Latest stories

 • Költ hetjur Liverpool

  Formáli: Tölum um fílinn í herberginu sem engum langar að tala um. Heimurinn er í tveggja-þriggja mánaða pásu fyrir utan fólk í heilbrigðisstéttinni og öðrum nauðsynja stéttum. Við tökum auðvitað af ofan fyrir þeim, munið að þið gangið aldrei ein. Þetta hefur meðal annars þau áhrif að það er ekkert í gangi í kringum Liverpool. Það eru kannski einhverjir að glíma við samviskubit yfir því hversu mikið þeir sakna fótboltans, sem er algjör óþarfi. Boltinn er risahluti af rútínu og lífi margra og eðlilegt að sakna hans. Ættum við bara að hætta að hugsa um íþróttir, leyfa síðunni að liggja í dvala næstu mánuði? Einhverjum þætti það kannski viðeigandi, ég er ekki einn þeirra.

  Þannig að ég tek fram núna: Auðvitað eru hlutir í heiminum sem skipta meira máli en fótbolti þessa dagana. En þetta er vefsíða um Liverpool og fótbolta, ef þið eruð á annað borð að heimsækja hana geri ég ráð fyrir að þið viljið lesa um eitthvað annað en ónefndan vírus. Þannig að við ætlum að halda evirkni hérna næstu vikur og viljum sérstaklega hvetja ykkur í að taka þátt í umræðum í kommentakerfinu. Einnig, ef ég má tala ögn á persónulegu nótunum, þá er ég einn þeirra nokkur þúsund Íslendinga sem vinn nú bara fjórðung af því sem hann gerði fyrir mánuð. Ég ætla að reyna að nota auka tímann á uppbyggilegan hátt, meðal annars með því að skrifa nokkra pistla hér sem mig hefur langað að skrifa en hafa enga sérstaka tímapressu á sér. Nú þegar þetta er komið:

  Költ hetjur Liverpool

  Hverjir eru költ hetjurnar hjá Liverpool? Það fer auðvitað eftir því hvernig maður skilgreinir költ hetju. Ég ætla nota mína skilgreiningu og leyfa öðrum að rífast um hvort hún sé rétt. Költ hetja er leikmaður sem er A) Gífurlega vinsæll hjá afmörkuðum hópi stuðningsmanna. Sá afmarkaði hópur getur verið allir stuðningsmenn ákveðins liðs, en þá má hann ekki vera vinsæll utan þess liðs og B) Helst ekkert sérstaklega góður en einhverjar minningar tengdar honum eru sterkar.

  Kannski er best að vinna með það hverjir eru ekki költ hetjur og svo fara yfir í hverjir eru költ hetjur og hvers vegna. Jamie Carragher er til dæmis ekki költ hetja, hann er alltof vinsæll utan Liverpool og spilaði alltof mikið í aðalliðinu. Fowler er ekki költ hetja nema ef við horfum bara á seinni hlutann ferlilsins hjá Liverpool og menn eins og John Barnes, Ron Yeats og Emlyn Hughes eru bara legend og ekkert annað.

  En hér er (ófullkominn) listi minn yfir költ hetjur Liverpool. Röðin er handahófskennd og listinn ekki tæmandi.

  Jerzey Dudek

  Ég velti oft fyrir mér hvernig Dudek væri minnst hjá Liverpool ef ekki væri fyrir Istanbul. Mig grunar að hans væri ekkert minnst að viti. Jerzey kom frá Feynoord til Liverpool í ágúst 2001 og varð strax aðalmarkamaður liðsins. Tímabilið 2002-03 var hann maður leiksins í úrslitaleik deildarbikarsins gegn Manchester United.

  En næstu tímabil var það ljóst að hann var bara ekki nógu stöðugur til þess að vera aðalmarkmaður Liverpool. Rafa Benetiz segir frá því í bók sinni Champions League Dreams (ef einhver er að leita að bókum til að drepa tímann þessa daga, þá eru margar verri en hún) að hann hafi viljað markmann sem gat tekið meiri stjórn á teignum og Jerzey vissi fyrir úrslitaleikinn gegn AC Milan að Pepe Reina væri á leiðinni inn.

  Við vitum svo öll hvað gerðist í úrslitaleiknum. Í seinni hálfleik og framlengingu átti Dudek líklega besta hálfleik ferilsins, varði nokkrum sinnum gjörsamlega stórfenglega og nokkrum sinnum á hátt sem ég er viss um að hann sjálfur gæti ekki útskýrt. Í vítaspyrnukeppninni kom andi Bruce Grobbelar yfir hann og hann varði tvær spyrnur. Þrátt fyrir komu Pepe Reina þá var Dudek áfram hjá Liverpool til 2007, þegar hann fór til Real Madrid og sótti nokkrar dollur þar.

  Kannski það skrýtnasta sem gerðist á löngum ferli hans var að hópur stuðningsmanna gaf út lagið Du the Dudek. Lagið var gefið út til að safna pening fyrir stuðningsmann Liverpool sem var handtekinn fyrir Evrópuleik liðsins í Búlgaríu. Njótið:

  Michael Robinson

  Því hefur stundum verið velt upp hvernig leikmanni sem kemur inn í Liverpool til að keppa við þríeykið frammi muni ganga. Það er ekki einfalt að koma inn og keppa um stöðu við menn sem eru svona augljóslega í heimsklassa. Einn leikmaður sem gæti kannski tengt við þá er Michael Robinson, framherjinn sem kom inn í liðið árið 1983 til að keppa við Ian Rush og Kenny Dalglish.

