Latest stories

 • Gullkastið – Liverpool er búið að kaupa leikmann!

  Það er ekkert í hverjum leikmannaglugga sem Liverpool kaupir leikmann og því ber heldur betur að fagna kaupnum á Grikkjanum Kostas Tsimikas sem skrifaði undir samning við Liverpool í dag. Fórum yfir það ásamt helstu fréttum af okkar mönnum og boltanum almennnt.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 296

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  [...]
 • Kostas Tsimikas kominn (staðfest!)

  Nú rétt í þessu var tilkynnt á opinberu heimasíðu félagsins að búið sé að ganga frá fyrstu kaupum sumarsins/haustsins. Svosem ekkert stórkostlegt leyndarmál að þar er um að ræða hinn gríska Kostas Tsimikas sem kemur frá Olympiakos.

  Þetta eru mjög líklega klassísk Klopp/Edwards kaup, leikmaður sem hefur ekki farið mikið fyrir í umræðunni en tölfræðin hjá honum er ekkert slor:

  Hann tekur treyju númer 21, en það númer er búið að vera ónotað síðan Oxlade-Chamberlain skipti yfir í númer 15 fyrir ári síðan.

  Velkominn Kostas, við hlökkum til að sjá þig inni á vellinum!

  [...]
 • Fyrstu kaupin að nálgast?

  Fyrir nokkrum dögum síðan var greint frá því að Liverpool væri á höttunum eftir öðrum vinstri bakverði til að auka breiddina í hópnum og geta deilt ábyrgðinni með Andy Robertson. Mel Reddy, Paul Joyce, James Pearce og hinir áreiðanlegri Liverpool tengdu blaðamennirnir greindu frá því að Liverpool hefði dregið upp lista af bakvörðum og boðið í hinn 21 árs gamla Jamal Lewis sem er á mála hjá Norwich. Tilboði Liverpool upp á tíu milljónir punda var hafnað og nú hafa sömu aðilar greint frá því að gríski bakvörðurinn Kostas Tsimikas sé nálægt því að ganga í raðir Liverpool frá Olympiakos og að hann sé væntanlegur í læknisskoðun snemma í næstu viku.

  Embed from Getty Images

  Kostas Tsimikas er 24 ára gamall grískurlandsliðsmaður og hefur verið öflugur í liði Olympiakos í Evrópukeppnum og í grísku deildinni. Hann hefur áður verið á láni hjá Willem II í hollensku deildinni og Esbjerg fB í dönsku deildinni en hann hefur spilað stórt hlutverk hjá Olympiakos undanfarnar tvær leiktíðir og spilað alla deildarleiki Olympiakos á þeim tíma og 24 leiki í Evrópukeppnunum á þeim tíma.

  Hann er mjög fljótur og leitar mikið í “overlappið” á kantinum, er með fínan vinstri fót og er víst mjög duglegur á vellinum. Hann hefur mætt þremur enskum liðum í Evrópu undanfarið en hann heur mætt Arsenal, Tottenham og Wolves, en hann mætti Úlfunum fyrir aðeins nokkrum dögum síðan. Hann leit víst mjög vel út í þeim leik.

  Kaupverðið á Tsimikas er talið vera rétt rúmlega ellefu milljónir punda sem er nokkuð ódýrt fyrir vonandi góða varaskeifu fyrir Andy Robertson sem spilar gífurlega mikilvægt hlutverk í leikskipulagi Liverpool. Þetta gætu því reynst mjög mikilvæg kaup því oft hefur vantað upp á hraðan örvfættan leikmann á vinstri vænginn þegar Robertson er ekki með.

  Vonandi ganga þessi kaup í gegn á næstu dögum og Liverpool takist að leysa ákveðna vandræða stöðu í leikmannahaópi sínum fyrir næstu leiktíð.

  [...]
 • Næsta tímabil hjá kvennaliðinu

  Eins og lesendur síðunnar ættu að vita varð það hlutskipti kvennaliðs Liverpool að falla í næstefstu deild þegar deildinni var slaufað vegna Covid19. Lítið við því að segja, liðið hefði einfaldlega þurft að skora meira og vera ekki í neðsta sæti þegar keppni var hætt.

