Latest stories

 • Liverpool 1-1 Burnley

  Liverpool mistókst að vinna fyrsta heimaleik í deildinni eftir að hafa sigrað síðustu 24 leiki á Anfield þegar liðið gerðir 1-1 jafntefli gegn Burnley í mjög pirrandi fótboltaleik.

  Klopp gerði tvær nokkuð stórar breytingar á liðinu og Curtis Jones byrjaði á miðjunni í stað Jordan Henderson og Neco Williams tók við keflinu af Trent Alexander Arnold í hægri bakverðinum. Þessir tveir bráðefnilegu leikmenn stóðu sig virkilega vel í leiknum og þá sérstaklega Jones sem var stöðugt að koma sér í góðar stöður og hefði mögulega átt að skora eins og eitt mark.

  Liverpool liðið var mikið betra megnið af leiknum og fengu fullt af ágætis tækifærum en voru ekki að skjóta nægilega vel á markið og þau skot sem fóru á réttan stað enduðu ansi oft í útlimunum á Nick Pope, markverði Burnley, sem var að sýna og sanna af hverju hann er einn af betri markvörðum deildarinnar. Ef ekki hefði verið fyrir Pope þarna í markinu hjá þeim þá hefði Liverpool líklega haldið inn í hálfleikinn með þrjigga eða fjögurra marka forystu.

  Andy Robertson fann þó leið framhjá Nick Pope í marki Burnley þegar hann mætti frábærri sendingu Fabinho inn í teiginn og stangaði boltann í netið af nokkuð löngu færi. Frábær skalli frá bakverðinum og geggjuð sending frá Fabinho. Rétt rúmlega verðskuldað mark Liverpool sem leiddi 1-0 í hálfleik.

  Það var svipað upp á teningnum fyrri hluta seinni hálfleiks. Liverpool sótti á Burnley og hefðu átt að nýta færin sín betur. Klopp undirbjó tvöfalda skiptingu þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, Trent og Keita komu inn í stað Williams og Jones. Þá kallaði dómari leiksins til vatnspásu í leiðinni og þegar leikurinn hófst að nýju átti Burnley aukaspyrnu aftarlega á vellinum en nýttu tækifærið í að henda í smá leikkerfi í henni og sendu turnana sína fram. Boltinn barst úr spyrnunni til Jay Rodriguez í teignum sem skoraði með ansi góðu skoti framhjá Alisson og jafnaði leikinn. Það virtist hafa komið sem algjör skellur í andlitið á leikmönnum Liverpool og sló þá svolítið út af laginu og liðið varð rosalega æst og reyndu alltof mikið að þvinga allt í gegn. Burnley hins vegar tóku þá tök á leiknum og ógnuðu mikið.

  Liverpool fékk áfram ágætis færi en skutu rosalega illa á markið. Andy Robertson var tekinn niður í vítateig Burnley rétt undir lok leiksins en líkt og svo ansi oft áður þá dæmdi dómarinn ekki vítaspyrnu og ekki var þetta skoðað í VAR frekar en fyrri daginn. Óvænt, óvænt. Augnabliki síðar á Burnley skot í slá eftir fast leikatriði og í blálokin klúðraði Salah dauðafæri með slöku skoti. Leikurinn endaði því 1-1 sem er rosalega fúlt að því leiti að þetta klúður skemmir ansi mikið fyrir Liverpool sem vildi setja hin ýmsu met, t.d. stigamet og met yfir flesta unna heimaleiki á leiktíð og eitthvað fleira í þeim dúr.

  Heilt yfir var liðið ekkert slæmt og á köflum var liðið eiginlega bara fáranlega gott en þegar menn nýta ekki tækifærin þá getur þetta farið svona. Liverpool hefði átt að sjá til þess að Burnley væri ekki í leiknum snemma í fyrri hálfleik en það tókst því miður ekki og það er bara eins og það er.

  Næsti leikur er gegn Arsenal á miðvikudaginn, vonandi verða menn búnir að reima á sig markaskóna fyrir þann leik!

  [...]
 • Liðið gegn Burnley

  Þá er komið byrjunarliðið sem tekur á móti Burnley eftir tæpa klukkustund og kannski ekki mjög óvæntar en þó tvær nokkuð stórar breytingar á liðinu.

  Jordan Henderson er frá út leiktíðina og fær Curtis Jones að taka stöðu hans við hlið Fabinho og Wijnaldum á miðjunni. Neco Williams byrjar sinn annan Úrvalsdeildarleik og er nú hægra meginn og Trent sest á bekkinn.

