íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Dregið í 16-liða úrslitum

  UPPFÆRT: það verða Bayern München sem verða andstæðingar Liverpool í 16 liða úrslitunum. Fyrri leikurinn á Anfield í febrúar, síðari leikurinn í Þýskalandi í mars.


  Umræða um United leikinn er sprellifandi í leikskýrslu Hannesar og svei mér þá ef þetta er ekki besti mánudagur ársins. Það er samt jafnan nóg að gera hjá Liverpool á þessum árstíma og næsta verk er að finna út hverjum við mætum í næstu umferð Meistaradeildarinnar. Útsending frá drættinum í Sviss hefst um 11:00 og ætti að ljúka seinni partinn í þessari viku. Við uppfærum þessa færslu í dag en byrjum á því að kanna hvaða mótherja þið mynduð helst vilja fá?

  Hvaða lið viltu fá í 16-liða úrslitum?

  Skoða niðurstöður.

  Loading ... Loading ...

  Er það tækifærið á að hefna ófarana gegn Real Madríd og meðferðarinnar sem leikmenn liðsins fengu í þeim leik?
  Viljum við fá Suarez og Coutinho á Anfield Evrópukvöld?
  Viljum við fara aftur til Porto rétt eins og á sama stigi keppninnar á síðasta tímabili?
  Viljum við gera Klopp það að mæta Dortmund aftur?
  Er kominn tími á FC Bayern lið sem virðist vera komið á tíma fyrir endurnýjun?
  Hvað af þessu viljum við því að Juventus ætti ekki einu sinni að vera í boði, þann leik viljum við helst alls ekki af augljósum ástæðum (utanvallar).

 • Liverpool 3-1 Manchester United

  1-0 Sadio Mané (24. mínútu)

  1-1 Jesse Lingard (33. mínútu)

  2-1 Xherdan Shaqiri (73. mínútu)

  3-1 Xherdan Shaqiri (80. mínútu)

  Það fór um mann ónotaleg tilfinning þegar Manchester United kom boltanum í netið eftir aðeins fjórar mínútur þegar Ashley Young tók aukaspyrnu inn á teiginn og Lukaku reyndi að spyrna í boltan sem truflaði Alison og boltinn endaði í fjærhorninu en markið réttilega dæmt af vegna rangstöðu þar sem Lukaku var langt fyrir innan þegar spyrnan var tekinn. Í kjölfarið tók Liverpool öll völdin á vellinum og var spurningin í raun aðeins hvenær kemur markið. Eftir 15 mínútna leik poppaði upp sú tölfræði að Lukaku væri búinn að ná að snerta boltan þrisvar í leiknum, þar af tvisvar innan eigin vítateigs og var miðað við snertingar aftasti leikmaður United manna.

  Markið kom svo loks á 24.mínútu þegar Fabinho átti frábæra vippu inn á teig United og Sadio Mané elti tók boltan á kassan og skoraði svo framhjá De Gea í markinu en stór spurningamerki við varnarleik United manna og þar sérstaklega Young sem elti ekki Mané inn á teiginn.

  Liverpool hélt áfram að vera betri aðilinn og hefði Dejan Lovren átt að gera betur þegar hann setti boltan yfir eftir aukaspyrnu frá Firmino nokkrum mínútum seinna en þvert gegn gangi leiksins náði United að jafna á 33. mínútu þegar Lukaku náði að komast framfyrir Lovren úti hægra megin og kom boltanum fyrir, leit út fyrir að Alisson væri með boltan en virðist setja hnéið í boltan þegar hann er að draga hann til sín sem verður til þess að boltinn skoppar út í teigin þar sem Jesse Lingard vippaði honum yfir Alisson og jafnaði leikinn.

  Eftir jöfnunarmarkið komust United menn betur inn í leikinn þó Liverpool hafi alltaf verið með yfirhöndina, einhverjir vildu sjá rautt á Lukaku á 40. mínútu þegar hann renndi sér frekar harkalega í Sadio Mané eftir að hafa misst stjórn á boltanum en náði að komast í boltan first og má sjá ákveðin líkindi við gula spjaldið sem hann fékk og á gula spjaldinu sem Van Dijk fékk gegn Napoli.

