Latest stories

 • Liverpool er líka á siglingu utan vallar

  Auðvitað helst þetta í hendur að einhverju leiti en það er sannarlega ekki bara innanvallar sem Liverpool er á blússandi siglingu því að rekstur félagsins hefur líklega aldrei verið eins heilsusamlegur og hann er núna. FSG eru að vinna ekki síður magnað starf en Jurgen Klopp og hans menn.

  Deloitte birti í dag sinn árlega peningalista yfir tekjuhæstu félögin í knattspyrnuheiminum. Liverpool er þar búið að endurheimta sjöunda sæti sem er sama sæti og félagið var í byrjun síðasta áratugar. Það hefur því tekið tíu ár að rétta af tíma Hicks og Gillett og m.v. hversu hratt tekjur Liverpool hafa verið að aukast er ljóst að félagið ætti með réttu að vera enn ofar á þessum lista og verður það líklega fljótlega.

  Spænsku risarnir eru að mestu bara í samkeppni við hvorn annan heimafyrir og tróna að vanda á toppnum þó það sé áhugavert að Barcelona er komið í efsta sætið núna. Man Utd er áfram tekjuhæsta félagið á Englandi en annað ár utan Meistaradeildarinnar gæti séð bæði Liverpool og City fara fram úr þeim.

  Við skulum samt ekkert taka það út úr jöfununni hversu fáránlegt að Man City teljist með á þessum lista enda ljóst að tekjustreymi þeirra er ekki sambærilegt og hjá hinum ensku liðunum, ekki nema það sé svona rosaleg sala á varningi félagsins í Abu Dhabi, það búa alveg næstum því 500.þúsund innfæddir í Sameinuðu Arabísku fyrstadæmunum!

  PSG er auðvitað jafn mikil vitleysa þó þeir búi líklega að mun stærri aðdáendahópi, helstu keppinautar Abu Dhabi að dæla peningum í þá.

  Tottenham er í fyrsta skipti tekjuhæsta liðið í London á undan Chelsea á meðan Arsenal er í 11.sæti og West Ham í 18. sæti.

  Liverpool datt út af topp tíu listanum árið 2014 eftir að hafa misst af Meistaradeildarsæti enn eina ferðina tímabilið 2012/13. Síðan þá hefur FSG hægt og rólega tekist að snúa rekstri félagsins við og náð að virkja miklu betur þá ótrúlegu og illa nýttu tekjuauðlind sem vörumerkið Liverpool er.

  Bilið í Manchesterliðin er líka að fuðra upp, eitthvað sem hefði verið ótrúlegt bara fyrir 1-2 árum

  Síðan Jurgen Klopp tók við Liverpool hafa tekjur félagsins aukist um 76%, en þær voru £302m. Jurgen Klopp á vissulega risastóran þátt í auknum tekjum á leikmannamarkaðnum einnig líkt og farið var yfir í síðustu viku.

  Á sama tíma hafa tekjur Man Utd aukist um 22% og Man City um 37% Komum einmitt inná það líka um daginn að Pep Guardiola er ekki búinn að eyða nema 86% meira í leikmannakaup nettó en Jurgen Klopp síðan þeir komu til Englands. Veitir reyndar ekkert af.

  Það munar núna £100m á Liverpool og Man Utd í stað £213m áður en Liverpool er nánast jafnt því sem Man City er að gefa upp sem tekjur.

  Deloitte dregur ekkert úr því hversu mikilvægt er að vera með í Meistaradeildinni og hvað þá að ná árangri þar

  “The impact of participation and performance in Uefa club competitions on revenue is evident in London and the North West, with the rise of Liverpool, Manchester City and Spurs driven by reaching the Champions League knockout stages.

  “The relative decline of Arsenal is a direct result of not participating in the competition for a second consecutive season, a fate that may also befall Manchester United.”

  Það er nokkuð ljóst að Man Utd mun ná sér á strik aftur og eru ekkert að fara af þessum lista þó þeir gætu á næstu 1-2 árum misst efsta sætið á Englandi í fyrsta skipti. Arsenal og Tottenham gætu átt erfiðara með að vera utan Meistaradeildarinnar. Chelsea er svo eins og litli bróðir Man City og PSG – bróðir frá annarri móðir ef svo má segja, enn eitt olíufélagið.

  [...]
 • Gullkastið – Hvellsprungið á rútunni

  Það hjálpaði Motormouth ekkert að pakka í vörn á heimavelli gegn þeirri vél sem þetta Liverpool lið er orðið. Þáttur strax eftir leik og meirihluti pennanna samankomin í miðborg Sódómu. Einar og SSteinn sátu hjá á meðan Maggi tók stjórnvölin og fór yfir leikinn með pennum síðunnar.

  Stjórnandi: Maggi
  Viðmælendur: Maggi Þórarins (Beardsley), Eyþór, Daníel og Hannes.

