Latest stories

 • Liverpool – West Ham (Upphitun)

  Þá er komið að næsta verkefni, þriðji heimarleikurinn í röð hjá ríkjandi Englandsmeisturum, þegar West Ham kemur í heimsókn (laugardag kl. 17:30) áður en við förum í tvo erfiða útileiki fyrir næsta landsleikjahlé.

  Formið og sagan

  Liverpool hefur gengið nokkuð vel gegn West Ham síðustu árin og hafa til að mynda eingöngu gert eitt jafntefli en sigrað fimm sinnum í síðustu sex viðureignum og þrír sigrar í síðustu þremur heimaleikjum.

  Það þarf að leita aftur til þess tíma sem að West Ham spilaði ennþá á Upton Park til að finna síðasta tapleik okkar gegn þeim í deildinni – það var 2. Janúar 2016 en það tímabilið töpuðum við tvöfalt gegn Hömrunum, sælla minninga. Til gamans má geta þess að einungis einn leikmaður af þeim átján sem voru á leikskrá í þessu (ó)eftirminnilega tapi spilar enn með liðinu en það er Firmino. Hópurinn þann daginn sýnir okkur kannski svart á hvítu hve mikið vatn hefur runnið til sjávar á ekki lengri tíma: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Coutinho, Leiva, Can, Ibe, Benteke og Firmino hófu leikinn og bekkurinn var ekkert slor: Bogdan, Touré, Brad Smith, Randall, Lallana, Allen, Brannagan.

  (more…)

  [...]
 • Um VAR – Aðsendur pistill

  Í gær fengum við sendan þennan flotta pistil frá honum Ágúst Þór Ragnarssyni. Hann setti pistilinn svo í athugasemd við færslu en ég fékk leyfi til að henda honum inn hjá okkur.

  Ef ykkur langar að senda á okkur umræðu eða góðan pistil þá endilega hendið á maggimark14@gmail.com og hver veit hvað verður!

  Ég leyfði mér að þýða ensku punktana í pistil Ágústar.

  Vandamálið með VAR og dreifing ábyrgðar

  Margir hafa spurt sig hvað er að VAR og af hverju það virkar ekki sem skyldi.

  Nú virðast ensku dómararnir ekki hafa leyst neitt sérstaklega vel úr þessu nýja tæki sem þeim var gefið til að hafa betri yfirsýn.

  En hvað veldur? Vandamálið er að VAR kerfið eins og það er uppsett í Bretlandi er í eðli sínu mein gallað og kallar fram þekkt sálfræðilegt vandamál sem nefnist dreifing ábyrgðar ,,Diffusion of responsibility“.

  Á heimasíðu Premier League eru nákvæmlega skilgreind þau atriði sem farið er eftir í framkvæmd VAR og hver vinnuregla og nálgun þeirra er í framkvæmdinni; ,,the minimum interference – maximum benefit“

  VAR verður eingöngu notað við „skýrar og augljósar villur“ eða „alvarleg mistök hjá atvikum“ í fjórum leikjabreytingum:

  – Mörk
  – Vítaspyrnudómar
  – Atvik með mögulegu beinu rauðu spjaldi
  – Rangur leikmaður brotlegur

  Á heimasíðu Premier League eru eftirfarandi grundvallarreglur við notkun á VAR settar fram:
  • Lokaákvörðunin verður alltaf tekin af dómara á vellinum.
  • VAR mun ekki ná 100 prósenta nákvæmni en mun hafa jákvæð áhrif á ákvarðanatöku og leiða til réttari og réttlátari dóma.
  • VAR mun sjálfkrafa athuga þau atriði sem koma fram í áhersluþáttunum fjórum, leikmenn þurfa ekki að biðja um eða gefa merki um það.
  • Leikmenn verða alltaf að spila þar til flauta gellur.
  • Það verður hár þröskuldur með inngripum VAR af huglægum ákvörðunum dómarans á vellium til að viðhalda hraða og styrkleika í úrvalsdeildarleikjum.
  • Raunverulegar ákvarðanir, svo sem hvort leikmaður sé á rang- eða réttstæður, kalla ekki á sjálfkrafa inngrip VAR.
  • Gult spjald verður gefið út til leikmanna sem gefa VAR merki til leikmannsins með árásargjöf.
  • Endursýning atviks í rauntíma verður upphaflega notað til að athuga atriði á ákefð. Endursýning á hægum hreyfingum verður notuð til að bera kennsl á snertipunkt.
  • VAR eru starfsmenn leikja og tilnefningar þeirra verða tilkynntar fyrir hverja leik umferð sem hluti af dómgæsluliðinu.

