Latest stories

 • Liverpool 0 – 2 Atalanta

  Það er fræg sagan af smiðnum sem hafði átt sama hamarinn allan sinn starfsferil. Hann hafði bara tvisvar skipt um haus á honum, og fimm sinnum um skaft.

  Það kom í ljós í kvöld að ef maður skiptir út 7-8 af besta byrjunarliðinu, þá endar maður með allt annað lið (og allt annan hamar). Ef við gerum ráð fyrir að besta byrjunarlið Liverpool líti svona út (4-3-3): Alisson – Trent – Gomez – Virgil – Andy – Fabinho – Thiago – Henderson – Salah – Firmino – Mané, og mögulega mætti svissa yfir í 4-2-3-1 og setja þá Jota inn fyrir t.d. Thiago – þá er staðan sú að það voru nákvæmlega 3 leikmenn úr besta byrjunarliði Liverpool í liðinu sem hóf leik í kvöld: Alisson, Mané og Salah (mögulega Gini sömuleiðis). Mané fann sig alls ekki en fékk þó að klára leikinn, annað en Salah sem var tekinn af velli eftir klukkutíma. Kannski var hann ekki kominn á fullt eftir Covid, hvað veit maður.

  Í ljósi þessa þarf kannski ekki að koma á óvart að Liverpool átti varla skot að marki í fyrri hálfleik. Jú Salah fékk nokkuð gott færi undir lok leiksins en skaut yfir. Annars lá Liverpool til baka og Atalanta pressuðu framarlega þegar þeir misstu boltann. Í stuttu máli var himinn og haf á milli þessa hálfleiks og fyrri hálfleiks um helgina gegn Leicester. Miðjan var afskaplega bitlaus, kannski voru þeir svona mikið að passa að verja öftustu línuna, sem var jú ákaflega óreynd. Af ungu strákunum þremur var Rhys líklega sýnu öflugastur. Ég sé á umræðunni að Neco fær ekki góða dóma fyrir sinn leik en undirritaður er ekki alveg sammála því. Við verðum að taka með í reikninginn að þetta er 19 ára pjakkur sem var fyrst minnst á í tengslum við aðallið Liverpool fyrir rétt rúmu ári síðan, og á helling eftir ólært. Hann er líka að stíga inn í stöðu sem hefur verið fyllt af einum besta hægri bakverði veraldar. Ekki er Kostas Tsimikas öfundsverðari, þurfandi að feta í fótspor á einum besta vinstri bakverði veraldar.

  Við erum aðeins búin að minnast á frammistöðu Mané og Salah, en á milli þeirra spilaði Divock Origi og átti hann einn daprasta dag sem framherji Liverpool hefur átt í lengri tíma. Lítil pressa, hélt bolta illa, ónákvæmar sendingar. Reyndar átti það við um megnið af Liverpool, það voru líklega komnar fleiri misheppnaðar sendingar eftir 20 mínútur heldur en í öllum Leicester leiknum.

  Líklega hefði Klopp átt að vera búinn að gera skiptingu strax í hálfleik, þá a.m.k. að skipta Origi út, og hugsanlega einhverjum af miðjunni. En það var svosem nokkuð fyrirséð að fyrsta skipting kom á 60. mínútu, og var ferföld: Bobby, Fab, Robbo og Jota komu inná fyrir Salah, Gini, Kostas og Origi.

  Því miður náðu Atalanta að skora rétt áður en skiptingin kom. Svosem ekki gegn gangi leiksins. En til að bæta gráu ofan á svart skoruðu þeir svo aftur 4 mínútum síðar. Í báðum tilfellum hefði vel verið hægt að gera betur í varnarleiknum, líklega mun Rhys bölva í koddann í kvöld að hafa ekki dekkað betur manninn sem var skyndilega aleinn á markteig í seinna markinu. Fyrir utan þetta atriði má hann samt vera bara nokkuð sáttur með sína frammistöðu.

  Liverpool sótti svo talsvert eftir þessi tvö mörk, og voru komnir í 4-2-3-1 undir lokin þegar Minamino kom inná fyrir Matip, Fab fór í miðvörðinn og Milner og Curtis sáu um miðsvæðið. En það kom í raun aldrei neitt gott færi sem liðið hefði átt að skora úr. Mané kláraði leikinn, en hefði klárlega haft gott af því að vera skipt útaf. Það virtist líka oft vera þannig að varnarmenn Atalanta hefðu skotleyfi á hann, oft sem maður hrópaði “af hverju var ekki dæmt á þetta?!??!” þegar var ýtt í bakið á honum og boltinn tapaðist. Almennt má reyndar segja að dómari leiksins hafi verið of mistækur, hann virtist ætla að leyfa leiknum að rúlla mjög mikið, en sleppti fyrir vikið fullt af brotum sem hefði með réttu átt að dæma á.

