Latest stories

 • Gullkastið – Gamla góða formið

  Góður sigur á Palace í deild eftir fáránlega óöruggan sigur á AC Milan í Meistaradeildinni. Liverpool er farið að minna aftur á 2018-2020 liðið. Norwich lítið mál í deildarbikarnum. 

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  Steini í slæmum félagsskap

  MP3: Þáttur 348

  [...]
 • Norwich 0 – 3 Liverpool

  Mörkin

  0-1 Minamino (4. mín)
  0-2 Origi (50. mín)
  0-3 Minamino (80. mín)

  Gangur leiksins

  Það voru ekki liðnar margar mínútur af leiknum þegar fyrsta markið var komið í hús, og rétt eins og í leiknum á laugardaginn kom það eftir hornspyrnu frá Tsimikas. Origi skallaði boltann niður fyrir lappirnar á Minamino sem klobbaði markvörðinn. Gott mark og gaman að sjá Taki opna markareikninginn þetta haustið. Liverpool átti svo meira í leiknum næstu 25-30 mínúturnar eða svo, en svo fóru Norwich að sækja meira. Þeir áttu nokkrar hættulegar sendingar inn fyrir, en Caoimhín “Sweeper-keeper” Kelleher var duglegur að hlaupa út úr teignum og sparka eða skalla boltann í burtu. Þegar um 5 mínútur voru eftir fengu Norwich hins vegar gullið tækifæri til að jafna. Þeir áttu hraða sókn sem endaði með skoti vinstra megin fyrir utan teiginn. Kelleher varði en boltinn barst aftur út í teig þar sem leikmaður Norwich var á auðum sjó. Hann náði reyndar ekki nægilega góðu valdi á boltanum, en Conor Bradley hjólaði klaufalega í hann og gaf frekar ódýra vítaspyrnu. Kelleher gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði vítaspyrnuna, giskaði á hægra hornið frá sér séð en skildi lappirnar eftir á miðjunni sem var eins gott því þangað setti Tzolis boltann. Eftir smá japl, jaml og fuður í teignum þar sem Gomez blokkeraði tvisvar, þá náðu okkar menn að hreinsa og áttu meira að segja hættulega sókn í kjölfarið, sem ekkert varð úr.

  Staðan 0-1 í hálfleik, og algjörlega sanngjarnt þó vissulega hafi verið smá heppnisstimpill yfir því að halda búrinu hreinu.

  Tyler Morton kom inná í hálfleik fyrir Keita sem fékk víst eitthvað spark í fyrri hálfleik, en verður vonandi ekki frá nema í mesta lagi 3-4 mánuði (vonandi er þetta bara grín). Síðari hálfleikur hófst svo eiginlega alveg eins og sá fyrri. Tsimikas fékk þá boltann uppi í vinstra horni leikvallarins, gaf fyrir beint á kollinn á Origi sem stýrði boltanum af öryggi í fjærhornið. 0-2 og hér fékk maður á tilfinninguna að þetta væri svona að mestu komið. Robbo kom svo inn á fyrir Tsimikas á 65. mínútu, og svo í lokin fékk Hendo nokkrar mínútur í stað Jones sem hafði staðið sig mjög vel. Áður en það gerðist náði Taki að pota inn öðru marki eftir að hann og Ox prjónuðu sig snyrtilega í gegnum vörnina og Taki renndi boltanum afar smekklega í nærhornið, og gulltryggði þar með sætið í 16 liða úrslitum.

  Bestu/verstu menn

  Það voru eiginlega ekki margar neikvæðar hliðar á spilamennsku liðsins í dag. Einna helst að Ox ætti pínku erfitt, við vitum öll hvað hann er fær um en stundum er eins og hann sé að reyna aðeins of flókna hluti. Hann fær þó skráða á sig stoðsendingu svo ekki var þetta alslæmur dagur, og sjálfsagt vantar hann bara fleiri mínútur í lappirnar. Conor Bradley gaf líka víti, og augljóst að þetta er ennþá talsvert hrár leikmaður, en töluverð gæði þarna engu að síður. Minnir um margt á Neco, en munum að þetta er bara 17 ára pjakkur og það er ekkert útilokað að með réttri þjálfun hjá besta knattspyrnustjóra heims gæti hann þróast í gott backup fyrir Trent í þessari stöðu. Svo hljómar kannski öfugsnúið að kvarta yfir leikmanni sem átti mark og stoðsendingu, en það glittir nefnilega stundum í öll gæðin sem býr í Divock Origi og því alltaf smá pirrandi að sjá ekki öll þessi gæði almennilega á stóra sviðinu.

