West Ham 3 Liverpool 1

Okkar menn héldu til Lundúna í 5. umferð Úrvalsdeildarinnar og máttu þola 3-1 tap gegn West Ham með einni verstu frammistöðu liðsins undir stjórn Brendan Rodgers.

Rodgers gerði þrjár breytingar frá því í Meistaradeildinni og stillti upp þessu liði:

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Lovren – Moreno

Sterling – Gerrard – Henderson – Lucas

Borini – Balotelli

Bekkur: Jones, Touré, Enrique, Sakho (inn f. Manquillo), Lallana (inn f. Lucas), Markovic, Lambert (inn f. Borini).

Leikurinn hófst eins illa og hægt er að hugsa sér og voru Hamrarnir komnir í 2-0 eftir átta mínútna leik. Fyrst skoraði Lovren eða Winston Reid strax á 2. mínútu. Fyrirgjöfin kom frá hægri yfir á fjærstöngina þar sem Henderson lét éta sig. RidgewellTomkins skallaði þar til baka fyrir markið þar sem Mignolet, Skrtel og Lovren voru allir úr stöðu og Reid eða Lovren (að reyna að komast á undan Reid að boltanum) potaði honum inn. Skelfilegt mark í alla staði.

Ekki tók betra við, West Ham voru með öll völd og bættu við marki strax á 8. mínútu. Þá fékk Sakho (þeirra maður) boltann óvaldaður við hægra horn vítateigs Liverpool, eftir að Lucas, Gerrard og Balotelli höfðu átt erfitt með að spila upp miðjuna og á endanum misst boltann. Á meðan Balotelli virtist rífast við Lucas um þetta ruku Hamrarnir fram, boltinn barst til hægri á Sakho sem var óvaldaður þar sem Moreno var langt út úr stöðu. Hann leit upp, sá að Mignolet var á leiðinni út og vippaði snyrtilega yfir hann og í fjærhornið. Ótrúlega auðvelt en sofandaháttur liðsins frá A til Ö og slæm staðsetning Mignolet bauð upp á þetta.

Áfram hélt stórsókn West Ham og Mignolet varði í tvígang vel langskot þeirra. Það var svo gegn gangi leiksins að okkar menn minnkuðu muninn en á 26. mínútu tók Balotelli fyrirgjöf Henderson vel niður og skaut að marki. Varnarmaður varð fyrir, boltinn hrökk út á Sterling sem negldi honum óverjandi í fjærhornið. 2-1 var staðan og eftir þetta lentu Sakho (okkar), sem þá var kominn inn fyrir Manquillo, og Lovren í samstuði og Lovren steinlá á eftir. Þetta kostaði 6 mínútna töf sem kálaði rythma leiksins svo hann fjaraði út í hálfleikinn.

Okkar menn gátu í raun prísað sig sæla að vera bara 2-1 undir eftir þennan hálfleik sem var einn sá lélegasti undir stjórn Rodgers. Hann gerði breytingu í hléi. Meiðsli Manquillo þýddu að Sterling þurfti að fara úr holunni og niður í hægri vængbakvörðinn og því setti hann Lallana inn fyrir Lucas til að hafa áfram mann í holunni.

Seinni hálfleikurinn var ekki mikið skárri. Hamrarnir gerðu það sem Sam Allardyce er vanur að gera, duttu langt niður á völlinn og leyfðu Liverpool að hafa boltann. Það gekk þó ekkert, flæðið í sóknarleik liðsins var pínlega lélegt og færin voru fá og langt á milli. Undir lokin skallaði Sakho (okkar) svo hreinsun beint í lappirnar á Downing sem lagði hann inn fyrir á Amalfitano sem innsiglaði sanngjarnan 3-1 sigur heimamanna.

