvæmlega eins mark, Coutinho með sendingu á sama stað og áður en nú var það Firmino sem flikkaði honum á óvaldaðan Mané sem henti sér fram og sneiddi boltann glæsilega með höfði sínu í fjærhornið. Á 30. mínútu fékk Mané langa sendingu uppí vinstra hornið, setti í fjórða gír og var kominn einn gegn Rico sem aftur varði vel en boltinn hrökk beint fyrir framan Firmino sem átti ekki í vandræðum með að leggja hann í autt markið 0-3!! Fyrri hálfleikur róaðist mikið eftir þetta utan dauðafæris hjá Salah á 40. mínútu en aftur varði Rico glæsilega.

Síðari hálfleikur var algjör andstæða og verulega svekkjandi. Moreno sem hefur verið mjög góður átti verstu 15 mínútur sem ég hef séð í síðari hálfleik. Á 51. Mínútu braut hann klaufalega af sér við vítateigshornið og gaf aukaspyrnu, dekkar illa Ben Yedder í spyrnunni sem skallaði vel framhjá Karius 1-3. á 59. Mínútu átti Coutinho skrýtna sendingu aftur á Moreno sem náði ekki að hemja boltann og missti hann frá sér inní teig og brýtur af sér. Virkilega soft víti en þetta var snerting og Moreno gat engum kennt um nema sjálfum sér. Ben Yedder fór á punktinn 2-3. á 63. Mínútu kom tvöföld skipting, Can og Milner inn fyrir Moreno og Coutinho og leikurinn róaðist töluvert og betra jafnvægi komst á leik Liverpool. Salah átti fyrsta færi Liverpool í síðari hálfleik á 71. mínútu, á 78. Mín áttum við hratt upphlaup sem rann útí sandinn og Mané fékk dauðafæri á 81. mínútu en skaut framhjá.

Fjórum mínútum var bætt við leikinn og að sjálfssögðu jöfnuðu Sevilla á 93. mínútu og það eftir hornspyrnu. Klavan skallaði boltann útí teiginn, beint í lappirnar á óvölduðum Pizzaro sem þakkaði fyrir sig 3-3.

Bestu leikmenn Liverpool:
Firmino og Mané voru frábærir í fyrri hálfleik og Karius varði nokkrum sinnum mjög vel, síðari hálfleikur var svo bara hreinlega dapur en ég verð að gefa manninum með 2 mörkin og eina stoðsendingu þetta. Firmino.

Slæmur dagur: Moreno var virkilega dapur fyrsta korterið í síðari hálfleik, Gomez seldi sig nokkrum sinnum miðjan var ekki að tengja í síðari hálfleik. Vörnin og föstu leikatriðin eru svo að sjálfssögðu framhaldssagan endalausa.

Tölfræðin: Klopp hafði fyrir þennan leik aldrei unnið leik á Spáni og það breyttist ekki. Firmino er kominn með 5 mörk í CL í jafnmörgum leikjum. Við sitjum enn í efsta sæti riðilsins með 9 stig og dugar jafntefli á Anfield gegn Sparta Moscow í síðasta leik þann 6. des. Það þýðir enga værukærð þar því enn er möguleiki á að klúðra þessu niður.

Næsta verkefni: Chelsea á Anfield næsta laugardag í gríðarlega mikilvægum leik. Vonandi koma menn vel undan þessum leik og gíra sig upp í það verkefni.
YNWA!!!

Hvað vantar uppá?

Það er ágætt að nota enn eitt landsleikjahléið í það að rýna aðeins í það hvernig leikmannahópur okkar er samsettur og hvernig ég myndi vilja sjá hann bættann til skemmri tíma og kannski ekki síður til lengri tíma litið (skemmri tími = janúarglugginn, lengri tími = sumarglugginn og lengra). Það er ansi hreint mikið meira af jákvæðum hlutum en neikvæðum þegar horft er á leikmannahópinn. Það eru mjög mörg lið sem líta öfundaraugum á Liverpool þegar kemur að sóknarmöguleikum, enda fá lið sem standast okkur snúning þegar menn eru í sínum gír fram á við og allir heilir. Það eru aftur á móti færri lið sem bíða í röðum eftir að hirða upp varnarmennina okkar, sér í lagi þegar horft er til miðvarðanna. Ég ætla að byrja á að leggja mat mitt á núverandi hóp og ætla ég ekki að taka þetta stöðu fyrir stöðu, fyrst og fremst vegna þess hve mikið flæðið er á milli leikstaða framarlega á vellinum, heldur grúppa þetta aðeins meira niðu.

