Lokadagur gluggans 2014

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

(Nýjasta uppfærsla efst)

21:41 (KAR): James Pearce hjá Liverpool Echo segir að Liverpool séu búnir í dag. Enginn inn, enginn seldur. Assaidi lánaður til Stoke, Coates lánaður til Sunderland. Fabio Borini verður áfram hjá Liverpool í vetur, Lucas Leiva líka. Enginn markvörður inn í kvöld.

Mikið var hressandi að vera ekkert stressaður á Deadline Day!


18:20 (Babu) Þessir eru oft mjög hressir, endilega kíkið á þetta enda ekkert að frétta hjá okkar mönnum


18:00 (Babu) – Guðfaðir TDD Jim White hefur þetta eftir stærstu stjörnu TDD Harry Redknapp um Fabio Borini, gerum a.m.k. ráð fyrir að Borini verði ekki leikmaður Liverpool á morgun.


17:50 (Babu) Þetta segir allt sem segja þarf um hversu ómerkilegur TDD þetta er


17:45 (Babu) Óstaðfestar fréttir frá Liverpool Echo segja reyndar að Enrique sé staddur í London og hafi þurft að taka stóra ákvörðun.


17:40 (Babu) Sky er ekki einu sinni með myndavél á Melwood í dag. Það eru þó einhverjir leikmenn á leiðinni út og Sebastian Coates er farinn á láni í eitt ár til Sunderland, fínt að sjá hvað hann getur í EPL áður en hann er seldur.


11:37 (KAR): James Pearce hjá Liverpool Echo segir í netspjalli að Liverpool sé að íhuga að bjóða Victor Valdes samning. Valdes er samningslaus (og meiddur fram í desember) þannig að það er hægt að gera við hann samning eftir að glugganum lýkur. Mögulegt sé að Liverpool bjóði honum samning í október/nóvember til að fá hann inn um jólin, lítist þeim vel á heilsu hans á þeim punkti. En það er allavega möguleiki, fari svo að enginn markvörður komi í dag, að fá Valdes seinna í vetur.

Einnig segir Pearce að Oussama Assaidi gæti enn farið til Stoke en bara ef hann lækkar launakröfur sínar sem eru víst fáránlegar (eldri fregnir herma að hann hafi heimtað að Stoke tvöfaldi launin sem hann hefur hjá Liverpool í dag, trúi því varla). Rodgers hefur gert honum ljóst að hann fær ekki mínútu með liðinu í vetur og því hlýtur hann að fara fyrir dagslok.


10:38 (KAR): BBC staðfesta hér að Sebastian Coates verður á láni hjá Sunderland í vetur. Ég er sáttur við þann díl, er ekki tilbúinn að gefast upp á honum strax og vil sjá hann fá heilt tímabil í Úrvalsdeildinni. Ég vona að hann standi sig vel og komi inn fyrir Kolo Touré næsta sumar. Gott mál.


10:23 (KAR): Það er enn lítið að frétta hjá Liverpool, eins og við var að búast. United virðast vera að tryggja sér Falcao á láni (en enga varnarmenn), mönnum til mikillar skemmtunar. Annars sást einn besti leikmaður heims á Melwood í morgun:

Ó, Luis. Við munum sakna þín!


Þá er komið að lokadegi félagaskiptagluggans sumarið 2014. Það stefnir í rólegan dag hjá okkar mönnum þar sem flest viðskipti hafa farið fram tímanlega í sumar. Liverpool hefur keypt 9 leikmenn (lánað einn þeirra strax út) og selt 7 í byrjun dags, auk þess að lána 8 leikmenn. Í dag þykir líklegast að við sjáum brottfarir frá Fabio Borini, Oussama Assaidi og jafnvel Lucas Leiva, þótt koma eigi eftir í ljós hvort þeir verða seldir eða lánaðir. Einnig virðist Seb Coates ætla að bætast í lánshópinn en hann verður hjá Sunderland í vetur ef af líkum lætur.

Hvað innkomur varðar er helst skrafað um Sergio Romero, landsliðsmarkvörð Argentínu sem leikur fyrir Sampdoria en var á láni hjá Mónakó síðasta vetur. Sagt er að Liverpool hafi enn áhuga á að fá góða samkeppni fyrir Simon Mignolet og því gæti eitthvað gerst í þeim málum í dag.

Við fylgjumst að sjálfsögðu með hér á Kop.is og ef eitthvað gerist hjá okkar mönnum verður þessi færsla uppfærð með nýjustu fréttum. En þangað til er þetta opinn þráður, þið getið rætt félagaskipti annarra liða eða hvað sem ykkur sýnist hér.

Tottenham 0 – Liverpool 3

Okkar menn mættu á White Hart Lane í London í dag og einsog í fyrra þá voru Liverpool menn miklu betra liðið á vellinum og í ár þá kláruðum við ósigrað lið Tottenham 0-3.

Mario Balotelli var í byrjunarliðinu í sínum fyrsta leik og Rodgers stillti upp tveimur framherjum og Gerrard, Henderson, Allen og Sterling í demanti á miðjunni.

Mignolet

Manquilo – Sakho – Lovren – Moreno

Henderson – Gerrard – Allen – Sterling

Sturridge – Balotelli

Bekkur: Jones, Enrique, Toure, Lambert, Coutinho, Can, Markovic

Fyrstu mínúturnar var þetta jafnt, en við náðum að skora fyrst. Henderson náði boltanum, gaf á Sturridge, sem lék svo fábærri sendingu inná Henderson aftur, sem gaf beint á Raheem Sterling, sem að skoraði flott mark.

Það sem eftir lifði af fyrri hálfleik voru Tottenham meira með boltann, en þeir ógnuðu aldrei að ráði fyrir utan eitt færi sem Chadli fékk eftir að Lovren mistókst að vinna skallabolta. En Mignolet varði vel.

Þetta reyndist eina skot Spurs á markið í öllum leiknum.

Strax í seinni hálfleik komumst við svo í 2-0. Sturridge gaf á Allen, sem að Dier reif í og Allen datt í teignum. Vítaspyrna dæmd, sem var hárréttur dómur þó maður hafi séð dómara sleppa svona brotum margoft. Steven Gerrard mætti á punktinn og skoraði framhjá Lloris.

Þriðja markið kom svo frá Alberto Moreno, sem keyrði upp hálfan völl framhjá vörn Tottenham og setti hann glæsilega í hornið.

Eftir þetta var leikurinn búinn. Okkar menn voru líklegri til að bæta við mörkum en Tottenham að komast á blað og þar var Sterling næstur eftir að hann hafði leikið á hálfa Tottenham vörnina, en tókst að klúðra skotinu einn á móti Lloris. 0-3 útisigur staðreynd. Frábært.

Maður leiksins: Ég horfði á leikinn á upptöku vitandi úrslitin, sem þýddi að ég gat horft á hann í rólegheitum. Ég hafði þó lesið mikið á Twitter um Mignolet, Sakho og Lovren. Ég verð að segja eins og er að mér fannst vörn og markvörður vera nánast óaðfinnanleg í dag. Sakho átti eina slæma sendingu á Spurs leikmann og einstaka sinnum voru þeir smá óöruggir, en Tottenham voru bara einu sinni nálægt því að skora í þessum leik. Bakverðirnir voru sérstaklega öflugir og Moreno kórónaði sinn leik með þessu marki.

Miðjan fannst mér virka betur núna en í síðustu tveimur leikjum. Balotelli átti fína innkomu og Sturridge ógnaði vel. En ég ætla að velja hinn unga Raheem Sterling mann leiksins. Ég efast um að það sé betri unglingur að spila fótbolta í heiminum í dag. Frábær leikmaður, sem hefur núna skorað 2 mörk í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.

Okkar menn mættu á þennan erfiða útivöll og voru aldrei líklegir til að láta þennan sigur renna sér úr greipum.


Núna erum við búnir með þessa hrikalega erfiðu byrjun á deildinni og niðurstaðan er 6 stig. Það er þremur stigum betra en í sömu viðureignum í fyrra. Við erum klárlega búnir með erfiðasta prógrammið af liðunum sem eru líklegust að vera í efstu sætunum. Og staðan er sú að við erum búnir að tapa jafnmörgum stigum og Spurs & Man City og færri stigum en Arsenal, Everton og Man U. Það er mun betra en ég þorði að vonast til.

Núna tekur við tveggja vikna landsleikjahlé og svo er leikjaprógrammið svona út október: Aston Villa (h), West Ham (ú), Everton (H), West Brom (h), QPR (ú) og Hull heima. Á milli þessara leikja munum við svo spila í deildarbikar og 3 leiki í Meistaradeildinni. En af þessu prógrammi ættum við að geta klárað alla leikina og stimplað okkur vel inní baráttuna um titilinn.

Þessi leikur í dag var algjör úrslitaleikur að mínu mati. Ef við hefðum tapað eða gert jafntefli hefðu margir byrjað að afskrifa okkur í titilbaráttunni. En með sigri komumst við útúr þessu erfiða prógrammi á pari eða betur við öll lið nema Chelsea. Það er gott veganesti í baráttunni framundan.

Og svo er líka frábært að vita til þess að okkar menn eru búnir að klára sín mál nánast að fullu er varðar leikmannakaup. Ólíkt til dæmis Arsenal og Man U, sem eru í tómu basli núna sólarhring áður en leikmannaglugginn lokar.

Ég er allavegana sáttur og bjartsýnn á framhaldið.

Mange tak kære Daniel!

Held að við verðum að trufla undirbúninginn fyrir Tottenhamleikinn þar sem að við fengum af því fréttir að hann Daniel okkar Agger hefur ákveðið að kveðja klúbbinn sinn og okkar.

Agger Það segir eiginlega allt um hollustu drengsins við okkar alrauða lið að hann lýsir því hér í viðtalinu að hann hafi neitað félagaskiptum til annarra enskra og evrópskra liða nokkrum sinnum á síðustu tímabilum og einnig í sumar því hann vill ekki verða keppinautur Liverpool.

Hann segir líka að skrokkurinn leyfi ekki lengur þau átök sem fylgi enska boltanum og því bara fer hann aftur heim til Bröndby, þaðan sem hann kom fyrir níu árum. Kaupverðið er sagt vera 3 milljónir punda miðað við alls konar árangur, sem er gjafverð og sýnir hvað klúbbnum þykir vænt um hann.

Ég sagði í sumar að ég teldi þetta vofa yfir og það hefur gengið eftir. Það á þó ekkert skylt við það að ég vilji hafa losnað við Agger, enda einn af mínum uppáhaldsleikmönnum síðustu ár með sinn frábæra vinstri fót og yfirveguðu spilamennsku. Ég mun sakna hans sárt úr rauðu treyjunni en óska honum alls hins besta með Bröndby.

Karakter sem aldrei mun gleymast og nú kemur í ljós hver verður varafyrirliði klúbbsins okkar.

Mange tak og på gensyn!

Tottenham upphitun – leikmannaglugginn

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

“Liverpool invested a lot of money this summer and we went another way. We believe in our squad and added some players for the balance.”
- Mauricio Pochettino stjóri Tottenham.

Þetta sagði stjóri Tottenham bara orðrétt ári eftir að félagið sólundaði Gareth Bale peningunum sínum í leikmenn sem áttu nánast allir vægast sagt vont tímabil. Ég er ekki að segja að þetta sé rangt hjá honum en elsku vinur skrúfaðu niður í hræsninni, þetta er á Alex Ferguson leveli. Tottenham var ekki einu sinni að stækka hópinn sinn fyrir Meistaradeildina á síðasta tímabili.

Þessi upphitun verður þríþætt, fyrst hefðbundin yfirferð á okkar mönnum, því næst skoðum við Tottenham og þá með áherslu á stjórann þeirra. Að lokum skoðum við helstu fréttir af leikmannamarkaðnum sem lokar eftir helgi.


Liverpool

Pochettino er ekki að ljúga, Liverpool er búið að fjárfesta töluvert í sumar, svo mikið raunar að margir tala um þetta sem Tottenham sumar hjá okkar mönnum. Ennþá eigum við eftir að sjá tvo spennandi leikmenn spila fyrir félagið og þeir gera það líklega báðir um helgina. Adam Lallana er farin að æfa aftur eftir smávægileg meiðsli og verður í hóp á morgun. Hann er dýrasti leikmaður þessa sumarglugga og einn af þremur leikmönnum Liverpool með innherja upplýsingar um Pochettino, já og einn af a.m.k. þremur aðdáendum hans innan herbúða Liverpool.

Hinn leikmaðurinn sem við eigum eftir að sjá spila fyrir Liverpool er Mario Balotelli og er óhætt að segja að eftirvæntingin fyrir honum er gríðarleg á Merseyside. Báðir stjórar hafa reynt að draga úr mikilvægi hans í þessum leik, Rodgers segir að Liverpool snúist ekki um Balotelli heldur liðið í heild og Pochettino sagði að Balotelli væri frábær leikmaður en ekkert auka áhyggjuefni fyrir sína menn. Hann væri mikilvægur Liverpool en ekki Tottenham.

Fair enough, en mikið vona ég að allar fyrirsagnir eftir leik verði um Mario Balotelli, þá á baksíðum blaðanna fyrir frábæran leik, ekki á forsíðunni fyrir eitthvað ævintýralega vitlaust. Fyrsti leikur Balotelli er alltaf að fara snúast að stórum hluta um hann, a.m.k. í aðdraganda leiksins, hvað sem hver segir.

Síðasti leikur var okkar mönnum ansi dýrkeyptur, fyrir það fyrsta tapaðist þessi sex stiga leikur illa og ofan á það misstum við þrjá byrjunarliðsmenn í meiðsli, allt varnarmenn. Það er alltaf vont að þurfa hrófla mikið við vörninni, líka vörn Liverpool og vonandi erum við nú með næga breidd til að bregðast við þessu. Glen Johnson er pottþétt ekki með á morgun þó meiðsli hans séu ekki talin mjög alvarleg. Alberto Moreno er ekkert búinn að æfa í þessari viku en er að ná sér og gæti náð leiknum gegn Tottenham, ef ekki þá er Jose Enrique klár í slaginn og búinn að æfa alla þessa viku. Martin Skrtel meiddist einnig gegn City og er sagður tæpari en Moreno að ná þessum leik. Það er til lagar af leikmönnum til að fylla skarð Skrtel, lager sem gæti reyndar verið að minnka töluvert núna um helgina.

Hópurinn er annars í nokkuð góðu standi, það er langt síðan liðið spilaði síðasta leik í samhengi við hvernig þetta tímabil verður og það er mjög langt í næsta leik. Rodgers er líklega ekki að fara breyta miklu fyrir þennan slag að ég held, nema vegna meiðsla sem hann hefur ekki stjórn. Eina fyrir utan meiðsli er að ég held að Mario Balotelli fari beint í byrjunarliðið og Liverpool leggi upp með tígulmiðju.

29.08.14 - Gegn Tottenham

Liverpool hefur byrjað þetta tímabil full rólega m.v. stemminguna á síðasta tímabili og nú er kominn tími og mannskapur til að sækja aftur. Þetta var mjög þunglamalegt gegn Southamton með Gerrard og Lucas á miðjunni. Skárra að mörgu leiti gegn Man City en alls ekki nógu gott. Núna þarf að setja sóknarvélina í gang og ég tippa á að Rodgers geri það á móti Tottenham.

Mignolet virðist ætla að verða markmaður Nr.1 í vetur að öllu leiti án samkeppni, sá þarf að stíga upp ef þetta á ekki að verða hans lokatímabil sem markmaður nr. 1 hjá Liverpool.

Ef Skrtel er frá er þessi leikur risastórt tækifæri fyrir Mamadou Sakho. Margir vilja reyndar fá hann inn í liðið hvort sem Skrtel er meiddur eða ekki og ég rétti upp hönd með þeim hópi. Komi Sakho inn fer Lovren hægra megin í vörnina sem er ekki hans staða en ætti að vera honum eðlilegri þar sem hann er jafnfættur.

Bara ekkert Kolo Toure grín Brendan!

Moreno verður á sínum stað ef hann er heill og væri það til marks um hversu langt hann er þá kominn á undan Enrique í goggunarröðinni. Enrique hefur ekki verið í hóp það sem af er þessu móti en á að vera tilbúinn ef kallið kemur, vonandi eru fréttir þess efnis að hann fari í þessum glugga ekki sannar enda þurfum við augljóslega þessa breidd.

Rodgers virðist síðan treysta hinum unga og óreynda Manquillo vel og hann ætti að vera öruggur inn ef Johnson er meiddur. Jon Flanagan er auðvitað ennþá á meiðslalistanum líka, Wisdom er farinn á láni og það er búið að selja Kelly.

Gerrard þarf að sinna sínum varnarskyldum mun betur en hann hefur verið að gera í fyrstu tveimur leikjunum og það er alveg ljóst að Pochettino leggur upp með að sækja á þau svæði sem Gerrard skilur eftir sig milli varnar og miðju. 4-2-3-1 kerfið með fimm miðjumönnum sem pressa ætti að henta mjög vel til að gera einmitt þetta og hef ég þar sérstaklega áhyggjur af Eriksen.

Mögulega heldur Joe Allen sæti sínu og Coutinho verður sá sem víkur fyrir Balotelli. Ég hef þó verið að segja það eftir síðustu tvo leiki að Coutinho þurfi að fara aftur í þá stöðu sem hentaði honum svo vel á síðasta tímabili og það er á miðjunni. Hann þarf svo sannarlega að bæta sinn leik engu að síður. Henderson er sjálfvalinn við hliðina á honum.

Tígulmiðjan er það kerfi sem hentar Sterling hvað best og verður spennandi að sjá Sterling með Balotelli og Sturridge fyrir framan sig. Hann hefur ekki verið nóg í boltanum í fyrstu tveimur leikjunum og of auðvelt að klippa hann út. Þetta er öllu meira mál þegar hann er í holunni.

Lallana verður pottþétt á bekknum í þessum leik sem eykur breiddina til muna. Ef Rodgers hættir ekki á það að láta Balotelli byrja þennan leik fáum við annaðhvort Lambert inn í sama hlutverk eða (það sem er líklegra) Lazar Markovic. Serbinn getur farið bæði á vænginn og í holuna. Þetta er aðeins betri breidd en Aspas og Moses. Þá væru Emre Can og Allen einnig á bekknum.

Síðasta tímabil hefur nákvæmlega ekkert að segja á morgun, þetta er nýtt Liverpool lið og þó mannskapurinn sé svipaður þá er þetta allt annað Tottenham lið líka. Liverpool vann 0-5 á White Harte Lane í fyrra og 4-0 á Anfield. Andre Villas Boas var rekinn eftir tapið heima á meðan Sherwood notaði tækifærið meðan hann kom á Anfield sem stjóri að sitja uppi í stúku til að læra betur, enda var útreiðin sem Tottenham fékk í þessum leikjum ekkert annað en kennslustund

Spá: Liverpool var búið að tapa 5-6 leikjum í röð á White Hart Lane áður en Brendan Rodgers Liverpool mætti þangað í fyrra. Liverpool er ekkert að fara vinna þetta með fimm mörkum á morgun en ég held að við vinnum þetta nú samt. Europa League leikur Tottenham situr vonandi í þeim líka frá því á fimmtudaginn og truflar undirbúninginn fyrir þennan leik.

Segi 1-2 sigur eftir þriðju undir væntingum frammistöðu tímabilsins. Balotelli og Sterling skora mörkin.


Tottenham

Tottenham stillti að mestu upp varaliði á fimmtudaginn gegn félagi sem minnir mann á dimmu dagana er Liverpool tók þátt í Europa League, AEL Limassol.

Það er fyndið að heyra stjóra Spurs stæra sig af því að kaupa enga leikmenn og treysta á þá sem fyrir eru en segja má að núna séu þeir loksins að njóta góðs af þeim leikmönnum sem keyptir voru fyrir síðasta tímabil. Pochettino má samt eiga það að með hann á hliðarlínunni vikar mun meiri ógn af Tottenham heldur en á síðasta tímabili, ekki það að heppnissigur á West Ham og góðir sigrar á QPR og Limassol sendi mann hlaupandi á klósettið af stressi.

Miðað við síðustu leiki sé ég lið Tottenham ca. svona fyrir mér
29.08.14 - Lið Tottenham

Hvernig Tottenham er að ná að halda Hugo Lloris annað tímabil utan Meistaradeildarinnar skil ég ekki alveg en þar held ég að þeir séu með næstbesta markmann deildarinnar. Eric Dier hefur komið með miklum látum inn í enska boltann og skorað í báðum fyrstu deildarleikjum sínum. Hann ætti að halda sinni stöðu í hægri bakverði, Rose eða Ben Davies berjast um stöðuna vinstra megin á meðan.

Michael Dawson fyrrum fyrirliði Tottenham er því miður farinn til Hull og vörn þeirra því ekki jafn svakalega hæg fyrir vikið. Kaboul og Vertonhen verða líklega á sínum stað.

Bentaleb spilaði síðasta leik á miðjunni með Capoue, þá voru Sandro, Paulinho og Dembele fyrir utan liðið. Það er fínasta breidd og þeir voru að selja Gylfa Sig. Ég tippa á að Dembele komi inn í þessa viðureign fyrir Bentaleb. Capoue er einn af þeim sem keyptur var inn í fyrra en var meiddur stóran part tímabilsins.

Chadli skoraði tvö mörk í síðasta leik og virðist vera að aðlagast enska boltanum betur núna en á síðasta tímabili. Lamela var allt í öllu í síðasta leik og það er eins og við söðgum svo oft í fyrra, alvöru mjög góður leikmaður. Hann er heldur betur heill heilsu núna og verður líklega besti leikmaður Spurs í vetur. Eriksen gerir einnig tilkall þar og þeir rótera stöðum á því svæði sem mig grunar að Gerrard verði uppálagt að verja.

Adebayor var í byrjunarliðinu síðan fram yfir Kane og Soldado og verður það líklega einnig núna. Það er leikmaður sem svipar til Balotelli að því leiti að stundum virðist hann bara ekki nenna þessu. Óstöðvandi þegar hann hinsvegar er rétt stilltur.


Stjóri Tottenham

Mauricio Pochettino er mjög spennandi stjóri sem hefur stimplað sig rækilega inn í enska boltann á skömmum tíma. Hann tók við liði Southamton sem var ekki talið í teljandi veseni af Nigel Atkins sem hafði farið með þá upp um tvær deildir. Ákvörðun Nicola Cortese framkvæmdastjóra Southamton var alls ekki vinsæl á Englandi og því töluverð pressa á Pochettino að standa sig. Núna 18 mánuðum seinna er hann kominn með mun stærra félag og það man enginn eftir Atkins.

Pochettino skilur ensku vel og hefur talað tungumálið við sína leikmenn síðan hann kom til Englands. Viðtöl hefur hann þar til nú hinsvegar alltaf tekið á Spænsku. Þessi fyrrum Argentínski harðjaxl er 42 ára og spilaði nánast allann sinn feril í Barcelona borg á Spáni utan nokkurra ára í Frakklandi með PSG. Trikkið er bara að hann spilaði fyrir hitt liðið í höfuðborg Katalóníu, Espanyol.

Frá 1999 – 2002 spilaði Pochettino 20 landsleiki fyrir Argentínu og var í hjarta varnarinnar er liðið féll út með skömm á HM 2002. Hann hætti að spila árið 2006, þá 34 ára gamall og sneri sér að þjálfun.

