Latest stories

 • Everton 1 – 4 Liverpool – Liverpool borg er rauð (as usual)

  Liverpool vann allt of sjaldséðan sigur á Everton á Goodison Park í kvöld, og þessi leikur var tekinn með vinstri (bókstaflega).

  Mörkin

  0-1 Henderson (9. mín)
  0-2 Salah (19. mín)
  1-2 Gray (38. mín)
  1-3 Salah (64. mín)
  1-4 Jota (79. mín)

  Gangur leiksins

  Það var ekkert verið að byrja neitt óþarflega rólega í kvöld, okkar menn voru strax komnir í færi og hefðu getað verið komnir í 4-0 eftir 10 mínútur með nákvæmari afgreiðslum. Matip fékk frían skalla eftir hornspyrnu frá Trent, en sneiddi boltann framhjá. Salah fékk tvö góð færi til að skora, hefði átt að skalla annan boltann en ákvað í staðinn að reyna að taka hann með fætinum og setti hann yfir fyrir vikið. Lét svo Pickford verja frá sér annað skot. En sá stutthenti kom engum vörnum við þegar Robbo fékk boltann við vinstri kantinn á teignum, gaf snyrtilega sendingu á Hendo sem hafði hellings pláss, gat stillt miðið og átti hnitmiðað vinstri fótar skot í bláhornið. Mjög sanngjarnt, og það var alveg jafn sanngjarnt þegar Salah kom okkar mönnum í 0-2 10 mínútum síðar. Everton voru í sókn en töpuðu boltanum, Hendo átti fullkomna sendingu upp í hægra hornið þar sem Salah kom aðvífandi, lagði boltann fyrir sig og sneiddi hann svo í fjærhornið með vinstri, alveg óverjandi fyrir litlu risaeðluna í markinu.

  En svo tók við kafli þar sem okkar menn slökuðu á klónni, og duttu niður á sama plan og Everton. Og auðvitað endaði það með því að þeim bláklæddu náðu að pota inn einu marki, varnarleikurinn var einfaldlega ekki nógu góður, Gray fékk boltann óvaldaður fyrir framan vítateig Liverpool, og þó svo Trent væri nálægt honum var hann samt ekki nógu nálægt til að blokka skotið sem Alisson varði ekki, ótrúlegt en satt. Við erum líklega orðin of vön því að hann taki svona færi og éti þau, en það er nefnilega alls ekki sjálfgefið. Í framhaldinu fékk svo Thiago gult spjald, en að vísu voru Everton menn mun duglegri í þeirri deild og gengu til búningsherbergja með 4 gul spjöld á bakinu (þar af 2 fyrir dýfur) á meðan Thiago var sá eini af okkar mönnum sem fór í svörtu bókina.

  1-2 í hálfleik, forystan var sanngjörn en hefði gjarnan mátt vera stærri út frá spilamennskunni fyrstu 20 mínúturnar.

  Byrjunin á síðari hálfleik var aðeins skárri, en þó voru þeir bláklæddu óþarflega mikið inni í leiknum. Á 62. mínútu fengu þeir aukaspyrnu á hættulegum stað, en skotið var varið í horn. Hornspyrnan var líka varin og barst svo út á miðjan völl þar sem Coleman hefði átt að taka boltann þægilega niður, en missti hann klaufalega til Salah sem var þar með sloppinn í gegn. Við vitum að Salah tekur svona gjöfum alltaf fagnandi, og gerði engin mistök í þetta skiptið þegar hann renndi snyrtilega fram hjá Pickford í fjærhornið. Með vinstri.

  Þarna var nú leikurinn ansi nálægt því að vera frágenginn, en á 79. mínútu sá Jota um að veita þeim náðarhöggið. Hann fékk sendingu frá Robbo inn á teig, sendingin var erfið því hún var aðeins fyrir aftan Jota, en móttakan var upp á 10. Hann var kominn upp að endamörkum við markteigslínuna, en í stað þess að gefa fyrir eins og líklega allir (Pickford þar með talinn) áttu von á, þá dúndraði hann boltanum einfaldlega upp í þaknetið. Með vinstri.

  Það var eitthvað um önnur færi í leiknum, t.d. vannst aukaspyrna sem van Dijk ákvað að vilja taka en skaut frekar hættulítið í varnarvegginn. Milner, Ox og Minamino fengu nokkrar mínútur, en annars kláraðist leikurinn enda Liverpool búið að skora 4 mörk og í síðustu leikjum hafa okkar menn einfaldlega sett í hlutlausan eftir mark nr. 4 og “krúsað” leiknum í höfn.

