Latest stories

 • Pæling – hvað er til ráða?

  Það er vissulega þannig að þegar illa gengur hjá liðinu okkar þá kvikna fljótt eldar í “áhugamannaliði” félagsins okkar og við förum jafnvel í að skipta mönnum í “alvöru” stuðningsmenn og þá aðra sem eiga bara að finna sér önnur lið.

  Það finnst mér leiðinleg umræða. Fótbolti er fyrir mér ástríða, ég verð alveg sultufúll þegar liðið mitt spilar illa og tapar og er þá alfarið jafnreiður við leikmennina og þjálfarann og þeir svartsýnustu, alveg eins og ég bara fyrirgef þeim allt þegar þeir vinna. Aly Cissokho varð minn duldi draumur á sínum tíma og ég á treyju til að sanna það! Á síðustu dögum hafa gagnrýnisraddir orðnar háværari enda svo dæmi sé tekið versti heimavallarárangur félagsins síðan 1923 og versti deildarárangur í 10 leikjum sýnist mér alfarið í sögunni, þar með talið Hodgson- og Sounesstíminn. Ef þessir tíu leikir væri upphaf mótsins sætum við nú í 17.sæti.

  Jafn mikið og við hrósum Englands-, Evrópu- og heimsmeisturunum þá er skiljanlegt að menn reiðist því þegar félagið er með árangur á við slökustu lið deildarinnar á svo löngu tímabili. Enda er það þannig að í dag og í gær hafa jafn gegnheilir LFC menn eins og Jamie Carragher lýst á Sky og síðan James Pearce í Athletic því hversu þolinmæðin er farin og félagið þarf að fara að sýna viðbrögð. Í dag eru 13 leikir eftir af mótinu. Síðustu 10 leikir hafa gefið okkur 0,9 stig. Ef að við höldum þessu formi fáum við 12 stig, endum með 52 stig sem yrði jöfn stigatölu tímabilsins sem Dalglish náði einn og sér, 6 stigum minna en hann og Hodgson náðu og líklegt að það gæfi lægsta sæti okkar í efstu deild síðan við komum þangað upp 1963.

  Það auðvitað viljum við ekki sjá, það er nokkuð ljóst að við munum verða það lið sem fellur niður um flest stig frá titli og næsta ár og líklega myndum við líka vera með mesta sætadropp milli ára ef svo fer. Það vill auðvitað enginn, allra síst Klopp og co. – því bæði þarf LFC að spila í Evrópu til að verða vænlegri kostur í leikmannakaupum og nú þegar ljóst er að við vinnum ekki titilinn skiptir líka máli að átta sig á hvaða leikmönnum er að byggja á. Mig langar því að skoða aðeins þær hugmyndir sem hafa verið ræddar til að bregðast við, aðferðir sem Klopp hefur ekki verið að grípa. Um Klopp ræðir Sigurður Einar á Fésbókinni okkar, hann er svo sannarlega maðurinn til að leiða okkur áfram en hér langar mig aðeins að kasta fram hugmyndum sem ég hef lesið og við getum kallað “pælingar um aðrar lausnir”. Hér að sjálfsögðu tel ég mig ekki vera þess umkominn að láta eins og ég viti betur en stjórinn…en mér hefur komið á óvart hversu fastir við höfum verið í fari sem ekki hefur gengið.

  (more…)

  [...]
 • Kop.is í heimsókn á Fótbolti.net

  Heiðursmennirnir á www.fotbolti.net ákváðu að bjóða ritstjórnartríóinu Magga, Einari og Steina í heimsókn í þáttinn sinn í dag til að fara yfir allt Liverpool tengt.

  Útkomuna er að finna með því að smella á þennan hlekk hérna, en í þættinum er farið yfir leikinn gegn Everton, hvað þarf að breytast og rýnt er í næsta leik sem er gegn Sheffield United.

  Það verður ekki podcast þessa vikuna en reikna má með því að spámennirnir reyni að skutla spá við þennan hlekk.

  [...]
 • Liverpool 0-2 Everton

  0-1 Richarlison 3′

  0-2 Gylfi Þór 81′ (víti)

  Náðum ekki að taka með okkur mómentumið úr Meistaradeildinni inn í þennan leik en það var aðeins á þriðju mínútu leiksins þegar James Rodriguez kom með sendingu inn fyrir vörnina og Kabak gleymdi sér aðeins og missti Richarlison framhjá sér sem skoraði með góðu skoti framhjá Alisson í markinu.

  Eftir markið tóku okkar menn þó öll völd á vellinum en til að byrja með var það uppskrift sem við höfum séð of mikið undanfarið, mikið með boltann en lítið að gerast. Það var svo eftir korters leik þegar við náðum loks ágætis spili sem endaði með að Firmino komst í ágætis stöðu en skot hans fór í varnarmann og aftur fyrir. Í kjölfarið á hornspyrnunni féll boltinn fyrir lappirnar á Henderson sem hitti boltan svona hrikalega vel en Pickford varði frá honum frábærlega.

  Harmleikurinn hélt áfram eftir 25 mínútna leik þegar Henderson féll til jarðar í miðjum spretti og greinilegt að eitthvað farið aftan í læri. Nat Phillips var strax kallaður til og fór að gera sig kláran en Henderson var ekki á þeim buxunum að gefast upp. Þó þetta hafi litið hrikalega illa út til að byrja með stóð hann upp og teygði og nuddaði sig og kom aftur inn en það enntist stutt því nokkrum sekúntum eftir að hann kom aftur inn á völlinn settist hann aftur og fór að lokum af velli fyrir Nat Phillips. Fyrir leik var því fleitt fram að ef Henderson og Kabak myndu ná að spila saman fram að hálfleik yrðu þeir það miðvarðarpar sem hefði náð flestum mínútum í röð hjá Liverpool í vetur en það tókst ekki og hreinlega spurning hversu langt það verður þar til við sjáum Hendo aftur.

  Eftir skiptinguna var leikurinn jafnari. Liverpool enn meira með boltann og Everton lágu enn mjög lágt en fóru að ná að tengja betur saman þegar þeir voru með botann og áður en hálfleikurinn var búinn átti Alisson góða markvörslu eftir skalla Coleman.

  Liverpool komu svo sterkir inn í seinni hálfleik þar sem Mane var kominn í gott færi snemma á næstu mínútum komust við nokkrum sinnum í álitlegar stöður en náðum ekki að búa til færið.

  Á 69 mínútu komst Salah í einn í gegn á móti Pickford sem varði vel frá honum og var svo fljótur að sópa upp boltanum áður en Shaqiri kláraði.

