Latest stories

 • Byrjunarliðið gegn Watford

  Þá er komið að næsta verkefni. Eftir algjörlega frábæra viku þar sem við tryggðum okkur efsta sæti riðilsins í CL og þar með sæti í 16 liða úrslitum, svo gott sem (staðfest) við komu Minamino, framlengingu Milners til 2022 og síðast en alls ekki síst framlengingu á samningi Klopp út leiktíðina 2023/2024 þá væri helvíti gott að enda vikuna með þremur stigum gegn Watford og auka forskot okkar á Leicester í 11 stig og Man City í 17 stig (a.m.k tímabundið) áður en liðið tekur sér tæpar tvær vikur í pásu frá EPL.

  Klopp stillir þessu svona upp í dag:

  Þrjár breytingar, Gomez kemur inn í stað Lovren, Shaqiri kemur inn á miðjuna og Milner í vinstri bak á meðan á Robertson fær hvíld. Þrjú stig í dag takk, koma svo!

  YNWA

   

  [...]
 • Upphitun: Liverpool vs. Watford á Anfield

  Það verða tveir andstæðir pólar í úrvalsdeildinni sem mætast á Anfield í hádegisfréttatíma Gufunnar á laugardaginn þegar að toppliðið mætir botnliðinu. Liverpool eru reyndar það norðarlega í deildinni að við sitjum í setustofunni hjá jólasveininum á Norðurpólnum en Watford liggja það sunnarlega að þeir kúra í kuldanum með mörgæsum.

  En engir leikir eru unnir fyrirfram á pappírnum og því þarf að gera uppkast að uppbyggilegri og upplýsandi upphitun án uppgerðar og uppistands. Upp, upp mín sál & up, up the REDS!

  Mótherjinn

  Watford hefur verið rjúkandi rúst frá byrjun tímabilsins og fyrir lið sem komst alla leið í úrslitaleik FA Cup síðasta vor og endaði í 11.sæti í deildinni þá er fallið sorglega hátt. Tónninn fyrir hrunið var hugsanlega gefinn með 6-0 niðurlægingunni í bikarúrslitunum en mikið rótleysi hefur einkennt stjórastöðuna og hafa hinir gulsvörtu frá Hertford-skýri nú þegar rekið tvo slíka á tímabilinu.

  Javi Gracia þurfti að taka poka sinn í september og í byrjun desember tók Quique Sanchez Flores hatt sinn og staf. Eftir margar Miðjarðarhafs-mannaráðningar í röð þá hafa Watfordingar vent kvæði sínu í kross Sankti Georgs og ráðið Englendinginn Nigel Pearson. Sú ráðning kom á óvart enda Pearson eingöngu einu sinni stýrt liði í úrvalsdeildinni en það var Leicester City og var hann rekinn þaðan í kjölfar skandals árið 2015. Við starfi hans hjá Leicester tók Claudio Ranieri og restin af því ævintýri er sagnfræði.

  Hversu mikil áhrif stjóraskiptin mun hafa er alls óljóst enda verður leikurinn á Anfield sá fyrsti undir stjórn Pearson en leikmenn Watford sýndu takmarkað lífsmark við síðustu skipti og vonum við að það gildi hér líka. Í það minnsta hefur Nigel ekki tekist að stýra liði til sigurs gegn LFC í þeim þremur tækifærum sem hann hefur fengið til þess með tvö töp og eitt jafntefli í þeirri tölfræði.

  Ekki er ólíklegt að nálgun gestanna verði “breskari” með meiri áherslu á mikla baráttu og beinskeytt boltaspil en Liverpool hafa sýnt það að þeir geta unnið alla leikstíla þannig að háir boltar og harðar tæklingar eru ekki að fara að hræða okkur.

  Fyrsta uppstilling Pearson gæti verið eitthvað á neðangreinda leið en Holebas, Welbeck, Cleverley og Prödl eru meiddir með Dawson og Janmaat tæpa.

