Latest stories

 • Brighton 2 – 1 Liverpool

  Þannig lauk þáttöku Liverpool í FA bikarnum þetta árið.

  Mörkin

  0-1 Elliott (30. mín)
  1-1 Dunk (39. mín)
  2-1 Mitoma (90+2 mín)

  Gangur leiksins

  Við ætlum ekkert að eyða neitt allt of miklum tíma í þennan lið. Fyrri hálfleikur var þó alls ekki slæmur, aldrei þessu vant komust okkar menn yfir á undan, en áður höfðu fyrst Brighton menn bjargað á línu á 4. mínútu frá Salah, og á 15. mínútu þurfti Trent að gera slíkt hið sama okkar megin. En á 30. mínútu náði Liverpool skyndisókn eftir að Keita fékk mögulega boltann í hendina, Salah og Elliott voru saman tveir gegn þremur, Salah náði að keyra inn á miðjuna, renndi til hægri á Elliot sem skoraði með viðkomu í leikmanni Brighton. Já, þarna var örvfættur leikmaður sem spilaði vinstra megin á kantinum að skora með hægri, hægra megin í teignum. Ágætt þegar menn eru fjölhæfir. En okkur bar ekki gæfa til að fara með þetta forskot inn í hálfleik, því eftir fast leikatriði náði Lamptey skoti fyrir utan teig sem fór í Dunk samherja hans, Alisson var farinn í hitt hornið og náði ekki að stoppa skotið þó hann hafi verið ótrúlega nálægt því miðað við allt. 1-1 í hálfleik, og það var í sjálfu sér ekki ósanngjörn staða. Okkar menn hefðu þó með smá heppni og betra sjálfstrausti hjá Salah sjálfsagt getað verið 2-1 yfir, því Salah slapp einn í gegn á 25. mínútu en setti boltann framhjá, og hefði fyrir svona rúmlega ári síðan alltaf klárað svona færi.

  Síðari hálfleikur var hins vegar ekki í rétta átt. Brighton voru meira í boltanum og hættulegri. Klopp notaði allar skiptingarnar, mögulega var t.d. nauðsynlegt að skipta Trent út vegna meiðsla, en samt er tæpast hægt að tala um að leikur liðsins hafi batnað við þessar skiptingar. Fyrst komu Milner, Hendo og Nunez inn fyrir Trent, Keita og Elliott. Svo kom Jones inná fyrir Thiago, og undir lokin kom Fab inná fyrir Bajcetic. Jú mikið rétt, 18 ára unglingurinn fékk að vera lengst inná af miðjumönnum liðsins. Fab n.b. átti hræðilega innkomu, missti boltann í fyrstu sendingu, og steig svo á ökklann á leikmanni Brighton og fékk gult fyrir skömmu síðar. Ekki er hægt að segja að Hendo eða Jones hafi gert mikið heldur. Milner var bara dæmigerður Milner, alltaf öflugur og merkilegt hvað liðið getur best treyst á öldunginn annars vegar og unglinginn hins vegar. En í uppbótartíma fengu Brighton aukaspyrnu eftir brot frá Robbo aðeins fyrir utan teig. Sendingin kom inn að markteigshorni, þar var gefið fyrir á Mitoma við hitt markteigshornið sem fíflaði Gomez upp úr skónum og skoraði sigurmarkið. Leik lauk stuttu síðar og Brighton komið áfram í bikarnum en okkar menn fallnir úr báðum bikarkeppnunum.

  Frammistaða leikmanna

  Elliott var líklega með skástu mönnum, þó svo hann sé ennþá aðeins of léttur í átökin, en jesús hvað ég væri til í ef hann fengi bara að spila sína bestu stöðu. Konate var líka öflugur, en reyndar stálheppinn að sleppa við rautt spjald seinnipartinn í seinni hálfleik þegar hann braut líklega á sóknarmanni sem var að sleppa einn í gegn. Dómarinn dæmdi ekkert, en þetta var í besta falli mjög tæpt. Andy átti leik í meðallagi, ekkert mikið meira en það. Trent bjargaði vel á línu en var annars mistækur. Gakpo er alveg að reyna, þetta er klárlega góður leikmaður og þegar hann verður kominn í takt við deildina og liðið (og liðið e.t.v. ekki að spila eins og miðjumoðslið), þá verður þetta öflugur liðsmaður. En hann er það ekki í augnablikinu. Og af hverju Klopp vill endilega spila honum upp á topp í stað þess að setja Salah þangað, Elliott hægra megin og Gakpo vinstra megin, tja það er bara lögreglumál.