  Það hefur líka komið fram að liðið missti nokkra leikmenn í upphafi sumars: Courtney Sweetman-Kirk, Anke Preuss, Fran Kitching og Christie Murray. Tveir leikmenn heltust úr lestinni sömuleiðis núna nýverið: Jemma Purfield og Niamh Charles. Purfield kom til liðsins fyrir rúmu ári síðan og náði aldrei að festa sig í sessi í liðinu, auk þess að vera meidd bróðurpartinn úr síðasta tímabili. Brotthvarf hennar þarf því ekki að koma neitt svakalega á óvart. Það að Niamh Charles hafi ákveðið að færa sig um set er hins vegar talsvert verra. Hún er búin að vera stuðningsmaður Liverpool frá blautu barnsbeini, og til myndir af henni í Liverpool múnderingu á leiðinni á Anfield þegar hún var kornung. Hún var jafnframt einn af efnilegustu leikmönnum liðsins, og í reynd allt of góð til að vera að spila í næstefstu deild. Hún fór til Chelsea, enda gat hún sjálfsagt valið úr liðum og valdi að fara til meistaranna. Í kveðjupósti félagsins kom skýrt fram frá Vicky Jepson að hún hefði viljað halda Niamh hjá félaginu, og við vonum bara að hún íhugi að koma aftur þegar Liverpool verður aftur komið í hóp bestu liða.

  Þá verður einhver bið á því að við sjáum fyrirliðannn okkar, Sophie Bradley-Auckland, aftur á vellinum, því hún hefur tekið þá ákvörðun að spila ekki á meðan smithættan er þetta mikil vegna Covid. Hennar aðstæður eru þær að hún sér jafnframt um það að reka elliheimili sem hefur verið í ættinni í margar kynslóðir (já mikið rétt, það að vera fyrirliði kvennaliðsins er ekki fullt starf…). Í ljósi þess að vistmenn eru allir í áhættuhópi þykir ekki áhættunnar virði að hún spili í augnablikinu. Þetta verður sjálfsagt stórt skarð sem erfitt verður að fylla. Vonandi treystir hún sér þó til að snúa aftur á völlinn fyrr en síðar, og hún segist vera hvergi nærri hætt að spila.

  Það hefur sem betur fer aðeins bæst í hópinn í staðinn. Liðið hefur bætt við sig þremur nýjum leikmönnum:

  • Rachael Laws er markmaður sem er ekki alveg ókunnug Liverpool treyjunni, því hún var í liðinu árið 2013 þegar fyrsti titillinn vannst, hún var þá á láni frá Sunderland en lék þó 9 leiki. Rachael kemur frá Reading og fær treyjunúmerið 1, en það verður að koma í ljós hvort hún sé jafnframt hugsuð sem fyrsti kostur í markvarðarstöðunni eða hvort Rylee Foster sé á undan henni. Mögulega fá þær að slást um það sæti á fyrri hluta tímabilsins.
  • Taylor Hinds er varnarmaður sem kemur frá Everton, en lék áður með Arsenal. Hún fær treyjunúmerið 12, og það kæmi ekki á óvart þó hún eigi að leysa fyrirliðann af í bakvarðarstöðunni á meðan hún er í sjálfskipaðri sóttkví.
  • Amalie Thestrup kemur frá Roma þar sem hún lék á síðasta ári, en kemur frá Danmörku eins og nafnið kannski gefur til kynna. Hún varð markakóngur í dönsku deildinni a.m.k. einu sinni, gekk kannski ekki alveg eins vel með Roma en náði þó að setja nokkur mörk. Hún fær treyjunúmerið 9.

  Jafnframt fáum við að sjá 3 önnur ný nöfn, en þar er um að ræða leikmenn sem koma úr akademíunni:

  • Missy Bo Kearns er vissulega ekki alveg ný, því hún hefur náð nokkrum leikjum með aðalliðinu, flestir þeirra hafa þó verið í bikarleikjum. Hún var á láni hjá Blackburn í nokkrar vikur á síðasta tímabili og þótti standa sig vel. Við skulum fylgjast vel með þessari stelpu, ég hef trú á að hún gæti orðið nafn þegar fram líða stundir. Við munum væntanlega sjá hana mest í box-to-box hlutverki á miðjunni, þó svo að Vicky Jepson sé alveg óhrædd við að prófa leikmenn í nýjum stöðum.
  • Mia Ross er enn annar efnilegur leikmaður sem kemur úr akademíunni, en hún lék m.a. með U17 liði Englands á síðasta ári. Á Twitter má sjá að pabbi hennar heitir Ian Ross, en rétt að taka fram að það er ekki sami Ian Ross og lék með Liverpool hér á árum áður, ásamt því að hafa þjálfað Val og KR. Mia er miðjumaður að upplagi og getur spilað hvort sem er sem varnarsinnaður miðjumaður eða box-to-box. Hún fær treyjunúmerið 29.
  • Eleanor Heeps verður þriðji markvörður liðsins, hún kemur líka úr akademíunni og á enn eftir að leika aðalliðsleik þó hún hafi verið á bekk a.m.k. einu sinni. Hún er nýorðin 17 ára og er talsvert efni, en skiljanlegt að svona ung stelpa hafi ekki þótt tilbúin í að verða fyrsti varamarkvörður alveg strax.

  Það má svo reikna með að Niamh Fahey taki fyrirliðabandið í fjarveru SBA, enda var Niamh gerð að varafyrirliða á síðasta ári og er búin að vera stuðningskona Liverpool frá unga aldri í ofanálag.

  Næstkomandi tímabil er það síðasta sem reikna má með að liðið spili á Prenton Park, inni í þeim samningi er víst að liðið notar æfingaaðstöðuna hjá Tranmere sömuleiðis. Það hvar liðið æfir að ári er ekki ljóst, en það er víst ennþá möguleiki að liðið fái samastað í Kirkby rétt eins og karlaliðið og akademían. Þetta er þó ekki ljóst ennþá.

  Og hvenær hefst svo tímabilið? Það er víst helgina 5-6. september, en þá fá okkar konur Durham í heimsókn. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að fylgjast með stelpunum okkar hér á kop.is jafnvel þó svo að þær spili ekki í efstu deild í vetur. Því eins og Bill Shankly sagði víst forðum: “If you can’t support us when we lose or draw, don’t support us when we win”.

  [...]
 • Uppfært – Liverpool gerir tilboð í Lewis

  Uppfært: James Pearce segir að Liverpool hafi gert 10m tilboð í Jamal Lewis með klásúlum um endursöluverð o.þ.h. Það er ólíklegt að Liverpool sé að gera tilboð án þess að þetta sé eitthvað komið af stað bak við tjöldin.


  Helstu blaðamenn með tengsl við Liverpool hafa undanfarið fjallað um áhuga á Jamal Lewis vinstri bakverði Norwich og landsliðsmanni N-Írlands. Hann kæmi þá inn sem back-up fyrir Robertson en getur leysti fleiri stöður. Þessar fréttir koma ekkert sérstaklega á óvart og þegar skoðað hefur verið mögulega kosti í þessa stöðu og þetta hlutverk í hópnum hefur oft verið horft til Lewis. Hann er fæddur í Luton er uppalin leikmaður þó hann spili fyrir N-Írland, heimaland móður hans.

  Það er víst nokkuð langt á milli Liverpool og Norwich í verðmati á honum en úr því þetta er komið í Pearce og félaga er líklegt að eitthvað sé á bak við þetta slúður.

  Eitthvað var einnig verið að orða Liverpool við Sarr frá Watford en það er ekki eins áreiðanlegt slúður og þetta með Lewis.

  Annars var Man City að styrkja vörnina hjá sér með varnarmanni sem féll með Bournemouth, Natan Ake.

  [...]
 • Staðan á liðunum eftir mót

  Leikmannaglugginn er að opna og ljóst að töluverðar breytingar verða á mörgum liðum fyrir næsta tímabil. Skoðum aðeins stöðuna á hverju liði.

