Latest stories

 • Gullkastið: WGWTL

  Auðvitað var beðið eftir United með lagið sem andstæðingar Liverpool hafa af einhverjum undarlegum ástæðum dreymt um að heyra á Anfield í nokkra mánuði. Þetta gat ekki verið mikið fullkomnari tímasetning en í uppbótartíma gegn United til að gulltryggja sigurinn og svo gott sem afgreiða deildina í leiðinni. Þetta var besta fótboltahelgi á miðju tímabili í sögu enska boltans og það var hrikalega gaman að ræða hana.

  Eðlilegt line-up að þessu sinni og upphitun fyrir Pub Quiz í bónus þar sem SSteinn og Maggi mættust.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 273

  [...]
 • Liverpool 2-0 Man Utd

  Liverpool tók enn eitt tröllaskrefið í átt að langþráðum Englandsmeistaratitli í dag þegar liðið vann Man Utd 2-0 á Anfield og situr nú á sextán stiga forystu á Man City og eiga leik inni. Liðið þarf því aðeins að tryggja sér 30 stig úr síðustu sextán umferðunum til að tryggja sér titilinn óhátt því hvað önnur lið gera.

  Klopp stillti upp óbreyttu byrjunarliði frá sigurleiknum gegn Tottenham um síðustu helgi og var leikplanið heilt yfir mjög svipað, Lallana kom inn á svipuðum tíma í báðum leikjunum fyrir Chamberlain og hjálpaði Liverpool að sigla þessum þremur stigum heim.

  Hinir og þessir spekingar, þar á meðal Ole Gunnar Solskjær og einhverjir sparkspekingar, voru voða duglegir við að hype-a upp styrkleika Man Utd, troða ákveðnum leikmönnum þeirra í þessi klassísku “hefðbundnu lið”, bera saman markaskorun þeirra framherja og markskorun framherja Liverpool og þar fram eftir götunum. Leikurinn var flautaður á og var mikill gæðamunur á liðunum ansi augljós strax.

  Það var Virgil van Dijk sem kom Liverpool yfir með kraftmiklum skalla á 14.mínútu eftir hornspyrnu Trent Alexander Arnold. Þeir Harry Maguire og Brandon Williams áttu ekki roð í Hollendingin þegar hann réðst á boltann. Hann skoraði þar með áttunda markið sitt frá því að hann skoraði sitt fyrsta á síðustu leiktíð og hefur engin varnarmaður í deildinni skorað jafn mörg mörk á þessum tíma og hann. Þetta var fjórða markið hans á leiktíðinni og Hollendingurinn sem svikinn var af Ballon d’Or valinu heldur áfram að vera alveg hreint út sagt ótrúlegur.

  Van Dijk kom aftur við sögu skömmu síðar þegar hann hoppar upp í lausan bolta við David De Gea sem nær ekki að grípa boltann sem endaði hjá Firmino sem skoraði stórglæsilegt mark. Það fór í VAR og dæmt var brot á Van Dijk og slapp þar De Gea ansi vel þar sem mér fannst hann bara algjör ræfill í þessu atviki en áfram hélt leikurinn.

  Chamberlain átti geggjaða stungusendingu á Wijnaldum sem slúttaði boltanum svo vel í netið en var rétt fyrir innan og markið dæmt af vegna rangstöðu. Á skömmum tíma tókst Liverpool að koma boltanum þrisvar í netið hjá Man Utd en sat aðeins á einu marki og fengu fín tækifæri sem þeir nýttu ekki. Salah skaut í fótinn á sér í dauðafæri, Mane lét verja frá sér einn á móti einum og eitthvað þar eftir götunum. 1-0 í hálfleik og Liverpool meira en verðskuldað í forystu og hefði hún í raun átt að vera í það minnsta þrisvar sinnum stærri en hún var í raun.

  Seinni hálfleikurinn byrjaði af svo miklum krafti hjá Liverpool og Man Utd var í nauðvörn í upphafi þess og komust hreinlega ekki út úr sínum markteig. Þá fékk Liverpool aftur ágæt færi, Mane átti eitt þokkalegt, Henderson átti skot sem endaði í stöng og Salah skaut naumlega framhjá úr fínu færi. Aftur hefði Liverpool átt að gera út um leikinn.

  Þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir fór Man Utd að sækja af meiri krafti og taka fleiri sénsa. Fækkuðu varnarmönnum fyrir sóknarmann og settu pressu á vörn Liverpool sem mér fannst þó í raun aldrei virka líkleg til að bugast. Þeir fengu ágætis hálf færi og náðu einhverjum skotum en það lá aldrei mark í loftinu hjá þeim. Í blálok leiksins handsamar Alisson boltan í teig sínum og það á að flagga rangstöðu en dómarinn notar hagnarðaregluna. Markvörðurinn er fljótur að bregðast við og dúndrar boltanum fram beint í hlaupalínu Mo Salah sem kemst inn í teiginn með varnarmann Man Utd hangandi á sér og rúllar honum í framhjá De Gea í markinu og gulltryggir sigurinn með þessu öðru marki sem hefði löngu, löngu átt að vera komið. Stemmingin eftir markið var rosalega og var Alisson fyrsti maðurinn á vettvang til að fagna með Salah!