  Á 81. mínútu kláraðist svo leikurinn þegar Richarlison kom á ógnarhraða í skyndisókn og gaf boltan yfir á Calvert-Lewin sem átti skot sem var varið af Alisson en boltinn var laus. Trent hafði elt Calvert-Lewin og farið niður og Calvert-Lewin féll um Trent við að reyna komast í boltann og vítaspyrna dæmd sem Gylfi Þór skoraði úr.

  Bestu menn Liverpool

  Nokkrir leikmenn okkar áttu ágætis rispu í dag en get hreinlega ekki valið einhvern mann leiksins eftir svona tapleik.

  Vondur dagur

  Það áttu allir vondan dag í dag og það þá helst stuðningsmennirnir sem þurfa að lifa með tapi gegn Everton. Ozan Kabak átti hrikalega erfitt, missti Richarlison framhjá sér í fyrsta markinu og misreiknaði nokkra skallabolta sem hefði getað kostað enn meira. Curtis Jones reyndi mikið en það var ekkert að virka og kórónaði það með lélegu skoti í ágætis sókn með 4-5 Liverpool menn inn á teignum.

  Umræðupunktar

   

  • Enn ein meiðslin í miðvarðarstöðunni, nú eru Matip, Gomez, Van Dijk, Hendo og Fabinho allir frá sem voru líklega okkar fyrstu fimm kostir í þá stöðu við byrjun tímabils.
  • Tíu góðar mínútur í leiknum eftir fyrra mark Everton manna en svo féllum við í sömu gryfju og við höfum séð undanfarnar vikur nokkur hálffæri en aldrei nógu ógnandi.
  • Recordið geggjaða gegn Everton fallið höfðum ekki tapað gegn þeim á Anfield síðan 1999 en það eins og svo margt annað fallið okkur úr greipum í ár.
  • Við erum nú í sjötta sæti deildarinnar og gætum fallið í það níunda ef liðin fyrir neðan okkur vinna sína leiki sem þau eiga inni.

  Tímabilið við það að verða eitt það versta sem maður man eftir, tveimur mánuðum eftir að hafa verið á toppnum um jólin. Næst er það Sheffield United um næstu helgi og guð minn góður hvað það er orðinn mikill skyldusigur, eins og allir leikir sem eftir eru hjá okkur ef við ætlum að bjarga þessu tímabili frá algjörri martröð.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Everton

  Eftir góðan sigur gegn Leipzig í vikunni er töluvert léttara yfir Liverpool mönnum en undanfarnar vikur en staðreyndin sú að liðið hefur tapað síðustu þremur deildarleikjum og þarf því að halda í það form sem við sýndum gegn Leipzig á eftir. Everton hefur ekki unnið á Anfield síðan sautjánhundruð og súrkál og liðið sem á að tryggja að það haldist er svona:

  Bekkur: Adrian, N.Williams, Phillips, Tsimikas, Davies, Ox, Keita, Shaqiri og Origi

  Óbreytt lið frá Leipzig leiknum og gott ef skytturnar okkar þrjár í fremstu víglínu en þeir hafa ekki oft náð að spila allir saman í grannaslagnum. Keita snýr svo aftur í leikmannahópinn eftir meiðsli ásamt óséða manninum Ben Davies.

  Hjá Everton er Gylfi og Calvert-Lewin báðir á bekknum og Jordan Pickford snýr aftur í markið.

  Minnum á að taka þátt í umræðu bæði í kommentum hér fyrir neðan og á Facebook síðu Kop.is.

  [...]
 • Grannaslagur á laugardag

  Á laugardag mætast grannarnir í Liverpool og Everton á Anfield og hafa þeir rauðu harma að hefna frá síðustu viðureign liðana snemma á leiktíðinni. Í þeim leik skildu liðin jöfn 2-2 á Goodison Park, það var dæmt af sigurmark af Henderson á loka andartökum leiksins í einni allra, allra tæpustu rangstöðu leiktíðarinnar (sem ég held enn að hafi ekki einu sinni verið rangstaða) og tveir leikmenn Everton straujuðu þá Van Dijk og Thiago svo báðir meiddust á hné, annar þeirra var frá í einhverja þrjá mánuði og hinn út leiktíðina. Ömurleg úrslit og leikur í alla staði, svo Liverpool hefur klárlega harma að hefna.

  Það eru þrjú stig sem skilja liðin að í 6. og 7.sæti eins og er en Everton á leik til góða og gæti náð Liverpool að stigum. Eins fucking ömurlegt og það er þá segir það ansi mikið um það hve dýrkeyptar síðustu vikur hafa verið fyrir Liverpool. Það er því ansi fínt að næla í þessi þrjú stig fyrir baráttuna um eitt af efstu sætunum og til að hrista Everton af sér.

  Það er engin Yerri Mina eða Gbamin í Everton en Dominic Calvert-Lewin, þeirra aðal striker og líklega mesta markógn, var ekki með gegn Man City í byrjun vikunar vegna meiðsla en hann mun að öllum líkindum snúa aftur í byrjunarliðið gegn Liverpool.

  Fabinho, Milner og Jota verða ekki með Liverpool en það ætti vonandi að vera að styttast í að þeir muni snúa aftur í liðið. Það myndi styrkja hóp Liverpool alveg gífurlega mikið að fá þá inn því hópurinn er ansi þunnur þesa dagana. Hins vegar þá hefur Naby Keita verið byrjaður að æfa aftur af krafti, Klopp segir hann hafa getað verið með gegn hans gömlu félögum í Leipzig en þeir hafi ákveðið að bíða en svo veikist hann (en ekki hvað?!) en hann gæti verið með í hópnum gegn Everton sem yrði ansi flott. Það var óttast að Alisson væri meiddur en svo virðist ekki vera og segir Klopp hann vera í fínu standi fyrir leikinn.

  Ég reikna með að sjá óbreytt lið frá leiknum gegn Leipzig en liðið lék mjög vel í þeim leik. Ef Henderson og Kabak byrja saman leikinn í miðri vörninni þá verða þeir það miðvarðarpar Liverpool sem hefur spilað flesta leiki saman í röð. Sem eru að ég held alveg heilir þrír leikir! Það segir nú ansi mikið um hve ljótt ástandið hefur verið í vetur og ég held að þeir muni koma til með að byrja þennan leik. Klopp gæti reyndar svo sem alveg hent Phillips inn í liðið til að styrkja liðið í föstum leikatriðum en ég reikna ekki með því.

