Liverpool 0 v Roma 1

Liverpool er að fara að leika þriðja æfingaleik sumarsins í kvöld gegn AS Roma á Fenway Park í Boston.

Byrjunarliðið er sem hér segir:

Jones

Kelly – Skrtel – Coates – Enrique

Allen – Lucas – Coutinho

Borini – Lambert – Ibe

Bekkur: Ward, Agger, Robinson, Phillips, Coady, Can, Henderson, Suso, Peterson.

Sem sagt blanda af aðalliðsmönnum og aukaleikurum í leikmannahópi okkar í dag. Henderson er eini HM-farinn sem tekur þátt og hinn ungi Lazar Markovic er ekki heldur með af ókunnum ástæðum.

Lið Rómverja er nokkuð sterkt og það verður áhugavert að sjá Ashley Cole á meðal Ítalanna.

Útsending frá leiknum hefst kl. 23:30 og verður hann í beinni á LFC TV GO og Stöð 2 Sport. Ég uppfæri færsluna að leik loknum.


Uppfært: Leiknum lauk með 1-0 sigri Rómverja. Borriello skoraði markið á 90. mínútu með viðkomu í svona átján leikmönnum eða eitthvað. Fáránlega slysalegt, einmitt þegar maður var farinn að gæla við vítaspyrnukeppni til að réttlæta vökuna.

Annars var leikurinn mjög daufur. Borini datt á öxlina snemma og þurfti að fara út af. Emre Can kom inná og stóð sig mjög vel á miðjunni ásamt Lucas Leiva og besta manni vallarins, Phil Coutinho. Aðrir voru daufir. Jose Enrique á talsvert langt í land með að vera leikfær og var tekinn út af í hálfleik. Hann hefur verið frá keppni í 9 mánuði og var langt frá sínu besta í kvöld.

Fátt annað gerðist markvert. Ég er pirraður að þetta fór ekki í vító.

Næsti leikur er svo á sunnudag og þá mætir restin af aðalliðinu til leiks skilst mér.

Um Loic Remy

Liverpool er sagt hafa virkjað klásúlu í samningi Loic Remy hjá QPR þess efnis að hann megi fara til Meistaradeildarfélags fyrir £8,5m. Hann hefur einnig samþykkt kaup og kjör við okkar menn og hefur verið á leiðinni til Boston í læknisskoðun sl. tvo daga. Mín kenning er sú að þar sem hann missti af því þegar liðið flaug út hafi honum verið reddað miða sjóleiðina. Þetta passar ágætlega m.v. að kynning á honum (og væntanlega Origi) er áætluð á fimmtudaginn.

Loic Remy er líklega í fljótu bragði það næsta sem við komumst í beinum leikmannakaupum í staðin fyrir Luis Suarez þó slíkur samanburður væri auðvitað verulega ósanngjarn og langt frá því hvernig forráðamenn Liverpool eru að hugsa þetta. Kaup á 27 ára sóknarmanni sem var á láni í fyrra koma kampavíninu ekkert úr kælinum en skoðum hann aðeins betur, það er hellingur spunnið í þennan leikmann þó ferill hans hafi verið töluvert misjafn.

Loic Remy – leið hans til Liverpool
Remy hefur hæfileika sem líklega hafa heillað Scoutahreyfinguna frá því hann kom fyrst fram á sjónarsviðið sem mjög hrár og fljótur unglingur í Lyon þaðan sem hann er fæddur og uppalinn. Hann spilaði með mjög góðu og virtu unglingaliði sem heitir ASPTT Lyon og var stjórnað af René Jacquet, bróðir Aimé Jacquet sem gerði Frakka að heimsmeisturum nokkrum árum áður. René Jacquet var með sambönd út um allt í knattspyrnuheiminum og endaði með því að Remy gekk til liðs við Tola Vologe, heimsfræga akademíu Lyon og spilaði þar upp lokaárin í yngri flokkum með mönnum eins og Benzema og Ben Arfa. Hann fékk samning hjá Lyon 2006 og spilaði sinn fyrsta leik í október sama ár er hann kom inná fyrir Sylvian Wiltord. Stjóri Lyon á þessum tíma var enginn annar en Gerard Houllier og var það hann sem gaf honum sitt fyrsta tækifæri. Remy átti þó mjög erfitt uppdráttar hjá Lyon sem varð meistari tímabilið á eftir með þá Benzema og Ben Arfa í banastuði ásamt þeirra „Emile Heskey“ sem Houllier keypti í formi John Carew.