  Staða Liverpool því orðin fáranlega sterk í þessari deildarkeppni en bæði Leicester og Man City töpuðu stigum um helgina en Liverpool hefur nú unnið 21 af 22 leikjum sínum í deildinni. Fengið 64 af 66 mögulegum stigum í vetur og tekið 91 af síðustu 93 mögulegu stigum sem hafa verið í boði, 30 sigrar, 1 jafntefli og ekkert tap! Það er fáranlegur árangur!

  Heilt yfir spilaði Liverpool liðið frábærlega fannst mér. Firmino fannst mér frábær fyrstu 65 mínúturnar eða svo og Mane og Salah áttu sínar rispur en hafa þó verið betri og hefðu átt að gera betur í ákveðnum stöðum. Bakverðirnir voru flottir fram og til baka, Chamberlain átti rispur en ‘beinagrindin’ í liðinu með þá Wijnaldum, Henderson, Gomez og Van Dijk var í algjörum sér klassa. Henderson og Wijnaldum átu allt upp á miðjunni og stjórnuðu leiknum þaðan, hvernig miðja Liverpool er enn talin eitthvað “veikleika merki” og fær ekki það credit sem hún á að fá er hálf óskiljanlegt. Van Dijk og Gomez vörðust frábærlega í gegnum leikinn, einhverjir vildu troða Maguire fram yfir Joe Gomez í einhverjum samanburðum og sýndi Gomez af hverju það er afar kjánalegt að gera það. Hann á að vera sá sem Englendingar ættu að byggja vörn sína í kringum, hann er svo flottur! Síðan hann kom inn í liðið hefur liðið haldið hreinu í síðustu sjö leikjum og virðist þurfa ansi mikið til að ætla að brjóta niður vörn Liverpool.

  Næsti leikur Liverpool er á fimmtudaginn þegar liðið heimsækir sprækt lið Wolves en á þriðjudaginn mun Man City eiga leik sem gæti verið erfiður en þeir mæta í heimsókn til Sheffield United. Það verður skrítið að spila aftur leik á fimmtudagskvöldi og það er eitthvað sem ég held að Liverpool muni ekki þurfa að leggja í vana sinn á næstu misserum.

  Vonandi sjáum við annað risa, risa stórt skref í átt að titlinum á fimmtudaginn, eftir leikinn gegn Wolves þá er prógram Liverpool nokkuð “þægilegt” sé það borið saman við þennan þriggja leikja kafla gegn Spurs, Man Utd og Wolves. Takist Liverpool að ná fullu húsi stiga úr þessum þremur leikjum ættu næstu leikir eftir það að skila enn fleiri sigrum í hús. Við ætlumst til þess af þessu liði að þeir geri það og það besta er að þeir gera það líka.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Man Utd

  Þá styttist með hverri mínútunni að flautað verði til leiks á Anfield þegar Liverpool tekur á móti Man Utd. Byrjunarliðin hafa nú verið opinberuð og gerir Klopp ekki breytingu á byrjunarliði sínu úr sigurleiknum gegn Spurs í síðustu umferð.

  Alisson

  TAA – Gomez – VVD – Robertson

  Wijnaldum – Henderson – Chamberlain

  Salah – Firmino – Mane

  Bekkur: Adrian, Matip, Fabinho, Lallana, Origi, Minamino, Origi, Jones

  Joel Matip og Fabinho eru mættir aftur í hópinn sem eru frábær tíðindi fyrir Liverpool.

  Það er engin Rashford hjá Man Utd sem stilla upp í að því virðist 5-3-2 líkt og þeir gerðu fyrr í vetur.

  [...]
 • Kvennaliðið heimsækir Bristol

  Það er tvöfaldur leikdagur hjá okkar fólki, karlaliðið okkar fær jú United í heimsókn eins og ætti ekki að þurfa að minna neinn á, en í millitíðinni munu stelpurnar okkar heimsækja Bristol City. Okkar konur áttu að spila við United um síðustu helgi, en þeim leik var frestað vegna afleitra vallaraðstæðna á Prenton Park. Af hópnum er það annars að frétta að Missy Bo Kearns skrifaði undir fyrsta atvinnumannasamning sinn við klúbbinn, og er í framhaldi af því farin á láni til Blackburn Rovers út leiktíðina. Blackburn konur eru að spila í næstefstu deild og eru þar í tíunda sæti af ellefu liðum.

  Þá hlaut Niamh Charles nafnbótina leikmaður mánaðarins hjá Liverpool Women, sem þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að hún skoraði bæði mörkin sem liðið skoraði í desember.

  En að leik dagsins: Bristol City eru í næstneðsta sæti deildarinnar með 6 stig, og aðeins okkar konur fyrir neðan þær með 3 stig eftir 3 jafntefli í deildinni. Það er því líklegt að þetta verði mikill baráttuleikur og vonandi að okkar konur sýni sínar bestu hliðar.

