Latest stories

 • Liverpool 5, Watford 0 (skýrsla uppfærð)

  Helgin byrjaði bara ágætlega. Liverpool fór til Lundúna og spiluðu við Watford. Andstæðingarnir voru með nýjan mann í brúnni en það hjálpaði þeim bara nákvæmlega ekki neitt, því þetta var ein mesta einstefna sem maður man eftir. Yndislegt hreinlega

  Fyrri hálfleikur

  Okkar menn byrjuðu af krafti og það var ekki mínúta liðin þegar Salah setti boltann í slánna. Mínútu seinna vann Liverpool hornspyrnu þegar Van Dijk sendi sextíu metra pílu á Salah og Egyptinn átti skot sem var varið í horn. Ekkert kom úr horninu, né því seinna sem okkar menn unnu skömmu seinna.

  Í upphafi leiksins var Salah nánast að níðast á Watford og Liverpool lásu það vel. Aftur og aftur fór boltinn á hægri vænginn og greyið Watford mennirnir réðu ekkert við kónginn okkar. Á áttundu mínútu skallaði Matip boltann niður á Salah sem tók snjalla gabbhreyfinu og sendi frábæra stoðsendingu á vin sinn Sadio Mane, sem þakkaði pent fyrir sig með því skora í fyrsta! Þriðju Afríku maðurinn í hundrað mörk og múrinn brotinn! Skömmu seinna kom upp biluð tölfræði: Liverpool búnir að vera 84% með boltann fyrstu tíu!

  Rétt áður en 20 kom upp á klukkuna komust Watford yfir miðju í næstum þrjár sendingar. Upphaf þessa leiks voru bara þannig að það var fréttnæmt. Salah hafði haldið uppteknum hætti og kom sér þrisvar í góð færi en Ben Foster gerði mjög vel tvisvar og í þriðja skiptið var það varnarmaður sem skemmdi fyrir okkur. Það var líka augljóst að Watford voru hreinlega dauðhræddir. Kannski besta dæmið um það var þegar Bobby fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Watford. Hann byrjaði að dansa með knöttinn og andstæðinarnir hrukku í kút áður en þeir þorðu að ráðast gegn brassanum.

  Þegar tíu mínútur voru til hálfleiks kom svo annað markið, sem var búið að liggja í loftinu síðan það fyrsta var skorað. Liverpool unnu boltann á miðjunni og komust í hálfgerða skyndisókn, fjórir gegn fjórum. Mane setti boltann í gegn á aldursforsetann James Milner, sem hefði verið í fullum rétti til að taka skot úr þröngu færi. En kallinn setti frekar boltann á Bobby Firmino sem fær ekki mikið auðveldara færi á ferlinum og hann skoraði! Staðann orðin 2-0 og okkar menn komnir með pálmana í hendurnar. Keita gerði svo heiðarlega tilraun til að auka forystuna en boltinn fór af varnarmanni í slánna í horn.

  Staðan í hálfleik: 2-0, sjö skot á markið á móti engu, sjö hornspyrnur gegn engri. Kómískir yfirburðir Liverpool.

   

  Seinni hálfleikur

  Sá seinni byrjaði eins og sá fyrri: Með Liverpool marki. Okkar menn komust í skyndsókn og Andy Robertson sendi boltann í átt að Mohammed Salah en Watford komust inn í hana, boltinn skoppaði af hendi Ben Foster og út… þar sem Roberto Firmino var mættur eins og gammur til að potta boltanum í netið!

  Þá steig ég upp til að sækja kaffibollan, væntanlega stærstu mistök mín þessa helgi. Þann tíma sem ég nýtti í að ná í bolla, nýtti besti leikmaður heims í að skora sitt hundraðasta og fjórða mark í ensku úrvalsdeildinni. Muniði eftir markinu hans gegn City fyrir landsleikjahléið? Þetta var flottara! Hann lék léttan dans í kringum varnarmenn Watford, sendi tvo þeirra á rassinn og skoraði! Gjörsamlega sturlað mark í alla staði og vel þess virði að jafna metið hans Drogba.