  Alisson

  Trent – Kabak – Henderson – Robertson

  Thiago – Wijnaldum – Jones

  Salah – Firmino – Mane

  Óbreytt lið frá því í síðasta leik. Salah og Mane skoruðu báðir, Thiago og Firmino áttu góðan leik og fóru nokkuð snemma útaf og Curtis Jones var frábær. Kabak og Henderson leystu miðvörðin vel gegn hröðu liði Leipzig og Wijnaldum held ég að sé alveg bókaður í djúpa miðjumanninn á meðan Henderson er í vörninni og Fabinho er meiddur. Enginn Milner svo mér finnst miðjan nokkuð velja sig sjálf, kannski Shaqiri komi inn í einhverju hlutverki en ég efast um það.

  Ég vil sjá Liverpool byggja á leiknum gegn Leipzig og taka Everton í bakaríið – og vonandi að við þurfum ekki að tala um einhver ömurleg meiðsli eftir þennan leik og þrjú stigin verða okkar helsta umræðuefni!

  [...]
 • Leipzig 0 – 2 Liverpool

  Mörkin

  0-1 Salah (53. mín)
  0-2 Mané (58. mín)

  Gangur leiksins

  Það kom fljótlega í ljós að Liverpool liðið sem mætti á völlinn var með hausinn rétt skrúfaðan á. Það var barist um hvern bolta og pressan var í lagi. Ekkert þannig að hver einasta sending væri heppnuð, en það er líka enginn að biðja um það. Liðið slapp með skrekkinn þegar Leipzig áttu skot í stöng, Alisson var reyndar ansi nálægt boltanum og góðar líkur á að hann hefði varið ef boltinn hefði farið örlítið innar. Þegar skammt var til leiksloka skoraði Firmino mark sem var dæmt af vegna þess að boltinn átti að vera kominn út af. Myndir af atvikinu voru hins vegar allt annað en afgerandi, og allt eins líklegt að ef þetta hefði verið bolti yfir marklínu, þá hefði ekki verið dæmt mark.

  Í síðari hálfleik gerði svo Liverpool út um leikinn á 5 mínútna kafla. Fyrst eftir 7 mínútna leik þegar Hendo fékk boltann vinstra megin í vörninni, og í stað þess að snúa við og gefa til baka þegar hann lenti í pressu sótti hann fram upp kantinn og gaf inn á miðju. Boltinn barst vissulega til Leipzig manna, en pressan varð til þess að sending til baka var ekki nógu nákvæm og Salah komst einn í gegn. Hann gerði engin mistök og skoraði framhjá Gulasci af miklu öryggi. 5 mínútum síðar átti Curtis háa sendingu fram á við þar sem Mané og Upamecano Mukiele voru einir á svæði, og á einhvern óskiljanlegan hátt náði varnarmaðurinn að klúðra þeim bolta þannig að Mané slapp einn í gegn og gerði nákvæmlega jafn mörg mistök og Salah skömmu áður. 0-2, og í mörgum tilfellum hefði maður sagt að þar með væru úrslitin ráðin. Í ljósi þess hve liðið hefur verið brothætt á síðustu vikum þá var erfitt að slaka á, en liðið sýndi að það var ekki mikið til að hafa áhyggjur af. Leipzig fékk einhver hálffæri, og voru mest í því að skjóta illilega framhjá. Vissulega eitt færi þar sem einn þeirra slapp í gegn en Alisson varði í horn, og svo annað færi þar sem Olmo slapp í gegn í uppbótartíma en setti boltann framhjá.

  Lokaúrslit urðu því 0-2, og talsverður léttir fyrir allt Liverpool samfélagið svo ekki sé meira sagt.

  Bestu/verstu menn

  Það er ekki nokkur einasta leið að ætla að taka einhvern leikmann út sem átti eitthvað slæman leik. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem liðið mætti ákveðið til leiks, og fáir ef nokkrir veikir blettir til staðar. Ef maður ætti að hnýta í einhver smáatriði þá var Alisson (e.t.v. skiljanlega) ekki með sama öryggið og oft áður þegar hann fékk boltann í lappirnar, en hann var þó a.m.k. að fylgja ráðum Klopp og lúðra boltanum upp í stúku frekar en að reyna að þræða boltann í gegnum einhver nálaraugu til að finna samherja. Stundum er stúkan bara öruggari kostur. Þá er Wijnaldum ennþá aðeins að þjást af því að klappa boltanum aðeins og á alveg til að leita til baka þegar það eru kostir í boði að koma boltanum framar, en það má vel vera að hann sé bara að gera eins og honum er uppálagt. Báðir áttu annars ekkert mikið verri leik en aðrir, og kannski ósanngjarnt að taka þá eitthvað sérstaklega fyrir.

  Ozan Kabak komst vel frá leiknum, og það væri óskandi að það takist að skapa smá stöðugleika í hjarta varnarinnar í næstu leikjum, þrátt fyrir að Hendo njóti sín auðvitað alltaf betur á miðjunni.

  Allnokkrir leikmenn eiga tilkall til þess að vera útnefndir maður leiksins. Salah er auðvitað fáránlega mikilvægur liðinu þegar kemur að markaskorun og sýndi það í dag með því að brjóta ísinn. Hendo er alltaf jafn mikilvægur liðinu, og að vissu leyti er ágætt að hafa hann aftar svo hann geti stýrt restinni af liðinu. Trent er farinn að líkjast sjálfum sér meir og meir, en ætli tilnefningin fari ekki til Curtis Jones sem er sífellt að vaxa sem leikmaður. En líklega ætti þetta að teljast sigur liðsheildarinnar fyrst og fremst.

  Umræðan eftir leik

  Það að vinna einn leik er klárlega ákveðin byrjun á viðspyrnunni frá botninum, en núna er þessi leikur búinn og næsti er skammt undan. Það vill þannig til að sá leikur er gegn Everton og er á Anfield. Gleymum ekki að Everton vann síðast á Anfield fyrir 22 árum síðan, og við getum fyrirgefið ýmislegt varðandi taplausar hrinur eins og t.d. að tapa fyrir Burnley eftir 68 taplausa leiki á Anfield, en að tapa fyrir Everton á Anfield er bara alls ekki í boði. Við getum glaðst að við sáum liðið okkar spila aftur eins og það á sér, enda máttum við alveg vita að leikmenn voru ekkert búnir að gleyma hvernig ætti að spila svona. Það var líka gleðilegt að sjá að í þetta skiptið var Liverpool liðið sem refsaði fyrir varnarmistök, en var ekki í því hlutverki að færa andstæðingunum gjafir á silfurfati eins og gerðist í síðustu tveim leikjum.

