Latest stories

 • Upphitun: Bikarleikur gegn Manchester United

  Á morgun, aðeins viku frá því að við mættum þeim í deildarleik, ferðumst við til Manchester að mæta þar United mönnum á Old Trafford í enska bikarnum. Það er alls ekki svo oft sem þessi lið mætast utan deildarleikja en frá aldarmótum verður þetta níundi leikurinn milli liðanna í öðrum keppnum.

  Eina skiptið sem það hefur gerst undir stjórn Klopp var þegar liðin mættust heima og heiman í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í mars 2016. Liverpool fór áfram með sigri á Anfield og jafntelfi á Old Trafford en aðeins þrír leikmenn eru enn í leikmannahópnum sem byrjuðu þá leiki. Firmino og Henderson spiluðu báða leikina og Milner aðeins þann seinni en auk þeirra kom Divok Origi inn á sem varamaður í báðum leikjunum.

  Tveir eftirminnilegustu leikirnir af þessum átta sem spilaðir hafa verið voru þeir tveir fyrstu eftir aldarmót, þar sem Liverpool gekk burt með titla eftir þá báða. Fyrst mættust liðin 2001 á Þúsaldarvellinum í Cardiff í leik um góðgerðarskjöldinn þar sem Gary McAllister og Michael Owen skoruðu í 2-1 sigri en tæpum tveimur árum síðar mættust þau á sama velli í úrslitaleik deildarbikarsins og voru það þá Owen og Steven Gerrard sem skoruðu mörkin í 2-0 sigri.

  Andstæðingurinn

  Þessi dráttur er nánast jafn slæmur fyrir Solskjær eins og hann er fyrir okkur. Þeir hafa komið öllum á óvart og sitja á toppi deildarinnar þegar tímabilið er hálfnað (þó City geti komist upp fyrir þá ef þeir vinna leikinn sem þeir eiga inni). Það er því spurning hversu miklu púðri United vilja eyða í bikarkeppnina þegar þeir sjá fram á að eiga loks einhvern möguleika á deildinni í fyrsta sinn síðan Sir Alex steig til hliðar.

  Ef Solskjær gerir of miklar breytingar og tapar fyrir Liverpool verða stuðnigsmenn liðsins ósáttir en það gæti allt eins gerst að hann spili á sínu sterkasta liði og liðið hiksti svo í deildinni í kjölfarið þá verður hann einnig gagnrýndur fyrir að hvíla ekki í bikarnum.

  Þó það séu engir léttir leikir í ensku úrvalsdeildinni gæti verið að Manchester United menn horfi í það að í næstu umferð þar eiga þeir Sheffield United og sjá líklega fyrir sér að þeir geti hvílt aðeins þá. Því á ég von á þeirra sterkasta liðið með hugsanlega einstökum breytingum á morgun.

  Eftir að hafa komið tilbaka og náð leiknum gegn Liverpool í síðustu viku var Lindelöf aftur fjarverandi gegn Fulham í miðri viku en búist er við að hann verði aftur klár á morgun, annars eru meiðsli United manna ekki hjá mönnum sem eru líklegir til að koma við sögu á morgun.

  Það verður hinsvegar áhugavert að sjá hvort Donny Van Der Beek fái tækifæri að sanna sig en hann hefur aðeins fengið um 250 mínútur síðan hann gekk til liðs við United í sumar.

  Okkar menn

  Það hefur verið mikið rætt um dýfu Liverpool síðan þeir völtuðu yfir Crystal Palace fyrir jól en fyrir utan sigur leik í bikarnum gegn unglingaliði Aston Villa hefur liðið spilað fimm leiki og skorað í þeim eitt mark. Það mark kom snemma í fyrsta af þessum fimm leikjum og síðan þá hefur liðið átt 87 skot án þess að skora. Vandamálið er þó ekki aðeins skortur á mörkum því þrátt fyrir öll þessi skot þá hafa gæði færana hreinlega ekki verið nægilega góð.

  Klopp viðurkenndi það á blaðamannafundi að sjálfstraustið er ekki gott þessa dagana og ljóst að við erum ekki að horfa á lið af Mentality Monsters eins og hann hefur talað um síðustu ár.

  Hinsvegar þarf oft ekki mikið til að snúa svona gengi á haus og eins og einn bolti sem slysast í netið hjá andstæðingnum á heppilegum tíma getur verið nóg til að byrja að byggja trúnna aftur en það má eiginlega ekki gerast mikið seinna en á morgun!

