Hoffenheim 1 – 2 Liverpool

Mörkin:
0-1 Trent Alexander-Arnold
0-2 Nordtveit (sjálfsmark)
1-2 Uth

Bestu menn Liverpool
Trent Alexander-Arnold hlýtur að vera þar ofarlega á blaði. Þessi drengur er hlaupandi allan leikinn, og er greinilega þarna inná til að gera gagn, sem hann svo sannarlega gerir. Jú það má færa rök fyrir því að hann hefði ekki átt að kvarta yfir mögulegri rangstöðu í marki Hoffenheim, heldur hlaupa bara á eftir manninum. Gerum okkur samt grein fyrir því að þetta er 18 ára strákur sem á margt eftir ólært. Nú er hann semsagt sá sem tekur hornspyrnurnar öðru megin (á móti Moreno að því er virðist), og þetta var alveg örugglega ekki síðasta aukaspyrnan sem hann tekur. Og þvílík spyrna. Við skulum bara orða það þannig að Clyne er svo fjarri því að fara að labba eitthvað beint inn í liðið þegar hann kemur aftur til leiks.

Simon Mignolet verður að fá kredit fyrir að verja víti sem og að eiga 2-3 góðar vörslur til viðbótar. Jú vítið var lélegt, en það er auðvelt að segja það eftirá. Ef Mignolet hefði skutlað sér til hægri þá hefði líklega enginn kvartað yfir því hvernig vítið var tekið, bara dæmigert víti beint á miðju. Hann hinsvegar beið, og uppskar eftir því. Hins vegar er ennþá mikið óöryggi í varnarleik liðsins, hluti af því liggur í því hvað hann er ennþá ragur að hlaupa út í boltann. Eins mætti hann alveg vera fljótari að koma honum í leik. En í dag stóð hann sig vel.

Aðrir leikmenn sem nefna mætti eru Mané sem átti góða spretti, Can sem var sami trukkurinn og oftast, og Matip sem er líklega besti varnarmaður liðsins.

Hvað varamennina varðar, þá kom Milner inná og stóð sig vel, átti vissulega sendinguna sem gaf seinna markið. Solanke virkaði ferskur í þessar mínútur sem hann fékk, og ég væri alveg til í að fá að sjá meira af honum. Grujic átti fína innkomu, þar á meðal fína blokkeringu í uppbótartíma.

Hvað hefði mátt betur fara
Það voru of margir leikmenn sem voru ekki nægilega sýnilegir. Firmino sást lítið, en hann átti vissulega sendinguna á Milner sem gaf seinna markið, og þó hann hafi e.t.v. ekki sést mikið þá sá maður ekki heldur mikið af mistökum hjá honum. Ég ætla því ekki að kvarta yfir honum. Salah var hins vegar mistækur, átti nokkur færi sem hann hefði örugglega getað afgreitt betur. Miðjan virkaði ekki nógu vel á mig í þessum leik, það er eins og það vanti einhvern neista í Henderson og Winjaldum. Þá var Lovren mistækur fyrri hlutann, fékk jú á sig þetta víti, en átti svo tvo góða skalla úr hornspyrnum sem hefðu með smá heppni getað gefið mörk. Moreno var svo bara Moreno, hættulegur fram á við en óöruggur í varnarvinnunni.

Umræðan eftir leik
Það er auðvitað gríðarlega sterkt að hafa unnið á þessum heimavelli Hoffenheim, en þetta var fyrsti tapleikur Hoffenheim á heimavelli síðan í maí 2016. Tvö útivallamörk gætu vel skipt máli þegar upp er staðið, þó það borgi sig alls ekki að stóla á það. Ég er nokkuð viss um að við hlökkum öll til seinni leiksins, en spennustigið verður sjálfsagt nálægt því að vera óbærilegt.

Í millitíðinni fáum við svo Crystal Palace í heimsókn kl. 14 næsta laugardag. Þá fáum við að sjá nýja grasið á Anfield. Munum við fá að sjá einhverja nýja leikmenn? Ég stórefast um það, en það væri gaman að fá að sjá litla galdramanninn okkar.

Liðið gegn Hoffenheim

Þá er búið að tilkynna liðið sem mun mæta Hoffenheim. Fátt sem kemur á óvart, sama lið og um helgina, og jafnframt sami bekkur.