  Robinson fæddist í Leicester og spilaði fyrstu ár sín í atvinnumennsku hjá Preston North End, fór þaðan til City og svo Brighton áður en hann kom til Liverpool. Hann spilaði ekki nema ár hjá Liverpool og náði 30 leikjum fyrir liðið. Liðið vann þrjá titla þetta tímabil: deild, deildarbikar og Evrópubikar.

  Robinson var engan vegin besti leikmaður liðsins en vann sig inn í hjörtu stuðningsmanna með því að gefa sig 100% í allt sem hann gerði. Hann sagði seinna glottandi að Ian Rush hefði látið hann líta út fyrir að vera betri en hann var, því það var sama hvert Michael skallaði boltann í einvígum, Rush var alltaf mættur. Takið líka eftir í markasyrpunni hversu mörg mörk Robinson eru því hann eltir lausan bolta og nær að djöfla honum þannig inn. Það skaðaði ekki orðspor hans að eitt af 13 mörkum hans var fyrir framan Kop stúkuna gegn Everton.

  John Arne Risse (Who! Wha! I wanna knooooo…)

  Ok John Arne er alveg á mörkum þess að vera of góður til að geta kallast költ hetja, allavega í upphafi ferilsins. Hann spilaði sjö ár hjá Liverpool, samtals 348 leiki fyrir liðið og vann aragrúa bikara. Klárlega skemmtilegasti Norðmaður sem leikið hefur á Englandi. Á ákveðnum tímabilum eftir að hann fór frá liðinu er maður viss um að þjálfarar Liverpool hefðu gefið hönd og fót fyrir að hafa hann í bakverðinum í staðinn fyrir… ja þið vitið hverja.

  En hann var enn þá vinsælli en gæði hans og framlag sögðu til um. Hann var einn af þeim leikmaður sem skyldi alltaf allt eftir á vellinum, sem líklega það eina sem gulltryggir vinsældir meðal stuðningsmanna (ekki bara Liverpool, en sérstaklega mikið hjá Liverpool.) Hann dalaði þegar leið á ferilinn hjá Liverpool, hann átti til að fara of mikið upp völlinn og gera of mörg mistök. Sumir hafa haldið fram að hann hafi verið fyrsta útgáfan að nútíma vængbakverðinum. Ef það er rétt þá var hann á undan sinni samtíð.

  En stærsta ástæðan fyrir að menn minnast hans jafn hlýlega og raun ber vitni er að þegar hann skoraði, þá SKORAÐI hann. Af 30 mörkum hans fyrir Liverpool voru svona 28 sem áttu heima á lista yfir besta mark ársins á því tímabili. Meðal fjarlægðin frá marki þegar hann skaut var um það bil 30 metrar. Vissulega enduðu tvö-þrjú skot upp í stúku en hvað er það milli vina? Já og svo eru hann og Craig Bellamy líka ágætis golf félagar, eða þannig.

  David Fairclough

  Það er hægt að færa mjög góð rök fyrir að Fariclough sé upphaflegi super-subinn. Á átta ára ferli hjá Liverpool spilaði hann 154 leiki. Í 62 af þeim leikjum kom hann inná af bekknum. Af tæplega 50 mörkum fyrir liðið skoraði hann 18 eftir að hafa komið af bekknum, en það er ekki sama hvenær þú skorar. Án nokkurs vafa var stærsta augnablik hans þegar hann kom af bekknum í frægum leik á móti St. Etienne, 17. Mars 1977.

  Á þessum árum voru stuttbuxur stuttar, mottur ekki bara fyrir mars og Liverpool ríkjandi meistarar oftar en ekki. Þegar 20 mínútur voru eftir voru Liverpool 2-1 yfir, en staðan 2-2 í einvíginu og St. Etienne á leiðinni áfram vegna útivallarmarks. Þegar sex mínútur voru eftir slapp David í gegn, fyrir framan Kop stúkuna og renndi boltanum í netið sem þýddi að Liverpool komust áfram og unnu að lokum fyrsta evróputitilinn í Róm. Lýsandi mælti þá hin frægu orð: „The super-sub strikes again!“ Titillinn festist við hann og hann bar blendnar tilfinningar til hans. Taldi hann (mögulega réttilega) að hann væri og of góður til að vera svona mikið á bekknum. Það hlýtur að hafa sviðið pínu að hafa verið hjá liðinu öll þess ár, skorað mikilvæg mörk en aldrei fá heilt tímabil sem aðal maðurinn. Kannski sviðið meira að allavega tvisvar á þessum átta árum þá vann Liverpool titilinn en David var ekki með nægilega marga leiki til að fá medalíu.

  Seinni hluta ferilsins vafraði hann milli liða bæði innan Englands og utan en hóf aftur störf í kringum Liverpool þegar ferlinum lauk. Árið 2006 völdu 110.000 stuðningsmenn Liverpool uppáhaldsleikmenn sína í sögu félagsins og endaði hann í 18. Sæti. Ekki slæmt.

  Ragnar Klavan.

  Bara svo ég setji einn hérna sem er ekki markaskorari og einn frá tímum samfélagsmiðla. Ragnar Klavan var ekki sérstaklega góður hafsentu, með fullri virðingu fyrir dýrasta eistneska fótboltamanni sögurnar. Hann var keyptur til að vera þriðji kostur í vörninni á eftir mönnum eins og Dejan Lovren og Joel Matip. Hann var reyndar keyptur sama sumar og Sakho var frystur út úr liðinu, spurning hvort hann hafi átt að vera enn þá aftar í goggunarröðinni.

