Upphitun: Rómverjar eru klikk

Nánast öll mín þekking á Rómverjum er fengin úr Ástríkssögunum sem gefa auðvitað mjög nákvæma og rétta mynd af öllu Rómarveldi.

Róm var svo sannarlega ekki byggð á einum degi, borgin er ein sú sögufrægasta í heimi. Talið er að Rómarveldi hafi orðið til 753 f.kr. og stóð með einum eða öðrum hætti allt til 476 e.kr er síðasta rómverska keisaranum var steypt af stóli. Reyndar má segja að Rómarveldi hafi staðið lengur því að 395 e.kr. var ríkinu skipt í tvö hluta. Vesturhlutanum var stjóranð frá Róm og féll eins og áður segir 476 e.kr. Austurhlutanum var stjórnað frá Konstantínópel og hélt allt til 1453 er Súltán Tyrkja náði þar völdum og batt endalok á Rómarveldi. Konstantínópel er í dag auðvitað þekkt sem Istanbúl þannig að hvort sem rætt er um vestur eða austurhlutann má færa rök fyrir því að Liverpool hafi lagt bæði ríkin að velli í sinni sögu.

Þegar Rómarveldi var sem stærst náði það ca. yfir þetta landssvæði og því ljóst að áhrif Rómverja eru gríðarlega á siði og venjur á vesturlöndum og víðar.

Það er hægt að taka þúsund vinkla á Rómarborg og rómverja en að þessu sinni látum við það eiga sig. Notumst áfram við þá ímynd sem Ástríksbækurnar gefa enda alveg jafn gott að trúa því sem þar stendur eins og öðrum skáldsögum.
Continue reading

Besta lið Liverpool?

Tökum þennan WBA pirring aðeins neðar og förum að hita upp fyrir stórleik vikunnar.  Sá umræðu á twitter þess efnis að Klopp hefði lítið bætt lið Liverpool m.v. lið Rodgers 2013/14.  Vinnum aðeins með þetta og höfum með fyrsta lið Benitez 2004/05 sem vann Meistaradeildina og besta lið Benitez 2008/09 sem var í titilbaráttu.

Læt fylgja með mínar vangaveltur og skoðanir um hverja stöðu fyrir sig. 

Continue reading

WBA 2-2 Liverpool

Mörkin

0-1  Danny Ings 4.mín
0-2  Mohamed Salah 72.mín
1-2  Jake Livermore 79.mín
2-2  Salomón Rondón 88.mín

Leikurinn

Okkar menn hefðu varla geta pantað betri byrjun því á fjórðu mínútu leiksins tók Liverpool stutta hornspyrnu og Mané sýndi snilldartakta með því að komast framhjá Rodriguez og leggja boltann út í teiginn. Þar stoppaði Wijnaldum boltann og stillti honum upp fyrir Danny Ings til að skora með lágu vinstrifótarskoti í markið.

Glæsileg byrjun og eftir þetta mark réðu rauðliðar gangi leiksins, héldu boltanum vel og sóttu þegar þeir nenntu því. Á 11.mínútu komst Salah inn í teiginn hægra megin og var við það að smyrja boltann í fjærskeytin en stóra táin á WBA-varnarmanni kom í veg fyrir glæsimark. WBA fór að komast meira inn í leikinn eftir því sem á hann leið og voru vel studdir af sínum áhangendum sem langaði ekki til að falla úr úrvalsdeildinni alveg strax. Liverpool voru þó áfram með tögl og haldir í leiknum og ógnuðu með fyrirgjöf Milner á kollinn á Ings og einnig fór ágæt aukaspyrna Salah rétt framhjá.

En það átti eftir að breytast og WBA náðu góðum tíu mínútna kafla þar sem þeir fengu margar hornspyrnu og voru ítrekað að komast framhjá bakvörðunum okkar en það var algengt þema í leiknum. Hættulegasta færi þeirra kom á 38.mínútu þegar hinn mjög svo líflegi Phillips átti fyrirgjöf á fjærstöng á McClean sem sendi fyrir markið og það munaði bara skónúmerinu að Rodriguez skoraði. Þessi spræki kafli WBA fjaraði þó út og á 42.mínútu fékk Danny Ings dauðafæri en Ben Foster varði frábærlega í markinu.