  Hvað um það, lokatölur urðu 0-2, svo ekki náðu okkar menn að tryggja farseðilinn í 16. liða úrslitin í kvöld.

  Áður en við sökkvum í þunglyndi yfir úrslitunum, þá er ágætt að hafa það hugfast að það var virkilega nauðsynlegt að rótera. Það eru 3 miðjumenn heilir fyrir utan Fab sem þarf að spila miðvörð, og ekki hægt að spila Milner í tveim stöðum á sama tíma (a.m.k. ekki ennþá, vísindamenn eru að vinna í því). Voru Neco og Kostas að sýna þannig frammistöðu að þeir geri með henni tilkall til byrjunarliðsstöðu? Nei, Trent og Robbo eru ennþá ljósárum á undan. Þetta eru leikmenn sem þurfa á reynslunni að halda, og það var aðeins lagt inn á reynslubankann hjá þeim í kvöld. Er Rhys 40 milljón sterlingspunda miðvörður með 8 ára reynslu á bakinu? Nei, hann var að koma inn í aðalliðshópinn úr U23 núna í haust, en þetta er hellings efni og er nú þegar að létta aðeins áhyggjurnar út af fjarveru VVD og Gomez. Er Curtis næsti Gerrard? Líklegast ekki, hann spilaði vel um helgina og var ekki slæmur í dag en ekki heldur eitthvað frábær. Allir þessir ungu strákar þurfa að fá svigrúm til að bæta sinn leik, og nýta reynsluna af leikjum eins og þessum, án þess að vera teknir af lífi í umræðunni.

  Svo má alveg hafa í huga að Atalanta eru með fantagott lið, og voru komnir upp við vegg í þessum riðli. Þeir einfaldlega þurftu að vinna.

  Besta/versta frammistaðan

  Ég veit ekki hvort það sé hægt að tala um bestu frammistöðu einhvers hjá Liverpool í þessum leik, svo við sleppum því. Nafnbótin fyrir verstu frammistöðuna fer á tvo staði: Divock Origi gerði fátt í þessum leik til að snúa því áliti margra að hans tími hjá Liverpool sé liðinn. Eins var dómari leiksins ekki með nægilega góð tök á leiknum, og ekki nægilegt samræmi í dómgæslu. Skipti hans frammistaða sköpum í leiknum? Alls ekki. Lið sem nær varla skoti á mark getur ekki ætlast til þess að vinna leikinn. En maður reiknar með ákveðnum gæðastandard í dómgæslu í Meistaradeildinni.

  Hvað er framundan

  Næst er það hádegisleikur á laugardaginn. Jú mikið rétt, auðvitað þurfti að setja leik Liverpool og Brighton á laugardagshádegið, sirka korteri eftir að Klopp var búinn að kvarta yfir því þegar það gerist hjá liðum sem eru að spila í Meistaradeildinni/Evrópudeildinni á miðvikudagskvöldi. Meiri snillingarnir.

  Það að þessi leikur hafi tapast er engin katastrófa, en þá verður líka að vinna a.m.k. annan af síðustu tveim leikjunum. Það hefði verið rosalega gott að vinna og geta spilað C-liðinu í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum, en hei, Liverpool fer einfaldlega aldrei auðveldu leiðina. Við eigum að vera búin að læra það.

  Það sem er mun mikilvægara er að vinna leikinn á laugardaginn. Klopp þurfti klárlega að rótera til að standa ekki uppi með örþreytt lið í þeim leik, og t.d. hefði verið gott að ná að hvíla Milner og Mané meira, en það var bara ekki hægt.

  Nú er bara að krossa fingur og vona að einhver af Hendo, Thiago, Shaq, Ox eða hinum verði leikfærir og í formi til að spila gegn Brighton.

  Semsagt, Brighton á laugardaginn (á útivelli), Ajax á þriðjudaginn (á heimavelli). Það verður eitthvað.

  [...]
 • Liðið gegn Atalanta á Anfield

  Liðið er klárt fyrir leikinn sem hefst kl. 20:00 í kvöld, og það er róterað duglega þar sem það er hægt:

  Bekkur: Adrian, Kelleher, Fabinho, Firmino, Minamino, Jota, Robertson, Cain, Clarkson, Koumetio