  En eins og hafsentar Liverpool eiga það til að gera voru hafsentarnir mikið meiddir þetta tímabil og tímabilið á eftir. Ragnar okkar spilaði að lokum 53 leiki fyrir liðið á tveimur tímabilum, oft settur inn á völlinn til að loka leikjum. Hann spilaði aldrei neina stjörnuleiki en líka aldrei neina gjörsamlega hörmulega leiki. Á netinu fóru menn að kalla hann clean-sheet-Klavan og brostu í aðra tönn. Aldrei legend en maður hugsa ógurlega hlýlega til hans.

  Gary McAllister

  Sagan segir að lagið hans geti á réttum degi verið lengsta lag í söngvabók Liverpool. Skotinn Gary McAllister var James Milner sinnar kynslóðar: Kom til Liverpool árið 2000, þá 35 ára. Hann hafði unnið Englandsmeistaratitilinn 92 með Leeds og hefur Jamie Carragher meðal annars talað um að gamli kom með ákveðið sigurhugarfar og stál inn í klefann hjá Liverpool.

  Hann spilaði tvö tímabil í rauðu og gífurlega mikilvægur hlekkur í þrennu liðinu. Skoraði meðal annars eitt og lagði upp þrjú í úrslitaleiknum gegn Alaves. Fimmta mark Liverpool í leiknum? Sjálfsmark Alaves eftir aukaspyrnu Macca gamla. Hann spilaði líka tímabilið á eftir en fór frá liðinu í Maí 2002 til að taka við sem þjálfari Coventry.

  Heiðurslistinn:

  Lucas Leiva, Igor Biscan, Dirk Kyut, Bellamy, Divock Origi, Dirk Kyut, Sami Hyypia, Luis Garcis (reyndar væri hægt að setja bara allt Istanbul liðið), Bruce Grobbelaar, Joey Jones, Titi Camara og svo margir aðrir.

  Þetta eru bara nokkrir að þeim mörgu leikmönnum sem má kalla költ hetjur Liverpool. Hverja vantar og hvers vegna? Hvaða leikmenn elskið þið sem ykkur finnst engin annar fíla? Nú er ég farin að fela mig á meðan hinir pennarnir fatta að ég nennti ekki að skrifa um Aly Cissokho…

  [...]
 • Alvarleg gúrkutíð

  Alltaf þegar við sjáum fréttir þess efnis að hið eina rétta í stöðunni sé að afskrifa alveg tímabilið 2019/20 og byrja uppá nýtt í haust, jafnan með Liverpool einhversstaðar í fyrirsögninni verðum við að taka því með þeim fyrirvara að þetta er sú fyrirsögn sem selur langbest af öllum í þessari verstu gúrkutíð sem upp hefur komið í sögu knattspyrnunnar á tímum internetsins. Það virðist ekki skipta máli hvaða vitleysingur tjáir sig um þennan möguleika og hvort það sé gert undir nafni eða ekki.

  Blessunarlega var fyrsta niðurstaða knattspyrnuyfirvalda á Englandi að fresta tímabilinu en gefa það jafnframt út að núverandi tímabil verði klárað áður en nýtt hefst. Afhverju í veröldinni er næsta tímabil mikilvægara en það sem nú er í gangi og langt komið? Nóg hefur nú verið gert grínið á okkar kostnað fyrir að tala alltaf um næsta tímabil.

  Mesta fjaðrafokið í þessari viku kom í kjölfar greinar David Ornstein á The Atletic þar sem m.a. var vitnað í stjórnarformann einhvers félags í Úrvalsdeildinni sem reyndar þorði ekki að koma fram undir nafni. Hann sagði það siðferðislega rangt að hugsa um fótbolta núna þegar Covid-19 væri að lama allt samfélagið. Svona eins og ekki sé leyfilegt að hugsa um eitthvað annað líka.

  Rob Gutman afgreiddi þetta vel á twitter ásamt fjölmörgum öðrum

  Hvað er svona siðferðislega rangt við það að stefna á að klára núverandi tímabil þegar þessi heimsfaraldur gengur yfir? Hvað í fjandanum er svona mikið siðferðislega betra að gefa skít í allt sem gerst hefur á þessu tímabili og byrja upp á nýtt.

  Þetta er fyrst og fremst smellu “frétt”, Liverpool á auðvitað langmest undir að þessu tímabili verði ekki aflýst (ásamt samt miklu fleiri liðum) og því er þessu jafnan beint að okkur, c’est la vie.

  Gáfulegasta andsvarið við þessari grein var líklega frá fjölmiðlamanninum Rory Smith

  Það þurfti svosem engan heimsfaraldur til að flestir átti sig ágætlega á því að líf og heilsa fólks er það allra mikilvægasta og þegar því er ógnað víkur allt annað.

  Ef að fótbolti er allt í einu orðin svona rosalega ómerkilegur að það er nánast ekki við hæfi að tala um hann á það sama við um alla aðra afþreyingu sem þó fylla upp í stóran hluta af sólarhringnum hjá flestum okkar.

  Þegar Covid-19 gengur yfir verður fótbolti vonandi aftur jafn “mikilvægur” og hann hefur verið hingað til. Þetta getur við körfubolti fyrir aðra, handbolti, frjálsar, tónleikar eða bara hvaða afþreying/áhugamál/atvinna sem er. Fótbolti er reyndar lífsviðurværi hjá ansi stórum hópi fólks, bæði beint og óbeint og auðvitað langstærsta áhugamál heimsbyggðarinnar. Okkar maður orðaði þetta best þegar boltinn hætti að rúlla með Liverpool í úrvalsmálum…

  Það er líka í lagi að hafa hugann við fleira en einn hlut, satt að segja er líklega engum hollt að læsa sig inni í 4-8 vikur og hugsa um fátt annað en Covid-19.