0-1 í hálfleik

Seinni hálfleikur var rétt nokkurra mínútna gamall þegar að Danny Ings var augljóslega felldur við það að pressa markvörð WBA í þeirra vítateig en vel staðsettur dómari leiksins dæmdi ekki greinilegt víti. Leikurinn hélt áfram sem ekta breskur barningur þar sem WBA fengu blessun títtnefnds dómara til að spila fastar er reglubókin leyfir og m.a. þótti í fínu lagi að leyfa Hegazi að kýla liggjandi Danny Ings með krepptum hnefa í magann. Hegazi slapp á undraverðan hátt allan leikinn við að fá réttláta refsingu en hann komst upp með að teika Salah í fyrri hálfleik og að lemja samlanda sinn svo viljandi í andlitið í þeim síðari.

Um miðjan síðari hálfleik gerði Klopp tvöfalda skiptingu og inná komu Firmino og Oxlade-Chamberlain fyrir Ings og Mané. Skiptingin lífgaði sóknarleik Liverpool við og fimm mínútum síðar sendi Ox-Cham boltann á Salah sem slúttaði með snyrtilegu chippi yfir Ben Foster. Í flestum tilvikum væri þetta leik lokið en gamlir ósiðir í varnarleik Liverpool fóru að gera vart við sig og WBA gáfust ekki upp. Stuttu síðar sóttu heimamenn grimmt og boltinn féll fyrir Dawson í teignum en skot hans var glæsilega varið af Karius. Því miður féll boltinn fyrir fætur Livermore sem náði að skófla honum í netið.

Vonarneistinn var kveiktur hjá WBA og þeir héldu áfram að sækja. Karius bjargaði vel þegar að hik kom á Klavan og varði vel frá Rondon. Klopp nýtti síðustu skiptingu sína til að hvíla Salah og styrkja vörnina með hafsentinum Lovren. En stuttu fyrir leikslok fengu heimamenn aukaspyrnu á vallarhelming Liverpool og góð fyrirgjöf Brunt var stönguð í netið af Rondon. Lovren á mikla sök á markinu en hann hélt ekki varnarlínu og lék framherja WBA réttstæða með því að spila ekki yfirvegaðan varnarleik. Vonbrigði fyrir Liverpool að missa niður svo vænlega leikstöðu en það þarf að gefa WBA hrós fyrir að gefast aldrei upp.

Bestu menn Liverpool

Á miðjunni var Milner sprækur fram á við og duglegur í vinnslunni að vanda og með honum á miðjunni voru Wijnaldum og Henderson líka þokkalegir. Oxlade-Chamberlain átti einnig líflega innkomu og lagði upp mark. Danny Ings fær plús í kladdann fyrir sitt mark og dugnað en hefði mátt skora úr sínu dauðafæri til að verða aðalhetjan í dag. Minn maður leiksins er Mohamed Salah sem var líflegur og skapandi og skoraði metamark sem hefði átt að duga til sigurs.

Vondur dagur

Báðir bakverðir okkar, Gomez og Moreno, áttu afar slakan dag á varnarvaktinni. Gomez missti boltann ítrekað á hættulegum stöðum og var illa staðsettur varnarlega á meðan Moreno var eins og snúningshurð fyrir Phillips sem lék hann grátt allan leikinn. Innkoman hjá Lovren var heldur ekkert til að hrópa húrra yfir þar sem að markið kemur eftir hans agaleysi í að halda agaða varnarlínu.

En versta daginn átti samt Stuart Attwell dómari sem ítrekað ákvað að líta framhjá reglubókinni varðandi gul spjöld og missti af risastórum atriðum í leiknum með vítaspyrnu og rautt spjald. Þarna hefði VAR-dómgæsla veitt slökum dómara aðhald og gildir þá einu hvort að það taki nokkrar aukamínútur til að réttlætið nái fram að ganga. Skýrsluhöfundur sér í það minnsta ekkert sjarmerandi við skelfilega dómgæslu í hvora áttina sem hún fellur.

