Sunderland næstir

Næsti leikur, já það er bara komið að næsta leik takk fyrir og fer hann fram á Anfield á morgun (laugardag) klukkan 15:00. Febrúar er stysti mánuður ársins, en leikirnir í honum verða pottþétt allavega 7 talsins, jafnvel 8. Það sem er enn magnaðra við þetta er það að í mesta lagi verða 3 þeirra í deildinni og einn þessara þriggja er einmitt heimaleikur gegn Sunderland. Hinn deildarleikurinn sem eftir er í þessum mánuði er svo gegn Aston Villa helgina á eftir. Sem sagt, við erum að halda inn í leiki gegn tveimur neðstu liðum deildarinnar. 2 leikir gegn Augsburg í Evrópudeildinni, einn leikur gegn West Ham í FA bikarnum (ef hann vinnst, þá bætist leikur gegn Blackburn við í þessum mánuði) og svo úrslitaleikur gegn Man.City á Wembley. Það er því nóg að gera framundan.

Ég veit ekki hversu oft ég er búinn að afskrifa tímabilið og hugsa með mér að best sé bara að tanka því og leggja ofur áherslu á að vinna bikara og hreinlega að komast inn í Meistaradeildina með því að klára þessa Evrópudeild. HEY, Sevilla eru búnir að vinna hana tvö ár í röð, þannig að af hverju ekki? Það er allavega algjörlega morgunljóst í mínum huga að ef menn ætla sér að eiga einhverja mjög svo fjarlæga von um árangur í deild, þá þurfa þessir næstu tveir deildarleikir að vinnast. Og það helst sannfærandi. Við erum að tala um Sunderland og Aston Villa og þau eiga það sameiginlegt að hafa getað akkúrat ekki neitt á þessu tímabili.

En höldum fókus á Sunderland, við spilum ekki við Villa alveg strax. Hvað skal segja um Sunderland? Þetta er alveg ferlega skringilega samsett lið verð ég að segja. Svolítið mikið af svona „has-beens“ og gaurum sem aldrei náðu að standa undir þeim væntingum sem til þeirra voru gerðar. Wes Brown, John O’Shea, , Lee Cattermole, Younes Kaboul og Jermain Defoe eru ekki beint á uppleið á ferlinum sínum. Svo horfir maður til manna eins og Vito Mannone, Jack Rodwell, Yann M’Vila, Adam Johnson, Fabio Borini, Jeremain Lens, Danny Graham og Ola Toivonen áttu allir að vera mikil efni á sínum tíma, en enginn þeirra í rauninni náð að standa undir þeim væntingum sem gerðar voru til þeirra. Allavega ekki ennþá, þó einhverjir hafi ennþá tíma til að springa út.

Vörn Sunderland hefur verið fullkomlega hræðileg og sú vörn í Úrvalsdeildinni sem lekið hefur flestum mörkum eða 47 í aðeins 24 leikjum. Við höfum ekki verið par sátt við okkar menn og varnarleik í vetur, en Liverpool hefur fengið heilum 13 mörkum færra á sig. Klopp blessaður hlýtur hreinlega að leggja upp með að keyra á þessa vörn með miklum hraða og góðri pressu, annað getur hreinlega ekki verið. Það sorglega sem snýr samt að tölfræði þessara tveggja liða er sú staðreynd að okkar menn eru einungis búnir að skora 2 fleiri mörkum en Sunderland í deildinni. Við erum að tala um lið sem er í næst neðsta sætinu. Þarna er vandamál okkar manna svolítið í hnotskurn, við erum bara engan veginn að skora nógu mikið af mörkum. Þessu þarf að breyta frá og með NÚNA.