  Fyrirbærið dreifing ábyrgðar (diffusion of responsibility eða the bystander effect).

  Það að viðvera/nálægð annars breyti hegðun einstaklingsins þannig að þeir finna fyrir minni ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna (Bandura, 1991). Sjá einnig Kitty Genovese morðið í New York þar sem 37 vitni horfðu á morðingjan að verkum en gerðu ekkert.

  Fyrirbærið dreifing ábyrgðar (diffusion of responsibility eða the bystander effect). Er þekkt sálfræðilegt hugtak. Það að viðvera/nálægð annars breyti hegðun einstaklingsins þannig að þeir finna fyrir minn ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna (Bandura, 1991). Sjá einnig Kitty Genovese morðið í New York þar sem 37 vitni horfðu á morðingjan að verkum en gerðu ekkert.

  Tilfinningin að vera fulltrúi einhvers er að maður hafi stjórn á atburðum með eigin íhlutun. Þessi tilfinning skiptir miklu máli á samskiptum og er þar af leiðandi tengt ábyrgðartilfinningu.
  Í ritrýndri rannsókn Beyer og félaga (2017) sýndu þeir fram á að aðkoma annars fulltrúa veldur því að að ábyrgð dreifist þannig að fulltrúinn beri minni ábyrgð og veldur minni tengingu á aðgerðum fulltrúans við niðurstöðuna. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5390744/

  Það sem óneitanlega flækir þetta er að ákvarðanatakan er oft í neyðaraðstæðum s.s hættu, stressi eða menn undir pressu. Eftir því sem fleiri koma að ákvarðanatöku þeim mun minni ábyrgð finnur fulltrúinn fyrir afleiðingum ákvarðanna sinna.

  Þegar einn dómari sem ber ábyrgð á dómgæslunni er kominn með teymi í kringum sig er ábyrgðin farin að dreifast á meðal eftirtalinna fulltrúa:
  • Dómarinn (ber ábyrgð á dómgæslunni)
  • tveir línuverðir (gæta rangstöðu, línuvarsla og aðstoð við dómgæslu
  • þrír VAR dómara (ákvarðanir varðandi mark/ekki mark, víti/ekki víti, beint rautt spjald, mistök við spjöldun leikmanna)

  Vinnuregla Premier league sem segir ,,the minimum interference maximum benefit“ veldur því að VAR dómarar skerast ekki í leikinn nema nauðsyn sé.

  Vandamálið er að með því að vera með hið svokallaða silent check frá VAR dómurunum getur dómarinn treyst því að VAR sjái atvik betur en hann sjálfur. Þessi vitneskja veldur í eðli sínu dreifingu á ábyrgð. Í Bretlandi er VAR aftur á móti þannig að þeir vilja lágmarka íhlutun. Þannig að í með þessari vinnureglu mun dómarinn nánast undantekningalaust treysta meira á að VAR heldur sína eigin dómgreind þegar VAR tilkynnir ákvörðun.

  Það sem er enn alvarlegra er það að traust dómarans á VAR mun ávallt samkvæmt fræðunum slæva/minnka ábyrgð hans á ÖLLUM umdeildum atvikum leiksins sem aftur bitnar á gæðum dómgæslunnar.
  Þetta hefur margskonar eftirtaldar afleiðingar fyrir leikinn:

  • Engin ákvörðun tekin í ákveðnum aðstæðum þar sem taka þarf erfiða ákvörðun verður jafnvel enginn ákvörðun tekin því VAR vinnur skv. minimum interference og á samkvæmt reglunum ekki að fara með valdið. Dómarinn treystir á að VAR hafi með ,,silent check“ séð atvikið og tekið ákvörðun.

  • Rangur dómur dómarinn telur sig sjá atvikið en dæmir rangt. Ábyrgðin færist yfir á VAR teymið að grípur inn í en gerir það ekki vegna pressu, álags eða hræðslu við umræðu (Champon, 2014)

  • VAR sér brot en ákveður að gera ekkert samkvæmt vinnureglunni um minimum interference. Dómarinn sjálfur gæti hafa séð atvikið og hann á að bera hina endanlegu ábyrgð. Hvenær kallar atvik á interference? Hvenær nær það hinu huglæga marki sem kallar á íhlutun?

  Niðurstaðan er sem sagt sú í stuttu máli að VAR er ekki að virka eins og það er upp sett og sérstaklega í Bretlandi vegna óskýrleika í verklaginu minimum interference.

