Latest stories

 • Liverpool 2-0 Aston Villa

  Mörkin

  1-0  Sadio Mané 71.mín
  2-0  Curtis Jones 89.mín

  Leikurinn

  Aston Villa sýndu klassa með því að standa heiðursvörð fyrir Englandsmeistarana og gerðu það öllu fagmannlegra en gert var fyrr í vikunni. Leikurinn byrjaði rólega en eftir 3 og hálfa mín hefði alveg mátt dæma víti er Salah lék á mann og annan inni í teignum og Douglas Luiz togaði hann niður án þess að reyna nokkuð við boltann.

  Liverpool héldu boltanum mikið frá fyrstu mínútu en án þess þó að skapa sér opnanir og gestirnir voru með kraft í sinni nálgun þó að ónákvæm væri. Við reyndum að keyra upp hraðann á köflum en því miður voru lokasendingar oft misheppnaðar og illa gekk að skapa alvöru færi. Helstu fréttir voru gult spjald á Andy Robertson fyrir brot á Douglas Luiz um miðjan hálfleikinn og úr aukaspyrnunni áttu Villa skalla eftir fyrirgjöf.

  Að hálftíma liðnum höfðu heimamenn ekki skapað eitt færi eða átt skot í átt að marki, en Douglas Luiz títtnefndur átt skot sem var beint á Alisson. Á 35.mín áttu Salah og Mané ágætt upphlaup og voru hælspyrnu frá því að spila Salah í gegnum vörnina. Smávegis líf færðist í okkar menn og Keita spilaði Salah í þröngt skotfæri sem var auðveldlega varið af Pepe Reina í markinu.
  Fátt markvert gerðist fram að hálfleik og frammistaðan ansi döpur og bragðlítil.

  0-0 í hálfleik.

  Vonir stóðu til þess að Klopp myndi öskra liðið í gang með kjarnyrtri hálfleiksræðu en þær vonir urðu að vonbrigðum þar sem gestirnir komu sprækari úr tepásunni með nokkrum færum í upphafi seinni hálfleiks. Mikill kraftur var í Aston Villa og Liverpool í bölvuð brasi með fallbaráttudrengina frá Birmingham. Breytinga var þörf og eftir klukkutíma leik gerði Klopp þrefalda skiptingu með því að setja inn þá þrjá byrjunarliðsmenn sem hann hafði hvílt.

  Keita fékk að halda áfram leik og það átti eftir að koma ágætlega út á 70.mínútu er hann átti góða sendingu á Mané í teignum. Senegalinn sparaði ekki slúttið og setti boltann sláin inn með vinstri fæti. Ísinn loksins brotinn og við þetta færðist meira líf í leik Liverpool. Salah féll í teignum stuttu síðar með vítaspyrnulykt og átti síðan skot fljótlega þar eftir sem að Pepe Reina gerði vel að verja.

  Gestirnir gerðust örvæntingarfullir og fjölguðu sóknarmönnum inná í von um að jafna en fengu á sig skyndisókn í staðinn rétt undir lok venjulegs leiktíma. Curtis Jones var kominn inná sem varamaður og hóf sóknarupphlaup fram á við. Boltinn færðist á endanum á Robertson sem krossaði á Salah á fjærstöng og sá egypski skallaði til Jones sem kláraði snyrtilega í teignum með léttri viðkomu í Mings. Frábært fyrir Scouserinn unga að eiga öfluga innkomu með marki og það gæti ýtt undir fleiri mínútur fyrir hann það sem eftir lifir tímabilsins. Grealish átti gott skot í uppbótartíma sem að Alisson varði vel en leiknum lauk með öruggum heimasigri.

  2-0 sigur fyrir Liverpool

  Bestu menn Liverpool

  Margir leikmenn okkar voru að spila undir pari megnið af leiknum en af þeim sem hrósa má fyrir frammistöðuna þá var Salah líflegur fram á við með margar skottilraunir og stoðsendingu í lokin. Keita tókst að snúa ekkert sérstakri frammistöðu framan af leik sér í vil er hann fékk að vera áfram inná og launaði traustið með stoðsendingu. Þá var Trent Alexander-Arnold viljugur fram á við að vanda og Alisson traustur í öllum sínum aðgerðum þegar á þurfti að halda.

  Maður leiksins að mínu mati var Sadio Mané sem kom Liverpool loks á blað í leiknum með glæsilegu marki og var líflegur fram á við allan leikinn.

  Vondur dagur

  Keita, Origi og Oxlade-Chamberlain fengu séns í byrjunarliðinu en þeim gekk illa að nýta það tækifæri sem skyldi og sér í lagi var þeim síðastnefnda mislagðar fætur. Origi var í það minnsta með Robbie Fowler aflitun frá 1995 til að lífga leikinn upp en það dugði honum ekki til guðlegrar markaskorunar. Það var lýsandi þegar að Klopp skipti tveimur þeirra útaf ásamt Fabinho fyrir Henderson, Wijnaldum og Firmino til að stilla upp í sitt sterkasta lið síðasta hálftímann. Keita fékk þó að halda áfram leik en hann hafði verið skástur af þeim þremur og það reyndist vera góð ákvörðun þar sem hann lagði upp fyrsta markið fyrir Mané.

  Tölfræðin

  Umræðan

  Eftir fyrsta klukkutímann þá stefndi í ansi leiðinlega umræðu meðal Liverpool-áhangenda þar sem lítið var að gerast og margt gagnrýnivert. En það er svo mikil seigla í þessu liði að þeir hafa gert það að góðum vana að vinna leiki og slíkur karakter liðsins þýðir að þeir halda endalaust áfram í leit að 3 stigum. Svoleiðis eiginleikar skila meistaratitlum eins og raun ber vitni og því ástæðulaust að eyða of mörgum neikvæðum orðum í það sem betur mætti fara. Jákvæðu punktarnir eru enn einn sigurinn, árangursrík innkoma Keita í byrjunarliðið og mark frá uppöldum Scouser í liðinu.