MARKVERÐIR

Liverpool hefur á að skipa þremur ágætum markvörðum og væntanlega er talsverð samkeppni um þessa stöðu. Það er þó enginn þeirra virkilega heimsklassa, ég held að allir séu sammála um það. Til skemmri tíma, þá er þetta ekki eitthvað sem telst vera algjört forgangsatriði. Eins bjánalega og það hljómaði hjá Klopp í sumar þegar hann sagðist ekki sjá marga betri varnarmenn þarna úti en hann hefði í dag, þá á það ágætlega við um markvarðarstöðuna. Hversu margir markverðir teljast vera í heimsklassa í dag? Þeir eru ekki margir. Hversu margir af þessum sem eru í heimsklassa, eru hjá öðrum liðum en þeim allra stærstu í heiminum? Ennþá færri. Eru Manuel Neuer, Thibaut Courtois, Hugo Lloris eða David De Gea að fara að skipta um lið á næstunni og það til Liverpool? Held að það sé gjörsamlega útilokað. Sá eini sem mér dettur til hugar í þessu sambandi er Jan Oblak hjá A.Madrid, og sá held ég að myndi kosta peninginn, sér í lagi þar sem að lið eins og Barcelona, Real Madrid og PSG eru ekkert að drukkna úr gæðum í markinu hjá sér.

Hvað þá? Næsti Neuer eða eitthvað álíka? Það er bara hörku gamble og til að mynda þá var Karius mjög mikils metinn í Þýskalandi þegar Klopp nældi í hann. Það er ekkert lokum fyrir það skotið að hann geti orðið sá markvörður sem menn bjuggust við. Það vill nefninlega oft verða þannig með markverði að það þarf lítið að gerast til að þeir verði í topp klassa, í rauninni eins og í hina áttina líka, það þarf oft ekkert mikið til að þeir brotlendi.

Karius og Ward eru báðir kornungir af markvörðum að vera og ég er nokkuð viss um að Klopp og hans menn eru ekkert búnir að útiloka það að annar þeirra geti orðið aðal númerið innan skamms. Þar til það gerist, þá er Mignolet líka á staðnum, ekki í heimsklassa, en mjög líklegast að dóla þar fyrir neðan. Það verður fróðlegt að sjá hvað verður með þessa stöðu til framtíðar, því í akademíunni er svo eitt mesta markmannsefni sem þar hefur sést, Pólverjinn Kamil Grabara.

BAKVERÐIR

Það má alveg með sanni segja að það sé hægt að bæta allar stöður, hjá nánast öllum liðum í heiminum (örfáar undantekningar) og það á svo sannarlega vel við hjá Liverpool. Ég er nú engu að síður á því að gæðin í bakvarðarstöðum okkar séu bara nokkuð fín, sér í lagi þegar horft er til þess hvernig bakverðir nútímans eru hugsaðir. Alberto Moreno hefur í gegnum tíðina sýnt að hann sé efnilegur leikmaður í þessa stöðu, en hefur verið skelfilega mistækur. Hann hefur mjög margt til brunns að bera, mikinn hraða, góðan vinstri fót og óhemju dugnað. Ekki skemmir hugarfarið fyrir, en hann er alltaf tilbúinn að fórna sér fyrir málsstaðin, það skal ekki vanmetið. Hinum megin höfum við svo Clyne, sem er reyndar meiddur núna. Ég fer ekkert ofan af því að Clyne í góðu formi er einn albesti bakvörður deildarinnar. Hann er öflugur varnarlega og er með góðan hraða og hefur sýnt flotta hluti fram á við líka. Andy Robertson veitir Moreno góða keppni um stöðuna vinstra megin og svo er einn al efnilegasti leikmaður okkar, frábært backup og líklegast framtíðarmaður hægra megin, Alexander-Arnold. Í fjarveru Clyne hefur svo Gomez verið að standa sig vel hægra megin. Jon Flanagan er svo bakvörður sem getur spilað báðum megin, en ég held að dagar hans hjá Liverpool verði senn taldir, því miður fyrir hann.

