Latest stories

 • Létt spjall við fótbolta.net

  Við tókum létt spjall við Magga hjá fótbolti.net í dag um Liverpool, leikinn gegn Southampton, sumargluggann, leikinn framundan gegn Man.Utd og sitthvað annað.
  Brakandi ferskt Gullkast kemur svo inn seinna í kvöld.
  Hægt er að hlusta á okkur hérna.

  [...]
 • Liverpool 2 – 0 Southampton

  Mörkin

  1-0 Mané (31. mín)
  2-0 Thiago (90. mín)

  Gangur leiksins

  Leikurinn byrjaði frekar óvenjulega fannst manni, þ.e. að Southampton voru talsvert meira með boltann fyrstu mínúturnar, en þó voru það leikmenn Liverpool sem áttu hættulegustu færin. Mané fékk boltann við vítateigslínuna eftir góða sendingu frá Trent, en skaut yfir. Hefði sjálfsagt getað lagt hann á Salah í betra færi, en gerði það ekki. Salah fékk líka færi við markteigshornið hægra megin, en Foster varði vel. Maður spurði sig: “Verður þetta enn einn leikurinn þar sem markvörður andstæðinganna mun eiga leik lífs síns?” (N.b. þá hefur Foster alveg átt nokkra svoleiðis gegn Liverpool áður). En á 31. mínútu fékk Fab boltann rétt fyrir framan vítateiginn eftir ónákvæman varnarskalla, renndi honum á Salah sem átti góða fyrirgjöf á markteigshornið vinstra megin, og þar var Mané mættur og stangaði boltann í netið. Þetta var n.b. fyrsta mark leiktíðarinnar þar sem Salah og Mané hjálpast að (annar skorar og hinn leggur upp).

  Þetta gerðist tæpri mínútu eftir að Saints höfðu átt stórhættulega sókn sem endaði með algjöru dauðafæri sirka á vítapunktinum, en Alisson átti þá nokkuð sem mætti kalla “match-winning” markvörslu – og svo aðra þegar leikmenn Southampton unnu boltann eftir frákastið og áttu annað skot, reyndar talsvert hættuminna. En engu að síður var þetta svona “stöngin út/stöngin inn” dæmi, þarna hefði staðan auðveldlega getað verið 0-1 fyrir gestunum, en í staðinn komust okkar menn yfir. Sanngjarnt, engu að síður.

  Seinni hálfleikurinn var svo öllu erfiðari. Mané skoraði mark sem var dæmt af vegna augljósrar rangstöðu, en annars var minna um færi. Firmino var svo sá fyrsti til að koma inn af bekknum fyrir Jota, en sá síðarnefndi hafði átt mistækan leik. Átti gott gegnumbrot í fyrri hálfleik en skaut beint á Foster, en virðist vera í smá lægð núna í síðustu leikjum. Ox og Jones komu líka inná, en reyndar bara í blálokin. Segja má að þar með hafi Klopp klárað varamannabekkinn, því restin af útileikmönnunum þar verða að teljast meðal kjúklinganna okkar (ok, Shaqiri er nú vissulega í reyndari kantinum).

  En það var svo á 90. mínútu að boltinn vannst á vinstri kantinum (mögulega fór boltinn í höndina á Mané í aðdragandanum, en það var a.m.k. ekki talið nægilegt til að breyta neinu), Firmino fékk boltann og renndi á Thiago sem hafði gott pláss fyrir utan vítateiginn, og skaut hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Frábær tímasetning til að opna markareikning sinn fyrir félagið! Þetta gerði út um leikinn, og eftir þetta var bara spurning um að sigla þessu í höfn.

