Real Madríd mætir á Anfield

Real Madríd var valið lið síðustu aldar og er í dag talið vera verðmætasta félagslið í heiminum. Þrátt fyrir öll Olíufélögin er það Real Madríd sem slær ítrekað metið yfir dýrustu leikmenn í sögunni, félagið er líklega stærsta félagslið í heiminum og eru þá allar íþróttagreinar þar með taldar. Þar fyrir utan kemur liðið frá Madríd, höfuðborg Spánar og því óhætt að segja að reglubundin Evrópu upphitun um Real Madríd yrði fljótlega að bók hvað lengd varðar.

Vinsældir félagsins má að hluta rekja til þess að þeir eru sigursælasta liðið í Evrópukeppni Meistaraliða frá upphafi. Tíunda titilinn unnu þeir á síðasta tímabili og við þann punkt ætla ég að stoppa. Titilinn sigursælasta lið Evrópu frá upphafi bera þeir frekar ódýrt að mínu mati þó þetta sé vissulega staðreynd. Þar er ég helst að horfa til fyrstu ára Evrópukeppni Meistaraliða og skjótan uppgang Real Madríd áður en sú keppni var sett á laggirnar, m.a. af Real Madríd og nokkrum fleiri félögum.

Real Madríd vann fyrstu fimm titlana í Evrópukeppni Meistaraliða, keppni sem þá var boðsmót í umsjá franska tímaritsins L´Équipe. Áður en ég skoða þessi fyrstu ár keppninnar verðum við að skoða hvað var að gerast á Spáni fram að því og hvernig það beintengdist Real Madríd.
Lesa meira

QPR 2 Liverpool 3

Okkar menn heimsóttu Queens Park Rangers í Lundúnum í dag og settu eins konar met í að vinna ósannfærandi sigur en þessi leikur endaði 3-2 fyrir Liverpool eftir gjörsamlega galnar lokamínútur.

Brendan Rodgers stillti upp eftirfarandi liði í dag:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Lovren – Enrique

Henderson – Gerrard – Emre Can

Sterling – Balotelli – Lallana

Bekkur: Jones, Touré, Manquillo, Allen, Coutinho, Markovic, Lambert.

Eins og ég sagði hér að ofan var þessi leikur algjörlega galinn. Í 67 mínútur var nákvæmlega ekkert að gerast hjá Liverpool og þetta sennilega lélegasta frammistaða liðsins á tímabilinu. QPR áttu nær öll færin í fyrri hálfleik, Leroy Fer skaut tvisvar í slána fyrir opnu marki og Charlie Austin átti að skora í upphafi leiks. Það var bara í lok fyrri hálfleiks að Steven Gerrard skaut rétt framhjá úr opnu færi í teignum, annars voru okkar menn svo skelfilega lélegir að orð fá því vart lýst.

Ég hafði á orði við sessunauta mína í hálfleik að það væri að bjarga okkur að vera að spila við langlélegasta lið deildarinnar og það stóðst alveg. West Ham jörðuðu okkur fyrir mánuði fyrir svipaða frammistöðu en QPR höfðu ekki gæðin til að refsa okkur í dag.

Í seinni hálfleik færði Rodgers Gerrard aftur niður í varnartengiliðinn. Hann hafði verið fyrir framan Can og Henderson í fyrri hálfleik en það skilaði engu því enginn þeirra komst inn í leikinn. Eftir hlé fundu Gerrard og Henderson sig betur en Can og Lallana áttu áfram í ströggli, sem og Johnson í hægri bakverðinum. Enginn þeirra átti þó neitt í tvo afgerandi lélegustu menn vallarins, Balotelli frammi og José Enrique í vinstri bakverðinum.

Það virtist litlu skipta. Það litla sem QPR buðu upp á virtist ætla að fjara út þegar Liverpol komst loksins yfir á 67. mínútu. Þá fékk Sterling aukaspyrnu úti á hægri kanti, var fljótur að taka hana inn á Johnson sem nýtti sér sofandahátt í vörn QPR, komst inná teiginn óvaldaður, gaf fyrir og Richard Dunne setti boltann í eigið mark fyrir okkur.