  Í hálfleik tók Mourinho Diego Dalot útaf og setti Fellaini inn í hans stað og virtist breyta yfir í 4-3-3 til að reyna ná meiri stjórn á leiknum. Það tókst þó ekki og hélt Liverpool áfram skotæfingu sinni í seinni hálfleik. Á 52. mínútu náði Firmino að rífa sig lausan frá varnarmönnum United og átti skot sem De Gea varði og Keita náði frákastinu en Ashley Young náði að henda sér fyrir skot hans.

  Á 70. mínútu kom Shaqiri inn fyrir Naby Keita en það tók hann aðeins þrjár mínútur að skora. Mané lék á Herrara og tók á rás inn í teig eftir endalínunni og kom boltanum á markið en De Gea varði skot hans út í teiginn þar sem Shaqiri hamraði boltanum í Young, þaðan í þverslánna og svo inn fyrir marklínuna og verðskulduð forusta Liverpool loks kominn aftur.

  Á 80. mínútu náði Shaqiri að tvöfalda markafjölda sinn í leiknum þegar hann fékk boltan frá Salah við markteigin og skot hans fór síðan af Bailly og framhjá De Gea og sigurinn innsiglaður!

  Bestu menn Liverpool

  Það er erfitt að horfa framhjá Xherdan Shaqiri í dag sem kom inn af bekknum og tryggði okkur fyrsta deildarsigurinn gegn Manchester United síðan í mars 2014. Af þeim sem byrjuðu leikinn ber helst að nefna Fabinho sem var hrikalega flottur inn á miðjunni í dag og átti frábæra stoðsendingu í fyrsta markinu og Sadio Mané sem bæði skorar og býr til færið fyrir fyrra mark Shaqiri í dag. Síðan var ég ánægður með Nathaniel Clyne sem átti kannski engan stórleik í dag en hefur ekki verið nálægt liðinu í langan tíma og mikið meiddur og hann fær því hrós frá mér fyrir að koma inn í leik gegn erkifjendunum og standa sig með prýði.

  Erfiður dagur

  Það var vont að sjá Alisson gera svona mistök í svona high profile leik en hann hefur samt þessu áru yfir sér að þrátt fyrir þetta klúður hafði ég engar áhyggjur restina af leiknum að hann myndi láta annan bolta framhjá sér. Vonandi sjáum við meira Napoli og minna að þessu.

   

  Umræðan

  Skotæfing Liverpool á Anfield í dag – Var að renna yfir þetta og sýnist að metið í deildinni yfir flest skot í einum leik séu 38 skot og er í eigu Manchester United þegar þeir gerðu 0-0 jafntefli við Burnley fyrir tveimur árum. Þeir reyndu allt til að losna við það met í dag því okkar menn fengu trek í trek svæði til að fara í skot, þó stundum hefði verið skynsamlegra að reyna halda spilinu gangandi, og við enduðum leikinn með 36 skot.

  Fabinho er klár – Það voru mjög margir sem tóku aðeins of hart á Fabinho eftir slakan leik gegn Arsenal og voru sérstaklega stuðningsmenn annarra liða á því að þarna væri flopp sumarsins á ferðinni en hann hefur afsannað það undanfarið!

  Meistarabreidd – Í dag var það Shaqiri, gegn Everton var það Origi, gegn Chelsea var það Sturridge. Bekkurinn okkar er að skila stigum í hús og það mun muna mikið um það þegar talið verður í pokana í lok tímabils.

  Helst er það þó að með þessum sigri erum við enn á toppi deildarinnar og spilum á undan City um næstu helgi og getum komist í fjögurra stiga forrustu og sett alvöru pressu á þá.

 • Byrjunarliðið gegn Man Utd

  Þá er komið að stórleik helgarinnar og eftir sigur Manchester í bláliðaslag Manchester gegn Merseyside er ljóst að við þurfum að verja heiður borgarinnar til að halda toppsætinu. Liðinu er svona stillt upp í dag.

  Alisson

  Clyne – Lovren – Virgil – Robertson

  Wijnaldum – Fabinho – Keita

  Salah – Firmino – Mané

  Bekkur: Mignolet, Camacho, Moreno, Henderson, Lallana, Shaqiri og Sturridge

  Það var alltaf ljóst að það yrðu breytingar á varnarlínunni með öll þau meiðsli sem dundu á liðinu í vikunni en ekki bjóst ég við að sjá Clyne sem hefur verið týndur og tröllum gefinn undanfarið og vonandi er hann klár í þessi átök. Mourinho stillir sínu liði svona upp

  De Gea

  Dalot – Smalling – Lindelöf – Darmian

  Herrara – Matic – Lingard

  Young – Lukaku – Rashford

  Þó þetta gæti einnig verið fimm manna varnar lína með Young í vinstri og Darmian sem hluti af miðvörðunum. Á pappír eitt slakasta United lið sem ég hef séð mæta á Anfield og vonandi verður okkar skemmtun í dag í samræmi við það!

