Latest stories

 • Upphitun: Napoli á San Paolo

  92. mínútur á klukkunni, Liverpool 1-0 yfir Callejón kemur með fyrirgjöf úr djúpinu. Milik nær að losa sig frá Dejan Lovren sem var nýkominn inná sem varamaður. Milik þarf að teygja fótinn á eftir boltanum en nær að drepa hann fyrir framan sig við markteiginn. Hann nær að koma sér í jafnvægi og skýtur… en Alisson gerir sig stóran og ver boltann. Liverpool áfram, komnir upp úr riðlinum!

  Þannig var eitt mikilvægasta mómentið í leið Liverpool að Meistaradeildartitlinum í fyrra. Nú er hinsvegar komið að því að Meistaradeildin hefjist á nýtt og Evrópumeistararnir mæta í bikarvörnina sína á kunnuglegum slóðum á San Paolo vellum gegn Napoli. Því miður gat Einar Mattías ekki tekið að sér Evrópuupphitun í þetta skiptið en fyrir þá sem vilja vita allt um sögu Napoli, pizzugerðar og borgarinnar geta þeir lesið upphitun hans frá því í fyrra hér, það er nefninlega svo gott við söguna að hún er lítið í því að breytast. Upphitunin verður kannski aðeins í styttri kantinum í dag þar sem ég var að standa í fluttningum í gær og var að koma tölvunni í gang og byrja að skrifa aðeins seinna en ég er vanur.

  Napoli liðið var einnig með okkur í riðli í fyrra og unnu leikinn á San Paolo 1-0 í október í fyrra en riðillinn endaði svo á úrslitaleik milli liðanna á Anfield þar sem Liverpool hefndi fyrir og unnu þar 1-0 þar sem Alisson bjargaði okkur á ögurstundu og sendi Napoli í Evrópudeildina. Þar komust þeir í átta liða úrslit eftir að hafa meðal annars slegið út Red Bull Salzburg, sem eru einnig með okkur í riðli í ár. Þeir féllu síðan út gegn Arsenal samanlagt 3-0 í átta liða úrslitum. Í sumar var lítið um brottfarir frá Napoli, þar helst fór Raúl Albiol heim til Spánar þar sem hann samdi við Villareal. Þeir gerðu hinsvegar tvö stór kaup. Annarsvegar Kostas Manolas frá Roma og hinsvegar Hirving Lozano frá PSV báðir á rúmlega þrjátíu milljónir punda. Það varð þó ekkert af drauma viðskiptum eigandans í sumar en De Laurentiis talaði nokkrum sinnum í sumar um drauma sína að fá James Rodriguez til félagsins en það gekk ekki eftir.

  Það besta sem Napoli gerði í sumar var samt að halda Dries Mertens sem hefur á undanförnum árum fengið gylliboð frá Kína en hann hefur byrjað tímabilið vel og er með þrjú mörk í þremur leikjum og er nú aðeins þremur mörkum frá því að jafna markafjölda Diego Maradonna fyrir Napoli og tíu mörkum frá því að verða markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi, met sem er í eigu Marek Hamsik eins og er en hann nær ekki að bæta við sinn markafjölda eftir að hafa tekið kínagullinu.

  Byrjun tímabilsins hjá Napoli hefur verið undarleg. Eftir þrjár umferðir eru þeir með sex stig og búnir að skora níu mörk, sem væri hrikalega góður árangur ef þeir væru ekki búnir að fá á sig sjö á hinum enda vallarins og með sóknarþunga Liverpool gæti þetta orðið mikill markaleikur. Þeir hófu tímabilið á 4-3 sigri gegn Fiorentina og fylgdu því eftir með 4-3 tapi gegn Juventus áður en þeir unnu Sampdoria 2-0 eftir landsleikjahlé. Það er lítið um meiðlsi innan herbúða Napoli, áðurnefndur Milik hefur verið frá en mun hefja æfingar í vikunni en Mertens mun alltaf byrja leikinn hvort sem er. Íslendingabaninn Elseid Hysaj hefur átt í einhverjum vandræðum eftir að hann kom aftur eftir landsleikjahlé en hann hefur misst sæti sitt til Giovanni Di Lorenzo en mikilvægast er að Lorenzo Insigne meiddist í landsleikjahléinu einnig og missti af seinni leik Ítala en spilaði síðasta korterið gegn Sampdoria um helgina og verður því líklegast klár á morgun.

