Latest stories

 • Harvey Elliott skrifar (aftur) undir nýjan samning

  Það er ljóst að forráðamenn Liverpool eru ánægðir með þróun Harvey Elliott og verðlaunuðu hann með nýjum samningi í dag þrátt fyrir að hann hafi síðast skrifað undir nýjan samning fyrir ári síðan. Það virðist vera rosalega flott og öflug stefna hjá félaginu að verðlauna góð störf og framfarir með nýjum samningi frekar en að fara all in strax og þannig mögulega drepa aðeins hungrið í leikmönnum.

  Þar fyrir utan er auðvitað mjög jákvætt og spennandi að Liverpool sé að tryggja sér þennan leikmann næstu árin enda eitt mesta efnið í boltanum

  “It’s always nice to know that I’m going to be here for many more years, which is always a great thing with it being my boyhood club and there is nothing in this world that makes me more happy and more excited than this,”

  Stefan Bajcetic fékk einmitt einnig nýjan samning í vikunni þrátt fyrir að vera nýlega búinn að gera sinn fyrsta atvinnumannasamning. Hann stóð uppúr á undirbúningstímabilinu og fær hvatningu til að halda því áfram með nýjum samningi.


  Annars virðist Liverpool ekki ætla að kaupa nýjan miðjumann þrátt fyrir töluverð meiðslavandræði í þessari stöðu, Nunes hjá Sporting hefur verið orðaður við Liverpool í portúgölskum fjölmiðlum en helstu blaðamenn tengdir Liverpool gerðu lítið úr þeim orðrómi strax í kjölfarið. Höldum þó enn smá í þá von að Liverpool lekur ekki og því ekkert víst að blm. tengdir Liverpool fái upplýsingar um möguleg leikmannakaup frá Liverpool. Það eru jafnan fjölmiðlar tengdir þeim félögum eða leikmönnum sem um ræðir sem segja fyrst frá leikmannakaupum Liverpool.

  [...]
 • Gullkastið – Kjaftshögg gegn Fulham

  Liverpool var mjög lengi í gang í hádegisleiknum gegn Fulham í fyrstu umferð og það kostaði á endanum tvö mjög dýrmæt stig. Vond byrjun á mótinu sem helstu keppinautar nýttu sér vel í kjölfarið.

  1.mín – Fulham leikurinn
  25.mín – Fyrsta umferðin – hin liðin
  52.mín – Crystal Palace í næstu viku

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils Gull       Húsasmiðjan          Sólon           Jói Útherji         Ögurverk ehf

  MP3: Þáttur 390

  [...]
 • Fulham 2 – 2 Liverpool

  Liverpool byrjaði leiktíðina 2022-2023 á að gera 2-2 jafntefli við spræka nýliða Fulham.

  Mörkin

  1-0 Mitrovic (32. mín)
  1-1 Nunez (64. mín)
  2-1 Mitrovic (72. mín)
  2-2 Salah (81. mín)

  Gangur leiksins

  Eins og lið Liverpool leit nú vel út í leiknum gegn City um síðustu helgi, þá var bara eins og okkar menn væru ekki mættir til leiks. Fulham menn voru miklu ágengari, okkar menn gerðu sig seka um fjölda sendingarfeila og það var bara eins og það væri ekki kveikt á þeim. Vissulega náði Díaz að setja boltann í netið, en það gerðist eftir að Robbo var áberandi rangstæður og markið því réttilega dæmt af. Fulham refsuðu okkar mönnum eftir rúmlega hálftíma leik þegar Mitrovic vann skallaeinvígi við Trent, þar hefði okkar maður mátt gera betur og spurning hvort Alisson hefði mátt gera það líka. En sanngjörn forysta engu að síður. Díaz hélt áfram að vera sá sem helst ógnaði, og átti skot í stöng nokkru síðar. Staðan var 1-0 í leikhléi, og ekkert við því að segja.

  Heimildir herma að Klopp hafi verið brjálaður í leikhléi, og ekkert skrýtið. Maður hefði því haldið að okkar menn hefðu komið grimmari til leiks í síðari hálfleik, en það var ekki að sjá. Hins vegar meiddist Thiago snemma í síðari hálfleik, Klopp ákvað að setja Harvey inná í hans stað og tók Firmino út af sömuleiðis í stað Nunez. Þetta breytti leik okkar manna aðeins, og nokkrum mínútum síðar kom James Milner inná fyrir Fabinho. Þetta var bara klassískur leikur þar sem vantaði meira stál inn á miðjuna, og hver er betur til þess fallinn að koma með það frumefni inn á miðjuna annar en James Milner? Sérstaklega með þetta skegg.

  Nunez fékk tækifæri til að skora fljótlega eftir að hann kom inná, en ákvað að renna boltanum inn að markteig og Fulham náðu að hreinsa. Þá fékk hann aftur tækifæri eftir fyrirgjöf frá hægri, reyndi að flikka boltanum en tókst ekki. En svo á 64. mínútu fékk hann annað svipað færi eftir fyrirgjöf frá Salah, reyndi svipað flikk og núna fór boltinn í netið. Van Dijk gerði sig sekan um fáheyrð mistök þegar hann danglaði fætinum í Mitrovic, lítil snerting en næg til að Mitrovic flaug í jörðina eins og hann hefði verið skotinn í fótinn og fékk víti. Hann tók það sjálfur og skoraði þó Alisson færi í rétt horn.