  En þá er líka búið að kvarta meira en nóg, því liðið í heild sinni var bara að spila alveg glimrandi. Kelleher sýndi svosem að hann er ekki á sama plani og Alisson (sbr. skotið sem hann varði út í teig), en þetta er samt flottur markvörður, á fullt erindi í að vera markvörður nr. 2 og á að fá bæði þessa deildarbikarleiki og jafnvel fleiri. Hann virðist líka henta Liverpool mjög vel. Jú og hann náði jafn mörgum vítaspyrnuvörslum í þessum leik eins og De Gea hefur gert síðan árið 2016. Miðverðirnir voru virkilega öflugir, Konate er svoddan naut og Gomez er smám saman að finna upphaflegt form. Einstaka sinnum á hann það til að detta úr línunni og spila menn réttstæða, en það kom ekki að sök í kvöld, og hann bjargaði líklega marki eftir vítavörsluna hjá Kweev. Tsimikas sýndi enn og aftur gæðin sem hann býr yfir í fyrirgjöfum og hornspyrnum, það er langoftast þannig að hornspyrnurnar hans skapa usla fyrir framan markið á meðan bæði Robbo og Trent eiga það til að setja boltann á fyrsta varnarmann. Ótrúlega hughreystandi að vita að vinstri bakvarðarstaðan skuli vera svona vel skipuð með þessa tvo. Miðjan var allt í lagi í fyrri hálfleik, þá sérstaklega Jones, og í seinni hálfleik kom Tyler Morton gríðarlega sterkur inn. Ótrúlega yfirvegaður leikmaður, virðist alltaf finna samherja. Það verður gaman að sjá meira af honum á næstunni. Minamino kom sterkur inn með tvö mörk og fær af því tilefni nafnbótina maður leiksins, við erum kannski núna loksins að fara að sjá leikmanninn sem var keyptur til Liverpool kortér í Covid? Nú og að lokum er það Kadie Gordon. Hann átti mjög solid leik, skapaði usla af og til og átti líklega 2 færi sem hefðu getað endað í netinu með aðeins betri slúttum. En það var ljóst að hann var aðeins inni í skelinni, og Klopp átti gott spjall við hann í fyrri hálfleik á meðan það þurfti að hlúa að Ox eitt skiptið. Við eigum klárlega eftir að sjá meira af þessum strák í framtíðinni, munum að hann á ennþá tvær vikur í 17 ára afmælið. Hann á eftir að þroskast, bæði líkamlega og sem leikmaður, varðandi leikskilning og fleira, en grunnurinn lofar gríðarlega góðu. Það er ennþá möguleiki á að hann hirði metið yfir yngsta markaskorara Liverpool af Ben Woodburn, en hann var 17 ára og 1 mánaða þegar hann skoraði gegn Leeds sællar minningar.

  Svo má nú ekki gleyma frammistöðu Travelling Kop sem yfirgnæfði heimamenn meira og minna allan leikinn, og tóku ágæta upprifjun á Suarez-söngnum svona til að minna Norwich menn á það tímabil.

  Umræðan eftir leik

  Það er gríðarlega jákvætt að svona uppstillt lið Liverpool, nánast alveg án þessara hefðbundnu byrjunarliðsmanna, skyldi ná þetta góðum úrslitum. Þetta segir okkur bara hvað hópurinn er sterkur. Jafnframt er líka ofboðslega gaman að vita af þessum leikmönnum sem koma úr akademíunni. Besti hægri bakvörður heims var jú ekki einusinni í hóp en kemur úr akademíunni. Kelleher, Jones, Bradley og Morton koma allir úr henni sömuleiðis, og Gordon er nýkominn í akademíuna frá Derby. Nú svo vitum við af nokkrum öðrum leikmönnum sem bíða rólegir í startholunum, Balagizi var jú á bekk og hefði alveg mátt koma inná þarna í lokin í stað Hendo, og svo erum við með Musialowski, Woltman, Beck, Frauendorf og fleiri á hliðarlínunni. Ef það næst að gera þó ekki nema einn eða tvo þeirra að squad leikmönnum á borð við Jones þá er markmiðinu náð, og allt umfram það er bara bónus.

  Það verður svo dregið í næstu umferð á morgun og þá fáum við að vita hver andstæðingurinn verður. Ef eitthvað er að marka drætti undanfarinna ára þá fær Liverpool útileik gegn liði í efri hluta úrvalsdeildarinnar, líklega Chelsea ef ég ætti að veðja á eitthvað. Nei við skulum vona að það fáist andstæðingur sem leyfi aftur svipaða uppstillingu og í kvöld, þ.e. B-liðsmenn með unglingana í bland. Því þó Einar Matthías vilji helst að Liverpool detti sem allra fyrst úr þessum bikarkeppnum, þá er alltaf skemmtilegast þegar Liverpool fær sem flesta leiki á hverri leiktíð. Og með hæfilegri róteringu á liðinu á alveg að vera hægt að vera með í öllum keppnum eins lengi og hægt er, nú og svo er ekki verra ef þátttaka í einhverjum af þessum keppnum endar með bikar!

  [...]
 • Liðið gegn Norwich í deildarbikarnum

  Liðsuppstillingin klár:

  Bekkur: Adrian, Nat, Robertson, Henderson, Jota, Morton, Balagizi

  Það fyrsta sem maður rekur augun í er auðvitað að ungstirnin Conor Bradley og Kaide Gordon byrja sína fyrstu aðalliðsleiki. Jafnframt er mjög áhugavert að sjá að James Balagizi og Tyler Morton eru á bekk í fyrsta sinn með aðalliði. Þá hefur það verið ákveðið að Tsimikas tæki þennan leik en Robbo er á bekk, svo væntanlega víxla þeir um helgina. Að lokum er líka áhugavert að sjá að Nat Phillips er á bekk á kostnað þeirra Konate og Gomez. Svosem vitað að þeir síðastnefndu væru á undan Nat í goggunarröðinni, en ef hann ætti að fá að skjótast eitthvað framfyrir þá væri það í deildarbikarnum.

