Podcast – Porto Partý

Það er rétt að vara við því að við vorum allir í Porto í síðustu viku og komum örlítið inn á þá veislu í þessum þætti. Þvílíka syngjandi þurmu svaka vikan, maður lifandi. Porto tapar ekkert svona stórt á heimavelli og Travelling Kop kann heldur betur að skemmta sér.

Kafli 1: 00:00 – Hversu stórt statement var þessi sigur?
Kafli 2: 11:10 – Djöfull var gaman í Porto, sögur úr ferðinni.
Kafli 3: 24:36 – Hvaða leikmenn var skemmtilegast að horfa á með berum augum?
Kafli 4: 31:15 – Fremstu þrír, bestq tríó í heimi?
Kafli 5: 37:10 – Súper sunnudagur – Liverpool vann, United tapaði
Kafli 6: 46:30 – Leikmenn að koma úr meiðslum og leikmenn á láni
Kafli 7: 58:25 – Stöðutékk á baráttuinni um Meistaradeildarsæti.
Kafli 8: 1:02:57 – West Ham um helgina

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn og Maggi.

MP3: Þáttur 184

Porto ferð lokið – Opinn þráður

Þá er Porto ferðinni lokið hjá hluta af Kop.is genginu. Vægast sagt sturluð ferð alveg frá a-ö. Þeir Einar Matthías og Maggi eru komnir með háskólagráðu í Liverpool söngvum eftir þessa daga. Það er ansi fátt í þessu lífi sem toppar það að vera hluti af the travelling Kop í Evrópukeppni, flóknara er það nú ekki. Því miður er alltof langt í næsta leik og okkar menn að leika sér á Spáni. Vonandi að þeir láti það alveg vera að ræna bifreiðum, en það virðist vera partur af undirbúningi hjá sumum liðum.

Annars er lítið að frétta, bara ansi löng bið eftir því að David Moyes komi með sína drengi í heimsókn á Anfield, aðra helgi. 3 stig í þeim leik eru GRÍÐARLEGA mikilvæg. Ekki það að öll stig séu ekki mikilvæg, en þá sömu helgi taka Man.Utd á móti Chelsea og Arsenal fá City í heimsókn. Spurs spila á útivelli gegn Palace. Risa stórt tækifæri til að styrkja stöðu okkar enn frekar í þessari hund erfiðu deild. Að sjálfsögðu viljum við jú tryggja okkur sæti í Meistaradeild á næstu ári, ég er alveg til í nokkra djúsí leiki gegn alvöru liðum þá. Annars er orðið laust, látið vaða á súðum.

FC Porto 0-5 Liverpool

Það var norður-enskt slagveður í Porto í kvöld og fótbolti spilaður í kunnuglegum rigningarsudda. Liverpool veðraði storminn og tók meistaraslaginn í gini drekans á  Estádio do Dragão.

Mörkin

0-1   Sadio Mané 25.mín
0-2   Mohamed Salah 29.mín
0-3   Sadio Mané 53.mín
0-4   Roberto Firmino 69.mín
0-5   Sadio Mané 85.mín

Leikurinn

Leikurinn byrjaði rólega sem hentaði Liverpool ágætlega enda á erfiðum útivelli á Estádio do Dragão. Porto fengu fyrsta færi leiksins þegar að óákveðinn varnarleikur Liverpool hleypti Otavio í skotfæri sem Lovren gerði vel í að komast fyrir og boltinn fór yfir markið. Fátt markvert gerðist næsta korterið með nokkrum hálffærum og leikurinn var í þægilegu jafnvægi.

Á 25.mínútu kastaði markvörður Porto boltanum fram á völlinn og sú sending var étinn upp af hungruðum Lovren á miðjunni og Wijnaldum göslaðist áfram í kröftugu hlaupi sem endaði með sendingu á Mané í skotfæri. Senegalinn lét vaða með æfingabolta á José Sá í markinu sem sá ekki til sólar og missti skotið undir handarkrikann. 0-1 Liverpool og komnir með gullmark á útivelli.

Einungis fjórum mínútum síðar átti James Milner flottan sprett og hann lauk honum með fallegu innanfótarskoti sem small í stönginni hjá Porto. Frákastið féll til Salah sem tók enn eitt egypska-Messi-mómentið með því að halda boltanum á lofti með rist og kolli áður en hann slúttaði í opið markið.  Þetta róaði taugar okkar manna sem höfðu þó verið vel stemmdir það sem af var leik. Fyrri hálfleikur fjaraði þægilega út og það var frekar að Liverpool myndi bæta við heldur en að fá á sig mark miðað við gang leiksins.

0-2 fyrir Liverpool

Porto hefði þurft að gera alvöru áhlaup strax í upphafi seinni hálfleiks en það virtist sem að staða leiksins og varnarveggur Liverpool soguðu alla mótstöðu úr þeim. Góð staða varð frábær á 53.mínútu þegar að Salah geystist upp í skyndisókn og lagði upp færi fyrir Firmino. Skotið var varið frá þeim brasilíska en boltinn féll þægilega fyrir Mané sem kláraði færið auðveldlega í netið. Einvígið við það að verða búið en samt var nóg eftir í þessum leik.