  Svona verður stillt upp í dag:

  Preuss

  Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

  Bailey – Roberts – Furness

  Charles – Babajide – Lawley

  Bekkur: Heeps, Clarke, Murray, Hodson, Sweetman-Kirk, Rodgers, Purfield

  Að öllum líkindum er búið að skipta aftur í 4-3-3, mögulega vegna þess að Kirsty Linnett er hvergi sjáanleg. Það sama á við um Fran Kitching sem hefur verið í marki í síðustu leikjum, en Anke Preuss er komin aftur í markið, og á bekkinn er mætt Eleanor Heeps en hún leikur að jafnaði með U21 liðinu, og var meðal þeirra U21 leikmanna sem var á sameiginlegri mynd af kvenna- og karlaliðunum sem var tekin í haust. Þá er afar jákvætt að sjá að bæði Jemma Purfield og Jesse Clarke eru komnar til baka úr hnémeiðslum, og byrja á bekknum.

  Við uppfærum svo færsluna síðar í dag með úrslitum og uppfærðri stöðu í deilinni.


  Leik lokið með 0-1 sigri Liverpool, það var Rachel Furness sem skoraði í leik nr. 2 fyrir félagið á 13. mínútu. Babajide hafði átt skot í stöng á 2. mínútu, og svo átti téð Rachel skot í slána undir lok leiksins. Bristol konur fengu kjörið tækifæri til að jafna um miðjan seinni hálfleikinn þegar þær fengu vítaspyrnu, en Anke Preuss gerði sér lítið fyrir og varði af miklu öryggi.

  Semsagt, fyrsti sigurinn í deildinni í höfn! Staðan er nú þessi:

  Liðið er semsagt í 11. sæti af 12 liðum, og það eru einmitt Bristol konur sem eru í 12. sæti. Bæði lið eru með 6 stig, en markamunur Bristol kvenna er talsvert lélegri. Næsta lið er svo Birmingham með 7 stig, en þær eiga leik til góða. Aðeins eitt lið fellur í vor, og með svipaðri spilamennsku eru ágætar líkur á að okkar konur sleppi við fallið, þó ekki hafi það litið vel út fyrr í haust.

  Næsti leikur í deild er svo einmitt á móti Birmingham á Prenton Park þann 2. febrúar næstkomandi, en í millitíðinni snúa stelpurnar okkar sér að bikarkeppninni um næstu helgi. Við höldum að sjálfsögðu áfram að gera því skil.

  [...]
 • Upphitun: Rauðu djöflarnir á Anfield

  Þá er komið að síðari helming þess árlega viðburðar knattspyrnualmanaksins að erkifjendurnir sem hafa verið bestu lið Englands til skiptis síðust 50 árin leiði saman hesta sína. Straumhvörf hafa átt sér stað í hinum mikla ríg þessara tveggja turna enskrar knattspyrnu þar sem Rauði herinn frá Bítlaborginni undir stjórn keisara Klopp hefur komið sér glæsilega fyrir langefst í úrvalsdeildinni. Á meðan hafa United frá Manchester lent í mikilli niðursveiflu eftir brotthvarf Alex Ferguson en þrátt fyrir þau kaflaskil þá eru leikir liðanna alltaf með stærstu viðburðunum á knattspyrnudagatalinu.

  Mótherjinn

  Manchester United hafa verið álíka sveiflukenndir og jó-jó þetta tímabilið. Nokkrum skrefum fram á við hefur venjulega fylgt nokkur skref afturábak þannig að ókunnugum virðist sem undarlegur norskur línudans sé í fullri sveiflu. Svo rækilega hafa Óli og hjólasveinar hans kannað fjöll og dali úrvalsdeildarinnar að Fróði og föruneytið gætu þótt mikið til ferðalagsins koma.

  Á línuritinu má greina Akrafjall, Skarðsheiði og Esju.

  Eftir fyrstu umferð mótsins voru þeir í efsta sæti á markamun en tóku svo norskt skíðastökk alla leið neðst niður í 14.sætið. En hagur strympu hefur vænkast síðan þá og í síðustu umferðum hefur rauðhvítum tekist að klifra upp í 5.sætið en þó í vænni fjarlægð frá Meistaradeildarsæti. Stigabilið í okkar eigin Rauða her eru þó massíf 27 stig og sjaldan ef nokkurn tímann verið eins mikið bil milli liðanna á þessum tímapunkti mótsins síðustu áratugi. Síðast þegar liðin mættust á Anfield með álíka stöðu í deildinni þá var það fyrir sléttum 30 árum er LFC voru ríkjandi Englandsmeistarar og Peter Beardsley setti þrennu í 4-0 sigri.

  Slíkt deildarform hefur þó sjaldan verið lykilatriði í leikjum liðanna og oft hefur liðið sem fyrir fram er álitið slakara verið meira mótiverað til að skemma fyrir velgengni þess sem hærra flýgur þá stundina. Leikirnir standa oft og falla með mistökum frekar en glæsilegri spilamennsku en vígið á heimavelli hefur verið nokkuð sterkt síðasta áratuginn eða svo. Frá september 2008 þá hafa liðin mæst 13 sinnum á Anfield og í þeim viðureignum hefur Liverpool unnið 7 sinnum, jafnteflin verið 3 talsins og gestirnir unnið 3 sinnum.

