Latest stories

 • Crystal Palace 1 – 3 Liverpool

  0-1 Van Dijk ‘8

  2-0 Chamberlain ’32

  2-1 Édouard ’55

  3-1 Fabinho víti ’89

  Framvindan

  Það tók svona 2 mínútur af ómarkvissum hasar fyrir Liverpool að taka öll völd á vellinum. Þá fékk maður strax á tilfinninguna að markið okkar lægi í loftinu. Eftir þungar sóknir og ekki svo frábær færi setti Virgil Van Dijk okkur í bílstjórasætið þegar hann stangaði boltann af ógnarkrafti í netið eftir hornspyrnu Robertson. Hornspyrnan var fín en varnarmenn Palace steinsofnuðu og leyfðu Van Dijk að skora eitt sitt allra auðveldasta mark.

  Viðvörunarbjöllur

  Tilfinningin var sú að þetta gæti varla annað en endað sem stórsigur, en það voru samt ákveðnar viðvörunarbjöllur sem fóru að hringja. Miðjan tók öll völd, en einstaka sinnum glataðist boltinn og það var ljóst að einhver hröð sóknin frá Palace gæti endað með marki, við höfum séð svoleiðis gerast áður. Á 21. mínútu vorum við minnt á að þetta er fljótt að gerast þegar heimamenn skutust fram en Allison varði meistaralega úr sannkölluðu dauðafæri, að vísu var flautuð síðbúin rangstæða svo það hefði ekki staðið, en ógnin var til staðar.

  Önnur viðvörunarbjallan fór af stað þegar Fabinho fékk sannkallað dauðafæri þegar boltanum var rúllað til hans eftir frábæra sókn og hann skaut rétt við vítapunktinn en boltinn fór hátt yfir. Þá kom þessi tilfinning að þetta klúður gæti reynst dýrkeypt.

  Annað mark

  Yfirburðirnir voru samt sem áður enn verulegir, mest af ógninni kom frá vinstri vængnum, og þaðan kom þessi stórkostlega sending frá Robertson á fjærstöngina þar sem Ox Chamberlain tók boltann niður og smellti honum af stuttu færi í netið og forskotið var tvöfaldað. Á þessum tíma hugsaði maður að það væri fátt sem gæti breytt þessum leik. Palace átti engin svör og við áttum alla bolta sem voru á eða nálægt miðjusvæðinu.

  Svefn og heimamenn minnka muninn

  En svo gerðist eitthvað eftir u.þ.b. 35 mínútna leik. Einhver ýtti á hnapp sem gerir það að verkum að við hættum að spila fótbolta. Palace komst inn í leikinn fór allt í einu að geta ógnað. Okkar menn fóru að gefa frá sér boltann á hættulegum stöðum, og var þar Matip fremstur í flokki. Síðustu mínúturnar voru frekar óþægilegar en Palace tókst ekki að nýta sér það sem þeim var boðið.

  Því miður tókst Klopp ekki að vekja okkar menn af værum blundi í hálfleik og fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik voru enn erfiðari en síðustu mínútur fyrri hálfleiks. Palace fékk nokkur fín færi, en Allison var fyrst og fremst sá sem kom í veg fyrir að heimamenn minnkuðu muninn. Hann gat þó ekkert gert á 55. mínútu þegar við glötuðum boltanum á miðjunni og Schlupp splundraði vörninni með eitraðri sendingu á Mateta, sem lagði boltann framhjá Allison til Edouard sem svo gott sem labbaði með boltann í markið. Þarna var leikur okkar hruninn og þetta mark var sanngjarnt miðað við spilamennskuna sem var í gangi.

  Við náðum ekki að svara þessu og taka leikinn yfir aftur. Klopp reyndi skiptingar en þær virtust ekki breyta leiknum neitt. Minamino kom inn á fyrir Chamberlain á 60. mínútu, en það er óvíst hvort Minamino hafi ratað inn á völlinn, a.m.k. gekk myndavélinni illa að finna hann eftir skiptinguna. Palace þreyttust greinilega líka og áttu erfiðara með að skapa sér hættuleg færi eftir markið og gerðu svo þrjár skiptingar, og settu m.a. Benteke inn á. Allison sýndi svo hversu mikilvægur og magnaður hann er þegar Palace fékk besta færi sitt á 84. mínútu þegar Olise reyndi að vippa yfir hann, en okkar maður sá það fyrir og tók sprettinn til baka og bjargaði með naumindum.