  Bestu/verstu frammistöðurnar

  Það er nú erfitt að ætla að taka einhvern einn út. Salah á klárlega tilkall í mann leiksins enda skoraði hann tvö mörk, og þurfti alveg að hafa fyrir þeim báðum. Hendo átti einn albesta leik sinn í lengri tíma, með mark og stoðsendingu, fyrsti leikmaður Liverpool til að eiga slíkt gegn Everton síðan…. Gerrard árið 2005. Jota var líka mjög öflugur, hann á það alveg til að vera svona semí ósýnilegur í leikjum en poppar svo upp með afgreiðslur eins og þessa í kvöld. Í kvöld var hann samt alls ekkert ósýnilegur, heldur þvert á móti sívinnandi. Það var einna helst að Fab og Virgil ættu pínku erfitt, en samt fjarri því að eiga eitthvað slæman leik. Robbo með mjög dæmigerða frammistöðu fyrir þá útgáfuna af Andy Robertson sem er í stuði og veit af samkeppninni bankandi á dyrnar. Hann er núna hægt og bítandi búinn að vera að saxa á stoðsendingaforskotið sem Trent var búinn að búa til, og er núna með 4 í deildinni á meðan Trent er með 7 (Salah að sjálfsögðu efstur með 8).

  Umræðan eftir leik

  Byrjum á alvarlegu nótunum, en leikmenn léku með sorgarbönd til heiðurs 12 ára stúlku sem var stungin til bana í Liverpoolborg, og Trent var með þessi skilaboð á bolnum sínum:

  En svo að aðeins skemmtilegri hlutum: Liverpool hefur núna skorað 2+ mörk í 18 leikjum í öllum keppnum í röð, fyrst enskra liða. Salah er kominn með 30 mörk/stoðsendingar í öllum keppnum, og desember var rétt að byrja. Hvað segið þið um þennan samning FSG? Á ekkert að fara að skrifa undir? Þið vitið alveg að þetta er besti leikmaðurinn í boltanum í dag, sama hvað eitthvað franskt sorprit segir?

  Nú og svo verður að minnast á frammistöðu Travelling Kop sem bæði tók Rafa “chant”-ið og svissaði svo yfir í uppfærða útgáfu af “X is at the wheel” sem núna virðist vera orðinn söngur sem er hægt að syngja þegar knattspyrnustjóri andstæðinganna er klárlega í heitu sæti og ætti líklega að vera löngu farinn. Við viljum nú gjarnan að Rafa fái að búa hjá fjölskyldu sinni í Liverpool borg, fer ekki að losna staða hjá Tranmere fljótlega? Því hann hlýtur að fá að fjúka frá Everton fljótlega. Ekki það að núverandi staða Everton er alls ekki honum að kenna, þetta er bara klúbbur í vondum málum.

  Já og hei, við vitum ekki annað en að menn hafi sloppið ómeiddir frá þessum leik. Því ber alltaf að fagna.

  Næsti leikur

  Heimsókn til Úlfanna um næstu helgi, sýnd veiði en ekki gefin þar. Ekki tókst að saxa á City og Chelsea í kvöld, þar sem þau unnu bæði 2-1 sigra á útivelli, en markatalan er hægt og bítandi að batna okkar mönnum í hag, svo það er eitthvað. En eins og við vitum þá skiptir auðvitað engu máli hvaða lið er á toppnum um jólin, það er staðan í lok 38. umferðar sem skiptir öllu máli. Okkar menn þurfa bara að vera tilbúnir að grípa gæsina þegar hún gefst, því hún mun gefast. Við skulum ekki láta okkur detta neitt annað í hug!

  [...]
 • Liðið gegn Everton á Goodison

  Klukkutími í leik, og búið að tilkynna hvaða leikmenn gangi fram á vígvöllinn á Goodison Park á eftir:

  Alisson

  Trent – Matip – VVD – Robbo

  Hendo – Fab – Thiago

  Salah – Jota – Mané

  Bekkur: Kelleher, Konaté, Neco, Tsimikas, Ox, Milner, Morton, Origi, Minamino

  Rafa stillir upp sókndjörfu liði, sjáum hvernig það reynist þeim.

  Verkefnið er einfalt: ná í 3 stig, og gera það án þess að meiðslalistinn lengist.

  EDIT: annars er goggunarröð leikmanna alltaf svolítið áhugaverð, og þegar meiðslalistinn styttist þá glittir í endann á röðinni. T.d. fær Nat Phillips að víkja af varamannabekknum, en Tyler Morton er ennþá þarna. Það er þrátt fyrir að á bekknum séu a.m.k. tveir leikmenn sem geta komið inn á miðjuna (Ox, Milner), jafnvel 3 ef við segjum að Minamino geti spilað þar líka, en aðeins einn miðvörður. Ekki það að tæpast mun reyna mikið á þessa leikmenn sem eru neðst í goggunarröðinni, líklegustu menn til að koma inná á eftir eru líklega Milner, Ox, Minamino og Tsimikas, en líkurnar á því að aðrir komi inn á eru minni og kannski aðeins ef einhver meiðist (sem við vonum auðvitað að gerist ekki).