  1. Liverpool

  Eins ógeðslega pirrandi það er að sjá öll hin liðin kaupa heitustu bitana á leikmannamarkaðnum en Liverpool gera ekkert þrátt fyrir að vera ríkjandi meistarar í öllum stærstu félagsliðakeppnunum verður að hafa í huga að liðið hefur núna fylgt sínu besta tímabili hvað stigasöfnun varðar eftir með ennþá betra tímabili. Hópurinn var fyrir þetta tímabil nánast á fullkomnum aldri og það breytist ekkert rosalega núna í sumar. Svo lengi sem Jurgen Klopp er tiltölulega ánægður með hópinn getum við verið sæmilega róleg. Það er líka ljóst eftir þetta tímabil að hin liðin þurfa að styrkja sig töluvert til að brúa bilið og eru sum þeirra sannarlega að reyna það. Það eru auðvitað allir stuðningsmenn sammála um að liðið þarf að endurnýjast eðlilega milli tímabila og vonandi verður það raunin í sumar. Lovren og Lallana skilja t.a.m. eftir sig skarð sem þarf að fylla.

  Líklega fáum við ekki svona Kai Havertz, Jadon Sancho eða Timo Werner kaup í sumar sem væru vissulega mikil vonbrigði en sem dæmi voru Robertson, Gomez, Matip, Henderson, Wijnaldum, Fabinho, Salah, Mané og Firmino ekki þannig kaup heldur á sínum tíma. Þ.e. þetta voru ekkert heitustu bitarnir í Evrópu þegar þeir komu. Það eru helst Van Dijk, Alisson og Keita sem falla í þann flokk í núverandi hópi.

  Klopp fær núna undirbúningstímabil sem er nákvæmlega eins og hann vill hafa þau, engin ferðalög eða auglýsingaæfingaleikir. Það gæti reynst okkur mjög vel næsta vetur.

  2. Man City

  City er augljóslega með hóp sem getur aftur náð um 100 stiga tímabili eins og þeir gerðu tvö ár í röð fyrir þetta tímabil. Hvað þá ef þeir styrkja hópinn mikið í sumar. Ef að City styrkir hópinn mikið er það eitthvað sem Liverpool þarf að bregðast við, þeir eru ekki langt á eftir.

  Sané er farinn og hinn 20 ára Ferran Torres er komin í staðin, það er ekkert víst að það sé mikil styrking strax þó hann sé vissulega geggjað efni. Phil Foden fær svo væntanlega mun stærra hlutverk næsta vetur með brottför David Silva.

  Þetta fyrsta City lið Guardiola er farið að eldast og komið á endurnýjun sem hófst í fyrra með ekkert rosalegum árangri. Núna er t.d. Fernandinho orðin 35 ára, Aguero 32 ára og margir lykilmenn eru í kringum þrítugt.

  3. Man Utd

  Launahæsta lið deildarinnar og eitt það dýrasta slefaði í þriðja sæti og er látið með það eins og þvílíkt afrek þjálfarans og félagsins í heild. Solskjaer hefur samt vissulega tekið nokkrar stórar ákvarðanir og endurnýjað leikmannahópinn. Hann fékk líka 200m til þess í síðasta leikmannaglugga, Bruno Fernandes í vetur og virðist vera að fá 120m leikmann núna í Covid glugganum. Jadon Sanhco væri rosalega spennandi styrking fyrir United því miður og gæti alveg verið leikbreytir fyrir þá með núverandi sóknarlínu sem er orðin vel sterk fyrir. Ef allt er eðlilegt verður United ekki svona lélegt áfram en þeir fara vonandi ekki í 90+ stiga lið strax.

  4. Chelsea

  Það er jafnvel ennþá vitlausari umræða um tímabilið hjá Chelsea í vetur en United. Frank Lampard náði að rífa félagið úr 3. sæti í það 4. með sex stigum færra en liðið náði á síðasta ári. Hann er samt að gera marga góða hluti hjá Chelsea og hefur núna í höndunum gríðarlega sterkan hóp á frábærum aldri sem er verið að styrkja í hverri viku núna með alvöru gæðum.

  Hakim Ziyech sem var frábær með Ajax í fyrra og Timo Werner eru staðfestir og Kai Havertz skrifar líklega undir líka á næstunni. Það er rosaleg bæting á liðinu en spurning hvort það sé á réttum enda? Þeir hafa verið orðaðir við menn eins og Chilvell hjá Leicester sem væru enn ein risakaupin.