  Framundan

  Núna eftir janúar sem samanstóð nánast eingöngu af leikjum gegn Wolves og Brighton, þá er næsti leikur eftir viku gegn… Wolves. Nú er ekkert annað eftir annað en deildin og meistaradeildin, rétt rúmar 3 vikur í fyrri leikinn gegn Real á Anfield. Erum við spennt fyrir þeim leik? Ég bara get ekki sagt það. Holningin á liðinu er svoleiðis allt önnur heldur en fyrir ári síðan. Framlínan með Salah/Mané/Firmino og/eða Jota og Díaz að rótera var að virka svo mikið betur heldur en núverandi framlína. Þá er líka umhugsunarefni að af öllum miðjumönnum liðsins, þá sé það 18 ára unglingur sem er síðastur tekinn útaf, og að skiptingarnar sem voru gerðar á hinum tveim miðjumönnunum hafi bara alls ekki verið til batnaðar. Þá er nú heldur betur gott að glugginn er enn opinn…. nema hvað að Klopp gaf það út í viðtali eftir leik að það muni ekkert gerast á leikmannamarkaðinum næstu daga. Hvernig geta menn verið ánægðir með miðjuna eins og hún er í dag? Aftur er þetta algjört rannsóknarefni. Það er líka umhugsunarefni af hverju Gakpo fær svona margar mínútur. Það einfaldlega bara getur ekki annað verið en að Nunez sé ekki að fullu búinn að ná sér, og að framlínan sé einfaldlega sjálfvalin. En bara það að færa Gakpo út á vinstri kantinn – þar sem hann hefur n.b. spilað langmest á sínum ferli – og færa Elliott þá á hægri vænginn – sem er líka hans staða – og setja svo Salah upp á topp, en þar hefur hann alveg virkað fínt. Stundum er þrjóskan í Klopp alveg að gera út af við mann.

  Gleymum því ekki heldur að nú vantar enga menn á miðjuna, það eru allir heilir (OK ég er að gleyma Melo, en ég held að það séu allir að gleyma honum hvort eð er). Vissulega vantar í framlínuna: Bobby, Jota og Díaz allir frá, og líklega a.m.k. 2 vikur í að við sjáum þá tvo fyrrnefndu, og gætum þá séð Virgil um svipað leyti. Munu þessir leikmenn breyta því sem breyta þarf í leik liðsins? Það virkar einhvernveginn bara alls ekki líklegt.

  Þegar ástandið er svona er ágætt að rifja upp þegar þetta lið okkar var að ná árangri, sem betur fer þurfum við ekki að leita langt yfir skammt. Við vitum hvað okkar menn eru færir um. Væri til of mikils ætlast að biðja um að þeir fari að sýna hvað þeir geta?

  P.s. stelpurnar okkar duttu líka út úr bikarnum, en náðu þó að setja 2 mörk gegn Chelsea. Þrenna frá Kerr gerði það að verkum að Chelsea fer í næstu umferð. Enn ein helgin þar sem ekkert gengur né rekur hjá okkar fólki.

  [...]
 • Liðin gegn Brighton og Chelsea

  Það er kominn leikdagur, tvöfaldur í þetta sinn (sjá neðar). Strákarnir okkar mæta á suðurströndina í heimsókn númer 2 á heimavöll Brighton. Vonandi sjáum við aðeins betri frammistöðu í dag heldur en síðast.

  Liðið verður svona skipað:

  Bekkur: Kelleher, Matip, Tsimikas, Milner, Fabinho, Henderson, Jones, Ox, Nunez

  Klopp heldur sig við Bajcetic – Keita – Thiago miðjuna, heldur betur verið að sýna Stevie B traust. Nunez á bekk sem kemur e.t.v. aðeins á óvart, ekki eins og Gakpo hafi verið að spila hann mjög grimmt út úr liðinu. Elliott sjálfsagt aftur á vinstri kanti, en ég væri í raun mikið frekar til í að sjá hann hægra megin, Salah uppi á topp og svo þá annaðhvort Gakpo eða Nunez vinstra megin.

  Enginn þeirra Hendo, Milner eða Virgil eru í byrjunarliði, svo það er Andy Robertson sem leiðir okkar menn út á völlinn í þetta sinn og ber fyrirliðabandið. Getur ekki passað að þetta sé fyrsti leikurinn þar sem hann byrjar sem slíkur?