  MP3: Þáttur 272

  Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  [...]
 • Liðið gegn Tottenham

  Þá er um klukkustund í að Liverpool spili sinn fyrsta leik á Tottenham vellinum nýja og hefur Klopp ákveðið að velja eftirfarandi byrjunarlið.

  Bekkur: Adrian, Minamino, Lallana, Shaqiri, Origi, Phillips, Williams

  Mourinho tók hinsvegar óvænta stefnu í sínu byrjunarliði þar sem hin tvítugi Tanganga á kostnað Vertongen. Hans lið er svona.

  Gazzaniga

  Sanchez – Alderweireld – Tanganga

  Aurier – Winks – Eriksen – Rose

  Moura – Son – Alli

  Pennar kop.is verða á Sport og Grill að horfa á leikinn vonumst til að sjá sem flesta!

  [...]
 • Heimsókn til Spurs! Upphitun

  Á morgun, laugardaginn 11. Janúar munu Liverpool heimsækja Tottenham Hotspurs í Norður-Lundúnir. Þeir freista þess að viðhalda ótrúlegri þrettán stiga forystu sinni á toppi ensku deildarinnar. Mótherjinn er kunnuglegur. Tottenham voru andstæðingurinn þegar lærisveinar Klopp lyftu Evrópubikarnum fræga í sjötta sinn og þangað til fyrir svona tveimur voru það lið í Ensku deildinni sem hægt var að bera Liverpool best saman við. En við stjórnvölin í London er nýr stjóri og gamall óvinur. Kannski stærsti fjandi Liverpool síðustu tuttugu ár fyrir utan rauðnefinn fræga, maðurinn sem hefði kannski tekið við Liverpool ef örlögin hefðu verið aðeins öðruvísi, sem háði orðastríð við Rafa, var arkitekt einnar sárustu stundar stuðningsmanna Liverpool, sem hefur stýrt bæði Manchester United og Chelsea. Þið vitið hvern ég meina.

  Tottenham Hotspurs.

  Fyrir þremur eða svo árum var Spurs rökréttasta liðið til að bera Liverpool saman við. Bæði liðin mundu sinn fífil fegurri, bæði lið voru með stjóra sem var að ná frábærum árangri miðað mannskap, höfðu misst sína skærustu stjörnu til spænsks risa. Bæði lið voru að vinna í að stækka völlinn sinn og að reyna að ná fótfestu í meistaradeildasætunum. Þegar Liverpool steinlágu 4-1 fyrir Spurs á Wembley var það meðal annars sárt vegna þess að Tottenham var það lið sem maður sá hvað helst  fram á að Liverpool gæti steypt af stóli í topp fjórum pakkanum.

  Það tímabilið rétt slefuðu Liverpool í meistaradeildarsæti á meðan Tottenham kláraði í þriðja. Þetta var tímabilið sem Spurs léku alla heimaleiki sína á Wembley.Tottenham voru sáttir með sitt og Liverpool náði að knýja fram ótrúlega röð úrslita í meistaradeildinni sem endaði í úrslitaleik í Kiev. Því fór sem fór þar.

  Ári seinna var Liverpool aftur í úrslitaleiknum, að spila við Tottenham. Gengi Tottenham hafði byrjað að dala í deildinni þegar leið á tímabilið en þeir hugguðu sig við að þeir voru á hörku siglingu í Evrópu. Á sama tíma urðu Liverpool öflugri og öflugri. Þegar kom að úrslitastund unnu Liverpool. Stóri munurinn á liðunum í dag liggur í hvernig þau brugðust við sitthvoru tapinu á stærsta sviðinu. Árið eftir að Liverpool lenti í öðru sæti í Evrópu setti það nýtt stigamet í deildinni (fyrir lið í öðru sæti) og aðeins ótrúlegt gengi City kom í veg fyrir að liðið yrði Englandsmeistarar. Árið eftir að Tottenham tapaði úrslitaleiknum brotnaði liðið saman.

  Gengi Tottenham í byrjun núverandi tímabils voru hörmun. Þeir unnu aðeins 3 af 12 fyrstu leikjum sínum og féllu út úr deildarbikarnum með tapi fyrir United. Ekki West Ham United eða Manchester United. Colchester United sem spila í d-deildinni. Einhverja breytinga var þörf og Daniel Levy tók sú ákvörðun að snúa baki í langtímahugsun og ráða mann sem hefur skilið eftir sviðna jörð hjá öllum fyrri liðum sínumÞetta þýðir að öllum líkindum að Mourinho mun gera það sem hann elskar að gera í stórleikjum. Pakka tveggja hæða lundúnarútu fyrir framan markið sitt, tefja frá fyrstu sekúndu og reyna að komast inn í hausinn á okkar mönnum. Hann er því miður ofboðslega góður í þessum myrku fræðum og það er undir Klopp komið að leyfa þessu ekki að hafa áhrifa á leikmenn okkar. Ég held að það vinni í alvöru með okkur að leikurinn sé á White Hart Lane, leikmenn finna meira fyrir því ef allur Anfield pirrast upp en ef útivallarhópurinn gerir það.

