Latest stories

 • Núverandi hópur vanmetin og hungraður

  Síðasta tímabil var svo hræðilega þreytandi, langdregið og misheppnað að líklega vanmeta margir hversu gott núverandi Liverpool lið er í raun og veru. Hópurinn sem vann Meistaradeildina og deildina árið eftir er nánast eins og hann leggur og þær breytingar sem gerðar hafa verið styrkja þann hóp töluvert. Liðið er alls ekki komið á eftirlaunaaldur þó stutt sé eftir af samningum nokkurra lykilmanna. Hópurinn er á besta aldri, þeir eru flestir um og undir þrítugu ennþá.

  Liverpool var besta lið deildarinnar í fyrsta þriðjungi tímabilsins og einning í síðasta þriðjungi. Það var í raun bara háveturinn sem fór alveg með þetta fyrir okkar menn þegar meiðslalistinn var kominn á Almannavarnastig.

  Liverpool rústaði stigameti félagsins 2018/19 með 97 stiga tímabili og vann Meistaradeildina í þokkabót. Árið eftir var Liverpool búið að vinna deildina um og eftir áramót og gaf töluvert eftir í restina, 99 stiga tímabil. Diogo Jota, Thiago, Jones og Konate hafa bæst við hópinn sem náði þessum stigafjölda og Wijnaldum, Lallana og Lovren eru farnir. Mögulega getum við farið að telja Elliott og Tisimikas með sem jákvæða viðbót við hópinn að auki.

  Síðasta tímabil

  Það blikkuðu viðvörunarbjöllur nánast frá fyrsta leik á síðasta tímabili, sprækir nýliðar Leeds skoruðu þrjú mörk á Anfield í fyrsta leik en töpuðu samt. Því var fylgt á eftir með góðum sigrum á Chelsea og Arsenal. Fullt hús stiga í september.

  Það sem litar fyrsta þriðjung tímabilsins hjá Liverpool er 2-7 kjaftshöggið gegn Aston Villa með Adrian í markinu og svo hið rándýra og sturlað ósanngjarna 2-2 jafntefli gegn Everton. Liverpool vann þann leik reyndar fair ´n´ square en fullkomlega vanhæfur dómari leiksins dæmdi löglegt mark af í kjölfar Pickford og Richarlison árásanna sem höfðu mjög alvarleg áhrif á allt tímabilið.

  Liverpool var á toppnum um áramótin síðustu með 33 stig eftir 16 leiki. Alls ekkert sérstakt og mörg stig í súginn gegn liðum sem Liverpool hefur verið að rúlla upp undanfarin 2-3 tímabil en samt bestir í deildinni fram að þessum tímapunkti. Meiðslin héldu endalaust áfram að hrannast upp og frá miðjum nóvember var Klopp án allra þriggja miðvarðanna, magnað ekki síst í ljósi þess að tímabilið byrjaði í september! Alisson missti líka úr slatta af leikjum, Thiago var ekkert með eftir Everton leikinn í 5.umferð og Jota fór líka á meiðslalistann. Henderson var alltaf að meiðast eitthvað smá, Mané, Salah, Trent og Keita fengu allir Covid.

  Liverpool var reyndar með 31 stig eftir 14 umferðir en enduðu árið með tveimur slæmum jafnteflum áður en öll meiðslin fóru að taka sinn toll fyrir alvöru. Fjórtán leikja run frá því að Liverpool vann Crystal Palace 0-7 19.desember skilaði aðeins 12 stigum sem er sturlað miðað við gengi Liverpool fram að því.

  Liverpool liðið sem setti félagsmet í sigrum á heimavelli tapaði sex í röð loksins þegar liðið tapaði á Anfield. Tómum Anfield að sjálfsögðu, það verður líklega aldrei hægt að reikna út hversu miklu máli það skiptir að hafa áhorfendur á leikjum en það kemur ekkert á óvart að þessar hörmungar hafi átt sér stað á Anfield á meðan stúkan var tóm.

  Það voru allt í einu allskonar skítalið að vinna á Anfield. Burnley braut ísinn og svo Brighton. Bæði lið höfðu ekki getað blautan fram að því. Man City vann sannfærandi 1-4 og meira að segja Everton vann á Anfield, eitthvað sem hafði ekki gerst síðan á síðustu öld. Chelsea vann líka og eins nágrannar þeirra í Fulham sem féllu sannfærandi í vor!

  Rosalegur meiðslalisti er auðvitað augljós skýring á þessum hræðilega kafla, ekki bara vegna þess að Liverpool saknaði þeirra leikmanna sem voru frá heldur líka vegna þess hvaða áhrif þetta hafði á alla holningu liðsins. Fabinho spilaði örugglega helminginn af sínum deildarleikjum sem miðvörður. Henderson var á tímabili kominn í miðvörðinn með honum eða þá fyrir Fabinho þegar hann meiddist líka! Ofan á það var einn mest spennandi miðjumaður sem Liverpool hefur keypt meiddur á þessum versta kafla tímabilsins.

  Það að skipta nánast alveg um leikmenn eða hlutverk leikmanna hefur eðlilega áhrif á allt liðið. Við vorum að tala um það síðasta sumar að það gæti tekið Frank Lampard smá tíma að slípa Chelsea liðið saman eftir öll risastóru leikmannakaupin það sumarið. Hversu langan tekur það þá á miðju tímabili að taka menn úr U23 ára liðinu inn í staðin fyrir Van Dijk, Gomez og Matip í vörnina eða Fabinho og Henderson á miðjuna? Já eða spila nokkuð marga leiki ofan í þetta án Alisson? Trent, Robbo og sóknarlínan fengu enga hvíld nema þegar þeir voru jú líka frá vegna meiðsla eða veikinda.

  Hlutverk Trent og Robbo breyttist fullkomlega og frelsi þeirra var miklu minna en það hefur verið. Þjónustan við sóknarlínuna var lítil sem engin í kjölfarið á öllum þessum hræringum fyrir aftan þá. Til að toppa allt saman var Jota meiddur og Mané að eiga sitt versta tímabil.