  Líklegt byrjunarlið Watford í leikskipulaginu 4-2-3-1

  Liverpool

  Rauði herinn á svo lygilega mikilli velgengni að fagna þessi misserin að það er orðinn mikill partýleikur á Twitter og víðar að bridda upp á alls konar tölfræði sem staðfestir yfirburði okkar yndislega liðs. Einfaldasta upptalningin í þeirri stemmningu er að við höfum ekki tapað deildarleik í 33 leiki í röð og höfum ekki tapað deildarleik á Anfield síðan í apríl 2017. En í raun skiptir engu hvort við mælum eða metum þetta Liverpool-lið með tölfræði eða augunum að þá er þetta magnaður mannskapur sem er að ná einstökum árangri og vinnur vonandi sem mest af titlum og bikurum á sínum háfleyga hápunkti.

  Eftir flottan sigur í Meistaradeildinni sem tryggði efsta sæti riðilsins þá er aftur komið að aðventuróteringu líkt og verið hefur í síðustu leikjum mánaðarins. Ég spái því að Jordan Henderson verði hvíldur eftir að hafa spilað 90 mínútur í 4 af síðustu 5 leikjum og eigum við ekki að giska á að Lallana komi inn í staðinn fyrir samlanda sinn. Þá þætti mér ekki ólíklegt að Shaqiri og Origi myndu hefja leik líkt og í grannaslagnum gegn Everton og vonandi með sama stórfína árangri.

  Klopp er líklegur til að stilla sinni rauðu herdeild upp á eftirfarandi hátt:

  Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

  Blaðamannafundir

  Klopp mætti ferskur á blaðamannafund dagsins og fyrsta spurning snéri að sjálfsögðu að stórfrétt dagsins um undirritun á framlengingu samnings hans við Liverpool.

  Nigel Pearson hafði þetta að segja á blaðamannafundinum fyrir sinn fyrsta leik:

  Spakra manna spádómur

  Ef panta ætti þægilegan leik eftir mikilvægan meistaradeildarleik þá væri það að fá botnliðið á heimavelli. Markatalan í síðustu þremur viðureignum liðanna á Anfield er 16-1 heimamönnum í hag þannig að sú tölfræði er uppörvandi. Ekkert er þó unnið fyrirfram frekar en fyrri daginn en ég treysti okkar mönnum fullkomlega til að halda einbeitingunni þrátt fyrir augljósan getumun á pappírnum.

  Mín spaksmannlega spá er því 4-0 heimasigur með tveimur mörkum frá Origi ásamt sitt hvoru markinu hjá Shaqiri og Oxlade-Chamberlain.

  YNWA

  Leikurinn hefst klukkan 12:30 á morgun og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

  [...]
 • KLOPP FRAMLENGIR!!!!!!

  Fullkomnar risafréttir!

  Okkar maður!!!!

  Mentor okkar allra, snillingurinn Jurgen Norbert Klopp hefur framlengt samning sinn við Liverpool FC út leiktímabilið 2023 – 2024. Ég ætla að viðurkenna það að þetta finnast mér bestu fréttir þessa árs satt að segja. Við sjáum öll hvað maðurinn hefur gert og hvílíka áru hann hefur.

  Hans tryggustu aðstoðarmenn, Peter Krawietz og Pepijn Linders hafa einnig framlengt til sama tíma.

  Það að vera viss um að hafa hann í brúnni næstu 54 mánuðina vekur mér kjánalega gleði – jólin svo sannarlega snemma í ár!!!

  COME ON YOU REDSSSSSSS!

  [...]
 • Gullkastið – Gini-Mini-Mane-Mo

  Liverpool vann ofvirkasta lið Evrópu sæmilega sannfærandi og virðast hafa tekið þeirra besta mann með sér heim eftir leik, Takumi Minamino sem var fullkomlega allsstaðar í leiknum enda búinn að drekka 17 Red Bull fyrir leik. Skoðum hvaða lið koma til greina sem mótherjar í 16.liða úrslitum og hvað við viljum. Botnliðið svo um helgina.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur:SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 267

  Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  [...]
 • Minamino til Liverpool í janúar (?)

