Liverpool – Bayer Leverkusen í Meistaradeildinni
Leverkusen
Leverkusen er ung borg en hefur áhugaverða sögu, sérstaklega tengda iðnaði og efnaiðnaði. Borgin er staðsett í Nordrhein-Westfalen-ríki í vesturhluta Þýskalands, nærri borgunum Köln og Düsseldorf. Hún varð formlega til árið 1930 þegar mörg smærri þorp voru sameinuð, þar á meðal Opladen, Wiesdorf og Schlebusch, en saga svæðisins nær aftur til fornaldar.
Ástæða þess að Leverkusen varð svona sérstök borg er tilkoma lyfjafyrirtækisins Bayer AG, sem hóf starfsemi á svæðinu á síðari hluta 19. aldar. Karl Leverkus (!), efnaiðnfræðingur frá Wermelskirchen, stofnaði litlar litunarverksmiðjur á svæðinu um 1860 og flutti þær svo til Wiesdorf til að stækka þær. Þetta varð grunnurinn að Bayer, sem var formlega stofnað árið 1863 af Friedrich Bayer og Johann Friedrich Weskott, en síðar urðu höfuðstöðvar Bayer staðsettar í Wiesdorf, sem er nú hluti af Leverkusen.
Bayer AG hafði mikil áhrif á uppbyggingu borgarinnar, ekki aðeins með því að skapa störf heldur einnig með því að stuðla að þróun samfélagsins. Fyrirtækið styrkti byggingu skóla, íbúða, spítala og annarrar grunnþjónustu fyrir starfsmenn sína, og það kom einnig að uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem varð til þess að Bayer Leverkusen íþróttafélagið var stofnað. Með tímanum varð vaxandi íbúafjöldi og iðnvæðing þess valdandi að Leverkusen varð ein af mikilvægari iðnaðarborgum Þýskalands.
Í seinni heimsstyrjöldinni varð Leverkusen fyrir loftárásum, þar sem iðnaðarframleiðsla borgarinnar var mikilvæg fyrir stríðsrekstur Þýskalands. Mikil eyðilegging varð í borginni, en eftir stríðið hófst endurreisn, og Bayer og aðrir iðnaðarframleiðendur tóku þátt í að byggja borgina upp á ný. Á sjötta og sjöunda áratugnum stækkaði borgin og laðaði að sér fleiri íbúa.
Í dag er Leverkusen ekki aðeins þekkt fyrir Bayer fyrirtækið heldur einnig sem ein af þekktustu knattspyrnuborgum Þýskalands. Bayer Leverkusen knattspyrnuliðið er í Bundesliga og er eitt af þeim liðum sem hefur skapað borginni mikla frægð á alþjóðavísu.
Félagið
Saga Bayer Leverkusen er í senn merkileg og dramatísk, þar sem félagið hefur reglulega verið nálægt því að vinna titla án þess að það hafi tekist. Félagið var stofnað árið 1904 af starfsmönnum þýska lyfjafyrirtækisins Bayer. Fyrstu áratugina keppti liðið í neðri deildum og náði smám saman að byggja upp sterkari stöðu innan þýska fótboltans.
Á áttunda áratugnum hóf Bayer Leverkusen að festa sig í sessi í efri deildum og komst loks í Bundesliguna árið 1979. Þetta var mikilvægur áfangi og á næstu áratugum tókst liðinu að tryggja sér fast sæti í efstu deild og byggja upp stöðu sína í þýska fótboltanum. Bayer Leverkusen varð þekkt fyrir að þróa unga leikmenn og byggja upp hópa sem spiluðu skemmtilegan og sókndjarfan fótbolta. Á níunda áratugnum tókst félaginu loksins að landa sínum fyrsta stóra titli þegar þeir unnu UEFA bikarinn árið 1988, eftir frækinn sigur á Espanyol í vítaspyrnukeppni í úrslitum.