   

  Rétt upp hönd sem trúir því að þessi stjórnarformaður hjá ensku úrvalsdeildarliði sé í alvörunni svona hneykslaður yfir siðferði en ekki að hugsa um hvað hans félag græðir mikið meira á því að byrja mótið upp á nýtt. Daniel Levy liggur hressilega undir grun sem dæmi. Það sáu allir í gegnum Karen Brady, hún var að venju eingöngu að hugsa um sig sjálfa.

   

  Svona fyrir utan hvað það væri fáránlegt að afskrifa tímabil þegar það þarf í mesta lagi 2-3 leiki til að skera úr um hver vinnur mótið þá eru þarna punktar sem hafa jafnvel meiri áhrif á framtíð fjölda félaga en það hvort Liverpool myndi vinna deildina eða ekki. Liverpool kemur líklega jafn sterkt til leiks á næsta tímabili hvort heldur sem er en hvað með liðin þrjú sem sleppa við fall núna, hvað þá þau sem komast ekki upp fyrir vikið? Það eru engar smá upphæðir í gangi þarna og hafa gríðarleg áhrif á framtíð þessara liða. Fer Tottenham aftur í Meistaradeildina en ekki Leicester sem dæmi? Hvað með allar tekjurnar af þessu tímabili? Hver ætlar að rukka sjónvarpsstöðvarnar sem eru aðaltekjulind deildarinnar fyrir þetta tímabil ef það verður svo ekki klárað? Það þarf ekki að hugsa þetta lengi til að sjá hversu illa ígrundað þetta væri.

   

  Þetta er svo auðvitað annar og virklega ógnvekjandi möguleiki, það er alls ekkert víst að Covid-19 eða tengdur faraldur komi ekki aftur upp á næsta tímabili. Það er ekki búið að þróa mótefni ennþá og tekur a.m.k. 12-18 mánuði skv. sérfræðingum á því sviði.

   

  Það er nógu ógeðslega svekkjandi að við lendum í fokkings helvítis versta heimsfaraldri sem mannkynið hefur glímt við í heila öld akkurat þegar Liverpool er með besta knattspyrnulið í heimi, að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að það sem nú þegar er (svo gott sem) unnið verði ekki tekið af okkur.

  Það má kannski segja að það sé siðferðislega rangt að viðra slíkar skoðanir enda á maður nóg með Covid-19?

  [...]
 • Tímabilið verður klárað á Englandi

  Enska Úrvalsdeildin gaf í dag út skýra yfirlýsingu um að tímabilið 2019/20 yrði klárað, sama hvað það tekur langan tíma að klára það. 1.júlí er engin deadline dagur enda væri slíkt undarlegt í meira lagi, eini mánuðurinn þar sem jafnan er frí frá fótbolta!

  Frábærar en fréttir og auðvitað eina skynsamlega lausnin í stöðunni. Þeir taka svo á næsta tímabili þegar þar að kemur, líklega verður frekar lítið um sumarfrí þetta árið, öllum væntanlega sama um það þegar við losnum úr núverandi aðstæðum!

  [...]
 • Gullkastið: Covid-19

  Þvílíka vika. Covid-19 umræða í víðu samhengi út frá sjónarhóli knattspyrnuaðdáenda.

  Þetta mun líka ganga yfir…og þá verðum við meistarar!

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 283

  [...]
 • Engin fótbolti í hálft ár?

  Þetta draumatímabil stefnir í að enda sem algjör martröð, jafnvel ennþá meiri en áður var talið og ensk stjórnvöld voru ekkert að hjálpa ástandinu með því að leyfa áhrofendur um helgina. Sjá það núna!!!

  Þarna segir að mögulega verði ekki spilað fótbolta aftur í Evrópu fyrr en í september ef spár um að Covid-19 nái ekki hátindi fyrr en í sumar ganga eftir. Það ætti auðvitað öllum að vera ljóst að boltinn byrjar ekki að rúlla aftur í byrjun apríl þó að núverandi frestun sé dagsett þá.

  Það virðast vera þrír kostir í stöðunni og alveg gríðarleg vandamál sem fylgja hverjum og einum.
  1. Klára tímabilið þegar hægt verður að spila fótbolta á nýjan leik
  2. Enda tímabilið núna og miða við stöðuna í deildinni eins og hún er núna.
  3. Þurrka tímabilið 2019/20 út og byrja upp á nýtt í haust.

  Það er augljóst að kostir 2. og 3. koma eiginlega ekki til greina, bæði vegna þess hversu ósanngjarnt það er að slaufa móti þegar búið er að spila 3/4 og helstu niðurstöður liggja sæmilega ljósar fyrir. Eins er talið að þetta myndi leiða af sér fjölmörg dómsmál enda gríðarlegir fjármunir í húfi.

  Kostur einn ætti auðvitað að vera viðmiðið og þá sníða næsta tímabil á eftir útfrá aðstæðum þar sem allir sitja við sama borð frá byrjun.

  Það er samt ekkert hægt að stoppa bara fótbolta í sex mánuði án þess að það hafi gríðarlegar afleiðingar. Úrvalsdeildarliðin ráða kannski flest við það en líklega eru ekki mörg lið í neðri deildinum sem ráða við tekjutap í sex mánuði með starfsliðið á fullum launum. Hvað gerist með stjónvarpssamninga og aðra styrktarsamninga?