  VAR var rothöggið

  Tveimur mínútum eftir markvörsluna miklu fékk Jota góða vörumerkjasendingu innfyrir frá Alexander Arnold. Jota tók boltann niður af áræðni og lenti á Guaita markverði og datt. Jota vildi víti en dómarinn hló og sagði þeim að halda áfram. VAR herbergið aftur á móti tók völdin.. og mikinn tíma og horfði aftur og aftur. Að lokum var dómarinn beðinn að taka ákvörðun því þetta var loðið. Alls tók það um 3 mínútur að ákveða að niðurstaðan væri víti og það er alveg ljóst að þetta er og verður umdeildur dómur. En það er ekki umdeilt að Fabinho er fyrirtaks vítaskytta og hann kláraði þetta af punktinum af miklu öryggi.

  Dómarinn bætti 6 mínútum við leikinn vegna VAR og annarra tafa, en það gerðist ekki mikið markvert eftir vítið og 1-3 sigur var lokaniðurstaðan.

  Samantekt

  Við sýndum það fyrsta þriðjunginn af leiknum að breiddin í hópnum ræður við að tveir af bestu framherjum veraldar eru ekki með í liðinu. Á þessum tíma voru yfirburðirnir ofsalega miklir, liðsheildin og leikskipulagið algjörlega frábært. Við sýndum það líka að tveggja marka forysta er aldrei nóg fyrir okkur. Við erum brothættir og hleypum liðum allt of oft aftur inn í leiki, oft út af engri góðri og gildri ástæðu. Að þessu sinni tókst okkur að halda þetta út og gulltryggja leikinn í blálokin. En þetta var ekki öruggur sigur, mistökin voru of mörg og það má segja að heppnin hafi aðeins verið með okkur í liði. Ekki veit ég hvort þetta er doði eftir að hafa tryggt okkur í úrslitaleik á Wembley, eða hvort við söknuðum Salah og Mane, en hrun okkar í leiknum virtist vera upp úr þurru, var óþarfi og hættulegt.

  Maður leiksins

  Við unnum leikinn því Allison varði nokkur skot sem margir markverðir hefðu aldrei varið. Hann er maður leiksins að mínu mati því án hans hefðum við tapað. Það má líka draga fram Andy Robertson sem lagði upp fyrstu tvö mörkin með glæsilegum sendingum. Meðan við spiluðum vel var öll mesta ógnin frá vinstri vængnum og hann vann þar vel með Jota, Firmino og Jones. Hann er samt sem áður einn af þeim sem tók þátt í að færa liðið niður í meðalmennsku frá og með 35. mínútu þegar liðið hætti að spila fótbolta. Van Dijk var mestan tíma af leiknum mjög góður, eftir 20 mínútna leik var hann búinn að skora mark, gefa 23 sendingar sem heppnuðust allar, og var búinn að leiða vörnina í 350 mínútur án þess að fá á sig mark.

  Slæmur dagur

  Matip er ekki upp á sitt besta þessa dagana. Hann var að gefa boltann á hættulegum stöðum og bjóða hættunni heim. Það var ekki honum að þakka að við fengum ekki fleiri mörk á okkur. Hann er alltaf betri að fara fram á við og senda boltann í þá átt heldur en til hliðar í öftustu línu. Þegar hann gerir það fær maður netta óttatilfinningu. Ég var heldur ekki svo hrifinn af Trent í þessum leik. Hann er oft betri og ógnin var ekki mikil af hans væng, ekki heldur meðan við stýrðum leiknum. Kannski líður honum best þegar hann vinnur með Salah, en þetta fór aldrei á flug og varnarlega var hann ekki í stuði heldur. Það sem bjargar honum þó í horn er frábær sending sem fæddi af sér vítaspyrnuna í lokin.

  Góður dagur hjá stelpunum

  Það var ekki bara karlaliðið sem mætti Crystal Palace í dag, heldur mætti kvennaliðið líka til Lundúna. Þær gerðu mun betra mót og rúlluðu upp gestgjöfunum 0-4 með tveimur mörkum frá Yana Daniels, einu frá Stengel og einu frá Rachel Furness.

