Norwich 2 – Liverpool 3

Það var alltaf klárt að við værum að fara að naga neglur, naglabönd, jakkaermar og hvað annað lauslegt áður en að þetta tímabil myndi klárast og það var sko sannarlega á ferðinni í dag á Carrow Road.

Við urðum að bregðast við því að Jordan Henderson er kominn í þriggja leikja bann og úr varð að Rodgers ákvað að halda sig við demantinn sinn og færa Sterling upp á topp. Svona var liðið:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan

Lucas – Coutinho – Gerrard (c) – Allen

Sterling – Suarez

Á bekknum: Jones, Toure, Agger, Cissokho, Moses, Alberto, Aspas

Næ ekki að hlaða inn tactics borðinu en Gerrard var aftastur með Lucas og Allen fyrir framan sig og Coutinho uppi á topp með Sterling og Suarez fremsta.

Ég gladdist mjög að sjá uppstillingu Norwich, þeir stilltu líka upp í demantsmiðju og pressuðu strax frá byrjun. Eitthvað sem er alveg dásamlegt að sjá gegn okkar mönnum, enda komumst við í 0-2 á ellefu mínútum auk þess sem Ruddy þurfti að hafa sig allan við að verja frá Joe Allen.

Fyrsta markið kom á 4.mínútu þegar Raheem Sterling ákvað bara að negla boltanum upp í hornið af 20 metrum á meðan flestallir í vörn Norwich voru í því að horfa á Luis Suarez. Frábært mark í alla staði. Eftir 11 mínútur var svo forystan aukin um helming. Flanno gerði mjög vel í að koma boltanum upp völlinn og á Sterling sem stakk innfyrir vörnina. Luis Suarez losaði sig við hafsent með flottri líkamssveigju og skoraði í fjærhornið. Hans mark númer 30 í vetur og mark númer 44 á útivelli hjá drengjunum, sem er enn eitt félagsmetið.

Þarna áttaði stjóri Norwich sig á að hans menn myndu ekkert ráða við að spila á þennan hátt. Hann fór að spila 4-4-1-1 og lét kantmennina og framherjana pressa okkar lið hátt. Mér fannst miðjan vera mjög lengi að átta sig á þessu öllu, sérstaklega vantaði það að fá hlaup eins og þau sem Hendo vanalega býður uppá til að hjálpa varnarmönnunum að losa pressuna og því komu langir kaflar þar sem trukkarnir okkar dúndruðu boltanum bara fram og þar var lítil vinnsla á litlu mönnunum. Það var þó án þess að mikil hætta skapaðist, mér fannst liðið batna þegar á leið og bara sáttur að fá þá inn með tveggja marka forystu.

Brendan brást við leikaðferð Norwich í hálfleik.

Fór úr demantinum í 4-5-1/4-3-3

Mignolet

Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan

Gerrard (c)

Sterling Lucas – Allen – Coutinho

Suarez

Klárlega til að reyna að auðvelda bakvörðunum að losa pressuna. Sem tókst ekki, Norwich var komið með blóð á tennurnar en þrátt fyrir að vera um 70% með boltann virtust þeir ekki ná að skapa mikið.

Ég skrifaði pistil fyrir nokkru um það að nú myndi mikið ráðast af fjölda mistaka okkar manna undir pressu. Á 54.mínútu sáum við stór mistök. Mignolet karlinn ákvað að vaða út í teiginn í fyrirgjöf sem Skrtel hefði nú sennilega stangað frá. Hann hitti ekki boltann betur en svo að slá hann til Gary Hooper sem þakkaði pent fyrir sig, minnkaði muninn og kveikti heldur betur í vellinum. Game on!

Suarez fékk fínt færi stuttu seinni til að auka muninn á ný en skaut rétt framhjá, Norwich hélt áfram að pressa, en á 62.mínútu vann Sterling boltann á okkar vallarhelmingi, tók 50 metra sprett og skoraði með skoti sem hafði góða viðkomu í Johnny Howson og í boga yfir Ruddy.

Game over surely?

Onei, ekki svo gott. Við áttum mjög erfitt uppdráttar í leiknum og á 77.mínútu skoruðu heimamenn. Þar var að verki Robert Snodgrass með skalla sem hann átti aldrei að fá svo frían. Sakho fékk boltann yfir sig og Flanno bara sneri baki í manninn sem skallaði í fjær. 2-3 og allt snarvitlaust.

Adams stjóri heimamanna henti inn öðrum senter, okkar maður brást við með Moses og Agger og stillti upp þriðja leikkerfinu, núna 5-3-2:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Agger – Sakho – Flanagan

Lucas -Gerrard (c) – Sterling

Moses – Suarez

Þegar hér var komið sögu voru okkar menn einfaldlega hættir að sækja og neglurnar hrundu af í salnum sem ég horfði á leikinn í allavega. Hins vegar náðum við meira að höndla boltann þarna og báðar innáskiptingarnar virkuðu ágætlega, drengirnir tveir þorðu að fá boltann og spila honum, auk þess sem Agger karlinn var með kjaftinn vel opinn sýndist mér. Norwich náði ekki að skapa sér mörg færi, við getum þakkað dómara leiksins fyrir að flauta ekki á Sakho karlinn þegar hann braut klaufalega af sér á vítateigslínunni og Mignolet fyrir að verja einn skalla.

Lucas Leiva fékk svo færi til að klára leikinn í uppbótartímanum en varnarmenn þeirra gulu komu í veg fyrir það. Eftir fjögurra mínútna uppbótartíma gall lokaflautið og 800 kílóa sekkur datt af mínum öxlum allavega, sigur gegn Norwich.

