Það er stundum talað um að eitthvað sé skrifað í skýin.
Tökum sem dæmi þátttöku Liverpool í meistaradeildinni í ár, og svo fyrir 16 árum síðan:
- Liverpool fer inn í 8 liða úrslitin eftir að hafa sigrað þýskt lið.
- Úrslitaleikurinn verður spilaður í Istanbúl, og ekki bara einhvers staðar í Istanbul heldur á Atatürk leikvanginum.
- Á sama tíma er Liverpool að ströggla við að komast í topp 4 í deildinni.
- Það er vitað að ef Liverpool kemst í undanúrslitin eru allar líkur á að liðið mæti Chelsea.
- Hvorki Messi né Ronaldo eru með í 8. liða úrslitum, en a.m.k. annar þeirra hefur verið í 8. liða úrslitum frá árinu 2006 til og með ársins 2020.
Er þar með skrifað í skýin að Liverpool vinni CL í vor?
Skoðum líka næsta leik Liverpool í Meistaradeildinni:
- Andstæðingarnir koma frá Spáni.
- Liverpool tapaði útileiknum, og fékk þar á sig 3 mörk.
- Liverpool þurfti að grafa virkilega djúpt í deildarleiknum milli leikjanna í meistaradeildinni, og náði aðeins að knýja fram sigur með marki í kringum 90. mínútu.
Jú mikið rétt, þetta gæti hvort sem er átt við um seinni viðureign Liverpool gegn Barcelona árið 2019, eða seinni viðureign Liverpool gegn Real Madrid núna á miðvikudaginn.
Er þá skrifað í skýin að Liverpool komist áfram á miðvikudaginn?
Tja, skoðum samanburð við annan leik, sem fór fram fyrir rétt rúmlega ári síðan:
- Andstæðingarnir koma frá Madrid á Spáni
- Liverpool nægir að vinna 2-0 til að komast áfram
- Leikurinn fer fram í skugga Covid-19
Já mikið rétt, það eru líka ýmis líkindi með seinni leiknum gegn Atletico Madrid fyrir rúmu ári síðan. Er kannski skrifað í skýin að Liverpool detti út á miðvikudaginn, rétt eins og í seinni leiknum gegn Atletico?
Ég skal segja ykkur smá leyndarmál, og hef það úr innsta búri veðurfræðinnar: Það er ekkert skrifað í skýin.
Ef Liverpool vill komast áfram í undanúrslit CL árið 2021, þá þarf liðið að vinna leikinn á miðvikudaginn, að lágmarki með 2ja marka mun.
Ef Liverpool vill vinna Meistaradeildina núna í vor, þá verður liðið að komast áfram núna á miðvikudaginn, vinna svo samtals í undanúrslitum, og svo að lokum að vinna úrslitaleikinn á Atatürk í vor.
Engir afslættir, ekkert gefins, ekkert skrifað í skýin.
Ég vona að Jürgen Klopp nái að koma þessum skilaboðum skýrt og skilmerkilega í hausinn á leikmönnum: Það er ekkert gefins, þeir verða að vinna fyrir hverju einasta marki og hverjum einasta sigri.
Við vitum fyrir víst að ef Liverpool ætlar að spila seinni leikinn eins og það spilaði þann fyrri, þá er liðið á útleið úr Meistaradeildinni þetta árið. Mjög einfalt mál. Liðið verður líklega að ná svipuðum leik eins og það gerði gegn Barcelona á Anfield vorið 2019. Og í þetta skiptið verður það að gerast án áhorfenda, sem gerir þetta svona u.þ.b. 400% erfiðara. Já, Klopp lét hafa eftir sér að sigurinn gegn Barca forðum daga hafi verið svona 80% vegna áhorfenda.
Líkleg byrjunarlið
Real Madrid var í engu smá verkefni núna um helgina, en tóku sig til og unnu El Clásico. Þeir hafa svolítið verið að slást við meiðsli á síðustu dögum, þannig er Militao eitthvað tæpur, Vasquez er víst frá út tímabilið, og Valverde sem kom inná í leiknum á þriðjudaginn er líka tæpur. En málið með þetta Madridar lið er að það eru engir aukvisar í röðinni fyrir aftan, og þá oft leikmenn sem hungrar í að sýna hvað í þeim býr þegar tækifæri gefst. A.m.k. eru litlar líkur á að þessi leikur verði eitthvað auðveldur, eða að það verði einhverjir aumingjar í byrjunarliðinu hjá þeim.
Okkar menn koma furðu heilir inn í þennan leik. Það hafa ekki borist fréttir af neinum nýjum meiðslum, en það hefur verið áhugavert að fylgjast með varamannabekk Liverpool í síðustu leikjum. Fyrir það fyrsta þá hefur Neco Williams t.d. ekkert sést síðan í landsleikjahléinu, hann spilaði þá fyrir Wales (t.a.m. í vinstri bak). Hann er ekki á opinbera meiðslalistanum, en undirritaður hefur lúmskan grun um að ef hann hefði t.d. verið heill fyrir fyrri leikinn gegn Real, þá hefði hann fengið pláss á bekknum á undan Jake Cain. Nú svo er Origi víst meiddur, og jú Curtis Jones var síðasti leikmaðurinn til þess að komast á meiðslalista klúbbsins þetta tímabilið núna á laugardaginn, en fram að því hafði hann verið a.m.k. í hóp (ef ekki í byrjunarliði) í hverjum einasta leik liðsins fram að þessu, og var sá eini sem hafði ekki misst úr leikdag vegna meiðsla. Hans meiðsli eiga þó að vera lítil, sem í okkar tilfelli þýða væntanlega að hann verður frá í 3-4 vikur (5 tops, aldrei meira en 6-8 vikur. 10 algert hámark). OK grínlaust þá er ekkert útilokað að hann nái leiknum á miðvikudaginn. Þá er Kelleher ennþá frá, svo hver veit nema Adrián fái tækifæri til að bæta fyrir frammistöðuna gegn Atletico ef Alisson forfallast (krossum fingur að þeir haldist bara báðir heilir!).
