Latest stories

 • Liverpool – Rangers 2-0

  1-0 Trent, 7 min
  2-0 Salah, 53 min (víti)

  Klopp gerði 2 breytingar frá því í jafnteflisleiknum gegn Brighton. Inn komu Jota og Nunez í stað Fabinho og Carvalho sem þýddi að heimamenn byrjuðu með fjóra sóknarmenn inná í þetta skiptið.

  Okkar menn byrjuðu af miklum krafti og á 6 mínútu var brotið á Jota rétt fyrir utan teig. Eftir mikil fundarhöld steig Trent fram og skoraði með frábæru skoti yfir vegginn, 1-0.

  Liverpool hélt áfram að pressa og gera sig líklega. Salah átti frábært skot á 13 mínútu eftir fínt samspil með Nunez en McGregor varði frábærlega í horn. Við héldum áfram að ógna, Jota komst nálægt því að tvöfalda forystuna og VVD var ekki langt frá því að komast í boltann eftir hornspyrnu en inn vildi boltinn ekki. Þegar þarna var komið (30 mín) þá var Liverpool 70% með boltann en, eins og oft áður, þá voru yfirburðirnir ekki að endurspeglast í stöðunni.

  Á 33 mínútu kom loksins almennilegt færi úr opnum leik. Henderson átti frábæra sendingu yfir vörn Rangers á Nunez sem var einn gegn McGregor en skotið var slakt og beint á markvörð gestanna. Mínútu síðar átti Liverpool aftur að tvöfalda forystuna eftir hörmulega varnarvinnu gestanna þegar Diaz var gefin flugbraut inn á vítateig Rangers en skotið var lélegt og McGregor hélt boltanum auðveldlega.

  (more…)

  [...]
 • Liðið gegn Rangers

  Þá er lið fyrir verkefni kvöldins klárt og það er sóknarsinnað!

  Vörnin er óbreytt frá því gegn Brighton (getum rætt hvort það sé jákvætt eða ekki) en Jota og Nunez kom inn í stað Fabinho og Carvaho.

  Annað og ennþá merkilegra. Við fáum það líklega formlega staðfest að Ben Davis sé raunverulega til því hann byrjar í kvöld fyrir Rangers!

  Ég ætla að leyfa mér að heimta sigur í kvöld.

  Koma svo!

   

  YNWA

  [...]
 • Upphitun: Glasgow Rangers á Anfield

  Rauði herinn mætir til leiks í Meistaradeildinni eftir dapran deildarleik um helgina og vonast til þess að gera betur á Anfield gegn skoska stórliðinu Glasgow Rangers. Merkilegt nokk þá verður þetta fyrsti keppnisleikur liðanna í milli en bæði eiga það sameiginlegt að hafa fagnað deildarbikartitli á síðasta tímabili ásamt silfurmedalíum í sinni heimadeild og einnig í úrslitaleik í Evrópu. Þegar enskir mæta skoskum þá er ávallt von á neistaflugi!! Hitum því eldheitt upp!!

  Mótherjinn

  Evrópu-Einar mun hita upp fyrir útileikinn í Glasgow-borg eftir rúma viku og við gefum honum því sviðið hvað varðar safaríka sagnfræði eins og honum er einum lagið. Ég mun líta til þessa núverandi liðs Rangers sem átti ágætt fyrsta tímabil undir Giovanni van Bronckhorst en Hollendingurinn tók liðinu af Steven okkar Gerrard í nóvember í fyrra þegar SteG fór til Aston Villa. Sem fyrrum leikmaður Rangers þá þekkir Giovanni vel til klúbbsins en einnig gerði hann garðinn frægan með Arsenal og Barcelona og hann varð einmitt Evrópumeistari með Barca þegar þeir lögðu Skytturnar í úrslitaleik CL árið 2006.

