Latest stories

 • AC Milan – European Royalty 

  Aðeins tvö lið hafa unnið Evrópukeppnina oftar heldur en Liverpool, AC Milan er annað þeirra. Þeir hafa ekki verið með undanfarin ár en rétt eins og Liverpool þá er AC Milan klárlega eitt af þeim félögum sem má flokka sem European Royalty.

  Milan borg er raunar sú eina í Evrópu sem er heimaborg tveggja liða sem hafa unnið Evrópukeppni Meistaraliða eða Meistaradeildina. Höfuðborgir eins og London, Madríd, París, Berlín og Róm hafa ekki afrekað það. Hvað þá litlu liðin í Liverpool og Manchester.

  Bakgrunnur 

  Félagið er stofnað af tveimur Englendingum árið 1899 sem er ástæðan fyrir því að ensk þýðing á nafni heimaborgarinnar er notuð en ekki hið ítalska Milano eins og t.d. Internazionale Milano.

  AC Milan var eina liðið í borginni í áratug og gekk vel. Liðið vann deildina tveimur árum eftir stofnun og svo aftur 1907 og 1908. Þá um sumarið varð ágreiningur vegna kaupa á erlendum leikmönnum til þess að nýtt lið var stofnað og nafnið á þessu nýja liði nokkuð gott í ljósi aðdragandans, Internazionale. Tvöfaldir meistarar AC Milan unnu titilinn ekki aftur eftir þetta fyrr en 43 árum seinna.

  Milan er höfuðborg Lombardy héraðsins á Ítalíu og þó borgin sjálf sé töluvert fámennari en höfuðborgin (Róm) búa mun fleiri á svæðinu í kringum Milan. Lombardy héraðið er það langfjölmennasta af 20 héruðum landsins en talið er að einn sjötti af ítölum búi í Lombardy. Munum kannski eftir fréttum frá Bergamo og öðrum svæðum Lombardy héraðsins við upphafi kórnónaveirufaraldsins, þeir réðu ekkert við útbreiðslu faraldursins enda mannmergðin mikil og búið þröngt.

  Róm er höfuðborg Ítalíu og landinu eðli málsins samkvæmt stjórnað þaðan, Milan er engu að síður hjarta iðnaðar-og fjármála landsins og hefur verið lengi. Hagkerfið miðað við verga landsframleiðslu (GDP) í Milan er það þriðja stærsta innan Evrópusambandins á eftir París og Róm, en mest meðal borga sem ekki eru höfuðborgir.

  Fjárhagslegir yfirburðir Milan og fjölmenni hafa í gegnum tíðina tryggt svæðinu lykilhlutverkum á pólitíska sviðinu. Berlusconi fær sér kafla en löngu áður en hann kom til sögunnar hóf t.a.m. Benito Mussolini sinn feril í fjölmiðlum og pólitík í Mílan. Fasistaflokkur hans marseraði í október 1922 í fyrsta skipti á San Sepolcro torgið þar sem Mussolini ávarpaði hópinn og boðaði að þeir myndu yfirtaka Róm með valdi. Eftir að ítalskir andófsmenn náðu völdum á Norður-Ítalíu í lok seinni heimsstyrjaldar náðu þeir Mussolini þar sem hann var að reyna flýja til Sviss. Hann var myrtur við Como vatnið og þaðan var farið með líkið til Milan þar sem það hengt upp á hvofli og haft til sýnis til að staðfesta dauða hans. Milan leið engu að síður líka fyrir það að vera önnur af mikilvægustu borgum Ítalíu í seinni-heimsstyrjöldinni og fékk töluvert slæma útreið.

  Eftir stríðið varð töluverður uppgangur og mikil fólksfjölgun á Lombardy svæðinu, mest af fólki frá dreifbýlum Suður-Ítalíu. Milan var byggð upp aftur með skýjakljúfum og tilheyrandi. Samhliða því fór AC Milan liðið aftur að láta til sín taka á knattspyrnuvellinum.

  Á sjötta áratugnum var það sænskt tríó (Gre-No-Li) sem reif félagið upp, goðsagnirnar Gunnar Gren, Gunnar Nordahl and Nils Liedholm. Sá síðast nefndi var einmitt fyrirliði sænska landsliðsins þegar þeir komust í úrslit á HM 1958. Milan liðið vann deildina ´51, ´55, ´57, ´59 og ´62.

  Evrópukeppni Meistaraliða var þarna að hefjast og kom uppgangur AC Milan á besta tíma hvað hana varðaði. Liðið vann Evrópukeppnina í fyrsta skipti árið 1963 með sigri á Eusebio og félögum í Benfica. Þeir endurtóku svo leikinn 1969 með sigri á Johan Cruyff og félögum í Ajax. Sænska tríóið hafði þarna löngu lagt skóna á hilluna, leiðtoginn í þessu gullaldarliði Milan var Gianni Rivera sem seinna varð varaforseti AC Milan og í kjölfarið á því þingmaður. Hann er enn goðsögn í Milan og talinn einn besti leikmaður í sögu félagsins.

  Auk stóru Evróputitlanna vann Milan liðið einnig Evrópukeppni bikarhafa tvisvar á þessum árum 1968 og 1972. Gianni Rivera kvaddi liðið með tíunda deildartitli félagsins árið 1979 en í kjölfarið á því fór að halla hressilega undan fæti.

  AC Milan var dæmt niður um deild árið 1980 í kjölfarið á Totonero veðmála skandalnum. Veðmálafyrirtæki voru staðin að því að hagræða úrslitum leikja með því að múta leikmönnum og dómurum. Eitthvað sem Bill Shankly hafði sakað nágranna AC Milan um áratugum áður og hafði líklega eitthvað til síns máls.

  Milan fór upp um deild árið 1981 en féll árið eftir, eina skipti í sögu félagsins sem liðið hefur fallið um deild (án þess að vera dæmt niður). Þeir fóru upp strax aftur árið eftir en fjárhagsstaða félagsins var í molum sem var í engu samræmi við tíðarandann í borginni.

  Milan varð á níunda áratugnum sú ofboðslega heimsborg sem hún hefur verið síðan. Milan er ein helsta tískuborg heimsins, hýsir m.a. höfuðstöðvar tískurisa eins og ArmaniVersace og Dolce & Gabbana). Það er hótel frá flestum helstu lúxus hótelkeðjum í borginni og er hún sögð vera í fimmta sæti á heimsvísu yfir veitingastaði með Michelin stjörnu.

  Erlendum ferðamönnum fjölgaði mjög á níunda áratugnum og þá mest frá Bandaríkjunum og Japan. Það var rífandi uppgangur og gott partý í borginni og því líklega aðeins tímaspursmál hvenær einhver myndi fjárfesta í því sem skiptir heimamenn mestu máli, fótboltaliðunum.

  Silvio Berlusconi

  Að segja að hann sé umdeildur kemst ekki nálægt því að ná utan um þennan ævintýralega skrautlega stjórnmálamann sem er fæddur í Milan árið 1936. Auðveldasta lýsingin á Berlusconi er að hann er nokkurnvegin Evrópska útgáfan af Donald Trump.