  Þegar tæpar 10 mínútur voru til leiksloka náði svo Salah að skora í opnunarleik tímabilsins 6. árið í röð, sending inn á teig frá Trent, Nunez tók við boltanum og renndi á Salah sem gerði engin mistök. Carvalho kom svo inná fyrir Díaz, og hefði mögulega getað skorað úr sinni fyrstu snertingu í úrvalsdeildinni, en skot hans af vítateig fór yfir. Hendo átti svo skot í þverslá skömmu fyrir leikslok, en 2-2 jafntefli staðreynd.

  Frammistaða leikmanna

  Nánast allt byrjunarliðið átti slæman dag, kannski einna helst hægt að taka Díaz út fyrir þann sviga. Þeir sem komu inná áttu hins vegar fínan leik og bættu leik liðsins. En það þarf að velta fyrir sér af hverju menn komu ekki betur mótíveraðir í fyrsta leik tímabilsins.

  Umræðan eftir leik

  Það er ágætt að muna að tímabilið er 38 leikir, City tapaði sínum fyrsta leik í fyrra – vissulega gegn sterkari andstæðingi. Tökum samt ekkert af liði Fulham, það hefði hvaða lið sem er strögglað gegn þeim eins og þeir spiluðu í dag.

  Það má líka velta því fyrir sér hvort það megi ekki bara setja Nunez í byrjunarliðið. Þetta er strákur sem þarf vissulega sinn tíma til að aðlagast deildinni, smá óöryggi í honum ennþá, en samt er hann með mark og stoðsendingu í dag. Þetta er leikmaður sem á eftir að verða algjört skrímsli fyrir okkur, þið lásuð það fyrst hér (eða mögulega eru einhverjir búnir að spá því frá því hann kom til Liverpool í sumar og þá lásuð þið það þar). Við vitum að Firmino er líka geysiöflugur af bekknum, og getur komið inná í framlínuna og á miðjuna…

  …talandi um miðjuna, við vitum ekki hversu slæm meiðslin hjá Thiago eru, en núna eru hann, Ox, Curtis og Keita allir frá. Glugginn er opinn Klopp #justsayin

  Næstu verkefni

  Það er æfingaleikur gegn Villa á morgun, spurning hvernig hann verði mannaður í ljósi þess hvað bekkurinn er orðinn þunnur. Ætli við sjáum ekki Adrian, Bajcetic, Nat og fleiri?

  Svo er það næsti deildarleikur á mánudag eftir viku, þegar okkar menn mæta á Old Trafford. Rétt að rifja upp að í fyrra unnu okkar menn þann leik 0-5, mikilvægt að gleyma því ekki. Crystal Palace á Anfield (smá mislestur hér í gangi).

  Það er byrjað með látum.

  [...]
 • Liðið gegn Fulham – veislan að byrja!

  Veislan að byrja, og fyrsta byrjunarliðið kemur lítið á óvart:

  Bekkur: Adrian, Gomez, Sepp VDB, Milner, Elliott, Carvalho, Nunez, Bajcetic, Chambers

  Bekkurinn ber þess merki að það eru meiðsli í hópnum: það vantar Kelleher, Konate, Tsimikas, Ramsay, Ox, Jones, Keita og Jones, sem allir eru meiddir. Keita átti samt að vera mjög nálægt því að geta verið með. Ekki klárt af hverju Nat Phillips er ekki á bekk, mögulega er Sepp á undan honum en mögulega varð hann fyrir einhverju smá hnjaski á æfingu.

  Ef maður ætti að veðja á hvaða leikmenn komi inná, þá væru það Nunez, Elliott, Carvalho og Milner. Ekki loku fyrir það skotið að Bajcetic eða Chambers fái frumraun undir lokin ef liðið verður búið að ná öruggri forystu.

  Verður Salah sá fyrsti til að skora í fyrsta leik leiktíðar, 6 ár í röð? Hann á nú þegar metið með fyrstu 5 árin…

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Gullkastið – Gummi Ben hitar upp fyrir nýtt tímabil

  Enski boltinn fer formlega af stað núna um helgina og byrjar Liverpool á ferð til London í fyrramálið. Gummi Ben tók skemmtilegt spjall við okkur til að spá í spilin fyrir komandi vertíð.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Gummi Ben

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils Gull       Húsasmiðjan          Sólon           Jói Útherji         Ögurverk ehf

  MP3: Þáttur 389

   

  [...]
 • Spá Kop.is

  Þetta er að byrja!

  Kickoff á laugardaginn þegar okkar menn rúlla á Cravenkofann til að spila við Fulham og þá þekkið þið þetta, hin ógleymanlega spá okkar drengjanna mætir á staðinn. Að þessu sinni erum við 11 sem sendum inn spá og þetta er einfalt. Það að vera spáð 1.sæti gefur liði 20 stig og svo rúllar þetta niður í það að liðið sem er í 20.sæti fær 1 stig.

  Við leggjum stigin saman og röðin myndast þannig, minnst er hægt að fá 11 stig og mest 220 stig. Ef að lið standa jöfn að stigum fær það hærra sæti sem að er spáð hærra sæti af einhverjum okkar pennanna. Leggjum af stað, hér kemur 11. – 20.sæti í spánni okkar og seinni helminginn kynnum við í sérstöku upphitunarpodcasti sem við tökum upp á Sólon á morgun með sérstökum gesti.

