Hvaða áhrif hefur undirritun Brewster á sumargluggann?

Mögulega erum við að kynnast Jurgen Klopp fyrir alvöru núna í sumar, hann hefur ítrekað sagt að hann vilji mun frekar þróa ungan leikmann eftir sínu höfði heldur en að kaupa þekktari leikmann. Ekki bara til að spara pening heldur til að bæta liðið. Þannig vann hann hjá Mainz og hjá Dortmund eru mörg dæmi um mjög unga og óþekkta leikmenn sem fengu gríðarlega stórt tækifæri, oft á kostnað mun reyndari og þekktari leikmanna.

Trent Alexander-Arnold og Joe Gomez fengu sem dæmi sénsinn fyrir síðasta tímabil þrátt fyrir að vitað væri að Clyne yrði lítið með. Skilaboðin til Brewster í sumar hafa sterklega gefið til kynna að honum er ætlað miklu stærra hlutverk næsta vetur en hann hefur fengið hingað til og það að hann skrifi undir þýðir einfaldlega að ekki verður keyptur annar hreinræktnaður sóknarmaður. Þar erum við að meina Timo Werner eða álíka kanóna af sóknarmanni.

Þetta er mjög áhugavert í ljósi þess að Brewster er aðeins 18 ára gamall (fæddur 2000) og hefur ekki spilað mínútu af alvöru fótbolta fyrir Liverpool. Hann er hinsvegar einn allra efnilegasti leikmaður í heiminum í dag, mun meira en við gerum okkur líklega grein fyrir. Ekki það að vanti efnilega leikmenn hjá Liverpool en Brewster hefur það umfram flesta að hafa verið markahæstur á HM U17 ára (2017) þar sem hann skoraði þrennu í bæði 8-liða og undanúrslitum áður en hann skoraði eitt mark í úrslitaleiknum. Hann var auk þess valinn þriðji besti leikmaður mótsins.

Hann var í kjölfarið tekinn í U23 ára liðið hjá Liverpool og kom að 12 mörkum í 11 leikjum á síðasta tímabili og sex mörkum í átta leikjum 2016/17 aðeins 16 ára gamall. Líklega væri hann búinn að fá einhverjar mínútur í aðalliði Liverpool nú þegar en hann bæði meiddist illa skömmu eftir áramót (og er enn meiddur) og Liverpool var auðvitað í það harðri keppni á tveimur vígstöðum að ekki var hægt að gefa ungum mönnum margar mínútur.

Brewster er vel þekktur meðal þeirra sem fylgjast með yngriflokkum Liverpool en ekkert í líkingu við t.d. hvernig látið var með Owen og Fowler áður en þeir sprungu út, já eða bara Harry Wilson og Ben Woodburn. Líklegasta skýringin er sú að hann kom ekki til Liverpool fyrr en hann var 15 ára. Hann hefur hinsvegar verið eftirsóttur af stóru liðunum síðan hann var 7 ára. Hann kemur til Liverpool á sama aldri og t.d. Raheem Sterling, Suso og Jordon Ibe komu til félagsins.

Þegar hann skrifaði undir hjá Liverpool 15 ára var ekki farið leynt með það að ástæðan væri vegna þess að forsvarsmenn hans töldu meiri líkur á að hann fengi fyrr sénsinn hjá Liverpool (og Klopp) heldur en hjá Chelsea sem vildi sannarlega halda honum áfram. Hann er uppalin hjá Chelsea þar sem hann var undir leiðsögn Michael Beale til 14 ára aldurs og var það helst hann sem ráðlagði Liverpool að semja við hann og um leið sannfærði Brewster um að koma til Liverpool.

