Gullkastið – Megavika

Thomas Tuchel hafði þetta að segja eftir leik í gærkvöldi: „This is Anfield, this is what they do.“
Owen Hargraves kom einnig með góða línu í umfjöllun eftir leik: „Hard work beats talent when talent doesn’t work hard“
Báðir ná að lýsa frammistöðu Liverpool í þessari viku vel en liðið er núna búið með tvo leiki af sjö leikja ofurprógrammi. Tottenham og PSG voru látin líta út eins og miðlungslið í báðum leikjum en fóru full nálægt því bæði að fá eitthvað út úr þessum leikjum. Frammistaða okkar manna var efst á baugi að þessu sinni enda tilefni til.

Kafli 1: 00:00 – Engin evrópuþynnka eftir Kiev
Kafli 2: 07:30 – Tottenham og PSG óvanalega léleg?
Kafli 3: 15:20 – Rangstöðureglan og önnur vafaatriði
Kafli 4: 23:30 – Aukin samkeppni eins og vítamín fyrir miðjuna
Kafli 5: 39:40 – Er Salah áhyggjuefni?
Kafli 6: 45:10 – Endurkoma Sturridge hápunktur vikunnar
Kafli 7: 48:30 – Ein besta varnarlína í heimsfótboltanum?
Kafli 6: 56:50 – Southampton um næstu helgi

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: Maggi og SSteinn sem var staddur í anddyrinu á hóteli á Spáni með tilheyrandi stemmingu frá hótelbarnum skammt frá.

Gullkastið er þáttur í boði Egils Gull (léttöl)

MP3: Þáttur 207

Liverpool 3-2 PSG

1-0 Sturridge 30.mín
2-0 Milner (víti) 36.mín
2-1 Meunier 40. mín
2-2 Mbappé 83. mín
3-2 Firmino 92. mín

Leikurinn

Liverpool hóf leikinn af rosalegum krafti og var mikill hraði í leiknum frá fyrstu mínútu. Parísarmenn komust í raun ekkert inn í leikinn fyrr en á átjándu mínútu þegar Neymar náði fyrsta skoti þeirra í leiknum en þá var Liverpool þegar búið að eiga sex hornspyrnur sem er tölfræði sem ég man ekki eftir að hafa séð áður svo snemma leiks.

Það var ekki að sjá að þarna væru tvö stórlið að mætast til að byrja með Liverpool sótti af miklum kraft sérstaklega upp hægri kantinn þar sem Trent Alexander-Arnold var alltaf með nóg pláss enda var Neymar ekki mikið að sinna varnarvinnu og upp úr því kom fyrsta mark leiksins. Trent átti fyrirgjöf sem var aðeins of há fyrir Mané og fór boltinn yfir  teiginn á Andy Robertson sem kom boltanum fyrir á nýjan leik beint á Daniel Sturridge sem skallaði boltann inn í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í meistaradeildinni fyrir félagið aðeins fimm árum eftir að hann var keyptur.

Á 36. mínútu náði Wijnaldum að prjóna sig inn í teig Parísarmanna en var kominn í smá vesen með þrjá menn í kringum sig þegarJuan Bernat braut á honum og vítaspyrna réttilega dæmd og það er ekki að spyrja að því að James Milner skoraði úr spyrnunni þrátt fyrir að Areola færi í rétt horn.

Staðan var þá orðinn 2-0 og Liverpool með öll völd í leiknum þegar París náði að komast í sókn með fyrirgjöf frá vinstri Cavani reyndi að taka bakfallsspyrnu en náði ekki til boltans, boltinn hrökk af Robertson til Thomas Meunier sem skoraði í nærhornið. Hinsvegar var Cavani rangstæður þegar hann reynir við boltan og það hefði vel verið hægt að dæma rangstöðu þarna.

Rétt áður en flautað var til hálfleiks átti Trent fyrirgjöf á Sturridge sem reyndi að gefa hann utanfótar á Mané inni í teig en Mané náði ekki til boltans. Spurning hvort Sturridge hefði ekki mátt vera eigingjarnari þarna.