Lens 2008
Remy var að verða 22 ára og fór á láni til Lens í janúar 2008 til að fá leikreynslu og spilaði með þeim 10 leiki og skroaði 3 mörk.

Nice 2008-11
Samningurinn kvað á um að þeir hefðu möguleika á að kaupa hann er lánstíminn væri liðinn, Lens nýtti það ekki en Remy fór í stðin til Nice fyrir um €8m og var það hæsta verð á þeim tíma sem Lyon hafði fengið fyrir leikmann. Nice er lítill klúbbur og var á þessum tíma um miðja deild eða neðar. Þar sprakk Remy út í búningi númer 7 (just saying) og fór að skapa sér nafn fyrir alvöru. Hann skoraði 11 mörk fyrsta heila tímabilið sitt hjá félaginu og 16 mörk tímabilið á eftir en hann var ýmist látinn spila frammi eða á kantinum. Frábær frammistaða hans með Nice skilaði honum sæti í landsliðshópi Frakka.

Þarna fórum við fyrst að heyra þetta nafn enda einn heitasti sóknarmaður Evrópu. Rafa Benitez og njósnarateymi hans var búið að fylgjast með honum af áhuga frá því hann var í akademíu Lyon og var hann oft orðaður við Liverpool sem og önnur lið eftir árið 2009. Tímasetningin gat þó ekki verið verri því loksins þegar Liverpool ákvað að kaupa hann var ekki til króna í kassanum og skipt var um stjóra. Þann 16.júlí 2010 kom færsla á kop.is þess efnis að búið væri að bjóða í Remy skv. Sky Sports. Þar kom fram að Eduardo Macia sem var hjá Liverpool öll árin sem Benitez var stjóri hefði fylgst með honum í fimm ár og hefði mælt með Remy við Roy Hodgson sem þá var ný tekinn við. Haft var eftir umboðsmanni Remy í sömu frétt að hann hefði alla burði til að verða stórstjarna á Englandi og væri mikið til í að koma til Liverpool. Hann væri jafnfættur, gríðarlega fljótur og að lokum tók umboðsmaðurinn fullan Houllier á þetta og sagði að Remy minnti mikið á Thierry Henry og gæti jafnvel orðið betri en hann.

Fjórum dögum seinna fór Hodgson í viðtal og sagði þetta um einn efnilegasta leikmann Evrópu:

„He’s a player who was mentioned to me by the scouting department and a player the club were following before I came.
„He’s a player I know very little about. If I am going to be interested in a player I am going to have to watch him playing, study him and make judgments which I have not been able to.“

Liverpool keypti Joe Cole, Poulsen, Konchesky o.s.frv. stuttu seinna. Tony Pulis stjóri Stoke var meira að segja meira með puttann á púlsinsum en Hodgson og var sagður hafa boðið €10m í Remy eftir að hafa fylgst með honum hjá Nice, án árangurs þó.

Reyndar munaði mjög litlu að Remy hefði farið aftur heim til Lyon hálfu ári áður (janúar 2010). Stuðningsmenn Nice tóku slæmu gengi félagsins í lok árs 2009 mjög illa og hræktu á leikmenn liðsins, þ.á.m. Remy sem sagði þá hegðun óásættanlega og hótaði að yfirgefa liðið í janúarglugganum. Hann var þarna einn heitasti sóknarmaðurinn í Frakklandi og var Lyon tilbúið að kaupa hann aftur með því að nýta sér buy back klásúlu í samningi hans við Nice. Það gekk þó ekki í gegn þar sem stjóri liðsins Claude Puel vildi ekki eyða peningnum í hann. Remy var að vonum ekki sáttur enda Lyon næst hjarta hans (hans orð) og lýsti hann tilfinningum sínum svona

“I´m as disappointed as a kid who was promised a present then refused it at the last second.”

