Upphitun: Crystal Palace í fyrsta heimaleik tímabilsins.

Byrjum á því að í dag hafnaði Liverpool 113 milljóna punda tilboði frá Barcelona í Coutinho, þetta var þriðja tilboð þeirra í kappann og er ljóst að þetta mun ekki enda fyrir 1. september nema að stjórn Liverpool ákveði að selja.

Þá er komið að fyrsta heimaleik tímabilsins en fram að landsleikjahléi er virkilega mikilvæg leikjahruna okkar manna þar sem við spilum þrjá heimaleiki, sá fyrsti gegn Crystal Palace. Á síðasta tímabili unnum við tólf af nítján heimaleikjum og töpuðum aðeins tveimur, öðrum gegn Crystal Palace en hinum gegn hinum gömlu „Gylfa og félögum“ eða eins og þeir munu heita hér eftir Swansea. Við tókum því 41 stig af 76 á heimavelli og það er eitthvað sem mætti endurtaka sig eða bæta í ár en það byrjar á morgun gegn Palace.

Alltaf gaman á Anfield?

Anfield hefur reynst okkur vel í gegnum árin og fá lið sem koma þangað og búast við að ná góðum úrslitum, því miður hefur Crystal Palace ekki verið eitt af þeim liðum. Með sigri á morgun yrðu þeir aðeins fjórða liðið í sögunni til að vinna fjóra deildarleiki í röð á Anfield. Allt frá því að Tony Pulis og Dwight Gale endanlega gerðu úti um titilvonir okkar manna 2014 með 3-3 jafntefli á Selhurst Park hafa þeir reynst okkur erfiðir. Með nýjan þjálfara í brúnni nánast í hver einasta skipti virðast þeir alltaf ná að slá Liverpool af laginu. Í síðasta leik liðanna var það okkar eigin Christian Benteke sem skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri eftir að Coutinho kom okkar mönnum yfir snemma leiks.

Total football

Frank de Boer

Frank De Boer er mættur í enska boltan. Eftir frábært gengi með Ajax var hann orðaður við stóru liðin á Englandi mest við Liverpool eða Arsenal. Það varð þó ekki að veruleika og hann tók við Inter Milan í byrjun síðustu leiktíðar þar sem hann enntist í heila þrjá mánuði áður en honum var sparkað þar sem liðið sat í tólfta sæti deildarinnar. De Boer er af hollenska Total Football skólanum enda ólst upp hjá Ajax og spilaði einnig hjá Barcelona. Hann tók því við liði sem hefur á undanförnum árum verið þjálfað af Sam Allardyce, Tony Pulis, Neil Warnock, Ían Holloway og fleirum af þeim skólanum og er hann með leikmannahóp sem samsinnist því, það verður því erfitt að sjá hvernig De Boer mun ganga að koma sinni hugmyndafræði yfir á liðið. Samkvæmt orðrómum sumarsins stóð val stjórnarinnar milli Frank De Boer eða Roy Hodgson, þegar aðalkandídatar þínir eru svona ólíkir er líklegast ljóst að þú ert í smá vanda.

Í fyrstu umferð léku Palace gegn Huddersfield en nýliðarnir unnu 3-0 sigur sem hefði hæglega getað orðið stærri. Eins og sjá má í myndbandinu er eiga sóknarmenn Huddersfield mikið af sniðugum sendingum í gegnum vörn Palace manna og komast þannig í opin svæði sem gætu verið góðar fréttir þar sem fljótandi sóknarlína okkar ætti hæglega að geta nýtt slíka veikleika verða þeir enn til staðar.

Mótherjarnir á morgun

Eins og áður kom fram töpuðu þeir fyrsta leik en eru samt engin gefinn veiði. Það er ástæða fyrir því að þeir hafa strítt okkur, þeir eru með ágætis leikmenn innanborðs. Þeirra besti leikmaður Wilfred Zaha verður þó ekki með vegna meiðsla en sá leikmaður sem hræðir okkur líklegast mest er Christian Benteke. Hann gerði okkur lífið leitt þegar hann spilaði fyrir Aston Villa, svo leitt að við enduðum á að kaupa hann til félagsins. Um leið og hann fór byrjaði hann að skora gegn okkur aftur og miðað við vandræðaganginn í vörn okkar manna í fyrstu tveimur leikjunum sé ég ekki hvernig við eigum að stöðva tröll á borð við Benteke.