  Nat Phillips spilaði langmest allra miðvarða Liverpool í vetur eða litlu minna en Van Dijk, Gomez og Matip samanlagt. Rhys Williams spilaði líka meira en Gomez og Van Dijk en vantaði hálftíma upp á að spila meira en Matip.

  Síðustu tíu leiki tímabilsins var Liverpool aftur besta liðið á Englandi, nú með bakið fyllilega upp við vegginn og hópinn enn í henglum vegna meiðsla. Klopp tókst að slípa liðið nógu vel saman til að tapa ekki leik í síðustu tíu leikjunum og vinna átta þeirra. Það er líklega hans mesta afrek sem þjálfari. Liverpool náði ekki bara Meistaradeildarsæti heldur endaði í því þriðja eftir allt þetta og var styttra frá Man City en þeir voru á eftir Liverpool tímabilið á undan.

  Næsta tímabil

  Við erum öll sammála um að Liverpool liðið þarf að halda áfram að þróast og má ekki sitja á hakanum á meðan helstu keppinautarnir versla hressilega inn af frábærum leikmönnum. Þörfin í sumar var samt númer eitt, tvö og þrjú að kaupa alvöru miðvörð sem getur farið beint í byrjunarliðið. Það var gert strax. Þar fyrir utan er kjarninn nógu góður til að setja markið aftur á 90+ stiga tímabil. Byrjunarliðið er ennþá það gott og Jurgen Klopp er ennþá stjóri Liverpool.

  Það að bæta Thiago við frá byrjun er eitt og sér rosalega spennandi viðbót við hópinn sem við fengum ekki að njóta á síðasta tímabili. Thiago með alvöru vörn fyrir aftan sig og Fabinho og Henderson/Keita í skítverkum í kringum sig er miklu hættulegra vopn en við sáum í fyrra. Samstaf hans og Fabinho undir lok síðasta tímabils er lykillinn á bak við Meistaradeildarsæti á þessu tímabili. Það var með Nat Phillips og Rhys Williams í vörninni!

  Konate er á stærð við Van Dijk og með hraða á við hollendinginn. Hann hefur alla burði til að vinna sér strax sæti í byrjunarliði Liverpool og hefur alla burði til að verða mun betri en hann er núna. Hann kemur með hæð inn í liðið sem vantaði sárlega mest allt síðasta tímabil. Allir hinir þrír eru auðvitað ennþá mikil spurningamerki en endurhæfing þeirra hefur lofað góðu so far, þeir koma auðvitað líka með hæð inn í byrjunarliðið. Liverpool með tvo af fjórum bestu miðvörðum liðsins í vörninni eru ekki nærri því jafn miklir aumingjar í loftinu og liðið var á síðasta tímabili.

  Diogo Jota hefur svo alla burði til þess að taka byrjunarliðssætið af annaðhvort Mané eða Firmino. Auðvitað koma þeir allir til með að spila mjög mikið en haldi Mané og Firmino áfram í svipuðum gír og þeir voru stóran hluta síðasta tímabils verður Jota vonandi tilbúinn núna til að koma inn. Botninn datt fyrst alveg úr hjá Liverpool síðasta vetur þegar hann meiddist í danmörku.

  Naby Keita sérstaklega og mögulega Ox gætu verið wild card í vetur. Keita hefur í raun ekki verið meiddur síðan í febrúar og Ox ekki heldur. Keita kom lítið sem ekkert við sögu undir lok síðasta tímabils og er sagður hafa verið í sérstakri endurhæfingu í langan tíma en Klopp virðist alls ekki vera búinn að gefast upp á honum. Brottför Wijnaldum gæti fjölgað mínútum Naby Keita umtalsvert. Þeir hjá Leipzig tala ennþá um hann sem besta leikmann í sögu félagsins, vonandi fáum við að sjá þann leikmann reglulega í vetur.

  Það er engin þörf á ofurstjörnu til viðbótar við núverandi lið ef meiðslalistinn verður eðlilegur í vetur. Það er heldur ekki auðvelt að sannfæra leikmenn um að koma til Liverpool og keppa við núverandi byrjunarlið um stöðu. Næsta sumar er miklu líklegra hvað það varðar þá á móti stórri sölu á einhverjum.

  Leikmannakaup?

  Liverpool er aldrei að fara kaupa leikmenn eins og Mbappé eða Haaland, dýrustu bitana á markaðnum sem munu heimta nálægt hæstu launum sögunnar. Eins eru eigendur Liverpool betri í stærðfræði en svo að kaupa 28 ára leikmenn eins og Kane eða Lukaku á +/-100m. Chiesa væri kannski nær lagi upp á tegund leikmanns og aldur en þá aðeins í staðin fyrir Mané eða Salah.

  Það sem er miklu líklegra núna í ágúst er að einhver af Origi, Shaqiri eða Minamino fari og nýr leikmaður komi í staðin fyrir þá. Þ.e. leikmaður sem fer á bekkinn en er með potential í að þróast í byrjunarliðsmann.

  Þegar Diogo Jota var keyptur í fyrra var hann einn af þremur sóknarmönnum á óskalista FSG. Hinir voru Ismaela Sarr fóstbróðir Mané og Jonathan David, kanadískur sóknarmaður Frakklandsmeistara Lille. Verðmæti beggja hefur hækkað umtalsvert í vetur, Sarr er núna aftur Úrvalsdeildarleikmaður og David sprakk út á sínu fyrsta ári hjá Lille. Þeir eru engu að síður í fjárhagsvandræðum eins og öll franska deildin (fyrir utan PSG). Covid beit mun verr í Frakklandi en annarsstaðar þar sem þeir flautuðu mótið alveg af og eins vegna þess að risastór sjónvarpssamningur sem Ligue 1 var búið að gera fór í vaskinn. David er 21 árs sóknarmaður sem gæti aukið breiddina umtalsvert umfram það sem Minamino og Origi eru að gera og hefur alla burði til að verða miklu betri. Sömuleiðis Sarr rétt eins og Jota í fyrra. Það er ekkert víst að listinn sé eins mannaður í ár en örugglega svipaður hvað profile leikmanna varðar.