  Ungu strákarnir sem Lampard hefur gefið séns í vetur styrkja hópinn mikið en virðast reyndar ekki spara félaginu mikið í leikmannakaupum m.v. byrjunin á þessum glugga. Spurning t.d. hvort Tammy Abraham fái eins margar mínútur í þessu liði, eða Mason Mount og Hudson-Odoi?

  Þeir eru reyndar að endurnýja líka, Pedro er t.a.m. búinn að kveðja og Willian fer væntanlega líka. Sama á líklega við um Giroud. Svo er spurning með menn eins og Barkley, Bakayoko, Drinkwater og fleiri sem þeir eiga ennþá.

  Dýrasti markmaður í heimi var svo einn lélegasti markmaður deildarinnar og bara hlítur að vera töluvert áhyggjuefni fyrir Lampard.

  Chelsea ætti samt að verða mun sterkara lið næsta vetur m.v. þessi leikmannaskipti.

  5. Leicester 

  Þvílíka dauðafærið sem þeir klúðruðu. Leikmannakaup United og Chelsea ættu fyrir næsta tímabil að vera meira áhyggjuefni fyrir lið eins og Leicester heldur en Liverpool og Man City. Bilið virðist vera breikka töluvert núna í sumar.

  Þeir eru samt búnir að semja við James Maddison og eiga Chilwell á langtímasamningi, ef þeir fara fá þeir helling fyrir þá.

  6. Tottenham

  Þeir ættu ekki að eiga mikin pening í leikmannakaup sem er magnað í ljósi þess að Mourinho er stjóri félagsins. Hann átti oftast gott 1-2 tímabil með sín lið en eins og staðan er núna er erfitt að sjá Spurs fyrir sér ná Meistaradeild næsta vetur.

  7. Wolves

  Þeirra bestu leikmannakaup í sumar væri að halda núverandi hóp saman og mögulega hjálpar Covid þeim við það. Aðeins Liverpool og Man Utd töpuðu færri leikjum á síðasta tímabili en Wolves. Ætli þakið sé ekki nokkurnvegin 6. sæti hjá þessum hóp.

  8. Arsenal

  Sigur í bikar tryggði þeim sæti í Evrópudeildinni, líklega er það þeirra besta von um Meistaradeildarsæti næsta vetur. Öflugt hjá Arteta að vinna bikarinn á sínu fyrsta tímabili en það er auðvitað í keppni sem Liverpool t.a.m. notaði U18 ára liðið á þessu tímabili og varaliðið fram að því. Það verður líka mjög forvitnilegt að sjá hvað hann fær miklu úr að moða á leikmannamarkaðnum.

  9. Sheffield United

  Aðeins þrír sigrar í síðustu ellefu umferðunum draga aðeins niður annars frábært tímabil hjá nýliðum sem gera mjög vel með því að ná á topp 10. Þeir gerðu voðalega lítið á leikmannamarkaðnum fyrir mót og voru hunderfiðir við að eiga.

  Sheffield komu ekki upp sem ríkjandi meistarar í Championship deildinni, Norwich vann deildina nokkuð sannfærandi 2019 og fór inn í mótið svipað og Sheffield með mjög lítið breytt lið. Því miður virkaði leikaðferð Sheffield, ekki Norwich.

  10. Burnley

  Það er öllum sama hvað Burnley ætlar að gera fyrir næsta tímabil. Þakið hjá þeim er í kringum 10.sæti og þeir gerðu vel að ná því í vetur. Kaupa líklega 2,5m háan sóknarmann og eitthvað sauðnaut í vörnina.

  11. Southampton

  Helsta afrek Southampton á síðasta tímabili er að liðið er aftur komið á svipaða braut og þeir voru,  Hasenhüttl vann geggjað starf með þetta lið í seinni umferðinni og náði að rífa liðið frábærlega upp eftir 9-0 tapið gegn Leicester. Vonandi finna þeir einhvern gullmola á leikmannamarkaðnum í sumar sem Liverpool kaupir svo eftir 1-2 ár. Halda þessum þjálfara ekki mikið lengur haldi liðið áfram að þróast eins og það hefur verið að gera á þessu tímabili.

