Podcast – Hnefahögg beint í andlitið

Enn eina ferðina hikstar Liverpool gegn liði sem að öllum líkindum fellur úr deildinni í vor. Liverpool bara ætlar ekki að læra það að brjóta niður lið sem „neitar“ að spila fótbolta og fyrir vikið er það svona algengt að sjá Liverpool spila frábærlega gegn bestu liðunum en tapa niður fáránlegum stigum gegn liðunum í neðri hlutanum. Liverpool er Hrói Höttur fótboltans og þarf að fara segja upp því hlutverki.

Kafli 1: 00:00 – Viðbrögð við Swansea leiknum
Kafli 2: 21:10 – Mark Swansea, VVD og vörnin
Kafli 3: 27:10 – Can sem fyrirliði og Joe Gomez
Kafli 4: 34:00 – Sturridge að fara og janúarglugginn
Kafli 5: 38:30 – Stjóraskipti litlu liðana, back to basics
Kafli 6: 47:15 – Leikmannaviðskipti Man Utd og Arsenal
Kafli 7: 54:35 – W.B.A og Huddersfield næst

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn og Maggi

MP3: Þáttur 181

Swansea 1 – 0 Liverpool

Mörkin

1-0 (40) Mawson

Leikurinn

Fyrri hálfleikur var ekki góður hjá okkar mönnum. Það svosem hjálpaði ekki að Swansea stilltu upp eins og liðin úr neðri hluta deildarinnar hafa að jafnaði gert: nánast allir leikmenn á bak við boltann. Það var líka eins og hinir rauðklæddu væru kærulausari en að jafnaði. Þeir fengu nokkur færi: Mané fékk sendingu inn á teiginn þar sem hann var á auðum sjó, en missti boltann frá sér og eftir krafs milli hans og Fabianski slapp boltinn út úr teig. Salah fékk færi sem hann afgreiddi afar snyrtilega yfir. Virgil van Dijk fékk frían skalla eftir horn en skallaði framhjá. Á einum tímapunkti var Matip orðinn fremsti leikmaður í sókninni sem segir kannski hversu framarlega lærisveinar Klopp lágu, en sú sókn endaði með að Fabianski varði skot frá Oxlade-Chamberlain.

Það var svo á 40. mínútu að við fengum að sjá kunnuglega sjón. Swansea fengu horn, van Dijk skallaði frá en beint til hvítklæddra sem voru nálægt vítateigspunktinum og skot frá Mawson rataði beint í hornið. Karius má svosem eiga það að hann skutlaði sér á eftir boltanum, en fékk ekki ráðið við neitt. Erfitt að sjá hvort það hafi verið gerð einhver afgerandi mistök í þessu marki, en líklega hefði van Dijk átt að koma boltanum meira afgerandi í burtu.

Í lok hálfleiksins sluppu svo Salah og Mané í gegn en auðvitað skaut Mané framhjá.

Semsagt: hálfleikur þar sem liðið fékk fá tækifæri til að beita skyndisóknum, og í þeim tilfellum þar sem liðið fékk færi var nýtingin bara alls ekki nógu góð.

Það var aðeins líflegra Liverpool lið sem mætti til leiks í síðari hálfleik. Nokkur hálffæri létu á sér kræla: Robertson átti stórhættulega fyrigjöf sem var örlítið of innarlega, Salah tók aukaspyrnu á 60. mínútu sem var líklega á leið í þverslá þegar markvörðurinn blakaði boltanum yfir.

Á 68. mínútu kom Lallana inná fyrir Oxlade-Chamberlain, og það mætti alveg færa rök fyrir því að Winjaldum hefði e.t.v. frekar átt að skella sér á bekkinn. Hann kom hins vegar útaf 5 mínútum síðar, og í staðinn fengum við að sjá Danny Ings nokkurn. Hann fékk svo ágætt færi á 77. mínútu en skotið var ekki alveg nógu fast.

Síðasta korterið var svo reynt til hins ítrasta, og það munaði bara millimetrum á síðustu sekúndum leiksins þegar Firmino átti skalla í stöng, sem svo lenti fyrir fætur Lallana, en inn vildi boltinn ekki. Úr síðasta horninu náðist ekki að skora, þrátt fyrir að jafnvel Karius væri kominn í sóknina.