  [...]
 • Liverpool 2-0 Midtjylland

  Mörkin

  1-0  Diogo Jota 55. mín
  2-0  Mohamed Salah 90+3 mín (víti)

  Leikurinn

  Heimamenn stilltu upp með hvíldarróteringu í huga með hina heilögu heimsklassa þrenningu Salah, Mané og Firmino í hásæti á bekknum. Sú uppstilling virtist vera hughreystandi fyrir gestina sem mættu óhræddir til leiks og fengu dauðafæri strax á 2. mín leiksins. Einföld sending frá hafsentinum Scholz inn fyrir vörnina hleypti Dreyer í dauðafæri einn gegn Alisson en sá brasilíski lokað vel og varði skotið.

  Það var ljóst frá þessari byrjun og næstu tuttugu mínútur til viðbótar að Danirnir voru mættir til að gera kvöldið erfitt fyrir Liverpool sem voru alls ekki með neinn ryþma eða melódíu í sinni spilamennsku. Gestirnir pressuðu ágætlega og þegar þeir unnu boltann þá héldu þeir honum vel innan liðsins og voru óhræddir við að láta finna fyrir sér með tilheyrandi spjaldasöfnun. Liverpool fór ekki að komast í gang fyrr en nálgaðist miðbik fyrri hálfleiks og fóru þá loks að ógna með ágætlega uppbyggðum sóknarlotum með nokkrum hálffærum hjá Minamino og ógnun hjá Trent upp hægri vænginn.

  En enn hélt meiðslamartröðin áfram hjá Liverpool þegar að á einföldum spretti og án snertingar að varnartröllið Fabinho lá óvígur á vellinum. Allar líkur eru á að hamstrengurinn hafi gefið sig aftan á læri á köldu kvöldi í Norður-Englandi og það þýðir nokkurra vikna bataferli hjá Brassanum sem hefur brillerað í bráðri neyð. Inn kom 197 cm og 19 ára unglingurinn Rhys Williams sem er sérlega efnilegur en alls óreyndur utan nokkurra deildarbikarleikja fyrr í vetur.

  Viðleitni rauðliða til að ná skoti á rammann jókst síðustu mínútur hálfleiksins með hálffæri Milner, rangstæðum Origi og skalla Minamino en heimamenn luku hálfleiknum án þess að hafa látið Mikkel í markinu þurfa að verja einn bolta.

  0-0 eftir hörmulegan fyrri hálfleik

  Klopp gerði þá breytingu í hálfleik að fyrirliðinn Henderson vék fyrir Gini Wijnaldum og vonandi var það ekki alvarlega meiðslatengt. Flæðið var betra í byrjun seinni hálfleiks og boltinn gekk hraðar manna í milli. Á 55. mínútu kom góð sóknaruppbygging upp hægri vænginn, Trent fór í trekant við Shaqiri og lagði síðan boltann upp á Diogo Jota fyrir opnu marki. Glæsilegt spil og gott mark. 1-0.

  Í kjölfarið fylgdu áhugaverðar skiptingar er ofurstirnin Salah og Mané komu inná og stuttu síðar bættist Íslendingurinn Mikael Anderson í hópinn fyrir Midtjylland. Íslenski landsliðsmaðurinn var settur í framlínuna til þess að reyna að feta í fótspor samlanda sinna Gylfa Þórs, Jóa Berg, Brynjars Björns og Hemma Hreiðars sem hafa afrekað það að skora gegn Rauða hernum á ferlinum. Leikurinn róaðist og ef eitthvað var þá voru óx gestunum ásmegin sem endaði með góðu færi á 77.mínútu er Evander skaut rétt framhjá í teignum.

  Firmino var skipt inná en lítið var samt að frétta í sóknarleik okkar manna nema hvað að Bobby fékk dauðafæri á silfurfati frá Trent á 88.mínútu sem hefði klárað leikinn endanlega. Sú vannýting á góðu færi hefði geta reynst afar dýrkeypt þar sem að Dreyer kom sér að nýju í dauðafæri maður á móti Alisson en vippaði rétt framhjá markinu. Kæruleysi og slappleiki okkar manna kom þeim næstum því illþyrmilega í koll.

  Í uppbótartíma þá átti Trent glæsilega sendingu inn fyrir vörnina á Salah sem var sloppinn í gegn en brotið var á egypska undrinu og vítaspyrna réttilega dæmd. Mohamed steig upp til spyrnutöku með boltann á punktinum og hamraði vítaspyrnuna niðri hægra megin í markið.

