Latest stories

 • Liverpool 3-0 Brentford

  1-0 Fabinho        44. mín

  2-0 Chamberlain 69. mín

  3-0 Minamino      77. mín

  Gangur leiksins

  Gestirnir virkuðu ferkir fyrstu þrjár mínútur leiksins en í kjölfarið tók Liverpool öll völd á vellinum. Pressan virkaði vel og áttu Brentford erfitt með að halda boltanum frá sínum vallarhelmingi. Liverpool spiluðu vel sín á milli en gátu ómögulega búið sér til gott marktækifæri… eitthvað sem er að verða alltof algengt. Van Dijk átti fína tilraun eftir 22. mínútur en Fernandez í markinu kom löpp í boltann og kom í veg fyrir það.

  Það var þó fyrir leikhlé þar sem Liverpool komst yfir. Leikmenn liðsins virtust vera að missa hausinn margar sendingar orðnar slakar, sérstaklega út úr vörninni og Brentford aðeins farnir að ógna úr skyndisóknum sínum þegar við fengum enn eina hornspyrnuna. Trent tók spyrnuna á fjarstöng þar sem Fabinho var mættur til að skalla boltann inn. Gríðarlega mikilvægt mark á gríðarlega mikilvægum tíma.

  Leikurinn hélt áfram með sama hætti eftir fyrstu mínúturnar eftir hlé þar sem Liverpool stýrði spilinu en Brentford áttu einstaka spretti þar sem þeir reyndu að nýta Toney og Mbeumo. Diogo Jota var nálægt því að tvöfalda forustu liðsins þegar hann átti skot í stöng en það gerðist svo á 69. mínútu þegar Robertson átti frábæra fyrirgjöf sem Chamberlain stangaði í netið. Stundum er talað um að stanga boltann þegar menn skalla en sjaldan hefur það átt jafnvel við. Hinsvegar þekkjum við öll Chamberlain nú eftir nokkurra ára veru og það er aldrei bara eitthvað jákvætt hjá honum því nokkrum mínútum síðar misteig hann sig illa og þurfti að fara útaf. Hann á vissulega eftir að fara í allskonar skoðanir og myndatökur en talað um að ökklinn líti illa út.

  Undir lokinn náði Firmino að vinna boltann við vítateig þegar Brentford ætluðu að spila út úr vörninn og hann og Minamino, sem kom inná fyrir Chamberlain, tóku nokkrar sendingar sín á milli fyrir framan mark Brentford áður en Minamino skoraði sitt annað deildarmark á tímabilinu.

  Ungstyrnið Kaide Gordon fékk að koma inn á í sínum fyrsta deildarleik þegar átta mínútur voru eftir og var nálægt því að setja fjórða mark leiksins.

  Bestu menn Liverpool

  Fabinho var maður leiksins í dag. Ekki aðeins skoraði hann opnunarmarkið heldur var hann gríðarlegt afl á miðsvæðinu vann boltann tilbaka í gríð og erg og tapaði varla skallabolta í leiknum. Einnig kom Jones með ró inn á miðjunna miðað við síðasta leik. Einhver sem er til í að taka boltann með sér og sækja á vörnina og fannst mér hann gera það vel í leiknum. Minamino var kannski ekki meðal bestu manna en verður að hrósa honum fyrir að koma inn á og skora á afmæli sínu.

  Slakur leikur

  Það fær allavega enginn falleinkunn fyrir leik sinn í dag. Hinsvegar voru á köflum í leiknum alltof margar lélegar sendingar, sérstaklega út úr vörninni sem sterkari lið hefðu refsað fyrir að það verður að laga.

  Næsta verkefni

  Næst er það Arsenal í seinni undanúrslitaleiknum í deildarbikarnum. Staðan í einvíginu 0-0 og höfum 90. mínútur til að koma okkur snemma á Wembley í ár.

  Einnig

  ber að nefna að kvennalið Liverpool vann í dag 1-0 sigur gegn Watford með marki frá hinni bandarísku Katie Stengel sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið eftir að hafa komið frá Valerenga. Liðið er enn á toppi deildarinnar með sjö stiga forskot á London City Lionesses sem eiga þó einn leik inni.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Brentford

  Aðeins ein villa í spá okkar um byrjunarliðið í gær en Matip byrjar leikinn en ekki Konate að öðru leiti var liðið rétt. Með innkomu Jones og Chamberlain fyrir Milner og Minamino er klárlega meiri sköpun í liðinu og vonandi að það komi í veg fyrir þá steingeldu frammistöðu sem við sáum gegn Arsenal í vikunni.