  Í lið Brighton vantar nokkra sem voru með síðast, þar á meðal góðkunningja vor Adam Lallana sem varð fyrir þeirri fáheyrðu óheppni að meiðast, en jafnframt Moises Caicedo sem tók upp á því að birta póst á samfélagsmiðlum sem verður vart túlkaður öðruvísi en kveðjupóstur til stuðningsmanna – án þess að nokkur sala hafi verið staðfest! Hugtakið “dodged a bullet” kemur hér upp í hugann, þetta hljómar a.m.k. ekki eins og Klopp leikmaður.

  En svo eru stelpurnar okkar líka að spila, líka í bikarnum, og andstæðingurinn er Chelsea. Þeirra leikur hefst hálftíma fyrr, eða núna kl. 13:00. Þær halda áfram í 4-3-3 og byrja svona:

  Laws

  Koivisto – Fahey – Matthews – Campbell

  Kearns – Nagano – Holland

  Lawley – Stengel – Daniels

  Bekkur: Kirby, Cumings, Bonner, Robe, Silcock, Hinds, Humphrey, Lundgaard, Furness

  Magnað hvað skipuleggjendum tekst að raða leikjum liðanna á sama tíma, bagalegt fyrir okkur sem langar að fylgjast með báðum liðum.

  Up the reds!!!

  [...]
 • Brighton and Hove Albion í bikarnum

   

  Suðurstrandarborgin Birghton er ein sú allra yndislegasta á Englandi. Hún hefur ekki alltaf verið fræg fyrir fótbolta en stuðningsmenn liðsins eru nú að upplifa hálfgerða gullöld. Þeir hafa aldrei verið jafn lengi efstu deild, kláruðu í fyrra í efsta sæti sem þeir hafa nokkurn tímann náð og eru nú þegar tímabilið er hálfnað virðast þeir eiga fínasta séns á Evrópusæti. Margir óttuðust það versta þegar þjálfarinn var keyptur í haust, en allt bendir til að Brighton hafi komið betur útúr þeim díl.

  Á sama tíma eru okkar menn að sýna eilítin batamerki eftir sú stanslausu drullu sem Janúar hefur verið. Það verður afar áhugavert að sjá hvernig okkar menn nálgast þennan leik. Bikarinn er líklega eini séns okkar manna á dollu í vetur og eins og stendur er vika á milli leikja. Þannig að það er í raun engin ástæða til að spila ekki okkar sterkasta lið, en hvað í ósköpunum er okkar sterkasta lið?

  Andstæðingurinn – Brighton.

  Eins og áður sagði þá eru Brighton í hálfgerðri gullöld fyrir félagið. Við höfum reyndar séð þetta áður. Lið nær að koma sér upp með ákveðnum leikstíl, er vel rekið og mjakar sér upp töfluna hægt og rólega upp töfluna. Oftar en ekki kemst liðið í evrópubaráttu jafnvel Evrópu keppni. Að lokum eru einhver mistök gerð, stærri lið týna til sín stjörnurnar og reksturinn fer úr jafnvægi. Liðið sogast niður í botnbaráttu og fellur að lokum. Já ég er að horfa á ykkur Southampton, Fulham, Stoke, Bournemouth og Burnley.

  En vonandi njóta þeir þess á meðan á því stendur. Þeir nutu þess allavega í botn þegar lið þeirra niðurlægðu okkar menn á dögunum. Sá leikur var erfiður áhorfs. Suðurstrandarstrákarnir einfaldlega börðu okkar menn niður og gerðu lítið úr þeim. Ef ekki er hefndarhugur í okkar mönnum eftir sú útreið er eitthvað rotið í hópnum.

  Eins og áður sagði misstu Brighton menn þjálfaran sinn í haust. Graham var þá líklega heitasti þjálfarinn í enska boltanum. Það hafa líklega fæstir spáð því að Brighton myndu ráða Roberto De Zerbi úr ítölsku deilidinni. De Zerbi er nú þegar komin með nokkuð langt CV: Darfo Boario (ítalskt neðri deildarlið), De Foggia í c-deildinni á Ítalia, hörmungartímabil hjá Palermo, góður árangur hjá Benevento, Sassuaolo og að lokum Shakhtar Doneskt áður en stríðið stöðvaði fótboltan í Úkraínu.