  Við sjáum því Williams tvíeykið (nei, ekki Serena og Venus!) í byrjunarliði í fyrsta sinn, og eins fær Robbo smá pásu en það hefur samt örugglega þurft að halda honum niðri þegar Klopp tilkynnti uppstillinguna. Matip fær það hlutverk að binda saman þessa varnarlínu, og vonandi að hann haldi út í 90 mínútur (krossa fingur). Miðjan einfaldlega velur sig sjálf eins og staðan er í dag, greinilegt að Klopp var sirka korteri frá að spila Leighton Clarkson eða Jake Cain í byrjunarliði. Þá er áhugavert að Origi fái sénsinn frammi með Mané og Salah sitt hvoru megin við sig, spurning hvernig hann spilar úr því. Kæmi ekki á óvart þó Minamino og jafnvel Jota kæmu inn á 60. mínútu í stað MS tvíeykisins. Ekkert bólar á Hendo, Thiago, Shaq etc., en vonum að þeir verði komnir til baka á laugardaginn, a.m.k. einn og helst tveir þeirra. Svo er ánægjulegt að Koumetio sé kominn á bekk, en hann hefur verið að slást við einhver meiðsli frá því að tímabilið hófst.

  Þetta er lið sem á alveg að geta tekið 3 stig á móti Atalanta, þó vissulega sé varnarlínan ung og óreynd.

  Leikurinn mun hefjast á einnar mínútu þögn vegna fráfalls Diego Armando Maradonna, eins besta knattspyrnumanns sem uppi hefur verið.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Atalanta kemur í heimsókn, upphitun

  Núna á miðvikudaginn er leikur tvö í snargeðveiku jólaprógrammi Liverpool. Frá sunnudagskvöldinu 22. Nóvember og þangað til flugeldar kveðja árið 2020 þá eru tólf leikir á dagskrá Liverpool. Það þarf ekki að segja neinum að hver einasta mínúta sem liðið getur hvílt lykilmenn skiptir máli.

  Þess vegna er þessi leikur gegn Atalana gullið tækifæri: Sigur tryggir liðið áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar og gerir leikina tvo sem eftir eru að algjörum aukaatriðum. Ef við skoðum hvernig síðasti leikur fór ætti maður ekki að vera mjög stressaður, en að sama skapi trúir maður ekki öðru en Atalanta heimsæki Anfield í hefndarhug. Atalanta þekkja líka ágætlega að vera með bakið upp við vegg í Meistaradeildinni, fyrir ári voru þeir stigalausir eftir þrjá leiki en tókst að framkalla kraftaverk. Þeir mega alveg gera það mín vegna aftur ár, svo lengi sem það sé á kostnað Ajax.

  Andstæðingarnir.

   

  Fyrir nokkrum vikur skrifaði Evrópu-Einar einn af sínum töfrapistlum um Atalanta og bendi ég fólki á hann ef þið viljið góða yfirferð um sögu klúbbsins. Í ár hefur liðið farið upp og niður. Komnir með fjóra sigra, tvö jafntefli (bæði í síðustu tveim leikjum) og tapað tveimur. Þeir hafa skorað fjórða flest mörk í deildinni, átján í átta leikjum. Sturlunin er að þeir hafa fengið á fjórtán mörk. Þetta er lið sem elskar að sækja, en kannski þess virði að minnast á að deildarleikjunum leikjunum tveim eftir 5-0 tapið fyrir Liverpool fengu þeir bara eitt mark á sig. Spurning hvort þeir hafi áttað sig aðeins á að það eru tvö mörk á vellinum og það þarf að verja annað þeirra.

  Hitt sem er vert að minnast á um núverandi leikform þeirra, er að núverandi form þeirra er ekki gott. Þeir hafa vissulega verið að reyna að lappa upp á varnaleikinn en þeir hafa ekki unnið nema einn af síðustu 6 leikjum sínum og hann var áður en þeir tóku á móti Liverpool. Það má líka ekki lesa allt of mikið í leikinn á laugardaginn, sumir leikmannanna komu til baka innan við sólarhring áður en þeir áttu að keppa við Spezia.

  Aðeins fjórir af leikmönnunum sem byrjuðu á móti Liverpool spiluðu um helgina. Líklega hefur þjálfarinn verið að spara sitt sterkasta lið þannig að ég ætla að spá svipuðu byrjunarliði frá því að liðin mættust síðast fyrir utan að Pierluigi Gollini er komin aftur í markið eftir tveggja mánaða meiðsl. Fyrir utan markmanninn ætla ég að gerast svo frakkur að stela byrjunarliðsspá frá sportsmole.co.uk: Toloi, Palomino og Djimsiti í vörn, Hateboer og Mojica á köntunum. Tveir dýpri miðjumennirnir verða Pasalic og Freuler, fyrirliðinn og leiðtoginn Gomez í holunni ef svo má að orði komar og svo Zapata og Muriel frammi.

  Liverpool.

  Eftir að hafa skellt Leicester er Liverpool með tækifæri til að gera að bestu viku tímabilsins (hingað til). Ekki í hverri viku sem menn skella toppliðinu og geta svo tryggt sig áfram í Evrópu. En hverjum er treyst fyrir verkefninu? Það liggur við að hægt sé að giska á byrjunarliðið með því að lista upp þá sem er ekki meiddir og segja það gott.