  Af stað, byrjum neðst og vinnum okkur upp!

  20.sæti Bournemouth 17 stig

  Við erum sammála Scott Parker stjóra Bournemouth, liðið hans er ekki tilbúið í efstu deild. Þetta öskubuskuævintýri suðrstrandarinnar er vissulega skemmtilegt og þeir eru að spila fínan fótbolta. Munurinn á deildunum er rosalegur og hann er enn ekki búinn að ná inn leikmönnum sem gætu bjargað liðinu. Þeir eru enn að mausa það að sækja Nat okkar Phillips og eitt þeirra stærsta verkefni í sumar var að gera nýjan samning við Dom nokkurn Solanke, hann er lykill að sóknarleik þeirra og það er spennandi leikmaður á miðjunni þeirra, Phillipp nokkur Billing. Aðeins einn okkar telur þá eiga séns á að halda sér uppi og þeir eru afgerandi neðstir í spánni!

  19.sæti Brentford 37 stig

  Annað öskubuskuævintýri rúllar niður með Bournemouth. Býflugurnar danskættuðu frá London lenda í hinu klassíska “second season syndrome” og falla niður eftir frábæra frammistöðu í fyrra. Við sáum þá sannarlega lenda í vanda þegar á tímabilið leið og við auðvitað erum enn eilítið súr eftir að segja má að jafnteflið við þá síðasta haust hafi verið eitt af lykilstigunum sem við misstum af og þar með af titlinum. Þeir náðu ekki að halda Eriksen og hafa ekki náð að styrkja liðið sitt nú í sumar. Lykilmaður að þeirra árangri er framherjinn Ivan Toney, alger durgur sem er frábær klárari, og markmaðurinn David Raya er mjög öflugur. Það mun ekki duga þeim og þeir rúlla úr deild þeirra bestu.

  18.sæti Fulham 37 stig

  Sami stigafjöldi en tveir okkar telja þá ná 13.sæti og það setur þá í sætið ofan við Brentford á markatölu! Drengirnir hans Marco Silva eru eiginlega uppskriftin að jójó liði, þeir hafa farið upp og niður reglulega síðustu ár og við erum á því að þannig verði það áfram. Þeir segjast ætla að nálgast verkefnið á annan hátt en síðast, þá versluðu þeir endalaust af leikmönnum og fengu aðra lánaða alveg á grilljón en það dugði ekki neitt. Nú ætla þeir að treysta á þá leikmenn sem komu þeim upp úr Championshipdeildinni og bæta við sig færri og sterkari leikmönnum en þá. Þeir verða með Bernd Leno í markinu og sóttu öflugan varnarmiðjumann, Joao Paulinha til Sporting en ef að þeim á að takast að halda sér uppi er alveg ljóst að Aleksandr Mitrovic verður að færa formið sitt úr næstefstu deild í þá efstu. Hann er markavél í neðri deildum en hefur aldrei náð því í Úrvalsdeildinni en það þarf að breytast ef að vel á að fara. Við höfum ekki trú á því.

  17.sæti Nottingham Forest 44 stig

  Við fögnum því að gamall risi er mættur á ný í efstu deild. Fyrir okkur sem munum níunda og tíunda áratug síðustu aldar munum eftir bardögunum við Forest og þeim ríg sem að var augljós á milli liðanna þá og við sáum glitta í þegar þau léku saman í bikarnum í fyrra. Það eru tengingar milli liðanna í dag, stjórinn þeirra Steve Cooper var alinn upp sem þjálfari í yngri liðunum okkar auk þess sem að í sumar voru Neco Williams og okkar fyrri leikmaður Taiwo Awoniyi, en hann þekkir Cooper frá veru þeirra hjá LFC. Þessir tveir eru hluti 12 leikmanna sem liðið hefur keypt eða fengið lánað til að halda sér uppi, þeir hafa eytt rúmum 100 milljónum punda auk þess að láta Jesse Lingaard fá risasamning, eru virkilega að leggja mikið undir til að eyða meiri tíma á meðal þeirra bestu. Við teljum það takast en vissulega verði það naumt!

  16.sæti Everton 52 stig

  Okkar bláu nágrannar eru í basli. Það er klárt. Þeir þurftu að selja leikmenn til að haldast innan fairplay reglnanna, stærsta nafnið þar Richarlison og enn sem komið eru þeir ekki farnir að ná í neina leikmenn sem geta styrkt þá til að gera nokkuð annað en berjast gegn falli. Everton er einfaldlega í miklu brasi, eignarhald þeirra er eiginlega óljóst eftir að hafa misst fjármagn Uzmanovs karlsins sem var bannaður vegna tengsla við Pútín, stóra áhersla félagsins er að byggja nýja völlinn í miðbænum þó ekki séu peningarnir margir og í dag kom það svo upp að þeirra langmikilvægasti leikmaður Dominic Calvert-Lewin verður frá í nokkrar vikur vegna meiðsla. Það var þannig að fjórir af okkur telja þá munu falla og það er einfaldlega þannig að eins og staðan er núna myndu flestir Everton aðdáendur bara þiggja sautjánda sæti deildarinnar. Blessaðir karlarnir eru enn á ný komnir á þær slóðirnar…æjæjæjæjæjæjæ…eða!?