Fimm stiga forysta í alla vega eina viku, orðið klárt að við munum leika í Meistaradeildinni næsta árið þar sem við verðum aldrei neðar en í þriðja sæti deildarinnar og draumurinn verður stærri og sterkari.

Samantekt liðs og leiks

Þetta var sko ekki neitt annað en taktískt stríð. Frábært fyrsta kortérið vann hann fyrir okkur og það var örugglega að hluta til vegna uppstillingar heimamanna sem voru ansi ævintýragjarnir.

Síðustu 75 mínúturnar áttum við í miklu basli. Þar kom að mínu viti það stærst til að ef litið er framhjá varnarlínunni og Gerrard voru mjög fáir að vinna í því að losa pressu og fá boltann. Joe Allen reyndi þó og Lucas átti kafla. Það er lykilatriði þegar á þig er pressað að allt liðið taki þátt í að losa pressuna og það gekk ekki vel. Það varð svo alltof oft til þess að varnarmennirnir tóku rangar ákvarðanir, voru alltof lengi með boltann og dúllandi honum á milli. Sérstaklega auglýsti ég eftir Luis Suarez í seinni hálfleik til að vinna þá vinnu að berjast uppi á topp til að halda blöðrunni betur.

Skrtel bar af í varnarleiknum, Johnson og Flanno áttu báðir erfitt lengst af Sakho gerir nokkur mistök í leik, en slapp með það. Gerrard skilaði sínu og Allen átti ágæta innkomu, Lucas er ekki vanur að vera svona ofarlega allan leikinn, Coutinho átti jafn dapran dag í dag og frábæran síðast. Suarez skorar alltaf gegn Norwich og er fyrsti LFC leikmaðurinn tl að skora 30 mörk eftir stofnun Úrvalsdeildarinnar. En hann átti erfiðan seinni hálfleik fannst mér.

Agger og Moses komu flott inn í þennan leik en bestur fannst mér Raheem Sterling án nokkurs vafa. Tvö frábær mörk og ódrepandi duglegur í öllum sínum aðgerðum. Hann hefur verið ótrúlegur síðustu vikur, megi svo vera áfram.

Leikur margra mistaka og erfiðisvinnu gegn spræku liði kanarífuglanna að baki.

Það eina sem þurfti að gerast í dag var að ná þremur stigum

Það tókst og fyrir það fá allir þeir þrettán leikmenn og þjálfarateymið hæstu einkunn frá mér. Næst er það Chelsea, sigur þar mun tryggja okkur a.m.k. annað sætið í þessari deild og ramma vel inn síðustu mögulegu skrefin.

Við sáum það sama á okkar liði og sást hjá City á miðvikudaginn og Chelsea í dag. Þrungandi spennu í líkama leikmanna sem vita alltof vel hvað er í húfi. Ólíkt hinum liðunum tveimur þá skiluðu okkar menn öllum stigunum.

Það krakkar mínir….eru merki MEISTARALIÐA!!!

WeGoAgain

Byrjunarliðið gegn Norwich mætt

Einhvern tíma síðustu dagana var settur upp frasinn um að „þetta margir úrslitaleikir“ séu eftir.

Oft hefur þetta verið nokkuð eingöngu klisja, en guð á himnunum hvað þetta er ekki klisja hjá okkar mönnum.

Vikan hefur verið liðinu einfaldlega ótrúleg og það sendir út hrikalega sterk skilaboð að taka þrjú stig á Carrow Road í dag.

Rodgers hefur valið það lið sem hann telur líklegast til að ná stigunum með heim og er eftirfarandi:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan

Allen – Gerrard (c) – Lucas

Sterling – Suarez – Coutinho

Á bekknum: Jones, Toure, Agger, Cissokho, Moses, Alberto, Aspas

Þetta lið lítur vel út. Sjáum hvernig uppstillingin er og höfum hana hárrétta eftir leik, set þetta upp svona núna.

Elsku drengirnir okkar, allar okkar vonir og draumar liggja í fótum ykkar dásemdarpungar.

MakeUsBelieve #WeGoAgain

Norwich City á páskasunnudag

Erum við viss um að staðan í deildinni sé rétt? Erum við ekki bara að misskilja eitthvað hérna? Þið fyrirgefið en ég verð aðeins að fara yfir það sem gengið hefur á frá áramótum til að ná áttum á þessu öllu saman.

2014: 15 LEIKIR

Áramót 2013/14: Liverpool er í 5. sæti deildarinnar, sex stigum frá Arsenal á toppnum. Liðið sat í toppsætinu í haust og aftur um jólin, okkur til óvæntrar ánægju, og við erum almennt brosandi yfir því að liðið virðist vera á góðri siglingu í baráttunni um topp-4. Liðið rann hratt aftur á bak milli hátíða með tveimur tapleikjum gegn Manchester City og Chelsea. Við kvörtum yfir að dómgæsla hafi kostað okkur í báðum viðureignum en sannleikurinn er að bæði lið skoruðu tvö góð mörk á okkar menn og við segjum öll í kór að liðið geti ekki unnið leiki þar sem það fær á sig tvö mörk. Við erum alveg með það á hreinu.

1. janúar. Hull á Anfield. 2-0: Árið byrjar með sigri í tíðindalitlum leik. Agger og Suarez skora mörkin í fjarveru Sturridge, sem er búinn að vera meiddur í rúman mánuð, og í fjarveru Gerrard fær Suarez að bera fyrirliðabandið sem verðlaun fyrir magnaðan desembermánuð þar sem hann setti met með 10 mörkum á einum mánuði.