  Bestu/verstu menn

  Alisson hlýtur ótvírætt titilinn maður leiksins. Hann varði 6 skot að marki, og það hefur ekki gerst að markvörður Liverpool verji svona mörk skot og haldið hreinu síðan Pepe Reina gerði það gegn Wigan árið 2013. Það hefur að vísu eitthvað að gera með það hvað vörn Liverpool hefur verið góð, en engu að síður… Alisson gerði reyndar sitt til að hækka þessa tölu með því að eiga klaufalega sendingu út úr vörninni, en bjargaði því með góðri vörslu sem betur fer. En hann sýndi okkur þarna af hverju hann er talinn með bestu markvörðum í heimi í dag. Þetta telst líka vel af sér vikið í ljósi þess að hann var með Nat og Rhys fyrir framan sig í miðvörðunum. Nat hefur vissulega vaxið við hverja áraun á síðustu vikum, en Rhys er greinilega ekki tilbúinn til að vera miðvörður í liði eins og Liverpool. Miðað við hvað hann er lappalangur, þá er fáránlegt hvað hann er hægur.

  Umræðan eftir leik

  Fyrst um meiðslalistann: fyrir leik voru 10 leikmenn á meiðslalista Liverpool, sem er met. Í þessu tvíti er svo sýnt hvernig fjöldi leikmanna á meiðslalistanum helst í hendur við stigasöfnun:

  Semsagt, mögulega hafa öll þessi meiðsli haft neikvæð áhrif á gengi liðsins.

  Aðal málið er auðvitað hvort Liverpool eigi ennþá séns á að hirða 4. sætið. Jú, möguleikinn er fyrir hendi. En þá má helst ekkert klikka. Líklegt er að í mesta lagi megi Liverpool gera eitt jafntefli í síðustu 4 leikjum, helst þarf að vinna rest. Okkar menn eru núna með 57 stig í 6. sæti. Sem stendur er Leicester í 4. sæti með 63 stig, og eiga eftir að spila við United (á þriðjudaginn), Chelsea og Tottenham. Við gætum alveg séð þá tapa 1-2 leikjum af þessum, jafnvel 3 ef mjög illa fer. En svo þarf líka að hafa annað augað á West Ham sem eru stigi á undan okkar mönnum með 58 stig, og eiga eftir að spila við Everton (á morgun), Brighton, WBA og Southampton. Þeirra prógram virkar “léttara” við fyrstu sýn, en auðvitað er ekkert tryggt að þeir vinni alla sína leiki. Ef maður ætti að veðja á hvort Leicester eða West Ham tapi fleiri stigum á lokametrunum, þá myndi ég veðja á að Leicester tapi fleiri stigum. Chelsea held ég að séu stungnir endanlega af, og gætu jafnvel komist framúr United þó það velti mjög á því hvernig rauðu djöflunum gangi t.d. í næstu tveim leikjum gegn Leicester og okkar mönnum. Markamunur þessara liða er þannig að Leicester og Liverpool eru á svipuðu róli, en West Ham með nokkuð lakara markahlutfall. Við þurfum semsagt að treysta á að okkar menn vinni 3-46-7 stigum meira en Leicester í síðustu leikjunum (Liverpool getur unnið 12 stig, Leicester 9), og a.m.k. 1 meira en West Ham, að því gefnu að þeir fari ekki að bæta markahlutfallið eitthvað svakalega. Útilokað? Nei alls ekki. Líklegt? Ég myndi ekki veðja húsinu og bílnum á að þetta takist, en við vitum alveg að þetta Liverpool lið er fært um ýmislegt þegar það er komið með bakið upp við vegg. Okkar menn eiga n.b. eftir að spila við United, WBA, Burnley og Palace. Mest leikir sem maður hefði haft litlar áhyggjur af á síðasta tímabili, en miðað við gengi okkar manna á þessari leiktíð verðum við með hjartsláttartruflanir yfir öllum þessum leikjum.

  Næsti leikur er svo þessi alræmdi leikur gegn United sem var frestað um síðustu helgi. United mun koma inn í þann leik eftir að hafa mætt Villa (á morgun) og Leicester (á þriðjudaginn). Við megum því eiga von á því að Solskjaer mæti með B-liðið gegn Leicester og skíttapi þeim leik, en svo með sitt allra sterkasta lið á fimmtudaginn.

