Latest stories

 • Liverpool 1-0 Ajax

  Mörkin

  1-0  Curtis Jones 58.mín

  Leikurinn

  Það var einhver Scouse-fílingur í loftinu eftir að upphafsliðin voru birt og Curtis Jones stimplaði það hraustlega inn fyrstu fimm mínúturnar með tvö hættulega skot að marki. Hið fyrra með vinstri fæti sem var vel varið af snyrtilega hárklipptum Onana í markinu en hið síðara small í stönginni og hefði átt að vera fyrsta mark leiksins.

  Okkar menn voru klárlega sprækari og betur tilbúnir til leiks heldur en í affallinu gegn Atalanta um daginn. Ajax voru þó ekki mættir til að vera leiksoppar í Liverpool-leikriti og Klaassen átti skeinuhætt skallafæri sem Kelleher varði vel í markinu en rangstaða var þó í spilunum.

  Kelleher var þakklátur æfingunni því að alvaran beið á 32.mín þegar að þrumufleygur frá Mazraoui var vel varinn af Íranum okkar í markinu. Enn var þó dómadagsdómgæslan undarleg í okkar garð á 42. mín er á Mané virtist vel sloppinn í gegn en Schuurs slapp með gult fyrir að taka Senegalann síkáta niður. Rautt í bókum ritara og enn eitt atvikið í dómgæslubækurnar gegn okkur.

  0-0 fyrir Liverpool í hálfleik

  Ajax ógnuðu fljótt eftir upphafið með færi hjá Klaassen en okkar maður Curtis ákvað að taka leikinn í sínar hendur á 58.mín þegar að frábær fyrirgjöf frá niðurníddum Neco Williams fann hann á fjærstönginni. Onana hárreytir sig af sínum hárfínu mistökum en Scouser Curtis fullnýtti færið með utanfótarflikki á fjærstönginni. 1-0 fyrir Liverpool.

  Salah ógnaði fljótlega eftir markið en innáskiptingar beggja liða höfðu áhrif á flæði leiksins sem róaðist mikið eftir markið. Leikar lifnuðu þó við undir lok leiksins er varamaðurinn Firmino slapp í gegn en Onana varði glæsilega niðri og stuttu síðar komst Salah líka í færi sem fór forgörðum. Vannýtingin þeirra færa bauð van Huntelaar heim í hættulegt færi sem hefði getað gefið okkur verulegan hausverk en okkar menn slúttuðu sigrinum fagmannlega með nokkrum gulum spjöldum.

  1-0 Liverpool-sigur með Scouser-marki

  Bestu menn

  Hinir ungu munu erfa landið, yrkja jörðina, slá grasið á Anfield, klára heimavinnuna, taka til í herberginu sínu og á endanum halda hreinu í markinu, leggja upp og skora mörk fyrir Liverpool FC.

  Það er draumurinn og í kvöld rættist það með frábærum frammistöðum hjá uppöldu ungliðunum okkar Caoimhin Kelleher, Neco Williams og match winnernum Curtis Jones. Liðið í heild sinni var mjög traust í sinni frammistöðu í kvöld en ungliðarnir skinu skærast með flottum frammistöðum, markvörslum og stoðsendingum en enginn betri en markaskorarinn Curtis Jones sem var augljós maður leiksins.

  Vondur dagur

  Liverpool sigraði, ungu strákarnir flottir, enginn meiddist í leiknum og nákvæmlega enginn átti vondan dag. Eina slæma sem má nefna eru tíðindin fyrir leik af meiðslum Alisson en skírnarfulltrúinn sparkvissi verður varla frá lengi…………….eða hvað?

  Viðtalið

  Okkar maður. Derhúfa. Gleraugu. Misgáfulegar spurningar. Grjóthörð svör. Meistari.

   

  Umræðan

  Rauði herinn hefur tekið við miklum áföllum, áverkum og andskotans átökum síðustu vikur. Það VAR kærkomið að fá agnarögn af andrými og andans upplyftingu með einum ofurléttum 1-0 sigri inn á milli. Ajax er ofurveldi í Evrópu og það er ekkert gefins gegn þeim þannig sigur kvöldsins er ekkert uppfyllingar léttmeti í Covid-dauðyfli fótboltadagskrárinnar. Þetta var alvöru sigur, gegn alvöru liði og engin ástæða til þess að fagna ekki almennilega.

