Opinn þráður – Góðgerðarleikurinn

Eftir tæpa tvo tíma eða svo fer fram góðgerðarleikur á Anfield sem er janframt líka nokkurs konar heiðursleikur fyrir Steven Gerrard sem hættir hjá Liverpool eftir bara nokkrar vikur!

Þar mætir úrvalslið Steven Gerrard úrvalsliði Jamie Carragher en það verður afar skondið að sjá þessa leikmenn mæta hvor öðrum í leik. Í leiknum mæta margar af fyrrum stjörnum Liverpool og nokkrir góðkunningjar þeirra Gerrard og Carragher ásamt nokkrum af núverandi leikmönnum Liverpool sem ekki eru í landsliðsverkefnum.

Hér er skemmtilegt myndband af þeim félögum að kjósa í lið:

Því miður hafa þeir Dirk Kuyt og Raul Meireles þurft að draga sig úr þessum leik vegna meiðsla en þeir mæta víst á svæðið og taka þátt. Peter Crouch átti líka að mér skilst að hafa verið þarna en missir líka af vegna einhverra meiðsla.

Fullt af áhugavörðum nöfnum sem munu spila á Anfield í dag og er liðunum stillt svona upp.

Úrvalslið Gerrard:

Jones

Johnson – Terry – A.Gerrard – Riise

Nolan – Gerrard – Alonso

Babel – Sinclair – Henry

Bekkur: Scott Dann, Ashley Williams, Luis Suarez, Fernando Torres, Joao Teixeira, Charlie Adam, Jay Spearing, Stephen Warnock

Úrvalslið Carragher

Reina

Arbeloa – Carragher – Kelly – Flanagan

Downing – Lucas – Shelvey – Kewell

Balotelli – Drogba

Bekkur: Gulacsi, Luis Garcia, Craig Noone, Alberto Moreno, Gael Clichy, Fabio Borini, Craig Bellamy.

(Lawrence Vigouroux, Joe Maguire og Cameron Brannagan eru sameiginlegir varamenn sem koma inn á ef liðin þurfa auka skiptingar)

Rodgers mun stýra liði Gerrard og Roy Evans mun stýra liði Carragher.

Fullt af afar skemmtilegum nöfnum þarna. Gerrard og Alonso saman aftur á miðjunni, Torres og Suarez munu líklega spila saman í leiknum. Henry, Drogba og Terry hafa valdið Liverpool hausverk í gegnum tíðina og gaman að sjá þá koma og leggja málefninu lið. Hef gaman af því að sjá Jerome Sinclair spila frammi með Henry, þó hann sé hættur að spila og kominn yfir sitt léttasta skeið þá má nú alveg örugglega læra eitthvað af honum!

Annars verður þetta örugglega hin fínasta sunnudags skemmtun og er leikurinn sýndur í beinni á LFCTV og er hægt að kaupa sérstakan 24 klst tilboðspakka á heimasíðu Liverpool fyrir aðeins eitt pund og rennur ágóði þess í málefnið.

Þráðurinn er opinn. Þið getið rætt leikinn, landsleikjahléð eða bara hvað sem ykkur dettur í hug hérna.

Liverpool og listin við að sigla í strand

Launakröfur. Samningar. Samningaviðræður. Samningstilboð. Sigla í strand. Viðræðum frestað. Þessi orð og setningar er eitthvað sem hefur birst í nær öllum fréttum tengdum ákveðnum hópi leikmanna Liverpool liðsins. Við höfum lesið þetta svo oft og svo lengi, eini munur á milli frétta eru nöfnin og tölurnar sem þarf að setja í eyðurnar.

„Samningaviðræður á milli Liverpool og _______________ virðast hafa siglt í strand eftir að launakröfur ___________ héldust ekki í hendur við samningstilboðið frá Liverpool og viðræðum hefur verið frestað þar til leiktíðinni lýkur.“

Geisp
Lesa meira

Spion Kop

Knattspyrnuaðdáendur um allan heim hafa heyrt um Kop-stúkuna á Anfield Road, líklega sögufrægustu stúku knattspyrnuheimsins þar sem harðasti kjarni stuðningsmanna Liverpool er samankomin á heimaleikjum. Kop-stúkan er gríðarlega stór partur af sögu félagsins og er hún líklega litlu minna þekkt heldur en völlurinn sjálfur. Kop-stúkan er í fullu fjöri enn í dag en saga hennar er þó meira en aldargömul og sagan á bak við nafnið er ennþá eldri og engu minna merkileg. Mörg okkar þekkja þessa sögu ágætlega, bæði hvaðan nafnið er komið og eins hvers vegna stúkan er svona stór partur af sögu félagsins.