Ég er sem sagt á því að bæting á þessum stöðum sé ekkert sem bráðliggi neitt á. Eins og með allar aðrar stöður, þá vill maður að sjálfsögðu ennþá meiri gæði, séu þau í boði á einhverjum tímapunkti, en langt því frá að vera forgangs mál, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Þessir gaurar okkar eru allir á afar fínum aldri.

MIÐVERÐIR

Já, hvar skal byrja? Jú, best að byrja á því að segja að ég hef talsvert álit á Joel Matip og hef trú á því að hann sé flottur lykill inn í næstu árin þegar kemur að þessari stöðu. En þar með eru jákvæðu hlutirnir nánast upptaldir. Jú, Joe Gomez er bráðefnilegur, engin spurning um það. En líklegast kemur þessi miðvarðarkrísa of fljótt fyrir hann og hann ætti þessa dagana og mánuðina að vera fyrst og fremst að setja pressu á Matip fyrir þessa stöðu hægra megin í vörninni. Hinum megin erum við svo í ruglinu, gjörsamlega í ruglinu. Síðasta vor þá var ég með þá flugu í kollinum að við þyrftum að fá einn góðan miðvörð vinstra megin í vörnina (lesist Virgil van Dijk) og að þá myndi Dejan Lovren detta niður í það að verða þriðji kostur. Ég er farinn að efast all verulega ym það að það sé nóg. Ragnar Klavan er auðvitað aldrei nálægt því í þessari veröld að vera nægilega góður fyrir Liverpool og því ætla ég ekki að eyða frekari orðum í hann. Það er bara orðið svo svakalegt forgangsmál að fá annan miðvörð að það hreinlega VERÐUR að gerast í janúar. Helst vildi ég klára kaupin á honum Virgil, en ef það er ekki í boði, þá einhvern annan sem væri þá hugsaður líka til lengri tíma.

Sem sagt, kaupa öflugan í janúar og skoða svo annann í stað Dejan Lovren í næsta sumarglugga. Þar með værum við komnir með ágætis gæði út tímabilið og svo klárað að stoppa í götin næsta sumar. Losa svo hann Ragga frænda ykkar úr prísundinni og leyfa honum að komast í bolta þar sem hann spilar við menn á svipuðum stað í fótboltalífinu.

MIÐJUMENN

Það má alveg með sanni segja að í þessum stöðum sé slatti af gæðum og mikið magn. Jordan Henderson, Emre Can, Gini Wijnaldum, Coutinho, Adam Lallana, James Milner, Marko Grujic og jafnvel Ovie Ejaria. Oxlade-Chamberlain er svo enn einn kosturinn á miðjunni, þó svo að maður sjái hann meira fyrir sér framar á vellinum.

Já, slatti af mönnum og 3 stöður í boði í hverjum leik miðað við kerfið núna, stundum jafnvel bara 2. Við vitum líka að Naby Keita kemur í síðasta lagi næsta sumar og er það nú einn spennandi kostur. Ég er ekki viss um hvort menn geri sér almennt grein fyrir því hversu stór kaup það eru að næla í þennan gaur. Þetta eru algjör RISA kaup.

Ég er reyndar nokkuð viss um að Emre Can hverfi á braut í sumar og margir hafa sett spurningamerkið við Coutinho, þ.e. að menn hljóti að láta undan fyrir rest og selji hann. Ég er sjálfur reyndar ekkert sannfærður um það. Næsta sumar á hann ennþá 4 ár eftir af samningi sínum og það hefur engin klásúla bæst við frá því í sumar. Hann verður því á nákvæmlega þeim stað og við viljum hafa hann á. Ef liðið fær eitthvað stjarnfræðilegt tilboð snemma næsta sumar, þá getur vel verið að menn meti það svo að ekki sé forsvaranlegt að neita slíku boði. Ef það gerist, þá segir það sig sjálft, það verður keyptur alvöru kaggi í staðinn.

Þannig að það er fullt af breidd þarna og það þarf lítið að spá í breiddinn sem slíkri, og til skemmri tíma þá er þetta alveg í góðu lagi. Þetta snýst fyrst og síðast um hvort hægt sér að auka gæðin. Ef Can myndi skrifa undir samning, þá værum við í þrusu málum og þá gæti ég séð okkur losa einn út, hvort sem það væri Milner eða Grujic.

