Podcast: Kaldur, blautur gúmmíhanski í smettið

„Ég get ekki hætt að hugsa um þennan helvítis Crystal Palace leik“ sagði Klopp á síðasta tímabili og það breyttist heldur betur ekkert á þessu tímabili. Tapið núna var jafnvel ennþá verra og meira pirrandi. Við félagarnir náðum þó alveg að halda ró okkar í umræðu um þennan bölvaða leik og fórum svolítið um víðan völl í þætti kvöldsins. Um að gera kanna það, þér líður betur á eftir.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Kristján Atli og Maggi

MP3: Þáttur 150

Liverpool – C.Palace 1-2 (leikskýrsla)

1-0 Coutinho 24.mín
1-1 Benteke 42.mín
1-2 Benteke 75.mín

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Veit ekki hvað maður á að segja. Coutinho skoraði frábært mark og átti mögulega að fá víti og bar af fannst mér. Wijnaldum var duglegur og ágætt framlag hjá Firmino inn á milli. Mignolet ekki kennt um mörkin, annað ekki.

VOND FRAMMISTAÐA

Margt hægt að draga þar upp. Lovren með hræðilega vörn í marki eitt og var almennt óöruggur og slakur. Fór svo útaf meiddur, var mögulega ekki leikfær…en það er engin afsökun. Eftir flotta leiki að undanförnu var Emre Can hræðilegur og varnarleikurinn hans í sigurmarki Palace var sjokkerandi. Milner og Clyne skiluðu engu fram á við og svæðin á bakvið þá nýttu Palace svakalega. Lucas átti vondan dag og Origi vill ég eiginlega ekki hafa of mörg orð um. Hann er að mínu mati einu númeri of lítill í það að leiða sóknarlínu LFC og það svosem vita þeir hér sem að hlusta á podcöstin okkar. Frammistaðan í dag er nákvæm ástæða þessarar skoðunar minnar á honum. Svo auðvitað verðum við að ræða það hvort að frammistaða þjálfarateymisins er ekki vond. Enn einn ganginn virkum við ráðalitlir í leikjum gegn liðum sem parkera til baka og sækja hratt.

UMRÆÐAN EFTIR LEIK

Fínir punktar i okkar umræðu við þráðinn og flesta höfum við lesið áður. Einhæfur sóknarleikur, nýtum ekki færin, höldum bolta vel en sköpum lítið. Barnaleg varnarmistök gefa mark og eins og Big Sam sagði veit allur heimurinn að við erum lélegir að verjast hornum…og það virðist bara ekkert ætla að lagast hjá Klopp og liðinu. Svo auðvitað er það að horfa á bekk rúmlega 70 leikja reynslu í EPL í svona úrslitaleik. Það auðvitað verður að skoða út frá tvennu. Annars vegar er 5 -7 manna meiðslalisti yfir heilt tímabil ekki tilviljun. Annað hvort er of mikið álag eða of mikið af meiðslapésum í hópnum og hvort sem er þarf að leiðrétta. Hins vegar þarf að velta fyrir sér enn og aftur hvers vegna ekki var keypt meira af gæðaleikmönnum síðasta sumar og engu bætt við í vor. Mig langar svo líka til að ræða hér stuttlega lykilorð sem þarfnast sér pistils sem vonandi kemur úr tölvunni minni núna þegar ég næ úr mér hrollinum eftir daginn.

STÖÐUGLEIKI

Lykilorð liðs sem ætlar að ná árangri er í þessu orði falið. Það höfðum við í fyrri umferðinni og vorum þá heldur betur að líta vel út. Frá áramótum hefur þetta einfaldlega ekki verið uppi á teningnum og er ástæða þess að við kvíðum heimaleikjum gegn liðum sem berjast og ástæða þess að Anfield tæmdist snemma enn einn ganginn nú að undanförnu. Það eru ákveðin atriði sem þarf að skoða þegar kemur að stöðugleika en það er ekki hægt á svona kvöldi. Sá pistill er í smíðum…

NÆSTU VERKEFNI

Með þessu tapi núllast út frábær sigur síðustu helgar og hefur gefið United og Arsenal nýja von. Ég ætla þó enn að standa við það að 75 stig geti gefið 4.sætið og 76 stig geri það pottþétt. Ef liðið hrekkur aftur í gang, vonandi fáum við Hendo og Lallana inn í hóp fyrir Watford leik eftir átta daga og við komumst aftur með hausinn upp úr sandinum. Steini talaði um fyrir þennan leik að framundan væru bara úrslitaleikir.

