Latest stories

 • Hverjir þurfa að sanna sig í sumar?

  Undirbúningstímabilið er alltaf mikilvægur grunnur fyrir nýtt tímabil og leggjur Jurgen Klopp ofuráherslu á að nýta þessar vikur sem best. Það er rosalega erfitt að koma inn í leikstíl Liverpool liðsins án þess að fá þessar 4-6 vikur á æfingasvæðinu með liðinu.

  Byrjunarlið Liverpool undanfarin ár hefur undanfarin ár verið nokkuð fastmótað og ætli einhver fyrir utan þennan segjum 14 manna kjarna að komast framar í röðinni er eins gott að byrja strax í júlí að sannfæra Klopp.

  Skoðum í gamni hvaða tíu leikmenn þurfa að eiga sérstaklega gott æfingatímabil: 

  Harvey Elliott – Markmið hans er augljóst, komast aftur í byrjunarlið Liverpool líkt og hann náði í byrjun síðasta tímabils. Þegar nýtt tímabil byrjar verður komið hálft ár frá því hann sneri aftur úr meiðslum og augljóslega gríðarlega mikilvægt fyrir hann að eiga gott undirbúningstímabil. Hann er með leikstíl félagsins á hreinu og hefur fengið smjörþefinn og býr að því núna. Hann er líklega nær byrjuarliðssæti núna í byrjun tímabils en t.d. Carvalho og eins líklega Curtis Jones.

  Luis Diaz – Kólumbíumaðurinn kom inn í Liverpool liðið með bullandi sjálfstraust eftir frábært tímabil í Portúgal. Hann eignaði sér nánast strax stöðuna sem Mané hefur spilað undanfarin ár og það án þess að ná mikið af æfingum með liðinu. Þegar liðið spilar 63 leiki er lítið um taktískar æfingar eftir áramót og líklega hafa þær aldrei verið færri en á síðasta tímabili. Núna þarf hann fyrir alvöru að fylla skarð Sadio Mané og er að taka sitt fyrsta undirbúningstímabil hjá Liverpool. Núna fær hann vonandi tækifæri til að kynnast liðsfélögunum fyrir alvöru og læra meira inn á þeirra leik.

  (more…)

  [...]
 • Gullkastið – Salah skrifar undir nýjan samning

  Salah er búinn að gera nýjan þriggja ára samning við Liverpool, hin toppliðin sitja heldur betur ekki auðum höndum í sumar og æfingaleikjatímabilið hefst strax í næstu viku.

  1.mín – Salah með nýjan samning
  14.mín – Fleiri leikmannakaup í sumar?
  23.mín – Breytingar á hinum liðunum
  55.mín – Æfingar og æfingaleikir framundan

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.
  Egils Gull (léttöl)
  Húsasmiðjan
  Sólon Bistro Bar
  Ögurverk ehf

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi
  Hljóðið í upptöku Magga var aðeins ójafnt og biðjumst við velvirðingar á því

  MP3: Þáttur 386

  [...]
 • Dagur 1

  Í dag er þjóðhátíðardagur bandaríkjanna og því ætlum við ekki að fagna neitt sérstaklega hér en það sem við ætlum að fagna er að það fer að styttast í næsta tímabil og í dag mættu 19 Liverpool leikmenn aftur til baka á æfingasvæðið en þetta eru þeir Adrian, Carvalho, Davies, Diaz, Elliott, Firmino, Gomez, Henderson, Kelleher, Konate, Matip, Milner, Oxlade-Chamberlain, Phillips, Ramsay, Thiago, N. Williams, R. Williams og Van den Berg en restin mun koma síðar í vikunni en það eru þeir leikmenn sem spiluðu landsleiki eftir að tímabilið kláraðist og fá því nokkra auka daga.
  Með þessum köppum verða nokkrir leikmenn úr unglingaliðinu en Pep Lijnders mætti í síðustu viku til að fylgjast með þeim og ætlaði að velja nokkra til að æfa með aðaliðinu.

  Æfingarleikir hjá Liverpool
  12.Júlí Man utd í Thaílandi
  15.júlí C.Palace í Singapore
  21.Júlí Leipzig í þýskalandi
  27.júlí Salzburg í Austuríki
  30.Júlí Man City King Power(Leicester heimavöllur) góðgerðaskjöldurinn
  31.júlí Strasbourg á Anfield

  Svo byrjar deildin gegn Fulham úti 6.ágúst

  [...]
 • Carvalho formlega tilkynntur – og tekur treyju nr. 28

  Við erum í raun búin að vita síðan í lok janúar að Fabio Carvalho yrði leikmaður Liverpool þegar leiktíðin 2022-2023 myndi hefjast, en félagaskiptin gengu í raun ekki formlega í gegn fyrr en núna um mánaðamótin, og hann var kynntur á heimasíðu félagsins núna í morgun.

  Jafnframt kom í ljós að hann myndi taka treyju nr. 28.