  Fyrirliðinn Jordan Henderson verður ekki með á morgun en hann er enn frá vegna vöðvameiðsla en auk hans eru fastir liðir eins og venjulega Van Dijk, Gomez, Keita og Jota á meiðslalistanum. Kostas Tsimikas snéri hinsvegar aftur á bekkinn í síðasta leik og þó hann sé ekki líklegur til að spila mikið á kostnað Robertson þá hljótum við að fagna öllum sem snúa aftur af meiðslalistanum þessa dagana.

  Ég á erfitt með að meta hversu mikið Klopp mun breyta liðinu fyrir þennan leik. Kelleher hefur verið að fá bikarleikina og gæti alveg verið í markinu og Tsimikas gæti leyst Robertson af en liðinu sárvantar að fara vinna fótboltaleiki og gæti því trúað að Klopp fari með frekar sterkt lið í leikinn.

  Firmino og Salah hvíldu báðir gegn Burnley og ég gæti því séð Mané hvíla þennan leik. Matip gæti einnig fengið frí til þess að hann gæti spilað gegn Tottenham á fimmtudaginn en tel að Trent sé sá leikmaður sem þurfi mest á smá pásu að halda svo ég setti Neco inn í liðið og sé hann ekki fara með óreyndan mann við hliðinna á honum og þar sem Henderson er meiddur að þá var Matip eini kosturinn sem var eftir í stöðuna.

  Á miðjunni býst ég við að Gini Wijnaldum fái frí og reyndi að púsla heilum mönnum í kringum það. Vissulega gætum við séð Oxlade-Chamberlain eða Shaqiri í einni af þessum stöðum í stað Milner eða Jones en á endum ákvað ég að spá þessu svona.

  Mín spá

  Vegna gengi undanfarinna ára hef ég gengið inn í hvern einasta Liverpool leik að búast við sigri í langan tíma en ég væri að ljúga ef ég vildi meina að gengi síðustu vikna væri ekki farið að hafa áhrif á þá trú. Ég held að þessi leikur verði opnari en deildarleikurinn í síðustu viku og bæði lið muni skora. Við munum því enda markaþurrðina í 2-2 jafntelfi þar sem Salah og Jones skora fyrir Liverpool og við vinnum svo leikinn í vítaspyrnukeppni þar sem við höfum aldrei tapað í vítaspyrnukeppni í FA cup.

  [...]
 • Liverpool 0-1 Burnley

  0-1 Ashley Barnes 83.mín

  Leikurinn

  Liverpool voru grútlélegir í fyrri hálfleik fyrir utan eitt færi. Divock Origi slapp einn í gegn á móti markverði eftir mistök varnarmanns á 44.mínútu. Meistari Divock setti sitt skot samskeytin og staðan var jöfn í hálfleik.

  0-0

  Liverpool voru grútlélegir í seinni hálfleik og án alvöru sóknarfæra. Burnley fengu vítaspyrnu á 82.mín og skoruðu úr henni. Liverpool átti engin svör við því og töpuðu leiknum.

  0-1 tap

  Tölfræði

  Liverpool voru mjög lélegir í kvöld og skotatalning eða boltaprósenta er blekkjandi í tölfræðinni og engin ástæða er til þess að taka mark á henni. Sanngjarnt tap.

  Bestu menn

  Allir það langt undir meðaltali að enginn á skilið jákvæða umfjöllun.

  Vondur dagur

  Allir það langt undir meðaltali að allir eiga skilið það tilkall að hafa átt vondan dag.

  Umræðan

  Okkar menn hafa verið fullkomin hörmung í síðustu 5 leikjum. Af hverju er erfitt að svara en þeir eru í frjálsu falli þessi stundina. Viðmiðin sem Englands- og Evrópumeistararnir hafa sett síðustu árin eru hvergi sjáanleg. Vissulega getur verið erfitt að verja titil en af hverju toppstaða um jólin endar í þessari hörmung mánuði síðar er óskiljanlegt og eitthvað sem Klopp verður að tækla og horfast í augun með. Enn er auglýst eftir kaupum á miðverði til að fylla skarð hinna meiddu VVD og Gomez og hins selda Lovren. Þó að besti maður leiktíðarinnar Fabinho sé að reyna að bjarga einhverju í vörninni þá er hans saknað á miðjunni. Og sóknarþrennan þarf að bóka sig á heilsubælið í Gervahverfi til að finna bót sinna meina því að þetta er hætt að vera fyndið.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Burnley á Anfield

  Árið 2021 hefur ekki byrjað neitt sérstaklega vel hjá Púlurum sem vakna allt í einu upp við vondan draum heilum 6 stigum frá toppsætinu. Í heimsókn eru komnir Burnley-liðar sem hafa oft valdið Rauða hernum verulegum vandræðum með varnarsinnuðu veseni. Þá er möguleiki á því að Jói Berg spili á Anfield og oftar en ekki hefur hann bókstaflega sett mark sitt á leiki gegn Liverpool.