Pochettino var í janúar 2009 ráðin stjóri Espanyol sem var í þriðja neðsta sæti og áður búið að skipta um stjóra á þessari sömu leiktíð. Hann tók við liði sem innihélt 9 leikmenn sem hann spilaði með áður, breytti alveg um leikstíl og sneri gengi félagsins við þannig að þeir enduðu í 10. sæti löngu öryggir frá fallsvæðinu. Árið eftir var liðið á svipuðum slóðum og að spila skemmtilegan fótbolta, það tímabil fékk m.a. hinn 19 ára gamli leikmaður Inter, Philip Coutinho fyrst séns í Evrópu en hann var lánsmaður frá janúar 2012 og stóð sig mjög vel.

Eftir 13 leiki á sínu þriðja tímabili var Espanyol í neðsta sæti með 9 stig og var Pochettino rekinn í nóvember 2012. Hann var því ekkert augljóst val fyrir Southamton þremur mánuðum seinna og maður skildi alveg Englendingana sem blöskraði það að efnilegum enskum stjóra með frábæran árangur væri sparkað fyrir mann með ekki merkilegri ferilsskrá.

Ef það er eitthvað til sem heitir gamli skólinn í þjálfunarfræðum þá held ég að það sé óhætt að segja að Pochettino sé af nýja skólanum. Hann er reyndar grjótharður hvað æfingaprógrammið varðar og hefur sín lið í eins góðu formi og mögulegt er.

James Ward-Prowse miðjumaðurinn ungi sagði að það væri stundum eins og menn þyrftu tvö hjörtu til að þola æfingarnar hans og spilastíl. Hann er hataður á æfinasvæðinu frá mánudögum til föstudags en elskaður á leikdegi.

Á æfingatímabilinu fyrir síðasta tímabil voru oft þrjár æfingar á dag og miklu meiri kraftur og ákafi settur í þær en áður þekktust hjá Southamton. Þeir mættu á æfingu frá 10-12 aftur frá 14-16 og svo í þriðja sinn milli 18 og 20. Pochettino mætir klukkan 7 alla daga og er aldrei farinn fyrr en í fyrsta lagi 12 tímum síðar.

Þegar tímabilið byrjar slakar hann aðeins á álaginu en heldur mönnum samt alveg í rúmlega topp standi líkamlega. Gary-Taylor Fletcher fengi t.a.m. ekki margar mínútur á æfingasvæði Tottenham, það er ljóst. Dæmigerð vika hjá Southamton og Espanyol var þannig að á mánudögum var hvíld. Þriðjudaga og miðvikudaga var allt sett í botn á æfingasvæðinu og tekið 2-3 æfingar á dag. Á fimmtudögum voru léttari æfingar og á föstudögum var farið í taktík með áherslu á andstæðinga morgundagsins. Rétt eins og á við um alla aðra andstæðinga Liverpool þá má gera ráð fyrir að búið sé að kortleggja leik okkar manna niður í smáatriði fyrir morgundaginn.

Dani Osvaldo sem spilaði með honum hjá Espanyol og Southamton sagði að hann hefði látið alla leikmenn æfa með GPS flögu og mælt þannig niður í smáatriði hreyfingar þeirra á æfingum og væri svo með IPad til að greina þeirra framlag í leikjum. Þetta er auðvitað engin bylting í þjálfun núna en eitthvað segir mér að t.d. Sherwood eða Redknapp forverar hans hjá Tottenham hafi ekki mikið verið að velta svona hlutum fyrir sér.

Osvaldo sagði að hann hafi stundum langað til að ganga frá Mauricio Pochettino á æfingum en sagði jafnframt að þær virkuðu, ekki að það væri að sjá í fyrra hvað Osvaldo varðar.

Ein gagnrýni sem Pochettino fær er að hann heldur uppá vissa leikmenn og er íhaldssamur á byrjunarliðið, eitthvað sem gekk upp hjá Southamton sem hefur ekki það stóran hóp en gæti orðið verra hjá Tottenham sem hefur fleiri stór nöfn sem halda þarf góðum.

Ef við ættum að líkja leikstíl Pochettino við einhvern þjálfara þá væri það líklega einmitt Brendan Rodgers og það er nákvæmlega engin tilviljun að Liverpool hafi keypt þrjá leikmenn sem spiluðu vel hjá honum í fyrra. Líkt og Rodgers er hann óhræddur við að gefa ungum heimamönnum séns og þróa þá áfram eftir sinni hugmyndafræði. Hann vill raunar helst hafa unga leikmenn í góðu formi sem eru tilbúnir að hlaupa allar 90 mínúturnar og trúa 100% á hans leikstíl. Eitthvað sem honum tókst hjá Southamton.