  YNWA

  [...]
 • Byrjunarliðið vs. Aston Villa á Anfield

  Rauði herinn snýr aftur á Anfield eftir ógæfusama herferð í nágrannasveitarfélag. Miðlendingar Aston Villa eru komnir í heimsókn og eru í bullandi fallbaráttu. Okkar menn verða vonandi grjótharðir á að svara fyrir sig og safna stigum í sarpinn fyrir hugsanlegt stigamet í deildinni.

  Byrjunarliðin

  Eftir afhroðið gegn City þá gerir Klopp þrjár breytingar á byrjunarliðinu. Origi kemur inn fyrir Firmino í framlínuna og Keita og Oxlade-Chamberlain koma inn á miðjuna fyrir Henderson og Wijnaldum.

  Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Keita, Oxlade-Chamberlain, Mane, Salah, Origi.

  Bekkur: Adrian, Wijnaldum, Firmino, Henderson, Minamino, Shaqiri, Jones, Elliott, Williams.

  Dean Smith stillir sínu liði upp á eftirfarandi hátt og það vekur skemmtilega athygli að Pepe Reina er í markinu.

  Blaðamannafundur

  Klopp mætti pressunni á föstudaginn og fór yfir málin:

  Upphitunarlag dagsins

  Þar sem Birmingham-búarnir í Aston Villa eru mættir í Bítlaborgina þá er við hæfi að óskabörn Birmingham sjái um viðeigandi upphitun. Duran Duran og James Bond eru lagvissir og skotvissir að vanda og skjóta í mark eins og stórskotalið Rauða hersins:

  Leikurinn hefst klukkan 15:30 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Upphitun: Liverpool – Aston Villa

  Það er stutt milli leikja núna eftir langa pásu, sem er ágætt eftir úrslit vikunnar en það var mikið ryð í okkar mönnum eftir að hafa tryggt Englandsmeistaratitilinn og sjáum við afleita frammistöðu gegn City. Nú eru það hinsvegar Birmingham strákarnir í Aston Villa sem mæta á Anfield og spreyta sig gegn okkar mönnum.

  Villa er í bullandi fallbaráttu þrátt fyrir að hafa eytt næst mest allra liða í deildinni síðasta sumar en þeir eyddu 144,5 milljónum punda tæpum fjórum milljónum minna en Manchester United sem eyddu mest. Þeir hafa hinsvegar verið mjög óheppnir með meiðsli en markmaðurinn Tom Heaton og sóknarmaðurinn Wesley meiddust báðir í 2-1 sigri Villa á Burnley á nýársdag og misstu af hálfu mótinu. Næst besti leikmaður liðsins John McGinn meiddist á svipuðum tíma og leit út fyrir að hann myndi heldur ekki spila meira á tímabilinu en þriggja mánaða leikjapásan varð til þess að hann er byrjaður að spila aftur.

  Villa hefur spilað fjóra leiki síðan deildin var endurræst og hafa þeir gert tvö jafntefli og tapað tveimur og situr liðið nú með 27 stig eftir 32 leiki einu stigi frá öruggu sæti í deildinni og hafa þeir því að miklu að keppa. Þeir hafa skorað rúmlega mark í leik með 36 mörk í 32 leikjum en vandamálið hefur frekar verið hinumegin á vellinum þar sem þeir hafa fengið á sig sextíu mörk, næst mest allra í deildinni á eftir Norwich. Eftir meiðsli Heaton varð mikið bras í markmannsstöðunni hjá Villa, Orjan Nyland kom inn þegar hann meiddist en eftir að hann fékk á sig sex mörk gegn Manchester City var okkar fyrrum markmaður Pepe Reina fenginn inn 37 ára gamall. Reina náði hinsvegar ekki að leysa þessi vandamál því eftir endurkomu deildarinnar er Nyland kominn aftur í markið og fyrir meiðslin hjá Heaton hafði Jed Steer einnig spilað nokkrar mínútur og hafa Villa því notað fjóra mismunandi markmenn í deildinni á þessu tímabili.

  Fyrri leikur liðanna á þessu tímabili var hrikalega spennandi en Villa tók forustuna snemma leik og þarna sáum við mark dæmt af Firmino fyrir handakrika-rangstöðu áður en Robertson og Sadio Mané tryggðu okkur mikinn baráttu sigur með sitt hvoru markinu á lokamínútum leiksins. Við mættum þeim svo aftur í deildarbikarnum meðan allt aðalliðið okkar var að hita upp fyrir undanúslitaleik í heimsmeistarakeppni félagsliða í Katar og mættum við því með unglingaliðið í þann leik og léku Villa menn sér að þeim og unnu leikinn 5-0. Það gætu þó verið Villa menn sem mæta með yngsta manninn í þennan leik því það hefur verið slúðrað um að sextán ára sóknarmaðurinn Louie Barry sem þeir keyptu frá Barcelona í janúar fái að byrja sinn fyrsta leik gegn Liverpool á morgun og verður gaman að sjá þann unga strák sem Englendingarnir hófu upp til skýja þá sex mánuði sem hann var samningsbundinn Barcelona.

  Okkar menn

  Eftir að titillinn var tryggður og City leikurinn að baki þá hefur töluvert verið rætt hvernig Klopp muni leggja upp þá sex leiki sem eftir eru. Vissulega nokkur met enn í boði en það verður lítil pása eftir að þetta tímabil endar og þar til það næsta hefst og margir spáð því að við munum nýta þessa leiki sem eftir eru sem undirbúningstímabil fyrir næsta tímabil. Það gæti svo sem verið en eftir úrslit síðustu viku geri ég ráð fyrir að Klopp stilli upp sterku liði á morgun og leyfi þeim að sýna í enn eitt skipti af hverju þetta lið eru meistarar með tuttugu stiga forskot á toppi deildarnnar.

  Ég geri því ráð fyrir að sjá annað hvort sama, eða mjög svipað, lið og byrjaði gegn Manchester City og þá verði frekar nýttar vel skiptingarnar fimm. Eftir þennan leik gætum við svo farið að sjá tvær til þrjár breytingar á liðinu milli leikja og reyna koma mönnunum á jaðrinum meira inn í liðið.

  Þó gætum við vissulega séð einhverjar breytingar og þá líklegast að við sjáum Keita eða Chamberlain inn á miðjunni eða Minamino í fremstu víglínu.