  Í örfáar mínútur eftir markið slakaði Liverpool liðið aðeins á og Watford náðu að skjóta á markið! Kelleher greip boltann örruglega og um allan heim mulduruðu púllarar „Æ já, Alisson er ekki með í dag.“

  Klopp byrjaði að gíra liðið niður fyrir Madridar leikinn með því að taka bakverðina báða útaf. Ekki slæmt að geta sett Tsimikas og Chamberlain inn á til að hvíla menn.

  Í uppbótartíma kom svo kirsuberið á kökuna. Eftir þónokkra pressu frá Watford komust okkar menn í skyndisókn og Neco Williams mynti hressilega á sig með því að gefa gullna stoðsendingu á Firmino, sem kláraði þrennuna! Maður veit að leikurinn var einstefna þegar Liverpool skorar og myndavélarnar sína stuðningsmenn hins liðsins hlæja að því Jon Moss flautaði til leiksloka og Liverpool komnir á toppinn, í það minnsta þangað til seinna í dag.

   

  Twitter

   

   

  Vondur dagur

  Það á engin púllari skilið þessa nafnbót.

  Maður leiksins

  Ég er bara með hreinan valkvíða. Mane og Salah skiluðu frábærri vakt í dag, Keita var öflugu, Hendo og Milner unnu frábært verk, Matip og Van Dijk voru örrugir í sínum hlutverkum, bakverðirnir skiluðu sínu og Kellher náði að sofna ekki þannig að hann varði vel í lokin. En Firmino setti þrjú og þá fá menn þennan titil, svo einfalt er það!

  Punktar eftir leik

  • Ranieri er með ærið verk fyrir höndum. Svona slátranir gerast ekki nema annað liðið sé geggjað og hitt hörmulegt.
  • Það er augljóst að okkar menn elska að halda hreinu. Miðað við að staðan var 4-0 var magnað að sjá þá berjast í teignum í lokin.
  • Rangstöðugildran virkaði fullkomnlega í dag. Watford náðu nokkrum skyndisóknum en í hvert einasta skipti fór flaggið á loft.
  • Gefið Salah nýjan samning. Núna!

  Næst á dagskrá

  Meistaradeildin á þriðjudaginn. Við eigum ágætra harma að hefna gegn Athletico Madrid, þó við eigum líka fínar minningar af vellinum frá því fyrir nokkrum árum…

  [...]
 • Byrjunarliðið klár: Milner, Keita og Hendo á miðjunni

  Klukkutími í leik, nægur tími til að hella upp á rótarsterkt kaffi og henda í egg og beikon áður en þessir ellefu hefja leik gegn Watford:

  Ranieri hefur einnig valið sína ellefu, en ef internetinu í gær er trúandi þá er þetta sjöttu stjóri Watford sem Klopp mætir, í jafn mörgum leikjum:

   

  Hvernig lýst ykkur á þetta? Hver er spáin?

   

   

   

   

   

  [...]
 • Upphitun: Liverpool heimsækir Watford

  Á laugardaginn kl 11.30 fáum við loks deildina aftur og fylgjumst með Liverpool heimsækja Watford á Vicarage Road. Það væri hægt að fara í gegnum fornsögu og kúltúr Watford liðsins hér en því hefur verið gerð verulega góð skil í eldri upphitunum (sjá t.d. hér). En í stuttu máli er það sem skiptir okkur máli í sögulegu samhengi að við fengum John Barnes þaðan. Það skiptir líka máli að Heiðar Helguson var mikilvægur hlekkur í liðinu um árabil, og skoraði 55 mörk fyrir þá í 174 leikjum á árinum 1999-2005. Og að sjálfsögðu skiptir máli að Sir Elton John var stjórnarformaður, hluthafi og örlagavaldur fyrir liðið. Fornsögukennslu er hér með lokið.