  Hvað með leikmenn sem eru að renna út á samningi í júní ef að mótið klárast ekki fyrir þann tíma? Það er væntanlega minna mál að aðlaga leikmannagluggan að nýjum aðstæðum.

  UEFA fundar í næstu viku og verður vægast sagt spennandi að sjá hvað kemur út úr þeim fundi. Það er föstudagurinn 13. og miðað við hvernig 2020 hefur byrjað er alveg eftir því að kostur 3 verði tekin og titillinn sem Liverpool er svo gott sem búið að vinna verði tekin af okkur.

  Verði það niðurstaðan er ég ekki viss um að ég nenni þessu sporti mikið lengur.

  [...]
 • Covid-19: Hvað er að gerast?

  Þann 26.ágúst árið 1939 hófst 48.tímabilið í enska fótboltanum með eðlilegum hætti en keppni var hætt helgina eftir þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Seinni heimsstyrjöldin kom því í veg fyrir að hægt væri að halda úti deildarkeppni með reglulegum hætti þó fótboltinn hafi vissulega ekki stoppað að rúlla á meðan stríðinu stóð. Billy Liddell var 17 ára þegar stríðið hófst og missti Liverpool því af sjö árum hjá sínum besta leikmanni í sögunni fram að því. Keppni hófst að nýju árið 1946 og hefur enski boltinn rúllað sleitulaust síðan í 74 ár…þar til nú?

  Hún er ekkert venjuleg bölvunin sem hvílt hefur á Liverpool undanfarin 30 ár en líklega toppar ekkert þetta tímabil. Ef allt er eðlilegt m.v. gang tímabilsins er Liverpool 1-2 vikum frá því að tryggja sér titilinn í fyrsta skipti eftir 30 mjög löng ár og 74 ár af samfelldum enskum fótbolta. Það hefur ekki komið heimsfaraldur sem breiðst hefur svona hratt og víða út í yfir heila öld. Tímasetning Covid-19 gæti ekki verið neitt meira dæmigerð fyrir okkur sem höfum fylgst með Liverpool undanfarin 30 ár.

  Munurinn núna og þegar mótinu var aflýst með öllu árið 1939 er að þá var búið að spila eina umferð, ekki 3/4 af mótinu. Það er ekki hægt að slaufa bara mótinu núna eins og það hafi ekki gerst og byrja upp á nýtt í haust eða hvenær sem það verður aftur óhætt að spila fótbolta. Þó að það taki yfir ár er eðlilegast að klára núverandi tímabil við fyrsta tækifæri.

  Það hjálpar einnig alveg rosalega að Liverpool er svo gott sem búið að vinna deildina, 25 stiga forysta núna, sú mesta í sögunni á þessum tímapunkti tímabils kemur sér alveg einstaklega vel því að guð má vita hvernig umræðan væri og bara hvernig rest myndi spilast ef munurinn væri svipaður og á síðasta tímabili. Þetta snýst auðvitað ekki bara um meistarana, líka þau lið sem falla, koma upp, Evrópu o.s.frv.

  Það er engu að síður nokkuð ljóst að við fáum ekki eðlilega sigurhátíð, satt að segja snýst þetta bara um að fá titilinn staðfestan. Ég skal fagna honum einn heima í bullandi sóttkví ef það er það sem þarf. Liverpool verður jafn mikið meistarar þrátt fyrir það og það er aðalatriði frá fótboltalegu sjónarmiði.

  Hinsvegar er erfitt að spá fyrir um hvenær næsti leikur verður spilaður.  Fyrir það fyrsta er í raun magnað að leikurinn í gærkvöldi hafi yfirhöfuð farið fram, hvað þá með áhorfendum og sérstaklega áhorfendum frá Madríd!

  Höfuðborg Spánar er meira og minna komin í sóttkví og fyrir leik var búið að gefa út að það yrðu ekki áhorfendur á leikjum á Spáni! En þeir máttu ferðast til og frá Englandi eins og ekkert væri. Spænska deildin er núna daginn eftir komin í a.m.k. tveggja vikna pásu og það er bara tímaspursmál hvenær þeir tilkynna slíkt hið sama á Englandi. Það er ekkert sem bendir til að sú pása muni eingöngu vara í tvær vikur. Það er búið að fresta Meistaradeildinn og Evrópudeildinni um ókveðin tíma, NBA er búin að fresta tímabilinu um óákveðin tíma, MLS líka, Seria A er auðvitað komin á ís ásamt La Liga og fleiri bætast við nánast á hverjum klukkutíma núna. Líklega eru Úrvalsdeildarleikmenn byrjaðir að smitast.

  Fréttir í dag herma einnig að til standi að aflýsa EM allsstaðar í sumar til 2021, sú ákvörðun satt að segja blasir við rétt eins og allur annar landsliðafótbolti enda galið að stefna á slíka fólksflutninga milli landa eins og staðan er núna. Deildarkeppnirnar eru líka mjólkurkúin og það er aðalatriði að klára þær, aukakeppnir eins og landsleikir og bikarkeppnir þurfa að víkja fyrir deildarleikjum.

  Þetta eru Covid-19 pælingar út frá Liverpool og fótbolta, svo eru til einhverjir sem halda því fram að til séu mikilvægari hlutir en fótbolti! Það er auðvitað eftir að taka inn í myndina öll samfélagslegu áhrifin sem þessi heimsfaraldur kemur til með að hafa, bæði núna næstu vikur og svo í framhaldi eftir það.