Nokkrir punktar:

Brendan Rodgers þarf að fara að finna sitt sterkasta lið og sína leikaðferð. Hann hrærði enn og aftur í bæði byrjunarliðinu og leikaðferðinni í dag og það sýndi sig í algjöru reiðileysi inná vellinum, sérstaklega í upphafi leiks. Ég átti einmitt von á að liðið myndi reyna að byrja leiktíðina eins óbreytt og það gæti frá því sem virkaði svo vel á síðustu leiktíð en Rodgers hefur – bæði tilneyddur og líka að eigin völ – verið að breyta byrjunarliðunum allt of mikið á milli leikja og leikaðferðum líka. Þetta skrifast algjörlega á hann og hann bara verður að gera betur.

Að því sögðu þá eru þarna leikmenn að falla á stórum prófum í upphafi leiktíðar. Ég er ekki að tala um nýju leikmennina eða ungu strákana. Það segir sitt að Sterling og Moreno hafi verið okkar bestu menn það sem af er tímabili. Mignolet, Skrtel, Sakho, Gerrard, Lucas. Hvar eru þessir leikmenn? Eru þeir ekki nógu góðir til að spila þarna eða? Ég skil ekkert hvað er í gangi en enn og aftur eru ungu strákarnir ljósið í myrkrinu á meðan svokallaðir reynsluboltar og/eða leiðtogar í liðinu hiksta í kringum þá. Mér er skapi næst að panta Kolo Touré í næsta byrjunarlið, og Brad Jones í markið. Svo slæmt er þetta.

Lokapunkturinn: það er 20. september og Liverpool er búið að tapa 3 deildarleikjum. Liðið tapaði 6 deildarleikjum allt síðasta tímabil. Það er ekki hægt að vinna titilinn á haustin en það er sko fullkomlega hægt að tapa honum og Liverpool er að fara langt með að stimpla sig út úr þeirri baráttu á mettíma. Auk þess er núna búið að gjörsamlega kasta frá sér allri þeirri virðingu og ótta sem liðið hafði unnið sér inn meðal mótherja sinna á síðustu leiktíð. Og sjálfstraustið innan raða liðsins virðist ekkert, hvorki nú né í síðustu leikjum.

Hver er lausnin? Ég veit það ekki en það er ljóst að Liverpool er búið að koma sér aftur á stóran og feitan núllpunkt sem knattspyrnulið. Breytinga er þörf og nú kalla ég eftir því að knattspyrnustjórinn og leiðtogar þessa liðs stígi upp og sýni okkur að þeir geti fundið lausnirnar.

Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef þeir geta það ekki.

Liðið gegn West Ham

Fyrst, ég sat og spjallaði við Tómas og Elvar Geir hjá útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu í dag. Þið getið hlustað á upptöku af því hér.

Þá að leiknum. Byrjunarliðið er komið og Rodgers gerir þrjár breytingar frá liðinu sem vann Ludogorets í vikunni:

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Lovren – Moreno

Henderson – Gerrard – Lucas

Sterling

Balotelli – Borini

Bekkur: Jones, Touré, Sakho, Enrique, Lallana, Markovic, Lambert.

Þetta er nokkuð sterkt lið. Tígulmiðjan með Sterling fremstan og Balotelli fær annan framherja með sér. Ég er ekki sannfærður um að Lucas og Borini séu nógu góðir fyrir byrjunarlið okkar í dag, og ég er ekki viss um að það sé rétt að setja Skrtel inn fyrir Sakho frekar en Lovren, en án Allen og Sturridge er þetta besta lausnin til að geta spilað tígulinn.

Spes samt að Coutinho sé ekki einu sinni á bekk.

Koma svo, áfram Liverpool!

West Ham um helgina

Seinni part næstkomandi laugardags ferðast Liverpool til Lundúna þar sem þeir munu mæta Stóra Sam og félögum í West Ham.

Síðastliðinn þriðjudag fengum við stuðningsmenn Liverpool loksins sopa af vatni eftir fjögur löng ár í eyðimörkini. Hvað er ég að bulla? Jú, að sjálfsögðu spiluðum við loksins aftur í Meistaradeildinni eftir að hafa verið úr keppninni í fjögur ár. FJÖGUR ÁR!

