Upphitun: Liverpool mætir Arsenal á Emirates

 

Rauði herinn frá Liverpool mætir funheitu fallbyssufótboltafélagi Arsenal í Lundúnum þegar að liðin í 2. og 4. sæti deildarinnar mætast í risaslag sem gæti haft dramatískar afleiðingar fyrir lokaniðurstöðu beggja liða á tímabilinu. Rautt mætir rauðu, hart mætir hörðu og Klopp mætir Arteta! Hitum upp!

Mótherjinn

Arsenal hafa verið á blússandi siglingu upp á síðkastið með 5 sigurleikjum í röð og með því hafa þeir stimplað sig rækilega inn í baráttuna um 4. sætið og auka líkur sínar á því að hreppa gullmiðann inn í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Tímabilið hefur verið sveiflukennt á köflum hjá skyttunum en Mikel Arteta virðist loksins hafa hitt á heppilega blöndu af liðsuppstillingu og leikkerfi þannig að þessa dagana virðist meiri leikgleði ríkja innan raða liðsins.

Hugsanlega hjálpar til að búið er að lofta út hinar gallsúru gufur sem virtust kæfa búningsklefann með því að selja hinn fýlugjarna fyrrum fyrirliða liðsins, Pierre-Emerick Aubameyang, til Barcelona. Sá dramatíski viðskilnaður virðist hafa gefið öllum aðilum málsins nýtt líf og virkjað þá til jákvæðari verka. Ekki má þó heldur gleyma því að Arsenal er klárlega að njóta meðbyrs af léttara leikjaálagi síðustu vikur en það er bæði tilkomið af fjarveru þeirra frá Evrópukeppnum og ekki síður af vafasömum frestunum vegna vanhugsaðra vírusvarna.

Í það minnsta þá er ólíklegt að Arteta breyti mikið frá vinningsformúlunni sem hefur verið að virka þessar vikurnar og að mínu mati mun hann stilla upp óbreyttu liði frá heimasigrinum á Leicester:

Líklegt byrjunarlið Arsenal í leikkerfinu í 4-2-3-1

Liverpool

Úrslit mánudagskvöldsins mögnuðu mikilvægi miðvikudagsleiksins til mikilla muna og meistarabaráttan mótspænis Man City mjókkaði mikið. Örlögin eru núna alfarið í okkar höndum en auðvitað styttist óðum í innbyrðisviðureignina á Etihad sem gæti orðið úrslitaleikur í titilbaráttunni. En leikurinn á Emirates er með jafn lífsnauðsynleg 3 stig í boði í átt að Englandsmeistaratitlinum og Rauði herinn þarf að vera upp á sitt allra besta til að landa erfiðum útisigri gegn liði í öflugu leikformi.

Okkar menn eru fórnarlömb eigin velgengni að því marki að þeir hafa spilað 12 leiki á sama tíma og andstæðingurinn Arsenal hefur einungis spilað 6 leiki. Það er því ekki víst að ferskleiki sé okkar bragð þessi dægrin en hin mikla liðsbreidd sem við státum af í hópnum eru augljós tákn um gæði. Það má þó gera fastlega ráð fyrir að við munum stilla upp okkar allra sterkasta liði í þessum toppslag, sér í lagi þar sem að næsti leikur Liverpool verður í FA Cup gegn Championship-liðinu Nottingham Forrest sem býður upp á tækifæri til róteringa rétt fyrir landsleikjahléið.

Þrátt fyrir að nýjustu fréttir séu að Mo Salah hafi geta æft í dag eftir meiðslin sem hann hlaut gegn Brighton að þá ætla ég að veðja á að hann verði sparaður fyrir bekkinn til þess að taka ekki of mikla áhættu með hans langtíma heilsufar. Thiago gæti komið inn í byrjunarliðið í stað Keita til þess að bæta spilið og halda boltanum betur í von um að stjórna leiknum með yfirburðum frá miðsvæðinu. Byrjunarliðið ætti því að vera eitthvað í áttina að þessu:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Kloppvarpið

Jürgen Klopp mætti fyrir framan fjölmiðlaflóruna og svaraði öllum helstu hefðbundnu spurningum fyrir leikinn, þ.m.t. um ástand Salah og hláturskarlanna sjö, leikjaálag, :

Mikel Arteta hafði einnig ýmislegt að segja í minimalískum mónótón í aðdraganda leiksins:

Tölfræðin

 • Liverpool hafa unnið 8 Úrvalsdeildarleiki í röð.
 • Arsenal hafa unnið 9 af síðustu 11 deildarleikjum sínum.
 • Liverpool hafa haldið hreinu gegn Arsenal í síðustu 5 leikjum liðanna í öllum keppnum.
 • Arsenal hafa skorað a.m.k. 2 mörk í sínum síðustu 4 deildarleikjum.
 • Liverpool hafa haldið hreinu í 5 af síðustu 6 deildarleikjum sínum.

