maggi_mark.pngÉg heiti Magnús Þór Jónsson og er fæddur á því herrans ári 1971 á Siglufirði.

Giftur Helgu Lind, náms- og starfsráðgjafa. Á fjórar dætur, þær Thelmu Rut, Heklu Rut, Sigríði Birtu og Sólveigu Hörpu og afabarnið heitir Magnús Kári. Starfa sem skólastjóri Seljaskóla og er búsettur í póstnúmeri 109 sem kallað er #beztaBreiðholt. Er formaður knattspyrnudeildar ÍR og þjálfa þar líka 5.flokk karla, dæmi nokkra fótboltaleiki fyrir KSÍ á ári hverju.

Spilaði knattspyrnu í meistaraflokki með KS, ÍR og Ægi auk tveggja ára í 2.flokki FH. Fyrsti leikur í Íslandsmóti 1986, síðasti 1998.

Lærður íþróttakennari, knattspyrnuþjálfari og knattspyrnudómari og í meistaranámi í menningarstjórnun. Þjálfað yngri flokka hjá KS, FH, Leikni, Val, Þór og ÍR og mfl. karla hjá ÍR. Starfandi dómari hjá KSÍ frá sumri 2007.

LIVERPOOL:

Man fyrst eftir áhuga á liðinu 1977, þá 6 ára. Valdi það að halda með þeim af því að rauður var uppáhaldsliturinn minn og ég sá mynd af Keegan í búningnum. Held ég hafi séð fyrst leik Liverpool og Monchengladbach í Róm. Allavega finnst mér það þegar ég sé hann núna. Minnisstæður 7-0 sigur á Tottenham á unga aldri. Varð áskrifandi að SHOOT blöðum frá 1980 austur á Héraði og varð algerlega heltekinn síðan. Dýrðarárin frá 80 – 90 voru ein samfelld sæla. Þó er hálf skrýtið hvað stendur uppúr þar, það er jöfnunarmark sem Ian Rush/Paul Walsh skoraði gegn United í undanúrslitaleik FA-bikarsins 1984 á 119. mínútu, á 13 ára afmælisdaginn minn. Litli bróðir minn United maðurinn var viss um að dagurinn yrði mér ónýtur og veislan sorg, en við markið reyndi hann að strjúka að heiman!

Er mikill tilfinningamaður með liðið mitt og hef átt erfiða daga á móti, eins og gengur. Hef farið í nokkrar ferðir á Anfield. Í þeirri fyrstu hittum við félagarnir Graeme Souness, þáverandi stjóra, óvænt. Þegar hann frétti við værum frá Íslandi bauð hann okkur inn um allt. Fengum reyndar ekki að sjá inn í “boot room”, en hann gaf okkur leyfi til að fara inná völlinn og ég á mynd af mér standandi í markinu, fyrir framan Kop stúkuna, þegar þar voru stæði. Óhætt að segja að ég reyndi ofsalega lengi að styðja við bakið á Souness og á enn erfitt með að tala illa um hann. Skemmtilegasta minningin er þegar Gary McAllister skoraðir sigurmark á Woodiston Park (SHi*** Ground) í uppbótartíma fyrir nokkrum árum. Var að halda uppá þrítugsafmælið með vini mínum og við fengum miða í “away end”. Stórkostlegur dagur. Trúði lengi á Houllier, en gafst að lokum upp á ömurlegum leikstíl. Var mikill Rafa-maður og svekki mig enn á að hann fékk ekki lengri tíma með liðið og fannst illa farið með kónginn Kenny þegar Rodgers tók við.

Var lengi óviss um FSG en eftir að þeir lærðu á hlutverkið, ráku Rodgers og sóttu Klopp og fóru í kjölfarið að raða í kringum hann hágæðaleikmönnum er ég algerlega sannfærður um að liðið er í góðum höndum til framtíðar og í nútíð.

Draumaliðið mitt með LFC: Grobbelaar; Carragher, Hansen, Hyypia, Kennedy; Souness, Gerrard, Barnes; Salah, Rush og Dalglish. Svei mér þá, ég kem guðnum Fowler ekki í liðið. Þetta lið myndi ekki tapa nokkrum einasta leik í lífinu.

Reyni alltaf að hugsa rökrétt þegar við töpum en gleðjast þegar við vinnum. Stundum erfitt, en er handviss um að gleðistundirnar verða alltaf fleiri en þær sorglegu þegar maður fylgir Rauðliðunum frá Anfield Road.

You’ll never walk alone.