  Kætumst meðan kostur er segir í kvæðinu, og njótum þess þegar vel gengur hjá liðinu okkar. Ef þessi niðursveifla síðustu vikna hefur kennt okkur eitthvað, þá er það að sigurleikir eru svo innilega ekkert sjálfsagt mál.

  [...]
 • Liðið gegn RB Leipzig

  Verður þetta dagurinn þar sem liðið okkar rífur sig upp á r********u og sýnir hvað virkilega í því býr? Eða mun form síðustu vikna/mánaða halda áfram? Við fáum líklega svar við því eftir 3 tíma eða svo, en þá mun þetta lið hafa lokið leik gegn RB Leipzig:

  Bekkur: Adrian, Kelleher, Phillips, Rhys, Davies, Neco, Tsimikas, Shaqiri, Cain, Clarkson, Oxlade-Chamberlain, Origi

  Aðeins ein breyting frá byrjunarliðinu gegn Leicester, enda er Milner meiddur og Thiago kemur í hans stað. Bekkurinn er ámóta sterkur og þá, Kelleher er blessunarlega kominn til baka, en annars erum við að mestu með unglinga. Fáum sjálfsagt að sjá Shaqiri fyrstan inn af bekknum, svo Origi og Ox. Það eru þó 5 skiptingar ef ég man rétt, og verður gaman að sjá hvort Klopp sjái ástæðu til að gefa eitthvað af yngri strákunum séns. Myndi ekki veðja neitt svakalega miklu.

  Það væri rosalega sterkt að tapa ekki, en fyrst og fremst væri sterkt að sýna að liðið er ekki búið að leggja árar í bát.

  KOMA SVO!!!!!

  [...]
 • Gullkastið – Þegar sýður uppúr þá þrífur maður eldavélina

  Það blæs verulega á móti hjá okkar mönnum og alls kyns furðusögur verið á lofti um helgina eftir slæmt tap gegn Leicester í leik sem var reyndar að svona 75% leiti nokkuð vel spilaður af okkar mönnum. Leipzig í Meistaradeildinni annað kvöld, Everton um helgina og meiðslalistinn svo langur að Ingó Tóta er að semja lag um hann.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 324

  [...]
 • Red Bull liðið í Leipzig

  RB Leipzig er besta lið Austur-Þýskalands frá því að múrinn féll og líklega besta lið gömlu austur-Evrópu eins og hún var skilgreind í kaldastríðinu. Nokkuð magnað í ljósi þess að árið 2009 var félagið ekki til og liðið spilaði ekki í Bundesliga fyrr en tímabilið 2016-17.

  RB Leipzig hefur síðan þá verið óvinsælasta lið Þýskalands, mun óvinsælla en FC Bayern þrátt fyrir að Muchen liðið hafi unnið helming allra titla frá stofnun deildarinnar. Reglurnar og kúltúrinn eru eins og flestir vita öðruvísi í þýska boltanum en við þekkjum t.a.m. frá Englandi, þeir vilja alls ekki að þýski boltinn verði tekinn frá stuðningsmönnunum og endi þess í stað hjá sálarlausum fyrirtækjum eða auðjöfrum sem eru fyrst og fremst að hugsa um hagnað og athygli. Nokkurnvegin eins og gerðist í Leipzig.

  Reglur þýska knattspyrnusambandisins kveða á um að stuðningsmenn verði að eiga ráðandi (51%) eignarhlut í félögum sem keppa í þýskum deildarkeppnum. Bayer sem á Leverkusen og Volkswagen sem á Wolfsburg eru undanþegin þar sem þau félög hafa átt liðin í meira en tvo áratugi, það voru sem dæmi starfsmenn verksmiðjunnar sem stofnuðu Wolfsburg. Red Bull fann leið til að fara framhjá þessum lögum árið 2009 og voru tilbúnir til að byrja nánast frá grunni til að ná fótfestu í þýska boltanum. Red Bull keypti SSV Markranstädt, félag frá Leipzig sem var jojo milli utandeildar og 5.deildar. Til að komast framhjá 51% reglunni var gefið út ný hlutabréf í félaginu, Red Bull keypti 49% og hinn hlutinn var verðlagður gríðarlega hátt þannig að þeir gátu valið hverjir keyptu. Löglegt en augljóslega verið að sveigja gildandi reglur.

  Red Bull sem er Austurrískt fyrirtæki hafði auðvitað áður keypt lið í heimalandinu og breytt því nánast algjörlega í auglýsingu fyrir Red Bull. Sá gjörningur var mun umdeildari að því leiti að Austria Salzburg var fornfrægt félag með alvöru sögu öfugt við SSV Markranstädt sem var stofnað eftir Seinni-heimsstyrjöldina og hafði aldrei getað neitt. Tókum betur á sögu RB Salzburg og manninum á bak við Red Bull í upphitun árið 2019.

  Vita hvað þeir eru að gera

  Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á viðskiptamódeli Red Bull í knattspyrnu er erfitt að þræta fyrir það að þeir vita hvað þeir eru að gera og eru tilbúnir að fylgja eftir langtímamarkmiðum.

  Leipzig og Austur-Þýskaland var sem dæmi ansi óplægður akur eftir áratuga niðursveiflu knattspyrnuliða svæðisins sem komu í mun veikari stöðu inn í sameinað Þýskaland árið 1989 en öll þessi vestur-þýsku lið sem við könnumst svo vel við. Leipzig er stærsta borg gamla Austur-Þýskalands (á eftir austurhelmingi Berlínar) og telur í dag um 600.000 íbúa og um helmingi fleiri með nærliggjandi bæjum. Það er nokkuð magnað að stórar borgir í miðri Evrópu eins og Dresden og Leipzig eigi ekki knattspyrnulið með merkilegri sögu en raunin er. Dresden svæðið er svipað og telur um 1,3 milljón íbúa. Það eru ekki nema 100km á milli þessara borga og því ljóst að þarna er fjölmennt svæði með ekkert alvöru knattspyrnulið í fremstu röð.

  Annað sem vann með Leipzig var að borgin átti sjálfan Zentralstadion leikvanginn sem var orðið í minni notkun en Laugardalsvöllur. Zentralstadion er sögufrægur völlur sem tók yfir 100.000 áhorfendur áður en hann var endurbyggður árið 2004. Lokomotive Leipzig spilaði á þeim velli áður en múrinn var rifinn og mættu sem dæmi 90.000 manns að sjá Maradonna og Napoli í Evrópuleik árið 1988. Það vantaði ekkert knattspyrnuáhuga í Austur-Þýskalandi.