Eftir leiki dagsins í deildinni er það algerlega ljóst að svo er. Mikið vona ég að þjálfarateymið finni lausnir með þessum leikmannahóp og vinni þau stig sem þarf til að þetta tímabil líti ekki illa út og setji gríðarlega pressu á sumarið. En er ég sannfærður? Í dag er það alls ekki…

Liverpool – C.Palace 1-2 (leik lokið)

Leik lokið Enn ein ömurleg úrslit gegn fallbaráttuliði á Anfield. Það verður smá bið í leikskýrslu, núna væri töluð dónaleg íslenska.

ÖMURLEGT!!!

75.mín Benteke skorar aftur nú eftir horn. Liverpool er að reyna henda Meistaradeildarsæti frá sér og gengur vel. Varnarleikur Lovren í aðdragandanum var glæpsamlegur og Can steinsofnaði í dekkningunni à Benteke.

Hálfleikur:Gríðarlega svekkjandi að fara inn í leikhlé með þessum hætti. Það er eins og Liverpool hreinlega vilji ekki hafa forystu svo oft henda þeir henni frá sér með hræðilega mistækum varnarleik. Benteke skorar auðvitað á Anfield fyrir alla aðra en Liverpool en það kannski kemur ekki á óvart þar sem hann var ekki að spila gegn vörn Liverpool þegar hann var leikmaður liðsins. Coutinho þarf að bjarga okkur aftur í seinni hálfleik, það er ljóst.

43.mín: 1-1 Benteke. Auðvitað gefur blessuð vörnin okkar mark á silfurfati. Lovren var út á túni og réð ekkert við áhlaup Palace manna upp vinstra megin og Benteke hamraði auðveldlega fyrirgjöf Cabaye í netið. Hroðalega pirrandi og dæmigert fyrir Liverpool.

35.mín: Fínn leikur hjá Liverpool það sem af er, markið var mjög mikilvægt enda sitja Palace menn mjög aftarlega eins og við var búist fyrir leik. Vonandi opmast þetta eitthvað meira núna.

24.mín: MARK, FRÁBÆR AUKASPYRNA HJÁ COUTINHO SEM HANN VANN SJÁLFUR. KLÍNDI TUÐRUNNI Í BLÁHORNIÐ AF SVONA 25 METRA FÆRI.

1.mín: Ballið er byrjað á Anfield, Liverpool sækir á Annie Road í fyrri hálfleik, koma svo ekkert rugl í dag Liverpool.

Fyrir leik (EMK):

14:30 (EMK): Byrjunarliðið er komið

Bekkur: Karius, Moreno, Gomez, Alexander-Arnold, Grujic, Woodburn, Brewster

Lucas og Matip ná báðir þessum leik sem var aðal spurningarmerkið fyrir leik. Sturridge er meiddur og bekkurinn því ansi þunnur en vonandi er byrjunarliðið bara nógu gott.

Áhugavert að Brewster er á bekknum frekar en Harry Wilson, hvað hann þarf að gera meira til að komast í hópinn væri fróðlegt að vita.13:15 (EMK): Hvernig verður byrjunarliðið? Liverpool Echo er með skemmtilegan fídus þar sem hver og einn getur stillt upp sínu liði. Matip og Lucas eru pottþétt í liðinu ef þeir eru heilir en hvorugur æfði í vikunni. Klavan verður pottþétt ekki með. Fer Can í miðvörðinn og Milner á miðjuna? TAA eða Moreno þá í bakvörðinn. Eða Can og Coutinho eina línu niður og einhver af ungu strákunum á vænginn. Joe Gomez gæti fengið sénsinn og komið beint í miðvörðinn, eins gæti Can farið niður og Grujic komið inn. Vonum að ekkert af þessu þurfi og bæði Matip og Lucas geti spilað.