  En á meðan það er enn von að krækja í 4. sætið, þá höldum við í þá von. Og það að halda í vonina er sannarlega eitthvað sem Liverpool aðdáendur þekkja mjög vel!

  [...]
 • Liðið gegn Southampton

  5. síðasti leikur þessa guðsvolaða tímabils fer að hefjast. 15 stig enn eftir í pottinum, og vissulega er það þannig að Liverpool spilar oft best þegar það er með bakið upp við vegg. Miði er möguleiki sagði í auglýsingunni hér í denn, og við gefumst ekkert upp fyrr en í fulla hnefana. En vissulega er það þannig að liðið er enn ekki búið að ná fimm leikja sigurhrinu á þessari leiktíð. Kannski kemur það núna.

  Allavega, liðið sem mætir Saints á Anfield núna kl. 19: 15 lítur svona út:

  Bekkur: Adrian, Koumetio, Tsimikas, Neco, Ox, Jones, Shaqiri, Woodburn, Firmino

  Það er semsagt það nýtt að frétta að Kabak er frá vegna smávægilegra meiðsla, sem og Milner, Keita og Ben Davies. Þess vegna fær Woodburn sénsinn á bekk í fyrsta sinn síðan í ákveðnum leik í undanúrslitum meistaradeildarinnar fyrir tveim árum. Eins fær miðvörður úr U18 sénsinn, og erum við þar að sjálfsögðu að tala um Billy the Kid Koumetio. Svoleiðis er nú staðan orðin hvað varðar miðverði.

  Mér finnst ég ekkert vera að biðja um mikið þegar ég panta 3 stig núna á eftir. Er það nokkuð?

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Southampton á Anfield (Upphitun)

  Apríl mánuður byrjaði nokkuð vel, 0-3 sigur á Emirates og 2-1 sigri gegn Aston Villa á Anfield í fyrstu tveimur deildarleikjunum með reyndar svekkjandi tapi gegn Real þar á milli. Eftir það hefur liðið getað lítið sem ekki neitt og þrjú virkilega döpur og svekkjandi jafntefli í röð hafa skilað okkur út úr einu keppninni sem við áttum einhvern möguleika á titili ásamt því að við sitjum nú í 7 sæti heilum 7 stigum frá meistaradeildarsæti, með leik til góða. Andstæðingarnir í þetta skiptið eru Southampton og fer leikurinn fram á nokkuð þægilegum tíma eða kl. 19:15 á laugardagskvöldi.

  Formið og sagan

  Þó svo að okkar mönnum hafi gengið nokkuð brösulega síðustu misserin er það ekki jafn slæmt og hjá gestunum. Við förum inn í þennan leik með 11 stig af síðustu 15 á meðan að Soton hefur ekki náð nema 4 stigum af 15 mögulegum og hafa ekki unnið leik í deildinni í meira en mánuð (4 apríl gegn Burnley). Ég veit ekki afhverju en það hræðir mig örugglega meira en ef þeir væru að mæta til leiks með fullt hús stiga…

  Okkur hefur gengið nokkuð vel gegn Southampton síðastliðin ár og vorum t.a.m. á 5 leikja sigurhrinu gegn þeim í deild áður en kom að ósigrinu í fyrsta leik ársins á St Mary´s. Síðustu tveir deildarleikir á Anfield hafa verið nokkuð þægilegir, 4-0 sigur í febrúar 2020 og 3-0 í september 2018.

  Ég veit ekki alveg hve oft ég ætla að leyfa mér að vonast eftir viðsnúningi og meistaradeildarsæti. Leicester tapaði illa í kvöld og hélt þessari baráttu um 3-4 sæti opinni þar sem þeir eiga virkilega erfitt prógram framundan. Það verður þó heldur betur að vera viðsnúningur hjá okkar mönnum ef það á að ganga upp. Nákvæmlega engar vísbendingar þess efnis en við sjáum hvað setur.

