Podcast – I´ll be Muslim too

„If Salah scores a few I´ll be too“ sagði lagið og hann gerði heldur betur það og gott betur. Næsta verk hjá okkur er því bara láta vaða í þetta. Umræða um Salah var auðvitað fyrirferðarmikil í þætti vikunnar, viðbrögð við drættinum í Meistaradeildinni fékk einnig sinn sess og í öðrum fréttum veltum við fyrir okkur almennum leiðindum.

Kafli 1: 00:00 – Man City í Meistaradeildinni
Kafli 2: 17:10 – Mo Salah í samanburði við aðra
Kafli 3: 34:45 – Kloppfactor og er framtíð Salah hjá Liverpool?
Kafli 4: 47:50 – Watford leikdurinn, Van Dijk og Ings
Kafli 5: 54:05 – Aðrar fréttir vikunnar, Mourinho í kunnuglegum dansi?

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Sveinn Waage

MP3: Þáttur 186

The Egyptian King

Mo Salah bauð upp á sýningu í gær þegar hann kom að öllum mörkum Liverpool í 5-0 sigri. Það sem meira en þá fannst manni Liverpool aldrei fara úr öðrum gír í leiknum. Það sem við erum að sjá frá þessum stórkostlega leikmanni í vetur er nú þegar búið að setja hann í flokk með okkar stærstu stjörnum undanfarin ár og ef þið hafið farið á Liverpool leik undanfarið leyna vinsældir Salah sér ekki.


Continue reading

Liverpool 5 – 0 Watford

Mörkin

1-0 Salah – 4. mín
2-0 Salah – Markamínútan
3-0 Firmino – 49. mín
4-0 Salah – 77. mín
5-0 Salah – 85. mín

Leikurinn

Leikurinn byrjaði í svolítilli snjókomu, sem þó var heldur á undanhaldi. Maður var ögn smeykur um að þetta myndi hafa áhrif á framlínuna okkar sem eru kannski ekki beint uppaldir á norðurslóðum, en þær áhyggjur reyndust ástæðulausar. Strax á 3. mínútu var Salah kominn í færi upp hægri vænginn, og mínútu síðar skoraði hann fyrsta markið eftir að hafa leikið varnarlínu Watford sundur og saman eftir góða sendingu frá Mané.

Síðan tók við tæplega 40 mínútna kafli þar sem lítið var um stórfréttir. Can þurfti að fara af velli eftir ca. 25 mínútur, og Milner tók við. Firmino slapp í gegn eftir hraðaupphlaup og fallega sendingu frá Salah, en setti boltann full nálægt markverði Watford sem tók boltann örugglega. Hinum megin þurfti Karius að taka einn skallabolta sem fór beint á hann, en átti að öðru leyti náðugan dag í markinu.

Það var svo á 43. mínútu sem Robertson og Mané tóku skemmtilegan þríhyrning vinstra megin á vallarhelmingi Watford, Robertson átti hina fullkomnu fyrirgjöf sem fór beint í lappirnar á Salah, og hann einfaldlega gat ekkert annað gert en skorað, algjörlega í takt við þessa leiktíð því Salah hefur jú ekki getað hætt að skora.

Seinni hálfleikur hófst svo eiginlega nákvæmlega eins og sá fyrri, nema að núna var það Firmino sem skoraði eftir að Salah hafði unnið boltann og sendi fyrir. Oxlade-Chamberlain kom svo inn á fyrir Winjaldum um miðjan síðari hálfleik. Þegar tæpt korter var svo til leiksloka fullkomnaði Salah þrennuna eftir laglega fótavinnu hjá Mané. Salah átti samt nóg eftir til að klára færið, en það voru líklega fjórir varnarmenn Watford að vandræðast í kringum hann, án árangurs. Í kjölfarið kom svo Danny Ings inn á í stað Firmino sem hafði átt góðan leik sem endranær. Ings átti eftir að setja mark sitt á leikinn, því hann átti gott færi nokkrum mínútum síðar, og hann „lagði upp“ fjórða mark Salah með góðu skoti sem var varið en Salah hirti frákastið. Það var n.b. Salah sem átti sendinguna á Ings sem var óheppinn að skora ekki sjálfur.