  Þetta þýðir að treyja nr. 10 verður að öllum líkindum ónotuð í vetur… NEMA það sé von á eins og einum kaupum til viðbótar…? Það þekkist reyndar alveg að lág númer séu ónotuð í einhvern tíma, t.d. er treyja nr. 2 búin að vera ónotuð síðan Clyne fór.

  Carvalho mætir til æfinga í fyrramálið, ásamt 18 öðrum leikmönnum, þegar James Milner mun vinna mjólkursýruprófið 30. árið í röð.

  [...]
 • Salah framlengir (Staðfest!)

  Lengstu sápuóperu síðari tíma (Leiðarljós og Nágrannar meðtalin) lauk núna í dag þegar Mohamed Salah skrifaði undir nýjan samning við Liverpool. Samningurinn gildir í 3 ár, eða til loka tímabilsins 2025, og flestir miðlar talar um að samningurinn tryggi Salah 350.000 pund á viku í laun. Það gerir hann að launahæsta leikmanni í sögu félagsins.

  Það stefnir því í að Salah verði leikmaður Liverpool í 8 tímabil samtals, í dag er hann í 81. sæti yfir leikjahæstu leikmenn í sögu félagsins en gæti klifrað upp í topp 30 ef hann sleppur við meiðsli á þessum 3 árum. Jafnframt má eiga von á því að hann haldi áfram að klifra upp listann yfir markahæstu leikmenn í sögu félagsins, í dag er hann í 9. sæti, hann vantar aðeins 2 mörk til að jafna Michael Owen í 8. sæti, og ef hann heldur svipuðum dampi næstu 3 ár eins og síðustu 5 er ekki loku fyrir það skotið að Salah komist upp í 3ja sæti. Ian Rush og Roger Hunt væru þá e.t.v. þeir einu sem ættu fleiri mörk en Salah. Ef niðurstaðan verður eitthvað í þessa áttina er klárt mál að Mohamed Salah verði minnst sem eins mesta og besta leikmanns í sögu Liverpool.

  Það var alltaf ljóst að Salah vildi halda áfram að spila fyrir Liverpool, enda veit hann sem er að betra umhverfi og stjóra fær hann hvergi í veröldinni.

  Við fögnum þessum tíðindum að sjálfsögðu!

  [...]
 • Hvað er að gerast á leikmannamarkaðnum?

  Undanfarin ár hefur Liverpool verið hálf vonlaust fyrir fjölmiðla sem þrífast á leikmannaslúðri og þess háttar fréttum og eins og útlitið er núna verður þetta sumar ekkert öðruvísi. Luis Diaz sem var alltaf hugsaður sem partur af þessum glugga, Darwin Nunez, Fabio Carvalho og Carlvin Ramsey hafa bæst við hópinn hjá Liverpool og félagið hefur gefið það út að ekki verði keypt meira í sumar. Við eigum þó eitt hálmstrá inni ennþá en það er áhugi félagsins á miðjumanninum Aurélien Tchouaméni. Liverpool var tilbúið að kaupa einn stærsta bita markaðarins núna í sumar sem gefur til kynna að félagið er að huga að breytingum á miðjunni þó þessi díll hafi ekki gengið eftir.

  Það er lítið að marka það þegar félagið segist ekki ætla að gera meira á leikmannamarkaðnum, Danny Ward var t.a.m. að fara verja mark Liverpool vikuna áður en Alisson kom. Liverpool var alls ekki á eftir Thiago skömmu áður en kaupin á honum voru staðfest o.s.frv.

  Hvað sem gerist hjá Liverpool er hópurinn núna klárlega ekki veikari en hann var þegar síðasta tímabil hófst og ágætt að benda á að félagið spilaði til úrslita í öllum keppnum og var hársbreidd frá því að vinna deildina með þessa miðju.

  Þó að það sé rólegt í kringum Liverpool núna er ljóst að hin toppliðin ætla sér stóra hluti og koma með töluvert breytt lið til leiks á næsta tímabili.

  Skoðum hvernig staðan er núna í lok júní: 

  Man City 

  City losaði Aguero af launaskrá eftir síðasta tímabil en keypti ekki sóknarmann í staðin úr því kaupin á Harry Kane gengu ekki upp. Jack Grealish var engin eftirmaður Aguero sem dæmi. Erik Haaland er mikið frekar eftirmaður Aguero og kemur auðvitað í stað Harry Kane sem verður líklega áfram hjá Spurs úr þessu. Julian Álvarez tekur svo væntanlega við hlutverki Gabriel Jesus sem allt of góður leikmaður til að vera varamaður en launin eru hressandi.

  Kalvin Phillips virðist svo vera við það að koma frá Leeds sem eftirmaður Fernandinho. Hann gæti myndað sterka miðju með Rodri í vissum leikjum eða skipt með honum verkum yfir langt tímabil.

  Marc Cucurella vinstri bakvörður Brighton er sterklega orðaður við City en gæti kostað töluvert þar sem hann á fjögur ár eftir af samningi og Brighton hefur engan áhuga á að selja. City verður skv. lögum félagsins að kaupa einn rándýran bakvörð á ári og sérstaklega núna m.v. bullið sem Mendy er búinn að skapa sér.