  Þá að okkar mönnum sem komu sér í góða stöðu með sigri á Newcastle um helgina meðan City tapaði sínum leik og erum við nú með fimm stiga forskot eftir fimm umferðir heima fyrir og leggjum því af stað í Meistaradeildina fullir sjálfstrausts. Divok Origi varð fyrir einhverju hnjaski í byurjunleiks gegn Newcastle og er augljóst að hann er meiddur þar sem hvorki hann né Naby Keita ferðuðust með liðinu til Ítalíu. Verri fréttir eru hinsvegar þær að Andy Robertson æfði ekki með liðinu áður en þeir fóru af stað en hann er þó í 20 manna hóp og vill Klopp meina að fjarvera hans hafi aðeins verið fyrirbyggjandi en ekki láta ykkur koma það á óvart ef Joe Gomez eða James Milner byrji leikinn í vinstri bakverði.

  Í fyrra gekk skelfilega á útivelli í Meistaradeildinni í riðlinum, töpuðum öllum leikjunum okkar og rétt slefuðum upp úr riðlinum áður en við urðum svo besti lið í heimi! Í ár fengum við léttari riðil og sigur í leiknum á morgun getur komið okkur í lykilstöðu að tryggja farmiða í sextán liða úrslit snemma og geta þá nýtt hópinn betur í loka leiki riðilsins.

  Ég á ekki von á miklum breytingum fyrir leikinn á morgun og Klopp mæti með frekar sterkt lið til leiks en gæti séð Joe Gomez fá að spreyta sig annaðhvort í vinstri bakverðinum ef Robbo spilar ekki annars í sinni stöðu í miðverðinum og ég gæti vel séð Milner fá byrjunarliðssæti á miðjunni.

  Ef þetta yrði raunin fengju Matip og Fabinho hvíld, ásamt Oxlade Chambarlain en Fabinho kæmi þá hress inn í Chelsea leikinn um næstu helgi og hópurinn aðeins notaður.

  Ég held að við fáum umtalsvert betri leik á Ítalíu í ár en í fyrra. Napoli liðið virðist hennta okkur illa en þetta Liverpool lið virðist vera betra í að leysa þau vandamál sem koma upp á vellinum en það lið sem við horfðum á fyrir aðeins ellefu mánuðum síðan. Við sjáum liðið vinna allskonar mismunandi sigra hvort sem það er gegn varnarsinnuðum eða sóknarsinnuðum liðum, hvort sem við komumst yfir eða lendum undir og því er bjartsýnin mikil hjá mér fyrir þennan leik. Ætla að segja að við vinnum 4-2 í háspennu leik og tippa á að við sjáum fyrstu mínútur Shaqiri á tímabilinu á morgun eftir að hann hafnaði að fara með svissneska landsliðinu til að berjast fyrir sæti sínu hjá Liverpool!

   

  [...]
 • Kvennaliðið heimsækir Tottenham

  Þá er góðri helgi fyrir okkur Púlara að ljúka. Við erum að sjálfsögðu í skýjunum með að vera með 5 stiga forskot á toppi deildarinnar eftir að kanarífuglarnir hjá Norwich lögðu lærisveina Pep á Carrow Road, og sýndu vonandi hinum liðunum í deildinni hvernig á að fara að því að vinna þá ljósbláu.

  U23 liðið okkar spilaði einnig í gær, andstæðingarnir voru Derby og fóru leikar 3-3. Mörkin hjá okkar piltum komu frá Dixon-Bonner, Curtis Jones setti eitt og átti almennt mjög góðan leik, og svo fékk liðið eitt mark að gjöf frá Derby. Þar að auki varði markvörður liðsins, Ben Winterbottom, eitt stykki víti, en Derby fékk svo annað víti í lok leiksins og náðu að jafna, og þóttu bæði vítin vera soft. Helsta fréttin fyrir okkur úr þessum leik er þó mögulega sú að Brewster spilaði ekki nema 15-20 mínútur en var þá tekinn út af, líklega sem undirbúningur fyrir Napoli leikinn á þriðjudaginn. Jú og svo voru þeir Sepp van De Berg og Ki-Jana Hoever í miðverðinum, áhugavert að sjá hvort planið sé að vera með hollenska varnarlínu í framtíðinni.