  Öfugt við Trump er Berlusconi ekki sonur milljarðamærings og hefur það verið rannsakað án árangurs í áratugi hvernig hann eignaðist upphaflega auðæfi sín. Það veit svosem hvert mannsbarn að Mafían fjármagnaði hann, það hefur bara ekki verið sannað með staðfestum hætti.

  Eitt af dótturfélögum Finvest samsteypu Berlusconi fjölskyldunnar hafði fullkomlega upp úr þurru efni á að fjármagna byggingu 4.000 íbúða hverfis (Milano 2) fyrir rúmlega 10.000 manns á árunum 1970 – 1979.  Þetta verkefni var grunnurinn að ferli Berlosconi. Hagnað af þessu verkefni setti hann m.a. í stofnun auglýsingaskrifstofu og seinna sjónvarpsstöðva.

  Hann hefur líklega alla tíð verið eins í einkalífinu en hann eignaðist m.a. tvö börn árið 1965 með sitthvorri konunni. Það er líklega hvað næst þeirri ímynd sem fólk utan ítalíu hefur af honum og er stundum frekar brosleg, ítalir þekkja þó einnig mun betur ímynd hans sem stjórmálamanns og það er ekki meint í jákvæðum skilningi.

  Árið 1974 keypti Berlusconi villu af glæsilegustu gerð á andvirði blokkaríbúðar af dánarbúi manns sem hafði myrt eiginkonu sína og í kjölfarið framið sjálfsmorð. Innbú fylgdi með sem var líklega ekki minna virði en húsið. Lögfræðingurinn sem sá um söluna varð í kjölfarið lögmaður Berlusconi til áratuga og einn nánasti samstarfsmaður hans. Til að passa upp á öryggi sitt var maður á vegum Cosa Nostra Mafíunnar alltaf á verði í villunni. Mögnuð tilviljun auðvitað.

  Byggingaverktaki er opinbera starfsheitið á áttunda áratugnum en guð má vita hvað hann var að gera óopinberlega í slagtogi við ítölsku Mafíuna sem var í blóma á þessum tíma (og er mögulega ennþá). Berlusconi á það sameignlegt með Mafíunni að hann metur hollustu ofar öllu og er svipað mikill narsissisti og Donald Trump.

  Berlusconi er þrátt fyrir þetta ekki mest þekktur á ítalíu sem byggingarverktaki og raunar ekki heldur sem stjórnmálamaður, hann sneri sér ekki að pólitík (með beinum hætti) nærri því strax.

  Á áttunda áratugnum var RAI eina sjónvarpsstöð landsins og var einkaaðilum bannað að eiga sjónvarpsstöðvar fyrir utan local stöðvar sem náðu aðeins takmörkuðu svæði. Berlusconi átti eina slíka árið 1976 er gerðar voru reglubreytingar þess efnis að sami aðilinn mátti eiga fleiri en þrjár local sjónvarpsstöðvar á sama tíma. Áfram var bannað að senda út samræmda dagskrá fyrir allt landið engu að síður. Berlusconi var ekki lengi að sjá við því og sendi sömu dagskránna út á öllum stöðvum með nokkurra sekúndna delay á milli. Hann sópaði fljótt upp markaðnum og var kominn í beina samkeppni við RAI.

  Berlusconi opnaði t.a.m. fyrir bandarískt sjónvarpsefni og eins miklu miklu meira af fótbolta í beinni útsendingu en þekkst hafði á RAI. Hann gjörsamlega rakaði inn auglýsingatekjum og sem dæmi voru auglýsingatekjur á Ítalíu meiri í kringum 1980 en í Evrópu samanlagt og það jókst eftir því sem leið á áratuginn. Hann var á undan sinni samtíð þarna þó hann væri vissulega að brjóta lögin. Eins og svo marg oft áður og miklu oftar eftir það komst hann einfaldlega upp með það.

  Ekki aðeins gerði þessi velgengni Berlusconi að einum ríkasta manni landsins heldur fékk hann með þessu mjög öflugt tól til að stjórna umræðunni í landinu. Hann átti marga vini í stjórnmálum sem sáu sannarlega hag í því að hafa Berlusconi með sér frekar en á móti. Bettino Craxi forsætisráðherra Ítalíu frá 1983-1987 er gott dæmi um slíkan stjórnmálamann en hann var náin vinur Berlusconi. Craxi er almennt talinn einn spilltasti stjórnmálamaður í sögu Ítalíu, það er töluverður heiður á þeim bænum! Hann sá t.a.m. til þess að slaka á kröfum um eignarhald á fjölmiðlum og fækka vandamálum Berlusconi umtalsvert.

  AC Milan í eigu Berlusconi

  Svona var aðdragandi þess að Berlusconi “bjargaði” AC Milan í febrúar árið 1986. Hann var þarna á hátindi ferilsins sem viðskiptamongúll og í kjörstöðu til að eignast hið fornfræga Milan lið sem hann hefur stutt frá barnæsku. Utan Ítalíu var Berlusconi ekki hvað síst þekktur fyrir að vera eigandi AC Milan áður en hann náði kjöri sem forsætisráðherra. Hann varð gríðarlega vinsæll í Lombardy héraðinu enda gat hann ekki byrjað mikið betur með Milan liðið.

  AC Milan endaði í fimmta sæti tímabilið 1986-87 og ljóst að Berlusconi vildi meira og var hans fyrsta þjálfararáðning ein sú besta í sögunni. Arrigo Sacchi var þá fertugur stjóri hjá Parma sem hann kom upp úr Seria C og var þremur stigum frá því að koma alla leið upp í Seria A árið eftir.

  Parma liðið hafði unnið AC Milan tvisvar á skömmum tíma í bikarnum tímabilið 1986-87 og það var nóg til að sannfæra Berlusconi að fá hann til Milan. Stuðningsmenn liðsins höfðu töluverðar efasemdir um Sacchi enda hafði hann ekkert getað sem leikmaður og litla reynslu sem stjóri. Svar Sacchi varð seinna goðsagnakennt, “Ég vissi ekki að til þess að verða góður knapi þurfi maður að vera hestur fyrst”. 

  Hópurinn sem hann fékk í arf innihélt ofboðslega sterkan kjarna sem hann byggði í kringum. Varnarlínan goðsagnakennda var til þá þegar og að mestu leiti uppalin hjá AC Milan.  Franco Baresi (27 ára), Mauro Tassotti (27 ára), Paolo Maldini (19 ára), Alessandro Costacurta (22 ára) Fillipo Galli (20 ára) og Roberto Donadoni sem kom sumarið áður 24 ára.

  Ásamt því að fá Sacchi til félagsins var sumarglugginn 1987 hreinlega fáránlegur, Ruud Gullit og Marco van Basten komu frá Hollandi og Carlo Ancelotti kom á miðjuna frá Roma. Auk þeirra komu þrír leikmenn sem Sacchi tók með sér frá Parma. Það var því ekki hein tilviljun að Milan næði árangri strax. Sacchi var kominn með lið sem var nógu gott til að taka titilinn af Maradona og félögum í Napoli.