12. janúar. Stoke City á Britannia. 5-3: Eftir sigur á Oldham í bikarnum mætir liðið á einn af sínum hötuðustu völlum. Hér töpum við alltaf stigum, nema hvað að í ár er einhver sturlun í gangi og Liverpool skorar fimm mörk. Charlie Adam og Peter Crouch skora fyrir Stókarana en Sturridge er mættur aftur og hann og Suarez eru geðveikir. Þeim halda engin bönd í vetur og Sturridge skorar mark eftir að hafa haldið boltanum á lofti eins og selur með nefinu frá endalínunni. Við klípum okkur, hvað í andskotanum vorum við eiginlega að horfa á?

18. janúar. Aston Villa á Anfield. 2-2: Ömurlegur fyrri hálfleikur, einn sá versti undir stjórn Rodgers. Sturridge og Gerrard bjarga jafnteflinu en liðið virðist ekki hafa nægt púður í byssunum til að skora sigurmark þótt þeir hafi hálftíma til þess eftir að jafna. Rodgers prófar að nota Gerrard aftast á miðjunni og hann er ömurlegur. Við erum sultusvekkt, heimtum að Gerrard spili aldrei aftur þarna og að nú bara verði að kaupa þennan Konoplyanka frá Úkraínu til að auka sóknarmöguleikana, annars fer illa í vetur. Við erum alveg með það á hreinu.

28. janúar. Everton á Anfield. 4-0: Eftir sigur á Bournemouth í bikarnum kemur fyrsti stórslagur ársins. Everton hafa bara tapað tvisvar í vetur og við erum skíthrædd við þennan leik, þótt við séum of stolt til að segja það upphátt. Sturridge er geðveikur, skorar tvisvar og klúðrar víti þegar hann hafði séns á að tryggja þrennuna. Er svo eigingjarn í næsta færi á eftir, skýtur þegar hann átti að gefa og er tekinn út af með það sama. Erum við í alvöru að skammast út í Sturridge fyrir að hafa skorað tvennu gegn Everton? Skiptir engu, við slátrum þeim og setjum smá bil á milli okkar í deildinni. Þeir eiga ekki eftir að sjá okkur aftur í töflunni.

2. febrúar. West Brom á The Hawthorns. 1-1: Djöfulsins klúður. Suarez og Sturridge skapa forystu í fyrri hálfleik og liðið virðist vera að sigla þessu nokkuð rólega í höfn þegar Kolo Touré ákveður að bæta lýsingarorðinu kærulaus á ferilskrána sína. West Brom veitir ekki af jólagjöf í febrúar í sinni baráttu en þetta eru tvö töpuð stig. Við erum enn í topp-4 en 8 stigum á eftir Arsenal og ekkert útlit fyrir að það bil verði brúað ef liðið ætlar að gefa stig gegn liðum eins og West Brom og Villa í ár.

8. febrúar. Arsenal á Anfield. 5-1: HVAÐ?!? Geturðu sagt þetta aftur? Fimm eitt?!? Annar heimaleikurinn í röð þar sem stórlið er tekið og gjörsamlega kjöldregið. Staðan er orðin 4-0 eftir 20 mínútur, tölfræði sem er svo ótrúleg að ég þarf nokkur ár til að trúa henni. Menn spá því að þessi sigur komi okkur á beinu brautina í baráttunni um topp-4 og menn spá því líka að Arsenal-lið sem getur tapað svona illa úti gegn keppinautum sínum vinni titilinn ekki í ár. Við erum alveg með það á hreinu.

12. febrúar. Fulham á Craven Cottage. 3-2: Þetta er í raun fyrsti leikurinn þar sem menn segja upphátt orðin „af hverju ekki?“ Liðið lendir tvisvar undir og vörnin er úti að aka en á einhvern hátt nær liðið í sigur í uppbótartíma í leik sem hefði alltaf tapast í fyrra og hittífyrra. Gerrard setur vítið í blálokin og rífur sig úr treyjunni en menn gera ekki svoleiðis fyrir fjórða sætið. Er þetta lið að stefna hærra? Eigum við þá að horfa hærra líka? Það getur ekki verið. Við erum jú einu sinni Liverpool. Við vinnum ekki deildina.

23. febrúar. Swansea á Anfield. 4-3: Eftir svekkjandi tap gegn Arsenal í bikarnum mæta gömlu lærisveinar Rodgers á Anfield og enn og aftur sjáum við Liverpool vinna leik sem það hefði sennilega tapað stigum í fyrir ári síðan. Miklu betri í fyrri hálfleik, miklu verri í seinni hálfleik en samt finnur liðið einhvers staðar sigurmark. Jonjo Shelvey minnir á sig með mögnuðu marki en Jordan Henderson er betri og gerir betur með tvennu. Eftir leik horfi ég með Sigursteini kollega mínum á Kop.is á stuðningsmennina syngja „Poetry in motion“ í fyrsta skiptið. Við Steini ákveðum að horfa bara upp fyrir okkur fram á vorið og njóta þess í botn að vera yfir höfuð með í umræðunni um titilinn. City eða Chelsea eru samt alltaf að fara að vinna þennan titil, það erum við með á hreinu. En það er gaman að fá að fljóta með.

1. mars. Southampton á St. Mary’s. 3-0: Fram undan eru þrír erfiðir útileikir. Southampton hafa verið erfiðasta liðið fyrir Rodgers að ná tökum á, erkifjendur United munu selja sig dýrt á Old Trafford og Cardiff spila stórkallaboltann sem við höfum oft átt erfitt með. Menn gera sér vonir um á bilinu 4-7 stig í þessum leikjum. Bjartsýnni menn eru afskrifaðir hratt. En svo vinnur liðið bara ÞRJÚ núll á St Mary’s. Létt. Easy, who are ya? Hvað er eiginlega að gerast hérna? Þessi leikur er svo óspennandi að ég horfi á hann heima með öðru auganu, eins og ég sé bara vanur því að mínir menn slátri Southampton. Hvað er eiginlega að gerast hérna?