  Þá fékk hann silfurmedalíu á HM 2010 þegar Holland beið lægri hlut fyrir heimsmeisturum Spánar en samtals spilaði van Bronckhorst 106 landsleiki og varð landsmeistara í Skotlandi, Englandi og Spáni. Sem leikmaður láðist honum að vinna deildina í heimalandinu en hann bætti úr því í sínu fyrsta stjórastarfi með Feyenoord er þeir urðu Hollandsmeistarar árið 2017. Þar fór auðvitað fremstur í flokki Kop-hetjan Dirk Kuyt sem skoraði þrennu í lokaleik tímabilsins til að tryggja titilinn með eins stigs mun:

  Í liði gestanna verða nokkur kunnugleg andlit en Ryan Kent hefur gert mjög góða hluti hjá Rangers síðan hann kom til Glasgow frá Liverpool árið 2018, fyrst að láni en síðan keyptur. Í sumar bættist Ben Davies í hópinn en kaupin á honum fyrir um 4 millur punda voru dýrasta innkoman í kaupglugganum en tyrkneski vinstri bakvörðurinn Ridvan Ylmaz og hinn velski vængmaður Rabbi Matondo komu einnig fyrir ögn lægri upphæðir. Davies er ætlað að fylla skarð Calvin Bassey í vörninni en hann var seldur til Ajax fyrir 20 mill punda í sumar sem er hæsta leikmannasala í sögu Rangers.

  Þá kom Króatinn Antonio-Mirko Kolac líka í sumar en sóknarmaðurinn hefur verið sjóðheitur í skosku deildinni með 8 mörk í 8 deildarleikjum ásamt 3 mörkum í forkeppni CL og sá gæti pottþétt að hann gæti reynt á okkar veiku varnartilburði sem einkennt hafa síðustu leiki Liverpool. Önnur hættuleg markaógn er spyrnusérfræðingurinn James Tavarnier sem hefur skorað 86 mörk og skapað 111 stoðsendingar í 361 leik úr hægri bakvarðarstöðunni frá árinu 2015 er hann kom til liðsins og það hlýtur að teljast ansi magnaður árangur. Þá gæti hin þaulreyndi og fertugi Allan McGregor staðið á milli markstanganna en hann hefur spilað rúma 450 leiki fyrir Rangers í tveimur törnun en á árum áður var hann samherji Andy Robertson hjá Hull City.

  Segja má að Rangers hafi gert mjög vel í að fara alla leið í riðlakeppni CL með því að komast við ramman leik í gegnum Royale Union Saint-Gilloise frá Belgíu og hollenska stórveldið PSV Eindhoven. Þeim hefur þó ekki vegnað vel í fyrstu leikjunum eins og samanlagður 0-7 skellur gegn Roma og Napoli undirstrika en batamerki mátti sjá á leik liðsins í 0-4 útisigri gegn Hearts of Midlothian um síðustu helgi. Þeir munu því leggja allt í sölurnar í bardaganum um Bretland til að bjarga sinni CL-þátttöku frá glötun þetta árið og munu stilla upp sínu sterkasta liði sem í boði er:

  Líklegt byrjunarlið Glasgow Rangers í leikskipulaginu 4-2-3-1

  Liverpool

  Það var þrælsvekkjandi að okkar menn kæmu ekki betur undirbúnir til leiks heldur en raun bar vitni síðastliðinn laugardag. Landsleikjahléið var greinilega ekki að nýtast okkur neitt sérstaklega vel til endurskipulagningar en hafa ber í huga að fjölmargir okkar fastamanna ferðuðust út um hvippinn og hvappinn til að sparka í bolta fyrir hönd sinnar þjóðar. En öll helstu vandamál okkar upp á síðkastið voru opinberuð í slælegri byrjun í upphafi leiks, sundurleitri spilamennsku, samhengislausu sóknaruppleggi og vandræðalegum varnarleik.

  Við vorum svo sem næstum búnir að bjarga okkur fyrir horn með ágætri endurkomu en það hefði í raun bara fegrað þá staðreynd að fjölmargir lykilmenn eru að spila langt undir getu og liðið í heild er ekki að spila vel saman sóknar- eða varnarlega. Í raun má segja að bara Diaz, Alisson, Firmino og kannski líka Elliott séu að spila á eðlilegri getu sem ætlast mætti til af þeim en aðrir séu mislangt undir eigin viðmiðum. Það má fara í eldheita eldhúskrókasálfræði ásamt fullfermi af fótboltafrösum til að leita að ástæðunni en við verðum bara að vona að okkar menn finni taktinn hið snarasta því annars er hætta á einhvers konar hruni í frammistöðu sem átti sér stað í byrjun árs 2021 eftir erilsöm ár á undan.