  Bekkur: Kelleher, Konate, Milner, Gomez, Minamino, Tsimikas, Gordon, Williams, Morton

  Set þetta upp svona en gæti þó líka verið að Jones sé á miðjunni Chamberlain hægra meginn af fremstu þremur og Jota vinstra meginn.

  [...]
 • Upphitun: Brentford á Anfield & Gullkast með Guðna

  Brentford býflugurnar munu lenda á Anfield Road í Liverpool á sunnudaginn til að takast á við Rauða herinn á heimagrundu í seinni deildarleik liðanna á þessu tímabili. Það verður nágrannaslagur úr Norður-Evrópu þegar að Þjóðverjinn Jürgen Klopp teflir sína refskák við Danann Thomas Frank og vonandi verður markaleikur að nýju en þó með mörkin okkur í hag fyrir 3 heimastig.

  Mótherjinn

  Ofangreindur pistlahöfundur hitaði einnig upp fyrir fyrri leik liðanna í september síðastliðnum og skrifaði frá sér allt það vanþróaða vit sem hann hafði á Brentford á þeim tímapunkti. Takmörkuð vitneskja hefur bæst við á tæpum fjórum mánuðum liðnum og því bráðnauðsynlegt að leita út fyrir sitt háfleyga heilahvel í leit að liðsstyrk úr listrænni átt.

  Við tókum því tali útvarpsöðlinginn ómþýða, Íslandsmeistara úr 5.flokk síðustu ísaldar og sinfóníusérfræðinginn skeggfagra: Guðna Tómasson dagskrárgerðarmann á Rás 1, listfræðing og léttleikandi Liverpoolara! Í spjallinu förum við yfir víðan fótboltavöll í fortíð, nútíð og framtíð þar sem afhausanir Hinriks áttunda í nágrenni rúgbý-hverfisins Brentford ber á góma ásamt Santa Barbara í Moskvu og ýmsu öðru stórmerkilegu.

  Meistarinn & Margaríta af Móaflötinni! Gullinhærður og glaðbeittur Guðni knattspyrnukóngur á góðri stund fagnar í Frostaskjólinu með Stjörnuprýddu liði (kórónuklæddur fyrir miðri mynd). Einnig má sjá glitta í Einar Örn Einarsson, einn stofnenda Kop.is (neðst vinstra megin).

  Gullkastið með Guðna Tómassyni:

  Hvað á Guðni Tómasson sameiginlegt með Steven Gerrard í þrefaldri fótboltastaðreynd? Við þeim leyndardómi má finna svör með áheyrn á suðupunkts-upphituð Gullkastið!

  Að öllu hlaðvarpspjalli afhlöðnu að þá skoðum við liðsuppstillingu Brentford en þeir töpuðu 4-1 fyrir Southampton í sínum síðasta deildarleik sem fór fram í miðri viku. Veruleiki jólavertíðarinnar er eilítið að minna á sig hjá nýliðunum en þeir hafa tapað 3 af síðustu 4 deildarleikjum en eru þó þægilega staðsettir rétt fyrir neðan miðja deild með 23 stig. Það verður að teljast nokkuð gott fyrir Brentfjarðarbúa sem seint teljast til sagnfrægra og sigursælla liða en sanna hvað hægt er að gera með samstilltri og skynsamri nálgun.

  Fyrrum Liverpool-leikmaðurinn Sergi Canós á séns á endurkomu úr meiðslum til þess að ná að spila gegn sínum fyrrum félögum og spái ég því að Thomas Frank taki áhættuna á því að byrja með Spánverjann inná. Liðsuppstillingin myndi því líta svona út með sérlega skandinavísku skipulagi:

  Líkleg liðsuppstilling Brentford í leikskipulaginu 3-5-2

  Liverpool

  Eftir leiftrandi leiðinlegt og ferlega frústrerandi markalaust jafntefli við Arsenal í deildarbikarnum að þá fær Liverpool annað tækifæri á Anfield til að brjótast í gegnum rammbyggðan varnarmúr. Nú reynir á Rauða herinn að sýna meiri sköpun og skerpu í sóknarleiknum til að halda áfram toppformi í toppbaráttunni.