Henderson er sá leikmaður sem ég hefði helst viljað fá til baka, en sem stendur er talað um seinnipartinn í apríl. Liðið er vissulega búið að sýna það í síðustu deildarleikjum að liðið *getur* unnið sigra án fyrirliðans, en tilfinningin er sú að líkurnar séu talsvert betri þegar hann er inná. Mögulega þarf liðið bara á því að halda að vera með leiðtoga inni á vellinum, er það e.t.v. tilviljun að Milner er búinn að vera inná í tveim síðustu deildarleikjum (sem unnust), en ekki inná í síðasta CL leik (sem tapaðist)? A.m.k. er undirritaður á því að Gini Wijnaldum sé ekki fyrirliði í eðli sínu, en hann hefur fengið það hlutverk í síðustu leikjum þegar Milner er ekki inná.
Það er svo áhugavert að velta stöðu Trent aðeins fyrir sér. Ef við skoðum markið sem hann skoraði gegn Villa um helgina, þá má segja að hann hafi byrjað og endað þá sókn, og það sem meira er: hann byrjaði sóknina með því að fá boltann inni á miðri miðjunni:

Við eigum ekki því að venjast að sjá Trent oft á nákvæmlega þessum stað. Hann er vissulega mjög oft framarlega, en þá yfirleitt frekar langt úti á kanti. Vissulega hjálpaði til að plássið sem hann hafði var talsvert, en var þetta e.t.v. taktísk ákvörðun þarna í lokin? Eða bara eitthvað sem honum datt í hug að gera án þess að spyrja kóng eða prest? Shaqiri var kominn út á hægri kantinn, ég átta mig ekki almennilega á því hvort einhver hafi verið í hægri bakverði og þá hver. Það sem Trent gerði líka sem gladdi undirritaðan var að gera árás á vörnina, í staðinn fyrir að stoppa með boltann, hika aðeins, leita að sendingarmöguleika, þá bara hljóp hann í það auða svæði sem hann sá og “the rest is history” eins og skáldið sagði. Persónulega væri ég alveg til í að sjá meira af þessu, kannski ekki endilega þannig að Trent verði færður í CAM stöðuna fyrir fullt og allt, heldur kannski meira þannig að þetta verði taktískt vopn í vopnabúrinu á tilteknum augnablikum í leiknum.
Jæja, Klopp mun alveg örugglega vilja stilla upp sínu sterkasta liði í þessum leik. Nú fyrst reynir á hvort hann telji miðvarðarparið okkar endanlega klárt í bátana, eða mun hann freistast til að taka Fabinho aftur yfir í miðvörðinn? Ég er ekki sannfærður, en ég er reyndar ekki heldur sannfærður um að Ozan Kabak sé framtíðarleikmaður fyrir félagið. Nat Phillips finnst mér hafa gert mun meira til að eigna sér miðvarðarstöðuna, klárlega ekki besti knattspyrnumaður sem klúbburinn hefur alið, en er með þetta Liverpool hjarta sem er svo nauðsynlegt að sé til staðar. Auk þess er hann fáránlega öflugur þegar kemur að því að vinna skallabolta. Rétt að taka fram að við gerum okkur vonandi öll grein fyrir því að hann hefur sínar takmarkanir sem knattspyrnumaður, en eins og máltækið segir: “Betri er einn heill (þó hægur sé) miðvörður í byrjunarliði en tveir hraðir á meiðslalistanum”.
Undirritaður spáir því að Gini Wijnaldum fái enn eitt tækifærið í byrjunarliðinu, þó svo að hann hafi ekki sýnt mikið í síðasta leik til að rökstyðja að hann eigi það skilið. Eða ætlar Klopp kannski að eiga hann á bekknum, líkt og í leiknum gegn Barcelona forðum? Það væri nú ekki ónýtt.
Stillum þessu upp svona:
Alisson
Trent – Nat – Kabak – Robbo
Gini – Fab – Thiago
Salah – Bobby – Jota
Já ég spái því að Mané fái að dúsa aftur á bekknum, enda var hann ekkert að heilla mann eitthvað brjálað með þessum örfáu mínútum sem hann fékk gegn Villa. En svo gæti auðvitað alveg verið að Klopp taki upp á einhverju öðru: henda fjórmenningunum öllum í byrjunarliðið (með Firmino dýpri, Fab og Gini þar fyrir aftan), svona sem dæmi.
Það væri frábært ef liðið kæmist í undanúrslit, og þetta lið á alveg að vera fært um það. En guð minn almáttugur hvað verkefnið er mörgum sinnum erfiðara með enga áhorfendur á Anfield. Munum samt að árhorfendur eru engin trygging fyrir því að leikurinn vinnist, samanber leikurinn gegn Atletico í fyrra. Þetta mun því að mjög miklu leyti snúast um hvernig Klopp tekst að mótívera mannskapinn. Kemur hann með aðra línu á borð við “It’s probably impossible, but because it’s you, I think we have a chance”?
Ef einhver getur það, þá er það Jürgen Klopp.
[...]