  Gini Wijnaldum spilaði +3.000 mínútur í deildinni í fyrra og augljósi kosturinn væri að skipta þeim á milli Thiago, Jones og Keita/Ox. Ef að Liverpool kaupir nýjan miðjumann í ágúst er mjög hæpið að hann komi að ráði inn í byrjunarliðið fyrr en í fyrsta lagi um og eftir áramót. Keita og Ox eru 85m af miðjumönnum á besta aldri sem hafa verið svo gott sem ónotaðir í þrjú ár. Harvey Elliott gæti jafnvel verið hugsaður sem valmöguleiki á eftir þessum hópi.

  Brottför Gini og jafnvel Shaq skilur engu að síður eftir sig skarð sem þarf að fylla með traustari hætti og þá helst einhverjum sem getur leyst af aftar á miðjunni, fyrir Henderson eða Fabinho. Það meikar lítið sens að kaupa leikmann sem færi framfyrir Curtis Jones í goggunarröðinni. Að fá slíkt talent úr akademíunni á einmitt að spara félaginu kaup nýjum leikmanni í sömu stöðu.

  Ef að það á að kaupa nýjan miðjumann erum við annaðhvort að horfa á svipaða hugmyndafræði og í sókninni, Sarr eða David tegund af leikmanni með miklu hærra þak. Eða einhvern sem telur sig geta komið í byrjunarliðið á kostnað einhvers af Fabinho, Henderson og Thiago.

  Af raunhæfum kostum væri Saul Niguez leikmaður sem gæti keppt strax við okkar bestu menn um byrjunarliðssæti, frábær í pressu, mjög góður á boltann, ágætlega hávaxinn og getur spilað allar stöður á miðjunni.

  Jafnvel ef Liverpool gerir ekkert í viðbót á markaðnum er Klopp að endurheimta saman lið sem hefur tvisvar náð nálægt 100 stiga tímabili, lið sem tók 26 stig af 30 undir lok síðasta tímabils.

  FSG virðist líkt og áður leggja ekki minni áherslu á að semja áfram við bestu leikmenn liðsins en að kaupa nýja í staðin. Það að semja við Trent, Alisson, Fabinho, Robbo, Salah, Mané og Van Dijk er ekki síður mikilvægt en að kaupa nýja leikmenn.

  Síðasta sumar á leikmannamarkaðnum var mjög skrítið vegna Covid, Liverpool kláraði kaupin á Jota og Thiago sem dæmi ekki fyrr en í september eða rétt fyrir tímabilið. Þetta sumar verður ekki síður brenglað vegna Covid en síðustu vikurnar gætu orðið mjög áhugaverðar núna þegar stærri fjárhæðir eru farnar að hreyfast milli liða.

  [...]
 • Um “heimaræktaða” leikmenn

  Þá styttist í ágústmánuð sem ef allt fer á réttan veg markar upphaf nýs leiktímabils í enska boltanum, Covid 19 hefur ýft sinn úfna haus í Englandi síðustu daga en við skulum ganga út frá því að ekki leggist allt á hliðina þar í landi og við mætum Norwich í fyrsta leik laugardaginn 14.ágúst.

  Töluverðar vangaveltur hafa verið um leikmannakaup okkar manna – og sölur – en í þessum pistli langar mig að varpa aðeins ljósi á það hvernig staða hópsins okkar er útfrá reglum um “heimaræktaða” menn, eða kannski réttara þá skyldu að í EPL og CL gilda reglur um hámarksfjölda leikmanna sem leyfilegir eru í leikmannahópum liða en hafa ekki alist upp í félaginu eða í heimadeild þess.

  Skoðum fyrst reglurnar sem eru samhljóða í þessum keppnum.

  Að hámarki mega vera í leikmannahópnum 25 leikmenn eldri en 21s árs og af þeim verða 8 leikmenn a.m.k. að vera aldir upp sem knattspyrnumenn í heimalandi deildarinnar (í þessu tilviki Englandi) um þriggja ára skeið fyrir 21s árs afmæli sitt og í leikmannahópnum þurfa að vera fjórir leikmenn sem voru aldir upp hjá félaginu sjálfu. Sem þýðir í raun að 17 leikmenn mega að hámarki hafa hafið sinn feril utan landsins.

  Í stuttu máli sagt eru í leikmannahópi okkar í dag 17 leikmenn sem einmitt hafa farið þá leið, þ.e. að vera rankaðir sem “utanlandsleikmenn” í regluverkinu. Sérstaklega skal bent á að Skotland, Írland og N.Írland teljast því sem útlönd þó að oft sé horft til þeirra sem samveldistengdu landi, Wales er þó á gráu svæði þar sem að þrjú lið þaðan eru í enskum knattspyrnudeildum og hafa því fengið “beint á ská” þau réttindi sem fylgja enskum leikmannareglum. Semsagt, Andy Robertson er þarna jafn mikill útlendingur og Sadio Mané.

  Mörgum, þ.á.m. mér kom því á óvart þegar Adrian fékk nýjan samning hjá okkur, það er klassískt að markmenn séu enskir til að uppfylla þennan kvóta hjá stóru liðunum en við fórum þá leið að halda honum þrátt fyrir að staðan væri þessi hjá okkur. Gini fór og Konaté er kominn í staðinn, ekki skipti máli fyrir okkur að Grujic, Awoniyi og Grabara fóru enda engir þeirra hluti af okkar hópi í fyrra.

  Hverjir eru þá uppaldir í landinu hjá okkur og eldri en 21s árs? Þar er fyrst að nefna fyrirliðann Henderson en auk hans eru í þeirri stöðu þeir James Milner, Alex Oxlade Chamberlain, Joe Gomez og Ben Davies. Ef við finnum svo þá sem eru eldri en 21s árs og uppaldir alveg hjá félaginu eru það Trent Alexander Arnold, Caoimin Kelleher og Nat Phillips (sem þó sleppur naumlega held ég enda kom hann til LFC 19 ára frá Bolton). Líklega má alveg rökstyðja samning Milner á sínum tíma og marga möguleika Ox til þess að hluta að þeir uppfylla þessa kvóta. Auðvitað ekki eina ástæðan.