  Annað er eftir nokkuð hefðbundnu sniði. Fremstu þrír á sínum stað, Van Dijk við hlið Gomez í vörninni og þeir Shaqiri og Lovren koma inn á bekkinn.

  Alisson

  Williams – Gomez – VVD – Robertson

  Wijnaldum – Fabinho – Jones

  Salah – Firmino – Mane

  Bekkur: Adrian, Trent, Lovren, Shaqiri, Minamino, Origi, Chamberlain, Keita, Elliott

  [...]
 • Upphitun: Liverpool – Burnley

  Á morgun mæta Sean Dyche og strákarnir hans í Burnley og fá að standa heiðursvörð á Anfield fyrir meisturum Liverpool. Eftir endurræsingu deildarinnar var útlitið ekki gott fyrir Burnley þar sem nokkrir leikmenn voru að renna út af samningi og vildu ekki spila, liðið var að sigla lygnan sjó og hafði ekki að miklu að keppa og voru því miklar efasemdir um liðið þegar þeir steinlágu 5-0 fyrir City í fyrsta leik en hafa síðan náð að sækja tíu stig af tólf mögulegum og því verið betri en búist var við.

  Þeir fengu hinsvegar afleitar fréttir um daginn þegar í ljós kom að Ben Mee muni ekki spila meira á tímabilinu en hann hefur ásamt Tarkowski myndar feikigott miðvarðarpar og það verður áhugavert að sjá hvernig vel skipulagt varnarlið Burnley nær að bregðast við þeim missi. Ásamt honum er Ashley Barnes frá og Jeff Hendrix neitar að spila eftir að samingur hans rann út. Hinsvegar er Jóhann Berg farinn að fá einstaka mínútur inn af bekknum og gætum við séð hann spila eitthvað á morgun.

  Okkar menn

  Við fengum einnig slæmar fréttir í vikunni því meiðsli Henderson eru slæm og mun hann heldur ekki spila meira á tímabilinu, það býr til pláss fyrir aðra miðjumenn að fá mínútur en skelfilegt að fyrirliðinn missi af Chelsea leiknum þar sem liðið tekur við titlinum. Vissulega mun hann fá að lyfta honum en hefði verið betra ef hann fengi að taka þátt í leiknum einnig.

  Það verður áhugavert að sjá uppstillinguna á morgun. Í síðustu leikjum höfum við séð nokkra menn hvílda í hverjum leik og sjáum líklega það sama í þessum leik og ætla að skjóta á að við sjáum eitthvað í þessa áttina.

  Býst því við að Salah fái hvíldina á morgun þar sem Firmino var hvíldur gegn Villa og Mané í síðasta leik. Neco Williams gæti líka fengið leik í hægri bakverði á morgun eftir að hann fékk hálfleik í vinstri bakverði í síðasta leik. Á miðsvæðinu þarf einhver að leysa stöðu Henderson og þar eru Chamberlain og Keita líklegastir. Keita átti góðan leik gegn Brighton en eitthvað segir mér að Chamberlain fái þennan leik.

  Spá

  Held að þetta verði gríðarlega erfiður leikur sem við tökum á endanum 2-0 þar sem Mané skorar og Salah setur eitt eftir að hann kemur inn á og býr til smá keppni um gullskóinn þriðja árið í röð.

  [...]
 • Brighton 1-3 Liverpool

  Englandsmeistararnir unnu enn einn sigurinn á leiktíðinni í kvöld þegar liðið vann fínan sigur á Brighton í ansi líflegum leik þar sem tvö mörk frá Mo Salah og eitt frá Jordan Henderson tryggði 3-1 sigur á útivelli.

  Þetta er 30. sigurleikur Liverpool í deildinni og hefur ekkert lið verið eins fljótt að ná þessum fjölda sigurleikja og Liverpool sem tókst það í 34 leikjum. Þetta er aðeins einn af ansi mögnuðum áföngum og metum sem Liverpool liðið gæti slegið í vetur. Þegar fjórir leikir eru eftir er Liverpool nú aðeins níu stigum frá því að bæta stigamet Man City í deildinni sem er 100 stig en liðið er nú með 92 stig eftir 34 umferðir. 92 STIG!