Liverpool gáfu engin grið og héldu áfram vinnusamri pressu og stálvilja til að gjörsamlega dauðrota drekann á hans heimavelli. Önnur skyndisókn á 69.mínútu gaf Milner hafsjó af plássi á vinstri vængnum og sá enski lagði boltann snyrtilega út í teiginn á Firmino sem slúttaði frábærlega í gegnum varnarklof og í netið.

Gjörsigraður leikur og Klopp nýtti tækifærið til að hvíla menn með þremur innáskiptingum og gaf Danny Ings sinn fyrsta Meistaradeildaleik á ferlinum. Ings launaði greiðann með stoðsendingu á Mané sem tók við boltanum fyrir utan teig, keyrði upp í átt að vítateignum og hamraði boltann í netið til að fullkomna sína þrennu á mögnuðu kvöldið Porto. Kop.is-liðar á vellinum eru eflaust ennþá að fagna á vellinum í þessum töluðu orðum enda ekki á hverjum degi sem Liverpool vinnur 0-5 útisigur gegn öflugu evrópsku liði í Meistaradeildinni.

Bestu menn Liverpool

Vörnin og markvarslan var svo gott sem fullkomin með mjög örugga frammistöðu þar sem allir leikmenn leystu fagmannlega allar tilraunir Porto til markskorunar. Wijnaldum og Milner voru kröftugir á miðjunni og báðir með stoðsendingar, en fyrirliðinn Henderson var engu síðri í sínum leik í djúpri miðjustöðu. Salah og Firmino voru mjög flottir með sín mörk og frábærir í skyndisóknum og alltaf hættulegir með sinni sköpun. En auðvitað er enginn annar en þrennu-hetjan Sadio Mané maður leiksins í kvöld. Fremstur meðal jafningja með sín mörk í frábærri liðsframmistöðu.

Vondur dagur

Augljóslega átti enginn hjá Liverpool vondan dag á kvöldi sem þessu, en það er helst að morgundagurinn verði í þynnra lagi fyrir Kopverja og íslenska Púlara í Porto-borg sem munu vafalítið fagna fræknum fimm-marka sigri langt fram á nótt. Endurminningarnar munu þó ylja þeim snögglega um hjartarætur og auðvelda lífið í fyrramálið.

Tölfræðin

Karius hélt hreinu í 8. skipti í 16 leikjum á þessum vetri og er með ansi vígalegt vinningshlutfall. Hann er að vaxa hratt í sínu hlutverki og megi það það halda áfram sem lengst þannig að fáum þann toppmarkmann sem okkur dreymir um að hafa í rammanum.

Umræðan

Púlarar verða í sjöunda himni með stöðu mála og munu núna taka sér 10 daga leikhlé vegna ónefndra bikarkeppni sem engu máli skiptir. Við erum komnir áfram í CL og erum ósigraðir í appelsínugula yfirstrikunar-varabúningnum (7-9-13). Einnig er sú sögulega staðreynd á sveimi að síðustu skiptin sem Liverpool vann útisigra í Portúgal að þá urðu þeir Evrópumeistarar árin 1978 og 1984 (aftur 7-9-13).

Eins og meistari Sigkarli myndi orða það: Það er nú þannig!

YNWA

Byrjunarliðið gegn Porto í CL

Þá er komið að því! Rauðliðar eru mættir til púrtvínsborgarinnar Porto til að etja kappi við FC Porto í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Eftirvæntingin er massíf og til mikils að vinna.

Lið Liverpool hefur verið kunngert og er eftirfarandi:

Bekkurinn: Mignolet, Gomez, Moreno, Lallana, Oxlade-Chamberlain, Ings, Matip.

Breytingar frá síðasta leik gegn Southampton er að Matip og Oxlade-Chamberlain fara á bekkinn og Emre Can er í banni. Fyrirliðinn Henderson er mættur í hjarta miðjunnar ásamt samlanda sínum Milner og Lovren fær tækifæri við hlið Virgils van Dijk.

Miðverðir Liverpool voru með framherja Porto í gjörgæslu!

 

Íslenskir Kopverjar eru með öfluga stuðningsmannasveit á suðrænum slóðum sem munu gefa líkama og sál í að styðja Rauða herinn á erfiðum útivelli. Fylgist því vel með á Twitter undir #kopis þar sem Kop.is-meistararnir verða duglegir við að gefa okkur innsýn í útivallarstemmningu með harðkjarna Púlurum.

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Porto – Liverpool: leikþráður

Þá er leikdagur runninn upp, liðið verður auðvitað ekki tilkynnt fyrr en rétt fyrir leik, en við hendum inn leikþræði til að kynda undir stemminguna.

Það er fjöldinn allur af íslendingum úti sem verða á leiknum í kvöld, þar á meðal stór hluti af kop.is genginu. Hver veit nema það detti inn myndir og athugasemdir frá okkar fólki á staðnum, hvort sem er hér á þræðinum eða á Twitter undir myllumerkinu #kopis: