Latest stories

 • Coutinho?

  Byrjum bara á einfaldri könnun

  Myndir þú vilja Coutinho aftur til Liverpool?

  Loading ... Loading ...

  Það er mögulega til marks um hversu lítið er að frétta af leikmannamarkaðnum tengt Liverpool en Coutinho orðrómar hafa fengið smá bensín eftir að Kia Joorabchian umboðsmaður Coutinho fór í viðtal og talaði nokkuð frjálslega. Hann taldi á sama tíma 60/40 líkur á að hann yrði áfram hjá Barcelona og hafði ekki heyrt annað frá félaginu en að hann væri stór partur af þeirra plönum.

  Það stenst samt tæplega skoðun enda hefur hann átt gríðarlega erfitt uppdráttar á Spáni og félagið hefur í sumar síður en svo staðið í stað. De Jong tekur sitt pláss á miðjunni og Girezmann fer beint í byrjunarliðið frammi. Messi og Suarez eru ennþá á sínum stað og Coutinho er einnig að keppa við Malcom og Dembele um stöðu. Þar að auki er Barcelona orðað við Neymar á nýjan leik og þarf líklega að selja á móti.

  Það er satt að segja ekkert sem bendir til þess að Liverpool vilji Coutinho aftur og hvað þá losa Barcelona úr einhverri fjárhagslegri klípu tengdum kaupum á leikmanni sem ekki gengu upp. Því síður efast ég um að það sé áhugi á launapakka Coutinho hjá Barcelona. Slúðrið segir að Barcelona skuldi Liverpool ennþá um 88m fyrir Coutinho og jafnvel er talað um að þeir taki hann á tveggja ára lánssamningi með 88m klásúlu að þeim tíma liðnum. Þetta er ekkert útilokað og Kia gefur þessu smá undir fótinn með því að segja að Coutinho sé með svo sterk tengsl við Liverpool að það yrði erfitt fyrir hann að fara til annars liðs á Englandi.

  Það fór minna fyrir því þegar hann gerði sér í tvígang upp bakmeiðsli og neitaði að spila leiki fyrir Liverpool til að komast til Spánar. Hann var svo ólmur í að komast frá Liverpool að hann heimtaði að fara á miðju tímabili. Þannig að ég tæki ekki mark á neinu sem hann segir og síður en svo því sem umboðsmaðurinn segir.

  Niðurstaða. Ég hef enga trú á því að Coutinho verði leikmaður Liverpool þegar glugganum lokar í ágúst en það kæmi ekkert rosalega á óvart að Barcelona vilji losna við þessa skuld og eins er ekkert svo fjarstæðukennt að hann vilji losna frá Barcelona eftir undanfarna 18 mánuði.

  Persónulega tæki ég honum alveg aftur ef Klopp vill bæta honum við hópinn, hann var heimsklassa leikmaður hjá Klopp og Liverpool má alveg við því að bæta svona gæðum við hópinn. Mest væri ég samt til í Coutinho tegund af leikmanni í svipuðum gæðaflokki sem er ekkert endilega Coutinho.

  Klopp/Dortmund hefur áður misst sína bestu leikmann sem komu aftur nokkrum árum síðar. Sahin og Kagawa komu aftur með skottið milli lappana eftir að hafa farið frá Dortmund. Götze og núna Hummels hafa einnig skilað sér aftur til Dortmund þar sem þeir áttu frábær ár.

  Hvort að Coutinho fengi eitthvað meiri spilatíma hjá Liverpool en hann fær hjá Barcelona er svo önnur umræða…

  Embed from Getty Images

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Bradford City

  Æfingaleikur nr.2 þetta sumarið fer senn að hefjast og að þessu sinni er það gegn Bradford City á Valley Parade í Vestur-Jórvíkurskíri. Líkt og í síðasta leik þá spilar hver leikmaður 45 mínútur og öllum skipt út í hálfleik (nema einum).

  (more…)

  [...]
 • Vinnan bakvið tjöldin

  New England Sports Group, seinna betur þekktir sem Fenway Sports Group eða FSG, tóku yfir rekstur Liverpool þann sjötta október 2010. Þá skuldaði liðið 218 milljónir punda og rekstrarárið 2010-11 var tap félagsins um fimmtíu milljónir punda. Sem dæmi um sturlun fyrri eiganda þá eyddu þeir fimmtíu milljón punda í þróun á nýjum velli sem varð aldrei meira en nokkrar flottar tölvumyndir. Liðið var nýbúið að falla úr deildarbikarnum gegn fjórðu deildarliði Northampton, það var ugla í þjálfarasætinu og allt logaði í innra átökum. Níu árum seinna, ekki einni grunnskólagöngu síðar er liðið búið að fara í þrjá úrslitaleiki í Evrópu og eru núverandi Evrópumeistarar.

  Myndaniðurstaða fyrir stanley park stadium
  Þetta kostaði 50 milljón punda.

  (more…)

  [...]
 • Tranmere Rovers 0-6 Liverpool

  Mörkin

  0-1   Nathaniel Clyne 6.mín
  0-2   Rhian Brewster 38.mín
  0-3   Rhian Brewster 45.mín
  0-4   Curtis Jones 53.mín
  0-5   Divock Origi 60.mín
  0-6   Bobby Duncan 67.mín

  Leikurinn

  Byrjunarlið fyrri hálfleiks: Mignolet, Clyne, Phillips, Gomez, Larouci, Milner, Oxlade-Chamberlain, Lallana, Kent, Wilson, Brewster.

  Upphaf leiksins var eins og búast mátti við fyrirfram með Liverpool mikið að halda boltanum og Tranmere að liggja aftur. Fyrsta markið var ekki lengi að koma og kom úr óvæntri átt. Á 6. mínútu keyrði Gomez úr vörninni með boltann og nálægt vítateignum fann hann Brewster sem sendi á Clyne í teignum. Nathaniel var ekkert að tvínóna við þetta og kanónaði boltann í skeytin nær með þrumufleig. Glæsilegt mark og góð byrjun.

  Stuttu síðar gerði Gomez mistök sem leiddu til ágætis færis hjá Tranmere en Joe bætti fyrir eigin klúður með því að blokka markskotið af stuttu færi í teignum. Frábær sprettur hjá unga bakverðinum Larouci á 10.mín. er hann keyrði inn frá vængnum, átti nett samspil við Lallana og var kominn einn á móti markmanni en sá örfætti treysti sér ekki í hægri fótarskot og endaði með slöku skoti beint á markmanninn.

  Leikurinn var líflegur og Harry Wilson keyrði upp völlinn, sendi á Kent sem fékk byltu frá varnarmanninum en Mike Dean dómari sem er grjótharður Tranmere stuðningsmaður var ekki á þeim skónum að gefa víti. Aftur komst Larouci í ágætt færi á 19. mín. og í þetta sinn lét hann vaða með vinstri fæti og markmaðurinn gerði vel að verja fyrnafast lágt skot. Tveimur mínútum síðar átti hættulegasti leikmaður Tranmere, Blackett-Taylor, gott skot fyrir utan teig sem Mignolet þurfti að hafa fyrir að verja.

  Að sléttum hálftíma liðnum tóku LFC aukaspyrnu snöggt og Ryan Kent keyrði inn í teiginn en ágætt skot hans fór naumlega yfir slánna. Gott færi. Á 38.mín. slapp Milner upp vinstra megin og krossaði lágan bolta þvert yfir teiginn sem fann en á engan þar. Harry Wilson var hins vegar á hinum vængnum og sendi boltann strax aftur fyrir og þar kom Brewster og skallaði boltann í netið. Vel gert Rhian að vera vel vakandi fyrir seinni fyrirgjöfinni.

  Liverpool sýndi þolinmæði og héldu boltanum vel þegar nálgaðist hálfleik en sóttu allt í einu rétt undir lokin. Kent sendi á Milner sem átti ágætt skot fyrir utan teig en markvörðurinn varði til hliðar. Brewster mætti leiftursnöggur í frákastið eins og góðum framherja sæmir og kláraði vel í netið.

  0-3 í hálfleik

  Byrjunarlið seinni hálfleiks: Jaros, Hoever, Matip, Johnston, Lewis, Fabinho, Jones, Woodburn, Duncan, Glatzel, Origi.

  Eins og vitað var fyrirfram þá skipti Klopp öllu liðinu útaf þannig að nýtt og fersk byrjunarlið hóf seinni hálfleikinn. Tranmere skipti við sama tækifæri Darren Potter inná en hann er uppalinn í akademíu LFC og spilaði samtals 17 leiki fyrir aðalliðið á árunum 2004-2006 undir stjórn Rafa Benitez. Okkar menn héldu áfram að stýra leiknum og á 53.mín. gerði Origi vel að vinna sér stöðu hægra megin við vítateiginn. Sendi boltann á Paul Glatzel sem átti flotta fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Curtis Jones kom aðvífandi og slúttaði vel í netið.

  Á 56. mín þá keyrði Blacken-Taylor enn og aftur á vörn LFC. Ungliðinn George Johnston braut á honum og víti hefði átt að vera niðurstaðan en af undarlegri ástæðu sleppti Mike Dean tækifærinu til að styðja sitt uppáhalds lið. Stuttu síðar keyrði LFC upp og hættuleg sókn endaði með skoti en Tranmere gerðu gagnárás beint í kjölfarið sem endaði með vörðu skoti hinu megin. Líf og fjör í leiknum.

  Á 60. mínútu átti Matip frábæra sendingu inn fyrir vörnina á Divock Origi. Fyrirliðinn átt magnaða móttöku, fór framhjá markverðinum og sendi boltann auðveldlega í netið. Glæsilegt mark og frábærir tveir dagar hjá meistara Divock staðfestir með undirskrift og flottu marki. Mörkin orðin fimm talsins og sléttur klukkutími liðinn.

  Hoever keyrði upp hægri vænginn á 67.mín. og valsaði inn í vítateiginn, lagði á Glatzel en boltinn barst þaðan til Bobby Duncan sem skoraði ekta markahróksmark af stuttu færi. Tranmere héldu að þeir hefðu náð að kvitta smá fyrir sig á 70.mínútu þegar Walker-Rice komst inn fyrir og kláraði vel af stuttu færi en markið var veifað réttilega af vegna rangstöðu.

  Því miður þurfti Glatzel að fara af velli stuttu síðar vegna meiðsla á hné sem vonandi eru ekki alvarleg. Inná í hans stað kom vara-varamarkvörðurinn Daniel Atherton og spilaði hann í framlínunni það sem eftir lifði leiks og var býsna sprækur í þeirri stöðu. Atherton tókst þó ekki að skora og aðrir leikmenn Liverpool létu líka þar við sitja og hlífðu Tranmere við meiri niðurlægingu.

  0-6 fyrir Liverpool lokatölur leiksins

  Tölfræðin

  Bestu leikmenn Liverpool

  Í fyrri hálfleik var Rhian Brewster augljósa ansi sprækur með 2 mörk og stoðsendingu til viðbótar og er hann minn maður leiksins. Larouci var líflegur í vinstri bakverði og hefði geta skorað mark til að toppa frammistöðuna. Milner og Gomez voru fagmannlegir og lögðu báðir sitt af mörkum með marktæku framlagi. Þá fannst mér Kent og Wilson líka vera fínir og skapandi á vængjunum.

  Í seinni hálfleik var Hoever mjög flottur í hægri bakverði og Matip og Origi sýndu sín gæði með yfirveguðum leik. Adam Lewis virkaði líka fínn í vinstri bakverðinum og verður áhugavert að sjá hann í þessari stöðu í fleiri æfingarleikjum. Curtis Jones var líka sprækur og undirstrikaði það með góðu marki.

  Heilt yfir skiluðu nokkurn veginn allir sínu en það var helst að George Johnston leit út fyrir að eiga ekki heima þarna í hafsentinum og líklegt að Sepp van den Berg taki hans stöðu í næsta leik ef FIFA heimildin verður komin tímanlega.

  Næsti leikur er á sunnudaginn kemur gegn Bradford City á Valley Parade.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Tranmere Rovers

  Fyrsti æfingaleikur sumarsins er rétt að fara að hefjast og Evrópumeistararnir að stíga fyrstu skref tímabilsins 2019-2020. Eins og venjulega þá fá margir af yngri leikmönnum og minni spámönnum tækifæri til að láta ljós sitt skína á þessum tíma árs og þess ber glöggt merki á liðsuppstillingunni sem verið var að birta rétt áðan. Öllu liðinu verður skipt út í hálfleik og nýtt inn þannig að allir fá 45 mínútur í dag.

  Liðsuppstilling fyrri hálfleiks er eftirfarandi:

  Mignolet, Clyne, Phillips, Gomez, Larouci, Milner, Oxlade-Chamberlain, Lallana, Kent, Wilson, Brewster.

  Liðið í seinni hálfleik verður svohljóðandi:

  Jaros, Hoever, Matip, Johnston, Lewis, Fabinho, Jones, Woodburn, Duncan, Glatzel, Origi.

  Simon Mignolet mætti til æfinga fyrst í dag þannig að hann fer beint á milli stanganna á fyrsta degi. Clyne fær leik til að sýna sig í söluglugganum en allar líkur eru á því að hann yfirgefi LFC í sumar og hefur Crystal Palace helst verið orðað við hann eftir að Wan-Bissaka var seldur. Hinn ungi alsírski Yasser Larouci byrjar í vinstri bakverði og verður áhugavert að sjá hvernig hann spjarar sig þar en þeir sem vilja vita meira um piltinn geta lesið stórfína grein Jack Lusby um hann.

  Miðjan er stútfull af enskum landsliðsmönnum í nútíð og þátíð en í framlínunni þá spilar besti ungi leikmaður skosku deildarinnar að spreyta sig með Wales-verjanum Harry Wilson og ungstirninu Brewster. Spennandi uppstilling.

  Liðið yngist ögn meira í seinni hálfleik en þar verður Vítezslav Jaros í markinu en hann var víst keyptur til okkar fyrir 2 árum og er eingöngu 17 ár að aldri. Jafnaldri hans Ki Jana Hoever spilar í hægri bakverði en hann kom eftirminnilega inn á í leik gegn Wolves í FA Cup í vetur. Hoever varð Evrópumeistari með Hollandi U-17 ára og spilaði þá í þeirri stöðu en hann er jafnfær um að spila hafsent. Adam Lewis þykir ansi efnilegur vinstri bakvörður og fær tækifæri til að sannfæra Klopp um að hann geti verið varamaður fyrir Andy Robertson í vetur og að það þurfi ekki að kaup neinn þar inn.

  Woodburn er kominn aftur eftir nokkra misheppnaða lánsdíla og vonandi nær hann sér aftur á strik eftir að hafa ungur fengið sénsa með aðalliðinu. Besti súper-sub í heimi leiðir svo línuna eftir að vera nýbúinn að skrifa undir nýjan samning í gær og með honum eru ungu uppöldu Englendingarnir Bobby Duncan og Paul Glatzel sem röðuðu inn mörkunum með U18 liði LFC í vetur.

  Mótherjinn í dag eru góðir grannar okkar í Liverpool-borg en Tranmere Rovers eru þriðja besta lið borgarinnar á eftir LFC og varaliðið LFC. Það hefur ávallt verið góður andi milli liðanna og margir leikmenn sem hafa komið upp úr akademíu okkar en ekki meikað það í rauðu treyjunni hafa farið yfir Mersey-ánna til að spreyta sig hjá Tranmere. Frægt er þegar John Aldridge var spilandi stjóri þeirra og undirritaður var einmitt á vellinum fyrir rúmum tveimur áratugum til að sjá Aldo skipta sjálfum sér inná. Leikurinn er spilaður á heimavelli Tranmere sem heitir Prenton Park en heimamönnum tókst að komast upp um deild í umspilsleik á vordögum.

  Byrjunarlið Tranmere Rovers er svona:

   

  Leikurinn er sýndur á LFCTV-sjónvarpsstöðinni og vonandi ná sem flestir að horfa á hann hvar sem þeir eru staddir í sínum sumarfríum.

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


  [...]
 • Evrópumeistarinn Divock Origi skrifar undir nýjan samning!

  Fyrir fimm árum kom Divock Origi til Liverpool, þá nítján ára. Árin hafa verið stormasöm en eftir ómetanlegt framlag hans í vetur er klúbburinn búin að verðlauna hann með nýjum langtímasamning. Það er ekki komið slúður um hversu langur samningurinn er, líklegast er samningurinn til fjögur til fimm ár, eða þangað til hann er 28 eða 29 ára.

  Væntanlega þýðir þetta að það verður ekki nýr sóknarmaður keyptur í liðið í sumar og að Belginn er óumdeildur fjórði maður í sóknina í vetur. Miðað við hvað hann lagði á sig til að koma sér inn í plön Klopp veðja ég ekki á móti því að hann vinni sig ofar í goggunarröðina á næstu tímabilum.

  Origi hefur nú þegar skorað 28 mörk í 98 leikjum með Liverpool. Það er almennt talið að sóknarmenn toppi um 27 ára aldur. Bestu ár hans eru framundan og þau verða hjá Liverpool!

  [...]
 • Staðfest leikmannasýsl & annað áhugavert

  Liverpool FC eru Evrópumeistarar 2019

  Evrópumeistarar alheimsins hafa haldið sinni stóísku ró í innkaupaglugga sumarsins en ýmis minniháttar leikmannamál hafa átt sér stað á síðastliðinni viku sem vert er að minnast á.

  Fyrst ber að nefna Rafael Camacho sem var seldur til Sporting Lissabon fyrir viku síðan en sú brottför hafði legið í loftinu frá því fyrr í vetur samkvæmt fregnum. Eitthvað var pilturinn ósáttur við sitt hlutskipti hjá LFC og þrátt fyrir að hafa staðið sig vel í þeim tækifærum sem honum bauðst að þá kaus hann að þrýsta á sölu í sumar. Vitandi að einungis eitt ár var eftir af samningi Rafael þá gerði Michael Edwards vel í að fá 5 milljónir punda í reiðufé á borðið ásamt 2 milljóna upphækkunum og framtíðarklásúlum sem gagnast gætu félaginu ef rætist úr stráknum.

  Fingrar hafa verið fettir út í upphæðina en hún er líklega vel sanngjörn hafandi séð João Carlos Teixeira samlanda Camacho vera öflugan hjá varaliði LFC en aldrei náð að stíga almennilega upp í aðalliðið þrátt fyrir lánssamninga og að snúa aftur til heimalandsins. Teixeira hafði spilaði fjórum sinni fleiri leiki fyrir meistaraflokk Liverpool en Camacho áður en hann kvaddi klúbbinn og í dag er hann hjá Vitória Guimarães SC og metinn á litla 1 milljón evra. Knattspyrnuheimurinn er grjótharður bransi og það verða ekki allir ofurstjörnur þótt þeir séu efnilegir á yngri árum.

  Talandi um brottfarir ungliða þá lét hinn tvítugi Bobby Adekanye sig hverfa á braut að samning útrunnum og hélt suður til Rómaborgar í ljósbláan faðm Lazio en við fengum litlar 240 þús.pund í sárabætur. Liverpool hafði boðið honum nýjan samning fyrir stuttu til að verja hagsmuni sína og munu halda þeirri baráttu áfram með því að kæra Lazio til FIFA fyrir að brjóta reglur um samskipti við samningsbundin ungstirni. Í sjálfu sér var ólíklegt að Adekanye myndi nokkurn tímann spila fyrir LFC þó að vissulega hafi hann verið efnilegur er hann kom frá Barcelona á sínum tíma og tapið því ekki mikið. En að sama skapi er það sjálfsagt mál að senda öðrum liðum þau skilaboð að þeim sé ekki frjálst að stela okkar yngri leikmönnum án þess að við verjumst hraustlega og heimtum sanngjarnt kaupverð og krassandi klásúlur. Prinsippmál.

  Stýrivaxtalækkun Seðlabankans í síðustu viku hefur hleypt miklu lífi í lánveitingar og Liverpool voru engir eftirbátar í endurfjármögnun og hafa endurlánað Marko Grujic til Herthu Berlin fyrir næsta tímabil. Að launum hljótum við 2 milljónir punda í eingreiðslu ásamt hugsanlegum 500 þús. punda í bónusa en Berlínarliðið borgar einnig launakostnað á meðan á láni stendur. Vonandi heldur Marko áfram að setja mark sitt á Bundesliguna og koma enn öflugri til baka síðar meir.

  Þá höfum við framlengt samning við hinn uppalda 17 ára leikmann Leighton Clarkson en miðjumaðurinn er sérlega góður í föstum leikatriðum og vanmetinn gimsteinn að margra mati. Vert að fylgjast vel með honum ásamt Bobby Duncan, Paul Glatzel og hinum bikarmeisturunum í Liverpool undir 18 ára á næsta tímabili.

  Um miðja þessa viku kom mikill kraftur í áhugaverðan orðróm um að Liverpool væri að fá til sín hinn 16 ára Harvey Elliott frá Fulham en hann er að klára sinn samning og vill leita á önnur mið. Elliott þessi hefur á stuttum ferli helst unnið sér það til frægðar að vera yngsti leikmaður til að spila í úrvalsdeildinni en hann gerði það núna í vor hjá fallistum Fulham. Af gömlum Twitter-aðgangi stráksa að dæma þá er ljóst að hann er vel uppalinn sem Púlari frá barnæsku og væri því að uppfylla sinn æskudraum um að spila fyrir Rauða herinn. Hann er örfættur sókndjarfur vængmaður sem skoraði 5 mörk og lagði upp 4 til viðbótar í 18 leikjum í deildarkeppni undir 18 ára í vetur og spennandi væri að sjá hann í okkar röðum.

  Einnig láku myndir á alnetið af hugsanlegum seinni varabúning næsta vetrar og er hann í ágætari kantinum að mati pistlahöfundar. Meistari Bobby Firmino sem er að brillera með Brössum í Brasilíu í Copa America tekur sig í það minnsta vel út í honum.

  Af slúðri er fátt að frétta en Lovren hefur verið linkaður við nýdæmda AC Milan en Klopp ku vilja halda Króatanum kröftuga fyrir næsta tímabil. Það er helst ef að Lovren sjálfur færi fram á sölu sem að eitthvað myndi gerast í þeim málum en það þykir harla ólíklegt að svo stöddu. Í vikunni voru Liverpool líka linkaðir við tvo óskandinavíska Dani en þeir eru reyndar Spánverjar og heita Dani Ceballos og Dani Olmo. Ekki veit ég hvort þeir séu neitt líklegri en næsti maður til að vera keyptur til Liverpool í sumar en það má stytta sér stundir í gúrkutíðinni við það að spá í spænsk spil sem þessi.

  Til að bæta í slúðrið þá var markmannssamloka frá Southampton orðuð við okkur ef ske kynni að Mignolet vildi finna nýtt lið og okkur myndi vanta nýjan varamarkmann. Báðir Forster og McCarthy eru alveg raunhæfir valkostir á bekkinn með úrvalsdeildarreynslu og á fínum aldri. Ef Forster gæti nálgast sitt fyrra form þá væri þetta fundið fé en McCarthy hefur oft verið tengdur við okkur og staðið sig ágætlega á suðurströndinni. Svo væri nú ekki slæmt að bæta í safnið af Saints-mönnum fyrir spurningasmiði framtíðarinnar í pub quiz og víðar.

  Að lokum þá var verið að birta lista af þeim leikmönnum sem hefja æfingar á Melwood á morgun en fyrsti æfingaleikurinn er næstkomandi fimmtudag gegn grönnum sínum í Tranmere Rovers. Hinn nýkeypti Sepp er í hópnum en einnig vekur athygli nafnið Arroyo á listanum en þar er um að ræða 19 ára kólumbískan vinstri bakvörð sem kom á bækur félagsins í febrúar 2018. Hann fór strax á láni til varaliðs Mallorca og í Gent fyrir síðastliðið tímabil í þeim tilgangi að vinna í vinnuleyfismálum en hann hefur spilað 16 sinnum fyrir yngri landsliði Kólumbíu. Hugsanlegt er að Klopp vilji skoða gæðin í honum persónulega og þá máta hann sem varaskeifu fyrir Robertson en öll slík plön velta á hinu opinbera í Bretlandi. Hér má sjá kröftuga spretti hjá Arroyo en þó er ofsagt í titli myndbandsins að þeir séu fantastíkir:

  Að öðru leyti þá er umræðan opin á þessum sólríka föstudegi og allir hvattir til að láta ljós sitt skína á kommentakerfinu.

  YNWA

  [...]
 • Löng leið í byrjunarliðið

  Þróun enska boltans og heimsfótboltans almennt virðist loksins vera hafa þau áhrif á enska boltann að efnilegustu leikmenn Englendinga eru farnir að horfa út fyrir landssteinana í leit að tækifærum. Rétt eins og í hinum stóru deildunum sópa stóru liðin upp öllum bestu unglingunum en það er orðið erfiðara að gefa þeim almennileg tækifæri og þannig halda þeim ánægðum. Englendingar hafa alltaf framleitt góða leikmenn en undanfarin ár hafa verið sérstaklega góð og virðist ný kynslóð vera töluvert sterkari og mun fleiri góðir leikmenn að koma upp saman en áður. England hefur unnið heimsmeistaramót í yngri flokkum undanfarin ár en þrátt fyrir það virðist leiðin inn í aðalliðin heimafyrir vera lengri en hún hefur nokkurntíma verið. Það væri fróðlegt að taka saman hversu mikið þessir leikmenn sem hafa verið að vinna HM í yngriflokkum hafa fengið að spila hjá sínum liðum á síðasta tímabili? Ensku liðin eru eins ekkert bara að kaupa enska unglinga heldur að berjast um þá bestu um allan heim í öllum aldursflokkum.

  Liverpool eru Evrópumeistarar og voru að klára eitt besta tímabil í sögu félagsins (stigasöfnun). Liðið er klárlega eitt af þeim þremur bestu í heiminum eins og staðan er í dag. Man City er einnig eitt af þessum þremur liðum og þeir voru að enda við 98 stiga tímabil þar sem þeir unnu báða bikarana líka. Þeir töpuðu samtals 14 stigum í deildinni tímabilið á undan. Svigrúmið til að gera mistök hjá þessum liðum er að verða minna og minna sem gerir það nánast ómögulegt að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Bæði lið hafa þrátt fyrir það líklega aldrei verið ein vel mönnuð í yngri flokkum og einmitt núna.

  Hugmyndafræði beggja liða (o.fl.) er klárlega að hlúa vel að yngri liðunum og annaðhvort fá leikmenn upp í aðalliðið eða selja með töluverðum hagnaði. Hvort sem um er að ræða uppalda leikmenn eða stráka sem komu 13-16 ára í akademíuna og teljast sem uppaldir leikmenn. Eigendur Man City byggðu flottustu akademíu í heimi og Liverpool er jafnframt að fara flytja á nýtt æfingasvæði þar sem öll liðin æfa saman og markmiðið er að stytta leiðina úr yngri liðunum í aðalliðið. Þjálfarar beggja liða eru mjög viljugir til að treysta ungum leikmönnum.

  Hvað eru ungir leikmenn að spila mikið hjá Liverpool?

  FSG keypti Liverpool árið 2010 á miðju tímabili og áttu fyrir höndum mikið hreingerningarstarf. Liverpool átti þá unga leikmenn eins og Sterling, Suso og Ibe en Sterling kom fyrst við sögu tímabilið 2011/12 undir stjórn Dalglish. Miðum við það tímabil og skoðum hvernig ungum leikmönnum hefur gengið hjá Liverpool þessi átta tímabil með spilaðar mínútur í deildarleik sem mælikvarða.

  Hérna er ca. miðað við leikmenn sem eru annaðhvort uppaldir eða komu mjög ungir til Liverpool. Hvað eru margir á þessum lista sem áttu að verða næsta stórstjarna?

  Þrír á þessum lista náðu sannarlega í gegn hjá Liverpool og urðu stórstjörnur hjá félaginu og komu beint úr akademíunni. Joe Gomez fór ef ég man rétt bara beint í liðið 18 ára þegar hann kom (það er á mörkunum að telja hann með hérna en látum það slide-a þar sem hann kom svo ungur). Raheem Sterling var alltaf vitað að yrði stórstjarna og eins fúlt og það er að sjá hann hjá Man City núna voru kaupin á honum frábær og hagnaðurinn rosalegur fyrir akademíuleikmann. Trent Alexnder-Arnold var kannski ekki jafn sure thing og Sterling og Gomez en er klárlega búinn að ná þeim í dag.

  Ef við teljum framlag þessara þriggja leikmanna með hefur akademían átt einn fulltrúa í byrjunarliðinu í öllum leikjum í sex af þessum átta tímabilum. Gomez var meiddur 2016/17 og Sterling var ekki byrjaður fyrir alvöru 2011/12. Þessi tímabil átti akademían fulltrúa í ca 10% af leikjunum. Gomez og Trent halda uppi heiðri akademíunnar núna sem er gríðarlega jákvætt fyrir Liverpool. Þeir hafa samtals náð að fylla rúmlega eitt stöðugildi undanfarin tvö ár (3420 mínútur) sem vonandi verður nær tveimur stöðugildum næsta vetur. Það er töluvert.

  Ef við tökum þessa þrjá út fyrir sviga og sjáum hvað Liverpool hefur verið að gefa hinum ungu og efnilegu leikmönnunum mikin séns birtist kannski dekkri mynd fyrir núverandi unglinga. Maður skilur alveg afhverju góðir 17-20 ára leikmenn horfi frekar til Þýskalands, Hollands, Portúgal o.s.frv. í staðin fyrir að bíða heilan vetur eftir samtals um 200 mínútum hér og þar yfir veturinn.

  Þetta eru þeir sem hafa fengið séns í deildarleik hjá Liverpool undanfarin ár. Fyrir utan Trent og Gomez kom enginn við sögu í vetur í neinum leik nema Rafa Camacho í eina mínútu. Hann er einmitt ferskasta dæmið úr herbúðum Liverpool. Hann er 19 ára og kom sem eitt mesta efni Portúgala fyrir tímabilið 2015/16 frá Sporting Lissabon. Hann hefur spilað heila mínútu í deildinni fyrir Liverpool. Hvað væri hann búinn að spila mikið núna hjá Sporting? Frábært mál að fá ágætis pening fyrir hann og vonandi buy-back klásúlu. Hann virkar ekkert ólmur í að koma aftur samt.

  Solanke kom frá Chelsea sem besti leikmaður HM U18 og er sá eini sem fékk einhvern vott af séns tímabilin tvö þar á undan. Hann var seldur á mjög góðu verði m.v. leikmann sem hafði ekkert spilað.

  Fyrsta tímabil Klopp og jafnframt síðasta tímabil Rodgers sker sig töluvert úr og sýnir stöðugleika liðsins á þessum tíma. Það komu samtals 12 leikmenn úr akademíunni eitthvað við sögu sem er galið hjá Liverpool. Klopp fórnaði auðvitað einhverjum deildarleikjum þennan vetur enda fókusinn á Evrópudeildina og deildarbikarinn sem útskýrir þennan afbrigðilega fjölda mínútna. Jordon Ibe spilaði t.a.m. 1/3 af mótinu og Kevin Stewart var á miðjunni 1/6 af mótinu.

  Flanagan, Wisdom og Suso eru þeir einu þar fyrir utan sem hafa eitthvað spilað að ráði á þessum átta tímabilum.

  Hver er líklegastur núna?

  Með þetta í huga er ljóst að það væri frábært ef 1-2 af þeim rosalega efnivið sem er hjá félaginu núna nái að brjóta sér leið inn í aðalliðið á næstu 3-4 árum. Þetta þurfa ekki allt að vera svona ultra talent eins og Trent, Gomez og Sterling sem fara nánast beint í byrjunarliðið en eins og standardinn er hjá Liverpool í dag þurfa þessir pjakkar líklega að vera a.m.k. meðal þeirra bestu í sínum aldursflokki í heiminum til að ná í gegn beint úr unglingaliðunum.

  Ungir leikmenn virðast þurfa dágóðan slatta af heppni með hæfileikunum. Meiðsli lykilmanna, helst hjá nokkrum leikmönnum á sama tíma er oft eini sénsinn fyrir unga leikmenn til að fá tækifæri. Nærtækasta dæmið eru meiðsli Nate Clyne árið 2017. Hann var næstleikjahæsti leikmaður Liverpool 2015/16 á eftir Mignolet sem spilaði alla leikina og tímabilið eftir var Clyne leikjahæsti leikmaður Liverpool. Hann hafði verið fastamaður í Úrvalsdeildinni í 5-6 ár og spilað nánast alla leiki. Hefði Joe Gomez fengið eins mikinn spilatíma ef Clyne væri heill? Hefði Trent Alexander-Arnold yfirhöfuð verið kominn í aðalliðið í dag ef bæði Clyne og Gomez væru heilir heilsu? Það er auðvelt að halda því fram núna að auðvitað væri svona talent orðin fastamaður en staðreyndin er að það er bara töluvert ólíklegt. Okkur leyst ekkert á að fara inn í þarsíðasta tímabil með “ekkert” back-up fyrir Clyne sem var meiddur.

  Þetta er nokkurnvegin samkeppnin um hverja stöðu hjá Liverpool í dag. Hópurinn er á allt að því fullkomnum aldri sem þíðir að bestu menn ættu að eiga a.m.k. 2-4 ár inni á hátindi síns ferils og varaskeifurnar eru oftast fengnar innan hópsins. Flestir leikmenn liðsins geta leyst fleiri en eina stöðu sem takmarkar tækifærin ennþá frekar.

  Markmenn – Kelleher og Grabara sem og allir hinir bráðefnilegu markmennirnir sem eru hjá Liverpool í dag spila vonandi ekki eina mínútu í deildarleik næstu 5-10 árin. Liverpool hefur ekki verið með betri markmann síðan Ray Clemence var seldur. Næstur á eftir Alisson er fyrrum aðalmarkmaður Liverpool sem sópar upp öllum aukamínútum sem hægt er að gefa markmönnum.

  Vinstri bakvörður – Þó að það sé oft gert lítið úr bakgrunni Andy Robertson þá var hann töluvert efni áður en hann fór til Hull og hefur rétt rúmlega staðið undir því hjá Liverpool. Hann var samt búinn að spila rúmlega 200 leiki í Skotlandi og Hull áður en hann kom til Liverpool og taka út mistök og þroskast þar sem er eðlilegri ferill fyrir mann í þessari stöðu en t.d. Gomez og Trent er að gera. Hver sem kæmi inn fyrir Robertson myndi veikja liðið og eins og Moreno fékk að kynnast undanfarin tvö ár er Milner næsta cover fyrir hann. Mögulega Gomez þar á eftir.

  Komi nýr maður í stað Moreno og Clyne þarf hann klárlega að geta leyst báðar stöðurnar. Adam Lewis nær aldrei í gegn.

  Miðverðir – Tveir af efnilegri leikmönnum félagsins í dag eru núna hollenskir miðverðir. Líklega er ekki langt í að þeir fari framfyrir Fabinho og Wijnaldum í goggunarröðinni og jafnvel Lovren (innan 12-24 mánaða) en þá eru Van Dijk, Gomez og Matip eftir. Líkurnar eru ekki með Hoever og Berg að komast í aðallið Liverpool fyrir tvítugt. Hoever er samt klárlega rosalegt efni.

  Það er enginn að koma upp sem setur pressu á miðjumennina eða hægri bakvarðastöðuna. Ekki nema meiðsli opni á tækifæri fyrir Hollendingana þar. Rafa Camacho var líklegasti “arftaki” Alexander-Arnold og sá líklega manna best sjálfur hversu vonlaust verkefni hann átti fyrir höndum.

  Sóknartengiliðir – Curtis Jones hefur verið eitt mesta efnið í yngri flokkunum undanfarin ár og gæti alveg ennþá náði i gegn. Hann er bara 18 ára og var að spila með U23 ára síðasta vetur. Hann er samt líklega of seinn því að Liverpool tekur vonandi ekki annað tímabil þar sem Keita, Ox og Lallana eru annaðhvort meiddir eða ekki í takti. Fyrir utan þá eru Wijnaldum, Milner og Shaqiri að berjast um stöðuna.

  Vængframherjar – Harry Wilson er 22 ára og hefur ekki ennþá komið við sögu í deildarleik hjá Liverpool, hann á samt 11 landsleiki með Wales. Það er ekkert útilokað ennþá, Harry Kane sem dæmi fór ekki að spila fyrir Tottenham fyrr en hann var 21 árs og persónulega væri ég meira til í uppalinn og hungraðan leikmann með gæði frekar en þennan skugga af Adam Lallana sem hefur verið á mála hjá Liverpool undanfarin ár, en úr þessu er ansi ólíklegt að framtíð Wilson verði á Anfield.

  Ojo fékk séns fyrir fjórum árum og virðist ekki hafa tekið neinum alvöru framförum síðan. Ryan Kent er annar góður leikmaður en verður aldrei partur af aðalliðshóp Liverpool.

  Ben Woodburn sem á 10 landsleiki fyrir Wales hefur samtals spilað 90 mínútur í deildinni með Liverpool. Hann hefði mögulega átt að fara á meginland Evrópu fyrir 2-3 árum til að fá spilatíma því hann virðist hafa staðnað hjá Liverpool. Hann er bara 19 ára ennþá þannig að það er ekki alveg útséð með hann en leiðin í Liverpool liðið er of löng.

  Sóknarmenn – Efnilegasti leikmaður félagsins er klárlega Rhian Brewster sem er líka 19 ára. Hann hefur ekki ennþá komið við sögu í deildarleik en var vissulega meiddur í vetur. Hann var nálægt því að fara til Þýskalands síðasta sumar og er sá eini af þessum unglingum sem maður sér eiga einhvern raunverulegan séns næsta vetur.

  Embed from Getty Images

  Hann er samt með Firmino á undan sér sem er leikkerfið hjá Liverpool og ef ég skil þetta rétt töluvert ólíkur leikmaður. Salah og Mané eru næstir á eftir honum en þá losnar auðvitað um þeirra stöður sem Brewster getur líka leyst. Divock Origi fer ekki neitt í sumar og byrjar klárlega á undan Brewster í goggunarröðinni.

  Brottför Sturridge og sú staðreynd að Liverpool virðist ekki hafa miklar áhyggjur af því að fylla hans skarð er gríðarleg traustsyfirlýsing til Brewster. Þetta er ekki ósvipað því þegar Clyne meiddist og Klopp setti traust sitt á Trent og Gomez. Ef að Brewster borgar eins fyrir sig erum við ekki í neinum vandræðum.

  En hvað þá með Bobby Duncan og Paul Glatzel? Leiðin virðist mjög löng fyrir þá þó að hlutirnir séu fljótir að breytast í fótboltanum. Duncan varð 18 ára í þessari viku og hefur ekki einu sinni verið fastamaður í U23 ára liði Liverpool. Fowler og Owen voru báðir að brjóta sér leið inn í aðalliðið á sama aldri sem dæmi. Væri Duncan að gera það annarsstaðar en hjá Liverpool? Hann er a.m.k. orðaður við brottför til Portúgal í sumar og það væri erfitt að gagnrýna hann fyrir að vilja skoða slíkt.

  Það er vonlsut að vita hversu góðir þessir strákar eru, ég veit ekki einu sinni hvor er meira efni Duncan eða Glatzel. En það er mjög ólíklegt að þeir séu að fara koma við sögu í aðalliði Liverpool næstu tvö árin. Eins er ólíklegt að þeir komi fullmótaðir inn í liðið. Sterling var ekki með neinar flugeldasýningar fyrstu 18 mánuðina sem hann spilaði með aðalliðinu (17-18 ára) og fékk mínútur til að fóta sig sem Klopp hefur ekki svigrúm til að gefa.

  Það er rosalega erfitt fyrir þá sem vinna með þessum ungu strákum að sjá hver þeirra nær í gegn og hver ekki. Einstaka sinnum kemur talent sem sker sig það mikið úr að aðeins er tímaspursmál hvenær springur út en oftar þarf eins ég kom inn á áðan töluverð heppni að fylgja með hæfileikunum. Ef að þjálfararnir eiga erfitt með að spotta þetta er það auðvitað vonlaust fyrir okkur sófaspekingana sem sjáum ekki nærri því alla leiki unglingaliðanna, hvað þá æfingarnar. Það er því ekkert endilega víst að sá leikmaður sem kemur næst úr akademíunni sé einn þeirra sem ég tiltek í þessari færslu.

  Að sjá bara fyrir sér einn líklegan leikmann koma upp næstu 12-24 mánuði virkar ekki mikið en ef við sjáum Liverpool stilla um 2-3 leikmönnum úr akademíunni næstu árin er það töluvert í núverandi landslagi í enska boltanum.

  Það er líka mjög jákvætt að miklu fleiri af þeim sem ekki ná í gegn hjá Liverpool eru þrátt fyrir það að eiga ágætis feril annarsstaðar og fara frá Liverpool fyrir töluverðan pening. Sterling, Ibe, Solanke, Smith, Grujic, Wilson og Woodburn skiluðu (eða skila) líklega söluhagnaði sem dugar léttilega fyrir framkvæmdum á nýju æfingasvæði Liverpool. Enginn þeirra nema Sterling náðu að spila eitthvað að ráði fyrir Liverpool.

  Gomez og Trent byrjuðu ekki að spila fyrir aðalliðið að neinu ráði fyrr en fyrir tveimur árum, ef að við náum að bæta Brewster við næsta vetur eru þetta þrír á þremur árum. Það held ég að sé ansi nærri því módeli sem FSG vill vinna eftir, hvað þá Jurgen Klopp.

  [...]
 • Sepp van der Berg til Liverpool (Staðfest)

  Vangaveltur um að Liverpool myndi ekki gera stór innkaup þetta sumarið reyndist innistæðulaus ótti þar sem að í dag var stór leikmaður keyptur á kjaraprís miðað við aldur og fyrri stærð. Heilir 1.89 cm fengust á litlar 1.5 milljónir á borðið sem gerir innan við 10 þús. pund á sentimetrann en það ku vera kjarakaup á markaðnum í dag miðað við mælda meðalhæð.

  Stráksi ku enn vera að stækka og miðað við lauslegan Excel-útreikning þá ætti hann að vera orðinn 2.22 m er hann verður tvítugur, 2.77 um 25 ára og jafnvel 3.33 metrar um þrítugt. Ekki amalegt að hafa slíkan mann til að verjast háum boltum í teignum.

  Ekkert hallæri þegar kemur að því að halla sér að veggjum Melwood

  Eftir hágæða reynslu af hávöxnum hollenskum hafsentum hóf Liverpool leit að fleirum slíkum og niðurstaðan var seitján ára undrabarnið Sepp van den Berg sem hefur verið að spila reglulega í aðalliði PEC Zwolle þennan veturinn í Eredivisie. Liverpool hafði betur í kapphlaupinu um kauða en meðal keppinauta voru Bayern Munchen, Ajax og PSV Eindhoven. Heimasíða LFC gerir pilti góð skil í fréttum sínum í dag og um að gera að renna yfir fyrsta viðtalið við hann.

  Sepp fetar í fótspor rauðbirkinna varnarmanna sem gert hafa garðinn frægan á Anfield og sá glæsti hópur rauðliða samanstendur af David Burrows, Steve Staunton og John Arne Riise. Einnig var finnska varnartröllið Sami Hyypia keyptur beint frá Hollandi og því ekki leiðum að líkjast ef Sepp tekst að vera góð blanda af öllum þessum leikmönnum. Klopp er ekki mikið fyrir að fá leikmenn til liðsins nema að hann hafi mikla trú á þeim og því eru það mikil meðmæli fyrir ungan pilt að vera keyptur með viðhöfn til félagsins.

  Velkominn til Liverpool mijnheer van der Berg.

  YNWA

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close