12:00 (EMK): Það kemur líklega engum á óvart að Daniel Sturridge er meiddur, alltaf jafn gott að treysta á hann. Þetta breytir líklega litllu hvað byrjunarliðið varðar en veikir auðvitað hópinn.Þá er komið að leik í 34.umferð ensku úrvalsdeildarinnar þegar Stóri Sam kemur með Suð-Londonbúana í Crystal Palace upp í norðvestrið og beinir rútunni inn Walton Breck Road til að leika við heimamenn, okkar drengi, í Liverpool FC.

Engar nýjar fréttir hafa borist úr leikmannahópnum frá því Steini hitaði upp fyrir leikinn í gær svo við sjáum hvort hans hugmynd að liði verður rétt.

Í Liverpool er mildur vordagur, 11 stiga hiti og sólin gægist oft í gegnum skýin, við treystum á það að við endum sólarmegin í dag!

Þegar líður nær leik setjum við inn tístkeðjuna okkar og komum svo með byrjunarliðsfrétt áður en við svo flytjum hér uppfærðar stöður í leik dagsins.

Úrslitaleikur 1/5

Já ég veit, þreyttasta klisja í veröldinni og allt það. Eeeen, þetta er bara alls ekkert flókið. Meistaradeildarsæti er gjörsamlega í okkar eigin höndum. Það er alveg sama hvað hin félögin gera, Liverpool endar örugglega í topp 4 ef liðið klárar þessa 5 leiki sem eftir eru. Jú, einhver lið eiga leiki til góða og allt það, en það er slatti af innbyrðisleikjum eftir og þar tapast stig, það er bara þannig. Ef við skoðun eingöngu innbyrðisleiki þá sem eftir eru hjá þessum efstu 6 liðum sem eru að keppa um þessi sæti, þá eru það þessir:

Man.City – Man.Utd
Tottenham – Arsenal
Arsenal – Man.Utd
Tottenham – Man.Utd

Þar fyrir utan, ef menn draga Everton inn í umræðuna (ekki að þeir séu að fara að blanda sér í þessa baráttu, heldur gætu þeir kroppað stig af mótherjum okkar), þá eiga þeir þessa leiki eftir:

Everton – Chelsea
Arsenal – Everton

Sem sagt, þau 2 lið sem reyna einna helst að ógna Meistaradeildarsæti hjá okkar mönnum, þau eiga ansi hressilega 3 leiki hvort og þar af innbyrðisleik. Það stefnir því allt í hörku, hörku spennandi „Run-in“ í keppninni um sæti í peningadeildinni margfrægu. Það voru ýmsir svartsýnir fyrir tímabilið og bjuggumst ekki við okkur í þessari baráttu, en ég held að flestir stuðningsmenn hefðu tekið þessari stöðu opnum örmum þegar liðið á aðeins 5 leiki eftir. Af þessum 5 leikjum sem eftir eru, þá eru 3 á Anfield og 2 á útivelli. Aðeins 1 af þessum leikjum er gegn liði sem er í einhverri alvöru fallbaráttu og það er lið Boro í lokaumferðinni og eru nánast allar líkur á því að þeir verði fallnir þegar kemur að þeim leik.