  Það er síðan Joe Gomez sem ber fyrirliðabandið í þessum leik, og það í fyrsta skiptið.

  Spái erfiðum leik, en sem mun samt vinnast, annaðhvort 1-2 eða 2-3.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Bikarleikur gegn Norwich

  Á morgun, þriðjudag, mætir Liverpool aftur á Carrow Road og mætir nú Norwich í Deildarbikarnum en þegar liðin mættust í fyrstu umferð deildarinnar í haust þá vann Liverpool ansi þægilegan 3-0 sigur á kanarífuglunum svokölluðu þar sem Jota, Salah og Firmino skoruðu mörkin.

  Eitthvað mun liðið sem mætir í þennan leik vera töluvert öðruvísi en það sem spilaði í deildarleiknum, Liverpool hefur verið að lenda í smá meiðslaveseni. Firmino, Thiago og Elliott eru allir frá í þessum leik og Trent var meiddur um síðastliðna helgi. Það er því svolítið þannig að Liverpool grefur eflaust ögn dýpra inn í hópinn en maður hefði giskað á fyrir svona tveimur vikum eða svo þar sem nú verður meiri ábyrgð á leikmönnum eins og Keita og Milner í næstu tveimur til þremur leikjum.

  Það er þétt prógram framundan fyrir næsta landsleikjahlé sem endar á leik gegn Man City og Klopp hefur verið að rótera liði sínu töluvert undanfarið og voru til að mynda nokkuð margar breytingar á liðinu í sigurleiknum gegn Crystal Palace um síðastliðna helgi. Matip, Gomez, Robertson og Trent voru ekki með, Keita byrjaði leik í fyrsta skiptið í smá tíma og Milner spilaði í hægri bakverðinum. Ég yrði í sjálfu sér ekkert rosa hissa þó Klopp ákveði að halda áfram smá róteringu með það í huga að geta mætt með sem sterkasta liðið ferskt í leikinn gegn Man City en við munum sjá ákveðna “varamenn” koma inn í liðið á morgun.

  Kelleher

  Gomez – Konate – Phillips – Tsimikas

  Chamberlain – Milner – Jones

  Minamino – Origi – Mane

  Ljinders sagði að Jones mun byrja leikinn og kemur það í raun ekki á óvart. Hann þarf mínútur til að komast í gang og er líklegt að hlutverkið hans sé að verða mikilvægara eftir meiðsli Elliott og þá sérstaklega þegar Thiago verður ekki heldur með næstu tvo leikina. Chamberlain, Origi og Minamino byrja held ég alveg pottþétt og annað hvort Henderson eða Milner verður á miðjunni held ég. Vörnin er pínu tricky, Matip hefur verið að hvíla smá og þykir mér ólíklegt að hann verði látinn spila þennan leik og sama með Van Dijk þó hann hafi hvílt gegn AC Milan um daginn. Konate spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið um helgina og kæmi ekki á óvart ef hann byrjar þennan leik og þá er spurning hver verði með honum. Gomez spilaði gegn Milan en ekki Crystal Palace svo ég held að hann muni byrja þennan leik en ég held líka að Nat Phillips byrji sinn fyrsta leik í vetur, þar sem Neco Williams er meiddur þá ætla ég að giska á að hann byrji í bakverðinum.

  Það má fastlega búast við því að Kaide Gordon spili sinn fyrsta keppnisleik fyrir aðallið Liverpool á morgun og í raun bara spurning hvort að hann byrji eða komi inn á. Hann mun þá verða yngsti leikmaðurinn í sögu Liverpool til að spila sinn fyrsta leik. Ekkert smá efnilegur og spennandi strákur sem kom frá Derby í byrjun árs og hefur greinilega heillað Klopp og starfslið hans upp úr skónnum síðan hann kom. Sömuleiðis má vænta þess að bakvörðurinn Connor Bradley sem var með aðalliðinu í sumar verði með í hópnum en þeir voru ekki með varaliðinu í síðasta leik þeirra. Hann og Gordon gæti alveg byrjað í bakverðinum og á vængnum en ég held að reyndari leikmaður byrji og þeir komi inn á en væri mjög til í að sjá þá byrja, sérstaklega Gordon.

  Norwich hafa byrjað deildina frekar illa svo ég veit ekki hverju ég býst við hjá þeim, hvort þeir muni reyna að rótera liði sínu í þessum leik og fókusa á deildina eða reyna að nota leik gegn róteruðu liði Liverpool til að freista þess að vinna og fá smá confidence boost. Eflaust rótera þeir eitthvað og reyna að halda einhverjum lykilmönnum ferskum.

  Enn einn sigur og áfram í næstu umferð, takk!