  Helsta vangaveltan fyrir þennan leik er hvort að Klopp muni horfa til þess að rótera sínum mannskap fyrir stórleikinn gegn Arsenal um næstu helgi eða hvort hann muni veðja á sitt allra sterkasta lið. Ég hygg að hann hallist frekar að fleiri fastamönnum en færri til að stíla inn á öruggan heimasigur í riðli þar sem við megum ekki við mörgum mistökum. Kannski gæti hann litið á þetta sem tækifæri til að koma mönnum eins og Salah í gang en ég ætla að spá því að Darwin Nunez fái sæti í byrjunarliðinu í framlínunni. Þá hefur Trent Alexander-Arnold eðlilega verið milli tannanna á fólki fyrir verulega vonlausa varnarvinnu á löngum köflum og ég ætla að spá því að Klopp gefi Gomez sénsinn í hægri bakverðinum í þessum leik.

  Þetta er því mitt uppkast að byrjunarliði heimamanna:

  Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

  Kloppvarpið

  Stjórinn fór yfir ástandið á varnarmálunum, stöðuna á Rangers og skoska boltanum, aðlögun Nunez og okkar fyrrum leikmann Ben Davies.

  Tölfræðin

  • Liðin hafa aldrei mæst í keppnisleik en í 10 æfingaleikjum þá er leikar hnífjafnir með 4 sigra á hvort lið með 2 jafntefli og markatöluna 16 gegn 15 mörkum Liverpool í vil.
  • Rangers hafa ekki unnið í 25 af síðustu 28 leikjum liðsins í Meistaradeildinni.

  Upphitunarlagið

  Það er úr fjöldamörgum böndum að velja sem eiga uppruna sinn í Glasgow-borg en ég ákvað að vonast eftir því að Primal Scream veki upp fótboltaleg frummennsku öskrin í Rauða hernum og Movin’ on Up færi okkar ofar upp í töflum og titilbaráttum. Það er einnig ágætlega við hæfi að Bobby Gillespie kyrji sína söngva til dáða Liverpool enda mikill Glasgow Celtic stuðningsmaður og myndi klárlega vilja syngja YNWA með okkur Púlurum í sigurleik yfir Rangers á Anfield.

  Spaks manns spádómur

  Ég geri fastlega ráð fyrir góðri stemmningu á Evrópukvöldi á Anfield og þá sérstaklega þegar að skoskt lið mætir í bæinn með sína ágætu áhangendur. Miðað við leikformið á Liverpool að þá megum við ekki við neinu vanmati eða slappri byrjun á leiknum og við ætlumst til þess að okkar menn vakni af sínum væra blundi með miklum hvelli. Munurinn í gæðum á ensku og skosku úrvalsdeildinni ætti að vera undirstrikaður í kvöld með skyldusigri þó að mun erfiðara gæti verið að heimsækja Skotana á Ibrox að viku liðinni.

  Mín spá er að við höldum hreinu og skorum nokkur ágæt mörk í 3-0 heimasigri þar sem að Nunez skorar tvö mörk og Salah setur eitt.

  YNWA

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Continental bikarkeppnin að byrja hjá kvennaliðinu

  Nú er að hefjast fyrsti leikur kvennaliðsins í Continental Cup bikarkeppninni, þar sem fyrst er byrjað á riðlakeppni og svo fara sigurliðin í hverjum riðli í útsláttarkeppni eftir það. Okkar konur eru í riðli með Blackburn, Leicester, Manchester City og Sundeland, og það er einmitt síðasttalda liðið sem verða sóttar heim í dag.

  Matt Beard lofaði því fyrir leik að rótera og það hefur hann sannarlega gert:

  Cumings

  Robe – Silcock – Matthews

  Koivisto – Furness – Wardlaw – Campbell

  Humphrey – Stengel – Daniels

  Bekkur: Laws, Kirby, Fahey, Flaherty, Hinds, Kearns, Holland, Lawley

  Planið var víst að Rhiannon Roberts myndi byrja í hægri vængbakverðinum, en svo kom upp eitthvað hnjask hjá henni og Emma Koivisto byrjar í hennar stað.