  Núna kl. 13 að íslenskum tíma spila svo stelpurnar okkar leik nr. 2 í deildinni þegar þær heimsækja Tottenham, en Spurs eru núna að spila í fyrsta sinn í efstu deild kvennaboltans eftir að hafa komið upp um deild í vor ásamt United. Bæði lið töpuðu sínum leikjum í fyrstu umferð, en það var grannaslagur á milli Tottenham og Chelsea í fyrstu umferð í London. Það var góðkunningi okkar, Bethany England, sem skoraði eina mark leiksins fyrir Chelsea, en hún lék einmitt með okkar konum fyrir tveim árum síðan þegar hún var á láni.

  Nóg um það. Það er búið að tilkynna liðið:

  Preuss

  Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

  Rodgers – Bailey – Charles

  Lawley – Sweetman-Kirk – Clarke

  Bekkur: Kitching, Purfield, Hodson, Babajide, Linnett

  Semsagt, sama lið og síðast. Bekkurinn aðeins þynnri, ég átta mig ekki á því af hverju Bo Kearns er ekki aftur á bekk eins og síðast, en skoski landsliðsmaðurinn Christie Murray virðist ennþá vera meidd og er hvergi sjáanleg.

  Minnum á að leikurinn er sýndur hér – reyndar eins og aðrir leikir umferðarinnar í kvennaboltanum – en þó þannig að það þarf að skrá sig sem notanda á síðunni:

  https://faplayer.thefa.com/home/womens-super-league

  Við uppfærum svo færsluna að leik loknum með úrslitum.


  Leik lokið með afskaplega pirrandi 1-0 sigri Tottenham, en þær fengu víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks og skoruðu úr því. Um miðjan síðari hálfleik slapp svo einn leikmanna í gegn, Niamh Fahey elti hana og tók hana niður, og fékk beint rautt spjald fyrir vikið. Í reynd var leiknum lokið eftir þetta, og Preuss sá til þess að tapið yrði ekki stærra með því að verja vel ein á móti einni þegar um 10 mínútur voru eftir.

  Næsti leikur liðsins er svo á móti United, og það kemur ekkert annað til greina en að berjast sem ljón í þeim leik. Vissulega mun ekki hjálpa að Fahey verður í leikbanni, enda eru hreinlega ekkert allt of margir varnarmenn leikfærir í augnablikinu.

  [...]
 • Liverpool 3-1 Newcastle

  Liverpool heldur áfram að vinna deildarleiki og vann sinn fjórtánda leik í röð þegar liðið vann góðan 3-1 sigur á Newcastle þar sem Sadio Mane og Mo Salah skoruðu mörkin.

  Klopp gerði tvær breytingar á liði sínu frá því í 3-0 sigrinum gegn Burnley og komu þeir Divock Origi og Alex Oxlade-Chamberlain inn fyrir Roberto Firmino og Jordan Henderson sem fengu smá hvíld. Leikurinn byrjaði nú ekki eins og maður hefði viljað en Newcastle komust nokkuð óvænt yfir snemma leiks þegar Jetro Willems átti skot sem hann nær aldrei aftur á ævinni með öfugum fæti. Það virtist koma Liverpool aðeins á óvart og gekk liðinu í upphafi brösulega að brjóta almennilega niður þéttan varnarpakka Newcastle.

  Um miðjan fyrri hálfleik átti Liverpool klárlega að fá vítaspyrnu þegar Joel Matip var tekinn niður en hvorki dómari leiksins né VAR sá eitthvað óeðlilegt við það að varnarmaður Newcastle hafi haldið utan um Matip og dregið hann niður. Áfram gakk og nokkrum augnablikum síðar skaust Andy Robertson upp vinstri kantinn, lagði boltann til Mane sem setti hann örugglega upp í skeytina og jafnaði metin. Þá kviknaði á Liverpool og Newcastle áttu ekki séns.