  Að lokum

  Það er gott að leikurinn er búinn. Hann var erfiður og við erum án mikilvægra leikmanna. Það tókst að sækja stigin þrjú og það er frábært. Það er þó margt sem verður að læra af þessum leik. Lærdómur sem ætti að vera búinn að eiga sér stað. En við erum að saxa á forskotið sem City hefur á okkur. Það er ánægjulegt. En nú erum við á leiðinni í vetrarfrí, og næsti leikur á dagskrá er ekki fyrr en 6. febrúar þegar við tökum á móti Cardiff á Anfield í FA Cup.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðin vs. Crystal Palace á Selhurst Park

  Liverpool mætir kristalknattspyrnuhöllinni á Selhurst Park í Lundúnum í dag. Patrick Viera & Palace gegn Klopp og Rauða hernum!

  Byrjunarliðin

  Knattspyrnuþjálfararnir hafa lokið við að velja sín byrjunarlið og þau hafa verið opinberuð:

  Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson; Fabinho, Henderson, Jones; Oxlade-Chamberlain, Jota, Firmino

  Bekkurinn: Kelleher, Konate, Milner, Gomez, Minamino, Tsimikas, Gordon, Williams, Morton

  Óbreytt lið frá síðasta deildarleik gegn Brentford og Oxlade-Chamberlain hefur jafnað sig nægilega af ökklameiðslunum til að byrja leikinn. Ox fyrir Kaide Gordon er önnur af tveimur breytingum frá deildarbikarleiknum með Kellaher hinn leikmaðurinn sem fer út fyrir Alisson.

  Crystal Palace XI: Guaita, Ward, Mitchel, Guehi, Olise, Hughes, Mateta, Schlupp, Andersen, Edouard, Gallagher.

  Bekkurinn: Butland, Clyne, Ferguson, Kelly, Milivojevic, Riedewald, Ayew, Eze, Benteke

  Aðalmaðurinn Zaha ekki með heimamönnum í dag og þrír fyrrum Liverpool-menn á bekknum með Benteke, Clyne og Kelly á tréverkinu.

  Kloppvarpið

  Okkar maður hefði þetta að segja fyrir leikinn í dag á blaðamannafundinum á föstudag:

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Upphitun fyrir heimsókn á Selhurst Park

  Eftir að hafa tryggt sér farseðil á Wembley á síðustu viku þá heldur Liverpool til næsta nágrennis þjóðarleikvangsins. Á morgun klukkan 14:00 hefst leikur gegn Suður-Lundúna liðinu Crystal Palace á einum mest sjarmerandi velli Englands, Selhurst Park. Mig langar að þakka enska knattspyrnusambandinu strax fyrir að vera ekki með það vesen (aftur) að hafa leikinn á sama tíma og handboltalandsliðið spilar, get ekki hafa verið sá eini sem var að brasa við að horfa á tvo leiki samtímis í fyrradag.

  Crystal Palace: Nýjir tímar með goðsögn í brúnni.

  Öll lið eiga sýnar goðsagnir. Menn sem geta labbað innum dyrnar á vellinum út í ævina og þeim verður tekið fagnandi. En það eru líka leikmenn sem eru einu plani ofar, menn sem eru ekki bara goðsagnir í liðum sínum, heldur í deildinni. Patrick Viera er slík goðsögn.

  Frakkinn knái kom til Arsenal 1996 ásamt landa sínum Rémi Garde. Enskt lið að sækja tvo Frakka á þeim tíma vakti nokkra undrun. Viera hefur sagt að þeir vissu að Wenger væri á leiðinni og Arsene var strax farinn að toga í strengi hjá Arsenal.

  Næstu ár breyttu Arsenal enskri knattspyrnu og Viera var algjör lykilmaður í liðinu. Á tímabili var hann einn af bestu miðjumönnum í heimi. Á níu árum á Highbury lyfti Viera sjö titlum, þrem samfélagsskjöldum og var auðvitað hluti af liðinu sem afrekaði það að fara taplaust í gegnum heilt tímabil. Hans síðasta verk í rauðu treyjunni var að skora sigurvítið gegn Manchester United í bikarúrslitaleik árið 2005. Á þessum tíma var hann líka hluti af Franska liðinu sem vann bæði Heimsmeistara- og Evrópu mótin.

  Svo hélt hann til Ítalíu og spilaði með Juventus og Inter Milan. Hann kláraði ferilin á því að spila fyrir Manchester City í hálft ár, þar sem hann krækti aftur í FA bikarinn og lagði skónna á hilluna frægu.