  YNWA

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


 • Kvennaliðið fær Everton í heimsókn

  Nú fer að styttast í að leikurinn gegn United fari að hefjast, en í millitíðinni er kvennaliðið okkar að spila á móti Everton í Continental Cup, síðasti leikur stelpnanna á þessu almanaksári.

  Svona er liðinu stillt upp:

  Kitching

  S.Murray – Bradley-Auckland – Matthews – Robe

  Fahey – Coombs – Roberts

  Clarke – Sweetman-Kirk – Daniels

  Bekkur: Preuss, C.Murray, Thomas, Rodgers

  Leikurinn hófst núna kl. 12, og það eru strax komin 4 mörk, því miður 3 frá Everton. Niam Fahey með mark okkar, og við vonum að þær nái að setja fleiri.

  Við uppfærum svo færsluna á eftir með úrslitum leiksins.


  Mörkin í leiknum urðu ekki fleiri, svo leikurinn fór því 1-3 fyrir Everton. Aftur svekkjandi úrslit fyrir Vicky Jepson og stelpurnar hennar, og nú er bara að vona að liðið nái flugi á nýju ári.

 • Rauðu djöflarnir kíkja í heimsókn

  Á sunnudaginn kl. 16 mun bresta á með einni af alræmdustu orrustum ensku knattspyrnunnar, þegar Rauði herinn fær Rauðu djöflana í heimsókn. Og nú ber svo við að í fyrsta skipti í …. talsverðan tíma ber þetta upp á þann tímapunkt að okkar menn eru einir í efsta sæti deildarinnar þegar leikvikan hefst. Við getum auðvitað vonað að Gylfi og félagar í Everton sjái til þess að sú staða verði ennþá uppi á pallborðinu þegar leikur hefst, en „don’t hold your breath“ eins og skáldið sagði.

  En hvenær gerðist það síðast að Liverpool var í efsta sæti deildarinnar í byrjun leikviku?

  Það myndi hafa verið í byrjun 12. leikviku tímabilið 2016-2017, en þegar sú leikvika hófst voru okkar menn með 26 stig, á meðan Chelsea var í öðru sæti deildarinnar með 25 stig. Síðasti leikur á undan var 6-1 sigur gegn Watford, og með því hirti Liverpool toppsætið af Manchester City. Þetta var 6. nóvember 2016. Eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á, þá féll Liverpool af toppnum í næstu umferð (því annars hefði þetta ekki verið síðasta skiptið þegar liðið var á toppnum!). Reyndar kom fjögurra leikja hrina eftir Watford leikinn þar sem aðeins einn leikur vannst (þar á meðal alræmt 4-3 tap fyrir Bournemouth), síðan kláraði liðið árið með stæl, endaði á því að vinna City 1-0 á heimavelli, og lauk árinu í 2. sæti. Svo tók við hræðilegt tímabil þar sem liðið vann ekki leik í rúman mánuð, eða þar til 11. febrúar þegar það tókst loksins að innbyrða sigur, og þá gegn Spurs, en var þá hrunið niður í 4. sæti deildarinnar og sá ekki til sólar í deildinni það sem eftir lifði tímabili (þetta var semsagt tímabilið þar sem Klopp lærði að það verður að rótera hópnum til að lifa þessa deild af). En Chelsea létu forystuna hins vegar aldrei af hendi eftir 12. leikviku, og stóðu uppi með pálmann í höndunum um vorið. Næsta tímabil ætti svo að vera okkur í fersku minni, þar sem City einfaldlega hirtu efsta sætið í 5. leikviku, og litu ekki til baka það sem eftir lifði tímabils. Fyrstu 4 umferðirnar var það hins vegar hitt liðið frá Manchester sem var á toppnum, og það er því síðast þá sem United menn vermdu það eftirsótta sæti.

  Hvenær ætli Liverpool hafi þá síðast mætt United, og setið í toppsætinu eftir leik? Það myndi væntanlega hafa verið haustið 2013, þegar Daniel Sturridge sá til þess að við hirtum 1-0 sigur, þriðja leikinn í röð, með marki á 4. mínútu eftir skalla frá Daniel Agger.