  Planið er víst að sýna leikinn á Twittersíðu Sunderland, síðast þegar ég vissi var tæknin eitthvað að stríða þeim og það streymi var ekki komið upp, en við hendum inn link ef þetta lagast hjá þeim. Annars uppfærum við færsluna síðar í dag með úrslitum.

  [...]
 • Liverpool – Brighton 3-3

  Fyrir leik pælingar.

  Höfum við verið ólíkir sjálfum okkur í upphafi tímabils eða erum við bara svona í dag. Lið sem er með fullt af gæðum og hættulegir sóknarlega en miðsvæðið vantar smá kraft og við elskum að gefa mörk.

  Fyrri hálfleikur

  3. Mín Trossard skorar í fyrstu sókn Brighton í leiknum. Hendo allt of linur, Trent selur sig og Trossard skorar 0-1
  8. Mín Wellbeck í góðu færi en skallar beint á Alisson.
  11.Mín Firmino í ágætu skotfæri en þeir ná að kasta sér fyrir.
  13.Mín Alisson með heimsklassa markvörslu og við stálheppnir að lenda ekki tveimur mörkum undir.
  17.Mín Trossard skorar aftur og eiga þeir þetta einfaldlega skilið. 0-2
  30.Mín Salah í góðu færi en vel varið. VAR hefði líklega dæmt hann rangan.
  33.Mín Firmino skorar eftir sendingu frá Salah er líklega rangur eða hvað?? Hann er réttur og von um góð úrslit en þá til staðar 1-2
  45 Mín Brighton menn vilja fá víti en þetta er aldrei víti.

  Vinur minn hringdi í mig þegar 15 mín voru búnar af leiknum og spurði hvort að leikurinn væri ekki örugglega klukkan 15:00. Ég held að ég þurfi að láta Liverpool liðið hafa númerið mitt og minna þá á hvenær leikirnir byrja, því að okkar strákar létu ekki sjá sig fyrstu 20 mín í leiknum. Venjulega gefum við liðum mark í forskot en tvö mörk eru fullmikið af því góða.
  Liðið áttaði sig á því að leikurinn var byrjaður og sótti alveg af krafti og voru gestirnir lengi vel í varnarpakka fyrir framan teiginn en við náðum ekki að opna þá mikið.
  Þetta er orðið mjög þreytt með að gefa mörk og leit Trent því miður mjög illa út í báðum mörkunum.

  Ég vona að menn spila af krafti síðustu 45 mín. Að kappar eins og Diaz, Jota og Nunez geta komið eitthvað við sögu breytt gangi leiksins. Þetta er ekki búið en afhverju í andskotanum þurfum við alltaf að gera okkur þetta svona erfitt.

  Síðari hálfleikur

  50.Mín Matip klaufi að tapa boltanum og Brighton í ágætu færi.
  53.Mín Firmino með virkilega flott mark. Diaz með stoðsendingu og Firmino platar menn upp úr skónum inn í teig. 2-2
  56.Mín Firmino í góðu skalla færi en inn vill boltinn ekki.
  58.Mín Tsimikas í ágætu færi en í staðinn fyrir að skjóta ætlar hann að leika á einn sem klúðrast.
  63.Mín Sjálfsmark hjá Brighton eftir hornspyrnu. 3-2
  74.Mín Alisson ver vel skalla frá Wellbeck en þarna lítur Van Dijk ekki vel út.
  84.Mín Trossard skorar eftir fyrir gjöf en Van Dijk klúðrar að hreinsa í aðdraganda marksins. 3-3
  91.Mín Trent á góða aukaspyrnu en hún er vel varin.

  Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og voru komnir í 3-2 eftir 17.mín. Brighton átti svo góðan kafla rétt á eftir þar sem þeir lágu á okkur en við náðum að standast hann og hélt maður að þá værum við komnir yfir erfiðasta hjallan. Við vorum aftur komnir með tök á leiknum en svo upp úr þurru ná þeir að skora í restina og því fór sem fór.

