Upphitun: Chelsea í deildarbikar

Fótboltaguðirnir blessuðu okkur með því að draga Liverpool  gegn Chelsea í 32-liða úrslitum  enska deildarbikarsins. Eflaust finnst sumum það bölvanlegt en ég kýs að líta jákvæðar á að fá slíka stórlaxa á snærið. Það gleðilega við þennan risadrátt er í fyrsta lagi að leikurinn er á heimavelli og sá þriðji í röð af heimaleikjum sem hjálpar til við að minnka ferðaálag og að hámarka góða stemmning meðal áhangenda. Í annan stað þá er ekkert endilega verra í samhengi tímabilsins að mæta toppliði við fyrsta mögulega tækifæri í bikarkeppni. Annað hvort sláum við beinan samkeppnisaðila um deildarbikarinn út úr keppninni eða að við erum snemma lausir við þungbærar skuldbindingar um slakasta bikarinn sem er í boði og getum einbeitt okkur að deild og Evrópu í kjölfarið. Í þriðja lagi þá er mun skemmtilegra að fá toppslag í stórgóðri stemmningu á Anfield gegn Chelsea í staðinn fyrir gefins leik gegn Chesterfield eða Cheltenham. Lið með sjálfstraust fagnar stórleikjum í stað þess að hræðast þá og því er fínt að fá bláliðana frá London í snemmbúna heimsókn.

Sjálfur er ég rómantíker í mér á kostnað pragmatíkinnar og vil endilega að Liverpool vinni allar silfurdollur sem í boði eru á hverju tímabili en að sjálfsögðu ekki sama hvað það kostar. Deildarbikarinn á að vera keppni þar sem ungir leikmenn og bekkjarsetumenn fá tækifæri til að sýna sig og sanna og breidd hópsins er nýtt til hins ítrasta. Ef að stutt fer að verða í úrslitaleikinn þá er um að gera að senda okkar öflugustu menn til leiks og freista þess að landa einum bikar meira í safnið. Fátt er skemmtilegra fyrir áhangendur en að komast í hátíðlega stund á Wembley og vonandi hefst það á þessu tímabili (7,9,13). En til þess þarf fyrst að hita upp!

Mótherjinn

Chelsea hefur unnið deildarbikarinn næst oftast í sögu keppninnar eða 5 sinnum og deilir því sæti með Aston Villa, Man City og Man Utd. Þrír af þessum 5 deildarbikartitlum komu undir José Mourinho sem lagði mikla áherslu á að landa bikarnum til að byggja upp sigurhefð innan liðsins og segja má  í ljósi sögunnar að það hafi svínvirkað. Í einum af þeim úrslitaleikjum sem Mourinho vann þá varð Liverpool fórnarlamb Chelsea í framlengdum leik og 3-2 tapi árið 2005. Sælla minninga þá hefndum við ófaranna gegn þeim í undanúrslitum CL sama ár með draugamarki og stráðum salti í sárin með kraftaverkinu í Istanbúl. Á þessum árum var sem Liverpool væri alltaf að mæta Chelsea í öllum keppnum og var komin ansi mikil bardagaþreyta í þau einvígi. Þrátt fyrir þau þrátefli hefur Liverpool bara mætt Chelsea 7 sinnum í heildina í deildarbikarnum og síðast í undanúrslitum árið 2015 í leikjum heima og heiman en þar höfðu bláliðar betur í framlengingu og hömpuðu bikarnum eftir úrslitaleik gegn Tottenham. Úrslit þessara 7 deildarbikarleikja milli liðanna skiptast hnífjafnt með 3 sigra á hvort lið og eitt jafntefli til viðbótar.

Áhugaverðasta breytan í samhengi þessa einvígis er auðvitað sú umtalaða staðreynd að liðin eru að fara að mætast aftur í deildinni á Stamford Bridge núna um næstu helgi. Chelsea tapaði stigum í jafntefli gegn West Ham síðasta sunnudag og sýndu það að Evrópudeildar-þynnkan gæti orðið vandamál hjá þeim þegar að líður á tímabilið. Leikurinn var spilaður degi eftir sigurleik Liverpool gegn Southampton og þeir þurfa að mæta á útileik í deildarbikarnum þannig að ekki er óeðlilegt að álykta Chelsea muni rótera hraustlega og taka sénsinn á B-liðsuppstillingu. Það er þó ekki alveg gefið því að auðvitað er einnig ákveðinn sálfræðisigur í boði fyrir uppgjör tveggja toppliða í deildinni síðdegis á laugardaginn kemur.