  Liverpool eru komnir áfram í 16-úrslit Meistaradeildarinnar!

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðin á Anfield gegn Ajax

   

  Evrópustórveldið Ajax er mætt á Anfield í Meistaradeildinni í lykilleik um örlög beggja í D-riðli. Laskaðir og lúnir Liverpool-liðar eiga möguleika á að tryggja sér sigur í riðlinum en Ajax þurfa að vinna til að halda voninni á lífi.

  Liðin liggja fyrir og það er strax stórfrétt í því formi að Alisson er hvíldur vegna vöðvavandræða og Caoimhen Kelleher fær byrjunarliðstreyjuna á undan mistækum Adrian. Matip mætir aftur í miðja vörnina eftir helgarfrí og fyrirliðinn Henderson byrjar loks eftir meiðslavesen:

  Andstæðingarnir frá Amsterdam stilla sínu liði upp á eftirfarandi hátt:

  Upphitunarlagið ber þess merki að þrátt fyrir að Rauði herinn sé meiðslahrjáður, örmagna og örþreyttur þá erum við enn á lífi!

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Gullkastið – Bullandi mótvindur

  Það er ekki margt sem dettur með Liverpool þessa dagana og ljóst að liðið er í smá krísu á toppi deildarinnar eins og Bill Shankly orðaði það einu sinni. Það hefur ekki fallið vafaatriði með Liverpool það sem af er tímabili og videodómgæslukerfið í heild sinni hefur undirstrikað það sem áður var haldið fram um enska dómara, þeir eru ekki nálægt þeim gæðum sem þeir halda að þeir séu. Kerfið eins og þeir nota það er handónýtt.

  Rán í uppbótartíma gegn Brighton, hroðalegt tap gegn Atalanta og ennþá meiri meiðsli. Það eru ekki alltaf jólin en það er blessunarlega farið að styttast í þau.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 313

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  [...]
 • Dregið í FA bikarnum

  Í kvöld var dregið í FA-bikarnum.

  Ekki þótti nokkur ástæða til að breyta út af vananum þar, okkar menn fara í útileik við lið úr PL eins og flest undanfarin ár, eigum möguleika á að hefna 7-2 ófaranna gegn Aston Villa.

  Leikurinn fer fram einhvern tíma helgina 8. – 10. janúar.

  [...]
 • Ajax á þriðjudag (Upphitun)

  Það er stutt stórra högga á milli. Nú er komið að fimmta og næst síðasta leik okkar manna í riðlakeppni meistaradeildarinnar. Fáum þá annað tækifæri til að tryggja okkur sæti í 16 liða úrslitum og, ekki síður mikilvægara, að vinna okkur inn möguleikann á að hvíla lykilleikmenn eftir rúma viku þegar lokaumferðin fer fram. Andstæðingurinn í þetta skiptið er Ajax, sviðið er Anfield og hefjast leikar á þriðjudagskvöld kl. 20. Mæli með því að menn rifji upp þessa upphitun frá Einari fyrir leik.

   

   

  Formið og sagan

  Það er stutt samantekt þegar við rennum yfir viðureignir þessara liða í gegnum tíðina. Fyrir utan einvígi liðanna 1966 þegar Ajax sló okkur út í tveggja leikja einvígi í 16 liða úrslitum evrópukeppninnar með Johan Cruyff í broddi fylkingar þá hafa þessi lið ekki leitt saman hesta sína fyrr en í síðasta mánuði þegar Liverpool sótti öll stigin á Amsterdam Arena í 0-1 sigri í upphafsleik riðilsins.

  Gestirnir koma sjóðheitir inn í þennan leik, síðustu 2 deildarleikir endað samanlagt 10-0 með 3-1 sigri gegn Midtjylland inn á milli. Rétt eins og Liverpool, utan það að deila ekki toppsætinu, þá kemur Ajax inn í þennan leik sem efsta liðið heimafyrir með 27 stig af 30 stigum mögulegum eftir 10 leiki. Ef þið hélduð að það væri gott þá er vert að benda á að markatalan hjá þeim er 42-5 í þessum 10 leikjum!