Spaks manns spádómur

Eftir nokkrar dauflegar frammistöður fram að síðustu helgi að þá vonumst við eftir því að stórleikur sem þessi sé nægileg mótivering til þess að draga fram allt hið besta úr okkar magnaða mannskap og vonandi mun það duga til sigurs. Það má horfa til þess að Arsenal hefur ekki unnið neitt af ensku CL-liðunum í vetur í sjö tilraunum með markatöluna 18-3 gegn LFC, MUFC, CFC og MCFC. Að sama skapi þá eru heimamenn í sínu besta formi á tímabilinu, með mun minna leikjaálag og líklega búnir að finna sitt heppilegasta leikskipulag.

Þetta verður því þrautinni þyngra en ég hef fulla trú á Rauða hernum sem ég spái að muni sigra leikinn 1-3 með mörkum frá Jota, Diaz og Fabinho en Bukayo Saka mun skora sárabótarmark fyrir skytturnar.

YNWA

11 Comments

 1. Ég ætla að spá því að ef Firmino byrji ekki, þá komi hann inná, og setji a.m.k. eitt mark samkvæmt venju.

  6
 2. Hátíðahöldin ætla aldrei að hefjast á Old Trafford…

  Vona samt innilega að við fáum ekki Atletico í drættinum á föstudaginn. Þetta er ekki fótbolti sem þeir spila.

  4
  • Það lítur reyndar út fyrir að það verði rosalega lítið af “skemmtilegum” liðum til að mæta í 8 liða úrslitum. Mögulega Benfica? Held þetta verði allt drulluerfiðir leikir.

   2
   • Þetta verða allt erfiðir leikir en það eru fá eða engin lið leiðinlegri en Atletico

    7
 3. Endaspretturinn er framundan og hann er virkilega spennandi. Arsenal er, ásamt Liverpool, heitasta lið Englands um þessar mundir og því engin lömb að leika sér við. En á meðaldegi er okkar lið örlítið betra. Úr því að MC gerði jafntefli við CP um daginn þá er deildin enn meira opin en áður. Eltingaleikurinn við MC að verða rosalegasta barátta seinni ára. 3. jan var munurinn 11 stig (Liverpool átti þá líka leik til góða).
  Ég er kvíðinn fyrir þessum leik og ekki síður leikjaálaginu. Eins gott að hópurinn haldist heill. Ef draumar okkar ganga upp eru 9 leikir á dagskrá í apríl. Mest fram að þessu í vetur 8 leikir á manuði. Klopp verður sennilega að taka einhverja sénsa, td í leiknum gegn Nottingham F, og dreifa leikjaálaginu eins og hægt er. Salah er þreyttur, Mane er sennilega lúinn, rosalegt álag á Matip og VvD, miðjumenn í einhverju meiðslaveseni, Hendó hálftæpur, Firmino ekki kominn almennilega til baka og fleira mætti telja upp. En hópurinn er öflugur sem betur fer.

  9
 4. Sæl og blessuð.

  Ætla að leyfa mér bjartsýni fyrir þennan leik. Nallar eru vissulega öflugir en eins og hefur verið rakið hafa þeir í þessari sigurgöngu sinni ekki þurft að mæta bestu liðum í PL.

  Sú staðreynd að City er að tapa stigum (og áttu að tapa stigum gegn everton) sýnir að það er hægt að ráða Pep-kóðann, amk svo langt sem það nær. Þeir gætu hæglega misst fleiri stig fyrir utan auðvitað okkar viðureign sem er meik-or-breik eins og allir vita. Svo er gaman að velta karlinum fyrir sér – úrslitaleikir og ögurstundir eru greinilega ekki hans sterkasta hlið. Þarna var hann með stórbrotna leikmenn á bekknum sem hefðu getað brotið kristals-ísinn en lét aldrei á það reyna!