  0-1 Mo Salah 6.mín
  0-2 Jordan Henderson 8.mín
  1-2 Leandro Trossard 45.mín
  1-3 Mo Salah 76.mín

  Leikurinn
  Klopp róteraði liðinu sínu aðeins fyrir þennan leik. Neco Williams byrjaði sinn fyrsta deildarleik og var í vinstri bakverði í stað Andy Robertson sem var eitthvað stífur í kálfanum. Chamberlain tók stöðu Sadio Mane á vinstri vængnum og Keita byrjaði á miðjunni í stað Fabinho.

  Englandsmeistararnir byrjuðu af miklum krafti og skoraði Mo Salah fyrsta markið á 6.mínútu þegar hann mætti sendingu Naby Keita sem hafði unnið boltann rétt utan vítateigs Brighton og skoraði með fínu skoti. Augnabliki síðar lagði Salah boltann á Jordan Henderson sem skoraði með góðu skoti fyrir utan teig og Liverpool með 2-0 forystu eftir átta mínútna leik.

  Liverpool átti sínar rispur en það kom mikið líf í Brighton sem eru enn að berjast við að halda sæti sínu í deildinni þó að þeir séu í þægilegri stöðu en mörg önnur lið þá er greinilegt að þeir vilji gulltryggja þetta sem allra, allra fyrst. Þeir voru að valda Liverpool töluverðum vandræðum og skoruðu laglegt og verðskuldað mark rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar Trossard mætti fyrirgjöf Lamptey sem var mjög sprækur í leiknum.

  Brighton olli Liverpool hugarangri í leiknum en mér fannst þó ekki sem Liverpool hafi eitthvað verið að missa tökin á leiknum og verið eitthvað heppnir að hanga á þessu. Leikurinn var mjög hraður og opinn á báða bóga svo hann var að mér fannst nokkuð skemmtilegur.

  Seinni part síðari hálfleiks fór Liverpool þó að herða tökin og kláraði Salah leikinn með góðum skalla á nærstöng eftir hornspyrnu Andy Robertson. Liverpool fékk svo nokkur góð tækifæri til að bæta við fleiri mörkum, Salah átti tvö ágætis tækifæri, Wijnaldum skallaði rétt yfir af stuttu færi og þeir Mane og Minamino komust í ágætis stöður.

  Leikurinn var svo flautaður af og Liverpool verðskuldaður sigurvegari og heldur áfram að bæta við stigum á töfluna þó deildin sé löngu unnin og sigrarnir verða vonandi fjórir í viðbót!

  Bestu menn Liverpool
  Naby Keita átti frábæran leik að mér fannst. Hann var að vinna boltann mjög vel í hápressunni og gerði allt það sem Naby Keita á að vera að gera á miðjunni hjá okkur. Jordan Henderson var einnig að mér fannst mjög góður, hann stýrði spilinu vel, var nokkuð góður í varnarvinnunni og skoraði glæsilegt mark. Vonandi eru meiðsli hans ekki alvarleg en hann fór útaf rétt undir lok leiksins.

  Virgil Van Dijk, afmælisbarnið sjálft, var einnig frábær í miðverðinum. Hann átti háloftin og swag-ið í leiknum hans, maður lifandi! Þegar hann var að dekka mann, elti bolta í loftinu, skallaði hann fyrir sjálfan sig og snéri á sóknarmanninn án þess að hækka í púlsi vá bara!

  Ég ætla að skella maður leiksins titlinum á Mo Salah. Tvö mörk og stoðsending í dag, hann hefði átt að skora þrennu og það var snilld að sjá hve fúll hann var við sjálfan sig þegar hann klúðraði ágætis færi í restina. Hann vildi þrennuna og vill markatitilinn þriðja árið í röð og hann er nú með 19 mörk og 9 stoðsendingar í deildinni, tveimur mörkum á eftir Jamie Vardy. Það skildi þó aldrei vera að hann næði þessum gullskó aftur!

  Næsta verkefni
  Næsti leikur verður heima gegn Burnley um helgina. Burnley vann West Ham í dag og eru í Evrópudeildarpakkanum, þetta er lið sem getur verið erfitt að spá fyrir um hvernig verður því þeir geta verið algjörir jólasveinar og þeir geta verið ansi erfiðir viðureignar. Sjáum hvernig þetta verður um helgina, Liverpool setur stefnuna á að vinna alla heimaleiki sína í deildinni á leiktíðinni og verða fyrsta liðinu sem tekst það svo vonandi heldur það áfram gegn Burnley og Liverpool tekur stórt skref í átt að stigameti í leiðinni.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Brighton

  Nú er komið að 5. síðasta leiknum á þessari mjög svo sérstöku leiktíð, og liðið sem heimsækir Brighton hefur verið gefið út:

  Bekkur: Adrian, Fabinho, Milner, Mane, Minamino, Robertson, Origi, Jones, Elliott.