  Raheem Sterling er svo sterklega orðaður í burtu, hann á lítið eftir af samningi og er ósáttur við spilatíma hjá City. Chelsea og Arsenal eru sterklega orðuð við hann. Sama á við um Jesus sem er sagður svo gott sem kominn til Arsenal.

  Annað slúður sem lítið er marktækt ennþá er t.d. að Chelsea vilji Ake aftur, Gundogan vilji fara og eins hefur Zinchenko verið orðaður við nokkur úrvalsdeildarfélög.

  City virðist vera þétta hópinn hjá sér og styrkja byrjunarliðið umtalsvert með Haaland.

  Chelsea

  Það er alls ekki auðvelt að lesa í Chelsea eins og staðan er núna en ljóst að þeir verða að gera töluvert stórar breytingar á byrjunarliðinu (aftur). Fyrir það fyrsta er miðvarðaparið (Rudiger – Christiansen) farið, báðir samningslausir. Thiago Silva verður 38 ára í september.

  Romelo Lukaku gæti toppað Kepa sem verstu kaup í sögu Úrvalsdeildarinnar en hann er farin aftur til Inter, nú á láni. Hakim Ziyech er orðaður frá félaginu, þá sérstaklega við hitt Milan liðið. Auk þess er líklegt að leikmenn eins og Alonso, Barkley o.fl. fari í sumar.

  Stærsta spurningamerkið núna er hvernig Chelsea við fáum eftir tíma Roman? Það vantar ekki að þeir eru orðaðir við annanhvern leikmann og koma líklega til með að klára nokkra stóra samninga á næstu dögum og vikum. Sterling og Richarlison gerpið eru orðaðir við félagið. Dembele hefur verið í umræðunni í sumar sem og miðverðir eins og de Ligt hjá Juventus og Kounde hjá Sevilla.

  Enn sem komið er hefur Chelsea samt ekki keypt neinn leikmann. Þeir eru að losa töluvert pláss á launaskrá í þessum glugga og eiga að vanda töluvert af leikmönnum á láni sem þeir geta selt með ágætum gróða. Einn af þeim er t.d. Conor Gallagher sem gæti eins verið nógu góður orðið til að komast bara í lið Chelsea.

  Of snemmt að dæma hvort Chelsea verði sterkari á pappír fyrir þetta tímabil en þeir voru fyrir það síðasta.

  Man Utd

  Það er magnað hvað þörf er á mikilli tiltekt núna hjá United þrátt fyrir þróunarstarf og uppbyggingarfasa Ole Gunnar Solskjaer. Liðið er skipað leikmönnum sem Ferguson, Moyes, Van Gaal, Motormouth og Solskjaer fengu undir mismunandi formerkjum á ekki svo löngum tíma, fimm stjórar  (sex með Ragnick) og það er ekki eins og United hafi verið með DoF á þessum tíma sem hefur einhverja minnstu yfirsýn yfir leikmannakaup félagsins og framtíðarstefnu. Það var breytt um stefnu í hvert skipti sem nýr maður var settur í brúnna.

  Þeir sem voru búnir með samninginn er staðfest farnir og það eru þörf á losa annan eins fjölda strax í sumar en vandamálið er að sumir þeirra eru með samning sem ekkert lið er tilbúið að borga.

  Paul Pogba er auðvitað stærsta nafnið sem er farið og styrkir brottför hans strax liðið, móralinn og skapar pláss á launaskrá. Nemanja Matic og Juan Mata eru líka farnir, þeirra hátindur var sem leikmenn Chelsea, Old Trafford var elliheimilið þeirra.

  Cavani er farin frá félaginu og Greenwood ógeðið kemur líklega ekkert við sögu í vetur ef hann gerir það þá nokkurntíma aftur. Fyrir utan Greenwood eru þetta allt leikmenn sem voru komnir yfir síðasta söludag, a.m.k. hjá United (guð má vita hvernig Pogba verður annarsstaðar).

  Auk þeirra er næsta víst að Lingard fer annað og hefur hann t.d. verið orðaður við West Ham. Martial hlítur líka að fara loksins. Dean Henderson virðist vera að fara og spurning með menn eins og Phil Jones.

  United er ekki að fá mikið inn af peningum fyrir þessa leikmenn en brottför þeirra skapar töluvert pláss í hópnum og félagið er komið með miklu betri stjóra en þeir hafa verið með undanfarin ár.

  Donny van der Beek fær stjórann sem gerði hann að Donny van der Beek. Mögulega fær hann Frenkie de Jong með sér aftur á miðjuna sem eru gríðarlegt upgrade á þeim leikmanni sem Pogba hefur verið hjá United.

  Lisandro Martinez (miðvörður) og Antony (kantmaður) frá Ajax hafa verið orðaðir við United, líklega vegna þess að þeir eru fyrrum leikmenn Ten Haag. Sama á við um Christian Eriksen.

  Það er ljóst að United á eftir að láta hraustlega til sín taka á leikmannamarkaðnum næstu vikur en með því að skoða hópinn hjá þeim eins og hann er núna er líka helvíti mikið verk fyrir höndum. Darwin Nunez sýndi að það er ekkert sjálfgefið að þeir bestu vilji taka þátt í þessu sem hefur verið í gangi á Old Trafford undanfarið.