  Spá

  Ég ætla að tippa á að liðið mæti af miklum krafti og valti yfir frekar slakt Villa lið og lokatölur verði 4-0 þar sem Salah, Mané og Firmino skora allir í fyrri hálfleik og loka markið kemur af bekknum, segjum bara að Minamino skori sitt fyrsta mark fyrir félagið.

  [...]
 • Man City – Liverpool 4-0

  Það er svo sem ekki mikið að segja eftir þetta. Sleggjudómar og annað slíkt eiga auðvitað ekki rétt á sér og maður hafði alveg velt fyrir sér hvernig Liverpool liðið kæmi stemmt til leiks. Við sáum það ágætlega, þeir voru í hlutlausum og varla það.

  Heimamenn stóðu heiðursvörð í upphafi leiks og það var líka í eina skiptið í dag sem var klappað fyrir Englandsmeisturunum. City menn mættu hungraðir til leiks og þó að Liverpool hafi á köflum spilað ágætlega í fyrri hálfleik þá var ljóst þegar það fór að líða á hann að kvöldið yrði okkur erfitt og ekki margir, utan Klopp, sem tóku verkefninu alvarlega.

  1-0  – 25 min, De Bruyne (Víti)
  2-0  – 35 min, Sterling
  3-0  – 45 min, Foden
  4-0  – 66 min, Ox (sjálfsmark)

  Fyrri hálfleikur

  Liverpool byrjaði bara ágætlega, pressuðu hátt upp völlinn og vorum líklegri aðilinn fyrstu 15-20 mínúturnar eða svo. Salah tók hlaupið á milli miðvarða City, fékk boltann frá Virgil á 4 mínútu og tók boltann á kassann og skaut viðstöðulaust – Ederson varði og Firmino náði ekki að nýta sér frákastið, hefði líklega átt að leggja boltann til baka á Henderson.

  Á 18 mínútu fékk Salah svo besta færi Liverpool í hálfleiknum þegar boltinn vannst ofarlega á vellinum og barst til Salah sem fór auðveldlega framhjá Garcia en skaut í stöngina.

  Eftir þetta breyttist mikið, Liverpool gerði sig seka um slæm mistök trekk í trekk – fyrst eftir 25 mínútur þegar Gomez hékk allt allt allt of lengi í Sterling svo réttilega var dæmd vítaspyrna sem KDB nýtti örugglega og kom heimamönnum yfir, 1-0.

  Tíu mínútum síðar var Sterling aftur að spila stóra rullu og, því miður, Gomez líka. City menn sóttu hratt á okkar menn, Gomez horfði of mikið á boltamanninn og spilaði Sterling réttstæðan, seldi sig svo illa þegar hann ætlaði að blokkera skotið og Sterling kláraði færið vel, 2-0.

  Aftur tíu mínútum síðar, á 45 mínútu, skoruðu heimamenn. Í þetta skiptið var það Foden eftir frábært spil þeirra bláklæddu. Foden tók þrýhyrning við Bruyne en Robertson seldi sig illa i þeirri sókn þegar hann tók hlaup út úr karakter og opnaði svæði fyrir Foden til að fá boltann aftur og klára færið einn gegn Alisson. Tökum þó ekkert af City mönnum sem gerðu virkilega vel.

  3-0 í hálfleik og, þrátt fyrir að manni hafi oft sviðið meira undan stöðunni, þá var manni hætt að lítast á blikuna enda engin ástæða fyrir slíku afhroði.

  Síðari hálfleikur

  Eftir slakan fyrri hálfleik þá tók lítið skárra við næstu 45 mínúturnar eða svo. Ég myndi eflaust leggja meira púður í að greina hvað fór vel og hvað fór illa ef meira væri undir en hef takmarkaðan áhuga á að dvelja lengur við þennan leik. Klopp gerði breytingu í hálfleik, Gomez fór útaf í stað Ox og Fabinho tók sér stað við hlið Virgil, kom ekki mikið á óvart svo sem enda Gomez átt betri daga svo ekki sé meira sagt.

  City átti tvö fín færi fyrstu 10 mínúturnar eða svo þegar þeir voru trekk í trekk að ná í tvo á tvo án þess að ná að nýta sér það. Mané átti að gera svo mikið mun betur á 53 mínútu þegar góð sending Henderson slapp frá honum á óskiljanlegan hátt.

  Það var svo Sterling sem bætti við fjórða markinu, eða réttara sagt Ox sem bjargaði okkur frá því að Sterling setti annað mark í dag þegar Sterling lék á Robertson og skaut að marki, framhjá Alisson en í Ox og inn – mér sýndist boltinn nú vera á leiðinni inn en markið skráð sem sjálfsmark til að byrja með hið minnsta.

  Ég held ég hafi aldrei orðið jafn lítið pirraður yfir svona slæmum ósigri, enda eingöngu nokkur met eftir fyrir okkar menn til að keppa að. Svona spilamennska er samt ekki boðleg og það svíður alveg smá að vera flengdur á Etihad, þó vissulega sé það ágætis meðal að geta huggað sig við að vera Evrópu-, Heims- og Englandsmeistari.

  Bestu menn Liverpool

  Pass.

  Umræðan

  • Liverpool mætti ekki til leiks. Maður hefur, blessunarlega ekki séð þetta Liverpool lið í örugglega meira en tvö ár! Það segir meira en mörg orð hve fáránlega gott þetta Liverpool lið er. Við þekkjum það ágætlega hvernig er að fara í þessa leiki gegn City og vinna stórt, að sama skapi þekkjum við það einnig að tapa stórt – það er stutt á milli í þessu.
  • 20. Að vera 20 stigum fyrir ofan þetta Man City lið er í raun ótrúlegt afrek. Menn geta sagt misgáfulega hluti um þetta tímabil og standið á öðrum liðum en að vera með þessa yfirburði gegn þessum milljarða liðum í þessari deild og þessu City liði er í raun fáránlegt.

  Staðreynd dagsins

  Þær eru tvær. Ég hef skrifað skemmtilegri leiksskýrslur og……við erum Englandsmeistarar (og ríkjandi Evrópu- og heimsmeistarar ef þið viljið fara út í smáatriði)!