2-1 fyrir Liverpool í leikhléi

Seinni hálfleikur var undarlegur, það var ekki að sjá að París væri liðið sem væri undir. Þeir pressuðu lítið nema boltinn væri kominn töluvert inn á þeirra vallarhelming, héldu boltanum illa þegar þeir fengu hann á meðan Liverpool barðist um alla bolta og voru með öll völdin á vellinum. Eftir 58. mínútna leik átti Wijnaldum svo skot sem fór í varnarmann og barst þaðan til Sturridge sem fór í 50/50 bolta gegn Areola náði að tikka boltanum til Salah áður enn hann fór í Areola, Salah skoraði virðst allt vera í góðu áður en sprotadómarinn ákvað að dæma brot á Sturridge. Vafaatriði og alveg ljóst að menn verða ekki sammála um hvort þarna hafi verið réttur dómur.

Trent fékk enn að leika sér með mikið svæði og eftir klukkutíma leik fékk hann boltan á hægri vængnum með langa hlaupabraut náði góðri fyrirgjöf á Sturridge sem eiginlega hoppaði og hátt og þurfti að teygja sig niður á við til að skalla boltan og skallaði því í jörðina og beint í hendur Areola í markinu. Stuttu seinna var brotið á Salah fyrir utan teyg og Milner tók aukaspyrnuna þar sem hann vippaði boltanum inn á Trent sem reyndi að koma boltanum fyrir en það tókst ekki en skemmtileg útfærsla samt sem áður.

Þegar aðeins átta mínútu voru eftir og París var ekki búið að sýna neitt líf í langan tíma átti Salah lélega sendingu á eigin vallarhelmingi sem gerði Neymar keift að sækja á vörn Liverpool boltanum var potað undan löppunum á honum en því miður yfir á Kylian Mbappe sem jafnaði leikinn. Afleyt sending hjá Salah sem bjó til sóknina og því miður ekki hans fyrsta í leiknum.

Það var svo í uppbótartíma sem Liverpool fékk hornspyrnu sem Shaqiri tók sendi boltan utarlega í teigin þar sem Firmino skallaði boltan tilbaka og París náði honum en pressan var strax mætt til að vinna boltan aftur og Van Dijk kom boltanum yfir á Firmino sem hótaði skoti með vinstri en færði sig svo yfir á hægri og þræddi boltan í markið 3-2 mjög verðskuldað

Bestu menn Liverpool

Það voru margir sem áttu mjög góðan dag í dag. Bakverðirnir stóðu sig með mikilli prýði, miðjan var í eigu Liverpool og það var gaman að sjá Sturridge aftur á vellinum og enn betra að hann skoraði. Að mínu mati eru tveir menn sem gera mest tilkall og eru það James Milner og Gini Wijnaldum. Milner vann boltann gríðarlega oft til baka í pressunni og slökkti á Neymar snemma leiks með „Velkominn til Englands“ tæklingu og Wijnaldum var einhverneigin alltaf þar sem hann þurfti að vera og því er Wijnaldum minn maður leiksins.

Vondur dagur

Liðið spilaði heilt yfir mjög vel en það olli mér smá vonbrigðum að Salah var ekki alveg í sama takti. Missti boltann alltof oft frá sér og var oft á tíðum með mjög slakar sendingar. Hinsvegar er hann alltaf hætta og dregur mikið til sín og gerði öðrum kleyft að eiga góðan dag

Umræðan

Við mættum einu besta liði Evrópu í kvöld og það var ekki að sjá. Liverpool átti leikinn en einstaklingsgæði Parísarmanna skiluðu þó tveimur mörkum og gerðu leikinn tæpan en umræðan í dag er aðeins liðsgæði Liverpool og hvað við eigum geggjað lið og bara hversu langt þetta lið getur farið?