  (more…)

  [...]
 • Stórleikurinn í hættu – Óvíst hvort hann fari fram Uppfært: Samkvæmt Guardian er búið að fresta leiknum

  Það er búin að vera hasar fyrir leik í Manchester, en stuðningsmenn United hafa fyrir löngu fengið skiljanlega fullsadda á Glazer fjölskyldunni og Ofurdeildin var kveikjan að risa mótmælum fyrir utan völlinn í dag og bárust þau mótmæli inn á grasið fyrir um klukkutíma. Liðin eru samkvæmt Guardian á hótelunum og munu ekki fara af stað fyrr en öryggi hefur verið fulltryggt. Við uppfærum hérna eftir því sem upplýsingar berast.


  Uppfært 14:32: Enn alls óvíst hvort leikurinn fari fram:

  https://mobile.twitter.com/lauriewhitwell/status/1388859609390239747


  Uppfært 14:36: Ef leikurinn fer fram (sem virðist vera ólíklegt) munu byrjunarliðin vera svona:

  Manchester United (4-2-3-1) Henderson; Wan-Bissaka, Lindelof, Maguire, Shaw; McTominay, Fred; Greenwood, Fernandes, Pogba; Rashford.
  Subs: de Gea, Bailly, Telles, Williams, Tuanzebe, Mata, Matic, van de Beek, Cavani.

  Liverpool (4-3-3) Alisson; Alexander-Arnold, Phillips, Kabak, Robertson; Thiago, Fabinho, Milner; Salah, Firmino, Mane.
  Substitutes: Adrian, Tsimikas, R Williams, Wijnaldum, Keita, Oxlade-Chamberlain, Jota, Jones, Shaqiri.


  Uppfært 14:55: ljóst að leikurinn byrjar ekki 15:30 eins og upphaflega var áætlað, en ekkert verið gefið út um það hvenær hann hefst:

  https://www.independent.co.uk/sport/football/manchester-united-liverpool-protest-kickoff-b1840998.html

  Uppfært 16:38

  Nú virðist búið að fresta leiknum, en ekki orð um hvenær hann fer fram.

  [...]
 • Lokaleikur kvennaliðsins á leiktíðinni

  Það er komið að lokaleik kvennaliðsins á þessari leiktíð; leiktíð sem verður að teljast vonbrigði þegar upp er staðið, þó svo það sé alltaf hægt að finna einhverja ljósa punkta í myrkrinu. Lokaniðurstaðan virðist ætla að verða 3ja sætið, smá séns á að liðið nái 2. sæti ef Durham vinnur ekki sinn leik, og ekkert útilokað að liðið lendi í 4. sæti með tapi í dag ef Sheffield vinnur sinn leik.

  Ljósu punktarnir á þessari leiktíð eru einna helst þeir að nokkrir ungir leikmenn hafa stigið upp: Missy Bo Kearns hefur stimplað sig inn í aðalliðið, Rylee Foster hefur fengið sína fyrstu leiki í deild og hefur staðið sig mjög vel, Amy Rodgers hefur einnig fest sig í sessi í aðalhópnum, og ungar stelpur á borð við Lucy Parry, Mia Ross og fleiri hafa fengið sínar fyrstu mínútur. Nú og svo má ekki gleyma sigrinum á United í bikarnum í haust. En það er klárt mál að það eru vonbrigði að hafa ekki komist aftur upp í efstu deild. Við óskum þó stelpunum í Leicester til hamingju með að vera komnar í hóp þeirra bestu, en þess má geta að Emile Heskey hefur komið að þjálfun þeirra á ferli sínum að því að ná sér í þjálfararéttindi.

  Fréttir af þjálfaramálum Liverpool virðast vera að skýrast: það spurðist út í vikunni að líklega yrði Matt Beard ráðinn. Matt hefur reynsluna af því að ná árangri með Liverpool því hann þjálfaði liðið árin 2013 og 2014 þegar liðið varð meistari. Hans síðustu störf voru með West Ham annars vegar, en hann fór þaðan síðasta haust (veit ekki hvort hann var rekinn eða hætti sjálfur), og tók svo við liði Bristol tímabundið á meðan stjóri þeirra fór í barneignarleyfi. Bristol sitja sem stendur í neðsta sæti efstu deildar þegar tveir leikir eru eftir.