  Minamino var minimalískur í sinni frammistöðu og því veðja ég á að Curtis Jones fái að spreyta sig í framlínunni með Firmino og Jota, í það minnsta til að byrja með. Þá ætti Oxlade-Chamberlain að fá séns á miðjunni til að auka sóknarþungann þaðan á kostnað James Milner. Ég gæti einnig séð Matip fá taktíska róteringu með Konate sem hafsentinn sem kæmi inn en að öðru leyti er liðið hið sama og á fimmtudaginn var.

  Jürgen Klopp gæti því sent inn leikskýrslu með þessari uppstillingu á sunnudaginn:

  Líkleg liðsuppstilling Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

  Kloppvarpið

  Þungarokksþjálfarinn okkar mætti fyrir framan fjölmiðlana fyrr í dag og fræddi um stöðu mála:

  Thomas Frank hefði þetta að segja á sínum fréttamannafundi fyrir leikinn þar sem stórfurðulegar myndklippingar á blaðamenn í mismunandi aðstæðum skemmtu skrattanum:

  Spaks manns spádómur

  Líkt og fram kom á spjallvarpinu þá spáum við spekingarnir góðum 3-0 eða 2-0 heimasigri og það væri mikill léttir fyrir Liverpool að landa þeim lokatölum eftir að hafa ekki unnið deildarleik í síðustu þremur tilraunum. Við mættum alveg við því að fá sæmilegan sóknarleik með nokkrum mörkum meðan Salah og Mané spila í fjarlægri heimsálfu, sér í lagi til að fá smá sjálfstraust í sóknaruppbygginguna fyrir seinni undanúrslitaleikinn gegn Arsenal í næstu viku. Við veðjum því á góðan heimasigur um helgina hjá léttleikandi Liverpool og þökkum meistara Guðna fyrir spjallið.

  YNWA

  [...]
 • Liverpool 0 – 0 Arsenal

  FSG fengu í kvöld smá innsýn í þann heim sem gæti beðið ef ekki verður samið við Mo Salah fljótlega, þegar Liverpool gerði 0-0 jafntefli við 10 Arsenal menn.

  Mörkin

  Uuuuuu…..

  Gangur leiksins

  Það eru eiginlega bara tvö atvik sem eru þess virði að minnast á. Annars vegar rauða spjaldið sem Xhaka fékk á 24. mínútu þegar hann sparkaði í magann á Jota sem var sloppinn einn í gegn. Hins vegar færið sem Minamino fékk á 90. mínútu en skaut hátt yfir.

  Annars var bara ekkert að frétta. Eins og venjulega í vetur, þá var það til mikillar bölvunar að andstæðingurinn missti mann út af, því þá stilltu þeir upp í 9 manna varnarvegg, nánar tiltekið í 5-3-1 með Lacazette fremstan, og Liverpool fann enga glufu á þeim vegg. Ox, Jones, Gomez og Neco komu inná og voru sprækir, en ekki nógu mikið sprækari til að brjóta ísinn.

  Frammistaða leikmanna

  Frekar slappt. Alisson gerði vel þegar Saka var sloppinn einn í gegn í síðari hálfleik, annars var hann mest í því að hlaupa upp að miðju að hirða boltann, jú og tók eitt innkast. Matip átti góða spretti í átt að vítateig andstæðinganna, og var líklega sá leikmaður sem var mest ógnandi. Miðjan var frekar döpur, og fremstu þrír fundu sig ekki.

  Umræðan eftir leik

  Fyrsti alvöru andstæðingurinn sem Liverpool mætir eftir að Salah, Mané og Keita fara í Afríkukeppnina, og ekki lítur þetta vel út án þeirra. Ekki það að í vetur hefur Liverpool alltaf verið í brasi þegar andstæðingurinn missir mann út af, hvort liðið hefur náð einu marki á því tímabili? (EDIT: eitt mark úr opnu spili, tvö úr víti) Liðin einfaldlega pakka í vörn, og það er bara það sem okkar menn eiga erfiðast með að ráða við.

  Seinni leikurinn er á heimavelli Arsenal eftir viku, þá verða þeir með fullskipað lið (vonandi bara allan leikinn!), auk þess að vera á heimavelli og verða því e.t.v. ögn sókndjarfari og liggja þar með aðeins framar. Það gæti hreinlega hentað Liverpool mun betur, en svo verða leikmenn bara að spila betur en í kvöld.

