Latest stories

 • Upphitun: Crystal Palace mætir á Anfield

  Eftir góðan sigur í Meistaradeildinni mætum við á morgun Crystal Palace undir stjórn Patrick Viera. Palace hefur síðan þeir komu upp verið undir stjórn ýmissa óspennandi breskra þjálfara, fyrir utan fimm leiki þar sem Frank De Boer fékk að spreyta sig. Það er því spennandi að sjá þá fara í aðra átt í ár þegar þeir sóttu Viera. Á sama tíma var stór hluti liðsins samningslaus og er því Viera að sjá um ákveðna endurnýjun í liði Palace manna.

  Þeir misstu menn sem hafa verið stórir póstar í liðinu á borð við van Aanholt, Townsend, Cahill og Dann ásamt fyrrum Liverpool manninum Sahko en sóttu í staðinn nokkra spennandi menn eins og Marc Guechi, ungan varnarmann frá Chelsea, Joachim Andersen, sem átti gott tímabil á láni hjá Fulham í fyrra, og Odsonne Edouard, frá Celtic sem kynnti sig vel um síðustu helgi þegar hann kom inn á sem varamaður og setti tvö mörk á sex mínútum. Auk þeirra fengu þeir á láni Conor Gallagher sem er með 2 mörk og 2 stoðsendingar í fyrstu þremur leikjum sínum hjá Palace.

  Palace hefur byrjað ágætlega undir stjórn Viera töpuðu fyrsta leik fyrir Chelsea en hafa síðan þá náð í sigur gegn Tottenham og tvö jafntefli. Það verður því áhugavert að sjá hvað breytt Palace lið getur gert á heilu tímabili undir nýjum þjálfara.

  Okkar menn

  Nú er stutt á milli leikja og sáum strax í Ac Milan leiknum að Klopp er þegar byrjaður að rótera liðinu sínu og gæti því orðið erfitt á næstu vikum að skjóta á hvernig byrjunarliðið verður. Hins vegar sjáum við líklega nálægt okkar sterkasta liði á morgun og það verður frekar hvílt í bikarnum gegn Norwich í vikunni.

  Okkar fremstu menn hreinlega elska að mæta Crystal Palace og sáum við meðal annars veislu gegn þeim í jólatörninni í fyrra þegar við lögðum þá 7-0. Þar fer Sadio Mané fremstur í flokki en hann hefur skorað flest mörk Liverpool gegn Palace í sögunni með 9 mörk í 9 leikjum. Salah er ekki langt undan með 6 mörk í 7 leikjum og Firmino, sem verður því miður ekki með vegna meiðsla með 6 mörk í 12 leikjum. Vonandi getum við því séð markaveislu á morgun og lagað það að nú í byrjun tímabils hefur færanýtingin verið skelfileg.

  Sett þetta upp sem líklegt byrjunarlið. Matip hefur spilað alla leiki tímabilsins hingað til og því kæmi mér ekki á óvart að hann fengi hvíld á morgun og Gomez fengi annan leik. Klopp hefur oft gefið mönnum tækifæri á að bæta sig þegar þeir hafa átt slakan leik og Gomez gerðist sekur um mistök í báðum mörkum Milan í vikunni og gæti séð hann fá tækifæri til að bæta upp fyrir það. Á miðjunni er spurning með Fabinho en tel hann líklegri til að hvíla gegn Norwich enda afskaplega mikilvægur og verið einn okkar allra besti leikmaður í byrjun tímabils. Divok Origi fékk óvænt tækifæri í síðasta leik en meiddist og sé í raun engan fá jafn óvænt sæti í byrjunarliðinu á morgun.

  Spá

  Ég held að Mané haldi áfram að hrella Palace. Sáum gegn Leeds að hann er farinn að koma sér aftur í færin annað en við sáum á tímabili í fyrra og nú þarf bara að fara að koma boltanum yfir línuna nokkrum sinnum og komast í gang. Held að við sjáum 3-0 sigur þar sem Salah setur eitt og Mané tvö og verðum áfram á toppi deildarinnar og vonandi að það fari að fækka liðunum sem eru jöfn okkur að stigum.

  [...]
 • Liverpool 3 – 2 AC Milan

  1-0 Tomori 9′ (sjálfsmark)

  1-1 Rebic 42′

  1-2 Diaz 44′

  2-2 Salah 49′

  3-2 Henderson 69′

  Það var undarlegur leikurinn sem átti sér stað á Anfield í kvöld þegar Liverpool vann 3-2 sigur á Milan. Leikurinn hófst með gríðarlegum yfirburðum Liverpool sem pressuðu hátt og áttu Milan menn í miklum erfiðleikum að halda boltanum innan liðsins. Það var Divok Origi sem átti fyrsta tækifæri leiksins þegar hann setti boltann framhjá eftir góða fyrirgjöf frá Robertson, næstu mínútur voru svo algjör einstefna að hálfu Liverpool. Á níundu mínútu spilaði Trent þríhyrningsspil við Salah og reyndi svo fyrirgjöf sem breytti stefnu af Fikayo Tomori og framhjá markmanni Milan og boltinn endaði í netinu 1-0 fyrir Liverpool.