Bayer Leverkusen hefur í seinni tíð verið kallað „Neverkusen“. Þetta nafn er tilkomið vegna þess að liðið hefur oft endað í öðru sæti og aldrei náð að landa Bundesligu-titlinum, þrátt fyrir að vera meðal sterkustu liðanna í Þýskalandi (fyrir utan auðvitað síðasta vor). Árið 2002 var eitt af frægustu tímabilum félagsins, þar sem þeir enduðu í öðru sæti í þremur helstu keppnum þess tímabils: Bundesliga, DFB-Pokal (þýska bikarnum), og Meistaradeildinni. Það ár töpuðu þeir úrslitaleiknum í Meistaradeildinni gegn Real Madrid, þar sem Zinedine Zidane skoraði eitt frægasta mark keppninnar. Þetta tímabil varð Bayer Leverkusen táknmynd liðs sem komst nálægt en náði ekki toppnum.
Bayer Leverkusen hefur lengi verið vettvangur fyrir hæfileikaríka leikmenn. Michael Ballack er einn frægasti leikmaður félagsins, en hann sló í gegn með Bayer Leverkusen og varð einn þekktasti leikmaður Þýskalands. Önnur nöfn sem hafa blómstrað hjá félaginu eru meðal annars Bernd Schuster, Dimitar Berbatov og nýlega Kai Havertz, sem vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína og var seldur til Chelsea árið 2020.
Liðið
Þegar rætt er um lið Bayer Leverkusen er nafn Xabi okkar Alonso það fyrsta sem kemur upp í hugann. Hann hefur gert frábæra hluti og var orðaður við Liverpool í sumar – þótt sá orðrómur hafi líklega verið úr lausu lofti gripinn. Þeir náðu frábærum árangri í fyrra undir stjórn Xabi, unnu Bundesliguna, fóru taplausir í gegnum deildina og töpuðu í úrslitum Evrópudeildarinnar. Það verður án efa tekið mjög vel á móti Xabi Alonso á Anfield.
Leikmannahópurinn þeirra er sterkur, nöfn á borð við Florian Wirtz, Jeremie Frimpong, Granit Xhaka, Jonathan Tah, Piero Hincapié og Lukas Hradecky prýða hópinn og eru helstu lykilmennirnir. Flestir ættu að kannast a.m.k við hluta af þessum nöfnum, T.d. hafa Teh og Hincapié verið orðaðir frá félaginu til stórliða Evrópu.
Leverkusen situr nú í fjórða sæti Bundesligunnar með 16 stig eftir 9 leiki, gerðu markalaust jafntefli við Stuttgart um helgina. Til samanburðar er RB Leipzig í öðru sæti með 20 stig, þannig að ég myndi giska á að við séum að fara í sambærilegan leik og gegn þeim.
Líklegt byrjunarlið Bayer Leverkusen er svona:
Hradecky
Tapsoba – Tah – Hincapié
Frimpong – Xhaka – Garcia – Grimaldo
Terrier – Wirtz – Boniface
Liverpool
Frábær seinni hálfleikur gegn Brighton tryggði þrjú stig og toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar. Eins og seinni hálfleikur var góður, var fyrri hálfleikur alveg hræðilegur og það er eitthvað sem þarf að laga hið snarasta. Ég held að Slot og þjálfarateymið hans hafi lært mikið af leiknum gegn Brighton, það er stundum ágætt að vera yfirspilaður, það getur verið lærdómsríkt, svo framarlega sem það kostar ekki stig og/eða mikið af mörkum á sig. Ég hef a.m.k trú á því að Slot og co dragi lærdóm af leiknum og nái að loka betur, pressa betur, þvinga andstæðingana í erfiðari sendingar eins og raunin varð í seinni hálfleik. Frábært að sjá viðbrögðin þar.
Leverkusen gæti alveg orðið svipaður leikur, þeir eru vel spilandi og þetta snýst um að vinna tæklingar, loka sendingaleiðum og keyra sig út. Ég held að einhverjir hafi alveg gert það á laugardaginn og því sé þörf á einhverjum breytingum – líka með það í huga að staðan í Meistaradeildinni er mjög góð og svo er erfiður leikur gegn Aston Villa á laugardagskvöld. Arne Slot hefur þó sýnt okkur með liðsvalinu sínu að hann er ekkert að gera neinar brjálæðislegar breytingar á milli leikja. Hann vill bara vinna og stilla upp nógu góðu byrjunarliði til að gera einmitt það. En ég held það verði nokkrar breytingar – mín ágiskun er þessi:
Game on, fjörið heldur áfram, við fáum skemmtilegt 3-3 jafntefli í þessum leik.