  15.sæti Leeds 61 stig

  Ofan við Everton er annað stórt nafn sem virðist aðeins vera á einhverri hliðargötu miðað við það sem þeir ætluðu sér. Eftir flott tímabil 2020-2021 fór allt í skrúfuna hjá Bielsa og að lokum fór svo að sú goðsögn var látin fara og Jesse Marsch falið að halda liðinu uppi. Það tókst honum en nú í sumar seldu þeir svo sína sterkustu leikmenn í Raphinha og Kalvin Phillips og í stað þeirra hefur Marsch leitað inn á markað sem hann þekkir þegar hann sótti Brendan Aaronson og Tyler Adams frá Salzburg og síðan vængmanninn Luis Sinisterra til Feyenoord. Þetta eru allt óreyndir leikmenn sem eiga að fylla skörðin, Marsch segir liðið nú á miklu betri stað en þegar hann kom til þeirra, hann er að leggja mikið upp úr varnarleiknum sem var vissulega skelfilegur lengst af í fyrra og segist ekki endilega vera hættur að versla, en muni þó bara sækja leikmenn sem styrkja byrjunarlið þeirra. Verða í ströggli en halda sætinu.

  14.sæti Southampton 73 stig

  Við erum svolítið að tala um svona eitt af skuggaliðum deildarinnar í Southampton, við erum með þá í flakki í neðri hlutanum en bara einn okkar telur þá geta fallið. Við höfum töluverða trú á stjóranum Hassenhuttl sem hefur náð fínum árangri og sótt leikmenn sem við höfum lítið þekkt áður en þeir komu þangað og í sumar er hann enn að því. Keypt sex leikmenn sem engir hafa reynslu af deildinni en hafa hæfileika til að ná fótfestu þar, helsta nafnið er Joe Aribo sem hefur verið lykilmaður á miðjunni með Rangers og mun leika þar með langbesta leikmann Dýrðlinganna, James Ward Prowse. Óspennandi tímabil svo sannarlega en áfram sæti á meðal þeirra bestu haustið 2023.

  13.sæti Crystal Palace 95 stig

  Það er töluverður stigamunur milli sæta 13 og 14, við teljum lærisveina Patrick Viera verða vel ofan við fallbaráttuna og sigli lygnan sjó. Það var virkilega eftirtektarvert að sjá leikstíl þeirra á síðustu leiktíð, eftir varnarliðið sem Woj karlinn hafði búið til var komið lið sem vildi halda boltanum, þorði að pressa og nýta hraða sem bjó í þeirra sóknarlínu. Árangurinn fínn og við teljum að svo verði áfram og þetta kröftuga lið úr Suður London verði áfram örugglega í hóp þeirra bestu með sinn háværa og sterka heimavöll. Þeir héldu í alla sína lykilmenn og stærstu kaupin eru í Cheikh Doucoure, öflugum varnarmiðjumanni frá Lille sem ætlað er að fylla skarð Conor Gallagher sem fór aftur til Chelsea eftir lán á Selhurst Park á síðustu leiktíð. Lykilmaðurinn er áfram Wilfred Saha og svo eiga þeir einn mest spennandi hafsent í deildinni utan stóru liðanna, Marc Guehi. Ernirnir fljúga áfram á meðal þeirra bestu.

  12.sæti Wolves 102 stig

  Þetta ólseiga Úlfalið færist aðeins neðar í töflunni að okkar mati en algerlega orðnir miðjuklúbbur í deild þeirra bestu. Nú þegar Burnley hafa kvatt deildinni eru nokkrir okkar á því að hér sé mætt leiðinlegasta lið deildarinnar, þeir eru vissulega fyrst og síðast lið sem lokar varnarleiknum sínum í lás og eru tilbúnir að standa í vörn sem allra mest og keyra skyndisóknir, ekki alveg það skemmtilegasta til að horfa á en hefur svínvirkað fyrir þá. Stóru kaupin enn sem komið er koma frá Burnley, hafsentinn Nathan Collins auk þess sem Adama Traore er kominn aftur eftir Barcalánið og virðist ætla að vera þar í vetur. Það eru enn mikið af slúðursögum um leikmannabreytingar þar, bæði inn og út og svolítið erfitt að átta sig á því hvernig það fer, það eru lið á eftir stærri nöfnunum í leikmannahópnum eins og Coady og Neves og það eru mörg nöfn sem eru sögð á þeirra radar, þar á meðal á þeirra vinsælasta kaupmarkaði, Portúgal. Matty góðvinur okkar Kop-ara fullyrðir það að heimavöllur Úlfanna sé sá erfiðasti í deildinni, við trúum kappanum alveg og teljum Úlfana verða geirneglt miðjudeildarlið í vetur.

  11.sæti Brighton 105 stig

  Efsta liðið í neðri hlutanum í spánni okkar eru mávarnir hans Graham Potter. Potter hefur lagt mikið upp úr að spila skemmtilegan fótbolta og búið til leikmenn á sama tíma. Þeir seldu Yves Bissouma sem lengi var orðaður við okkur og stærsta nafnið sem er að koma þar inn er Julio Enciso, ungur framherji frá Paraguay. Það er í raun Potter og hans plan sem við teljum að sé lykillinn að því að þetta lið sem er í raun ekki stórlið á neinn mælikvarða verði á lygnum sjó og áfram drulluseigt og gefi öllum liðum leik alls staðar. Það er ólíklegt að bakvörðurinn Cucurella verði þarna áfram og þeir verða að stóla á að leikmenn eins og Trussard, Dunk og Maupay verði í góðum gír áfram og við teljum að Brighton muni kaupa sér leikmenn fyrir gluggalokin sem Potter mun gíra upp í sinn fótbolta og niðurstaðan verði 11.sætið.

