Bajcetic skrifar undir nýjan samning
Í dag var tilkynnt að hinn 18 ára Stefan Bajcetic (eða Stevie B eins og gárungarnir kalla hann) hefði skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið. Klopp er þar með að verðlauna strákinn fyrir framgöngu sína undanfarnar vikur og mánuði, og þessi nýji samningur er fyllilega verðskuldaður.
Ef við hefðum spurt fyrir ári síðan “Hvaða leikmaður U18 eða U21 heldur þú að verði næsti leikmaður til að byrja deildarleik með aðalliðinu?” þá stórefast ég um að margir hefðu merkt við Bajcetic. Fyrir ári síðan var hann rétt svo búinn að vera ár hjá klúbbnum, og þá eingöngu spilað með U18. Ég hugsa að flestir hefðu líklega nefnt Kaide Gordon, mögulega leikmenn eins og Balagizi, hugsanlega einhver hent í Musialowski. Owen Beck og Conor Bradley hefðu sjálfsagt fengið nokkur atkvæði. Jafnvel Cannonier.
Þetta sýnir því hvað þessi framganga kjúklinganna okkar er ófyrirsjáanleg. Leikmenn sem eru á allra vörum og líta út fyrir að vera alveg að springa út geta auðveldlega fengið vaxtarverki í heilt ár (eins og Kaide Gordon), nú eða einfaldlega rekist á einhvern vegg og aldrei stigið upp úr því að vera efnilegir (eins og virðist vera að gerast með Musialowski). Við sjáum þetta með markmennina, fyrir ekkert svo löngu síðan þótti Kamil Grabara vera lang mesta efnið meðal kjúklinganna okkar, Kelleher var vissulega ekkert langt undan, en klárlega meira talað um Grabara. Við sjáum hvernig þeir eru í dag, Kelleher er núna sá markvörður sem hefur unnið flestar vítakeppnir í sögu klúbbsins. Geri aðrir betur.
Eftir þessa lýsingu á því hvað það er geðveikislega erfitt að spá fyrir um þessa hluti, þá skulum við leggja spurninguna hér að ofan fyrir ykkur, lesendur góðir:
Hvaða leikmaður U18 eða U21 heldur þú að verði næsti leikmaður til að byrja deildarleik með aðalliðinu?
Endilega hendið ykkar ágiskun í athugasemdir við færsluna, og megið alveg setja rökstuðning með ef þið eigið slíkan í handraðanum. Hér má nefna alla leikmenn U21 og U18, hvort sem þeir spila með Liverpool í dag eða eru á láni. Einnig má svara “Einhver sem er ekki hjá klúbbnum”, því sá möguleiki er að sjálfsögðu fyrir hendi. Athugið að bikarleikir teljast ekki með, enda mun algengara að leikmenn fái tækifæri þar án þess nokkurntímann að eiga séns á að spila í deildinni. Rétt svar kemur í ljós um leið og einhver nýr leikmaður úr akademíunni byrjar deildarleik. Hvenær það verður er svo ógjörningur að segja, en ég ætla þó að spá því að það gerist á meðan Klopp stýrir klúbbnum.
[...]