  Zentralstadion var eini leikvangurinn frá Austur-Þýskalandi á HM 2006 en eftir HM var erfitt fyrir neðrideildarlið að standa undir kostnaði við rekstur vallarins. Red Bull samdi því við borgaryfirvöld um leigu á leikvangnum og jafnfram um nafnarétt vallarins til a.m.k. 2040. Hann heitir því Red Bull Arena í dag.

  Hugmyndin var að breyta nafni félagsins í Reb Bull Leipzig einnig og halda margir að það sé svo en raunin er að félagið heitir Rasen Ballsport Leipzig sem er basicly bara bull. Þeir máttu ekki heita eftir eftir stórfyrirtækinu sem þeir eru hvort eð er alltaf kenndir við.

  Stuðninsmenn annarra liða horfa á Leipzig liðið sem auglýsingu fyrir Red Bull og hafa töluvert til síns máls. Undanfarin ár hefur verið hálfgerð keppni milli þeirra í að mótmæla tilverurétti Red Bull Leipzig

  Fan groups around the Bundesliga routinely boycott trips to Red Bull Arena, and nearly all of them display banners with biting slogans. “Sometimes I feel that there’s a competition between the fans of other clubs to do the strongest action against Red Bull,” says Frank Aehlig, a former Bundesliga manager and executive at RB Leipzig, who now works at FC Koln. (The president of another rival, FC Augsburg, even formed his own group of investors in an attempt to wrest control of Leipzig, but failed.)

  “We call Leipzig’s supporters ‘customers,’ because that’s what they are,” says Sue Rudolph. A fan activist for Fortuna Dusseldorf, a team struggling to avoid relegation, Rudolph resents Leipzig’s presence in the Bundesliga table, let alone at the top of it. “It just feels so unfair,” she says. “What they’ve done is not a fairy tale. It’s just money.”

  Þetta félag þætti ekki eins stórt tiltökumál í hinum stóru deildunum enda þekkjum við miklu verri dæmi (Chelsea/Man City/PSG) en nokkurntíma Leipzig. Það er ekki þannig í Þýskalandi, þeir hafa verið með lítið breytt fyrirkomulag frá sjötta áratugnum og er aðal áherslan á local aðdáendur.

  Framkvæmdastjóri Dortmund kom með nokkuð góða punkta í viðtali við ESPN í fyrra varðandi þeirra hugsun hvað þessa peningavæðingu fótboltans varðar:

  Cramer attends games around the world, but he is inevitably disappointed. England has fine stadiums, he admits, “but the atmosphere even at Anfield is not the same as the atmosphere in German stadiums.” Perhaps his biggest letdown was Barcelona’s Camp Nou, which he describes as “a stadium full of people who were not interested in football, but interested in a celebrity from Argentina.” Far too many clubs, he believes, exist as investment vehicles for their owners or to serve a political or social agenda. “I could never work for a club like Paris,” he says, alluding to PSG’s position as a wholly owned subsidiary of the Qatari government.

  These days, Borussia Dortmund acts as a lighthouse for the people of the Ruhr Valley. “And this lighthouse,” Cramer says, “must be protected.” He could rip out half the standing places in Signal Iduna Park’s famous Yellow Wall of supporters and put in expensive seats. That would increase team profits, but at what cost to the social fabric? It is telling, he says, that no equivalent to the Yellow Wall exists at Red Bull Arena. “Where do the hard-core fans of Leipzig stand? Is it the west? The north? The south? The east? No one knows.”

  Það er erfitt að þræta fyrir þetta og engin kjarneðlisfræði á bak við það að stemmingin í Þýskalandi er almennt miklu betri en í Englandi sem dæmi.

  Ralf Ragnick

  Leipzig fór upp úr fimmtu deild strax í kjölfar þess að Red Bull keypti félagið, þeir voru hinsvegar þrjú tímabil í fjórðu deildinni. Hjólin fóru ekki almennilega að snúast fyrr en þeir réðu Ralf Ragnick til að hafa yfirumsjón með knattspyrnuliðum Red Bull árið 2011.

  Fjölmargir af þeim toppþjálfurum sem eru starfandi í dag eru undir sterkum (beinum eða óbeinum) áhrifum hugmyndafræði og þjálfunaraðferðum Ragnick. Margir þeirra hafa unnið fyrir hann eða verið partur af aðstoðarteymi hans en síðar orðið stjórar.

  Hann var einn af þeim fyrstu til að innleiða og ná árangri með hið svokallaða Gegenpressing, nokkurnvegin það sem Jurgen Klopp hefur gert eftir að hann fór að þjálfa. Ragnick mótaði einmitt sína hugmyndafræði hjá Stuttgart sem ungur þjálfari, uppáhaldsfélagi Klopp í æsku. Ragnick var einnig einn af frumkvöðlum svæðisvarnar í nútímafótbolta.

  Þýski fótboltinn í heild hefur undanfarin ár að mestu þróast í átt að því sem lið Ragnick voru að reyna gera í upphafi aldarinnar og eru stjórar eins og Julian Nagelsmann, Thomas Tuchel, Ralph Hasenhüttl, og Jürgen Klopp allt miklir Ragnick menn og hafa hrósað hans starfi. 

  Red Bull er auðvitað moldríkt fyrirtæki og gat léttilega keypt sig upp um neðri deildir Þýskalands en gerðu það alls ekki með þeir hætti sem maður myndi halda (og gera ekki enn). Þeirra stefna er að kaupa unga og hungraða leikmenn sem hægt er að móta í annaðhvort aðalliðsmenn eða selja þá áfram. Red Bull hefur átt fimm lið í fjórum heimsálfum og notar þau óspart til að þróa bæði leikmenn og þjálfara sem fá svo stöðuhækkun í stærra félag ef þeir standa sig vel. Þeir hafa í raun aldrei keypt stjörnu fyrir háar fjárhæðir, allir leikmenn sem þeir kaupa eru leikmenn sem flest stóru liðin gátu alveg keypt líka. Þeirra njósnaranet er hinsvegar mjög öflugt og með þekkingu á fjórum heimsálfum. Eins er félagið með mjög skýra stefnu sem þeir fara eftir sem gerir samsteypuna í heild mun skilvirkari.