Bestu/verstu menn liðsins

Það er erfitt að ætla að draga einhvern sérstaklega útúr. Liðið einfaldlega fann sig ekki. Enginn eitthvað sérstaklega á tánum, en enginn heldur á skotskónum. Hvernig Klopp tókst að mótivera liðið upp í að vinna City í síðustu viku en tapa svo fyrir botnliðinu er hins vegar rannsóknarefni, og ég ætla því að segja að hann hafi átt versta daginn.

Umræðan

Byrjum á fróðleiksmolum: þetta var í fyrsta skiptið sem úrvalsdeildarlið stillti eingöngu upp leikmönnum sem eru fæddir árið 1990 eða síðar. Þetta var líka leikurinn sem endaði runu af 18 leikjum án taps.

Nú hlýtur umræðan að snúast um það hvort salan á Coutinho hafi verið réttmæt, og hvort það þurfi ekki að finna einhvern sem getur búið til eitthvað upp úr engu gegn svona liðum, rétt eins og hann gat oft á tíðum. Ég hefði t.d. alveg séð þessa aukaspyrnu inni hjá betri aukaspyrnumanni, svona sem dæmi.

Það er a.m.k. alveg á hreinu að meistaradeildarsætið er ekki á nokkurn hátt tryggt í vor, og ef það koma mikið fleiri svona leikir, þá einfaldlega missum við Tottenham og/eða Arsenal framúr. Mjög einfalt.

Það eru ekki miklar líkur á að við sjáum neitt mikið skemmtilegri leik um helgina, þegar WBA koma á Anfield. Þar má reikna með eins og einni eða tveim rútum. Vonum samt það besta.

Liðið gegn Swansea

Eftir rúmlega vikuhvíld er loksins komið aftur að Liverpoolleik. Leikjaálag hvað? Síðasti leikur var líka svo léttur að það telst eiginlega ekki með.

Liðið hefur verið tilkynnt og er sem hér segir:

Karius

Gomez – van Dijk – Matip – Robertson

Winjaldum – Can – Oxlade-Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Bekkurinn: Mignolet, Milner, Klavan, Lallana, Ings, Solanke, Alexander-Arnold.

Það er Can sem ber fyrirliðabandið í þetta skiptið. Vonum að það hafi önnur og betri áhrif en að láta Coutinho bera bandið fyrir áramót. Annars er þetta nánast óbreytt lið frá síðasta leik, mér sýnist að það sé bara van Dijk sem kemur inn í staðinn fyrir Lovren.

Nú er bara að sjá hvort að þetta lið nær að vinna á köldu mánudagskvöldi í StokeSwansea, enda ekki nema 8 gráðu hiti þar í augnablikinu og kólnar sjálfsagt með kvöldinu.

Komasooooooo!!!

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Mánudagur í Wales.

Á mánudagskvöldið fara okkar menn í ferðalag suður til Wales og freista þess að taka þrjú stig af botnliði Swansea. Liðin í kringum okkur unnu öll sína leiki um helgina ( Tottenham á eftir að spila þegar þetta er ritað) og því ekkert annað í boði en sigur og stigin þrjú.

Swansea

Síðast mættust liðin á Anfield annan í jólum s.l. og  unnu Liverpool mjög þægilegan 5-0 sigur í frábærum leik. Í þeim leik stýrði Leon Britton liði Swansea til bráðabirgða en tveimur dögum síðar eða þann 28. desember réðu þeir hinn Portúgalska Carlos Carvalhal. Carlos þessi er 52 ára og hefur þjálfað fjöldann allan af liðum, flest í heimalandi sínu en einnig Besiktas og Istanbul BB í Tyrklandi. Síðast þjálfaði hann Sheffield Wednesday og hafði verið þar frá árinu 2015 en með „samþykki“ beggja aðila var hann látinn taka pokann sinn á aðfangadag. Carlos var þó aðeins atvinnulaus í fjóra daga en Swansea réðu hann þann 28. desember sem áður segir.