  En ég horfði í þórðargleði á lánlausa og gleðisnauða mu-menn tapa í gærkvöldi. Það hljóta að verða skrifaðar doktorsritgerðir um rosalegt hrun þessa liðs. Ekkert virðist ganga upp þótt þeir kaupi allt sem hægt er að kaupa af leikmönnum sem ellefu ára sonur minn gæti valið í lið handa þeim.

  Sancho – munið þið eftir því þegar hann bar á góma hér í spjalli? Sjóðheitur í Dortmund en er enn eitt dæmið um það hversu fljótt fellur á silfrið hjá grönnum okkar. Hann var vissulega sprækur framan af en í seinni hálfleik fóru grjótharðir madrídarmenn létt með að ræna hann boltanum. Það er gaman af þessu og ekki væri nú verra ef við myndum landa 20. englandsmeistaratitlinum í vor!

  Já, AM er ekki skemmtilegasta liðið en ég hafði engu að síður gaman af því að sjá þá vinna í gærkvöldi!

  8
 5. Af hverju er AM svona leiðinlegt lið? Come on þeir spila þennan bolta sem allir vita, og við höfum kynnst. Það að manu hafi ekki vitað þetta er fáránlegt. Arsenal er að stækka, verða svona að semi alvöru liði, en gæðin milli okkar er bara of mikil fyrir þá. Hef engar áhyggjur af meira leikjaálagi okkar liðs. Ég meina, allir fótboltakappar segja, mig langar að spila í Meistaradeildini, draumur minn síðan ég var 8ára, að ónefndum öðrum keppnum. Líf leikmanna í hnotskurn sem spila hjá liðum í háklassa liðum, sem berjast á öllum vígstöfðum. Liverpool er háklassa lið og hagar sér skv. því.

  YNWA

  2
 6. Þessi leikur í kvöld verður ekki fyrir hjartveika held ég og mikið innilega vona ég að við tökum þetta sannfærandi í kvöld. Ekki viss um að ég lifi annað af.

  Að öðru. Nýji borðinn efst á síðunni er fínn en ættu ekki að vera sex stjörnur þar sem mig minnir að þær tákni Meistaradeildartitla?

  10
 7. Sælir félagar

  Ég býst við hunderfiðum leik og mér kæmi ekki á óvart að Granithausinn mundi fá rautt eftir að hafa slasað einhvern leikmanna okkar. Það væri eftir bókinni. Hvað sem öllu líður þá vil ég fá og bið um sigur. Hvernig eða hvað stóran eða smáan skiptir mig ekki máli. Bara sigur er það sem ég bið um.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
 8. Gleður mig að sjá að Klopp les kop.is reglulega og tók eftir ábendingu minni um daginn varðandi Mo Salah og hvers vegna hann fær ALDREI neinar aukaspyrnur. Nú vill Klopp, réttilega, að blaðamenn fari að spyrja gagnrýninna spurninga um dómara deildarinnar. Hvers vegna þeir dæma t.d. sex sinnum oftar aukaspyrnu ef Grealish er felldur en þegar Salah er felldur. Segiði svo að kop.is breyti ekki gangi heimsmálanna!

  11
 9. Arsenal – Liverpool eru oft opnir og skemmtilegir leikir því að bæði liðinn eru þekkt fyrir að vilja sækja. Þeir eru ekki að fara að pakka í vörn í 90 mín og það hentar okkur vel en á móti kemur þá eru þeir með hraða sem gæti gert varnarlínu okkar erfitt fyrir.

  Þegar maður horfir á leikjaprógrammið og sér að Man City á Steven Gerrard Villa eftir þá hugsar maður að Gerrard mun láta sína menn selja sig dýrt í þeim leik en á móti kemur þá er Everton maðurinn og fyrrum aðstoðaþjálfari Man City að stjórna Arsenal í dag og honum langar ekkert meir en að skemma fyrir Liverpool og gleðja City/Everton stuðningsmenn (báða) .

  Þetta verður naglbítur spái ég og ætla að giska á 1-2 sigur okkar manna þar sem Mane og Van Dijk skora mörkin.

  YNWA – Það eru bara úrslitaleikir eftir á þessu tímabili og er þetta líklega ein af þeim erfiðari sem eftir er. Jafntefli myndi en þá þýða að titilinn er í okkar höndum( þurfum að vinna City á útivelli) svo að það væru ekki verstu úrslitin en sigur myndi gera það að verkum að við gætum komist upp fyrir Man City með heimasigri á Watford (við leikum á undan þeim)

  5

Gullkastið – Þrumustuð í Brighton

Liðið gegn Arsenal – Salah á bekknum