  Sumarið eftir kom Frank Rijkaard og hinn uppaldi Albertini fékk sínar fyrstu mínútur. Þarna var Sacchi kominn með “besta” lið Evrópu og þeir staðfestu það með því að vinna Evópukeppni Meistaraliða tvö ár í röð, 1989 og 1990.

  Þó verður að hafa í huga að besta lið Evrópu á þessum tíma mátti ekki spila í Evrópukeppninni í kjölfar Heysel. Sama hvaða skoðun menn hafa á því þá dregur fjarvera ensku liðanna mjög mikið úr vægi allra sigurvegara á þeim árum sem ensku liðin voru bönnuð. Því til stuðnings er hægt að benda á að frá 1976 til 1985 var alltaf enskt lið í úrslitum nema árið 1983, átta af níu árum þar til ensku liðin voru bönnuð. Liverpool var þetta enska lið í fjórum af þessum átta skiptum. Liverpool liðið 1987-1989 var af mörgum talið það besta þar til bara núna eftir að Klopp tók við.

  Byrjunarliðið sem vann Evrópukeppni Meistaraliða 1988 (hefðu ekki átt glætu í John Barnes og félaga í Liverpool) 

  AC Milan og velgengni þeirra var sannarlega vatn á myllu Berlusconi sem kunni heldur betur að nýta sér það. Hann var allt umlykjandi í ítölsku samfélagi. Hann sannaði það á þessum árum og hefur sannað það oft síðan hann hann er úr teflon þegar kemur að hneykslismálum og hvað þá dómsmálum. Hann hefur samtals verið dæmdur í yfir 20 ára fangelsi á lífsleiðinni fyrir hin ýmsu brot sem daga svo uppi, hverfa eða er jafnvel snúið seinna með mis ótrúverðugum hætti.

  Hann var t.a.m. í vandræðum á árunum 1992-94 er ítalska stjórnin hrundi í endalausum málaferlum vegna spillingamála. Berlusconi missti fullt af sínum helstu bandamönnum í stjórnmálunum, menn sem höfðu varið hann og jafnvel hagrætt leikreglum til að hliðra til málum fyrir Silvio.

  Hann sá aðeins eina rökrétta niðurstöðu við þessum vanda, stofna stjórnmálaflokk og bjóða sig sjálfur fram, nema hvað? Hann stofnaði Forza Italia 1994 og naut auðvitað góðs af og nýtti sér óspart að eiga þrjár sjónvarpsstöðvar og gríðarleg auðæfi.

  Til að mynda stjórn myndaði hann kosningabandalag m.a. með fasistaflokki og náði kjör með naumum meirihluta. Hann hófst þegar handa við að raða vinum sínum í áhrifastöður.

  • Skattalögmaðurinn hans var eðlilega gerður að fjármálaráðherra og fór að gefa út reglugerðir sem hjálpuðu fyrirtækjum Berluscni skattalega.
  • Fimmtíu af þingmönnum Forza Italia voru fyrrum starfsmenn Publitalia, auglýsingafyrirtækis Berlusconi.
  • Cesare Previti, lögmaðurinn sem var honum innan handar við kaup á villunni 1976 og hans hægri hönd alla tíð síðan var gerður að varnarmálaráðherra. Berlusconi vildi gera hann að dómsmálaráðherra en flokkarnir sem mynduðu með honum kosningabandalag töldu fortíð hans of grugguga fyrir það embætti. Priviti var seinna dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir að múta dómurum í dómsmálum er sneru að Berlusconi.
  • Starfsmenn úr fjölmiðlafyrirtækjum Berlusconi voru settir yfir Rai 1 og RAI 2, ríkisstjónvarpið.

  Þetta er svona brotabort af því sem Berlusconi var að gera fyrstu dagana sem forsætisráðherra. Hann gekk þó fljótlega of langt við að kveða niður rannsóknir á sjálfan sig, kosningabandalagið hélt ekki og féll ríkisstjórn Berlusconi eftir hálft ár. Hann var árið eftir (1995) fundinn sekur um mútugreiðslur, mál sem var svo fellt niður fimm árum seinna á vægast sagt tæpum grundvelli og lagaklækjum sem einmitt voru settar á í tíð Berlusconi.

  Stjórnmálamenn á Ítalíu virtust ekki þora að hjóla alla leið í Berlusconi, líklega þar sem hann gat klárað þeirra pólitíska feril í gegnum sjónvarpsstöðvar sínar og áróður þar. Mussolini og hans menn hefðu dauðöfundað Berlusconi af þeim tækjum og tækifærum sem hann hafði er kemur að áróðri til að hygla sjálfum sér.

  Stjórnmál á Ítalíu eru skrautleg með og án Berlusconi en eftir að hann var sýknaður um aldamótin bauð hann sig aftur fram árið 2001. Hann var miklu líflegri í kosningabaráttunni en leiðtogar vinstri flokkana sem höfðu verið við völd og náði til nógu margra með popúlískum skoðunum.

  Hann náði aftur kjöri og var stjórnin fyrsta fyrsta kjörtímabilið eins og lögfræðistofa, litlu skrárri en síðast og kom hann í gegn fullt af reglugerðum sem hjálpuðu honum viðskiptalega og eins héldu honum frá fangelsi. Því meira sem maður kynnir sér pólitískan feril Berlusconi því ótrúlegri verður lesturinn. Hann reyndi m.a. að gera breytingar á stjórnarskrá landsins og færa meiri völd til forsætisráðherrans árið 2003 og náði því í gegnum þingið með naumum meirihluta.

  61% af þjóðinni höfnuðu þessum sjórnarskrárbreytingum hinsvegar.

  Árið 2005 tapaði hann aftur völdum en við tók níu flokka stjórn sem var mjög tæp. Berlusconi mútaði einum af leiðtogunum níu 3m fyrir að fella stjórnina sem gekk eftir og með því að einfalda söguna all verulega var enn á ný boðað til kosningar árið 2008. Berlusconi náði völdum enn á ný.

  Hann af öllum mönnum var því forsætisráherra þegar fjármálahrunið skall á og var langt kominn með að setja Ítalíu á hausinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn steig inn í og var brotthvarf Berlosconi nánast skilyrði fyrir því að aðrir leiðtogar innan ESB samþykktu frekari aðstoð við ítalí. Hann hélt því a.m.k. fram að ESB hefði plottað hann út er hann reyndi að bjóða sig fram enn eina ferðina tveimur árum seinna.

  Þetta var bara stjórnmálaferillinn á hundavaði. Helstu hneykslismálin hafa verið kvennamálin og þá ásókn hans í ungar stelpur, jafnvel undir lögaldri. Svokölluð bunga bunga partý. Hann hefur fengið dóm fyrir að sofa hjá vændiskonu undir lögaldri. Það sem kom lögreglunni á sporið er að hann lét fella niður dómsmál gegn henni og vöknuðu við það grunsemdir um að ekki væri allt með felldu í samskiptum hans við stelpuna. Dómnum var auðvitað snúið og málið fellt niður seinna.