  Okkar form þekkjum við svo sem og þurfum ekki að fara neitt djúpt í þá sálma. Miðað við umræðuna (um væl og mótlæti….og VAR, auðvitað VAR) þá mætti halda að Liverpool væri að falla úr leik í CL og fyrir miðju í deild – svo er ekki, Liverpool deilir toppsætinu heimafyrir eftir virkilega erfiða fyrstu 10 leiki (Man City, Everton og Chelsea úti ásamt Arsenal og Leicester heima – svo eitthvað sé nefnt) ásamt því að vera einum sigri frá því að tryggja sér sigur í D-riðli meistaradeildarinnar. Ekki slæmt það, verandi án átta (8!) leikmanna sem flesta ef ekki alla er hægt að flokka sem lykilleikmenn.

  (more…)

  [...]
 • VAR er ekki þess virði

  Þegar videodómgæsla kom fyrst til umræðu sem mögulegt hjálpartæki fyrir dómara var ég mjög skeptískur á þeim forsendum að ég vildi ekki að það væri spilaður annar fótbolti sem maður horfir á í sjónvarpinu (frá t.d. Englandi) en sá sem er spilaður á leikvellinum.

  Engu að síður var alveg hægt að sannfæra sig um að þetta væri hvort eð er allt önnur íþrótt og undir vissum kringumstæðum væri erfitt að þræta fyrir að hægt væri að nýta tæknina með mjög fljótlegum hætti til að leiðrétta mjög augljós mistök dómara. Þá má ekki gleyma þeim endalausu umræðum um augljós mistök dómara eftir leiki þar sem þeir fengu eina tilraun frá misjafnlega góðu sjónarhorni en voru dæmdir af sjónvarspáhorfendum sem fengu að sjá atvikið aftur og aftur í hægri endursýningu. Umræðan eftir leik snerist svo oftar en ekki um þetta atvik sem jafnvel réði úrslitum.

  Leikurinn sem dómarinn var að dæma og áhorfandinn var að horfa á voru á vissan hátt ekki sami leikurinn og þessi umræða eftir leiki litlu skárri en VAR umræðan er núna. Á leikvellinum eru jafnan engar endursýningar eða umfjöllun eftir leik.

  Sambærileg tækni hefur verið innleidd í nánast allar aðrar stórar hópíþróttir í heiminum með ágætum árangri að því er ég best veit. Markmiðið er að fá rétta niðurstöðu og það er erfitt að mótmæla því. Eftir ansi margar slæmar ákvarðanir dómara á Englandi sem almennt eru bara ekki í sérstaklega háum klassa skipti ég nánast alveg um skoðun og var fylgjandi því að fá VAR inn í fótboltann, fannst það jafnvel nauðsynlegt og er ennþá á því að tæknin sjálf sé ekki vandamálið.

  Þeir sem hinsvegar eru að nota tæknina, mestmegis sömu “sérfræðingarnir” og við vorum að tuða yfir áður en VAR kom til sögunnar hafa notað þetta hjálpartól svo hræðilega að það er ekki annað hægt en að skipta aftur um skoðun. Það er ekki bara það að videodómgæsla í núverandi mynd er ekki að hjálpa leiknum, hún er þvert á móti að stórskaða vörumerkið og janvel það illa að erfitt gæti reynst að laga. Það eru ansi margir knattspyrnuáhorfendur í fullri alvöru að missa áhugann á VARfótbolta eins og hann er í núverandi mynd.

  Auðvitað er ekki besti tíminn fyrir svona pistil frá stuðningsmanni Liverpool  strax í kjölfarið á því sem við upplifðum gegn Brighton, maður er ekki beint hlutlaus. En hvenær eigum við að lýsa okkur skoðunum á þessu? Það er vafaatriði og/eða skandall í nánast hverjum leik núorðið. Liverpool, lið sem sækir meira en flest lið hefur fengið ekki nema helmingi fleiri VAR dóma á móti sér en næsta lið, ekki nærri því alla réttilega. Auðvitað hefur þetta áhrif á skoðanir manns á VAR en það er alls ekki eins og einu fáránlegu vafaatriðin tengd videodómgæslu eigi sér stað í Liverpool leikjum.