  Allir leikmenn yngri en 21s árs við upphaf tímabils eru svo undanþegnir reglunum og þar höfum við t.d. Curtis Jones og Neco Williams, sem og Harvey Elliott blessaðan og nokkra efnilega sem hafa aðeins birst í sumar. Þeir fara á svokallað “B-lista” sem að alltaf má sækja í.

  Fækkar í hópi útlendra?

  Töluverð er umræðan um brotthvörf. Ég vil sérstaklega benda á að ég er ekki með Karius inni í þessari 17 manna tölu enda hlýtur hann að fara. Staðan er einfaldlega sú að ef á að kaupa erlendan leikmann þá þarf að fækka í þeim hópi á Anfield. Líklega er það eina af ástæðum þess að við höfum enn ekki keypt fleiri en Konaté utan Englands og við þurfum að sjá brotthvörf áður en meginlandsnöfn koma upp á borðið. Það er klárlega verið að vinna að sölu Shaqiri en er það nóg fyrir okkur að eiga þá eitt laust sæti inn í leikmannahópinn utan Englands?

  Líkur eru á að það muni ekki duga félaginu og verið sé að vinna í að losa um fleiri erlenda leikmenn. Origi mest ræddur en þar hafa líka komið upp nöfn Minamino og á tímabili í sumar var Naby Keita nafn sem hugsanlega yrði losað um. Samningur hans, sem og hjá Origi, eru ansi launaháir og því virðist erfitt að hreyfa þá til og ef ekki tekst að selja neinn þá eru meiri líkur en minni að LFC versli ekki leikmann þessarar gerðar enda þyrfti þá einhver að vera alfarið utan leikmannahópsins allt tímabilið…eða a.m.k. í annarri keppninni.

  Michael Edwards og félagar eru pottþétt að vinna í að losa um þessa stöðu en þar þarf líka að horfa til þess að Brexit mun hafa áhrif á leikmannakaup allra ensku félaganna. Nú er það svo að allir leikmenn sem ekki eru enskir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá atvinnuleyfi, sérstök stigatafla hefur verið smíðuð sem byggir á landsleikjafjölda viðkomandi með tengingu við styrkleikaröðun þess landsliðs í bland við styrkleika þess liðs og þeirrar deildar sem leikmaðurinn kemur frá. Það þýðir t.d. að nær vonlaust væri fyrir íslenskan leikmann með fáa A-landsleiki fyrir Ísland að fá samning á Englandi.

  Í bland var því svo líka breytt að ensk lið mega ekki sækja yngri leikmenn en 18 ára út fyrir landsteina Englands nema svo vilji til að foreldrarnir flytji þangað og fái atvinnuleyfi í landinu og atvinnu…og svarið er já…það er farið að henda að fjölskyldur bara flytja óvænt flotta fótboltaunglinga til landsins sem fara svo að spila fyrir ensk stórlið væntanlega næsta vetur. Þetta er þó mjög flókið og hefur stórminnkað flæði ungra leikmanna til enskra sem hafa mörg hver verið dugleg að sækja efnivið yfir hafið. Við þar framarlega í flokki.

  Það er því ljóst að í Kirkby eru blikur á lofti er horft til þessa regluverks og hefur því aukið mjög á vangaveltur um enn meira mikilvægi þess að ensku liðin sæki sér “heimaræktaða” leikmenn frá sínu landi. Það hefur klárlega litað umræðu um okkar leikmannakaup í sumar og því er vert að velta upp þeim nöfnum sem hvað mest hafa verið rædd og svo kannski læða inn nöfnum sem pistlahöfundur persónulega myndi vilja velta upp sjálfur sem kostum. Endilega bætið inn nöfnum í umræðuna í athugasemdum ef þið vitið um fleiri. Sama staðan er hjá flestum stóru ensku liðunum sem mun auðvitað bara hækka verðmiðann.

  Allavega skoðum nokkra kosti.

  Möguleikarnir í stöðunni

  Jarred Bowen

  Það nafn sem oftast hefur verið uppi í sumar og satt að segja ekki vakið slef í munnvikum margra. Þessi 24ra ára framherji hefur farið erfiðu leiðina á ferlinum sínum, vísað frá Aston Villa og fór til Hereford utan deilda þar sem Hull City keypti hann og þar var hann lykilmaður um 5 ára skeið þar til West Ham keypti hann á lokadegi janúargluggans 2020. Frá þeim tíma hefur hann skorað 9 mörk í 51 leik, ekki brjáluð tölfræði þar. Hins vegar eru margir þættir í leikfræðinni sem ýta við, hann skorar mjög hátt í “second assist” og hefur eina bestu pressutölfræði í ensku deildinni. Hann er vissulega ekki að spila með sókndjarfasta liði landsins svo það yrði allt annað uppi á tening á Anfield þar. Örvfættur á hægri kanti, góður að dribbla og með öflugan vinstri fót. Sögurnar hafa kólnað síðustu daga en þó er hann enn efstur á listanum yfir líklegustu “heimakaupin”.

  Jude Bellingham

  Þessi strákur varð 18 ára nú í júní og hefur býsna mikið verið um hann rætt enda orðinn stór hluti af aðalliðshóp Dortmund eftir að hafa verið keyptur frá Birmingham sumarið 2020. Þetta er box-to-box miðjumaður sem heldur betur komst í umræðu meðal aðdáenda LFC eftir að hafa tístað um það að Stevie G hafi verið hans fyrirmynd í uppvextinum. Echoið gekk svo langt að henda upp bakmynd af treyjunni sem hann gæti náð. Í sumar var þessi strákur í landsliðshóp Englands og þar var um það rætt að Hendo hafi tekið hann undir sinn væng og ekki dró það úr spennunni. Hins vegar er ljóst að þessi strákur er ekki á neinum sölulista. Dortmund nýbúnir að fá fullt af peningum fyrir Sancho og líklega verður Haaland næstur af færibandinu þar. Það dregur þó ekki úr spennunni enda flestir okkar miðjumenn í kringum þrítugt og þar þarf að bæta við, Bellingham er svo sannarlega spennandi kostur.