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Jólin koma með ferð á Goodison Park (Upphitun)

  Á meðan snjó kyngir niður í höfuðborginni hér á Íslandi undirbúa leikmenn Liverpool sig undir jólatörnina. Hún er alla jafnan brjáluð og árið 2021 er engin undantekning á því. Níu leikir á fjórum vikum, heimsókn til gamals þjálfara og besti leikmaður í sögu Liverpool kemur á Anfield, ferð til Ítalíu, 8 liða úrslit deildarbikarsins og annar leikur gegn lærisveinum annars fyrrum þjálfara, svo verður dregið bæði í bikarnum og Meistaradeildinni. Alvöru törn sem byrjar á einum erfiðasta leik sem Liverpool spilar á ári hverju, oftar en ekki í byrjun desember: Heimsókna til eldri, minni bróðursins í Everton.

  Hvað varstu að pæla Rafa?

  Frá því að Rafael Benitez steig upp í flugvél árið 2004 til að taka við Liverpool hefur hann tekið einstakan túr um fótboltaheiminn, þar sem markmiðið virðist hafa verið að vinna fyrir alla erfiðustu eigendur í fótboltanum. Liverpool undir stjórn Gillet og Hicks, Chelsea hjá Roman, Real Madrid með öllu þeirra drama, tveim ítölskum liðum og Newcastle United hjá Ashley. Hann skaust líka til Kína að hjálpa til við að hífa boltann þar upp en hætti þar vegna Covid.

  Eftir allt þetta flakk varð honum tvennt ljóst: Hann vildi búa í Bítlaborginni og að hann yrði að finna sér lið til að þjálfa. Á meðan stjórasæti Liverpool er líklega það tryggasta á Englandi hefði verið rökréttast fyrir hann að taka við Tranmere Rovers en stuðningsmönnum Liverpool (og Everton) til mikils hryllings þá var honum boðið stjórasætið á Goodison Park. Hann þáði það.

  Það er leit að liði sem hefur spilað jafn mikið undir getu (á pappír) síðustu áratugi og Everton. Í áratug voru þeir undir stjórn David Moyes, sem eftir á að hyggja skilaði liðinu á fínu pari. Síðan 2013 hafa níu menn staðið í brúnni hjá liðinu, allt frá Duncan Ferguson og upp í Carlo Ancelotti. Þeir hafa eytt ógrynni af peningum leikmenn, en þeir leikmenn hafa átt að passa inn í hvern leikstílinn á fætur öðrum. Niðurstaðan er hrærigrautur og lið sem hengur nú um miðja deild. Þeirra lang stærsta og í raun eina afrek síðustu tíu ár var á síðasta tímabili: Þeim tókst þá í fyrsta sinn síðan árið 2000 að ná í þrjú stig á Anfield. Af mörgum lágpunktum á síðasta tímabils þá var þessi sá lægsti.

  En hvert stefnir þetta lið undir stjórn Rafa? Það er erfitt að segja. Með fullri virðingu fyrir spánverjanum þá er hann ekki lengur einn af topp stjórunum í heiminum, þó hann sé frábær. Með tíð og tíma held ég að hann gæti byggt upp ógnvekjandi lið á Goodison Park, kannski ekki meistaradeildarlið en miðað við peningana sem er ausið í leikmannahópinn þá ættu þeir undir eðlilegum kringumstæðum í það minnsta að vera í Evrópudeildinni. Stærsta vandamál þeirra síðustu ár er þessi óstöðuleiki og ólíklegt að þeir nái nokkrum stöðuleika á meðan þeir skipta um stjóra árlega. Hvort sem það er óþolinmæði eigenda eða stuðningsmanna er ekki augljóst, en eitthvað er vandamálið.

  Þegar Everton héldu að þeir væru með bestu framlínu borgarinnar

  Eins og staðan er núna þá er erfitt að sjá Rafa fagna áramótum sem stjóri Everton. Gengi þeirra undanfarið hefur verið hreinasta hörmung. Það er auðvelt að gleyma að Everton byrjaði tímabilið af miklum krafti, unnu fjóra af fyrstu sex leikjum í deildinni. Málið er að síðan 25. september hafa þeir ekki unnið leik í deild né bikar og hafa litið hörmulega út. Það er fullkomnlega líklegt að þeir fari sigurlausir í gegnum jólamánuðinn og þá er spurningin hvenær þeir ákveða að taka í gikkinn og henda Rafa út. En ef þeir ná að stela þrem stigum á morgun myndi það líklega kaupa Rafa tíma fram á vor, þessi leikur skiptir okkur púllara miklu en hann skiptir blánefina öllu.