SÓKNARMENN

Já, ég set fremstu menn alla saman í einn graut, alveg sama hvort menn séu flokkaðir sem framherjar eða kantmenn. Það er líka sjaldan ljóst þegar leikir hefjast, hvar hver leikmaður á að spila. Meira að segja eru menn ekki alltaf klárir á því (þeir sem eru að horfa) eftir að þeir byrja. Roberto Firmino, Mo Salah, Sadio Mané, Daniel Sturridge, Dominic Solanke, Alex Oxlade-Chamberlain og Danny Ings. Þessir þrír fyrstu fá mann hreinlega til að slefa aðeins, svo góðir eru þeir. Það er heldur ekki ónýtt að eiga hina 4 til taks eins og staðan er í dag. Þar fyrir utan eru ungir strákar sem eru að taka miklum framförum, sumir á láni og aðrir á svæðinu. Ben Woodburn, Harry Wilson, Ryan Kent, Sheyi Ojo svo einhverjir séu nefndir. Svo er Divock Origi að standa sig vel í Þýskalandi á láni og Lazar Markovic er…já, eða bara alls ekki. Svo eru strákar eins og Rhian Brewster sem nýlega sló í gegn á HM U-19 að mig minnir og varð þar markahæstur í liði Heimsmeistaranna.

Þarna er um að ræða 3-4 stöður og ekki neitt sem ég sé að þurfi að bregðast við strax í janúar. Menn að koma tilbaka úr meiðslum og slíku og fyrstu 3 kostirnir algjörlega og fullkomlega í heimsklassa og 2-3 þar á eftir í mjög fínum klassa. En hvað svo? Hvernig mun þetta þróast með Sturridge til að myna? Ef horft er til lengri tíma, þá megum við alveg við því að bæta við vopnum í framlínuna. Líklegast (því miður) er framtíð Danny Ings hjá Liverpool lítil, hann er einfaldlega búinn að missa of mikið úr síðustu 2 tímabilin, til þess að geta komið tilbaka hjá okkur. Hann á þó algjörlega möguleika á að geta orðið prýðilegur Úrvalsdeilarleikmaður, en ég tel að hann verði ekki lengi hjá okkur. Flottur gaur og greinilega sterkur andlega.

Dominic Solanke er ákaflega efnilegt eintak, en ég held að það sé alveg hægt að bæta við verulegum gæðum í sóknina og samt haldið áfram að byggja hann upp og þróa út í það sem hann gefur tilefni til að verða. Ég sé Daniel Sturridge ekki fara á næstunni, hann veit sjálfur að þetta er hans síðasti séns hjá stórum klúbbi og ef einhver hefur trú á hans hæfileikum, þá er það hann sjálfur. Sem sagt, einn alvöru sóknarleikmaður næsta sumar takk.

SAMANTEKT

Já, ég hef séð stuðningsmenn félagsins fara hamförum á netinu yfir því að Liverpool sé 5-6 leikmönnum frá því að keppa um titla. Það er kannski hægt að segja þetta í ár, þar sem Man.City hafa sett viðmið sem erfitt er að ná. Ég held að menn séu aðeins á villigötum ef menn ætla að miða við þá akkúrat núna, því ég sé bara varla það lið í veröldinni sem stenst þeim snúning eins og staðan er í dag. En erum við 5-6 leikmönnum frá því að keppa þarna á toppnum? Þarna fyrir aftan City og vonandi að nálgast þá meira og keppa í nánustu framtíð? Nei, held ekki. Eins og staðan er í dag, þá er Liverpool heilum 4 stigum frá öðru sæti og algjörir lykilmenn búnir að vera fjarverandi alltof stóran hluta af tímabilinu. Ég er á því að einn alvöru miðvörður í janúar muni fleyta okkur upp í baráttuna um 2-4 sætið og alveg jafnfætis hinum liðunum. Skammtímaplanið ætti að skila okkur þangað.

Langtímaplanið væri svo að bæta við miðverði, miðjumanni (Keita) og alvöru sóknarmanni inn í myndina til að taka verulega stórt skref í þá átt sem við ætlum. Fari Coutinho, þá að sjálfsögðu bætist annar slíkur kaggi í flóruna.