  Það er alls ekki einkenni vel rekinna knattspyrnuliða að gera mjög miklar breytingar milli ára og augljóslega of snemmt að dæma þetta sumar hjá United, þeir geta á móti ekki versnað mikið frá síðasta tímabili.

  Tottenham

  Antonio Conte gæti verið nógu góður stjóri og nógu klikkaður til að þvinga Daniel Levy til að eyða smá peningum í Tottenham liðið, svona úr því að hann skilaði þeim í Meistaradeildina. Hann ætlar a.m.k. að taka töluvert til og byrjaði af krafti í janúar.

  Bissouma er komin frá Brighton og Pericic frá Inter Milan, það er ekki til meiri Conte leikmaður en hann þó hann sé reyndar meira búinn að spila wing-back undanfarið frekar en sóknarmann. Klárlega hans hlutverk áfram í 3-4-3 kerfi Conte.

  Harry Kane og Son virðast ekki vera á förum og Spurs sleppur við annað svona Harry Kane sumar eins og þeir fengu að upplifa fyrir ári síðan.

  Spurs eru núna sterklega orðaðir við Richarlison gerpið og jafnvel Anthony Gordon líka frá Everton. Eins hafa þeir verið orðaðir við Raphinha frá Leeds og hafa verið í viðræðum við Boro um Djed Spence, hægri bakvörðinn sem var frábær á láni hjá Nott Forest í vetur.

  Daniel Levy er þó ekki gengin alveg af göflunum, hann á töluvert af góðum leikmönnum til að selja á móti frekari leikmannakaupum Conte. Harry Winks má víst leita á önnur mið, Bergwijn hefur verið í viðræðum við endurkomu til Ajax, Lo Celso hlítur að fara eftir að hafa farið á láni í janúar, sama má segja um NDoumbélé og Bryan Gil

  Tottenham munu mæta sterkari til leiks í haust.

  Arsenal 

  Það er ljóst að það fór illa í forráðamenn Arsenal að ná ekki Meistaradeildarsæti næsta vetur. Þeir eru með efnivið sem þeir geta ekki haldið lengi án þess að vera í Meistaradeild og miðað við slúðrið í sumar ætla þeir sér stóra hluti í vetur. Þeirra tiltekt hófst reyndar rétt eins og hjá Spurs strax í janúar.

  Fabio Vieira einn besti miðjumaður Portúgal er staðfest kominn á miðjuna og Gabriel Jesus er svo gott sem staðfestur einnig. Auk þeirra kom hinn ungi kantmaður Marquinhos og miðvörðurinn ungi Saliba skilaðir sér aftur úr láni hjá Marseille.

  Auk þeirra er Arsenal eitt þeirra liða sem eru sterklega orðað við Rapinha og eins Lisandro Martínez frá Ajax. Á móti losa þeir líklega Torreira, Maitland-Niles og og Pablo Marí frá félaginu.

  Arsenal stefnir í að koma mun öflugra til leiks í vetur með spennandi S-Ameríska sóknarlínu.

  Liverpool

  Liverpool er miðað við sama tíma fyrir ári síðan búið að kaupa Nunez, Diaz og Carvalho í framlínuna og bæta líklega Kadie Gordon enn meira við hana í vetur. Þeir inn í staðin fyrir Sadio Mané, Divock Origi og Minamino. Þetta er mun yngri og ferskari sóknarlína þó vissulega eigi enn eftir að fylla skarð Mané, það er meira en að segja það þó Diaz og Nunez hafi allt til alls að gera einmitt það.

  Ramsey er mjög óskrifað blað og óvíst hvað hann verður stór partur af aðalliðshópnum.

  Næstu leikmannakaup Liverpool verða líklega á miðjunni en ef maður skoðar núverandi hóp er ekki pláss fyrir mikið fleiri leikmenn, ekki nema einhver fari á móti. Thiago, Henderson, Fabinho og Keita eru aðal miðjumenn Liverpool og verða að berjast um 2-3 stöður í sumar. Það er öflug breidd. Jones, Ox og Milner eru kostir 5-7 þar fyrir aftan. Þróun Elliott og kaupin á Carvalho og Nunez benda svo til að Klopp ætli sér að breyta leik liðsins á næstu misserum eða a.m.k. hafa kost á því og skapa hlutverk fyrir meira sóknarþenkjandi miðjumann. Fabio Carvalho og Harvey Elliott eru báðir líklegir til að festa sig mjög fljótlega í sessi sem byrjunarliðsmenn í aðalliðinu, sérstaklega í slíku hlutverki. Slíkt hlutverk gæti líka hentað Jones og Ox mun betur.

   

  Þetta eru stærstu/ríkustu félögin, West Ham, Newcastle, Aston Villa og Leicester ætla sér t.a.m. öll mun stærri hluti en á síðasta tímabili.

  [...]
 • Mané og Minamino að fara, hverjir næst?