Umræðan eftir leik

Mjög einfalt: Salah. Maðurinn var að skora sína fyrstu þrennu fyrir Liverpool, og ákvað að bæta um betur og hafa þetta 4 mörk. Hann er kominn með 28 mörk í deildinni og 37 mörk í öllum keppnum. Það fer alveg að verða spurning um að kaupa faxtækið af Madrid? En já, hann fær að sjálfsögðu nafnbótina maður leiksins. Það er líka rétt að nefna að Karius var að næla sér í enn eitt hreina lakið, og er núna kominn yfir 50% hlutfall, þ.e. meira en helmingur leikja hans í deildinni hafa endað með hreinu laki. Eins og svo oft áður var liðið allt að spila vel, það var einna helst að manni fyndist Henderson vera aðeins úr takti á köflum, en það voru bara einstaka tilfelli. Líka rétt að minnast á frammistöðu Mané, þó hann kæmist ekki á blað átti hann mjög góðan leik og virtist á köflum liggja aðeins dýpra en áður.

Nú tekur við landsleikjahlé, Liverpool verður í 3ja sæti fram að næsta leik þar sem Tottenham lék í bikarnum. Næsti leikur er á móti Palace sem virðast vera að rétta aðeins úr kútnum, svo ekki verður það auðvelt. Síðan þarf að mæta einhverju liði úr Manchester, en við spáum í þá leiki síðar.

Byrjunarliðið gegn Watford

Þá fer leikurinn að hefjast, skemmst frá því að segja að Beardsley var spot on með liðið:

Karius
Gomez – Matip – van Dijk – Robertson

Can – Henderson – Winjaldum

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Milner, Klavan, Oxlade-Chamberlain, Alexander-Arnold, Ings, Moreno

Nú er bara að ná upp aftur dampi, það er bara akkúrat þessi leikur núna og svo tekur við landsliðshlé.

ÁFRAM ÍSLAAAA….LIVERPOOOOOOL!!!

Minnum svo á #kopis á Twitter:


Upphitun: Watford / CL dráttur: Man City

Uppfært (EMK):
UEFA fékk Shevchenko til að draga í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar og hann dró að sjálfsögðu það einvígi sem stuðningsmenn City og Liverpool vildu líklega hvað síst. Hundleiðinlegt að ensku liðin hafi dregist saman á þessu stigi

Svona raðast þetta:
Liverpool – Manchester City
Juventus – Real Madrid
Barcelona – Roma
Sevilla – Bayern Munchen

Ekki að þetta verði ekki hörku leikir, Liverpool er eina liðið sem hefur unnið Man City í deildinni í vetur en það er ljóst að okkar menn þurfa að eiga toppleik til að endurtaka leikinn. Hjálpar ekki að seinni leikurinn er á útivelli.

Til gamans má geta þess að 1% lesenda Kop.is vildu þetta einvígi:

Kunni betur við Shevchenko þegar hann var að láta Dudek verja frá sér vítaspyrnu!


Íslendingasagan

Fyrir gráglettni örlaganna fellur upphitun fyrir Watford aftur mér í skaut en ég gerði fyrri leik liðanna skil í upphafsleik leiktíðarinnar. Sú upphitun dugði þó eingöngu til góðs sóknarleiks Liverpool en lakari varnarframmistöðu í 3-3 jafntefli og því dugar ekkert annað en betrumbætur í annarri tilraun. Þar sem sagnfræði milli Watford og Liverpool var sæmilega afgreidd í það skiptið þá er vel við hæfi að fjalla lítillega um Íslands-sagnfræði hinna gulrauðu í staðinn.

Af mörgu er að taka en langefstur á blaði í því ættartré er Dalvíkingurinn Heiðar Helguson sem spilaði 228 leiki fyrir Watford og skoraði í þeim 76 mörk. Herra Helguson þarf enga kynningu en sá sem rífur kröftugan kjaft við Kahn er með sönnu karl í krapinu og enginn snáði í snjónunum. Árið 1999 var hann keyptur á 1,5 milljón punda til Lundúna-liðsins frá Lilleström og var þá dýrasti leikmaður í sögu liðsins en það áttu eftir að reynast kjarakaup. Með réttu er hetjan Heiðar í hávegum hafður þar á bæ og nýlega deildi Watford þessari mögnuðu markasyrpu af bestu bombum bardaga-blondínunnar en eitt markanna er gegn LFC árið 2000 í 2-3 sigri grænklæddra Liverpool-manna á Vicarage Road.