  Divock Origi þurfti svo að fara út af eftir að hafa orðið fyrir einhverju hnjaski og Bobby Firmino kom inn og sá átti eftir að hafa áhrif á leikinn!

  Firmino var varla kominn inn á þegar hann lagði upp mark fyrir Sadio Mane þegar hann vann boltann af varnarmanni Newcastle, þræddi boltann inn í hlaupið hjá Mane og með smá hjálp frá markverði Newcastle potaði Mane boltanum yfir línuna. Liverpool komið yfir rétt fyrir hálfleik sem gjörbreytti allri stöðu í leiknum.

  Liverpool átti fín færi í seinni hálfleik en það vantaði að koma inn þriðja markinu sem myndi endanlega gera út um leikinn og það kom loks á 72.mínútu þegar Mo Salah skoraði gott mark eftir frábæran undirbúning Roberto Firmino sem átti fáranlega flotta hælspyrnu sem lagði upp markið.

  Öruggur og góður 3-1 sigur varð raunin og Liverpool því fyrsta liðið til að vinna 14 deildarleiki í röð og skora að minnsta kosti tvö mörk í þeim öllum sem er ansi mögnuð tölfræði og situr nú á toppnum með 15 stig af 15 mögulegum og næsti leikur er gegn Napoli í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. Djöfull er þetta lið magnað!

  Bestu menn Liverpool
  Það er úr miklu að velja finnst mér, mér þótti van Dijk og Matip fínir í miðvörðunum heilt yfir og Robertson var frábær á vinstri vængnum. Gini var fínn og Chamberlain átti nokkrar jákvæðar rispur en Fabinho var frábær á miðjunni fannst mér og sýndi enn og aftur mikilvægi sitt í þessu liði.

  Salah var rólegur í fyrri hálfleik en gjörsamlega frábær í þeim seinni og sýndi af hverju hann er klárlega besti leikmaður deildarinnar. Þetta er ekki mat, þetta er staðreynd. Sadio Mane skoraði tvö mörk og var næstum búinn að skora það þriðja og var frábær en maður leiksins verður að vera Roberto Firmino. Vá, bara vá! Hann lagði upp tvö mörk, lagði næstum upp það þriðja og var gjörsamlega frábær. Þvílík byrjun á leiktíðinni hjá honum og ég held að hann gæti verið á leið að eiga sitt besta tímabil hjá Liverpool – og er nú úr mörgum góðum að velja.

  Næstu verkefni
  Evrópumeistararnir hefja leik í Meistaradeildinni eftir helgi þegar þeir heimsækja Napoli aftur og heimsækir svo Chelsea í deildarleik og svo MK Dons í Deildarbikarnum. Þrír sigrar úr þessum þremur leikjum takk!

  [...]
 • Liðið gegn Newcastle – tvær breytingar

  Loksins er landsleikjahléið búið og Liverpool er að mæta aftur til leiks þegar Newcastle heimsækir Anfield eftir tæpan klukkutíma. Klopp hefur valið liðið sem byrjar leikinn í dag en tvær breytingar eru á liðinu sem byrjaði 3-0 sigurleikinn gegn Burnley í síðustu umferð.

  Adrian

  TAA – Matip – VVD – Robertson

  Wijnaldum – Fabinho – Chamberlain

  Salah – Origi – Mane

  Bekkur: Kelleher, Gomez, Lallana, Milner, Henderson, Shaqiri, Firmino

  Firmino spilaði með Brasilíu fyrir nokkrum dögum síðan en Fabinho ekki áður en þeir þurftu að fljúga langa leið til baka, hann sest á bekkinn ásamt Jordan Henderson sem spilaði báða leikina fyrir England. Origi kemur í framlínuna og Chamberlain byrjar sinn fyrsta leik á Anfield síðan í apríl 2018.

  Öflugt lið þrátt fyrir tvær breytingar og sterkur bekkur. Yrði flott að setja tóninn aftur strax eftir þetta hlé og næla í örugg og góð þrjú stig í viðbót.