16. mars. Manchester United á Old Trafford. 3-0: United eru svo lélegir í aðdraganda þessa leiks, og Liverpool svo góðir, að ég spái Liverpool nánast skyldusigri í þessum leik. Liverpool mætir á Old Trafford og vinnur í leik sem er eiginlega aldrei í hættu og sigurinn gæti verið stærri. Gerrard tekur Sturridge á þetta og klúðrar þrennunni úr víti. Suarez skorar lokamarkið og fagnar með Gerrard fyrir framan Patrice Evra. David Moyes er enn stjóri United eftir leikinn. Þeir voru efstir í fyrra og eru núna í sjöunda sæti. Við vorum í sjöunda sæti í fyrra en erum núna fjórum stigum á eftir Chelsea í efsta sætinu og farnir fram úr Arsenal, sem virtist langsótt fyrir fimm vikum síðan. Menn klípa sig, fast, en vakna ekki.

22. mars. Cardiff City á Cardiff City Stadium. 6-3: Cardiff eru að fara að falla og Óli Gunnar LOLskjær er í fýlu út í Liverpool. Skiptir engu. Þeir komast tvisvar yfir en auðvitað vinna okkar menn samt, skora sex eins og ekkert sé. Suarez hleður í þrennu enda fáránlega langt síðan síðast (desember, það er langt ef þú heitir Luis Suarez). Menn eru opinberlega byrjaðir að telja sigurleikina og liðið var að taka þrjá í röð á útivelli eins og ekkert sé. Enginn trúir því sem er í gangi.

26. mars. Sunderland á Anfield. 2-1: Liðið er hyllt á leiðinni inná Anfield eins og sigursæl herfylking hafi snúið heim eftir landvinninga. Sem er nákvæmlega það sem marsmánuður var. Liðið hefur ekki spilað á Anfield í mánuð og hér sést örla á eilitlu stressi yfir stöðunni. Sigurinn hefst með herkjum, sá sjöundi í röð, og liðið er skyndilega bara stigi á eftir Chelsea í toppsætinu. City eiga þó tvo leiki til góða. Bæði þessi lið koma á Anfield í apríl. Getur liðið haldið dampi þangað til og gert þá leiki spennandi?

30. mars. Tottenham á Anfield. 4-0: Sennilega auðveldasti sigur tímabilsins. Tim Sherwood situr allan leikinn uppí stúku og segir eftir leik að það hefði engu skipt þótt hann mætti í vinnuna á hliðarlínunni. Gæðamunurinn á liðunum er algjör. Við unnum þá samt 5-0 á útivelli í desember, sem er ennþá betra. Allir hlæja að Tottenham. Þeir héldu að þeir væru með’etta. Þeir eru ekki með’etta.

6. apríl. West Ham á Upton Park. 2-1: Allir eru skíthræddir við þennan leik. Big Sam kann að leggja rútunni og sækja á 4-5-skallatennis leikkerfinu og hann hatar Liverpool. Allir eru sannspáir þar sem þessi leikur er stórkostlega erfiður. Þeir fá gefið ruglmark ársins rétt fyrir leikhlé og allt virðist borðleggjandi fyrir eitt stykki gamaldags hrun eftir hlé en í staðinn eru okkar menn bara með tök á öllu, sækja forystuna á ný og sigla þessu svo í höfn. Síðan hvenær er Liverpool-liðið svona yfirvegað? Þetta er níundi sigurleikurinn í röð. Gengið í deildinni er svona: WWW WWW WWW og liðið er komið í toppsætið. City á enn leiki til góða en Chelsea töpuðu óvænt fyrir Crystal Pulis. Hvað er að gerast hérna?

13. apríl. Manchester City á Anfield. 3-2: Tilfinningaþrungin vika þar sem Hillsborough-rannsóknin er í fréttunum og deildir um alla Evrópu minnast þess að 25 ár eru liðin frá þeim skelfilega harmleik. 24 ár eru liðin síðan Liverpool vann titil og það virðist ákveðin symmetría í þessum tveimur löngu biðum eftir deildartitli og réttlæti fyrir hina 96 og fjölskyldur þeirra. Tilfinningarnar flæða yfir um eins og í sjóðandi potti á fallegum sunnudegi á Anfield. Okkar menn eru frábærir í hálftíma, svo eru City-menn frábærir í hálftíma, svo er þetta lokasprettur þar sem winner takes it all. Og winnerinn er Phil Coutinho. Allt ætlar um koll að keyra, leikirnir sem City eiga inni gilda ekki lengur, sigurleikirnir eru orðnir tíu, Gerrard tárast í leikslok og heldur svo þrumuræðu yfir liðinu inná vellinum. Þetta er of mikið. Ég get þetta ekki lengur. Liverpool FC er fjórum leikjum frá því að gera hið ómögulega.

Og þá komum við að Norwich. City gerðu óvænt jafntefli við Sunderland á heimavelli í vikunni og því eru okkar menn í enn sterkari stöðu. Staðan, í hnotskurn, er þessi: þrír sigrar og jafntefli gegn Chelsea skila titli sama hvað Chelsea og City gera í sínum leikjum. Misstígi liðið sig einhvers staðar gegn Norwich, Crystal Pulis eða Newcastle verður liðið að vinna Chelsea eða treysta á að önnur lið hirði af þeim og City stig. Þetta er áfram erfitt en á einhvern ótrúlegan hátt virðist þetta allt vera að falla meira og meira með okkur með hverri umferðinni sem líður.