  Kalvin Phillips

  Næstur í röðinni er einn af lykilmönnum enska landsliðsins í sumar, Kalvin Phillips hjá Leeds. Þessi 26 ára miðjumaður hefur sprottið fram á sjónarsviðið síðustu tvö tímabil en þó líklega hvergi frekar en eftir EM í sumar. Hann spilar sem djúpi miðjumaðurinn hjá Leeds og hefur þar stýrt varnarleik og brotið upp sóknir líkt og Fabinho hjá okkur en í landsliðinu spilaði hann framar á vellinum með varnartengilið fyrir aftan sig. Þegar rýnt er í tölfræðinni var hann í fimmta sæti yfir sköpuð marktækifæri hjá miðjumönnum í deildinni síðasta vetur og mjög ofarlega í meðaltalskílómetrum hlaupnum. Töluverð leikreynsla liggur hjá kappanum enda búinn að vera lykilmaður hjá Leeds síðan 2016 og þrátt fyrir að Leeds sé sögulega stór klúbbur er alveg ljóst að fyrir rétt verð yrði hann seldur til stærri klúbbanna.

  Harvey Barnes

  Hér er kominn einn af mínum uppáhaldskostum (ætla ekki að stinga upp á Grealish sem er of augljós kostur) þar sem hér er á ferð mikill Klopp-leikmaður. Réttfættur vængmaður með heilmikla skotgetu og ofboðslega duglegur pressari. Það mætti alveg horfa til þess að hrunið hjá Leicester síðasta vor kom í kjölfar meiðsla hans í leik gegn Arsenal enda alger lykill í sóknarleiknum þeirra. Hann verður 24ra ára á árinu og væri augljósi kosturinn til að bakka Mané upp. Hann er þó kannski ekki sami raðskorarinn og Mané er núna en tölfræðin hans er ekki ólík þeirri sem hún var þegar sá var hjá Southampton. Leicester eins og Dortmund eru ekkert að selja menn ódýrt og þeir eru alveg líklegir til að heimta yfirverð fyrir hann. Það er þó þannig að hann horfir mjög til enska landsliðsins og það er bara staðreynd að regluleg þátttaka í CL og stórum leikjum hjálpar til, sjáið bara Mason Mount.

  Ollie Watkins

  Við þekkjum víst þennan eftir þrennuna sem hann henti á okkur í fyrra. Öskufljótur framherji sem hefur leikið sem nía með Aston Villa en lék líka á vinstri vængnum með Brentford á sínum tíma með góðum árangri. Skoraði 14 mörk á sínu fyrsta tímabili í Úrvalsdeildinni sem er sannarlega góður árangur þegar horft er til þess að Villa var um miðja deild og þessi 26 ára gaur myndi fá miklu fleiri færi hjá okkur en á Villa Park og er kostur sem margir horfa til enda sennilega sá leikmaður sem er ólíkastur okkar framherjum og gæti brotið upp sóknarleikinn með sínum kostum.

  Bukayo Saka

  Það er nú bara komið svo að maður horfir til þess að Arsenalleikmenn séu mögulega farnir að óska eftir því að yfirgefa sitt félag til að keppa um stóru titlana en þannig er nú bara lífið. Þessi strákur stökk upp á stóra sviðið á þessu ári og gerði þá langtímasamning við Arsenal sem á víst að innihalda klásúlu um söluverð ef ekki næsti CL sæti. Hann verður 20 ára á árinu og allt við hann gargar á mann “SPENNANDI”, öskufljótur með mikla tækni og frábæran vinstri fót. Líklegasti arftaki Salah til lengri tíma í raun. Mun svo sannarlega ekki fara ódýrt en ætti að vera hvers punds virði fyrir lið sem gæti nýtt hann mögulega næstu 10 árin. Þetta mun þó eingöngu verða ef Arsenal verða áfram í bulli.

  Aðrir mögulegir kostir

  Hér að ofan eru þeir kostir sem pistlahöfundur hefur helst nefnt en það eru alls konar nöfn í viðbót á listanum sem vert er að skoða stuttlega en hægt væri að bæta við í athugasemdum. Förum yfir nokkur nöfn hratt.

  Fyrst ber þar að nefna Dele Alli sem auðvitað var nefndur sem mögulegur kostur fyrir Liverpool á sínum tíma. Náði heilmiklum hæðum hjá Spurs þar til Mourinho kippti honum út úr öllu og hefur heilmarga hæfileika sem Klopp gæti ræktað.

  Þá kynni ég til leiks Callum Hudson-Odoi sem virðist ekki ætla að skrifa undir annan samning hjá Chelsea. Annað nafn sem Liverpool hefur verið orðað við og getur leikið allar þrjár sóknarstöðurnar og jafnvel inni á miðju.

  Umræðan um að Raheem Sterling snúi til baka fór í gang síðasta vor þegar hann virtist vera að tapa í samkeppninni á Etihad. Hann sjálfur hefur ekkert útilokað það en líklega er brúin sem hann þyrfti að ganga til baka ekki alveg klár í þann túr eftir það hvernig hann fór frá félaginu.

  Þegar við horfum svo til þess að við erum í brasi í backup í hægri bakverði þá væri hægt að horfa til Ola Aina sem lék með Fulham í vetur. Þessi nígeríski bakvörður sem er í eigu Torino er fæddur og uppalinn í London og fellur því undir heimavallareglu. Strákur sem spilaði 32 leiki í deildinni í vetur og væri líklegur á góðu verði.

  Svo kemur hér nafnalisti yfir aðra sem eru kannski minna líklegir, þar set ég Declan Rice sem er líklega of dýr og leikur mest bara eina leikstöðu sem Fab mun eiga á Anfield. Þar kemur líka James Maddison sem er gamaldags tía sem fellur ekki inn í leikstilinn okkar og markmaðurinn Nick Pope sem ekki væri tilbúinn að vera varamaður hjá LFC.