Spion Kop-nafnið var komið og orðið partur af Anfield Road áður en búið var að byggja þar stúku og reyndar eru fjölmargir vellir á Bretlandseyjum með stúku sem ber sama nafn og hafa jafnvel gert í meira en heila öld. Það var ekki einu sinni á Anfield Road sem Spion Kop var fyrst notað til að nefna stúku á knattspyrnuleikvangi. Þar hins vegar hefur Spion Kop orðið stór og órjúfanlegur partur af knattspyrnusögunni og þá auðvitað sérstaklega sögu Liverpool FC.

Áður hef ég farið yfir tengingu Liverpool við lagið You’ll Never Walk Alone og eins skoðaði ég ítarlega tengingu Liverpool við knattspyrnuleikvangana Heysel og Hillsborough. Spion Kop hlýtur að vera næst í röðinni og hef ég verið með það í maganum í nokkurn tíma að skoða einnig sögu stúkunnar sem er ennþá órjúfanlegri partur af sögu félagsins. Við erum jú að halda úti vefsíðunni Kop.is. Sagan á bak við Spion Kop er mun viðameiri, merkilegri og flóknari en mig óraði fyrir í upphafi.

Spion Kop

Spion Kop er eins og kunnugt er fjall í Suður-Afríku sem komst í sögubækur er margir breskir hermenn féllu þar í frægum bardaga í Suður-Afríkustríðinu, betur þekkt sem Seinna-Búastríðið sem háð var á árunum 1899-1902. Margir þeirra hermanna sem féllu á Spion Kop voru frá Lancashire og er nafnið tileinkað minningu þeirra, Liverpool var á þessum tíma partur af Lancashire-sýslu (um aldamótin 1900) og margir af þeim sem féllu voru því þaðan. Mikið dýpra er oftast ekki farið ofan í tengingu stúkunnar við fjallið en mig langaði til að kafa aðeins dýpra og skilja betur afhverju þetta 1460m háa fjall í Suður-Afríku var svo nærri hjarta almennings í Bretlandi í upphafi síðustu aldar, svo nærri að fjölmargar stúkur voru nefndar eftir þessu tiltölulega ómerkilega fjalli. Hverjir voru Búar sem Bretar voru í stríði við og af hverju áttu þessar þjóðir yfir höfuð í stríði?

Til að skilja söguna á bak við Búastríðið þarf að þekkja sögu þessa landsvæðis sem í dag kallast Suður-Afríka, það er ekkert nýtilkomið að pólitík á þessu svæði sé snúin.
Lesa meira

Mánudagspælingar

Það er mánudagur, mér liggur á að losna við nýjustu leikskýrsluna efst á síðunni og það er langt síðan ég skrifaði síðast mánudagspælingar. Þannig að hér eru ýmsar skoðanir Kristjáns Atla, í engri sérstakri röð:

Steven George Gerrard

sgalone

Fyrir tæpum þremur mánuðum staðfesti Steven Gerrard að hann væri á förum frá Liverpool. Hann hefur verið allan sinn feril hjá Liverpool, síðan hann var krakki, og hluti af aðalliði félagsins síðan 1998 eða í sautján ár í sumar. Hann hefur verið fyrirliði liðsins síðan 2003, lengur en nokkur annar fyrirliði í sögu LFC. Hann hefur leikið 704 leiki fyrir félagið, í öllum stöðum, skorað í þeim 183 mörk og er svo mikilvægur að jafnvel í vetur, þegar hann er orðinn gamall og ekki lengur með fast sæti í liðinu og hefur verið meiddur undanfarið er hann samt markahæstur á tímabilinu.

Þetta er góður tími fyrir mig að koma Gerrard-hugleiðingum frá mér af því að hann skeit illa á sig í gær. Hann brást liðinu, Rodgers, stuðningsmönnunum, öllum. Hann átti að breyta ótrúlega mikilvægum leik gegn erkifjendunum á Anfield og hann gekk fram með allt of miklu offari og fékk reisupassann eftir 40 sekúndur. Ég hef aldrei verið jafn hissa og jafn vonsvikinn yfir einum leikmanni á minni ævi. Aldrei. Þetta var ömurlegt og hann er réttilega búinn að biðjast afsökunar.