Einn leik í einu segja samt Brendan Rodgers og Steven Gerrard og allir aðrir.

NORWICH CITY

Andstæðingarnir á páskasunnnudagsmorgun eru Norwich City. Þeir eru það lið sem Rodgers hefur gengið best með síðan hann kom til Liverpool; í þremur deildarleikjum gegn þeim höfum við unnið 5-2 úti, 5-0 heima og svo síðast 5-1 heima í desember. Suarez hefur skorað þrennu, eitt og fernu gegn þeim auk þess sem hann skoraði þrennu gegn þeim vorið 2012 undir stjórn Dalglish. Rodgers er því með 9 stig af 9 mögulegum og markatöluna 15-3 í þremur leikjum og Suarez er með 11 mörk í 4 síðustu leikjum gegn Kanarífuglunum. Vá.

Annars er skemmst frá því að segja að Norwich eru í stórkostlegum vandræðum. Þeir héldu sér uppi nokkuð örugglega á fyrsta ári sínu í Úrvalsdeild undir stjórn Paul Lambert. Hann fór frá þeim og tók við Aston Villa fyrir tveimur árum og í staðinn var Chris Hughton ráðinn. Hann hélt þeim einnig nokkuð örugglega uppi í fyrra og byrjaði ágætlega í vetur, var örugglega um miðja deild eða þar rétt fyrir neðan þar til í febrúar en síðan þá hefur liðið hrunið og náð aðeins í 8 stig úr 11 síðustu leikjum. Hughton var rekinn í síðustu viku og unglingaliðsþjálfarinn Neil Adams fékk í staðinn það verkefni að halda liðinu fyrir ofan fallsætin. Þeir eru í 17. sæti í dag, tveimur stigum frá fallsætinu, og hafa ekki verið í fallsæti síðan að þeir laumuðust rétt snöggvast niður í 18. sætið í 9.-10. umferð en fóru svo upp aftur.

Hvers vegna eru þeir þá að panikka svona? Af því að síðustu fjórir leikir þeirra í deildinni eru svona:

  • Liverpool (h)
  • Man Utd (ú)
  • Chelsea (ú)
  • Arsenal (h)

Shit. Með öðrum orðum, þá nægir Fulham fyrir neðan þá í raun einn sigur og þá er bara orðið nokkuð líklegt að Norwich nái ekki í stigið sem þeir þurfa til að halda sér uppi. Þetta leikjaplan gerir það að verkum að þeir eru að halda í síðustu hálmstráin um helgina, þrátt fyrir að vera enn ekki í fallsæti. Skrýtið en satt.

Adams gerði miklar breytingar á liðinu í sínum fyrsta leik um síðustu helgi, þar sem þeir heimsóttu einmitt Fulham og töpuðu 1-0. Hann stillti upp 4-5-1, lagði mikla áherslu á miðjuleikinn og setti framherjann Ricky van Wolfsvinkel inn í framlínuna en sá hafði misst traust Hughton fyrr í vetur. Van Wolfsvinkel kostaði slatta síðasta sumar og var hátt skrifaður og til mikils ætlast. Hann skoraði mark í fyrstu umferð deildarinnar en hefur ekki skorað síðan fyrir Norwich, en Adams virðist ætla að veðja á að hann geti komið stjörnustrækernum sínum í gang og að sá muni vinna kraftaverkið sem þeir þurfa.

Í leiknum gegn Fulham voru þeir meira með boltann og talsvert betri aðilinn í leiknum. Felix Magath, stjóri Fulham, talaði um að hans menn hefðu ekki átt sigurinn skilið og hann væri því ekki ánægður í leikslok, sem segir sitt um frammistöðu Norwich. Þeir hefðu átt að skora nokkur mörk í leiknum en með framherja í dauðadái og miðjumenn sem skortir sjálfstraust er erfitt að stíga lokaskrefið.

Ofan á þetta bætist svo að vörnin hjá þeim er sennilega sú lélegasta í deildinni í vetur (ásamt Fulham sem hafa fengið flest mörk allra liða í stóru deildum Evrópu á sig). Og svo er Luis Suarez á leiðinni í heimsókn.

Ég býst engu að síður við að Norwich selji sig dýrt í þessum leik. Þeir gætu valdið okkur vandræðum á miðjunni og ef van Wolfsvinkel tæki upp á því að hrökkva í gang gegn okkur yrði maður hreinlega bara að yppa öxlum og segja að einhvers staðar hlaut þetta að hætta að rúlla fyrir okkur.

Ég er hins vegar á því að Liverpool á alltaf að skora fleiri mörk á þessa vörn en þeir skora á sjóðheita miðverði okkar. Víkjum okkur að því sem öllu máli skiptir, Liverpool-liðinu.

LIVERPOOL

Brendan Rodgers sat blaðamannafund á fimmtudag og sagði fátt óvænt: Jordan Henderson er í leikbanni og Daniel Sturridge er tæpur í þennan leik, allir aðrir sem hafa verið heilir eru það áfram. Hann hefur í raun enga ástæðu til að breyta byrjunarliðinu, og hefur ekki verið að breyta sigurliði mikið í vetur, nema vegna þess að Henderson og væntanlega Sturridge eru ekki tiltækir í byrjunarlið í þetta sinn. Ég vona að þeir setji Sturridge á bekkinn frekar en að taka einhverja sénsa svo hann geti byrjað. Ég vil frekar hafa hann á bekknum eða uppí stúku gegn Norwich og heilan gegn Chelsea en að taka séns og missa hann út tímabilið.