  Sérstaklega er útlitið svart með líklega verstu þjóðarleiðtoga sögunnar í t.d. bæði Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum! Það er erfitt sjá eitthvað annað en hressilega kreppu framundan og mest ógnvekjandi eru auðvitað heilsufarsleg áhrif sjúkdómsins. Donald Trump og félagar eru allavega hættir að tala um þetta sé léttvægt kvef núna. Lausn Bandaríkjamanna er að loka bara augunum og rannsaka ekki þá sem hugsanlega eru smitaður, já og loka á random Evrópulönd sem hafa verið Trump erfið undanfarin ár. Bretar hafa einnig brugðist hægt við og maður óttast að þeir gætu stefnt í álíka mál og Ítalir hafa verið að glíma við undanfarnar vikur.

  Þetta gæti allt saman haft langvarandi áhrif og breytt landslagi fótboltans þegar birtir til að nýju. Hrikalega svekkjandi auðvitað frá okkar sjónarhóli enda Liverpool bókstaflega aldrei verið betra.

  Það er samt ekkert annað í boði en að vona það besta, fréttir frá Kína þaðan sem þessi ósköp byrjuðu herma að þeir telji sig vera komna yfir það versta sem verður vonandi þróunin fyrr en síðar á Vesturlöndum.

  Viðurkenni að maður væri nú meira til í að vera svekkja sig á þessu hrikalega pirrandi tapi í gærkvöldi gegn leiðinlegasta liði knattspyrnunnar í staðin fyrir að vera spá í svona dökkri heimsmynd í ofanálag.

  [...]
 • Liverpool 2-3 Atletico Madrid

  Mörkin

  1-0   Georginio Wijnaldum 43. mín
  2-0   Roberto Firmino 94. mín
  2-1   Marcos Llorente 97. mín
  2-2   Marcos Llorente 105. mín
  2-3   Alvaro Morata 121. mín

  Leikurinn

  Hraðinn í leiknum var gríðarlegur frá byrjun. Atletico pressuðu ofarlega á vellinum frá upphafsflauti og fengu færi á fyrstu mínútu er Costa komst í gegn en skaut framhjá. Eftir um 10 mínútna leik hörfuðu gestirnir í varnarstöðu og heimamenn fóru að herja hraustlega. Engu skipti þó hvað Liverpool reyndi, annað hvort var varnarlínan til bjargar eða hinn magnaði Oblak í markinu að bjarga.

  Þemað var þannig alveg fram undir lok fyrri hálfleiks er Liverpool tókst loks að brjóta ísinn. Hinn öflugi Oxlade-Chamberlain átti geggjaða fyrirgjöf sem Wijnaldum skallaði glæsilega í netið. 1-0 fyrir Liverpool og stemmning á Anfield.

  1-0 fyrir Liverpool

  Seinni hálfleikur

  Sama upplegg var í seinni hálfleik er Atletico pressuðu fyrstu mínúturnar en stuttu síðar tóku heimamenn öll völd. Orrahríðin var stanslaust og Oblak einstakur í markinu. Fyrir utan markvörslur og varnartilþrif þá komst Robertson næst því að skora er hann skallað boltann í slánna á 66.mínútu.

  Hafa mætti fleiri orð um flott sóknartilþrif Liverpool en fleiri mörk voru ekki skoruð í venjulegum leiktíma

  1-0 að loknum venjulegum leiktíma

  Framlengingin hófst eins frábærlega og hugsast gat. Við héldum áfram látlausri sóknarlotu og eftir að hafa sett boltann í stöngina þá skoraði señor Firmino flott mark á 94.mínútu. Anfield í sigurstemmningu yfir enn einu knattspyrnukraftaverkinu.

  Ólukkan beið þó því að nokkrum mínútum síðar gerði Adrian mistök í hreinsun, boltinn skilaði sér til Llorente sem skoraði með skoti framhjá samlanda sínum. Sigurvíman á Anfield breyttist hratt í skelþynnku er sami leikmaður skoraði með sambærilegu skoti á 105.mínútu.

  2-2 í hálfleik í framlengingu

  Verkefnið var orðið ansi erfitt fyrir Klopp og co. Stemmningin var að fjara út þó að Anfield hefði verið í fullri raust allan leikinn og leikmenn gefið sig allan í leikinn. Pirrandi fjörun út á leiknum endaði með því að Morata tókst að setja mark á lokamínútu leiksins.

  Lokaniðurstaða 2-3 fyrir Atletico

  Bestu leikmenn Liverpool

  Megnið af liðinu átti stórfína frammistöðu og lagði mikla orku í leikinn sem hefði átt að skila sigurniðurstöðu. Wijnaldum setti glæsilegt mark, Salah var sérlega skeinuhættur og Oxlade-Chamberlain var síógnandi. Mané var á köflum mistækur en frábær einnig og sama mátti segja um Firmino sem loks setti mark á Anfield. Minn maður leiksins var Gini Wijnaldum sem var frábær allar sínar mínútur og toppaði það með marki.

  Vondur leikur

  Það er augljóst hver fær hlutverk skúrksins eftir þennan leik en mistök Adrian á slæmum tímapunkti í leiknum voru afar afdrifarík. Sorglegt fyrir alla Púlara en við kunnum að standa með okkar manni sem að vann fyrir okkur Super Cup fyrr á tímabilinu og hefur lagt sitt af mörkum í átt að Englandsmeistaratitlinum væntanlega.

