Latest stories

 • Breiddin hjá Liverpool og Man City

  Öll bestu lið Liverpool á þessari öld hafa átt það sameiginlegt að töluvert hefur vantað upp á breiddina í liðinu. Liverpool hefur farið fjórum sinni í úrslit Meistaradeildarinnar á síðustu 14 árum sem segir okkur að byrjunarliðið var nógu gott til að berjast við þá allra bestu en eins og við sáum í Kiev í fyrra vantar alltaf aðeins upp á breiddina. Titilbaráttu tímabilið 2008/09 innihélt fjórtán innkomur frá David N´Gog sem dæmi og sölu á Robbie Keane í janúar til að vera nú alveg örugglega ekki með of mikla breidd. Tímabilið 2013/14 voru bara hinir og þessir settir í vörnina.

  Liverpool er núna komið aftur í baráttuna við þá allra bestu og sýndi í vetur að tapið í Kiev var heilmikill lærdómur. Klopp var þá satt að segja rétt að byrja að smíða núverandi lið. Man City sem náði 100 stigum í deildinni þetta sama tímabil er viðmiðið á Englandi og nokkuð augljóst að þeir voru bæði með besta byrjunarliðið og besta hópinn í heild.

  Mig langar aðeins að skoða hversu mikill munur er á hópi Liverpool og Man City núna áður en liðin byrja að versla fyrir næsta tímabil. Þ.e.a.s. skoða hópa liðanna í fyrra. Liðunum stilli ég upp m.v. hvernig líklegt byrjunarlið væri á næsta tímabili en tek auðvitað mið af síðasta tímabili, ekki taka þessu of hátíðlega.

  Markmaður

  Það er ekki mikið á milli þeirra en landsliðsþjálfari Brasilíu velur vissulega Alisson. Báðir spiluðu 100% mínútna í deild og Meistaradeild þannig að breiddin skipti ekki máli. Eins fengu þeir á sig 22 og 23 mörk í deildinni sem er frábært.

  Vinstri bakvörður

  Andy Robertson er á einu og hálfu ári búinn að fara frá því að vera gamli bakvörður Hull í almennri fótboltaumræðu í það að vera almennt sagður besti vinstri bakvörðurinn í boltanum. Mendy hjá Man City var líklega á góðri leið með að verða einn af þeim bestu og gæti alveg orðið það ennþá en hann er núna búinn að vera meiddur í tvö ár og á meðan hefur City spilað 3-4 mismunandi leikmönnum í þessari stöðu þar sem hver og einn spilaði 20-35% Öfugt við Liverpool er þessi staða semi veikleiki hjá City. Hvað breiddina varðar þá er James Milner líka betri vinstri bakvörður en það sem City hefur verið að spila þarna í vetur.

  Miðverðir

  Hér eru bæði lið gríðarlega vel mönnuð. Van Dijk ætti að öllu eðlilegu að vinna Ballon d´Or fyrir sitt framlag í vetur og með honum í vetur spiluðu þrír leikmenn sem hafa allir sýnt að þeir geta spilað á hæsta leveli. Joe Gomez er eitt mesta efni heimsfótboltans í sinni stöðu en þarf að fara ná meiðslalausu tímabili. Van Dijk spilaði t.a.m. 97% leikja Liverpool í vetur sem er grunnurinn að öllu tímabilinu.

  Liverpool er vissulega með dýrasta varnarmann í heimi en Man City er með dýrasta hóp miðvarða í heimi. Tímabilið hjá þeim var mjög svipað og okkar. Laporte spilaði 91% leikjanna og er besti varnarmaður liðsins á meðan hinir þrír skiptu mínútunum nokkuð jafnt á milli sín.

  Kompany sem hefur verið fyrirliði City undanfarin ár hætti eftir tímabilið, það er ekkert grín að fylla hans skarð innanvallar og líklega ennþá erfiðara utanvallar. Það mun kosta töluverða fjárhæð. Eins er Otamendi orðinn 31 árs og kannski ólíklegt að hann festi sig mikið í sessi sem byrjunarliðsmiðvörður úr þessu?

  Liverpool er með betri breidd hérna eins og staðan er núna (áður en City byrjar að versla).

  Hægri bakvörður

  Það er bara tímaspursmál hvenær Alexander-Arnold tekur sæti Kyle Walker í landsliðinu. Raunar er ekki það langt síðan Clyne var fyrir framan hann í goggunarröðinni. Trent og Walker eru auðvitað báðir frábærir leikmenn en þakið er miklu hærra hjá Trent sem er aðeins 20 ára á meðan hinn 29 ára Walker á er hátindi ferilsins. Þegar Walker var 20-21 árs var hann á láni hjá Sheffield United, QPR og Aston Villa.

  Breiddin er hinsvegar miklu sterkari hjá City. Liverpool var í töluverðu basli þegar Trent gat ekki spilað og var t.d. að henda haugryðguðum Clyne í stóran leik í versta hallærinu. Milner tók einnig nokkra ásamt Gomez þegar hann var heill. Gæðamunurinn á Gomez og Trent í þessari stöðu hefur aukist töluvert í vetur. Danilo spilaði bara þessa leiki sem Walker tók ekki hjá City, fínt að eiga gamla hægri bakvörðinn frá Real Madríd til vara.

  Varnartengiliðir

  Rétt eins og meirihluti þeirra leikmanna sem Jurgen Klopp kaupir fékk Fabinho nokkra mánuði til að aðlagast og læra inn á leikstíl liðsins. Loksins kominn varnartengiliður til Liverpool en ljóst að hann á miklu meira inni enda spilaði hann bara 60% af leikjum liðsins og ekkert alla sem sá varnartengiliður sem endaði tímabilið.