En Chelsea eru klárlega ekki að fara að spila Hazard frá upphafi í leiks og mun meiri líkur eru á að einkavinur LFC og Sigursteins sérstaklega, herra Ross Barkley, spili í staðinn ásamt ýmsu samansafni af kjúklingum og varamönnum. Einnig er von á fyrrum Púlaranum Victor Moses í byrjunarliði andstæðinganna sem og Willy Caballero sem var okkur óþægur ljár í þúfu í vítaspyrnukeppni úrslitaleiksins við Man City árið 2015. Talandi um vítaspyrnukeppni þá má því bæta við að hún verður beint í framhaldi af venjulegum leiktíma ef að leikar standa jafnir og verður ABBA-fyrirkomulagið notað með lagið „The winner takes it all“ á fóninum.

Að öllu ofangreindu er mín spá um uppstillingu Chelsea eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Chelsea í leikkerfinu 4-3-3

Liverpool

Liverpool hefur að sjálfsögðu unnið deildarbikarinn langoftast eða 8 sinnum og væri ágætt að bæta ögn í það forskot til að halda öðrum liðum í hæfilegri fjarlægð. Að því sögðu þá ætti þetta að vera kærkomið tækifæri til þess að gefa þeim leikmönnum séns sem hafa lítið eða jafnvel ekkert spilað í byrjun tímabils. Liverpool hefur sjaldan haft jafn mikla breidd í hópnum og einhvern tímann verða jaðarmennirnir að fá sín tækifæri til blómstra. Klopp mun hugsanlega ljóstra upp einhverju um meiðslastöðu og sinn þankagang á blaðamannafundinum um hádegisbil en fram að þeim tíma þá verðum við að gerast gáfulegir og gægjast í kristalskúluna.

Í framlínunni ætti Daniel Sturridge að fá sénsinn eftir flottan leik og mark gegn PSG í CL í síðustu viku. Einnig ætti að Shaqiri að byrja eftir að hafa átt einn öflugasta fyrri hálfleik sem endaði með meiðslalausri útafskiptingu í hálfleik í sögu fótboltans! Klopp skuldar honum smá klapp á bakið og ég geri ráð fyrir að hann taki allar auka- og hornspyrnur leiksins enda besti spyrnumaður liðsins í föstum leikatriðum að mínu mati. Til að fylla sóknartríóið þá ætla ég að giska á að Origi eða Solanke fái sénsinn ef þeir eru á annað borð leikfærir en stórstjörnurnar Mané, Firmino og Salah verði til taks á bekknum ef á þarf að halda.

Á miðjunni hlýtur Fabinho að fá sinn fyrsta byrjunarliðsleik eftir góðan aðlögunartíma og með því fær Klopp tækifæri til að athuga hvort hann sé kominn í takt við sitt leikskipulag og kerfi. Keita hefur spilað minna í síðustu leikjum eftir að byrja leiktíðina vel og hlýtur að fá þennan leik til að spreyta sig. Í ljósi þess að Milner spilaði bara einn hálfleik um helgina þá spái ég því að hann verði reynsluboltinn með þeim Fabinho og Keita til að halda þéttleika og skipulagi á miðjunni ásamt sínu 12-13 kílómetra framlagi.