  Er þessi niðurstaða sanngjörn í ljósi þess árangurs sem Amber Whiteley hefur náð með liðið á síðustu vikum (sjö leikir án taps í röð)? Það hvernig liðið mun tækla það að fá nýjan þjálfara eftir að hafa náð þó þessu flugi með Amber verður að koma í ljós, en við vonum að það gangi vel og eins að það náist að trekkja að öfluga leikmenn sem geta styrkt liðið. Undirritaður er mjög svo hóflega bjartsýnn á að eigendur liðsins fari að opna veskið eitthvað að ráði, og líklegra verður að teljast að áfram verði reynt að finna óslípaða demanta, leikmenn sem geta sprungið út með liðinu.

  En þá að leik dagsins: hann fer fram á Prenton Park og andstæðingarnir eru London Bees. Vegna þess að fótboltinn er í samfélagsmiðlaverkfalli þá hefur ekki tekist að hafa uppi á byrjunarliðinu, en færslan verður uppfærð með því um leið og það kemur í ljós.

  EDIT: liðið virðist líta svona út:

  Laws

  Roberts – Moore – Robe – Hinds

  Fahey – Rodgers

  Jane – Kearns – Thestrup

  Linnett

  Bekkurinn hefur sjaldan verið jafn fámennur: Heeps, Lawley, Parry

  Hægt verður að horfa á leikinn á The FA Player, og líklega tilvalið að hita upp fyrir United leikinn með þessum leik.

  [...]
 • Upphitun: Björgum við andliti á Old Trafford

  Eftir jöfnunarmörk á loka mínútum síðustu tveggja leikja þurfum við nú helst að vinna alla fimm leikina sem eftir eru af tímabilinu til að eiga raunhæfan möguleika á Meistaradeildarsæti. Eins og er sitjum við fjórum stigum á eftir Chelsea, en þetta er skrifað áður en þeir mæta Fulham í dag, og níu stigum frá Leicester en eigum leik inni á þá. Bæði liðin eiga erfiða leiki eftir en Liverpool verður að hætta að tapa stigum ef þeir ætla að koma sér í þá stöðu að grípa tækifærið ef annað af þessum liðum klikkar.

  Fyrsta fyrirstaðan í því eru okkar fornu fjendur Manchester United, lið sem okkur hefur gengið virkilega illa að leggja á útivelli í gegnum árin. Okkur hefur í raun ekki tekist að vinna Man Utd á Old Trafford síðan 2014 þegar að Steven Gerrard átti möguleika á að skora þrennu allt úr vítaspyrnum en setti þriðju vítaspyrnu sína í stöngina.

  Leikir þessara liða hafa þó yfirleitt litast af varkárni og oftar en ekki verið ansi leiðinlegir. Sex af síðustu níu deildarleikjum liðanna hafa endað með jafntefli.

  Man Utd átti ansi brösuga byrjun á tímabilinu, féllu úr Meistaradeild og áttu erfitt í deildinni. Í sjöttu umferð töpuðu þeir svo fyrir Arsenal og hafa í raun ekki litið tilbaka síðan. Liðið hefur aðeins tapað einum deildarleik síðan þá, gegn Sheffield United langslakasta liði deildarinnar. Auk þess eru þeir komnir með átta fingur í úrslitaleik Evrópudeildarinnar eftir að hafa lagt Roma í vikunni í fyrri leik undanúrslita 6-2. Það er því ljóst að hvernig sem á er horft er Solskjaer að eiga ótrúlega gott tímabil með liðið.

  Af meiðslum er það aðeins að frétta hjá Man Utd að Martial er frá en einnig hefur verið umræða að Cavani gæti fengið frí eftir að hafa spilað gegn Roma í vikunni. Þrátt fyrir það er sókn Man Utd ógnvekjandi fyrir jafn brothætta vörn og okkar. Hraðinn í Rashford, Greenwood og James ef hann byrjar með Bruno og Pogba fyrir aftan að mata þá hljómar ekki vel.