Marseille 2010-13
Eftir miklar vangaveltur allann veturinn og nánast allt sumarið fór það á endanum svo að Loic Remy endaði hjá Frakklandsmeisturum Marseille en stjóri þeirra (Didier Deschamps) hafði alveg séð Remy spila og það oft. Kaupverðið er talið hafa verið um €15m en hann var þó tæpur að ná í gegnum læknisskoðun, niðurstöður þeirrar skoðunnar sýndu mögulegan hjartagalla sem hefði líklega endaði feril Remy. Hann missti af fyrsta leik Marseille meðan beðið var eftir niðurstöðum sem komu nokkrum dögum seinna og sýndu að hann væri í lagi og mætti spila fótbolta á hæsta leveli.

Hjá Marseille byrjaði Remy með látum og leiddi sóknarlínu þeirra, hann skoraði 17 mörk fyrsta tímabilið sitt hjá félaginu og 20 mörk tímabilið á eftir. Þarna fékk hann einnig reynslu af því að spila í Meistaradeildinni og virtist vera að standa undir þeim væntingum sem alltaf hafa verið gerðar til hans í Frakklandi. Hann var metinn á rúmlega €20m á þessum tíma en hélt sig þó áfram hjá Marseille. Tottenham bauð í hann í janúarglugganum en Marseille vildi ekki selja sinn besta mann enda liðið í 6. sæti í deildinni og komið í 16-liða úrslit í meistaradeildinni. Hver hefði trúað því að þeir hefðu einnig haft Remy undir smásjánni?

Seinni hluti tímabilsins var þó afar slæmur fyrir Remy sem meiddist í febrúar og spilaði aðeins einn heilan leik eftir það. Marseille gekk ekki vel í deildinni og var Remy því alltaf látinn spila um leið og hann var kominn í sæmilegt stand sem gerði það að verkum að hann náði sér aldrei og meiddist ítrekað aftur.

Þriðja tímabil hans hjá Marseille var martröð og beint framhald af seinni hluta tímabilsins á undan, hann spilaði aðeins 12 leiki og var mjög mikið meiddur á þessum tíma og áhugi stærstu liða Evrópu dvínaði. Samband hans og Marseille var orðið stirrt í restina og Remy vildi yfirgefa félagið. Stór partur af ástæðunni var einnig að Elie Baup var tekinn við Marseille af Deschamps og Remy náði ekki eins vel til hans.

QPR 2012-13
Hann langaði að prufa eitthvað nýtt til að endurvekja ferilinn og vildi reyna sig í enska boltanum þangað sem hann fór í janúar 2012. Marseille samþykkti €10m boð frá Newcastle sem boðaði hann í læknisskoðun daginn eftir. Þetta var allt hið stórundarlegasta mál því Remy mætti ekki til Newcastle heldur poppaði upp í London þremur dögum seinna og skrifaði undir tæplega fimm ára samning við botnlið QPR. Kaupverðið er talið hafa verið um £8m sem er met hjá QPR og launin hans voru sögð vera um £70,000 á viku sem er mun meira en Newcastle var tilbúið að bjóða.

Þetta þótti mörgum (og þykir enn) bera vott um peningagræðgi leikmannsins enda QPR ekki að fara neitt nema beint niður um deild og hann allt of góður leikmaður til að taka þessa fáránlegu stefnubreytingu á ferlinum 26 ára. Þá búinn að vera einn af betri sóknarmönnum Frakklands fjögur af fimm tímabilum þó stjarna hans hafi vissulega dvínað undir það síðasta hjá Marseille.

Ekki hjálpaði það ímynd Remy að hann var handtekinn fjórum mánuðum seinna ásamt tveimur öðrum, grunaður um að hafa tekið þátt í hópnauðgun. Hann ásamt félögum sínum neitaði þó alltaf sök og var ekki sakfelldur, málið var látið niður falla í febrúar 2014. Hann opnaði sig vegna þessa stuttu seinna og sagði þetta mál hafa fengið mikið á sig og m.a. verið til þess að ekkert stórlið sýndi honum áhuga á síðasta ári er hann endaði á láni hjá Newcastle.