  Red Bull leggur nefnilega ekki síður áherslu á það að þróa unga og ferska þjálfara en unga leikmenn. Það er mun ódýrara og skilvirkara að ráða stjóra sem þekkir allar þjálfunaraðferðir og kúltúr félagsins heldur en að fá nýja stefnu með nýjum stjóra i hvert skipti. Ralf Ragnick var þannig ekkert bara yfirmaður knattspyrnumála hjá Leipzig heldur öllum félögunum í þeirra eigu.

  Ragnick er þess utan það hæfur stjóri að hann tók sjálfur við Leipzig eitt tímabil til að bíða eftir Julius Nagelsmann sem var laus ári seinna og er nú stjóri félagsins. Stjóri sem stendur sannarlega fyrir því sem Red Bull predikar og er einn efnilegasti knattspyrnustjóri í heimi.

  Undir haldleiðslu Ragnick komast Leipzig upp allar deildirnar en þetta var þriðja liðið sem hann kom upp í Bundesliga. Hin eru Hannover og Hoffenheim, en hið síðarnefnda fór á enn skemmri tíma úr fimmtu deild í þá efstu. Julius Nagelsmann var einmitt að þjálfa í akademíu Hoffenheim í návígi við Ragnick og tók svo við liðinu aðeins 28 ára gamall.

  Leipzig hefur síðan liðið kom upp um deild endað í 2. sæti, 6. sæti og tvisvar í þriðja sæti á eftir Bayern og Dortmund. Liðið sem kom upp var skipað ungum óþekktum og hungruðum leikmönnum sem þekktu sitt hlutverk upp á hár og gátu spilað gríðarlega orkufrekan og hraðan fótbolta sem féll vel að ímynd eigenda félagsins. Margir af þessum leikmönnum hafa síðan farið í stærri lið. Rétt eins og gerist hjá RB Salzburg. Margir af bestu mönnum Salzburg hafa einmitt farið í Leipzig, Naby Keita er einn þeirra en hann var frábær með Leipzig fyrstu ár þeirra í deildinni og þeirra helsta stjarna.

  Framtíðarsýn Red Bull er að koma liðinu yfir þessa síðustu hindrun, FC Bayern en það er ekki líklegt til að gerast alveg á næstunni. Leipzig eru á þessu furðulega og afskaplega laskaða tímabili í öðru sæti Bundesliga og verða það líklega í vor einnig. Dortmund er í veseni á þessu tímabili og fyrir utan þá er ekkert annað lið sem getur ógnað Bayern. Til að tryggja það er einmitt verið að slúðra um það núna að FC Bayern hafi tryggt sér þjónustu Dayot Upamecano á næsta tímabili, eina stærstu stjörnu Leipzig í dag. Það er eins og þeir leikmenn sem spili í Þýskalandi haldi að Bayern sé landsliðið því þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem Bayern fær bestu leikmenn andstæðinganna. Þeir eru ekki félag í eigu auðjöfra en það er ekkert eins og Bundesliga sé deild þar sem allir eru jafnir, Bayern hefur unnið helminginn af öllum titlum frá upphafi og slá með svona leikmannakaupum jafnan tvær flugur í einu höggi. Þó að Leipzig sé gríðarlega óvinsælt gæti deildin til lengri tíma þurft þá eða annað sterkt lið sem getur ögrað Bayern. Deildin hefur verið handónýt síðan Klopp fór frá Dortmund.

  Nagelsmann hefur gert góða hluti með liðið, rétt eins og forverar hans í starfi eins og t.d. Ralph Hasenhüttl, það er samt miklu líklegra að hann taki við Bayern eða öðru risaliði áður en Leipzig vinnur deildina næst skv. núverandi módeli.

  Liverpool í krísu

  Hugmyndafræði Red Bull og ekki síst Ralf Ragnick fellur mjög vel að öllu því sem FSG vill gera í íþróttum. Enda hafa góð viðskipti átt sér stað milli FSG og Red Bull undanfarin ár og ekki ólíklegt að á því verði framhald. Sadio Mané, Naby Keita og Minamino eru allt leikmenn úr Red Bull skólanum og það er ekki tilviljun að Minamino fari til Hasenhüttl á láni (og beint í liðið hjá honum).

  Það hefði verið mjög gaman að mæta þessu Leipzig liði fyrir fullum velli og með hið raunverulega byrjunarlið Liverpool. Þetta sem við erum að horfa á í vetur er ekkert það og að spila þennan leik í Ungverjalandi fyrir tómum velli lýsir þessu tímabili ágætlega.

  Þegar að James Milner fór af velli um helgina voru 10 fullorðnir leikmenn komnir á meiðslalistann. Af þeim sem spiluðu voru svo nokkrir sem eru tiltölulega nýkomnir úr meiðslum. Ben Davies náði að meiðast áður en hann gat spilað leik fyrir Liverpool, betur er ekki hægt að skilgreina þetta viðbjóðslega tímabil. Hann er bókstaflega vara-vara-vara-vara-varamiðvörður Liverpool í dag og það er ekki einu sinni það mikil spenna að sjá hann spila. M.a.s. Origi náði að meiðast til að vera nú ekki skilinn útundan. Reyndar óvíst hvort það hafi veikt liðið.

  Byrjunarliðið verður skipað blöndu af þeim sem eru leikfærir án þess að taka of mikinn séns fyrir næsta deildarleik. Fyrir hvern einasta leik hafa komið fréttir af einhverjum nýjum meiðslum þannig að það er erfitt að segja til um hver það verði núna en skjótum á þetta lið:

  Alisson

  Trent – Kabak – Henderson – Robertson

  Jones – Thiago – Wijnaldum

  Salah – Firmino – Mané

  Sama byrjunarlið og í síðasta leik fyrir utan að Milner er meiddur og Thiago kemur inn aftur. Á bekknum höfum við að öllu óbreyttu Shaqiri og Ox og ekkert annað.

  Umræðan í aðdraganda leiks

  Van Dijk, Gomez og Matip eru allir frá út tímabilið – bókstaflega hjartað í varnarleik liðsins.
  Fabinho var ólíklegur fyrir næstu tvo leiki skv. Klopp fyrir Leicester leikinn og hefur verið að lenda í svipuðum meiðslum af og til í vetur.
  Diogo Jota sem meiddist í 6-8 vikur í Midtjylland leiknum mun að öllum líkindum verða frá í alveg 10-11 vikur.
  Naby Keita er líklega næst því að koma til baka og þ.a.l. er hann einnig líklegastur til að meiðast næst. Hann var í byrjunarliðinu í öllum fjórum leikjunum þar sem Liverpool skilaði bestum tölum hvað pressu varðar (gegenpressing).
  Ben Davies er bara í alvörunni meiddur nú þegar! Hvað náði hann mörgum æfingum?
  Origi er meiddur aftan í læri
  Milner er óljóst hvað verður lengi frá
  Kelleher er m.a.s. meiddur, helvítis varamarkmaðurinn!