  AC Milan

  Eftir fimm ára fjarveru ensku liðanna í Evrópu var landslagið gjörbreytt í upphafi tíunda áratugarins. Frá því að Liverpool spilaði til úrslita árið 1985 komst enskt lið ekki aftur í úrslit fyrr en árið 1999. Eftir þann leik liðu önnur sex ár þar til England átti aftur fulltrúa í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þá mætti Liverpool einmitt ofurliði AC Milan.

  Seria A var sterkasta deildin með öllum helstu stórstjörnunum þegar nýr áratugur gekk í garð og mikill efnahagslegur uppgangur var í landinu, sérstaklega á norður-Ítalíu.

  Fabio Capello tók við verulega góðu búi af Sacchi hjá Milan og hélt velgengninni áfram og vel það. Liðið vann deildina þrjú tímabil í röð frá 1992-94 og tók m.a. 58 leikja kafla í Seria A án þess að tapa leik. Milan liðið fór sömuleiðis í úrslit Evrópukeppni Meistaraliða þrjú tímabil í röð, árin 1993-95

  • Marseille vann leikinn árið 1993 en það félag var í kjölfarið sett í bann frá Evrópu fyrir að múta andstæðingum sínum í frönsku deildinni. Helvíti kaldhænislegt að andstæðingar liðsins sem Berlusconi á séu dæmdir fyrir slíkt.
  • Árið 1994 var hinsvegar engin vafi og burstaði AC Milan úrslitaleikinn gegn Guardiola, Txiki Begiristain, Koeman, Romario, Hristo Stoichkov og félögum í Barcelona 4-0.
  • Eitt besta Ajax lið sögunnar skellti svo AC Milan árið 1995 í úrslitaleiknum 1-0.

  Hálfpartinn vonbrigði fyrir þetta Milan lið að vinna aðeins einn Evróputitil á þessum árum þar sem þeir voru óumdeilt besta félagslið í heimi.

  Eftir að Capello hætti komu 2-3 ár þar sem Milan liðið var í lægð og ákveðnum kynslóðaskiptum. Carlo Ancelotti sem kom til AC Milan sem leikmaður skömmu eftir að Berlusconi keypti félagið tók svo við sem stjóri liðsins árið 2001 og hóf nýtt gullaldarskeið og byggði upp enn eitt gjörsamlega frábæra AC Milan liðið.

  Það lið þekkjum við ágætlega enda spilaði Liverpool tvisvar við þá í úrslitum Meistaradeildarinnar árin 2005 og 2007. Tveimur árum áður (2003) höfðu þeir unnið Juventus í úrslitum.

  AC Milan í dag 

  Eftir nokkur erfið ár hjá bæði AC Milan og Berlusconi ákvað hann að selja félagið árið 2017. Hann var þá áttræður og vildi ekki setja meiri pening í fótbolta, kvartaði fyrir eignarhaldi annarra stórliða í Evrópu sem jafnvel eru með heilu olíuríkin og ríkissjóði þeirra á bakvið sig. Erfitt að þræta við hann þar raunar.

  Kaupandinn var kínverskur auðmaður að talið var en átti svo engan pening þegar upp var staðið. Klárlega ekki í það minnsta eftir að stjórnvöld í Kína stöðvuðu fáránlegt fjáraustur kínverja í evrópskum fótbolta.

  AC Milan var því í mjög djúpum skít og stefndi jafnvel í gjaldþrot og raundar erfitt að meta hvort þeir séu komnir fyrir vind með það því að Elliott vogunarsjóðurinn frá Bandaríkjunum tók yfir AC Milan af kínverjunum og keypti upp skuldir félagsins. Elliott vogunarsjóðurinn er gríðarlega öflugur og á m.a. meirihlutan í Twitter og er einn af stærri styrktaraðilum Repúblikanaflokkins í heimalandinu.

  Vogunarsjóðurinn græðir mest á því að AC Milan gangi sem best og að hægt sé að selja félagið með hagnaði sem er líklega að ganga ágætlega enn sem komið er, AC Milan er á toppnum á Ítalíu og komið aftur í Meistaradeildina þó þetta verði líklega þeirri síðasti leikur í þeirri keppni á þessu tímabili.

  Það að AC Milan sé á toppnum í Seria A segir reyndar meira um stöðuna á ítalska boltanum heldur en gæði núverandi leikmanna liðsins. Fertugur Zlatan Ibrahimovic er aðalmaðurinn á San Siro enn á ný og 35 ára Oliver Giroud er næst markahæstur hjá þeim. Juventus er í tómu rugli um þessar mundir 14 stigum á eftir toppliðinu og mögulega á leið í annan skandal þar sem verið er að rannsaka leikmannakaup félagsins undanfarin ár og samskipti þeirra við ákveðna umboðsmenn. Væri sekt í slíku máli ekki dæmigert fyrir ítalska boltann.

  Liverpool

  Þvílíka vika hjá Liverpool! Klopp er búinn að nota sama byrjunarliðið í báðum leikjunum gegn Everton og Wolves og hefur góðan möguleika á að skipta þeim öllum út í þessum leik. Liverpool tryggði sér sigur í riðlinum í fjórum leikjum og á miklu mikilvægari leik á laugardaginn gegn Steven Gerrard og félögum heldur en þennan gegn AC Milan. Það væri því réttast að skipta alfarið um lið í þessum leik og nota svo svotil sama lið gegn Leicester í deildarbikarnum seinna í mánuðinum.

  Það er þó ekki þar með sagt að Klopp þurfi að stilla upp slæmu liði og því síður gefa þennan leik. Hann fær gott tækifæri í Milan til að gefa leikmönnum sem þurfa að spila dýrmætar mínútur og ég hugsa að hann komi til með að nýta sér það. Eina þarf að fara mjög varlega með hópinn enda desember klikkaður mánuður og janúar litlu skárri.

  Fyrir ári síðan átti Liverpool nokkurnvegin alveg eins leik gegn Midtjylland í Danmörku. Þar spilaði Klopp mönnum eins og Salah, Trent, Fabinho, Keita og Jota í byrjunarliðinu og henti Bobby, Hendo, Mané og Robertson inná þegar leið á leikinn. Sá leikur kostaði okkur Jota í nokkra mánuði sem hafði verið okkar besti maður fram að því.

  Hópurinn sem hann hefur úr að velja núna er á móti stærri og sterkari enda meiðslalistinn ekki eins fullkomlega fáránlegur.

  Svona tippa ég á byrjunarlið Liverpool: 

  Klopp gerir jafnan ekki 11 breytingar á byrjunarliðinu og ég hugsa að einn af Salah, Mané eða Jota verði með þar sem Kadie Gordon er ekki í Meistaradeildarhópi Liverpool. Eins er óljóst hvort Gomez og Keita eru klárir, þetta gæti því verið úrvals auglýsingagluggi fyrir Nat Phillips sem Klopp var að hrósa hressilega fyrir helgina.