Vörnin verður væntanlega með Matip og Gomez í hjarta varnarinnar í ljósi meiðsla VVD og líklega verður Lovren ekki orðinn klár í þennan leik þó hann sé byrjaður að æfa eðlilega að nýju. Bakverðirnir Clyne og Moreno hafa beðið þolinmóðir á hliðarlínunni meðan að TAA og Robertson hafa brillerað en ættu að hljóta náð fyrir augum herr Jürgen að þessu sinni. Síðast en ekki síst þá er líklegt að Mignolet mæti í markið ef markvarðamynstur síðustu ára í bikarkeppnum er eitthvað að marka. Eina spurningamerkið við það er hvort að það sem Símon sagði um sín sölumál sé nægileg synd til að Klopp kenni honum lexíu en honum var kurteislega tjáð að viðra ekki slíkar vangaveltur opinberlega í framtíðinni. Mamadou Sakho ætti að geta upplýst Mignolet um að það sé ekki til eftirbreytni að storka stjóranum um of.

Liðsuppstilling Liverpool gæti því litið út eitthvað á þessa leið:

Uppfært eftir blaðamannafund Klopp í hádeginu: Stjórinn staðfestir að Simon Mignolet muni standa á milli stanganna en var að öðru leyti dulur á áform sín um breytingar á liðinu frá síðasta leik og vildi í raun ekkert gefa upp um sín plön.  Lagði áherslu á að ekki yrði ljóst fyrr en á morgun hvaða hóp Chelsea myndi taka með sér á útileikinn og því vildi hann ekki sýna sín spil að neinu öðru leyti en að Mignolet verði í markinu.

Hann upplýsti að Dejan Lovren hefði náð fjórum æfingum með liðinu og væri tilbúinn til að spila, en hvort að svo verði í þessum leik kemur í ljós. Það er eflaust freistandi að nota þennan leik til að spila Lovren í form en ég ætla að halda mig við fyrri spá um hafsenta. Divock Origi er hins vegar of tæpur af sínum ökklameiðslum og verður ekki orðinn heill fyrr en í næstu viku og sama gildir um Lallana sem er byrjaður í léttum æfingum með liðinu en ekki kominn á fullt skrið. Hins vegar er Dominic Solanke fullfrískur og ég ætla því að leyfa mér að skipta á honum inná í minni liðsuppstillingu fyrir hinn meidda Origi.

Klopp var bráðskemmtilegur á blaðamannafundinum að vanda og var spurður um Mario Götze og fleira áhugavert. Vel þess virði að horfa á og hér er blaðamannafundurinn í heild sinni (byrjar eftir u.þ.b. 10 mínútur).

Spakra manna spádómur

Generalprufan fyrir uppgjörið um næstu helgi verður með líflegasta móti. Margir leikmenn í báðum liðum sem munu vilja sýna sig og sanna og eru óþreyttir til slíkra dáða eftir mikinn hvíldartíma það sem af er leiktíðinni. Þá verður taktískur bardagi milli Klopp og Sarri ekki síður áhugaverður en spurning er hvort að Sarri þori sömu sókndirfsku og hefur einkennt byrjun hans með Chelsea. Anfield verður faktor í útkomunni og í ljósi frábærrar byrjunar á leiktíðinni og því hver andstæðingurinn er þá heimta ég hámarks hávaða og stemmningu á heimavelli til að hræða úr þeim líftóruna. Þetta er óvenju gott tækifæri til að gefa skæðum keppinaut sálfræðilegt glóðarauga og ég spái því að okkar menn gefi þeim góðan gúmorren með 3-1 sigri. Mörkin munu koma frá Shaqiri, Sturridge og Keita og fögnin verða til fyrirmyndar.

YNWA

Kvennaliðið heimsækir Brighton

Þá er komið að leik nr. 2 hjá kvennaliðinu í deildinni, og liðið heimsækir Brighton & Hove Albion núna kl. 12:30. Það verður Vicky Jepson sem stýrir liðinu ein í dag, þar sem Chris Kirkland er víst upptekinn í einhverjum góðgerðaratburði sem var ákveðinn fyrir löngu. Það er búið að auglýsa eftir nýjum stjóra, og var það gert á LinkedIn (af öllum stöðum).

Leikurinn hefst kl. 11:15 að íslenskum tíma. Vicky stillir liðinu svona upp:

Preuss

S.Murray – Bradley-Auckland – Matthews – Robe

C.Murray – Coombs – Rodgers

Charles – Linnett – Clarke

Bekkur: Kitching, Sweetman-Kirk, Babajide, Daniels

Semsagt: ein breyting frá leiknum við Durham: Linnett kemur inn í framlínuna í stað Babajide.