  Samtímasagan

  Af samtímasögu Watford er stóra málið nýi stjórinn þeirra, en þeir eru nýlega búnir að reka Xisco Munoz og ráða inn öldunginn og reynsluboltann Claudio Ranieri (sem verður sjötugur í næstu viku). Þetta verður fyrsti leikurinn hans sem stjóri Watford. Stóra spurningin fyrir Watford snýst um það hvað Ranieri getur gert með þetta lið. Menn töldu það vera töfra þegar hann gerði Leicester að meisturum 2016, en hann tók reyndar við alveg þokkalegu búi þar. Þeir voru með Vardy, Mahrez, Kante og Smeichel í markinu, og til viðbótar voru flestar stöður þokkalega mannaðar með leikmönnum í fínu formi. Það má þó vissulega alls ekki gera lítið úr þessu mikla afreki. Hann tók svo síðar við Fulham þar sem menn vonuðust eftir svipuðum töfrum. Það fór nú ekki eins vel, en þar voru engin markverð gæði til staðar og liðið í tómum vandræðum og engin leið að snúa þeirri skútu. En hvaða liði er hann að taka við hjá Watford? Það eru vissulega prýðilegir leikmenn þar, og ber þar helst að nefna Ismalia Sarr, Danny Rose, Kiko Femenia og Emmanuel Dennis. En því miður fyrir liðið er miðjan að mestu leyti gömul og stirð, og vörnin frekar slök, og liðið situr verðskuldað í 15. sæti, með 7 stig eftir 7 leiki. Það er því vandséð að Ranieri geti töfrað nein ósköp. Það má þó reikna með að liðið verði einhverju skárra þegar Ranieri hefur náð að setja sitt mark á það.

  Spáin

  Hér er spáin, en hún er í mörgum liðum því það er að mörgu að hyggja.

  Grunntölfræðin

  Fyrir þennan leik er ýmislegt hægt að telja til. Liðin hafa mæst 14 sinnum í Úrvalsdeildinni, og þar af hefur Liverpool sigrað 10 sinnum, Watford hafa sigrað 3 sinnum, og einu sinni var jafntefli. Við höfum skorað 35 mörk í þessum leikjum, en Watford 13. Átta sinnum höfum við haldið hreinu, en Watford hafa þrisvar haldið hreinu. Úr því að við höfum skorað að meðaltali 2,5 mörk í leikjunum og Watford 0,9 mörk gætum við auðveldlega spáð því að við sigrum 1-3 (námundum upp því þriðja markið verður skoðað í VAR og svo samþykkt). En í leikjunum milli liðanna er algengara en ekki að Liverpool haldi hreinu. Svo við skulum bara toga spána niður um 1 mark hjá Watford, og segja 0-3.  

  En hvernig erum við búnir að vera að spila?

  En jú, hvað er Liverpool búið að vera að bralla í síðustu leikjum? Við getum ekki komist yfir í leikjum án þess að leyfa hinu liðinu að jafna skömmu síðar. Sama hversu sterkur eða veikur andstæðingurinn er. Ég ætla því að buffa upp markatölu Watford aftur, þeir ná pottþétt að jafna a.m.k. tvisvar. Ég ætla því að breyta spánni í 2-3.

  En hvernig er Watford að spila?

  Það má þó líka skoða að Watford er aðeins búið að skora 7 mörk í deildinni hingað til. Að meðaltali 1 mark í leik. Er þá ekki frekar hæpið að þeir fjölgi mörkunum um næstum 30% á móti okkur? Jú, það er ósennilegt, drögum eitt mark frá þeim aftur, 1-3 verða lokatölur.

  Er eitthvað annað í gangi hjá Watford?

  En hvað var að ske hjá Watford? Jú, þeir voru að skipta um stjóra. Þetta verður því örugglega hættulegur leikur fyrir okkur, og alveg pottþétt að leikmenn Watford gíra sig upp til að sýna sig og sanna fyrir nýja stjóranum. Það mun þó springa framan í Watford, sem verða of æstir og fá á sig spjöld, gera mistök og við bætum einu marki við hjá okkur. Eins og staðan er í dag í deildinni, þá er leikmaður Watford með flest spjöld allra (Emmanuel Dennis með 4). Við segjum því 1-4. Liverpool er of stór biti til þess að einhver æsingur hjálpi þeim eitthvað.

  Er eitthvað annað að trufla Liverpool?