  James Milner nældi sér í bann í uppbótartíma gegn Porto og því ætti Tyler Morton að koma aftur inn rétt eins og gegn Porto.  Þarna erum við að tala um 10 breytingar frá Wolves leiknum en engu að síður öflugut lið að mestu án unglinga. Það án Jones og Elliott sem eru og verða áfram á meiðslalistanum.

  Kelleher spilaði þennan leik í fyrra í Danmörku og á skilið að taka tvo af næstu þremur. Hann er þar fyrir utan mun nær því að vera klár í slaginn á þessu leveli en fyrir ári síðan.

  Konate kemur klárlega inn og vonandi Joe Gomez líka, m.a. Nat Phillips missti af leiknum í Danmörku fyrir ári síðan vegna meiðsla. Fabinho byrjaði þann leik með Rhys Williams í miðverðinum og Billy the Kid kom inná í seinni hálfleik!

  Tismikas ætti að vera nokkuð pottþétt í liðinu og Neco Williams ætti að fá þennan rétt eins og Porto leikinn. Báðir eru töluvert nær því að njóta traust hjá Klopp en fyrir ári síðan. Tsimikas klárlega auðvitað.

  Ox byrjar klárlega og vonandi er Keita klár í slaginn með honum. Það væri rosaleg viðbót fyrir desember að fá Keita aftur inn, hann var frábær áður en hann meiddist síðast. Ef Keita er ekki klár eða Morton ekki treyst þarf Klopp að nota 1-2 af miðjunni sem spilaði gegn Wolves og Everton.

  Ef að Origi byrjar ekki eftir þetta mark gegn Wolves boðum við til mótmæla á Austurvelli klukkan 20:30 á þriðjudaginn. Minamino ætti einnig að fá þessar mínútur og einn af fab four hugsa ég og þá líklega Salah. Væri líka gaman að sjá einhvern af unglingunum í þessum leik, pólska Messi eða einhvern af þeim.

  Spá

  Gæti ekki verið mikið meira sama hvernig þessi leikur fer enda skipir hann Liverpool voðalega litlu máli. Vonandi tapar mjög breytt Liverpool lið ekki, segjum 2-2 en auðvitað væri flottast að vinna alla leikina í riðlinum.  Origi með tvö.

   

   

  [...]
 • Wolves 0 – Liverpool 1

  0-1 Divok Origi, 94. mín

  Eftir að Chelsea missteig sig gegn West Ham fyrr í dag var dauðafæri fyrir Liverpool að ná toppsæti deildarinnar, allavega tímabundið, þegar við kíktum í heimsókn til Wolves í dag. Leikurinn byrjaði þó frekar hægt og var ekki mikið að frétta í fyrri hálfleik. Liverpool átti betri færin og leiddi xG bardagan í hálfleik 0,23-0,07. Eftir um hálftíma leik hefði Trent getað gert betur að koma boltanum á markið eftir frábæra sendingu frá Thiago en komst ekki nægilega vel undir boltann og hamraði honum langt yfir markið. Stuttu seinna átti Trent svo góða fyrirgjöf á fjær þar sem Jota var mættur en skallaði boltann framhjá markinu. Besta tækifærið í fyrri hálfleik kom svo þegar Robertson átti hlaup út að endalínu og renndi boltanum fyrir markið þar sem bæði Salah og Mané voru tilbúnir að renna boltanum yfir línuna en varnarmenn Wolves náðu að koma í veg fyrir það.

  Seinni hálfleikur reyndist svo meira af því sama. Liverpool komu sér í ágætis hálffæri en áttu erfitt með að koma boltanum yfir línuna meðan Wolves reyndu að beita skyndisóknum en rangstæðulína Liverpool reyndist þeim erfið og ef það brást var Alisson duglegur að koma af línunni og éta langar sendingar Wolves manna. Atvik leiksins kom svo eftir klukkutíma leik þegar Jose Sa kom út úr teignum að elta boltan en eftir einhvern misskilning milli hans og Roman Saiss endaði Jota með boltann sótti inn á teig en hamraði svo boltanum í Coady á marklínunni. Ótrúlegt klúður að vera með tvo varnarmenn á marklínu og setja boltann beint í annan þeirra. Það leit því allt út fyrir að við værum að horfa á mjög svekkjandi 0-0 jafntelfi þegar á þriðju mínútu uppbótartíma átti Van Dijk sendingu út á hægri vængin þar sem Salah tók við honum hljóp niður að endalínu áður en hann kom boltanum inn á varamanninn Divok Origi sem náði að snúa og loks koma boltanum í netið.

  Bestu menn Liverpool

  Það er ekki hægt annað en að velja bjargvættinn Origi mann leiksins í dag. Hefur látið lítið fyrir sér fara í tæplega tvö tímabil en þarna sáum við þann Origi sem við lærðum að elska. Ekki besti fótboltamaðurinn en ótrúlegur að ná að skora mikilvæg mörk á ögurstundu.

  Alisson hafði ekki mikið að gera en það sem hann gerði, það gerði hann mjög vel. Varnarlínan átti fínan dag en leikurinn litast algjörlega af því hvað við áttum erfitt fyrir framan mark andstæðinganna og svo léttinum þegar við skoruðum loks sigurmarkið.

  Vondur dagur

  Sóknarþríeikið átti slakan leik sem heild í dag. Jota hreinlega verður að skora þegar hann er búinn að skilja markmanninn eftir fyrir utan teig og Salah og Mane áttu erfitt með að fóta sig í leiknum í dag.

  Umræðupunktar

  • Með tapi Chelsea í dag er toppsætið okkar allavega næstu 90. mínúturnar, yfir til ykkar Manchester City!
  • Hrikalega er það pirrandi að horfa á svona leik þar sem liðið sem er að verjast hendir sér í jörðina hvað í annað að tefja. Var bið á leiknum í 5-6 skipti og þó þetta sé vissulega þeirri þriðji leikur í vikunni með lítinn hóp þá kristalaðist það með Raúl Jimenez sem meiddist fyrir utan hliðarlínu og rúllaði sér inn á völlinn til að stoppa leikinn.
  • Vissulega leiðinlegt að ná ekki að halda áfram að skora 2 mörk eða fleiri en vorum í staðinn vonandi að sjá einn af þessum frægu meistarasigrum sem er alltaf verið að tala um.

  Næsta verkefni

  Næst á dagskrá er það svo Ac Milan á San Siro á þriðjudaginn. Þar er ekkert í húfi fyrir okkur nema möguleikinn að verða fyrsta enska liðið til að vinna alla sex leikina í riðlakeppni í Meistaradeild. Vonandi sjáum við frábæra frammistöðu frá okkar “næstu ellefu” og menn sem þurfa hvíld sitji helst bara heima í Liverpool. Flott tækifæri fyrir Origi, Minamino og fleiri að sýna okkur að þeir geti haft áhrif á tímabilið og erfiður desembermánuður framundan.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Wolves

  Oft höfum við séð undarlegt lið frá Klopp þessa helgi í desember þegar hann nýtir tíman til að hvíla en það á ekki við í dag. Liverpool mætir því með sitt sterkasta lið í dag og sjáum við líklega frekar menn hvílda gegn Milan í vikunni í þýðingarlausum leik.