  Bestu leikmenn liðsins
  Það væri auðveldara að nefna þá leikmenn sem maður fannst slakir t.d lykilmenn Trent, Van Dijk, Salah og Fabinho en maður leiksins hjá okkur er án efa Firmino með sín tvö mörk.

  Umræðan

  Anda inn anda út
  Djöfull er maður orðinn pirraður á þessari frammistöðu okkar manna. Byrja ekki leiki og missa svo 3 stig í 1 stig eftir klúður. Þetta erum við einfaldlega í dag. Við vorum andlega skrímsli og maður fannst flott að snúa 0-2 í 3-2 en að ná ekki að klára þá stöðu er einfaldlega lélegt og ekki boðlegt. Jájá Brighton hefur verið að sigra okkur og ná stigum gegn okkur og eru með flott lið en þetta skrifast 100% á okkur þessi tvö töpuðu stig í dag.
  Maður hélt að við þurfum á þessu landsleikjarhléi að halda til að komast aftur í gang en maður sér engan mun á liðinu og þurfa Klopp og strákarnir að fara í naflaskoðun og snúa þessu við strax.

  Næstu leikir eru heimaleikir gegn Rangers í meistaradeild og útileikur gegn Arsenal í deild.

  YNWA – Í blíðu og stríðu en núna er þetta aðalega í stríðu sem er hundleiðinlegt.

  p.s Ef maður skoðar þessa pælingu fyrir leikinn aftur þá er hún að hallast í þá áttina að við erum bara ekkert betra en þetta.

  [...]
 • Loksins aftur deildarleikur!

  Fyrir rétt tæplega mánuði síðan, laugardaginn 3. september um kl. 14:25, flautaði Anthony Taylor til leiksloka í leik Liverpool og Everton. Ég stórefast um að nokkur einasti Liverpool aðdáandi hafi látið sér detta í hug að næsti deildarleikur yrði ekki fyrr en mánuði síðar. En örlögin höguðu því þannig að næstu tveim leikjum var frestað vegna andláts og jarðarfarar Elísabetar drottningar heitinnar, og svo tók við landsleikjahlé. Jújú, tveir leikir gegn Napoli og Ajax linuðu þrautirnar örlítið, þó sá fyrri hafi reyndar skapað annarskonar og verri þrautir.

  En hér erum við stödd, kvöldið fyrir fyrsta deildarleikinn í hérumbil heilan mánuð. Nánast að þorna upp af fótboltaskorti. Mótefnið er á leiðinni, og það er leikur á Anfield á morgun. Verður þetta auðveldur leikur? Það er vafasamt. Mótherjinn er Brighton, lið sem var að missa knattspyrnustjórann sinn til Chelsea og mun því státa nýjum manni á hliðarlínunni. Roberto De Zerbi er Ítali sem síðast þjálfaði Shaktar Donetsk, reyndar ekki nema í tæpt ár, en á þeim tíma sá hann til þess að Shaktar unnu samfélagsskjöld þeirra Úkraínumanna, og skildi við liðið á toppi deildarinnar sem þurfti að fresta vegna innrásar Rússa. Semsagt: Liverpool er að fara að mæta knattspyrnustjóra sem er bókstaflega nýkominn af vígvellinum.

  Annað sem bendir til þess að þetta verði erfiður leikur er að í þetta sinn er Brighton liðið sem er í toppbaráttu, en Liverpool er rétt fyrir ofan miðja deild. Jújú, Liverpool er búið að leika einum leik minna en flest önnur lið, en það sama á við um Brighton.

  Það þriðja sem bendir til þess að þetta geti orðið erfiður leikur er sú staðreynd að Liverpool þarf rythma. Liðinu virðist líða best þegar leikirnir eru það margir að það gefst enginn tími til að láta hausinn fara á eitthvað flug, það er bara næsta verkefni. Svoleiðis tímabil er vissulega yfirvofandi, en okkar menn löbbuðu síðast út á grasið þann 13. september. Slíkt hefur alltaf verið til þess að skemma rytmann í liðinu. Reyndar benti Klopp svo snilldarlega á að rytminn sem var í liðinu eftir Napólí leikinn mátti bara alveg við því að skemmast, þvílík var frammistaðan. Og jújú, hann skánaði aðeins í Ajax leiknum, en síðan eru liðnar næstum 3 vikur. Svoleiðis er ekki gott fyrir rytmann.