Langþráð endurkoma Liverpool í Meistaradeildina byrjaði ekki á flugeldasýningu líkt og margir gætu hafa vonað eða reiknað með. Liðið vann seiglusigur á spræku liði Ludogoretz frá Búlgaríu með því að Captain Fantastic, Steven Gerrard, tryggði 2-1 sigur með svellkaldri og öruggri vítaspyrnu í uppbótartíma. Þetta var ekki fallegasti eða glæstasti sigur sem við Púllarar höfum séð frá okkar mönnum í keppninni en þetta hafðist. Það var tæpt en hafðist.

Síðustu tvær frammistöður Liverpool hafa ekki verið sérlega sannfærandi. Leikmenn hafa átt einstaka rispur en heilt yfir var holningin á liðinu ekki alveg nægilega góð. Menn hafa ýmsar skoðanir á hvað það er sem hefur verið að haftra liðinu.
Lesa meira

Meiðslafréttir – opinn þráður

Það bárust góðar fréttir í gær, en Daniel Sturridge og Martin Skrtel eru víst farnir að æfa aftur. Líklega kemur West Ham leikurinn of fljótt fyrir þá en þeir ættu þá alltaf að vera orðnir leikfærir gegn Everton um aðra helgi (á ekki von á því að þeim verði spilað gegn M´boro). Glen Johnson mun svo byrja að æfa um/eftir helgi.

Það var svo gefið út í morgun að Jon Flanagan verði frá í einhverja mánuði eftir að hafa farið undir hnífinn til þess að laga erfið hnémeiðsli. Hann verður ekki leikfær fyrr en í fyrsta lagi eitthvað inn í 2015. Ekki annað hægt en að vorkenna stráknum, að hafa komið svona sterkur inn í fyrra eftir meiðsli og meiðast svo á undirbúningstímabilinu og vera líklega ekki mikið með á þessu tímabili. Aldrei eins og vant erum við með fína breidd í vinstri- og hægri bakverði. Javier Manquillo hefur komið sterkur inn og er eflaust ekki langt frá því að vera orðinn fyrsti kostur í þessa stöðu.

Can er ennþá frá vegna meiðsla og kemur líklega ekki til baka fyrr en seinni hluta október mánaðar. Allen verður víst frá í einhverjar vikur (!), ég er ekki frá því að hann sé orðinn ómissandi, gefur okkur meira jafnvægi í liðið og höfum við saknað hans í síðustu tveimur leikjum. Það er því hrikalegt að vera án hans í nokkrar vikur í viðbót, sérstaklega þar sem að Can er einnig frá og Coutinho búinn að vera… skulum segja bara slakur.

Jordan Henderson var gerður að varafyrirliða eftir að Agger var seldur í lok leikmannagluggans. Þetta kemur svo sem fáum á óvart og er Gerrard sammála mér í því að þarna er kandídat í framtíðarfyrirliða LFC. Ég skrifaði, að hluta til, um mikilvægi hans fyrir liðið og er hann vel að þessu kominn, framfarir hans inn á vellinum verið ótrúlegar. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut, þá erum við komnir með topp topp miðjumann næstu 10 árin.

Upphitun fyrir West Ham leikinn kemur svo inn í kvöld, annars er orðið frjálst.

Liverpool 2 – Ludogorets 1

Meistaradeildin mætti aftur á Anfield eftir fimm ára hlé og við áhorfendur fengum 80 mínútur af stórkostlegum leiðindum og 15 mínútur af ekta Liverpool geðveiki.

Rodgers gerði aðeins eina breytingu frá Aston Villa leiknum – Sterling kom inná fyrir Markovic (sem er í Evrópubanni).