  2-0 lokatölur fyrir Liverpool

  Bestu menn

  Margir leikmenn voru flatir í kvöld en Shaqiri leit mjög vel út, spilaði allan leikinn og mikill þátttakandi í þeirri litlu jákvæðu sóknaruppbyggingu sem var í gangi. Diogo Jota setti gott liðsmark og var sæmilegur þess utan og sama má segja um innkomu Salah sem vann vítaspyrnu og skoraði úr henni. Minamino var smá líflegur í fyrri hálfleik en hvarf í þeim seinni. Alisson stóð sig líka vel í einvíginu gegn Dreyer í dauðafærunum og Gini átti góða innkomu í hálfleik. Rhys Williams fær einnig broskarl í kladdann fyrir að koma inn af bekknum, ná af sér stressinu og vinna sig inn í leikinn.

  Yfirburðarmaður leiksins var þó Trent Alexander-Arnold sem var frábær og sýndi mikil gæði í sinni spilamennsku eftir risjóttar síðustu vikur. Tvær stoðsendingar og lagði einnig upp önnur bestu færi leiksins sem gerir hann klárlega að manni leiksins.

  Vondur dagur

  Fabinho sem hefur verið bjargvætturinn í grasinu og miðvarðarstöðunni var svo óheppinn að meiðast aftan í læri og vonin er að vikurnar verði ekki of margar á hliðarlínunni. Þá nýtti Origi sitt tækifæri í byrjunarliðinu gegn takmörkuðum andstæðing ekkert sérlega vel þó að vissulega hafi hann hlaupið sæmilegt meðaltal af kílómetrum þegar allt er talið saman í bókhaldinu.

  Viðtalið

  Klopp beint eftir leik um frammistöðuna, mörkin og meiðslin:

  Tölfræðin

  • Upphafsmark leiksins hjá Jota var 10.000 markið í glæstri 128 ára sögu Liverpool Football Club. Jock Smith skoraði fyrsta mark LFC í september 1892.
  • Liverpool átti tvö skot á markið í leiknum og það endaði sem tvö mörk.

  Tæknihornið

  Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Anderson fær fálkaorðuna fyrir frumlegustu fótboltaflíkuríklæðningartæknina í bransanum:

  Umræðan

  Rauða herinn var í algeru óstuði í kvöld og liðið náði sjaldan góðri spilamennsku í gang. Það sem líta má jákvætt á þetta er að 3 stigum var landað á meðan Atalanta og Ajax töpuðu stigum og að við komumst upp með róteringu á lykilmönnum. Það ætti að þýða enn þægilegri og öruggari útkomu í auðveldum riðli með frekari róteringum ef þurfa þykir.

  Að sama skapi er áhyggjuefni að þriðja leikinn í röð er frammistaðan ekki upp á marga fiska þó að úrslitin skili sér í hús. Sérlegt áhyggjuefni eru ítrekuð miðvarðameiðsli og hvernig okkur tekst að manna þá stöðu næstu mánuðina. Vonandi fer Matip að ná heilsu til lengri tíma en stakra leikja (7,9,13) og við megum alls ekki við því að Gomez lendi í neinu hnjaski (aftur 7,9,13).

  Þó að Rhys Williams hafi geta stigið inn í leik gegn dönsku liði gefur það ekki endilega fyrirheit um að hann sé tilbúinn í úrvalsdeildina eða gegn sterkari liðum í Meistaradeildinni. En kannski munum við ekki hafa neina aðra valkosti en að spila Rhys í einhverjum þeirra leikja sem gerir innkaupamál í janúar enn meira knýjandi til þess að fylla skarðið af meiðslum VvD og vanrækslu við að manna stöðuna fyrir veturinn.

  Næsti leikur er heima gegn West Ham sem hafa verið að stríða toppliðunum Man City, Tottenham, Leicester og Wolves í sínum síðustu 4 leikjum með 2 sigra og 2 jafntefli í þeim einvígum og því ekkert gefins gegn Hömrunum.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarlið á Anfield gegn Midtjylland

  Danskir miðlendingar hafa lagt Jótland undir fót og eru mættir til fótboltahöfuðborgar Englands, nánar tiltekið á höfuðvígi Rauða hersins á Anfield í Liverpool. Þar mun fara fram fyrsti leikur knattspyrnusögunnar á milli liðanna og verður hann hluti af annarri umferð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þennan fótboltaveturinn.

  Midtjylland fengu hressilega jarðtengingu með 4-0 jarðsetningu í síðasta leik gegn Atalanta á meðan Liverpool gerði góða ferð til Amsterdam þar sem 3 stigin voru rausnarleg umbun fyrir ósannfærandi frammistöðu.