  Okkar menn

  Á ég að skrifa upphitun fyrir þennan leik í desember og ekki deila jólalaginu?

   

  Eða fyndnasta marki allra tíma?

  Allavega. Klopp var afar flottur á blaðamannafundi núna fyrir leikinn. Hann benti réttilega á að leikir þessara liða síðustu ár hafa farið úr því að vera harðir yfir í að vara fáranlegir. Síðustu ára hafa Van Dijk, Thiago, Origi meiðst illa í leikjum liðanna og gæti vel verið að ég sé að gleyma einhverjum.

  Það breytir ekki að þetta er leikur sem þarf að vinnast. Þrjú efstu liðin í deildinni eru að slíta sig frá restinni hægt og bítandi og er ansi líklegt að frammistaða þeirra í desember muni ráða miklu í kapphlaupinu um titilinn. Það er líklegra að Klopp reyni að rótera á móti Úlfunum um helgina en í þessum, fyrir utan að eftir að hafa klárað síðustu leiki nokkuð örruglega ætti hópurinn að vera nokkuð hress.

  Eins og stendur er meiðslalisti Liverpool þannig séð stuttur, „bara“ Firmino, Keita, Gomez, Elliot og Jones úti. Það er samt nokkuð stór hópur sem er nýstiginn upp úr meiðslum. Ég ætla að giska á að við fáum okkar sterkustu varnarlínu, það er að segja Trent, Van Dijk, Matip og Robbo fyrir framan Alisson. Það má færa mjög rök fyrir að Fabinho sé fyrsti maður á blað í stórum leikjum og ég er því hjartanlega sammála. En hverjir verða með honum á miðjunni? Eins og stendur er sterkasta miðjan okkar Fab, Thiago og Henderson og þeir munu hefja þennan leik ef mér skjátlast ekki.

  Það var bent á í Gullkastinu í gær að Klopp hefur ansi oft hringlað með framlínuna í þessum leik. Það er vissulega pínu freistandi að setja Origi í byrjunarliðið, enda er hann markahæstur af núverandi leikmönnum liðsins í nágrannaslagnum, en ég ætla frekar að tippa á að hann komi snemma inn á í seinni hálfleik ef vel gengur. Þannig að höldum okkur við það sem virkar: Jota, Salah, Mané.

  Spá.

  Sama hvað öllum grannaslagsklisjum líður, þá getur þetta Everton lið ekki blautan og þetta Liverpool lið er stórfenglegt. Okkar menn hafa ekkert talað um það í fjölmiðlum en þeir hljóta að vera með leikina á síðasta tímabili bakvið eyrað. Þetta fer 4-0 fyrir Liverpool, Mané og Jota skora sitthvort, Van Dijk nær sér í eitt eftir horn, Salah lokar svo leikum í seinni hálfleik.

   

  Spurt er að lokum: Hvað sem tengist Everton eiga þessir tveir sameiginlegt?

   

   

  — Viðbót —

  Þær sorgarfréttir voru að berast að miðjumaðurinn Ray Kennedy lést fyrr í dag af völdum Parkinsons sjúkdóms. Hann spilaði 251 leik með Liverpool og skoraði 51 mark, auk 17 leikja fyrir landslið Englands og um 150 með Arsenal. Hann vann allt sem hægt var að vinna með Liverpool og Bob Paisley kallaði hann eitt sinn vanmetnasta leikmann í heimi. Hann vann líka tvennuna meða Arsenal og var síðustu kaup Bill Shankly til liðsins.

   

  Við bjóðum þeim sem voru svo heppnir að sjá hann spila að deila minningum sínum af þessum frábæra leikmanni og Liverpool goðsögn.

   

  Hvíl í friði meistari. You’ll Never Walk Alone.

  -Kop teymið

  [...]
 • Gullkastið – Nágrannaslagurinn

  Everton er verkefni vikunnar á Goodison Park og verður vonandi ekki jafn herfilega heimskulega dæmdur og fáránlega grófur og þessi leikur liðanna var á síðustu leiktíð. Sú fjandans viðureign er geymd en ekki gleymd. Úlfarnir bíða svo um helgina einnig á útivelli. Síðustu viku vann Liverpool samanlagt 10-0 og var það nokkuð vel sloppið frá sjónarhóli andstæðinga vikunnar. Annarsstaðar tapaði Chelsea loksins stigum og United réði bara nokkuð gáfulegan nýjan stjóra.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 358

  [...]
 • Liverpool – Southampton 4-0

  1-0 Jota, 2. min
  2-0 Jota, 31. min.
  3-0 Thiago, 36. min.
  4-0 Van Dijk, 52. min

  Það að segja að þessi leikur hafi byrjað fjörlega er líklega understatement. Það voru innan við 15 sec búnar þegar gestirnir fengu fyrstu hornspyrnu leiksins og innan við tvær mínútur búnar þegar knötturinn var kominn í netið hinumegin! Robertson lék þá knettinum á Mané og hélt hlaupinu áfram inn á vítateig, Mané sendi boltann frábærlega á milli fóta Bednarek á Robertson sem sendi hann út í vítateig á Jota sem skoraði örugglega, 1-0!