Newcastle 2013-14
Hjá skítlélegu liði QPR skoraði Remy 6 mörk í 14 leikjum og féll með þeim vorið 2013. Newcastle landaði honum loksins í kjölfarið en þó aðeins á lánssamningi. Hann er of góður til að spila í Championship deildinni og var á EPL launum sem fékk QPR til að samþykkja þennan lánssamning. Skuggi vegna nauðgunarmálsins vofði einnig yfir en Remy vildi nýta tækifærið og fara til Newcastle, stuðningsmenn þeirra tóku honum vel þrátt fyrir að hafa valið QPR nokkrum mánuðum áður og vildi hann þakka þeim fyrir það.

Hjá Newcastle byrjaði Remy með látum og var búinn að skora 8 mörk eftir 10 leiki þrátt fyrir að hafa misst úr byrjun tímabilsins vegna meiðsla. Þegar yfir lauk var hann búinn að skora 14 mörk í 27 leikjum og koma sér aftur inn í myndina hjá stóru Meistaradeildarliðunum. Liverpool og Arsenal hafa þar helst verið nefnd til sögunnar ásamt auðvitað Newcastle og virðumst við núna loksins vera að landa þessum leikmanni, Loic Remy er nafn sem hefur líklega verið á korktöflunni á skrifstofu Liverpool í að verða áratug og hann hefur að ég held verið orðaður (mismikið) við Liverpool í öllum leikmannagluggum sl. 6 ár.

Frammistaða Remy í fyrra tryggði honum einnig sæti í sterku liði Frakka á HM í sumar þar sem Remy var sprækur. Hann á núna 24 landsleiki með Frökkum og finnur fyrir hjá Liverpool vin sinn Mamadou Sakho.

Leikmaðurinn
Samningur Remy við Liverpool er sagður verða til fimm ára ef af verður og vonandi nær hann loksins almennilegri fótfestu. Hann var fáanlegur á þessu lága verði vegna klásúlu í samningi um að mega fara til liða í Meistaradeildinni. Hann hefur talað um það síðan hann kom til QPR að hann teldi sig hafa getuna í að spila fyrir topp 5 klúbb í öllum stærstu deildum Evrópu, síðast í mars sagði hann þetta við France Football

„Nowadays, without being pretentious, I might be able to play for a bigger club, a top-five European club.

„I do not know… Yes, I will be part of the European top five, or I will be part of a very large club. I’m sure of what I can do. I can still be much better.“

Kostir
Helsti kostur Remy er hversu fljótur hann er að hlaupa, hann er ekki ósvipaður Djibril Cisse hvað þetta varðar fyrir fótbrotin og reyndar er það ekki alveg tilviiljun að Remy hefur alla tíð verið líkt við Henry þó hann sé enn sem komið er ekkert í sömu deild og gamli Arsenal snillingurinn. Við erum að tala um að hann getur verið fáránlega fljótur og hans helsti styrkleiki er að stinga varnarmenn andstæðinganna af og þannig kemst hann oft einn gegn markmanni. Hann var alltaf kantmaður/vængframherji á fyrstu árum ferilsins en fór að spila meira fremst hjá Marseille er sóknarmaður þeirra (Giganc) meiddist. Didier Deschamps stjóri Marseille setti Remy upp á topp og hann svaraði þeirri ábyrgð vel.

Hann leitar mikið út á vænginn og því er vel hægt að skilja að margir sjái takta Henry í honum. Það er reyndar ekki ólíklegt að Henry sé eitt af hans átrúnarðargóðum enda báðir frakkar, spila sömu stöðu og það passar m.v. aldur og leikstíl beggja. (Fullkomlega að giska hérna).

Lið sem sækja á Liverpool gætu lent í basli með hraðabreytingarnar sem Remy býr yfir og hann gæti þrifist mjög vel í mun betra og sókndjarfara liði en hann hefur verið að spila með áður. Hann er mjög hungraður í að sanna sig hjá stóru liði og þetta er hans stóra tækifæri, einmitt eiginleikar sem FSG vill að leitað sé að hjá leikmönnum sem keyptir eru til félagsins.