  En til „gamans“ þá eru nú á meiðslalista Liverpool: Van Dijk, Trent, Gomez, Chamberlain, Thiago, Shaqiri, Keita og Henderson. Það vantar semsagt þrjá í heilt byrjunarlið! Þetta væri meira segja fjári gott lið.

  Erum við alveg viss um að hann sé til?

  Þess fyrir utan er Fabinho ný stiginn upp úr meiðslum og Firmino æfði ekki í dag, sem var víst bara til öryggis. Svo spyr maður sig hversu margar mínútur er hægt er að leggja á Robbo, Milner og Gini á einni viku, tveir þeirra nýkomnir úr landsliðsverkefnum sem voru allt annað en auðveld. Það er þó ekki þannig að allar fréttir séu slæmar. Salah er annað hvort búin að ná sér af Covid á mettíma eða greiningin hans var röng, sem betur fer.  Þannig að það væri hægt að hvíla Bobby og byrja „bara“ með Mané, Salah og Jota. Sem ég er farinn að hallast að verði gert, með það fyrir augunum að skipta allavega tveim þeirra út af snemma í seinni fyrir Minamino og Origi.

  Miðjan er svo annars konar hausverkur. Þegar miðjumenn þurfa sífellt að byrja sem varnarmenn virðist hópurinn ekki alveg jafn breiður þar. Curtis Jones stóð sig afar vel á miðjunni gegn Leicester og fær þess vegna traustið aftur. Ef Milner spilar þennan get ég ekki séð hann byrja á móti Brighton og það væri ofboðslega gott að ná að hvíla Gini eitthvað. En hér er málið: Það eru engir aðrir! Á heimasíðu liðsins er 9 leikmenn skráðir sem miðjumenn, einn þeirra leikur nú í vörninni og fimm eru á meiðslalista! Eina lausninn sem mér dettur í hug ef Klopp verður að hvíla Milner, Jones eða Gini væri að Bobby eða Minamino væru fremst á miðjunni. Held ekki.

  Gamli sér um þetta!

  Svo er það vörnin. Matip er sjálfvalinn. Hver verður honum við hlið? Rhys Williams, það er bara þannig. Eftir að hafa séð Neco á móti Leicester væri ég bara glaður að sjá hann í bakverðinum. Ætli það komist upp í þessum leik að Robbo sé mennskur og við sjáum Tsimikas loksins spila? Ég held að Robbo byrji en einhvern tímann verður að prufa Tsimikas, hví ekki skipta honum inná í þessum leik fyrst að það eru fimm skiptingar?

  Spá

  Mig langar að segja að Liverpool setji þrjú mörk og klári þetta snemma. En ég er með einhverja ónotatilfinningu fyrir þessum leik. Þannig að ég spái 1-1 jafntefli, þar sem Liverpool kemst yfir snemma með marki frá Salah en svo ná Atalanta jafna í seinni hálfleik. Ekki fullkomin vika, því miður, en ég er bara ekki vanur að Liverpool fari auðveldu leiðina í Evrópu. Vona að ég hafi rangt fyrir mér!

   

  [...]
 • Gullkastið – Bakkað yfir Leicester

  Það var ekki að sjá á leik Liverpool að menn hefðu teljandi áhyggjur af endalaust löngum meiðslalista þegar Leicester kom á Anfield, svokölluð yfirpilun. Áhugverð úrslit í öðrum leikjum og næsta vika er mjög þétt með tveimur leikjum á dagskrá.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 312

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  [...]
 • Liverpool – Leicester 3-0

  1-0 Evans (sjálfsmark), 20 min
  2-0 Jota, 40 min
  3-0 Firmino, 85 min

  Liverpool byrjaði nokkuð fjörlega. Á 2 mínútu átti Mané skalla í hliðarnetið þegar hann reyndi að lauma knettinum inn á nærstönginni eftir hornspyrnu vinstra megin.

  Örfáum mínútum fékk Liverpool tvö færi. Fyrst átti Jones fínt tækifæri eftir að heimamenn unnu boltann ofarlega á vellinum, Firmino kom boltanum á Keita sem lagði knöttinn innfyrir á Jones en skot hans úr nokkuð þröngu færi var varið á nærstönginni í horn.  Í næstu sókn fékk Jota gott skotfæri á vítateigslínunni en skotið hefði mátt vera betra og Schmeichel varði nokkuð örugglega.