  Á fjórtándu mínútu fengu Liverpool svo víti þegar varnarmaður Milan fékk boltann í hendina en aldrei þessu vant lét Salah verja frá sér af vítapuntkinum og í kjölfarið varði Maignan, markmaður Milan, frákastið frá Jota en þá höfðu Liverpool átt 13 marktilraunir á fyrstu 15 mínútum leiksins og stefndi allt í auðvelt kvöld fyrir rauðliða á heimavelli.

  Eftir slaka byrjun og mikið stress fóru Milan að drepa leikinn. Öll föst leikatriði tóku óratíma og það tókst hjá þeim því það hægðist mikið á tempóinu í leiknum og Ítalirnir fóru að komast betur inn í leikinn. Næstu tuttugu mínútur yrðu frekar leiðinlegar áður en Rafael Leao náði að finna Ante Rebic aleinan inn fyrir vörn Liverpool, en hann var spilaður réttstæður af Joe Gomez, sem renndi boltanum framhjá Alisson í markinu og jafnaði leikinn á 42. mínútu.

  Markið var mikið sjokk enda aðeins önnur marktilraun Milan í leiknum en menn höfðu ekki mikinn tíma til að jafna sig því aðeins níutíu sekúntum síðar var boltinn aftur í netinu. Leao átti þá gott hlaup, lagði boltann á Rebic sem fann Hernandez sem átti skot sem Robertson bjargaði á línu en Díaz fygldi á eftir og kom Milan yfir.

  Ótrúlegur hálfleikur þar sem Liverpool var undir þrátt fyrir að hafa spilað hreint út sagt ótrúlega fyrsta korterið og haldið síðan völdunum í leiknum svo komu tvær mínútur af algjöru einbeitingaleysi og Milan stal forustunni.

  Martöðin virtist ætla að halda áfram, stöð tvö voru aðeins of seinir að byrja útsendinguna í seinni hálfleik og það fyrsta sem maður sá þegar hún loks hófst var Simon Kjær að skora en sem betur fer var hann rangstæður og markið taldi því ekki.

  Mínútu síðar var það svo Divok Origi, sem fékk óvænt að byrja leikinn, sem fann Salah í smá svæði inn í teig þar sem Salah lyfti boltanum yfir Maignan í marki Milan og jafnaði leikinn 2-2.

  Það var svo fyrirliðinn sem lokaði leiknum á 69 mínútu eftir hornspyrnu frá Trent sem var skölluð frá beint á Henderson sem tók skotið í fyrsta, hitti boltann svona hrikalega vel og skoraði stórglæsilegt Gerrard-legt mark.

  Bestu menn Liverpool

  Undarlegur leikur þar sem flestir spiluðu mjög vel en samt eitthvað hægt að setja út á alla. Salah skorar og leggur upp en klúðraði víti, Fabinho og Henderson flottir á miðjunni en miðsvæðið var alltof opið í báðum mörkum Milan. Báðir bakverðirnir áttu mjög góðan leik.

  Vondur dagur

  Joe Gomez spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma og klikkar á rangstöðulínunni í báðum mörkum Milan en þó jákvætt að það braut hann ekki og hann óx inn í leikinn í seinni hálfleik en vill líklega gleyma þessari endurkomu sinni sem fyrst. Sérstaklega núna þar sem hann er með tvö stórkostlega miðverði á undan sér í goggunarröðinni og annan mjög efnilegan rétt á eftir honum með svona frammistöðu verður hann fjótur að verða fjórði kostur í stöðu þar sem er ekki róterað mikið.

  Umræðupunktar

  • 3 stig í hús og Porto og Atletico gerðu jafntefli í hinum leiknum í riðlinum svo eins og er erum við á toppnum í dauðariðlinum.
  • James Milner kom inn með mikla reynslu til að drepa leikinn undir lokinn. Ekki við öðru að búast af honum en hann leysti sitt hlutverk mjög vel í kvöld.
  • Færanýtingin okkar í byrjun tímabils hefur verið arfaslök og var nánast búinn að kosta okkur leikinn í kvöld. Þetta verður að lagast getum ekki búist við því að fá 25-30 marktækifæri í hverjum einasta leik.
  • Evrópukvöld á Anfield með stuðningsmenn á vellinum er ótrúlegt fyrirbæri og það var svo ánægulegt að horfa á leikinn í kvöld og hlusta á stemminguna á vellinum. Það fer að verða þreytt að minnast á þetta en guð minn almáttugur hvað þetta er allt annað sport með fólk á vellinum.

  Næsta verkefni er svo Crystal Palace á laugardaginn en þeir slátruðu Tottenham um síðustu helgi. Salah og Mané hafa hinsvegar mjög gaman að því að mæta Palace og vonandi skánar færa nýtingin okkar í þeim leik.

   

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn AC Milan

  Þá er Klopp búinn að tilkynna liðið sem mætir AC Milan í kvöld og kemur margt á óvart þar. Van Dijk sest á bekkinn meðan Matip spilar og Divok Origi kemur inn í hóp og beint í byrjunarliðið.