Southamton er tiltölulega nýkomið í Úrvalsdeild og ennþá að ná fótfestu, strax á sínu öðru tímabili var hann reglulega með hinn 19 ára James Ward-Prowse í liðinu. Hann gaf einnig Calum Chambers 19 ára tækifæri, hann fór á góðan pening til Arsenal og beint í liðið hjá þeim. Luke Shaw var lykilmaður 18 ára og hljóp upp og niður vænginn, ekki trúa orði af því sem Van Gaal segir um að hann sé ekki í formi, en þar er enn einn ungi enski leikmaðurinn sem fékk 100% traust hjá Pochettino. Sam Gallagher 18 ára sóknarmaður fékk nokkrar mínútur í fyrra og eins hinn 19 ára miðjumaður Harrison Reed.

Ef ekki hefði verið fyrir ótrúlegt sumar hjá Southamton væri Pochettino að skilja við þá í toppmálum til framtíðar eftir 18 mánaða starf. Þetta er auðvitað alls ekki honum einum að þakka en hann á sinn þátt í bæði uppgangi Southamton og því verði sem þeir eru að fá fyrir sína leikmenn núna.

Lið Pochettino spila hið Spænska 4-2-3-1 kerfi, lagt er upp með að vera í topp standi og pressa andstæðinginn út um allann völl og linna ekki látum fyrr en boltanum er náð. Svipað og hugmyndafræði manna eins og Guardiola, Klopp og Rodgers gengur út á.

Hann er vanalega með einn uppi á topp og þrjá sóknartengiliði fyrir aftan hann. Ekkert kick and run heldur er lagt upp með að spila boltanum. Þegar Lloris tekur markspyrnur er lagt upp með að gera eins og Barcelona, miðverðirnir draga sig út á vængina og fá boltann þar meðan bakverðirnir fara hátt upp og styðja við miðjuna sóknarlega. Það gæti t.a.m. útskýrt hvern fjandan bakvörðurinn Eric Dier var að gera allt í einu fremstur gegn West Ham er hann lokaði þeim leik.

Jay Rodriguez stórbætti leik sinn á síðasta tímabili og var mjög óheppinn að vera ekki í Brasilíu í sumar vegna meiðsla. Hann er mikill aðdáandi Pochettino og orðaði það svona fyrir stuttu

‘He brought the best out of me and gave me self-belief, To work with him was brilliant, it was hard work but the lads loved it and we got results.

‘His tactical awareness gave you confidence, you wanted to go out for him because he’s such a great guy. You can talk to him. The players respected him so much.’

Leikmenn Southamton voru tilbúnir að ganga yfir eld og brennistein fyrir hann, nánast

Daniel Levy hefur rekið 8 stjóra frá Tottenham á 13 árum, ég skal viðurkenna að ég mun ekki gráta það þegar hann rekur Pochettino, ég hef bullandi trú á þessum stjóra.


Leikmannaglugginn.

Höfum þennan þráð opinn fyrir leikmannagluggann líka, það er mikið að gerast bak við tjöldin en aldrei þessu vant er Liverpool líklega búið að græja öll sín innkaup fyrir síðasta dag og enginn með teljandi væntingar um að eitthvað stórvægilegt gerist í þeirri deild. Hinsvegar gætu nokkrir verið á leiðinni frá félaginu, bæði á láni og fyrir fullt og allt.

Daniel Agger.
Mjög óvæntar fréttir herma að Liverpool hafi tekið tilboði frá hans gamla félagi Bröndby upp á 3m um að kaupa hann. Þetta væri auðvitað gjafaverð fyrir Agger sem er ekki orðinn 30 ára en segir kannski líka hversu langt frá því hann er að vinna sér sæti í liðinu eða á hæsta leveli yfir höfuð. Hann hefur aldrei náð að verða sá leikmaður sem maður bjóst við skömmu eftir að hann gekk til liðs við Liverpool og líklega hafa tíð meiðsli tekið sinn toll þar. Gleymum ekki að hann var í liðinu sem fór í úrslit Meistaradeildarinnar 2007.

Agger á meira en allt gott skilið frá stuðningsmönnum Liverpool og eins á hann skilið að fara heim til Bröndby á lægra verði óski hann þess. Agger var mjög trúr Liverpool alla tíð á mjög erfiðum tímum og var lengi vel bara mjög góður miðvörður. Liverpool er sagt hafa hafnað 20m tilboði í hann frá Man City 2012 og 15m boði frá Barcelona 2013. Hann sagði aldrei orð við þessu annað en hann langaði ekkert að fara frá Liverpool. Hann segir núna að hann hann hafi ekki áhuga á að spila fyrir neitt annað félag en Bröndby fari hann frá Liverpool, það þrátt fyrir áhuga frá bæði A. Madríd og Napoli. Hann hefur verið hjá félaginu í 8 ár og á meðan það verður eftirsjá af honum þá er þetta líklega rétti tíminn til að hleypa nýjum mönnum að. Líklega vanmetum við aðeins hversu lítinn áhuga Agger hefur annars á fótbolta.