Síðan Carvalhal tók við Swansea hefur þeim gengið alveg þokkalega. Hann hefur stýrt þeim í fimm leikjum í deild og bikar, unnið tvo, gert tvö jafntefli en aðeins tapað einum leik og er mikill munur á að sjá þá þessa dagana þar sem horfin gleði virðist aðeins vera að koma til baka hjá þeim. Það virðast allir leikmenn þeirra leikfærir og engin í leikbanni. Ég renni blint í sjóinn og tippa á að þeir stilli upp sama byrjunarliði og í þeirra síðasta deildarleik þegar þeir gerðu 1-1 jafntefli við Newcastle á útivelli. Liðið þeirra yrði þá svona:

 

 

Fabianski

Van Der Hoorn – Bartley – Mawson – Olsson

Dyer – Clucas – Ki – Carroll – Ayew

– McBurnie –

4-5-1 með Ki djúpan á miðjunni og hinn sterka McBurnie einan frammi. Þetta lið getur vel strítt okkar mönnum og ljóst að það má ekki fara inní þennan leik með neitt vanmat. Swansea unnu okkur einmitt 21. janúar 2017 í hörmungarleik á Anfield 2-3 en þeir eru mun veikari núna þar sem Gylfi er náttúrlega farinn en hann skoraði einmitt sigurmarkið í þeim leik.

 

Liverpool

Okkar menn eru á mikilli siglingu og hafa ekki tapað leik síðan 22. október þegar Tottenham fóru illa með okkur. Liverpool sitja í fjórða sætinu með 47 stig þremur stigum á eftir Chelsea sem sitja í því þriðja eftir stórsigur um helgina.

Af okkar mönnum er helst að frétta að Lovren er tæpur fyrir leikinn með flensu en það ætti ekki að koma að sök þar sem Virgil nokkur Van Dijk er orðinn klár og leikur að öllum líkindum í hjarta varnarinnar með Matip sér við hlið í sínum fyrsta deildarleik fyrir Liverpool. Henderson er allur að ná sér af meiðslum en fer að öllum líkindum ekki með liðinu á mánudag og sömu sögu er að segja af Moreno sem er einnig að skríða saman og þeir báðir farnir að æfa eðlilega. Salah og Klavan misstu af æfingu á fimmtudaginn vegna þessarar sömu flensu og er að hrjá Lovren en Klopp var mjög vongóður á blaðamannafundi um að Salah yrði klár í leikinn.  Clyne situr svo náttúrlega sem fastast á meiðslalistanum ásamt Sturridge sem er sagður koma til baka eftir um hálfan mánuð. Klopp gaf það svo skýrt út að Karius væri orðinn markvörður nr eitt og því mun hann byrja á mánudaginn.

Ég tippa því á liðið svona:

 

Karius

Gomez – Matip – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Can – Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Sama lið og gegn Manchester City nema að Van Dijk kemur inn í stað Lovren sem er mikil styrking. Leikmenn hafa fengið vikuhvíld og því tel ég að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði. Persónulega væri ég til að sjá Trent Arnold spila þennan leik og svo getur vel verið að Lallana komi inn í stað annaðhvort Wijnaldum eða Chamberlain. Eins er spurning hvort Salah verði 100 % og þá hvort Solanke eða Ings fái sénsinn.

 

Spá

Við eigum að vinna þetta lið þrátt fyrir að það megi alls ekki vanmeta þá, við stuðningsfólk Liverpool vitum svo að það er ekkert gefið eða auðvelt þegar kemur að okkar mönnum. Ég spái samt nokkuð öruggum sigri 1-4 þar sem Mané skorar tvö og Salah og Firmino sitt markið hvor. Koma svo!! YNWA!!

Á sama tíma eftir 4 ár

Núna nýlega birtist þessi mynd á Reddit. Hún sýnir hópinn eins og hann leit út fyrir tímabilið 2013-2014. Það sem er athyglisvert er að af öllum þessum hópi manna þá eru aðeins fjórir leikmenn eftir: Henderson, Sturridge, Mignolet og Flanagan. Aðrir eru hættir, hafa verið seldir, nú eða reknir. Og ef við skoðum þessa fjóra sem eftir standa, þá er Sturridge mögulega á leiðinni til Ítalíu, sama gæti átt við um Mignolet, Flanagan líklega á leið í grjótið, og í raun bara Henderson sem gæti mögulega átt einhverja framtíð hjá klúbbnum. Þetta eru því allsvakaleg umskipti á ekki lengri tíma.