  Á 20 mínútu lék lánið við okkar menn. Evans var svo upptekinn af því að dekka og halda í Mané að hann skallaði knöttinn örugglega framhjá þeim danska, 1-0, verðskuldað þó markið hafi verið ljótt! Gestirnir fengu sitt fyrsta færi strax í kjölfarið, og hefðu vel getað jafnað, þegar Vardy lagi boltann út í teig á Barnes en skot hans fór hárfínt framhjá!

  (more…)

  [...]
 • Liðið gegn Leicester

  Jæja, þá er það (staðfest) – við náum í lið og leikurinn fer fram! Shaqiri, Salah, Trent og Henderson  eru allir frá eftir þessa landsleikjatörn en Fabinho er kominn aftur og fer beint í liðið við hlið Matip! Annars er liðið svona:

  Eins og við sjáum þá eru ekki stórir eða augljósir kostir á bekknum ef hlutirnir eru ekki að ganga upp. Það er bara ein lausn við því – við látum þá ganga og tökum þrjú stig takk!

  Koma svo!

  YNWA

  [...]
 • Upphitun: Leicester & Rodgers heimsækja Anfield

  Landsleikjahléið er látið, lengi lifi landsleikjahléið!

  Leikmenn allra liða eru að skrönglast aftur heim til sinna úrvalsdeildarliða eftir bardaga í fjarlægum löndum, með fætur í fatla eða smitaðir af heimsfaraldri. But, the show must go on!

  Mótherjinn

  Kunnuglegt andlit kíkir í sunnudagskaffi þegar að Brendan Rodgers og blárefir hans sækja Rauða herinn heim. Sem fyrrum herforingi Rauðliða þá gefur það boltabardaganum öllu meiri sprengikraft en Rodgers mislukkaðist í báðum sigurtilraunum sínum á síðasta tímabili gegn okkar mönnum.

  Leicester-liðið byrjaði deildina sérlega vel í fyrra og mættu LFC í hörkuleik á Anfield sem var kláraður síðbúið með vítaspyrnu James Milner í blálok uppbótartímans til að tryggja 2-1 sigur. Liðin mættust svo aftur á annan í jólum í meistarauppgjöri þar sem Liverpool kom með öskrandi háværa yfirlýsingu um væntanlega meistaratign sína með rosalegum 0-4 útisigri.

  Leicester voru þó í nokkuð öruggu topp 4 meistaradeildarsæti þegar að leikar voru stöðvaðir vegna Covid á vordögum en náðu aldrei flugi við endurbyrjun og brotlentu hressilega á endasprettinum. Bognir en þó óbrotnir eru refirnir frá Leicesterskíri mættir öflugir til leiks á nýju tímabili og tróna á toppnum, einu stigi á undan gestgjöfum Liverpool. Á leið sinni á tindinn hafa þeir unnuð afar áhugaverða sigra á Man City, Arsenal og Wolves og eru á núverandi 6 leikja sigurgöngu í leikjum Úrvalsdeildar og Evrópudeildar. Þeir verðua því ekkert lamb að leika sér við enda refir.

  Bláliðar mega una vel við hóflegan meiðslalista og eingöngu tyrkneski varnarjaxlinn Çaglar Söyüncü og Wilfred Ndidi sem teljast vera lykilmenn sem vantar við þeirra liðsval. Hlaupagaukurinn Vardy hefur fengið væna hvíld sem er ávísun á veruleg vandræði og hinir efnilegu Maddison og Barnes komust ekki í enska landsliðshópinn.

  Rodgers hefur verið að keyra á þremur hafsentum sem hefur gengið vel upp eins og úrslit leikjanna sanna. Liðið hefur verið vel skipulagt og skynsamt á boltanum þó að þeir liggi á köflum aftarlega en beita síðan leifturhröðum skyndisóknum þegar tækifæri gefst. Líklegast er að þeir fari varkárir inn í leikinn á Anfield en reyni að herja á varnarveikleika í samantjaslaðri varnarlínu Englandsmeistaranna.

  Refir Rodgers verða væntanlega uppstilltir á eftirfarandi máta:

  Líklegt byrjunarlið Leicester í leikkerfinu 3-4-2-1

   

  Liverpool

  Hvar á að byrja? Í það minnsta ekki á að telja upp allan meiðslalistann því að það yrði alltof langur pistill en af nýjustu fregnum að dæma verður Henderson ekki leikfær og Salah væntanlega ekki laus úr sóttkví. Það styttist í Thiago og Fabinho en manni finnst líklegast að að þeir væru í mesta lagi á bekknum miðað við að þeir eru að stíga upp úr meiðslum og sama gildir um Ox sem er líka byrjaður að æfa.

  Fjöldamargir af þeim sem munu þurfa að byrja leikinn hafa verið að spila 2-3 landsleiki í fjarlægum löndum síðustu daga eins og Firmino, Mané, Gini, Shaqiri og Robbo þannig að það er klárlega hætta á þreytu og meiðslum hjá þeim leikmönnum. Framlínan ætti að segja sig sjálf en flóknara er að ráða í uppstillingu á miðju og vörn.