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mane

Bekkur: Karius, Klavan, Gomez, Milner, Solanke, Origi, Grujic

Það er að sjálfsögðu löngu orðin klisja að tala um mikilvægasta leik liðsins í langan tíma, því auðvitað er næsti leikur alltaf sá mikilvægasti. Og það á einmitt akkúrat við núna. Hafi einhverntímann verið mikilvægt að liðið standi sig þá er það í þessum leik, bara eins og eitt stykki meistaradeild sem er í húfi. Vissulega væri gaman ef liðið myndi gefa Siobhan Chamberlain, markverði Liverpool Ladies, eins og eitt stykki sigur í afmælisgjöf, en hún á einmitt afmæli í dag.

Það er rétt að minna á umræðuna á twitter undir #kopis hashtagginu, nú og svo hér á blogginu:


Það kemur svo leikskýrsla skömmu eftir leik, og vonandi verður það jákvæð skýrsla!

Upphitun: Hoffenheim úti

Síðast þegar Liverpool tók þátt í Evrópukeppni fór liðið alla leið í úrslit en leiðin þangað jafnaðist vel á við það sem bíður í Meistaradeildinni, vonandi býr liðið að þeirri reynslu.

Síðasti leikur Liverpool í Meistaradeildinni var árið 2014 gegn Basel og er það jafnframt síðasta Meistaradeildar upphitunin mín.

Meistaradeildarsæti væri risaskref fyrir Liverpool í afskaplega hægri endurkomu félagsins á þessum áratug. Hoffenheim er síðasta hindrunin og því ekki úr vegi að byrja á því að kynna sér það félag og hvaðan þeir koma.
Continue reading

Watford 3-3 Liverpool

1-0 – Okaka 8.mín
1-1 – Mane 29.mín
2-1 – Okaka 32.mín
2-2 – Firmino 55.mín
2-3 – Salah 57.mín
3-3 – Britos 94.mín

Bestu leikmenn Liverpool
Eins og svo oft áður sýnir Liverpool hversu mikið liðið líkist Jekyll og Hyde. Ákveðnir þættir í leik liðsins eru nær gallalausir og í algjörum topp klassa en svo er auðvitað annað sem er algjört skrímsli. Hreinn og beinn viðbjóður sem enginn vill sjá.

Fram á við er Liverpool enn gífurlega sterkt. Liðið er frábærlega spilandi, fljótir leikmenn og margir sem geta skorað úr alls konar aðstæðum. Það er ekkert að því og gott að byrja leiktíðina á að skora þrjú mörk og að þrír helstu sóknarmenn liðsins komist á blað.

Firmino heldur áfram að gera sitt í framlínunni, hann er og verður aldrei „pjúra nía“ en hann er stór þáttur í skapandi og léttleikandi sóknarbolta liðsins. Hann skoraði úr mjög öruggri vítaspyrnu og er nú að því virðist aðal vítaskytta liðsins og er nú búinn að skora fjórar mjög öruggar vítaspyrnur frá því í sumar, það er mjög gott. Einnig lagði hann upp mark Salah með góðri vippu, hvort sem það átti að vera skot eða sending veit ég ekki en það allavega virkaði.

Salah stimplaði sig heldur betur inn og skoraði gott mark ásamt því að fiska vítaspyrnu. Hann komst sömuleiðis í nokkrar ákjósanlegar stöður en hefði alveg mátt skjóta betur í einhverjum þeirra. Hann var mjög flottur og hlakka ég mikið til að sjá hann meira í vetur.

Mane minnti á mikilvægi sitt fyrir liðið og var mjög líflegur og skoraði frábært mark. Þessir þrír sem helstu sóknarmenn liðsins í vetur er ógeðslega spennandi!

Alexander Arnold þótti mér líflegur, sérstaklega fram á við og Moreno líka. Can óx í leikinn og var líflegur í restina.

Vondur dagur
Allt annað en fremsti partur sóknarleiksins.

Vörnin í föstu leikatriðunum var auðvitað algjört djók eins og fyrri daginn og það er klárt mál að enginn treystir sjálfum sér né öðrum í þessum aðstæðum. Það er alveg glatað að horfa upp á þetta leik eftir leik.