Byrjunarliðið gegn París SG

Þá er búið að gefa út byrjunarliðið í fyrsta meistaradeildarleik vetrarins gegn PSG en Klopp gerir tvær breytingar frá því í síðasta leik og lítur liðið svona út

Alisson

TAA – Gomez – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Milner

Salah – Sturridge- Mané

Bekkur:Mignolet, Moreno, Matip, Keita, Fabinho, Shaqiri og Firmino

Henderson kemur inn á miðjuna í stað Keita og Firmino sest á bekkinn eftir augnapotið sem hann fékk gegn Tottenham og við fáum að sjá Daniel Sturridge í byrjunarliði í dag!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Meistaradeildin hefst aftur á morgun!

Annað kvöld hefur Liverpool aftur leik í Meistaradeild Evrópu og það byrjar á stórleik þegar frönsku meistararnir í Paris Saint-Germain mæta á Anfield.

Við fengum nú marga ansi skemmtilega leiki í Meistaradeildina í fyrra og, þó það kann að hljóma litað komandi frá stuðningsmanni Liverpool, gáfum þessari keppni heldur betur upplyftingu. Rokk og ról fótbolti, markaleikir og flest mörk skoruð í keppninni en því miður tókst okkur ekki að klára þann leik keppninnar sem skipti öllu máli.

Það er kannski pínu erfitt að meta hvað við eigum í vændum annað kvöld hvað varðar skemmtun og stemmingu þar sem þetta er bara fyrsti leikurinn í riðlinum og kannski ekki orðinn „must win“ leikur fyrir hvorugt lið þó svo að bæði vilji auðvitað vinna og auka líkur sínar á toppsæti riðilsins.

Lið PSG er stjörnum prýtt og þeir eru eitt fárra liða í Evrópu sem geta boðið upp á fremstu víglínu sem er eins fljót, óútreiknanleg og góð og sú sem Liverpool hefur. Þeir Neymar, Edison Cavani og Kylian Mbappe eru stór hættulegir og geta klárað leiki upp á eigin spýtur á einu augnabliki. Það er því klárt mál að varnarmenn Liverpool munu eiga erfiðara kvöld framundan en þeir hafa átt það sem af er liðið leiktíðar. Það má svo auðvitað nefna aðra frábæra leikmenn eins og Rabiot, Veratti, Dani Alves, Angel Di Maria, Julian Draxler og fleiri öfluga leikmenn.

Líklegt byrjunarlið PSG er talið vera eitthvað á þessa leið:

Areola

Meunier – Kimpembe – T.Silva – Bernat

Di Maria – Marquinhos – Rabiot

Mbappe – Cavani – Neymar

Neymar var hvíldur í síðasta leik og Mbappe tók út leikbann. Veratti og Buffon eru báðir í banni fyrir leikinn og þeir Kurzawa og Alves eru meiddir. PSG, líkt og Liverpool, hefur unnið alla fimm deildarleiki sína á leiktíðinni og koma því inn í leikinn í þokkalegu formi – þó ég verð nú að segja að þessi byrjun þeirra er nú ekkert rosalega marktæk og þeir hafa átt ansi þægilega byrjun í deildinni.

Það eru mikil gæði í þessu PSG liði og það fullt af leikmönnum sem hafa reynslu af því að vinna fótbolta leiki. Þetta lið er fullt af leikmönnum sem hafa orðið Evrópumeistarar (landslið og félagslið), Heimsmeistarar, deildarmeistarar og þar eftir götunum. Þeir eru með öfluga varnarmenn en hafa átt það til að geta skilið eftir pláss bakvið sig og gleymt sér í sóknarleiknum en sóknin er klárlega þeirra helsti styrkleiki.

Af Liverpool er það að frétta að liðið er með fullt hús stiga eftir fimm fyrstu umferðir deildarinnar og eru því miður sem stendur í öðru sæti á markatölu gegn Chelsea. Liðið skorað ellefu mörk og fengið á sig tvö í þessum fimm leikjum og bara almennt á góðu róli þó manni finnst nú enn vanta slatta upp á að liðið detti almennilega í gírinn og hver veit hvað stórleikur í Meistaradeild á Anfield gæti gert fyrir framhaldið!