  Hugsanlegt er að Tsimikas og Milner komi til greina í sitt hvorn bakvörðinn en ég giska á að Robbo og Neco hefji leik þó að þeim fyrrnefndu gæti verið róterað í þessar stöður síðar. Rhys Williams kemur líka til greina í hafsent en ég held að hann verði sparaður fyrir CL-leikinn gegn Atalanta í ljósi þess að Nat er ekki gjaldgengur í þeirri keppni.

  Á miðjunni er alveg hægt að rökstyðja að Keita ætti að fái að byrja eða jafnvel Minamino eða Curtis Jones, en ég hallast að því að reynsluboltarnir Shaq, Gini og Milner fái kallið. Einnig má spekúlera um breytta taktík í 4-2-3-1 eða aðrar útfærslur en líklega verður 4-3-3 spiluð verandi sú leikaðferð sem liðið þekkir hvað best.

  Byrjunaliðið í slembiuppstillingu yrði því eftirfarandi:

  Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

  Blaðamannafundur

  Klopp hélt sinn fyrsta blaðamannafund í AXA-æfingamiðstöðinni í Kirkby um hádegisbil á föstudegi og upplýsti margt varðandi heilsufar leikmanna, komutíma Salah o.fl.

  Brot úr blaðamannafundi Brendan Rodgers:

  Tölfræðin

  Leicester hefur ekki unnið á Anfield í Úrvalsdeildinni síðan árið 2000 er þeir sigruðu 0-2 undir stjórn Martin O’Neill en á þeim tíma var það þeirra þriðji sigurleikur í röð á Anfield. Síðan þá hafa liðin spilað 9 deildarleiki á rauðum velli Bítlaborgarinnar og Liverpool unnið 7 af þeim leikjum með 2 jafntefli til viðbótar.

  Liverpool hefur unnið 29 af síðustu 30 heimaleikjum sínum í Úrvalsdeildinni og skorað í það minnst 2 mörk í 28 af þessum 30 leikjum. Að sama skapi hefur Leicestur unnið síðustu 4 útivallarleiki sína í Úrvalsdeildinni þannig að eitthvað þarf undan að láta þegar að liðin mætast.

  Liverpool undir Klopp jafnaði met Bob Paisley og co. frá árunum 1978 til 1981 með 63 deildarleikjum án taps á heimavelli með því að sigra West Ham um daginn. Með því að tapa ekki fyrir Leicester eða gera betur myndu þeir bæta það magnaða met.

  Í fréttum er þetta helst

  Upphitunarlagið

  Brotnir, barðir, bilaðir, bóluefnalausir og bugaðir boltabardagamenn en sýningin þarf að halda áfram!!!

  Spaks manns spádómur

  Það verður hörkuleikur og toppslagur á sunnudaginn kemur og það verður tæpt á tölum í miklum markaleik en Rudy Giuliani mun efast stórlega um lokatalninguna. Liverpool er klárlega með mun betra lið þegar allir eru heilir en meiðslamartröð síðustu mánaða hefur tekið sinn toll og jafnað leika heldur betur.

  Í raun er merkilegt að við séum í þessari stórgóðu stöðu í deild og CL-riðli miðað við hörmungurnar sem hafa dunið á hópnum. Það er þó langt mót eftir og miklu sem lítt reyndir hafsentar, misungir miðjumenn og síspilandi sóknarmenn þurfa að bjarga á tímum Covid og í linnulausu leikjaálagi.

  Klopp og klárir kappar hans munu því þurfa á allri sinni meistaraheppni að halda til að landa fyrirhuguðum 3-2 sigri en það mun hafast á endanum með VAR-vítaspyrnu-veseni sem Milner klárar síðbúið í uppbótartíma. Aðrir markaskorar verða Bobby Firmino og Nat Philips fyrir heimamenn en vandræðaunglingurinn Vardy skorar bæði mörk Leicester úr vitavitlausum vítaspyrnum að hætti enskra VAR-dómara.

  YNWA

  [...]
 • Derbyslagur hjá kvennaliðinu

  Stelpurnar okkar eru ekki bara að slást í næstefstu deildinni, heldur eru þær líka í hörkuslag við helstu nágranna sína í Continental Cup bikarkeppninni. Þær eru búnar að leika 2 leiki í þeirri keppni, unnu United 3-1 fyrr í haust, en töpuðu 3-0 fyrir City fyrir hálfum mánuði síðan. Nú er komið að því að spila við grannana bláklæddu í Everton.