  Okkar menn

  Síðan að Klopp kom til Liverpool hefur janúar (og kannski febrúar) verið hans Akkilesarhæll. Desember er klárlega á pappír erfiðasti mánuður ársins en síðan hann byrjaði hjá Liverpool hefur sigurhlutfallið í desember verið 73%, í janúar 41%. Jordan Henderson sagði nýlega að þjálfarinn væri búin að breyta áherslunum fyrir mánuðinn, meðal annars með því að gefa leikmönnum meir frítíma. Það sést kannski best í að Klopp nýtti bikarleikinn gegn Everton til að gefa nánast öllu aðalliðinu frí og bjó þannig til átta daga hvílld fyrir flesta leikmenn.

  Það eru líka jákvæðar fréttir af okkar mönnum utan vallar. Við óskum Sadio Mané til hamingju með að vera valin leikmaður ársins af knattspyrnu sambandi Afríku. Salah hefur unnið þessi verðlaun tvö ár í röð, gott að þeir skipti þessu bróðurlega á milli sín.

  Fyrir viku hefði málsgreinin um meiðslalista liðsins verið kallaður Meiðslabókin. En í Alex Oxlade sneri óvænt til baka á móti Everton. Matip og Shaqiri eru víst orðnir heilir og biðin styttist í Fabinho. Milner og Keita eru því miður enn þá meiddir og óvíst hvenær þeir snúa aftur.

  Fyrir mér er bara ein spurning um byrjunarliðið: Verðlaunar Klopp Lallana fyrir frábæra frammistöðu á móti Everton eða mun vill þjálfarinn auka ógnina frá Oxlade-Chamberlain. Þó ég held að fátt myndi gleðja þann síðarnefnda eins og að skora á móti Tottenham held ég að Lallana verði í byrjunarliðinu, það er bara of stutt síðan Alex kláraði meiðslin.

  Spá

  Ég er hræddari við þennan leik en flesta síðustu leiki. Ekki að því að ég hræðist Tottenham, vegna þess að ég hræðist Mourinho. Í mínum huga er hann teiknimyndaskúrkur fótboltaheimsins sem hefur eingöngu þann tilgang að skemma fyrir hetjunum og eyðileggja það sem er fallegt. En þetta er tímabilið þar sem hið góða sigrar, eftir margar orrustur við vonda karlinn. 2-0 fyrir Liverpool og málið er dautt.

  Kopverjar ættu að vita að flestir pennar síðurnar verða á Sport og Grill á morgun. Um að gera að mæta og taka þátt í rífandi stemmningu. Ég kemst ekki sjálfur, en biðla til lesenda sem mæta að skemmta sér vel og ávarpa þá félaga eingöngu sem „Heims- og Evrópumeistara.“

  YNWA

   

   

  [...]
 • Klopp vs Guardiola

  Pep Guardiola hafði orð á því í sumar að Man City liðið hans fengi ekki þá virðingu sem það ætti skilið fyrir að vinna alla bikarana sem voru í boði á Englandi á síðasta tímabili. Skiljanlegt sjónarmið að mörgu leiti enda eitt besta tímabil félagsliðs á Englandi en fókusinn var þrátt fyrir það miklu meiri á Liverpool. Bæði vegna rosalegrar atlögu að titlinum sem var spennandi fram að síðasta leik og auðvitað vegna afreka Liverpool í Meistaradeildinni.

  Það er ekkert rosalega hressandi þegar liðið sem vann deildina með 100 stigum vinnur hana aftur árið eftir með 98 stigum og tekur báða hina bikarana líka, sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig þeir fóru að því. Þar liggur stóra ástæðan fyrir því að Man City og upp að vissu marki Guardiola fá ekki það hrós eða virðingu sem þeir telja sig eiga skilið. Það er erfitt að hrífast með vægast sagt vafasömu Olíuríki sem dælir sjóðum ríkisins í rekstur Man City og beygir og brýtur þær reglur sem þarf til að koma liðinu í fremstu röð. Þjálfarar, leikmenn og starfslið félagsins er vissulega meira og minna í heimsklassa og að ná virðingaverðum árangri, enda einmitt það sem Abu Dhabi var að kaupa.