  Skilaboðinn frá De Zerbi þegar hann tók við voru nokkuð skýr: Potter stóð sig vel, höldum því starfi áfram og bætum ofan á það. Það virðist hafa virkað, Brighton hafa ekki tapað í janúar.

  Með öðrum orðum, þetta verður hörku leikur og ef okkar menn vilja halda þessum bikar á Anfield, þá er eins gott að þeir mæti á völlinn með hausinn skrúfaðan rétt á.

  Okkar menn.

  Það segir eitthvað um ástandið í janúar að sumir, ég þar með talin, horfðu á miðdeildarmoðið gegn Chelsea um síðustu helgi og hugsuðu: Ég sé framfarir.

  Frá blaðamanna fundi Klopp var lítið nýtt að frétta varðandi meiðsli leikmanna, alla vega fyrir þennan leik. Van Dijk, Firmino og Jota eiga allir að koma aftur til æfinga eftir nokkra vikur. Það er víst “aðeins lengra” (hans orð) í Diaz greyið. Klopp talaði um að allavega Jota og jafnvel Virgil og Firmino yrðu góðir fyrir Real Madrid. Það eru samt heilir fjórir leikir í það.

  Það er bæði erfitt og einfalt að giska á þetta byrjunarlið. Einfalt vegna þess að það eru ekki svo margir kostir í boði í flestar stöður, erfitt því maður áttar sig ekki alveg á hvar sumir leikmenn standa. Gomez og Konate virðast vera að þróa ágætt samstarf í fjarveru Van Dijk, vona að Robbo og Trent verði á sínum stað.

  Þar fyrir framan er eitt stórt spurningarmerki frá Brasilíu. Fabinho hefur verið heillum horfin í langan tíma og eitthvað hefur kallinn hugsað þegar Bajecetic fékk að byrja gegn Chelsea. Ungu strákurinn er klárlega ekki tilbúin í deildina en spurning hvenær Fab fær tækifæri til að reyna að endurheimta sætið sitt. Best væri auðvitað ef það gerðist áður en Bajecetic gerir einhver mistök sem kostar liðið stig, bæðið fyrir hann og liðið. Þannig að ég spái Fabinho aftur í byrjunarliðinu.

  Þar fyrir framan held ég að þurfi meiri vinnslu en áður, verður Keita og Henderson. Salah hefur ekki verið Salah í svolítin tíma og manni langar smá að spá að Elliot fái að byrja fyrir hann, en raunhæft verður þetta Salah, Gakpo og Nunez. Vonum bara að þeir þrír finni einhvern neista á milli hvors annars sem allra fyrst.

  Spá

  Spái hér með hjartanu: 2-3 fyrir Liverpool. Þetta er síðasti leikurinn í þessum mánudagslegasta janúar sem menn muna, vonandi náum við í einn bevítans sigur í honum og getum horft bjartsýnni á seinni helming tímabilsins.

  [...]
 • Bajcetic skrifar undir nýjan samning

  Í dag var tilkynnt að hinn 18 ára Stefan Bajcetic (eða Stevie B eins og gárungarnir kalla hann) hefði skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið. Klopp er þar með að verðlauna strákinn fyrir framgöngu sína undanfarnar vikur og mánuði, og þessi nýji samningur er fyllilega verðskuldaður.

  Ef við hefðum spurt fyrir ári síðan “Hvaða leikmaður U18 eða U21 heldur þú að verði næsti leikmaður til að byrja deildarleik með aðalliðinu?” þá stórefast ég um að margir hefðu merkt við Bajcetic. Fyrir ári síðan var hann rétt svo búinn að vera ár hjá klúbbnum, og þá eingöngu spilað með U18. Ég hugsa að flestir hefðu líklega nefnt Kaide Gordon, mögulega leikmenn eins og Balagizi, hugsanlega einhver hent í Musialowski. Owen Beck og Conor Bradley hefðu sjálfsagt fengið nokkur atkvæði. Jafnvel Cannonier.

  Þetta sýnir því hvað þessi framganga kjúklinganna okkar er ófyrirsjáanleg. Leikmenn sem eru á allra vörum og líta út fyrir að vera alveg að springa út geta auðveldlega fengið vaxtarverki í heilt ár (eins og Kaide Gordon), nú eða einfaldlega rekist á einhvern vegg og aldrei stigið upp úr því að vera efnilegir (eins og virðist vera að gerast með Musialowski). Við sjáum þetta með markmennina, fyrir ekkert svo löngu síðan þótti Kamil Grabara vera lang mesta efnið meðal kjúklinganna okkar, Kelleher var vissulega ekkert langt undan, en klárlega meira talað um Grabara. Við sjáum hvernig þeir eru í dag, Kelleher er núna sá markvörður sem hefur unnið flestar vítakeppnir í sögu klúbbsins. Geri aðrir betur.