  Óttinn við að fagna mörkum

  Það skemmtilegasta við knattspyrnu er að fagna mörkum, það eru ekki mörg mörk í knattspyrnuleikjum almennt og því þeim mun meiri fögnuður þegar liðið manns skorar. Ef að þú tekur gleðina við það að fagna mörkum af manni eða takmarkar hana allverulega ertu byrjaður að eyðileggja það sem knattspyrna gengur meira og minna út á. Þetta hélt ég að hægt væri að finna nokkuð auðvelda og fljótlega lausn á en miðað við þetta tímabil hefur enskum farið aftur ef eitthvað er.

  Videodómgæsla eins og hún er útfærð í dag gerir það að verkum að maður bara fagnar ekki lengur mörkum. Eftir hvert mark á maður á hættu að skoðað verði eitthvað sem gerðist löngu áður í leiknum sem ekki var búið að skoða eða þá að eitthvað dómaranördið tapi sér í paint og hreinlega finni upp rangstöðu. Það er svo fullkomlega mismunandi milli lekja og manna við hvað er miðið.

  Þetta er og hefur verið frá upphafi langalvarlegasti gallinn við VAR og er ekki þess virði m.v. það sem við höfum séð á þessu tímabili. Velti því þó aðeins fyrir mér hvort þetta sé almennt ekki miklu meira vesen í enska boltanum en við sjáum t.d. í Meistaradeildinni? Hvernig er þetta í öðrum deildum þar sem notast er við VAR?

  Reglurnar sem dómarar eiga að fara eftir þegar kemur að VAR virka alls ekki flóknar, VAR er til þess að leiðrétta augljós mistök dómara, ekki skera úr um öll vafaatriði niður í smáatriði. Ef upphaflegur dómur var ekki augljós mistök á VAR ekki lengur við. VAR var aldrei hugsað þannig að hringt væri í Gus Grissom og tekið CSI greiningu á hvert atvik. Rangstaða er teiknuð upp í gríðarlega viðvaningslegu kerfi sem gefur engin skekkjumörk og staðfestir bara alls ekki alltaf ákvörðun dómara. Því síður er nokkurntíma haft í huga að þetta eigi að snúast um það hvort upphaflegur dómur hafi verið augljós mistök dómrara.

  Ef að dómari þarf hæga endursýningu til að sannfærast um sinn dóm eru yfirgnæfandi líkur að ekki var um augljós mistök að ræða. “Brot” Andy Robertson gegn Brighton í uppbótartíma er mjög gott dæmi um þetta. Enginn dómari í sögu knattspyrnunnar hefði dæmt víti á Robertson fyrir tíma VAR, ekki einn einasti. Það var enginn leikmaður Brigton að biðja um víti heldur og þeir viðurkendu eftir leik að þetta var mjög soft. Ef að enginn dómari dæmir á svona atvik allajafna var ekki um augljós dómaramistök að ræða. Ef að þú sýnir svona atvik hinsvegar hægt og tekur út samhengið að þetta er ekki snertingarlaus íþrótt er hægt að sjá “brot”. Ef að þú ætlar að opna það pandórubox er eðlilegt að spyrja á móti, af hverju í helvítinu er ekki stoppað leik eftir hvert einast horn sem er tekið og lagt mat á það sem gekk á í teignum. Dómarinn jafnvel sendur út að hliðarlínu til að meta þetta eftir hægri endursýningu. Knattspyrnu yrði fljótlega hætt og þess í stað farið bara beint í vítaspyrnukeppni.

  (more…)

  [...]
 • Brigton 1 – 1 Liverpool

  Enn einn leikurinn, enn ein VAR umræðan. Það var laskað lið sem við mættum með á Amex völlinn í dag og hófum leikinn vel þegar Firmino flikkaði boltanum inn á Jota sem reyndi að koma boltanum þvert yfir boxið á Salah en Brighton náði að bjarga því á síðustu stundu. Nokkrum mínútum seinna náði Fabinho að losa um Salah með góðri sendingu en Salah setti boltan framhjá markinu undir pressu frá varnarmanni Brighton.

  Eftir góða byrjun fyrstu mínúturnar fengum við að sjá að varnarlínan er ekki vön því að spila saman því Brighton fengu nokkur færi á næstu mínútum og sem betur fer var ekki reyndari leikmaður en Aaron Connolly sem fékk besta færið. Það fyrra fékk hann þegar Maupay setti boltann á milli hafsenta Liverpool og Connolly var þá kominn einn gegn Alisson en setti boltann framhjá markinu.