  Guardiola er klárlega einn allra besti knattspyrnustjóri í heiminum, þess vegna er hann einmitt hjá Man City núna. Abu Dhabi meira að segja fékk til sín mennina sem voru á bak við tjöldin hjá Barcelona þegar hann var þar. Það er samt erfitt að meta að fullu hversu góður stjóri Guardiola er vegna þess að hann hefur alltaf stjórnað liðum með stjarnfræðilegt forskot á helstu keppinauta heimafyrir. Barcelona var vissulega í samkeppni við svipað dýrt og gott Real Madríd lið en hann tók við liði með Messi, Initesta og Xavi svo fáeinir séu nefndir. Geggjað lið og Guardiola á heilmikið í því og hjálpaði þessum mönnum að verða eins góðir og þeir urðu.

  Hjá Bayern tók hann við liði sem var búið að kaupa alla bestu leikmenn keppinautana heimafyrir. Hann tapaði samt 0-5 samanlagt fyrir Real Madríd í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á fyrsta tímabili. Árið eftir á sama stigi keppninnar vann Barcelona, hans gamla lið fyrri leikinn 3-0 án þess að Bayern næði skoti á markið og einvígið búið. Síðasta árið hans í Þýskalandi tapaði Bayern fyrir þriðja spænska liðinu í undanúrslitum, Athletico Madríd.

  Hann hefur á ellefu árum aðeins upplifað það tvisvar sem stjóri að hans lið vinni ekki deildina, unnið átta en eitt tímabilið var hann í fríi frá þjálfun. Þrátt fyrir allt þetta er hann ekki besti knattspyrnustjóri í heimi að mínu mati. Hann ennþá frekar en Jose Mourinho á alveg eftir að sanna sig með liði sem nær árangri umfram væntingar. Sigur í öllum leikjum (bókstaflega) er á pari við væntinar hjá Man City. Forskotið sem Man City hefur á leikmannamarkaðnum umfram Liverpool er svo galið að það er varla hægt að bera liðin saman, gerum það samt.

  Leikmannakaup Man City og Liverpool

  Guardiola tók við Man City árið 2016 í kjölfar þess að Leicester City vann deildina en Man City hafði þá ekki unnið Úrvalsdeildina tvö tímabil í röð. Þegar Chelsea vann 2015 endaði City með 79 stig. Leicester árið var City með 66 stig sem er magnað fyrir þann mannskap sem þeir voru með og £152m leikmannakaup fyrir tímabilið.

  Guardiola kom inn en náði ekki að breyta gengi liðsins mikið á fyrsta tímabili þrátt fyrir £168m leikmannakaup og enga leikmannasölu, liðið endaði í þriðja sæti með 78 stig, tveimur meira en Liverpool í 4.sæti. Jurgen Klopp var þarna búinn að stýra liði Liverpool síðan í október 2015 en ekki búinn að kaupa neina leikmenn ennþá. Þeir byrja því að byggja sín lið upp í sama glugga sumarið 2016 en alls ekki frá sama byrjunarreit.

  Hópurinn sem Guardiola tók við sumarið 2016 kostaði £438.6m. Þ.e. samanlagt kaupverð hópsins árin áður en Guardiola tók við liðinu. Kaupverð liðsins sem Jurgen Klopp tók við var £247,1m. Rúmlega £190m munur.  Síðan þá hafa bæði félög átt í miklum viðskiptum, bæði kaup og sölur á leikmönnum.

  Guardiola er búinn að kaupa leikmenn fyrir samtals £659,4m og selja á móti fyrir £165,8m. Nettó hefur Man City undir stjórn Guardiola því eytt £493,6m í leikmenn umfram sölu á leikmönnum til að Guardiola geti keppt á jafnréttisgrundvelli við Klopp. Þetta er að meðaltali £164,8m á hverju tímabili á móti £41,4m sölu eða 123,4m að meðaltali í nettó eyðslu á tímabili. Hvernig þessar fjárhæðir ganga upp innan FFP væri mjög fróðlegt að heyra því þetta er fyrir utan launakostnað.

  Frá þeim tíma er Jurgen Klopp tók við Liverpool hefur félagið keypt leikmenn fyrir £393,4m sem er ekki nema £266m minna en Man City er búið að kaupa undir stjórn Guardiola, £66,5m að meðaltali á leikmannaglugga. Forskot sem Guardiola veitir ekkert af en segir bara hálfa söguna.

  Liverpool er á sama tíma búið að selja leikmenn fyrir £323,9m sem er rétt tæplega helmingi meira en Man City. Stærsti munurinn er Coutinho sem Liverpool seldi fyrir £142m en Guardiola hefur aldrei nokkurntíma þurft að selja risaleikmann gegn sínum vilja líkt og Liverpool gerði á miðju tímabili í tilviki Coutinho. City liðið var fyrir með t.d. Sterling, annan lykilleikmann sem Liverpool hefur selt í tíð FSG sem telur ekki í þessari jöfnu.

  Þannig að þessi fjögur tímabil sem Guardiola hefur verið stjóri Man City hefur félagið keypt leikmenn fyrir £266m meira, selt fyrir £158m minna sem gerir £424m meira nettó eyðsla í leikmenn. Hann fær £106m í forskot á hverju tímabili og tók við liði sem kostaði £190m meira.

