Segja má að seinni hluti tímabilsins hafi byrjað í síðasta leik þegar okkar menn léku sinn 20. leik á tímabilinu. Frestunin gegn Everton gerir það að verkum að liðið á enn eftir að spila við hina bláklæddu nágranna sína, en er í staðinn núna búið að spila tvisvar gegn United og Forest.
Undirritaður vill fullyrða að ef okkur hefði verið boðið að vera í þessari stöðu í upphafi leiktíðar – að vera á toppnum á þessum tímapunkti með 4 stig á næsta lið og leik til góða – að þá hefðum við hrifsað það fengins hendi. En liðið er búið að gera fjögur jafntefli síðan í byrjun desember, og þess vegna væri auðvelt að líta svo á að þar séu 8 töpuð stig og liðið sé því búið að glutra niður fræðilegu 12 stiga forskoti niður í 4 stiga forskot.
Málið er samt sem áður að þannig virkar það auðvitað ekki. Þetta er ekki tímabilið 2019-2020, þegar okkar menn kafsigldu yfir deildina og töpuðu bara tveim stigum fram í febrúar. Núna er deildin jafnari, liðin eru meira í því að hirða stig hvert af öðru, og það þarf einfaldlega að mæta til leiks á fullu gasi í hvern einasta leik. Það þarf að reikna með að liðið tapi stigum, bara svo lengi sem hin liðin tapa fleiri stigum. Ef það verður reyndin í lok tímabils þá verðum við sátt og rúmlega það.
Og berst þá talið að næsta leik, þegar okkar menn skreppa suðureftir til Lundúna að heimsækja býflugurnar í Brentford, á þrælerfiðan heimavöll. Þeir voru komnir vel inn í desember þegar þeir töpuðu sínum fyrsta heimaleik, og í dag eru það bara 3 lið sem hafa haft betur gegn þeim á þeirra heimavelli: Forest, Arsenal…. og Real MadridPlymouth Argyle. Þetta er nú ekki hópur sem er svo glatt að komast inn í, en látum samt á það reyna.
Fyrri leik liðanna á Anfield í haust lauk með 2-0 sigri okkar manna, og úrslitin í síðustu innbyrðis leikjum þessara liða hafa nú almennt endað með sigri okkar manna, en þó unnu Brentford t.d. leiðinlegan 3-1 sigur í janúar 2023 – einmitt á sínum heimavelli – og svo gerðu liðin 3-3 jafntefli í september 2021.
Andstæðingarnir
Þetta er jú dönskuskotið lið eins og komið hefur fram, með baunann Thomas Frank á hliðarlínunni í 66° norður jakkanum sínum, og með Nørgaard, Jensen, Roerslev og Damsgaard alla siglandi undir dönskum fána. Nú svo er okkar maður Hákon Rafn á bekknum svona að mestu og er búinn að vera þar síðan í janúar á síðasta ári. Að lokum þá eru þeir Sepp van den Berg og Fabio Carvalho jú þarna síðan í haust þegar þeir afklæddust rauðu Liverpool treyjunum sínum og urðu röndóttir. Carvalho lítið fengið af sénsum á síðustu vikum, en Sepp öllu meira.
Þetta er eitt af þessum liðum sem hefur verið að spila bara ansi vel í vetur og náð ágætum úrslitum, sitja í 11. sæti í töflunni (fyrir ofan United) með 28 stig. Eiga kannski tæplega séns á að komast í neina Evrópukeppni, en eru að sama skapi vel fjarri allri fallbaráttu. Það þyrfti a.m.k. eitthvað mikið að breytast til að þeir myndu nálgast annað hvort þessara svæða. En eins og áður sagði hafa þeir náð fínum úrslitum á heimavelli, gerðu m.a. jafntefli þar við City í síðasta leik, og höfðu unnið Newcastle, Bournemouth og Palace heima svo nokkur dæmi séu tekin (auk fleiri leikja gegn ögn minni spámönnum). Meiðslalistinn þeirra er nú talsvert lengri en hjá okkar mönnum, en kannski ekki mikið af burðarásum fjarverandi. Þ.e. við skulum reikna með leikmönnum eins og Mbeuno, Damsgaard og Wissa á sínum stað.