Þar við sat alveg fram á 87. mínútu og Liverpool virtist ætla að sigla ótrúlega óverðskulduðum sjálfsmarkssigri í höfn án vandkvæða. Engu að síður treystir maður vörn Liverpool ekki fyrir húshorn þessa dagana og það kom á daginn að QPR jöfnuðu á 87. mínútu. Þá fékk varamaðurinn Vargas að rölta framhjá Enrique vinstra megin, gefa fyrir á fjær þar sem einhver skallaði fyrir aftur þar sem Vargas var einn (og Enrique hvergi nærri) og setti boltann í markið. 1-1 og ég hristi bara hausinn af pirringi út í vörnina og í þessu tilfelli Enrique.

Nema hvað, Liverpool keyrðu í sókn og á 90. mínútu komst liðið aftur yfir. Þá fékk varamaðurinn Phil Coutinho boltann úti vinstra megin, lék laglega inn á teiginn og skoraði í fjærhornið án þess að vörnin gerði nokkuð við því. Frábært mark en ekki síður skelfileg vörn hjá heimamönnum.

Dómarinn gaf til kynna fjögurra mínútna viðbótartíma og maður nagaði neglurnar, ef eitthvað lið gat misst þetta niður var það Liverpool og auðvitað gerðist það. QPR fóru í sókn, fengu horn, skallinn kom á nærstöngina þar sem Joe Allen var að dekka stöng en missti boltann á óskiljanlegan hátt milli fótanna og inn. 2-2 og aðeins mínúta eftir af viðbótartímanum. Það var hægt að spæla egg á enninu á mér þarna, slíkur var pirringurinn.

En ef það er ljóst að Liverpool-liðið var lélegt í dag þá er það enn ljósara að QPR voru (og eru) verri. Þeir virtust ætla að pressa sigurmark en hættu sér of framarlega, Coutinho stakk frábærum bolta innfyrir þá á Sterling sem gaf fyrir frá vinstri og Stephen Caulker skoraði annað sjálfsmark heimamanna. 3-2 sigur Liverpool staðreynd í rugluðum leik.

MAÐUR LEIKSINS: Förum yfir liðið. Varnarparið Skrtel og Lovren voru enn ekki sannfærandi í miðri vörninni en virkuðu þó betur þegar leið á leikinn. Johnson og Enrique gerðu ekki beint sterkt tilkall til að halda spænsku ungstirnunum utan liðsins í næsta leik og mér fannst þeir báðir daprir varnarlega, Johnson þó skárri sóknarlega.

Á miðjunni gekk fátt upp. Gerrard sást ekki í holunni í fyrri hálfleik en komst betur inn í þetta eftir að hann færði sig aftar eftir hlé. Henderson og Can voru varla með í fyrri hálfleik en tóku sig aðeins á eftir hlé. Lallana vill sennilega gleyma þessum leik sem fyrst. Sterling var einn besti maður vallarins ásamt Coutinho sem kom mjög sprækur inn.

Um Balotelli er erfitt að segja of mikið. Hann gat ekki rassgat í dag og ég hef miklar áhyggjur ef þetta er allt sem hann hefur upp á að bjóða. Eins og það væri ekki nóg að spila illa og vera í lægð er ákvarðanataka hans alveg úti á túni og svo kórónaði hann allt með einum af klúðrum ársins snemma í seinni hálfleiknum, setti boltann yfir fyrir opnu marki.

Ég ætla að velja markvörðinn Simon Mignolet mann leiksins. Hann hélt okkur á lífi með frábærum markvörslum í þessum leik og verður ekki sakaður um mörkin tvö sem liðið hleypti inn á sig. Vonandi tekur hann sjálfstraust frá þessum leik.

Eftir þennan leik er liðið komið í 5. sæti deildarinnar og er bara fjórum stigum frá öðru sætinu. Það er gríðarlega jákvætt og tveir sigurleikir í röð núna (ættu að vera þrír í röð ef Jagielka hefði ekki rænt okkur) hljóta að gefa liðinu sjálfstraust. Þetta var ekki sannfærandi en það er samt jákvætt að vera að ná í stigin.

