Liðið gegn Villarreal!

Make or break. Stærsti og mikilvægasti leikur liðsins í langan tíma og staðan er alls ekki sú besta eftir fyrri leik liðana í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Villareal vann fyrri leikinn 1-0 á Spáni eftir að hafa skorað sigurmarkið í uppbótartíma. Okkar menn eru með bak upp að veggnum og verða að berjast fyrir lífi sínu í keppninni.

Liðið þarf að skora mark gegn miklu varnarliði og var mikið gagnrýnt fyrir nálgun sína í fyrri leiknum og hvernig bregst Jurgen Klopp við? Hann hefur reynt að kveikja í stuðningsmönnunum fyrir leikinn og ætlar að treysta mikið á þessa víðfrægu Anfield ógn sem Manchester United og Dortmund hafa fengið að finna fyrir í ár. Hann ætlar að rífa upp stemminguna og stillir upp mjög sóknarsinnuðu liði í kvöld.

Mignolet

Clyne – Toure – Lovren – Moreno

Milner – Can

Lallana – Firmino – Coutinho
Sturridge

Bekkur: Ward, Benteke, Skrtel, Lucas, Allen, Ibe.

Can er kominn til baka og allir helstu sóknarmennirnir okkar inn á. Klopp ætlar að klára þetta í kvöld!

Let’s go! Áfram Liverpool!

Villarreal á morgun

Evrópa. Undanúrslit. Anfield. Seinni leikur. 1-0 undir. Það er komið að mikilvægasta leik tímabilsins hjá Liverpool FC. Ekki bara þeim mikilvægasta heldur þeim eina sem skiptir máli úr þessu. Hér er allt undir. Sigur eða sumarfrí.

Hversu heitt þráið þið þetta, strákar?

Villarreal-menn mæta grimmir á Anfield á morgun í seinni leik liðanna eftir nauman 1-0 sigur í síðustu viku. Sá leikur var með þeim leiðinlegri og tíðindaminni í Evrópudeildinni í vetur (og er af nokkrum slíkum að taka hjá okkar liði í ár) en einmitt þegar virtist sem okkar menn ætluðu að ná að snúa heim með markalaust jafntefli í farteskinu gleymdi liðið að leiknum lýkur ekki fyrr en dómarinn flautar af, heimamenn komust í skyndisókn og, voilá!, skyndilega var búið að stilla bökum upp við vegg fyrir heimaleikinn.

Um gestina ætla ég ekki að fjölyrða. Við sáum öll hvað í þá er spunnið í síðustu viku. Þeir eru með góðan markvörð og feykilega skipulagða og sterka vörn sem verður erfitt að brjóta niður annað kvöld. Á miðjunni eru strákar sem halda bolta vel og hafa sýnt í þessari keppni og La Liga í vetur að þeir halda haus og frammi eru tveir stórhættulegir, ekki síst Bakumbu sem gæti reynst skeinuhættur í skyndisóknum á morgun.

Höfum það á hreinu að þótt þeir séu yfir í einvíginu og muni verjast ötullega þá held ég að Guli Kafbáturinn hafi alveg augastað á útivallarmarki á morgun. Þannig að ég býst við að þeir verði með mjög skipulagðar og skeinuhættar skyndisóknir sem gætu orðið það sem ræður úrslitum í þessu einvígi.

Verkefni Liverpool FC er einfalt. Ellefu leikmenn þurfa að rífa sig upp úr lægð síðustu þriggja leikja og eiga sína bestu frammistöðu á tímabilinu og tólfti maðurinn þarf að setja sig í Dortmund-gírinn og sýna Spánverjunum hvernig menn fara að þessu á einum frægasta stemningsvelli heims, ef ekki þeim frægasta.

Hvað leikmannahópinn varðar staðfesti Jürgen Klopp í dag á blaðamannafundi að aðeins Emre Can er orðinn heill á ný og kemur inn í leikmannahópinn. Það er þó ekki búist við því að hann verði í byrjunarliðinu.

