Mikil hátíð framundan – John Barnes mætir

Það er mikil hátíð framundan hjá mörgum stuðningsmönnum Liverpool FC á Íslandi, enda að bresta á árshátíð klúbbsins hér á landi. Að vanda kemur gömul kempa í heimsókn og heiðrar okkur Íslendinga með nærveru sinni og í þetta skiptið er það enginn annar en John Barnes. Auðvitað er frábært að kíkja á sjálfa árshátíðina, enginn verður svikinn af henni, en þó ber ekki að örvænta þótt menn hafi ekki tækifæri á því. John Barnes mun nefninlega heimsækja Egilshöllina og veita þar stuðningsmönnum Liverpool áritanir og jafnvel verður hægt að smella mynd af sér með kappanum. Hann mun sem sagt verða í Egilshöllinni þann 14. mars nk. frá klukkan 11:00 og tekur á móti gestum og gangandi og eru allir Poolarar, ungir sem aldnir, hvattir til að mæta.

Um kvöldið fer svo fram hin rómaða árshátíð klúbbsins og er kannski bara best að vera ekkert að umorða hlutina, heldur taka textann frá þeim beint og skella honum hér inn og um leið hvet ég alla þá sem hafa tök á að fara, að tryggja sér miða sem fyrst, því það er pottþétt að það verður uppselt, ef það er ekki nú þegar orðið það.

Árshátíð Liverpoolklúbbsins á Íslandi verður haldin laugardaginn 14. mars á Spot í Kópavogi.

Heiðursgestur okkar í ár er enginn annar en John Barnes.

Hann spilaði alls 407 leiki fyrir félagið á árunum 1987-1997 og skoraði í þeim 108 mörk. Ekki skorti titlana með félaginu heldur en hann var deildarmeistari með liðinu tímabilin 1987-88 og 1989-90, FA Bikarinn vann hann árið 1989 (árið 1992 spilaði hann ekki úrslitaleikinn vegna meiðsla) og Deildarbikarinn árið 1995. Hann var valinn knattspyrnumaður ársins árin 1988 og 1990 og sömuleiðis völdu ensku leikmannasamtökin hann leikmann ársins árið 1988.

Ragnhild Lund Ansnes sem verður í för með John Barnes á Íslandi er ekki mörgum Íslendingum að góðu kunn en hefur gefið sér gott orð í Noregi og ekki síður í Liverpool.

Áhuginn á Liverpool FC heltók hana það mikið árið 2005 að hún sagði upp starfi sínu sem dagskrárgerðarmaður á NRK, norska ríkissjónvarpinu, og hefur nú skrifað tvær stórmerkilegar Liverpoolbækur: Liverpool Hearts um hvað það er sem vekur áhuga manna á félaginu og Liverpool Heroes sem er hjartnæm svipmynd af helstu stjörnum Liverpool og sú þriðja er á leiðinni sem fjallar um forystuhæfileika þeirra sem hafa leitt lið Liverpool.

Ragnhild er mikill dugnaðarforkur og fyrir utan að vera fyrirlesari og halda úti dagskrá víðs vegar með goðsögnum Liverpool hefur hún rifið upp áhuga kvenmanna á félaginu í Noregi og mætti með 50 rauðklæddar konur á Anfield á síðasta ári sem vakti mikla athygli.

Hvað mun Ragnhild gera annað en að njóta gestrisni Íslendinga? Jú, meginástæðan fyrir dvöl hennar hér er að hún sér um alla þá dagskrá sem snýr að John Barnes á sjálfri árshátíðinni. Hún verður uppá sviði með goðinu og fylgir honum í gegnum glæstan feril hans.

Upplýsingar um árshátíðina:

Miðaverð í ár er kr. 9.900.-

Þú getur pantað miða með því að senda tölvupóst á arshatid@liverpool.is. Tilgreinir nafn, símanúmer, fjölda miða og hvort þú vilt borga með millifærslu eða kreditkorti.

Dagsetning: 14. mars 2015.

Staður: Spot í Kópavogi, heimavöllur okkar.

Heiðursgestir: John Barnes & Ragnhild Lund Ansnes

Uppistand frá Sögu Garðarsdóttur

Matseðill: Forréttur – Steikarhlaðborð.