  Bekkur: Kelleher, Williams, Konate, Phillips, Tsimikas, Milner, Chamberlain, Minamino, Origi

  Gríðarlega sterkt lið sem mætir til leiks í dag sem ætti að hafa það framyfir Wolves að þeir eru vanir að spila marga leiki í viku og vonandi náum við að nýta okkur það til að sækja stigin þrjú í dag!

  [...]
 • Wolves – Liverpool (Upphitun)

  Þetta er nákvæmlega eins og maður vill hafa það, Liverpool í frábæru formi, skora þrjú mörk að meðaltali í leik og leikir á þriggja daga fresti! Næsta verkefni er ekki auðvelt, þau eru það reyndar fá í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool heimsækir Wolves á Molineux á morgun (laugardag) og hefjast leikar kl.15:00.

  (more…)

  [...]
 • Everton 1 – 4 Liverpool – Liverpool borg er rauð (as usual)

  Liverpool vann allt of sjaldséðan sigur á Everton á Goodison Park í kvöld, og þessi leikur var tekinn með vinstri (bókstaflega).

  Mörkin

  0-1 Henderson (9. mín)
  0-2 Salah (19. mín)
  1-2 Gray (38. mín)
  1-3 Salah (64. mín)
  1-4 Jota (79. mín)

  Gangur leiksins

  Það var ekkert verið að byrja neitt óþarflega rólega í kvöld, okkar menn voru strax komnir í færi og hefðu getað verið komnir í 4-0 eftir 10 mínútur með nákvæmari afgreiðslum. Matip fékk frían skalla eftir hornspyrnu frá Trent, en sneiddi boltann framhjá. Salah fékk tvö góð færi til að skora, hefði átt að skalla annan boltann en ákvað í staðinn að reyna að taka hann með fætinum og setti hann yfir fyrir vikið. Lét svo Pickford verja frá sér annað skot. En sá stutthenti kom engum vörnum við þegar Robbo fékk boltann við vinstri kantinn á teignum, gaf snyrtilega sendingu á Hendo sem hafði hellings pláss, gat stillt miðið og átti hnitmiðað vinstri fótar skot í bláhornið. Mjög sanngjarnt, og það var alveg jafn sanngjarnt þegar Salah kom okkar mönnum í 0-2 10 mínútum síðar. Everton voru í sókn en töpuðu boltanum, Hendo átti fullkomna sendingu upp í hægra hornið þar sem Salah kom aðvífandi, lagði boltann fyrir sig og sneiddi hann svo í fjærhornið með vinstri, alveg óverjandi fyrir litlu risaeðluna í markinu.

  En svo tók við kafli þar sem okkar menn slökuðu á klónni, og duttu niður á sama plan og Everton. Og auðvitað endaði það með því að þeim bláklæddu náðu að pota inn einu marki, varnarleikurinn var einfaldlega ekki nógu góður, Gray fékk boltann óvaldaður fyrir framan vítateig Liverpool, og þó svo Trent væri nálægt honum var hann samt ekki nógu nálægt til að blokka skotið sem Alisson varði ekki, ótrúlegt en satt. Við erum líklega orðin of vön því að hann taki svona færi og éti þau, en það er nefnilega alls ekki sjálfgefið. Í framhaldinu fékk svo Thiago gult spjald, en að vísu voru Everton menn mun duglegri í þeirri deild og gengu til búningsherbergja með 4 gul spjöld á bakinu (þar af 2 fyrir dýfur) á meðan Thiago var sá eini af okkar mönnum sem fór í svörtu bókina.

  1-2 í hálfleik, forystan var sanngjörn en hefði gjarnan mátt vera stærri út frá spilamennskunni fyrstu 20 mínúturnar.

  Byrjunin á síðari hálfleik var aðeins skárri, en þó voru þeir bláklæddu óþarflega mikið inni í leiknum. Á 62. mínútu fengu þeir aukaspyrnu á hættulegum stað, en skotið var varið í horn. Hornspyrnan var líka varin og barst svo út á miðjan völl þar sem Coleman hefði átt að taka boltann þægilega niður, en missti hann klaufalega til Salah sem var þar með sloppinn í gegn. Við vitum að Salah tekur svona gjöfum alltaf fagnandi, og gerði engin mistök í þetta skiptið þegar hann renndi snyrtilega fram hjá Pickford í fjærhornið. Með vinstri.

  Þarna var nú leikurinn ansi nálægt því að vera frágenginn, en á 79. mínútu sá Jota um að veita þeim náðarhöggið. Hann fékk sendingu frá Robbo inn á teig, sendingin var erfið því hún var aðeins fyrir aftan Jota, en móttakan var upp á 10. Hann var kominn upp að endamörkum við markteigslínuna, en í stað þess að gefa fyrir eins og líklega allir (Pickford þar með talinn) áttu von á, þá dúndraði hann boltanum einfaldlega upp í þaknetið. Með vinstri.

  Það var eitthvað um önnur færi í leiknum, t.d. vannst aukaspyrna sem van Dijk ákvað að vilja taka en skaut frekar hættulítið í varnarvegginn. Milner, Ox og Minamino fengu nokkrar mínútur, en annars kláraðist leikurinn enda Liverpool búið að skora 4 mörk og í síðustu leikjum hafa okkar menn einfaldlega sett í hlutlausan eftir mark nr. 4 og “krúsað” leiknum í höfn.

  Bestu/verstu frammistöðurnar

  Það er nú erfitt að ætla að taka einhvern einn út. Salah á klárlega tilkall í mann leiksins enda skoraði hann tvö mörk, og þurfti alveg að hafa fyrir þeim báðum. Hendo átti einn albesta leik sinn í lengri tíma, með mark og stoðsendingu, fyrsti leikmaður Liverpool til að eiga slíkt gegn Everton síðan…. Gerrard árið 2005. Jota var líka mjög öflugur, hann á það alveg til að vera svona semí ósýnilegur í leikjum en poppar svo upp með afgreiðslur eins og þessa í kvöld. Í kvöld var hann samt alls ekkert ósýnilegur, heldur þvert á móti sívinnandi. Það var einna helst að Fab og Virgil ættu pínku erfitt, en samt fjarri því að eiga eitthvað slæman leik. Robbo með mjög dæmigerða frammistöðu fyrir þá útgáfuna af Andy Robertson sem er í stuði og veit af samkeppninni bankandi á dyrnar. Hann er núna hægt og bítandi búinn að vera að saxa á stoðsendingaforskotið sem Trent var búinn að búa til, og er núna með 4 í deildinni á meðan Trent er með 7 (Salah að sjálfsögðu efstur með 8).