Tölfræðin

Mo Salah skoraði sitt 31 deildarmark og jafnar þar með met Luis Suarez, Cristiano Ronaldo og Alan Shearer í 38 leikja úrvalsdeildarkeppni, en Alan Shearer og Andy Cole skoruðu 34 mörk í 42 leikja deild. Einnig er Salah kominn með 41 mark í öllum keppnum og er enn að eltast við 47 marka met Ian Rush á einu LFC-tímabili.

Annar tölfræðimoli er að eingöngu eitt gult spjald var gefið í öllum leiknum í dag og það var á Liverpool. Fáránleikhús undir leikstjórn herra Attwell.

Umræðan

Þetta var ekki besti undirbúningurinn fyrir Roma-leikinn en á endanum færir þetta eina stig okkur nær okkar markmiði að vera í topp 4 og fara að nýju í CL. Nú vantar eingöngu 4 stig í 3 leikjum sökum yfirburðar markahlutfalls okkar í samanburði við Chelsea sem verða að vinna alla sína leiki. Auðvitað veldur það óþægilegu tvisti á plottinu að einn þessara þriggja leikja verði á Stamford Bridge en lykilatriðið er að klára heimaleikina gegn Stoke og Brighton og þá er björninn unninn. Svekkelsi að missa þetta niður í dag en verður vonandi á endanum léttvægt feilskref sem engu máli skiptir.

King Klavan-vaktin

Allt stefndi í enn eitt hreina lakið hjá King Clean Sheet Klavan þegar að örlögin gripu inní og björguðu jafntefli úr klóm glæsilegs sigurs. Meistari Ragnar átti að mörgu leyti ágætan leik með nokkrum mikilvægum stoppum og var djarfur í að spila boltanum fram á við en Eistinn átti einnig nokkur slæm mistök. Eista-Einkunn: 7,0

YNWA

Liðið gegn WBA í Miðlöndum

Rauði herinn er mættur í Vestur-Miðlöndin til að takast á við botnliðið West Bromwich Albion sem tókst að framlengja sitt óhjákvæmilega fall síðustu helgi með sérlega skemmtilegum útisigri á Old Trafford. The Baggies eru 9 stigum frá því að bjarga sér með 12 stig í pottinum og því bara spurning um stærðfræðilega tilkynningu á fallstundinni en lið í svo vonlausri stöðu hafa átt það til að gera öðrum liðum skráveifu eins og WBA sönnuðu gegn Man Utd.

Því er allur varinn góður þó að Liverpool hafi stærri fisk í huga í næstu viku og byrjunarliðið endurspeglar það að miklu leyti líkt og í Merseyside-slagnum um daginn. Herr Klopp hefur skilaði inn byrjunarliðsblaðinu og það er eftirfarandi:

Bekkurinn: Mignolet, Lovren, Firmino, Oxlade-Chamberlain, Robertson, Solanke, Alexander-Arnold.

Gomez kemur inn í liðið að nýju eftir meiðslafjarveru og Danny Ings fær einnig sénsinn. Moreno kemur einnig inn í vinstri bakvörðinn og King Clean Sheet Klavan fær tækifæri til að bæta sitt frábæra vinningshlutfall. Bekkurinn er firnasterkur ef á þarf að halda til að bjarga úrslitum eða bara til að hvíla lykilmenn.

Lið WBA er eftirfarandi:

Helsta ógnunin er fram á við í Rondon og Rodriguez en þetta er lið sem hefur fengið langfæst stig í deildinni í vetur og því ættum við auðvitað að vera mun sterkari aðilinn. En fótbolti er fótbolti og allt getur gerst.

Það styttist í leik og allt fer að verða tilbúið. Klárið því vínarbrauðs-innkaupin í bakaríinu og hellið upp á kaffið eða finnið ykkar lukkubás á barnum með heppilegan drykk í hönd.

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.