  Startopstilling

  Liðsuppstilling kvöldsins liggur klár fyrir með áhugaverðum innkomum Minamino, Shaqiri og Origi í byrjunarliðið með alla heilögu þrennuna á bekknum ef þörf krefur.

  Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold, Fabinho, Gomez, Robertson; Henderson, Milner; Shaqiri, Minamino, Jota; Origi

  Bekkurinn: Adrian, Kelleher, R.Williams, N.Williams, Wijnaldum, Jones, Cain, Salah, Mane, Firmino

  Gestirnir frá Mið-Jótlandi stilla sínu liði upp eftirfarandi:

  Pressekonference

  Meistari Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi gærdagsins og rýndi í stöðu mála. Markvarðarmeistari Alisson mætti í seinni hlutann og mælti mjúklega úr myndarlegum munni:

  Brian Priske tjáði sig einnig við fjölmiðlana og hér er hans framlag:

  Opvarmningslaget

  Der kan kun være et opvarmningslag som vi spiller før kampen mod Midtjylland begynder og det kommer fra albummet Midt om Natten. Musikeren er selvfølgelig den afdøde Kim Larsen med sin klassiske og meget populære sang Papirsklip. Midtjyllenderne spillerne er ingen papkasser, men vi håber, at den Røde hær kan skære igennem dem mange gange og sætte masser af mål i nettet.

  Leikurinn hefst klukkan 20:00 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

  We are red! We are white! We are Liverpool dynamite!

  Vi er røde, vi er hvide! Vi står sammen, side om side!

  Kom nu du RØDE! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Gullkastið – Kirkja Alisson Becker

  Liverpool komst aftur á beinu brautina með tveimur baráttusigrum, VAR áfram í sviðsljósinu og svipuð vika framundan.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 308

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  [...]
 • Munu Danir liggja í því?

  Minnum á podcast vikunnar sem er í næstu færslu fyrir neðan.

  Það er komið að leik númer 2 í meistaradeildinni. Andstæðingar okkar í fyrsta leik gerðu sér lítið fyrir og unnu sína andstæðinga 0-13 í leiknum um helgina, svo eitthvað geta þeir nú í fótbolta þó þeir hafi ekki haft erindi sem erfiði í leiknum gegn okkar mönnum fyrir viku síðan. En nú eru það Danir sem heimsækja Anfield, nánar tiltekið piltarnir í Midtjylland.

  (more…)

  [...]
 • Liverpool – Sheffield United 2-1

  0-1 Berge (víti), 13 min
  1-1 Firmino, 40 min
  2-1 Jota, 64 mi

  Heimamenn í Liverpool tóku á móti Brewster og félögum (virkar það ekki svona annars?) í ansi mikilvægum leik eftir dræma uppskeru í síðustu tveimur leikjum. Fyrirfram átti þetta ekkert að vera neitt sérstaklega strembið verkefni, enda Sheffield byrjað þetta tímabilið jafn illa og þeir byrjuðu það síðasta vel, en eins og maður átti svo sem von á þá varð úr hörkuleikur!

  Klopp gerði þrjár breytingar frá því í sigrinum gegn Ajax en inn komu Alisson, Henderson og Jota.

  Leikurinn byrjaði vel, Robertson sendi frábæran bolta innfyrir vörn gestanna á Mané, Ramsdale kom í skrítið úthlaup en skot (sending) Mané var slakt og varnarmaður gestanna náði að hreinsa áður en Salah kom og potaði boltanum fyrir línuna. Mínútu síðar átti Trent tilraun frá miðju eftir að brotið hafði verið á Salah, skotið var frábært en Ramsdale náði að blaka boltanum yfir.

  (more…)

  [...]
 • Liðið gegn Sheffield

  Þá er komið að næsta verkefni, í þetta sinn er það deildin og Liverpool verður einfaldlega að landa öllum þremur stigunum í dag eftir aðeins eitt stig í síðustu tveimur leikjum.

  Sheffield United mættir í heimsókn og Klopp stillir þessu svona upp í dag. Alisson er kominn til baka (!!), Fabinho og Gomez eru áfram í miðverði og Robertson spilar í dag sinn 100 leik fyrir Liverpool. Henderson kemur inn á miðjuna ásamt Jota og er þetta því í fyrsta sinn sem Jota, Mané, Salah og Firmino spila saman.

  Í liði gestanna er svo Rhian nokkur Brewster (ekki voga þér!). Annars hafa Sheffield menn ekki virkað sannfærandi í haust en þetta verður langt frá því að vera auðvelt. Virkilega mikilvægt að landa sigri og fara að safna stigum og sína að við getum vel varið krúnuna þrátt fyrir fjarveru VVD!