  Stóru fréttirnar eru auðvitað að Neco Williams er að spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir klúbbinn í deildinni, og núna í vinstri bakverði. Það væri svo frábært ef hann gæti tekið að sér að vera valkostur nr. 2 í bæði hægri og vinstri bak, og líkurnar á því að hann fái ansi margar mínútur á næstu leiktíð eru alltaf að aukast. Þetta er strákur sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið í lok október í fyrra, og magnað að sjá hversu hraður uppgangur hans hjá klúbbnum í raun og veru er.

  Ég stilli þessu upp í hefðbundnu 4-3-3 á myndinni með Ox á vinstri kantinum, en það kæmi manni ekkert á óvart þó það verði prófaðar einhverjar fleiri uppstillingar, þess vegna svissað í miðjum leik.

  Virgil van Dijk á afmæli í dag, og myndi örugglega þiggja 3 stig í afmælisgjöf.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Gullkastið – Afslappaður endasprettur

  Liverpool var ekki alveg komnir af djamminu þegar þeir fóru til Manchester en tapið þar var leiðrétt um helgina með sex stiga sveiflu okkur í hag. Ungu strákar eru farnir að grípa sénsinn á meðan Origi og Ox eru í veseni. Thiago frá Bayern er nýjasta leikmannaslúðrið og Leicester er að klúðra Meistaradeildarsætinu.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 293

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  [...]
 • Englandsmeistararnir heimsækja Brighton

  Það er komið að þriðja leiknum hjá hinum rauðklæddu (ókrýndu enn sem komið er) Englandsmeisturum eftir að titillinn var í höfn. Vorum við búin að minnast á að Liverpool varð enskur meistari eftir 30 ára bið? Ég er ekki viss um að það hafi komið nægilega oft fram.

  Nú skal haldið í heimsókn til Brightonborgar og knúið dyra hjá bláliða-heimamönnum. Það kann að hljóma undarlega að byrja á að lýsa yfir áhyggjum enda var liðið okkar að tryggja titilinn á mettíma, því ekkert lið hefur tryggt sér nafnbótina með jafn margar umferðir óspilaðar. En ef við rýnum aðeins í tölurnar, þá sést að útivallaform okkar manna hefur nú kannski ekki verið neitt hoppandi frábært. Það er alveg óþarfi að rifja upp hvernig síðasti útileikur fór, við skulum bara segja að þar hafi þynnkan haft yfirhöndina. Þar á undan kom fyrsti leikurinn eftir Covid hlé, borgarslagur á Goodison Park sem endaði með markalausu jafntefli. Við þurfum svo að leita aftur til 29. febrúar til að finna næsta útileik, en sá leikur var gegn hinum gulklæddu Watford mönnum og endaði með 0-3 tapi (það fyrsta á leiktíðinni!). Það þarf því að fara aftur til 15. febrúar til að finna útileik í deildinni þar sem Liverpool tókst að skora, í leik gegn Norwich sem lauk með 0-1 sigri eftir mark frá Sadio Mané. Semsagt: ekkert útivallarmark í deild síðan um miðjan febrúar. Það er júlí, bara ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því.

  Ekki það að manni finnist líklegt að markaþurrðin haldi áfram út í það óendanlega. Þó svo að titillinn sé tryggður þá eru nokkur skotmörk ennþá í sigtinu:

  Það stærsta þeirra hlýtur að vera stigamet City sem þeir settu fyrir tveim árum með því að fá 100 stig á leiktíðinni 2017-2018. Þetta stigamet getur Liverpool bætt, en verður þá að vinna a.m.k. 4 leiki af þessum 5 sem eru eftir (nú eða vinna 3 og gera 2 jafntefli, en þá verður metið bara jafnað en ekki slegið). Og þar sem 3 af þessum 5 leikjum sem eru eftir eru á útivelli (Brighton, Arsenal, Newcastle), þá einfaldlega verður liðið að fara að skora ef þetta á að ganga eftir. Svo er annað met sem væri gaman að slá, en það er mesti munur á milli 1. og 2. sætis. Í dag stendur það met í 19 stigum, og ef vel gengur ætti að takast að slá það, sérstaklega í ljósi þess hversu vel (illa) City mönnum gengur að vinna fleiri en 2 leiki í röð (hint: það hefur ekki enn tekist á þessu tímabili hjá þeim). Eins spilar þar inn í að Liverpool er með 23ja stiga forystu á toppi deildarinnar sem stendur, og því eru líkurnar ekkert alslæmar að það takist að slá það met.