Ekki skilja það svo að ég sé að horfa meira á Chelsea. Sturridge hefur hvort eð er verið mistækur í síðustu 2-3 leikjum sínum og það gæti komið liðinu ágætlega að vera án hans gegn fimm manna miðju sem leggur áherslu á að vinna baráttuna um boltann.

Ég spái því einmitt að Rodgers muni nota tækifærið og setja inn tvo miðjumenn í stað Henderson og Sturridge, þétta miðjuna með góðan pakka á bak við Suarez frammi. Hinn valkosturinn er að setja annað hvort Victor Moses eða Iago Aspas inn í liðið og ég sé það ekki gerast; Moses yrði alltaf að víkja aftur gegn Chelsea þar sem hann má ekki spila gegn þeim, sem myndi koma meira róti á liðið, og Aspas er bókstaflega sá eini sem hefur verið að kvarta yfir litlum spilatíma sem hefur gert það að verkum að hann hefur varla fengið að hita upp, hvað þá spila, fyrir Rodgers síðan hann fór í blöðin.

Ég spái því að Joe Allen og Lucas Leiva komi báðir inn við hlið Steven Gerrard í þessum leik. Allen er sá besti sem við eigum til að halda uppi svipaðri pressu og Henderson hefur verið að gera og Lucas sýndi gegn West Ham að hann getur alveg spilað fyrir framan Gerrard á miðjunni, en hann bjó til sóknarfærið sem við fengum sigurvítið úr í þeim leik.

Það er annað mikilvægt við að setja þá báða inn og það er að við getum ýtt sjóðheitum Sterling og Coutinho enn framar á völlinn í fjarveru Sturridge. Vörnin verður óbreytt og með þessum breytingum ættum við að sjá þessa leikaðferð á sunnudaginn:

BlWGBIVIgAAHMD7

MÍN SPÁ

Maður fyrir mann erum við með betra lið en Norwich. Betri markvörður, betri vörn, betri miðja og margfalt betri framherji. Okkar leikmenn hafa miklu meira sjálfstraust í dag, knattspyrnustjórinn okkar er að starfa á algjörri hámarksgetu á meðan þeirra stjóri er ungur og að reyna að ná tökum hratt á drulluerfiðri stöðu. Ofan á það bætist að Norwich eru happamótherjinn okkar og að Luis Suarez, einn þriggja bestu leikmanna heims í dag, elskar fátt meira en að mæta þessu liði og virðist skora að vild gegn þeim (þ.m.t. tvisvar frá miðju síðustu tvö árin. TVISVAR!).

Af hverju er maður þá svona stressaður fyrir þennan leik? Af því að það er svo mikið undir. Jafntefli eða tap hér gerir stöðuna aftur erfiða fyrir okkar menn og stillir liðinu upp við vegg varðandi það að þurfa sigur gegn Chelsea. Sumir eru kannski hræddir við að það er nákvæmlega allt á pappírnum okkur í hag fyrir þennan leik en ég er hræddari við stressið sem verður á liðinu í þessum fjórum umferðum.

Liðið vantar eitt stig til að tryggja topp-4 og einn sigur til að tryggja sig á meðal þriggja efstu í vetur. Það er ótrúlegt eitt og sér, og enn ótrúlegra er að vera efstir og í hörkubaráttu um titil á lokametrunum, en þetta lið okkar er engu að síður ungt og þótt þarna séu að störfum íþróttasálfræðingar og hvaðeina þá bara hlýtur pressan einhvern tímann að segja til sín. Hún gerði það næstum því í seinni hálfleik gegn Sunderland og hún gerði það klárlega eftir hlé gegn City um síðustu helgi. Í bæði skiptin náðu menn samt að grafa djúpt og finna það sem til þarf til að klára leikinn.

Ég ætla að spá því að stressins vegna muni þetta ekki vera jafn auðvelt verkefni fyrir liðið og Norwich hafa venjulega verið. Það kæmi mér ekkert á óvart að sjá óvandaðar sendingar, lítinn rythma í spilamennskunni og jafnvel óvenjulegan klaufaskap fyrir framan bæði mörk. Þeirra séns er að skora á undan og vona að okkar menn fari á taugum, sem er í raun ekkert svo fjarstæðukennd von miðað við pressuna á Liverpool.

Engu að síður ætla ég að spá okkur sigri. Liðið verður kannski stressað en það hefur verið að sýna að það hefur karakter og hæfileika til að klára leikina, líka þegar þeir eru ekki að falla með okkur eða hlutirnir eru ekki að ganga vel (Fulham, Cardiff, Sunderland, City). Þetta verður þungt próf en okkar menn munu standast það. Við vinnum þetta 3-1 með tveimur mörkum seint í leiknum. Suarez skorar en ekki þrennu.

Þrjú stig á sunnudaginn, ég hef fulla trú á því. Og áfram syngjum við, poetry in motion, tra lala lala …

Áfram Liverpool!

Opinn þráður – Everton

15 apríl sl. var árleg minningarathöfn á Anfield til að minnast þeirra 96 sem fórust á Hillsborough fyrir 25 árum. Þessi atburður hefur auðvitað breytt ansi miklu í fótboltaheiminum og auðvitað haft gríðarleg áhrif í Liverpool borg. Eitt af því er viðhorf mitt gagnvart næstu nágrönnum, Everton.