  Liverpool

  Það voru jákvæðar fréttir í vikunni þegar við sáum enn eitt myndskeiðið af endurhæfingu Van Dijk sem er farinn að líta ansi vel út og mun vonandi eiga gott undirbúningstímabil og koma sterkur inn á næsta tímabili. Hinsvegar talaði Klopp um það að ekkert hefði í raun breyst í meiðslamálum sem þýðir að við verðum líklega án Nat Phillips á morgun þannig Fabinho þarf líklega að taka enn eina vaktina í varnarlínunni þar sem Rhys Williams sýndi í leik þessara liða í FA bikarnum að hann er langt frá því að vera tilbúinn og Preston virðist hafa platað okkur til að borga fyrir leikmann sem er ekki til í þessum Ben Davies sem hefur varla verið á leikskýrslu frá því hann samdi við félagið í janúar.

   

  Ég skýt því á að þetta verði liðið sem við sjáum á morgun. Milner hefur komið vel inn í þá leiki sem hann hefur spilað undanfarið og kemur inn með ákveðinn hrottaskap sem mikið af okkar leikmönnum búa ekki yfir. Jota gæti í raun byrjað fyrir einhvern af okkar fremstu þremur en þessir leikir hafa oft byrjað rólega að ég gæti séð Klopp vilja eiga mann sem getur haft áhrif á leikinn til að koma inn af bekknum og Jota hefur verið bestur í þeirri stöðu. Sjálfur væri ég til í að finna leið til að koma Curtis Jones í liðið en sé það ekki gerast nema inn af bekknum.

  Einnig myndi ég vilja hafa Fabinho á miðjunni en eins og áður sagði sé ég það ekki gerast með þá leikmenn sem við höfum, sérstaklega þar sem Robertson hefur ekki verið nýttur þar en þegar meiðslin fóru að hrannast upp bjóst ég við að við myndum jafnvel sjá það í leikjum þar sem við værum að mæta fljótum sóknarmönnum, sérstaklega eftir þetta viðtal. Hinsvegar hefur varaskeifan hans Tsimikas ekki sýnt mikið í þeim fáu leikjum sem hann hefur fengið og þar sem við höfum ekkert séð þetta gert í vetur er enginn möguleiki að við sjáum það á morgun.

  Spá

  Ég er búinn að vera fullviss í allan vetur, jafnvel þegar verst gekk að Liverpool myndi ná að rísa upp og vinna nokkra leiki á einstaklingsgæðum og ná fjórða sætinu. Tímabilið hefði þá verið vonbrigði en ekki skemmt næsta tímabil. Fyrst núna eftir að hafa horft á Newcastle leikinn um síðustu helgi og vita allan tímann að þeir myndu ná að jafna leikinn, jafnvel þegar við óðum í færum snemma leiks þá fór ég að missa trúnna og á erfitt með að sjá okkur vinna leikinn á morgun.

  Ég spá 1-1 jafntelfi í lokuðum leik þar sem Salah kemur okkur yfir en það dugar ekki og fjórða sætið fjarlægist enn meira með þá fjóra leiki eftir af tímabilinu

  [...]
 • Kjúklingarnir í U18

  Það hefur alltaf ríkt talsverð spenna yfir ungu kynslóðinni hjá Liverpool, pjökkunum sem eru að spila með U23 og U18 og sem við erum alveg 100% viss um að verði næsti Messi, næsti Gerrard, næsti __________ (setjið inn ykkar eftirlætis leikmann). Því miður hafa þessar vonarstjörnur ekki allar náð að skjótast upp á sjöunda himinn. Nægir að nefna nöfn eins og Jordon Ibe, Jerome Sinclair, Dani Pacheco, Adam Morgan o.fl. o.fl. Við ættum því að vera farin að læra að stilla væntingunum í hóf.