  Bekkur: Adrian, Kelleher, Van Dijk, Konate, Tsimikas, Phillips, Thiago, Milner, Ox, Jones, Mané og Minamino

  Nokkrar breytingar og kannski ekki þær sem maður átti von á en samt ansi sterkt lið sem mæti til leiks. Þurfum sigur enda þrátt fyrir að vera stórt nafn er Milan liðið úr neðsta styrkleikaflokki í okkar riðli og verða hlutirnir fljótir að flækjast í þessum erfiða riðli ef við tökum ekki þrjú stig í dag.

  [...]
 • Meistaradeildin: AC Milan mæta á Anfield

  Það er komið að fyrsta leik Liverpool í Meistaradeildinni leiktíðina 2021-2022. Andstæðingurinn er hið fornfræga lið AC Milan, og þetta verður fyrsti opinberi leikur þessara liða sem ekki er úrslitaleikur Meistaradeildarinnar. Jafnframt verður þetta fyrsta skiptið sem AC Milan mæta á Anfield til að leika opinberan keppnisleik. Óopinberir leikir milli þessara liða hafa hins vegar verið aðeins fleiri, t.d. leikur frá árinu 2016 sem Liverpool vann 2-0, og svo annar frá árinu 2014 sem endaði með sömu markatölu. En það er alveg ljóst að í sögulegu samhengi er þetta merkisleikur. Jafnframt er þetta næst ríkasti leikur riðlakeppninnar af Evrópubikurum, en samtals eiga þessi lið 13 bikara, og 15 bikarar í riðlinum í heild sinni (riðill A er með 0 bikara. Takk fyrir að spyrja).

  Andstæðingarnir

  Lið AC Milan er á pappírnum ekki nándar nærri jafn ógnvænlegt eins og það var í maí 2005, en engu að síður er þetta geysisterkt lið og ekki hægt að bóka eitt eða neitt gegn þeim. Liðið vann fyrstu þrjá leiki sína í ítölsku deildinni þetta haustið, þar á meðal síðasta leik gegn Lucas Leiva og félögum hjá Lazio um helgina. Liðið er því í öðru sæti í deildinni á markatölu.

  Í leiknum á morgun verður enginn Shevchenko, Cafú, Kaká, Crespo eða Pirlo. Það gæti hins vegar verið einn Maldini, og jújú mikið rétt, sá er einmitt sonur Paolo Maldini sem spilaði í Atatürk forðum daga. Hann er þó enginn lykilmaður, og er t.d. aðeins búinn að spila síðustu 5 mínúturnar í einum leik það sem af er leiktíð. Svo eru tvö önnur nöfn sem við könnumst ansi vel við. Zlatan vinur okkar mun ekki spila þar sem hann er að glíma við einhver meiðsl, en þess má geta að hann er einn þessara leikmanna sem hefur aldrei verið í sigurliði gegn Liverpool. Svo er annar leikmaður þarna sem oft hefur reynst okkur óþægur ljár í þúfu, en það er Olivier Giroud. Hann greindist með Covid fyrir stuttu síðan en orðið á götunni er að hann hafi verið neikvæður í síðustu mælingu og gæti því verið í hóp á morgun.

  Okkar menn

  Það er lítið að frétta af okkar mönnum frá leiknum um helgina. Jú, Harvey Elliott gekkst undir uppskurð í dag og það er talað um að hann gæti jafnvel snúið aftur á völlinn á þessari leiktíð. Að sjálfsögðu skiptir mestu máli að hann nái sér að fullu, og hvort hann spilar í apríl eða ágúst á næsta ári er kannski ekki að fara að skipta öllu máli. Þá hefur enn ekkert verið gefið út hvenær Firmino snúi aftur. Eins eru Minamino og Neco Williams á sjúkrabekknum, og ekki alveg ljóst hvort Milner er að fullu leikfær (ég meina hann myndi alltaf spila ef hann væri beðinn um það, þetta er meira spurning hvort læknirinn hans myndi mæla með því), þó hann hafi vissulega verið á bekk á sunnudaginn (ekki sjúkrabekk semsagt). Enginn þessara leikmanna er með skráða endurkomudagsetningu, en James Pearce talaði um það um helgina að Firmino væri a.m.k. farinn að hlaupa og æfa með bolta aftur. Það er því orðið frekar fámennt í hópi þeirra sem Klopp treystir til að spila í framlínunni, gæti þetta þýtt að Origi sjáist í leikmannahópnum annað kvöld? Undirritaður er ekki svo viss, og það er meira að segja fjarlægur möguleiki að Kaide Gordon gæti fengið tækifæri á bekknum (þó það væri vissulega mjög ólíklegt að Klopp myndi skipta honum inná, Klopp einfaldlega vill gefa ungu leikmönnunum meiri tíma en svo).