  Á hinn bóginn hjálpar það e.t.v. okkar mönnum að ýmsir leikmenn fengu smá ráðrúm til að ná sér af meiðslum. Henderson er farinn að spila aftur. Konate er mættur til æfinga. Sama á við um Ramsay og Kelleher, þó slúðrið segi að þeir muni byrja á að spila leiki með U21 (sem fær einmitt Arsenal í heimsókn til Kirkby á morgun). Það styttist í Jones, en Keita og Ox eru enn sem komið er frá og verða enn um sinn. Sjálfsagt kemur Ox fyrst til æfinga um það leyti þegar HM byrjar, og nær svo að meiðast á æfingu rétt fyrir fyrsta leik eftir HM. Í augnablikinu er það samt þannig að Andy Robertson er ekki búinn að ná sér, og verður því ekki til taks á morgun. Þetta er líklega stærsta skarðið í leikmannahópnum í augnablikinu. En breiddin er að færast í eðlilegt horf, og ekki seinna vænna því næsta mánuðinn eða svo verður leikið með 3.2 daga millibili að meðaltali. Sumsé, rétt svo tími fyrir gott ísbað milli leikja.

  Það eru nokkur spurningamerki varðandi uppstillinguna á morgun. Er Hendo klár í að byrja? Ef ekki, þá ætla ég að veðja á að Milner byrji við hliðina á Fab og Thiago, en Harvey gæti vel byrjað sömuleiðis. Salah og Díaz byrja sjálfsagt sitt hvoru megin fremst, en hver verður á milli þeirra? Ég ætla að veðja á að Klopp vilji spila Nunez í gang, líka í ljósi þess að Jota vildi fá skiptingu með landsliðinu í vikunni. Við gætum þó í raun séð hvern þeirra sem er frammi: Jota, Bobby eða Darwin.

  Sumsé, líklegt lið er svona:

  Alisson

  Trent – Matip – Virgil – Tsimikas

  Hendo – Fab – Thiago

  Salah – Nunez – Díaz

  Staðan er einfaldlega sú að ef þessi leikur vinnst ekki, þá getum við í raun farið að kveðja þetta tímabil bless. Það hafa einfaldlega of mörg stig tapast til að það sé ráðrúm til að tapa fleirum. Vissulega gætum við séð toppliðin tapa stigum um helgina, bæði í London derby leiknum milli Spurs og Arsenal, og eins í leik Manchester liðanna. Eigum við ekki bara að panta tvö steindauð 1-1 jafntefli í báðum leikjum, með slatta af rauðum spjöldum í báðum leikjum? En undirritaður ætlar að panta heimasigur á Anfield. 2-1 var spáin fyrir leikinn á morgun, við stöndum við það. Mörkin koma frá Matip og Díaz.

  KOMA SVO!!!!

  [...]
 • Gullkastið – Ofur Október

  Enski boltinn fer aftur af stað með látum um helgina og Meistaradeildin í næstu viku eftir ótrúlega langa bið. Kvennalið Liverpool hefur fengið sviðið undanfarið meðan karlaliðið hefur nánast verið í pásu en tímabilið var að hefjast hjá þeim með Liverpool á ný deild þeirra bestu. Fókusinn á þetta og fleira í þætti vikunnar og var Daníel Brandur með í þessari viku nýkominn af Anfield þar sem hann sá Liverpool – Everton fyrir fullum velli.

  Stjórnandi: Maggi
  Viðmælendur: SSteinn og Daníel Brandur

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils Gull       Húsasmiðjan          Sólon           Jói Útherji         Ögurverk ehf

  MP3: Þáttur 397

  [...]
 • Derby slagur á Anfield hjá stelpunum

  Það fer að bresta á með leik kvennaliða Liverpool og Everton sem fer fram síðar í dag, eða kl. 17:45 að íslenskum tíma. Við uppfærum færsluna með upplýsingum um byrjunarliðið um leið og það verður gefið út, en við vitum þó að Leanne Kiernan verður frá fram yfir áramót vegna ökklameiðslanna sem hún lenti í um síðustu helgi, og munar um minna. Þá vitum við líka að Shanice van de Sanden er ekki leikfær þó hún hafi sést á myndum af æfingasvæðinu í vikunni. Matt Beard talaði um að hún yrði jafnvel frá í mánuð. Það er því spurning hvernig verður stillt upp á eftir, líklegast er kannski að Yana Daniels komi beint inn í framlínuna, en mögulega verður haldið áfram með tilraunina að setja Taylor Hinds fram og setja þá Megan Campbell í vinstri vængbakvörðinn. Kemur í ljós á eftir.