Í fyrra átti hann annað slíkt dæmi sem við munum öll eftir, ekki síst af því að allir andstæðingar Liverpool syngja lag því til heiðurs. Hann öskraði „This does not slip!“ eftir sigur á Man City og nokkrum dögum seinna rann hann og gaf Chelsea forskotið á Anfield, mark sem var lykillinn að því að langþráður deildartitillinn slapp honum úr greipum einu sinni enn. Það er í alvöru ekki hægt að skálda svona atvik.

Þessi tvö atvik hafa orðið til þess að ég hef séð menn reyna að tala um að Gerrard sé frábær en eigi erfitt með að klára dæmið. Sem er eitt það alvitlausasta sem ég man eftir að hafa lesið. Ég ætla að vona að menn erfi þessi tvö hörmungaratvik ekki við hann því þessi leikmaður, umfram aðra, á það skilið að vera minnst sem hetju í sögu félagsins.

Ég hef lengi ætlað að skrifa fallegan og mikinn pistil um Gerrard en hef átt erfitt með að byrja hann. Til að setja það í samhengi þá þjáist ég ekki af ritstíflu. Aldrei. Það hefur aldrei gerst að ég eigi erfitt með að koma orðum á blað þegar Kop.is er annars vegar. Samt hef ég setið með þennan pistil í „Drafts“ í þrjá mánuði núna. Þannig að hér kemur hann, sem hluti af pælingum. Ég og Steven Gerrard erum báðir fæddir í maí 1980. Þegar ég var í öðrum flokki FH var ég að lesa um hann á netinu og þegar hann braust í aðallið Liverpool spilaði ég í fyrsta sinn æfingaleik með aðalliði FH. Þar skildu leiðir, ég hætti að æfa fótbolta sumarið 1999 (nokkuð sem ég sé ennþá eftir, fyrst ég komst ekki í FH-liðið átti ég að fara í neðri deildirnar í stað þess að hætta alveg en maður getur ekki alltaf verið gáfaður) á meðan Gerrard virtust engin bönd halda.

Ég er ekki týpan sem á mér uppáhaldsleikmenn. Ég held með Liverpool og FH, ekki leikmönnum liðanna. Samt hef ég gert undantekningu fyrir tvo menn á ævinni: Paolo Maldini, sem ég sem ungur bakvörður dýrkaði meira en allt og svo jafnaldrann minn, manninn sem ég hef getað átt hálfgerðan Liverpool-feril í gegnum. Hafið þið einhvern tímann lokað augunum og ímyndað ykkur að þið séuð einhver annar? Söngvari rokksveitar? Íþróttahetja? Geimfari? Þannig hafa síðustu 17 ár verið hjá mér og Gerrard. Þegar hann klíndi boltanum í netið á Anfield gegn United sem ungur maður fagnaði ég ekki heldur öskraði „minn maður!“ Ég gerði það sama þegar hann gerði það aftur í bikarúrslitaleik gegn United 2003, gegn Olympiakos 2004 og í úrslitum Meistaradeildarinnar. Þegar hann bjargaði bikarnum fyrir okkur gegn West Ham 2006 varð ég stoltur eins og hann væri bróðir minn, eða sonur.

Í stuttu máli sagt, þá hef ég átt óheilbrigt, einhliða samband við Steven Gerrard. Hann hefur ekki hugmynd um hver ég er. Hann skiptir mig öllu máli.

Mig grunar að það séu ansi mörg ykkar að kinka kolli núna, fast. Ég held að ég sé ekki sá eini sem hefur átt óheilbrigt samband við Steven Gerrard.