  Annað sem þarf að hafa í huga er að nú er gengið í garð tímabil þar sem það eru aldrei meira en fjórir dagar á milli leikja: Milan á miðvikudaginn, Palace á laugardaginn, Norwich á þriðjudag eftir viku í Carabao (OK við gætum vel séð Kaide Gordon þar), Brentford á laugardeginum þar á eftir og svo Porto á þriðjudeginum þar á eftir. Svo kemur smá pása (þ.e. 4 heilir dagar í frí) fyrir síðasta leik fyrir næsta landsleikjahlé, en þá mæta City á Anfield. Klopp þarf því að hafa leikjaálagið næstu vikurnar í huga við val á liðinu á morgun, og svo næstu leikjum á eftir. T.d. er hæpið að Matip geti spilað mjög marga leiki í röð, og því kæmi ekki á óvart að við sæjum Joe Gomez á morgun. Virgil er ekkert endilega klár í mjög marga leiki í röð og gæti fengið pásu fljótlega, en þó tæpast á morgun. Framlínan er nokkurn vegin sjálfvalin, en aðal róteringin verður sjálfsagt á miðjunni. T.d. kæmi ekki á óvart að sjá bæði Keita og Henderson byrja á morgun. Svo er spurning hvort Robbo byrji á morgun eða hvort Tsimikas verði verðlaunaður fyrir góða frammistöðu í upphafi leiktíðar. Munum samt að Klopp er frekar íhaldssamur þegar kemur að því að stilla upp liði.

  Við skulum því prófa að stilla þessu upp svona:

  Ég held að Klopp verði lítið í tilraunastarfsemi og vilji stilla upp sínu allra sterkasta liði. Líkamlegt ástand leikmanna gæti auðvitað breytt þessari mynd eitthvað, kannski taka menn sénsinn á að setja Matip við hliðina á VVD enda er hann heitur á meðan Gomez hefur lítið komið við sögu.

  Ég bið bara um þrennt:

  a) sigur og 3 stig
  b) að leikmenn komist heilir frá þessum leik
  c) að Alisson haldi hreinu

  Mér finnst þetta ekkert til of mikils mælst. Ég spái 2-0 sigri með mörkum frá Salah og Trent úr aukaspyrnu.

  [...]
 • Gullkastið – Svartur blettur á góðum sigri

  Meiðsli Harvey Elliott settu sannarlega svartan blett á annars frábæra frammistöðu Liverpool gegn Leeds núna um helgina. Það eru kunnuleg andlit búin að raða sér í efstu fjögur sætin strax í fjóðu umferð og Meistaradeildin fer af stað í vikunni.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 347

  [...]
 • Leeds 0-3 Liverpool

  Liverpool vann öruggan 3-0 sigur á Leeds sem hefði átt að vera miklu stærri en það. Liverpool spilaði leikinn frábærlega, stjórnaði öllum þáttum fótboltans, óð í færum og hefði átt að skora meira. Fótbrot Harvey Elliott eftir tæklingu leikmanns Leeds, sem fengu að komast upp með ansi mikið hjá dómara leiksins, setur hins vegar svartan blett á þennan annars frábæra sigur.

  Alisson og Fabinho fengu að spila með Liverpool í dag eftir að FIFA og brasilíska knattspyrnusambandið ætlaði að meina brasilískum leikmönnum sem leika í ensku deildinni að spila því liðin meinuðu þeim að fara í landsliðsverkefni vegna Covid faraldurs í Brasilíu. Þeir byrjuðu leikinn, Thiago byrjaði sinn fyrsta leik og Elliott byrjaði sinn þriðja leik í röð.

  Liðin byrjuðu leikinn af krafti og ljóst að það stefndi í hraðan og opinn leik um leið og hann hófst. Bæði lið náðu að fá hálf færi strax í upphafi leiks en fyrsta alvöru færið kom á 15.mínútu eða svo þegar frábær sending Salah endar hjá Jota sem tekur boltann á kassan en nær ekki nógu góðu skoti á markið. Skömmu síðar er leikstjórnandinn Matip að dandalast í kringum vítateig Leeds, hann þræðir boltanum inn á Trent sem keyrir inn af vængnum og leggur hann fyrir Mo Salah sem skorar flott mark. Verðskuldað fyrsta mark Liverpool í leiknum og Salah hafði verið alveg frábær í upphafi leiksins.

  Það sem af lifði fyrri hálfleik þá var Liverpool stöðugt að ógna marki Leeds, komust í góð færi en tókst bara ekki að koma boltanum í netið og ná þessu mikilvæga öðru marki. Salah átti reyndar geggjaða fyrirgjöf á Thiago sem stangaði hann í netið en því miður var það dæmt af því Salah hafði verið rangstæður í aðdragandanum.

  Liverpool hefði átt að vera meira yfir og Leeds í raun alveg getað verið manni færri þegar liðin héldu til hálfleiks en svo var ekki raunin. Það var alveg sama formúla í seinni hálfleik, Liverpool stýrði leiknum, Leeds komst ekki lönd né ströng, Liverpool skapaði færin og dómari leiksins leyfði Leeds að komast upp með það sem þeir vildu þegar kom að því að brjóta á leikmönnum Liverpool.

  Loksins tókst Liverpool að skora aftur þegar Fabinho skoraði eftir að hornspyrna rataði á kollinn á Van Dijk sem barst svo til Fabinho sem tók boltann niður og skaut honum í netið. VAR gerði sitt besta til að ætla að taka það mark af þar sem að Mane stóð víst innan 10 metra frá markverðinum þegar Fabinho skaut en réttilega fékk það mark að standa.