Hann er samt ekki bara fljótur og alls ekki eins einhæfur og Cisse. Remy getur spilað á vængnum líka og hefur gert það töluvert í öllum liðum sem hann hefur spilað með, hann er engu að síður bestur sem striker. Hann er einnig ágætur í loftinu og veit alveg hvar markið er með höfðinu rétt eins og löppunum, hann skoraði m.a. helming marka sinna með höfðinu veturinn 2011/22 (Marseille). Hann skoraði meira að segja 5 af 15 mörkum sínum hjá Nice (2009/10) með höfðinu þrátt fyrir að spila á kantinum.

Remy er sagður vera nokkuð einfættur, eða réttara sagt hann er miklu betri og skotvissari með hægri löppinni þó hann sé ekkert John Arne Riise lélegur með veikari löppinni. Hann er mjög góður slúttari og nýtir færin sín vel. Sérstaklega er hann hættulegur í svona Henry hlaupum inn af vængnum. Remy kemur þá inn af vinstri vængnum og leggur boltann fyrir sig á hægri löppina.

Margt af þessu gæti vel verið lýsing á Daniel Sturridge og líklega er það breidd sem Remy gefur Liverpool fyrst og fremst. Remy skoraði bara tveimur mörkum minna en Wilfred Bony á síðasta tímabili og var með einni færri stoðsendingu þrátt fyrir að hafa spilað átta leikjum minna. Svona ef einhver vildi frekar að þau kaup yrðu kláruð. Flestir sóknarmenn sem spilað hafa undir stjórn Brendan Rodgers undanfarin ár hafa bætt sinn leik töluvert og Remy þarf ekki að bæta markaskorun sína mjög mikið til að verða með allra markahæstu mönnum.

Gallar
Remy er þó alls ekki gallalaus og það er ekki tilviljun og óheppni að leikaður með alla þessa hæfileika hefur ekki (ennnþá) náð lengra á ferlinum. Hann er sagður vera frekar latur sóknarmaður sem vinnur ekki nægjanlega mikla varnarvinnu, gangi honum vel að komast upp með slíkt hjá Liverpool þar sem sóknarmenn þurfa að skila litlu minni varnarvinnu en aðrir leikmenn liðsins. Remy þarf að breyta leikstíl sínum töluvert til að uppfylla þessi skilyrði og m.v. þessar lýsingar kæmi mér ekki á óvart ef hann myndi byrja á bekknum í fyrstu umferðunum og koma þá inn til að sprengja sóknarleikinn upp.

Hvort sem menn flokka það sem ókost eða ekki þá er hann einnig sagður töluvert valtur á fótunum og dettur við minnstu snertingu. Sjáum til og látum á það reyna hjá Liverpool áður en við förum að dæma hann út frá slíku. Hann er einnig sagður vera erfiður í skapinu og eru orðrómar uppi um að hann hafi neitað að spila lokaleik tímabilsins fyrir Newcastle sem var einmitt gegn Liverpool (óstaðfest slúður). Eins var hann eitthvað búinn að mála sig út í horn hjá Marseille er hann fór þaðan.

Moneyball hugmyndafræðin gengur út á að nýta sér svona hluti og ef eitthvað er til í þessu kemur ekkert á óvart að FSG taki sénsinn á honum þrátt fyrir þessar lýsingar, munum að hann blómstraði hjá bæði Nice og Marseille er hann hafði stjóra sem treystu á hann og spiluðu honum. Við munum einnig að Daniel Sturridge var lýst á svipaðan hátt.

Remy er einmitt sagður vera nokkuð eigingjarn líkt og Sturridge. Að lokum er hann víst ansi oft gripinn í landhelgi og er það líklega sú neikvæða lýsing á honum sem ég hef hvað mestar áhyggjur. Það er fátt meira pirrandi en sóknarmenn sem eyðileggja allt of margar sóknir með því að virðast ekki kunna rangstöðuregluna.