En leikir vinnast aldrei á pappír og aldrei fyrirfram. Þetta Liverpool lið er búið að lenda í fáránlegum meiðslapakka í vetur, en eru samt í þessari stöðu. Ef ég ætti að setja erfiðleikastuðul á þessa leiki sem eftir eru, þá myndi ég raða þeim svona, sá erfiðasti er efst:

Liverpool – Crystal Palace
West Ham – Liverpool
Liverpool – Southampton
Watford – Liverpool
Liverpool – Middlesbrough

Sem sagt, sá leikur sem ég tel að verði erfiðastur fyrir okkar menn, er einmitt þessi Palace leikur. Þetta Palace lið var auðvitað að spila langt langt undir getu undir stjórn Alan Pardew. Því miður er Sammi sopi kominn þangað með öll sín leiðindi, því ég hef lengi verið með soft spot fyrir þessu Palace liði. Þeir eru með frábæra stuðningsmenn, eina þá skemmtilegustu á Englandi, þeir eru með hellings tengingu við Liverpool og hafa oft spilað alveg þrælskemmtilegan bolta. Samma sopa vinkillinnn skemmir þetta mikið fyrir mér, verð bara að viðurkenna það. En það verður ekkert elsku mamma neitt þegar þeir mæta á Anfield, svo sannarlega vonar maður að þeir lendi í yfirvöltrun af hálfu okkar manna.

Þetta Palace lið er einfaldlega með alveg hörku mannskap, sér í lagi framarlega á vellinum. Van Aanholt, Tomkins, Dann, Sakho, Schlupp, Cabaye, Townsend, Puncheon, Remy, Zaha, Benteke og Wickham. Þessi mannskapur á aldrei að vera í fallbaráttu. Það eru þó skörð hoggin í þeirra lið eins og okkar. Sakho má ekki spila, þar sem hann er í okkar eigu og þess utan er Scott Dann meiddur. Fyrir utan þá tvo, þá eru þeir Connor Wickham og Souare fjarri góðu gamni, ekki það að þeir séu algjörir lykilmenn, en samt öflugir leikmenn. Stóra málið verður hvernig við náum að ráða við okkar gamla kunningja, Christian Benteke. Sá hefur í gegnum tíðina reynst okkur erfiður, bæði þegar hann hefur spilað á móti okkur og ekkert síður þegar hann var að spila með Liverpool. Erfiður framherji svo sannarlega.

Við megum alveg eiga von á fullt af fyrirgjöfum og talsvert af kýlingum fram völlinn. Palace eru með fljóta stráka í þeim Puncheon, Townsend og Zaha. Þeir munu nýta sér þá til að komast á bakvið bakverðina okkar, þá sér í lagi hægra megin. Ég á von á árás frá Zaha á Milner allan leikinn, það verður líklegast dagsskipunin og koma boltanum fyrir á Big Ben. Ég reikna fastlega með því að við fáum á okkur mark/mörk í þessum leik. Hef ekki nokkra trú á því að við náum að halda hreinu. Á móti hef ég tröllatrú á okkur hinum megin á vellinum. Það að þeir hafi hvorki Sakho eða Dann, veikir þá mjög. Varnarmenn þeirra munu líklegast liggja djúpt og það á hreinlega að opna möguleika fyrir okkar menn. Við erum með góða skotmenn sem hreinlega eiga að nýta sér slíkt. Ætli við sjáum ekki Tomkins og Martin Kelly saman í miðvarðarstöðunum.

En að okkar mönnum. Samkvæmt Physioroom erum við á toppnum á einum stað í deildinni, það er þegar kemur að meiðslum. Þeir Lucas og Matip eru tæpir fyrir þennan leik en það er ljóst að Klavan, Mané, Lallana, Henderson, Ejaria og Ings munu ekki taka þátt í leiknum. Við hreinlega VERÐUM að fá Matip inn í þennan leik, hann er sá eini sem á einhvern séns í Benteke í loftinu. Hvað annars mun Klopp gera ef bæði Lucas og Matip verða frá? Það er ekki hægt að droppa Can niður í vörnina, þar sem bæði Hendo og Lallana eru fjarri góðu gamni. Erum við að tala um að horfa fram á að Joe Gomez komi alveg hrár inn í þessa mikilvægu miðvarðarstöðu? Nei, nú krossar maður fingur og vonar það besta með Matip, það er algjört lykilatriði. Það er allavega ljóst að ef þessir tveir verða ekki með, þá þurfa menn ekkert að velta því neitt fyrir sér hvort hann byrji með 3 miðverði. Þeir eru einfaldlega ekki til staðar. Ekki það að ég búist við slíkri uppstillingu, síður en svo, held að það sé ekki fræðilegur séns.