  Enn eigum við eftir að skoða það að við eigum í basli með að stilla upp okkar besta liði. Það er óljóst hvort Trent verði 100% heill og tilbúinn í byrjunarliðið, Jota er í svipuðum sporum, Thiago er enn að kljást við sín meiðsli, við erum með brasilíska landsliðsmenn sem eiga í tómu basli með að komast heim í tæka tíð eftir landsleiki. Við verðum því örugglega án Becker og Fabinho nema lögfræðideildin sýni kænsku og galdri þá heim á nokkrum mínútum án sóttkvíar. Liverpool verður því ekki með sitt sterkasta allra lið, og er sennilega ekki enn með á hreinu hvernig best verður að stilla liðinu upp. Það hjálpar ekki, en gæðin og breiddin í okkar liði er miklu meiri en hjá Watford og þetta mun því ekki skemma fyrir okkur leikinn.

  Um breiddina og gæðin og lokalokaspá

  Í öllum keppnum tímabilsins hafa  aðeins 4 leikmenn hjá Watford skorað alls 9 mörk, og er Sarr með næstum helming markanna. Hjá Liverpool hafa 10 leikmenn skorað mörk á tímabilinu. Ég ætla því að standa við lokaspá mína, 1-4. Salah með 2, Mané með 1 og Dijk með 1. Við setjum eitt í viðbót sem verður dæmt af í einhverju VAR ævintýri. Það er líka mikilvægt að klára þennan leik eftir að hafa glatað 4 stigum í síðustu tveimur leikjum. Leikir okkar helstu keppinauta eru þægilegir á pappírunum og því áríðandi að klára leikinn og verja stöðu okkar við toppinn.

  Að lokum. Voruð þið búin að sjá þegar Elton John grætti James Hetfield?

  YNWA

  [...]
 • Bikarkeppnin hefst hjá kvennaliðinu – Aston Villa mæta í heimsókn

  Þá er komið að fyrsta bikarleik kvennaliðsins á þessari leiktíð, í Continental Cup nánar tiltekið. Þar er fyrirkomulagið á þá leið að fyrst er keppt í 4 riðlum, og sigurvegarar riðlanna mætast svo í útsláttakeppni. Það er aðeins eitt úrvalsdeildarlið í riðli með okkar konum, en það eru einmitt Aston Villa sem eru að mæta á Prenton Park í kvöld.

  Liðið sem mætir Villa ber þess merki að það er aðeins verið að rótera:

  Foster

  Roberts – Matthews – Moore

  Parry – Bailey – Bo Salah – Hinds

  Humphrey – Walters – Lawley

  Bekkur: Startup, Wardlaw, Robe, Kiernan, Furness, Hodson, Holland, Daniels, Silcock

  Lucy Parry er held ég að byrja sinn fyrsta leik fyrir klúbbinn, en hún er jú sú yngsta til að spila fyrir kvennaliðið frá upphafi. Það er gott að sjá að Ashley Hodson virðist hafa sloppið það vel frá meiðslunum sem hún varð fyrir í lok leiksins gegn Sheffield að hún er leikfær og er á bekk.

  Leikurinn er sýndur á helstu streymisveitum LFC, og við uppfærum færsluna síðar í kvöld með úrslitunum.


  Leik lokið með 1-1 jafntefli í venjulegum leiktíma, og í þessari keppni geta liðin krækt í aukastig með því að vinna vítakeppni ef leikurinn endar með jafntefli, og það var akkúrat það sem okkar konur gerðu. Villa skoruðu mark strax á 2. mínútu eftir að hafa unnið boltann eftir hornspyrnu. Eftir það lágu Villa konur mjög til baka, og færin voru flest hjá þeim rauðklæddu. Lawley hefði alveg mátt fá dæmda vítaspyrnu þegar hún féll í teignum á 35. mínútu, en fékk ekki. Í hálfleik komu Leighanne Robe og Yana Daniels inn fyrir Jasmine Matthews og Taylor Hinds, og þar sem Jasmine Matthews hafði byrjað leikinn með fyrirliðabandið var það Missy Bo Kearns sem tók við því, og er þar með líklega með yngstu fyrirliðum sem kvennaliðið hefur haft. Um miðjan síðari hálfleik komu svo Leanne Kiernan og Ashley Hodson inná, og Kiernan var varla búin að snerta boltann þegar hún skoraði með glæsilegu áhlaupi. Liverpool var svo líklegra frekar en Villa til að bæta við marki, en staðan eftir venjulegan leiktíma 1-1. Það þýðir að hvort lið um sig fær eitt stig, en svo er hægt að næla í annað stig með því að vinna vítakeppni. Rylee Foster varði fyrsta vítið glæsilega, en eftir það var skorað úr öllum vítum (Jade Bailey, Ceri Holland, Yana Daniels, Leighanne Robe og Ashley Hodson fyrir okkar konur).