  Það er ekki hægt að segja að þjálfaferill hans hafi verið jafn glæstur og leikmannaferillinn. Hann byrjaði í raun á að vinna bakvið tjöldin hjá City Football Group (móðurfélag Manchester City) á ýmsum stöðum áður en hann tók við New York City FC. Honum tókst að koma liðinu á beina braut og náði raunar fínum árangri þar, þó ég sé ekki nóg og vel að mér í MLS deildinni til að dæma um hversu mikið afrek hann vann. Þaðan hélt hann til Frakklands og tók við Nice. Hann var rekinn frá franska liðinu 2020 eftir að hafa tapað fimm í röð.

  Þannig að það var langt því frá að vera augljóst að hann fengi starf í Úrvalsdeildinni. Crystal Palace tóku töluverða áhættu með að ráða hann síðasta sumar, til að taka við af Roy Hodgson. Liðið hafði misst fjölda leikmanna og frakkinn var að taka við ungum hóp.

  Þeir geta bara vel við unað það sem af er tímabils. Þeir sitja þegar þetta er skrifað í ellefta sæti, stigi á eftir Leicester (sem eiga reyndar milljón leiki inni). Palace hafa líka verið hroðalega óheppnir og nokkrum sinnum misst stig alveg í lokin. Þeir hafa afrekað það að fara á Etihad og sigrað, nokkuð sem fleiri lið mættu gera. Okkar lið er auðvitað mun sterkara en Palace, en þeir eru sýnd veiði ekki gefin.

  Okkar menn

  Lífið hefur oft verið verra á Anfield í janúar. Örugum sigri á Brentford var fylgt eftir með því að tryggja farseðil á Wembley og fyrsta bikarúrslitaleik Liverpool lengi. Það virðist oft vera með þetta Liverpool að minni hvíld hentar þeim ágætlega, þeir ná upp taktinum sem skiptir öllu fyrir leikstílinn. Vissulega er bilið upp í City orðið ansi stórt en það þarf samt að halda smá pressu á olíuliðið, auk þess að gott bil niður í fjórða sæti er alltaf gott.

  Hvað varðar leikmannahópinn er hann ennþá þunnur. Alisson hlýtur að byrja í markinu og Trent og Van Dijk á sínum stað. Matip fór af velli í hálfleik á fimmtudaginn og ég hugsa að Klopp taki enga sénsa með hann. Ég spáði fyrir þann leik að Robbo og Tsimikas myndu skipta þessum tveim á milli sín og held mig við það.

  Á miðsvæðinu verðu Fabinho á sínum stað og Hendo og Jones með honum. Klopp minntist á það á blaðamannafundinum að hann hefði þurft að taka langan fund með Jones nýlega eftir þessi fáranlegu augnmeiðsli og svo Covidið. Eins og stendur er scouserinn ungi algjör lykilmaður hjá liðinu og maður vonar að hann grípi þetta tækifæri með báðum.

  Frammi ætla ég að spá sömu framlínu og ég gerði síðast, finnst ólíklegt að Gordon verði settur í byrjunarliðið þó hann komi líklega inná.

  Svona verður þetta:

   

  Spá

  Palace hentar okkar leikstíl vel. Við verðum ekki í nokkru basli með þá, 3-0 og málið er dautt. Svo er um að gera að rifja upp síðasta leik Liverpool á þessum velli.

   

  [...]
 • Anfield South – here we come!

  Liverpool er á leiðinni á Wembley í fyrsta sinn síðan vorið 2016 eftir 0-2 sigur á Arsenal í seinni undanúrslitaleiknum.

  Mörkin

  0-1 Jota (19. mín)
  0-2 Jota (77. mín)

  Gangur leiksins

  Það skal alveg viðurkennast að Arsenal voru mun meira með boltann fyrstu 15-20 mínúturnar eða svo, og okkar menn virkuðu hálf ryðgaðir. Nallarnir fengu aukaspyrnu á hættulegum stað á 4. mínútu, Lacazette átti skot sem stefndi upp í Samúel en Kelleher var vel staðsettur og náði að slá boltann í þverslá. Matip náði reyndar að setja boltann í netið eftir horn, en var nokkuð greinilega rangstæður og vissi af því. En á 19. mínútu áttu Firmino og Trent gott samspil á miðjunni, boltinn barst til Jota vinstra megin sem fíflaði nokkra varnarmenn Arsenal, spilaði upp að vítateigsboga þar sem hann renndi boltanum snyrtilega fram hjá Ramsdale. 0-1, mögulega ögn gegn gangi leiksins, en 0-0 í fyrri leiknum var líka algjörlega gegn gangi leiksins, svo við erum ekkert að lesa meira í þennan blessaða gang. Eftir þetta var leikurinn í járnum, Arsenal fengu lítið af færum og vörnin okkar var bara að loka ansi vel á sóknir þeirra.