  Önnur met sem liðið gæti slegið eru smávægilegri: flestir sigurleikir á einni leiktíð, flestir sigurleikir á heimavelli og fleira þess háttar, sum hver sem munu nást sjálfkrafa ef stigametið á annað borð næst úr þessu. Ég er nokkuð viss um að Klopp er alveg með stigametið á bak við eyrað, en svo á hinn bóginn vill hann líka spila nokkrum leikmönnum í gang. Þar erum við að tala um menn eins og Minamino sem er til þess að gera nýkominn til liðsins og er ekki enn farinn að sýna almennilega hvað í honum býr, nú og svo kjúklingana okkar: Jones, Elliott, Williams, jafnvel Hoever.

  Curtis Jones var jú að skrifa undir nýjan samning á laugardaginn og fagnaði því með sínu fyrsta deildarmarki daginn eftir. Harvey Elliott var að skrifa undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við félagið, en hann varð 17 ára í apríl og mátti því ekki skrifa undir slíkan samning fyrr en þá. Neco Williams hefur verið að fá mínútur í lok síðustu þriggja leikja, og planið er sjálfsagt að gefa þessum strákum nægilega margar innáskiptingar þannig að þeir fái medalíu. Það er svo einna helst spurning hvað gerist varðandi varamenn í miðvarðarstöðurnar. VVD og Gomez eru auðvitað sjálfvaldir í byrjunarliðið á meðan þeir eru heilir, en í augnablikinu er Matip frá út þessa leiktíð og Lovren er víst að glíma við eitthvað smá hnjask. Það er því ekki loku fyrir það skotið að við sjáum Hoever á bekknum á miðvikudaginn. En hvort hann nái nægilega mörgum leikjum til að eiga medalíu er svo kannski annað mál. Einhver hvíslaði að liðið gæti í reynd úthlutað vissu magni af medalíum burtséð frá leikjafjölda, ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Það gæti semsagt þýtt að Lonergan endi með medalíu í vasanum.

  Það hvernig liðinu verður stillt upp ræðst af nokkrum þáttum. Ef leikmenn eru tæpir fyrir verða örugglega ekki miklir sénsar teknir, þannig er t.d. Robbo eitthvað tæpur þó svo hann vilji meina sjálfur að hann geti leikandi spilað næsta leik, bara verst að Milner er líka að koma til baka úr meiðslum og fleiri varaskeifur liggja ekki á lausu. Álagið er svo talsvert um þessar mundir, núna er spilað á 3ja daga fresti og því nauðsynlegt að rótera eitthvað. Og svo að lokum þetta með að gefa þeim leikmönnum sem minna hafa spilað séns á að spila sig í gang og spila sig inn í plönin hjá Klopp. Er það mikilvægara heldur en stigametið? Tökum líka eftir því að þetta tvennt þarf alls ekki að útiloka hvert annað. En það er alveg ljóst að Klopp er nú þegar farinn að horfa til næsta tímabils, og vill geta komið eins sterkt inn í það tímabil eins og hægt er. Það verður lítil pása á milli 19/20 annars vegar og 20/21 hins vegar, og því full ástæða til að gefa þeim leikmönnum okkar sem mest hefur mætt á aðeins slaka núna yfir hábjargræðistímann.

  Þetta gæti þýtt að leikmenn eins og Salah fái aðeins meiri pásu, en hafi það einhverntímann verið óljóst hversu mikilvægur liðinu hann hefur verið, þá vonum við að slíkt sé komið á hreint núna. Salah náði semsagt upp í 100 mörk + stoðsendingar í deild með skallanum á Curtis Jones í gær, og varð þar með sá leikmaður í ensku deildinni sem nær því takmarki í fæstum leikjum. Spáið í það. Við erum að horfa á leikmann sem mun enda í sögubókum Liverpool, megi hann vera hér sem lengst. Eins vonum við að Mané fái líka einhverja hvíld, en mark hans um helgina var 50. markið á Anfield fyrir Liverpool, og hann hefur sjaldan verið mikilvægari. Þeir eru auðvitað báðir í harðri baráttu um gullskóinn, og eru þar að slást við alveg sæmilega markaskorara: Jamie Vardy, Pierre-Emerick Aubameyang og Danny Ings. Það kæmi því lítið á óvart þó þeir tveir vilji fá sem allra flestar mínútur til að auka líkurnar að krækja í gullskóinn.