Mignolet var slakur, Lovren og Matip hefðu mátt gera betur í ákveðnum atriðum og skiptingar Klopp voru nú ekki alveg til hins betra í dag. Miðvörður Watford meiðist í restina og þarf að spila áfram en þá er tekið út Firmino og Salah sem væru líklega þeir tveir síðustu sem ég myndi nenna að eltast við ef ég væri eitthvað tæpur. Gomez átti ekki góða innkomu fyrir Alexander Arnold.

Miðjan var ekki nógu góð í dag og klárlega vantar ákveðinn faktor í hana þegar Coutinho og Lallana eru ekki með. Wijnaldum, Henderson og Can eru allir mjög góðir en enginn þeirra hefur sömu eiginleika til að snúa og opna leikinn eins og hinir og það sást vel í dag, sérstaklega í fyrra hálfleik.

Vörnin léleg. Sóknin mjög góð þó hún eigi eflaust talsvert inni.

Umræðan eftir leik
Þetta er að mestu sama vörn og var til staðar þegar Rodgers var rekinn. Það er að klárast annar sumargluggi Klopp og það að Mignolet, Clyne, Lovren og Moreno séu líklegir sem fjórir af fimm byrjunarliðsmönnum varnarinnar eftir allan þennan tíma er bara ekki ásættanlegt. Þar á eftir kemur Klavan og með fullri virðingu fyrir honum þá er hann bara ekki nægilega góður og Gomez sem hefur misst af tveimur leiktíðum vegna meiðsla á meðan að Sakho situr á aerobic hjóli og setur inn motivational quotes á Snapchat.

Vörnin er og verður vandamál í vetur verði þetta ekki bætt. Vandamálið er ekki bara það að liðinu vanti einn mann inn og allt er lagað sí svona. Vandamálið er skortur á gæðum, breidd og trausti í vörninni. Við verðum að klára Van Dijk sem gæti nú alveg klárlega hjálpað helling til og elsku Klopp, það var hálf kjánalegt þegar þú hélst að það væri ekki hægt að nefna fimm varnarmenn sem væru betri en þeir sem við eigum nú þegar. Það er heill hellingur af þeim og ef það er ekki hægt að klára Van Dijk þá þarf bara að klára einhvern annan í hans stað.

Það vantar líka klárlega annan á miðjuna sem getur snúið og opnað leiki hvort sem Coutinho verður áfram eða fer. Það er mjög mikilvægt að þessir tveir hlutir verði lagaðir fyrir september, annars gæti tímabilið reynt ansi mikið á þolinmæði okkar stuðningsmanna.

Næstu verkefni
Fyrri leikurinn gegn Hoffenheim í umspili Meistaradeildarinnar er á þriðjudaginn og Crystal Palace um helgina eftir. Liverpool þarf að ná góðum úrslitum í báðum leikjum og rétta úr kútnum.

Já og styrkja leikmannahópinn fyrir komandi leiktíð!

Liðið gegn Watford

Þá er loksins komið að því! Enski boltinn er að byrja að rúlla af stað á ný og okkar menn heimsækja Watford í öðrum leik umferðarinnar. Mikið hefur gengið á hjá okkar mönnum síðastliðinn sólarhring eins og hefur líklega ekki farið framhjá mörgum. Coutinho, þótt ótrúlegt megi virðast er ekki með í dag vegna meiðsla í baki – hvort þau séu alvöru eða ekki er erfitt að segja til um.

Annars er liðið svona að mestu sjálfvalið. Matip og Lovren byrja í miðvörðunum, Mignolet í markinu og Salah, Firmino og Mane frammi. Miðjan nokkuð sjálfvalin og Trent Alexander Arnold byrjar í bakverði ásamt Moreno, sem stóð sig frábærlega í sumar og virðist geta fengið endurnýjun lífdaga hjá Liverpool.

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mane

Bekkur: Karius, Klavan, Milner, Gomez, Solanke, Origi, Grujic

Sterkasta byrjunarliðið sem við getum að mínu mati stillt upp eins og staðan er í dag og sæmilegur bekkur, klárt mál að það vantar samt aðeins meiri breidd í þetta lið en meira um það seinna.

Koma svo!