  Síðasti stjóri MUFC sem tapaði á Anfield var rekinn

  Frábær 3-1 sigur Liverpool í fyrra varð einmitt vendipunkturinn í stjórastarfi Jose Mourinho sem var rekinn eftir niðurlæginguna sem var meiri en lokatölur gefa til kynna. Ólíklegt er að Óli sé svo valtur í starfi þessa stundina en undir hans stjórn hefur liðið verið sérlega misjafnt og venjulega fylgir skammvinnri velgengni biturt bakslag stuttu síðar. Liverpool-menn munu auðvitað vona að sú verði rauninn á sunnudaginn þar sem að Man Utd hafa unnið síðustu tvo leiki sína þó bæðir væru reyndar á Old Trafford.

  Það má reyndar til sanns vegar færa að gestirnir séu einmitt skárri á útivelli þar sem þeir geta legið meira til baka og beitt hröðum skyndisóknum með sinni fljótu framlínu. Góður sigur þeirra á Man City á Etihad var einmitt gott dæmi um það og áberandi þeirra besta frammistaða á tímabilinu. Þeir hafa einnig mest megnis verið með betra móti í leikjum gegn toppliðinum og í raun bara tap gegn Arsenal á Emirates þar sem þeir voru áberandi lélegir í toppslag. Það má því alveg segja að þeir hafa verið að mæta mótiveraðir og vel undirbúnir þegar að mikið liggur við.

  Gestirnir verða án hinna meiddu Paul Pogba, Scott McTominay, Luke Shaw og hugsanlega Marcus Rashford en að þeim frátöldum er Óli stýrimaður líklegur til að stilla sínu liði svona upp:

  Líklegt byrjunarlið Man Utd í leikskipulaginu 4-2-3-1

  Liverpool

  Okkar menn mæta vel hvíldir og vandlega undirbúnir eftir óvenjulega langt 8 daga bil á milli leikja. Ekki það að slíkur biðtími sé neitt úrslitaatriðið í andrenalín-leik sem þessum en það spillir í það minnsta ekki fyrir að fá að hvíla ögn lúin bein eftir stanslaust leikjaálag síðasta mánuðinn. Að því sögðu þá hafa lærisveinar Klopp verið einstaklega öflugir í þessari maraþon-törn og það að hafa unnið alla leiki í sérlega þungu leikjaplani frá og með öðrum degi jóla er frábært. Næstu tveir leikir eru einmitt þeir síðustu af þessari 7 leikja syrpu með afar krefjandi mótherja og það væri einstaklega sætt að viðhalda velgengninni á kostnað erkifjendanna frá Manchester (7,9,13).

  Liverpool voru ekki sérlega sannfærandi á lokakaflanum í síðasta leik gegn Tottenham en hafa sýnt að þeir hafa komið sér upp þeirri frábæru formúlu að vinna þrátt fyrir að vera ekki upp á sitt besta. Klopp hefur þó haft góðan tíma í þessari viku til að leggja upp gott leikskipulag og getur stillt upp afar sterku liði sem verður að öllum líkindum það sama og síðustu helgi. Mikið er af góðum fréttum varðandi endurkomur Fabinho, Matip, Lovren og annarra úr meiðslum þannig að það er að birta til á sjúkralistanum. Milner og Keita missa líklega af þessum leik en við verðum með leikmenn á bekknum sem geta breytt leikjum eins og Minamino, Shaqiri, Lallana og super-subinn Origi en sá síðastnefndi er sá eini af þeim fjórum sem ekki hefur skorað mark gegn MUFC.

  Byrjunarliðið er mjög líklegt til að vera það sama og í síðasta deildarleik og væri þá eftirfarandi:

  Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

  X-Faktorinn

  Hjá gestunum þá þurfa þeir að leggjast á bæn að Marcus Rashford muni jafna sig tímanlega fyrir leikinn og muni eiga sinn allra besta dag. Ole Gunnar hefur sýnt það áður að hann er tilbúinn að fórna heilsu leikmanna sinna til lengri tíma til að gera Liverpool skráveifu til skemmri tíma. Við getum því alveg gert ráð fyrir því að Rashford muni spila eitthvað í þessum leik, jafnvel þó að hann þurfi að rúlla um völlinn á sjúkrabeði.

  Hitt atriðið sem MUFC þurfa að fá með sér er að sá De Gea sem hefur oft unnið leiki fyrir þá á árum áður mæti á svæðið en ekki sá oflaunaði og mistæki veiki hlekkur sem hefur verið á milli stanganna hjá þeim síðustu misserin. Það virðist sem að eftir hörmungar frammistöðu á HM 2018 að allt sjálfstraust hafi sogast úr Spánverjanum eins og sangríu í steggjaveislu á Ibiza. Við Púlarar vonum auðvitað að hann haldi uppteknum hætti með hlægilegum hörmungum en góður leikur hjá honum myndi gera mikið fyrir þá.

  Hjá Liverpool er aðalatriðið að við spilum á okkar eðlilegu getu og sem sterkara liðið á þessum tímapunkti í fótbolasögunni þá ætti það að duga til sigurs. Nýtingin á góðum færum er nokkuð sem mætti batna frá og með þessum leik en oft á tíðum hafa leikir Liverpool verið óþarflega spennandi og tæpir fram eftir leik þar sem tuðrunni hefur ekki verið komið nógu oft í netið þrátt fyrir flott uppspil. Spila okkar leik og nýta yfirburðina á Anfield til að tryggja 3 stig í átt að meistaratitlinum langþráða (7,9,13).