  Næsta verkefni

  Næsta verkefni er Aston Villa á heimavelli, ég trúi því og treysti að við fáum að sjá viðbrögð í þeim leik.

  YNWA

  [...]
 • Liðið gegn Man City

  Þá er komið að okkar fyrsta verkefni í ansi langan tíma sem Englandsmeistarar, ekki er það lítið. Man City á Ethiad eftir rétt tæpan klukkutíma og stillir Klopp þessu svona upp í dag, sama lið og gegn Palace plús Milner kemur inn á bekkinn!

  Man City er svona:

   

  Koma svo – erum ekki bara komnir til að njóta þess að láta City klappa fyrir okkur, skulum gera alvöru atlögu að þessu stigameti!

   

  [...]
 • Upphitun: Englandsmeistarar Liverpool fá Guardiola of honour

  Eldhressir Englandsmeistarar Liverpool FC mæta á City of Manchester Stadium til að takast á við Man City sem eru formlega nýfallnir af sínum háa stalli. Nú þegar að 30 ára kláðinn hefur verið klóraður með Englandsmeistaratitlinum þá er næsta verkefni á dagskrá að bæta stigametið í deildinni til að stimpla sig inn sem besta lið allra tíma. Fyrir utan 3 stig í sarpinn þá gætu hressileg montréttindi verið í boði fyrir sigurvegarann og því mun sverfa til stáls og stolts í toppslag meistaranna!

  Come on you REDS!

  Hvernig fer leikurinn gegn Man City?

  Skoða niðurstöður.

  Loading ... Loading ...

  Mótherjinn

  Himnabláum hefur verið hent úr himnasætinu sem besta lið Englands og Rauði herinn hefur hertekið hásætið sem sitt herfang. Eftir að hafa byrjað síð-Covíð endurkomu enska boltans með blússi þá brotlentu bláliðar með brauki og bramli gegn Chelsea á Brúnni. Þau úrslit réttu okkur Púlurum titilinn á silfurfati án þess að þurfa að sparka í bolta það ágæta kvöld.

  Það aftengdi þá hugsanlegu sprengju sem þessi stórleikur hefði getað verið og gjörbreytti í raun nálgun beggja liða. Án brimbrotsins á Brúnni hefði City getað gírað sig í bardagastellingar að varna því að LFC yrðu meistarar á þeirra heimavelli og okkar menn að sama skapi farið í skotgrafirnar til að tryggja jafntefli sem myndi duga til titils. En þeim þrýstingi hefur verið létt af báðum liðum og í staðinn er komin upp önnur staða sem hugsanlega hentar okkur betur en heimamönnum.

  Guardiola og hans menn hafa spilað 4 leiki á 12 dögum í deild og bikar og þrátt fyrir að geta hálfpartinn stillt upp tveimur jafnsterkum byrjunarliðum þá getur slík keyrsla tekið sinn toll. Á sama tíma höfum við spilað tvo leiki og í þeim fyrri róteruðum við hraustlega með byrjunarlið og bekk. City hafa nú þegar misst Aguero í langtímameiðsli og spurning hversu miklu þeir eru tilbúnir að fórna fyrir stoltið þar sem 2.sætið er svo gott sem silfurtryggt. Sæti sem á endanum gæti tryggt þeim nákvæmlega enga Meistaradeild á næsta tímabili og jafnvel þarnæsta ef að íþróttadómstólarnir standa sína plikt. Næstu vikur verður spilað á 3-4 daga fresti og það getur spilað inní ákvarðanatöku með byrjunarlið og innáskiptingar.

  Joe Gomez fræðir Raheem Sterling um að uppáhalds lagið hans sé Pínulítill Karl með Þursaflokknum

  Að því sögðu þá verður það auðvitað eldrautt eitur í beinum City-manna að tapa fyrir nýkrýndum Englandsmeisturum alheimsins þannig að þeir sem spila þann leik fyrir þeirra hönd munu gefa sig alla í leikinn. Hversu mikið vonbrigði og leikjaálag munu spila inní mun einfaldlega koma í ljós þegar að á hólminn er komið en Liverpool mun á móti hafa ferska fætur síns sterkasta byrjunarliðs til að spila uppá gyllta gulrót stigametsins í deildinni. Þessi munur á matarlyst og snæðingsþreytu gæti haft úrslitaáhrif í toppslagnum og jafnvel upp á sjálfstraustið í sálfræðistríði næsta tímabils.

  Josep Guardiola Sala mun að öllum líkindum stilla ljósbláum liðssveinum sínum upp á eftirfarandi hátt (Aguero meiddur og Fernandinho í banni):

  Líklegt byrjunarlið Man City í leikskipulaginu 4-3-3

  Englandsmeistarar Liverpool

  Ofur-Englandsmeistarar allra tíma mæta ferskir til leiks eftir að hafa unnið sigurdanskeppni og fagnaðarbikar á dansgólfi Formby Hall Golf Resort við borgarmörk Liverpool. Okkar meistara-menn hafa fengið rúma viku til að jafna sig eftir meistaraframmistöðu gegn Crystal Palace og ögn skemmri tíma til að jafna sig á ríflegum fagnarlátum og timburmönnum.

  Allir okkar fótboltafýrar hafa virkað flottir og ferskir á æfingum í vikunni nema hvað að Joel Matip verður meiddur út tímabilið og Milner og Shaqiri eru ólíklegir. Með sterkasta byrjunarliðið inná í síðasta leik þá voru Crystal Palace sprengdir aftur til þess tíma steinaldar þegar að Roy Hodgson réð ríkjum og búast má við að sama ofurlið hefji leikinn á City of Manchester Stadium. Augljóslega verður mótherjinn margfalt öflugri en steinaldarmennirnir en með sitt sterkasta lið þá geta Englandsmeistararnir farið inn í leikinn með mikið sjálfstraust og 23 stiga forskot að auki.

  Að öllu jöfnu þá hefur meistari Klopp ekki sýnt mikinn áhuga á sögulegri tölfræði en tækifærið núna er of gott til að bæði stimpla sig inn á forsíðu sögubókanna ásamt því að skora sálfræðileg stig fyrir næsta tímabil. Það er því ljóst að við munum spila til sigurs til að landa 3 stigum á sterkum útivelli þar sem mæting áhorfenda verður í kringum meðaltalið og hljóðgervlar sjónvarpsins munu auka desíbelin umfram allt sem áður hefur heyrst á þeim bænum.