  Þar með er fyrri hlutinn mættur, við förum yfir efri hlutann í podcastþættinum okkar frá Sólon á morgun og setjum inn þá röð í kjölfarið. Heyrumst þá!

  [...]
 • Upphitun: Fyrsti deildarleikur tímabilsins vs. Fulham á Craven Cottage

  Heilir og sælir Liverpúlarar nær og fjær og verið fótboltalega velkomnir til upphafsleiksins í knattspyrnuveislu vetrarins! Rauða herinn blæs til bardaga á hefðbundinn máta í fyrstu umferð með leik gegn nýbökuðum nýliðum í úrvalsdeildinni. Við förum á fljúgandi fulla ferð gegn Fulham í kvikukraumandi upphituneldgosi á Craven Cottage! Upp, upp mitt Púl!!!

  Mótherjinn

  Hinir fimleikafélagsklæddu Fúlverjar stöldruðu stutt við í Championship eftir að hafa fallið úr deild hinna bestu og bresku sumarið 2021. Til að liðsinna þeim aftur upp í draumalandið fengu þeir Portúgalann Marco Silva við stjórnvölinn sem hafði góða reynslu af ýmsum verktakavinnum með botnbaráttuklúbbana Hull City og Watford en með takmörkuðum árangri þó. Liverpool-búar þekkja hann þó aðallega frá tíma hans við stjórn bláliða borgarinnar í Evritúnfíflum og þá sér í lagi á 96. mínútu Bítlaborgarslagsins 2. desember 2018 á Anfield þegar að draumaprinsinn Divock setti mark sitt á leikinn og ætlaði auðvitað strax að sækja boltann í netið til að bæta við marki enda nægur tími eftir. Sælla minninga:

  Næstum sléttu ári eftir það undursamlega uppbótarmark þá var Divock aftur örlagavaldur í lífi Senhor Silva þegar hann skoraði 2 mörk í 5-2 sigri Liverpool á Everton en þau úrslit gulltryggðu brottrekstur hins brúnaþunga boltastjóra. Marco má þó njóta sannmælis fyrir sérlega góðan árangur með Fulham á nýliðnum vetri þar sem að Vestur-Lundúnaliðarnir fóru með himinskautum frá fyrsta flauti og voru tveimur mörkum frá því að jafna markamet skoruð í Championship með 106 mörk skoruð á tímabilinu.

  Þeir sigruðu næstneðstu deildina örugglega og frá sjónarhóli Púlara þá var afar áhugavert að fylgjast með liðinu af ýmsum ástæðum. Hin fyrst var sú að við seldum Harry Wilson til þeirra í byrjun síðasta tímabils fyrir 12 milljónir punda og hann átti stórfínt tímabil með 10 mörk og 19 stoðsendingar í átt að upprisunni úr neðri dýpum. Á lokamínútum janúargluggans þá var ungstirnið Fabio Carvalho örstuttri ögurstuttu frá því að klára kaup til Liverpool sumarið eftir en fyrir gráglettni örlaganna þá frestaðist sú fullnaðarframkvæmd fram með vorinu þrátt fyrir að niðurstaðan hafi á endanum orðið sú sama eins og flestir þekkja.

  Að lokum má nefna lánsdíl Neco Williams sem var gerður mínútunni nógu tímanlega í kaupglugganum til þess að hann gæti spilað fullt af mínútum, skorað 2 mörk og bætt við 2 stoðsendingum fyrir Fulham. Neco endaði þó að lokum hjá Forest fyrir fúlgu fjár núna í sumar og það var máske skiljanleg endastöð enda er Nottingham nær fyrirheitna föðurlandinu í Wales frekar en vesturbakkar Thames-árinnar. Það má því með sanni segja að Liverpool hafi haft sitt að segja um síðasta tímabil Fulham og því vel við hæfi að liðin mætist í fyrsta leik tímabilsins.

  Af helstu liðsmönnum heimamanna má nefna serbneska sóknarmanninn sóknþunga Aleksandar Mitrovic sem sallaði inn 43 mörkum á síðustu leiktíð en á laugardaginn vonumst við frekar eftir úrvalsdeildarforminu hans frá tímabilinu þar áður þegar hann setti bara 3 mörk allan veturinn. Fyrrum ManYoo-maðurinn Andreas Pereira var keyptur í sumar og er líklegur í byrjunarliðið ásamt Bernd Leno sem kom í vikunni frá Arsenal eftir bekkjarsetu. Stærstu kaup Fulham voru þó varnarsinnaði miðjumaðurinn João Palhinha fyrir heilar 20 mill evra frá Sporting Lisbon og er hann áhugaverður nýliði í ensku úrvalsdeildinni sem vert er að hafa auga með.

  Harry okkar Wilson er meiddur í næsta leik þannig að uppstillt lið Marco Silva er líklegt til þess að vera á þessa leið:

  Líklegt byrjunarlið Fulham í leikskipulaginu 4-2-3-1

  Liverpool

  Samfélagsskjaldargæjarnir undir skipstjórn Jürgen Klopp eru mættir eftir nýjustu viðbótina í bikarsafnið og stefna fullu stími á alvöru atlögu að Englandsmeistaratitlinum ásamt öllu öðru sem í boði er. Um síðustu helgi þá sáum við sérlega einbeittan og hungraðan hóp tæta Man City í sig í alvöru leik með þungum undirstraum sem markaði yfirlýsingu um árangursmarkmið tímabilsins.