  Í dag hafa helstu blaðamenn í Liverpool keppst um að tilkynna að japanski landsliðsmaðurinn Takumi Minamino sé á leið á Melwood núna í janúar. Ef nafnið er kunnulegt þá var hann að spila við Liverpool í fyrradag í búningi RB Salzburg.

  Minamino kom til Salzburg árið 2015, þá tvítugur, og hefur spilað 192 leiki fyrir félagið. Hann hefur í þeim skorað 63 mörk. Hjá Salzburg hefur hann verið með mark eða stoðsendingu á 119 mínútna fresti. Til samanburðar var Mané með mark eða stoðsendingu á 94 mínútna fresti hjá Salzburg. Japaninn er gífurlegur vinnuhestur, hleypur að meðaltalið 11,8 kílómetra í leik!

  Ekki er búið að staðfesta kaupin en Melissa Reddy, Paul Joyce og James Pearce hafa öll flutt fréttir af þessu og að verðið sé rétt rúmar 7 milljónir punda. Til samanburðar seldu Liverpool Kevin Stewart á átta milljónir. Við vonum að við séum ekki að fagna of snemma, en þetta gætu verið geggjuð kaup ef af verður! Hvernig lýst ykkur á ?

  [...]
 • Liverpool 2 – Salzburg 0! (Uppfært)

  Gangur leiksins

  Það var ljóst frá fyrstu mínútu að þessi leikur yrði veisla fyrir hlutlausa. RB Salzburg lögðu upp með að spila hápressu á rosalegu tempói og Liverpool svöruðu í sömu mynt. Heimamenn voru samt að spila á aðeins hærra orkustigi og Liverpool menn virtust tilbúnari að liggja til baka þegar þeir voru án bolta. Eftir innan við fimm mínútur voru báðir markmenn búnir að eiga fínar vörslur og maður trúði ekki að leikurinn gæti verið svona hraður lengi. Liðin spiluðu enga síður í þessum fimmta gír fram á 25 mínútu, þegar tempóið datt niður í svona 5 mínútur og svo var gefið í aftur út hálfleikinn. Salzburg voru með fimm(!) skot á markið á fyrstu 25 mínútunum!

  Salah var einstaklega pirrandi í þessum hálfleik. Hlaupin hans voru geggjuð, spilið frábært og hann kom sér tvisvar í hreinræktuð dauðafæri og klúðraði þeim ótrúlega. Hann var engan vegin einn um að brenna af dauðafærum í þessum hálfleik, Firmino, Mané og Keita áttu allir (misgóða) sénsa á að koma Liverpool yfir. Hinum megin máttu púllarar vera þakklátir fyrir vörslur Alisson.

  Rétt áður en blásið var til hálfleiks gaf Salah boltann inn fyrir á Keita sem reyndi að vippa boltanum yfir Stankovic en markmaðurinn varði frábærlega. Einhvern veginn var staðan 0-0 þegar liðin gengu inn í búningsklefa og ég óttaðist að þessi varsla gæti verið vendipunktur leiksins.

  Þegar flautað var til seinni hálfleiks héldu liðin áfram þar sem frá var horfið. Alisson þurfti að koma hlaupandi út úr teignum eftir sextán sekúndur til að drepa á sókn Salzburgar. Tveim mínútum seinna reyndi Salah að vippa yfir markmanninn á stuttu færi en skotið fram hjá og nokkrum mínútum seinna reyndi hann að sóla Stankovic en tókst ekki að skora.

  Á 53. Mínútu fór Dejan Lovren því miður að fara meiddur af velli og Joe Gomez kom inn í staðinn. Verður að hrósa þeim síðarnefnda hástert fyrir innkomu sína, að koma inn í þennan leik getur ekki hafa verið auðvelt svo ekki sé meira sagt.