  Klopp róteraði 3 mönnum frá sínu sterkasta liði í gær, og við skulum gera ráð fyrir að það verði eitthvað svipað uppi á teningnum á miðvikudaginn. Prófum að stilla þessu svona upp:

  Ég geri mér grein fyrir því að ég er að lifa hættulega með því að segja að bæði Jones og Elliott byrji. Líkurnar á því að annar byrji eru ekki miklar, hvað þá báðir. En hei, ef það er ekki tilefni til að lifa hættulega núna, hvenær þá?

  Ég bið svo ekki um mikið út úr þessum leik. Bara 3 stig, ekkert mark fengið á sig, mínútur fyrir kjúllana, og mark eða mörk hjá Salah og Mané svo þeir toppi listann um markakóngstitilinn. Jú og að það sleppi allir heilir frá leiknum.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Liverpool 2-0 Aston Villa

  Mörkin

  1-0  Sadio Mané 71.mín
  2-0  Curtis Jones 89.mín

  Leikurinn

  Aston Villa sýndu klassa með því að standa heiðursvörð fyrir Englandsmeistarana og gerðu það öllu fagmannlegra en gert var fyrr í vikunni. Leikurinn byrjaði rólega en eftir 3 og hálfa mín hefði alveg mátt dæma víti er Salah lék á mann og annan inni í teignum og Douglas Luiz togaði hann niður án þess að reyna nokkuð við boltann.

  Liverpool héldu boltanum mikið frá fyrstu mínútu en án þess þó að skapa sér opnanir og gestirnir voru með kraft í sinni nálgun þó að ónákvæm væri. Við reyndum að keyra upp hraðann á köflum en því miður voru lokasendingar oft misheppnaðar og illa gekk að skapa alvöru færi. Helstu fréttir voru gult spjald á Andy Robertson fyrir brot á Douglas Luiz um miðjan hálfleikinn og úr aukaspyrnunni áttu Villa skalla eftir fyrirgjöf.

  Að hálftíma liðnum höfðu heimamenn ekki skapað eitt færi eða átt skot í átt að marki, en Douglas Luiz títtnefndur átt skot sem var beint á Alisson. Á 35.mín áttu Salah og Mané ágætt upphlaup og voru hælspyrnu frá því að spila Salah í gegnum vörnina. Smávegis líf færðist í okkar menn og Keita spilaði Salah í þröngt skotfæri sem var auðveldlega varið af Pepe Reina í markinu.
  Fátt markvert gerðist fram að hálfleik og frammistaðan ansi döpur og bragðlítil.

  0-0 í hálfleik.

  Vonir stóðu til þess að Klopp myndi öskra liðið í gang með kjarnyrtri hálfleiksræðu en þær vonir urðu að vonbrigðum þar sem gestirnir komu sprækari úr tepásunni með nokkrum færum í upphafi seinni hálfleiks. Mikill kraftur var í Aston Villa og Liverpool í bölvuð brasi með fallbaráttudrengina frá Birmingham. Breytinga var þörf og eftir klukkutíma leik gerði Klopp þrefalda skiptingu með því að setja inn þá þrjá byrjunarliðsmenn sem hann hafði hvílt.

  Keita fékk að halda áfram leik og það átti eftir að koma ágætlega út á 70.mínútu er hann átti góða sendingu á Mané í teignum. Senegalinn sparaði ekki slúttið og setti boltann sláin inn með vinstri fæti. Ísinn loksins brotinn og við þetta færðist meira líf í leik Liverpool. Salah féll í teignum stuttu síðar með vítaspyrnulykt og átti síðan skot fljótlega þar eftir sem að Pepe Reina gerði vel að verja.

  Gestirnir gerðust örvæntingarfullir og fjölguðu sóknarmönnum inná í von um að jafna en fengu á sig skyndisókn í staðinn rétt undir lok venjulegs leiktíma. Curtis Jones var kominn inná sem varamaður og hóf sóknarupphlaup fram á við. Boltinn færðist á endanum á Robertson sem krossaði á Salah á fjærstöng og sá egypski skallaði til Jones sem kláraði snyrtilega í teignum með léttri viðkomu í Mings. Frábært fyrir Scouserinn unga að eiga öfluga innkomu með marki og það gæti ýtt undir fleiri mínútur fyrir hann það sem eftir lifir tímabilsins. Grealish átti gott skot í uppbótartíma sem að Alisson varði vel en leiknum lauk með öruggum heimasigri.