  Eftir þessa lýsingu á því hvað það er geðveikislega erfitt að spá fyrir um þessa hluti, þá skulum við leggja spurninguna hér að ofan fyrir ykkur, lesendur góðir:

  Hvaða leikmaður U18 eða U21 heldur þú að verði næsti leikmaður til að byrja deildarleik með aðalliðinu?

  Endilega hendið ykkar ágiskun í athugasemdir við færsluna, og megið alveg setja rökstuðning með ef þið eigið slíkan í handraðanum. Hér má nefna alla leikmenn U21 og U18, hvort sem þeir spila með Liverpool í dag eða eru á láni. Einnig má svara “Einhver sem er ekki hjá klúbbnum”, því sá möguleiki er að sjálfsögðu fyrir hendi. Athugið að bikarleikir teljast ekki með, enda mun algengara að leikmenn fái tækifæri þar án þess nokkurntímann að eiga séns á að spila í deildinni. Rétt svar kemur í ljós um leið og einhver nýr leikmaður úr akademíunni byrjar deildarleik. Hvenær það verður er svo ógjörningur að segja, en ég ætla þó að spá því að það gerist á meðan Klopp stýrir klúbbnum.

  [...]
 • Liverpool eftir 19 leiki í deild.

  Vá hvað ég var spenntur fyrir þessu tímabili. Við vorum frábærir á tímabilinu á undan og skoðaði maður hópinn og hugsaði ég held að við verðum bara sterkari í ár. Ungu strákarnir komnir með meiri reynslu og þótt að maður saknaði Mane mikið þá hélt ég að Nunez myndi koma ferskur inn og núna værum við með heilt tímabil af Diaz sem mér finnst frábær leikmaður.

  Eftir sigur á Man City í góðargerða leiknum þar sem við spiluðum virkilega vel þá sagði ég bara fuck it og spáði okkur sigri í deildinni en geri það nánast aldrei.

  Sjáum hvernig staðan er á okkur.

  1. Fulham úti 2-2 – Mikil vonbrigði en það getur verið erfitt að mæta nýliðum í fyrsta leik. Þetta er engin heimsendir.
  2. C.Palace heima 1-1 – Manni færri og marki undir en náðum að bjarga þessu með góðum síðari hálfleik. Þetta er samt skelfileg byrjun en bara áfram með smjörið.
  3. Man utd úti 1-2 tap – Þetta var hræðilegt. Þeir hafa litið illa út en við gáfum þeim sjálfstraust sem hefur ekki horfið síðar.
  4. Bournmouth heima 9-0 – Yes, loksins er liðið mæt til leiks, núna förum við á fullt.
  5. Newcastle heima 2-1 – Flott, þetta er gott lið og við náðum í mikilvæg 3 stig. Höldum þessum áfram.
  6. Everton úti 0-0 – Þetta var einfaldlega lélegt og ég held bara að við séum ekki að komast í gang.
  7. Brighton heima 3-3 – Ég trúi þessu ekki. Að við séum bara komnir á þennan stað.
  8. Arsenal úti 2-3 tap – Við áttum ekkert skilið og svei mér þá, þá held ég að titilinn sé bara úr sögunni strax eftir 8.leiki.
  9. Man City heima 1-0 – Loksins alvöru leikur þar sem við náum að sigra sterkan andstæðing.
  10. West ham heima 1-0 – Ok, kannski var ég of fljótur á mér. Það er en þá von með þetta lið.
  11. N.Forest úti 0-1 tap – Ég get þetta lið ekki lengur. Þeir gefa manni von og rífa úr mér hjartað.
  12. Leeds heima 1-2 tap – Jæja ef þeir ætla ekki að nenna þessu þá er ég hættur að fylgjast með.
  13. Tottenahm úti 2-1 – ok, ég er ekki hættur að fylgjast með ég get það aldrei. Flottur sigur en ég er ekki vongóður um framhaldið.
  14. Southampton heima 3-1 – Við eigum að sigra þetta lið og við gerðum það.
  15. A.Villa úti 3-1 – Flott að tengja þrjá sigra í röð í deild og liðið tilbúið eftir HM.
  16. Leicester heima 2-1 – Þetta hafðist en við vorum ekki góðir.
  17. Brentford úti 1-3 tap – Auðvitað kom svona skellur gegn svona liði.
  18. Brighton úti 0-3 tap – Okkar lélegasti leikur á tímabilinu og segir það ansi mikið um þennan leik.
  19. Chelsea heima 0-0 – Það var smá barátta en ekki góður leikur heilt yfir.