Jordon Ibe
Ekki fáum við annan Sterling upp þegar líður á tímabilið, a.m.k. ekki hjá Liverpool. Steve McClaren er greinilega virtur á Anfield því aftur fær hann einn af efnilegri leikmönnum Liverpool á láni til Derby. Helst hefði maður viljað sjá Ibe fara í úrvalsdeildina en líklega gerir það engu minna gagn fyrir hann að spila með mjög góðu liði í Championship deildinni og líklega spila alla leiki. Ibe gæti hæglega valtað fyrir þessa deild í vetur, hann er það góður.

Fabio Borini
Rodgers var nokkuð skýr þegar kom að Borini og segir að hann eins og nokkrir aðrir viti 100% sína stöðu hjá félaginu. Borni greyið er með 14m boð frá Sunderland sem Liverpool vill að hann taki en honum langar augljóslega ekki að fara. Rodgers sagði þetta við Liverpool Echo

“I think Fabio’s situation is clear,” Rodgers told the ECHO.

“All the players who there have been doubts about know exactly where they are at.

“Fabio has got a move there to Sunderland which has been ongoing for a number of weeks. He knows where he stands in terms of his position here at Liverpool.

“For him, it’s best to move on and get playing regularly. But that’s something he has to decide.”

Satt að segja myndi ég sjá á eftir Borini og myndi frekar vilja hafa hann sem einn af fjórum góðum sóknarmönnum í vetur, hvað þá ef hann vill vera áfram. Hann þarf samt að spila og fær það ekki hjá Liverpool, 14m boð er síðan bara of gott til að hafna. Meiðslasaga Borni hjá Liverpool er annars með ólíkindum hann hefur alltaf meiðst um leið og hann fær smá séns í liðinu.

Gerum ráð fyrir að hann fari á mánudaginn.

Jack Robinson
Yngsti leikmaður í sögu Liverpool er farinn til QPR þaðan sem hann var strax lánaður til Huddersfield. Einu sinni var hann mun meira efni en Flanagan sem sýnir okkur hversu lítið er að marka þessa stráka þegar þeir eru 16-18 ára. Robinson verður aldrei í toppklassa en mun vonandi eiga góðan feril í úrvalsdeildarliði.

Aðrir
Assaidi hlýtur að fara á mánudaginn. Coathes virðist ekki vera inni í myndinni þó ég myndi alls ekki gráta það að halda honum sem 4. kosti fram yfir Toure. Lucas Leiva er ennþá á mála hjá Liverpool og verður það vonandi áfram í næstu viku. Ef hann fer þurfum við mann í hans stað. Jose Enrique trúi ég ekki að hann verði seldur núna loksins þegar hann er kominn til baka úr meiðslum.

Xabi Alonso
Líklega er Alonso á topp 5 yfir mína uppáhalds leikmenn hjá Liverpool í seinni tíð og honum þykir greinilega vænt um það. Hann er 32 ára núna og hefur verið á leið frá Real Madríd í sumar. Ég er ekki að segja að það sé einhver voðaleg hetjudáð að velja Bayern fram yfir önnur lið en hann segist ekki vilja fara til annara liða á Englandi en Liverpool til að varðveita tengsl sín við okkur. Ég kaupi það og bóka þetta sem skoruð stig hjá meistara Xabi Alonso.

Fernando Torres
Karlanginn virðist loksins vera að yfirgefa Enska boltann sem er fínt mál og vonandi nær hann sér á strik á nýjum vígstöðum. Torres var frábær hjá Liverpool, gjörsamlega frábær og skilaði okkur 50m. Sagan held ég að muni dæma hann aðeins betur heldur en við gerðum er hann fór á vondum tíma til Chelsea, erkifjenda Liverpool. Helminginn af tíma hans hjá Liverpool var ekki staðið við nein loforð og félagið var í frjálsu falli í kjölfar stríðsástans innanhúss og gjaldþrots. Það sveið hvað mest að hann fór þegar félagið var komið með nýja eigendur og nýjan þjálfara, líklega kom það bara of seint.

Hann var ekkert frábær í mótlæti og sýndi stuðningsmönnum Liverpool ekki mikla virðingu í fyrsta viðtali hjá Chelsea en eftir situr að Liverpool fékk hans langbestu ár og 50m í kveðjugjöf. Sama dag fengum við Luis Suarez (og einhvern annan sóknarmann).

Ári eftir að hann fór til Chelsea stal Liverpool Daniel Sturridge frá þeim á rétt rúmlega 1/5 upphæðarinnar sem þeir borguðu fyrir Torres. Hann er núna búinn að skora fleiri mörk í fyrstu 50 leikjum sínum fyrir Liverpool en nokkur annar, toppar þar margar goðsagnir úr sögu félagsins ásamt manninn sem átti metið, Fernando Torres.

Hjá AC Milan kemur kann í stað Mario Balotelli, endum þetta á þessu