Helsta áhyggjuefni Liverpool fyrir leikinn – og í raun eina alvöru áhyggjuefnið – er að Roberto Firmino er tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla á auga sem hann hlaut þegar hann fékk fingur Jan Vertonghen á bólakaf í augað á sér. Það er sem betur fer engin langtíma meiðsli sem hann hlaut af þessu en er víst tæpur fyrir leikinn og Klopp segist ekki vera alveg viss en ég reikna nú með að hann viti alveg hvort hann sé af eða á – allavega hvað byrjunarlið varðar. Firmino var að minnsta kosti ekki með á æfingu seinni partinn í dag og kannski frekar ólíklegt að hann muni byrja leikinn.

Væri Firmino með þá væri þetta ekkert mál og liðið kæmi eflaust til með að velja sig að mestu sjálft. Vörnin yrði óbreytt frá síðustu leikjum og eflaust yrði þrír af þeim Henderson, Gini, Milner og Keita á miðjunni og framlínan nokkuð sjálfvalin. Þar sem ég held það gæti talist nokkuð líklegt að hann verði ekki með þá verður afar fróðlegt að sjá hvað Klopp gerir.

a) Hann gæti sett næsta framherja inn í liðið sem er Daniel Sturridge. Hann átti mjög flott sumar og hefur virkað sprækari en oft áður og held að þetta yrði líklegasti kosturinn ef við værum að tala um næsta deildarleik við Southampton og Liverpool líklegt til að vera við fulla stjórn í leiknum, meira með boltann og liggja á andstæðingnum. Hins vegar þá er þetta erfiður leikur gegn sókndjörfu liði og guð má vita hvernig þessi leikur kemur til með að spilast, því finnst mér líklegt að Sturridge byrji ekki þennan leik.

b) Naby Keita gæti fært sig af miðjunni og orðið meiri „sóknarmaður“ og þeir Gini, Milner og Hendo væru þá á miðjunni. Klopp hefur talað um eiginleika hans til að geta spilað vel í mörgum hlutverkum og jafnvel í sóknarhlutverkum og hingað til höfum við séð hann spila mínútur á vinstri kantinum og í smá stund frammi gegn Tottenham. Það gæti því vel verið að Klopp ákveði að nota hann eitthvað framar ef hann vill fá aukna pressu og varnarburði fram í hugsanlegri fjarveru Firmino. Þá má einnig nefna að þeir Divock Origi og Dominic Solanke eru báðir tæpir eftir leik með u23 á dögunum.

c) Þetta er eflaust líklegasti kosturinn að mínu mati en ég myndi reikna með að Shaqiri kæmi inn í liðið fyrir þennan leik ef Firmino er fjarverandi og annað hvort spila sem nokkurs konar fölsk nía líkt og hann gerði stundum í sumar eða koma inn á hægri vænginn og Salah myndi færa sig í níuna.

Alisson

TAA – Gomez – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Milner

Salah – Shaqiri – Mané

Ég ætla bara að skella þessu liði upp ef Firmino er meiddur. Shaqiri kemur þá eflaust inn í nokkurs konar frjálsa rullu þarna á miðsvæðinu við ýtum Salah kannski aðeins framar en vanalega líka. Ef Shaqiri kemur inn sem nokkurs konar jóker sem er ekki kominn 100% inn í takt liðsins þá finnst mér pínu líklegt að Klopp stilli upp þriggja manna miðju sem þekkja allir vel hvorn annan og setji því kannski Keita á bekkinn og komi Henderson inn. Kannski gæti hann haldið Keita inn á miðjunni til að spila fyrir framan Wijnaldum sem hefur verið frábær í stöðu djúps miðjumanns lengi vel núna.