  [...]
 • Liverpool 3 – 0 Crystal Palace

  1-0 Sadio Mane 43′

  2-0 Mohamed Salah 67′

  3-0 Naby Keita 89′

  Það þurfti ekkert að suða í stuðningsfólki Liverpool að fjölmenna á Anfield til að sjá okkar menn taka á móti Crystal Palace. Völlurinn troðfullur af fólki sem fílar fótbolta og stemmningin frábær. Byrjunarliðið var svolítið óhefðbundið hjá Klopp, en vegna veikinda var Trent ekki í hópnum, og Matip fékk hvíld, og Robertson byrjaði ekki á vellinum. Við sáum því menn eins og Tsimikas, Konate og Milner í byrjunarliðinu. Palace hefur verið á fínni siglingu og var með vindur með þeim eftir stórflottan heimasigur gegn Tottenham síðustu helgi, og því var alveg sanngjarnt að hafa smá áhyggjur af því hvort vörnin gæti staðið sig gegn þeim. En hvernig rúllaði þetta allt saman?

  Framvinda leiksins

  Palace voru mjög ferskir framan af eins og við mátti búast og fengu fyrstu færi leiksins. En eftir fyrstu fimm mínúturnar og allan þann hasar sem fylgdi þeim, þá tók Liverpool völdin. Þrátt fyrir völdin gekk illa að klára sóknirnar. Jota fékk ágætt færi á 9. mínútu eftir harðfylgi Mane og Tsimikas, Henderson fékk frábært færi þegar hann tók viðstöðulaust skot af stuttu færi eftir frábæra sendingu frá Mane á 15. mínútu, en glæsileg markvarsla hélt leiknum markalausum. Leikurinn datt niður í logn nokkrum sinnum, á milli þess sem Liverpool setti í yfirgír og þrýsti óhugnanlega að Crystal Palace. Á 30. til 34. mínútu fengu Thiago, Salah og Jota allir þokkalegustu færi til að skora og manni fannst fyrsta markið liggja í loftinu. Alveg þangað til Jota klúðraði besta færi liðsins á þessu tímabili þar sem hann fékk upplagt færi til að skora. Færið fékk hann eftir frábæran skalla Thiago eftir fyrirgjöf Henderson. Þá fór maður að hugsa hvort þetta væri einn af „þessum“ leikjum. En 5 mínútum síðar fengum við hornspyrnu, Tsimikas sendi frá vinstri á kollinn á Salah sem átti góðan skalla sem Guatia varði, en Mane mætti í frákastið og hamraði boltanum í netið. 1-0 í hálfleik. Seinni hálfleikur fór rólega af stað og fátt var um fína drætti. Á 62. mínútu fór Thiago meiddur út af og inn á völlinn kom Keita. Crystal Palace gerði svo tvöfalda skiptingu á 65. mínútu þegar Benteke fór útaf fyrir Edouard og McArthur fór útaf fyrir Riedewald. Það munaði svo ákaflega litlu að Palace jafnaði leikinn þegar Edouard fékk frábæra sendingu inn fyrir og algjört dauðafæri, en fyrsta snertingin hans sveik hann og Allison tók af honum boltann. Eftir þetta kom dauft tímabil, hálfkæringur hjá okkar mönnum og slappar sendingar, og við gáfum dómaranum auðveldar ákvarðanir til að spjalda okkur. Jota, sem gekk illa að gera sig gagnlegan í sókninni, fór út af á 76. mínútu og Curtis Jones kom inn á og spilaði fyrstu mínúturnar sínar í deildinni á tímabilinu. Kannski var það þessi skipting sem gerði gæfumuninn, en 2 mínútum síðar skoruðum við aftur eftir hornspyrnu Tsimikas, en nú framlengdi Van Dijk sendinguna á Salah sem skoraði auðveldlega á fjærstöngina, og sótti sér gult spjald fyrir erótísk fagnaðarlæti þegar hann klæddi sig úr að ofan. Leikmenn Palace reyndu að koma til baka en voru aldrei mjög líklegir til að setja hann. Að lokum fengum við enn eina hornspyrnuna sem skilaði marki, en að þessu sinni kýldi Guatia boltann út úr teignum þar sem Keita beið og hamraði boltann óverjandi viðstöðulaust hægra megin í markið. Frábært mark, 3-0 á 89. mínútu og þannig endaði leikurinn.

  Tölfræðin

  Liverpool var með 10 skot á markið gegn 2. Var með 8 gegn 5 í skotum sem ekki voru á rammann. Var 61% tímans með boltann og 10 hornspyrnur gegn 5. Það var því ekki tilviljun að stigin 3 enduðu hjá okkur. Mikilvægasta tölfræðin er samt sennilega sú að þetta var þriðja gula spjald Salah sem leikmaður Liverpool, og alltaf er það vegna þessarar óheppilegu strípihneigðar sem grípur hann einstaka sinnum. Önnur sniðug tölfræði er að við áttum 10 hornspyrnur, og 30% þeirra leiddu til marka. Það er hressandi. Hvað ætli Trent geri í því?