Niðurstaða
Remy var nokkuð spennandi kostur fyrir 4-5 árum þó maður vissi sama og ekkert um hann. Ef að hann væri 4-5 árum yngri núna væri maður líklega afar spenntur fyrir þessum leikmanni en hann hefur það ekki með sér að vera ungur og efnilegur lengur. Stöðugleiki er það sem hann þarf að sýna til að komast í lið Liverpool og líklega fær hann aldrei betra tækifæri en nákvæmlega núna. Brendan Rodgers er á pappír líklega einn besti stjóri sem Remy gat lent undir núna og hjá Liverpool er hann með eitt mest skapandi knattspyrnulið knattspyrnunnar á bak við sig. Umræðan eftir síðasta tímabil er nánast öll á þann við að Suarez hafi haldið þessi liði einn á floti en við ættum að vita töluvert betur og þeir sem gengið hafa til liðsins það sem af er tímabili ættu allir að þétta möguleika okkar sóknarlega.

Rodgers þarf að finna leikmenn sem skila 10-20 mörkum og planta þeim í kringum Sturridge. Loic Remy hefur gert nákvæmlega það hjá öllum liðum sem hann hefur spilað með og er núna á besta aldri og nýbúinn að endurheimta sjálfstraustið eftir frábært tímabil með afar döpru liði Newcastle. Hann hefur alla burði til að verða miklu betri í hjá betra liði. Hvort sem honum tekst að sýna það eða ekki þá býr miklu meira í Remy en hann hefur sýnt og nú 27 ára ætti hann að vera nálgast hátind síns ferils. Hann hefur alla burði til að gera eins og Daniel Sturridge og springa út fyrir alvöru hjá Liverpool.

Miðað við markaðinn í dag eru 8m allt að því þjófnaður fyrir Remy og áhættan lítil sem enginn, það liggur við að manni finnist þetta verð of lágt og mögulega dregur það ómeðvitað úr spenningnum.

Þetta eru auðvitað engin Torres eða Suarez leikmannakaup og ekki verið að gera þær væntingar til Remy, en það kæmi mér alls ekki á óvart ef hann kæmi ansi mörgum á óvart í búningi Liverpool og verði mun betri en margir halda. Hann hægir a.m.k. ekkert á sóknarleiknum það er ljóst.

Yfir til þín Zaf

Stevie hættur með landsliðinu

Mikið er ég nú hrottalega ánægður með að Stevie G sé búinn að taka allan vafa af með framtíð sína með landsliði Englands. Hann er hættur og það mun bara styrkja Liverpool liðið og jafnvel að lengja ferilinn hans örlítið. Hann á allavega ekki á hættu lengur að meiðast í landsleikjum. Anso oft hefur slíkt gerst, en hann er búinn að spila heila 114 leiki með enska landsliðinu. Ég fagna því jafnframt ákaflega að hann þurfi ekki að hlusta oftar á Roy Hodgson og mögulega lengir það ferilinn hans líka. Til hamingju með þetta Stevie.

Annars er lítið markvert í fréttum. Ennþá er beðið eftir staðfestingu á Lovren, Remi og Origi. Lítið hefur verið að gerast í vinstri bakvarðarmálum, sem er furðulegt, því það er að mínum dómi sú staða sem við þurfum mest að styrkja. Persónulega var ég að vonast eftir Ben Davies, en Spurs virðast búnir að landa honum með því að senda Gylfa ykkar Sigurðsson í hina áttina. Leist reyndar alltaf ágætlega á Moreno og þó svo að opinberlega sé búið að segja að viðræður hafi farið í strand, þá vilja sumir meina að það sé bara partur af prógramminu. Sjáum til með það.