  Fernandinho hjá City þurfti hinsvegar ekkert að aðlagast og var rétt eins og undanfarin ár einn besti miðjumaður deildarinnar. Óþolandi góður leikmaður og passlega dirty þannig að hann sleppur alltaf við alvarlegar refsingar. Hann er öfugt við Fabinho í landsliði Brassa í sumar en það er spurning hvað hann endist lengi á þessu leveli? Fernandino er orðinn 34 ára gamall á meðan Fabinho er bara 25 ára. Til að setja þetta í samhengi var Fernandinho 28 ára þegar hann fór til Man City.

  Henderson, Wijnaldum, Milner og Keita hafa allir reynslu af því að spila aftast á miðjunni ef að til þess kemur en breiddin í þessari stöðu batnar vissulega rosalega með innkomu Fabinho. City er með Gundogan, Zinchenko og Delph sem ég myndi ekki kalla betri breidd. City reyndi að styrkja þessa stöðu fyrir síðasta tímabil (Jorginho) og því ekki ólíklegt að þeir láti til sín taka aftur í sumar.

  Miðjumenn

  Jordan Henderson spilaði bara 61% af leikjum Liverpool í deild og Meistaradeild í vetur sem kemur smá á óvart. En eftir Southampton leikinn þar sem Henderson fékk loksins að spila sína bestu stöðu undir stjórn Klopp hefur hann verið einn besti leikmaður liðsins og fyrsta nafn á blað á miðjunni. Vonandi verður hann meira í þessu box-to-box hlutverki næsta vetur með vernd fyrir aftan sig.

  Það er erfitt að bera City og Liverpool nákvæmlega saman enda ólíkt upplegg á miðjunnu en ætli David Silva hafi ekki komist næst því að spila á miðri miðjunni hjá City í vetur eins og við erum að stilla þessu upp. Hann er einn besti miðjumaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og var frábær í vetur. Hann spilaði 72% leikja City og sýndi þess ekki merki að hann er orðinn 33 ára.

  Kevin De Bruyne er auðvitað tilbúinn sem arftaki fyrir hann og jafnvel ennþá betri leikmaður haldist hann heill. Hjá Liverpool bjóst maður nú við því að Wijnaldum myndi spila minna í vetur en undanfarin ár hann fór auðvitað bara upp um eitt level og spilaði mest allra miðjumanna Liverpool.

  Sóknartengiliður

  Bernando Silva var einfaldlega besti sóknartengiliður deildarinnar í vetur og að mínu mati besti leikmaður Man City. Hann er sá úr þessu liði sem ég myndi mest vilja fá til Liverpool. Hann er auðvitað miklu meira en bara sóknartengiliður rétt eins og að ekki er hægt að njörva neinn miðjumann þessara liða við eina stöðu.

  Ef að Liverpool þróast áfram eins og liðið hefur verið að gera er ekki ólíklegt að 1-2 af þeim sem voru lykilmenn í vetur verði meira á bekknum næsta vetur. Fremsti miðjumaður var helsti veikleiki Liverpool í vetur og ljóst að erfitt var að fylla skarð Oxlade-Chamberlain eins og hann var að spila eftir áramót 2017/18. Naby Keita náði bara að sýna brot af því sem hann getur og takist honum að eigna sér þessa stöðu og spila á svipuðu leveli og hann gerði hjá Leipzig stórbætir það líklega sóknarleik miðsvæðisins. Ox sjálfur gæti einnig komið inn í liðið aftur og fyllt sitt eigið skarð. Wijnaldum er svosem ekkert vonlaus heldur fái hann að spila þessa stöðu. Barcelonamenn geta vottað fyrir það.

  Liverpool verður vonandi með sóknartengilið næsta vetur sem er mun nær Bernardo Silva í gæðum sóknarlega.

  Miðjan almennt

  Ef að Klopp gerir einhverjar breytingar á miðjunni næsta vetur verða þær líklega allar innanhúss. Líklega þurfa allir miðjumenn Liverpool meiri festu og með því skýrara hlutverk. Það er augljóslega rosalega erfitt að vera miðjumaður í Klopp liði, það var vitað áður en hann kom til Liverpool. En vonandi fá miðjumenn liðsins að spila sína bestu stöðu næsta vetur.

  Fabinho er okkar langbesti varnartengiliður en spilaði líklega minna aftast á miðjunni en Henderson og Wijnaldum gerðu (samanlagt) síðasta vetur. Henderson fór umsvifalaust í 2013/14 mode þegar hann kom inná gegn Southampton sem box-to-box leikmaður með frelsi til að pressa hátt uppi. Hlutverkið sem maður hélt að væri hannað fyrir hann undir stjórn Klopp. Wijnaldum er fjölhæfur leikmaður en kemur það niður á honum að spila allar þrjár stöðurnar á miðjunni en festa sig aldrei í sessi í neinni þeirra?

  Hjá Man City eru þeirra bestu miðjumenn komnir á aldur og Kevin De Bruyne hlítur að vera áhyggjuefni. Bernardo Silva er geggjaður og Foden er eitt mesta efni Englendinga en þeir þurfa líklega að styrkja sig í sumar. Hérna finnst mér ekki mikið vera á milli liðanna.