Sunderland mætir á Anfield með sitt sterkasta lið, fyrir utan það að Sebastian Larsson er meiddur. Aðrir af þeirra helstu köllum ættu að vera klárir í slaginn. Meiðslalisti okkar manna hefur svo aftur á móti dottið niður í eins stafs tölu og það er eitthvað sem ekki hefur sést lengi. Engu að síður verðum við án þeirra Origi, Coutinho, Skrtel, Rossiter, Sturridge, Ings og Gomez. En bara það eitt og sér að „einungis“ 7 séu meiddir og að 4 af þeim séu byrjaðir að æfa með liðinu á nýjan leik, það verða líklegast að teljast einar bestu fréttir sem við höfum fengið lengi. Sér í lagi þegar við höfum í huga leikjadæmið sem ég fór yfir hér í upphafi upphitunar.

En hvað um það, hvernig er Klopp að fara að stilla þessu upp? Hann hefur verið ansi hreint duglegur að breyta liðinu á milli leikja undanfarið, að mínum dómi, aðeins of duglegur. En mín dómgreind er líklegast ansi lítilfjörleg við hlið hinnar. Allavega hefur Klopp náð örlíti lengra í þessu fagi en ég. Við vitum að Mignolet mun standa í markinu og ég ætla að tippa á það að öll varnarlínan haldi sér, þ.e. að Clyne verði í hægri bakverði, Moreno í þeim vinstri og Lovren og Sakho í miðvörðunum. En hvað svo? Henderson hefur ekki verið skugginn af sjálfum sér undanfarið og í rauninni hefur miðjan verið lang veikasti hlekkurinn okkar. Besti maðurinn sem hefur spilað þar undanfarið er Joe Allen, og hver hefði nú trúað því. Ég myndi hreinlega vilja taka Milner aðeins aftar á völlinn og fá meiri vinnslu inn á miðjuna. Sjálfur hefði ég viljað sjá Henderson, Milner og Allen saman inni á miðju, en ég reikna fastlega með að Klopp setji traust sitt áfram á Can.

Ég spái því að Klopp stilli þessu svona upp:

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Henderson(C) – Can – Allen

Lallana – Firmino – Milner

Eins og áður sagði, þá þarf að keyra á þetta Sunderland lið með mikilli pressu og hraða. Aftasta línan þeirra er þung og hæg og það þarf að nýta. Ég er bara nokkuð bjartsýnn fyrir þennan leik og reikna fastlega með að við löndum þessum 3 stigum og það á nokkuð sannfærandi hátt. Eigum við ekki að segja að þetta endi 3-1 og að Milner, Firmino og Lallana setji mörkin.

Er kominn tími á þá ungu?

Það kemur sá dagur að börnin vaxa úr grasi og taka við keflinu af þeim sem eldri eru. Börnin taka við stjórninni og þeir eldri verða úreltir og þreyttir. Það gerist ekki allt á einum degi og þessi börn þurfa að gera sín mistök til að öðlast þá reynslu sem þau þurfa til að spreyta sig í heimi hinna fullorðnu.

Sú staða þyrfti kannski að koma upp hjá Liverpool aftur. Börn félagsins eru mörg hver að ljúka sinni skólagöngu og eru að undirbúa sig til að hefja líf sitt sem fullorðnar manneskjur og spreyta sig á meðal þeirra. Undanfarið hefur Jurgen Klopp látið Liverpool taka risa stóra U-beygju frá þeirri stefnu sem félagið virtist ætla að fylgja þegar kemur að ungum leikmönnum félagsins.
Continue reading

Liðið gegn Leicester

Liverpool heimsækir topplið Leicester (og það er kominn febrúar!) í kvöld og Klopp stillir þessu svona upp:

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Henderson(C) – Lucas – Can

Lallana – Firmino – Milner

Bekkurinn: Ward, Toure, Benteke, Allen, Ibe, Flanagan og Teixeira

Lið heimamanna er: Schmeichel, Simpson, Morgan, Huth, Fuchs, Mahrez, Kante, Drinkwater, Albrighton, Okazaki og Vardy.

Lítið sem kemur á óvart hér, Benteke dettur út eftir enn eina dapra frammistöðuna og Liverpool að spila án alvöru sóknarmanns. Helst kannski að Allen detti út eftir að hafa verið sprækur undanfarið, en svo sem lítið við því að segja.

Eitthvað segir mér að við fáum að sjá mörk í þessum leik.

YNWA