  Mínútu síðar s.a. þá átti Thiago slaka sendingu til baka undir pressu en Alisson kom á móti og bjargaði frábærlega!

  (more…)

  [...]
 • Liðið gegn Southampton

  Liverpool gerir sex breytingar á liðinu í dag frá því gegn Porto, eins og við var að búast. Inn koma Henderson, TAA, VVD, Robertson, Fabinho og Jota – ágætis hópur það! 

  Ég er ekki frá því að þetta sé okkar sterkasta miðja, Fabinho, Henderson og Thiago. Man ekki eftir því í fljótu bragði hvort og þá hvenær þeir hafa spilað saman áður en þetta lið er sterkt, virkilega sterkt – krafa um þrjú stig í dag!

   

  YNWA

  [...]
 • Upphitun: Southampton á Anfield

   

  Dýrðlingarnir mæta í dýrðina á Merseyside er SunnEnglendingarnir sækja höfuðborg Norður-Englands heim. Hinn rammþýski Jürgen Klopp fer í hugrænan sjómann við hinn austuríska Klopp í formi Ralph Hasenhüttl. Hver mun hafa betur í bardaga gallharðra germanskra? Ich weiß es nicht, aber wir spielen Fußball!!

  Vér skírum yður séra Jürgenhüttl af Suðurdýrðum. Far í friði.

  Mótherjinn

  Southampton byrjuð tímabilið illa og náðu ekki að vinna sigur í fyrstu 7 deildarleikjum tímabilsins og virtist vera sem slæmar forspár svartsýnna sparkspekinga væru að rætast fyrir sunnanmenn. Í síðustu 5 deildarleikjum hefur Saints þó tekist að vinna 3 sigra sem hefur hýft þá hraðbyr upp í 13.sæti deildarinnar og virðist sem þeim hafi tekist að trekkja sig í gang. En tap gegn Norwich í síðustu umferð var löðrungur raunveruleikans um að nóg væri eftir af blóðugri baráttu fyrir tilverunni í úrvalsdeild hinna bestu þetta árið.

  Hægt væri að rita mörg lærð orð um The Saints en það væri ólympíuæfing í óþarfleika þegar hægt er að fá alviturt akademískt korter með Yfir-Dýrðling Íslands og Encyclopedia Southamptanica; djassgeggjarinn, trompettröllið, vallarmeistarinn og lífskúnst-Nesbúinn Snorri Sigurðarson í sérútgáfu af Gullkastinu:

  Ein albesta djassplata Íslandssögunnar er toppeintakið Vellir og það er alltaf völlur á toppeintakinu Snorra!

  Að þeim spöku orðum mæltum þá er líklegt byrjunarlið Southampton neðangreint og líklega þeirra sterkasta uppstilling sem í boði er með lítil meiðsli í hópnum:

  Líklegt byrjunarlið Southampton í leikskipulaginu 4-4-2

  Tölfræðimolar

  • Liverpool hafa haldið hreinu í síðustu 5 heimaleikjum sínum gegn Southampton í öllum keppnum.
  • Liverpool eru ósigraðir í 21 af síðustu 22 úrvalsdeildarleik.
  • Liverpool hafa unnið Southampton í 7 af síðustu 8 leikjum liðanna í öllum keppnum.
  • Southampton hafa ekki náð að vinna sigur í 10 af síðustu 11 útileikjum sínum í Úrvalsdeildinni.

  Samheitalið

  Í ljósi gríðarlega mikilli leikmannatengsla Liverpool og Southampton þá er ekki annað hægt en að henda í samansafn af bestu XI manna sameiginlegu liði hins öfluga Liverhampton FC. Það samanstendur af leikmönnum sem hafa spilað fyrir bæði lið og margir seldir þráðbeint á milli. Það þarf enginn að segja mér að þetta lið yrði ekki dóminarandi stórveldi í enskri knattspyrnu!!