  Herr meistari Jürgen Klopp mun að öllum líkindum stilla meisturum sínum upp á eftirfarandi hátt:

  Líklegt byrjunarlið Englandsmeistara Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

  Blaðamannafundur

  Englandsmeistari Jürgen Klopp var glaðbeittur og bráðskarpur á blaðamannafundi dagsins þegar hann gaf gáfuleg svör við misgáfulegum spurningum. Að venju skylduáhorf:

  Fyrrum Englandsmeistari Pep Guardiola hafði sömu skyldum að gegna með að sitja fyrir svörum fulltrúa fjórða valdsins:

  Í fréttum er þetta helst

  Tölfræðin

  Orðið “meistari” kom 20 sinnum fyrir í þessari upphitun í einu formi eða öðru. Númer 20 er einmitt næsta markmið Liverpool FC þar sem númer 19 er loksins kominn í hús.

  Tilvitnunin

  “We will not ‘defend’ the title next year, we will attack for the next one.”  – Jürgen Klopp

  Spakra manna spádómur

  Breytingin í vægi leiksins mun hafa mikil áhrif á upplegg þjálfaranna og þann sóknarleik sem í boði verður. Leikurinn ætti að vera opnari fyrir vikið og bæði lið með meira frelsi til að sækja til sigurs. Sóknarlína beggja liða er í toppklassa og miðjan á pari en varnarlína Englandsmeistaranna er góðum gæðaflokki fyrir ofan og það mun gera gæfumuninn í leiknum.

  Mín sparkvissa spakmannsspá er 1-3 sigur fyrir Rauða Englandsmeistaraherinn þar sem Salah, Mané og Virgil van Dijk sjá um markaskorunina.

  YNWA

  [...]
 • Gullkastið – Englandsmeistarar

  Liverpool eru Englandsmeistar með öllum þeim tilfinningarússíbana sem því fylgir fyrir alla tengdu félaginu. Gleðin er flöskvalaus og það var svo sannarlega málið þegar við skelltum okkur í Hellinn með Englandsmeistarabikarinn og stóra flösku af kampavíni.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi, SSteinn og Maggi Þórarins (Beardsley)

  MP3: Þáttur 292

  Það hefur oft verið minni stemming fyrir því að vinna Gullkastið

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  Fyrsti flutningur kop.is – þáttanna í útvarpi Sportveitunnar eru á miðvikudögum kl. 15 og síðan eru þættirnir endurfluttir kl. 18 á fimmtudögum og kl. 12 á laugardögum. Þeir fara inn á Spotifysvæðið “SportFM” á fimmtudagsmorgnum. Þar er nú að finna þætti 289 og 290.

  [...]
 • LIVERPOOL ENGLANDSMEISTARAR (STAÐFEST)

  ÞETTA ER Í ALVÖRUNNI LOKSINS LOKSINS BÚIÐ, LIVERPOOL ER ENDANLEGA KOMIÐ AFTUR, STÆRRI, STERKARI OG MIKLU BETRI EN NOKKURNTÍMA ÁÐUR. ÞRJÁTÍU HELVÍTIS ÁR OG ÞÚ GETUR HÆTT AÐ TELJA, ÞETTA ER BÚIÐ, LIVERPOOL ERU ENGLANDSMEISTARAR!

  Það er svo óendanlega sætt að þetta er loksins í höfn. Við sem höfum farið í gegnum allan rússíbanan höfum séð endalok Shankly fótboltans og hreint ákaflega stormasöm 30 ár með djúpum lægðum en inn á milli stórkostlegum hápunktum. Risinn hefur reglulega minnt á sig og það að vinna Meistaradeildina tvisvar og fara tvisvar í viðbót í úrslit undanfarin 15 ár er meira en flest þessi Olíufélög hafa gert í sögu sinna félaga þrátt fyrir allar milljónirnar. Það hefur alltaf verið ástæða fyrir þessari endalausu trú stuðningsmanna Liverpool á félaginu. Believe beyond reason vissulega stundum en í kvöld hefur það loksins loksins skilað þeim árangri sem við höfum þráð í þrjátíu ár.

  Deildin var alltaf það sem við þráðum mest og að gera það með þessum hætti er ansi nálægt því að vera fullkomið. Tökum alveg Covid-19 út fyrir jöfnuna, Liverpool var búið að slátra þessari deild löngu áður en það helvíti skall á og frestaði parýinu. En núna þegar þetta er loksins í höfn var ekkert að fara koma í veg fyrir partýið sem er í gangi. Liverpoolborg fór gjörsamlega á hliðina þegar flautað var af á Stamford Bridge í kvöld.

  Það er eitt að vinna deildina loksins en að gera það með þessum hætti og gegn þessum andstæðingum gerir þetta eiginlega eins fullkomið og hægt er að óska sér. Þetta Man City lið með alla sína olíuríkissjóði á bakvið sig vann deildina með mesta stigafjölda sögunnar fyrir tveimur árum og fylgdi því eftir í fyrra með tveimur stigum minna. Þetta er besta lið í sögu enska boltans… þar til núna. Liverpool var bara stigi á eftir í fyrra og vann Meistaradeildina. Núna var loksins okkar tími og þvílíkt statement að snýta deildinni svona rosalega.

  Eins og fótboltinn hefur verið að þróast í Evrópu ætti Man City að vera yfirburðarlið á Englandi og deildin álíka spennandi og á Ítalíu þar sem Juventus hefur unnið 47 titla í röð, eða í Frakklandi þar sem Abu Dhabi hefur unnið 17 titla í röð, Bayern hefur unnið 98% af öllum titlum í sögu Þýska boltans o.s.frv. Eins mikið og stuðningsmenn allra annarra liða sameinuðust um að vilja það ekki var nauðsynlegt fyrir deildina að Liverpool tæki þetta í ár. Það er handónýtt að horfa á leikfang Qatar vinna 10 ár í röð sem er engu að síður vel raunhæf framtíð.