Næst er það svo Real Madríd á Anfield á miðvikudag. Það verður eitthvað.

Liðið gegn QPR

Byrjunarlið dagsins er komið í ljós og er sem hér segir:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Lovren – Enrique

Henderson – Gerrard – Emre Can

Lallana – Balotelli – Sterling

Bekkur: Jones, Touré, Manquillo, Allen, Coutinho, Markovic, Lambert.

Þetta er sterkt lið hjá okkur en Rodgers er að velja nokkrar áherslur, að mínu mati:

Vörnin – Hann velur hér reynda vörn, Johnson og Enrique koma inn fyrir Manquillo og Moreno (sem eru þá væntanlega einnig ferskir gegn Real, liði sem þeir þekkja betur en Johnson og Enrique).

Miðjan – Það er gaman að sjá Emre Can koma beint inn í liðið. Með honum og Henderson erum við með kraftmikla miðju í kringum Gerrard, og með Allen og Coutinho á bekknum er ekki yfir neinu að kvarta hér.

Sóknin – Mario, Sterling og Lallana eru okkar þrír sterkustu og bestu sóknarmenn í fjarveru Sturridge. Það er því skynsamlegt að veðja á þá og nú verðum við að vona að Balotelli rétti úr kútnum. Það vekur athygli að Fabio Borini kemst ekki einu sinni á bekk. The writing’s on the wall, eins og menn segja.

Allavega, sterkt lið en með annað augað á Real í næstu viku. Koma svo!

QPR leikur framundan

Þá hefjum við keppni eftir landsleikjahlé sem hefur verið býsna viðburðaríkt í raun.

Held við rifjum ekkert upp hvað á hefur gengið annað en þær ógeðslegu fréttir að Daniel Sturridge verður frá minnst tvær vikur og mögulega fjórar vegna kálfatognunar. Við bölvuðum og rögnuðum enska landsliðinu þegar hann meiddist síðast en staðreyndin virðist því miður vera sú að hann er mjög viðkvæmur blessaður kallinn og bara alveg ferlegt að hann sé frá.

Það hefur töluvert verið rætt um upplegg vetrarins og sóknarvandræði. Ég fer ekkert ofan af því að það er nær vonlaust að reikna með því að við náum upp svipuðum sóknargæðum og síðasta vetur þegar farið er einstaklingsvinnan hjá Suarez og síðan hlaupin hjá Sturridge í gegnum varnarlínuna. Ég viðurkenni bara að uppleggið í upphituninni minni fór með þessum fréttum í gær.

Því ég var handviss að verið væri búið að vinna mikið í samstarfi Balo og Studge í þessu lansleikjahléi. Þeir litu mjög vel út saman þær mínútur sem þeir fengu á White Hart Lane og Balotelli var keyptur til að vera með Sturridge.

En skiljum við þessa staðreynd sem ekki verður umflúin, við verðum að berjast gegn þessum vindi og hlusta eftir sæta silfursöngnum við enda hans!

Það eru jákvæðari fréttir af öðrum meiðslum. Joe Allen, Glen Johnson og Emre Can eru allir búnir að vera að æfa og verða leikfærir. Ég hef trú á að allir þrír komi við sögu í leiknum og það skiptir miklu að hafa fengið þá til baka fyrir komandi átök.

Miðað við blaðamannafundinn hans Rodgers (sem þið sjáið í færslunni ofan við þessa) þá er Lovren enn í séns að spila og á „meiðslalistasíðum“ á netinu er sagt að Sakho verði heill…en af honum hafa ekki verið fluttar fréttir.

Hins vegar má ekki gleyma því að það er stórleikur framundan á miðvikudagskvöldið þegar „smáliðið“ Real Madrid kemur á Anfield. Það var alveg augljóst í ferð okkar til Liverpool að allir aðdáendur eru með annað augað á þessum leik sem er sá stærsti býsna lengi og ég er á því að sá leikur hafi áhrif á koll Rodgers, þeir leikmenn sem standa tæpt og skipta hann máli gegn Real verða látnir hvíla á Loftus Road.

Mótherjinn

Geymum okkar lið aðeins.