Okkar menn
Byrjum á meiðslalistanum: ótrúlegt en satt þá er Joe Gomez sá eini sem er ekki leikfær, og það er enn talsvert í hann. Miðað við hvernig Slot talar, þá hljómar eins og við sjáum hann ekki fyrr en kannski í lok febrúar eða byrjun mars í fyrsta lagi. En Nunez sem var í banni í síðasta leik er aftur tilbúinn í slaginn, og það þýðir að einhver kemst ekki á bekkinn sem var þar í síðasta leik. Þá leit bekkurinn svona út: Kelleher, Tsimikas, Quansah, Bradley, Jones, Endo, Elliott, Jota og Chiesa. Það má nú frekar búast við að Nunez verði a.m.k. á bekk ef hann byrjar ekki hreinlega, og þá þarf bara að henda einhverjum af þessum leikmönnum út. Líklegast að það verði Chiesa, nokkuð ljóst að hann er tæpastur af þessum þegar kemur að spilaformi.
Svo er það spurningin hvað Slot gerir varðandi byrjunarliðið. Fyrstu 11 fengu lang flestir pásu um síðustu helgi, spiluðu jú á þriðjudaginn gegn Forest, og líklegast að hann stilli bara upp svipuðu liði og þá. Gerum samt ráð fyrir að það verði einhverjar breytingar, það kæmi t.d. ekki á óvart þó Jota byrji frammi, hugsanlega Kostas í vinstri bak, og eins mætti e.t.v. henda Curtis í byrjunarliðið. Ekki það að líklega er Grav – Macca – Szobo okkar sterkasta miðja, svo það væri ekkert út úr kortinu þó sú miðja byrji. En gerum ráð fyrir að Slot vilji rótera ögn. Samt ekki of mikið, liðið á vissulega leik á þriðjudaginn næst, en það er heima gegn Lille í CL. Það verða alveg tækifæri til að spila einhverri blöndu af A og B liðinu þar.
Semsagt, spáum þessu svona:
Alisson
Trent – Konate – Virgil – Tsimikas
Macca – Gravenberch – Jones
Salah – Jota – Gakpo
Það þyrfti samt ekki að koma neinum á óvart að sjá Robbo, Bradley, Szoboszlai, Díaz eða jafnvel Nunez byrja þennan leik. Í raun yrði maður ekkert hissa að sjá Úrúgvæjann okkar byrja, enda Brentford með líkamlega sterkt lið.
Hér er ég að gera ráð fyrir að Alisson haldi sinni stöðu í markinu. Það hefur þó verið umræða um þá tölfræði að eftir að hann kom til baka úr meiðslum þá hefur hann fengið á sig 15 skot, og af þeim hafa 9 endað í netinu. Þetta er bara alls ekkert sérstök tölfræði, sérstaklega ekki hjá markmanni af þeim kaliber sem Alisson er. Einhverjir vilja meina að hann sé ekki að treysta líkamanum jafn mikið og áður, og sé þar af leiðandi ekki að teygja sig aaaaalveg jafn langt og hann myndi kannski annars gera. Ég skal ekkert segja um þetta, nema það að lágmarka mörk fengin á sig er samvinnuverkefni alls liðsins, og ekki hægt að benda bara á markvörðinn í því samhengi. Alveg ljóst að Slot vill t.d. örugglega leggja af þennan ljóta ósið að liðið lendi undir í leikjum.
Þrátt fyrir að Brentford séu sýnd veiði en ekki gefin, þá eru okkar menn fullfærir um að skila 3 stigum í hús. Sendum nú extra góða orku til þeirra fyrir leik og hvetjum þá til sigurs – 1-3 verða úrslitin þar sem Salah, Gakpo og Macca setja mörkin.
KOMA SVO!!!!!