  Ibrahim Konate kom inná í hléi fyrir Matip, kannski ekki skrýtið í ljósi þess að þetta var þriðji leikur Matip á viku. Ekki klárt mál hvort hann var eitthvað meiddur, en svo gæti líka hafa spilað inn í að hann var óvenju ónákvæmur í sendingum.

  Diogo Jota var svo nálægt því að leggja upp mark fyrir Kaide Gordon eftir nokkurra mínútna leik í síðari hálfleik, þegar sá portúgalski átti flott hlaup upp vinstri kantinn, og lagði boltann inn á teig þar sem Gordon kom aðvífandi og var á auðum sjó en náði einhvernveginn að skjóta yfir markið. Frekar svekkjandi fyrir unglambið sem verður að viðurkennast að átti erfitt uppdráttar í dag, en lærir alveg örugglega af þessum leik. Hann fór svo útaf fyrir Minamino á 60. mínútu, sjálfsagt plönuð skipting. Milner kom svo inn fyrir Hendo á 75. mínútu, hugsanlega var það líka plönuð skipting og menn þá með augun á leiknum gegn Palace um helgina.

  Á 77. mínútu unnu svo Fab og Trent boltann hægra megin nálægt miðlínu, Trent sá að Jota var á auðum sjó frammi og lúðraði boltanum fram. Jota gerði engin mistök, tók boltann á kassann og vippaði svo yfir Ramsdale. Aðstoðardómarinn lyfti reyndar flaggi sínu, en þetta fór í VAR og þar kom í ljós að Jota var bara alveg ljómandi réttstæður og markið því gott og gilt. 0-2, og með þetta lítið eftir á klukkunni voru vonir Arsenal manna heldur betur farnar að dvína. Þær vonir urðu svo að engu á 90. mínútu þegar Thomas Partey sem var til þess að gera nýkominn inná fékk sitt annað gula spjald og því rekinn af velli. Þetta fer að verða leiðinda ávani hjá Arsenal mönnum gegn okkar piltum, þ.e. að sjá rautt. Þarna var Neco Williams kominn inná fyrir Firmino, og var ferskur í framlínunni. Leikurinn fjaraði svo út, enda úrslitin ráðin.

  Frammistöður leikmanna

  Maður leiksins er sá sem skoraði tvö mörk: Diogo Jota. Í báðum tilfellum þurfti hann að hafa vel fyrir hlutunum, og gerði það með sóma. Smá meiri nákvæmni hjá Kaide og þá hefði Diogo verið með stoðsendingu að auki. Aðrir leikmenn voru virkilega góðir, mætti þar nefna Trent, Fab, Robbo, Hendo…. Curtis var mjög öflugur þangað til hann var nánast sprunginn. Gleymum ekki Kelleher sem hélt hreinu og spilaði eins og hann hefði aldrei gert annað en varið mark Liverpool. Sá sem átti erfiðast af okkar mönnum var klárlega Kaide Gordon, bæði var hann ekkert mjög mikið í boltanum og svo klúðraði hann jú þessu færi. Mögulega eru þessi tækifæri að koma aðeins of snemma, við erum sammála um að það búa hellings gæði í þessum pilti, og hann þarf ákveðinn þroska til að sýna þau gæði og þróa þau betur.

  Umræðan eftir leik

  • Robbo var að spila sinn 200. leik með félaginu.
  • Gleymum ekki að þessum árangri náði lið Liverpool sem var án Salah, Mané, Alisson og Thiago. Allt leikmenn sem ættu á góðum degi að byrja ef það ætti að stilla upp sterkasta liðinu.
  • Gullið tækifæri bíður Klopp og félaga að hirða Carabao bikarinn, það væri nú ekki ónýtt að bæta eins og einum bikar í safnið. Jafnvel tveim, tops 3. Aldrei fleiri en 4 bikarar á þessari leiktíð.