  Það neikvæða við leikinn var að Leanne Kiernan þurfti að fara af velli nokkrum mínútum eftir að hafa skorað, og eins þurfti Meikayla Moore að harka af sér síðustu mínúturnar. Vonum að þær komi fljótt til baka. Jákvæðu hlutirnir eru hins vegar fjölmargir. Lucy Parry var mjög öflug í hægri vængbakverði og á örugglega eftir að fá fleiri mínútur í framtíðinni. Liðið var í heild sinni að spila mjög vel og var í reynd betra liðið á vellinum, sem er jákvætt í ljósi þess að Villa eru í dag úrvalsdeildarlið. Þá er einnig mjög jákvætt að liðið er komið á svolítið “run” með 6 leiki sem hafa annaðhvort unnist eða endað með jafntefli.

  Nú þarf að bíða til loka október eftir næsta leik hjá liðinu, svo taka við allmargir leikir í röð (þar á meðal mikilvægur útileikur gegn Durham), en svo kemur aftur u.þ.b. mánaðarpása sem er furðuleg leikjaniðurröðun. Við vonum bara að þær sem nú fara í landsliðsverkefni (t.d. bæði Bo Kearns og Taylor Hinds fyrir U23 lið Englands) komi heilar til baka, og liðið haldi sama dampi þegar næsta törn hefst.

  [...]
 • Gullkastið – Klopp í sex ár og nýtt Olíufélag

  Sádi-Arabía er loksins búið að klára kaup sín á Newcastle og koma til með að breyta því félagi í nýjasta Olíufélagið í boltanum. Jurgen Klopp fagnaði sex ára starfsafmæli með Liverpool og leikjaprógrammið út þennan mánuð er nokkuð krefjandi með útileikjum og fjarveru lykilmanna.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  Endilega kíkið á Honkítonk BBQ á Snorrabraut og gefið upp Kop.is til að fá 10% afslátt af pöntun.

  MP3: Þáttur 351

  [...]
 • Sádi-Arabía kaupir Newcastle

  Amanda Staveley heitir breska viðskiptakonan sem er að taka við sem framkvæmdastjóri Newcastle, þetta er nafn sem stuðningsmenn Liverpool kannast ágætlega við. Stavenly er með afburða traust viðskiptasambönd í Mið-Austurlöndum og hefur verið helsti ráðgjafi leiðtoga þar í fjárfestingum á Vesturlöndum. Það munaði raunar ekki miklu að hún hefði tekið við sama hlutverki hjá Liverpool árið 2008 er hún fór fyrir fjárfestingasjóði sem kallast Dubai International Capital sem var langt komið með að kaupa 49% hlut George Gillett í Liverpool.

  Raunar hafði þessi sami fjárfestingastjóður handsalað kaup á Liverpool rúmlega ári áður eftir tveggja ára samningsviðræður við David Moores en DIC dró lappirnar of lengi. Það er ástæðan fyrir því að samið var við Gillett og Hicks, upphaflega hafnaði Liverpool boði Gillett þar sem þeir töldu DIC mun vænlegri kost. Gillett kom svo aftur hálfu ári seinna með nýjan viðskiptafélaga, Tom Hicks. Þannig að Liverpool var mjög nálægt því að enda í eigu Emírsins í Dubai með Amanda Staveley sem framkvæmdastjóra félagsins.

  Sama ár (2008) var PCP Capital Partners fyrirtæki Staveley helsti ráðgjafi Mansour fjölskydunnar í kaupum á 16% hlut í Barclays bankanum breska. Seinna það ár hjálpuðu þau Abu Dhabi United Group við kaupin á Man City og eru talin hafa fengið um £10m í þóknun fyrir.