  Maður leiksins

  Þetta er svolítið snúið, en ég held ég útnefni liðsheildina sem mann leiksins. Það var enginn sem bar af, en liðsheildin gerði Palace erfitt fyrir. Það var búist við að við gætum lent í vandræðum varnarlega á einstaka stöðum, en liðsheildin bætti fyrir það og kom í veg fyrir að það gæti orðið skaðlegt fyrir okkur í leiknum. Milner leit ekki illa út þrátt fyrir að eiga erfiðan og sprækan mótherja í Zaha, Konate var stressaður í þessum leik, en liðheildin bakkaði hann alltaf upp. Mörkin dreifðust vel yfir leikmannahópinn, og hættuleg færi litu dagsins ljós eftir fyrirgjafir frá hægri og vinstri.

  Ekki svo frábær dagur

  Ætli það verði ekki að nefna Jota hér. Honum gekk bölvanlega að gera sig gagnlegan í sókninni, og það var sársaukafullt að sjá hann klikka á dauðafæri dagsins. Honum gekk illa að sinna sínu aðalhlutverki, en var samt sem áður duglegur og vann fyrir liðið af fremsta megni. Fyrir skömmu síðan var Mane sóknarmaðurinn okkar sem gat ekki skorað eða gert neitt af viti, en á andartaki er hann búinn að gera 2 mörk í tveimur deildarleikjum. Jota verður þessi gaur innan skamms. Ég legg til að hann fái frí einn leik eða svo (eins og Robertson og Matip), og fái tækifæri til að mæta ferskur. Það gerðist líka einstaka sinnum, kannski fyrirsjáanlega, að stressið í Konate varð að sóknartækifærum fyrir Palace. En aftur að liðsheildinni, hún skákaði þessum veikleikum dagsins. Mörkin okkar komu þá bara með öðrum leiðum, og liðsfélagar hlupu í skarðið og björguðu málum.

  Að lokum

  Það eru komnar 5 umferðir, erum með 13 stig af 15. Búnir að skora 12 mörk og fá á okkur 1. Þetta er nokkuð traust. En það truflar mikið að meiðsli skulu helst þyrpast saman á sömu svæðin okkar. Nú er það miðjan sem meiðist og möguleikarnir á að koma á óvart, rótera eða hvíla leikmenn takmarkast. Það er því alveg grábölvað að sjá Thiago fara meiddan útaf, og maður vonar innilega að þetta sé minniháttar marblettur. En yfirleitt er mönnum ekki skipt útaf vegna svoleiðis. Það má samt vona.

  Þar til næst. Sem verður á móti Norwich á þriðjudaginn.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Crystal Palace

  Klopp gerir ýmsar breytingar á liðinu frá því á miðvikudaginn gegn AC Milan. Thiago kemur inn fyrir Keita, Milner kemur inn fyrir Trent sem er veikur, Tsimikas kemur inn fyrir Robertson, Van Dijk fyrir Matip og Mane kemur inn fyrir Origi.

  Byrjunarlið Liverpool: Alisson, Fabinho, Van Dijk, Konate, Thiago, Milner, Mane, Salah, Henderson, Jota, Tsimikas.

  Varamenn: Kelleher, Keita, Gomez, Oxlade-Chamberlain, Jones, Minamino, Robertson, Origi, Phillips.

  Patrick Vieira teflir fram sama byrjunarliði og hann gerði með árangursfullum hætti gegn Tottenham síðustu helgi

  Byrjunarlið Crystal Palace: Guaita, Ward, Mitchell, Guehi, Kouyate, Ayew, Zaha, Anderson, McArthur, Benteke, Gallagher.

  Varamenn: Butland, Milivojevic, Tomkins, Olise, Hughes, Clyne, Edouard, Kelly, Riedewald.

  Hörkuleikur framundan, ógnarsterkt lið Liverpool gegn fersku liði Crystal Palace.

  [...]
 • Upphitun: Crystal Palace mætir á Anfield

  Eftir góðan sigur í Meistaradeildinni mætum við á morgun Crystal Palace undir stjórn Patrick Viera. Palace hefur síðan þeir komu upp verið undir stjórn ýmissa óspennandi breskra þjálfara, fyrir utan fimm leiki þar sem Frank De Boer fékk að spreyta sig. Það er því spennandi að sjá þá fara í aðra átt í ár þegar þeir sóttu Viera. Á sama tíma var stór hluti liðsins samningslaus og er því Viera að sjá um ákveðna endurnýjun í liði Palace manna.

  Þeir misstu menn sem hafa verið stórir póstar í liðinu á borð við van Aanholt, Townsend, Cahill og Dann ásamt fyrrum Liverpool manninum Sahko en sóttu í staðinn nokkra spennandi menn eins og Marc Guechi, ungan varnarmann frá Chelsea, Joachim Andersen, sem átti gott tímabil á láni hjá Fulham í fyrra, og Odsonne Edouard, frá Celtic sem kynnti sig vel um síðustu helgi þegar hann kom inn á sem varamaður og setti tvö mörk á sex mínútum. Auk þeirra fengu þeir á láni Conor Gallagher sem er með 2 mörk og 2 stoðsendingar í fyrstu þremur leikjum sínum hjá Palace.

  Palace hefur byrjað ágætlega undir stjórn Viera töpuðu fyrsta leik fyrir Chelsea en hafa síðan þá náð í sigur gegn Tottenham og tvö jafntefli. Það verður því áhugavert að sjá hvað breytt Palace lið getur gert á heilu tímabili undir nýjum þjálfara.