  12. Everton

  Rosalegt vonbrigðatímabil hjá Everton í vetur enda keyptu þeir leikmenn fyrir 120m síðasta sumar. Moshri þarf að bakka Ancelotti hressilega í sumar til að koma Everton ofar og það þarf að taka duglega til í leikmannahópnum. Tímabilið endaði með einum sigurleik í síðustu sex umferðunum.

  Byrja aftast og taka gott útspark á Jordan Picford væri sterk byrjun.

  13. Newcastle 

  Ef að þeir fá ekki Saudi-Arabíska eigendur í sumar er hætt við því að næsta tímabil verði mjög þungt hjá Newcastle. Þeir björguðu sér ágætlega frá falli en undirliggjandi tölur eru ömulegar hjá þeim og fótboltinn sem þeir bjóða oft á tíðum uppá ennþá verri. Nennir enginn að horfa lengi á 9-1-0 kerfið.

  Vonandi verður þetta ekki næsta Man City eða Chelsea því að hópurinn sem hefur verið orðaður við félagið er jafnvel verri en þeir sem eru á bak við Man City og PSG.

  14. Crystal Palace

  Sjö töp og jafntefli í síðustu átta umferðunum og 37% stigasöfnun í vetur. Nokkuð gott ár hjá Hodgson bara, liðið sem féll var með 34 stig en Palace 43 stig þannig að þetta voru níu stig í yfirvinni í bókum Hodgson, holdgervingi meðalmennskunnar.

  Það gæti orðið mjög erfitt að halda Zaha í sumar ef áhuginn á honum er eins og hann var t.d. í fyrra. Hann kom reyndar bara að sjö mörkum í 37 leikjum í vetur, fjögur mörk og þrjár stoðsendingar.

  15. Brighton

  Þetta félag virkar í miklu heilsusamlegra ásigkomulagi en liðið sem rétt bjargaði sér frá falli í fyrra. Harry Potter er að vinna flott starf virðist vera og að smíða vel spilandi lið. Lallana styrkir hópinn helling haldist hann eitthvað heill hjá þeim. Væri reyndar alveg dæmigert ef hann tekur núna 5-6 meiðslalaus ár.

  16. West Ham

  Allt of góður hópur á pappír til að vera í svona mikilli fallbaráttu. Moyes fær væntanlega aðeins meiri tíma núna og byrjar að smíða Everton 2 þarna í London.

  17. Aston Villa

  Rosalega mikilvægt fyrir þá að halda sér í deildinni, félag sem ætti núna að geta fótað sig aftur sem Úrvalsdeildarfélag. Allt of stór klúbbur til að vera í því bulli sem þeir hafa verið. Magnað að í nokkur ár var ekkert lið frá næststærstu borg Englands í efstu deild.

  1. Leeds

  Get ekki sagt að ég hafi saknað Leeds úr efstu deild en vissulega er þetta félag rétt eins og Villa sem á ekki að vera í því basli sem þeir hafa verið. Það gæti orðið áhugavert að sjá Biesla í Úrvalsdeildinni, hann er alveg snar en líklega um leið snillingur. Þeir eru að koma upp með nokkuð gott lið sem ætti alveg að geta haldið sér uppi. Biesla og þessir eigendur eru samt tifandi tímasprengja sem springur ef á móti blæs næsta vetur.

  2. West Brom 

  Erfitt að hrista af sér Tony Pulis ímyndina sem maður hefur á þessu félagi. Þeirra var heldur ekkert saknað. Slaven Bilic er samt hressari en Pulis, gef þeim það.

  3. ?  Brentford – Fulham í kvöld. 

  Brentford er mjög áhugavert félag sem hefur farið aðrar leiðir í leikmannakaupum og strúktúr. Ekki ósvipað Liverpool að mörgu leiti og það er að virka. Moneyball lið neðri deildanna. Félagið er í dauðafæri á að komast í efstu deild í fyrsta skipti í einhver 60-70 ár.

  Fulham liðið hinsvegar féll fyrir þetta tímabil eftir mikið eyðslufyllerí sumarið áður.

  [...]
 • Gullkastið – Uppgjör á frábæru tímabili

  Jordan Henderson er búinn að lyfta Englandsmeistaratitlinum sem fyrirliði Liverpool, meira fórum við svosem ekki fram á fyrir þetta tímabil. Það hefur aldrei verið eins gaman að gera upp tímabilið.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  Einar Örn um tímabilið: Hér er greinin frá EÖE sem komið var inná í upphafi þáttar, eðal efni.