  [...]
 • Kop.is ferðir í samstarfi við VITA

  Það er með mikilli ánægju sem við kynnum nýja samstarfsaðila Kop.is þegar kemur að ferðalögum til Liverpool

  Við höfum gert samkomulag við VITA Sport og Liverpoolklúbbinn á Íslandi um að a.m.k. ein ferð á þeirra vegum í vetur verði hefðbundin Kop.is ferð með Pubquiz-i og öllum pakkanum. Að þessu sinni ætlum við að kíkja á leik Liverpool og West Ham, brottför er föstudaginn 21.febrúar og heimkoma þann 24.

  Að ferðinni lokinni verður henni að sjálfsögðu gerð skil með öflugri ferðasögu og myndum.

  Hægt er að bóka á þessum hlekk hér og velja umræddan leik.

  Endilega byrjið að bóka ykkur því sætaframboð er takmarkað.

  Við hlökkum mikið til samstarfsins við VITA Sport og hvað þá að byggja upp ferðir til Merseyside í góðri samvinnu við Liverpoolklúbbinn á Íslandi. Sjáumst sem flest í Liverpool í febrúar!!!

  Það er ekki nokkur einasta spurning að þessi leikur gegn West Ham verður rúmlega hörku skemmtilegur og lofum við magnaðri fararstjórn að vanda.

  [...]
 • Newcastle á laugardaginn

  Já lömbin mín, það styttist í að þetta blessaða landsleikjahlé taki enda. Þessi stund sem við Púlarar bíðum eftir með meiri eftirvæntingu en 7 ára barn bíður eftir að mega taka upp pakkana á aðfangadag. Það skal reyndar viðurkennast að þetta hlé kom á óvenju góðum tíma ef við skoðum málið út frá meiðslum Alisson, enda var ágætt að hann fengi þar með ögn lengri tíma til að ná sér í kálfanum. Ekki það að Adrian hefur svosem staðið vaktina með miklum ágætum í millitíðinni, og við vonum bara að það haldist áfram eins lengi og þörf er á. Víst er að nú tekur við talsvert leikjaálag, og því morgunljóst að það þarf allar hendur upp á dekk.

  Þetta landsleikjahlé fór reyndar mun mýkri höndum um strákana okkar en oft áður. Það er ekki vitað til þess að neinn af okkar mönnum hafi komið meiddur til baka, en oft hefur það ekki verið svo gott. Meiðslalistinn er því áfram þannig að á honum eru Clyne, Keita og Alisson. (Reyndar hefur Alison Becker lofað að vera í markinu á laugardaginn ef hún fær nægilega mörg “retweet”. Það lítur nú ekkert allt of vel út með það þegar þetta er skrifað. En það er önnur saga.)

  Hvað varðar frammistöðu og leikþáttöku í hléinu hjá okkar mönnum, þá lítur listinn svona út:

  • Wijnaldum lék báða leikina hjá Hollandi og skoraði 2 mörk, eitt í hvorum leik, og var meðal albestu manna.
  • Virgil van Dijk spilaði sömuleiðis báða leiki Hollands.
  • Jordan Henderson spilaði báða leiki Englands, var skipt út af um miðjan seinni hálfleik í fyrri leiknum.
  • Trent lék allan leikinn í 5-3 sigri Englendinga á Kosovo.
  • Oxlade-Chamberlain spilaði síðasta korterið á móti Kosovo.
  • Robertson lék báða leikina með Skotlandi.
  • Firmino spilaði í báðum leikjum Brasilíu en tókst ekki að skora.
  • Lovren lék í báðum leikjum Króata, skoraði í þeim fyrri og þótti standa sig vel gegn Slóvakíu, en var síðri gegn Azerum.
  • Origi lék fyrri hálfleikinn með Belgíu gegn San Marínó.
  • Fabinho lék síðustu mínúturnar með Brasilíu í tapleik gegn Perú.

  Gomez var á bekknum í leikjum Englands en kom ekki inná.

  Þá léku þeir Kelleher, Brewster, Elliott, Hoever, van Den Berg, Wilson og Jones allir eitthvað með yngri landsliðum sínum.