  Síðast en ekki síst hendi ég hér inn tveimur “wildcards”. Annars vegar er það Joe Willock sem mér finnst spennandi leikmaður sem að Arteta virðist bara ekki ætla að nota og svo ungstirnið Noni Madueke sem leikur með PSV. Þessi 19 ára vængmaður fór til Hollands eftir að hafa verið uppalinn hjá Tottenham og var í vetur orðinn einn lykillinn í sóknarleik þeirra. Vissulega hrár en mjög spennandi.

  Það eru mörg nöfn hér á lofti og vel má vera líka að LFC ætli bara að einbeita sér að þeim ungu mönnum sem nú þegar eru í Kirkby. Mér þætti þó gaman að vita hvaða menn hér á þessum lista eru spennandi í augum lesenda kop.is, endilega skutla vali ykkar hér að neðan og þá endilega með rökstuðning. Önnur nöfn eru örugglega þarna úti sem gaman væri að heyra af líka.

  Svo er bara að sjá hvort á næstu 32 dögum einhver “heimaræktaður” dettur inn um dyrnar!

  [...]
 • Græða á ungum leikmönnum innan vallar sem utan.

  Akademía Liverpool hefur heldur betur verið að standa sig undanfarin ár og sést það ekki bara á þeim ungu leikmönnum sem eru að banka á dyrnar heldur líka á sölu leikmanna frá liðinu. Akademía Liverpool er á hraðri uppleið og má því kannski þakka að í liðinu er stjóri sem er duglegur að gefa ungum leikmönnum tækifæri á stóra sviðinu og hefur það hjálpað Liverpool að ná í unga og efnilega leikmenn til sín sem sjá að miði er möguleiki ef þú kemur til Liverpool. Liverpool hafa líka á undanförnum árum sett meira púður í alla umgjörð í kringum akademíuna því að það einfaldlega skilar sér vel til baka bæði innan vallar sem utan.

  Það er talið að það kosti um 10 m punda að reka akademíuna á hverju tímabili en Klopp er að fara í sitt sjötta heila tímabil núna með liðið og stærðfræði snillingar sjá að það hefur því kostað liverpool um 60 m punda á þessum tíma að reka unglingahreyfingu liðsins en væri ekki betra að nota þessa seðla í að fjárfesta í nýjum leikmönnum í aðalliðið? Heldur betur ekki því að á þessum árum hefur liðið selt unga leikmenn hægri vinstri.

  Skoðum þetta aðeins nánar og sjáum þessa helstu sem hafa verið að fara s.s leikmenn sem hafa alist upp í akademíunni eða fengnir ungir að aldri og voru settir í akademíuna.

  2016/17
  Jordon Ibe Bournemouth 15m punda
  Brad Smith Bournemouth 6m punda
  Sergi Canos Norwitch 4,5m punda

  2017/18
  Kevin Steward Hull 8m punda
  Andre Wisdom Derby 4,5m punda

  2018/19
  Dominic Solanke Bournemouth 19m punda
  Danny Ward Leicester 12,5m punda
  Rafael Camacho S.Lisbon 7m punda

  2019/20
  Ryan Kent Rangers 7,5m punda
  Allan Rodrigues de Sousa A.Mineiro 3,5m punda

  2020/21
  Rhian Brewster Sheffield United 23m punda
  Ki-Jan Hovever Wolves 13,5m punda
  Herbie kane Barnsley 1,25m punda

  2021/21
  Harry Wilson Fulham 12m punda
  Marko Grujic Porto 10,5m punda
  Taiwo Awoniyi Union Berlin 6,5m punda
  Kamil Grabara FC Copenhagen 3m punda
  Liam Millar Basel 1,3m punda

  Það eru auðvitað nokkrir þarna sem Liverpool var búið að fjárfesta aðeins í Grujic 5m og Solanke upphæð ekki alveg á hreinu en hún fór fyrir dómstóla og er talinn vera í kringum 5m punda en eins og sjá má í þessari upptalningu þá er þetta slatti af seðlum. Ef akademían væri bara að gera þetta fyrir klúbbinn þá væri það ekki slæmt en hún er líka að skila inn mjög spennandi leikmönnum í aðaliðið og sumir hverjir hafa heldur betur verið að nýta tækifærið.
  Trent Alexander Arnold, Curtis Jones, Harvey Elliot, Neco Williams, Rhys Williams og Caoimhin Kelleher hafa allir fengið að spila með aðalliðinu og svo eru nokkrir mjög efnilegir að mæta á svæðið sem við förum yfir betur síður. Það er samt ljóst að framtíðin er björt og hver veit nema að næsta Liverpool goðsögn leynist nú þegar í akademíunni okkar 🙂

  [...]
 • Hverjir taka við hlutverki Wijnaldum?

  Það versta við brottför Gini Wijnaldum er að með honum fer eini áreiðanlegi miðjumaður Liverpool undanfarin ár. Hann hefur aldrei verið besti miðjumaður liðsins en undanfarin ár hefur hann bókstaflega verið sá eini sem Klopp hefur eitthvað getað treyst á að haldist heill marga leiki í röð. Það er oft mikilvægari eiginleiki en að vera bestur en aldrei í leikhæfu ástandi. Ekki það að Wijnaldum var það að auki vanmetið góður leikmaður mest allan sinn feril hjá Liverpool.

  Það er áhugavert að skoða þetta út frá spiluðum mínútum í deildarleikjum undanfarin ár. Liverpool spilar auðvitað miklu meira en bara deildarleiki yfir heilt tímabil en Klopp stillir jafnan upp sínu sterkasta liði í deildinni. Þetta er ekki síst áhugavert núna í ljósi þess að 31 árs gamall Jordan Henderson er að gefa það út að hann geti jafnvel yfirgefið Liverpool í sumar þar sem samningsviðræður ganga illa.

  Svona eru spilaðar mínútur helstu miðjumanna Liverpool í deildinni undanfarin sex tímabil (frá því Klopp tók við). Heilt tímabil er 3.420 mínútur og ætli sweet spot fyrir bestu miðjumenn hvers liðs sé ekki einhversstaðar í kringum 2.500 – 3.100 mínútur á heilu tímabili. Þ.e.a.s. 75% eða meira. Bruno Fernandes sem dæmi spilaði 3.110 á síðasta tímabili fyrir United.