  Eins og venjulega er Vicky Jepson að gefa nokkrum ungum leikmönnum spilatíma í þessari keppni, t.d. hefur Rylee Foster séð um að verja markið í þessari keppni, og ungliðar eins og Mia Ross og Lucy Parry hafa fengið mínútur. Í kvöld er engin undantekning þar á, og ein þeirra sem hefja leik í kvöld er Missy Bo Kearns, en hún er harðkjarna scouser og Liverpool aðdáandi eins og áður hefur komið fram. Nýsjálendingurinn Meikayla Moorey byrjar í líklega annað sinn fyrir aðalliðið.

  Svona lítur liðið annars út:

  Foster

  Jane – Robe – Fahey – Hinds

  Kearns – Moore

  Lawley – Furness – Babajide
  Thestrup

  Bekkur: Laws, Heeps, Hodson, Rodgers, Ross, Parry

  Ánægjulegt að sjá að Amy Rodgers er líka komin til baka, og er á leikskýrslu í fyrsta sinn síðan snemma í haust.

  Leikurinn er sýndur beint á helstu miðlum Liverpool: YouTube, Facebook og Twitter.

  KOMA SVO STELPUR!!!

  [...]
 • Gullkastið – Erfitt að ná í lið

  Þetta tímabil stefnir í að verða eitt það versta í sögu félagsins er kemur að meiðslum lykilmanna og vondufréttirnar héldu heldur betur áfram að koma í þessari viku. Ef menn eru ekki meiddir eru þeir veikir af Covid. Það er stórleikur um næstu helgi gegn toppliði deildarinnar og gríðarlegt leikjaálag fram að áramótum.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 311

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  [...]
 • Liverpool kveður Melwood eftir áratuga samveru

  Í síðustu viku kláraðist langur og mikilvægur kafli í sögu fótboltaliðsins Liverpool. Æfingasvæðinu á Melwood var lokað í síðasta sinn. Frá 1950 til 2020 æfði aðaliðið á Melwood, kynslóð eftir kynslóð af Scouserum stóð á ruslatunnum við veggi svæðisins til að sjá hetjurnar sínar og 15 aðalþjálfarar Liverpool skipulögðu leiki og hristu saman lið sín á grasinu þar.

  Svo fallegt svæði, en stór galli að það er stærðin

  Upphaf Melwood.

  Fyrstu áratugi Liverpool FC var ekki verið að hafa fyrir að æfa á sér svæði. Æfingarnar voru haldnar á Anfield. Undir lok fimmta áratugarins var orðið ljóst að völlurinn þoldi ekki bæði æfingar og leiki. Þá hóf liðið að æfa á þrem sparkvöllum í steinssnars fjarlægð frá Anfield. Svæðið hafði í raun verið keypt á millistríðsárunum en engin hafði haft fyrir að halda því við og væntanlega hafa menn ekki nennt að breyta því sem virkaði, nefnilega að æfa á Anfield.

  Vellirnir hétu Melwood, skýrðir í höfuðið á tveimur prestum sem kenndu fótbolta á grasinu þar. Þeir voru Faðir Melling og Faðir Woodlock. Þeim tveimur hefur líklega ekki órað fyrir að komast á þennan hátt í sögubækurnar. Svæðið var í grunninn krikket svæði, nógu stórt fyrir þrjá fótboltavelli í fullri stærð. Þegar fram liðu stundir var einn sparkvallanna nefndur Wembley, en þar æfði liðið bara fyrir stærstu leikina.

  Liðið byrjaði að æfa þarna um það bil 1950 en saga svæðisins hefst fyrir alvöru 1959. Þá tók auðvitað Bill Shankly við aðalliðinu. Hann mætti á æfingarsvæðið og var vægast sagt ekki hrifinn. Í sjálfsævisögu sinni lýsir hann svæðinu sem aumkunarverði auðn. Þegar hann gekk framhjá tveimur gígum á grasinu á hann að hafa spurt: „Komu þjóðverjarnir við hérna?“ Þetta er auðvitað bara eftirstríðbrandari en það er vert að segja að það er alveg möguleiki að þarna hafi verið gígar úr stríðinu sem engin hafði lagað fimmtán árum eftir stríðslok. Blaðamaðurinn Tony Evans fæddist 1977 og hann hefur lýst að hann gat fundið sprengjugíga og ónýtar verksmiðjur í borginni þegar að hann lék sér sem barn, tuttugu árum seinna.

  Svæðið hafði fengið að drabast niður í ruslflokk. . Tré uxu hér og þar, grasið var ójafnt. Inn í krikket skúrnum var lítið lóðasvæði þar sem menn gátu lyft á steypugólfi, máling var að flagna af. Shankly hófst handa.