  Koma svo!

  YNWA

  [...]
 • Sheffield mæta á Anfield

  Þá er komið að sjöttu umferð deildarinnar, en þegar þetta er skrifað er Liverpool í fjórða sæti deildarinnar á eftir stórliðunum (skoðar töfluna)…. Everton, Villa og Leeds. Já þetta er búin að vera skrýtin leiktíð, reyndar skrýtið ár í heild sinni, og sjálfsagt verður þetta svolítið skrýtið enn um sinn. Enn erum við ekkert nær því að áhorfendur geti farið að mæta á leikina, sérstaklega á meðan veiran virðist vera að sækja í sig veðrið frekar en hitt.

  En nóg um það. Andstæðingar okkar manna í 6. umferð eru piltarnir í Sheffield United. Eins og nafnið bendir til kemur liðið frá Sheffield, sem er borg sem má finna í Suður-Yorkshire í Englandi. Það er nú ekki svo langt frá Liverpool, sirka helmingi lengra í austur frá Liverpool heldur en Manchester. Lesendur kannast e.t.v. við Sheffield úr sögu- og landafræðibókum fyrir að hafa verið mikil iðnaðarborg, reyndar hefur borgin lengi verið kölluð “Stálborgin” (e. Steel City), en þar var lengi vel blómlegur stáliðnaður sem og talsverð kolavinnsla. Í borginni voru gerðar allnokkrar uppgötvanir á sviði málmvinnslu, þannig hefur stál frá Sheffield lengi vel þótt vera gæðavara, og borgin hefur um langt skeið verið þekkt fyrir framleiðslu á borðbúnaði hverskonar. Reyndar eru fyrstu heimildir um slíkt síðan á 13. öld, hvorki meira né minna. Allur þessi iðnaður setti nú mark sitt á ásýnd borgarinnar, og árið 1937 talaði George Orwell um að það mætti allt eins kalla Sheffield “ljótustu borgina í gamla heiminum” (hann hefur væntanlega viljað undanskilja borgirnar í Bandaríkjunum og lái honum það hver sem vill).

  Knattspyrnan á sér langa sögu í borginni, og það er reyndar þannig að elsta opinbera knattspyrnulið veraldar sem enn starfar er Sheffield FC, en það var stofnað árið 1857 (þá er verið að tala um sjálfstætt knattspyrnulið, þ.e. lið sem er ekki stofnað út frá skóla eða annarri stofnun). Í dag eru fyrst og fremst tvö knattspyrnulið sem við þekkjum frá Sheffield. Annars vegar er það liðið með skemmtilega nafnið: Sheffield Wednesday, en liðið ku hafa tekið vikudaginn með í nafnið þar sem stofnendur klúbbsins áttu frí á þessum degi vikunnar og gátu því iðkað íþróttina þá. Sheffield Wednesday verður svo að sjálfsögðu tengt Liverpool órjúfanlegum böndum um alla tíð í gegnum heimavöll sinn, Hillsborough, og þarf ekki að rekja það frekar hér. Sheffield Wednesday leikur í dag í næstefstu deild, og átti síðast sæti í úrvalsdeildinni árið 2000.

  Hitt liðið – sem vill svo til að eru einmitt andstæðingar okkar manna og mæta á Anfield annað kvöld – eru Sheffield United. Sheffield United er eitt þeirra liða sem áttu aðild að stofnun úrvalsdeildarinnar á sínum tíma, og fyrsta mark deildarinnar kom einmitt þegar þeir skoruðu gegn góðkunningjum okkar í Manchester United. Liðið staldraði nú ekki lengi við í efstu deild, áttu svo stutta endurkomu tímabilið 2006-2007 en eru tiltölulega nýkomið upp í úrvalsdeild aftur, þegar þeir hófu leik í efstu deild haustið 2019. Flestir áttu nú von á því að nýliðarnir myndu fara lóðbeint niður aftur, en þeir sneru heldur betur á sparkspekinga og voru lengi vel í ágætis málum í efri hluta deildarinnar, og áttu jafnvel möguleika á að ná Evrópusæti á tímabili. Endanleg niðurstaða varð nú samt sú að liðið hirti 9. sætið, sem verður engu að síður að teljast ágætis árangur. Liðið var ekki endilega að skora mest í deildinni, náði að pota inn 39 mörkum, og var sjötta neðsta liðið í markaskorun. Á móti fékk það ekki heldur mörg mörk á sig, eða jafnmörg og það skoraði, og aðeins 3 efstu liðin sem fengu færri mörk á sig. Það má alveg færa rök fyrir því að þetta hafi að miklu leyti verið að þakka lánsmarkverðinum þeirra, Dean Henderson, en hann er farinn aftur til móðurfélags síns og situr þar á bekknum á meðan tiltekinn Spánverji er enn sem komið er á undan honum í goggunarröðinni. Eru margir á þeirri skoðun að téður Dean endi sem aðal landsliðsmarkvörður Englendinga, enda ljóst að núverandi landsliðsmarkvörður hefur full marga galla (eins og að meiða leikmenn andstæðinganna, svo fátt eitt sé nefnt). En hann er gjafmildur, það má hann eiga (**hóst** Origi 90+6 mín **hóst**).