Metnaðurinn hjá þessum strák leynir sér ekki og var hann tilbúinn í sumar að fara til Þýskalands til að fá spilatíma líkt og jafnaldri hans og vinur Jadon Sancho gerði er hann fór frá Man City til Dortmund. Úr því að Klopp náði að sannfæra hann um að skrifa undir nýjan samning við Liverpool er ljóst að hann hefur lofað honum stærra hlutverki. Nú er bara að sjá hvernig hann stendur undir því.
Continue reading

HM truflar Liverpool lítið

Liverpool fór inn í síðasta tímabil með allt of lítinn hóp, enska deildin er sú erfiðasta í heimi og liðið fór í ofanálag alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar þar sem leikmenn liðsins gáfu gjörsamlega allt á leiðinni, það stóðu nánast bara ellefu heilir eftir fyrir síðasta leik.

Stórmót eins og HM strax í kjölfarið er því ekkert það besta upp á undirbúning fyrir næsta tímabil enda þyrftu okkar menn helst að fá góða hvíld í sumar og fullt undirbúningstímabil. Það er augljóst að undirbúningstímabilið er gríðarlega mikilvægt í Kloppfótbolta. Það er því nokkuð ánægulegt að skoða hópinn hjá Liverpool út frá því hverjir fóru á HM og hverjir ættu að vera klárir strax á fyrstu æfingu í sumar.
Continue reading

Leikjaplan og miðar á leiki

Þá er það komið út, leikjaplanið í vetur.

Það er að finna hér í fyrstu útgáfu en auðvitað á eftir að færa til leiki vegna sjónvarpsútsendinga og þátttöku í Meistaradeildinni.

Þetta er alltaf skemmtilegur dagur, West Ham koma á Anfield í fyrsta leikinn, fyrsti útileikurinn er á Selhurst og síðasti leikur heima við Úlfana. Við verðum vígslulið nýs White Hart Lane og spilum geggjaða heimaleiki í desember.

Samstarf við Norwegian Sports Travel

Nú á dögunum var gengið frá því að ferðaskrifstofan Norwegian Sports Travel mun geta aflað lesendum kop.is opinbera miða á alla leiki Liverpool á Anfield í vetur og hóteli í tengslum við leikina. Við munum fljótlega búa til flýtihnapp hér á síðuna sem flytur lesendur yfir á þeirra síðu en þangað til er hægt að smella á þennan hlekk hér og hann mun flytja ykkur yfir á bókunarsíðuna.

Allir deildarleikir tímabilsins eru komnir í sölu hjá þeim frá og með deginum í dag. Nú um helgina munum við láta vita af þeim leikjum sem munu verða fyrir valinu sem „Kop.is-ferðir“ með því prógrammi sem þar hefur fylgt undanfarin ár og þá verður líka komin leiðbeiningasíða um hvernig fara á um bókunarvef þeirra.

Athugið að það er tilboð hjá þeim á fyrsta leik tímabilsins við West Ham fyrir þá fyrstu sem bóka þar

Mig langar þó sérstaklega að benda á að fyrir fyrstu kaup á síðunni þarf að skrá sig inn (register) með helstu upplýsingum. Til að fara framhjá kvöð þeirra norsku um að fljúga frá Osló og fá Kop-afslátt þá þarf að slá inn afsláttarkóðann „kopis“ á fyrsta skrefi lokagreiðslunnar (ekki gæsalappir).

Hér er um opinberan söluaðila að ræða, miðar eru allt e-miðar sem eru sendir í tölvupósti til hvers kaupanda strax eftir kaup og með aðgengi að Reds Bar frá 3 klukkutímum fyrir leik og 1 klukkutíma að leik loknum, sæti í Kenny Dalglish stand. Tvær nætur á Premier Inn eru innifaldar og rúta til og frá leikstað, hins vegar þarf að kaupa flug sér og það að koma sér til hótels í Liverpool er á ábyrgð hvers og eins!

Að öðru leyti vísa ég bara í það að fólk smelli á hlekkinn og fari að skipuleggja ferð á völl allra valla. Þegar að leikir í Meistaradeild og bikarkeppnum eru klárir koma þeir líka inn á síðu Norðmannanna.

Fekir vonbrigði sumarsins?