  Hvað er framundan?

  Í Carabao keppninni er næsti leikur þann 27. febrúar, og fer fram á Wembley þar sem andstæðingurinn er lið Chelsea. Það er bikar í boði. Þetta er einfaldlega leikur sem Liverpool ætlar að vinna, og mun vinna. Punktur.

  En næst á dagskrá er leikur gegn Palace á sunnudaginn. Nú þurfa leikmenn að jafna sig enda litlir möguleikar á að rótera. Möguleikinn á að ná City í deildinni hefur heldur fjarlægst, en ef Liverpool vinnur sína leiki þá getur allt gerst. Þess vegna er svo mikilvægt að taka ekki fótinn af bensíngjöfinni sé þess nokkur kostur.

  En í kvöld fögnum við því að við fáum að sjá liðið leika bikarúrslitaleik!

  [...]
 • Liðið gegn Arsenal

  Ekki var þessum leik frestað (a.m.k. ekki ennþá!), og búið að gefa út hvernig liðið lítur út sem byrjar leikinn í kvöld:

  Bekkur: Alisson, Adrian, Tsimikas, Neco, Konate, Gomez, Milner, Morton, Minamino

  Risa- RISA tækifæri og stuðningsyfirlýsing til handa Kaide Gordon, sem byrjar á kostnað Takumi Minamino. Sá japanski er á bekk, og er í raun okkar eina vopn til að skipta inná í sóknina. Tja, nema auðvitað að Alisson skelli sér….

  Nú er að bóka farseðilinn á Wembley.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Einn leikur til að komast á Wembley. (Upphitun)

  Hann er fallegur, boginn sem býður á Wembley

   

  Deildarbikarinn er alla jafnan ekki vinsælasta keppnin í enskum fótbolta og janúar er alla jafnan ekki vinsælasti mánuðurinn meðal stuðningsmanna Liverpool. En það breytir því ekki að dolla er dolla og ferð á Wembley er ferð á Wembley. Eins og stendur, þrátt fyrir hörmulegan og drepleiðinlegan fyrri leik, þá eru Liverpool einum góðum leik frá því að fara í bikarúrslitaleik í fyrsta sinn síðan 2016. Það árið töpuðu Liverpool í vító gegn Manchester City, sem unnu þá deildarbikarinn. Síðan þá hefur bikarinn verið í Manchester-borg og væri ekki verra að gefa honum almennilegt heimili, ásamt því að ef Liverpool nær að landa titlinum verður liðið aftur það lið sem hefur oftast unnið hann. City jafnaði Liverpool í fyrra með átta titla. En til þess að keppa til úrslita, þarf að vinna undanúrslitaleikin á Emirates.

  Andstæðingurinn.

  Það er ekki nema rétt rúmt ár síðan gengi Arsenal í deildinni leit svona út:

  Síðan þá hefur Arteta haldið áfram að hreina til í hópnum sínum og mótað liðið sífellt meira að hugmyndfræði sinni. Eftir þolinmæðisvinnu er hann búin að gera liðið að sínu og Arsenal er orðið feyknisterkt. Ef honum tækist að skila meistaradeildarsæti væri hann búin að vinna sér inn töluverða þolinmæði hjá stuðningsmönnum Arsenal og ef hann skilar bikarnum í hús væri það risa bónus. Það er svo seinni tíma umræðuefni hversu sjálfsagt manni finnst að fjórða sætið sé stærra en innanlandsbikararnir.

  Það er samt búið að vera gífurlegt fjaðrafok í kringum Arsenal liðið síðustu viku. Þessi leikur átti auðvitað að fara fram fyrir tveim vikum en leiknum var frestað vegna þess að hálft Liverpool liðið greindist með covid. Maður veit svo sem ekki hvernig félagið sjálft tók þessu en stuðningsmenn Arsenal á netinu voru vægast sagt ósáttir. Ýmsum samsæriskenningum var kastað fram. Þeir allra biluðustu vildu meina að það ætti að rannsaka Liverpool fyrir lygar. Þeir vildu hreinlega meina að það væri til skammar að nokkuð einasta lið myndi byðja um frestun vegna Covid.

  Svo bað Arsenal um frestun á nágrannaslag og hljóðið breyttist eitthvað.