  Jordan Henderson

  Eins frábær þjónn og hann hefur verið undanfarin tíu ár er alls ekkert víst að það yrði svo mikið áfall ef Liverpool myndi horfa til næstu ára með annan leikmann í því viðamikla hlutverki sem Henderson hefur nú hjá Liverpool. Hann spilaði 38% af leikjum Liverpool fyrsta ár Klopp við stjórnvölin. Eftir það var hann að skila rétt rúmlega helmingnum af deildarleikjum liðsins þar til á síðasta tímabili að hann spilaði minna en helming leikja liðsins og ekki nærri því alla þeirra á miðjunni. Hann er ekkert líklegur til að verða minna meiddur núna eftir þrítugt og hefur aðeils spilað 56% deildarleikja Liverpool undir stjórn Klopp (þegar hann var 25-30 ára).

  Hvað leiðtogahlutverkið varðar þá skal alls ekki vanmeta hversu mikilvægur hann hefur verið fyrir Liverpool og er ennþá. En liðið mun þróast áfram eftir hans tíð og það eru nú þegar nokkrir tilbúnir að taka við því hlutverki komi til þess.

  Hversu mikilvægur gæti leikmaður í svipuðum gæðaflokki verið sem spilar 1.000 mínútum meira en Henderson á tímabili? Segjum Saul Niguez sem dæmi?

  Ég held að Liverpool sé ekkert stressað yfir því að samningsviðræður gangi illa við Henderson, hann á ennþá tvö ár eftir af núverandi samningi og félagið því með öll spilin.

  Wijnaldum

  Gini var að spila 82% leikja Liverpool að meðaltali undanfarin fimm ár og í mörgum af þessum 18% sem hann spilaði ekki var hann á bekknum. Næsti miðjumaður hvað spilaðar mínútur varðar er Fabinho með 65% að meðaltali síðan hann kom. Wijnaldum er þannig að meðaltali að spila sex leikjum meira á tímabili en Fabinho. Hann spilar 10 leikjum meira en Henderson að meðaltali sem er helvíti mikið á 38 leikja tímabili. Hvernig gengi United t.d. með tíu leikjum minna frá Bruno Fernandes að meðaltali?

  Það ætti að vera vel hægt að fá inn betri leikmann sóknarlega og þróa þannig liðið áfram frekar en að semja við þrítugan Wijnaldum til þriggja ára á mjög háum launum. Miðjan fékk inn Thiago síðasta sumar og má ennþá alveg við frekari endurnýjun.

  Fabinho

  Tölfræðin er aðeins skökk fyrir Fabinho þar sem hann var lengi vel á bekknum fyrsta tímabilið sitt hjá Liverpool. Raunar fáránlegt hvað Klopp beið lengi með hann því hann var löngu byrjaður að sýna að hann væri miklu betri aftast á miðjunni en Wijnaldum og Henderson sem þrjóskast var með lengi.

  Hann missti af 25% deildarleikja síðasta tímabils og spilaði líklega helminginn af rest í miðverðinum.

  Liverpool á Fabinho satt að segja alveg inni frá síðasta tímabili og hann þarf að spila +80% af leikjum liðsins, alla sem miðjumaður.

  Líklega mikilvægasti leikmaður liðsins og klárlega besti vinur Nat Phillips og Rhys Williams á lokaspretti síðasta tímabils. Liverpool var bókstaflega að vinna titla þegar hann var með Van Dijk og Gomez fyrir aftan sig.

  Thiago

  Það er auðvitað Richarlison gerpinu að kenna að hann spilaði aðeins 54% af deildarleikjum síðasta tímabils. Ef að hann getur spilað eitthvað í kringum 1.000 fleiri mínútur á þessu tímabili styrkir það Liverpool gríðarlega.

  Miðað við sögu hans hjá Bayern er ekkert rosalega líklegt að svo verði. Hann spilaði mest tæplega 2.500 mínútur 2018/19 en hefur núna spilað vel undir 2.000 mínútum síðustu þrjú af fjórum tímabilum.

  Þetta er samt lang eðlilegasti arftaki Wijnaldum í liðinu hvað hlutverk og stöðu varðar og betri leikmaður (þegar hann er heill). Hann býr auðvitað að síðasta tímabili og ætti að vera klár í slaginn nánast strax frá byrjun núna og vonandi með byrjunarliðið í kringum sig á vellinum, ekki lið uppfullt af leikmönnum sem aldrei höfðu spilað saman áður líkt og var þema síðasta tímabils.

  Ox

  Ekki bara hefur spilatími Ox verið hrein hörmung hjá Liverpool heldur var hann alls ekki það mikið betri þegar hann var leikmaður Arsenal. Hann hefur núna tekið eitt tímabil þar sem hann spilaði 19 mínútur og annað þar sem hann spilaði 246.mínútur. Náði samt tæplega 1.500 mínútuna tímabili þar á milli!

  Þegar hann meiddist gegn Roma vorið 2018 var hann loksins farinn að sýna hvað hann hefur hæfileika í sem miðjumaður. Hvað voru þetta, 2-3 alvöru góðir mánuðir? Síðan þá hefur hann verið meiddur eða verulega ryðgjaður eftir meiðsli og satt að segja aldrei komist almennilega í gang. Það eru meira en þrjú ár síðan hann var borin af velli gegn Roma!

  Þetta er búið með hann og satt að segja var hann ekki það góður fyrir utan nokkrar vikur. Hann er svosem tiltölulega ungur ennþá og þetta bókstaflega getur ekki versnað hjá honum. En Liverpool þarf að fækka umtalsvert nákvæmlega þessum hópi leikmanna.

  Naby Keita

  Guð minn góður! Hann er búinn að spila 27% af deildarleikjum Liverpool og þar af aðeins 15,3% á hörmungartímabilinu 2020/21. Hann hefur ennþá hæfileika til að verða besti miðjumaður liðsins og sýnir af og til sýnishorn af þeim potential sem Liverpool borgaði fyrir.