  Nettó eyðsla Man City í tíð Guardiola er £123m í hverjum glugga á á meðan Klopp hefur samtals þessi fjögur tímabil eytt £69,5m nettó. Liverpool er búið að eyða 56% í leikmannakaup af þeirri fjárhæð sem City er að eyða að meðaltali.

  Eruð þið líka farin að horfa á afrek Klopp vs Guardiola í aðeins öðru ljósi?

  (more…)

  [...]
 • Gullkastið – VARúlfar, Van Wilder og VaraVaraliðið

  Það er ekki hægt að koma því nægjanlega vel til skila hér á landi hversu mikill rígur er á milli Liverpool og Everton í Liverpool borg. Þessi tapleikur Everton í gærkvöldi er mögulega sá versti í nágrannaslag gegn Liverpool frá upphafi og það er svo sannarlega af nægu að taka. Van Wilder stjóri Sheffield United sló metið í flokki andstæðinga þegar kemur að því að hrósa Liverpool liðinu eftir fyrsta leik Liverpool á nýju ári á meðan Wolves voru bölvaður VARÚlfar (afsakið).
  Tottenham og Jose um næstu helgi.

  ATH: Þessi þáttur var tekin upp á meðan það var verið að kveðja jólin á Selfossi, í Breiðholti og Grafarvogi og það fer ekkert á milli mála á köflum í þættinum þó að langmest af látunum hafi nú verið sett á mutu í eftirvinnslu þáttarins.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 271

  Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  [...]
 • Joe Hardy keyptur frá Brentford (Staðfest)

  Liverpool festi kaup á 21 árs framherjanum Joe Hardy frá Brentford fyrr í dag en hann hefur skorað 40 mörk í 80 leikjum fyrir B-lið Brentford og mun hann spila með Liverpool U-23 ára til að byrja með. Rauði herinn er reglulega að fá til sín unga og efnilega leikmenn en það sem gerir þessi kaup öllu áhugaverðari er að Hardy er öllu eldri en gengur og gerist með slíkt sýsl. Kaupin koma í beinu framhaldi af fregnum af því að Rhian Brewster sé að ljúka við líklegan lánssamning til Swansea út tímabilið og mun Hardy því fylla hans skarð í U-23 liðinu og sér í lagi þar sem Paul Glatzel er enn í langtímameiðslum.

  Af Joe Hardy er það að frétta að fyrir utan að vera yngri bróðir Frank og vera afar lunkinn við að leysa ráðgátur að þá er hann fæddur hinu megin Mersey-árinnar í Wirral og var fyrir skemmstu á bókunum hjá Man City áður en hann fór til Brentford árið 2017. Hann á því sterkar rætur í Liverpool-borg og eitthvað hafa Michael Edwards og félagar í kaupnefndinni séð nógu merkilegt við hann til að næla í stráksa fyrir óuppgefið kaupverð. Það verður því áhugavert að sjá hvort að Hardy eigi séns á öskubuskuævintýri undir handleiðslu Klopp og LFC.

  Joe Hardy leysir ráðgátur utan fótboltavallarins með Frank bróður sínum

  Þeir sem vilja sá smá brot af því besta hjá Joe Hardy hjá Brentford B þá gefur þetta þúvarp smá innsýn í hans leikstíl en hann ku vera klassískur stræker í lágvaxnari kantinum en lúnkinn við að klára færin:

  Í öðrum fregnum má því við bæta að það var tvöfaldur bikardráttur fyrir karla- og kvennalið Liverpool í dag. Karlalið Rauða hersins tryggði sér annan bikarleik með sigurmarki Curtis Jones í borgarslagnum og munu í verðlaun hljóta útileik gegn annað hvort Shrewsbury eða Bristol City sem þurfa að mætast að nýju eftir 1-1 jafntefli um helgina. Það einvígi verður útkljáð 14.janúar og mun annað hvort liðið taka á móti Evrópu- og heimsmeisturum Liverpool á bilinu 24.-27.janúar.

  Kvennalið Liverpool átti einnig sinn miða í bikarhatti og drógu heimaleik gegn Blackburn Rovers Ladies og mun sá leikur fara fram þann 26.janúar. Það verður því tvöföld bikarhelgi hjá báðum kynjum Rauða hersins í lokahelgi janúar!

  YNWA

  [...]
 • Liverpool 1 – 0 Everton

  This city has two great teams: Liverpool and Liverpool reserves.
  – Bill Shankly

  Þessi ógleymanlegu ummæli voru endanlega sönnuð í dag þegar Klopp tefldi fram ungu og óreyndu liði gegn aðalliði Everton í bikarnum í dag, og vann að sjálfsögðu öruggan 1-0 sigur.