  Vonandi verður Origi kominn til baka (þetta er setning sem ég átti ekki von á að þurfa að skrifa nokkurn tímann).

  Næstu verkefni

  Brentford mæta í heimsókn á sunnudaginn, og svo verður skroppið til Lundúna eftir viku. Ég gæti trúað að Klopp eigi nokkur vel valin orð til að þylja yfir hausamótunum á leikmönnum fyrir þá leiki.

  [...]
 • Fyrri undanúrslitaleikurinn gegn Arsenal – liðið klárt

  Búið að tilkynna liðið sem mætir Arsenal á Anfield í fyrri undanúrslitaleik Carabao bikarsins:

  Bekkur: Kelleher, Gomez, Konate, Tsimikas, Neco, Ox, Morton, Jones, Gordon

  Kelleher víkur semsagt fyrir Alisson, það var búið að leggja það þannig upp að þessi keppni væri fyrir Caomihín, en Alisson er að koma til baka úr Covid og þarf að komast í rytma. Mögulega smá ósanngjarnt gagnvart þeim írska, en kannski tekur hann seinni leikinn eftir viku. Svo er áhugavert að Milner skuli vera valinn á undan bæði Ox og Jones, reynslubankinn hefur líklega vegið þar þungt. Nú svo er ljóst að valkostirnir til skiptinga í framlínunni eru af skornum skammti, ekki ólíklegt að Ox verði kallaður til ef með þarf, en eins er Kaide Gordon tilbúinn á bekknum eftir góða frammistöðu um síðustu helgi.

  En þetta er einfaldlega sterkasta liðið sem í boði er í augnablikinu, svo það er ljóst að núna á að kýla á þessa bikarkeppni og stefnt á að mæta Chelsea á Anfield syðri.

  Orðrómar um að Arsenal yrðu án Ødegaard og Smith-Rowe, og það reyndist rétt. Þeir eru þó með Lacazette og Saka í sínu liði, og eru líklega að stilla upp sínu sterkasta liði.

  Spáum 3-1 sigri, með mörkum frá Firmino, Hendo og eitt sjálfsmark frá Arsenal.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Verður loksins bikarleikur gegn Arsenal á morgun?

  Nú stefnir í að það geti loksins farið fram fyrri viðureign Liverpool og Arsenal í undanúrslitum Deildarbikarsins. Fyrri leiknum þurfti að fresta vegna útbreiðslu Covid smita í herbúðum Liverpool sem hafði meðal annars gripið stóran hluta markvarðarteymisins, leikmannahópsins og Jurgen Klopp og Pep Lijnders. Það kom hins vegar smá surprise plot twist í þetta allt saman en hluti af smitum Liverpool voru falskt jákvæðar niðurstöður svo útbreiðslan var ekki eins mikil og slæm og leit út í fyrstu.

  Einhverjar fréttir voru um að þessi beiðni Liverpool til þess að fá leiknum frestað eigi að vera skoðuð og þá rannsaka hvort Liverpool hafi verið að svindla – sem ég verð nú að viðurkenna að hljómar einstaklega kjánalega enda eitt af fáum liðum sem hafði aldrei sótt um frestun þrátt fyrir að marga lykilmenn hafi vantað og ég sé nú ekki endilega af hverju frestun á leiknum eigi að hagnast Liverpool eitthvað sérstaklega. Sjáum hvað setur.

  Klopp verður á hliðarlínunni og Alisson og Trent eru mættir aftur til æfinga eftir þetta Covid fíaskó, sem er mjög jákvætt. Þá greindi Klopp frá því í dag að Harvey Elliott sé nálægt því að hefja æfingar að fullu með liðinu aftur sem eru frábærar fréttir fyrir hann og liðið en útlitið með hann var nú alls ekki gott þegar hann meiddist snemma á leiktíðinni. Hins vegar eru Salah, Mane og Keita auðvitað í Afríkukeppninni og þeir Thiago og Origi eru frá.