Þá spyr maður sig: hvernig verður staðan eftir 4 ár? Undirritaður ákvað því að spyrja lesendur /r/LiverpoolFC hvaða leikmenn þeir teldu að yrðu enn í liðinu eftir 4 ár, þ.e. í janúar árið 2022. 16 svöruðu með afgerandi hætti, og að meðaltali voru um 8.6 leikmenn nefndir í hverju svari. Það er semsagt reiknað með að heldur fleiri verði enn til staðar eftir 4 ár heldur en eru núna fjórum árum eftir 2013/2014 tímabilið ágæta. Mögulega skýrist það af því að fólk telji líklegra að nú séum við með stjóra sem verði e.t.v. enn við stjórnvölinn eftir þennan tíma, eða hugsanlega að fólk telji meðalaldurinn vera þannig að leikmenn séu komnir til að vera. Ein skýring gæti líka verið sú að fólk telji að leikmannakaupin síðustu árin hafi e.t.v. verið gáfulegri heldur en árin þar á undan.

En hverjir gætu svo þessir 9 leikmenn verið? Þessir fengu a.m.k. flest atkvæði:

 1. Virgil van Dijk – 15 stig
  Já flestir telja að við séum komin með framtíðarleikmann með nýjustu kaupunum. Þarf kannski ekki að koma á óvart.
 2. Trent Alexander-Arnold – 14 stig
  Fólk virðist hafa litla trú á því að Scouserinn okkar sé að fara neitt annað.
 3. Alex Oxlade-Chamberlain – 14 stig
  Fólk hefur trú á því að Chambo muni reynast okkur vel, því tæpast væri hann enn á staðnum annars eftir 4 ár? Ég held að síðustu vikur hafi sýnt okkur að hann hefur allt til að bera til að vera a.m.k. næstu 4 ár hjá klúbbnum.
 4. Joe Gomez – 13 stig
  Fólk virðist líta svo á að vörnin okkar sé komin til að vera, og þrátt fyrir að Joe okkar hafi verið ögn mistækur eru líkur á að hann muni læra með tímanum og verða bæði öflugur og mikilvægur í vörninni.
 5. Bobby Firmino – 11 stig
  Hver veit, kannski verður gerður við hann samningur til lífstíðar? Margir virðast a.m.k. vera á því að þessi litríki (*hóst* gul spjöld fyrir fagnaðarlæti *hóst*) framherji okkar verði hér áfram. Sumir tala jafnvel um hann sem mögulegan fyrirliða.
 6. Andy Robertson – 9 stig
  Skotinn með stállungun er búinn að vera að vinna sig inn í hjörtu Liverpool stuðningsmanna á síðustu vikum, og margir vilja sjá hann hér til langframa. Segir ekki sagan líka að Liverpool vinni aðeins titil með Skota innanborðs?
 7. Joel Matip – 7 stig
  Eins og áður sagði virðist fólk líta svo á að vörnin okkar sé orðin bara ágætlega mönnuð, og telja að Matip verði áfram innanborðs næstu 4 ár.
 8. Naby Keita – 7 stig
  Keita er vissulega ekki opinberlega orðinn Liverpool leikmaður, en það voru engu að síður margir sem nefndu hann.
 9. Ben Woodburn – 7 stig
  Þó svo að prinsinn af Wales hafi fá tækifæri fengið í vetur, þá megum við ekki gleyma að hann er aðeins 18 ára (verður 19 á árinu), og verður því aðeins 22ja ára í janúar 2022.

Næstu menn inn voru Mané með 6 stig, Clyne og Winjaldum með 4, Karius, Moreno og Solanke með 3 og aðrir minna. Áhugavert fannst mér hve fáir reiknuðu með að Salah yrði hér eftir 4 ár. Þá voru leikmenn eins og Mignolet, Lovren, Milner, Can, Sturridge, Ward, Flanagan og Markovic ekki nefndir á nafn.

Einhver grínistinn nefndi Griezmann, og Klavan var einusinni nefndur á nafn, og þá sem sá sem hefði tekið við Klopp sem knattspyrnustjóri liðsins. OK mögulega var ekki full alvara að baki öllum svörunum.

Hér er að sjálfsögðu aðeins um framtíðarpælingar að ræða, og tíminn einn mun leiða í ljós hve stór hluti hópsins verður enn til staðar eftir 4 ár. Persónulega telur greinarhöfundur að það muni skipta miklu hvort Klopp haldi áfram með hópinn, eða hvort það verði skipt um knattspyrnustjóra á miðri leið (sem vonandi gerist ekki!)

Að lokum væri gaman að sjá hvað lesendur kop.is halda í þessum efnum. Hvaða leikmenn sjáið þið fyrir ykkur í liðinu í janúar árið 2022? Setjið endilega ykkar pælingar í athugasemdir. Við skoðum svo niðurstöðuna að fjórum árum liðnum.