  Þessu algjörlega ótengt: núverandi U18 lið er líklega efnilegasta lið sem á þessa jarðarkringlu hefur stigið, liðið inniheldur núna leikmenn eins og hinn pólska Messi, besta leikmann sem komið hefur frá akademíunni í Derby (og líklega úr ensku unglingastarfi yfirhöfuð) og svona mætti lengi telja. Liðið hefur í síðustu leikjum verið að valta yfir andstæðinga sína: 6-0 gegn Middlesbrough, 5-1 gegn Leicester, 6-1 gegn Leeds, 4-1 gegn Úlfunum, 1-0 gegn United (manni færri síðasta hálftímann), 6-1 gegn Sutton, 3-0 gegn Newcastle og svona mætti lengi telja. Kíkjum aðeins stærstu vonarstjörnurnar.

  James Balagizi

  Þessi strákur verður 18 ára síðar á árinu, en hann kom til Liverpool frá City árið 2015. Það hefur lítið farið fyrir honum þar til núna seinnipart vetrar, að hluta til vegna þess að hann var meiddur í tvo mánuði fyrr á leiktíðinni (ætti því að smellpassa í aðalliðið). Þetta er framliggjandi miðjumaður, stór og sterkur, óhræddur við að taka menn á og opnaði markareikning sinn hjá félaginu í leiknum gegn Leicester eftir að hafa verið meira í því að leggja upp mörk fram að því.

  Kaide Gordon


  Það var bara núna í byrjun febrúar sem þessi strákur kom til Liverpool, en er uppalinn hjá Derby. Hefur verið talinn mikið efni í talsverðan tíma, og mörg lið vildu fá hann en hann endaði í Liverpool. Hann þótti standa sig vel í æfingaleik á æfingasvæðinu í Kirkby í síðasta landsleikjahléi, og hefur svo haldið áfram að heilla með góðri frammistöðu. Þetta er leikmaður sem gæti passað einhversstaðar í fremstu þrjár stöðurnar, fremst á miðju, eða úti á kanti.

  Mateusz Musialowski

  Þessi 17 ára strákur kom til Liverpool frá pólska liðinu SMS Lodz síðasta haust, og þótti þá einn efnilegasti leikmaður Evrópu. Sem dæmi þá var hann búinn að skora einhver 130 mörk í 80 leikjum fyrir sitt félag. Hann hefur ekkert slegið á þær væntingar undanfarið, og skoraði m.a. mark marsmánaðar í leik gegn Newcastle, og sló þar við keppinautum eins og Mo Salah og Bo Salah. Hann er talinn upp meðal miðjumanna á heimasíðu félagsins, en er klárlega sóknarþenkjandi týpan af miðjumanni, og gæti sjálfsagt tekið nokkurnvegin hvaða stöðu sem er í framlínunni sömuleiðis.

  Max Woltman

  Þessi 17 ára strákur hefur kannski einna helst verið sá sem hefur farið undir radarinn, en hefur verið að raða inn mörkum í síðustu leikjum. Þrátt fyrir að nafnið hljómi þýskt, þá er hann uppalinn í Wirral, og er því pjúra scouser. Hann hefur notið góðs af því að hafa hina þrjá fyrir aftan sig í síðustu leikjum, og hefur oft verið sá sem hnýtti endahnútinn á sóknir sem hinir í liðinu sköpuðu.


  Þetta eru þau nöfn sem helst hafa verið í umræðunni, en það eru fleiri efnilegir strákar í þessum hóp. Það hefur nú gerst áður að efnilegir strákar hafi flogið undir radarinn, en svo allt í einu poppað upp í aðalliðinu. Neco Williams er mögulega nýjasta dæmið, hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu í október 2019 í deildarbikarnum, Einar Matthías hafði tekið fyrir efnilegustu strákana úr U23 í pistli þá um vorið og þar var hann hvergi að finna. Sama gæti gerst hér, hér er ég að nefna þá sem virka mest spennandi í augnablikinu, en fleiri leikmenn eiga örugglega eftir að blómstra á næstunni. Enda fjölmörg dæmi um að leikmenn þyki efnilegir á sínum yngri árum en fjari svo út, og eins leikmenn sem virka kannski lítið spennandi fyrir tvítugt en blómstra svo þegar þeir fullorðnast.

