Liverpool 5 – AS Roma 2

MÖRKIN

1-0 Salah 35.mín
2-0 Salah 45.mín
3-0 Mané 56.mín
4-0 Firmino 61.mín
5-0 Firmino 68.mín
5-1 Dzeko 81.mín
5-2 Perotti 85.mín

GANGUR LEIKSINS

Þessi var ansi magnaður.

Við áttum eilítið erfitt í byrjun, Roma komu hátt á völlinn og við virtumst eiga í vanda með það. Ekki hjálpaði það Oxlade-Chamberlain var borinn af velli eftir um kortér…líklega lengi frá sá. Upp úr hálftímanum fengum við fyrsta færið þegar Mané var nálægt því að refsa hárri línu gestanna en dúndraði yfir einn í gegn.

Ísinn brotnaði svo á 35.mínútu þegar að Mo Salah fékk nóg og klíndi í markið á fjær utarlega í teignum. Á næstu 33 leikmínútum skoruðum við fjögur mörk í viðbót og gátum skorað fleiri. Farið að hugsa um alls konar met og einhverjir líklega bókað hótel í Kiev í maí.

Við ákváðum þá að búa til viðureign úr þessu, Lovren missti boltann klaufalega yfir sig og Dzeko skoraði á nærhorn Karius og stuttu síðar skoraði Perotti úr víti. Allt í einu vorum við að verja forystu og það tókst, lokatölur 5-2 í gríðarlega kaflaskiptum leik.

BESTU MENN LIVERPOOL

Það þarf náttúrulega ekkert að hugsa um það í rauninni, Mo Salah. Það eru engin lýsingarorð til einfaldlega. Hann er svindlkarl. Firmino átti tvær stoðsendingar og skoraði tvö, dásamlegur fótboltamaður sem er í raun mótorinn sem við þurfum að hafa með Egyptann. Miðjan virkaði vel, Henderson var magnaður og stjórnaði öllu, varnarlega voru Van Dijk og bakverðirnir flottir. Í 50 mínútur sáum við stórkostlegt fótboltalið sem öll Evrópa dáist að núna í kvöld.

Hápressan er nú sennilega bara maður leiksins. Hún er einfaldlega bönnuð börnum!

VONDUR DAGUR

Við verðum að svekkja okkur á þessum mörkum sem við fengum á okkur. Lovren gerir stór mistök að reyna að skalla bolta í stað þess að fylgja Dzeko og Karius er á hælunum á línunni og Dzeko neglir á nær. Karius slapp vel í fyrri hálfleik þegar skot frá Kolarov endaði í slánni eftir sérkennilega tilburði hjá honum.

Mér fannst ótrúlegt að hugsa það eftir leikinn að ég hefði viljað sjá meira frá Mané en það er örugglega ósanngjarnt. Það er líka þannig með það að tala um innkomu Ings fyrir Salah. Hann átti ekki góða.

Umræðan

* Hvað var Roma-stjórinn að hugsa. Há lína á Anfield? Alveg virkaði það svosem hjá WBA en þarna var þriggja manna varnarlínan flengd allrosalega. Þessi leikkerfi, 3-5-2 gegn 4-3-3 hápressu eru algerlega þannig að þau búa til færin og svoleiðis var það lengstum, við hefðum bara átt að halda hápressunni út leikinn, líklega er það til of mikils mælst en það að detta niður getur orðið erfitt þegar wingbacks koma á þig.

* Endinn á leiknum. 5-0 yfir og þetta hefði verið búið, en núna þarf Roma bara frammistöðu eins og í síðasta leiknum þeirra í þessari keppni. Í stað þess að fara yfirvegaðir til Rómaborgar (þar sem Roma hafa enn ekki fengið á sig mark í CL í vetur) þarf að vera tilbúnir í 90 mínútna baráttu til að skila liðinu alla leið í úrslit. En vá hvað það verður svekkjandi ef það ekki gengur.

* Oxlade-Chamberlain og miðjan. Hann virtist sárþjáður og mjög líklega er um liðbandameiðsl að ræða…og hann þá út það sem eftir lifir tímabils. Með Can og Lallana meidda þá er nokkuð ljóst að við sjáum Woodburn og/eða Curtis Jones um helgina. Miðjan okkar í stóru leikjum tímabilsins sem eftir eru virðist sjálfvalinn.

* Smá pæling. Var rangt að taka Salah útaf síðasta kortérið – var það málið sem að breytti öllu í kvöld?

* Að lokum, þeir sem eru úti í Liverpool…viljiði finna hann Einar minn og knúsa hann aðeins fyrir mig, hann mun þurfa það í kvöld og á morgun.

HVAÐ NÆST???