Við uppfærum svo færsluna með úrslitum eftir leik.


Leik lokið með sigri Liverpool, 0-1, Babajide með markið á 85. mínútu. Vicky Jepson er því með 100% árangur sem knattspyrnustjóri, geri aðrir betur! Liðið er því með 3 stig eftir 2 leiki, og er í 6. sæti af 11 félögum.

Liverpool 3 – 0 Southampton

Liverpool fékk Southampton í heimsókn á Anfield í dag, og vann öruggan 3-0 sigur.

Mörkin

1-0 Sjálfsmark (Hoedt) (10. mín)
2-0 Matip (21. mín)
3-0 Salah (45+2 mín)

Leikurinn

Taugarnar voru eitthvað aðeins að trufla okkar menn á fyrstu mínútum, en eftir 10 mínútur náðu okkar menn forystu. Hornspyrna frá Shaqiri var skölluð frá, Mané náði boltanum, átti fallega sendingu inn fyrir á Shaqiri sem átti ágæta fyrirgjöf, hún fór í tvo Southampton menn og þaðan í netið. 10 mínútum síðar fékk liðið svo hornspyrnu, TAA tók hana og átti fallega sendingu inn á miðjan teig þar sem Matip stökk manna hæst og skallaði óverjandi í hornið. Mér fannst vera smá svipur með þessu marki og seinna marki Skrtel á móti Arsenal í 5-1 leiknum góða snemma árs 2014. Liverpool var svo sterkari aðilinn það sem eftir lifði hálfleiks. Á 42. mínútu sendi Firmino góða stungusendingu inn á Salah, hann náði að snúa af sér varnarmann en var þá kominn með bakið í netið, svo hann reyndi hælskot en það fór rétt framhjá. Brosið sem hann setti upp var nú ekki eitthvað sem maður myndi eiga von á að sjá hjá rosalega pirruðum framherja. Og á síðustu andartökum hálfleiksins fékk Liverpool aukaspyrnu við vítateigshornið, Shaqiri átti frábæra spyrnu sem small í slánni og fór þaðan í jörðina. Salah, Firmino og Mané voru allir mættir á markteig og það var Salah sem náði að pota boltanum yfir marklínuna. Staðan 3-0 í hálfleik.

Af einhverjum orsökum var Shaqiri skipt út af í hálfleik. Eitthvað hefur heyrst um að þetta hafi verið taktísk breyting, að Klopp hafi viljað ráða miðjusvæðinu betur, mögulega er hann með leikinn á miðvikudaginn í huga, og vill hafa Shaqiri ferskan í þeim leik. Allavega, Milner kom inn á. Á 53. mínútu fór svo Van Dijk út af vegna meiðsla, og Gomez kom í staðinn. Hann og Matip náðu ágætlega saman, og varnarvinna liðsins var reyndar þannig að Southampton áttu ekki skot á markið fyrr en í uppbótartíma. Síðasta skiptingin kom svo um 20 mínútum fyrir leikslok þegar Keita kom inná í staðinn fyrir Wijnaldum. Nokkrum mínútum fyrir leikslok náði Salah svo að koma boltanum í netið aftur, en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Satt að segja fannst manni liðið bara sigla þessu örugglega í höfn í seinni hálfleik, var ekkert að setja í 4. eða 5. gír, einstaka sinnum í 3. T.d. kom hornspyrna nr. 2 í hálfleiknum ekki fyrr en um 10 mínútur voru til leiksloka.

Maður leiksins

Enginn sem var að gera áberandi tilkall að mínu mati, liðið var allt að spila vel, enginn sem átti áberandi slæman eða góðan dag. Shaqiri var ferskur á meðan hann var inná, átti fyrirgjöfina sem gaf fyrsta markið, og frábæra aukaspyrnu sem gaf þriðja markið. Ég ætla að tilnefna fyrirliðann Jordan Henderson sem mann leiksins, enda sívinnandi allan leikinn.