  Liverpool var að undirbúa skiptingu á 60.mínútu, líklega var Harvey Elliott að fara út af fyrir Jordan Henderson. Boltinn berst upp kantinn til Harvey Elliott sem er straujaður niður af leikmanni Leeds og sá maður ökklann hangandi niður í sokknum hans, Salah stóð við atvikið og viðbrögð hans voru á þá leið að þetta væri slæmt og var sjúkrateymi Liverpool mætt inn á völlinn löngu áður en leikurinn var stoppaður. Á viðbrögðum þeirra sem voru nálægt þessu þá var þetta slæmt og enn eitt brotið sem dómari leiks ætlaði að leyfa Leeds að komast upp með en hann dæmdi ekki einu sinni aukaspyrnu á þetta. Þeir í VAR herberginu náðu þó að grípa inn í og segja honum að veita leikmanni Leeds beint rautt spjald. Harvey Elliott var borin út af og skelfileg meiðsli fyrir þennan efnilega og frábæra leikmann sem var greinilega orðinn alvöru leikmaður í þessu Liverpool liði. Klopp segir að ökklinn hafi dottið úr lið en ekki brotnað sem er vonandi skárra af tvennu slæmu og vonum við að hann verði mættur aftur á völlinn fyrr en seinna.

  Skiljanlega kom smá óróleiki í leik Liverpool sem voru í hálfgeru losti fyrstu mínúturnar eftir þetta. Leeds héldu áfram að tækla og náðu aðeins að ógna Liverpool sem svaraði þó í sömu mynt og fengu nokkur ansi góð færi, þá sérstaklega Sadio Mane en boltinn bara ætlaði ekki inn hjá honum!

  Í sínu tíunda skoti í dag náði Mane hins vegar loksins að skora þegar hann tók við sendingu frá Thiago þegar hann snéri bakinu í markið, náði góðum snúning og þrumaði boltanum niður í fjærhornið. Verðskuldað mark hjá Mane sem þurfti gífurlega á því að halda. Hann hafði verið frábær í öllu nema því að klára færin sín í dag og með réttu hefði hann átt að skora fjögur í dag.

  Þar við sat og Liverpool vann góðan 3-0 sigur og líta bara ansi vel út í upphafi leiktíðar en þó þannig að manni finnst þeir enn eiga töluvert inni sem boðar vonandi bara gott.

  Van Dijk og Matip voru mjög öflugir í vörninni, bakverðirnir og þá sérstaklega Trent fannst mér. Framlínan var frábær, hápressan hjá þeim og færasköpunin var til fyrirmyndar. Þeir hefðu allir getað og mögulega átt að skora fleiri mörk. Mane var rosalega líflegur og komst í svo mörg færi en gekk illa að klára þau, Salah var frábær og skoraði mark en hefði í raun líka átt og getað fengið tvær geggjaðar stoðsendingar í dag. Elliott var líflegur en á tíma gekk honum pínu brösulega að klára metnaðarfullar sendingar sem komu liðinu í tvö eða þrjú skipti í pínu óþægilega stöðu.

  Menn leiksins, ásamt Salah, eru klárlega Fabinho og Thiago sem voru frábærir á öllum sviðum í dag. Þeir vörðust fáranlega vel, stjórnuðu spilinu á miðjunni og tæknilega séð skoruðu þeir báðir góð mörk. Thiago lagði upp mark Mane og Fabinho skoraði annað markið. Þeir voru frábærir og eru svo ógeðslega góðir miðjumenn. Get ekki gert upp á milli þessara þriggja, þið getið valið sjálf einn þeirra ef þið viljið.

  Næsti leikur er AC Milan í Meistaradeildinni í miðri viku og svo heimaleikur við Crystal Palace um næstu helgi.

  [...]
 • Liðið gegn Leeds

  Klopp hefur stillt upp liðinu sem mætir Leeds í fjórðu umferð Úrvalsdeildarinnar og ber helst að nefna að Fabinho og Alisson eru báðir í byrjunarliðinu en óljóst var með þátttöku þeirra í leiknum eftir að FIFA og brasilíska knattspyrnusambandið ætlaði að banna þeim að spila vegna þess að félög í ensku deildinni vildu ekki hleypa leikmönnum í landsliðsverkefni í Brasilíu vegna Covid-tengdra mála.

  Alisson

  Trent – Matip – Van Dijk – Robertson

  Elliott – Fabinho – Thiago

  Salah – Jota – Mane

  Bekkur: Kelleher, Keita, Tsimikas , Chamberlain, Henderson, Konate, Gomez, Milner, Jones

  Harvey Elliott er heldur betur í náðinni hjá Klopp sem virðist hafa miklar væntingar og trú á stráknum. Hann byrjaði kannski pínu óvænt þegar liðið gerði jafntefli við Chelsea í síðustu umferð og í leiknum þar áður, hann heldur nú sæti sínu í liðinu. Thiago byrjar sinn fyrsta leik á tímabilinu og þeir Jota, Mane og Salah byrja frammi en Firmino er enn frá vegna meiðsla.