  2-0 sigur fyrir Liverpool

  Bestu menn Liverpool

  Margir leikmenn okkar voru að spila undir pari megnið af leiknum en af þeim sem hrósa má fyrir frammistöðuna þá var Salah líflegur fram á við með margar skottilraunir og stoðsendingu í lokin. Keita tókst að snúa ekkert sérstakri frammistöðu framan af leik sér í vil er hann fékk að vera áfram inná og launaði traustið með stoðsendingu. Þá var Trent Alexander-Arnold viljugur fram á við að vanda og Alisson traustur í öllum sínum aðgerðum þegar á þurfti að halda.

  Maður leiksins að mínu mati var Sadio Mané sem kom Liverpool loks á blað í leiknum með glæsilegu marki og var líflegur fram á við allan leikinn.

  Vondur dagur

  Keita, Origi og Oxlade-Chamberlain fengu séns í byrjunarliðinu en þeim gekk illa að nýta það tækifæri sem skyldi og sér í lagi var þeim síðastnefnda mislagðar fætur. Origi var í það minnsta með Robbie Fowler aflitun frá 1995 til að lífga leikinn upp en það dugði honum ekki til guðlegrar markaskorunar. Það var lýsandi þegar að Klopp skipti tveimur þeirra útaf ásamt Fabinho fyrir Henderson, Wijnaldum og Firmino til að stilla upp í sitt sterkasta lið síðasta hálftímann. Keita fékk þó að halda áfram leik en hann hafði verið skástur af þeim þremur og það reyndist vera góð ákvörðun þar sem hann lagði upp fyrsta markið fyrir Mané.

  Tölfræðin

  Umræðan

  Eftir fyrsta klukkutímann þá stefndi í ansi leiðinlega umræðu meðal Liverpool-áhangenda þar sem lítið var að gerast og margt gagnrýnivert. En það er svo mikil seigla í þessu liði að þeir hafa gert það að góðum vana að vinna leiki og slíkur karakter liðsins þýðir að þeir halda endalaust áfram í leit að 3 stigum. Svoleiðis eiginleikar skila meistaratitlum eins og raun ber vitni og því ástæðulaust að eyða of mörgum neikvæðum orðum í það sem betur mætti fara. Jákvæðu punktarnir eru enn einn sigurinn, árangursrík innkoma Keita í byrjunarliðið og mark frá uppöldum Scouser í liðinu.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðið vs. Aston Villa á Anfield

  Rauði herinn snýr aftur á Anfield eftir ógæfusama herferð í nágrannasveitarfélag. Miðlendingar Aston Villa eru komnir í heimsókn og eru í bullandi fallbaráttu. Okkar menn verða vonandi grjótharðir á að svara fyrir sig og safna stigum í sarpinn fyrir hugsanlegt stigamet í deildinni.

  Byrjunarliðin

  Eftir afhroðið gegn City þá gerir Klopp þrjár breytingar á byrjunarliðinu. Origi kemur inn fyrir Firmino í framlínuna og Keita og Oxlade-Chamberlain koma inn á miðjuna fyrir Henderson og Wijnaldum.

  Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Keita, Oxlade-Chamberlain, Mane, Salah, Origi.

  Bekkur: Adrian, Wijnaldum, Firmino, Henderson, Minamino, Shaqiri, Jones, Elliott, Williams.

  Dean Smith stillir sínu liði upp á eftirfarandi hátt og það vekur skemmtilega athygli að Pepe Reina er í markinu.

  Blaðamannafundur

  Klopp mætti pressunni á föstudaginn og fór yfir málin:

  Upphitunarlag dagsins

  Þar sem Birmingham-búarnir í Aston Villa eru mættir í Bítlaborgina þá er við hæfi að óskabörn Birmingham sjái um viðeigandi upphitun. Duran Duran og James Bond eru lagvissir og skotvissir að vanda og skjóta í mark eins og stórskotalið Rauða hersins:

  Leikurinn hefst klukkan 15:30 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Upphitun: Liverpool – Aston Villa

  Það er stutt milli leikja núna eftir langa pásu, sem er ágætt eftir úrslit vikunnar en það var mikið ryð í okkar mönnum eftir að hafa tryggt Englandsmeistaratitilinn og sjáum við afleita frammistöðu gegn City. Nú eru það hinsvegar Birmingham strákarnir í Aston Villa sem mæta á Anfield og spreyta sig gegn okkar mönnum.