  MP3: Þáttur 295

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  [...]
 • Jurgen Klopp stjóri ársins á Englandi

  Jurgen Klopp var að sjálfsögðu kosinn stjóri ársins á Englandi, hann var basicly einn í kjöri á þessu tímabili. Hann er reyndar besti knattspyrnustjórinn í dag, ekkert bara á Englandi heldur allsstaðar enda ríkjandi Heims, Evrópu og Englandsmeistari.

  Alex Ferguson tilkynnti sigurvegarann í skemmtilegu videoi

  [...]
 • Dejan Lovren til Rússlands (Staðfest)

  Dejan Lovren kveður Liverpool í dag og heldur til Rússlands þar sem hann ætlar að spila með meisturum Zenit næstu árin. Kaupverð er talið vera í kringum 12m.

  Lovren hefur alla tíð verið umdeildur leikmaður hjá Liverpool en hefur það með sér að hafa alltaf lagt sig 100% fram og kveður nú sem Heims, Evrópu og Englandsmeistari og á sinn þátt í öllum bikurunum.

  Þó að það sé alltaf aðeins of stutt í næstu stóru mistök Lovren hefur hann heilt yfir verið góður leikmaður hjá Liverpool. Meiðsli hafa miklu frekar sett strik í reikninginn en varnarmistök enda náði hann nánast aldrei að spila meira en 6-7 leiki í röð. Það er rosalega erfitt að byggja upp þétta vörn á svo óstöðugum miðverði og ekki hjálpar að megnið af tíma Lovren hjá Liverpool var hinn miðvörðurinn svipað meiðslagjarn.

  Lovren kom í Liverpool lið Brendan Rodgers sumarið 2014, tímabilið eftir atlöguna að titlinum og verður að teljast ein af betri kaupum Liverpool það sumarið sem er þó ekkert rosalegt hrós. Adam Lallana kom einnig þetta sumar og kveðja þeir nú á sama tíma einnig. Vörnin í fyrsta leik Lovren fyrir Liverpool var Mignolegt í markinu Manquillo og Glen Johnson í bakvörðunum og Skrtel var með honum í vörninni. Moreno kom í sama glugga og Clyne sem þarna var ennþá í Southampton skoraði fyrir gestina í þeim leik. Brad Jones, Kolo Toure og Sakho voru á bekknum sem gefur aðeins til kynna hversu veik vörnin var sem Lovren var keyptur til að laga. Ég er hræddur um að ekki einu sinni Vigril Van Dijk væri Virgil Van Dijk með Mignolet fyrir aftan sig, Moreno og Johnson á vængjunum og Skrtel/Shako/Toure með sér í vörninni. Já og eiginlega engan varnartengilið.

  Það góða við brottför bæði Lovren og Lallana núna er að Liverpool liðið hefur vaxið úr því að fá þá sem lykilmenn í að þeir eiga erfitt með að komast í liðið. Báðir fá sínar mínútur yfir heilt tímabil en eru orðnir töluvert slakari en keppinauturinn um stöðuna. Þessir menn voru með þeir betri í sínum stöðum þegar Klopp tók við Liverpool og það segir kannski sitt að þeir hafa lifað hvað lengst inn í Klopp tímann af leikmönnum sem komu undir stjórn Rodgers.

  Það er því ekki hægt að segja að það verði neinn rosalegur söknuður af þessum leikmönnum fyrir okkur stuðningsmenn núna þegar þeir kveðja. Þeir hafa staðið ágætlega fyrir sínu þó meiðslasaga beggja sé fullkomlega óþolandi pirrandi. Það er kominn tími á að endurnýja þessa leikmenn en á móti óskar maður þeir alls hins besta í framtíðinni. Innan hópsins virkuðu þeir báðir mjög mikilvægir hlekkir.

  Að því sögðu er með sölunni á Lovren komin þörf á manni í hans stað, vonandi er það nýr og betri varnarmaður frekar en annarhvor af ungu hollendignunum úr akademíunni eða Nate Phillips. Grunar samt að þeim sé ætlað stærra hlutverk á næstu árum.