Húsið opnar kl. 19:00. Borðhald hefst. 19:45.

Þetta er viðburður sem hreinlega er ekki hægt að láta fram hjá sér fara!

Íbúð til sölu! [auglýsing]

Ég ætla að misnota aðstöðu mína hér aðeins, biðst fyrirfram afsökunar á því.

Ég er að selja íbúðina mína. Ég bý ekki í henni en hún er til sölu og getur verið laus strax um næstu mánaðarmót, sé þess óskað. Hún er á Holtinu í Hafnarfirði, á frábærum stað rétt hjá golfvelli Keilis og nánast við hliðina á tveimur leikskólum og grunnskóla. Útsýnið af Holtinu er magnað og íbúðin er nett og frábær. Skoðið hana hér á fasteignavefnum fyrir allar frekari upplýsingar.

Það verður opið hús eftir helgina en áhugasamir geta fengið að skoða hana strax. Hafið samband við Ársæl hjá ReMax Firði í síma 896-6076 ef þið hafið áhuga eða þekkið einhvern sem er að leita.

Takk fyrir, við hefjum nú aftur reglubundna dagskrá. :)

Liverpool 2 Burnley 0

Liverpool fékk Burnley í heimsókn í kvöld í 28. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar og uppskar frekar auðveldan 2-0 sigur á Anfield.

Byrjunarliðið var svona:

Mignolet

Can – Skrtel – Lovren

Sterling – Allen – Henderson – Moreno

Lallana – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Ward, Johnson (inn f. Sturridge), Kolo Toure (inn f. Moreno), Williams, Lambert (inn f. Sterling), Balotelli.

Þetta var gríðarlega auðveldur og áreynslulaus sigur. Liverpool var meira með boltann, stjórnaði leiknum allan tímann og skoraði eitt mark í hvorum hálfleik í sigri sem var aldrei í hættu og hreinlega frekar tíðindalaus. Jordan Henderson skoraði á 28. mínútu með frábæru langskoti eftir að skot Coutinho var varið og á 51. mínútu gaf Hendo flotta fyrirgjöf á kollinn á Daniel Sturridge sem skallaði í nærhornið niðri. 2-0 og þar við sat.

MAÐUR LEIKSINS: Liðið var allt gott, gerði það sem þurfti án þess að drepast úr áreynslu gegn lakari aðilum en Jordan Henderson steig upp með frábært mark og flotta stoðsendingu. Hendo er núna búinn að spila tvo leiki í röð með verkjasprautum til að vera leikfær og í þeim hefur hann skilað tveimur mörkum og einni stoðsendingu og verið máttarstólpi á miðjunni. Það er það sem góðir fyrirliðar gera.

Sjö efstu lið deildarinnar unnu öll sína leiki í kvöld þannig að staðan breyttist ekkert. Við erum enn 2 stigum frá fjórða sætinu og 3 stigum frá því þriðja. Eltingarleikurinn heldur áfram, en fyrst eru það 8-liða úrslit bikarsins um helgina, gegn Blackburn á Anfield.

Liðið er annars búið að vinna 4 leiki í röð í deildinni og 7 af síðustu 8 með einu jafntefli. Það er gríðarlega gott gengi og ef liðið heldur þessum dampi er ég mjög bjartsýnn á að bilið verði brúað í síðustu 10 umferðunum.

YNWA

Liðið gegn Burnley

Byrjunarlið kvöldsins er komið og það er eins og ég spáði í gær nema að Lazar Markovic víkur fyrir Daniel Sturridge. Adam Lallana spilar þá væntanlega vængbakvörðinn og Raheem Sterling er í sóknarlínunni ásamt Phil Coutinho og Sturridge.

Mignolet

Can – Skrtel – Lovren

Lallana – Allen – Henderson – Moreno

Sterling – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Ward, Johnson, Kolo Toure, Willams, Markovic, Lambert, Balotelli.

Sterkt lið. Koma svo!

YNWA

Burnley á morgun

Í vikunni fer fram 28. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar og taka okkar menn á móti Burnley í leik sem er, á pappírnum, auðveldasti leikurinn í svakalegri deildartörn febrúar og mars, en langt því frá auðunninn.