  Það er auðvitað galið að Liverpool hafi ekki unnið deildina í fyrra, langnæstbesta lið sögunnar og auðvitað Evrópumeistarar í sárabót með svakalegum sigrum þar sem engin Úrvalsdeildarleikur getur toppað. Við höfum þrisvar sinnum á þessum þrjátíu árum séð Liverpool fara nærri en fullkomlega drulla á sig árið eftir, ekki núna. Þetta lið er allt annað dýr og vonandi komið til að vera.

  Mikið óskaplega er gaman að sjá þennan vegg uppfærðan reglulega aftur, sérstaklega í þetta skiptið samt.

  Lifandi goðsagnir

  Kjarninn í þessu liði er að skrifa sig með bleki á spjöld sögunnar, ég veit það því að Arngrímur og Mummi skrifa söguna!

  Jurgen Klopp 

  Þetta er okkar tíma Bill Shankly, þetta eru rosalega stór orð fyrir þá sem þekkja söguna en Klopp er endanlega að stimpla sig inn sem besti knattspyrnustjóri í heimi í dag. Hann er að leika það eftir sem hann gerði hjá Dortmund og afrek hans núna er engu minna. Klopp er svo frábær utan vallar að það er ennþá aðeins vanmetið hversu góður hann er innanvallar. Tveir úrslitaleikir í Meistaradeildinni og titilinn eftir þrjátíu ára bið setur hann beint í hóp Shankly og Paisley. Bestu stjóra í sögu félagsins. Einn daginn verður gerð stytta af Klopp í Liverpool borg. Klopp er langmikilvægasti hlekkurinn í þessu öllu saman og skrifaði blessunarlega bara nýlega undir nýjan langtímasamning. Þetta er ástæðan fyrir því að við fylgdumst spennt með fluginu hans á Flightradar í október 2015, daginn sem hann skrifaði undir hjá Liverpool. Þvílíkur maður.

  Klopp var líka vel með á nótunum hvað hann var afreka í kvöld og var klökkur í viðtölum.

  Jordan Henderson

  Hver hefði trúað því að arftaki Steven Gerrard yrði sá sem myndi loksins lyfta Englandsmeistaratitlinum? Það voru gerðar töluverðar væntingar til Henderson þegar hann kom og mikil ábyrgð sett á hans herðar og guð minn góður hefur hann staðið undir þeim. Rosalega vanmetin leikmaður og karakter en stendur uppi í dag sem langmest afgerandi fyrirliði nokkurs liðs á Englandi. Hann er ekki besti leikmaður Liverpool en það má alls ekki vanmeta mikilvægi hans. Fagmaður fram í fingurgóma þó hann hafi nú vonandi farið að ráðum Jamie Carragher í kvöld.


  Carragher var reyndar vægast sagt í banastuði á Sky eftir leik.

  Virgil Van Dijk

  Þessi titill er fyrst of fremst sigur liðsheildarinnar og mesti styrkleiki liðsins er að það er búið að skipta út öllum helstu veikleikjum. Það er búið að kaupa þessa 2-3 heimsklassa leikmenn sem hefur vantað uppá undanfarin 30 ár. Fremstur þar í flokki af öllum öðrum ólöstuðum er samt Virgil Van Dijk, hann hlítur að verða minnst sem besta miðvarðar sem spilað hefur fyrir Liverpool. Hann er í alvörunni það góður. Hann meira að segja lyktar vel eins og Troy Deeney sagði á síðasta tímabili. Liverpool hefur varla tapað leik síðan hann kom og afgreiddi tæplega áratug af skrautlegum varnarleik Liverpool. Það er ástæða fyrir þvi að hann er dýrasti leikmaður í sögu Liverpool, hann er jafnframt ein bestu kaup félagsins. Til að setja mikilvægi hans í samhengi er ágætt að hafa í huga að Dejan Lovren var aðalmiðvörður félagsins þegar Van Dijk kom.

  Mo Salah

  Stuðningsmenn Liverpool eiga að vera miklu óhræddari við að segja það, Mo Salah gerir léttilega tilkall til þess að vera talinn besti leikmaður deildarinnar. Mikilvægi hans kom mjög vel í ljós í Crystal Palace og Everton leikjunum. Hann hefur þróast gríðarlega hjá Liverpool og held því vonandi áfram næstu árin. Mo Salah er þar fyrir utan miklu meiri stórstjarna á heimsvísu en við flest gerum okkur grein fyrir. Hann hefur reynst Liverpool mikilvægari sóknarmaður en Luis Suarez, Fernando Torres, Michael Owen og Erik Meijer svo fáeinir séu nefndir. Það eitt og sér ætti að segja allt sem þarf.

  Sadio Mane

  Ef einhver einn hefur hvað helst dregið vagninn á þessu tímabili er það Sadio Mané. Sá ætlaði sér að vinna titilinn í vetur. Hann hefur eins og Salah þróast töluvert undir stjórn Klopp og er núna mun meira alhliða sóknarmaður en hann var þegar hann kom frá Southampton. Hann rétt eins og Salah gerir vel tilkall til að teljast besti leikmaður deildarinnar.

  Firmino

  Við sem fylgjumst svona ítarlega með þessu Liverpool liði munum ennþá eftir 20-30 ár vera tala um Firmino sem vanmetnasta leikmann þessa goðsagnakenda liðs Liverpool. Tölfræðin yfir mörk og stoðsendingar mun ekkert endilega bakka okkur upp enda fremsti sóknarmaður liðsins en það segir í þessu tilviki varla hálfa söguna. Sérstaklega núna í vetur hefur hann aðeins verið að fá það hrós sem hann á skilið frá sérfræðingum utan Liverpool búbblunnar. Flestir fótboltamenn tala um hann sem lykilinn af sóknarleik Liverpool.

  Jurgen Klopp orðaði þetta besti sjálfur “Mo Salah, world class, but not every day. Sadio Mane, world class, but not every day. Roberto Firmino, world class, pretty much every day.”