Allavega, ég þarf ekki að skrifa Babú-færslu um feril Gerrard. Við þekkjum þetta öll. Það sem einkennir hann, nú þegar maður lítur yfir ferilinn, eru nokkur atriði:

1: Hann hefur verið besti leikmaður liðsins síðan 2001 og alveg þar til í fyrra að Suarez/Sturridge tóku við keflinu, og jafnvel þá var hann ekki síður mikilvægur en þeir.
2: Hann er ótrúlega fjölhæfur leikmaður. Liverpool hefur aldrei átt svona góðan miðjumann, aldrei átt svona góða tíu, aldrei átt svona góðan kantmann, fáa jafngóða bakverði og svo framvegis.
3: Hann hefur skorað gríðarlega mikið af miðjumanni að vera. Hann fær ekki nóg kredit fyrir hvað hann skorar mikið.
4: Gerrard er hluti af deyjandi tegund: stórstjarnan sem (eins og Maldini) eyðir öllum ferlinum hjá uppeldisfélaginu. Jú, hann er á leið til Kaliforníu en það telur það enginn með. Hann er að hætta að spila Evrópubolta.
5: Hugsið um hinar hetjurnar sem hafa leikið allan ferilinn með uppeldisfélaginu; Maldini, Totti, Giggs, Terry o.sv.frv. Það sem gerir Gerrard EINSTAKAN er að hann hefur verið einn af 3-4 bestu leikmönnum Úrvalsdeildarinnar í fimmtán ár, einn af 3-4 bestu leikmönnum Evrópu í svona 5-6 ár um miðjan síðasta áratug og besti leikmaður Liverpool í a.m.k. 13 ár. En hann hefur aldrei leikið í besta liði Englands, ekki eitt tímabil, hvað þá besta liði Evrópu.

Hugsið aðeins um síðasta punktinn. Bestur í Liverpool. Bestur í Englandi. Einn besti í heimi. Aldrei í besta liði sinnar deildar. Aldrei. A-L-D-R-E-I.

Það gerir hann einstakan. Það hefur reynt á hollustu hans en hún brást aldrei og þessi hollusta sem hann hefur sýnt Liverpool er einstök. Maðurinn hefði getað pikkað upp símtólið og gengið til liðs við Real Madrid hvenær sem er og hann gerði það aldrei.

Hann er besti leikmaður í sögu Liverpool FC. Meira að segja King Kenny Dalglish segir svo. Ég hlusta á það álit, tek mark á því. Við munum aldrei eignast annan Steven Gerrard. Hefur hann gert mistök? Já, oft og iðulega. En prófið þið að bera einn stærsta knattspyrnuklúbb heims á bakinu í fimmtán ár og segið mér svo að það sé auðvelt að vera alltaf maðurinn sem er litið til, alltaf sá sem á að redda. Ég ætla ekki að hengja Steven Gerrard fyrir örfá mistök, ekki þegar ég get frekar þakkað honum fyrir tuttugufalt fleiri atvik þar sem hann steig upp og bjargaði málunum.

Við munum sakna hans þegar hann er farinn. Svo mörg voru þau orð.


Vindum okkur í aðra og styttri punkta:

Raheem Sterling

25385BEB00000578-2937645-image-a-21_1422960633330

Það er á leiðinni ítarlegri pistill frá okkur um launamál Raheem Sterling og ég ætla ekki að ræða þau náið hér en mig langar að benda á þrjú atriði sem ég hef sterka skoðun á í þessu máli:

1: Raheem Sterling er okkar besti sóknarmaður, sérstaklega á meðan Daniel Sturridge er ekki orðinn alveg eins og hann á að vera. Hann er markahæstur ásamt Gerrard í vetur, steig upp og leiddi sóknina frábærlega á erfiðum tíma í vetur og ætti að mínu mati alltaf að vera byrjunarliðsmaður sem framherji eða í holunni, eða í versta falli sem kantmaður þó ég sé ekki hrifinn af því. Af hverju er Brendan Rodgers þá að nota hann sem vængbakvörð? Hann er iðulega beðinn um að leysa tvær, jafnvel þrjár stöður í sama leik. Rodgers virðist líta á hann sem leikmann sem er svo fjölhæfur að hann getur notað hann þar sem hann þarfnast hans í hverjum leik, í stað þess að byggja upp lið í kringum hann. Ég vil sjá hið síðara gerast. Mér er sama hvar hann kemur honum fyrir, Sterling á að vera í sinni bestu stöðu (frammi eða í holu) þar sem hann getur valdið andstæðingunum sem mestum skaða. Er það tilviljun að leikform hans hefur dalað á vikunum eftir að Sturridge kom inn aftur og hirti framherjastöðuna af honum? Nei. Þú notar ekki Raheem Sterling sem vængbakvörð. Ef hann er sá eini sem þú átt þarna breytirðu kerfinu til að hann geti spilað sína stöðu.

