Erfiðasta afstaðið?

Fyrir tímabilið horfðum við strax í gríðarlega þungt útileikjaprógramm Liverpool í byrjun mótsins. Fyrstu sjö útileikir tímabilsins voru gegn þeim liðum sem við myndum raða í efstu sjö sætin yfir erfiðustu útileikina. Meirihluti heimaleikja Liverpool var svo strax í kjölfarið á Evrópudeildarleik en sú keppni hefur kostað nánast öll lið sem taka þátt stig, Liverpool hefur ekki ennþá unnið leik strax í kjölfar Evrópudeildarleiks á þessu tímabili og það er ekki tilviljun.

Gríðarleg meiðslavandræði lykilmanna hafa auðvitað bitið fast ásamt því hversu rosalega þunnskipað liðið er í sumum stöðum á vellinum, en Evrópudeildin er (of) þung keppni fyrir lið sem ætla sér að keppa í deildinni heimafyrir við lið sem spila sambærilega keppni (Meistaradeildin) sem gefur fjófalt meiri pening til að bæta hópinn.

Man Utd, Man City, Chelsea og jafnvel Arsenal hafa öll alveg nógu mikið forskot á Liverpool fjárhagslega án Evrópukeppna. Hvað þá ef þessi lið eru að spila jafn mikið af leikjum í Evrópu en Liverpool fær bara brot af þeim fjárhæðum sem hin liðin fá til að takast á við það, sama á við um Tottenham og Everton. Ég veit alveg að menn vilja vinna allar keppnir en það kostar alltaf einhversstaðar og Liverpool hefur alls ekkert verið að afsanna þetta í kjölfar Evrópuleikja í vetur. Þessi grein sem vísað er í hér er sláandi, hvort sem menn kaupa þessa tölfræði eða ekki.

Engu að síður er vonandi það versta afstaðið.
Þessi rosalega útileikjahrina er að baki og niðurstaðan ásættanleg 12 stig af 21 mögulegum þökk sé síðustu tveimur útileikjum sem voru vel yfir væntingum.
Meiðslavandaræðin eru alls ekki að baki en við eigum von á Henderson og Sturridge á næstunni og menn eins og Benteke, Lallana og Firmino eru allir heilir eins og er en allir hafa verið tæpir það sem af er móti á einhverjum tímapunkti. Vörnin er gríðarlega þunnskipuð en vonandi er meiðslalistinn að styttast.
Þyngsti hluti Evrópudeildarálagsins er vonandi að baki og liðið gæti jafnvel tryggt sig áfram fyrir síðasta leikinn. Bordaux á fimmtudaginn gæti kostað stig gegn Swansea en sá leikur er a.m.k. á heimavelli eins og Swansea leikurinn. Það gæti líka hjálpað í næstu tveimur leikjum að við höfum eða eru að endurheimta marga lykilmenn m.v. sambærilegt leikja-combo fyrr á þessu tímabili.
Liverpool er töluvert sigurstranglegra með Firmino svo góðan frammi að Sturridge og Benteke eiga ekki greiða leið í byrjunarliðið heldur en þegar Origi var gjörsamlega eini valkosturinn. Þetta segir sig sjálft.

Það er síðan oft gott að meta gengi liðsins út frá sömu leikjum árin á undan frekar en að skoða endilega stöðuna í deildinni eftir 13 umferðir. Liverpool er ekkert búið að spila sömu leiki og liðin fyrir ofan okkar menn í deildinni og þetta gæti snúist hratt.

Svona hefur stigasöfnun Liverpool verið undanfarin ár í nákvæmlega sömu leikjum og liðið hefur spilað það sem af er þessu tímabili.
23.11.15 Sömu leikir 2013-15
Þrátt fyrir allt eru þetta fimm stigum meira en liðið var að ná á síðasta tímabili og aðeins þremur stigum minna heldur en liðið náði 2013/14 (sem var frábært tímabil).

Sigur á Bournemouth (1.sæti í Championship 2014) er t.a.m. bæting frá sama leik í fyrra sem var gegn Leicester (1.sæti í Championship 2013) en sama stigasöfnun og gegn Cardiff 2013/14 (1.sæti í Championship 2012).