  Sóknir Liverpool hófu nú að skella á vörn Salzburg eins og öldur. Þegar markið kom var það eins klassískt Liverpool mark og þau gerast. Það byrjaði á langri sendingu frá Trent yfir á Robbo, sem sendi boltann strax á Sadio Mané. Senegalinn og fyrrum Salzburg leikmaðurinn hljóp fram hjá varnarmanni og skapaði sér með því pláss til að gefa fyrirgjöf á Naby Keita, sem skallaði boltann inn af tíu eða svo metra færi!

  Flestir stuðningsmenn voru ennþá að fagna og gefa hvor öðrum fimmur þegar annað markið kom upp úr nákvæmlega engu. Alisson sparkaði boltanum hátt og langt og varnarmaður Salzburgar ætlaði að skalla knöttinn til síns markmannar en misreiknaði sig herfilega. Salah náði í knöttinn á undan leikmönnum Salzburgar. Hann var kannski tveim metrum frá endalínunni fyrir utan teiglínuna, með markmann á hlaupum í átt að sér og engan samherja nálægt. Þannig að kóngurinn skaut bara með verri fætinum, eins og ekkert væri sjálfsagðara, og boltinn lak inn! Eftir fjögur dauðfæri skoraði kappinn færi sem er varla hægt að kalla færi! 2-0!

  Salah þú fallegi maður, þú átt engan rétt á að skora þarna með verri fætinum.

  Eftir þessi mörk fór vindurinn úr seglum Salzburg. Þeir héldu áfram að reyna en það sást að trúin á verkefninu var farin. Milner kom inná þegar korter var eftir og eftir það var stjórn Liverpool á leiknum því til næst algjör. Undir lokin komu fleiri færi, en ekki urðu mörkin fleiri.

  Maður leiksins.

  Það er alltaf gott merki þegar maður þarf að klóra sér í hausnum við þetta val. Mané var geggjaður, Keita frábær. Hendo er engin Fabinho en samt leysti hann stöðu varnartengiliðar mjög vel. Van Dijk tók hina ungu og efnilegu sóknarmenn Salzburg í kennslustund. Alisson Becker varði fjölda skota og dómineraði teiginn. Eftir mikið höfuðklór fær Sadio Mané þennan titil.

  Umræðupunktar eftir leik.

  • Liverpool er komið í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar, þriðja árið í röð! Vert að minna á að Jurgen Klopp hefur aldrei tapað tveggja leikja rimmu í Evrópu sem þjálfari Liverpool!
  • Það lang versta sem gerðist í leiknum voru meiðsli Lovren. Af fjórum hafsentum liðsins eru tveir meiddir og nú fær Gomez aftur tækifæri til að festa sig aftur í sessi í byrjunarliðinu við hlið Van Dijk.
  • Það er ofboðslega gott að halda hreinu í fótboltaleik, ég legg til að Liverpool geri það sem oftast.
  • Þessi leikur sýndi af hverju Salah á að hanga inn á þó hann sé ekki að eiga frábæran leik. Eftir fjögur klúður náði að hann að töfra fram ótrúlegt mark.
  • Firmino hefur átt betri daga, kannski skiljanlega þar sem hann var í gjörgæslu hjá tveimur Salzburg leikmönnum allan leikinn.
  • Ó Mané, Mané. Þvílíkur leikur hjá honum. Sama má segja um Naby Keita, fyrir utan að Keita virtist ekki alveg vera í takt við leikinn til að byrja með en þegar hann náði sér í rétta gírinn var hann skrýmsli. Hann hefur verið ótrúlega óheppinn með meiðsli síðan hann kom til Liverpool, vonandi er hann loksins að fara að sýna okkur hvers vegna Klopp var svona ákafur í að fá hann. En þessi vika var einfaldlega geggjuð hjá honum.
  • Á einum tímapunkti í leiknum kom upp skjáinn tölfræði. Þar stóð að Salzburg væri búið að hlaupa meira en Liverpool, sem mér fannst óvenjulegt. Reyndar ekki búin að athuga þetta nýlega en það er ekki langt síðan aðalsmerki Liverpool var að hlaupa alltaf meira en hinir. Segir kannski eitthvað um hversu sprækt þessir andstæðingar voru.
  • Það kæmi mér ekkert á óvart þó að við fáum að kynnast einhverjum leikmönnum Salzburg betur í framtíðinni. Liðið er stórskemmtilegt og gerir margt svipað og Liverpool, held að Klopp muni reyna að lokka einhverja leikmenn þeirra á Anfield í framtíðinni.