  Sjálfum finnst mér ekkert hrikalegt hneyksli að þeir hafa frestað Tottenham leiknum. Finnst það segja meira um skipulagið hjá knattspyrnusambandinu en Arsenal að Arsenal geti, að því virðist, frestað leik með aðeins einu smiti. Þess fyrir utan eru liðin sem eru að fá frestanir séu að gera sér bjarnagreiða, ekkert sem segir að þeir verði í betri málum þegar þessum leikjum er að endingu troðið inn.

  En nóg um það. Þeir hafa metið það svo að þetta væri skynsamlegast á meðan þeir voru að semja um að senda nokkra menn á lán. Ég veit ekki hvort gagnrýnin sem hefur skollið á liðinu síðustu daga hefur einhver áhrif á leikmenn og þjálfaraliðið. Ef eitthvað er þá finnst mér Arteta vera týpan sem nærist á að hafa heiminn á móti sér. Samt pæling hvað hann gerir með allt að tólf leikmenn fráverandi. (18.01.2020)

  Okkar menn

  Eftir fremur erfitt gengi í deildinni og fremur leiðinlegan og lélegan fyrri leik í þessari rimmu gegn Arsenal var afar vel séð að Liverpool vann bara Brentford nokkuð örruglega. Það var afar jákvætt að sjá þrjá markaskorara og þrjá mismunandi aðila með stoðsendingar. Það er einstaklega böggandi að loksins þegar við komum okkur í stöðu til að komast í úrslit í þessari keppni þá þurfum við að spila undanúrslitin án okkar tveggja hættulegustu sóknarmanna. Vonandi hefur leikurinn gegn Brentford komið smá takti í bráðabirgðarsóknarlínuna.

  Það er áhugavert að pæla í byrjarliðinu fyrir þennan leik, enda eru spurningamerki útum allt. Þeir leikmenn sem maður er nokkuð öruggt að spili eru Alisson, Van Dijk, Trent, Fabinho, Jota og Firmino. Ég hef mig ekki til að spá Matip þrisvar á einni viku byrjunarliði (þó ég held hann hafi reyndar gert það á einhverjum punkti í vetur). Konate er vissulega framtíðin en svo segir mér hugur að Gomex verði þarna frekar þar sem hann er töluvert hraðari en frakkinn.

  Ég held að Robbo og Tsimikas taki sitthvoran leikinn af næstu tveim. Spái Robertson í þessum þar sem reynslan sýnir að Klopp á það til að halda sig við kjarnann í stóru leikjunum.

  Svo eru það miðjan. Fyrir framan Fabinho þarf tvo menn og ég ætla að spá að Klopp velji Henderson og Curtis Jones. Þetta yrði með stærri prófum Jones á ferlinum en ég hef fulla trú á honum í þessu verkefni. Fyrir framan þessa kappa verða svo Jota, Firmino og Minamino. Treysti þessum ellefu fullkomnlega til þess að koma okkur yfir línuna í leiknum.

   

   

  Spá.

  Til þess að vinna þessu rimmu þurfum við að vinna leikinn, það er engin útivalla regla með mörkin. Það er hins vegar þannig að ég unandúrslitum og úrslitum er farið í framlengingu ef stað er jöfn að lokum venjulegum leiktíma. Ég held að leikurinn á morgun verði hrikalega jafn og að loknum venjulegum leiktíma verði staðan 2-2 eftir mörk frá Minamino og Jota. Framlengingin verður hins vegar afar leiðinleg og að lokum förum við áfram eftir vító, en við vinnum víta keppnina 4-3.

  [...]
 • Gullkastið – Loksins sannfærandi sigur

  Góður sigur um helgina og hálfleikur í einvíginu gegn Arsenal í deildarbikarnum stóru málin á dagskrá í þessari viku. City tók slaginn við Chelsea, Benitez er farinn frá þeim bláu og Coutinho mætti aftur með látum.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 364

  [...]
 • Liverpool 3-0 Brentford

  1-0 Fabinho        44. mín

  2-0 Chamberlain 69. mín

  3-0 Minamino      77. mín

  Gangur leiksins

  Gestirnir virkuðu ferkir fyrstu þrjár mínútur leiksins en í kjölfarið tók Liverpool öll völd á vellinum. Pressan virkaði vel og áttu Brentford erfitt með að halda boltanum frá sínum vallarhelmingi. Liverpool spiluðu vel sín á milli en gátu ómögulega búið sér til gott marktækifæri… eitthvað sem er að verða alltof algengt. Van Dijk átti fína tilraun eftir 22. mínútur en Fernandez í markinu kom löpp í boltann og kom í veg fyrir það.