  Okkar menn

  Nú er stutt á milli leikja og sáum strax í Ac Milan leiknum að Klopp er þegar byrjaður að rótera liðinu sínu og gæti því orðið erfitt á næstu vikum að skjóta á hvernig byrjunarliðið verður. Hins vegar sjáum við líklega nálægt okkar sterkasta liði á morgun og það verður frekar hvílt í bikarnum gegn Norwich í vikunni.

  Okkar fremstu menn hreinlega elska að mæta Crystal Palace og sáum við meðal annars veislu gegn þeim í jólatörninni í fyrra þegar við lögðum þá 7-0. Þar fer Sadio Mané fremstur í flokki en hann hefur skorað flest mörk Liverpool gegn Palace í sögunni með 9 mörk í 9 leikjum. Salah er ekki langt undan með 6 mörk í 7 leikjum og Firmino, sem verður því miður ekki með vegna meiðsla með 6 mörk í 12 leikjum. Vonandi getum við því séð markaveislu á morgun og lagað það að nú í byrjun tímabils hefur færanýtingin verið skelfileg.

  Sett þetta upp sem líklegt byrjunarlið. Matip hefur spilað alla leiki tímabilsins hingað til og því kæmi mér ekki á óvart að hann fengi hvíld á morgun og Gomez fengi annan leik. Klopp hefur oft gefið mönnum tækifæri á að bæta sig þegar þeir hafa átt slakan leik og Gomez gerðist sekur um mistök í báðum mörkum Milan í vikunni og gæti séð hann fá tækifæri til að bæta upp fyrir það. Á miðjunni er spurning með Fabinho en tel hann líklegri til að hvíla gegn Norwich enda afskaplega mikilvægur og verið einn okkar allra besti leikmaður í byrjun tímabils. Divok Origi fékk óvænt tækifæri í síðasta leik en meiddist og sé í raun engan fá jafn óvænt sæti í byrjunarliðinu á morgun.

  Spá

  Ég held að Mané haldi áfram að hrella Palace. Sáum gegn Leeds að hann er farinn að koma sér aftur í færin annað en við sáum á tímabili í fyrra og nú þarf bara að fara að koma boltanum yfir línuna nokkrum sinnum og komast í gang. Held að við sjáum 3-0 sigur þar sem Salah setur eitt og Mané tvö og verðum áfram á toppi deildarinnar og vonandi að það fari að fækka liðunum sem eru jöfn okkur að stigum.

  [...]
 • Liverpool 3 – 2 AC Milan

  1-0 Tomori 9′ (sjálfsmark)

  1-1 Rebic 42′

  1-2 Diaz 44′

  2-2 Salah 49′

  3-2 Henderson 69′

  Það var undarlegur leikurinn sem átti sér stað á Anfield í kvöld þegar Liverpool vann 3-2 sigur á Milan. Leikurinn hófst með gríðarlegum yfirburðum Liverpool sem pressuðu hátt og áttu Milan menn í miklum erfiðleikum að halda boltanum innan liðsins. Það var Divok Origi sem átti fyrsta tækifæri leiksins þegar hann setti boltann framhjá eftir góða fyrirgjöf frá Robertson, næstu mínútur voru svo algjör einstefna að hálfu Liverpool. Á níundu mínútu spilaði Trent þríhyrningsspil við Salah og reyndi svo fyrirgjöf sem breytti stefnu af Fikayo Tomori og framhjá markmanni Milan og boltinn endaði í netinu 1-0 fyrir Liverpool.

  Á fjórtándu mínútu fengu Liverpool svo víti þegar varnarmaður Milan fékk boltann í hendina en aldrei þessu vant lét Salah verja frá sér af vítapuntkinum og í kjölfarið varði Maignan, markmaður Milan, frákastið frá Jota en þá höfðu Liverpool átt 13 marktilraunir á fyrstu 15 mínútum leiksins og stefndi allt í auðvelt kvöld fyrir rauðliða á heimavelli.

  Eftir slaka byrjun og mikið stress fóru Milan að drepa leikinn. Öll föst leikatriði tóku óratíma og það tókst hjá þeim því það hægðist mikið á tempóinu í leiknum og Ítalirnir fóru að komast betur inn í leikinn. Næstu tuttugu mínútur yrðu frekar leiðinlegar áður en Rafael Leao náði að finna Ante Rebic aleinan inn fyrir vörn Liverpool, en hann var spilaður réttstæður af Joe Gomez, sem renndi boltanum framhjá Alisson í markinu og jafnaði leikinn á 42. mínútu.

  Markið var mikið sjokk enda aðeins önnur marktilraun Milan í leiknum en menn höfðu ekki mikinn tíma til að jafna sig því aðeins níutíu sekúntum síðar var boltinn aftur í netinu. Leao átti þá gott hlaup, lagði boltann á Rebic sem fann Hernandez sem átti skot sem Robertson bjargaði á línu en Díaz fygldi á eftir og kom Milan yfir.

  Ótrúlegur hálfleikur þar sem Liverpool var undir þrátt fyrir að hafa spilað hreint út sagt ótrúlega fyrsta korterið og haldið síðan völdunum í leiknum svo komu tvær mínútur af algjöru einbeitingaleysi og Milan stal forustunni.