  Það eru þó nokkrar breytingar að verða á Liverpool liðinu í sumar og eftir kaupin á Darwin Nunez og Calvin Ramsey er líklega komið að því að tilkynnt verði formlega um brottför nokkurra leikmanna. Hverjir eru að fara eða líklegir til þess og hvaða leikmenn fylla þeirra skarð? Bæði nýjir leikmenn og þeir sem eru fyrir á mála hjá Liverpool?

  Sadio Mané – Stærsta nafnið til að yfirgefa Liverpool undir stjórn Klopp og alvöru verkefni að fylla hans skarð. Luis Diaz og Darwin Nunez hafa komið til Liverpool frá því síðasta tímabil hófst í ágúst 2021. Svo lengi sem enginn af hinum stórstjörnum sóknarlínunnar kveður í sumar er það meira en ásættanleg skipti og mjög spennandi þróun á Liverpool liðinu. Liverpool fær frekar 22-24 ára stráka eins og Diaz og Nunez og semur við þá í 5-6 ár í stað þess að borga Mané svipað mikið og þeir fá samanlagt í grunlaun til að halda honum hjá Liverpool þar til hann verður 33-35 ára.

  Minamino – Hann spilaði 179 mínútur í deildinni í tíu leikjum á síðasta tímabili, Liverpool einfaldlega treysti honum ekki þó hann hafi vissulega fengið sénsa í bikarleikjum og gripið þá mjög vel. Auðvitað var hann í bullandi samkeppni við frábæra leikmenn en það komu alveg tímar þar sem hópurinn var þunnur og mikið álag og Minamino samt ekki einu sinni í hóp.

  Mónakó er sagt vera kaupa hann fyrir €15m + €3m klásúlur sem er líklega undirverð fyrir leikmann í þessum gæðaflokki en meira en sanngjarnt fyrir leikmann sem Liverpool treysti ekki og keypti á meira en helmingi lægra verði. Hvað deildarleiki varðar skilur hann lítið sem ekkert skarð eftir sig

  Divock Origi – Ef að Minamino skipti litlu þá fékk Origi ennþá minna traust, hann spilaði 127 mínútur í deildinni, allar sem varamaður en skoraði reyndar þrjú mörk. Origi er að fara frítt til AC Milan og líkur þar með einum furðulegasta ferli nokkurs leikmanns Liverpool.

  Hann hefur aldrei fengið sénsinn almennilega í framlínu Liverpool, þegar hann virtist ætla að fá sæti í liðinu meiddist hann og sást ekki aftur svo vikum og mánuðum skipti. Mögulega er Origi samt sýnishorn af því hvað alvöru nía getur gert í framlínu Liverpool? Hann hefur sannarlega skorað helling af mörkum þrátt fyrir að passa illa við hugmyndafræði Klopp.

  Heilt yfir var Origi mjög pirrandi leikmaður hjá Liverpool, hann er miklu betri en þetta hlutverk sem hann hefur fengið og það skrifast fyrst og síðast á hann sjálfan. Virðist vanta svona S-Ameríska geðveiki í hann og sigurvilja. Það vantaði ekkert upp á hæfileikana.

  En eins pirrandi og hann hefur verið á köflum þá væru Liverpol ekki Evrópumeistarar 2019 án hans, fyrir utan öll fáránlega mörgu risa augnablikin sem hann hefur átt hjá Liverpool. Bill Kenwright teygaði kampavínsflösku í einum sopa þegar það var ljóst að Liverpool ætlaði ekki að endursemja við Origi.

  Nat Phillips – Vonandi er Liverpool að semja við Joe Gomez um að framlengja samningi sínum hjá Liverpool eins og fréttir undanfarið herma. Eins var eitthvað slúðrað um að mögulega yrði ekki látið Phillips fara. Til að svo megi vera er verið að lofa honum stærra hlutverki því að hann getur ekki farið aftur í hlutverk 5-6 valkosts. Þetta er leikmaður í Premier League gæðaflokki, bara ekki alveg Liverpool. Hann spilaði sig inn í byrjunarlið Bornemouth eftir áramót, liði sem fór upp um deild og eðlilegast væri að hann færi aftur til þeirra.

  Alex Oxlade-Chamberlain – Framtíð Ox gæti ráðið miklu um það hvort Liverpool geri eitthvað frekar á leikmannamarkaðnum í sumar. Eins og staðan er núna er slúðrað um að hann verði eitt ár til viðbótar hjá Liverpool, lokaárið hans á samningi en ef maður hugsar þetta rökrétt getur það bara ekki staðist. Hann var lítið sem ekkert meiddur á síðasta tímabili og kom við sögu í 17 leikjum, mest í janúar þegar Salah, Mané og Keita voru í burtu og Diaz ekki komin til Liverpool. Hann byrjaði gegn Norwich í febrúar, var á bekknum nokkra leiki í kjölfarið en komst svo ekki í hóp síðustu 6-7 vikur tímabilsins. Hann er 29 ára, hefur verið meiddur meira og minna allan sinn feril og er aldrei að fara festa sig í sessi sem leikmaður Liverpool úr þessu. Hann náði því einu sinni í 7-9 vikur (fyrir fjórum árum).