  Alisson

  Trent – Matip – Van Dijk- Tsimikas

  Jones- Fabinho – Henderson

  Chamberlain – Firmino – Jota

  Ég held að Klopp muni stilla upp nokkuð sterku liði, bæði til að reyna að koma liðinu með hálfan fótinn inn í úrslitaleikinn við Chelsea á Wembley og sömuleiðis til að koma nokkrum leikmönnum sem hafa misst úr leiki og æfingar vegna smita, meiðsla eða falskra smita og einhverjir voru svo líklega hvíldir í bikarleiknum gegn Shrewsbury.

  Kelleher er frábær markvörður og hefur gert rosalega vel í bikarkeppnunum fyrir Liverpool og stigið upp þegar þarf að leysa Alisson af hólmi, ég myndi gjarnan vilja sjá hann í markinu í þessum leik en ég yrði ekki hissa ef Alisson fengi þennan leik til að dusta af sér rykið og í þessum töluðu orðum virðist vera sem Klopp gefi í skyn að Alisson muni spila þennan leik.

  Vonandi sækir Liverpool sterkan heimasigur og stendur þá vel að vígi þegar liðin mætast aftur 20. janúar á Emirates leikvanginum og kemur sér loksins aftur í bikarúrslitaleik.

  [...]
 • Cardiff heima í bikarnum

  Rétt í þess var verið að draga í 4.umferð FA bikarsins og eftir sigurinn á Shrewsbury í dag vorum við þar.

  Verkefnið er annar heimaleikur gegn liði úr neðri deild, nú er komið að Cardiff City á Anfield. Leikurinn einhvern tímann á bilinu 4. – 7.febrúar.

  [...]
 • Liverpool 4 – 1 Shrewsbury

  Liverpool komst áfram í 32ja liða úrslit FA bikarsins eftir 4-1 sigur á Shrewsbury á Anfield í dag.

  Mörkin

  0-1 Udoh (27. mín)
  1-1 Gordon (34. mín)
  2-1 Fabinho (víti) (44. mín)
  3-1 Firmino (78. mín)
  4-1 Fabinho (90+3 mín)

  Gangur leiksins

  Það var svosem viðbúið að lið sem var að gefa tveim unglingum debut eftir að hafa misst talsvert af leikmönnum í smit, þurfti að loka æfingasvæðinu og ég veit ekki hvað, yrði e.t.v. ögn ryðgað. Það sást ágætlega í fyrri hálfleik. Max Woltman var lítið í boltanum, Dixon-Bonner var ögn skárri en Kaide Gordon og Tyler Morton einna sprækastir. Conor Bradley byrjaði frekar óöruggur, og það má segja að hann hafi átt þátt í því að Shrewsbury skoruðu fyrsta mark leiksins. Hann var full aftarlega miðað við restina af varnarlínunni þegar það kom löng þversending upp kantinn, hann náði ekki að loka á sendinguna fyrir, en þetta hefði sjálfsagt verið allt í lagi ef Konate hefði tæklað þessa fyrirgjöf almennilega. Sem hann gerði ekki, og Kelleher átti engan möguleika á að verja skotið sem kom af markteig og var fast.

  Það liðu þó ekki margar mínútur þangað til liðið var búið að jafna. Morton fékk boltann nálægt vítateig Shrewsbury, sendi á Dixon-Bonner sem renndi upp í hægra hornið þar sem Bradley gaf sér nokkur augnablik áður en hann renndi boltanum inn á miðjan teig þar sem Kaide Gordon var staðsettur. Gordon gerði engin mistök, tók eina gabbhreyfingu og renndi svo boltanum örugglega í fjærhornið. Afar vel gert hjá unglömbunum.

  Það mátti svo litlu muna að Shrewsbury kæmist aftur yfir þegar nær dró hálfleikshléinu, liðið náði að koma boltanum í netið, en það var dæmd rangstaða og sú var afskaplega tæp.

  Hins vegar voru það okkar menn sem náðu forystunni rétt fyrir hlé. Robertson tók aukaspyrnu við hægri kantinn, gaf inn á teig þar sem boltinn fór í hendina á einum varnarmanni Shrewsbury og höndin í mjög óeðlilegri stöðu. Coote dómari hefur nú ekkert endilega verið að gera Liverpool neina greiða í dómgæslunni í gegnum tíðina, en í dag var hann bara nokkuð góður, og benti þarna á vítapunktinn. Það var Fabinho, fyrrum vítaskytta Monaco (skoraði úr 19 af 21 víti þar) sem skoraði af öryggi, og liðið því með 2-1 forskot þegar gengið var til búningsherbergja.