  Meiðslalistinn í vetur hefur verið á þessum nótum í meira og minna þrjá mánuði.

  Hvað sem öllum sálfræðigreiningum líður og hvað þá knattspyrnufræðilegum er þetta ástæðan fyrir því að það gengur svona illa núna. Þetta er líka ástæðan fyrir því að liðið brotnar miklu meira við mótlæti. Gerið endilega grín að Mentality Monsters frasanum hjá Klopp núna þegar á móti blæs. Hann átti vel við um það lið, þetta er bara skel af því liði.

  Þetta er líka ástæðan fyrir því að sóknarlínan á svona miklu meira erfitt uppdráttar núna en áður þrátt fyrir að fremstu þrír séu að mestu búnir að haldast heilir. Mo Salah er reyndar ef ég man rétt markahæstur í deildinni. Þeir treysta rétt eins og aðrir í liðinu á liðið fyrir aftan sig. Við höfum undanfarin 2-3 ár hrósað Liverpool fyrir það að spila sem lið, eftir bestu leikina er jafnan erfitt að velja mann leiksins því að meira og minna allt liðið kom til greina. Þegar þú tekur hryggsúluna að mestu út úr þessu liði er pottþétt að botninn mun að stórum hluta detta úr leik liðsins. Það er satt að segja magnað að Liverpool er ennþá “ekki nema” sex stigum frá 2. sæti.

  Öll lið þurfa að takast á við meiðsli yfir heilt tímabil, Liverpool fékk alveg sinn skerf í fyrra sem dæmi, þetta í vetur er samt á allt öðru leveli og ofan á margt annað sem gerði þetta tímabil alveg nógu erfitt fyrir.

  Klopp er ekki búinn að missa klefann, ég veit ekki um neinn sem myndi ekki frekar selja alla leikmenn liðsins frekar en að láta Klopp fara og gengi liðsins hefur lítið sem ekkert með andlát móður hans að gera. Auðvitað tekur það á hann en guð minn góður hvað margar af þeim vangaveltum sem maður hefur lesið á twitter og víðar eftir Leicester leikinn hafa verið vandræðalegar.

  Liverpool var nota bene að spila vel gegn Leicester þar til þeir fengu að njóta vafans í einhverju sem allir sáu sem nokkuð augljósa rangstöðu til að komast inn í leikinn. Mistök byggð á misskilningi Kabak og Alisson í öðru markinu komu í kjölfar þess að sókn Leicester hefst með því að Johnny Evans hendir Mane í burtu með báðum höndum, það þurfti ekki einu sinni endursýningu til að dæma það. Hrun síðustu mínúturnar í þeim leik, ekki spurning, en svona stór moment skera jafnan úr um leiki. Þetta var ekki beint að gerast í fyrsta skipti í vetur.

  Alisson er sem dæmi að fara í gegnum slæman kafla eins og er, hugsanlega hefur það eitthvað með það að gera að fjórir til fimm af þeim sem hafa verið að spila næst honum á vellinum eru ekki með og í staðin er samansafn af random leikmönnum en nánast aldrei þeir sömu milli leikja. Gæti það verið grunnurinn?

  Spá

  Leipzig er með nokkurvegin fullmannað lið, þeir gátu hvílt lykilmenn um helgina og spiluðu degi fyrr en Liverpool. Þetta vinnur ekki beint með okkur. Ég er bara alls ekki bjartsýnn fyrir þennan leik gegn mjög spræku og vel þjálfuðu liði Nagelsmann. Þeir fóru illa með Man Utd í vetur og geta sannarlega verið okkur erfiðir án svona margra lykilmanna.

  Tæki 1-1 jafntefli núna og vonast til að vera með stærri hóp fyrir seinni leikinn sem verður reyndar líklega ekki á Anfield.

  EMK

  [...]
 • Leicester 3-1 Liverpool

   

  Mörkin

  0-1  Mohamed Salah 67.mín
  1-1  James Maddison 80.mín
  2-1  Jamie Vardy 81.mín
  3-1  Harvey Barnes 85.mín

  Leikurinn

  Leikurinn byrjaði afar líflega með góðri fyrirgjöf Robertson á fyrstu mínútunni sem var naumlega bjargað og Maddison svaraði fyrir gestina með langskoti af eigin vallarhelming en náði ekki að grípa Alisson í landhelgi. Varnarlína beggja liða var afar hátt uppi og bæði ógnuðu með stungusendingum inn fyrir og sér í lagi var áferðarfalleg utanfótarsending TAA á Mané næstum orðin að dauðafæri.

  Rauði herinn pressaði vel fram á við, vann boltann ítrekað og hélt boltanum vel innan sinna raða. Á 9. mínútu sendi Henderson frábæra sendingu inn fyrir á Salah sem var næstum sloppinn einn í gegn en flæktist í eigin fótum og féll við áður en hann náði skoti á markið. Leicester ógnuðu á móti með stungu á Vardy sem reyndi að herma eftir Danny Ings frá síðasta mánuði með því að lyfta yfir Alisson en boltinn fór yfir markið. Örstuttu síðar var ansi tæpt á vítaspyrnu er Salah féll í teignum eftir spark frá varnamanni sem strauk legginn á honum en bæði grasdómari og VAR-dómstóllinn létu sér fátt um finnast.

  Eftir korter fór maraþonmaðurinn Milner að haltra og ljóst að hann kæmist ekki í endamarkið í þessum leik. Áður en Milner tókst að framkvæma innáskiptin við Thiago þá féll skoppandi bolti í teignum til Salah sem tók karatespark í knöttinn á lofti en því miður fór skotið vel framhjá. Á 19. mínútu áttu Liverpool leiftrandi skyndisókn sem Mané tókst næstum að tækla inn í markið eftir undirbúning Salah en Amartey gerði vel að bjarga á síðustu stundu.

  Okkar menn héldu áfram að vera öflugri og á 25. mínútu endaði gott samspil með þröngu færi hjá Firmino sem Schmeichel varði vel. Stuttu síðar fékk Firmino enn betra færi sem Kasper varði stórkostlega en að öllum líkindum hefði rangstaða verið dæmd ef boltinn hefði þanið netmöskvana.

