Latest stories

 • Liverpool 2-0 Wolves – kaflaskil hjá Liverpool

  Liverpool lauk leiktíðinni með ansi þægilegum og góðum 2-0 sigri á Wolves í frábærri stemmingu á Anfield.

  Leikurinn bar nú alveg þess merkis að það var ekki mikið undir fyrir liðin annað en stoltið og það að Liverpool vildi enda lokaleik Klopp á jákvæðum úrslitum.

  Á 28. mínútu fékk leikmaður Wolves beint rautt spjald eftir nokkuð groddaralega tæklingu og það var Mac Allister sem skoraði gott skallamark eftir frábæra fyrirgjöf Harvey Elliott.

  Skömmu síðar skoraði Quansah í öðrum leiknum sínum í röð þegar hann potaði skoti Salah yfir línuna.

  Liverpool fékk tækifæri til að skora fleiri og þá sérstaklega þegar Luis Diaz setti boltann í slá og á marklínu fyrir opnu marki – en það súmmerar ansi mikið upp leiktíð Liverpool!

  Leikurinn fjaraði út og aðal athyglin var á það að kveðja Klopp og þá aðila sem eru að yfirgefa félagið.

  Í tilfinningaríkri kveðjuræðu sinni dásamaði Klopp félagið, liðið, borgina, tímann sem hann var hjá félaginu og sagði að við ættum að vera jákvæð og spennt fyrir framtíðinni – og svo fékk hann Anfield til að syngja nafn Arne Slot og í leiðinni svo gott sem staðfestir fyrir hönd félagsins að hann muni taka við stjórn á eftir honum.

  Við kveðjum með tár í auga en bros á vör. Þvílíkur tími sem við höfum átt með Jurgen Klopp með öllum þeim árangri, vonbrigðum, minningum og tilfinningum sem við fengum að upplifa á þessum tíma. Danke Jurgen!

  [...]
 • Lokaleikur Klopp – byrjunarliðið klárt

  Þá er komið að því að Jurgen Klopp muni stýra sínum síðasta leik sem stjóri Liverpool þegar Wolves heimsækja Anfield.

  Það virðist mikil stemming á vellinum og í kringum hann, verst að það sé ekki mikið undir í þessum leik en þess í stað fer allt púður í að enda leiktíðina með sigri, þakka Klopp fyrir hans framlag til félagsins og kveðja hann almennilega.

  Að mestu óbreytt lið frá síðustu leikjum nema að Robertson kemur aftur inn í bakvörðinn fyrir Gomez.

  Alisson

  Trent – Quansah – Van Dijk – Robertson

  Elliott – Endo – Mac Allister

  Salah – Gakpo – Diaz

  Bekkur: Kelleher, Gomez, Konate, Szoboszlai, Jones, Nunez, Jota, Gravenberch, Bradley

  Áhugavert að Jota er mættur í hóp aftur en annars fátt sem kemur á óvart.

  [...]
 • Lokaleikur tímabilsins hjá stelpunum

  Það er alveg ljóst að þessi helgi er undirlögð undir þá staðreynd að Klopp er að stýra Liverpool í sínum síðasta leik á morgun. Auk þess reiknum við með því að það hafi allir frétt af því að Klopp er kominn með Instagram reikning.

  En í millitíðinni munu stelpurnar okkar spila sinn lokaleik á tímabilinu, þegar þær heimsækja Leicester núna kl. 14. Staðan hjá okkar konum er þannig séð svipuð og hjá strákunum: þær munu nánast örugglega enda í 4. sæti – ekki nema það verði mjög óvænt úrslit í leik Chelsea og United, ÁSAMT því að okkar konur nái ekki í stig gegn Leicester. Aðal spennan er sú hvort það verði City eða Chelsea sem verði meistarar, liðin tvö fara inn í lokaumferðina með jafnmörg stig en Chelsea með betra markahlutfall sem nemur tveim mörkum. En okkur er svosem drullusama um það hvaða olíulið vinnur fyrst það eru ekki stelpurnar okkar.

  Þetta verður líka kveðjuleikur hjá stelpunum – bara ekki jafn dramatískt og hjá Klopp – því í gær var tilkynnt að 4 leikmenn séu á förum þar sem samningar þeirra eru að renna út:

  • Melissa Lawley er búin að vera hjá félaginu í allnokkur ár, og er komin yfir 100 leikja markið. Hennar tækifæri hafa verið í færri kantinum á þessari leiktíð, alveg klárt mál að Roman Haug, Kiernan og Enderby eru á undan henni í goggunarröðinni, plús það að hún er nýorðin þrítug. Svosem ekkert agalegur aldur fyrir knattspyrnuleikmann… en skiljanlegt að hennar tími sé kominn, líka í ljósi þess að hún hefur verið svolítið meiðslahrjáð síðustu misserin þó hún sé líklega búin að ná sér af þeim meiðslum núna.
  • Shanice van de Sanden kom fyrir tveimur árum eftir að hafa verið áður hjá félaginu á árunum 2016 – 2017. Hún verður 32ja ára í haust, hefur verið meidd eins og Lawley, nú og svo var hún að eignast barn með kærustunni sinni svo kannski vill hún bara vera nær þeim. Líka skiljanlegt að endurnýja ekki við hana.
  • Miri Taylor kom bara síðasta haust, og fór svo á láni til Aston Villa í janúarglugganum. Það er því mjög skiljanlegt að hún sé á förum, bara fullt af öðrum miðjumönnum sem eru á undan henni í goggunarröðinni. En hennar mun líklega alltaf verða minnst fyrir sigurmarkið gegn Arsenal á Emirates í opnunarleik tímabilsins í haust. Ekki slæmt að eiga svoleiðis á ferilskránni.
  • Að lokum er svo kannski óvæntasta nafnið á listanum, en Finninn fljúgandi Emma Koivisto mun líka yfirgefa félagið í sumar. Hún hefur byrjað flesta leiki þar sem hún hefur verið leikfær, svo þetta kemur því ögn flatt upp á fólk, en hún verður svosem líka þrítug í haust, og greinilegt að stefnan er að yngja upp í liðinu. Lucy Parry er búin að vera á kantinum, yngsti leikmaður Liverpool Women frá upphafi, mögulega á núna að gefa henni alvöru séns, en svo getur líka vel verið að það sé annar hægri bak í sigtinu.

  Eins og áður sagði, þá dugar okkar konum að ná í stig í dag, og það er aðeins ef United vinnur Chelsea og okkar konur tapa að United myndu skjótast aftur upp í 4. sætið. Fyrri leikur Liverpool og Leicester í deildinni í vetur endaði með sigri hjá okkar konum, svo nú þarf bara að bíta í skjaldarrendur og gulltryggja sætið. En eitthvað segir mér að Emma Hayes vilji ekki enda sinn Chelsea feril með tapi gegn United. Í öllu falli eru líkurnar með okkar konum, og auðvitað best að þær tryggi þetta bara sjálfar en séu ekki að stóla á úrslit annarra leikja.

  Liðið sem byrjar núna á eftir lítur svona út:

  Laws

  Clark – Bonner – Fisk

  Koivisto – Nagano – Hinds

  Holland – Höbinger

  Roman Haug – Enderby

  Bekkur: Spencer, Parry, Daniels, Missy Bo, Kiernan, Shaw, Heath, Lawley

  Ungur varamannabekkur: Eva Spencer er varamarkvörður í dag, og þetta er held ég í fyrsta skiptið sem Zara Shaw er á skýrslu. Væri gaman að sjá hana fá mínútur. Mia Heath er svo farin að sjást oftar á bekk og er þar í dag.

  Leikurinn verður sýndur á The FA Player, Viaplay vilja greinilega einbeita sér að leikjum City og Chelsea.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Vertu sæll kæri vinur, ég kveð þig nú

  Þá er komið að kveðjustundinni. Jurgen Klopp er að stjórna Liverpool í síðasta sinn.

  Við á kop.is erum þegar byrjaðir að kveðja Jurgen Klopp og ég bendi á þráð frá síðastliðnum fimmtudegi þar sem lesendur síðunnar geta ritað sitt um Klopp. Þessi upphitun snýst því að mestu um leikinn sjálfan. En…Jurgen Klopp er samt og verður miðpunkturinn í upphituninni eins og hann verður í leiknum sjálfum.

  Wolves

  Ef einhvern tímann hefur verið spilaður leikur sem skiptir engu máli þá er það þessi leikur. Liverpool er öruggt í 3. sæti deildarinnar hvernig sem leikurinn fer, Wolves eru í 13.sæti deildarinnar með 46 stig, geta því komist upp í 10. sætið með sigri og geta dottið niður í 14. sæti með tapi og ef Fulham vinnur gegn Luton Town á útivelli í síðustu umferðinni. 10. sætið kann alveg að hljóma ágætt fyrir Wolves en til að ná því þurfa Brighton og Bournemouth að tapa sínum leikjum og Crystal Palace má ekki vinna sinn. Þannig að, ef 10.sætið er eitthvað spennandi þá reyna Úlfarnir að ná því, en ég hef það á tilfinningunni að þetta skipti þá engu gífurlegu máli. Þeir hafa raunar tapað fjórum af síðustu fimm leikjum og það segir mér að þeim sé orðið drull um hvar þeir enda. Eða að meiðslin í hópnum hafi gert það að verkum að þeir hafi ekki náð sér á strik, en José Sá, Craig Dawson, Noha Lemina, Pedro Neto og Leon Chiwome eru allir meiddir. Ég veit ekki hvenær þeir meiddust og hvort þetta sé ástæðan fyrir slöku gengi þeirra undanfarið en ólíklegt er að þessir leikmenn verði með á Anfield.

  Byrjunarliðið þeirra er líklegt svona:

  Bentley

  Doherty – Kilman – Toti Gomes – Semedo – Ait Nouri

  Joao Gomes – Mario Lemina – Traore

  Cunha – Hwang

  Þetta er vissulega alveg lið sem hefur gert okkur skráveifu í gegnum tíðina og ég var allaveg mjög hrifinn af Pedro Neto í upphafi tímabils. En hann er ekki með.

  En að okkar mönnum.

  Þetta mun allt snúast um Jurgen okkar allra. Anfield mun heiðra hann á ógleymanegan hátt. Anfield mun syngja alla söngvana hans og leikmenn munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera þetta að ógleymanlegum leik. Stundin eftir leik verður mjög tilfinningarík, ekki bara fyrir hann, heldur stuðningsmenn, starfsfólk, leikmenn, þjálfaraliðið, mömmur og pabba leikmanna, börnin þeirra, okkur á Íslandi og púllara í Malasíu, Kenýa og Noregi svo eitthvað sé nefnt. Við verðum bara örugglega flest öll skælandi eða allavega með ryk í augum. Það sem þessi maður hefur fært okkur, gert fyrir okkur, hvernig honum hefur tekist að láta okkur líða…ég á bara erfitt með að stoppa.

  Ég mæli þó með allt of stuttu en mjög áhugaverðu og skemmtilegu viðtali við Jurgen frá Anfield Wrap:

  Allt þetta, og svo myndböndin öll með minningunum munu hjálpa okkur og ylja okkur sama hvað gerist næst.

  Byrjunarliðið verður líklega einhvern veginn svona:

  Leikurinn verður frábær veisla, endar 4-2 fyrir okkur og Jurgen fær þá kveðjugjöf sem hann á skilda.

  Ljúkum þessu með ljóðstúf frá hinni frábæru hljómsveit Hjálmum, Spor eftir Þorstein Einarsson.

  Vertu sæll kæri vinur ég kveð þig nú
  Með sorg í hjarta og tár á kinn
  Þótt fenni í sporin þín þá lifir lag þitt enn
  Þú löngum spannst þín draumaljóð
  Á hverjum morgni rís sólin
  Og stafar geislum inn til mín

  Hún lýsir upp daginn
  Og þerrar öll mín tár
  Breiðir úr sér um bæinn og heilar öll mín sár

  Þó að nóttin klæðist myrkri
  Sem móðir dagsins hún þér ann
  Og þegar skuggar leita á þig
  Kæri vinur mundu að
  Á hverjum morgni rís sólin
  Og stafar geislum inn til þín

  Hún lýsir upp daginn
  Og þerrar öll mín tár
  Breiðir úr sér um bæinn og heilar öll mín sár

  [...]
 • Stuðningsmenn tjá sig um Jurgen Klopp

  Jurgen Klopp er að stjórna sínum síðasta Liverpool leik á sunnudaginn og er ég viss um að allir stuðningsmenn Liverpool eiga eftir að sakna hans.  Ég var ekki uppi þegar Shankly stjórnaði en minn uppáhalds stjóri allra tíma er og verður Klopp.

  Við eigum eftir að gera hans feril betri skil bæði í ritum og ræðum en okkur langar að fá ykkar álit á hans Liverpool stjóra tíð og þætti okkur væntum ef þið svarið eftirfarandi spurningum.

  Hver er þín uppáhalds minning frá stjóra tíð Klopp?

  Hver er þinn uppáhalds leikur undir stjórn Klopp?

  Hver er þinn uppáhalds leikmaður sem spilað hefur undir stjórn Klopp?

  Hvert er þitt uppáhalds mark í stjóra tíð Klopp?

  Hvað myndir þú gefa Klopp í einkunn 0-10 fyrir sinn Liverpool feril og af hverju? 

  Er líf eftir Klopp?

  Svo ef það er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri í sambandi við stjóra tíð Klopp þá bara um að gera að bæta því við.

  [...]
 • Gullkastið – Síðasta vika Klopp

  Síðasta vika Jurgen Klopp sem stjóri Liverpool. Tókum saman uppáhalds momentin í tíð Klopp sem stjóri Liverpool. Gerðum upp leikinn á móti Aston Villa og tímabilið í heild. Spáðum svo í spilin fyrir í lokaumferðina.
  Aly Chissoko er svo að sjálfstöðu kominn í Ögurverk lið aldarinnar.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


  Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Jói ÚtherjiÖgurverk ehf / Done

  MP3: Þáttur 474

  [...]
 • Villa – Liverpool 3-3 Loka útileikur Klopp

  Síðasti útileikja kvöld  tímabils var spilað í kvöld gegn Aston Villa og má segja að þetta var mjög skrítin leikur.

  Mörkin

  0-1  Martinez sjálfsmark  (70 sek)
  1-1  Tielemans (12 mín)
  1-2  Gakpo (23 mín)
  1-3 Quansah (48 mín)
  2-3 Duran ( 85 mín)
  3-3 Duran ( 88 mín)

  Hvað gerðist helst markvert í leiknum? 

  Þetta var hálfgerður bull leikur.  Villa langaði mikið í 3 stig en það var greinilegt að við vorum að spila alveg pressulausir. Vorum sóknardjarfir og hættulegir fram á við en galopnir til baka eða bíddu það er s.s lítil munur á okkur í alvöru eða pressulausir.

  Leikurinn byrjaði á því að við fengum gefins mark þökk sé Martinez(þetta er þriðja sjálfsmarkið hans sem er met fyrir markmann í úrvalsdeildinni) en það endist ekki lengi og tók Villa um 10 mín að jafna leikinn. Við komust svo aftur yfir þegar Gomez lagði boltann á Gakpo sem skoraði en VAR tókst aðeins að þurrka út gleðina en ekki markið.  Eftir þetta var eiginlega ótrúlegt að Villa náði ekki að jafna eftir dauðafæri sem ég held að Nunez myndi meiri segja skora úr (það má alveg gera smá grín).
  Þetta var sem sagt galopinn fyrri hálfleikur þar sem bæði lið fengu tækifæri til að skora og er ég nokkuð viss um að fleiri mörk verður skoruð í þessum leik(þetta var skrifað í hálfleik)

  Nei, sko þurftum ekki að bíða lengi. Quansah með geggjað skallamark og kom okkur í góða stöðu í síðari hálfleik.  Villa sótti aðeins eftir þetta og skoruðu mark en voru rétt fyrir innan en við létum heldur betur vita af okkur og héldum áfram að vera hættulegir sóknarlega. Þegar þetta virtist ætla að sigla í þægilegan sigur þá skoruðu Villa eftir klaufagang hjá okkur og kom þá smá líf í heimamenn en það dugði ekki til fyrir þá. Nunez náði að sleppa í gegn og skoraði en viti menn þá var hann rangstæður eins og svo oft áður en samt vel klárað hjá kappanum. Hvað gerðist næst í leiknum, jú Durant skoraði og náði að jafna leikinn eftir að hafa tekið það vel á móti boltanum að hann fór bara beint í markið.

  Hvað þýða úrsli leiksins? 

  Þau breytta svo sem litlu fyrir okkur. Við erum í þriðja og endum í þriðja sætið en það má segja að þessi úrslit hafi meiri áhrif á Villa sem þurfa  að treysta á að Tottenham sigrar ekki Man City á morgun til að þeir nálgist þá ekki í baráttunni um 4.sætið en þeir taka þessu stigi sem gæti verið dýrmæt.

  Hverjir stóðu sig vel í dag?

  Mér fannst engin frábær og engin skelfilegur. Þetta var bara einn af þessum leikjum undir lok tímabils þar sem ekkert er undir fyrir okkur og þá stundum koma svona leikir. Mér fannst gaman að sjá Gakpo skora og halda áfram að stimpla sig inn. Þetta mark hjá Quansah var geggjað og heilt yfir var sóknin okkar mjög ógnandi allan leikinn enda skoruðum við þrjú mörk og hefðum geta skorað fleiri en það sem skilur á milli í þessu er að við erum stundum klaufar varnarlega og að fá á okkur þrjú mörk er auðvitað ekki í lagi. Mér langar samt ekki að skamma neinn og ætla að sleppa því en vel Gakpo sem mann leiksins fyrir að halda áfram sanna að hann er vel nothæfur þegar hann er kominn með smá sjálfstraust.

  Næst á dagskrá
  Það er stórleikur næstu helgi. Hann hefur enga þýðingu fyrir deildina en hefur stóra þýðingu fyrir okkur.  Wolves á heimavelli er loka leikur Jurgen Klopp sem stjóra Liverpool og vona ég að við gefum honum alvöru kveðjugjöf.

  Fyrst að Duran skoraði tvö mörk eða Duran Duran ( þetta verða fyrirsagnir blaðana á morgun) þá endum við þetta á þessu lagi.

  [...]
 • Liðið gegn Villa

  Síðasti útileikur Klopp er gegn Aston Villa

  Fyrsti útileikur Klopp með Liverpool var 17.okt 2015 og var það 0-0 Jafntefli gegn Tottenham en maður sá strax áhrifin sem hann hafði á liðið.  Leikmenn hlupu úr sér lungun í þeim leik og er fræg mynd af Lallana nánast detta í fangið á Klopp þegar hann var tekinn út af í lokinn alveg búinn á því.

  Þetta er liðið í dag.

  Svo sem ekki mikið sem kemur á nemað að Andy er líklega meiddur.

  [...]
 • Upphitun: Aston Villa á útivelli

  Þá er komið að síðasta útileik í stjórnartíð Jurgen Klopp hjá Liverpool. Við mætum þar Aston Villa sem hafa verið ógnarsterkir á sínum heimavelli í ár og geta með sigri í kvöld tryggt sér Meistaradeildarsæti á næsta ári sem væri gríðarlegur árángur fyrir Villa. Fyrri leikur liðanna á Anfield sem fór fram í fjórðu umferð var líklega okkar besti leikur í vetur þegar við unnum 3-0 sigur með mörkum frá Szoboszlai, Salah og sjálfsmarki frá Cash.

  Liðin tvö koma bæði inn í leikinn í smá lægð, okkar menn búnir að detta úr Evrópudeild og titilbaráttu á síðusu vikum og Villa töpuðu undanúrslitaleik Sambandsdeildarinnar því verður áhugavert að sjá hvernig liðin mæta stemmd í leikinn. Villa er að reyna að halda Spurs fyrir neðan sig og okkar menn að reyna klára tímabilið með sæmd.

  Það er svo auðvitað þegar það er að engu að keppa að meiðslalistinn lítur vel út. Þar eru bara fastamennirnir Thiago, Matip og Jota meðan aðrir eru heilir og tilbúnir að taka þátt í kvöld.

  Ég ætla að skjóta á að við sjáum þetta lið frá Klopp á eftir. Okkar besta varnarlína og Elliott, Macca og Szoboszlai þar fyrir framan þar sem Endo og Jones hafa verið mjög slakir að undanförnu. Fremstan vill ég sjá Nunez í síðustu tveimur leikjunum og vona að hann nái að pota inn einu til tveimur mörkum fyrir lok tímabils og fari með smá sjálfstraust inn í sumarið því ég vil sjá hann áfram og ein helsta ástæðan fyrir því að með Edwards kominn aftur að sjá um félagsskipti trúi ég því að ef Nunez væri að gera það sama hjá öðru liði yrði hann okkar helsta skotmark í sumar. 24 ára sóknarmaður sem lítur nánast alltaf út fyrir að vera hættulegur búinn að koma að 31 marki í öllum keppnum og færi á undirverði þar sem hann hefur klúðrað aragrúa af færum. Ég held að þetta væru kaup sem myndu heilla Edwards og mig langar að sjá hvað hann getur fært okkur undir handleiðslu Slot.

  Spá

  Ég spái 1-1 jafntefli í frekar daufum leik. Watkins heldur áfram að skora en Salah jafnar leikinn fyrir okkar menn.

  [...]
 • Julian Ward líka kominn til baka

  Það er nokkuð auðvelt að draga þá ályktun að á seinni hluta stjóratíðar Jurgen Klopp hafi eitthvað breyst í samvinnu hans við Michael Edwards og marga af þeim lykilmönnum sem unnu undir honum við rekstur félagsins, þá sérstaklega leikmannamál. Bæði samninga við núverandi leikmenn og auðvitað kaup á leikmönnum.

  Það kom verulega á óvart sem dæmi þegar Michael Edwards tilkynnti að hann ætlaði að hætta á sínum tíma, loksins þegar hann var búinn að vinna sig upp á topp hjá Liverpool sem var á sama tíma besta lið í heimi. Virkaði satt að segja galið. Félagið er samt það vel rekið að FSG tilkynnti um leið hver arftaki hans yrði og hann var þá þegar að vinna með Edwards og gerði í sex mánuði til viðbótar. Julian Ward entist hinsvegar bara í 12 mánuði og sagði líka upp eftir að hafa á rúmlega áratug unnið sig upp í toppstöðuna hjá Liverpool.

  Mögulega eigum við eftir að fá djúsí ævisögur á næstu árum þar sem fram kemur hvað gekk raunverulega á bak við tjöldin en það blasir aðeins við að samstarfið hafi orðið erfiðara eftir því sem á leið. Það var t.d. ekkert eðlilega ósannfærandi frá sjónarhóli FSG þegar Jörg Schmadtke var ráðin í staðin. Með virðingu fyrir honum þá er þetta líklega kunningi Jurgen Klopp sem var hættur í boltanum og hafði aldrei unnið á Liverpool leveli, ráðin í afleysingar sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool. Ekki að hann stóð sig eflaust mjög vel, en þetta var klárlega ekki skv. sannfærandi langtímaplani. Með Edwards og Ward hættu líka einhverjir af nördunum sem hrósað hefur verið í hástert undanfarin ár. Klopp var í raun sá eini sem var eftir sem maður treysti á.

  Núna þegar hann er að hætta koma bæði Edwards og Ward aftur um leið. Báðir hafa hafnað mjög stórum tilboðum frá öðrum liðum og velja að koma aftur til FSG en vissulega í öðruvísi hlutverk. Er það málið, eru þeir að koma í svona mikið meira spennandi verkefni að FSG tókst að sannfæra þá eða er brottför Klopp einhver partur af ástæðunni?

  Edwards, Ward og Pedro Marques verða allir meira bendlaðir við FSG og áætlanir þeirra um að stækka fótboltakökuna sína. Marques var áður lykilmaður hjá Man City í þeirra uppbyggingu á eignarhaldi margra klúbba en er núna að koma frá Benfica í heimalandinu til FSG. Hann líkt og Edwards og Ward er stór ráðning og eftirsóttur aðili sem sýnir kannski metnað FSG fyrir þessu verkefni. Hvaða þýðingu endurkoma þeirra hefur nákvæmlega fyrir Liverpool er mjög erfitt að segja. Richard Hughes er klárlega nýji Edwards og sá sem verður með skrifstofuna á móti Slot.

  Eitt af því sem blasir aðeins við að hafi skapað núning milli Klopp og Edwards á sínum tíma var þegar ákveðið var að framlengja við alla helstu lykilmenn liðsins með mjög stórum langtímasamningum í stað þess að vera meira ruthless og kveðja suma þeirra áður en lappirnar fóru að gefa sig. Klopp er sérstaklega sagður hafa beitt sér fyrir því gegn vilja Edwards að framlengja við 31 árs gamlan Jordan Henderson með fjögurra ára samningi sem gerði hann að einum launahæsta leikmanni liðsins. Eins var samið við t.d. Alisson, Van Dijk, Robbo og Fabinho á samningum sem tók þá vel yfir þrítugt.

  Þá er spurning hvort fleiri leikmenn sem enganvegin voru að skila nægjanlega verðmætum afköstum hafi líka valdið núningi? Liverpool virðist oft vera rosalega lengi að losa sig við farþega.

  Sumarið 2021 eftir ömurlegt tímabil var samið við helstu lykilmenn liðsins nema Wijnaldum sem fór á frjálsri sölu og bara keypt Konate í staðin. Megnið af fjárhæðinni sem fór í þau leikmannakaup kom með sölu á Wilson, Shaqiri og Awoniyi. Erfitt að gagnrýna þennan glugga í ljósi þess að Liverpool var nálægt því að vinna bókstaflega allar keppnir í boði árið eftir en hefði ekki verið hægt að byrja endurnýjun liðsins meira þarna og vinna eftir langtímaplani? Dönsuðu Edwards og Klopp alveg í takt þarna?

  Julian Ward kom sumarið 2022 og þá var bara selt Sadio Mané auk nokkurra yngri leikmanna og aukaleikara. Diaz kom í janúar þá um veturinn og um sumarið bættist Nunez við. Gakpo kom svo sex mánuðum eftir það.

  Þrumurosarisaheljarinnarskitan sumarið 2022 var hinsvegar að klára ekki kaup á nýjum miðjumanni heldur enda gluggann á panic Arthur Melo lánsdíl sem fór þannig að sá leikmaður spilaði ca 8 mínútum meira en Thiago er að gera í vetur.

  Ef að allt hefði verið í himnalagi hjá Liverpool bak við tjöldin hefði félagið mjög líklega verið betur undir það búið að ná ekki að landa kaupunum á Aurélien Tchouaméni og verið með eitthvað aðeins gáfulegra back-up. Hefðu þessi leikmannakaup heppnast hefði Liverpool léttilega náð í Meistaradeildina eftir síðasta tímabil. Rétt eins og að Liverpool hefði líklega landað titlinum í ár hefði Thiago náð þó ekki væri nema helmingnum af tímabilinu.

  Richard Hughes er sagður vera mjög hreinskilinn og tölfræði miðaður, vonandi tekur hann fyrr á svona mikilvægum farþegum. Thiago er t.a.m núna að klára sitt fjórða tímabil hjá Liverpool. Hann hefur spilað 4.600 mínútur í deildinni á þessum tíma eða samtals um 52 leiki. Liverpool klárar um næstu helgi 152.deildarleikinn á þessum tíma. Thiago hefur spilað 34% af þeim. Ekki heldur gleyma að á sama tíma var meira og minna öll miðjan í meiðslum fyrir utan bara hann. Þetta versnar bara ef við horfum aðeins á síðustu tvö tímabil, þar hefur Thiago náð að spila samtals ígildi 14 leikja eða 18%

  Þetta er rándýrt.

  Það voru gerðar mjög jákvæðar breytingar á miðjunni síðasta sumar en allt virkar þetta aðeins bónusútgáfan af því sem til stóð skv. sögusögnum hvers sumars undanfarin ár.

  2022 voru væntingarnar til að byrja með Aurélien Tchouaméni – enduðum með Arthur Melo á láni

  2023 var það Jude Bellingham í nánast heilt ár, en leyst með Mac Allister og Szoboslai sem er nær því við viljum sjá frá Liverpool. Sama sumar fór hinsvegar svipað og árið áður hvað djúpan miðjumanna varðar. Núna var gert 100m boð í Caicedo en einhvernvegin enduðum við með Wataro Endo frá Stuttgart. Flottur leikmaður en enganvegin langtímalausn. Vonandi kemur Liverpool beittara til leiks núna í sumar.

  Arne Slot búinn að undirrita?

  Tökum því með fyrirvara en Fabritzio Romano fullyrðir að Arne Slot sé búinn að undirrita samning við Liverpool og Mirror heldur því fram að hann muni flytja í húsið sem Jurgen Klopp er í núna. Liverpool FC keypti húsið af Brendan Rodgers sem hafði áður keypt það af Steven Gerrard. Slot verður því þriðji stjóri Liverpool til að búa í þessu húsi í Formby.

  Það er hinsvegar spurning hvort Liverpool tilkynni nýjan stjóra nokkuð formlega fyrr en eftir næstu helgi þegar við erum búin að kveðja Klopp og Slot búinn að klára tímabilið í Hollandi?

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close