  Klopp gerði eina breytingu í hálfleik: Minamino kom inn fyrir Woltman. Sú breyting þurfti ekkert að koma á óvart. Minamino þarf að komast í betra leikform, hann byrjar nánast örugglega gegn Arsenal á fimmtudaginn, en 90 mínútur voru sjálfsagt full mikið fyrir hann í dag, enda nýstiginn upp úr meiðslum. Max Woltman hefur verið að skora helling með U18, og þó svo þessi leikur hafi verið númeri of stór fyrir hann, þá á hann framtíðina fyrir sér, enda ennþá ungur.

  Það var svolítið meira öryggi yfir spilamennskunni, og þá sérstaklega eftir að Firmino kom inná um miðjan síðari hálfleikinn. Hann skoraði svo þriðja mark okkar manna þegar 12 mínútur voru eftir af leiknum, Conor Bradley gerði þá vel að elta bolta sem var við það að fara út fyrir endalínu, gaf á Konate sem átti skot, boltinn barst á Firmino sem var með bakið í markið og gat auðvitað ekkert annað gert en skora með hælspyrnu. Eins Firmino-esque mark eins og þau gerast.

  Í lokin var það svo Fabinho sem skoraði með svona hérumbil síðustu spyrnu leiksins eftir aukaspyrnu frá Tsimikas.

  4-1 sigur var bara mjög sanngjarn, þó svo þetta hefði verið óþarflega tæpt í fyrri hálfleik.

  Frammistaða leikmanna

  Það er erfitt að ætla að leggja stóradóm á frammistöðuna. Bæði búið að vera mikið rót á leikmönnum vegna Covid, æfingasvæðinu lokað, Klopp og Lijnders þurftu að einangra sig, etc. Nú svo segir það sig sjálft að aðallið Liverpool sem spilar svo og svo mörgum kjúklingum hlýtur að vera lakara heldur en þegar bestu 11 byrja leikinn. En við sáum þarna aðeins inn í framtíðina. Það kæmi ekki á óvart þó Kaide Gordon verði viðloðandi aðalliðið á næstu misserum, sjálfsagt er hann ekkert að fara að raða inn mínútum alveg á næsta árinu eða svo, enda spilar hann sömu stöðu og líklega besti knattspyrnumaður í heimi í dag. Það verður því ekkert grín fyrir hann að fá marga sénsa, en þeir sénsar sem hann fær á hann skilið. Tyler Morton heldur áfram að sýna hvað er í hann spunnið sem knattspyrnumaður, hann á eftir að taka út svolítinn líkamlegan þroska, á eftir að styrkjast og verða snarpari, en fótboltaheilinn er til staðar. Þeir aðalliðsmenn sem spiluðu í dag (Fab, VVD, Robbo, Konate) áttu ágætan leik, en auðvitað litast spilamennska leikmanna af þeim leikmönnum sem eru í kringum þá og hversu reynslumiklir þeir leikmenn eru.

  Þá má líka minnast á að það var svolítið verið að rótera liðinu á meðan á leiknum stóð. Upphaflega var Jones í stöðunni hans Mané, Dixon-Bonner hægra megin á miðjunni og Morton vinstra megin. Eftir mark Shrewsbury víxluðu EDB og TM, og í seinni hálfleik færði EDB sig upp í stöðuna hans Mané en Jones kom aftur inn á miðjuna. Allt voru þetta skiljanlegar breytingar, en það er líka ljóst að það er erfitt að ná almennilegum rytma í liðið með stöðugum hrókeringum.

  Umræðan eftir leik

  • Robertson þurfti að fara af velli undir lokin eftir að hafa lent í tæklingu, við vonum að það reynist ekki vera mjög alvarlegt.
  • Kaide Gordon var 17 ára og 95 daga gamall þegar hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir aðalliðið, en metið á Ben Woodburn sem var 17 ára og 45 daga. Hann hefði því þurft að skora mark í lok nóvember til að slá metið, en við fögnum markinu að sjálfsögðu engu að síður.
  • Það var eitthvað slúður um að meiðslin hjá Thiago væru alvarlegri en búið var að gefa út, jafnvel að hann væri frá út tímabilið. Klopp blés á þetta slúður í viðtali eftir leik.