  Það sem er kannski athyglisverðast er að nokkrir af okkar mönnum spiluðu bara alls ekki neitt. Hvorki Egyptaland né Senegal áttu leiki, og því gátu þeir Mo Salah og Sadio Mané æft að gefa hvor á annan sleikt sólskinið og slakað svolítið á fyrir leikjatörnina. Shaqiri ákvað þar að auki að gefa ekki kost á sér, mögulega til að komast í betra líkamlegt form, mögulega til að æfa betur taktík. Kemur í ljós hvort það skili sér í auknum mínútum á vellinum á næstunni, en það er nú bara alls ekkert ólíklegt að hann fái aðeins að njóta sín í ljósi þess hve þétt verður spilað á næstunni. Nú og svo tók Adrian víst aukaæfingar á Melwood enda var honum hent full harkalega út í djúpu laugina þegar hann var rétt nýkominn til liðsins, varla búinn að taka takkaskóna sína upp úr töskunni. Að lokum má minnast á að James Milner mætti á góðgerðarleik Vincent Kompany, á einhverjum tímapunkti ku hafa staðið til að hann myndi spila en af því varð ekki.

  En þá að leiknum á laugardaginn. Okkar menn hafa núna unnið 13 leiki í röð í deildinni (4 á þessu tímabili, 9 á því síðasta), og hafa ekki tapað á Anfield síðan guðmávitahvenær. Liðið hefur þar að auki gert góða hluti gegn Newcastle á síðustu árum, af 13 síðustu heimaleikjum gegn liðinu hafa 11 unnist. Liverpool er á toppnum í deildinni á meðan Newcastle er í 14. sæti. Það lítur semsagt allt út fyrir að þetta séu bara bókuð 3 stig. En við vitum betur, ég er nokkuð viss um að Klopp og strákarnir viti betur, og Spursarar vita svo sannarlega betur eftir að hafa tapað fyrir Newcastle á heimavelli. Þetta er nefnilega lið sem getur alveg varist og barist til síðasta blóðdropa.

  Og hvernig mun svo Klopp stilla upp? Þó það séu núna 2 vikur frá síðasta leik gegn Burnley, þá má sjá af upptalningunni að megnið af liðinu er búið að vera á faraldsfæti á þessum síðustu tveim vikum, og sumir leikmanna hafa spilað allt að 180 mínútur á þessu tímabili. Nú og svo er ekki svo langt í næstu leiki. Það verður strax á þriðjudagskvöldið að okkar menn þurfa að mæta út á San Paolo völlinn í Napoli (vonum bara að búningsklefarnir verði tilbúnir…), svo er leikur gegn Chelsea á útivelli um næstu helgi, annar útileikur gegn MK Dons í deildarbikarnum miðvikudaginn þar á eftir, leikur gegn Sheffield United helgina þar á eftir, að lokum koma svo tveim heimaleikir þar sem Salzburg koma í heimsókn í miðri viku áður en Brendan Rodgers kemur loksins aftur á Anfield, í þetta sinn til að stýra Leicester. Það mun því ekkert skorta leikjaálagið á næstu vikum, og ef einhverntímann verður róterað verður það í þessum leikjum. Þannig er t.d. alveg klárt mál að MK Dons leikurinn verður í höndum B-liðsins, þar sem við munum örugglega sjá menn eins og Lovren, Shaqiri, Lallana, Brewster og jafnvel einhverja enn meiri kjúklinga byrja inná.

  En við höfum nú minnstar áhyggjur af þessum seinni leikjum í augnablikinu. Núna þarf bara að sækja 3 stig á heimavelli á laugardaginn. Og það er nú lang líklegast að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði eða a.m.k. svona næstumþví. Mögulega munum við sjá 1-2 leikmenn byrja sem væru kannski ekki að jafnaði í byrjunarliði ef það þyrfti ekkert að hugsa um leikjaálag.

  Við skulum a.m.k. prófa að stilla þessu upp svona:

  Adrian

  Trent – Matip – Virgil – Robertson

  Henderson – Fabinho – Wijnaldum

  Salah – Firmino – Mané

  Þetta myndi maður kalla sterkasta liðið sem völ er á í dag. Og ef Klopp ætlar að bregða eitthvað út frá því, þá er ekki ólíklegt að Robertson fái e.t.v. smá hvíld (og Milner verði þá kallaður til í vinstri bakvörðinn), hugsanlega fær Wijnaldum pásu hafandi spilað tvo heila leiki í landsleikjahléinu, og þá gæti t.d. Oxlade-Chamberlain komið inn fyrir hann. Að lokum má líka velta fyrir sér hvort Firmino megi ekki fá smá pásu, enda talsverð ferðalög á honum síðustu daga. Það mætti annaðhvort leysa með því að skipta Origi beint inn í staðinn, nú eða færa Mané fremstan og setja Shaqiri á kantinn í hans stað.