  Sem leikmaður Liverpool hefur Lovren spilað í liði sem komst tvisvar í úrslit Meistaradeildarinnar, einu sinni í úrslit Evrópudeildarinnar og liði sem tók 97 og 99 stiga tímabil. Með landsliðinu var hann lykilmaður í liði sem fór alla leið í úrslitaleik HM.

  Eitthvað getur slíkur leikmaður.

  [...]
 • Newcastle 1 – 3 Liverpool

  Klopp mætti með mjög breytt lið á St. James’ Park og fengu nokkrir leikmenn að spreyta sig sem minna hafa spilað í vetur. Það hófst hinsvegar með hörmungum en eftir nokkrar sekúndur var Van Dijk búinn að brjóta af sér í miðju hringnum og var Jonjo Shelvey fljótur að vippa boltanum inn fyrir vörnina þar sem Dwight Gayle slapp einn í gegn og skoraði fyrsta mark leiksins áður en mínúta var búinn af leiknum. Eftir þessa óheppilegu byrjun tóku Liverpool völdin á vellinum án þess þó að ógna marki Newcastle sérstaklega. Naby Keita og Minamino áttu sitt hvorn skemmtilegan sprettinn en hlupu báðir inn í vandræði á endanum. Það var svo eftir 38. mínútna leik sem eitthvað gerðist hjá okkar mönnum þá áttum við hornspyrnu sem var hreinsuð í burtu en þaðan barst boltinn út til hægri á Chamberlain sem átti góða fyrirgjöf á Van Dijk sem skallaði boltann framhjá Dubravka í marki Newcastle manna.

  Seinni hálfleikurinn byrjaði keimlíkur þeim fyrri og lítið var að frétta og var það að sjá á liðunum að þau væru að spila síðasta leik tímabilsins þar sem hvorugt liðið hafði að einhverju að keppa. Það var því nánast upp úr engu sem næsta mark kom, Robertson lagði boltan út á Divok Origi fyrir utan teig og Origi hlóð í skot fram hjá Dubravka í fjærhornið og Liverpool komið yfir. Stuttu seinna komu skytturnar þrjár Mané, Salah og Firmino inn fyrir Chamberlain, Origi og Minamino og var Salah fljótur að koma sér í tvö færi, annað fór í stöngina en hitt hreinsað í horn. Það var hinsvegar Mané sem kom svo boltanum í netið á 89. mínútu þegar Firmino setti boltan upp í vinstra hornið og Mané snér inn á teigin fór framhjá varnarmanni Newcastle og setti boltann styrtilega yfir markmanninn upp í fjærhornið og staðan 3-1

  Bestu menn Liverpool

  Andy Robertson átti fínan leik í vinstri bakverði, lítið hægt að kvarta undan miðjunni en vel í dag Van Dijk mann leiksins. Skoraði jöfnunarmarkið, hefði getað bætt við öðru og átti heilt yfir ágætis leik.

  Vondur dagur

  Divok Origi átti í erfiðleikum í sókninni en greiddi svo fyrir það með flottu marki sem kom okkur yfir en einnig átti Minamino ekki góðan leik. Fyrir utan einn fínan sprett í gegnum vörn Newcastle að þá kom ekki mikið frá honum í dag.

  Umræðupunktar

  • Helstu umræðupunktar í dag eru ekki úr okkar leik en Manchester United og Chelsea tryggðu meistaradeildarsæti og Aston Villa bjargaði sér frá falli.
  • Það að breyta allri sóknarlínunni tekur allt bit úr sóknarleik okkar og verður klárlega spurningamerki hvað Klopp ætlar sér að gera í sumar til að bakka upp fremstu þrjá. Er sett von á að Brewster komi úr góðu láni frá Swasea tilbúinn í það hlutverk, mun Minamino sýna meira á næsta tímabili eða verður einhver keyptur í sumar. Jafnvel Ismaila Sarr sem við höfum eitthvað verið orðaðir við verði á lausu nú þegar Watford er fallið?
  • 99 stig er hreint út sagt ótrúlegur árángur, félagsmet og einu stigi frá deildarmeti. Ótrúlegt tímabil á enda og megi það næsta verða jafn gott!
  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close