  = Skelfilegt tímabil og það sem meira er Man City eru ekki að komast á flug og hugsar maður til árana þar sem við vorum frábærir og náðum í fullt af stigum en lentum í 2.sæti á eftir þeim í epic meistarabaráttu.

  Það eru 19 leikir eftir í deild og er ekkert sem bendir til að við séum að fara á eitthvað svakalegt flug á næstunni. Vörnin óstöðug, miðjan okkar stærsta vandamál og sóknarlínan er annað hvort ekki með líkamlega(allir meiddir) eða andlega (að klúðra færum)

  Ég samt sem áður elska mitt Liverpool lið og vona hið besta og úr þessu væri besti 4.sæti og smá bikar run og reyna að gera eitthvað næsta sumar til að styrkja liðið.

  YNWA – Í blíðu og stríðu.

  [...]
 • 8 liða úrslit í Continental bikarnum hjá stelpunum – West Ham mæta

  Ekki náðist að spila nema örfáar mínútur á sunnudaginn, en það er allt útlit fyrir að stelpurnar okkar nái að spila leikinn gegn West Ham í 8 liða úrslitum í Continental bikarnum núna kl. 19:30 á Prenton Park. A.m.k. var ekkert auglýst með “pitch inspection” fyrir leikinn. Þær urðu í 2. sæti í sínum riðli á eftir City, en nokkur lið í 2. sæti í sínum riðlum með besta markahlutfallið komust áfram, og okkar konur voru þar á meðal.

  Smá breyting á liðinu, og Matt Beard virðist vera að svissa yfir í 4-3-3:

  Kirby

  Koivisto – Fahey – Bonner – Hinds

  Kearns – Nagano – Holland

  Lawley – Stengel – Daniels

  Bekkur: Laws, Robe, Campbell, Matthews, Furness, Lundgaard, Humphrey, Taylor

  Fyrsti leikurinn hjá Faye Kirby í byrjunarliði, verður gaman að sjá hvernig hún mun pluma sig. Annars líklega bara okkar sterkasta lið, þó það megi reyndar örugglega færa rök fyrir því að Furness t.d. gæti verið þar líka. Kostirnir á miðjunni eru a.m.k. orðnir allnokkrir.

  Leikurinn verður sýndur á The FA Player, og merkilegt nokk virðist ekki þurfa VPN til Englands!

  Það væri nú ekki leiðinlegt ef stelpunum okkar tækist að komast í undanúrslitin…

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Gullkastið – Janúar!

  Það er ekki nýtt að Liverpool gangi illa í janúar og það breytist lítið í síðustu viku. Sigurleikur þó í auka leiknum gegn Wolves í 64-liða úrslitum FA Cup og steindautt 0-0 jafntefli í pirrandi leik á Anfield gegn glænýju liði Chelsea. Það fer eftir því hvort glasið er hálf fullt eða hálf tómt hvort það hafi verið batamerki greinanleg á leik liðsins.

  Skoðum það helsta út deildinni almennt og næstu verkefni

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils Gull       Húsasmiðjan          Sólon           Jói Útherji         Ögurverk ehf

  MP3: Þáttur 413

  [...]
 • Ekki lengur gáfaðari en andstæðingurinn

  Samkeppnisforskot FSG í bæði hafnabolta og knattspyrnu var að vera gáfaðari en andstæðingurinn.