  Martöðin virtist ætla að halda áfram, stöð tvö voru aðeins of seinir að byrja útsendinguna í seinni hálfleik og það fyrsta sem maður sá þegar hún loks hófst var Simon Kjær að skora en sem betur fer var hann rangstæður og markið taldi því ekki.

  Mínútu síðar var það svo Divok Origi, sem fékk óvænt að byrja leikinn, sem fann Salah í smá svæði inn í teig þar sem Salah lyfti boltanum yfir Maignan í marki Milan og jafnaði leikinn 2-2.

  Það var svo fyrirliðinn sem lokaði leiknum á 69 mínútu eftir hornspyrnu frá Trent sem var skölluð frá beint á Henderson sem tók skotið í fyrsta, hitti boltann svona hrikalega vel og skoraði stórglæsilegt Gerrard-legt mark.

  Bestu menn Liverpool

  Undarlegur leikur þar sem flestir spiluðu mjög vel en samt eitthvað hægt að setja út á alla. Salah skorar og leggur upp en klúðraði víti, Fabinho og Henderson flottir á miðjunni en miðsvæðið var alltof opið í báðum mörkum Milan. Báðir bakverðirnir áttu mjög góðan leik.

  Vondur dagur

  Joe Gomez spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma og klikkar á rangstöðulínunni í báðum mörkum Milan en þó jákvætt að það braut hann ekki og hann óx inn í leikinn í seinni hálfleik en vill líklega gleyma þessari endurkomu sinni sem fyrst. Sérstaklega núna þar sem hann er með tvö stórkostlega miðverði á undan sér í goggunarröðinni og annan mjög efnilegan rétt á eftir honum með svona frammistöðu verður hann fjótur að verða fjórði kostur í stöðu þar sem er ekki róterað mikið.

  Umræðupunktar

  • 3 stig í hús og Porto og Atletico gerðu jafntefli í hinum leiknum í riðlinum svo eins og er erum við á toppnum í dauðariðlinum.
  • James Milner kom inn með mikla reynslu til að drepa leikinn undir lokinn. Ekki við öðru að búast af honum en hann leysti sitt hlutverk mjög vel í kvöld.
  • Færanýtingin okkar í byrjun tímabils hefur verið arfaslök og var nánast búinn að kosta okkur leikinn í kvöld. Þetta verður að lagast getum ekki búist við því að fá 25-30 marktækifæri í hverjum einasta leik.
  • Evrópukvöld á Anfield með stuðningsmenn á vellinum er ótrúlegt fyrirbæri og það var svo ánægulegt að horfa á leikinn í kvöld og hlusta á stemminguna á vellinum. Það fer að verða þreytt að minnast á þetta en guð minn almáttugur hvað þetta er allt annað sport með fólk á vellinum.

  Næsta verkefni er svo Crystal Palace á laugardaginn en þeir slátruðu Tottenham um síðustu helgi. Salah og Mané hafa hinsvegar mjög gaman að því að mæta Palace og vonandi skánar færa nýtingin okkar í þeim leik.

   

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn AC Milan

  Þá er Klopp búinn að tilkynna liðið sem mætir AC Milan í kvöld og kemur margt á óvart þar. Van Dijk sest á bekkinn meðan Matip spilar og Divok Origi kemur inn í hóp og beint í byrjunarliðið.

  Bekkur: Adrian, Kelleher, Van Dijk, Konate, Tsimikas, Phillips, Thiago, Milner, Ox, Jones, Mané og Minamino

  Nokkrar breytingar og kannski ekki þær sem maður átti von á en samt ansi sterkt lið sem mæti til leiks. Þurfum sigur enda þrátt fyrir að vera stórt nafn er Milan liðið úr neðsta styrkleikaflokki í okkar riðli og verða hlutirnir fljótir að flækjast í þessum erfiða riðli ef við tökum ekki þrjú stig í dag.

  [...]
 • Meistaradeildin: AC Milan mæta á Anfield

  Það er komið að fyrsta leik Liverpool í Meistaradeildinni leiktíðina 2021-2022. Andstæðingurinn er hið fornfræga lið AC Milan, og þetta verður fyrsti opinberi leikur þessara liða sem ekki er úrslitaleikur Meistaradeildarinnar. Jafnframt verður þetta fyrsta skiptið sem AC Milan mæta á Anfield til að leika opinberan keppnisleik. Óopinberir leikir milli þessara liða hafa hins vegar verið aðeins fleiri, t.d. leikur frá árinu 2016 sem Liverpool vann 2-0, og svo annar frá árinu 2014 sem endaði með sömu markatölu. En það er alveg ljóst að í sögulegu samhengi er þetta merkisleikur. Jafnframt er þetta næst ríkasti leikur riðlakeppninnar af Evrópubikurum, en samtals eiga þessi lið 13 bikara, og 15 bikarar í riðlinum í heild sinni (riðill A er með 0 bikara. Takk fyrir að spyrja).