Vörn Liverpool hefur verið frábær það sem af er leiktíðar og þeir Gomez og Van Dijk verið gífurlega öflugir í hjarta hennar. Alisson verið mjög sannfærandi og flottur fyrir aftan hana og liðið bara að fúnkera almennt nokkuð vel. Það eina sem vantar þessa dagana er að fá aftur ögn meira „finishing touch“ fram á við en manni finnst vanta aðeins upp á hjá þessum þremur fremstu – sem er hálf klikkað þar sem þeir Salah og Firmino eru báðir með tvö mörk og tvær stoðsendingar og Mane fjögur mörk í þessum fimm leikjum. Við bara vitum að þeir geta gert enn meira en þetta og hafa svo sannarlega fengið tækifærin til. Ef vörnin heldur áfram að vera svona sterk, miðjan verður áfram svona öflug og þeir fara að taka fleiri af þessum færum sem þeir fá þá má búast við því að liðið verði bara ansi, ansi öflugt í vetur.

Það er snilld að Meistaradeildin sé að hefjast aftur og vonandi fáum við aðra keppni eins og í fyrra en bara með hamingjusömum endi. PSG verður fyrsta áskorunin þetta árið og nú er veturinn kominn í full swing og hver áhugaverði leikurinn á fætur öðrum mun fara fram. Byrjum á morgun og klárum feykilega sterkt lið PSG!

Kvennaliðið leikur í Continental Cup

Annasamur dagur hjá klúbbnum að baki. Aðalliðið vann Tottenham 1-2, U23 liðið vann Swansea 3-0 með mörkum frá Nat Phillips, Origi og Solanke, og U18 liðið vann Newcastle 4-1. Og í dag leikur svo kvennaliðið í Continental Cup gegn Durham. Durham konur leika í næstefstu deild, þar eru þær í 1.-5. sæti en reyndar aðeins eftir eina umferð.

Eins og kom fram í vikunni lét Neil Redfearn af störfum sem knattspyrnustjóri Liverpool Women, og því munu þau Chris Kirkland og Vicky Jepson stýra liðinu í dag og þangað til nýr stjóri finnst. Það er ekki gott að segja af hverju Neil ákvað að hætta eftir að hafa tekið við liðinu núna í vor, en leikmenn liðsins voru a.m.k. duglegar að lýsa yfir vonbrigðum með ákvörðunina á Twitter.

En leikurinn hefst núna kl. 11 að íslenskum tíma, og svona verður stillt upp:

Preuss

S.Murray – Bradley-Auckland – Matthews – Robe

C.Murray – Coombs – Rodgers

Charles – Babajide – Clarke

Bekkur: Kitching, Kearns, Sweetman-Kirk, Linnett, Daniels

Við uppfærum svo færsluna með úrslitum eftir leik.


Leiknum er lokið með sigri Liverpool, 3-3 eftir venjulegan leiktíma, þá var farið í vítakeppni sem endaði 4-3 fyrir Liverpool, eftir bráðabana. Liðið náði forystunni strax á 2. mínútu með marki frá Sophie Bradley-Auckland, en Durham jafnaði mínútu síðar og var svo komið í 2-1 skömmu síðar, og þannig var staðan í hálfleik. Durham komst svo í 3-1 á 57. mínútu, Rinsola Babajide minnkaði muninn á 71. mínútu, henni var svo skipt út af 4 mínútum síðar fyrir Courtney Sweetman-Kirk, og hún náði að jafna á 87. mínútu, og þannig lauk venjulegum leiktíma. Þá var farið beint í vítakeppni, þar sem bæði lið áttu stangarskot auk þess sem báðir markverðir vörðu eitt skot. Í bráðabana var svo Anke Preuss hetja liðsins þegar hún varði skot frá Roberts, og Sophie Bradley-Auckland skoraði svo að vörmu spori.

Semsagt, markaleikur og dramatík, og nú er að vona að liðið hafi lagt vonbrigði tveggja síðustu leikja að baki. Við munum halda áfram að fylgjast með stelpunum hér á kop.is.