  Liðsuppstilling Liverhampton FC í leikskipulaginu 3-4-3

  Bekkurinn: Paul Jones, Barry Venison, Nat Clyne, Sammy Lee, Danny Ings, Rickie Lambert (vítaskytta af bekknum)

  Stillt yrði upp í sókndjarft 3-4-3 með góða vinnslumenn sem síhlaupandi vængbakverði í Ox og Adam. Grjóthörð vörn sem lætur granít gráta með Grobbelaar að grínast fyrir aftan en enginn kemst í gegn nema fuglinn fljúgandi. Jimmy Case sér um tæklingarnar á miðjunni og Jamie Redknapp um sykursætar spékoppasendingar og skotfastar aukaspyrnur. Í fremstu víglínu skallar Crouch boltann niður fyrir skotfætur Kevin Keegan og Sadio Mané ásamt öflugum varamönnum, Venisonum og vítaskyttum af bekknum. Getur ekki klikkað!

  Liverpool

  Okkar menn hafa mætt gríðarlega öflugir til leiks eftir landsleikjahléið með mögnuðum sigri á Arsenal og snyrtilega framkvæmdu skylduverkefni gegn Porto. Þriðji heimaleikurinn í röð fer því fram við bestu aðstæður þar sem sjálfstraustið er í botni og leikformið í góðum gír með fínum róteringarbónusum og batnandi meiðslalista. Klopp og allir Púlarar gera því kröfu um áframhaldandi kraft í frammistöðu liðsins til þess að ná að halda öflugum dampi í toppbaráttunni.

  Hafa ber þó í huga við liðsvalið að næsti deildarleikur sem fer fram næsta miðvikudagskvöld er lítill innanbæjarslagur gegn Everton og Rafa Benitez. Með það í huga er mín spá um liðsuppstillingu sú að margir af þeim sem fengu róterandi hvíldarskiptingu gegn Porto haldi sæti sínu í liðinu og þar er ég sérstaklega að tala um Tsimikas, Tiago og Oxlade Chamberlain.

  Einnig held ég að Matip fái hvíld eftir tvo leiki í röð og verði sparaður fyrir bláliðana þannig að Konate heldur einnig sínu sæti en fái VVD sér til halds og trausts. Sama gæti gilt um Minamino þar sem Jota er að koma úr smávægilegum meiðslum og betra væri að hafa hann til taks á bekknum ef vel gengur og hægt er að hvíla Salah eða Mané. Fyrirliðinn Henderson verður einnig sparaður fyrir borgarslag Bítlanna þannig að liðsuppstillingin gæti verið á þessa leið:

  Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

  Spakra manna spádómur

  Heimaleikur gegn Southampton telst skyldusigur fyrir tititilvonir og væntingar Liverpool og þar má engu skeika í harðri baráttu við misbláa keppinauta. En fyrir Southampton væri gott jafntefli gulli betra og Snorri Djass-Dýrðlingur spáir leiknum 1-1 með mörkum frá Salah og Che Adams.

  Sjálfur ætlar pistlahöfundur að gerast svo spádómslega vaxinn að giska á 3-1 sigur þar sem fyrrum Saints-mennirnir Salah, Virgil og Minamino skora fyrir heimamenn en Ward-Prowse setur sárabótarmark fyrir gestina.

  YNWA

  [...]
 • Liverpool 2-0 Porto

  Þægilegur 2-0 heimasigur á Porto og 15 stig af 15 mögulegum í því sem átti að vera tricky riðill. Við sættum okkur við það!

  Jurgen Klopp hróflaði aðeins við byrjunarliði sínu undanfarna leiki og settust meðal annars þeir Trent, Fabinho, Jota og Van Dijk á bekkinn. Tyler Morton byrjaði sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni, Konate kom í miðvörðin og Minamino byrjaði frammi með Salah og Mane.

  Það var kraftur í þessum leik og var ógnað á báða bóga en samt þó ekki þannig að manni fannst liðin líkleg til að refsa að ráði lengi vel. Porto byrjuðu af krafti og var greinilega mun meira í húfi fyrir þá en Liverpool í kvöld og tókst þeim nokkrum sinnum að komast í álitlegar stöður bakvið vörn Liverpool en skotin þeirra voru ekki merkileg.

  Sadio Mane skoraði laglegt mark í fyrri hálfleik eftir flottan bolta frá Thiago en var dæmdur rangstæður í VAR sem var að minnsta kosti mjög tæpt. Liðin voru jöfn þegar flautað var til hálfleiks.

  Það var svo Thiago sem skoraði fyrsta mark leiksins með geggjuðu skoti fyrir utan teig eftir að boltinn barst til hans úr teignum eftir fast leikatriði. Fast og hnitmiðað skot í fjærhornið, gjörsamlega galin skottæknin í því!

  Þá fór þrótturinn svolítið úr Porto og Liverpool gerði skiptingar. Henderson og Robertson komu inn á og skoraði Salah fljótlega annað markið í leiknum og gulltryggði sigurinn. Morton átti hnitmiðaða sendingu fram völlinn á Salah sem spilaði vel með Henderson og komst inn í teig og skoraði með flottu skoti. Hann er eitthvað annað góður!