  [...]
 • Upphitun fyrir Leeds

  Fyrir stuðningsmenn liða í ensku deildinni er ekkert til sem heitir gott landsleikjahlé. En það eru til extra vond landsleikjahlé og þetta fyrsta landsleikjahlé vetrarins er alltaf vont. Liðin og stuðningsmenn eru rétt komin aftur í gang eftir sumarið og allt í einu er tveggja vikna pása, þar sem stuðningsmenn naga neglurnar yfir að einhver gæti meiðst í landsleik eða að Covid komi upp í landsliðshóp.

  Það hjálpaði ekki að rétt fyrir lokun gluggans varð ljóst að Liverpool ætlaði ekki að styrkja sig frekar fyrr en í janúar í fyrsta lagi. Stemningin er búin að vægast sagt þung meðal stuðningsmanna. En eins og lagið fræga segir: „Við stormsenda er gylltur himinn.“ Deildin er að byrja aftur og nú fá Liverpool að spila í deildinni fyrir fullum Elland Road í fyrsta sinn síðan 2004. Þið fáið bara eitt gisk hvaða leikmaður Liverpool var í byrjunarliði Leeds í þeim leik.

  Andstæðingurinn – Leeds.

  Leeds sneru aftur í Úrvalsdeildina í fyrra eftir áratuga fjarveru. Ég er af þeirri kynslóð að ég hef aldrei borið Leeds neina kala. Þeir hafa ekkert getað síðan ég byrjaði að fylgjast með fótbolta og ég tengi þá aðallega við hressa stuðningsmenn á aldri við pabba sem hafa stutt liðið frá gullöld þeirra, í gegnum súrt og sætt (aðallega súrt) í áratugi.

  Í fyrra urðu Leeds að uppáhalds liði hlutlausra. Bielsa lætur liðið spila bilaðan adrenalín bolta þar sem fóturinn er á bensíngjöfinni frá fyrstu mínútu og þangað til leik lýkur. Það kæmi manni ekki á óvart ef það fréttist að leikmenn Bielsa væru látnir taka spretti í hálfleik. Stuðningsmenn liðsins elska þenna stíl, þó leikirnir vinnist ekki alltaf eru þeir aldrei leiðinlegir. Í fyrra gerði liðið þrjú bara 0-0 jafntefli: Gegn Arsenal, United og Chelsa. Jómfrúartímabilið í efstu deild enduðu Leeds í níunda sæti, sem telst einfaldlega frábært.

  En nú er annað árið og spurning hvort einhver þynnka sé komin í hópinn. Þeir væru svo sem ekki fyrsta liðið sem kemur upp með hvelli og lendir svo í basli (hæ Sheffield, bæ Sheffield). Leeds byrjuðu núverandi tímabil á algjörum martraðaleik, þegar erkifjendur þeirra í United tóku Leedsara í bakaríið. Síðan hafa þeir náð í tvö jafntefli, annað gegn Everton og hitt gegn Burnley. Þannig að þeir eru ekki en komnir með fyrsta sigurinn.

  Leikir liðanna í fyrra voru afar mismunandi. Fyrir ári komu nýliðar Leeds á tóman Anfield um opnunarhelgi deildarinnar og töpuðu 3-4 í háspennuleik. Seinna um tímabilið heimsóttum við tóman Elland Road í miðju Super League ruglinu. Leedsarar fóru ekki í felur með skoðun þeirra á því máli, prentuðu boli með merki Meistaradeildarinnar og einföldum skilaboðum undir: „Earn it.“ Leedsurum fannst ekki nóg að vera í bolunum, heldur hengdu þá upp í búningsklefum Liverpool, sem var kannski full mikið af því góða. Leikurinn endaði svo 1-1.

  Leeds fóru engum hamförum á leikmannamarkaðnum í sumar en styrktu sig. Jack Harrison var á láni hjá þeim í fyrra og er orðin að fullgildum leikmanni, vinstri bakvörðurinn Junior Firpo kom frá Barcelona. Stærstu kaupin voru kantmaðurinn Daniel James frá United. Hann kvittaði undir korter í landsleikjahlé og maður efar að hann verði í byrjunarliðinu en það væri ekki óvænt ef hann komi inn á undir lokin og fái að spreyta sig.

  Okkar menn – Liverpool

  Stærstu fréttirnar af Liverpool eru auðvitað að störukeppninni er lokið við FIFA. Fordæmið er þá komið, landslið geta ekki heimtað að leikmenn mæti í leiki sem valda tíu daga sóttkví. Spennan milli landsliða og félagsliða virðist vera að aukast nokkuð hratt eftir Covid og er þetta ekki síðasti slagurinn milli þeirra á næstu misserum.

  Nú þegar fyrsta landsleikjahlé er búið byrjar alvaran fyrir þjálfara stórliðin. Handan við hornið bíður gamli risinn AC Milan eftir að heimsækja Anfield í fyrsta sinn. Nú er ekki hægt að velja besta liðið, það þarf að hugsa um leikinn eftir þrjá daga (og svo eftir þrjá-fjóra í viðbót og svo eftir nokkra eftir það).