  Umræðan eftir leik

  Byrjum á alvarlegu nótunum, en leikmenn léku með sorgarbönd til heiðurs 12 ára stúlku sem var stungin til bana í Liverpoolborg, og Trent var með þessi skilaboð á bolnum sínum:

  En svo að aðeins skemmtilegri hlutum: Liverpool hefur núna skorað 2+ mörk í 18 leikjum í öllum keppnum í röð, fyrst enskra liða. Salah er kominn með 30 mörk/stoðsendingar í öllum keppnum, og desember var rétt að byrja. Hvað segið þið um þennan samning FSG? Á ekkert að fara að skrifa undir? Þið vitið alveg að þetta er besti leikmaðurinn í boltanum í dag, sama hvað eitthvað franskt sorprit segir?

  Nú og svo verður að minnast á frammistöðu Travelling Kop sem bæði tók Rafa “chant”-ið og svissaði svo yfir í uppfærða útgáfu af “X is at the wheel” sem núna virðist vera orðinn söngur sem er hægt að syngja þegar knattspyrnustjóri andstæðinganna er klárlega í heitu sæti og ætti líklega að vera löngu farinn. Við viljum nú gjarnan að Rafa fái að búa hjá fjölskyldu sinni í Liverpool borg, fer ekki að losna staða hjá Tranmere fljótlega? Því hann hlýtur að fá að fjúka frá Everton fljótlega. Ekki það að núverandi staða Everton er alls ekki honum að kenna, þetta er bara klúbbur í vondum málum.

  Já og hei, við vitum ekki annað en að menn hafi sloppið ómeiddir frá þessum leik. Því ber alltaf að fagna.

  Næsti leikur

  Heimsókn til Úlfanna um næstu helgi, sýnd veiði en ekki gefin þar. Ekki tókst að saxa á City og Chelsea í kvöld, þar sem þau unnu bæði 2-1 sigra á útivelli, en markatalan er hægt og bítandi að batna okkar mönnum í hag, svo það er eitthvað. En eins og við vitum þá skiptir auðvitað engu máli hvaða lið er á toppnum um jólin, það er staðan í lok 38. umferðar sem skiptir öllu máli. Okkar menn þurfa bara að vera tilbúnir að grípa gæsina þegar hún gefst, því hún mun gefast. Við skulum ekki láta okkur detta neitt annað í hug!

  [...]
 • Liðið gegn Everton á Goodison

  Klukkutími í leik, og búið að tilkynna hvaða leikmenn gangi fram á vígvöllinn á Goodison Park á eftir:

  Alisson

  Trent – Matip – VVD – Robbo

  Hendo – Fab – Thiago

  Salah – Jota – Mané

  Bekkur: Kelleher, Konaté, Neco, Tsimikas, Ox, Milner, Morton, Origi, Minamino

  Rafa stillir upp sókndjörfu liði, sjáum hvernig það reynist þeim.

  Verkefnið er einfalt: ná í 3 stig, og gera það án þess að meiðslalistinn lengist.

  EDIT: annars er goggunarröð leikmanna alltaf svolítið áhugaverð, og þegar meiðslalistinn styttist þá glittir í endann á röðinni. T.d. fær Nat Phillips að víkja af varamannabekknum, en Tyler Morton er ennþá þarna. Það er þrátt fyrir að á bekknum séu a.m.k. tveir leikmenn sem geta komið inn á miðjuna (Ox, Milner), jafnvel 3 ef við segjum að Minamino geti spilað þar líka, en aðeins einn miðvörður. Ekki það að tæpast mun reyna mikið á þessa leikmenn sem eru neðst í goggunarröðinni, líklegustu menn til að koma inná á eftir eru líklega Milner, Ox, Minamino og Tsimikas, en líkurnar á því að aðrir komi inn á eru minni og kannski aðeins ef einhver meiðist (sem við vonum auðvitað að gerist ekki).

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Jólin koma með ferð á Goodison Park (Upphitun)

  Á meðan snjó kyngir niður í höfuðborginni hér á Íslandi undirbúa leikmenn Liverpool sig undir jólatörnina. Hún er alla jafnan brjáluð og árið 2021 er engin undantekning á því. Níu leikir á fjórum vikum, heimsókn til gamals þjálfara og besti leikmaður í sögu Liverpool kemur á Anfield, ferð til Ítalíu, 8 liða úrslit deildarbikarsins og annar leikur gegn lærisveinum annars fyrrum þjálfara, svo verður dregið bæði í bikarnum og Meistaradeildinni. Alvöru törn sem byrjar á einum erfiðasta leik sem Liverpool spilar á ári hverju, oftar en ekki í byrjun desember: Heimsókna til eldri, minni bróðursins í Everton.

  Hvað varstu að pæla Rafa?

  Frá því að Rafael Benitez steig upp í flugvél árið 2004 til að taka við Liverpool hefur hann tekið einstakan túr um fótboltaheiminn, þar sem markmiðið virðist hafa verið að vinna fyrir alla erfiðustu eigendur í fótboltanum. Liverpool undir stjórn Gillet og Hicks, Chelsea hjá Roman, Real Madrid með öllu þeirra drama, tveim ítölskum liðum og Newcastle United hjá Ashley. Hann skaust líka til Kína að hjálpa til við að hífa boltann þar upp en hætti þar vegna Covid.

  Eftir allt þetta flakk varð honum tvennt ljóst: Hann vildi búa í Bítlaborginni og að hann yrði að finna sér lið til að þjálfa. Á meðan stjórasæti Liverpool er líklega það tryggasta á Englandi hefði verið rökréttast fyrir hann að taka við Tranmere Rovers en stuðningsmönnum Liverpool (og Everton) til mikils hryllings þá var honum boðið stjórasætið á Goodison Park. Hann þáði það.

  Það er leit að liði sem hefur spilað jafn mikið undir getu (á pappír) síðustu áratugi og Everton. Í áratug voru þeir undir stjórn David Moyes, sem eftir á að hyggja skilaði liðinu á fínu pari. Síðan 2013 hafa níu menn staðið í brúnni hjá liðinu, allt frá Duncan Ferguson og upp í Carlo Ancelotti. Þeir hafa eytt ógrynni af peningum leikmenn, en þeir leikmenn hafa átt að passa inn í hvern leikstílinn á fætur öðrum. Niðurstaðan er hrærigrautur og lið sem hengur nú um miðja deild. Þeirra lang stærsta og í raun eina afrek síðustu tíu ár var á síðasta tímabili: Þeim tókst þá í fyrsta sinn síðan árið 2000 að ná í þrjú stig á Anfield. Af mörgum lágpunktum á síðasta tímabils þá var þessi sá lægsti.

  En hvert stefnir þetta lið undir stjórn Rafa? Það er erfitt að segja. Með fullri virðingu fyrir spánverjanum þá er hann ekki lengur einn af topp stjórunum í heiminum, þó hann sé frábær. Með tíð og tíma held ég að hann gæti byggt upp ógnvekjandi lið á Goodison Park, kannski ekki meistaradeildarlið en miðað við peningana sem er ausið í leikmannahópinn þá ættu þeir undir eðlilegum kringumstæðum í það minnsta að vera í Evrópudeildinni. Stærsta vandamál þeirra síðustu ár er þessi óstöðuleiki og ólíklegt að þeir nái nokkrum stöðuleika á meðan þeir skipta um stjóra árlega. Hvort sem það er óþolinmæði eigenda eða stuðningsmanna er ekki augljóst, en eitthvað er vandamálið.