  Hann þarf að fara annað til að fá traust og spilatíma en Liverpool þarf líka að losna við hann. Það vantar ekkert upp á fjölda miðjumanna hjá Liverpool, svosem ekki gæðin heldur. Það vantar fleiri trausta miðjumenn og Ox er og hefur lengi verið veikasti hlekkurinn. Sem sóknartengiliður eru Carvalho, Elliott og Jones líklega allir komnir framúr honum og þurfa það pláss sem hann tekur í hópnum.

  Ef að hann fer er líklegra að Liverpool fari í meiri bráðabirgðarlausn heldur en Bellingham level leikmannakaup. Marco Asensio frá Real Madríd hefur sem dæmi við orðaður við Liverpool í þessari viku, Gini Wijnaldum til baka á láni hefur líka verið í umræðunni. Bæði eitthvað sem ég hef enga trú á en einhver þannig kaup, sambærilegt því þegar Shaqiri sem dæmi var fengin, leikmaður sem aldrei hugsaður sem fyrsti kostur. Ef að Ox fer ekki verður hópurinn líklega óbreyttur.

  Neco Williams – Það virðast nokkur lið hafa áhuga á að fá Neco Williams og hann er kominn með reynslu til að takast á við Úrvalsdeildarbolta. Conor Bradley er farin til Bolton á láni þannig að ef Neco fer er ljóst að Calvin Ramsey er ungi og efnilegi hægri bakvörðurinn næsta vetur.

  Aðrir

  Loris Karius er loksins farinn frá Liverpool, Ben Davies fer líklega í sumar (ef hann er þá til í alvörunni), miðvörður sem komst ekki í Liverpool liðið þó að bókstaflega allir miðverðir félagsins væru meiddir. Grujic er formlega farin til Porto, Woodburn og Ojo eru ekki lengur á mála hjá Liverpool.

  Þetta eru slatti af leikmönnum sem fæstir skipta einhverju alvöru máli fyrir utan Sadio Mané. Þeir skapa hinsvegar pláss í leikmannahópnum sem ég hugsa að Liverpool reyni að fylla með leikmönnum sem eru nú þegar á mála hjá Liverpool. Hvaða leikmenn gætum við verið að vanmeta í aðdraganda næsta tímabils, eru ekki nokkrir sem komu við sögu í fyrra sem gera kröfu á stærra hlutverk næsta vetur?

  Hverjir koma í staðin?

  Fabio Carvalho – Líklega erum við að vanmeta all hressilega hversu góður þessi leikmaður er og hversu mikið hann kemur til með að spila í vetur. Hann spilaði 35 leiki í deild hjá Fulham aðeins 19 ára og var frábær mest allt tímabilið. Þetta eru tæplega 3.000 mínútur bara í deildarleikjum og hann er ekki að fara sætta sig mjög lengi við að spila bara brotabrot af því og líklega er honum ætlað stærra hlutverk en margir átta sig á.

  Hann er miklu meira ógnandi en núverandi miðjumenn Liverpool og góður í pressuvörn. Hann er aðeins tvítugur og ekki nálægt sínu þaki sem leikmaður sem er verulega spennandi nú þegar hann er kominn til Jurgen Klopp. Mögulega sjáum við lítið af honum fyrstu 3-4 mánuðina en eftir það gæti hann vel ógnað stöðu einhvers af lykilmönnum liðsins. Áhugavert líka við hann að hjá Fulham spilaði hann fyrir aftan stóra og öfluga níu í Mirtovic. Darwin Nunez er klárlega turbo útgáfa af honum sem nía.

  Harvey Elliott –  Elliott kom inná undir restina á opnunarleiknum í fyrra og byrjaði svo næstu þrjá leiki þar á eftir, þá 18 ára. Thiago, Henderson, Keita, Jones og Ox voru allir tiltækir á bekknum í mismunandi leikjum, þ.á.m. gegn Chelsea á útivelli. Elliott fór svo beint í byrjunarliðið eftir að hann kom úr meiðslum en var augljóslega ekki í sama standi. Þetta miklu frekar en hvernig hann datt úr hóp í lok tímabils ætti að gefa til kynna að honum er ætlað alvöru hlutverk hjá Liverpool. Hann er ekki að fara spila 35-38 deildarleiki aðeins 19 ára en sleppi hann við morðtilræði á vellinum ætti hann klárlega að ná miklu fleiri mínútum en þeim tæplega 400 sem hann spilaði síðasta vetur.  Hann spilaði þessa leiki sem miðjumaður og m.v. leikmannakaup Liverpool í sumar er hann líklega hugsaður sem slíkur.