  Það var þó fyrir leikhlé þar sem Liverpool komst yfir. Leikmenn liðsins virtust vera að missa hausinn margar sendingar orðnar slakar, sérstaklega út úr vörninni og Brentford aðeins farnir að ógna úr skyndisóknum sínum þegar við fengum enn eina hornspyrnuna. Trent tók spyrnuna á fjarstöng þar sem Fabinho var mættur til að skalla boltann inn. Gríðarlega mikilvægt mark á gríðarlega mikilvægum tíma.

  Leikurinn hélt áfram með sama hætti eftir fyrstu mínúturnar eftir hlé þar sem Liverpool stýrði spilinu en Brentford áttu einstaka spretti þar sem þeir reyndu að nýta Toney og Mbeumo. Diogo Jota var nálægt því að tvöfalda forustu liðsins þegar hann átti skot í stöng en það gerðist svo á 69. mínútu þegar Robertson átti frábæra fyrirgjöf sem Chamberlain stangaði í netið. Stundum er talað um að stanga boltann þegar menn skalla en sjaldan hefur það átt jafnvel við. Hinsvegar þekkjum við öll Chamberlain nú eftir nokkurra ára veru og það er aldrei bara eitthvað jákvætt hjá honum því nokkrum mínútum síðar misteig hann sig illa og þurfti að fara útaf. Hann á vissulega eftir að fara í allskonar skoðanir og myndatökur en talað um að ökklinn líti illa út.

  Undir lokinn náði Firmino að vinna boltann við vítateig þegar Brentford ætluðu að spila út úr vörninn og hann og Minamino, sem kom inná fyrir Chamberlain, tóku nokkrar sendingar sín á milli fyrir framan mark Brentford áður en Minamino skoraði sitt annað deildarmark á tímabilinu.

  Ungstyrnið Kaide Gordon fékk að koma inn á í sínum fyrsta deildarleik þegar átta mínútur voru eftir og var nálægt því að setja fjórða mark leiksins.

  Bestu menn Liverpool

  Fabinho var maður leiksins í dag. Ekki aðeins skoraði hann opnunarmarkið heldur var hann gríðarlegt afl á miðsvæðinu vann boltann tilbaka í gríð og erg og tapaði varla skallabolta í leiknum. Einnig kom Jones með ró inn á miðjunna miðað við síðasta leik. Einhver sem er til í að taka boltann með sér og sækja á vörnina og fannst mér hann gera það vel í leiknum. Minamino var kannski ekki meðal bestu manna en verður að hrósa honum fyrir að koma inn á og skora á afmæli sínu.

  Slakur leikur

  Það fær allavega enginn falleinkunn fyrir leik sinn í dag. Hinsvegar voru á köflum í leiknum alltof margar lélegar sendingar, sérstaklega út úr vörninni sem sterkari lið hefðu refsað fyrir að það verður að laga.

  Næsta verkefni

  Næst er það Arsenal í seinni undanúrslitaleiknum í deildarbikarnum. Staðan í einvíginu 0-0 og höfum 90. mínútur til að koma okkur snemma á Wembley í ár.

  Einnig

  ber að nefna að kvennalið Liverpool vann í dag 1-0 sigur gegn Watford með marki frá hinni bandarísku Katie Stengel sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið eftir að hafa komið frá Valerenga. Liðið er enn á toppi deildarinnar með sjö stiga forskot á London City Lionesses sem eiga þó einn leik inni.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Brentford

  Aðeins ein villa í spá okkar um byrjunarliðið í gær en Matip byrjar leikinn en ekki Konate að öðru leiti var liðið rétt. Með innkomu Jones og Chamberlain fyrir Milner og Minamino er klárlega meiri sköpun í liðinu og vonandi að það komi í veg fyrir þá steingeldu frammistöðu sem við sáum gegn Arsenal í vikunni.

  Bekkur: Kelleher, Konate, Milner, Gomez, Minamino, Tsimikas, Gordon, Williams, Morton

  Set þetta upp svona en gæti þó líka verið að Jones sé á miðjunni Chamberlain hægra meginn af fremstu þremur og Jota vinstra meginn.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close