Liverpool fans fume at 'disgrace' Mamadou Sakho after his celebration with Christian Benteke

Ég býst ekki við að byrjunarlið Palace breytist mikið frá þessum fyrsta leik þrátt fyrir úrslitin nema að Zaha dettur út og líklegast mun Andros Townsend koma inn fyrir hann. Þá myndi liðið líta svona út

Liverpool

Það tók sinn tíma að jafna sig á jöfnunarmarki Watford síðustu helgi og þrátt fyrir að hafa glaðst yfir sigri í miðri viku er ljóst að vandamál Liverpool varnarlega eru jafnvel meiri en maður bjóst við og guð minn góður maður bjóst við vandamálum. Allt púður virðist vera sett í að fá Virgil Van Dijk en vandamálið er að tímabilið er hafið, vörnin lekur og besti leikmaður liðsins með hugan á Spáni og spilar ekki með liðinu. Þó er útivallarjafntefli gegn Watford og 2-1 útisigur gegn Hoffenheim ásættanleg byrjun og ef tímabilið fer vel man engin hvort leikurinn gegn Watford fór 3-3 eða 0-0. Óánæga mín snýst aðallega að því að það hlýtur að vera til betri varnarmaður en Lovren þó hann sé ekki Van Dijk sem passar inn í kerfi Klopp því ég hef áhyggjur bæði af því þegar Klavan þarf að fara spila og hvað við gerum ef við lendum í meiðslum í vörninni enda Matip, Lovren og Gomez allir þekktir fyrir að missa af leikjum.

Leikurinn á miðvikudaginn næsta er gríðarlega mikilvægur fyrir félagið, hann þarf að vinnast annars fer allt erfiði síðustu leiktíðar til einskis en það má samt ekki gleyma leiknum um helgina. Það er erfitt að spila bæði í deild og Evrópu en þetta er sá staður sem við viljum vera á. Þetta er það sem leikmennirnir vilja og þá þarf bara að kljást við það og tryggja það að það sé hægt að gera vel á báðum vígstöðum. Deildin er orðinn mun samkeppnishæfari en hún var og það er auðvelt að missa af Meistaradeildarsæti því þurfa leikir eins og þessi, heima gegn liði úr neðri hlutanum, hreinlega að vinnast.

Sóknarlínan hefur litið mjög vel út og nú vil ég sjá Salah sýna heiminum hvað hann getur. Hann hefur teasað okkur í fyrstu tveimur leikjunum með góðum sprettum en miðað við mörkin sem Mounie skoraði gegn Palace líta þau nánast eins út og flest mörk Salah hjá Roma. Ég býst við stórum hlutum frá Salah á þessu tímabili og væri til í að sjá hann skjótast upp á stjörnuhimininn á morgun.

Adam Lallana, Nataniel Clyne og Coutinho eru allir á meiðslalistanum og munu ekki spila um helgina. Það bárust hinsvegar fréttir um það að Daniel Sturridge af öllum mönnum sé heill og verði að öllum líkindum í hóp. Liðið verður því líklegast svipað og í fyrstu tveimur leikjum.

Ég lennti hreinlega í vandræðum með þetta og setti inn sama byrjunarliðið en trúi því að það verði einhverjar breytingar gæti verið að Origi eða Solanke byrji upp á topp eða að Milner komi inn á miðjuna en þetta er aðeins þriðji leikur tímabilsins menn hljóta getað byrjað af krafti.

Spá fyrir leikinn

Við hljótum að krefjast þess að sigra lið sem er í einhverju limbói milli leikstíla og koma fjórum stigum á töfluna til að missa ekki hin liðin langt fram úr og þurfa fara elta frá byrjun. Ég tel að við sigrum 3-1 þar sem Salah skorar tvö og Solanke setur eitt en Benteke mun skora fyrir Palace þar sem hann jafnar leikinn 1-1.

 

 

Hópferðir: Huddersfield og Everton

Við minnum á hópferðir Kop.is og Úrvals Útsýnar fyrir nýhafna leiktíð. Nú eru tvær ferðir komnar í sölu:

Við kynntum ferð á leikinn gegn Huddersfield helgina 27. – 30. október n.k. Sala í ferðina gengur vel og það stefnir í frábæra helgi í Liverpool gegn nýliðunum sem er stýrt af vini Jürgen Klopp. Liverpool er falleg borg á haustin og við verðum hressir í fararstjórn. Sjá upplýsingar og skráningu á vef Úrval Útsýnar.

Nú getum við einnig tilkynnt ferð á leikinn gegn Everton helgina 8. – 11. desember n.k. Úrval Útsýn hóf sölu í þessa ferð í gær. Everton hafa mikið verið í fréttum undanfarið enda Gylfi „okkar“ Sigurðsson genginn í raðir þeirra og þetta er því tækifæri til að sjá hann mæta Liverpool í blárri treyju í fyrsta sinn. Þessi ferð er í desember og verður Liverpool-borg þá komin í jólabúning sem er sjón að sjá. Sjá upplýsingar og skráningu á vef Úrval Útsýnar.

Komið með Kop.is til Liverpool í haust eða um jólin. Sjáumst þar!

YNWA

Podcast – Benteke var eins og að kaupa kúluvarpara í Harlem Globetrotters

Enski boltinn er farinn af stað og Liverpool er búið að spila tvo hörku leiki uppfulla af stórum atvikum. Félagsskiptaglugginn hjá Liverpool stefnir í svipað jákvæða átt og forstetatíð Donald Trump og það eru fullt af leikjum framundan á stuttum tíma. Það var nóg að ræða í þætti vikunnar.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: Maggi, SSteinn og Sveinn Waage.