Burnley

Gestirnir að þessu sinni eru nýliðar Burnley. Þeim hefur gengið upp og ofan í vetur, virtust gjörsamlega dauðadæmdir á fyrstu mánuðunum en réttu svo aðeins úr kútnum í nóvember/desember áður en lélegt gengi (þ.m.t. 0-1 tap heima gegn Liverpool á annan dag jóla) hefur sett þá niður fyrir strikið á nýjan leik. Í dag eru þeir í 17. – 19. sæti með 22 stig en eru í fallsæti vegna lélegrar markatölu.

Hér er formtaflan í útileikjum. Okkar menn með besta formið úti en Burnley með eitt það slakasta:

awayform

Hins vegar ber að nefna að jafnteflin þrjú á útivelli eru gegn Man City í desember, Newcastle í janúar og Chelsea fyrir hálfum mánuði. Þannig að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin, þetta lið getur alveg spilað fótbolta og ef okkar menn eru ekki á tánum geta dýrmæt stig tapast hér eins og toppliðin tvö hafa kynnst nýlega.

Það er annað við þennan leik. Menn myndu halda að heimaleikur gegn Burnley væri auðveldari en heimaleikur gegn Manchester City, en það er ekki alltaf svo einfalt. Þetta Liverpool-lið spilar þannig knattspyrnu að ef andstæðingar gefur þeim svæði til að spila jarða þeir þá. Það er einmitt það sem City gerðu um helgina, sbr. þetta skjáskot úr Match Of The Day-umfjöllun BBC á sunnudagskvöld:

cityvorn

Þetta varð stórliði City að falli; þeir voru of sókndjarfir gegn Liverpool með tvo framherja og þrjá sókndjarfa miðjumenn af fjórum og Fernandinho einfaldlega mátti ekki við margnum, staða sem Coutinho, Sterling og Lallana eru snillingar í að nýta sér.

Þetta verður ekki uppi á teningnum á morgun. Burnley-liðið mun væntanlega sitja með eitthvað afbrigði af 4-5-1, vernda vörnina sína vel og reyna að gefa okkar mönnum lítið pláss. Og þegar það hefur verið gert á Anfield í vetur hefur þetta verið afraksturinn:

 • 13. sept.: 0-1 tap gegn Aston Villa
 • 23. sept.: 2-2 gegn Middlesbrough
 • 27. sept.: 1-1 gegn Everton
 • 4. okt.: 2-1 sigur á WBA
 • 25. okt.: 0-0 gegn Hull
 • 29. nóv.: 1-0 sigur á Stoke
 • 6. des.: 0-0 gegn Sunderland
 • 29. des.: 4-1 sigur á Swansea
 • 1. jan.: 2-2 gegn Leicester
 • 24. jan.: 0-0 gegn Bolton
 • 31. jan.: 2-0 sigur á West Ham

Þetta eru þeir leikir sem mér telst til að lið hafi stillt upp varnarsinnað gegn okkur á Anfield. Ég taldi ekki stórleikina gegn City, Chelsea, Arsenal og Tottenham sem mættu öll á Anfield til að sækja, og ekki Evrópuleikina sem eru annars eðlis en þið sjáið að tvö neðrideildarlið (Bolton og Middlesbrough) hafa náð jafntefli á Anfield sem og Leicester, Sunderland, Hull og Everton. Það eru í raun aðeins tveir sannfærandi sigrar þarna, gegn Sweansea og West Ham.

Þannig að okkar menn verða að yfirstíga þessa hindrun á morgun. Frábært gengi í deildinni að undanförnu er að miklu leyti til komið vegna þess að liðið hefur verið að vinna útileikina og ná dýrmætum heimasigrum á Spurs og West Ham. Liverpool hefur unnið fjóra heimaleiki í röð sem er jákvætt, en engan af þeim stórt eða sannfærandi þannig að jafnvel í þessu góða gengi undanfarið eru vísbendingar um að liðið geti misstigið sig.