  Blaðamannafundir

  Klopp ræddi ýmislegt á blaðamannafundinum í gær og hægt er að horfa á það hér:

  Ole Gunnar hafði einnig ýmislegt að ræða og það má hlusta á hérna:

  Spakra manna spádómur

  Liverpool hafa ekkert annað að óttast í þessum leik heldur en óttann sjálfan og sína eigin djöfla. Rauðu djöflarnir gætu alveg gírað sig upp í góðan leik gegn okkur en ef allt er eðlilegt þá eigum við að sigra þá á Anfield. Það væri þó alveg eftir því ef að leiðinleg mistök, VAR-dómgæsla eða eitthvað óvenjulegt rugl hefðu mikil áhrif en við skulum vona að góður fótbolti verði í hávegum hafður í þessum hörkuleik.

  Ég er vongóður um sigur en geri þó ekkert endielga ráð fyrir neinni flugeldasýningu. Þrjú stig duga mér og Klopp sama hvernig þau koma og það verður afar erfiður útileikur við Úlfana beint á eftir þessum. Mín ágiskun um gæfulega og getspaka niðurstöðu er 2-0 sigur fyrir Rauða herinn og munu Salah og Mané sjá um mörkin.

  YNWA

  Leikurinn hefst klukkan 16:30 á morgun og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

  [...]
 • Liverpool er líka á siglingu utan vallar

  Auðvitað helst þetta í hendur að einhverju leiti en það er sannarlega ekki bara innanvallar sem Liverpool er á blússandi siglingu því að rekstur félagsins hefur líklega aldrei verið eins heilsusamlegur og hann er núna. FSG eru að vinna ekki síður magnað starf en Jurgen Klopp og hans menn.

  Deloitte birti í dag sinn árlega peningalista yfir tekjuhæstu félögin í knattspyrnuheiminum. Liverpool er þar búið að endurheimta sjöunda sæti sem er sama sæti og félagið var í byrjun síðasta áratugar. Það hefur því tekið tíu ár að rétta af tíma Hicks og Gillett og m.v. hversu hratt tekjur Liverpool hafa verið að aukast er ljóst að félagið ætti með réttu að vera enn ofar á þessum lista og verður það líklega fljótlega.

  Spænsku risarnir eru að mestu bara í samkeppni við hvorn annan heimafyrir og tróna að vanda á toppnum þó það sé áhugavert að Barcelona er komið í efsta sætið núna. Man Utd er áfram tekjuhæsta félagið á Englandi en annað ár utan Meistaradeildarinnar gæti séð bæði Liverpool og City fara fram úr þeim.

  Við skulum samt ekkert taka það út úr jöfununni hversu fáránlegt að Man City teljist með á þessum lista enda ljóst að tekjustreymi þeirra er ekki sambærilegt og hjá hinum ensku liðunum, ekki nema það sé svona rosaleg sala á varningi félagsins í Abu Dhabi, það búa alveg næstum því 500.þúsund innfæddir í Sameinuðu Arabísku fyrstadæmunum!

  PSG er auðvitað jafn mikil vitleysa þó þeir búi líklega að mun stærri aðdáendahópi, helstu keppinautar Abu Dhabi að dæla peningum í þá.

  Tottenham er í fyrsta skipti tekjuhæsta liðið í London á undan Chelsea á meðan Arsenal er í 11.sæti og West Ham í 18. sæti.

  Liverpool datt út af topp tíu listanum árið 2014 eftir að hafa misst af Meistaradeildarsæti enn eina ferðina tímabilið 2012/13. Síðan þá hefur FSG hægt og rólega tekist að snúa rekstri félagsins við og náð að virkja miklu betur þá ótrúlegu og illa nýttu tekjuauðlind sem vörumerkið Liverpool er.

  Bilið í Manchesterliðin er líka að fuðra upp, eitthvað sem hefði verið ótrúlegt bara fyrir 1-2 árum

  Síðan Jurgen Klopp tók við Liverpool hafa tekjur félagsins aukist um 76%, en þær voru £302m. Jurgen Klopp á vissulega risastóran þátt í auknum tekjum á leikmannamarkaðnum einnig líkt og farið var yfir í síðustu viku.

  Á sama tíma hafa tekjur Man Utd aukist um 22% og Man City um 37% Komum einmitt inná það líka um daginn að Pep Guardiola er ekki búinn að eyða nema 86% meira í leikmannakaup nettó en Jurgen Klopp síðan þeir komu til Englands. Veitir reyndar ekkert af.

  Það munar núna £100m á Liverpool og Man Utd í stað £213m áður en Liverpool er nánast jafnt því sem Man City er að gefa upp sem tekjur.

  Deloitte dregur ekkert úr því hversu mikilvægt er að vera með í Meistaradeildinni og hvað þá að ná árangri þar

  “The impact of participation and performance in Uefa club competitions on revenue is evident in London and the North West, with the rise of Liverpool, Manchester City and Spurs driven by reaching the Champions League knockout stages.

  “The relative decline of Arsenal is a direct result of not participating in the competition for a second consecutive season, a fate that may also befall Manchester United.”

  Það er nokkuð ljóst að Man Utd mun ná sér á strik aftur og eru ekkert að fara af þessum lista þó þeir gætu á næstu 1-2 árum misst efsta sætið á Englandi í fyrsta skipti. Arsenal og Tottenham gætu átt erfiðara með að vera utan Meistaradeildarinnar. Chelsea er svo eins og litli bróðir Man City og PSG – bróðir frá annarri móðir ef svo má segja, enn eitt olíufélagið.