MP3: Þáttur 159

Hoffenheim 1 – 2 Liverpool

Mörkin:
0-1 Trent Alexander-Arnold
0-2 Nordtveit (sjálfsmark)
1-2 Uth

Bestu menn Liverpool
Trent Alexander-Arnold hlýtur að vera þar ofarlega á blaði. Þessi drengur er hlaupandi allan leikinn, og er greinilega þarna inná til að gera gagn, sem hann svo sannarlega gerir. Jú það má færa rök fyrir því að hann hefði ekki átt að kvarta yfir mögulegri rangstöðu í marki Hoffenheim, heldur hlaupa bara á eftir manninum. Gerum okkur samt grein fyrir því að þetta er 18 ára strákur sem á margt eftir ólært. Nú er hann semsagt sá sem tekur hornspyrnurnar öðru megin (á móti Moreno að því er virðist), og þetta var alveg örugglega ekki síðasta aukaspyrnan sem hann tekur. Og þvílík spyrna. Við skulum bara orða það þannig að Clyne er svo fjarri því að fara að labba eitthvað beint inn í liðið þegar hann kemur aftur til leiks.

Simon Mignolet verður að fá kredit fyrir að verja víti sem og að eiga 2-3 góðar vörslur til viðbótar. Jú vítið var lélegt, en það er auðvelt að segja það eftirá. Ef Mignolet hefði skutlað sér til hægri þá hefði líklega enginn kvartað yfir því hvernig vítið var tekið, bara dæmigert víti beint á miðju. Hann hinsvegar beið, og uppskar eftir því. Hins vegar er ennþá mikið óöryggi í varnarleik liðsins, hluti af því liggur í því hvað hann er ennþá ragur að hlaupa út í boltann. Eins mætti hann alveg vera fljótari að koma honum í leik. En í dag stóð hann sig vel.

Aðrir leikmenn sem nefna mætti eru Mané sem átti góða spretti, Can sem var sami trukkurinn og oftast, og Matip sem er líklega besti varnarmaður liðsins.

Hvað varamennina varðar, þá kom Milner inná og stóð sig vel, átti vissulega sendinguna sem gaf seinna markið. Solanke virkaði ferskur í þessar mínútur sem hann fékk, og ég væri alveg til í að fá að sjá meira af honum. Grujic átti fína innkomu, þar á meðal fína blokkeringu í uppbótartíma.

Hvað hefði mátt betur fara
Það voru of margir leikmenn sem voru ekki nægilega sýnilegir. Firmino sást lítið, en hann átti vissulega sendinguna á Milner sem gaf seinna markið, og þó hann hafi e.t.v. ekki sést mikið þá sá maður ekki heldur mikið af mistökum hjá honum. Ég ætla því ekki að kvarta yfir honum. Salah var hins vegar mistækur, átti nokkur færi sem hann hefði örugglega getað afgreitt betur. Miðjan virkaði ekki nógu vel á mig í þessum leik, það er eins og það vanti einhvern neista í Henderson og Winjaldum. Þá var Lovren mistækur fyrri hlutann, fékk jú á sig þetta víti, en átti svo tvo góða skalla úr hornspyrnum sem hefðu með smá heppni getað gefið mörk. Moreno var svo bara Moreno, hættulegur fram á við en óöruggur í varnarvinnunni.

Umræðan eftir leik
Það er auðvitað gríðarlega sterkt að hafa unnið á þessum heimavelli Hoffenheim, en þetta var fyrsti tapleikur Hoffenheim á heimavelli síðan í maí 2016. Tvö útivallamörk gætu vel skipt máli þegar upp er staðið, þó það borgi sig alls ekki að stóla á það. Ég er nokkuð viss um að við hlökkum öll til seinni leiksins, en spennustigið verður sjálfsagt nálægt því að vera óbærilegt.

Í millitíðinni fáum við svo Crystal Palace í heimsókn kl. 14 næsta laugardag. Þá fáum við að sjá nýja grasið á Anfield. Munum við fá að sjá einhverja nýja leikmenn? Ég stórefast um það, en það væri gaman að fá að sjá litla galdramanninn okkar.

Liðið gegn Hoffenheim

Þá er búið að tilkynna liðið sem mun mæta Hoffenheim. Fátt sem kemur á óvart, sama lið og um helgina, og jafnframt sami bekkur.

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mane

Bekkur: Karius, Klavan, Gomez, Milner, Solanke, Origi, Grujic

Það er að sjálfsögðu löngu orðin klisja að tala um mikilvægasta leik liðsins í langan tíma, því auðvitað er næsti leikur alltaf sá mikilvægasti. Og það á einmitt akkúrat við núna. Hafi einhverntímann verið mikilvægt að liðið standi sig þá er það í þessum leik, bara eins og eitt stykki meistaradeild sem er í húfi. Vissulega væri gaman ef liðið myndi gefa Siobhan Chamberlain, markverði Liverpool Ladies, eins og eitt stykki sigur í afmælisgjöf, en hún á einmitt afmæli í dag.

Það er rétt að minna á umræðuna á twitter undir #kopis hashtagginu, nú og svo hér á blogginu:


Það kemur svo leikskýrsla skömmu eftir leik, og vonandi verður það jákvæð skýrsla!