West Ham og Norwich eru mjög dýr töpuð sig ásamt Tottenham miðað við undanfarin ár. Aston Villa sigurinn vinnur upp á móti þar og stig gegn Arsenal er betra en liðið hefur gert undanfarið ásamt auðvitað frábærum sigurleikjum gegn City og Chelsea. Þeir leikir meira en allir hinir gera það að verkum að þetta tímabil er ennþá galopið, sérstaklega upp á 4.sætið. Það tapast ekki í nóvember þó staðan í deildinni sé ekki glæsileg núna.

Eftir 13 umferðir í fyrra (ekki sömu leikir) var Liverpool með 14 stig en 24 stig árið 2013/14. Þetta sýnir okkur fyrir það fyrsta hversu rándýr hver leikur er í þessari deild og á sama tíma að þetta tímabil er ennþá galopið hjá Liverpool. Eftir sigurleiki gegn Chelsea og City úti og tap gegn Crystal Palace heima er Liverpool jafnlíklegt til að fara í báðar áttir í næstu umferðum. Nýr stjóri hefur þó bara verið með liðið í sex vikur og er að koma sínum fingraförum á leik liðsins, so far so good.

Næstu sex leikir Liverpool hafa gefið 13 stig af 18 mögulegum undanfarin tvö tímabil. 4 sigrar, 1 tap og eitt jafntefli. Ef við horfum lengra fram í tímann vandast leikjaprógrammið töluvert því þessir þrír aukaleikir skiluðu aðeins einu stigi í fyrra en fullu húsið árið áður.
23.11.15 - Sömu leikir 2013-15 framundan
Næstu sex umferðir eru eitt samfellt bananahýði og Liverpool hefur verið að tapa mikið af stigum í vetur í sambærilegum leikjum. Hinsvegar höfum við nánast aldrei haft Sturridge, Benteke eða Firmino 100% heila í þessum leikjum og tíma hafa þeir allir verið frá í einu. Ásamt auðvitað Danny Ings sem er svo mikið meiddur að maður telur hann varla með lengur. Með slíka sóknarmenn aukast líkur á sigri gríðarlega gegn þessum liðum, eðlilega.

Eftir þessa sex leiki er mótið hálfnað, Liverpool var með 28 stig eftir 19 umferðir í fyrra en 36 stig tímabilið 2013/14. (Þá nýbúnir að tapa tveimur leikjum í röð gegn Chelsea og Man City).

Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu tímabilið tekur hjá okkar mönnum í næstu leikjum, vonandi er það erfiðasta afstaðið, þessi byrjun kostaði stjórann m.a. starfið sem segir kannski eitthvað um byrjun okkar manna. Núna eru 8 stig í topplið Leicester og 11 stig í fallbaráttuna.

Ég treysti Jurgen Klopp til minnka bilið í toppsætið fram að áramótum. Til þess þarf hann að bæta árangur okkar manna strax í kjölfar Evrópuleikja. Enn hefur Liverpool ekki tapað leik í kjölfar deildarbikarleiks en það gilda sömu lögmál um þá keppni. Deildin er númer 1,2,3,4,5,6,7,9 og 14.

Meðan okkar menn eru farnir að ganga frá City og Chelsea á útivelli veit ég ekki hvaða lið Liverpool á eiginlega að óttast? Nema auðvitað Liverpool. En liðið sem við sáum um helgina á að stefna á efstu fjögur sætin í deildinni í það allra minnsta.

Sunnudagsmolar

Mikið er knattspyrnan skemmtileg íþrótt. Hér eru nokkrir sunnudagsmolar:

  • Langar ykkur ekki að sjá þetta lið taka United á Anfield eftir tæpa tvo mánuði? Það eru enn nokkur laus pláss í Kop.is hópferðina í janúar. Skellið ykkur með, allar frekari upplýsingar á vef Úrval Útsýnar. Þetta er síðasta vikan áður en lokað verður á skráningar! Nú eða aldrei!
  • 1-3 á Stamford Bridge og 1-4 á Empty-had Stadium. Og Liverpool spilaði báða þessa leiki með Benteke, Sturridge, Ings etc. á bekknum eða utan hóps vegna meiðsla. Stóra spurningin er í raun þessi: er liðið svona gott með falska níu eða er Bobby Firmino svona óvænt góður striker? Eitt mark og tvær stoðsendingar. Frammistaðan hans í gær minnti mig ískyggilega mikið á annan mann sem skoraði einmitt tvö mörk sjálfur í enn stærri leik. Þið vitið hvern ég meina. Allavega, á meðan liðið spilar svona með Bobby Firm í fremstu víglínu léttir það pressunni á Big Ben og Studge (ókei, nóg með uppnefnin) talsvert. Það er bara jákvætt.
  • Brendan Rodgers vann aðeins einn útileik gegn topp 5 og Everton í 23 tilraunum. Jürgen Klopp er núna með tvo sigra og eitt jafntefli í þremur fyrstu útileikjum sínum gegn þessum sex. Hver sem skoðun ykkar á Rodgers var er nokkuð augljóst að við vorum að uppfæra. Þetta er sama lið og var nánast bókað að myndi spila ömurlega á Old Trafford fyrir tveimur mánuðum. Hver er munurinn? Þetta lið trúir núna, trúir á sjálft sig og heldur haus undir pressu.
  • Nú eru þessir sjö skelfilegu útileikir búnir, það sem við óttuðumst að myndi rústa tímabilinu áður en það hæfist. Og hver er afraksturinn? Þrír sigrar, þrjú jafntefli og bara þetta eina ömurlega tap á OT. Það er einfaldlega frábær árangur! Verst að liðið er bara með 8 stig af 18 mögulegum á Anfield yfir sama tímabil. Ímyndið ykkur ef þetta lið færi nú að vinna heimaleikina líka …

Hér eru að lokum nokkur bestu tístin frá því í gær:

Hehe.

Heheheheheheheheheheheheheeh.

Can er 22 ára í janúar og gekk í gengum það sama og Sagna og Mangala hjá City, svona áður en einhver fer að reyna að gera lítið úr þessu með því að segja að Frakkarnir í liði þeirra hafi gefið Liverpool forgjöf. Can var ótrúlegur í gær.

Lithgow! Og að lokum eitt frá sjálfum mér þar sem ég útskýri hvers vegna þetta var ekki óvæntur sigur í gær:

Það er 22. nóvember, þriðjungur mótsins búinn og Leicester City eru í efsta sæti. Nei svona án djóks.

Eigið góðan sunnudag öll sömul!

YNWA

Man City 1-4 Liverpool

Liverpool heimsótti Manchester City á Etihad völlinn í Manchester í dag og gjörsamlega pakkaði þeim bláklæddu saman! Að vinna City 4-1 á útivelli er frábært en sigurinn hefði getað verið og kannski átt að vera stærri.

Klopp stillti liðinu upp eins og hann gerði á móti Chelsea á Stamford Bridge fyrir nokkrum vikum og spilaði með Firmino fremstan og Milner, Lallana og Coutinho fyrir aftan. Hann gaf í skyn að það hafi verið óvart og hann hafi ekki haft það í huga þegar hann tók þessa ákvörðun en þar sem þetta gekk vel upp gegn Chelsea þá er ég smá efins um að það sé satt.

Mignolet

Clyne – Skrtel – Lovren – Moreno

Milner(c) – Lucas – Can
Coutinho – Lallana
Firmino

Bekkurinn: Bogdan, Allen, Randall, Ibe, Benteke, Toure, Sturridge

Leikurinn var heilt yfir mjög líflegur. Boltinn gekk hratt á milli og bæði lið reyndu að sækja. Liverpool fékk draumabyrjun þegar Firmino og Coutinho spóluðu sig í gegnum vörn City áður en Mangala, varnarmaður City, rak tánna í boltann eftir fyrirgjöf Firmino og sendi boltann í eigið net. Góð byrjun og frábær undirbúningur á markinu – eitthvað sem átti eftir að sjást meira í leiknum.

City reyndi að pressa á Liverpool og ógnuðu en náðu ekki að fylgja því eftir. Það var Liverpool sem bætti við næstu tveimur mörkum en það var frábær undirbúningur Firmino sem lagði boltann fyrir markið til Coutinho sem skoraði með góðu skoti af stuttu færi. Coutinho þakkaði svo pent fyrir sig og lagði boltann á Firmino sem potaði boltanum yfir línuna eftir frábæra hælsendingu frá Emre Can.