  Við gerum okkur vongóðar væntingar um að Liverpool endirtaki söguna um árangur árin eftir að hafa verið 1 stigi frá toppi deildarinnar og einnig tímabilið eftir að hafa tapað CL-Final fyrir Real Madrid. Bæði árin eftir þau vonbrigði voru sérlega happadrjúg og þá sáum við einstaklega einbeittan Rauðan her landa stærstu titlunum í boði. Það má deila um hvort að Liverpool hafi styrkt sig í sumarglugganum eða einfaldlega tekið öflugt hliðarskref en það er ljóst að mikil endurnýjun er í gangi og margir spennandi ungir leikmenn eru mættir til leiks í rauðu treyjunni.

  Missirinn af Mané, Origi, Minamino, Neco og fleirum verður ekki gerður upp fyrr en að leikslokum hjá Darwin, Carvalho og Ramsay og hversu þung lóð þeir hafa langt á vogarskálarnar í velgengni þessa og komandi tímabila. Öll teikn á æfingatímabilinu eru þó þau að við séum að fá fullsterkan sóknarmann í Darwin sem gæti verið hápunktur þróunarkenningarinnar og frumskógarlögmálsins! Þá hefur Fulham-forverinn Carvalho virkað mjög spennandi í sínum sóknarsprettum og gæti með tíð og tíma orðið hálfgerð arftakablanda af Firminho og Couthinho. Ho ho ho!

  Meiðslalistinn hefur þó verið að lengjast í leiðindum sínum og því miður eru Oxlade-Chamberlain, Kelleher, Jota, Jones og Konate orðnir meiddir en mislengi þó hver og einn í sínu amstri. Það ætti þó ekki að bitna á byrjunarliðinu sem verður líklegast að mestu leiti hið sama og síðustu helgi nema hvað að Alisson kemur inn fyrir skjaldarvörðinn Adrian. Hið eina óvænta sem við gætum grunað Klopp um væri að setja Darwin inn fyrir Bobby en ég mun veðja á að hann breyti ekki uppskriftinni frá síðasta sigurleik. Upphafslið Liverpool á fyrsta leik tímabilsins ætti því að vera eftirfarandi:

  Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

  Tölfræðin

  • Liverpool hefur unnið 16 af sínum síðustu 18 deildarleikjum.
  • Fulham hefur tapað sínum síðustu 6 heimaleikjum í Úrvalsdeildinni.
  • Liverpool er með 58% vinningshlutfall í öllum leikjum gegn Fulham og 47% vinning á Craven Cottage.
  • Jamie Carragher er sá Liverpool-leikmaður sem hefur spilað flesta leiki gegn Fulham eða 20 leiki samtals. Steven Gerrard er næstur með 16 leiki.
  • Billy Liddel hefur skorað langflest mörk gegn Fulham fyrir hönd Liverpool eða 13 mörk í 12 leikjum. Robbie Fowler er næstur með 8 mörk í 7 leikjum.

  LiverFulPool FC

  Lið leikmanna sem hafa spilað fyrir bæði Liverpool og Fulham og pússlað saman af pistlahöfundi er sérlega sértækt sóknarlega og agalega áhugavert almennt. Geysisterkt sóknarlið með Riedle og Collymore í fremstu línu og með tvo snilldar il trequartista í holunni að mata þá af færum í formi Beardsley og Litmanen. Miðjan er létt, lipur og lágvaxin með Houghton á hægri og Harvey á vinstri með Murphy að dreifa boltanum vængjanna á milli. Smá frumlegheita og þarfagreininga er þörf í vörninni þar sem Finnan neyðist til að spila hafsent og Riise og Neco sækja upp bakvængina með scouserinn Tony Warner í markinu. Sókndjarft sigurlið sem sæist sífellt í sjónvarpinu:

   

  Stóri skandallinn er auðvitað sá að hvorki Lazar Markovic né Paul Konchesky komast í liðið en næsti maður inn af bekknum er hinn ofurefnilegi Lauri Dalla Valle og vofur leikmannaskiptanna sem blessunarlega urðu aldrei svífa yfir vötnunum með Henderson takandi sigur-shuffle fyrir framan Clint Dempsey. Þökkum snillingunum í LFChistory fyrir grunnheimildir en enginn sannur Púlari þarf að leita lengra en í þann viskubrunn til að finna gullmola og gimsteina um Liverpool.

  Kloppvarpið

  Blaðamannafundur Klopp er kominn:

  Upphitunarlagið

  Til að heiðra heimavöll hvítliða þá koma enginn annar til greina í upphitunarlagspilun en sá hvítasti af öllu hvítu og frægasti stuðningsmaður Fulham: heimsmeistari hettunnar og heltekinn hipp hopp Halli; herra EMINEM. Við Púlarar vonum að sjálfsögðu að FulEMINEM mæli manna heilastur og að hans lið tapi sjálfum sér algerlega og þar með leiknum samhliða því en lagið er hipp hoppandi heitt og upphitandi:

  Spaks manns spádómur

  Liverpool sýndi vígtennurnar og gargandi hungur um síðustu helgi gegn meisturum Man City og ég geri ekki ráð fyrir neinn vægð eða kæruleysi í fyrsta leik tímabilsins gegn nýliðum Fulham. Það er alltaf ákveðið vandaverk að mæta í slíkan leik en okkar menn eru því vel vanir eftir leikjaniðurröðun síðustu ára og leiktíminn hjálpar til við að tempra stemmningu heimavallarins um hádegisbilið.