  Byrjunarliðin

  Klopp hefur valið eftirfarandi leikmenn til að herja á Burnley í kvöld með þeim sérstöku áherslum að Matip er kominn aftur eftir meiðsli en hins vegar fyrirliðinn Henderson meiddur.

  Liverpool: Alisson; Trent, Matip, Fabinho, Robertson; Thiago, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain; Shaqiri, Mane, Origi

  Bekkurinn: Kelleher, Phillips, Tsimikas, N.Williams, Milner, Oxlade-Chamberlain, Jones, Origi, Minamino, Firmino, Salah

  Hjá gestunum eru blikur á lofti með Blikann GUDMUNDSSON á bekknum en liðið annars skipa svona:

  Upphitunarlagið

  Til að heiðra orðleikjavífillengjuviskubúskap þá er er klárt mál að upphitunarlagið verður brennandi heitt með bruna á engilsaxneskiu að leiðarljósi. Útbrunnu öskubuskudrengirnir í Ash eru því tilvalið íkvekjutilefni enda Íslandsvinir með meiru sem að leikskýrsluskríbent hitaði upp við í Laugardalshöllinni forðum daga. Hið eldheita Burn(ley) baby Burn(ley) er því brennandi heitt upphitunarlag kvöldsins:

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Jói Berg og félagar heimsækja Anfield – Upphitun

  Ef það er einn kostur við leikjaálag er það að eftir vonbrigði er stutt í næsta leik. Álagið er reyndar búið að vera nokkuð mennskt þennan janúar fyrir Jurgen Klopp og lærisveina hans, þrír leikir komnir og þar af einn gegn barnaliði Aston Villa.

  En við vitum öll hvernig gengið hefur verið, síðast þegar Liverpool vann deildarleik var fyrir jól á móti Crystal Palace. Meira en mánuður hefur liðið síðan og ekki laust fótboltaþunglyndi þegar maður hugsar til þess að það eru sextíu skot síðan Liverpool skoraði. En þegar flautan gellur á morgun Anfield skiptir engu hvernig síðust leikir hafa gengið. Það eina sem skiptir máli þá er að skora einu marki meira en Burnley, andstæðingunum að þessu sinni.

  Andstæðingurinn og þjálfarinn.

  Sean Dyche er yngsti gamaldags þjálfarinn í enska boltanum. Hann fæddist 1971 og er sá síðasti til að verða kennari í gamla enska skólanum sem Sam Allerdyce hefur alla tíð verið skólameistari í. Þið vitið hvaða skóla ég er að tala um: 4-4-2, ofurþétt vörn, langir boltar fram sem eiga helst að lenda á kollinum á hávöxnum framherja sem skallar niður á minni samherja sem skorar, allir leikmenn í stærðarflokki handbolta mann og magnafsláttur af gulum spjöldum.

  Það er ekkert launungamál að þessi tegund fótbolta er ekki sú vinsælasta meðal hlutlausra og andstæðinga en eins og við þekkjum frá Íslenska landsliðinu er manni alveg sama þótt fótboltinn sé varnarsinnaður og jafnvel leiðinlegur ef árangur næst. Ég efa að mörgum stuðningsmönnum Burnley hafi dreymt um hálfan áratug (hingað til) í deild þeirra bestu þegar Dyche tók við (í b-deildinni) að þeir ættu framundan.Og þó. Burnley hefur unnið titilinn tvisvar, síðast á því herrans ári 1960.

  Dyche hefur aldrei beðist afsökunar á boltanum sem hann lætur liðið spila. Hann trúir á klassíska enskan bolta og hefur meira að segja nokkrum sinnum tekið skammarpistla yfir blaðamönnum þegar þeir hafa ýjað að því að stíllinn hans sé gamaldags. Vandinn fyrir okkur stuðningsmenn Liverpool að þetta er einmitt leikstíllinn sem við höfum átt í mestu basli með í fjölda ára. Þið megið búast við tíu Burnley mönnum inn í eigin teig oftar en einu sinni í þessum leik.

  Ég væri alveg til í tebolla með þessum

  Manni finnst eins og Liverpool eigi alltaf í basli með Burnley. Samt er það þannig að Liverpool hefur ekki tapað nema einum af þeim tíu leikjum liðin hafa spilað síðan Burnley kom sér upp um deild, þess fyrir utan gert tvö jafntefli.