Aðal málið í mínum huga er að með því að bæta alvöru miðverði við í janúar, þá verður næsta sumar þannig að það er virkilega í fyrsta skipti í afar langan tíma hægt að fara að horfa til fárra mjög svo góðra leikmanna. Þá kemst það á radarinn að bæta við leikmönnum sem eru að bæta byrjunarliðið og þar með styrk liðsins í heild alveg gríðarlega.

Já, ég er nokkuð bjartsýnn bara, er það glæpur?

Podcast – Clean sheet Klavan

Rússíbaninn sem það er að fylgjast með Liverpool er á uppleið eftir þessa viku og menn því léttir á því í þætti vikunnar. Staðreyndir eins og að Klavan sé með besta sigurhlutfall allra í hópnum fengu að fljúga og svei mér ef við náðum ekki að tala okkur inn á það að Moyes væri fín ráðning fyrir West Ham á meðan Big Sam var hannaður fyrir Everton.
– Hversu góður er Salah?
– Moreno í landsliðið!
– Milner sem vítaskytta?
– Captain Mignolet!!!
Þetta og margt fleira kom við sögu í þætti vikunnar.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Magnús Gunnlaugur sem lesendur Kop.is þekkja sem Peter Beardsley, einn af meðlimum Kop.is fjölskyldunnar.

MP3: Þáttur 169

„Forever blowing bubbles…“

West Ham 1 – 4 Liverpool

Mörkin

0-1 Salah (21. mínúta)
0-2 Matip (24. mínúta)
1-2 Lanzini (55. mínúta)
1-3 Oxlade-Chamberlain (56. mínúta)
1-4 Salah (75. mínúta)

Leikurinn

Liverpool mættu á London Stadium og unnu sannfærandi 1-4 sigur. Ég verð að byrja á því að segja að ég vorkenni West Ham örlítið. Bilic með fallöxina hangandi yfir sér, liðið verður að leika vel til að hann haldi starfinu, eru með megnið af varnarlínunni á sjúkralistanum, og svo spila þeir í raun ágætlega fyrstu mínúturnar en eru að mörgu leyti óheppnir. Dómgæslan var þeim ekki alltaf í vil, t.d. þegar Matip felldi Chicarito rétt fyrir utan teig en ekkert var dæmt. Eins fengu þeir færi sem fór í stöngina og út.

Nú og svo til að bæta gráu ofan á svart þá voru þeir að mæta Liverpool liði sem virðist vera að finna fjölina sína, og refsaði fyrir einföld mistök eftir hornspyrnu West Ham á 21. mínútu. Í raun minnti þetta mark um margt á markið sem Salah skoraði á móti Arsenal fyrr í haust. Þarna kom í ljós að þrátt fyrir að vera nýstiginn upp úr meiðslum hefur Mané ekki misst neinn hraða. Þeir tveir kláruðu þetta mjög vel. Og það voru ekki liðnar 3 mínútur þegar Matip hafði bætt við öðru marki, aftur eftir fast leikatriði en núna eftir horn okkar manna sem Salah tók.

Í seinni hálfleik fengu Hamrarnir smá vonarglætu, þegar Lanzini skoraði eftir klaufalegan varnarleik hjá Gomez. En Adam var ekki lengi í paradís því okkar menn brunuðu í sókn, Firmino fann Oxlade-Chamberlain sem átti gott skot, Hart varði en boltinn barst aftur til AOC sem gerði engin mistök. Þetta var í raun gríðarlega mikilvægt mark, því það drap niður alla von hjá andstæðingunum.

Þegar 75 mínútur voru liðnar var maður farinn að óskapast út í Klopp fyrir að vera ekki löngu búinn að taka Mané út af, manninn sem átti bara að geta spilað í 25 mínútur. En sem betur fer beið Klopp með það, því það síðasta sem Mané gerði var að eiga gott hlaup upp völlinn, lét t.d. ekki stoppa sig að vera felldur heldur stóð upp og hélt áfram, og gaf svo á Salah sem gerði engin mistök og tryggði sigurinn endanlega.

Síðustu mínúturnar voru svo bara einstefna, West Ham voru búnir að gefast upp, en okkar menn bættu ekki við fleiri mörkum þrátt fyrir fjölda tækifæra.