  Umræðan

  Evrópumeistararnir eru dottnir út og það er sorglegt miðað við frábæra frammistöðu á Anfield. Þetta voru tvö frábær lið sem háðu taktíska baráttu í geggjuðum stemmningum og á endanum þurfti eitthvað að gefa eftir. Það hefði það verið frábært ef okkar menn hefðu enn og aftur sigrað á Anfield í klassískum sigurleik en svona er fótboltinn stundum. Við þurfum að sigra og tapa með reisn.

  Umhugsunarefni

  Auðvitað er grátlegt að vera fallnir út úr Meistaradeildinni en það er augljóst að þreyta er komin í aðalkjarna liðsins sem hefur verið á rosalegri keyrslu síðustu rúm 2 ár. Litlar styrkingar síðasta sumar skiluðu frábærum árangri í því að hraðlestin hélt áfram sinni göngu á sömu mönnum en ljóst er að pústið er að verða búið í ofurkeyrðum ofurhetjum. Það verður að finna öfluga íhlaupamenn í lykilstöðum áður en eitt besta lið enskrar og evrópskrar knattspyrnusögu brennur upp á yfirkeyrslu. Klopp og co. verða að blása til sóknar á markaðnum í sumar og sæta færis á því að gera gott lið ennþá betra.

  Að sama skapi má renna huga til þess hvernig ástandið verður á Meistaradeildinni á næstu mánuðum vegna COVID-19. Það er huggun harmi gegn að LFC þurfi ekki að takast á við þau vandræði eða að spila toppleiki á tómum Anfield sem er með sorglegri fótboltalegum hugsunum. Við vildum allir að Liverpool væri komið í 8-liða úrslitin en það verður í það minnsta ekki í verkahring LFC að vinna í kringum þau vandkvæði.

  Við óskum öllum sem bestri heilsu á válegum tímum og að Liverpool ljúki fljótlega sínu frábæra verki að reka smiðshöggið á Englandsmeistaratitilinn. Þrjátíu ára þorstinn verður vel slökktur með kampavíninu við fyrsta hugsanlega tækifæri. Tímabilið hefur verið magnað og ekki gleyma því þrátt fyrir bömmer kvöldsins.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðið vs. Atletico Madrid á Anfield Road!

  Seinni leikur í Spanglish-einvígi Liverpool vs. Atletico Madrid fer senn að hefjast fyrir fullu húsi í Mekka mómentanna á Anfield Road í Bítlaborginni!

  Í annað árið í röð þá þarf Rauði herinn að hafa hraustlega fyrir hlutunum og standa fyrir stórkostlegri endurkomu gegn spænskum risum í Meistaradeildinni til að halda áfram keppni. Þetta verður mucho rosalegt!

  Byrjunarliðin

  Herr Jürgen og Señor Diego hafa fyllt út sína skattaskýrslu fyrir tilskilinn frest og skilað leikskýrslu með í leiðinni. Rauði herinn stillir upp í eftirfarandi breiðfylkingu:

  Liverpool: Adrian, Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain, Mane, Salah, Firmino.

  Bekkurinn: Lonergan, Fabinho, Milner, Minamino, Lallana, Origi, Matip.

  Henderson og Robertson koma aftur inn í liðið og við stillum upp okkar allra sterkasta liði að Alisson undanskildum. Grjóthart og bekkurinn sterkur líka.

  Atletico stilla sínum spænska her upp svona:

  Atletico Madrid: Oblak, Trippier, Savic, Felipe, Lodi, Partey, Saul, Koke, Correa, Felix, Costa

  Fyrrum Spurs-maðurinn Trippier er mættur til leiks og einnig er and-hetjan Costa í byrjunarliðinu. Þetta verður eitthvað!

  Blaðamannafundir

  Kloppo og Robbo sátu fyrir svörum í gær og sumt sem þar var sagt hefur nú þegar ratað í fyrirsagnir en um að gera að horfa á meistarana til að drepa tímann fram að leik:

  Upphitunarlag dagsins

  Það dugar ekkert minna en Páll hinn ungi frá áttunda áratugnum til að gíra upphitunin í gang. Hann pantar endurkomu að hætti hússins og að halda Rauða hernum áfram inni í Meistaradeildinni:

  Leikurinn hefst klukkan 20:00 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Mikilvægasti leikur tímabilsins framundan!

  Það er gömul klisja og ný að tala um næsta leik sem þann mikilvægasta hjá hverju lið fyrir sig. Þetta er þó eitthvað sem á klárlega við í tilfelli Liverpool, því næsti leikur er síðari leikur liðsins í 16. liða úrslitum meistaradeildarinnar gegn Atletico Madrid, leikur sem liðið verður að vinna ef það á að komast í 8. liða úrslit. Og í ljósi þess að liðið er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar, en fallið úr báðum ensku bikarkeppnunum, þá má segja að Meistaradeildin sé eina keppnin sem eftir er sem einhver spenna er í fyrir okkur fylgismenn Liverpool.