  Það verður ekki af því skafið að Burnley hefur gengið hörmulega á þessu tímabili. Þeir voru í meiðslabasli í haust og nú, þegar einn leikur er eftir að fyrri umferðinni, eru þeir aðeins búnir að skora níu mörk. Aðeins tveimur liðum hefur mistekist að ná í tveggja stafa markatölu í fyrri umferðinni. Hinu sögulega Derby liði 2007-08 og Everton á því herrans tímabil 2005-06. Það magnaða er að þrátt fyrir þetta gengi í vetur eru Burnley ekki í fallsæti. Get líka bætt við að Burnley hefur unnið einn útileik á tímabilinu. Samt er þessi bévítans ónotatilfinning í manni…

  Okkar menn

  Það er búið að ræða og rita margt um gengi Liverpool í síðustu leikjum og ég ætla ekki að endurtaka það hér. Klopp veit að það eru vandamál, leikmenn vita það og við sófaspekingarnir vitum það. Ég hef stundum líkt þessu Liverpool liði við vel breyttan fjallajeppa sem allt fer og finnur alltaf lausnir saman hversu skemmdur hann. Svo virðist sem hann sé fastur í sprungu með ónýtt dekk. Ég trúi því samt að lausnirnar nálgist, hvort sem þær séu gott skítamix eða alvöru viðgerð.

  En hvernig verður liðið. Aldrei þessu vant eru bara tvær, kannski þrjár stöður sem eru alveg augljósar. Alisson er auðvitað sjálfvalinn og Fabinho líka. Það er helst Robbo sem mér þykir alveg ljóst að byrji fyrir utan þessa tvo. Þess fyrir utan… hmmmm.

  Það er vonandi búið að Hendo sé við hlið brassans knáa í vörnin. Burnley menn eru að meðaltali þó nokkrum tommum hærri en okkar menn svo að fá eitt skallaskrýmsli í vörnina er nauðsynlegt. Ég vona að Matip fái þennan (en hvíli svo gegn United) þó svo að Nat Philips sé líka lógískur kostur. Ég held að Trent hreinlega þurfi að fá tvo þrjá leiki í hvíld en ætla ekki að spá því. Maður veltir fyrir sér hvort hann sé ennþá að jafna sig á Covid (sama gildir um Salah) en Klopp hefur tröllatrú á að hann sé að detta í gang.

  Þá er það miðjan. Þar vil ég einfaldlega sjá Hendo, Thiago og Gini. Kæmi samt ekkert á óvart ef Curtis Jones kæmi inn fyrir Gini, sem átti slappan leik gegn United á sunnudaginn og hlýtur að vera farinn að finna fyrir því hversu mikið hann hefur spilað í vetur.

  Hverjir eiga svo að vera frammi. Ein af ráðgátunum síðustu vikur hefur verið hvers vegna Minamino hefur ekki fengið fleiri sénsa eftir að hann átti þátt í 7-0 sigrinum á Palace. Bobby hefur ekki verið að heilla í allt of langan tíma og ég vil að hann víki fyrir japananum í allavega einn leik. Að skipta út fleiri en honum úr fremstu línu væri líklega of mikið. Þannig að þetta verður svona:

   

  Spá.

  Er ég stressaður fyrir þessu? Já. Held ég að þetta verði ofboðslega skemmtilegur leikur: Nei. Trúi ég að við loksins hrökkvum í gang… Já. Þetta hefst held ég og við vinnum að lokum 3-1 sigur. Getið sett túkall á það, svo einfalt er það!

  [...]
 • Gullkastið – Þurr janúar

  Liverpool er í smá krísu, vond töpuð stig á Anfield gegn Man Utd liði sem mætti fyrst og fremst til að halda stiginu. Næstu leikir eru gegn Dyche, Mourinho og Moyes þannig að það er hætta á sömu sýningu áfram ef Liverpool nær ekki að breyta um takt sóknarlega.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 320

  [...]
 • Stórmeistarajafntefli 0-0

  Rauðu djöflarnir mættu í heimsókn á Anfield og liðin sættust á 0-0 stórmeistarajafntefli í frekar bragðdaufum leik.

  Gangur leiksins

  Við sáum tilbrigði við gamalkunnugt stef í leiknum í dag. Leikmenn Liverpool meira með boltann, andstæðingurinn pakkaði í vörn og treysti á skyndisóknir. Okkar menn voru ekki að finna sig í sóknarleiknum, voru kannski örlítið duglegri að skjóta en áður, en þau skot enduðu gjarnan framhjá eða yfir. Ekkert skot reyndi virkilega á De Gea í markinu.