  Stavenly tekur sæti í stjórn Newcastle og verður framkvæmdastjóri félagsins a.m.k. til að byrja með. Hún er að fronta kaupin og á raunar 10% hlut í gegnum félag sitt PCP Capital Partners. Auk hennar samanstendur fjárfestahópurinn af byggingarverktökum (Reuben Brothers) sem einnig eiga 10% hlut og svo PIF (Saudi Arabia’s Public Investment Fund) sem er þegar grafið er niður á raunverulega eigendur ekkert annað en Sádi Arabía. Rétt eins og Abu Dhabi United Group er ekkert ennað en Emírinn í Abu Dhabi. Þetta eru ensk knattspyrnulið í ríkiseigu Olíuríkja frá Mið-Austurlöndum, dulbúin reyndar sem óháðir fjárfestingasjóðir.

  Miklu stærri og miklu verri

  Kaup PIF eiga sér töluverðan aðdraganda, Amanda Staveley mætti fyrir fjórum árum á leik Newcastle og Liverpool á St. James Park og héldu margir að hún væri enn á ný að reyna kaupa Liverpool. Það kom þó fljótt á daginn að svo var ekki og núna var hún ekki að sinna erindagjörðum “smátitta” frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum heldur aðalmanninum á þessum slóðum, MBS.

  Tökum þessa mynd aðeins með fyrirvara en eitthvað á þessa leið er munurinn á auðæfum Sádanna vs t.d. eigendum Man City og PSG.

  Samanlagt er talið að auðæfi konungsfjölskyldunnar í Sádi Arabíu með Saudi Aramco olíusjóðnum sé um $1.4 trilljón. Jóakim Aðalönd átti einu sinni svona mikið í tanknum góða. Hvað enska fótboltann varðar þíðir þetta að eigendur Newcastle eiga bókstaflega endalaust af peningum.

  (more…)

  [...]
 • Fyrsti stórleikur kvennaliðsins á leiktíðinni: heimsókn til Sheffield

  Á morgun, laugardaginn 9. október kl. 13, er komið að fyrstu virkilegu þolrauninni hjá kvennaliði Liverpool á þessari leiktíð, ekki svosem að fyrstu leikirnir hafi verið einhver dans á rósum, en nú má segja að fyrst fari virkilega að draga til tíðinda. Liðið heimsækir Sheffield United, sem er jafnt okkar konum við topp deildarinnar, aðeins Durham er ofar.

  Það að mæta liði Sheffield í dag er svolítið eins og að horfa í ca. tveggja ára gamlan spegil, enda fyrirfinnast þar ýmis gamalkunnug andlit. Markvörður er Fran Kitching, fyrirliði og miðvörður er Sophie Bradley-Auckland, með henni í vörninni er Tara Bourne, og frammi eru þær Jesse Clarke og Courtney Sweetman-Kirk. Þjálfari er Neil Redfearn. Allt andlit sem sáust hjá Liverpool í lengri eða skemmri tíma. Tara Bourne lék reyndar aldrei aðalliðsleik fyrir Liverpool, en var með á myndinni frægu “two teams, one club” sem tekin var 2019. Hún er reyndar samningsbundin Manchester United, en var lánuð til Sheffield á þessari leiktíð.

  Langlíklegast er að Matt Beard stilli upp sama liði og síðast, og haldi sig við 3-4-3 leikkerfið:

  Laws

  Moore – Robe – Matthews

  Wardlaw – Kearns – Holland – Hinds

  Kiernan – Hodson – Lawley

  en við uppfærum færsluna með réttu byrjunarliði um leið og það verður tilkynnt.

  Leikurinn verður sýndur á Youtube rás Sheffield United. Búum okkur undir að þulirnir muni þekkja stelpurnar okkar svona misvel.

  Við uppfærum svo færsluna með úrslitum síðar sama dag.


  UPPFÆRT: leik lokið með góðum 0-2 útisigri. Lánskonan Charlotte Wardlaw opnaði markareikning sinn með góðu skoti í upphafi leiks, og Leanne Kiernan hélt uppteknum hætti og bætti öðru við upp úr miðjum fyrri hálfleik, aftur eftir stoðsendingu frá Rachel Furness eins og í síðasta leik. Þar við sat, en Liverpool var mun líklegra til að bæta við marki í síðari hálfleik. Annars átti Rachael Laws stórleik í því að taka góðan tíma í útspörk og fékk m.a. gult fyrir vikið, en henni tókst a.m.k. að drepa niður allan hraða sem Sheffield gat einhverntímann vonast til að ná upp.