  Vængframherjar

  Það er ekki mikið á milli Sterling og Mané þó annar þeirra hafi verið töluvert meira hype-aður heldur en hinn. Mané skoraði fimm mörkum meira í deildinni en Sterling kom að fjórum mörkum meira. Báðir passa fullkomlega inn í leikstíl þjálfaranna. Afhverju Sané er ekki að þróast í að vera einn besti leikmaður í heimi skil ég ekki alveg og óttast að hann gæti sprungið almennilega út á næstu árum (enda bara 23 ára). Hann er a.m.k. ekki ennþá í sömu deild og Salah en gleymum ekki að 23 ára var Salah lánsmaður frá Chelsea að spila á Ítalíu.

  Hvað breidd varðar þá held ég að munurinn í þessari stöðu hafi verið stórlega ofmetinn í vetur. Mahrez er rosalega flott nafn á pappír og hann átti vissulegan stóran þátt í gengi City af bekknum eða sem partur af hópnum en sama má segja um Shaqiri. Mahrez skoraði átta mörk og lagði upp átta í deild og Meistaradeild. Shaqiri skoraði 6 mörk og lagði upp þrjú en í miklu færri leikjum.

  Bernardo Silva spilaði eitthvað á vængjunum líka en rétt eins og hjá Liverpool voru ekkert mikið fleiri að koma við sögu í þessum stöðum hjá City. Ég myndi ekki skipta á neinum frá Liverpool við vængframherja City enda vængframherjar Liverpool bókstaflega markahæstu menn tímabilsins.

  Sóknarmenn

  Aguero og Firmino gætu ekki verið mikið ólíkari leikmenn og bæði erfitt og ósanngjarnt að bera þá saman. Aguero er einn besti sóknarmaður úrvalsdeildarinnar (frá upphafi) og hefur náð að breyta leikstíl sínum til að aðlagast Pep Guardiola og þeirri vinnusemi sem hann fer fram á. Hann er að halda einni mestu vonarstjörnu Barsilíumanna á bekknum, leikmanni sem er oft valinn framyfir Firmino í landsliðið. Aguero skoraði mun meira í vetur og lagði jafnframt meira upp en Firmino.

  Þrátt fyrir það held ég að fáir Liverpool menn tækju í mál að skipta við City. Bobby er leikkerfið hjá Liverpool. Hann er samhliða því að vera fremsti maður einn besti varnarmaður liðsins og skapar það mikinn tíma og pláss fyrir samherja sína að þeir eru báðir markahæstu menn deildarinnar. Firmino saknaði líklega mest allra Oxlade-Chamberlain í vetur enda var hann jafnan að spila miklu nær Firmino en miðjumenn liðsins gerðu í vetur.

  Aguero er rétt eins og Silva, Kompany og Fernandinho kominn norðurfyrir þrítugt og spurning hvort Jesus fari að taka af honum stöðuna? Jesus er aðeins 22 ára og gæti rétt eins og Sané alveg þróast í að verða einn af þeim allra bestu. Vonandi á Liverpool einnig slíkan leikmann í Rhian Brewster.

  Eins frábær og Origi var á þessu tímabili þá spilaði hann færri mínútur en Sturridge og megnið af þeim sem kantmaður. Breiddin er klárlega betri á pappír hjá City.

  Niðurstaða

  Rétt eins og niðurstaðan í deildinni sýndi okkur er ekki mikill munur á þessum hópum og City alls ekkert með miklu betri hóp. Liverpool er ef eitthvað er með mun meira spennandi hóp ef horft er til næstu ára.

  Helstu lykilmenn City frá því Guardiola tók við eru komnir á aldur og ekkert grín að fylla þeirra skörð þó City sé vissulega komið ágætlega á veg með það. Hjálpar rosalega við enduruppbyggingu á knattspyrnuliðum að hafa botnlausar hirslur til að fjármagna þetta og komast upp með það að gefa skít í FFP reglur í leiðinni.

  Leikmannakaup Man City hafa heldur ekkert verið í líkingu við Klopp og greiningardeild Liverpool undanfarin 2-3 ár og ekkert víst að allt sem þeir geri í sumar gangi 100% upp. City var vissulega komið í svipaða stöðu fyrir 2-3 árum og Liverpool er núna. Þurftu ekki að gera neinar róttækar breytingar nema auka breiddina og hafa gert það vel. Þetta Man City lið sem vann deildina með 98 stigum hefur að mestu leiti verið saman í 3-5 ár á meðan Liverpool liðið hefur verið verið að mótast undanfarin 1-2 ár. Líftími elítu liða er oft í kringum 3-5 ár áður en kemur að endurnýjun.

  Nú er bara að vona að Liverpool taki ekki Tottenham á leikmannamarkaðinn í sumar. Ég man ekki eftir Liverpool í betri stöðu til að styrkja hópinn en akkurat núna. Hamra járnið meðan það er heitt takk.

  [...]
 • Frábært tímabil – Uppgjör Kop.is 2018/19

  Líklega kemur það fáum á óvart að líklega hefur aldrei verið eins létt yfir pennahópi Kop.is þegar kom að uppgjöri tímabilsins. Það var ágætlega létt yfir okkur í fyrra en núna loksins landaði liðið risatitli aftur og gerði ótrúlega hluti í deildinni samhliða því. Hver og einn velur sína topp þrjá bestu leikmenn í þeim flokkum við á. Sá sem er efstur fær þrjú stig og þar sem við pennar síðunnar erum níu er mest hægt að fá 27 stig.

  Besti leikmaður tímabilsins

  1. Virgil Van Dijk (26)
  2. Sadio Mané (17)
  3. Alisson (4)

  Það voru allir sammála um Van Dijk og sömuleiðis Mané en þriðja sætið dreifðist meira á Salah, Robertson og Alexander-Arnold. Nokkuð mögnuð breyting frá síðasta tímabili þar sem sóknartríóið var afgerandi í efstu sætunum. Sáum líka í vetur að það er greinilea vörn sem vinnur titla.