Í raun ætla ég að spá aðeins einni breytingu frá liðinu sem hóf leik í Vila-real fyrir viku. Í raun getum við kallað það leiðréttingu frekar en breytingu því Klopp gerði að mínu mati þau slæmu mistök á Spáni að velja taktík fram yfir þann lúxus að geta spilað sínum besta leikmanni í undanúrslitum Evrópukeppni.

studge

Sorrý, Jürgen, en hvað varstu að hugsa?

Allavega, Daniel Sturridge kemur inn í byrjunarliðið og ég ætla að giska á að það verði Lucas Leiva sem víkur. Sókndjarft byrjunarliðið mun þá líta nokkurn veginn svona út á morgun:

Mignolet

Clyne – Lovren – Touré – Moreno

Lallana – Allen – Milner

Firmino – Sturridge – Coutinho

4-3-3, 4-2-3-1, 4-4-2, 4-4-1-1, teiknið þetta upp að vild. Þessir leikmenn munu byrja og þeir kunna að spila fótbolta saman. Enda spái ég að við munum þurfa mörk, í fleirtölu, til að komast í úrslitaleikinn.

MÍN SPÁ: Villarreal skorar á morgun en það reynist þeim ekki nóg. Anfield skartar sínu kröftugasta og leikmenn okkar verða staðráðnir í að komast alla leið. Við komumst í 2-0 (Sturridge og Firmino, að sjálfsögðu), þeir minnka svo muninn í 2-1 í seinni hálfleik en Sturridge skorar aftur undir lokin og tryggir okkur 3-1 sigur, 3-2 samanlagt og við fögnum alla leið til Basel.

Þetta skal gerast. Ég neita að trúa að tímabilinu ljúki annað kvöld. Koma svo Rauðir!

YNWA

Englandsmeistarar Leicester!

Þetta var bara að gerast. Í alvöru:

Jafntefli Tottenham gegn Chelsea í kvöld þýðir að LEICESTER CITY eru Englandsmeistarar í knattspyrnu karla!

Þetta er ótrúlegur árangur. Svo magnað að maður hefur haft hálft tímabilið til að venjast tilhugsuninni og nær því ekki enn. Liðið var nánast dauðadæmt á botni deildarinnar fyrir 14 mánuðum áður en magnaður lokasprettur lyfti þeim upp úr fallsætunum. Síðasta sumar mætti svo Claudio gamli Ranieri á svæðið og liðið bara hélt áfram að vinna … og vinna … og vinna.

Og nú eru þeir Englandsmeistarar.

Það er ekki hægt annað en að óska Refunum innilega til hamingju með þetta. Þetta lið var einfaldlega besta liðið í vetur!

Swansea – Liverpool 3-1

Spurning hvað maður nennir að eyða mörgum orðum í svona leik …..

Klopp gerði 8 breytingar frá því á fimmmtudaginn, með Skrtel sem fyrirliða og allt of fáliðaður á miðjunni. Þetta var yngsta byrjunarlið Liverpool í sögu úrvalsdeildarinnar, held að meðalaldurinn hafi verið rétt rúm 23 ár, en liðið var sem sagt svona í dag

Ward

Clyne – Skrtel(c) – Lovren – Smith

Stewart – Chirivella

Ibe – Coutinho – Ojo
Sturridge

Bekkur: Mignolet, Benteke, Lallana, Lucas, Brannagan, Teixeira.

Continue reading

Liðið gegn Swansea

Ég bjóst alveg við miklum breytingum frá því á fimmtudaginn en að sjá 8 breytingar og Skrtel sem fyrirliða er meira en ég átti von á….

Hvað um það, Klopp stillir þessu svona upp:

Ward

Clyne – Skrtel(c) – Lovren – Smith

Stewart – Chirivella

Ibe – Coutinho – Ojo
Sturridge

Bekkur: Mignolet, Benteke, Lallana, Lucas, Brannagan, Teixeira.

Alltaf gaman að sjá ungu strákana fá sénsinn, sérstaklega Ojo sem hefur verið virkilega sprækur í þeim leikjum sem hann hefur fengið.

Við eigum alveg að geta unnið þetta Swansea lið með þessu liði, vonandi að Coutinho og Sturridge verði á tánum í dag.

YNWA