Suðurnesjakappinn Jóhann Birnir Guðmundsson spilaði einnig með liðinu í tvö ár og afrekaði 2 mörk í 22 leikjum en hápunktur í veru hans hjá Watford kom máske á Laugardalsvelli þegar hann skoraði 2 mörk í 2-3 sigri gestanna á stórveldi Knattspyrnufélags Reykjavíkur í 100 ára afmælisleik svart-hvítu hetjanna. Meistari Sigursteinn Gíslason og Bjarki Gunnlaugsson skoruðu mörk heimamanna en KR voru gríðarlega vel mannaðir þetta árið með goðsagnirnar Gumma Ben og Þormóð Egilsson í liðinu sem varð svo Íslandsmeistari um haustið eftir 31 ára eyðumerkurgöngu. Því ber að leggjast á bæn og fara með Fowler-vorið um að bið okkar Púlara verði skammvinnari en Evrópuvina þeirra í Vesturbænum. Þá ber einnig að nefna að af sama 100 ára afmælistilefni var haldin epísk Elton John helgi á Rauða Ljóninu þar sem Maggi Kjartans og Ruth Reginalds héldu uppi fjörinu langt fram á nótt. Ó hvað glöð var vor aldraða æska á síðustu öld.

Talandi um æfingaleiki Watford hér á landi þá brá svo við að í janúar 1987 gerði vetur konungur vart við sig á Bretlandseyjum og þar sem enskurinn er frægur fyrir uppgjöf sína gagnvart smá slyddu og slabbi þá var fjölda leikja aflýst víða um breska grund. Haldið var norður til Íslands í margrómaða miðsvetrarblíðuna hér á landi og spilaður æfingaleikur á gervigrasinu í Laugardal gegn úrvalsliði úrKR, Fram og Val.

Áhugamennirnir íslensku í minniháttar leikæfingu náðu virðingarverðu 1-1 jafntefli gegn Watford með enska landsliðsmanninn Luther Blissett framlínunni en John Barnes var því miður hvíldur og hálfu ári síðar var hann seldur til Liverpool sælla minninga. Í úrvalsliðinu öfluga voru Guðni Bergsson og Þorgrímur Þráinsson hafsentar með Willum Þór Þórsson, Andra Marteinsson og Rúnar Kristinsson á miðjunni og Pétur Pétursson í framlínunni  svo einhverjir séu nefndir. Einvalalið einstakra víkinga en nóg um nostalgíuna og aftur í nútíðina.

Mótherjinn

Mikið er um meiðsli í herbúðum gestanna en þó verða Troy Deeney og Richarlison í framlínunni og í þeim felst talsverð ógn fyrir okkar misgóðu varnarlínu. Útivallarform þeirra gulrauðu hefur ekki verið gott og þeir eiga við það lúxusvandamál að vera í 10.sæti með 36 stig fjarri fallhættu þannig að stóra spurningin felst í hugarfarinu komandi inn í leikinn.

Hinn splúnkunýi  spænski þjálfari Watford sem tók við í janúar heitir Javi Gracia Carlos og hefur stýrt liðinu til sigurs og taps í hárfínu jafnvægi eða þrjú skipti hvort um sig. Við hverju má búast frá gestunum er því vandsvarað þar sem Arsenal fór létt með Watford í forleiknum á undan og ef okkar menn skora snemma leiks þá gæti eftirleikurinn verið auðveldur (7,9,13).

Liverpool

Rauði herinn mætir með sært stolt eftir síðustu helgi og þó að Þórðargleði í miðri viku hafi kætt stuðningsmenn þá breytir það litlu fyrir leikmennina sem þurfa að gíra sig aftur í gang og á sigurbraut. Eftir þennan leik verður langdregið landsleikjahlé og því þarf Klopp ekki að stunda neinar taktískar sparnaðaraðgerðir með næstu leiki í huga. Sterkasta liði verður stillt upp en þó geri ég ráð fyrir nokkrum breytingum í kjölfar misgóðrar frammistöðu sumra leikmanna á Old Trafford.

Mitt hundsvit segir mér að þríeykið í framlínunni verði óbreytt en á miðjunni taki kafteinninn Henderson við stýrinu á freygátunni og Wijnaldum snúi aftur úr pestabælinu. Lovren á skilið bekkjarsetu eftir síðasta leik og Alexander-Arnold líka þannig að mín spá er að Matip og Gomez fái þeirra sæti og jafnvel gæti Moreno fengið smá sprett en Robertson er þó líklegri til að halda byrjunarliðssætinu. Liðsuppstillingin væri því eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Það verður grjóthörð ákveðni hjá okkar mönnum að bæta upp fyrir skipbrotið í nágrannasveitarfélaginu þannig að allt kapp verður lagt á að komast aftur á beinu brautina og skora eins mörg mörk og hægt er fyrir landsleikjahlé. Mín bjartsýna spá verður sú að þau áform gangi fullkomlega eftir með vel matreiddri markasúpu að hætti hússins.

Niðurstaðan verður 4-0 sigur með mörkum frá Salah, Mané, van Dijk og Henderson úr víti en þó verður Firmino maður leiksins með 3 stoðsendingar. Bon appetit.

YNWA