Ég ætla mér að vera bara hrottalega bjartsýnn og spá því að Matip verði klár í slaginn. Vörnin verður því ansi hreint kunnugleg, eða sú sterkasta sem við getum stillt upp. Miðjan er nánast sjálfsskipuð líka, ef við erum heppnir og Lucas sé klár í slaginn. Í mínum huga er þetta bara spurning um hvort Origi eða Sturridge byrji frammi. Auðvitað gæti Klopp sett Origi út á kant og Coutinho niður á miðjuna. Ég hef bara einhvern veginn ekki trú á því að hann byrji með báða framherjana í leiknum. Ég væri svo sem alveg til í það, en hef ekki trú á því.

Svona reikna ég því með að Jurgen Klopp stilli upp liðinu, og ég bara treysti á það að menn séu heilir:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Firmino – Sturridge – Coutinho

Ef Lucas er ekki heill, þá tippa ég á þetta svona:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Wijnaldum – Can – Coutinho

Origi – Sturridge – Firmino

Eins og fyrr segir, þá vil ég bara ekki hugsa þá hugsun til enda ef Matip spilar ekki leikinn. Ég held því líka fram að liðið verði sterkara með Lucas í varnartengiliðnum heldur en að setja Coutinho niður á miðjuna. Johan Cabaye stjórnar miðjunni hjá Palace og hann má ekki fá neitt pláss til að dreifa boltanum. Staða djúpa miðjumannsins mun verða mikilvæg í þessum leik því Palace munu reyna að sækja á okkur og það hratt. Okkar flinku menn eru það góðir í fótbolta að þeir eiga allan tímann að geta skorað mörk á þessa Palace vörn og þurfa einfaldlega að tryggja það að þeir skori fleiri slík en mótherjinn.

Ég þrái það að geta horft á Manchester slaginn í næstu viku og geta nánast fagnað hvaða úrslitum sem er í þeim leik. Til þess að veit mér þá ánægju, þá þurfum við að klára þetta Palace lið og þennann tyggjó jórtrandi Ferguson Wannabe. Sigur á Palace gerir það að verkum að jafntefli í Manchester slagnum væri algjörlega frábært og myndi þýða það að hvorugt þeirra ætti séns á að ná okkur að stigum ef við klárum okkar síðustu 4 leiki. Sigur City myndi gera það að verkum að brekka Man.Utd yrði svaðalega brött og öll áhersla þeirra myndi snúast yfir á Evrópudeildina. Sigur Man.Utd myndi breikka bil okkar í þetta City lið og auka til muna möguleika okkar á að lenda í 3ja sæti í deildinni. En allt þetta hverfur ef okkar menn taka ekki lið Crystal Palace á Anfield. Auðvitað er þetta ekkert búið þótt illa færi, en Jeremías góður hvað sigur myndi setja okkur í sterka stöðu.

Ég ætla að spá okkur sigri og að lokatölur verði 3-1. Daniel Sturridge, Firmino og Coutinho munu sjá um að sigla þessu í höfn fyrir okkur.

Hvar þarf að styrkja liðið: Varnarmenn

Liverpool liðið núna minnir svolítið á Spice boys liðið hans Roy Evans sem var frábærlega mannað fram á við en féll á varnarleiknum. Ef eitthvað er var varnarleikurinn aðeins betri þá og er Nei Ruddock t.a.m. með betri tölfræði varnarlega en Lovren og Sakho núna. Vörnin er ca. á pari við tímabilin tvö (´97-´99) þegar James var í marki með Bjorn Tore-Kvarme og Phil Babb fyrir framan sig. Liðið er að skora töluvert á móti á þessu tímabili rétt eins og liðið gerði undir lok síðustu aldar en ekki nærri því nóg til að það dugi. Sókn vinnur leiki, vörn vinnur titla. Það er millivegur á þessu en þetta á ennþá við.
Continue reading