Aftur að Burnley. Það er frá litlu að segja þar; þetta er nokkuð þétt og skipulagt lið sem kann alveg að spila fótbolta og fremstur í flokki er Danny Ings sem ætti að vera okkur að góðu kunnur eftir mikið slúður að undanförnu, og sá drengur gæti hæglega verið orðinn Liverpool-leikmaður næsta sumar. Við fylgjumst sérstaklega með honum. Að öðru leyti er þetta lið sem ég býst við að þétti og spili upp á jafnteflið, og komi svo framar á völlinn ef þeir lenda undir enda hafa þeir sýnt að þeir geta bitið frá sér og hafa karakter til að vinna sig aftur inn í leiki gegn stórum liðum.

Þeir töpuðu á heimavelli gegn Swansea um helgina, 1-0, og verða því ákveðnir í að ná einhverju frá Anfield á morgun.

Um form Liverpool

Hér er byrjun Chelsea á tímabilinu, fyrstu 11 umferðirnar sem urðu þess valdandi að menn misstu sig í hrósinu og rassakossunum og lýstu því yfir að þetta Chelsea-lið væri mögulega besta lið í heimi:

chelsea2014form

Hér eru svo síðustu 11 umferðir í deildinni. Liverpool er þá væntanlega „besta félagslið í heimi“ árið 2015, enn sem komið er?

liv2015form

Hvað sem ofhlöðnu hrósi líður þá er þetta einfaldlega frábært gengi, frábær viðsnúningur. Svona viðsnúningur er ekki úr lausu lofti gripinn heldur, eins og Neil Atkinson hjá The Anfield Wrap segir, árangur þrotlausrar vinnu síðustu mánuðina, bæði hjá þjálfurum og leikmönnum. Það er til dæmis ekki tilviljun að Philippe Coutinho sé farinn að hitta á markið. Á fyrstu tveimur árum sínum með Liverpool skoraði hann tvisvar mark með þrumuskoti utan teigs (QPR í maí 2013, Fulham í apríl 2014) eftir því sem ég kemst næst en hann hefur nú þegar skorað þrjú slík frá áramótum (Bolton í bikar, Southampton og City í deild), hvert öðru glæsilegra. Svona stökk í tölfræði gerist ekki óvart, ekki hjá Henderson heldur sem er farinn að setj’ann af færi og úr aukaspyrnum. Leikmennirnir hafa lagt inn þrotlausa vinnu í vetur við að bæta sig sem einstaklingar og snúa gengi liðsins við, og það hefur heldur betur tekist vel.

Liverpool

Af liðinu er lítið að frétta. Meiðslalistinn er nokkurn veginn sá sami og fyrir helgi; Gerrard og Lucas enn frá og Jordon Ibe missir úr næstu 4 vikur. Helvítis. Mamadou Sakho er eina vafaatriðið fyrir þennan leik, það verður að koma í ljós hvort hann er leikfær eða ekki en miðað við frammistöðu liðsins í síðustu 3 leikjum án hans finnst mér líklegt að hann fái vikuna til að jafna sig að fullu fyrir 8-liða úrslit bikarsins á sunnudag. Dejan Lovren átti fínan leik gegn City þannig að mér liggur allavega ekki á að troða Sakho hálfheilum inn og taka frekari sénsa með hann.

Ég myndi leggja til nákvæmlega eina breytingu á liðinu sem hóf leik gegn City: Raheem Sterling spilaði 120 mínútur gegn Besiktas á fimmtudag og allan leikinn gegn City. Það liggur því beint við, með Sturridge hvíldan gegn City, að þeir tveir hafi sætaskipti:

Mignolet

Can – Skrtel – Lovren

Markovic – Allen – Henderson – Moreno

Lallana – Sturridge – Coutinho

Þetta lið, með Sterling, Balotelli og King Kolo Touré fremsta meðal jafningja á bekknum, á að vinna Burnley.

Mín spá

Okkar menn halda frábæru gengi áfram og vinna þennan leik. Burnley-liðið er ekki glatað eins og hefur komið fram hér að ofan og það verður kannski þolinmæðisverk að brjóta þá niður en mér segir sá hugur að Sturridge skori snemma og leggi grunninn að 3-0 sigri okkar manna.

YNWA