Það er líklega ekkert meira pirrandi þegar kemur að leikmannaglugganum en þegar stóru leikmannakaup sumarsins falla á læknisskoðun. Fréttaflutningur af kaupum Liverpool á Nabil Fekir hafa verið alveg einstaklega ruglandi og pirrandi núna um helgina en niðurstaðan virðist vera sú að hann hafi fallið á læknisskoðun. Ef það er raunin er að sjálfsögðu lítið við því að gera, þetta er einmitt ástæðan fyrir því að leikmenn fara í ítarlega læknisskoðun.

Það virðast vera einhver vonbrigði á leikmannamarkaðnum á hverju sumri þegar kemur að Liverpool og ef að Fekir féll á læknisskoðun eru það klárlega vonbrigði. Hversu mikil vonbrigði þetta eru fer eftir því hvernig Liverpool vinnur úr þessu. Það var svosem ljóst fyrir en núna fer ekkert á milli mála að Klopp vill fá leikmann í þær stöður sem Fekir leysir.

Síðasta sumar voru það Van Dijk og Keita sem klikkuðu. Keita var keyptur með ársfyrirvara sem var svosem betra en ekkert á meðan við fórum miðvarðarlaus og í óvissu inn í tímabilið eftir ótrúlegt fíaskó í kringum Van Dijk.

Fekir hefur ekki verið mikið meiddur undanfarin ár og þessir 10 leikir sem hann hefur misst af hafa ekki verið vegna hnémeiðsla. Hann hinsvegar missti af tímabilinu fyrir þremur árum eftir að hafa slitið krossband.

Þetta minnir alveg rosalega á Loic Remy blessaðan sem ég var búinn að bjóða velkominn fyrir nokkrum árum en hann féll á læknisskoðun. Væri fróðlegt að sjá hversu mörg af þessum stóru leikmannakaupum klikka vegna þess að leikmenn falla á læknisskoðun?


Fekir er sá eini sem er staðfest að Liverpool er að reyna að kaupa og eftir Fabinho er nokkuð ljóst að menn eru fullkomlega að giska og geta í eyðurnar með rest. Sá sem hefur verið hvað háværastur undanfarið er Xherdan Shaqiri sem ku vera falur frá Stoke fyrir 12m sem er ekkert verð fyrir leikmann í þeim gæðaflokki. Hann er 26 ára og átti auðvitað aldrei að dúkka upp í Stoke City. Hann væri líklega ekki hugsaður sem byrjunarliðsmaður svona til að byrja með en klárlega kaup sem færu í svipaðan flokk og Andy Robertson og Ox-Chamberlain. Ef einhver getur unnið með þá hæfileika sem Xherdan Shaqiri býr yfir er það stjóri Liverpool. Tölfræðin sýnir líka að hann er betri sóknarmaður með betri mönnum í kringum sig. Ótrúleg staðreynd auðvitað að sóknarmaður komi betur út hjá Bayern en Stoke :)

Eitthvað hefur verið talað um að Lanzini hafi verið númer tvö á listanum á eftir Fekir, glætan samt að nokkur maður hafi hugmynd um það og því síður að Liverpool hafi lekið því. En hvað sem því líður þá sleit Lanzini krossband núna í vikunni og því klárlega ekki að fara neitt í sumar. Hversu rosalega hefði Liverpool samt toppað sig ef Lanzini hefði komið í stað Fekir og meiðst í sömu vikunni?

Sá sem sér um að búa til slúður þegar kemur að markmönnum er svo klárlega geðklofi því eina stundina er það Allison frá Roma eða jafnvel Oblak frá A.Madrid en svo verður til alveg nýr karakter sem fer að orða okkur við Butland, Pope eða McCarthy. Stundum er þetta sett saman í sömu slúður fréttinni.