  John W Henry og aðrir eigendur FSG fundu ekkert upp á þessari svokölluðu Moneyball aðferðarfræði en þeir hafa sannarlega tileinkað sér hana og þróað með frábærum árangri. Bæði Boston Red Sox og Liverpool bundu enda á áratuga titlaþurrð þrátt fyrir að eyða ekki nærri því jafn miklu í leikmannakaup og helstu keppinautar. Liverpool átti ekki ósvipað tímabil 2014 og Arsenal er að eiga núna og var hársbreidd frá því að taka titilinn þá en mikilvægasta skrefið var ráðning Jurgen Klopp og hans þungarokks fótbolta. Hans hugmyndafræði gengur út á að þróa og móta unga og hungraða leikmenn frekar en að treysta á eldri og reyndari leikmenn, sama átti við um FSG.
  (more…)

  [...]
 • Liverpool mætir Chelsea aftur

  Jebb, það eru stelpurnar okkar í þetta sinnið. Leikur kl. 12:30 í London, reyndar var óvíst hvort leikurinn gæti farið fram vegna vallaraðstæðna, en það slapp víst til.

  Við sjáum nýtt andlit í byrjunarliðinu, því Fuka Nagano byrjar á miðjunni. Svo er annað nýtt andlit á bekk, því í vikunni var tilkynnt um enn einn nýja miðjumanninn: Miri Taylor, en hún kemur frá Bandaríkjunum þó hún sé reyndar uppalin Lundúnarbúi og byrjaði með Chelsea. Maður hefði haldið að áherslan væri kannski frekar á að fá fleiri í sóknina, en ok.

  Hvað um það, liðið lítur svona út:

  Laws

  Fahey – Bonner – Campbell

  Koivisto – Holland – Nagano – Matthews

  Lawley – Stengel – van de Sanden

  Bekkur: Kirby, Robe, Hinds, Kearns, Furness, Lundgaard, Humphrey, Taylor, Daniels

  Það eru sumsé 5 miðjumenn á bekk, en einn sóknarmaður. Cumings og Roberts ennþá frá vegna meiðsla að því er talið er, en Hannah Silcock er víst í prófum. Já þetta gerist þegar ungir leikmenn spila sig inn í aðalliðið…

  Fyrri leikurinn endaði jú með 2-1 sigri hjá okkar konum, en síðan hafa úrslitin verið meira í hina áttina hjá báðum liðum: Chelsea hafa svo aðeins gert eitt jafntefli, en unnið rest, á meðan Liverpool hafa unnið West Ham, gert tvö jafntefli, en tapað hinum leikjunum. Við erum því ekkert allt of bjartsýn í dag, en vorum það svosem ekki heldur fyrir opnunarleikinn. Eins og í síðasta leik sjáum við andlit Niamh Charles í liði andstæðinganna, gleymum því auðvitað ekki að þar er á ferðinni uppalinn púlari.

  Leikurinn verður sýndur á The FA Player að venju.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Liverpool 0 – 0 Chelsea

  Gangur leiksins

  Leikirnir gegn Chelsea hafa á síðustu árum langoftast verið ströggl, jafnvel þó svo Liverpool væri í formi lífs síns, og leikurinn í dag var engin undantekning. Chelsea var hættulegri aðilinn, og náðu reyndar að pota boltanum í netið strax á 3. mínútu eftir að varnarmenn okkar höfðu gefið gjörsamlega óþarft horn. Sem betur fer reyndist VAR koma okkur til bjargar og rangstaða réttilega dæmd. Þetta var annars mest stöðubarátta, Gakpo fékk tvö sæmileg skotfæri en bæði fóru yfir, og Salah eitt en það fór líka yfir.

  Síðari hálfleikur byrjaði mun betur, og í sirka korter sáum við lið sem hefur allt of lítið glitt í á síðustu vikum. En svo var augljóst að menn voru orðnir þreyttir, og fyrsta skiptingin kom í kringum 60. mínútu þegar Nunez kom inn fyrir Keita. Í staðinn fór Elliott niður á miðjuna, og bara sorrý en það er ekki að ganga. Má reyndar alveg færa rök fyrir því að hann eigi heldur ekki heima á vinstri kanti. Hans staða er einfaldlega uppi hægra megin, en það bara vill þannig til að leikmaður að nafni Mohamed Salah er fyrsta val í þá stöðu. En Elliott hefur aldrei virkað almennilega sem miðjumaður, og spurning hvort hann gerir það nokkurntímann.

  Nunez kom reyndar nokkuð ferskur inn og var að gera góða hluti í þau skipti sem hann fékk sénsinn. Svo kom Trent inná fyrir Milner sem var á þeim tímapunkti kominn með gult spjald eftir að hafa þurft að tækla Mudryk, nýja Úkraínumanninn í liði Chelsea, sem því miður lítur út fyrir að vera ansi sprækur, og hefði sjálfsagt getað skorað mark í dag með aðeins meiri óheppni hjá okkar mönnum (og þá heppni hjá honum). En sem betur fer gerði hann það ekki. Undir lokin komu svo Fab, Hendo og Curtis inná fyrir Bajcetic, Elliott og Gakpo, Nunez fór upp á topp og Jones á vinstri kantinn, sem er ekki heldur optimal, en svona er það að vera bæði án Jota og Díaz.