  Minamino skoraði en það var dæmt af, Origi fékk vítaspyrnu eftir að það var brotið á honum svona meter fyrir utan teig sem var réttilega leiðrétt og leikurinn fjaraði svo bara út.

  Þetta var alls ekki fullkomin frammistaða hjá Liverpool en margt jákvætt. Bakverðirnir Neco Williams og Tsimikas hafa átt betri dag en voru ekkert slakir, Salah og Mane ógnuðu en manni fannst þeir aldrei fara upp úr öðrum gír. Minamino átti ágæt moment en heilt yfir náði hann ekki að setja mark sitt á leikinn. Matip og Konate voru flottir á köflum en lentu stundum, skiljanlega svo sem, skrefi á eftir hröðum sóknarmönnum Porto. Mér fannst miðjumennirnir standa upp úr í dag, Chamberlain átti flottan leik og hefur verið frábær upp á síðkastið og er orðinn alvöru kostur í liðið sem er flott. Morton stóð sig mjög vel, var sterkur til baka og átti margar góðar sendingar í kvöld, rosalega spennandi strákur sem við fáum vonandi að sjá meira af á næstu vikum og mánuðum.

  Maður leiksins var Thiago. Hann er mættur aftur og what a player! Hefði getað fengið stoðsendingu en skoraði í staðinn glæsilegt mark, var flottur gegn Arsenal og heldur áfram í kvöld. Það er sterkt að fá hann aftur í hópinn og vonandi helst hann heill.

  Annars var þetta bara skyldusigur, 15 stig á toppi riðilsins og tíu stigum á undan Porto sem er í 2.sætinu. Fáranlegt!

  Það er svo leikur gegn Southampton um helgina og við viljum klárlega þrjú stigin þar.

  [...]
 • Sterkt en róterað lið gegn Porto

  Liverpool gerir nokkrar breytingar á liðinu sem mætir Porto í næst síðasta leik liðsins í riðlakeppni Meistaradeildar þessa leiktíðina en því mátti búast við þar sem liðið er nú þegar búið að vinna riðilinn með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.

  Alisson

  Williams – Matip – Konate – Tsimikas

  Chamberlain – Morton – Thiago

  Salah – Minamino – Mane

  Bekkur: Kelleher, Adrian, Van Dijk, Fabinho, Jota, Origi, Phillips, Milner, Henderson, Trent, Robertson

  Tyler Morton, sem hefur verið að koma vel inn í aðalliðið í vetur fær óvænt en samt ekki svo óvænt sæti í byrjunarliðinu í kvöld. Hann kom inn á í sínum fyrsta deildarleik um helgina og er þetta mjög spennandi strákur.

  Chamberlain hefur verið mjög flottur undanfarið og Thiago er kominn til baka úr meiðslum og lúkkar vel. Minamino er svo frammi með Salah og Mane en hann skoraði gott mark þegar hann kom inn á gegn Arsenal.

  [...]
 • Liverpool – Porto (aftur), upphitun

  Þegar dregið var í riðla fyrir Meistaradeildina í ár vissu allir að B-riðilinn var dauðariðill. Ríkjandi Spánarmeistarar Atletico Madrid, Porto lið sem er hokið reynslu, hinir fornfrægu AC Milan og Liverpool sem þrátt fyrir hörmungartímabil árið á undan eru alltaf líklegir í Evrópu. Ef litið er á söguna var þetta líka rosalegur riðill, samtals fimmtán evrópumeistaratitlar í bikarskápunum. Spekingar spáðu spennu í þessum riðli og að allt gæti gerst.

  Það sem gerðist var að lærisveinar Klopp snýttu riðlinum svo gjörsamlega að eftir fjórar umferðir er staðfest að riðilinn er unninn. Það eina sem er í húfi fyrir Liverpool í þessum síðustu tveim leikjum er sá aukapeningur sem UEFA gefur fyrir sigurleiki, að Liverpool geti orðið fyrsta enska liðið til að vinna alla leikina í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, og stoltið.

  Ég efa að Klopp sé að hugsa um einhver met, en hann er keppnismaður og vill vinna þennan leik, en væntanlega verður engin séns tekinn á tæpum leikmönnum.

  Það má færa rök fyrir að fyrsti leikur þessara liða undir stjórn Klopp hafi verið besti leikur Mané

  Andstæðingurinn – Porto

  Porto menn eru orðnir okkur púllurum mjög kunnir. Þeim hafa verið gerð góð skil hér áður, enda er þetta sjötti leikur liðanna á fjórum árum. Ég ætla að gera gömlum Kopverjum þann greiða að linka ekki á elstu fréttina á síðunni um Porto, sem var um sigur þeirra í Meistaradeildinni 2004. Í kommentaþræðinum þar má finna nokkra góða menn að ræða hversu geggjað væri að fá þjálfara Porto til Liverpool. Nafn þjálfarans? Mourinho.