  Bestu leikmannakaupin

  1. Alisson (27)
  2. Fabinho (18)
  3. Shaqiri (8)

  Magnað eftir rosalega bið að loksins þegar Liverpool kaupir heimsklassa varnartengilið sem augljóslega styrkir liðið gríðarlega er ekki hægt að velja hann einu sem bestu leikmannakaup tímabilsins. Líklega hefur Liverpool aldrei bætt markmannsstöðuna eins hressilega milli ára og núna. Magnað líka að Keita skori ekki eftir alla biðina eftir honum, eigum hann ennþá inni. Síðasta tímabil var samt ennþá öflugra með Salah, Van Dijk og Robertson sem að setur svolítið standardinn.

  Mestar framfarir

  1. Trent Alexander-Arnold (15)
  2. Joel Matip (14)
  3. Joe Gomez / D1v0ck Origi (8)

  Bakverðirnir voru báðir efstir í þessum flokki fyrir ári síðan og eiga skilið að vera það aftur núna. Robertson var kannski stabílli í vetur eftir frábært fyrsta tímabil á meðan TAA hélt áfram að bæta sig. Joel Matip náði loksins að spila meira en 7 leiki án þess að meiðast og viti menn þetta er hörkuleikmaður sem varð bara betri eftir því sem leið á lokakaflann. Joe Gomez var á góðri leið með að rústa þessum flokki í vetur þar til hann meiddist og Divock Origi ætti auðvitað að toppa alla lista í vetur.

  Besti leikur tímabilsins

  1. Liverpool – Barcelona 4-0 (27)
  2. FC Bayern – Liverpool 1-3 (10)
  3. Liverpool – Tottenham 2-0 – Madríd (8)

  Kannski ekki jafn margar flugeldasýningar og á síðasta tímabili en í efstu sætin núna raðast þrír af flottari/mikilvægari sigrum Liverpool á þessari öld. Barcelona leikurinn er besta kvöld sem Anfield hefur upplifað. Öll frægu Evrópukvöldin á Anfield falla í skuggann á þessum sigri. Hann er svo risastór á svo marga ólíka vegu. Auðvelt fullt hús auðvitað.

  Að vinna FC Bayern úti er jafnframt einn af flottari sigrum Liverpool í Evrópu. Þá erum við ekki aðeins að tala um þetta tímabil. Rosalegt statement eftir mjög lélegar frammistöður á útivelli í Evrópu fram að þessum leik.

  Madríd verður svo auðvitað aldrei flokkaður sem einn besti leikur tímabilsins og spurningin líklega ekki alveg nógu vel orðuð. Auðvitað er alltaf stærst að vinna Úrslitaleikinn í Meistaradeildinni og skítt með leikinn sjálfan, þessi sigur er á blaði hjá okkur yfir einn af bestu leikjum tímabilsins. Næst á eftir kom svo 5-1 burstið gegn Arsenal.

  Versti leikur tímabilsins

  1. Rauða Stjarnan – Liverpool 2-0 (19)
  2. Napoli – Liverpool 1-0 (8)
  3. Man Utd – Liverpool 0-0 (8)

  Hér komu nokkrir mismunandi leikir til greina eins og sjá má á stigagjöfinni en það segir kannski margt um tímabilið að margir þeirra voru ekki tapleikir. Leicester, West Ham, Man City og Wolves leikirnir komust einnig á blað, allir á þessum janúar-febrúar kafla rétt eins og United leikurinn. Hér hefur samt aldrei verið eins lítið úrval lélegra leikja.

  Bjartasta vonin

  1. Ki-Jana Hoever (14)
  2. Rhian Brewster (14)
  3. Bobby Duncan (5)

  Tveir leikmenn skara hressilega frammúr í yngri liðum Liverpool og ætti að teljast nokkuð öruggt að þeir koma til með að fá séns í aðalliði Liverpool í náinni framtíð. Meiri óvissa er um Bobby Duncan og Paul Glatzel sem slógu í gegn í U17 ára liðinu í vetur.

  Þetta er aðeins erfiður flokkur að skilgreina, hér reynum við að miða við leikmenn sem eru ekki nú þegar orðnir fastamenn. Hér falla því atkvæði til TAA og Gomez niður sem annars væru augljóslega í toppsætunum.

  Hvaða einkunn fær tímabilið í heild (hjá Liverpool)

  9,31

  Allir með einkunn á milli 9 og 10

  Hvaða einkunn fær þjálfarateymið 

  9,32

  Við erum að tala um að það vantaði 2 stig til að hér væri um fullt hús að ræða sem er vissulega ansi hressileg krafa.

  Hvaða leikmaður olli mestu vonbrigðum í vetur

  Hér var eiginlega ekki hægt að taka neinn sérstaklega fyrir en eðlilega var þetta tímabil ekki frábært hjá öllum leikmönnum liðsins.

  Dejan Lovren var búinn að festa sig í sessi undir lok síðasta tímabils og fór alla leið í úrslit á HM í sumar. Hann kom meiddur inn í þetta mót eftir að hafa ekki verið alveg hreinskilin við læknateymi Liverpool og meiddist fljótlega eftir að hann komst í liðið aftur. Klár fjórði kostur í sinni stöðu núna sem er mögnuð en jákvæð breyting fyrir Liverpool á einu ári.

  Væntingarnar til Naby Keita voru einnig töluvert meiri en hann náði að sýna. Hann var óheppinn með meiðsli og var lengi að finna taktinn hjá Liverpool í stöðu sem liðið þurfti hvað mest að styrkja. Hann sýndi samt nóg til að halda okkur vel spenntum fyrir næsta tímabili.