  Kenningin um að árangur síðustu leiktíðar megi þakka markverði þeirra hljómar ekkert út úr kortinu í ljósi þess að í dag eru þeir í fallsæti, með aðeins 1 stig úr 5 leikjum, og heil 2 mörk skoruð í þeim. Enda fór það svo að áður en leikmannaglugginn lokaðist í haust tóku þeir sig til og áttu besta boð í vonarstjörnu okkar manna, Rhian Brewster, í von um að finna þar leikmann sem gæti bætt markaskorunina. Sá piltur ætti að vera lesendum síðunnar að góðu kunnur, en hann kom til Liverpool árið 2015 frá Chelsea og hefur þótt vera mikið efni allar götur síðan. Hann var í U17 liði Englands sem urðu heimsmeistarar í sínum aldursflokki árið 2017, og var þar í ágætum félagsskap með piltum eins og Phil Foden, Callum Hudson-Odoi, Jadon Sancho og fleirum. Ferill Brewster var því miður settur á ís í byrjun árs 2018 þegar hann meiddist illa í leik U23 liðsins gegn City, og það tók hann rúmlega heilt ár að koma aftur til baka. Hann náði þó að vera á bekk í leiknum fræga gegn Barcelona á Anfield, sem og í úrslitaleiknum í Madríd, og fór því frá félaginu með meistaradeildarmedalíu í vasanum. Það var ljóst að hann var aldrei að fara að fá þær mínútur sem hann þurfti til að þroskast sem leikmaður, og því var það í allra þágu að hann færi til liðs sem myndi geta nýtt sér þjónustu hans og gæfi honum einhverjar mínútur. Það fylgdi sögunni að Michael Edwards hafi sett “buyback” klásúlu í kaupsamninginn, enda hefur Klopp alltaf haft mikið álit á honum sem knattspyrnumanni og vonandi bara spurning hvenær hann springur út. Við vonum bara að það gerist ekki á Anfield á morgun! En það er annars nánast öruggt að hann muni byrja gegn sínum gömlu félögum í þessum leik.

  Hvað okkar menn varðar, þá er ljóst að við sjáum engan Alex Oxlade-Chamberlain, engan Virgil van Dijk og engan Kostas Tsimikas. Við fáum ekki að vita hvernig staðan verður á Joel Matip, Thiago Alcantara og Alisson Becker fyrr en rétt fyrir leik, þeir eiga allir möguleika á að koma við sögu, þó líklegast sé kannski að Alisson sjáist ekki aftur á leikskýrslu fyrr en um næstu helgi. En við bara krossum putta og vonum að hann verði fullfrískur sem allra fyrst. Það virðast allir hafa sloppið tiltölulega óhnjaskaðir frá leiknum gegn Ajax, en vissulega voru nokkrir leikmenn sem léku allar 90 mínúturnar og spurning hvort við sjáum menn eins og Milner eða Wijnaldum í byrjunarliði af þeim sökum.

  Við skulum því prófa að stilla liðinu upp svona:

  Þetta ræðst þó auðvitað allt af því hvort menn verði dæmdir leikfærir, og eins hvort læknateymið treysti mönnum til að byrja leikinn. Þannig átti Henderson t.d. aðeins að vera fær um að spila 45 mínútur á miðvikudaginn og kom því inná í hálfleik, og alveg spurning hvort hann sé í standi til að byrja á morgun. Ráða Trent og Robbo við 90 mínútur til viðbótar, hafandi spilað tvo síðustu leiki að fullu? Sóknartríóið okkar var allt tekið út af á 60. mínútu á miðvikudaginn, örugglega með annað auga á þessum leik gegn Sheffield. Maður sæi þó alveg Firmino fá smá pásu ef leikform gæfi einhverja vísbendingu, en það er svo allt eins líklegt að Klopp sé ekkert að spá í mörk eða stoðsendingar hjá honum og sé bara að horfa á vinnuframlag hans almennt.