  Það var reyndar alls ekkert sama lið og síðast sem hóf leik, því Niamh Fahey kom í vörnina í stað Meikayla Moore, þá kom Rachel Furness inn á miðjuna í stað Missy Bo Kearns, og Yana Daniels fékk sénsinn í framlínunni á kostnað Ashley Hodson.

  Staðan er þá þannig að Liverpool er efst í deildinni! Mögulega tímabundið að vísu, því Durham á leik á morgun og geta með sigri endurheimt efsta sætið. En við tökum öllum svona fregnum fagnandi.

  Næsti leikur í deildinni er svo ekki fyrr en 31. október, en líklega er leikið í deildarbikarnum í millitíðinni, og við munum að sjálfsögðu fjalla um það.

  [...]
 • Gullkastið – Sanngjarnt svekkjandi jafntefli

  Rétt eins og í síðasta deildarleik tapaði Liverpool tvisvar sinnum forystu og gerði á endanum jafntefli. Man City var þó eðli málsins samkvæmt töluvert annað stríð en háloftaboltinn gegn Brentford. Svakalegur stórslagur á Anfield. Porto er hinsvegar okkar uppáhalds borg, það er nokkuð ljóst. Tókum púlsinn á öllu því helsta frá leikjum helgarinnar og síðustu viku.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  Endilega kíkið á Honkítonk BBQ á Snorrabraut og gefið upp Kop.is til að fá 10% afslátt af pöntun.

  MP3: Þáttur 350

  [...]
 • Liverpool 2-2 Man City

  1-0 Mane 59′

  1-1 Foden 69′

  2-1 Salah 76′

  2-2 De Bruyne 81′

  Hann var ekki upp á marga fiska fyrri hálfleikurinn sem varð boðið upp á á Anfield í dag. Liverpool liðið kom ágætlega til leiks og litu vel út fyrstu mínúturnar en eftir um korters leik tóku City menn öll völd á vellinum og héldu allt þar til flautað var til leikhlés. De Bruyne skallaði yfir og Alisson varði frá Foden í þeirra bestu færum hálfleiksins. Síðari hálfleikur var hinsvegar allt önnur saga. Snemma í hálfleiknum sáum við loks okkar fyrsta skot á markið þegar Matip náði að þræða bolta inn á Jota sem snéri og náði skoti beint á Ederson. Ekki frábær tilraun en við allavega komnir á blað.

  Stuttu seinna kom svo fyrsta markið þegar Salah tók smá áhlaup á vörn City manna og náði svo að skila boltanum inn á Mane sem kláraði vel framhjá Ederson í markinu.

  Forrustan dugði þó aðeins í tíu mínútur eða þar til Gabríel Jesus fann Phil Foden sem var búinn að stinga James Milner af úti vinstra meginn og setti boltan í netið 1-1. Foden var einmitt búinn að eiga mjög góðan leik fyrir City og gerði Milner lífið leitt aftur og aftur í leiknum. Í fyrri hálfleik hafði Milner stöðvað Foden tvisvar þegar hann var að sleppa í gegn. City menn vildu víti í fyrra skiptið þó brotið, ef brot mætti kalla, byrjaði fyrir utan teig og í seinna skiptið fékk Milner gult.

  Svo var það Mo Salah. Hann fékk boltann úti á hægri kanti og snéri af sér Cancelo og Silva áður en hann stakk sér inn fyrir Laporte og skoraði framhjá Ederson á veikari fætum. Þvílíkur leikmaður sem við eigum og farið vinsamlegast að koma bleki á pappírinn því þetta er ekki leikmaður sem við megum við því að missa.

  Andartaki síðar braut Milner á Bernando Silva. Dómarinn dæmdi aukaspyrnu en ákvað að halda seinna gula spjaldinu í vasanum. Guardiola varð brjálaður sem og Silva sem fengu báðir gult fyrir mótmæli en dóminum vissulega ekki breytt og Klopp lét Gomez gera sig kláran um leið og skipti Milner útaf og við heppnir að hafa ellefu menn enn á vellinum.