  Tímabilið var einnig sérstakt hjá Shaqiri sem var settur í kælinn ansi lengi, aldrei hægt að tala um hann sem mikil vonbrigði samt.

  Hver voru mestu vonbrigði tímabilsins almennt

  Það er svo galið að vinna ekki deildina með 97 stigum. Ekkert annað komast á blað hjá neinum okkar.

  Besti pundit tímabilsins (innan- eða utanlands)

  Ingimar –  Carra

  Daníel – No comment

  Hannes – Tómas Þór Þórðarson er maður sem ég hef gríðarlega gaman af því að hlusta á hér heima fyrir. Erlendis fylgist ég mest með podcöstum og verð þaðan að nefna Luke Moore í Football Ramble en einnig eru Carra og Neville skemmtilegir saman

  Maggi – Það sem ég hef heyrt þá finnst mér Jói Kalli flottastur á Íslandi. Í Englandi finnst mér Jamie Redknapp heilt yfir bestur þó auðvitað sé frábært að hlusta á Carra tala um LFC.

  Óli Haukur – Höddi Magg og Gummi Ben eru þeir bestu á Íslandi finnst mér og Neil Atkinson á TAW sem sá besti erlendi.

  Eyþór – Gummi Ben, no contest. Hef gaman af comboinu Carra/Garry.

  SSteinn – Jói Kalli – Stephen Warnock

  Maggi Þórarins – Gummi Ben, Jói Kalli og Jamie Carragher.

  Einar Matthías – Gummi Ben hér heima. Hef svo fulla trú á að Tom geri gott sjónvarp úr enska boltanum næsta vetur. Erlendis ber Neil Atkinsson af í því sem hann gerir (TAW), vona bara að hann verði ekki plataður yfir á stærri fjölmiðil. Af sjónvarpsfólki finnst mér því miður Gary Neville bera af. Sérstaklega gaman reyndar í vetur enda Liverpool svipað gott og United var lélegt.

  Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

  Hver og einn setur kannski sitt lið í ummæli við þessa færslu en það magnaða var að enginn okkar setti nýjan leikmann í raunhæft byrjunarlið fyrir næsta tímabil nema Maggi Þórarins sem var búinn að kaupa De Ligt. Markið og vörnin er nokkuð gefin. Keita, Fabinho, Ox og Wijnaldum fá allir séns með Henderson sem fasta punktinn á miðjunni og enginn ætlar að hrófla við sóknarlínunni.

  Allir viljum við samt auðvitað styrkja hópinn með leikmönnum sem gætu komið inn í liðið seinna.

  Álit þitt á FSG í dag?

  Látum álit Daníels tala fyrir okkur alla

  Sé ekki að við gætum verið með betri eigendur. Þeir hafa lýst því yfir að Klopp fái að kaupa hvern þann leikmann sem hann telur bæta hópinn. Hann er nú þegar búinn að fá að kaupa dýrasta varnarmanninn og dýrasta markvörðinn, svo peningar eru greinilega ekkert issue ef leikmaðurinn er réttur. Kirby uppbygging á fullu skriði, og lítur svakalega vel út. Talað um að það verði sótt um næstu stækkun á Anfield í haust. Mæta á mikilvæga leiki og láta sér annt um liðið.

  Næsta tímabil verður…

  Ingimar – Löng og harkalega barátta við City sem lýkur með sigri hins góða.

  Daníel – …okkar tímabil! Djók (samt ekki (samt)).

  En það kæmi mér reyndar ekkert á óvart þó það bættust a.m.k. tveir bikarar við safnið á næsta ári. Sé bara ekki alveg hvaða nafn er á þeim bikurum.

  Hannes – Spennandi, býst aftur við harðri baráttu milli okkar og City um titilinn. Hvorugt liðið mun ná stigafjöldanum sem þeir voru með í ár en verða samt enn í sérflokki og vonandi verður það tímabil, okkar tímabil

  Maggi – Árið sem við tökum enska titilinn.  Liðið og stjórinn búið að sýna það að menn eru að læra og bæta sig stöðugt milli ára.  Menn verða tilbúnir frá fyrsta degi og ég er jafnviss um það að það muni fleiri lið bæta sig í Englandi, það mun duga að ná 92 stigum á næsta ári sem meistarar og LFC tekst það.

  Vinnum Super Cup og verðum heimsmeistarar félagsliða en held þó að við náum ekki nr. 7 fyrr en vorið 2021.  Geri mér von um annan ensku bikaranna líka.  3 – 4 titlar on the way.

  Óli Haukur – Vonandi aðeins betra en það síðasta sem setti nú ansi háan standard!

  Eyþór – Ekki sömu vonbrigði og við eigum að venjast árið eftir að við lendum í öðru sæti. Ég held að félagið bæti við sig bikurum á næsta tímabili – hef líklega minnstu trúna á deildinni, þrátt fyrir að við höfum verið svona nálægt henni þetta tímabilið. Við sáum það bara í bikarúrslitaleiknum að þetta City lið er bara svindllið. Öll lið eru skíthrædd við að mæta þeim og þeir gætu vel farið taplausir í gegnum tímabil. Við getum alveg vel unnið þá í 1-2 leikja einvígi en höfum ekki sömu gæði í breiddinni þegar kemur að því að berjast á öllum vígstöðum.

  SSteinn – Vonandi beint framhald af þessu sem var að klárast, bæta við bikarasafnið og skila þeim gamla góða loksins heim á ný.  Hópurinn með meiri breidd og meiri vegferð í bikurum.  Förum áfram langt í CL, þó svo að hún vinnist ekki strax aftur.