  [...]
 • Gullkastið – Hvellsprungið á rútunni

  Það hjálpaði Motormouth ekkert að pakka í vörn á heimavelli gegn þeirri vél sem þetta Liverpool lið er orðið. Þáttur strax eftir leik og meirihluti pennanna samankomin í miðborg Sódómu. Einar og SSteinn sátu hjá á meðan Maggi tók stjórnvölin og fór yfir leikinn með pennum síðunnar.

  Stjórnandi: Maggi
  Viðmælendur: Maggi Þórarins (Beardsley), Eyþór, Daníel og Hannes.

  MP3: Þáttur 272

  Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  [...]
 • Liðið gegn Tottenham

  Þá er um klukkustund í að Liverpool spili sinn fyrsta leik á Tottenham vellinum nýja og hefur Klopp ákveðið að velja eftirfarandi byrjunarlið.

  Bekkur: Adrian, Minamino, Lallana, Shaqiri, Origi, Phillips, Williams

  Mourinho tók hinsvegar óvænta stefnu í sínu byrjunarliði þar sem hin tvítugi Tanganga á kostnað Vertongen. Hans lið er svona.

  Gazzaniga

  Sanchez – Alderweireld – Tanganga

  Aurier – Winks – Eriksen – Rose

  Moura – Son – Alli

  Pennar kop.is verða á Sport og Grill að horfa á leikinn vonumst til að sjá sem flesta!

  [...]
 • Heimsókn til Spurs! Upphitun

  Á morgun, laugardaginn 11. Janúar munu Liverpool heimsækja Tottenham Hotspurs í Norður-Lundúnir. Þeir freista þess að viðhalda ótrúlegri þrettán stiga forystu sinni á toppi ensku deildarinnar. Mótherjinn er kunnuglegur. Tottenham voru andstæðingurinn þegar lærisveinar Klopp lyftu Evrópubikarnum fræga í sjötta sinn og þangað til fyrir svona tveimur voru það lið í Ensku deildinni sem hægt var að bera Liverpool best saman við. En við stjórnvölin í London er nýr stjóri og gamall óvinur. Kannski stærsti fjandi Liverpool síðustu tuttugu ár fyrir utan rauðnefinn fræga, maðurinn sem hefði kannski tekið við Liverpool ef örlögin hefðu verið aðeins öðruvísi, sem háði orðastríð við Rafa, var arkitekt einnar sárustu stundar stuðningsmanna Liverpool, sem hefur stýrt bæði Manchester United og Chelsea. Þið vitið hvern ég meina.

  Tottenham Hotspurs.

  Fyrir þremur eða svo árum var Spurs rökréttasta liðið til að bera Liverpool saman við. Bæði liðin mundu sinn fífil fegurri, bæði lið voru með stjóra sem var að ná frábærum árangri miðað mannskap, höfðu misst sína skærustu stjörnu til spænsks risa. Bæði lið voru að vinna í að stækka völlinn sinn og að reyna að ná fótfestu í meistaradeildasætunum. Þegar Liverpool steinlágu 4-1 fyrir Spurs á Wembley var það meðal annars sárt vegna þess að Tottenham var það lið sem maður sá hvað helst  fram á að Liverpool gæti steypt af stóli í topp fjórum pakkanum.

  Það tímabilið rétt slefuðu Liverpool í meistaradeildarsæti á meðan Tottenham kláraði í þriðja. Þetta var tímabilið sem Spurs léku alla heimaleiki sína á Wembley.Tottenham voru sáttir með sitt og Liverpool náði að knýja fram ótrúlega röð úrslita í meistaradeildinni sem endaði í úrslitaleik í Kiev. Því fór sem fór þar.

  Ári seinna var Liverpool aftur í úrslitaleiknum, að spila við Tottenham. Gengi Tottenham hafði byrjað að dala í deildinni þegar leið á tímabilið en þeir hugguðu sig við að þeir voru á hörku siglingu í Evrópu. Á sama tíma urðu Liverpool öflugri og öflugri. Þegar kom að úrslitastund unnu Liverpool. Stóri munurinn á liðunum í dag liggur í hvernig þau brugðust við sitthvoru tapinu á stærsta sviðinu. Árið eftir að Liverpool lenti í öðru sæti í Evrópu setti það nýtt stigamet í deildinni (fyrir lið í öðru sæti) og aðeins ótrúlegt gengi City kom í veg fyrir að liðið yrði Englandsmeistarar. Árið eftir að Tottenham tapaði úrslitaleiknum brotnaði liðið saman.