  Og spáin? Hún er góð: skýjað með köflum, hæg breytileg átt, hiti 14-21 stig. Persónulega væri ég svo sáttur við hvaða sigur sem er, svo lengi sem menn sleppa ómeiddir frá leiknum. Bónus ef Adrian myndi ná að halda hreinu annan leikinn í röð. Segjum 2-0 og allir sáttir.

  KOMA SVO!

  [...]
 • Gullkastið – meistararnir mæta til leiks

  Fréttir af ferðalögum kop.is í vetur, við rýnum í landsleikjahléið og skoðum heimsókn lærisveina Steve Bruce um næstu helgi auk þess að fjalla um þá staðreynd að Evrópumeistarar mæta til leiks.

  Stjórnandi: Maggi
  Viðmælendur:SSteinn og Hallgrímur Indriðason

  Einar Matthías er í fríi í kvöld og Maggi fær að stjórna Steina! Auk þeirra kemur í þáttinn formaður Liverpool-klúbbsins á Íslandi, Hallgrímur Indriðason.

  MP3: Þáttur 252

  Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  [...]
 • Sigurvegari ágústmánaðar í fantasy deild Kop.is

  Þá er fyrsti mánuðurinn búinn í deildinni og kominn tími til að líta á fantasy deild kop.is. Eftir að hafa eytt gríðarlegum tíma fyrir tímabilið og skoðað mikið magn af tölfræði skila það sér að sjálfsögðu fyrir liðið mitt sem situr í 285. sæti í 407. liða deild. Ef við heimfærum það yfir í tuttugu liða deild væri mitt lið í 14. sæti þar sem sum liðin mættu seint til leiks. Svona er þetta stundum í fantasy og maður tekur ekki alltaf réttar ákvarðanir, nema Hallveig Sigurbjörnsdóttir sem er sigurvegari ágústmánaðar hjá Kop.is. Hún hafði trú á John Lundstram frá upphafi, bæti við Pukki eftir fyrstu umferð og Cantwell í þeirri þriðju en það eru einmitt þeir þrír sem hafa skilað flestum stigum miðað við kosnað, ásamt Patrick Van Aanholt í fyrstu fjórum umferðunum.

  Hallveig var efst í deildinni þegar við kynntum verðlaunin en missti toppsætið í síðustu umferð. Hún komst þó aftur á toppinn þegar það skipti máli, þó það hafi verið tæpt. Eysteinn Guðvarðarson skellti í wildcard fyrir þessa umferð og náði 86 stiga umferð og er aðeins stigi frá toppsætinu. Af pennum síðunar eigum við einn að berjast um toppsætið ( eftir stuttan yfirlestur vona ég sé ekki að missa af einhverjum ) en Ólafur Haukur er í tuttuguasta sæti, en spurning hvort það ætti að telja það með þar sem hann hefur verið með þrjá Man Utd leikmenn frá fyrstu leikviku.

  Sigurvegari ágústmánaðar er því eins og áður sagði Hallveig sem á þá tvær máltíðir á BK Kjúklingi og getur nálgast það á staðnum á Grensásvegi 5. Hallveig er einnig í þriðja sæti af íslendingum sem spila leikinn og í 2731. sæti heilt yfir sem þýðir að hún er í topp 0,00044% þeirra spilara sem tóku þátt í ár og því alls enginn skömm að ná ekki að skáka henni í þessum mánuði!

  [...]
 • Opnunarleikur kvennaliðsins gegn Reading

  Núna kl. 13 að íslenskum tíma hefst fyrsti leikur tímabilsins hjá stelpunum okkar. Leikurinn fer fram á heimavelli, þ.e. á Prenton Park. Liðið hefur verið tilkynnt og lítur svona út:

  Bekkur: Kitching, Purfield, Kearns, Hodson, Babajide, Linnett

  Afar ánægjulegt að sjá Jesse Clarke aftur í byrjunarliðinu eftir meiðsli sem héldu henni frá vellinum seinnihluta síðasta tímabils. Þá verður athyglisvert að sjá nýju leikmennina, en þær byrja allar inná.