  Maggi Þórarins – Geggjað!! Áframhald af stemningu og gleði! Sjálfstraustið í liðinu, skipulagið og getan er í hæstu hæðum. Verður skemmtilegt að spila um Super Cup og World Club Cup (titill sem LFC hefur ekki enn unnið). Gætu verið margir bjórar í boði fyrir Klopp aftast í einhverjum strætó ef allt gengur eftir. Vil samt sjá okkur nota meðvindinn sem er í boði þetta sumarið til að landa 2-3 öflugum leikmönnum til að tryggja áframhaldandi velgengni. En stærstu „kaupin“ í sumar eru vonandi framlenging á samning Klopp og þá er ég sultuslakur með framtíðina.

  Einar Matthías – Erfiðara en þetta tímabil en vonandi ekkert í líkingu við síðastu tímabil sem Liverpool hefur endað í öðru sæti í deildinni. Það eru mörg dæmi þess að lið lendi í öðru sæti áður en lokastökkuð er tekið og vonandi hefst það loksins næsta vetur. Houllier, Benitez og Rodgers mistókst öllum hrikalega árið eftir voru líka í mun veikari stöðu en Klopp er með liðið núna.

  Sigurinn í Madríd opnar vonandi fyrir flóðgáttir hjá Klopp í bikarkeppnum enda hefur hann margsannað að hann á í litlum vandræðum að komast alla leið í úrslit. Það eru þrír titlar í boði aukalega næsta vetur sem þarf aðeins fjóra leiki til að vinna. Ef að Liverpool ætlar í úrslit Meistaradeildarinnar í þriðja skipti og vinna deildina með þessu aukna leikjaálagi þarf alveg klárlega að styrkja hópinn. Ekki bara til að jafna Man City liðið síðasta vetur heldur Man City næsta vetur sem verður líklega ennþá betra. Eins sjáum við hvað Real og Barcelona eru að gera í sumar. Þetta er benchmark-ið hjá liði sem fer tvö ár í röð í úrslit Meistaradeildarinnar.

  [...]
 • Sheyi Ojo lánaður til Glasgow Rangers (Staðfest)

  Fyrstu formlega leikmannaviðskipti sumarsins hjá Liverpool áttu sér stað fyrr í dag þegar að ungliðinn Sheyi Ojo var lánaður norður yfir landamærin til að spila fyrir bláa helming Glasgow-borgar undir leiðsögn goðsagnarinnar Steven Gerrard.

  Lánssamningurinn hafði legið í loftinu síðustu vikuna og orðrómur var um að við sama tækifæri myndi Ojo framlengja sinn leikmannasamning við Liverpool en það hefur þó ekki enn verið staðfest. Slíkt hafði hann þó gert sumarið á undan er hann fór á láni til Frakklands og reimaði skóna fyrir Reims í Ligue une. Þau vistaskipta voru þó ekki heillaspor fyrir Sheyi en hann spilaði eingöngu 3 byrjunarliðsleiki í deildinni með engu marki skoruðu og að viðbættum mörgum innkomum af bekknum samtals 486 mínútur.

  Honum hafði því miður ekki tekist að fylgja eftir ágætum en þó kaflaskiptu lánstímabili veturinn 2017-18 fyrir Fulham í Championship sem endaði með uppkomu liðsins í úrvalsdeildina. Í þeim uppgangi lagði hann sitt að mörkum með 4 deildarmörkum og 1.422 spilamínútum í 22 leikjum og þar á meðal góða markatvennu í 5-4 sigri á Sheffield United:

  Hvort sem að Sheyi Ojo á enn raunhæfan möguleika á að vera leikmaður LFC í framtíðinni skal ósagt látið en í það minnsta þá er það allra hagur að hann nái að láta ljós sitt skína hjá Gerrard og Rangers líkt og Ryan Kent gerði með fantafínum árangri á nýliðnu tímabili. Ojo hefur óneitanlega hæfileika sem að enn hefur ekki náðst að hámarka og sem vitnisburð um það hefur hann á ferilskránni heimsmeistaratitil með Englandi í U-20 ára landsliðinu árið 2017.

  Hann sýndi ágætan efnivið sinn á fyrsta tímabili Klopp 2015-16 þegar mannekla og velgengni í Evrópu gáfu honum glufu fyrir 4 deildarleiki í byrjunarliðinu og samtals hefur hann spilaði 13 leiki fyrir meistaraflokk Liverpool. Þar á meðal setti hann þessa snuddu í FA bikarleik gegn Exeter:

  Það verður í það minnsta vel þess virði að hafa annað augað á leikjum Rangers undir stjórn Gerrard næsta vetur með Ojo á öðru vængnum og sér í lagi ef að Ryan Kent stillir sér aftur upp á gagnstæðum væng. Sheyi getur því fagnað nýju og spennandi atvinnutækifæri í 22 ára afmælisveislu sinni á morgun og vonandi sjáum við strákinn blómstra í landi köflóttra Skotapilsa og djúpsteikts Mars-súkkulaðis.

  YNWA

  [...]
 • Opinn þráður – Hvað er að gerast á markaðnum?

  Einu staðfestu fréttirnar af aðalliðshópi Liverpool núna eftir tímabilið eru þær að Sturridge og Moreno eru búnir að kveðja (en ekki ekki tilkynna hvað þeir gera næst). Ef ég man rétt eru þessar fyrstu 2-3 vikur eftir tímabilið jafnan mjög rólegar enda flestir komnir hingað og þangað um heiminn í frí. Stuðningsmenn Liverpool hafa reyndar aldrei þurft að hafa eins litlar áhyggjur af leikmannamarkaðnum og einmitt núna, hvað þá núna þegar það eru tæplega tveir mánuðir eftir af glugganum.