  Andstæðingarnir

  Lið AC Milan er á pappírnum ekki nándar nærri jafn ógnvænlegt eins og það var í maí 2005, en engu að síður er þetta geysisterkt lið og ekki hægt að bóka eitt eða neitt gegn þeim. Liðið vann fyrstu þrjá leiki sína í ítölsku deildinni þetta haustið, þar á meðal síðasta leik gegn Lucas Leiva og félögum hjá Lazio um helgina. Liðið er því í öðru sæti í deildinni á markatölu.

  Í leiknum á morgun verður enginn Shevchenko, Cafú, Kaká, Crespo eða Pirlo. Það gæti hins vegar verið einn Maldini, og jújú mikið rétt, sá er einmitt sonur Paolo Maldini sem spilaði í Atatürk forðum daga. Hann er þó enginn lykilmaður, og er t.d. aðeins búinn að spila síðustu 5 mínúturnar í einum leik það sem af er leiktíð. Svo eru tvö önnur nöfn sem við könnumst ansi vel við. Zlatan vinur okkar mun ekki spila þar sem hann er að glíma við einhver meiðsl, en þess má geta að hann er einn þessara leikmanna sem hefur aldrei verið í sigurliði gegn Liverpool. Svo er annar leikmaður þarna sem oft hefur reynst okkur óþægur ljár í þúfu, en það er Olivier Giroud. Hann greindist með Covid fyrir stuttu síðan en orðið á götunni er að hann hafi verið neikvæður í síðustu mælingu og gæti því verið í hóp á morgun.

  Okkar menn

  Það er lítið að frétta af okkar mönnum frá leiknum um helgina. Jú, Harvey Elliott gekkst undir uppskurð í dag og það er talað um að hann gæti jafnvel snúið aftur á völlinn á þessari leiktíð. Að sjálfsögðu skiptir mestu máli að hann nái sér að fullu, og hvort hann spilar í apríl eða ágúst á næsta ári er kannski ekki að fara að skipta öllu máli. Þá hefur enn ekkert verið gefið út hvenær Firmino snúi aftur. Eins eru Minamino og Neco Williams á sjúkrabekknum, og ekki alveg ljóst hvort Milner er að fullu leikfær (ég meina hann myndi alltaf spila ef hann væri beðinn um það, þetta er meira spurning hvort læknirinn hans myndi mæla með því), þó hann hafi vissulega verið á bekk á sunnudaginn (ekki sjúkrabekk semsagt). Enginn þessara leikmanna er með skráða endurkomudagsetningu, en James Pearce talaði um það um helgina að Firmino væri a.m.k. farinn að hlaupa og æfa með bolta aftur. Það er því orðið frekar fámennt í hópi þeirra sem Klopp treystir til að spila í framlínunni, gæti þetta þýtt að Origi sjáist í leikmannahópnum annað kvöld? Undirritaður er ekki svo viss, og það er meira að segja fjarlægur möguleiki að Kaide Gordon gæti fengið tækifæri á bekknum (þó það væri vissulega mjög ólíklegt að Klopp myndi skipta honum inná, Klopp einfaldlega vill gefa ungu leikmönnunum meiri tíma en svo).

  Annað sem þarf að hafa í huga er að nú er gengið í garð tímabil þar sem það eru aldrei meira en fjórir dagar á milli leikja: Milan á miðvikudaginn, Palace á laugardaginn, Norwich á þriðjudag eftir viku í Carabao (OK við gætum vel séð Kaide Gordon þar), Brentford á laugardeginum þar á eftir og svo Porto á þriðjudeginum þar á eftir. Svo kemur smá pása (þ.e. 4 heilir dagar í frí) fyrir síðasta leik fyrir næsta landsleikjahlé, en þá mæta City á Anfield. Klopp þarf því að hafa leikjaálagið næstu vikurnar í huga við val á liðinu á morgun, og svo næstu leikjum á eftir. T.d. er hæpið að Matip geti spilað mjög marga leiki í röð, og því kæmi ekki á óvart að við sæjum Joe Gomez á morgun. Virgil er ekkert endilega klár í mjög marga leiki í röð og gæti fengið pásu fljótlega, en þó tæpast á morgun. Framlínan er nokkurn vegin sjálfvalin, en aðal róteringin verður sjálfsagt á miðjunni. T.d. kæmi ekki á óvart að sjá bæði Keita og Henderson byrja á morgun. Svo er spurning hvort Robbo byrji á morgun eða hvort Tsimikas verði verðlaunaður fyrir góða frammistöðu í upphafi leiktíðar. Munum samt að Klopp er frekar íhaldssamur þegar kemur að því að stilla upp liði.

  Við skulum því prófa að stilla þessu upp svona:

  Ég held að Klopp verði lítið í tilraunastarfsemi og vilji stilla upp sínu allra sterkasta liði. Líkamlegt ástand leikmanna gæti auðvitað breytt þessari mynd eitthvað, kannski taka menn sénsinn á að setja Matip við hliðina á VVD enda er hann heitur á meðan Gomez hefur lítið komið við sögu.

  Ég bið bara um þrennt:

  a) sigur og 3 stig
  b) að leikmenn komist heilir frá þessum leik
  c) að Alisson haldi hreinu

  Mér finnst þetta ekkert til of mikils mælst. Ég spái 2-0 sigri með mörkum frá Salah og Trent úr aukaspyrnu.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close