2: Menn tala um að Sterling sé ungur og eigi ekki skilin 150 þúsund pund í vikulaun. Á móti bendi ég á að hann er (a) búinn að vera í aðalliðinu síðan hann var sautján, og því langt því frá að vera jafn mikill nýliði og tvítugir menn eru venjulega, (b) þegar búinn að spila 120 leiki fyrir liðið og skora 22 mörk, þar af 10 á þessari leiktíð. Hann er búinn að vera lykilmaður í tvö og hálft af þessum þremur tímabilum og hefur spilað lykilhlutverk á HM með Englandi. Og punktur (c): það eru lið þarna úti tilbúin að borga honum 150 þúsund pund í laun. Ef einhver vill borga honum þau laun þá á hann rétt á að krefjast þeirra hjá Liverpool. Þetta er lykilmaður liðsins, besti sóknarmaður okkar, fjölhæfur með eindæmum og kvartar aldrei þótt hann sé látinn spila erfiðar stöður. Svo er hann enskur landsliðsmaður. Borgið honum.

3: Sterling á rúm tvö ár eftir af samningi sínum, Jordan Henderson á rúmlega eitt. Henderson er varafyrirliði liðsins. Samt virðast stuðningsmenn hafa litla þolinmæði gagnvart Sterling, eins og hann sé frekja að semja ekki strax við félagið, á meðan ástarsambandið við Henderson blómstrar. Hvernig stendur á þessu? Hlustið á umræður The Anfield Wrap eftir United-leikinn í gær þar sem þeir pirra sig á þessu og allt að því saka áhorfendur á Anfield um rasisma í garð Sterling. Hvað annað gæti valdið þessu? Hvað sem það er, hættið þessu. Þið getið ekki dásamað Henderson sem er líka að berjast fyrir launahækkun (og á sama rétt á henni og Sterling að mínu mati) og um leið skammað Sterling fyrir óhollustu eða græðgi. Þetta bara gengur ekki upp. Ég vil sjá báða þessa leikmenn í Liverpool-treyju áfram. Borgið þeim.

Daniel Sturridge

Daniel Sturridge er ekki sami leikmaður og hann var. Hann vantar hraðann sem hann hafði í fyrra, snertingin er ekki eins mjúk og örugg og leikmennirnir í kringum hann eru ekki að finna hlaupin hans eins vel og áður, hvort sem það er þeim eða honum að kenna. Hann er hægt og rólega að spila sig í leikform og verður sennilega ekki sami leikmaður og hann var fyrr en eftir gott undirbúningstímabil í sumar.

Menn hafa verið að stinga upp á því að Sturridge eigi að víkja úr liðinu á meðan hann er ekki upp á sitt besta. Maðurinn er, þrátt fyrir lélegt leikform, búinn að skora 5 mörk í 11 deildarleikjum. Hann skoraði aftur í gær. Hvað græðum við á því að taka hann úr liðinu? Hver er betri framherji þarna úti? Sterling, kannski, og svo búið. Ég myndi vilja hafa Sturridge og Sterling saman í hverjum leik út þetta tímabil, saman í sókninni með Coutinho fyrir aftan sig. Þannig náum við mestu út úr þeim og Sturridge fær dýrmætan spilatíma. Hvað í ósköpunum græðum við með að setja Sturridge á bekkinn og neita honum um þann spilatíma sem hann þarf til að verða aftur sá sem hann var?

Leikmannakaup síðasta sumars eru búin að sanna sig og margir hverjir hafa slegið í gegn fyrir rest. Meira að segja Lovren virðist annar maður þegar hann hefur komið inn undanfarið. En það stendur samt eftir að við seldum Luis Suarez fyrir metupphæð og keyptum Rickie Lambert og Mario Balotelli í staðinn. Þess vegna hefur Sterling leikið frammi á köflum og þess vegna verðum við að nota Sturridge þótt hann skorti hraða og leikæfingu. Þetta vandamál verður vonandi lagað í sumar.

Ungt lið

Talandi um að laga vandamálin í sumar þá vil ég ekki sjá aðra byltingu eins og síðustu tvö ár, og þrjú sumur af síðustu fjórum. Ég hef þrátt fyrir tapið í gær tröllatrú á þessu liði og stjóranum. Það var ekki alltaf svo í vetur en þeir hafa unnið mig á sitt band. Ég sé hráan efnivið í stórkostlegt lið þarna, efnivið sem þarf tíma til að slípast saman.