  Mörkin

  1-0 Curtis Jones (71. mínúta)

  Gangur leiksins

  Það sást fljótlega að rauðklædda liðið sem mætti út á Anfield var ekki með neina minnimáttarkennd gagnvart Everton, jafnvel þó svo að hinir bláu hafi að langmestu leyti teflt fram A liðinu, á meðan langflestir úr okkar A liði horfðu á leikinn uppi í stúku eða mögulega heima í sófa. Liðið einfaldlega barðist, hljóp og pressaði bara nákvæmlega eins og aðalliðið. Að vísu þurftum við að sjá á eftir Milner ganga af velli strax á 9. mínútu, líklega tognaður í læri. Við vonum að sjálfsögðu að þetta reynist ekki alvarleg meiðsli, enda Milner gríðarlega mikilvægur liðinu. Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, en vissulega myndi maður segja að Everton hafi fengið hættulegri færi. Betri andstæðingar hefðu sjálfsagt nýtt þau betur, en Adrian fékk í þrem tilfellum á sig skot sem hann varði, tvö með hægri fætinum og einn skalla sló hann út í teig. Í öllum tilfellum voru skotin tiltölulega beint á hann, en það þarf að verja þessi skot eins og hin. Hinumegin fékk Origi líklega hættulegasta færið, en Pickford varði í horn. Að líkum lætur hefði það nú ekki fengið að standa ef Origi hefði skorað, því hann var rangstæður þegar sendingin kom til hans, en aðstoðardómarinn sá það ekki.

  Staðan 0-0 í hálfleik, og eins og Einar Matthías talaði um í hálfleik, þá var varnarlína með Williams, Phillips, Gomez og Larouci að halda hreinu, og með Adrian í marki. Það má líka rifja upp að aðalliðið fékk einmitt á sig 2 mörk í leik liðanna á Anfield nú í haust. Reyndar skoruðu okkar menn 4 á móti svo það gerði lítið til.

  Hugsanlega áttu einhverjir von á því að Everton liðið myndi stíga upp í seinni hálfleik, en það var aldeilis fjarri því. Í raun voru okkar menn mun ákveðnari og það er ekkert fjarri lagi að segja að þeir hafi átt seinni hálfleikinn með húð og hári. Á 70. mínútu kom önnur skipting okkar manna, en þá kom Oxlade-Chamberlain inná fyrir Takumi Minamino. Sá var þarna að spila með liðinu í fyrsta skipti, og þó hann hafi ekki skorað mark þá smellpassaði hann alveg inn í liðið. Hann var greinilega að spila svipað hlutverk og Firmino, þ.e. hann leiddi framlínuna en var samt duglegur að koma til baka og vinna boltann á miðjunni. Þá var afskaplega jákvætt að sjá Ox aftur inni á vellinum eftir meiðslin sem hann varð fyrir í Qatar.

  Og þessi skipting átti eftir að skila árangri strax mínútu síðar. Ox tók sér stöðu vinstra megin á miðjunni, Curtis Jones fór fram vinstra megin og Origi tók stöðuna sem Minamino hafði spilað. Ox vann boltann úti á kanti, sendi á Origi sem spilaði upp að vítateigshorninu, tók nett samspil við Jones á vítateigslínunni, þóttist ætla að spila inn í teig en lék svo boltanum aftur á Jones sem var rétt fyrir utan teiginn. Curtis Jones – og það er rétt að rifja það upp á þessu augnabliki að hann er innfæddur scouser – hlóð í eitt stykki sveigbolta sem fór í slána og inn rétt við samskeytin, gjörsamlega óverjandi fyrir Jordan Pickford. Fagnaðarlætin voru gríðarleg eins og er rétt hægt að ímynda sér.

  Eftir markið hélt Liverpool einfaldlega áfram að ráða leiknum, undir lokin gerði svo Klopp sína þriðju skiptingu þegar Elliott fór af velli og Brewster kom inná. Við erum því að tala um að reynsluboltar eins og Henderson og Mané sátu á bekknum allan tímann, fóru kannski eitthvað aðeins að hita upp, en annars reyndi ekkert á þá.

  Liðið sigldi þessu síðan í höfn á öruggan hátt, og ég efast um að Adrian hafi spilað jafn leiðinlegan og viðburðarlítinn hálfleik á ferlinum.