  Að því sögðu þá er Alisson sjálfvalinn í markið og eftir Trent og Van Dijk í vörnina. Vitandi hversu meiðslagjarn Matip er væri ekki neitt brjálað óvænt ef hann væri hvíldur fyrir Milan og Konate fái sinn fyrsta leik. Svo er vinstri bakvörðurinn bara orðin alvöru, góður, hausverkur. Tsimikas kom inn í upphafi tímabils og var frábær, en Robbo er miklu reyndari, en Robbo var ekki góður gegn Chelsea og það er styttra síðan Robertson spilaði 90 mínútur með Skotalandi, en þarf að spila Andy í gang fyrir Milan? Eins og ég sagði, hausverkur. Mín ágiskun er að Grikkinn byrji leikinn en verði tekin útaf eftir svona klukkutíma leik.

  Miðjan er alltaf jafn erfið. Fabinho hlýtur að vera djúpi miðjumaðurinn en hverjir verða fyrir framan hann. Harvey Elliot hefur komið vel inn í liðið og gæti þess vegna komið inn í sóknina ef Salah á að fara upp á topp vegna meiðsla Firmino. Thiago var ekki valin í landslið þannig að hann er ferskur. Maður spyr sig hvernig Keita er í stemndur eftir „ævintýrið“ sem hann lenti í. Henderson er væntanlega ferskur eftir að hafa verið hvíldur á bekknum í landsleik Englands og Pólands. Miðað við orkuna í Leeds liðinu myndi ég vilja hafa fyrirliðann með. Svo held ég að Thiago verði með honum til að finna glufur á lekri vörn Leeds.

  Bobby er því miður meiddur og Minamino líka. Sóknarlínan okkar virkar ansi þunn þessa daga. Ég held að Klopp setji Salah upp á topp og prufi Elliot á kantinum. Hugsunin að geta sett Jota inn til að sprengja upp ef þess þarf. Það gæti líka verið að Chamberlain komi óvænt inn.

  Spá

  Þetta verður heljarinnar markaleikur, allur í mark Leeds. Ég hef trú á okkar mönnum, þetta fer 4-0. Hendo skorar eitt, Salah tvö og svo er komin tími á eitt Van Dijk skallamark.

  [...]
 • Næsta leikjatörn

  Fyrsta lota á löngu tímabili fór ágætlega hjá Liverpool, sjö stig af níu er líklega nokkurnvegin það sem búist var við miðað við leikjaprógrammið þó vissulega hafi verið innistaða fyrir þessum tveimur stigum í viðbót.

  Næsta lota er fram að næsta landsleikjahléi og nú fer þetta fyrst að byrja fyrir alvöru. Líklega höfum við töluvert betri hugmynd um hvert þetta tímabil stefnir í byrjun október eftir þessa törn. Liverpool er á pari við Chelsea og Man Utd núna og stigi á undan Man City, það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður eftir mánuð. Skoðum aðeins leikjaprógramm liðanna:

  Man City

  Þræl erfiður mánuður hjá Guardiola og hans mönnum sem byrja um helgina gegn Leicester liði úti sem Man City hefur ekkert alltaf liðið vel með. Leipzig í Meistaradeildinni er alvöru verkefni strax í kjölfarið. Síðasta vikan er svo Chelsea úti, PSG úti og Liverpool úti. Það er líklega bara ekki hægt að smíða mikið erfiðari viku í fótbolta. Ef að City fer frá þessu með fullt hús stiga er ekkert lið að fara stoppa þá í vetur.

  Chelsea

  Rússneska olíufélagið á ekki alveg jafn þungt prógram og það arabíska en alls ekkert auðvelt heldur. Villa og Zenit heima í þessari viku áður en þeir fara í nágrannaslaginn gegn toppliði Tottenham. Eftir það er svo næsti deildarleikur El Cashico og strax í kjölfarið Gamla konan frá Ítalíu á útivelli. Alvöru prógramm.

  Man Utd

  Rauðu Djöflarnir eiga langþægilegasta leikjaprógrammið framundan í þessum mánuði. Það er helst að West Ham úti gæti orðið þungur eða þá að Villa liðið hrökkvi í gang. Mjög gott leikjaprógramm fyrir Solskjaer að koma Ronaldo og Sancho í gang. Allt undir fullu húsi stiga í deild og Meistsaradeild yrðu vonbrigði fyrir United.

  Liverpool

  Núna förum við að sjá fyrir alvöru hvernig okkar menn koma stemmdir inn í þetta tímabil. Eftir þrjá mjög góða sigurleiki í fyrstu þremur umferðunum í fyrra gegn Leeds, Chelsea og Arsenal tapaði Liverpool 7-2 í fjórðu umferð gegn Aston Villa og var svo rænt sigrinum gegn Everton í næsta leik á eftir, leik sem var klárlega upphafið á endalokum tímabilsins. Við skulum vona að slíkt bull verði ekkert upp á teningnum í þessum næstu leikjum gegn Leeds og Palace. Fabinho var farinn að spila í miðverði strax í 2.umferð í fyrra vegna meiðsla Matip og Gomez, áður en þeir meiddust báðir fyrir alvöru. Thiago, Mané, Salah, Tsimikas og Trent fengu allir Covid með tilheyrandi fjarveru á einhverjum tímapunkti á fyrri hluta tímabilsins.