  Á 19. mínútu fékk Connolly boltann og sótti inn á vítateiginn þar sem Neco Williams hljóp samsíða honum en Neco gerði síðan atlögu að boltanum en var of seinn og tók Connolly niður. Reynsluleysi hjá bakverðinum unga þar sem það var ekki þörf á að sækja svo hart að honum. Maupay fór á punktinn en setti boltann framhjá markinu. Maupay þurfti síðan að yfirgefa völlinn vegna meiðsla nokkrum mínútum síðar og kom Trossard inn fyrir hann en það voru ekki síðustu meiðslin í þessum leik.

  Á 34.mínútu kom fyrsta markið þegar Firmino tók við löngum bolta frá Alisson og gaf hann svo inn fyrir vörnina á Salah sem skaut í jörðina og yfir Matt Ryan í marki Brighton en það leið ekki á löngu þar til VAR skarst í leikinn og tók eftir því að Salah gleymdi að klippa táneglunar í morgun og dæmdi markið af. Við áttum hinsvegar erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik og þegar flautað var til leikhlés fór Jordan Henderson að hita upp og kom hann inn fyrir Neco Williams í hálfleik.

  Seinni hálfleikur

  Það var nokkuð annað að sjá liðið í seinni hálfleik. Við héldum boltanum betur en í þeim fyrri og ekki alveg sömu göt í varnarlínunni. Það var svo eftir klukkutímaleik sem fyrsta markið sem telur kom en Jota fékk boltann frá Salah og rak hann aðeins fyrir utan vítateig áður en hann sá tækifæri til að taka í gikkinn og náði að stýra boltanum laglega milli varnarmanna og markmanns Brighton. Gott mark hjá Jota sem hafði ekki átt góðan dag fram að þessu.

  Stuttu síðar kom Mane inn fyrir Salah og á svipuðum tíma fengum við að sjá okkar fyrrum mann Lallana koma inn hjá Brighton en því miður fyrir hann var hann einungis inn á í átta mínútur áður en hann meiddist og þurfti að fara aftur af velli og stuttu síðar meiddist James Milner og kom Curtis Jones inn fyrir hann og kláraði leikinn í hægri bakverði. Nú má Trent fara að ná sér af sínum meiðslum!

  Sjö mínútum fyrir leikslok skoraði svo Mane eftir aukaspyrnu Robertson en var fyrir innan og rangstæða dæmt. Andartak leiksins var svo í uppbótartíma þegar Welbeck og Robertson keppast um að ná snertingu á boltann og Welbeck er á undan og skella þeir síðan skónum saman og dómarinn fór í skjáinn og dæmir vítaspyrnu sem Gross tók og jafnaði leikinn 1-1.

  Bestu menn Liverpool

  Fabinho var mjög flottur í miðverðinum í dag og Phillips ágætur en þó takmarkaður við hliðina á honum. Salah var mikil ógn og skoraði gott mark sem var dæmt af og Alisson átti nokkrar góðar markvörslur og sweepaði nokkrum sinnum vel.

  Slökustu menn Liverpool

  Við vorum slakir í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik. Sumir virtust þreyttir aðrir slakir. Minamino má eiga það að hann reyndi eins og hann gat að heilla og yfirferðin var mikil en hann tapaði nánast hverju einasta návígi sem hann fór í og of margar slakar sendingar. Jota skoraði en fyrir utan það átti hann vondan dag í dag. Milner virtist vera búinn að spila aðeins of margar mínútur undanfarið og Neco gerði slæm mistök í fyrra vítinu og átti erfitt varnarlega í dag.

  Umræðupunktar

  • VAR – umræðan heldur áfram og það er ljóst að það þarf að taka ákvarðanir í sambandi við regluverkið í kringum VAR því ef það voru clear and obvious mistök hjá dómaranum að dæma ekki á Robertson þá veit ég ekki hvað flokkast ekki í þann flokk.
  • Leikjaálagið – Það er mikið og mun ekki minnka. Við munum því sjá leiki þar sem okkar heimsklassalið mun spila illa, ég var hinsvegar ekki að búast við að sjá það tvö leiki í röð eins og í þessari viku.
  • Meiðsli, meiðsli, meiðsli – Meiðslin halda áfram að hrannast inn Milner virtist hafa tognað aftan í læri það eru einhverjar vikur, vonandi að byltan hjá Phillips hafi ekki skilið eitthvað eftir sig við endum á að þurfa leita í old boys liðið. Var ekki talað um að Glen Johnson hafi verið í besta forminu í old boys leiknum við Milan í fyrra?
  • Jaðarmennirnir – Það er erfitt að búast við miklu af mönnum sem eru aftarlega í goggunarröðinni, þar sem þeir eru þar af ástæðu en við munum þurfa meira frá mönnum á borð við Origi, Minamino, Keita og fleirum. Vissulega hafa Jones, Shaqiri og ungu hafsentarnir komið vel inn á tímum en þegar það er spilað svona þétt þá þurfa allir að stíga upp þegar kallið kemur ef við ætlum okkur titilinn.