  Það er morgunljóst að krafan er einföld: vinna leikinn og þoka sér nær toppsætinu, því þar viljum við vera. Núna þarf liðið að sýna það að það sé fært um að vera í toppbaráttunni – og helst að það sé fært um að vinna titilinn annað árið í röð – án besta varnarmanns heims, Virgil van Dijk. Ef það tekst má segja að það yrði árangur sem mætti líkja við endurkomuna gegn Barca forðum daga, nema að það var bara einn leikur (og við vorum vissulega án Salah og Firmino í þeim leik). Þetta er heilt tímabil án VVD. En ef einhver getur mótíverað sína menn til að ná þessum árangri, þá er það Jürgen Norbert Klopp.

  Spáum öruggum 3-0 sigri, og Adrian heldur hreinu annan leikinn í röð.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Ajax 0-1 Liverpool

  Liverpool byrjar Meistaradeildina á góðum útisigri á Ajax en eina mark leiksins kom eftir sjálfsmark frá varnarmanni Ajax.

  Þetta byrjaði svona pínu óþægilega og þá sérstaklega baka til, Joe Gomez ætlaði að skýla boltanum svo hann færi út af vellinum en í sömu andrá kemur Adrian á fleygiferð og neglir boltanum í Gomez og út af svo Ajax fengu boltann. Skömmu síðar lendir Adrian í smá vandræðum þegar hann dvelur of lengi á boltanum og Ajax setur hann undir pressu en ekkert varð úr. Það var líklega það neikvæðasta sem Adrian gerði í kvöld og tökum við því bara að sjálfsögðu fagnandi. Hann átti nokkrar fínar vörslur í leiknum og var þokkalegur þegar á reyndi, kredit á hann fyrir það.

  Frammi var Liverpool í þokkalegum gír en Firmino, Mane og Salah voru mjög líflegir. Það komu í raun ekki svo ég muni einhver dauða, dauðafæri en þeir komust í ákjósanlegar stöðurog vantaði stundum bara eitthvað smá upp á.

  Miðjan í fyrrihálfleik var nokkuð bragðdauf fyrir utan Wijnaldum sem var frábær að mínu mati en þeir Curtis Jones og James Milner voru ekki alveg í taktinum.

  Á 35. mínútu komst Liverpool yfir þegar annað hvort lélegt skot eða áhugaverð föst sending Sadio Mane fór í Tagliafico, varnarmann Ajax, og þaðan í netið. Verðskuldað mark fyrir Liverpool þó það hafi nú ekkert endilega verið það fallegasta.

  Leikurinn var nokkuð opinn og fór fram markana á milli, Fabinho og Gomez fóru ansi mikinn í miðvarðarhlutverkunum í kvöld. Adrian fór út á móti sóknarmanni Ajax sem náði að lyfta honum yfir Adrian og boltinn var á leið í markið þegar Fabinho kom á fleygiferð og bjargaði glæsilega á línu.

  Í hálfleik gerði Klopp breytingu og setti Henderson inn á fyrir Curtis Jones og var það mjög góð skipting því fyrirliðinn bætti jafnvægið á miðjunni ansi mikið eftir að hann kom inn.

  Ajax byrjaði síðari hálfleikinn á stangarskoti en heilt yfir var leikurinn áfram að spilast mjög hratt og liðin skiptust á að sækja. Frekar snemma í hálfleiknum gerði Klopp þrefalda skiptingu þar sem hann tók alla framlínuna út og setti þá Jota, Minamino og Shaqiri inn í þeirra stað.

  Þeir séttu ágætis mark á leikinn, þá sérstaklega Diogo Jota sem var mjög líflegur og átti hann frábæra sendingu á Wijnaldum sem komst í góða stöðu en náði ekki að skora.

  Í raun þá sigldi Liverpool þessu bara heim í seinni hálfleik. Ajax reyndu að jafna en fengu engin alvöru tækifæri til þess og Liverpool ógnaði á móti en voru kannski ekki rosa líklegir til að bæta við mörkum.

  Fabinho var líklega maður leiksins að mínu mati og þeir Joe Gomez, Andy Robertson og Gini Wijnaldum koma þar á eftir.

  Það var mjög mikilvægt að ná í góðan sigur gegn fínu liði á útivelli í kvöld. Mikilvæg stig í baráttunni í riðlinum og gott að fá loksins sigur eftir tvö vonbrigða úrslit í röð.

  Um helgina er leikur gegn Sheffield United og má líklega búast við að Keita, Thiago og Matip verði komnir aftur í hópinn fyrir þann leik svo það er ansi öflugt.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close