  Niðurstöðurnar hafa vera nokkuð einsleitar síðustu ár: 5-0, 0-0, 2-0, 4-1 og nú síðast 5-1. Fjórir sigrar og jafntefli, markatalan 16-2. Mönnum myndi fyrigefast fyrir að halda að þetta Porto lið sé ekki upp á marga fiska.

  En það er langt því frá að þeir lifi á fornri frægð. Kosturinn við að vera í áskrift að toppsætum í sinni deild er að komast ár eftir ár í Meistaradeildina og reglulega hafa þeir komist uppúr riðlinum. Þeir eru með öfluga blöndu af reynsluboltum og ungum og efnilegum.

  Svo er einn lykilmunur á liðunum í þessum leik: þeir hafa að einhverju að keppa. Þeir eru stigi á undan Atletico í riðlinum og eiga lokaleik við Spánverjana. Porto vita að ef hið ótrúlega gerist og þeir sigra á Anfield gætu þeir mögulega komist uppúr riðlinum fyrir loka leikinn (ef Milan tekur upp á að vinna Simone og hans menn). Porto vita líka að ef þeir tapa báðum leikjunum sem þeir eiga eftir gætu þeir mögulega endað í seinasta sæti riðilsins.

  Á sama tíma eru þeir í hörku glímu í Portúgölsku deildinni við hin stórveldin þar: Porto og Sporting eru með 29 stig hvor og einu á stigi á eftir þeim eru Benfica. Portúgalarnir hituðu upp með stíl fyrir leikinn annað kvöld. Þeir slátruðu Feirenese 5-1 í bikarnum og hafa þeir aðeins tapað einum af síðustu níu leikjum.

  Þeir náðu að hvíla nokkra lykilmenn um helgina og munar mestu um að Pepe spreytir sig á Anfield eftir að hafa meiðst í upphitun fyrir Liverpool og Porto síðast. Við munum líklega fá að sjá hann Grujic aftur, en hann hefur verið að gera fínt mót hjá Porto í vetur, eins og í fyrra. Þjálfarinn þeirra, Sergio Conceicao sagði á blaðamannafundi fyrir leik að Liverpool mættu eiga vona á harðara Porto liði. Líklega hárrétt. En það hefur verið sagt af góðum mönnum nýlega að þegar Liverpool spilar skiptir minna hvernig andstæðingurinn spilar og öllu hvernig Liverpool mætir til leiks.

  Okkar menn

  Klopp komst skemmtilega að orði í dag þegar hann sagði að á þessum tíma sé liðslæknirinn oft valdamesti maðurinn þegar kemur að byrjunarliðinu. Það er samt farið að rofa aðeins til í meiðslamálum, „aðeins“ Firmino, Jones, Gomez og Elliot eru staðfest úti. Allir aðrir æfðu eitthvað í gær þó nokkuð margir séu tæpir.

  Ég hef séð spekúlanta ganga svo langt að spá Kelleher í markinu, sem ég held að verði ekki. Við lærðum í fyrra að Klopp vill vinna evrópuleiki þó riðillinn sé dauður þannig að ég held að hann reyni að halda einhvers konar hrygg af reyndum mönnum. Þannig að ég spái Alisson og Matip í byrjunarliðinu, með Konate honum við hlið. Ég held að Tsimikas fái að halda sæti sínu en einhvern tíma verður Trent að fá hvíld og Neco Williams fær vonandi sénsinn á morgun.

  Á miðjunni er dæmið flóknara. Hendo, Keita og Milner eru allir tæpir þó þeir hafi æft, Thiago og Fabinho spiluðu um helgina gegn Arsenal. Finnst líklegt að Alex Oxlade Chamberlain fái að halda sæti sínu og flestir vilja að Tyler Morton fái að byrja eftir að hann kom inná gegn Arsenal. Svo er það spurning hver verður með þeim en ég ætla að giska á Thiago.

  Fremst á vellinum finnst mér augljóst að Minamino fái að byrja leikinn, spurning hver fær að hvíla. Líklegast að það verði Jota eftir höggið sem hann fékk nýlega. Þetta verður semsagt svona:

   

  Spá.

  Ég er ekkert að farast úr bjartsýni fyrir þennan leik. Held ef ég segi eins og er að þetta fari 2-2. Minamino og Salah koma okkar mönnum í góða stöðu fyrir hálfleik áður en einhver klúður valda því að Porto komist inn í leikinn og jafni. Það verðuru bara að hafa það.

  Er ég of bölsýnn? Hvernig spáið þið þessu? Eruð þið kannski í Liverpool á leið á leikinn?

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close