  Þið sem hafið verið að fylgjast með U18, mynduð þið bæta fleiri pjökkum á þennan lista? Eru menn kannski spenntari fyrir Frauendorf, Owen Beck, Quansah eða Cannonier?

  Það verður gaman að sjá hvort eitthvað af þessum leikmönnum fara að æfa með aðalliðinu eins og Clarkson og Cain hafa verið að gera á síðustu mánuðum, við munum fylgjast spennt með.

  [...]
 • Gullkastið – Þar fór það

  Vonbrigðin þetta tímabilið ætla bara engan enda að taka. Enn einu sinni kastar Liverpool frá sér leik sem ætti að öllu eðlilegu að vera löngu búinn. Tímabilið fjaraði svo gott sem endanlega út fyrir vikið.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 333

  [...]
 • Kvennaliðið heimsækir Sheffield

  Núna kl. 13 er komið að næst síðasta leik kvennaliðsins á þessari leiktíð, og í raun ekki að neinu að keppa lengur þar sem það er ljóst að Leicester fer upp í efstu deild. Núna snýst þetta að mestu um það hvort liðið lendir í 3ja eða 4ða sæti, svosem smá séns að lenda í 2. sæti en þá verður Durham að tapa báðum sínum leikjum sem eftir eru, og litlar líkur á að það gerist.

  Skoðum fyrst stöðu knattspyrnustjóra hjá kvennaliði Liverpool: nú ku víst vera í gangi matsferli á þeim sem sóttu um stöðuna. Það verður áhugavert að sjá hvern stjórnendur félagsins ætla að ráða, en það er víst búið að þrengja hópinn úr talsverðum hópi umsækjenda. Hvort Amber Whiteley er þar á meðal á eftir að koma í ljós, en hún hefur a.m.k. staðið fyrir sínu á þessum vikum sem hún hefur stýrt liðinu. Líklega kemur þetta í ljós eftir að leiktíðinni lýkur, en ég held að það megi vera öllum ljóst að Liverpool þarf að gera meira en að ráða nýjan knattspyrnustjóra til að komast aftur upp í efstu deild og fara þar að slást um titilinn (hint: meiri peningar).

  Leikurinn nú á eftir er gegn Sheffield United, og þar hittir liðið fyrir nokkra góðkunningja eins og Courtney Sweetman-Kirk, Fran Kitching og Leandra Little, en allar voru þær hjá Liverpool áður en þær fóru til Sheffield.

  Segja má að þetta sé hálfgerður úrslitaleikur um 3ja sætið, því liðin eru jöfn í 3. – 4. sæti með 35 stig, og aðeins markamunur sem skilur liðin að. Sheffield er með 22 mörk í plús en Liverpool 21.

  Byrjunarliðið mun líta svona út:

  Foster

  Roberts – Moore – Robe – Hinds

  Rodgers – Fahey

  Thestrup – Kearns – Lawley

  Linnett

  Bekkur: Laws, Jane, Parry, Holland

  Hvorki Jade Bailey né Ashley Hodson eru með vegna meiðsla. Ekkert er minnst á það hvar Rachel Furness er, og ég held að Jesse Clarke sé líka meidd. Babajide er líklega á leiðinni annað þó það sé ekkert búið að staðfesta um slíkt, og þó svo hún haldi áfram að styðja karlaliðið á Twitter. Annars er bekkurinn óvenju fámennur. Það er líka athyglisvert að Rylee Foster fái markmannsstöðuna, og ýtir undir þá kenningu að hún verði aðalmarkvörður á næstu leiktíð.

  Leikurinn verður sýndur á helstu rásum félagsins: Youtube, Facebook, Twitter og víðar.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close