  Líklega kom hættulegasta færið á fyrsta korterinu þegar Keita átti skot innan úr teig sem Silva hreinsaði fyrir framan marklínu. Gakpo átti líka gott skot eftir fínan samleik við Nunez, en Kepa varði frekar auðveldlega. Liverpool er bara alls ekki sama monsterið fyrir framan mark andstæðinganna, og kannski ekki skrýtið þegar það vantar Firmino, Díaz og Diogo, auk þess sem Nunez var að koma til baka úr meiðslum.

  Semsagt, markalaust jafntefli staðreynd, og í ljósi síðustu úrslita er kannski ekkert annað að gera en að vera nokkuð sáttur með stigið. A.m.k. ljóst að liðið gerði ekki betur gegn Chelsea í venjulegum leiktíma í fyrra.

  Frammistaða leikmanna

  Það jákvæða er að enginn var eitthvað hræðilega lélegur, liðið var heilt yfir að sýna nokkuð jafnan leik. Það er þó ljóst að Gakpo er nýkominn og þarf sinn tíma til að aðlagast liðinu, hjálpar honum svosem lítið hvað liðið er ekki fúnksjónal í augnablikinu. Sést líka bara hvað Salah er ekki að finna sinn takt, og þá kannski ósanngjarnt að ætlast til þess að Gakpo finni hann eitthvað frekar. En innkoman hjá Díaz í fyrra var klárlega talsvert efnilegri. Afskrifum samt engan eftir 3 vikur.

  Persónulega fannst mér Robbo líklega með hæsta orkustigið, en miðverðirnir voru líka góðir, og Alisson varði a.m.k. einu sinni mjög vel.

  Umræðan eftir leik

  • Það hefði nú verið gaman að geta gefið Klopp einhverja aðeins betri gjöf í 1000 leikja afmælinu sínu. En svosem jákvætt að það var ekki tap í pakkanum.
  • Elliott var annars að spila sinn 50. leik fyrir liðið. Í dag var hann megnið af tímanum á vinstri kanti áður en hann færði sig niður á miðjuna. Hvenær ætlar þjálfarateymið að sætta sig við það að hans besta staða er einfaldlega sama staða og Salah? Má ekki prófa að setja Salah í senterinn? Ekki það að ég skal engu lofa með að það muni virka, það má vel vera að þetta séu einfaldlega of líkir leikmenn stöðulega séð, og leiti of mikið í sömu svæðin á vellinum.
  • Já, það þarf að endurnýja miðjuna. Bajcetic er jú ennþá bara ungur og óharðnaður unglingur, en virkaði samt alls ekkert lakari kostur heldur en Fabinho, og Stefan litli á sjálfsagt bara eftir að stækka. Þá bæði líkamlega, sem og í þessu hlutverki. En svo verður líka bara mjög gaman að fá sóknarmennina okkar til baka. Ég hugsa að hvaða lið sem er í deildinni myndi finna fyrir því að missa Díaz, Jota og Bobby úr framlínunni.
  • Já, Gakpo er ekki að heilla í sínum fyrstu leikjum. Gefum honum sama séns og við gáfum Andy og Fab, sem spiluðu lítið sem ekkert fyrsta hálfa árið. Með réttu ætti Gakpo að fá hálft ár bara í að venjast liðinu áður en honum væri hent út í byrjunarliðið, en út af dottlu þurfti bara að henda honum út í djúpu laugina frá fyrsta degi.

  Næstu leikir

  Það er rúm vika í næsta leik hjá strákunum okkar: þeir heimsækja Brighton á sunnudag eftir viku í bikarnum, en svo eru það aftur Úlfarnir helgina þar á eftir. Erum við semsagt bara að spila við Brighton og Wolves núna um þessar mundir? Ekki gekk síðasta heimsókn á suðurströndina neitt allt of vel, en vonum að Eyjólfur verði aðeins farinn að hressast um næstu helgi.

  Ekki er beint hægt að kvarta yfir leikjaálaginu, svo mikið er víst!

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close