  Það er engu að síður töluvert í gangi eins og alltaf, þetta verður líklega stærstu glugginn í sögu knattspyrnunnar og ljóst að helstu andstæðingar Liverpool ætla ekki að sitja auðum höndum.

  Chelsea

  Hvergi hefur það eins lítil áhrif á ferilsskránna fyrir þjálfara að vera rekinn eins og hjá Chelsea. Þeir þurftu reyndar ekki að reka Sarri, fá m.a.s. borgað fyrir að leyfa honum að fara en það var alveg ljóst að hann yrði ekki áfram hjá þeim eftir þetta tímabil.  Ég hef hlustað á margar útskýringar á þessu og lesið mig töluvert til um það afhverju Sarri er alls ekki nógu góður fyrir Chelsea en hef ekki ennþá heyrt neina sem meikar sens. Það var fengið þennan svona líka rosalega spennandi stjóra frá Napoli fyrir 12 mánuðum og honum ætlað að innleiða tegund af fótbolta sem tekur meira en nokkra mánuði að innleiða. Hann fékk viku með liðið á undirbúningstímabilinu og byrjaði samt bara ágætlega. Chelsea endar sem Evrópudeildarmeistarar, voru fyrir það búnir að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni og töpuðu öðrum bikarnum eftir vító.

  Það er við hæfi að þessi vonlausi stjóri taki við Juventus næst, mun stærra félagi en Chelsea. Persónulega er ég mjög feginn að hann fái ekki heilt undirbúningstímabil og nái að innleiða þennan svokallaða Sarri-ball almennilega því ég held að hann viti vel hvað hann syngur.

  Frank Lampard virðist vera sá sem tekur við af honum. Hann hefur ekkert afrekað í þjálfun ennþá en þarf ekkert að vera vitlausari ráðning en t.d. Avram Grant eða Roberto Di Matteo, sem báðir náðu fínum árangri með liðið. Lampard þekkir auðvitað mjög vel til hjá þeim og tekur með sér gott starfslið sem þekkir líka mjög vel til hjá Chelsea. Við myndum aldrei afskrifa Steven Gerrard ef hann tæki við Liverpool og líklega hugsa stuðningsmenn Chelsea um þetta á svipuðum nótum.

  Mikið djöfull er ég samt feginn að þeir eru að þessu en ekki við. Manchester United gerðu þetta líka að einhverju leiti með Solskjaer. Það er ekkert útilokað að þetta gangi upp og þeir nái að sanna sig sem góðir stjórar en það er ástæða fyrir því að flest elítuliðin fari ekki þessa leið lengur, þ.e. að leita til fyrrum leikmanna. Lampard er engu að síður töluvert efni í þjálfara. Enginn æfði meira en hann sjálfur og hann er auðvitað alinn upp af þjálfara.

  Hjálpar ekki Lampard að taka við með Chelsea í félagsskiptabanni og nú þegar búið að selja sinn næst besta leikmann (Kanté er betri en Hazard!)

  United

  Fyrstu kaup sumarsins hjá þeim benda til að United ætli að breyta innkaupasetefnunni aðeins. Daniel James var hársbreidd frá því að fara til Leeds um áramótin en endar núna hjá Man Utd. Hörkuefni auðvitað og öskufljótur.

  Paul Pogba hefur núna tjáð sig um að hann vilji fá aðra áskorun sem rímar ágætlega við áhuga frá Real Madríd og Juventus sem bæði eru greinilega tilbúinn að versla hluti úr dýrustu hillunni.

  Umboðsmaður Pogba er auðvitað Mino Raiola þannig að hann er alltaf líklegur til að fara og er núna þegar byrjaður að nota þekktar Raiola aðferðir til að flýta fyrir því ferli. Pogba hefur komið að 60 mörkum (stoðsending eða mark) hjá United og það verður ekkert auðvelt að skipta honum út en mögulega myndi brottför hans ekki veikja United mikið. Solskjaer þarf að byggja upp liðsheild og kannski er það auðveldara verk án Pogba, sérstaklega Pogba sem þegar er farinn að tala um áhuga á nýjum áskorunum.

  Hann er 26 ára og vill alveg klárlega vera í Meistaradeildinni næsta vetur. Eins þarf hann að komast í lið þar sem hann fær að vera meira sá Pogba sem spilar með Frakklandi en sá sem hefur spilað með United. Erfitt að sjá hann vilja taka þátt í 2-3 ára uppbyggingarferli hjá United (ég meina 10-20 ára).

  Eins verður fróðlegt að sjá hvort De Gea fari eitthvað?

  Real Madríd 

  Það er eins og Perez hafi fundað með stjórnvöldum á Spáni og í Madríd og fundið nýja gullkistu enn eina ferðina. Real Madríd er byrjað að eyða peningum sem aldrei fyrr og ætla augljóslega að styðja vel við bakið á Zidane. Klárt að honum hefur verið lofað þessu þegar hann tók við aftur.

  Edin Hazard er kominn frá Chelsea fyrir €100m og Real er að auki orðað sterklega við Pogba (eða Eriksen). Luka Jovic var keyptur frá Frankfurt, 21 árs sóknarmaður sem sló í gegn í vetur. Militao var keyptur um áramótin frá Porto, gríðarlega líkamlega sterkur og efnilegur varnarmaður. Ferland Mendy, vinstri bakvörður er kominn frá Lyon. Auk þess fá þeir núna Junior og Rodrygo sem eru einhver mestu efni S-Ameríku. Þeir eru nú þegar búnir að eyða um €260m.