  Bestu menn

  Hér er afskaplega erfitt að ætla að taka einhvern einn út fyrir sviga. Það var greinilegt að þarna voru komnir leikmenn sem voru hungraðir í að spila, og að standa sig vel. Það gerðu þeir heldur betur, allir með tölu. Adrian gerði vel í þau skipti þar sem reyndi á hann í fyrri hálfleik. Gomez stýrði vörninni eins og herforingi með áratuga reynslu á bakinu (hann er 22ja ára). Phillips var kannski ekki alveg jafn öruggur og Gomez, enda að spila sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir félagið, en var engu að síður að spila afskaplega vel. Yasser Larouci var sömuleiðis að eiga sína frumraun með aðalliðinu, jú hann er greinilega hrár og átti eitt smá Cissokho augnablik fimm mínútum fyrir leikslok, en var annars sívinnandi og barðist eins og ljón. Neco Williams sýndi mjög vel af hverju hann hefur fengið að æfa með aðalliðinu síðustu vikur og mánuði. Þetta er sóknarsinnaður bakvörður og því að mörgu leyti mjög svipaður Trent. Aðeins líflegri ef eitthvað er, en vantar að sjálfsögðu mikið upp á að ná sömu sendingargetu eins og Trent. Engu að síður, þetta er 18 ára strákur sem lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu gegn Arsenal í Carabao Cup í haust, en var að sýna að það er alveg hægt að leita til hans ef aðalliðið vantar varaskeifu í hægri bak. Chirivella – sem við skulum muna að hefur spilað sem fyrirliði Liverpool – átti bara fínasta leik á miðjunni. Lallana – sem tók við fyrirliðabandinu af Milner þegar hann fór af velli – átti sömuleiðis virkilega góðan leik. Í framlínunni þá höfum við svosem alveg séð Origi refsa Everton harðar, en hann skilaði sínu engu að síður. Minamino gerði það sömuleiðis, Klopp á örugglega eftir að prófa hann í fleiri stöðum en þessari en við sjáum betur á næstu vikum og mánuðum (misserum?) hvar hann mun njóta sín best. Elliott átti líka fínan leik. Síógnandi. Oxlade-Chamberlain átti virkilega góða innkomu, það sem var nú gott að sjá hann koma inná.

  Við skulum að lokum tilnefna Curtis Jones sem mann leiksins. Alveg örugglega ekki leiðinlegt fyrir scousera að skora sigurmarkið í derby leik gegn Everton. Það er líka rétt að taka fram að hann er yngsti leikmaður til að skora gegn hinum bláklæddu síðan Robbie Fowler nokkur skoraði gegn þeim í leik árið 1994, en hann var þá tveim dögum yngri en Jones er núna.

  Umræðan

  Það var greinilegt á umræðunni að mörgum fannst Klopp vera að taka mikla áhættu með því að stilla upp svona ungu og óreyndu liði gegn hinum bláklæddu, sem voru sjálfir að stilla upp sínu sterkasta liði. En nú er staðan einfaldlega orðin þannig að hópurinn veit hvernig á að spila, og það skiptir kannski ekki alveg öllu máli hvaða leikmenn eru í hverri stöðu (OK jú það skiptir nú einhverju smá máli). Þau meiðsli sem Milner varð fyrir sýna líka af hverju þetta var nauðsynlegt: menn eru einfaldlega orðnir þreyttir. Eftir á að hyggja hefði alveg mátt segja að það hefði mátt hvíla Milner, enda hljóp hann einhverja 13 kílómetra í leiknum á fimmtudaginn. En á hinn bóginn þá er Milner líka vél sem mallar endalaust, og því ekkert skrítið að honum skyldi treyst fyrir þessum leik sömuleiðis.

  Liðið sem Klopp stillti upp kostaði rétt tæplega 44 milljónir punda, á meðan Everton kostaði rúmlega 220 milljónir punda. Þá var meðalaldur liðsins rétt rúmlega 22 ár, enginn leikmanna var með eins stafs skyrtunúmer, og meðaltal skyrtunúmera var rétt rúmlega 42. Tveir leikmenn sem hófu leik voru að spila sinn fyrsta leik með aðalliðinu: Minamino og Phillips. Larouci átti jafnframt sína frumraun. Williams hafði spilað einn aðalliðsleik, leikir Jones með aðalliðinu eru teljandi á fingrum annarar handar. Chirivella hefur ekki spilað neitt allt of marga leiki með aðalliðinu þrátt fyrir að vera hérumbil aldursforsetinn í hópnum. Og Elliott? Ennþá 16 ára.

  Það var afar jákvætt að komast í gegnum þessa leikjatörn sem var í desember og byrjun janúar. Næsti leikur er eftir 6 daga, en þá heimsækja okkar strákar Spurs. Síðan mæta United menn á Anfield helgina þar á eftir, rauðu djöflarnir þurfa reyndar að spila seinni leikinn gegn Wolves í bikarnum í vikunni þar á undan, og það gæti alveg hjálpað okkar mönnum.

  Það neikvæða við þetta var að missa Milner í meiðsli, en að sama skapi var gott að fá Chamberlain aftur á völlinn. Þá er Fabinho víst farinn að hlaupa aðeins úti á velli, sjálfsagt er eitthvað í hann þrátt fyrir það, en styttist vonandi.

