Upphitun: Sápukúluslagur vs. West Ham United á London Stadium

Liðin í 7. og 14. sæti mætast á London Stadium á miðvikudagskvöldið í deildarleik sem er ágætlega mikilvægur báðum liðum í sitt hvorri baráttunni um sæti í Evrópukeppni annars vegar og gegn fallslag hins vegar. Rauði herinn frá norðrinu mætir vestlægu Hömrunum í Austur-Lundúnum og til þess þarf upphitun! Upp, upp, mín sápukúla!

Mótherjinn

Hinar sögulegu sápukúlur munu svífa sultuslakar til skýjanna steinsnar frá Stratford-stöðinni þegar að West Ham tekur á móti Liverpool í 32. umferð deildarinnar. Gestgjafarnir hafa oft verið gjöful fiskimið fyrir fengsælan Rauða sjóherinn en heimamenn hafa gott sjálfstraust þessa dagana eftir gott gengi innanlands sem utan undanfarnar vikur. Í síðustu 10 leikjum sínum þá hafa þeir eingöngu tapað einum leik (gegn Newcastle) og hafa unnið 6 sigra sem hafa komið þeim alla leið í undanúrslit í UEFA Europa Conference League og nálægt lygnum sjó í deildartöflunni.

Það má því segja að West Ham séu að toppa á réttum tíma miðað við sveiflukennt gengi fyrr á tímabilinu þar sem að á vormánuðum voru illar tungur jafnvel farnar að gefa í skyn að David Moyes myndi missa starfið, jafnvel til fyrrum LFC-stjórans Brendan Rodgers ef marka mátti fréttamennsku Gróu á London Stadium. En Davíð þraukað gegn Golíat og Íslandsvinurinn Moyes á enn nokkur af sínum 9 kattarlífum eftir…….eins lengi og hann passar sig á Zouma.

Heimamenn geta stillt upp því sem næst sínu sterkasta liði þar sem eingöngu Gianluca Scamacca er formlega á meiðslalistanum. Það þýðir að ensku landsliðsmennirnir Rice og Bowen verða á sínum stað en það eru leikmenn sem Liverpool og önnur stórlið gætu horft löngunaraugum til í næsta sumarglugga. Brasilíumaður Lucas Paquetá hefur einnig verið sprækur á tímabilinu og Tomás Soucek er alltaf skeinuhættur í föstum leikatriðum þannig að varnarmenn Liverpool þurfa að hafa góðar gætur á þeim ásamt hinum ólseiga Michail Antonio.

Að öllu ofansögðu þá er líklegt byrjunarlið West Ham á þessa leið:

Líkleg liðsuppstilling West Ham United í leikskipulaginu 4-2-3-1

Liverpool

Okkar menn eru á sæmilegri uppsveiflu með því að vera ósigraðir í fjórum deildarleikjum með tveimur jafnteflum gegn sterkum liðum Arsenal og Chelsea ásamt tveimur sigrum gegn Leeds og Nottingham Forest. Við Púlarar fögnum að sjálfsögðu hverjum jákvæðum úrslitum sem í boði eru á tímabili verulegra vonbrigða og vonandi verður áframhald á þeirri þróun í Lundúna-leik kvöldsins.

Heilsuhreysti leikmanna er með skárra móti þrátt fyrir að Bobby hafi bæst á meiðslalistann fyrir síðustu helgi og er hann þar á blaði ásamt Ramsey, Bajcetic og Keita. Klopp hefur því óvenju mikinn lúxus í leikmannavali fyrir leikinn en er þó frekar líklegur til að halda sig við siguruppstillingu tveggja síðustu leikja og einu jafntefli betur. Hið óbreytta byrjunarlið er því líklegt til að halda sér þó að vissulega megi daðra við vangaveltur um róteringar á miðjunni í ljósi spjaldafjölda Fabinho eða árafjölda Henderson en ég ætla að vera íhaldssamur að þessu sinni og spá staðföstum stöðugleika.