  Það er hugsanlegt að það verði ákveðin kergja eða undiralda tengd leikmannaskiptum liðanna síðustu örfáu ára og þeirri staðreynd að stjóri þeirra stýrði eitt sinn Everton (tilheyrandi samúð vottuð). En ég trúi því að gæði og grimmd okkar manni muni yfirstíga alla erfiðleika í þessum leik og skila okkur 3 stigum á töfluna. Markaskorun munu annast Salah, Darwin og Diaz í sterkum 0-3 útisigri!

  Hvernig fer leikurinn gegn Fulham?

  Skoða niðurstöður.

  Loading ... Loading ...

  YNWA

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Spáuppgjör 2021-2022

  Það er ekki seinna vænna en að gera upp spádómsgáfur (sic!) okkar kop.is manna frá síðasta ári, enda um það bil korter í næsta mót. Þetta gerum við enda á hverju ári.

  Eins og venjulega settumst við niður síðasta haust, kíktum í kristalskúlur, telauf og fleira (ekki endilega saman samt), og komumst að ákveðinni niðurstöðu (sjá póstana frá Magga: fyrri hluti og seinni hluti). Sú niðurstaða gekk ekki alveg eftir (eins og langoftast), en í stuttu máli þá vorum við hópurinn samanlagt með frávik upp á 3.0 þegar spáin í heild sinni er skoðuð. Eða eins og skáldið sagði: “Not great, not terrible”. Reyndar voru síðustu tvö tímabil þar á undan með hærra frávik, og því má halda því fram að við höfum verið að bæta okkur.

  Einstakir pennar voru svo með meira eða minna frávik eins og gengur (þar sem frávik upp á 0 segir að manni hafi tekist að spá rétt til um öll sætin). Besta einstaka frávikið kom hjá Halldóri, en hann var með frávik upp á 1.9. Næstu menn voru með frávik upp á 2.8: Hannes og Sigurður Einar deildu þeirri tölu. Frávikið hjá undirrituðum? Förum ekki út í svoleiðis smáatriði hér.

  Til gamans er ágætt að bera þetta saman við spátölvuna sem fivethirtyeight notar til að spá fyrir um deildina í upphafi hverrar leiktíðar (sjá hér). Ofurtölvan var með frávik upp á 2.0, sem er vissulega betra en frávikið hjá Kop.is hópnum í heild sinni, en verra en hjá Halldóri, hann hlýtur því titilinn ofurtölva ársins að þessu sinni.

  Hvaða lið voru okkur erfiðust? Það var fyrst og fremst Leeds sem við spáðum 8. sæti, en reyndust rétt sleppa við fall þegar upp var staðið, og reyndust vera með frávik upp á 9 sæti. Eins reyndust Brentford ekki jafn áfjáðir í að falla eins og við héldum. Hefði okkar spá gengið eftir hefðu þeir endað í neðsta sæti, en það 13. var niðurstaðan, frávikið var því upp á 7 sæti. Everton komu svo þar fast á eftir. Everton koma svo að sjálfsögðu þar rétt á eftir, þeir hefðu lent í 10. sæti skv. spánni en enduðu í því 16., og því frávik upp á 6 sæti.

  Síðan er það Excel skjalið góða sem heldur utan um spárnar í podcastinu. Eins og venjulega er haldið utan um hvort þeir Einar Matthías, Steini og Maggi spái rétt fyrir um úrslit (sigur/jafntefli/tap), og fæst eitt stig fyrir slíkt, og svo fást 2 stig aukalega ef markatalan reynist rétt. Í þetta sinn er erfitt að bera saman heildarstigafjöldann enda voru menn misduglegir að mæta í podcast (sumir þurftu að láta kjósa sig formann Kennarasambandsins og svo var sitthvað fleira að flækjast fyrir). Við deilum því í fjölda podcasta hjá hverjum og einum, og fáum út spáhlutfall út frá því. Þar reyndist Steini bera höfuð og herðar (eða mögulega kannski bara rétt kollinn) yfir þá hina félaga sína, með spáhlutfall upp á 0.93, Maggi var með 0.92 og Einar með 0.87. Semsagt, að meðaltali krækti Steini sér í 0.93 stig í hverju podcasti, þar sem spáin er nú lang oftast sú að okkar menn vinni sinn leik, þá segir þetta okkur að Steini er ögn naskari að giska á rétta markatölu.

  Nóg um þetta að sinni, næsta spá bíður handan við hornið, og fyrsti leikurinn fer að bresta á!

  [...]
 • Fyrsti leikur í deild.

  Það er alltaf ákveðin spenna sem fer í gang þegar það styttist í fyrsta leik. Við vitum öll að æfingarleikir eru nákvæmlega það ÆFingarleikir og hafa lítið gildi þegar alvaran fer af stað. Maður hefur séð Liverpool vera frábæra í æfingarleikjum og átt svo skelfilegt tímabil og svo ekki litið vel út og átt gott tímabil.
  Æfingarleikirnir í ár voru alveg ágætir, maður sá að þegar c.a hefðbundið byrjunarlið var að spila þá tókum við völd í öllum leikjum en svo sá maður líka frammistöður sem maður þakkaði fyrir að voru partur á æfingarleik en ekki einhverju sem skiptir miklu máli.