Bestu menn liðsins

Hér er erfitt að taka einhvern út. Liðið lék einfaldlega mjög vel sem lið, pressaði vel og þetta var klárlega sigur liðsheildarinnar. Salah á nú líklega helst skilið að fá nafnbótina maður leiksins, enda skoraði hann tvö mörk. Mané gæti líka alveg fengið titilinn, enda átti hann báðar stoðsendingarnar á Salah. Oxlade-Chamberlain kemur líka vel til greina, markið sem hann skoraði var e.t.v. mikilvægasta markið í leiknum, enda vitum við hvernig stressið nær stundum tökum á okkar mönnum þegar andstæðingarnir ná að minnka muninn. Hann virtist líka njóta sín vel í sínu hlutverki á miðjunni, ógnaði vel fram á við, og það er vissulega jákvætt að fá ógn frá miðjunni. Kannski er þarna að koma í ljós hvaða leikmann Klopp var raunverulega að kaupa, en ég er engu að síður á því að hann eigi að fá allt tímabilið til að sanna sig.

Þá var Milner kraftmikill þegar hann kom inn á, Can átti góða spretti, og vörnin var að standa sig vel allan leikinn. Winjaldum var kannski ekki sá mest áberandi, en er þessi vinnuhestur sem alltaf skilar sínu.

Vondur dagur

Erfitt að taka einhvern fyrir hér. Jú, Gomez hefði líklega átt að gera betur í markinu. Mignolet fór svo í eina skógarferð undir lok fyrri hálfleiks sem hefði vel getað endað með ósköpum. Annars reyndi ekki svo mjög á hann, og reyndar var hann mjög duglegur að fara út úr teignum. Þá fannst mér að Firmino hefði klárlega átt að setja eitt mark þegar hann komst einn í gegn. En svo má ekki heldur gleyma því að hann átti líka t.d. stoðsendinguna á Ox í þriðja markinu, og var sípressandi allan leikinn. Semsagt, ekki fullkominn leikur hjá þessum, en alls ekki slæmur hjá neinum.

Umræðan eftir leik

Eigum við eitthvað að ræða kaupin á Salah? Hann hefur nú skorað 7 mörk í deildinni, sem er jafn mikið og Agüero, Lukaku og Sterling hafa skorað, reyndar er það bara Harry Kane sem hefur skorað meira, eða 8 mörk. Samtals er Salah búinn að skora 15 mörk á tímabilinu í öllum keppnum. Að vera með Salah, Mané og Firmino er auðvitað bara pjúra lúxus, og þó einn þeirra finni ekki fjölina sína þá gerir það ekki svo mikið til á meðan hinir gera það. Það er akkúrat það sem við erum að upplifa núna þegar Firmino er ekki að skora mjög mikið. Liðið er núna búið að vinna 3 síðustu leiki með 3 mörkum, þrátt fyrir að hafa spilað heldur meira varnarsinnað, a.m.k. hvað bakverðina varðar. Það má að vissu leyti færa rök fyrir því að Moreno fái að fara fram á meðan Gomez er meira til baka, sem þýðir að kannski er liðið að spila oft með 3 í öftustu línu, samt ekki eins og Chelsea voru að gera í fyrra.

Liðið er núna í 4. – 7. sæti, jafnt Chelsea, Arsenal og Burnley. Þau tvö fyrsttöldu eiga reyndar leik á morgun, en það vill til að þetta eru stórleikir: Chelsea mætir United á Stamford Bridge, og Arsenal heimsækir City á Etihad. Það munu því a.m.k. tvö af þessum liðum tapa stigum á morgun.

Nú tekur auðvitað við landsleikjahlé, megum við plís biðja um að enginn meiðist í hléinu? Næsti leikur er svo ekki fyrr en 18. nóvember, þegar Southampton mæta á Anfield. Það væri rosalega gott að vera kominn með Lallana, Coutinho og Henderson í hópinn aftur þá, en liðið sýndi engu að síður í kvöld að þó þessara leikmanna njóti ekki við, þá er liðið vel fært um að vinna leiki án þeirra. Það er þó klárt mál að við viljum frekar hafa þá með frekar en ekki. Southampton voru óþægur ljár í þúfu Klopp og félaga á síðasta tímabili, og það verður gaman að sjá hvernig uppleggið verður á móti van Dijk og félögum eftir hálfan mánuð.