Klopp er því líklegur til að skila inn ljósriti af síðustu leikskýrslum sem lítur svona út:

Líkleg liðsuppstilling Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3.

Tölfræði

  • Liverpool hafa unnið 6 af síðustu 7 leikjum gegn West Ham í öllum keppnum.
  • Liverpool hefur 55% vinningshlutfal gegn WHUFC í öllum 146 leikjum í sögu liðanna með jafntefli í 25% leikjanna og eingöngu 20% taphlutfall.
  • Á heimavelli West Ham hefur Liverpool sögulegt 39,4% vinningshlutfall gegn 35,2% heimamanna.
  • Klopp og Moyes hafa mæst 10 sinnum og hafa leikar endað með 8 sigrum meistara Jürgen, einu jafntefli og 1 sigri David.
  • David Moyes hefur stýrt liði 38 sinnum gegn Liverpool og tapað í 60,5% þeirra leikja með 23,7% jafntefli og eingöngu 15,8% vinningshlutfall í samtals 6 sigurleikjum. Markahlutfallið í þessum 38 leikjum er 60 mörk fengin á sig og 30 mörk skoruð.

Upphitunarlagið

Til að hamra inn hugsanlegar hamfarir gegn Hömrunum að þá dugar ekkert minna en meistari Nick Cave með sitt magnaða The Hammer Song. Rauði herinn verður að biðja og vonast til þess að hljóta ekki sömu magnþrungnu misþyrmingar líkt og sögumaður sönglagsins svakalega:

I stumbled into a city
Where the people tried to kill me
And I ran in shame
Then I came upon a river
And layed my saddle down
And then the hammer came down
Lord, the hammer came down
It knocked me to the ground
And I said, “Please, please
Take me back to my home town”
Lord, the hammer came down

Kloppvarpið

Jürgen Klopp tæklað ýmis mál fyrir framan tökuliðið og þ.m.t. sjóðheitan Jota, styrkleika West Ham, aldursgreiningu á Moyes, framgang og framtíð Conor Bradley og önnur málefni. Sjón er sögu ríkari:

Spaks manns spádómur

Liverpool munu spila til sigurs að vanda og hafa þá góðu gulrót til hvatningar að geta komist yfir Tottenham í 6.sæti í töflunni með 3 stigum á erfiðum útivelli. Það er Evrópukeppni í boði til að spila um þó að nákvæmlega hvaða keppni það verður mun þurfa að bíða lokaniðurstöðu tímabilsins. Fram að því er það eina sem okkar menn geta gert er að einbeita sér að næsta leik og að bjarga því sem bjargað verður.

Til þess að vega og meta lógísk úrslit leiksins að þá leitar minn líkindareikningur og tölfræði til samanlagðs markahlutfalls Moyes-liða gegn LFC með 30 mörk skoruð gegn 60 mörkum fengin á sig. Ályktunarhæfni mín ágiskar því á 1-2 útisigur Liverpol þar sem að Bowen skorar fyrir heimamenn en Salah setur eitt útimark ásamt sjálfsmarki Zouma í kátlegu kattarkarma.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

2 Comments

  1. 2 lið sem hafa verið að vakna eftir slæmt tímabil, við verðum að eiga toppleik ef við eigum að fara þaðan með 3 stig.
    Ég er sammála með byrjunarliðið, nema kannski að setja Nunez inn fyrir Gakpo.
    Þetta verður hörkuleikur en ég held að við siglum tæpum 2-3 sigri.

    3
  2. Sælir félagar

    Ég á vona á afar erfiðum leik þar sem lítið skilur á milli feigs og ófeigs. Ég er sammála Magnúsi með uppstillingu og reikna með að Darwin komi ínná á 60. mínútu eða svo. Hvað annað varðar veit ég ekkert um en vona hið besta. Spái eins marks sigri í hunderfiðum leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3

Stelpurnar fá Brighton í heimsókn

Liðið gegn West Ham