  Þessi leikur – eins og reyndar flestir knattspyrnuleikir undanfarið – fer fram í skugga COVID-19 veirunnar. Nú er búið að fresta deildinni á Ítalíu, og leikir í dönsku deildinni fara nú fram fyrir luktum dyrum. Búið er að staðfesta að þrír leikir í meistaradeildinni í þessari viku fari fram án áhorfenda: PSG – Dortmund, Barcelona – Napoli, og Valencia – Atalanta. Hugsanlega verður leikur Bayern og Chelsea fyrir tómum leikvangi. Umræður um hvort slíkt verði tekið upp í deildinni á Englandi hefur verið í gangi í nokkurn tíma. Engin ákvörðun um slíkt hefur verið tekin ennþá, og yfirmaður íþróttamála hefur reyndar gefið það út að slíkt sé ekki í kortunum. Hins vegar er ljóst að tilfellum fjölgar stöðugt á Bretlandi, og það þarf kannski ekki mikið að gerast til að það verði tekin ákvörðun um áhorfendabann. Líkurnar á því að slíkt bann taki gildi áður en leikurinn á miðvikudaginn fer fram eru þó afskaplega litlar, en líkurnar á því að þetta verði síðasti leikurinn í meistaradeildinni (a.m.k. í bili) sem verður leikinn fyrir framan áhorfendur eru hins vegar einhverjar. Það er því vonandi að völlurinn verði gjörsamlega skoppandi á miðvikudagskvöld, hugsanlega verður þetta síðasta Evrópukvöld á Anfield í bili, og því nú eða aldrei fyrir áhorfendur að hafa áhrif. Og ef liðið þurfti einhverntímann á “12. leikmanninum” að halda, þá er það núna.

  En hvað þennan vírus varðar, þá er voða lítið annað að gera í stöðunni annað en að við verðum öll dugleg að þvo okkur um hendurnar, og þá er nú ágætt að hafa þessar ágætu leiðbeiningar til hliðsjónar:

  Um andstæðingana

  Gengi Atletico Madrid upp á síðkastið hefur verið upp og ofan. Frá fyrri leiknum í 16. liða úrslitum hefur liðið leikið 3 leiki í deildinni, gegn Villareal, Espanyol og Sevilla. Af þessum leikjum hefur liðið unnið einn en gert tvö jafntefli, og fengið á sig 4 mörk. Þeim hefur semsagt ekki gengið neitt sérstaklega vel að halda hreinu, sem ættu að vera góðar fréttir, og það þrátt fyrir að aðeins einn þessara leikja hafi verið útileikur.

  Liðið getur valið úr nánast öllum sínu bestu mönnum, Joao Felix, Diego Costa og Alvaro Morata eru allir komnir til baka úr meiðslum og gætu spilað, Felix og Morata voru reyndar teknir af velli í síðasta leik. Gimenez er sömuleiðis kominn úr langtímameiðslum en óvíst hvort honum verður teflt fram í jafn mikilvægum leik og þessi er.

  Hvað segir tölfræðin okkur um leiki þessara liða? Jú þau hafa mæst 5 sinnum í alvöru keppnum, auk svo einhverra æfingaleikja eins og sumarið 2017. Í þessum 5 leikjum hefur Liverpool unnið einu sinni, Atlético unnið tvisvar, og tvisvar hefur orðið jafntefli. Það er því klárlega tímabært að laga þessa tölfræði aðeins.

  Atletico eru í 5. sæti í spænsku deildinni með 45 stig, 13 stigum á eftir toppliði Barcelona. Semsagt, ekki í hæstu hæðum en klárlega í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni.

  Okkar menn

  Staðan á hópnum sem Klopp hefur yfir að ráða er aðeins skárri en hún var um helgina, því Henderson er farinn að æfa aftur, og það má reikna með að Robertson verði leikfær. Hins vegar er Alisson ennþá meiddur, og gæti vel verið frá í næstu tveim leikjum eða fram yfir landsleikjahlé. Það hefur þó ekkert verið staðfest í þeim efnum. Til að flækja stöðuna enn frekar þá er Kelleher líka meiddur. Það er því ljóst að Adrian verður á milli stanganna, Lonergan á bekknum, og annarhvor Pólverjinn Vitezslav Jaros eða Jakub Ojrzynski í startholunum. Við erum semsagt einum meiðslum hjá Adrian frá því að þurfa að stilla upp liði í 16. liða úrslitum meistaradeildarinnar þar sem markvörðurinn hefur aldrei spilað aðalliðsleik með liðinu, og varamarkvörður á bekknum sem hefur ekki einusinni verið á skýrslu hjá aðalliðinu! Vill einhver taka að sér að pakka Adrian í bómull fram að leik takk?

  Það má fastlega gera ráð fyrir að Alisson mæti í þessum bol á Anfield.

  Að venju er stóra spurningin hvernig Klopp stillir upp á miðsvæðinu. Er Henderson klár í slaginn eftir 2 vikna pásu til að fara beint í byrjunarliðið? Ég ætla að veðja á það, en yrði ekkert rosalega hissa þó hann byrji á bekknum. Heldur Klopp áfram að reyna að spila Fabinho í stuð? Ég á frekar von á því að Klopp haldi áfram að sýna þolinmæði gagnvart leikmönnum sem hann veit hvað geta, þó þeir hafi e.t.v. ekki sýnt það í síðustu leikjum. Ég myndi því veðja á að Klopp stilli liðinu svona upp á miðvikudaginn:

  Adrian

  Trent – Gomez – VVD – Robertson

  Henderson – Fabinho – Wijnaldum

  Salah – Firmino – Mané

  Að sjálfsögðu er alls ekkert ólíklegt að Klopp vilji stilla upp ögn sóknarsinnaðra liði. Hann gæti líka alveg sett Hendo aftur í sexuna og spilað Ox fyrir framan við hliðina á Wijnaldum. Keita gæti mögulega fengið sénsinn í stað Wijnaldum. Nú og svo er Lallana ennþá í uppáhaldi þó svo að tími hans hjá Liverpool sé líklega á enda runninn.

  Við biðjum svo ekki um mikið, bara um tveggja marka sigur.

  KOMA SVO!!!

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close