Slæmur dagur

Maður finnur það að Salah á alveg fullt inni, en hann var nú samt að skora mark í dag. Verstu fréttirnar voru auðvitað meiðsl Van Dijk, en nýjustu fréttir herma að hann sé bara með mar nálægt rifbeinunum, og þetta eigi að jafna sig. Það kæmi ekki á óvart að við sæjum hann hvíldan alveg í Chelsea deildarbikarleiknum í vikunni.

Umræðan

  • Þetta var leikur nr. 600 hjá Jürgen Klopp sem knattspyrnustjóri. Gaman að sjá liðið halda upp á þessi tímamót með sigri.
  • Í fyrra var liðið ekki að standa sig nógu vel í næstu deildarleikjum eftir að hafa leikið í meistaradeildinni í miðri viku, og því var alveg ástæða til að spyrja sig hvort einhverjir timburmenn myndu koma í ljós, hafi einhverjir slíkir verið til staðar var það a.m.k. ekki að hafa áhrif á lokaniðurstöðuna.
  • Liðið er nú búið að vinna 6 fyrstu leiki sína í deildinni, og fyrstu 7 leiki í öllum keppnum. Liðið hefur vissulega áður unnið 8 fyrstu leikina í deildinni, en gerðu þá jafntefli í leiknum um góðgerðarskjöldinn svo þessir fyrstu 7 unnir leikir eru met.
  • Liðið hefur nú haldið hreinu á Anfield í deildinni í 750 mínútur, eða í 8 leikjum. Sambærilegur árangur náðist síðast 2006/2007 tímabilið.

Næst (og þarnæst) mætir liðið Chelsea. Það má búast við talsverðri róteringu í leiknum í miðri viku, en að svo verði stillt upp allra sterkasta liði sem í boði er um helgina. Þar gætum við verið að sjá tvö lið takast á með fullt hús stiga í deildinni, þó það velti vissulega á úrslitunum á morgun.

Njótum þess að vera á toppnum, a.m.k. til morguns.

Byrjunarliðið gegn Southampton

Það er komið að því. Leikur nr. 6 í deildinni, og við fáum Southampton í heimsókn. Eins og búast mátti við er Sturridge ekki að fara að byrja 2 leiki á 4 dögum, og því kemur Firmino inn í liðið í hans stað. Tvær aðrar breytingar: Matip kemur inn fyrir Gomez, og Shaqiri byrjar sinn fyrsta leik á kostnað Milner sem sest á bekkinn. Liðið lítur annars svona út:

Alisson

TAA – Matip – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Shaqiri

Salah – Firmino – Mané

Bekkur:Mignolet, Moreno, Gomez, Keita, Fabinho, Milner og Sturridge

Southampton mæta með Shane Long einan uppi á topp, og virðast vera í e.k. 3-5-1-1 uppstillingu.

Þessi leikur gefur 3 stig eins og allir hinir, og því mikilvægt að okkar menn mæti dýrvitlausir til leiks.

KOMA SVO!

Upphitun: Southampton mætir á Anfield

Nú er stutt milli leikja og á morgun mætum við Southampton á heimavelli en liðið okkar er enn með fullt hús stiga og menn Mark Hughes munu reyna að eyðinleggja það. Á síðasta tímabili mætum við Southampton heima helgina fyrir leik gegn Chelsea og það sama er uppi á teningnum í ár. Í fyrra unnum við heima 3-0 gegn Southampton og gerðum 1-1 jafntefli gegn Chelsea og vonandi gerum við enn betur í ár!

Andstæðingarnir

Southampton var í mikilli fallbaráttu á síðasta tímabili en hafa byrjað þetta tímabil ágætlega með fimm stig í fyrstu fimm leikjum sínum. Í fyrra áttu þeir bæði í vændræðum með að skora og láku alltof mörgum mörkum. Í sumarglugganum var því lagt upp með að laga þau vandamál en Jannik Vestergaard var fenginn inn frá Monchengladbach til að fylla í skarð Virgil Van Dijk. Klárlega ekki lítil beiðni en þessi tveggja metra hái Dani hefur byrjað tímabilið vel og hafa suðurstrandarmenn aðeins fengið á sig sex mörk í fyrstu fimm leikjunum sem er það minnsta í neðri hlutanum. Þá átti enn eftir að bæta markaskorunina því liðið gat bara hreinlega ekki skorað í fyrra nema þegar Charlie Austin var heill sem var alltof sjaldan. Framan af reyndist þeim erfitt að bæta við sig sóknarmanni en undir lok félagskiptagluggans náðu þeir að næla í Danny Ings á láni sem hefur reynst mikill happafengur. Ings hefur spilað alla fimm leiki tímabilsins, þar af fjóra í byrjunarliði, og skorað í þeim þrjú mörk. Hann verður hinsvegar ekki með á morgun enda á láni frá Liverpool og má því ekki spila gegn móðurfélaginu.