  Húsið var rifið í tætlur og nýtt byggt. Vallarverðirnir frá Anfield voru kallaðir til og þeir látnir vinna í grasinu á Melwood þangað til það var Shankly að skapi. Þetta var kannski ekki það mest áberandi sem Shankly gerði, en þetta skipti hann og leikmennina miklu máli. Hann trúði að Melwood væri annað heimili leikmanna og ætti að vera hreint, skipulagt og til fyrirmyndir.

  Frá nútímaaugum er ein ákvörðun sem var tekin þarna pínu skrýtin. Shankly vildi ekki að það væru heit böð á Melwood, né staður til að borða. Hugsunin var sú að leikmenn þyrftu tíma til að kæla sig niður eftir æfingu, ef þeir færu beint af æfingu í sturtu myndi þeir „svitna allan daginn,“ eins og Shankly orðaði það. Þetta er ástæða þess að allt til ársins 2000 tóku leikmenn rútu til og frá Anfield fyrir æfingu. Eftir æfingu var matur á heimavellinum og svo fóru þeir af stað út í lífið.

  Það er líka hægt að týna til litla hluti sem Shankly gerði. Í mörgum gömlum myndböndum sjást leikmennirnir sparka í vegg . Þessi veggur var ekki bylting, en hann var til marks um breytingarnar í þjálfunarfræði. Það var ekki fyrr en á þessum tíma (60-70) sem boltatækni var orðin að mikilvægum þætti í þjálfun liða. Það er líka á þessum tíma sem reitarbolti fór að vera hluti af æfingum liðsins Á þessum árum þróaði Shankly stíl liðsins á æfingasvæðinu og uppúr því hófst gullöld liðsins.

  Næsta bylting.

  Það er bæði til marks um snilli Shankly og íhaldsemi liðsins að næsta meiriháttar breyting á æfingavæðinu var fjörtíu árum seinna. Eða kannski bara að það eru takmörk fyrir hvað er hægt að bæta grasvöll mikið. 1998 var Akademían sett upp í Kirkby og unglingaliðin æfa þar en þann dag í dag. Leikmenn eins og Trent hafa lýst því í viðtölum að öll yngri árin dreymdi hann um að „komast á Melwood.“ Kirkby var svo tekið ég gegn í stjóratíða Benitez

  Árið 2001 lét Houllier byggja nýtt hús við æfingarsvæðið sem dró staðinn inn í 21. öldina. Þar með hættu rútuferðirnar á milli Melwood og Anfield. Í nýja húsinu voru hlutir eins og nútíma rækt, matsalur og svo framvegis.

  En Melwood var ekki gallalaust svæði. Hundruðir scousera hafa lýst því að þegar þeir voru krakkar fóru þeir niður til Melwood og fylgdust með liðinu æfa. Ef krakkar geta fylgst með æfingum geta fullorðnir líka gert það. Þegar framliðu stundir fór að bera á því að andstæðingar vissu meira en þeir áttu að vita um byrjnarlið og önnur leyndarmál liðsins. Brendan Rogers lét reisa ögn kómísk tjöld allt í kringum svæðið til að koma í veg fyrir þessa leka.

  En bygging Kirkby og koma Klopp markaði upphafið af endinum fyrir Melwood. Í nútímafótbolta á efsta stigi eru sífellt meiri kröfur til æfingasvæðana. Endurheimt virðist ætla að verða ein af stóru byltingunum í íþróttum, svo ekki sé talað um greindingar deildirnar sem stækka ár frá ári, yngri liðin og svo framvegis. Melwood, sem þjónaði svo vel í svo mörg ár, var einfaldlega ekki nógu stórt.  Strax frá fyrsta degi var Jurgen Klopp pirraður yfir að þurfa að keyra nokkra kílómetra til að sjá yngri liðin spila.

  Þannig að svæðið var selt og mun breytast í íbúðarhverfi og aðallið Liverpool mun flytja á nýtt svæði í Kirkby. Þetta mun líklega verða varanlegastu áhrif Jurgen Klopp á liðið. Svona ákvarðanir eru ekki teknar á hverjum áratug og leikmenn yngri liða Liverpool horfa yfir grasið næstu ár og láta sig dreyma um að komast á svæðið þarna hinum megin, þar sem hetjurnar þeirra æfa.

  Ný spyr maður: Þið útvöldu sem heimsóttuð staðinn á ýmsum tímum síðustu áratugi, hvernig kom Melwood ykkur fyrir sjónir?

  Myndir:

   

  Algeng sjón í áratugi, local fólkið fylgist með æfingu
  Þessi litla rækt var bylting fyrir liðið árið 2003
  Ok, ég verð að játa. Mér finnst svona myndir miklu skemmtilegri en myndir af liðinu að æfa.
  10 stig fyrir þann sem getur nefnt söngvarann sem fylgist hér með Shankly
  Myndin sem Owen deildi, svæðið á tíunda áratugnum
  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close