Mignolet

Manquillo – Lovren – Sakho – Moreno

Henderson – Gerrard – Coutinho

Sterling – Balotelli – Lallana

Fyrri hálfleikur var hreinasta skelfing. Liverpool voru mun meira með boltann, en liðið skapaði ekki neitt og það var einsog menn hefðu aldrei spilað saman fótbolta, hvorki á æfingasvæðinu né í alvöru leik.

Í þeim seinna skánaði spilið aðeins. En það var að mínu mati ekki fyrr en að Borini og Lucas komu inná fyrir (afleita) Lallana og Coutinho að mér fannst Liverpool byrja að ógna. Leikurinn opnaðist reyndar mjög mikið yfir höfuð og um tíma voru Ludogorets líklegri til að skora.

En það voru á endanum okkar menn sem brutu ísinn á 82. mínútu. Moreno gaf sendingu inná Mario Balotelli, sem hafði verið mjög slakur, og hann sýndi hvað hann getur með því að skora fallegt mark.

En það þurfti svo sem ekki að koma neinum sérstaklega á óvart að Liverpool fengu á sig jöfnunarmark. Sterling tapaði boltanum við vítateig Ludogorets, þeir keyrðu upp völlinn og það kom sending inn fyrir Lovren og Dani Abalo skoraði framhjá Mignolet sem var í einhverju hálf furðulegu úthlaupi. 1-1 á 91.mínútu og ég get ekki sagt að ég hafi verið í sérstaklega góðu formi á sófanum heima hjá mér, hugsandi um hvað ég gæti skrifað jákvætt um þessa hörmung.

En strax eftir markið var markvörður Ludogorets eitthvað að rugla með boltann, Manquilo komst að honum og markvörðurinn braut á honum. Sannkölluð gjöf frá markverðinum. Steven Gerrard mætti á punktinn og skoraði og tryggði okkar mönnum gríðarlega mikilvægan sigur.


Maður leiksins: Ég nenni varla að fara yfir leikmennina í þessum leik. Liðið allt lék illa í kvöld. Fimm af tíu útileikmönnum í kvöld voru keyptir til liðsins í sumar og það sást greinilega. Það þýðir ekki að pikka einhvern einn útúr þessu því að aðalvandamálið var að menn spiluðu ekki einsog lið í kvöld. Það var enginn kraftur og engin ógn.

27.apríl töpuðum við gegn Chelsea á Anfield og þá endaði ótrúleg sigurganga þessa liðs. Síðan þá höfum við leikið eftirfarandi leiki: Crystal Palace (j), Newcastle (s), Southampton (s), Man City (t), Tottenham (s), Aston Villa (t) og Ludogorets (s). Þetta eru 7 leikir – við höfum unnið 4, tapað tveimur og gert eitt jafntefli. Það er ekki góður árangur. Og það sem meira er að við höfum í raun bara leikið vel gegn Tottenham af þessum 7 leikjum. Hinir 6 leikirnir voru slappir.

Kannski situr eitthvað í þessu liði – kannski er það áfallið að tapa niður titlinum á síðasta tímabili, kannski byrjuðu menn að trúa því að Suarez væri ómissandi. Eða kannski eru menn bara svona óvanir að spila með hvor öðrum. En það er alveg ljóst að eitthvað þarf að breytast.

Ef við hefðum gert jafntefli í kvöld hefði stemningin í liðinu eflaust verið erfið. En það er vonandi að menn nýti sér þennan sigur í kvöld til að berja kraft í mannskapinn fyrir útileikinn gegn West Ham á laugardaginn.

Þetta mark hans Gerrard getur verið gríðarlega mikilvægt fyrir þetta tímabil. Okkar menn þurftu á því að halda að vinna fyrsta Meistaradeildarleikinn og þótt það hafi ekki verið sannfærandi, þá erum við með þrjú stig í þessum riðli og getum fagnað því að vera loksins komnir aftur á réttan stað meðal bestu liða í Evrópu.