Ég horfði í gær á heimildarmynd um Detroit Pistons-liðið í NBA sem vann titilinn tvisvar á árunum 1989-1990. Það lið er merkilegt ekki bara af því að þeir unnu titla heldur af því að þeir stöðvuðu Michael Jordan og Chicago Bulls í að vinna titil þar til ársins 1991 að engin bönd héldu Jordan lengur. Í heimildarmyndinni sagði Jordan um Pistons að ef Bulls hefðu ekki mætt þeim og lent á vegg í nokkur skipti hefðu þeir ekki lært þær lexíur sem þeir þurftu að læra, hefðu þeir ekki bætt sig eins og þeir þurftu að gera og hefðu þeir ekki orðið eins granítharðir og þeir þurftu að vera til að geta orðið það stórveldi sem þeir urðu. Þegar Bulls loksins komust framhjá Pistons stöðvaði þá enginn og þeir unnu sex titla á átta árum.

Mér varð hugsað til Liverpool-liðsins þegar ég horfði á þetta. Við erum með í höndunum gríðarlega efnilegt lið og ungan stjóra sem lærir við hver mistök sem hann gerir. Það er allt til staðar, þrátt fyrir að liðið komist líklega ekki í Meistaradeildarsæti þetta árið. Þetta lið á að geta verið ótrúlega gott á næstu árum.

Það sem við erum að horfa upp á er Detroit Pistons-tímabilið. Það eru ákveðnir hlutir í vegi Liverpool í dag. Mikil samkeppni um topp fjóra, snjallir stjórar eins og Mourinho og Van Gaal og lið eins og Chelsea og Arsenal sem við eigum erfitt með að standast snúning reglulega. Svona hlutir eru ekki bara svekkjandi í núinu, samt, því þetta eru líka hlutir sem munu berja Liverpool-liðið saman, herða leikmennina og vonandi knýja þá til að teygja sig enn hærra og verða enn betri. Og þegar þeir loksins ná framhjá þessum hindrunum er ég bjartsýnn á að við munum sjá eitthvað alveg magnað.

Framtíðin er björt. Semjið við Sterling og Henderson, gefið Sturridge spilatíma til að ná sér á strik á ný, kaupið góðan sóknarmann og kannski hægri bakvörð í sumar (brotthvarf Gerrard og Glen Johnson ætti að losa um launaþakið fyrir þetta allt saman) og þá erum við með ótrúlega gott lið í höndunum.

Mitt glas er hálffullt og vel það. Ég hlakka til að horfa á þetta Liverpool-lið þroskast áfram.

together

Liverpool 1 – Man U 2

Okkar menn mættu í dag Manchester United á Anfield í mikilvægasta leik tímabilsins hingað til, en því miður þá mættu ansi margir ekki til leiks og niðurstaðan var 2-1 tap.

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Sterling – Allen – Henderson – Moreno

Lallana – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Jones, Johnson, Toure, Gerrard, Lambert, Lucas, Balotelli.

Van Gaal stillti þessu liði upp: De Gea, Valencia, Jones, Smalling, Blind, Carrick, Herrera, Mata, Fellaini, Young, Rooney.

Ég sagði það í podcasti fyrir leik að ég myndi ekki vilja neinn af þessum United mönnum í mínu liði og ég stend við það. Ég hugsaði það einnig fyrir leik að ef ég væri hræddur við einhvern mann í þessu United liði þá væri það Fellaini, þar sem hann var jafnan gríðarlega erfiður leikmaður að spila gegn í leiðinlegum Everton liðum. Og viti menn þegar að Manchester United byrja að beita svipuðum taktíkum og Everton, þá er hann líka gríðarlega erfiður að spila á móti.

Okkar menn mættu hreinlega ekki til leiks í fyrri hálfleik. United voru miklu betra liðið á vellinum og voru með boltann 60-70% af tímanum. Henderson og Allen voru keyrðir niður á miðjunni og það kom ekki á óvart þegar að United komust yfir eftir lélegan varnarleik hjá Moreno þegar að Mata skoraði. Eftir markið héldu United áfram að yfirspila okkar menn en þegar sirka korter var eftir af fyrri hálfleik komust okkar menn ágætlega inní leikinn og Lallana hefði getað jafnað leikinn. En niðurstaðan í hálfleik var 0-1 fyrir Man U en ég taldi að með góðum skiptingum þá myndu okkar menn snúa þessu við. Rodgers fjallaði um þetta í viðtali eftir leik:

„In that system, you have to be able to press well and pass well. If you’re not doing both elements of the game then, of course, it becomes much more difficult for you to be effective.