  Og hvenær skyldi það svo hafa gerst síðast að Liverpool mætir United mönnum á Anfield, sitjandi í efsta sætinu í upphafi leikviku?

  Jú það ku hafa verið þann 16. september árið 1990, þegar okkar menn unnu United 4-0, með þrennu frá Peter Beardsley, auk þess sem John Barnes setti eitt til viðbótar.

  Það er því löngu orðið tímabært að endurtaka leikinn.

  Knattspyrnustjórar liðanna í leiknum 1990 voru þeir Kenny Dalglish og Alex Ferguson. Núna á sunnudaginn verða það þeir Jürgen Klopp og Jose Mourinho sem mætast. Hvernig skyldi svo hafa gengið í viðureignum þeirra síðustu árin?

  Vissulega hefur gengi Liverpool gegn United síðustu árin ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir. Klopp hefur engu að síður tekist að vinna United með Liverpool, þó ekki í deildinni. Það gerðist þann 10. mars 2016 í 16. liða úrslitum Evrópudeildarinnar, þegar United var undir stjórn Louis van Gaal.

  Þá hefur Klopp unnið Mourinho í ensku deildinni, en það gerðist síðast þegar lið Liverpool undir stjórn Klopp heimsótti Chelsea á Brúnni á fyrstu leiktíð Klopp. Það sem meira er, að þá var þetta fyrsti sigur Klopp með Liverpool í deildinni, en liðið hafði áður sigrað Bournemouth í deildarbikarnum. Klopp og Mourinho hafa svo auðvitað mæst áður á öðrum vettvangi, þ.e. þegar þeir voru hjá Real og Dortmund hér í denn.

  Nú og svo má auðvitað ekki gleyma því að það er reyndar ekki lengra síðan en í sumar að Liverpool vann United, svosem í æfingaleik á undirbúningstímabilinu, en sigur samt. Það var einmitt í þeim leik sem Shaqiri nokkur opnaði markareikning sinn hjá félaginu með þessu líka ágæta marki eftir stoðsendingu frá Woodburn.

  Svo það er ekki eins og að Klopp viti ekki hvernig eigi að sigra United eða Móra. Það er bara þetta litla smáatriði með að koma því í framkvæmd núna á sunnudaginn.

  Rauðu djöflarnir

  United menn koma inn í þennan leik eftir góðan sigur á Fulham í deildinni, en töpuðu svo klaufalega gegn Valencia í meistaradeildinni í vikunni og misstu þar með af toppsætinu í deildinni riðlinum, svona fyrst RealJuventus tóku upp á því að tapa fyrir Young Boys. #MourinhoOut vagninn er alveg ennþá á talsverðri siglingu, en það eru kannski ekki alveg jafn margir farþegar á þeim vagni eins og oft áður í haust. Það er þó ljóst að samkomulagið innan herbúða United er brothætt, enn er talað um að Mourinho og Pogba komi ekki vel saman, og talað um að það gæti hreinlega verið betra fyrir þá að sleppa honum í byrjunarliðinu. Einnig er orðrómur um að Valencia vilji fara frá liðinu núna í janúarglugganum. Það eru nokkrir leikmenn sem voru meiddir í vikunni og fóru ekki með til Spánar: Smalling, Darmian, Dalot, Sanches, Lindelöf, Martial og Shaw, en samkvæmt Móra þá eru einhverjir þeirra farnir að æfa og gætu því sést í leiknum. Annars nenni ég ekki að eyða of mikilli orku í að spá í þetta lið þeirra. Snúum okkur að lærisveinum Klopp.