  Næsti leikur er gegn Leeds sem skíttapaði fyrsta leiknum í vetur 5-1 en hafa náð í jafntefli eftir það gegn Everton og Burnley. Liverpool bara á að klára þá þó leikurinn sé á útivelli. Leeds náði jafntefli gegn Liverpool á Elland Road í fyrra með óþarfa jöfnunarmarki á 87.mínútu. Aðeins annað jafnteflið af tveimur á lokakafla tímabilsins þar sem Liverpool tapaði ekki leik í síðustu tíu leikjunum.

  Þessi leikur féll reyndar nánast í skuggan af Super League fíaskóinu sem var þarna í algleymingi og féll það í skaut Liverpool að svara fyrstir fyrir það í fjölmiðlum eftir leik. Við vorum ekki einu sinni viss á þessum tímapunkti hvort það skipti nokkru einasta máli ef Liverpool næði Meistaradeildarsæti enda liðið þá búið að skrá sig úr þeirri keppni.

  Varðandi leikinn sjálfan gegn Leeds er ágætt að taka með inn í jöfnuna að í þeim leik vantaði meðal annarra menn eins og Van Dijk, Matip, Henderson og Salah sem byrjaði á bekknum. Eins vantaði Fabinho inn á miðjuna.

  Eftir Leeds leikinn er það svo Liverpool – AC Milan sem er mjög áhugavert einvígi sem Klopp verður að taka mjög alvarlega en á sama tíma hafa annað augað á næsta deildarleik helgina eftir. Jákvætt að báðir þessir leikir eru á heimavelli. Brentford og Porto úti eru bæði áhugaverðar viðureignir en allt saman er þetta bara upphitun fyrir síðasta leikinn fyrir landsleikjahlé.

  Liverpool á ferðalag til Porto í vikunni fyrir City leikinn á meðan þeir fara til Paríasar sama dag. Jákvætt a.m.k. að City getur líklega ekkert hvílt af sínum bestu mönnum gegn Messi, Mbappe, Neymar, Wijnaldum og félögum.

  12 stig úr þessum leikjum og Liverpool er í blússandi stöðu.

  Best væri þó að ná að búa til smá bil milli Liverpool og City, Chelsea og helst líka Man Utd.

  [...]
 • Alisson og Fabinho í banni gegn Leeds?

  Brasilíska knattspyrnusambandið toppaði í dag endanlega vitleysuna sem fylgt hefur þessu landsleikjahléi þegar þeir fóru fram á það við FIFA að þeir leikmenn landsliðsins sem spila á Englandi og fengu ekki leyfi til að ferðast til móts við landsliðið í heimalandinu verði settir í fimm daga bann sbr. reglur FIFA.

  Stjórnvöld í Brasilíu með forseta landsins fremstan í flokki hafa verið með þeim allra heimskustu í veröldinni þegar kemur að viðbrögðum við Covid-19 og er landið þ.a.l. eldrautt skv. sóttvarnaryfirvöldum á Bretlandseyjum. Þeir sem ferðast til Brasilíu og reyndar bara Suður-Ameríku eins og hún leggur sig mega ekki koma aftur til Englands nema gegn 10 daga sóttkví.

  Ferðalangar frá Bretlandseyjum mega ekki heldur koma til Brasilíu  nema gegn sóttkví eins og kom eftirminnilega í ljós þegar landsleikur Brasilíu og Argentínu var stöðvaður rétt eftir að hann var flautaður á vegna þess að í landsliði gestanna voru fjórir leikmenn sem spila á Englandi. Það er í raun varla hægt að skálda svona vitleysu.

  Þannig að krafa brasilíska knattspyrnusambandsins er í hróplegu ósamræmi við stjórnvöld í landinu og gildandi reglur í bæði Brasilíu og á Bretlandseyjum.

  Bannið nær yfir landsliðsmenn brassa hjá Liverpool, Leeds, Man Utd og Man City, en ekki yfir Richarlison gerpið hjá Everton því hann fór með þeim á ÓL og á því inni hjá knattspyrnusambandinu, eins og það sé bara alveg sanngjarnt. Knattspyrnusamband Brasilíu er þar með bara farið að handvelja hvaða leikmenn spila næstu helgi með félagsliðum sínum!

  Núna er spurning hvort FIFA láti bara í alvöru reyna á þessa vitleysu og þá í kjölfarið hvernig ensku liðin taka þessu, réttast væri að segja FIFA að hoppa lóðbeint upp í…

  Ótrúlegt að FIFA detti það bara í hug að krefjast þess að leikmenn ferðist til rauðra landa og bara getur ekki staðist nokkur lög. Ennþá meira galið ef liðin sem borga þessum leikmönnum launin þeirra, öfugt við landsliðin, séu krafin um að missa þá ekki bara í landsliðsverkefni heldur 10 aukadaga eftir þau. Höfum í huga að það er annað landsleikjahlé í október og enn eitt í nóvember. Svona vitleysa blæs lífi í hugmyndir eins og Super League, deild alveg án spillingarsamtaka eins og FIFA og UEFA.

  Þetta bara getur ekki verið búið og þetta bara getur ekki endað svona.

  Annars er þetta að ég held gáfulegasta tillagan að mótsvari…

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close