  Reading verða klárlega erfiðir andstæðingar, enda er þetta lið sem endaði í efri hluta deildarinnar á síðasta tímabili. Leikir liðanna voru þó jafnir og okkar konur voru síst lakari aðilinn, töpuðu vissulega fyrri leiknum 0-1, en gerðu 2-2 jafntefli í þeim síðari, og svo áttust liðin við í bikarnum þar sem venjulegum leiktíma lauk með jafntefli en okkar konur unnu í vítaspyrnukeppni. Það má því reikna með að allt verði í járnum í dag.

  Vert að minna á að það er hægt að horfa frítt á leikinn, ýmist í gegnum app sem heitir The FA Player og er fáanlegt fyrir iOS og Android, en einnig með því að fara hingað:

  https://faplayer.thefa.com/home/womens-super-league

  Í báðum tilfellum þarf þó að búa til aðgang hjá FA, og það borgar sig klára það áður en leikur hefst.

  Tveir leikir fóru fram í gær, Bristol og Brighton gerðu 0-0 jafntefli, en sá leikur sem fékk meiri athygli var derby leikur milli City og United. Sá leikur fór 1-0 fyrir City með marki frá fyrrum Liverpool leikmanninum Caroline Weir. Þar var gamla aðsóknarmetið slegið all rækilega, en rúmlega 31 þúsund manns mættu á leikinn. N.b. þá var gamla metið í kringum 5 þúsund, og það var sett í vor. Það er nú óvíst að við eigum eftir að sjá þessar tölur á Prenton Park núna á eftir, en það kæmi ekki á óvart að sjá fleiri áhorfendur en voru að jafnaði á heimaleikjum liðsins á síðasta tímabili.

  Við uppfærum svo færsluna að leik loknum með úrslitum, en minnum á umræðuna bæði í athugasemdum við færsluna sem og undir #kopis myllumerkinu á Twitter.


  Leik lokið með sigri Reading, 0-1. Það var að sjálfsögðu Fara Williams sem skoraði sigurmarkið með óverjandi skoti úr aukaspyrnu um 5 mínútum fyrir leikhlé. Vicky skipti síðan þeim öllum sóknarmönnunum inná í seinni hluta síðari hálfleiks, fyrst Babajide, þá Ashley Hodson, og að lokum Kirsty Linnett. Engri þeirra tókst að finna netmöskvana, þó svo að Babajide hafi nú verið ansi nálægt því með góðu skoti frá vítateigshorninu sem fór rétt framhjá.

  Anke Preuss varði mjög vel a.m.k. í tvígang, þar af á fyrstu 10 sekúndunum, en annars vil ég tilnefna Niamh Charles sem mann leiksins, en hún var sívinnandi á miðjunni og átti a.m.k. tvö góð upphlaup upp vinstri kantinn, í báðum tilfellum gaf hún stórhættulegar fyrirgjafir fyrir markið en í hvorugt skiptið voru sóknarmennirnir okkar á réttum stað.

  Semsagt, ekki úrslitin sem við óskuðum eftir, en klár bæting frá 5-0 tapinu í fyrsta leik í fyrra.

  [...]
 • Afhverju er Liverpool svona stórt á Íslandi?

  In this rugged, remote land of fire and ice, straddling the North American and Eurasian tectonic plates around a thousand miles from the shores of the River Mersey, there is a proud, fervent body of Liverpudlian passion, knowledge and culture, representing Liverpool in their own unique way.

  Svona endar Joel Rabinowitz hjá Liverpool.com grein sína um stuðningsmenn Liverpool á Íslandi. Hann hafði samband við okkur Mumma á LFCHistory.net og smíðaði þessa fínu grein út frá því.

  Hér má nálagast greinina 

  Komið inn á uppruna bæði Kop.is og LFCHistory.net, tengingu Liverpool við Ísland og rosalegan stuðning við liðið hér á landi ásamt auðvitað úrslitaleiknum í Madríd.

   

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close