  Eins verður fróðlegt að sjá hverjir fara frá þeim í staðin. Liðið sem vann Meistaradeildina þrjú ár í röð er komið á endurnýjun eins og þessi gluggi gefur til kynna og eins og ég kom inná í upphitun fyrir úrslitaleikinn í fyrra. Bale, Isco, Benzema og fleiri slíkir gætu alveg haldið annað í sumar.

  Man City, Tottenham og Arsenal hafa rétt eins og Liverpool ekki hafið leik að neinu ráði ennþá en þurfa líklega öll að láta eitthvað til sín taka. Inn í þessa upptalningu vantar svo lið eins og Barcelona, PSG og Inter sem eiga öll eftir að eyða miklu í sumar. Já eða Newcastle? Verða þeir næsta Olíufélag?

  [...]
 • Leikjaplanið komið í loftið

  13.júní er mættur og leikjaprógrammið okkar um leið.

  Enska deildin sýnir enn á ný hvaða lið er aðallið deildarinnar, því auðvitað verða Evrópumeistararnir látnir opna deildina föstudagskvöldið 9.ágúst þegar nýliðar Norwich koma í heimsókn. En ekki hvað!

  Síðan rúlla þeir leikirnir hver af öðrum. Fljótt á litið sýnist manni stóra verkefnið verða desember, 6 leikir sem hefjast á Merseyside derbyinu á miðvikudagskvöldi á Anfield. Auk þessara 6 leikja verður svo skroppið til Qatar að leika um heimsmeistaratitil félagsliða og hver veit nema að við verðum enn í deildarbikarnum.

  14 daga leikjafrí er nú innbyggt í planið og verður í febrúar og lokamánuðurinn þegar við verðum á kafi í því að tryggja okkur titilinn býður ekki upp á smá endatafl. Útileikir við Arsenal og Newcastle og heimaleikur við Chelsea verða þrír síðustu leikir tímabilsins, alvöru endir þar!

  Leikjalistann er að finna hér svo að fólk getur farið að líta til leikja til að skoða, á næstunni kemur í ljós hvort við hendum upp kop.is ferðum og þá líka hvort að tenglar verða uppfærðir á síðunni með aðgang að miðum á leikina.

  Fyrsta skref mótsins er að sjá prógrammið, það býr til niðurtalninguna sem nú er letruð í stein, það eru 57 dagar fram að fyrsta leik Liverpool á leiktíðinni 2019 – 2020.

  Gleðifrétt á fimmtudegi!!!

  [...]
 • Gullkastið – Þjálfaraklám!

  Það hefur sjaldan verið léttara yfir stuðningsmönnum Liverpool eftir tímabil en akkurat núna og vorum við í takti við það. Úrslitaleikurinn kom að sjálfstöðu til tals sem og andstæðingar okkar þar. Maggi kynnti okkur óumbeðin fyrir þjálfaraklámi! Fórum létt yfir hápunkta tímabilsins og enduðum á Tímabilinu hans Sigvalda (Silly Season).

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 243

  Mælum einnig með yfirferð stórvinar okkar Garteth Roberts hjá The Anfield Wrap yfir þetta tímabil, hans upplifun af endanum snilldarlega samtvinnað með myndum úr heimkomufögnuði Liverpool.

  Höfum svo með myndir sem við ræddum í þættinum…
  (more…)

  [...]
 • Opinn þráður – Leikir fyrir næsta tímabil

  Leikjaplanið fyrir næsta tímabil verður opinberað 13.júní en Liverpool hefur núna undanfarið verið að kynna undirbúningstímabilið en liðið á eftir að spila 10 leiki aukalega í júlí og ágúst. Tveir af þeim eru meistarar meistaranna leikir en Liverpool spilar í Community Shield í ár sem liðið sem endaði í öðru sæti i deildinni.

  Það er annars lítið að frétta eins og er. Enginn Fabinho kaup í sumar sem voru tilkynnt strax og tímabilinu lauk.

  Stefnum svo á podcast í kvöld.

  [...]
 • Istanbul eða Madríd?

  Að sjá Jordan Henderson lyfta bikarnum á loft á laugardaginn er ein besta tilfinning sem maður hefur upplifað sem stuðningsmaður Liverpool og raunar er bara eitt sem kemst þar nærri, Istanbul. Það fer eftir persónulegri upplifun hvers og eins hvort sigurinn nú eða í Istanbul var stærri, betri, sætari eða mikilvægari en mig langar að reyna koma því í orð afhverju Madríd fer ansi nærri Istanbul hjá mér.

  Fyrirliðar Liverpool hafa núna lyft þeim stóra á loft í Róm, París, London, Róm, Istanbul og nú Madríd. Hvert og eitt skipti var sérstakt, það er alltaf jafn stórt að vinna þessa keppni en það er misjafnt hvernig maður upplifir þetta. Fyrstu fjórir komu t.a.m. fyrir mína tíð sem stuðningsmaður Liverpool en t.d. þeir sem upplifðu Róm 1977 þvertaka flestir fyrir að nokkuð toppi það þegar sá fyrsti fór á loft.

  SSteinn orðaði þetta vel í síðasta Gullkast þætti þegar hann talaði um sigurinn í Madríd sem stærsta einstaka sigurinn í sögu félagsins. Istanbul er klárlega í toppsætunum á þeim lista einnig en það er margt öðruvísi núna en var þegar Liverpool vann bikarinn sér til eignar árið 2005.

  (more…)

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close