  Semsagt, okkar menn komnir í næstu umferð í FA bikarnum. Það verður væntanlega dregið annað kvöld, eftir að Arsenal og Leeds eigast við á Emirates. Næsta umferð verður leikin dagana 24. – 27. janúar, og rétt að muna að okkar menn eiga leiki fimmtudaginn 23. janúar gegn Úlfunum, og svo verður leikurinn gegn West Ham sem var frestað í desember leikinn þann 29. janúar. Það er því alls ekkert ólíklegt að svipað lið fái að halda áfram með þessa keppni. En við skoðum það auðvitað betur þegar nær dregur. Í millitíðinni fögnum við enn einum sigrinum á Everton!

  [...]
 • Liðið gegn Everton

  Búið að tilkynna liðið sem mætir Everton í bikarnum eftir rétt tæpa klukkustund, eða kl. 16:01 að staðartíma:

  Bekkur: Kelleher, Mane, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Brewster, Hoever, Larouci.

  Ómerkti karlinn á teikningunni er Chirivella, en hann hefur ekki ennþá fengið úthlutað mynd á Thisisanfield. Afar jákvætt að Ox sé metinn hæfur til að vera á bekknum. Annars gætum við alveg séð hann, Mané eða Henderson fá mínútur ef það hallar eitthvað á okkar menn. Þess má geta að Everton stilla upp nánast sínu sterkasta liði:

  Pickford

  Coleman – Holgate – Mina – Digne

  Sidibé – Gylfi – Schneiderlin – Walcott

  Calvert-Lewin – Richarlison

  Það verður því áhugavert að sjá hvort að B-lið Liverpool sé líka umtalsvert betra en A-lið Everton.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Kvennaliðið mætir Brighton, U23 mætir City

  Það er nóg að gera hjá liðunum okkar í dag, við bíðum jú öll eftir því að sjá aðalliðið mæta Everton á Anfield, en í millitíðinni eru bæði U23 og kvennaliðið í eldlínunni.

  U23 liðið mætir jafnöldrum sínum hjá City núna kl. 13, og uppstillingin þar gefur ágæta vísbendingu um það hvernig hópurinn verður samsettur hjá aðalliðinu á eftir. Svona stillir Critchley upp:

  Winterbottom

  Gallacher – van den Berg – Norris – Boyes

  Clarkson – Christie-Davis – Dixon-Bonner

  Hill – Cain – Bearne

  Bekkur: Atherton, Hardy, Walls, Varesanovic

  Semsagt, enginn Kelleher, Williams, Hoever, Phillips, Larouci, Jones, Brewster eða Elliott, sem bendir til að þeir verði a.m.k. á bekk á eftir. Sá eini sem var hugsanlega til umræðu með að spila á móti Everton en spilar núna á eftir með U23 er Sepp van den Berg.

  Glöggir lesendur taka eftir að Herbie Kane er líka hvergi sjáanlegur, en hann gekk til liðs við Hull að láni núna um helgina og átti stoðsendingu í fyrsta leik sínum með liðinu í gær.

  U18 liðið var líka í eldlínunni í gær, og vann góðan 3-0 sigur á Blackburn Rovers, þar sem Layton Stewart skoraði 2 mörk.

  Núna kl. 14 hefja svo stelpurnar okkar leik gegn Brighton, en þetta verður fyrsti leikurinn í seinni hluta tímabilsins. Eins og kom fram síðast náðu stelpurnar að skríða upp úr neðsta sætinu með jafntefli gegn Chelsea í síðasta leik, og nú er að vona að þær nái að sýna hvað í þeim býr. Þeim barst liðsauki núna rétt fyrir áramótin, en þá gekk til liðs við hópinn Rachel Furness en hún kemur frá Reading. Rachel hefur unnið sér það til frægðar að hafa spilað með Grindavík árið 2010. Hún er 31 árs og spilar fyrst og fremst á miðjunni, en hefur átt spretti bæði á kantinum og sem framherji. Þá hefur hún spilað 60 landsleiki með Norður-Írlandi.

  Liðinu verður stillt upp svona:

  Kitching

  Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

  Bailey – Furness

  Lawley – Linnett – Charles
  Babajide

  Bekkur: Preuss, Roberts, Rodgers, Murray, Kearns, Hodgson, Sweetman-Kirk

  Furness kemur semsagt beint inn í byrjunarliðið, á kostnað Rhiannon Roberts sem fer á bekkinn. Reikna annars með að það sé áfram verið að spila 4-2-3-1 með Kirsty Linnett í holunni, enda virtist liðið vera farið að kunna ágætlega við þá uppstillingu í síðustu leikjunum fyrir jól.

  Við minnum á að leikurinn verður sýndur beint á The FA Player eins og venjulega, og við uppfærum þessa færslu með úrslitum og stöðunni í deildinni að leik loknum.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close