  Gengi Tottenham í byrjun núverandi tímabils voru hörmun. Þeir unnu aðeins 3 af 12 fyrstu leikjum sínum og féllu út úr deildarbikarnum með tapi fyrir United. Ekki West Ham United eða Manchester United. Colchester United sem spila í d-deildinni. Einhverja breytinga var þörf og Daniel Levy tók sú ákvörðun að snúa baki í langtímahugsun og ráða mann sem hefur skilið eftir sviðna jörð hjá öllum fyrri liðum sínumÞetta þýðir að öllum líkindum að Mourinho mun gera það sem hann elskar að gera í stórleikjum. Pakka tveggja hæða lundúnarútu fyrir framan markið sitt, tefja frá fyrstu sekúndu og reyna að komast inn í hausinn á okkar mönnum. Hann er því miður ofboðslega góður í þessum myrku fræðum og það er undir Klopp komið að leyfa þessu ekki að hafa áhrifa á leikmenn okkar. Ég held að það vinni í alvöru með okkur að leikurinn sé á White Hart Lane, leikmenn finna meira fyrir því ef allur Anfield pirrast upp en ef útivallarhópurinn gerir það.

  Okkar menn

  Síðan að Klopp kom til Liverpool hefur janúar (og kannski febrúar) verið hans Akkilesarhæll. Desember er klárlega á pappír erfiðasti mánuður ársins en síðan hann byrjaði hjá Liverpool hefur sigurhlutfallið í desember verið 73%, í janúar 41%. Jordan Henderson sagði nýlega að þjálfarinn væri búin að breyta áherslunum fyrir mánuðinn, meðal annars með því að gefa leikmönnum meir frítíma. Það sést kannski best í að Klopp nýtti bikarleikinn gegn Everton til að gefa nánast öllu aðalliðinu frí og bjó þannig til átta daga hvílld fyrir flesta leikmenn.

  Það eru líka jákvæðar fréttir af okkar mönnum utan vallar. Við óskum Sadio Mané til hamingju með að vera valin leikmaður ársins af knattspyrnu sambandi Afríku. Salah hefur unnið þessi verðlaun tvö ár í röð, gott að þeir skipti þessu bróðurlega á milli sín.

  Fyrir viku hefði málsgreinin um meiðslalista liðsins verið kallaður Meiðslabókin. En í Alex Oxlade sneri óvænt til baka á móti Everton. Matip og Shaqiri eru víst orðnir heilir og biðin styttist í Fabinho. Milner og Keita eru því miður enn þá meiddir og óvíst hvenær þeir snúa aftur.

  Fyrir mér er bara ein spurning um byrjunarliðið: Verðlaunar Klopp Lallana fyrir frábæra frammistöðu á móti Everton eða mun vill þjálfarinn auka ógnina frá Oxlade-Chamberlain. Þó ég held að fátt myndi gleðja þann síðarnefnda eins og að skora á móti Tottenham held ég að Lallana verði í byrjunarliðinu, það er bara of stutt síðan Alex kláraði meiðslin.

  Spá

  Ég er hræddari við þennan leik en flesta síðustu leiki. Ekki að því að ég hræðist Tottenham, vegna þess að ég hræðist Mourinho. Í mínum huga er hann teiknimyndaskúrkur fótboltaheimsins sem hefur eingöngu þann tilgang að skemma fyrir hetjunum og eyðileggja það sem er fallegt. En þetta er tímabilið þar sem hið góða sigrar, eftir margar orrustur við vonda karlinn. 2-0 fyrir Liverpool og málið er dautt.

  Kopverjar ættu að vita að flestir pennar síðurnar verða á Sport og Grill á morgun. Um að gera að mæta og taka þátt í rífandi stemmningu. Ég kemst ekki sjálfur, en biðla til lesenda sem mæta að skemmta sér vel og ávarpa þá félaga eingöngu sem „Heims- og Evrópumeistara.“

  YNWA

   

   

  [...]
 • Klopp vs Guardiola

  Pep Guardiola hafði orð á því í sumar að Man City liðið hans fengi ekki þá virðingu sem það ætti skilið fyrir að vinna alla bikarana sem voru í boði á Englandi á síðasta tímabili. Skiljanlegt sjónarmið að mörgu leiti enda eitt besta tímabil félagsliðs á Englandi en fókusinn var þrátt fyrir það miklu meiri á Liverpool. Bæði vegna rosalegrar atlögu að titlinum sem var spennandi fram að síðasta leik og auðvitað vegna afreka Liverpool í Meistaradeildinni.

  Það er ekkert rosalega hressandi þegar liðið sem vann deildina með 100 stigum vinnur hana aftur árið eftir með 98 stigum og tekur báða hina bikarana líka, sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig þeir fóru að því. Þar liggur stóra ástæðan fyrir því að Man City og upp að vissu marki Guardiola fá ekki það hrós eða virðingu sem þeir telja sig eiga skilið. Það er erfitt að hrífast með vægast sagt vafasömu Olíuríki sem dælir sjóðum ríkisins í rekstur Man City og beygir og brýtur þær reglur sem þarf til að koma liðinu í fremstu röð. Þjálfarar, leikmenn og starfslið félagsins er vissulega meira og minna í heimsklassa og að ná virðingaverðum árangri, enda einmitt það sem Abu Dhabi var að kaupa.

  Guardiola er klárlega einn allra besti knattspyrnustjóri í heiminum, þess vegna er hann einmitt hjá Man City núna. Abu Dhabi meira að segja fékk til sín mennina sem voru á bak við tjöldin hjá Barcelona þegar hann var þar. Það er samt erfitt að meta að fullu hversu góður stjóri Guardiola er vegna þess að hann hefur alltaf stjórnað liðum með stjarnfræðilegt forskot á helstu keppinauta heimafyrir. Barcelona var vissulega í samkeppni við svipað dýrt og gott Real Madríd lið en hann tók við liði með Messi, Initesta og Xavi svo fáeinir séu nefndir. Geggjað lið og Guardiola á heilmikið í því og hjálpaði þessum mönnum að verða eins góðir og þeir urðu.