  Kop stúkan er líka með þetta vel á hreinu

  Alisson

  Það vissulega hjálpar Alisson að hann er bætingin á stærsta og mest pirrandi vanda Liverpool megnið af þessum áratug. Markmaðurinn sem var að fara koma í stað Mignolet var alltaf að fara líta vel út og þar til Karius fór til Úkraínu var hann að sanna þá kenningu. En guð minn góður munurinn á allri holningu Liverpool liðsins með Alisson í búrinu frekar en þá tvo trúða. Við höfum reglulega í vetur verið minnt á Mignolet tímann þegar Adrian hefur leyst af í markinu en það kom ekki að sök í deildinni. Fjarvera Alisson í mars kostaði okkur Meistaradeildina, það segir allt sem þarf um mikilvægi hans.

  Liverpool styrkti ekki bara þessa stöðu með betri markmanni en Mignolet heldur var fengið besta markmann í heimi í búrið hjá Liverpool. Ef að hann hefði ekki misst af um 10 leikjum í deildinni í vetur værum við líklega að tala um hann sem leikmann tímabilsins. Hann er jú búinn að halda oftast hreinu í vetur þrátt fyrir að hafa spilað miklu færri leiki en allir aðrir. Hann hefur reyndar oftar haldið hreinu hjá Liverpool en hann hefur fengið mark á sig. Spáið í breytingu frá Mignolet!

  Trent Alexander-Arnold

  Mesta star quality liðsins? Hann er 21 árs og bókstaflega búinn að breyta hugmyndafræði okkar um bakverði. Einhvernvegin er hægri bakvörðurinn mesti playmaker liðsins og þar fyrir utan sinnir hann skildum sínum bæði sóknarlega og varnarlega frábærlega sem hefðbundinn bakvörður. Hann er kominn miklu lengra 21 árs en t.d. Gerrard og Carragher voru á sama aldri. Hvert er þakið hjá honum? Að fá svona heimsklassaleikmann upp úr akademíunni þetta fljótlega í kjölfar Gerrard og Carragher er gríðarlega jákvætt. Það er bara tímaspursmál hvenær hann verður fyrirliði liðsins og mikið óskaplega vona ég að hann spili aldrei fyrir annað lið en Liverpool.

  Andy Robertson

  Það virkilega þarf að vera skoti í liði Liverpool til að liðið vinni titla. Saga Robertson hjá Liverpool er algjörlega samtvinnuð við það afhverju við elskum Jurgen Klopp. Hann kostaði Kevin Stewart þegar hann kom frá Hull og það er ekki vinstri bakvörður í heiminum sem við myndum skipta á við nokkurt lið í dag. Hann er líka sá karakter í liðinu sem scouserarnir tengja líklega hvað best við, alveg til í smá snide innanvallar og ávallt léttur utanvallar og vel niður á jörðinni. Robertson hefur þar fyrir utan leyst eina langlífustu vandræðastöðu félagsins þau 30 ár sem það tók að vinna loksins titilinn.

  Fabinho

  Loksins þegar Liverpool keypti alvöru arftaka Javier Mascherano landaði liðið Meistaradeildinni og titlinum á rúmlega 12 mánuðum. Það hefur sárlega vantað alvöru varnartengilið megnið af þessum áratug, sérstaklega ef þið hugsið til allra varnarlína Liverpool á þessum tíma sem innihéldu ekki Van Dijk en eiginlega allar Simon Mignolet. Fabinho uppá sitt besta er betri leikmaður en Javier Mascherano var. Miklu fjölhæfari og betri sóknarlega. Síðasti leikur er mjög gott dæmi um Fabinho uppá sitt besta, yfirburðarmaður á vellinum.

  Gini Wijnaldum

  Liverpool hefur keypt slatta af leikmönnum í þær stöður á vellinum sem Gini Wijnaldum getur spilað en alltaf heldur hann sínum sessi sem lykilmaður og er núna að klára líklega besta tímabil í sögu Liverpool sem einn leikjahæsti leikmaður liðsins. Hann vinnur mjög mikið af vinnu sem maður nær ekki að meta fullkomlega í gegnum sjónvarpið en það er auðvitað engin tilviljun að þjálfarateymið velur hann eiginlega alltaf. Klopp setti hann reyndar á bekkinn gegn Barcelona á Anfield í fyrra…

  James Milner

  Milner hefur verið mjög góður leikmaður allann sinn feril og spilað stórt hlutverk hjá öllum liðum sem hann hefur verið á mála hjá. Hann var samt ekki alveg metin að verðleikum hjá Man City þó hann spilaði vissulega töluvert hjá þeim og vann einhverja titla. Það sá líklega engin fyrir það öskubuskuævintýri sem félagsskipti hans til Liverpool yrðu. Þegar ferlinum líkur skal ég hundur heita ef hans mestu tengsl við félagslið verði ekki Liverpool. Meistaradeild eftir 14 ára bið og Englandsmeistarar eftir 30 ára bið hlítur að vera ansi hreint sætur endasprettur á ferlinum. Klopp og aðrir leikmenn Liverpool hafa svo ítrekað talað um mikilvægi hans utanvallar.

  Joe Gomez

  Það er ennþá svolítið hætt við því að hann verði næsti Ledley King, því að hann hefur klárlega gæðin sem King hafði en því miður meiðslasöguna líka. Gomez er miklu betri miðvörður 22-23 ára en Van Dijk var á sama aldri og saman mynda þeir í dag besta miðvarðapar í heimi. Það eina sem getur stoppað Gomez í að verða ennþá meiri goðsögn hjá Liverpool er hann sjálfur. Hann stendur vissulega í skugganum af Van Dijk ennþá en það gæti vel breyst á næstu árum.

  Þessir leikmenn verða héðan í frá goðsagnir hjá Liverpool.

  Þá erum við samt ekki byrjuð að ræða aukaleikarana, Divock Origi verðskuldar auðvitað styttu fyrir síðasta tímabil, Ox og Lallana eiga svo skilið að vera partur af meistaraliði og vonandi nær Ox að verða ennþá stærri partur af liðinu á næstu árum. Liverpool á Naby Keita svo gott sem alveg inni og hann gæti ennþá orðið einn besti leikmaður félagsins. Matip og Lovren hafa staðið fyrir sínu þó að Lovren sé farinn að dragast töluvert aftur úr félögum sínum í vörninni. Framtíðin er svo björt með 2-4 leikmenn farna banka fast á dyrnar.