„And that’s how it was in the game today. In the first half, we weren’t passing it anywhere near well enough. Ultimately we weren’t pressing either.

„Both sides of our game suffered. We just didn’t play well enough. You have to accept that. It just wasn’t our day. They were playing 4-3-3 and we were too deep on the sides to begin with.

„The idea was that we should have been 15 to 20 metres higher up the field in order to press the game. It was only in the last 15 minutes of the first half, where I had to manufacture the team into a diamond that forces the players to be closer, tighter and higher up the field, and then we started to make a better game of it.

Steven Gerrard kom inná í hálfleik og hann var búinn að vera inná í sirka 30 sekúndur þegar hann af einhverjum óskiljanlegum ástæðum trampaði á Herrera og fékk beint rautt spjald. 0-1 undir gegn United og einum manni færri. Þetta leit ekki vel út. En okkar menn voru samt mun ákveðnari en í fyrri hálfleik og voru mun sterkara liðið, en á 59.mínútu léku Mata og Di Maria í gegnum vörn Liverpool og Mata náði að klára sitt færi ótrúlega vel og koma Man U í 0-2. Þetta leit ekki vel út og á tíma vonaði maður helst að þetta yrði bara ekki stærra tap. Okkar menn voru þó áfram sterkara liðið á vellinum og 10 mínútum síðar minnkaði Sturridge muninn með fínu marki. Við höfðum svo 20 mínútur til að jafna án þess að ógna marki United á neinn sérstakan hátt og De Gea þurfti ekkert að sanna sig.


Það voru því miður alltof margir sem að brugðust í dag. Lallana var afleitur og var tekinn útaf í hálfleik, Moreno átti hræðilegan dag og Allen og Henderson voru í miklu basli í fyrri hálfleik. Gerrard klúðraði svo sínum málum eins illa og hægt er. Babú skráir ágætis einkunnagjöf í þessu kommenti og ég er því nokkuð sammála. Dómari leiksins var slakur og flestar ákvarðanir voru United í hag, en engar rangar ákvarðanir hans höfðu úrslitaáhrif á þennan leik því hann tapaðist fyrst og fremst á lélegum Liverpool leiki í fyrri hálfleik.

Van Gaal lagði þetta hárrétt upp og náði algjörlega að sigra baráttuna í dag. Því miður. Við höfum núna tapað báðum leikjunum okkar við United á þessu tímabili og það er einfaldlega ástæða þess að þeir eru í fjórða sæti og við því fimmta, núna heilum fimm stigum á eftir þeim. Okkar menn eru búnir að vera frábærir í ár, en það slæma er einfaldlega að liðin sem við erum að keppa við erum líka að brillera. Í síðustu 6 leikjum hefur Arsenal unnið 6, United 5 og við 5. Þannig að við erum ekkert að saxa á þau lið.

Er Meistaradeildin úr sögunni fyrir næsta tímabil? Já, ég hallast að því. Ég myndi telja að við ættum einn sjens í viðbót og hann er að vinna Arsenal á Emirates. Það er ekki auðvelt, en það er klárlega hægt. Ef það tekst, þá er alveg hægt að teikna upp einhver scenario þar sem að okkar menn komast í Meistaradeildina á kostnað Arsenal eða Man U. En eftir þessa helgi þá verður það að teljast afar ólíklegt.

Þetta lið okkar er jú enn gríðarlega ungt og reynslulítið og menn þurfa að læra af þessum leik í dag. Okkar menn verða að jafna sig á þessu og reyna að fara á Emirates og vinna til að hafa áfram einhvern sjens. Jafntefli eða tap þar og þá þarf þetta tímabil að snúast eingöngu að vinna FA Cup og ná sæti í Evrópudeildinni, því það er alveg ljóst að okkur veitir ekki af aukinni æfingu í Evrópuleikjum og einsog Maggi bendir á í kommenti þá er ekki einsog að við séum að brillera núna þegar að leikjaálagið loksins minnkar.