  Næstu verkefni

  Næst er það Ajax á þriðjudaginn en fáum svo ágætis hvíld miðað við tíð og tíma því svo spilum við kvöldleik á sunnudegi gegn Úlfunum og nú þurfum við að fara fá einhverja menn af meiðslalista en ekki bara leggja inn – því það er morgunljóst að þessi meiðslalisti er enginn gleðibanki!

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Brighton

  Í þessu mikla leikjaálagi sem er þessa dagana er erfitt að skjóta á hvernig Klopp nær að stilla upp sínu byrjunarliði en í dag er nokkuð óvænt en Mané er á bekk og Matip ekki í hóp en á hinn boginn er Henderson kominn aftur í hóp og byrjar á bekknum í dag en byrjunarliðið er svona

  Bekkur: Adrian, R. Williams, Tsimikas, Henderson, Jones, Mane og Origi

  Góðu fréttirnar eru þær að slúðrið segir að Matip er ekki meiddur heldur aðeins verið að fara varlega með hann. Verður áhugavert að sjá hvernig Minamino kemur inn í þessa fremstu fjóra og hvernig það virkar að spila án Mane.

  Minnum á umræður á facebook síðu kop.is og á twitter endilega verið með okkur þar!

  [...]
 • Brighton á morgun (12:30) – Upphitun

  Þá er komið að næsta verkefni, þriðji leikur liðsins í sömu vikunni og það verða ekki liðnir nema rétt rúmar 60 klukkustundir frá því að Atalanta leiknum lauk þegar Stuart Attwell flautar til leiks kl. 12:30 á AMEX vellinum í Brighton.

  Formið og sagan

  Liverpool hefur gengið nokkuð vel gegn Brighton síðustu árin og hafa til að mynda unnið síðustu sex viðureignir þessara liða í deildinni og hafa unnið alla sína leiki á AMEX vellinum síðan hann var tekinn í notkun (4 leikir).

  Það þarf að leita aftur til þess tíma sem að Brighton spilaði ennþá á Goldstone Ground til að finna síðasta tapleik okkar gegn þeim í deildarleik, reyndar var það í gömlu annarri deildinni og var 14. Janúar 1961 þegar Bill Shankly var stjóri okkar manna!

  Heimamenn koma inn í þennan leik í 16 sæti með 9 stig af 27 mögulegum, sem verður að teljast fremur dræm uppskera en þeir hafa þó átt erfitt leikjaprógram og hafa verið að spila mun betur en stigasöfnunin segir til um. Brighton tapaði 3 af fyrstu 4 leikjunum (Chelsea, Man Utd og Everton) en koma inn í þennan leik eftir 1-2 sigur gegn Aston Villa, sem var jafnframt þeirra annar sigurleikur í deild þetta tímabilið. Ég hef séð merkilega marga Brighton leiki þetta tímabilið (veit í alvöru ekki hvernig stendur á því) og hafa þeir verið óheppnir í leikjunum gegn „stóru strákunum“ og í flestum tilfellum ekki átt skilið að tapa (þ.e. gegn Chelsea, Man Utd og Spurs).

  Formið á okkur er í raun andstæðan við heimamenn. Þegar flautað verður til leiks erum við jafnir Spurs á toppnum með 20 stig af 27 mögulegum og komum inn í þennan leik eftir frábæran og sannfærandi sigur gegn Leicester (reyndar fyllt eftir með arfa slakri frammistöðu gegn Atalanta en ég skrifa það nú frekar á þreytu og meiðsli en eitthvað annað).