Liverpool skoraði eitt rangstöðumark og voru oft hársbreidd frá því að leika á rangstöðutaktík heimamanna. Firmino slapp í tvígang í gegn en náði ekki að klára sóknina með marki og Liverpool lék á alls oddi. Aguero skoraði mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks með frábæru skoti eftir smá einbeitingarleysi í vörn Liverpool. Staðan í hálfleik því afar vænleg, 1-3.

Leikurinn var svipaður í seinni hálfleik. Liðin sóttu á báða bóga og City reyndu að ógna meira og fengu nokkur hálffæri. Til að mynda varði Mignolet meistaralega frá Aguero eftir að Sterling fékk óvænta sendingu frá Lovren inn fyrir vörn Liverpool. Það var samt Liverpool sem átti vænlegri sóknir í seinni hálfleiknum og má til að mynda telja upp tvær sóknir Liverpool þar sem Firmino og Benteke sluppu í gegnum vörnina en náðu ekki að skora.

Það var svo Martin Skrtel, sem er eins og Coutinho og hatar ekki að skora gegn City, sem drap niður allar vonir sem City gæti átt við að reyna að bjarga einhverju frá þessum leik þegar hann þrumaði boltanum í netið eftir hornspyrnu. Netin á Etihad fengu að finna fyrir því í dag en Skrtel gjörsamlega aflífaði þetta og sá til þess að umsjónarmaður vallarins þurfi að vinna frameftir við að skipta um net í markinu.

Liverpool landaði því nokkuð óvæntum 4-1 sigri á Etihad! Ég ætla að viðurkenna það að þegar ég var settur á skýrslur fyrir útileiki gegn Chelsea og City þá átti ég ekki von á að skrifa um tvo stórsigra en hamingjan hjálpi mér hvað það er geðveikt. Liðið tapaði gegn Palace en léku heilt yfir ekki það illa í þeim leik og er klárt batamerki á liðinu með hverjum leiknum sem líður. Þetta er að verða mjög flott.

Maður leiksins er ekki einhver einn. Can var frábær á miðjunni ásamt þeim Lucas og Milner, Lallana vann góða vinnu og vörnin var mjög þétt. Maður leiksins fær Brassinn í sókninni – eða hvað, voru þeir tveir? Coutinho og Firmino voru svo samheldnir, svo flottir og svo samstilltir að þeir renna saman í einn sem var maður leiksins. Vá hvað þeir voru flottir! Coutinho fór út af og hélt um lærið, vonandi ekki alvarlegt.

Frábær sigur, þetta er farið að líta afar vel út og Sturridge, Henderson og Rossiter nálægt því að koma til baka. Flott. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig framhaldið verður. Ég þarf að ná andanum eftir þennan leik og er ekki frá því að maður leyfi sér bjór eða tvo í kvöld til að halda upp á þetta. Gleðilegan laugardag Púllarar.

YES!!!

Liðið gegn Man City

Jurgen Klopp hefur stillt upp liðinu fyrir útileikinn gegn City sem hefst eftir klukkustund eða svo. Þetta er sama byrjunarlið og við sáum gegn Chelsea um daginn. Firmino er fremstur og bakkabræðurnir Coutinho og Lallana þar fyrir aftan ásamt hugsanlega Milner og Lucas og Can sjá um miðjuna. Sakho er sem kunnugt er meiddur og Lovren kemur inn í hans stað.

Mignolet

Clyne – Skrtel – Lovren – Moreno

Milner(c) – Lucas – Can
Coutinho – Lallana
Firmino

Bekkurinn: Bogdan, Allen, Randall, Ibe, Benteke, Toure, Sturridge

Fínt byrjunarlið í dag þó manni líður oftar en ekki betur vitandi af alvöru „níu“ uppi á topp en þetta virkaði fínt gegn Chelsea og við sjáum hvað setur. Í versta falli getur Klopp hent Ibe eða Benteke inn á ef það gengur brösulega.

Já, það er víst einhver Daniel Sturridge á bekknum í dag. Kannast einhver við hann?!

Það styttist óðum í að Henderson geti vonandi komið aftur inn í hópinn sem og Rossiter. Fyrir utan Sakho sem er enn nokkrar vikur í þá virðist hópurinn vera farinn að styrkjast svolítið. Það er allavega ekki alslæmt að geta stillt upp fínu byrjunarliði og eiga þá Ibe, Benteke og Sturridge á bekknum.

Koma svo, áfram Liverpool!