  Eftirminnilegasta atriðið í fyrri hálfleik kom líklega eftir 45 mínútur og 54 sekúndur þegar frekar slakur dómari leiksins flautaði til hálfleiks, heilum 6 sekúndum áður en uppgefinn uppbótartími var liðinn, og í þann mund sem Thiago sendi stungusendingu á Mané sem var að sleppa í gegn. Jú ég lýg því, það voru nú önnur eftirminnileg atvik sem komu upp. Eins og þegar United sluppu í gegn en voru rangstæðir, en hvorki dómari né aðstoðardómari gerðu neitt fyrr en okkar menn voru búnir að bjarga með nauðvörn. Þetta gerðist reyndar trekk í trekk, og meira að segja Ole Gunnar Solskjaer hafði orð á því að þessari reglu þyrfti að breyta. Við tökum undir það.

  Síðari hálfleikur var svo að mestu leyti meira af því sama. Ekkert alvöru færi leit dagsins ljós, en Alisson þurfti tvisvar að taka á honum stóra sínum, varði í annað skiptið á línu með vinstri fæti. Klopp var greinilega á því að hann væri með sitt besta lið inná, og gerði enga breytingu fyrr en korter var til leiksloka þegar Curtis Jones kom inná fyrir Shaqiri. Á síðustu mínútunum komu svo Origi inn fyrir Firmino, og svo Milner fyrir Gini. Origi vann eitt horn sem var einu horni meira en maður bjóst við að hann myndi áorka. Hvorugt lið fann glufu á lokamínútunum og 0-0 jafntefli því staðreynd.

  Bestu/verstu menn

  Höfum þennan lið með styttra móti. Alisson hélt liðinu á floti með flottum vörslum þegar á þurfti að halda, og fær því nafnbótina maður leiksins, en Fabinho sýndi líka enn og aftur hvað hann er mikilvægur (og hvað það væri mikið betra að hafa hann framar á vellinum).

  Þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið góð er erfitt að segja að einhver leikmanna hafi verið að spila áberandi illa. Trent sýndi batamerki, var að senda þversendingar yfir á Robbo hinu megin á vellinum. En fyrirgjafir inn í teig eru ennþá ekki af sömu gæðum og áður, því miður. En stærsta áhyggjuefnið er klárlega markaþurrðin hjá þríeykinu okkar góða.

  Umræðan eftir leik

  Nokkrir punktar:

  • Liðið er núna ekki búið að skora í 3 leiki í röð í deild, sem er gríðarlegt áhyggjuefni (í dag, gegn Southampton, gegn Newcastle). Þar á undan hafði liðið spilað um 80 mínútur gegn WBA án þess að ná að skora, og því erum við að detta í 360 markalausar mínútur (ef við teljum uppbótartíma með). Við tölum um skort á miðverði, og það er klárlega vandamál sem þarf að tækla, en skortur á því að skora mark er samt aðal höfuðverkurinn í augnablikinu. Jú þessi vandamál gætu vel verið tengd. Kannski þarf Fab að vera framar, vinna boltann fyrr, og þá kemst boltinn fyrr til sóknarmannanna.
  • Liðinu mistókst að skora á Anfield í deild í fyrsta skipti síðan í október 2018.
  • Hvenær mistókst Liverpool síðast að skora í 3 leikjum í röð í deild? Jú það var í mars 2005. OK, ef liðið vinnur meistaradeildina í ár eins og árið 2005 þá látum við þetta slæda. Annars ekki.
  • Dómarinn átti ekki góðan dag, en skipti ekki sköpum.
  • Hvað þarf Takumi Minamino eiginlega að gera til að fá mínútur? Hann skoraði gegn Palace og hefur svo ekki sést? En Origi fær mínútur? Nú er ég hættur að skilja.

  Maður var að vona að áskorunin að mæta liðinu sem er á toppi deildarinnar myndi kannski hjálpa til við að sóknarlínan myndi hrökkva í gang. En það gekk því miður ekki eftir. Það er eitthvað öðruvísi varðandi hreyfingar án bolta, sendingar eru ekki jafn nákvæmar og þær þurfa, og við skulum ekki einusinni ræða færanýtinguna. Það hefur oft gerst að Liverpool hafi skapað sér fullt af færum en bara ekki náð að nýta þau, en núna er færunum líka að fækka sem er áhyggjuefni.

  Liverpool er í fjórða sæti deildarinnar í augnablikinu, en það gæti breyst ef ókláraðir leikir falla í vil þeim liðum sem eru í toppbaráttunni.