  Villa er í bullandi fallbaráttu þrátt fyrir að hafa eytt næst mest allra liða í deildinni síðasta sumar en þeir eyddu 144,5 milljónum punda tæpum fjórum milljónum minna en Manchester United sem eyddu mest. Þeir hafa hinsvegar verið mjög óheppnir með meiðsli en markmaðurinn Tom Heaton og sóknarmaðurinn Wesley meiddust báðir í 2-1 sigri Villa á Burnley á nýársdag og misstu af hálfu mótinu. Næst besti leikmaður liðsins John McGinn meiddist á svipuðum tíma og leit út fyrir að hann myndi heldur ekki spila meira á tímabilinu en þriggja mánaða leikjapásan varð til þess að hann er byrjaður að spila aftur.

  Villa hefur spilað fjóra leiki síðan deildin var endurræst og hafa þeir gert tvö jafntefli og tapað tveimur og situr liðið nú með 27 stig eftir 32 leiki einu stigi frá öruggu sæti í deildinni og hafa þeir því að miklu að keppa. Þeir hafa skorað rúmlega mark í leik með 36 mörk í 32 leikjum en vandamálið hefur frekar verið hinumegin á vellinum þar sem þeir hafa fengið á sig sextíu mörk, næst mest allra í deildinni á eftir Norwich. Eftir meiðsli Heaton varð mikið bras í markmannsstöðunni hjá Villa, Orjan Nyland kom inn þegar hann meiddist en eftir að hann fékk á sig sex mörk gegn Manchester City var okkar fyrrum markmaður Pepe Reina fenginn inn 37 ára gamall. Reina náði hinsvegar ekki að leysa þessi vandamál því eftir endurkomu deildarinnar er Nyland kominn aftur í markið og fyrir meiðslin hjá Heaton hafði Jed Steer einnig spilað nokkrar mínútur og hafa Villa því notað fjóra mismunandi markmenn í deildinni á þessu tímabili.

  Fyrri leikur liðanna á þessu tímabili var hrikalega spennandi en Villa tók forustuna snemma leik og þarna sáum við mark dæmt af Firmino fyrir handakrika-rangstöðu áður en Robertson og Sadio Mané tryggðu okkur mikinn baráttu sigur með sitt hvoru markinu á lokamínútum leiksins. Við mættum þeim svo aftur í deildarbikarnum meðan allt aðalliðið okkar var að hita upp fyrir undanúslitaleik í heimsmeistarakeppni félagsliða í Katar og mættum við því með unglingaliðið í þann leik og léku Villa menn sér að þeim og unnu leikinn 5-0. Það gætu þó verið Villa menn sem mæta með yngsta manninn í þennan leik því það hefur verið slúðrað um að sextán ára sóknarmaðurinn Louie Barry sem þeir keyptu frá Barcelona í janúar fái að byrja sinn fyrsta leik gegn Liverpool á morgun og verður gaman að sjá þann unga strák sem Englendingarnir hófu upp til skýja þá sex mánuði sem hann var samningsbundinn Barcelona.

  Okkar menn

  Eftir að titillinn var tryggður og City leikurinn að baki þá hefur töluvert verið rætt hvernig Klopp muni leggja upp þá sex leiki sem eftir eru. Vissulega nokkur met enn í boði en það verður lítil pása eftir að þetta tímabil endar og þar til það næsta hefst og margir spáð því að við munum nýta þessa leiki sem eftir eru sem undirbúningstímabil fyrir næsta tímabil. Það gæti svo sem verið en eftir úrslit síðustu viku geri ég ráð fyrir að Klopp stilli upp sterku liði á morgun og leyfi þeim að sýna í enn eitt skipti af hverju þetta lið eru meistarar með tuttugu stiga forskot á toppi deildarnnar.

  Ég geri því ráð fyrir að sjá annað hvort sama, eða mjög svipað, lið og byrjaði gegn Manchester City og þá verði frekar nýttar vel skiptingarnar fimm. Eftir þennan leik gætum við svo farið að sjá tvær til þrjár breytingar á liðinu milli leikja og reyna koma mönnunum á jaðrinum meira inn í liðið.

  Þó gætum við vissulega séð einhverjar breytingar og þá líklegast að við sjáum Keita eða Chamberlain inn á miðjunni eða Minamino í fremstu víglínu.

  Spá

  Ég ætla að tippa á að liðið mæti af miklum krafti og valti yfir frekar slakt Villa lið og lokatölur verði 4-0 þar sem Salah, Mané og Firmino skora allir í fyrri hálfleik og loka markið kemur af bekknum, segjum bara að Minamino skori sitt fyrsta mark fyrir félagið.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close