  Okkar menn

  Leikurinn kemur í kjölfar þess að Liverpool er búið að tryggja sig inn í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar, sem hlýtur nú að teljast talsverður léttir fyrir alla hlutaðeigandi. Engu að síður er ekki hægt að segja að áhyggjustigið hjá Liverpool aðdáendum sé neitt sérstaklega lágt, því meiðsladraugurinn er aftur farinn að láta á sér kræla. Staðan á Gomez var auðvitað öllum kunn, en Napoli leikurinn reyndist nokkuð dýr því bæði Joel Matip og Trent Alexander-Arnold meiddust í honum, Matip verður frá fram í febrúar og Trent verður frá í þessum leik hið minnsta, vafasamt að hann nái Wolves leiknum um næstu helgi. Það er því orðið ansi fáliðað í vörninni, og þá sérstaklega í hægri bakverði. Við eigum auðvitað eitt stykki Nathaniel Clyne, en hann hefur spilað heila 3 leiki síðan í maí 2015, og það hafa satt að segja verið stór spurningamerki yfir hans ferli síðasta árið eða svo. Alls konar kjaftasögur hafa verið að ganga um ástæður þess að hann er ekki í byrjunarliðinu, og er á löngum köflum ekki einusinni á bekknum. Klopp hefur svosem nokkra möguleika í stöðunni. Hann gæti haft Milner áfram í hægri bak eins og hann var í sínum 500. leik í deildinni, nú og svo hefur Fabinho leikið í bakverði með landsliði Brasilíu og er því ekki ókunnugur þessari stöðu. Þá bíður Rafa Camacho í startholunum, en hann hefur þótt standa sig vel á síðustu mánuðum, bæði með U23 sem og á æfingum með aðalliðinu. Nú og svo til að krydda stöðuna örlítið, þá fréttist af því að unglambið Ki-Jana Hoever hefði sést á æfingu með aðalliðinu í vikunni, en þessi 16 ára pjakkur hefur víst verið að standa sig vel með yngri liðunum frá því að hann kom til Liverpool í sumar frá Ajax. Fyrst var hann settur í U18 liðið, og svo á síðustu vikum hefur hann fengið tækifæri með U23. Hann er hávaxinn og sterkbyggður, og þykir minna að mörgu leyti á Virgil van Dijk á velli. Það kæmi nú ákaflega á óvart ef annar hvor þeirra sæust í liðinu á sunnudaginn, en undirritaður yrði ekkert svakalega hissa ef nafn Camacho sæist á bekknum.

  Staðan á miðvörðunum er kannski örlítið betri, þar sem Lovren og van Dijk eru báðir leikfærir, en þó er það þannig að fyrst Gomez er ekki væntanlegur fyrr en í lok janúar, þá er ljóst að það verður erfitt að ætla að spila þeim tveim í hverjum einasta leik næsta einn og hálfa mánuðinn. Fabinho gæti alveg dottið inn í þessa stöðu, Wijnaldum hefur sömuleiðis sést þarna stöku sinnum, nú og svo erum við með nokkur unglömb í unglingaliðunum. Af þeim er Conor Masterson kannski líklegastur til að sjást á bekk á næstu vikum, en hann var einmitt þar í einum leiknum gegn City í vor þegar miðvarðarstaðan var hvað þynnst mönnuð. Þá þótti Nat Phillips standa sig vel á undirbúningstímabilinu í sumar, en hefur hins vegar verið meiddur á síðustu vikum, og hefur því lítið spilað með U23 núna í haust.

  Það er búið að gefa út „Provisional squad“ fyrir leikinn á sunnudaginn, og í þeim hóp eru Camacho, Phillips og Masterson allir nefndir, svo hver veit nema einhver þeirra sjáist á bekk á sunnudaginn.

  Af öllu framansögðu skulum við skjóta á að uppstillingin verði eftirfarandi:

  Alisson

  Milner – Lovren – Virgil – Robertson

  Wijnaldum – Henderson – Keita

  Salah – Firmino – Mané

  Bekkur: Mignolet, Moreno, Camacho, Fabinho, Shaqiri, Sturridge, Origi

  Við sófasérfræðingarnir gerum þá sjálfsögðu kröfu að lengsta taplausa byrjun Liverpool í deildinni haldi áfram. Við vitum að liðið okkar á að vera alveg nógu gott til að vinna þetta United lið, og þurfum ekki annað en að líta á mörk fengin á sig til þess, því á meðan Alisson hefur þurft að hirða tuðruna 6 sinnum úr netinu hefur De Gea þurft að gera slíkt hið sama 26 sinnum á leiktíðinni. Við vitum líka að Móra leiðist ekkert að leggja rútunni, og finnst líklega fátt skemmtilegra en að þvælast fyrir Liverpool, hvað þá að stöðva sigurgöngu. Það er því nettur skjálfti hjá undirrituðum fyrir þessum leik, en líklega þýðir ekkert annað en að treysta Klopp, sleppa efasemdunum og trúa á liðið, eða eins og Klopp orðaði það: „we need to change from doubters into believers“.

  Spáum 2-0 sigri með mörkum frá Wijnaldum og Milner úr víti.

  KOMA SVO!

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!