  Á maður að taka eitthvað jákvætt út úr þessu? Tja, leikurinn tapaðist ekki. Taplausa hrinan lengist aðeins, en með sama áframhaldi þá er stutt í að henni ljúki.

  Næst: Burnley á heimavelli á fimmtudaginn, svo aftur United nema þá í bikar, og svo Tottenham úti í deild. Janúar klárast svo með enn einum útileiknum gegn West Ham á sunnudag eftir 2 vikur.

  Sveiflurnar í því hvaða lið hafa verið á toppi deildarinnar hafa sýnt okkur að það er nóg eftir. En það er ljóst að ef t.d. City ætlar að fara á eitthvað “run” eins og þeir eru alveg með gæði til að gera, þá getum við kvatt allar vonir um titil í vor.

  Er á meðan er. Vonandi styttist í að Jota verði leikfær, því það er alveg ljóst að það þarf að hrista upp í sóknarlínunni.

  [...]
 • Liðið gegn United

  Þá er liðið klárt sem gengur út á vígvöllinn gegn United núna kl. 16:30:

  Bekkur: Kelleher, Milner, Ox, Jones, Minamino, Origi, Neco, Rhys, Nat

  Eins og við óttuðumst þá hefur læknateymið metið það svo að Matip sé ekki klár í slaginn, er ekki einusinni á bekk. Keita er auðvitað hvergi sjáanlegur heldur.

  Eins er áhugavert að Shaqiri er í byrjunarliði í fyrsta skipti í ég veit ekki hvað marga leiki.

  Nú er að sjá hvort okkar menn nái að hrista af sér áhrifin af áhorfendaleysi, meiðsli varnarmanna, og lélegt form í síðustu leikjum. Núna er bara akkúrat tíminn til að sýna hvað í þeim býr.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Tvöfaldur leikdagur – stelpurnar mæta Leicester

  Það eru væntanlega allir með augun á leik Liverpool og United, og þarf ekkert að minna neinn á þann leik, leikþráður fyrir þann leik dettur inn um leið og liðið verður tilkynnt kl. 15:30. En í millitíðinni ætla stelpurnar okkar að vinna að sínu markmiði, sem er að komast aftur upp í efstu deild. Núna mæta þær Leicester en það vill svo skemmtilega til að Leicester eru einmitt á toppi næstefstu deildar. Bæði aðalliðin okkar eru því að fara að spila við liðið í efsta sæti núna í dag.

  Þetta verður fyrsti leikurinn eftir að Vicky Jepson hætti sem stjóri, og í dag mun Amber Whiteley stýra stelpunum okkar, en hún var aðstoðarmaður Vicky. Ekkert hefur verið gefið út hvaða stjóri verður ráðinn, eitthvað var slúðrað um að Matt Beard gæti tekið við eftir að hann var látinn fara frá West Ham fyrr á leiktíðinni, en hann stýrði Liverpool einmitt 2013 og 2014 þegar liðið vann titilinn tvö ár í röð. En hann var að taka við Bristol tímabundið meðan aðalstjóri þeirra er í fæðingarorlofi, svo það er ljóst að einhver annar tekur við.

  Hvað um það, svona stillir Amber upp sínu liði:

  Laws

  Robe – Moore – Fahey – Hinds

  Parry – Roberts – Rodgers – Kearns

  Babajide – Thestrup

  Bekkur: Foster, Heeps, Clarke, Lawley, Furness, Ross, Brough

  Uppstillingin er svolítið skot út í loftið, þetta gæti líka verið 4-3-3, en nú veit maður ekkert hvað ný manneskja við stýrið er að hugsa. Það eru nokkrir áhugaverðir punktar við þessa uppstillingu:

  • Lucy Parry er í fyrsta skipti í byrjunarliði, en fyrr í vetur varð hún yngsti leikmaður til að koma inná í leik hjá Liverpool Women frá upphafi.
  • Annar leikmaður úr akademíunni, Emily Brough, er á bekk og er að sjást þar í fyrsta skipti.
  • Melissa Lawley er á bekk, og líklega er það taktísk ákvörðun. Ekki er vitað til þess að hún hafi verið að ná sér af meiðslum eða neitt slíkt.
  • Bo Kearns fær hins vegar tækifæri í byrjunarliði, reyndar ekki í fyrsta skipti, en það kemur ekki svo á óvart að hún sé að stimpla sig inn.
  • Jess Clarke og Rachel Furness eru báðar að koma úr meiðslum og því ekkert skrýtið svosem að þær byrji á bekknum. Báðar geta komið mjög öflugar inn.