Mótherjinn á sunnudaginn eru lærisveinar Harry Redknapp hjá Queens Park Rangers, botnliðið í deildinni. Bláhvítir drengirnir hafa þó verið að bæta leik sinn að undanförnu, hafa fært sig aftar á völlinn og beita skyndisóknum.

Heimavöllur þeirra er sá minnsti í deildinni, bæði leikvöllurinn og fámennasta stúkan en hann hefur þó ekki náð að skila þeim nægilega mörgum stigum, Harry hefur verið að ræða um það atriði undanfarna daga og er mikið að reyna að höfða til sinna manna, og áhangendanna, að nota stórleik eins og þann sem framundan er á sunnudaginn til að sparka stemmingunni í gang í Suður London.

Liðið þeirra er býsna dýrt og á pappírnum eru þeir sterkir. Landsliðsmenn í flestum stöðum, leikmenn með mikla reynslu af ensku úrvalsdeildinni. Green í markinu, Ferdinand, Caulker, Onuha og Traore líklegir í vörninni. Meiðsli Joey Barton, Jordan Mutch og Alexander Faurlin þýða að miðjan og sóknarlínan verður ekki eins sterk og þeir vildu en Sandro, Fer, Hoilett, Kranjcar og Charlie Austin eru allt leikmenn í úrvalsdeildargæðum. En þeir hafa ekki náð að smella saman í deildinni og við skulum bara vona að það verði ekki í sunnudagshádeginu sem það gerist!

Liðið okkar

Við skulum alveg hafa það á hreinu að eftir æfingu fimmtudagsins hefur margt í undirbúningi okkar orðið erfiðara. Ég er handviss um að 4-4-2 var uppleggið þangað til að staðfesting barst á meiðslum Sturridge og því verður fróðlegt að sjá hvað verður úr.

Í síðasta leik var aðeins ýtt við Balo með að setja hann á bekkinn og frammistaða Lallana var það góð að ég hallast því miður að því að okkar menn muni spila 4-2-3-1 með svipuðu uppleggi og við sáum gegn W.B.A. – það verði leiðin sem Rodgers og félagar muni fara á meðan við höfum ekki leikmann til að hlaupa með Balo eða Lambert. Ég væri alveg til í að sjá Borini hlaupa en með Allen heilan og Lallana í þeim gír sem við sáum síðast þá held ég að Rodgers muni fara þá leið.

Svo að ég held að svona verði raðað upp á sunnudaginn:

Mignolet

Johnson- Skrtel – Lovren – Moreno

Henderson – Gerrard – Allen

Sterling – Balotelli – Lallana

Ég held að Rodgers sé sammála mér um það að QPR sé lykilleikur í deildinni framundan og muni því stilla upp þeim bestu 11 sem hann hefur yfir að ráða í þessum leik og lagi leikkerfið að því.

Það er líka alveg möguleiki að hann hendi Borini inn í 4-4-2 ef Allen er ekki heill og það myndi ekkert hryggja mig mikið, en ég held að þetta verði liðið og alveg skiljanlegt að menn raði upp útfrá sínum bestu mönnum.

En öll þessi meiðsl hjá Sturridge hljóta að verða til þess að menn setji alvöru pressu í að sækja Origi í janúar, við verðum að fara að eiga lið í að spila 4-4-2 með hápressu í öllum leikjum, þangað til það verður munum við ekki sjá sömu gleðigæðin og við sáum í fyrra.

Samantekt

Í það heila þá heyrið þið að ég er töluvert stressaður, mun stressaðri en ég var í podcastinu síðast. Ég held að við verðum að sætta okkur við það að hvert einasta stig þessa stundina þarf að sækja með baráttu og grimmd í stað flæðandi fótboltagleði.

Harry karlinn hefur náð góðum úrslitum gegn okkur í gegnum tíðina, hann er undir töluverðri pressu og kemur með sína menn gíraða.

Að því sögðu þá hef ég trú á því að við séum með það mikil gæði að við náum að klára QPR þó við séum án Sturridge, en það verður hunderfitt. Ég spái 1-2 sigri í baráttuleik.

KOMA SVO!!!!!!!!!!!!!!!!!