Eðlilega er Everton andstæðingur númer eitt hjá þeim sem búa á svæðinu og umgangast stuðningsmenn Everton daglega en fyrir mér er andúðin á Everton ekkert yfirþyrmandi. Þeir sem muna betur eftir baráttu liðanna á toppi deildarinnar og ólust upp með Everton sem helsta keppinaut Liverpool horfa á þetta öðruvísi, Maggi og SSteinn kvitta upp á það. Persónulega man ég ekki eftir mjög mikilli samkeppni þessara liða nema þá helst núna undanfarin ár um sjötta sætið sem bara skiptir ekki máli og þeir fáu Everton menn sem ég þekki eru flestir toppmenn. Ég umgengst ekki einn Everton mann dagsdaglega og BK Kjúkling borða ég t.a.m. af bestu list. :)

Hillsborough slysið var auðvitað alveg jafn mikið áfall fyrir stuðningsmenn Everton og það var fyrir stuðningsmenn Liverpool. Bæði vegna þess að þetta voru auðvitað jafn mikið þeirra ættingjar, vinir eða vinnufélagar sem fórust og eins vegna þess að þeir gerðu sér grein fyrir að hefði drátturinn farið öðruvísi hefði þetta auðveldlega getað komið fyrir þá, þeir voru að spila hinn undanúrslitaleikinn á sama tíma. Frá því ég byrjaði að horfa á fótbolta hefur Hillsborough skugginn alltaf verið yfir og fyrir mér hefur þetta alltaf verið sameiginlegt hjá bæði Liverpool og Everton og stuðningur þeirra algjör frá upphafi. Pat Nevin fyrirliði Everton skoraði sigurmark Everton og kom þeim í úrslit ´89, hann neitaði að tala um leikinn við fjölmiðla eftir leik enda hugurinn eingöngu hjá stuðningsmönnum Liverpool.

Opinbera síðan er með góða greiningu á hvernig þessi harmleikur hefur sameinað liðin sem ég mæli eindregið með, mjög góð lesning.

Anfield var opnaður fyrir þá sem vildu syrgja strax 15. apríl og þar voru mjög margir í bláum búningum. Blóm, búningar, treflar og annað voru hengd á markið við Kop stúkuna en fjölmargir Everton menn fóru hinumegin á völlinn og gerðu markið við Annie Road endan blátt, þar stóðu þeir á Anfield (og gera enn).

Bæði lið mættu í allar minningarathafnir í kjölfar Hillsborough og stuðningsmenn auðvitað einnig. Mile of Scarves er líklega eitt flottasta framtakið en stuðningsmenn liðanna söfnuðu yfir 4.000 treflum og bundu þá saman alveg frá Goodison Park yfir á Anfield Road.

http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2605150/Hillsborough-25th-anniversary-memorial-Latest-pictures-updates-Anfield.html

Mynd af vef Daily Mail.

Undanfarin ár hafa augu mjög margra verið opnuð fyrir því sem stuðningsmenn Liverpool og Everton vissu vel varðandi Hillsborough og óþarfi að fara yfir það hér. En fyrir fimm árum virtist þessi barátta vera fyrir alvöru töpuð og engin von um að þeir látnu og ættingjar þeirra fengju nokkur réttlæti. Vonarglætan kom frá grjóthörðum stuðningsmanni Everton og þingmanni í þokkabót. Engum pólitíkus hafði verið leyft að segja orð á minningarathöfn um Hillsborough áður. Aðsóknarmet var slegið þennan dag í minningarathöfnina í tilefni 20 ára afmælisins og þingmaðurinn, Andy Burnham fékk þær móttökur sem hann líklega bjóst við að fá. Þetta sýndi honum að (það sem hann vissi fyrir) að þó baráttan væri strand væri enginn áhugi á Merseyside að gefast upp og hætta baráttunni fyrir réttlæti, það væri hreinlega ekki í boði.

Ástæða þess að hann fékk boð um að tala á 20 ára afmælinu var vegna þess að hann var þegar byrjaður að vinna að því að enduropna Hillsborough málið og hann var enn sannfæraðri eftir þennan dag. Hér má lesa hans hlið á þessum degi og hans aðkomu. (Varúð hann hrósar Gordon Brown)

Hér er svo hægt að lesa dagbók sem Burnam skrifaði í Guardian um vikuna þegar Óháða Hillsborough nefndin skilaði af sér sínum niðurstöðum þremur árum seinna. Færslan byrjaði svona:

Friday 7 September
It’s the start of the seven most important days I will have in politics and my main worry is that people have not yet woken up to the enormity of what’s coming. All the talk in the papers is the fallout from the reshuffle.
I feel the need to get in early and set the right tone. So I call my old friend David Conn. It was his Guardian article on the amendment of police statements in the runup to the 20th anniversary that prompted me to set up the Hillsborough Independent Panel.
I tell him that, together with Steve Rotheram, Maria Eagle and Derek Twigg, I’m calling for a national apology for Hillsborough from the prime minister.

Eftir að nefndin hafði skilað af sér sínum niðurstöðum og forsætisráðherrann beðið opinberlega afsökunar fór Burnham til Liverpool og var viðstaddur þegar fjölskyldurnar fengu skýrsluna. Mikil gleði þeirra á meðal og í kjölfarið fór hann á barinn. Þá heimsókn orðaði hann svona og gæti ekki lýst tengingu Liverpool og Everton mikið betur

Steve Rotheram suggests a quick pint in the Ship and Mitre at the top of Dale Street before heading home. Atmosphere in there is brilliant. Seems to be an impromptu gathering of many inspirational people who have helped along the way. Even Mick Jones from the Clash, who did the Justice Tonight tour, has travelled up to be there. Everyone is very generous to me but, just in case it’s going to my head, I leave to a hearty rendition of „blue and white shite“. I love this city. Normal service resumed.

Dagbókina endaði hann svo á þessum orðum

One email catches my eye. It’s just five words long: „You’re alright, for a bluenose.“ That’s good enough for me.