  Síðasta leik sem Liverpool Women áttu að spila var frestað vegna Covid smits sem kom upp í leikmannahópnum. Miðað við hvernig hópurinn er samsettur í dag er líklegast að Jade Bailey, Ashley Hodgson og Becky Jane séu þær sem smituðust.

  Leikurinn verður sýndur á The FA Player, og því tilvalið að leggja daginn svona nokkurnveginn í heild sinni undir áhorf á okkar ástkæra klúbb.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Upphitun: Toppslagur á Anfield

  Spennan verður mikil þegar flautað verður til leiks á sunnudag þegar erkifjendur okkar í Manchester United mæta á Anfield. United menn mæta á toppi deildarinnar með þriggja stiga forskot á okkar menn og í fyrsta sinn í mörg ár eru þessir fornu fjendur báðir í baráttu um titilinn. Leikur leikjanna á þessu tímabili og oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að sigra.

  Mótherjinn

  United voru frekar óstöðugir í byrjun tímabil tóku aðeins eitt stig úr fyrstu fjórum heimaleikjum sínum í deildinni og meðal þeirra leikja var 6-1 tap gegn Tottenham. Þeir féllu svo úr leik í Meistaradeildinni eftir að hafa komið sér í ansi veglega stöðu eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Á þeim tímapunkti var umræðan um að reka Solskjær orðinn ansi hávær en síðan þá hefur liðið ekki litið tilbaka og unnið sjö leiki í öllum keppnum, gert tvö jafntefli og aðeins tapað gegn grönnum sínum í City í bikarnum.

  Solskjær er með ansi stóra ákvörðun sem hann þarf að taka fyrir leikinn á sunnudaginn en oftast hefur hann skipt yfir í þriggja manna varnarlínu fyrir leikina gegn Liverpool til að halda aftur af sóknarþríeykinu okkar en nú hefur liðið hans komist á topp deildarinnar með fjögurra manna varnarlínu. Því er líklegra að við sjáum fjögurra manna vörn með tígulmiðju þar fyrir framan, líkt og Solskjær hefur notað í leikjum sínum tveimur gegn City á síðasta mánuðinum.

  Það eru nokkrir leikmenn tæpir hjá United fyrir leikinn en Anthony Martial og Nemanja Matic meiddust báðir gegn Burnley í vikunni en gætu báðir náð leiknum. Victor Lindelöf hefur verið frá undanfarið en er byrjaður að æfa aftur en Eric Bailly hefur spilað vel í fjarveru hans og því ólíklegt að Solskjær fari að fikta í varnarlínunni sinni. Auk þeirra eru Marcus Rojo, Phil Jones og Brandon Williams frá en enginn þeirra væri líklegur til að taka þátt í leiknum á sunnudaginn.

  Solskjær er líklegur til að nýta svipaðan leikstíl og í fyrri leikjum gegn Liverpool þar sem þeir liggja aftarlega þar sem okkar mönnum hefur gegnið illa með að skora gegn skipulögðum vörnum undanfarið en sækja svo hratt á þá varnarlínu sem við tjöslum saman fyrir leikinn.

  Okkar menn

  Síðustu vikur hafa verið þungar hjá okkur Liverpool mönnum en tvö jafntefli og eitt tap í leikjum gegn liðum sem við teljum okkur eiga að vinna hafa gerið Manchester liðunum möguleika á að ná okkur í toppbaráttunni. Nú er hinsvegar komið að stórleik og okkar menn hreinlega þurfa að gíra sig upp í þennan leik.

  Enn hefur enginn miðvörður mætt á svæðið og maður hefur setið á refresh takkanum að bíða frétta á Joel Matip og hvernig staðan er á honum fyrir leikinn. Klopp staðfesti í morgun að Matip hefði ekki enn æft en væri að ná sér og verið væri að meta hversu sniðugt það væri að setja hann nánast óæfðan í leikinn. Nái hann ekki leiknum verður valið milli Rhys Williams, Nat Phillips eða Jordan Henderson í miðvörðinn.

  Hinn símeiddi Naby Keita er að sjálfsögðu enn á meiðslalistanum fyrir þennan leik auk miðvarðanna Van Dijk og Gomez. Þá eru Jota og Tsimikas einnig enn frá og verða ekki með á sunnudaginn.