  Curtis Jones – Hann var óstöðugur á síðasta tímabili, inn og út úr hópnum en kom samt við sögu í 15 deildarleikjum og 23 leikjum alls. Þetta er fullkomlega eðlilegt fyrir tvítugan strák og ljóst að félagið hefur trú á honum. Núna er stóra spurningin hvort hann taki næsta skref. Ef að Klopp hefur trú á að hann geri það gæti það alveg verið svarið jafnvel þó að Ox fari í sumar. Ekki þessi bráðabirgðalausn sem komið var inná áðan heldur meira traust á uppalinn heimamann eins og Jones. Hann er stundum dæmdur eins og hann sé ungur og efnilegur a la Jessie Lingard (28 ára), ekki í alvörunni ennþá ungur og mjög efnilegur tvítugur strákur.

  Calvin Ramsey – Er hann líklegri til að eigna sér hlutverk varamanns Trent Alexander-Arnold en Neco Williams og Conor Bradley voru? Undanfarin ár hefur Klopp frekar leitað til Joe Gomez eða James Milner í fjarveru Trent.

  Ramsey spilaði 18 ára 33 leiki í fyrra, þar af sex Evrópuleiki og var valin efnilegasti leikmaður skosku deildarinnar. Hann fær vægast sagt spennandi meðmæli. Ég hef trú á að hann fái fljótlega mínútur í hægri bakverði og þar með tækifæri til að eigna sér þetta hlutverk framfyrir Gomez og Milner.

  Naby Keita – Liverpool á Keita ennþá töluvert inni, hann spilaði bara 1/3 af mínútufjölda síðasta tímabils og haldist hann heill gæti þeim fjölgað á kostnað Henderson sérstaklega (32 ára) og auðvitað Thiago sem er á meiðslalista ca. 40% af hverju tímabili (eins og Keita).

  Joe Gomez – Hann fékk síðsta tímabil til að ná sér af meiðslum og leið svo fyrir það að Liverpool var ekki í nálægt því í sömu meiðslavandræðum og árið áður. Ef að hann er að ná sér eru allar líkur á að Klopp finni miklu stærra hlutverk fyrir hann næsta vetur en rúmlega 300 mínútur í deildarleikjum. Hann er t.a.m. ekki í landsliði öfugt við Van Dijk og Konaté.

  Ný nöfn – Hverjir gætu komið sér á kortið á undirbúningstímabilinu?

  Kadie Gordon – Brottför Origi og Minamino er nauðsynleg fyrir stráka eins og Kadie Gordon, hann kom til Liverpool sem svipað efni og Harvey Elliott og sýndi afhverju í þeim leikjum sem hann hefur komið við sögu í hjá Liverpool. Hann verður 18 ára á þessu ári og kemur til með að gera kröfu á meira en 160 mínútur af aðalliðsmínútum eins og hann fékk í fyrra.

  Sepp van der Berg – Það er erfitt að sjá hann brjóta sér leið inn í myndina hjá Klopp en á móti kom hann ekki fyrir svo löngu síðan sem eitt mesta efnið í sinni stöðu í heiminum og hefur núna spilað heilt tímabil í Championship deildinni. Mögulega of góður samt fyrir hlutverk 5-6 í miðverði.

  Tyler Morton – Aðstæður voru að einhverju leiti með Morton í liði en hann kom við sögu í sjö leikjum á síðsta tímabili. Líklega er hann ekki partur af framtíðarplönum Klopp en á meðan ekki er keyptur miðjumaður (annar en Jay Spearing) er hann einn af fáum varnartengiliðum í hónum. Hann fer örugglega með til Asíu og Austurríkis í sumar.

  Fyrir utan þessa sem við höfum aðeins fengið að sjá eru líka mikil efni í akademíunni sem gætu farið að banka meira, Billy Koumetio sonur Van Dijk og Konate er orðin tvítugur, Frauendorf, Musialowski og Balagizi eru 18-19 ára og hafa allir á einhverju stigi verið talaðir gríðarlega upp. Harvey Blair hefur spilað fyrir aðalliðið og boltasækirinn Okley Cannonier er orðin 18 ára og skorar helling af mörkum í yngri flokkum.

  Ef einn af þessum nær í gegn er það stórmál, flestir af þessum strákum hafa hæfileikana en vantar mögulega heppni og/eða vilja til að ná alla leið. Trent Alexander-Arnold fékk sénsinn 18 ára vegna þess að Clyne meiddist út tímabilið og Joe Gomez var hans varamaður. Hvenær hefði hann komið inn annars? Líklega hafa sjaldan verið eins margir rosalega efnilegir verið í akademíu Liverpool áður, strákar sem ættu nokkrir að eiga mjög góðan feril sem atvinnumenn. En á sama tíma hefur Liverpool liðið heldur aldrei verið eins sterkt og lögmálið um að það byrji bara 11 leikmenn inná hefur ekkert breyst. Fimm skiptingar gæti hinsvegar orðið til þess að einhverjir af þeim fái fleiri sénsa á að sýna sig.

  [...]
 • Ramsay til Liverpool (Staðfest)

  Liverpool var í morgun að staðfesta það sem er búið að vera mál manna síðustu vikur: að táningurinn Calvin Ramsay er genginn til liðs við félagið. Þetta er 18 ára pjakkur sem kemur frá Aberdeen, og hefur það pínkulitla hlutverk að koma í staðinn fyrir Trent Alexander-Arnold, besta hægri bakvörð í heimi, þegar þess gerist þörf, en sitja á bekknum annars. Í skosku deildinni átti hann 9 stoðsendingar og skoraði eitt mark. Það lítur út fyrir að hann eigi að koma beint inn í hópinn, en verði ekki lánaður út (eins og gert var með Elliott t.d.). Hann tekur skyrtunúmerið 22, en síðasti leikmaður með það númer var Simon Mignolet.