  Framundan

  Það er leikur gegn Arsenal í bikar á fimmtudaginn. Vonandi verða þá fleiri aðalliðsmenn orðnir leikfærir, við vitum ekki fyrir víst hverjir greindust með Covid og verða því frá, né hve lengi þeir sem þó greindust með Covid þurfa að vera frá. Við vitum ekki einusinni hve illa þetta leggst á þá. Leikurinn á fimmtudaginn verður spilaður á Anfield, enda gaf Liverpool frá sér réttinn á að seinni leikurinn væri heimaleikur með frestuninni.


  Jú og stelpurnar okkar áttu ljómandi fínan dag gegn Blackburn. Þær unnu 0-6, fyrst skoraði Niamh Fahey með skalla í fyrri hálfleik, og í seinni hálfleik opnuðust allar flóðgáttir. Leanne Kiernan skoraði þrennu á 6 mínútna kafla (var líklega nýbúin að horfa á vídeó af Istanbul leiknum), og svo kom Rachel Furness inná og setti tvö mörk í lokin. Sem stendur er liðið núna með 5 stiga forskot á Durham þegar liðin hafa leikið jafn marga leiki, en London City Lionesses gætu komist í 4ra stiga fjarlægð frá Liverpool með því að vinna leikinn sem þær eiga inni. Við höldum áfram að fylgjast með þeim, en næsti leikur hjá þeim er á sunnudag eftir viku, á nákvæmlega sama tíma og karlaliðið mætir Brentford á Anfield í deildinni.

  [...]
 • Liðið gegn Shrewsbury í bikarnum

  Það er búið að vera ansi mikið “skot í myrkri” að reyna að giska á hvernig liðinu verður stillt upp gegn Shrewsbury núna kl. 14, en núna er það loksins orðið klárt, og jafnframt ljóst að Klopp verður á hliðarlínunni. Kannski er Krawietz svekktur, en kannski er hann bara hoppandi glaður með það. Allavega, svona lítur liðið út:


  Bekkur: Adrian, Tsimikas, Matip, Norris, Mabaya, Balagizi, Frauendorf, Firmino, Minamino

  Nokkur ný andlit þarna; Elijah Dixon-Bonner og Max Woltman eru að byrja sína fyrstu leiki fyrir aðalliðið, Conor Bradley og Kaide Gordon hafa byrjað leiki í deildarbikarnum. Síðan eru ný andlit á bekk: James Norris er vinstri bak og er í fyrsta skipti í aðalliði, sama gildir um Isaac Mabaya sem á enn eftir að ákveða hvort sé miðvörður eða miðjumaður. Frauendorf og Balagizi hafa verið í umræðunni, man ekki fyrir víst hvort þeir hafi náð á bekk í einhverjum bikarleiknum, líklega ekki samt.

  Orðrómurinn um að Loris Karius myndi þurfa að spila reyndist vera bull, sem betur fer eru a.m.k. þessir tveir á undan honum leikfærir.

  Það er talað um að Leighton Clarkson hefði átt að vera í hóp í dag, en eitthvað pappírsvesen kom í veg fyrir að það væri hægt að skrá hann.

  Nú svo er gaman að segja frá því að kvennaliðið er að spila við Blackburn á útivelli á sama tíma og karlaliðið, þær fengu ekki að spila síðasta leikinn fyrir jól því honum var frestað, en eru þrátt fyrir það ennþá efstar í deildinni með eins stigs forskot og leik til góða. Þar verður stillt upp svona:

  Laws

  Robe – Fahey – Matthews

  Wardlaw – Kearns – Holland – Hinds

  Daniels – Kiernan – Lawley

  Bekkur: Clarke, Roberts, Bailey, Furness, Hodson, Moore, Humphrey, Stengel, Campbell

  Hér sést nýtt andlit á skýrslu því Katie Stengel kom til liðsins núna í byrjun janúargluggans, hún hefur með spilað í Bandaríkjunum fram að þessu en einnig með Bayern. Vonandi á hún eftir að styrkja liðið enn frekar.

  EDIT: í ljósi þessarar tilvitnunar frá Klopp:

  We made a team with what we got left, let me say it like this. That’s what we have to do. I don’t expect the perfect game but I expect a proper fight. In moments I expect a wild game, because I want the boys to be wild.

  þá kemur bara eitt lag til greina sem upphitunarlag:

  KOMA SVO!!!

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close