Leikur við Stoke í hádeginu á laugardag sem verður að vinnast áður en farið verður á Stadio Olympico í Róm með það fyrir augum að klára þessa viðureign á rauðasta deginum…1.maí.

Byrjunarliðið vs. Roma á Anfield!

Dömur mínar og herrar! Ladies and gentlemen! Signore e signori! Púlarar nær og fjær!

Það er komið að risastórri stundu í Mekka menningarfótboltans og höfuðvígi hápressunnar: fyrri leikur undanúrslita í Meistaradeildinni 2018 á Anfield Road í Liverpool.

Í kvöld mætast fjendur með forsögu í sögu Evrópufótboltans. Spagettílappirnar og hormottan hjá Bruce Grobbelaar hræddu líftóruna úr vítaskyttum Roma á Ólympíuleikvanginum í Róma árið 1984 og Michael Owen afgreiddi sama lið á sama stað árið 2001. Báðar herferðir enduðu með evrópskum silfurbikurum í höndum Rauða hersins og við krjúpum á hné og krossleggjum fingur í von um sömu niðurstöðu að þessu sinni (7,9,13).

Herr Klopp hefur stillt sína strengi á rafmagnsgítarnum og þungarokkhljómsveit kvöldsins er skipuð eftirfarandi rauðum rokkhundum:

Bekkurinn: Mignolet, Clyne, Wijnaldum, Klavan, Moreno, Ings, Solanke.

Liverpool stillir upp líkt og flestir gerðu ráð fyrir og eina spurningin var um hvort að Wijnaldum yrði í byrjunarliðinu en Milner og Oxlade-Chamberlain fá það hlutverk að spila við hlið fyrirliðans Henderson. Bakvarðakapallinn er stokkaður og inn koma Robertson og Alexander-Arnold í stað Gomez og Moreno sem áttu dapran síðasta leik.

Liðsuppstilling rómversku gestanna er eftirfarandi:

Nú er innan við ein ögurstund í að ofurleikurinn hefjist. Farið í lukkusokkana, haldið á fjarstýringunni í réttri hendi og náið ykkur í taugastillandi happadrykk að eigin vali. Rúta Roma hefur vonandi komist óskemmd á leiðarenda með skjálfandi Rómverja innanborðs yfir mögnuðum stuðningi Rauða hersins.

Við vitnum í yfir-púlarann og látunsbarkann, Pál Sævar „Röddina“ Guðjónsson og staðfærum:

Þetta er okkar Anfield! Þetta er okkar stund! ÁFRAM LIVERPOOL!

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: Rómverjar eru klikk

Nánast öll mín þekking á Rómverjum er fengin úr Ástríkssögunum sem gefa auðvitað mjög nákvæma og rétta mynd af öllu Rómarveldi.

Róm var svo sannarlega ekki byggð á einum degi, borgin er ein sú sögufrægasta í heimi. Talið er að Rómarveldi hafi orðið til 753 f.kr. og stóð með einum eða öðrum hætti allt til 476 e.kr er síðasta rómverska keisaranum var steypt af stóli. Reyndar má segja að Rómarveldi hafi staðið lengur því að 395 e.kr. var ríkinu skipt í tvö hluta. Vesturhlutanum var stjóranð frá Róm og féll eins og áður segir 476 e.kr. Austurhlutanum var stjórnað frá Konstantínópel og hélt allt til 1453 er Súltán Tyrkja náði þar völdum og batt endalok á Rómarveldi. Konstantínópel er í dag auðvitað þekkt sem Istanbúl þannig að hvort sem rætt er um vestur eða austurhlutann má færa rök fyrir því að Liverpool hafi lagt bæði ríkin að velli í sinni sögu.

Þegar Rómarveldi var sem stærst náði það ca. yfir þetta landssvæði og því ljóst að áhrif Rómverja eru gríðarlega á siði og venjur á vesturlöndum og víðar.

Það er hægt að taka þúsund vinkla á Rómarborg og rómverja en að þessu sinni látum við það eiga sig. Notumst áfram við þá ímynd sem Ástríksbækurnar gefa enda alveg jafn gott að trúa því sem þar stendur eins og öðrum skáldsögum.
Continue reading

Besta lið Liverpool?

Tökum þennan WBA pirring aðeins neðar og förum að hita upp fyrir stórleik vikunnar.  Sá umræðu á twitter þess efnis að Klopp hefði lítið bætt lið Liverpool m.v. lið Rodgers 2013/14.  Vinnum aðeins með þetta og höfum með fyrsta lið Benitez 2004/05 sem vann Meistaradeildina og besta lið Benitez 2008/09 sem var í titilbaráttu.

Læt fylgja með mínar vangaveltur og skoðanir um hverja stöðu fyrir sig. 

Continue reading