  Skemmtilegasti dagur internetsins

  Eins og gefur að skilja voru klukkutímarnir eftir að flautað af af á Stamford Bridge líklega þeir bestu í sögu internetsins.

  Sky Sports henti m.a. í bestu auglýsingu sem ég hef séð.

  Fyrir þá sem hafa fylgt Andy Heaton á twitter þá var hans lífsseigi brandari í allan vetur toppaður í kvöld

  Robbo vinur okkar af Anfield Wrap var spot on með að þessi sigur hefur mismunandi merkingu fyrir hvert og eitt okkar

  T.a.m. höfum við líklega öll á einhverjum tímapunkti fengið sömu tilfinningu og Gaupi um að þessi stund væri væntanleg í bráð

  Kristján Atli sneri skemmtilega við frasa sem oft hefur verið notaður gegn okkur

  Höldum þó alveg til haga að flestir þeirra örfáu stuðningsmanna andstæðinga Liverpool sem voru í netsambandi voru ekkert nema klassinn þegar niðurstaðan lá fyrir. Þetta er fulltrúi Spurs

  Hér er fulltrúi Rauðu Djöflanna

  Chelsea

  Endum þetta á okkar mönnum fagna titlinum

  Til hamingju öll, þetta er fullkomlega jafn sætt og hægt var að hugsa sér.  Þriggja áratuga bið sem innihélt háðsglósur og almennan skítalabbahátt stuðningsmanna annarra liða hljómar nú sem englasöngur, enda kominn tími á að við spyrjum hvenær þeirra lið unnu titil síðast og ótal þvælubrandarar hér með lagðir til endanlegrar hvílu.  Minn uppáhalds sem hverfur og nýr kemur líklega í staðinn.

  Hann var:

  “Which ship has never docked in Liverpool – THE PREMIERSHIP”.

  Ég mun fljótlega setja þennan í loftið:

  “Which ship has stopped docking in Manchester – THE PREMIERSHIP”.

  Kop.is gengið

  [...]
 • Liverpool 4 Crystal Palace 0

  Eftir að hafa varla mætt til leiks í fyrsta leik gegn Everton var endurkoma okkar manna í dag alveg svakaleg. Liverpool liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og gáfu Palace mönnum í raun nánast aldrei tækifæri á að reyna vinna sig inn í leikinn. Palace varð fyrir skakkaföllum þegar eftir tæplega korters leik þurfti Zaha að fara af velli vegna meiðsla og stuttu seinna komst Liverpool yfir þegar Jordan Ayew keyrði inn í Virgil Van Dijk og dæmd var aukaspyrna rétt fyrir utan vítateig og Trent Alexander-Arnold skoraði sitt þriðja mark á tímabilinu beint úr aukaspyrnunni. Það sem eftir var hálfleiks keyrði Liverpool á Palace menn og pressuðu þá hátt á vellinum. Wijnaldum hefði getið sett tvö mörk en bæði skot hans framhjá markinu. Hefðum einnig átt að fá víti þegar Firmino tók við sendingu frá Salah og reyndi að koma boltanum framhjá Cahill sem fékk boltann í hendina fyrir ofan haus en ekkert var dæmt. Undir lok fyrra hálfleiks fann Fabinho geggjaða sendingu í hlaupið hjá Mo Salah sem skildi Van Aanholt eftir í rykinu og kom boltanum örugglega framhjá Hennessay í marki Palace.

  Seinni hálfleikurinn hófst á svipuðum nótum. Sahko vinur okkar sýndi gamla takta þegar hann átti alltof lausa sendingu tilbaka en Hennessay náði að hreinsa boltann í innkast. Fabinho kom Liverpool í 3-0 þegar hann átti þrumuskot af löngu færi sem var gjörsamlega óverjandi og hvet þá sem ekki sáu leikinn til að finna þetta mark. Salah og Wijnaldum áttu síðan sitthvort færið til að bæta við áður en fjórða markið kom þar sem Salah náði að þræða Mané í gegn sem kláraði enn eitt markið og gerði gjörsamlega út um leikinn. Eftir það voru nokkrar skiptingar en áður en leikurinn var allur átti Salah gott tækifæri að bæta við marki og Neco Williams kom sér í gott skotfæri en skot hans beint á Hennessay í markinu.

  Bestu menn Liverpool

  Það er erfitt að gera upp á milli í dag þar sem allir áttu góðan dag. Miðjan var frábær, Henderson stýrði pressunni vel og Wijnaldum hefði á góðum degi skorað þrennu í dag en Fabinho var líklega okkar besti maður í dag. Stórbrotið mark og frábær stoðsending kórónaði heilt yfir flottan leik og gaman að sjá Fabinho aftur í standi. Mané og Salah litu hrikalega vel út, en eins og ég segi allir voru mjög flottir.

  Vondur dagur

  Það átti enginn vondan dag hjá okkar mönnum, helst kannski Alisson vegna þess að hann hafði svo lítið að gera að honum var líklegast farið að leiðast undir lok leiks og getur sleppt því að fara í sturtu eftir leik.

  Umræðupunktar

  • Tvö stig í titilinn með sjö leiki eftir og gætum orðið meistarar á morgun ef City sigrar ekki leik sinn gegn Chelsea á morgun.
  • Meistarabragur á liðinu í dag og hrikalega skemmtilegt að horfa á liðið í þessum ham.
  • Crystal Palace snerti boltann aldrei inni í okkar teig í dag og er það í fyrsta sinn sem það gerist síðan Opta hóf mælingar.

  Næsta verkefni er City eftir átta daga og takist þeim að vinna Chelsea leikinn þá erum við að spila um titilinn í þeim leik.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Crystal Palace

  Þá er búið að tilkynna liðið gegn Palace í kvöld en Klopp gerir nokkrar breytingar á liði sínu og erum við líklegast að sjá okkar sterkasta byrjunarlið á þessu tímabili að hefja leik í kvöld.

  Bekkur:  Adrian, Lovren, Keita, Oxlade-Chamberlain, Minamino, Origi, Jones, Elliott, Williams

  Vonandi hörkuleikur framundan þar sem við sjáum vonandi fleiri mörk en í hinum leikjum dagsins, allavega þegar þetta er skrifað.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close