  Hjá Bayern tók hann við liði sem var búið að kaupa alla bestu leikmenn keppinautana heimafyrir. Hann tapaði samt 0-5 samanlagt fyrir Real Madríd í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á fyrsta tímabili. Árið eftir á sama stigi keppninnar vann Barcelona, hans gamla lið fyrri leikinn 3-0 án þess að Bayern næði skoti á markið og einvígið búið. Síðasta árið hans í Þýskalandi tapaði Bayern fyrir þriðja spænska liðinu í undanúrslitum, Athletico Madríd.

  Hann hefur á ellefu árum aðeins upplifað það tvisvar sem stjóri að hans lið vinni ekki deildina, unnið átta en eitt tímabilið var hann í fríi frá þjálfun. Þrátt fyrir allt þetta er hann ekki besti knattspyrnustjóri í heimi að mínu mati. Hann ennþá frekar en Jose Mourinho á alveg eftir að sanna sig með liði sem nær árangri umfram væntingar. Sigur í öllum leikjum (bókstaflega) er á pari við væntinar hjá Man City. Forskotið sem Man City hefur á leikmannamarkaðnum umfram Liverpool er svo galið að það er varla hægt að bera liðin saman, gerum það samt.

  Leikmannakaup Man City og Liverpool

  Guardiola tók við Man City árið 2016 í kjölfar þess að Leicester City vann deildina en Man City hafði þá ekki unnið Úrvalsdeildina tvö tímabil í röð. Þegar Chelsea vann 2015 endaði City með 79 stig. Leicester árið var City með 66 stig sem er magnað fyrir þann mannskap sem þeir voru með og £152m leikmannakaup fyrir tímabilið.

  Guardiola kom inn en náði ekki að breyta gengi liðsins mikið á fyrsta tímabili þrátt fyrir £168m leikmannakaup og enga leikmannasölu, liðið endaði í þriðja sæti með 78 stig, tveimur meira en Liverpool í 4.sæti. Jurgen Klopp var þarna búinn að stýra liði Liverpool síðan í október 2015 en ekki búinn að kaupa neina leikmenn ennþá. Þeir byrja því að byggja sín lið upp í sama glugga sumarið 2016 en alls ekki frá sama byrjunarreit.

  Hópurinn sem Guardiola tók við sumarið 2016 kostaði £438.6m. Þ.e. samanlagt kaupverð hópsins árin áður en Guardiola tók við liðinu. Kaupverð liðsins sem Jurgen Klopp tók við var £247,1m. Rúmlega £190m munur.  Síðan þá hafa bæði félög átt í miklum viðskiptum, bæði kaup og sölur á leikmönnum.

  Guardiola er búinn að kaupa leikmenn fyrir samtals £659,4m og selja á móti fyrir £165,8m. Nettó hefur Man City undir stjórn Guardiola því eytt £493,6m í leikmenn umfram sölu á leikmönnum til að Guardiola geti keppt á jafnréttisgrundvelli við Klopp. Þetta er að meðaltali £164,8m á hverju tímabili á móti £41,4m sölu eða 123,4m að meðaltali í nettó eyðslu á tímabili. Hvernig þessar fjárhæðir ganga upp innan FFP væri mjög fróðlegt að heyra því þetta er fyrir utan launakostnað.

  Frá þeim tíma er Jurgen Klopp tók við Liverpool hefur félagið keypt leikmenn fyrir £393,4m sem er ekki nema £266m minna en Man City er búið að kaupa undir stjórn Guardiola, £66,5m að meðaltali á leikmannaglugga. Forskot sem Guardiola veitir ekkert af en segir bara hálfa söguna.

  Liverpool er á sama tíma búið að selja leikmenn fyrir £323,9m sem er rétt tæplega helmingi meira en Man City. Stærsti munurinn er Coutinho sem Liverpool seldi fyrir £142m en Guardiola hefur aldrei nokkurntíma þurft að selja risaleikmann gegn sínum vilja líkt og Liverpool gerði á miðju tímabili í tilviki Coutinho. City liðið var fyrir með t.d. Sterling, annan lykilleikmann sem Liverpool hefur selt í tíð FSG sem telur ekki í þessari jöfnu.

  Þannig að þessi fjögur tímabil sem Guardiola hefur verið stjóri Man City hefur félagið keypt leikmenn fyrir £266m meira, selt fyrir £158m minna sem gerir £424m meira nettó eyðsla í leikmenn. Hann fær £106m í forskot á hverju tímabili og tók við liði sem kostaði £190m meira.

  Nettó eyðsla Man City í tíð Guardiola er £123m í hverjum glugga á á meðan Klopp hefur samtals þessi fjögur tímabil eytt £69,5m nettó. Liverpool er búið að eyða 56% í leikmannakaup af þeirri fjárhæð sem City er að eyða að meðaltali.

  Eruð þið líka farin að horfa á afrek Klopp vs Guardiola í aðeins öðru ljósi?

  (more…)

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close