  (more…)

  [...]
 • Liverpool 0 – 2 Atalanta

  Það er fræg sagan af smiðnum sem hafði átt sama hamarinn allan sinn starfsferil. Hann hafði bara tvisvar skipt um haus á honum, og fimm sinnum um skaft.

  Það kom í ljós í kvöld að ef maður skiptir út 7-8 af besta byrjunarliðinu, þá endar maður með allt annað lið (og allt annan hamar). Ef við gerum ráð fyrir að besta byrjunarlið Liverpool líti svona út (4-3-3): Alisson – Trent – Gomez – Virgil – Andy – Fabinho – Thiago – Henderson – Salah – Firmino – Mané, og mögulega mætti svissa yfir í 4-2-3-1 og setja þá Jota inn fyrir t.d. Thiago – þá er staðan sú að það voru nákvæmlega 3 leikmenn úr besta byrjunarliði Liverpool í liðinu sem hóf leik í kvöld: Alisson, Mané og Salah (mögulega Gini sömuleiðis). Mané fann sig alls ekki en fékk þó að klára leikinn, annað en Salah sem var tekinn af velli eftir klukkutíma. Kannski var hann ekki kominn á fullt eftir Covid, hvað veit maður.

  Í ljósi þessa þarf kannski ekki að koma á óvart að Liverpool átti varla skot að marki í fyrri hálfleik. Jú Salah fékk nokkuð gott færi undir lok leiksins en skaut yfir. Annars lá Liverpool til baka og Atalanta pressuðu framarlega þegar þeir misstu boltann. Í stuttu máli var himinn og haf á milli þessa hálfleiks og fyrri hálfleiks um helgina gegn Leicester. Miðjan var afskaplega bitlaus, kannski voru þeir svona mikið að passa að verja öftustu línuna, sem var jú ákaflega óreynd. Af ungu strákunum þremur var Rhys líklega sýnu öflugastur. Ég sé á umræðunni að Neco fær ekki góða dóma fyrir sinn leik en undirritaður er ekki alveg sammála því. Við verðum að taka með í reikninginn að þetta er 19 ára pjakkur sem var fyrst minnst á í tengslum við aðallið Liverpool fyrir rétt rúmu ári síðan, og á helling eftir ólært. Hann er líka að stíga inn í stöðu sem hefur verið fyllt af einum besta hægri bakverði veraldar. Ekki er Kostas Tsimikas öfundsverðari, þurfandi að feta í fótspor á einum besta vinstri bakverði veraldar.

  Við erum aðeins búin að minnast á frammistöðu Mané og Salah, en á milli þeirra spilaði Divock Origi og átti hann einn daprasta dag sem framherji Liverpool hefur átt í lengri tíma. Lítil pressa, hélt bolta illa, ónákvæmar sendingar. Reyndar átti það við um megnið af Liverpool, það voru líklega komnar fleiri misheppnaðar sendingar eftir 20 mínútur heldur en í öllum Leicester leiknum.

  Líklega hefði Klopp átt að vera búinn að gera skiptingu strax í hálfleik, þá a.m.k. að skipta Origi út, og hugsanlega einhverjum af miðjunni. En það var svosem nokkuð fyrirséð að fyrsta skipting kom á 60. mínútu, og var ferföld: Bobby, Fab, Robbo og Jota komu inná fyrir Salah, Gini, Kostas og Origi.

  Því miður náðu Atalanta að skora rétt áður en skiptingin kom. Svosem ekki gegn gangi leiksins. En til að bæta gráu ofan á svart skoruðu þeir svo aftur 4 mínútum síðar. Í báðum tilfellum hefði vel verið hægt að gera betur í varnarleiknum, líklega mun Rhys bölva í koddann í kvöld að hafa ekki dekkað betur manninn sem var skyndilega aleinn á markteig í seinna markinu. Fyrir utan þetta atriði má hann samt vera bara nokkuð sáttur með sína frammistöðu.

  Liverpool sótti svo talsvert eftir þessi tvö mörk, og voru komnir í 4-2-3-1 undir lokin þegar Minamino kom inná fyrir Matip, Fab fór í miðvörðinn og Milner og Curtis sáu um miðsvæðið. En það kom í raun aldrei neitt gott færi sem liðið hefði átt að skora úr. Mané kláraði leikinn, en hefði klárlega haft gott af því að vera skipt útaf. Það virtist líka oft vera þannig að varnarmenn Atalanta hefðu skotleyfi á hann, oft sem maður hrópaði “af hverju var ekki dæmt á þetta?!??!” þegar var ýtt í bakið á honum og boltinn tapaðist. Almennt má reyndar segja að dómari leiksins hafi verið of mistækur, hann virtist ætla að leyfa leiknum að rúlla mjög mikið, en sleppti fyrir vikið fullt af brotum sem hefði með réttu átt að dæma á.