  Þegar Everton héldu að þeir væru með bestu framlínu borgarinnar

  Eins og staðan er núna þá er erfitt að sjá Rafa fagna áramótum sem stjóri Everton. Gengi þeirra undanfarið hefur verið hreinasta hörmung. Það er auðvelt að gleyma að Everton byrjaði tímabilið af miklum krafti, unnu fjóra af fyrstu sex leikjum í deildinni. Málið er að síðan 25. september hafa þeir ekki unnið leik í deild né bikar og hafa litið hörmulega út. Það er fullkomnlega líklegt að þeir fari sigurlausir í gegnum jólamánuðinn og þá er spurningin hvenær þeir ákveða að taka í gikkinn og henda Rafa út. En ef þeir ná að stela þrem stigum á morgun myndi það líklega kaupa Rafa tíma fram á vor, þessi leikur skiptir okkur púllara miklu en hann skiptir blánefina öllu.

  Okkar menn

  Á ég að skrifa upphitun fyrir þennan leik í desember og ekki deila jólalaginu?

   

  Eða fyndnasta marki allra tíma?

  Allavega. Klopp var afar flottur á blaðamannafundi núna fyrir leikinn. Hann benti réttilega á að leikir þessara liða síðustu ár hafa farið úr því að vera harðir yfir í að vara fáranlegir. Síðustu ára hafa Van Dijk, Thiago, Origi meiðst illa í leikjum liðanna og gæti vel verið að ég sé að gleyma einhverjum.

  Það breytir ekki að þetta er leikur sem þarf að vinnast. Þrjú efstu liðin í deildinni eru að slíta sig frá restinni hægt og bítandi og er ansi líklegt að frammistaða þeirra í desember muni ráða miklu í kapphlaupinu um titilinn. Það er líklegra að Klopp reyni að rótera á móti Úlfunum um helgina en í þessum, fyrir utan að eftir að hafa klárað síðustu leiki nokkuð örruglega ætti hópurinn að vera nokkuð hress.

  Eins og stendur er meiðslalisti Liverpool þannig séð stuttur, „bara“ Firmino, Keita, Gomez, Elliot og Jones úti. Það er samt nokkuð stór hópur sem er nýstiginn upp úr meiðslum. Ég ætla að giska á að við fáum okkar sterkustu varnarlínu, það er að segja Trent, Van Dijk, Matip og Robbo fyrir framan Alisson. Það má færa mjög rök fyrir að Fabinho sé fyrsti maður á blað í stórum leikjum og ég er því hjartanlega sammála. En hverjir verða með honum á miðjunni? Eins og stendur er sterkasta miðjan okkar Fab, Thiago og Henderson og þeir munu hefja þennan leik ef mér skjátlast ekki.

  Það var bent á í Gullkastinu í gær að Klopp hefur ansi oft hringlað með framlínuna í þessum leik. Það er vissulega pínu freistandi að setja Origi í byrjunarliðið, enda er hann markahæstur af núverandi leikmönnum liðsins í nágrannaslagnum, en ég ætla frekar að tippa á að hann komi snemma inn á í seinni hálfleik ef vel gengur. Þannig að höldum okkur við það sem virkar: Jota, Salah, Mané.

  Spá.

  Sama hvað öllum grannaslagsklisjum líður, þá getur þetta Everton lið ekki blautan og þetta Liverpool lið er stórfenglegt. Okkar menn hafa ekkert talað um það í fjölmiðlum en þeir hljóta að vera með leikina á síðasta tímabili bakvið eyrað. Þetta fer 4-0 fyrir Liverpool, Mané og Jota skora sitthvort, Van Dijk nær sér í eitt eftir horn, Salah lokar svo leikum í seinni hálfleik.

   

  Spurt er að lokum: Hvað sem tengist Everton eiga þessir tveir sameiginlegt?

   

   

  — Viðbót —

  Þær sorgarfréttir voru að berast að miðjumaðurinn Ray Kennedy lést fyrr í dag af völdum Parkinsons sjúkdóms. Hann spilaði 251 leik með Liverpool og skoraði 51 mark, auk 17 leikja fyrir landslið Englands og um 150 með Arsenal. Hann vann allt sem hægt var að vinna með Liverpool og Bob Paisley kallaði hann eitt sinn vanmetnasta leikmann í heimi. Hann vann líka tvennuna meða Arsenal og var síðustu kaup Bill Shankly til liðsins.

   

  Við bjóðum þeim sem voru svo heppnir að sjá hann spila að deila minningum sínum af þessum frábæra leikmanni og Liverpool goðsögn.

   

  Hvíl í friði meistari. You’ll Never Walk Alone.

  -Kop teymið

  [...]
 • Gullkastið – Nágrannaslagurinn

  Everton er verkefni vikunnar á Goodison Park og verður vonandi ekki jafn herfilega heimskulega dæmdur og fáránlega grófur og þessi leikur liðanna var á síðustu leiktíð. Sú fjandans viðureign er geymd en ekki gleymd. Úlfarnir bíða svo um helgina einnig á útivelli. Síðustu viku vann Liverpool samanlagt 10-0 og var það nokkuð vel sloppið frá sjónarhóli andstæðinga vikunnar. Annarsstaðar tapaði Chelsea loksins stigum og United réði bara nokkuð gáfulegan nýjan stjóra.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 358

  [...]
 • Liverpool – Southampton 4-0

  1-0 Jota, 2. min
  2-0 Jota, 31. min.
  3-0 Thiago, 36. min.
  4-0 Van Dijk, 52. min

  Það að segja að þessi leikur hafi byrjað fjörlega er líklega understatement. Það voru innan við 15 sec búnar þegar gestirnir fengu fyrstu hornspyrnu leiksins og innan við tvær mínútur búnar þegar knötturinn var kominn í netið hinumegin! Robertson lék þá knettinum á Mané og hélt hlaupinu áfram inn á vítateig, Mané sendi boltann frábærlega á milli fóta Bednarek á Robertson sem sendi hann út í vítateig á Jota sem skoraði örugglega, 1-0!

  Mínútu síðar s.a. þá átti Thiago slaka sendingu til baka undir pressu en Alisson kom á móti og bjargaði frábærlega!

  (more…)

  [...]
 • Liðið gegn Southampton

  Liverpool gerir sex breytingar á liðinu í dag frá því gegn Porto, eins og við var að búast. Inn koma Henderson, TAA, VVD, Robertson, Fabinho og Jota – ágætis hópur það! 

  Ég er ekki frá því að þetta sé okkar sterkasta miðja, Fabinho, Henderson og Thiago. Man ekki eftir því í fljótu bragði hvort og þá hvenær þeir hafa spilað saman áður en þetta lið er sterkt, virkilega sterkt – krafa um þrjú stig í dag!

   

  YNWA

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close