  Jafnframt er útlit fyrir að þetta verði síðasti leikmaðurinn sem Liverpool kaupi í glugganum, með þeim fyrirvara að ef eitthvað breytist varðandi langtímamarkmið félagsins (t.d. að leikmaður sem klúbburinn er búinn að fylgjast með og stefnir á að bjóða í í framtíðinni) kemur á markaðinn, þá er aldrei að vita nema Klopp og Ward taki upp veskið. Ekki sitt eigið samt, skárra væri það nú.

  Nú er að sjá hvaða leikmenn yfirgefi klúbbinn á næstu tveim mánuðum. Mikið talað um leikmenn eins og Ox, Taki, Neco og Nat (og svo auðvitað Mané sem verður væntanlega kvaddur formlega á næstu 2-3 dögum), en látum það ekki koma okkur á óvart þó brottfarirnar verði færri en margir halda. Það er t.d. talað um að einhverjir sjái Nat Phillips fyrir sér sem leikmanninn sem komi í staðinn fyrir Matip, og e.t.v. fari hann á láni í vetur – mögulega aftur til Bournemouth – en komi svo aftur og verði “squad player”. Sjáum hvað setur. Tilkoma Calvin Ramsay ætti þó að segja okkur að Neco er á förum, að minnsta kosti á láni og líklega seldur.

  Við fögnum því að sjálfsögðu að tenging Liverpool við skoska boltann haldi áfram, því öðruvísi vinnur Liverpool ekki deildartitilinn.

  Velkominn Ramsay!

  [...]
 • Mané á förum

  Annað illa geymt leyndarmál síðustu daga virðist nú vera að komast upp á yfirborðið, en innstu koppar í búri hafa gefið það út að Liverpool og Bayern München hafi náð samkomulagi um að Sadio Mané gangi til liðs við þýsku meistarana. Það er talað um að kaupverðið séu 35m punda, en eins og gengur þá er hluti þeirrar greiðslu tengdur árangri leikmanns og liðsins í heild.

  Þetta var viðbúið, sérstaklega í ljósi þess að Mané átti aðeins eitt ár eftir af samningi. Ef Liverpool ætlaði að fá eitthvað fyrir kappann, þá þurfti að selja hann núna, eða leyfa honum að spila í eitt ár til viðbótar og láta hann fara frítt að ári.

  Hér er klárlega um ákveðin tímamót að ræða, enda hefur þríeykið Salah-Mané-Firmino myndað eina allrabestu framlínu heims – ef ekki þá bestu – síðustu 4-5 ár.

  Mané hlýtur að verða minnst sem eins besta leikmanns sem hefur klæðst Liverpool treyjunni, ef ekki væri fyrir þær tölur sem Salah hefur verið að framkalla þá hefði Mané líklega alltaf verið aðalstjarna Liverpool síðustu ár. Að vissu leyti skilur maður ef hann vildi fá nokkur ár á toppnum án þess að vera í skugga Salah, sem dæmi þá hafa fréttir af samningamálum Salah tröllriðið fjölmiðlum á síðustu leiktíð, en nánast ekki heyrst múkk um samningamál Mané. Það er alveg ljóst að Mané á skilið alla þá virðingu sem við Liverpool aðdáendur getum sýnt honum, enda hefur hann verið einn áreiðanlegasti leikmaður félagsins á síðustu árum. Hann náði að vinna allt sem hann gat unnið með félaginu, og við kveðjum hann með þakklæti í huga.

  Svona til að dempa aðeins sorgina, þá var gefið út að Jay Spearing hefur gengið til liðs við félagið að nýju, og mun aðstoða við þjálfun U18 ásamt því að spila með U23. Vissulega sérstakt að 33 ára leikmaður sé fenginn til að spila með unglingaliðunum, en við fögnum þessu að sjálfsögðu enda Spearing ákveðin “költ” hetja hjá klúbbnum.

  Velkominn Spearing, bless Mané, og gangi þér allt í haginn!

  [...]
 • Gullkastið – Klopp lið Liverpool 2.0

  Darwin Nunez er komin til Liverpool en Sadio Mané er að fara. Tókum stöðuna á helstu fréttum af Liverpool á leikmannamarkaðnum og horfðum til næsta tímabils sem er handan við hornið.

  1.mín – Darwin Nunez
  25.mín – Mané að fara
  38.mín – Calvin Ramsey frá Aberdeen
  46.mín – Fleiri að fara/koma í sumar?
  58.mín – Leikjaplanið 22/23

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.
  Egils Gull (léttöl)
  Húsasmiðjan
  Sólon Bistro Bar
  Ögurverk ehf

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Óli Haukur

  MP3: Þáttur 385

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close