Ekkert meira komið út úr Borini eða Assaidi málum, magnað ef við næðum yfir 20 milljónir punda inn í kassann fyrir þá tvo. Ég á svo alveg von á því að það verði eitthvað líf og fjör í kringum nokkra „fringe“ leikmenn. Coates hlýtur að verða skipað að finna sér annað lið. Ilori verður vonandi sendur á lán aftur og sömu sögu er að segja af Wisdom. Finnst reyndar frábært að verið sé að lána hann innan úrvalsdeildarinnar. Ef menn standa sig á svoleiðis láni þá eru möguleikarnir fyrir þá sjálfa og okkar lið miklu meiri. Sjáum bara með Assaidi og Borini, vs. Suso. Jack Robinson og Connor Coady eru svo tveir sem ég sé ekki eina framtíð hjá Liverpool. Sömu sögu er að segja af Martin Kelly, pirrar mig bara mikið að sjá hvernig sá drengur hefur sturtað hæfileikum sínum niður með öðrum úrgangi síðustu árin.

Ég komst líka að því á föstudaginn að við Babú erum álíka lélegir í golfi, en ég sé reyndar ekki hvernig sú staðreynd tengist Liverpool á neinn hátt og því furðulegt að þetta fái að standa hérna á síðunni. Kristján Atli, er engin ritstýring hérna?

Lovren sagður nálgast

Meira en nóg að gera í slúðrinu og það nýjasta kemur frá Króatíu þar sem fjölmiðlar þar halda því fram að Dejan Lovren gangi til liðs við Liverpool í dag eða á morgun fyrir €20m.

Tökum þessu auðvitað með fyrirvara en króatíski blaðamaðurinn Alexander Holiga henti þessu á twitter áðan og sagði þann sem skrifaði fréttina nokkuð traustan. (Holiga var mikið að forvitnast um Ísland og landsliðið fyrir leiki Íslands og Króatíu). Lovren til Liverpool eru svosem ekki nýjar fréttir en mögulega er það mál eitthvað nær niðurstöðu.

Loic Remy ætti svo að klárast í næstu viku líka fyrir £8m. Förum betur yfir hann þegar búið er að staðfesta þann díl.

Isco er orðaður við Liverpool í dag (ásamt Di Maria) en enn sem komið er (að ég held) á miðlum sem við tökum við afar miklum fyrirvara.

Fabio Borini fór síðan með liðinu til USA sem setur stórt spurningamerkið við brottför hans frá Liverpool þrátt fyrir gott boð Sunderland í kappann.

Remy inn, Borini út

Fréttamiðlarnir birtu flestir í kvöld sömu fréttirnar: Liverpool virðist vera að kaupa Loic Remy frá QPR á 8.5m punda (það ku vera klausa í samningi hans að lið í Meistaradeildinni geti keypt hann á því verði) og á sama tíma er félagið búið að ná samkomulagi við Sunderland um sölu á Fabio Borini fyrir 14m punda.

Sjá: Liverpool Echo, The Guardian, The Mirror.

Fyrst, salan á Borini: mér þykir smá eftirsjá í honum því ég held enn að hann hefði getað orðið fínn kostur fyrir okkur en að fá 14m fyrir hann er frábær díll. Ef við erum að kaupa Remy á 8.5m erum við í rauninni að fjármagna kaupin á bæði Lambert og Remy með einum Borini. Það eru góð viðskipti.

Næst, kaupin á Remy: ég er sáttur við þetta. Hann er sennilega sá framherji þarna úti sem býr yfir flestu af því sem Daniel Sturridge býr yfir þannig að hann getur fyllt skarð Sturridge án vandræða lendi sá síðarnefndi í meiðslum. Þá skoraði hann 14 mörk í 26 leikjum fyrir Newcastle í Úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð þannig að hann veit alveg í hvaða átt markið snýr.

Þessi tvö tíst setja þessi viðskipti mjög vel upp:

Nákvæmlega. Hér er verið að styrkja leikmannahópinn talsvert og koma út úr því á sléttu. Svo getið þið bætt Lallana og Markovic við, auk þess sem vonandi kemur inn fyrir Suarez-peninginn, og þá er allavega að verða ljóst að breiddin stóreykst í sumar. Það er lykilatriði fyrir liðið, að mínu mati.

Ég vona að þetta gangi í gegn. Við fylgjumst með næstu daga og sjáum hvort Remy-kaupin nást í gegn eða hvort Arsenal eða Tottenham blandi sér í baráttuna eins og ég hélt að yrði raunin í vor. En mér líst vel á þetta.