  Næst á dagskrá er svo Watford um helgina og svo ferð í eyðimörkina til að ná í eina bikarinn sem Liverpool hefur aldrei unnið! Þvílíkur lúxus að halda með þessu liði, njótum hverjar mínútu!

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Salzborgurum klárt

  Nú þegar aftakaveður skellur á landinu og rauðar viðvaranir komnar í gildi, er gott að hlamma sér á sófa með kaffi og popp og fylgjast með okkar rauðu hetjum etja kappi við Red Bull Salzburg. Menn sem hafa verið vel hvíldir í síðustu leikjum koma aftur inn í byrjunarliðið og má ætla að þetta sé sterkasta byrjunarlið Liverpool.

  Ég er ekki viss hver af miðjumönnunum verður settur í “Fabinho-stöðuna.” Strákarnir voru á því í hlaðvarpi gærdagsins að það yrði Keita ef hann spilaði. Mér finnst líklegra að það verði Hendo en við komumst að því eftir klukkutíma eða svo.

  Til að verja vígið í Austurríki tefla heimamenn fram þessu liði:

  Image

  Það er ekkert leyndarmál að þetta er stærsti leikur í sögu Salzburg, með sigri ná þeir í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn. Ég spái samt Liverpool að sjálfsögðu 3-2 sigri! Nú er bara  að binda niður allt sem gæti fokið, loka öllum gluggum og passa að það sé heitt á könnunni og/eða kaldur í ísskápnum!

  YNWA!

  [...]
 • Gullkastið – Vendipunktur?

  Þessi vika var mögulega vendipunktur á tímabilinu, Liverpool skipti upp einn gír og náði í sex stig á meðan Man City missteig sig aftur. Nóvemberuppgjör og næsta vika.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur:SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 266

  Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  [...]
 • Úrslitaleikur við Red Bull Salzburg

  Red Bull hefur undanfarin ár verið gríðarlega áberandi í íþróttaheiminum og hafa verið að færa sig frá því að vera styrktaraðilar í mismunandi íþróttagreinum í það að eiga félögin sjálfir og byggja upp samkvæmt eigin ímynd og hugmyndafræði. Oft með ævintýralegum árangri á skömmum tíma og skapa jafnan ung, hröð og spennandi lið sem höfða einmitt helst til markhóps móðurfélagsins.

  Red Bull Salzburg er partur af þessari starfsemi orkudrykkjaframleiðandans en samtals tilheyra um fimmtán íþróttafélög í mismunandi íþróttum Red Bull samsteypunni. Þar af fjögur knattspyrnufélög í þremur heimsálfum.

  Markaðslega er vel hægt að skilja ávinning þess að koma á fót öflugu liði í New York enda ört vaxandi íþrótt í Ameríku (því miður). Eins er alveg hægt að sjá tækifærið í þýska boltanum og þá sérstaklega í hinni fornfrægu stórborg í austrinu, Leipzig. Salzburg og Austurríska deildin passar ekki alveg inn í jöfnuna fyrr en maður áttar sig á að Red Bull var stofnað árið 1987 í Austurríki af Dietrich Mateschitz og tælenskum félaga hans. Salzburg var fyrsta knattspyrnufélagið sem Red Bull keypti og umturnaði árið 2005.

  Innkoma Red Bull inn í þýska boltann fékk töluverða athygli alþjóðlega þegar Leipzig mætti með látum í Bundesliga enda augljóst að til að koma liðinu svona hratt í gegnum allar fimm deildir þýska boltans var búið að beygja vel allar reglur varðandi eignarhald þýskra liða. Leipzig var og er enn gríðarlega óvinsælt lið í Þýskalandi.