  Á laugardaginn er fyrsti leikurinn og er það ferð í höfuðborgina til að berjast við Fulham um 3 stig og verða þeir án efa vel gíraðir í þennan leik en svona leikir geta verið erfiðir gegn nýliðum(sjá Arsenal á síðustu leiktíð). Það er því við hæfi að rifja upp fyrsta leik Liverpool á hverju tímabili síðan að úrvalsdeildinni var stofnuð en það má segja að við höfum lent í ýmsu á þessum tíma.

  1992/1993 N.Forest(úti) 0-1 tap Teddy Sheringham að gera okkur lífið leitt.
  1994 Sheffield Wednesday(heima) 2-0 sigur N.Clough með mörkin.
  1995 C.Palace(Ú) 1-6 sigur þarna fóru væntingar annsi hátt upp Rush(2), McManaman(2), Molby og Fowler með mörkin.
  1996 Sheffield Wednesday(h) 1-0 sigur Stan Collymore mætur á svæðið og byrjaði vel
  1997 Boro (út) 3-3 þvílíkur leikur Bjornebye kom okkur yfir, Fabrizo Ravanelli jafnar, Barnes skorar, Ravanelli jafnar, Fowler skorar og þá er þetta komið neibb, Ravanelli skorar þrennu.
  1998 Wimbledon(ú) 1-1 Owen jafnaði 20 mín fyrir leikslok.
  1999 Southampton(ú) 1-2 sigur Riedle og Owen með mörkin
  2000 Sheffield Wednesday(ú) 1-2 sigur Við alltaf að mæta uglunum en náðum í 3 stig gegn þeim en og aftur. Fowler og Titi Camara með mörkin.
  2001 Bradford(h) 1-2 sigur Heaskey með sigurmark.
  2002 West Ham(h) 2-1 sigur Owen með bæði
  2003 A.Villa(ú) 0-1 sigur Riise með flott mark.
  2004 Chelsea(h) 1-2 tap Owen jafnar þegar 10 mín eru eftir en Hasselbank sem kom inn á fyrir Eið Smára í hálfleik með sigurmark í lokinn.
  2005 Tottenham(ú) 1-1 Cisse kom okkur yfir.
  2006 Boro (ú) 0-0 í bragðdaufum leik.
  2007 Sheffield Utd(ú) 1-1 Fowler með mark.
  2008 A.Villa(ú) 1-2 sigur sjálfsmark og geggjað Steven Gerrard aukaspyrnu mark í lokinn nældu okkur í 3.stig.
  2009 Sunderland(Ú) 0-1 sigur Torres með mark 7 mín fyrir leikslok.
  2010 Tottenham(ú) 2-1 tap Gerrard jafnaði úr víti
  2011 Arsenal(h) 1-1 Ngog kom okkur yfir en Reina með klúður í blálokin sem gerði það að verkum að þetta endaði jafnt.
  2012 Sunderland(h) 1-1 Suarez kemur okkur yfir en endar í lélegum jafnteflisleik.
  2013 WBA(úti) 3-0 tap Skelfilegur leikur en í stöðunni 1-0 lét Agger reka sig af velli.
  2014 Stoke(h) 1-0 sigur Sturridge með sigurmark og Mignolet með víta vörslu í restina.
  2015 Southampton(h) 2-1 sigur sterling og Sturridge með mörkin
  2016 Stoke(ú) 0-1 sigur Coutinho með stórkostlegt sigurmark 5 mín fyrir leikslok.
  2017 Arsenal(ú) 3-4 sigur Frábær skemmtun. Þeir komast yfir en við skoruðum næstu fjögur mörk áður en þeir gerðu þetta smá spennandi í restina. Coutinho(2), Lallana og frábær Mane mark.
  2018 Watford(ú) 3-3 Mane, Firmino og Salah með mörkin. Þetta virkar nú sem smá spennandi framlína hugsaði maður eftir þennan leik 😉
  2019 West Ham(h) 4-0 slátrun Mane(2), Salah og Sturridge með mörkin.
  2020 Norwich(h) 4-1 sjálfsmark, Salah, Van Dijk og Origi kláruðu þennan leik.
  2021 Leeds(h) 4-3 þetta var heldur betur skemmtun sem við rétt höfðum. Salah með þrennu og sigurmark í lokinn úr víti en Van Dijk skoraði líka í þessum leik.
  2022 Norwich(ú) 0-3 sigur Jota, Firmino og Salah með mörkin í þægilegum sigri
  2023 Fulham(ú) ?

  30 leikir 18 sigrar, 8 jafntefli og 4 töp staðreynd
  Við vonum að sjálfsögðu að okkar strákar verða tilbúnir í slaginn á laugardaginn og næli í 3 stig.

  Hérna eru svo svipmyndir úr 1-6 sigrinum gegn Palace 1994/1995.

  [...]
 • Diogo Jota framlengir

  Diogo Jota var að framlengja með við Liverpool til næstu fimm ára, hans fyrri samningur var ekkert að renna sitt skeið heldur er þetta gott dæmi um Liverpool að verðlauna þá leikmenn sem standa sig vel, ljómandi gott mál. Hann er meiddur eins og er en verður ekki lengi frá skv. nýjustu fréttum af honum.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close