  Hvað um það, lokatölur urðu 0-2, svo ekki náðu okkar menn að tryggja farseðilinn í 16. liða úrslitin í kvöld.

  Áður en við sökkvum í þunglyndi yfir úrslitunum, þá er ágætt að hafa það hugfast að það var virkilega nauðsynlegt að rótera. Það eru 3 miðjumenn heilir fyrir utan Fab sem þarf að spila miðvörð, og ekki hægt að spila Milner í tveim stöðum á sama tíma (a.m.k. ekki ennþá, vísindamenn eru að vinna í því). Voru Neco og Kostas að sýna þannig frammistöðu að þeir geri með henni tilkall til byrjunarliðsstöðu? Nei, Trent og Robbo eru ennþá ljósárum á undan. Þetta eru leikmenn sem þurfa á reynslunni að halda, og það var aðeins lagt inn á reynslubankann hjá þeim í kvöld. Er Rhys 40 milljón sterlingspunda miðvörður með 8 ára reynslu á bakinu? Nei, hann var að koma inn í aðalliðshópinn úr U23 núna í haust, en þetta er hellings efni og er nú þegar að létta aðeins áhyggjurnar út af fjarveru VVD og Gomez. Er Curtis næsti Gerrard? Líklegast ekki, hann spilaði vel um helgina og var ekki slæmur í dag en ekki heldur eitthvað frábær. Allir þessir ungu strákar þurfa að fá svigrúm til að bæta sinn leik, og nýta reynsluna af leikjum eins og þessum, án þess að vera teknir af lífi í umræðunni.

  Svo má alveg hafa í huga að Atalanta eru með fantagott lið, og voru komnir upp við vegg í þessum riðli. Þeir einfaldlega þurftu að vinna.

  Besta/versta frammistaðan

  Ég veit ekki hvort það sé hægt að tala um bestu frammistöðu einhvers hjá Liverpool í þessum leik, svo við sleppum því. Nafnbótin fyrir verstu frammistöðuna fer á tvo staði: Divock Origi gerði fátt í þessum leik til að snúa því áliti margra að hans tími hjá Liverpool sé liðinn. Eins var dómari leiksins ekki með nægilega góð tök á leiknum, og ekki nægilegt samræmi í dómgæslu. Skipti hans frammistaða sköpum í leiknum? Alls ekki. Lið sem nær varla skoti á mark getur ekki ætlast til þess að vinna leikinn. En maður reiknar með ákveðnum gæðastandard í dómgæslu í Meistaradeildinni.

  Hvað er framundan

  Næst er það hádegisleikur á laugardaginn. Jú mikið rétt, auðvitað þurfti að setja leik Liverpool og Brighton á laugardagshádegið, sirka korteri eftir að Klopp var búinn að kvarta yfir því þegar það gerist hjá liðum sem eru að spila í Meistaradeildinni/Evrópudeildinni á miðvikudagskvöldi. Meiri snillingarnir.

  Það að þessi leikur hafi tapast er engin katastrófa, en þá verður líka að vinna a.m.k. annan af síðustu tveim leikjunum. Það hefði verið rosalega gott að vinna og geta spilað C-liðinu í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum, en hei, Liverpool fer einfaldlega aldrei auðveldu leiðina. Við eigum að vera búin að læra það.

  Það sem er mun mikilvægara er að vinna leikinn á laugardaginn. Klopp þurfti klárlega að rótera til að standa ekki uppi með örþreytt lið í þeim leik, og t.d. hefði verið gott að ná að hvíla Milner og Mané meira, en það var bara ekki hægt.

  Nú er bara að krossa fingur og vona að einhver af Hendo, Thiago, Shaq, Ox eða hinum verði leikfærir og í formi til að spila gegn Brighton.

  Semsagt, Brighton á laugardaginn (á útivelli), Ajax á þriðjudaginn (á heimavelli). Það verður eitthvað.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close