  Innkoma Red Bull nokkrum árum áður í Austurríska boltan var þó enn meira brutal og ekki síður óvinsæl. Red Bull keypti réttindi Austria Salzburg sem er fornfrægt félag í Austurríki og tilkynntu í kjölfarið að þeir væru að stofna nýtt félag frá grunni sem ætti sér enga sögu. Búningunum og logo var breytt, þjálfarateymi og starfslið sömuleiðis. Stuðningsmenn þessa 72 ára gamla félags voru síður sem svo tilbúnir að sætta sig við þessa innkomu risafyrirtækis og mótmæltu harðlega í fimm mánuði áður en þeir gáfust upp á Red Bull og stofnuðu sitt eigið félag og hófu leik í neðstu deild. Austurríska knattspyrnusambandið tók fyrir það að afmá sögu félagsins og var henni gerð skil á heimasíðu félagsins seinna. Satt að segja sturluð ákvarðanataka hjá Red Bull sem líklega tekur 1-2 kynslóðir að gróa því ekki bara er Red Bull hatað heilt yfir Austurríki heldur komu þeir helmingi stuðningsmannahópsins upp á móti sér einnig.

  (more…)

  [...]
 • Liverpool – West Ham á Prenton Park

  Næsti leikur hjá stelpunum okkar er gegn West Ham, leikurinn hefst kl. 14:00 og fer fram á Prenton Park. West Ham eru sem stendur í 8. sæti deildarinnar með 9 stig, en við skulum ekkert vera að rifja upp stöðuna hjá stelpunum okkar, nóg að segja að sú staða speglar stöðu karlaliðsins, bara úr vitlausri átt.

  Liðið hefur þó sýnt batamerki í undanförnum tveim leikjum gegn toppliðunum, en við bíðum enn eftir fyrsta markinu úr opnu spili.

  Vicky Jepson ætlar að veðja á að þessi uppstilling geri gæfumuninn:

  Kitching

  Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

  Bailey – Roberts

  Lawley – Linnett – Charles
  Hodson

  Bekkur: Preuss, Murray, Rodgers, Sweetman-Kirk, Babajide, Kearns

  Semsagt, Kitching er í marki en Preuss á bekknum. Það er áfram verið að spila 4-2-3-1, og í þetta skiptið á að prófa hvort Ashley Hodson virki betur en Sweetman-Kirk, mögulega er verið að horfa á að CSK komi inn af bekknum í síðari hálfleik og skapi frekar usla þannig. Jesse Clarke og Jemma Purfield eru enn að jafna sig af hnémeiðslum.

  Leikurinn verður sýndur á The FA Player sem endranær, og við uppfærum færsluna með úrslitum síðar í dag.


  Leik lokið með jafntefli, 1-1. Það voru West Ham konur sem komust yfir með marki snemma leiks, en á 77. mínútu náðu okkar konur að jafna metin, þegar fyrirgjöf frá Melissu Lawley endaði í netinu, það er ekki alveg ljóst hvort um var að ræða sjálfsmark hjá Kate Longhurst eða hvort það var Niamh Charles sem átti lokasnertinguna.

  Liðið hafði fengið gullið tækifæri til að jafna nokkru fyrr í seinni hálfleik þegar dæmd var vítaspyrna, en Lawley setti boltann framhjá. Courtney Sweetman-Kirk kom inná á 85. mínútu og fékk sömuleiðis dauðafæri til að skora sigurmarkið með síðustu snertingu leiksins, en skalli hennar eftir aukaspyrnu var varinn af markmanni West Ham.

  Semsagt, liðið náði loksins að skora úr opnum leik, og núna vantaði raunverulega bara herslumuninn til að landa sigri.

  Næsti leikur liðsins verður eftir viku þegar liðið fær Chelsea, efsta lið deildarinnar í heimsókn, og svo lýkur fyrri umferð þessa tímabils með leik gegn Bristol í byrjun janúar.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close