Southampton stillti svona upp í síðasta leik

McCarthy

Soares – Vestergaard – Hoedt – Bertrand

Elyounoussi – Lemina – Höjberg – Redmond

Ings – Long

Líkur eru á að það verði aðeins ein breyting á liðinu, að Ings detti út, en spurning hver kemur inn. Miðað við leiki tímabilsins eru þrír valmöguleikar, sá fyrsti er að Austin komi inn fyrir Ings og þeir stilli upp í 4-4-2, annar valmöguleikinn er að Ward-Prowse komi inn á miðsvæðið í 4-5-1 en þeir féllu niður í það leikkerfi í síðasta leik þegar þeir reyndu að halda 2-1 forustu gegn Brighton og þriðji möguleikinn er að Jack Stephens komi inn í varnarlínuna og þeir spili 5-4-1 eins og þeir gerðu í fyrsta leik tímabilsins gegn Burnley.

Liverpool

Liverpool kemur inn í þennan leik eftir dramatískan sigur gegn PSG 3-2 á þriðjudaginn og liðið spilar svo aftur á miðvikudaginn gegn Chelsea svo það verður erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið því ég býst við því að það verði einhverjir hvíldir á morgun og aðrir á miðvikudaginn og því gríðarlega erfitt að giska hverjir verða hvíldir hvaða leik. Þegar svona stutt er milli leikja reynir á leikmannahópinn því gott að sjá menn eins og Daniel Sturridge skora í vikunni. Það er mjög líklegt að við fáum loks að sjá Fabinho og Shaqiri af einhverri alvöru í öðrum af þessum tveimur leikjum.

Liðið spilaði í síðustu viku tvo gríðarlega flotta fótboltaleiki og þrátt fyrir að báðir hafi endað tæpari en þurft hefði var gríðarleg ró yfir manni. Liðið hefur byggt í mann þá trú að þeir geti alltaf farið í næsta gír og klárað leiki. Vissulega mætti færanýtingin vera betri en ég hef fulla trú á að það fari að koma og á meðan stigasöfnunin er enn fullkominn er ekki hægt að kvarta mikið.

Á morgun er hinsvegar nýr leikur, nýtt upphafsspark og nýjar 90 mínútur sem þarf að sigra. Liðið er ósigrað í 23 síðustu deildarleikjum á Anfield og ég ætla spá að þetta verði liðið sem Klopp stilli upp til að halda þeirri tölfræði

Alison
TAA – Gomez – Van Dijk – Robertson

Keita – Milner – Wijnaldum

Salah – Sturridge – Mané

Geri ráð fyrir að first Firmino var ekki klár til að starta gegn París þá fái hann aftur að sitja á bekknum í þessum leik og Henderson hefur átt í erfiðleikum með að spila fleiri en einn leik í viku þannig ég býst við að Keita komi inn. Hugsanlega mun Klopp breyta meira til og við gætum séð Shaqiri inn fyrir annaðhvort Mané eða Salah en ég hugsa að slíkt verði frekar gert í deildarbikarnum gegn Chelsea enda sú keppni minna virði.

Spá

Við höfðum gott hald á Southampton í deildinni í fyrra unnum þá samtals 5-0 og ég ætla að spá því að það haldi áfram höldum markinu aftur hreinu og færin fari að detta á morgun. Ég spái 3-0 sigri þar sem fremstu þrír setja eitt mark hver, hverjir sem það verða sem byrja í þeim stöðum á morgun!