Andy Burnham fékk að koma aftur í pontu núna á 25 ára afmælinu. Móttökurnar sem hann fékk núna voru töluvert mikið betri en síðast og hans ræða fannst mér sú besta af þeim öllum. Bill Kenwright eigandi Everton hélt frábæra ræðu í fyrra og ítrekaði stuðning Everton. Roberto Martinez hélt ræðu núna í ár og tilkynnti að komið yrði upp minningarreit á Goodison til minningar þeirra 96 sem létust.

Við félagarnir hér á kop.is vorum á Anfield í maí sl. þegar Everton kom í heimsókn og tókum þátt í þessari mosaic mynd sem beint var að stuðningsmönnum Everton vegna stuðnings þeirra í tengslum við Hillsborough.

https://www.youtube.com/watch?v=W-W7T5B_iFE
The Bitters eru þeir kallaðir af stuðningsmönnum Liverpool og líklega er það ekki alveg að ástæðulausu. Þeir hafa alveg ástæðu til að vera orðnir vel þreyttir á Liverpool undanfarin ár og áratugi. Reyndar frá stofnun Liverpool. Líklega er þetta best orðað svona af einum stuðningsmanni Everton

“Whenever we do something good they go one better. What happened last time we finished 4th?”

Þegar Everton var upp á sitt allra besta og að vinna til verðlauna var Liverpool með besta lið í heimi. Barátta liðanna var mögnuð og Liverpool ekkert alltaf ofan á í þeirri baráttu en öllu oftar. Liðin fóru saman á Wembley ´86 þar sem Liverpool vann þá. Sama gerðist ´89 þó sá leikur hafi kannski skipt stuðningsmenn liðanna minna máli. Mjög viðeigandi að þessi lið hafi mæst í úrslitum þessarar keppni svo stuttu eftir Hillsborough.

Tímabiið sem Heysel slysið átti sér stað og bann var sett á öll ensk félög í Evrópu var Everton meistari. Árin á eftir var Everton líklega með besta lið sem þeir hafa haft en fékk ekki að spila í Evrópu. Ég fór yfir Heysel hérna og þó það hafi verið töluvert ódýrt að skrifa þann harmleik eingöngu á stuðningsmenn Liverpool er ljóst að Everton menn hugsuðu þeim þegjandi þörfina.

Núna í seinni tíð hefur Liverpool alltaf verið fyrir þegar Everton sér vonarglætu. Árið 2005 var frábært fyrir þá, liðið náði 4. sæti í deildinni og var fyrir ofan Liverpool. Auðvitað vann Liverpool þá meistaradeildina aftur eftir 21 árs pásu, m.v. núverandi reglur hefði þetta þýtt að Everton fengi ekki þáttökurétt í meistaradeildinni. Þeir sluppu við það en féllu úr leik í umspili fyrir riðlakeppnina og fóru því ekki í sjálfa meistaradeildina.

Þegar Liverpool var stórlaskað að jafna sig eftir tíma Hicks og Gillett drógust liðin saman í undanúrslitum bikarsins. Liverpool gat ekki rassgat í deildinni og Everton sá alvöru séns á að slá þeim rauðu við. Það tókst ekki og líklega til að gera þetta enn verra fyrir Everton menn var Dalglish aftur farinn að stjórna Liverpool. Það sem þeir hljóta að hata hann.

Liðin hafa verið saman á töflunni í lok fimm af síðustu sex tímabilum og núna síðustu tvö hefur Everton verið fyrir ofan en alltaf í sætum sem skipta engu máli.

Núna þegar álögum Sir David Moyes hefur loksins verið aflétt af Everton og liðið tekur skref uppá við í töflunni og eygir baráttu um sæti í meistaradeildinni er auðvitað besta ár Liverpool í áraraðir og liðið í toppbaráttu. Hversu dæmigert er það fyrir Everton menn?

Það eru ullarhattar meðal allra stuðningsmannahópa og margir geta líklega sagt hryllingssögur af samskiptum sínum við þá bláu. Persónulega héðan af Íslandi hef ég ekki náð að byggja upp mikið óþol gagnvart þeim enda afar lítið í návígi við þá og ekki höfum við farið svo illa út úr viðureignum liðanna. Ekki einu sinni þegar þeir voru upp á sitt allra besta.

Því meira sem ég les mig til um Hillsborough hinsvegar, því meiri virðingu ber ég fyrir Everton.

http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2202032/Hillsborough-papers-revealed-Police-attempted-blame-Liverpool-fans-disaster.html

Mynd af vef Daily Mail

Meistaradagar í ReAct! [auglýsing]

LFC MEISTARADAGAR Í REACT

Nú klæðum við upp alla Liverpool aðdáðendur á Íslandi! Alvöru Meistaradagar eru hafnir í ReAct og verðin eru í takt við árangur liðsins eða FYRSTA FLOKKS: 30-70% AFSLÁTTUR!

Það stefnir allt í að treyjur yfirstandandi tímabils verði safngripir af bestu gerð og nú er bara að tryggja sér Meistaratreyju LFC 2014!

Aðaltreyja LFC á aðeins 6.990 / 7.990 kr.

Stuttbuxur LFC á aðeins 3.990 kr.

Sokkar LFC á aðeins 1.990 kr.

Barnasett á 3.mán-5ára, treyja, buxur og sokkar á aðeins 5.990 kr.

ReAct er í Bæjarlind 4, 201 Kópavogi, sími: 571 9210, en einnig er hægt að versla á sömu verðum í gegnum netverslun ReAct.is allan sólarhringinn!

react-logo