  Eftir hálftíma leik fóru heimamenn að braggast og komust stöku sinnum yfir miðju. Sú bragarbót endaði með ágætu skallafæri Vardy en boltinn fór á mitt markið í fangið á Alisson. Rauði herinn var þó enn með töglin og haldirnar á leiknum og laglegt samspil kom Robertson í skotfæri í teignum en skotið fór af varnarmanni og framhjá. Leicester fengu þó dauðafæri á 41. mínútu er Vardy slapp einn inn fyrir vörnina og hinn sprettharði stræker hamraði boltann í miðja þverslánna. Nokkrum mínútum síðar slapp Vardy aftur inn fyrir en Alisson mætti snöggur út á móti og varði vel af stuttu færi. Líflegum fyrri hálfleik lauk því með markaleysi.

  0-0 í hálfleik

  Bláliðar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og unnu nokkrar aukaspyrnur á vallarhelming alrauðra og úr einni þeirra skapaðist hætta í teignum en Alisson var með á nótunum í markinu að grípa inní. Robertson átti einnig upphlaup sem endaði með skot en örfættu skotlöppinni brást bogalistin. Á 56. mínútu fengu Liverpool aukaspyrnu eftir að brotið var á Salah um 35 metra frá marki. Trent tók spyrnuna og eftir viðkomu í varnarmanni í veggnum small skotið í slánni rétt við markskeytin með Kasper sigraðan en því miður var það stöngin út en ekki inn. Í kjölfarið náði LFC aftur tökum á leiknum og sóttu mikið en ávallt vantaði nægilega nákvæmni í lokasendingu eða skoti.

  En það var ekki skortur á hágæðum á 66. mínútu þegar Liverpool braut loksins ísinn með frábæru marki. TAA átti skot sem fór í varnarmann og náði sjálfur frákastinu og lagði boltann á Firmino í teignum. Brassinn Bobby sýndi samba-takta og sendi boltann bráðskemmtilega með hælspyrnu á Salah sem slúttaði snilldarvel með innanfótarsnuddu í fjærhornið. Geggjað mark og verðskuldað miðað við yfirburðina í leiknum. 0-1 fyrir Liverpool.

  Hurð skall nærri hælum á 77.mínútu þegar að Thiago braut á Harvey Barnes rétt við vítateigslínuna og Liverpool rétt slapp við að fá vítaspyrnu dæmda á sig með VAR-dómgæslu. Úr aukaspyrnunni fór boltinn í gegnum þvöguna í teignum og í netið en til að byrja með var rangstaða dæmd en VAR var aftur í aðalhlutverki og dæmdi réttstöðu þannig að markið stóð. Hvernig VAR fær það út að skóstærð Firmino sé nr.80 er umdeilanlegt en við lifum á hátæknilegum tímum. 1-1.

  Örstuttu síðar kom langur stungubolti inn fyrir vörn gestanna og Kabak horfði til himins í von um að hreinsa boltann en Alisson mætti í úthlaup og úr varð slysalegt samstuð sem gaf Vardy mark á silfurfati. 2-1 fyrir Leicester.

  Liverpool voru í algjöru losti og í tómu tjóni á þessum mínútum. Til að hámarka hörmungina þá gaf Salah boltann illa frá sér á miðjunni, Kabak var of djúpur í varnarlínunni og Barnes fékk sendingu inn fyrir sem hann lauk með laglegu slútti með grasinu og framhjá Alisson. 3-1 og þriggja marka hryllingur á fimm mínútna kafla. Eftir það fjaraði leikurinn út án merkilegra viðburða og ótrúlegur endakafli gerði út um toppslaginn.

  3-1 tap fyrir Leicester staðreynd.

  Bestu menn

  Margir leikmenn okkar áttu fína frammistöðu framan af leik og var framlínan kraftmikil í pressunni þó að mörkin létu á sér standa mest megnis. Salah var sérstaklega mikið í boltanum í fyrri hálfleik og markið var einstaklega flott slútt út við stöng. Firmino voru mislagðar fætur framan af en stoðsendingin frábæra fer í minningamöppuna. Henderson var fínn í vörninni og með margar flottar leikstjórnanda-langsendingar inn fyrir vörnina. Það var fínn dugnaður í miðjumönnunum öllum og mestmegnis var spilið fínt ásamt öflugri pressu.

  Bakverðirnir voru einnig í banastuði á löngum köflum með Robertson óþreytandi fram á við þó að hann mætti fara á skotæfingu til að geta komið sínum sénsum á rammann. Minn maður leiksins er Trent Alexander-Arnold sem átti margar glæsilegar sendingar, sláarskot og flotta sóknarspretti ásamt sínum þætti í markinu.

  Vondur dagur

  Kabak hafði átt hina ágætustu byrjun í 80 mínútur í sínum upphafsleik en á augabragði varð það að hörmung með samskiptaleysi hans og Alisson í markinu. Ekki það að Tyrkinn eigi meiri sök en Brassinn sem hafði verið að bæta ágætlega fyrir skelfingar frammistöðu sína í síðasta leik en þetta voru einstaklega dýrkeypt mistök sem kostuðu okkur leikinn. Við stöndum samt áfram með okkar mönnum fram í Liverpool-rauðan dauðann.

  Tölfræðin

  Umræðan

  Það verður þungt hljóð í Púlurum allra landa þegar ræða á þriðja tapleikinn í röð í deildinni og þessi ósigur getur reynst okkur ansi dýrkeyptur í því sem er að snúast upp í nauðvörn um að halda Meistaradeildarsæti. Frá því að vera á toppi deildarinnar um jólin eftir 7 marka veislu gegn Palace þá hefur formið á okkar mönnum hrunið og tímabilið á barmi þess að leysast upp í vitleysu. Auðvitað hefur annus horribilis í meiðslamálum ekki hjálpað okkur en það getur ekki verið eina útskýringin á því af hverju mentality monsterin eru svona mistæk þessa dagana.

  Þetta var samt ótrúlega skrýtinn leikur eftir á að hyggja og þeirrar sanngirni skal auðvitað gætt að í 80 mínútur vorum við betri aðilinn og á góðri leið með að landa öflugum útisigri sem hefði gert mikið fyrir okkur í deildinni og einnig upp á sjálfstraustið. Hvernig himnarnir hrynja á fimm mínútna kafla er því enn undarlegri og meira svekkjandi þegar leikurinn er gerður upp. Það er eitthvað ólukkuský sem vofir yfir Liverpool þessi dægrin og við þurfum að þrauka til komast í gegnum óveðrið. Því að eftir endalok stormsins þá er gylltur himinn í boði og við gefumst aldrei upp. Áfram gakk!

  YNWA

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close