  Leikurinn verður sýndur á Viaplay eins og síðast, og líklega á The FA Player (en gæti þurft VPN tengingu fyrir Bretland).


  UPPFÆRT: liðið lítur svona út:

  Laws

  Flaherty – Fahey – Matthews

  Koivisto – Holland – Kearns – Campbell

  Lawley – Stengel – Hinds

  Bekkur: Cumings, Kirby, Robe, Silcock, Roberts, Furness, Humphrey, Wardlaw, Daniels

  Það er semsagt lagt upp með uppstillinguna eins og hún var eftir að Kiernan fór útaf meidd í síðasta leik með Hinds í vinstri framherja og Megan Campbell í vinstri vængbakverði. Innköstin hennar gætu vegið þungt í kvöld.

  Nýliðinn Emma Koivisto á afmæli í dag og við óskum henni að sjálfsögðu þriggja stiga í afmælisgjöf.

  KOMA SVO!!!


  UPPFÆRT AFTUR: ekki okkar dagur, því bláklædda liðið vann 0-3. Frammistaðan í fyrri hálfleik var bara alls ekki nógu góð, Everton meira með boltann og miklu ákveðnari. Í raun heppni að fara bara 0-2 inn í hálfleik. Rachel Furness kom inná fyrir Missy Bo í hálfleik, og það ásamt einhverju tiltali frá Matt Beard gerði það að verkum að leikurinn jafnaðist heldur, en ekki nóg til að okkar konur næðu að skora. Í staðinn náðu Everton konur að bæta við þriðja markinu undir lok leiks.

  Það komu vissulega einhver færi og með smá heppni hefðu e.t.v. einhver þeirra ratað inn. Stengel vann boltann og slapp í gegn en náði ekki skoti um miðjan fyrri hálfleikinn, og Ceri Holland fékk ákjósanlegt tækifæri nokkru síðar en skaut framhjá. Undir lok leiksins hefðu svo bæði Yana Daniels og Katie Stengel mögulega náð að pota inn boltanum, en þetta féll ekki með okkar konum.

  Áhorfendafjöldinn var rétt undir 30 þúsund sem er betra en í leiknum árið 2019, setið í neðri hluta allra stúknanna, og Kop endinn var nánast alveg fullur. Hins vegar vantaði talsvert upp á stemminguna og söngvana, enda talsvert öðruvísi aldurssamsetning á áhorfendaskaranum en í leikjum karlaliðsins. Auk þess var það talsvert til vansa að í þrjú skipti hlupu áhorfendur inná og trufluðu leikinn. Svona lagað á auðvitað ekki að sjást.

  Auðvitað skammt liðið á leiktíðina og ekki gott að leggja mat á stöðuna alveg strax, en liðið er um miðja deild með 3 stig eftir fyrstu tvo leikina. Næstu þrír leikir verða allt annað en auðveldir: Spurs, Arsenal og City. Og stelpurnar okkar mæta til Lundúna um næstu helgi og mæta þar Vicky Jepson og co hjá Spurs. Vonum að þær mæti betur stemmdar í þann leik en í dag.

  [...]
 • Gullkastið – Lognið á undan storminum

  Sannarlega lognið á undan storminum þessa dagana, Liverpool leik helgarinnar var frestað og landsleikjahlé hefur tekið við. Nýttum tækifærið til að rýna betur í leikmannakaup Liverpool undanfarin ár og þeirri vegferð sem félagið er á. Skoðuðum rosalegt leikjaprógramm október mánaðar og byrjun tímabilsins í deildinni.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils Gull       Húsasmiðjan          Sólon           Jói Útherji         Ögurverk ehf

  MP3: Þáttur 396

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close