  Það dugði þó ekki til því níu mínútum fyrir leikslok átti Foden sendingu inn á teig sem breytti um stefnu og barst til De Bruyne sem átti skot sem fór í Matip og þaðan í netið. Staðan jöfn og grátlegt að þetta mark hjá Salah hafi ekki fengið að vera sigurmark. Bæði lið reyndu að sækja sigur undir lokinn og varð það Fabinho sem komst næst því en Rodri náði að koma í veg fyrir það.

  Góður dagur

  Það er ekki hægt að horfa framhjá Mo Salah sem er ekki aðeins okkar besti maður í dag heldur líklegast heimsins besti maður akkúrat í dag. Hann átti stórleik í seinni hálfleik og guð hvað hann er ótrúlega góður í þessu sporti. Einnig vaknaði Mane til lífs í seinni hálfleik eftir að hafa átt erfitt í fyrri. Hann skoraði gott mark og var ógnandi. Síðan var Joel Matip frískur og átti nokkur hlaup upp völlinn með boltann sem brutu upp vörn City manna þó það hafi síðan ekki orðið mikið úr þeim en gerði vel í að eiga við pressu City manna.

  Vondur dagur

  Væri auðveldast að nefna Milner hér enda átti Foden mjög góðan dag hjá City og náði ítrekað að komast framhjá honum. Hann fékk hinsvegar afar litla hjálp og slakastur fannst mér einn af þeim sem hefði mátt veita honum meiri vernd fyrirliðinn okkar Jordan Henderson sem átti í miklum vandræðum. Sendingar voru mjög lélegar, pressan slök og átti erfitt með miðjumenn City, Miðjan okkar var ekki góð í dag en Henderson var þar manna verstur og hreinlega spurning hvort meiðslin sem urðu til þess að hann spilaði lítið á EM séu enn að plaga hann.

  Umræðupunktar

  • Eftir leikinn erum við í öðru sæti deildarinnar stigi á eftir Chelsea og stigi á undan hinum keppinautunum. Auðvitað hefðum við viljað vera með fullt hús stiga en ágætis staða til að hafa á leið í landsleikjahlé númer tvö í deildinni.
  • Erum eina taplausa liðið sem er eftir í deildinni. Þrjú jafntefli í fyrstu sjö svíða en alltaf gott að tapa ekki.
  • Þurfum að bæta hluti í varnarleiknum eftir landsleikjahléið. Vörðumst heilt yfir ágætlega í dag en bæði mörk City virtust alltof einföld og gegn Brentford vorum við í allskonar vandamálum.
  • Vonandi verður Trent í lagi eftir landsleikjahlé en það er ljóst að við þurfum að finna lausn sem virkar þegar hann er ekki til staðar. Það er erfitt að kaupa vara hægri bakvörð þar sem Trent mun alltaf spila þegar hann er heill og það er enginn annar hægri bakvörður sem spilar eins og hann. Milner er að eldast og virkar ekki gegn stóru liðunum í bakverði lengur þó hann hafi leyst þetta vel gegn Porto og Palace. Annað hvort þurfum við að finna mann sem getur spilað hefbundari bakvörð sem er til í að sitja á bekknum eða skipta hreinlega um leikkerfi þegar Trent er ekki með.
  • Öll umræðan í dag ætti hinsvegar að vera um hinn ótrúlega Mo Salah. Hann er ekkert eðlilega góður og ég elska að hann sé í rauðu treyjunni.

  Næsta verkefni er eftir þrettán daga gegn Watford en því fylgja svo tveir erfiðir útileikir gegn Atletico Madrid og Man United þannig það verður krefjandi vika eftir landsleikjahlé og því áhugavert að sjá hvernig Klopp nýtir hópinn þá. Niðurstaðan því jafntefli í dag, ekki skelfileg niðurstaða en svekkjandi að ná ekki að halda út eftir að hafa komist yfir með tæplega korter eftir.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Man City

  Stressið er að ná hámarki nú þegar það styttist í stórleik helgarinnar og er Klopp búin að tilkynna liðið sem fær það verkefni að leggja Guardiola og hans menn í Man City.


  Bekkur: Kelleher, Gomez, Konate, Neco, Tsimikas, Keita, Ox, Minamino, Firmino

  Óbreytt lið og í raun einu fréttirnar að Origi er veikur og er ekki í hóp í dag. Ógnarsterkt lið og vonandi sjáum við okkar bestu hliðar í erfiðum leik í dag.

   

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close