  Klopp, sem stýrir liðinu í sínum tvö hundruðasta deildarleik gegn United, ræddi það á blaðamannafundi að liðið hefði tekið fund eftir Southampton leikinn og rætt hvað betur mætti fara. Eftir aðeins þrettán stig í síðustu átta leikjum væri vissulega hlutir sem hefðu ekki farið nægilega vel en liðið hafi sýnt það á fundinum að þeir vissu hvað væri að og hvað þyrfti að laga en nú þarf að sýna það á vellinum.

  Ég er alltaf efins um að Matip snúi aftur úr meiðslum þegar við honum er búist. Hann hefur yfirleitt tekið nokkra daga, eða vikur aukalega og á þá erfitt með að sjá hann byrja leikinn. Hinsvegar hefur hann sýnt okkur það líka að hann þarf yfirleitt ekki mikinn tíma til að spila sig í form þegar hann snýr aftur þannig ef læknateymið telur hann kláran á sunnudaginn þá hef ég engar áhyggjur af honum sérstaklega.

  Ef hann byrjar ekki býst ég við að Klopp treysti Henderson best í þetta hlutverk. Rhys Williams hefur átt í vandræðum með hraðan eftir góða byrjun og ég á erfitt með að sjá hann byrja Nat Phillips gegn hröðum og klókum sóknarmönnum United. Henderson verður þá án efa saknað af miðsvæðinu og því tel ég að Klopp reyni að svara því með því að byrja með Milner frekar en Jones eða Chamberlain. Í hópnum eigum við einnig kubbalaga X-factor í Shaqiri sem ég væri alveg til í að sjá byrja leikinn og reyna hrista upp í hlutunum en finnst líklegra að hann verði að sætta sig við að koma inn af bekknum.

  Tölfræðin

  • Manchester United hefur ekki unnið á Anfield síðan í janúar 2016 þegar Wayne Rooney tryggði þeim sigur undir lok leiks og Liverpool setti Steven Caulker inn á til að reyna jafna metin.
  • Eins og áður kom fram mun Klopp stýra sínum 200. deilarleik á sunnudaginn en hann hefur unnið 127 af þeim 199 leikjum sem hann hefur stýrt en aðeins José Mourinho hefur unnið fleiri af sínum fyrstu 200. deildarleikjum í ensku úrvalsdeildinni.
  • Á sunnudaginn verða 364 dagar síðan Manchester United tapaði síðast deildarleik á útivelli, en þá töpuðu þeir 2-0 á Anfield.
  • Síðan þá hafa þeir spilað 15 útileiki án þess að tapa. Liverpool hefur hinsvegar ekki tapað á Anfield í síðustu 67 leikjum og þar af skorað í síðustu 42 leikjum í röð á Anfield. Því er líklega best að spyrja hvað gerist þegar óstöðvandi afl mætir óhreyfanlegum hlut?

  Spá

  Það er erfitt að segja til um þennan leik en ég hef trú á því að okkar menn mæti dýrvitlausir inn í þennan leik eftir slakar frammistöður undanfarið og ætla að spá Liverpool 3-1 sigri þar sem Mo Salah sem hefur verið rólegur í markaskorun undanfarið setur tvö snemma leiks en United minnkar muninn en Shaqiri kemur inn af bekknum og gulltryggir sigurinn.

  [...]
 • Vicky Jepson hættir sem þjálfari kvennaliðsins

  Það eru hræringar í gangi hjá kvennaliðinu okkar, því opinbera síðan var rétt í þessu að tilkynna að Vicky Jepson sé hætt sem stjóri liðsins.

  Við vonum að þetta sé gert til að hámarka líkurnar á því að liðið fari aftur upp í efstu deild, en í augnablikinu er liðið í 3ja sæti í næstefstu deild á eftir Leicester og Durham. Liðið tapaði í síðasta leik fyrir áramót á útivelli gegn Durham 0-2, og hefði svo átt að spila gegn London Bees um helgina en þeim leik var frestað út af Covid smiti innan leikmannahóps Liverpool.

  Það er því ljóst að til að liðið eigi einhvern möguleika á að komast aftur í hóp þeirra bestu, þá verður allt að ganga upp á seinni helmingi tímabilsins, og reyndar þarf liðið að treysta á að liðin fyrir ofan misstígi sig.

  Það fór kannski ekki mjög hátt síðastliðið haust, en þá var Susan Black skipuð framkvæmdastjóri Liverpool Women. Mögulega er hún að láta til sín taka, og við skulum vona að planið sé að setja meiri kraft í kvennaliðið, frekar en að Vicky hafi viljað að klúbburinn myndi bakka liðið betur upp en ekki fengið þann stuðning sem hún vildi.

  Nýr knattspyrnustjóri hefur ekki verið kynntur, en við munum segja fréttir af því um leið og þær berast.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close