Kaup Liverpool á Fabinho komu fullkomlega upp úr þurru og sýndu okkur að blaðamenn hafa engan aðgang að Liverpool þegar kemur að leikmannakaupum, sérstaklega ekki enskir blaðamenn. Þeir fá bara það sem klúbburinn vill að leki. Þetta var svona líka í fyrra og jafnan samlandar þeirra leikmanna sem Liverpool er orðað við sem vita meira. Því ættum við að taka öllum fréttum með verulegum fyrirvara og getum alveg verið róleg enn sem komið er. Keita og Fabinho einir og sér stökkbreyta miðjunni hjá okkur strax. Van Dijk hefur svo aðeins verið leikmaður Liverpool í 6 mánuði, dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Fréttir af Nabil Fekir eru síðan svo óljósar ennþá að það er ekkert víst að þessi díll sé dauður, Lyon kom t.a.m. með yfirlýsingu á sinni heimasíðu aðeins til að taka hana út aftur. Vonandi féll þetta bara á tíma fyrir HM og verður klárað eftir að Frakkar vinna HM í sumar.

SIR Kenny Dalglish

Þær ánægjulegu fréttir bárust í gær að breska krúnan hefði tekið ákvörðun um að aðla King Kenny Dalglish og verður það staðfest nú á næstu vikum þegar drottningin kallar hann til sín, dúkkar sverði á axlir og staðfestir riddaratign hans.

Við gerum okkur held ég ekki grein fyrir því hversu stórt er litið á þessa orðu. Með virðingu fyrir okkar Fálkaorðu þá erum við færri um þá hitu og henni fylgir ekki sú tign í hjörtum fólks og er í Bretlandi. Dalglish-nafnið er nú komið í breska annála sem ná langt út fyrir íþróttakreðsuna og verður þar löngu eftir að við höfum hætt að skrifa inn á síðuna.

Dalglish sjálfur er hógværðin uppmáluð að venju og bendir á aðra íþróttamenn og stjórnendur sem hefðu verið a.m.k. jafn verðir þessa titils en um leið greinum við auðvitað þann heiður sem hann upplifir að fá titilinn.

Ég held að enginn núlifandi vera sé meiri táknmynd Liverpool FC en King Kenny Dalglish. Hann fékk það stóra hlutverk að fylgja í skó Kevin Keegan og það segir eiginlega allt bara að ári síðar voru bara allir búnir að gleyma þeim geggjaða hrokkinhærða framherja og frá fyrsta degi varð KD7 elskaður í Liverpool. Við sem munum eftir frammistöðum hans getum ornað okkur við gríðarmargar minningar um sigrana hans, mín sterkasta var FA Cup úrslitaleikurinn 1986 þegar hann fór fyrir liðinu sínu sem framkvæmdastjóri og tryggði einu „The double“ í sögu félagsins. En vá hvað margar aðrar eru til.

Sem stjóri bjó hann til lið sem var þess tíma langskemmtilegasta „pass-and-move“ lið í Evrópu en vegna bannsins á ensk lið náðu þeir ekki nema í heimatitla. Dagurinn sem hann hætti var dimmur en sá þegar hann kom til baka bjartur. Ég grenjaði báða dagana, af ólíkum ástæðum.

Fyrir utan fótboltann hefur karlinn heldur betur tekið til sín í samfélagsmálum. Dagarnir í kringum Hillsboroughslysið voru heldur betur prófraun fyrir félagið okkar og þar fór King Kenny fremstur í flokki, fór á allar jarðarfarir sem hann mögulega gat ásamt magnaðri eiginkonu sinni Marinu og kom fram fyrir hönd félagsins þaðan frá á ótal stöðum þegar farið var yfir málið.

Hann er fæddur sigurvegari, náði árangri með Blackburn Rovers og Celtic í stjórastólnum og síðasti bikar sem settur hefur verið í geymslu kom undir hans stjórn, deildarbikarinn 2012. Þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið að halda áfram með liðið og röng ráðning hafi komið í hans kjölfar þá sáu FSG til þess að hann yrði áfram á stalli klúbbsins okkar og á liðnu leiktímabili var nafn hans sett á næststærstu stúkuna á Anfield, sem var virðingarvottur við hæfi.

Ég mun ekkert fella tár þegar orðin „Arise Sir Kenny Dalglish“ verða sett í loftið en það er virkilega ánægjulegt að King Kenny sé settur á þann stall sem honum ber, á meðal breska aðalsins. Þar eiga Kóngar heima!!!