  Hann var ekki svona mikill Harry Kewell áður en hann kom til Liverpool og vonandi tekst félaginu að snúa gengi hans við á þessu ári. Hann var settur í sérmeðferð meira og minna allt þetta ár til að ná sér endanlega af meiðslum og er núna að fá bæði góða hvíld í sumar og byrjar undirbúningstímabilið frá fyrsta degi.

  Mjög mjög mjög stórt ef, en takist að ná bara eðlilegu +70% spilaðra mínútna tímabili frá Keita er Liverpool klárlega með arftaka Gini Wijnaldum. Vandamálið er að maður hefur meiri trú á að Harry Kewell komi aftur og spili þennan leikjafjölda.

  Keita hefur verið ári styttra en Ox þannig að gefum honum séns þetta tímabil, hann er samt alveg eins og Ox, einmitt tegund af leikmanni sem þarf að losna við úr hópnum. Það er ekkert gagn af leikmönnum sem spila 15% og 7% af deildarleikjum á tímabili þar sem allir sem þeir eru að keppa við um stöðu eru meiddir eða að spila úr stöðu.

  James Milner

  Um þrítugt var Milner svipuð vél og Gini Wijnaldum og spilaði m.a.s. 92% deildarleikja Liverpool 2016/17. Þá var hann að spila sem bakvörður og raunar er ástæða færri mínútna hjá honum sú að mikilvægi hans hefur jafnt og þétt verið að minnka og er ekki líklegt til að aukast á næsta tímabili.

  Ef að Milner er að spila meira en þessi 30% sem hann gerði á síðasta tímabili er það vegna þess að Liverpool styrkti hópinn ekki nóg því að það er varla hægt að lenda í meira veseni en Klopp lenti í fyrra. Ekki það að hann var að vanda janfnan betri en enginn þegar það var leitað til hans.

  Curtis Jones

  Jones spilaði meira en Milner síðasta vetur, hann spilaði miklu meira en Ox og Keita samanlagt og ekki það mikið minna en Henderson. Hérna sér Klopp líklega töluvert svigrúm fyrir meiri mínútufjölda næsta vetur jafnvel þó að hann styrki miðjuna. Það er miklu nær að gefa Jones séns og þróa hann heldur en að vonast eftir Ox enn eitt árið og ætli það sé ekki stór partur ástæðunnar fyrir því að Ox hefur verið settur í annað hlutverk.

  Emre Can

  Höfum Can með í samanburðinum, síðasti byrjunarliðsmiðjumaðurinn sem yfirgaf Liverpool. Hann var alls ekki allra en var að skila 68% spilaðra mínútna þessi þrjú tímabil undir stjórn Klopp. Meira en allir núverandi miðjumenn liðsins geta státað sig af.

  Hvernig fyllum við Wijnaldum skariðið?

  Hvernig vinnur Klopp upp þessari tæplega 3.000 mínútur sem Wijnaldum spilaði síðasta vetur? Auðvelda svarið er með því að kaupa nýjan miðjumann, en líklegra er að hann horfi til þess að fá meira frá gjörsamlega öllum hinum (ásamt því að bæta við sig nýjum leikmanni).

  Fabinho spilar á eðlilegu tímabili helmingi fleiri mínútur á miðjunni en hann gerði síðasta vetur

  Henderson spilar sömuleiðis um 20% (7-8 leikjum) meira á miðjunni á eðlilegu tímabili.

  Thiago getur vonandi bætt við sig 25-30% fleiri deildarleikjum og helst alla með Fabinho fyrir aftan sig og alvöru miðverði fyrir aftan hann. Höfum satt að segja bara fengið að sjá sýnishorn af honum það sem af er.

  Naby Keita heill væri bókstaflega eins og nýr leikmaður þó maður sé því miður ekki að gera sér neinar vonir um það lengur.

  Curtis Jones spilaði 34% af deildarleikjum Liverpool í fyrra. Mikið af því vegna meiðsla auðvitað en árinu eldri og reynslunni ríkari stefnir hann klárlega á meira en 50% af deildarleikjum núna.

  Fyrir utan þessa jöfnu eru svo Harvey Elliott, Ox og Shaqiri sem allir geta spilað á miðjunni. Þeirra mínútur á miðjunni verða þó líklega ekki í deildarleikjum.

  Draumurinn væri því að nýr miðjumaður komi inn, taki nokkra mánuði í að læra á liðið og hópinn líkt og t.d. Fabinho gerði og komi svo smátt og smátt meira inn í leik liðsins. Eftir því sem lengra líður á undirbúningstímabilið þeim mun ólíklegra er að nýr miðjumaður fari beint í byrjunarliðið.

  [...]
 • Liverpool – Mainz 1-0

  Leikþráður um æfingaleik við Mainz

  Klopp gerði 11 breytingar í hálfleik og má segja að leiknum hafi verið skipt á milli A liðsins og B liðsins.

  Byrjunarliðið í fyrri hálfleik:

  Kelleher – Trent – Kontate – Matip – Tsimikas / Milner – Keita – Elliott / Salah – Mane – Ox.

  Byrjunarliðið í seinni hálfleik: 

  Adrian / Williams – Koumetio – Phillips – Beck / Jones – Clarkson – Morton / Minamino – Origi – Gordon

  Aðrir: Karius – H Davies – Bradley – Cain – Jota

  Diogo Jota er með hópnum en kom bara í þessari viku og spilar því líklega ekki gegn Mainz. Harry Wilson er einnig með úti en spilar ekki þar sem hann er sagður á barmi þess að semja við Fulham. Ben Davies er ekki til… ég meina er ekki með af persónulegum ástæðum.

  Leikurinn sjálfur var dæmigerður æfingaleikur snemma á æfingatímabilinu og ekki margt nýtt sem við lærðum þannig séð. Engu að síður alltaf gaman að horfa á Liverpool fara af stað á ný.

  Kelleher kom aftur í markið og spilaði fyrir aftan Konate og Matip sem verða teljast líklegir til að byrja saman í fyrsta deildarleik úr því að Van Dijk og Gomez eru ekki enn komnir í 100% æfingaprógramm. Keita stóð hvað helst uppúr í fyrri hálfleik og var út um allt eins og við þekkjum frá honum þegar hann er heill heilsu. Ox var svo áfram í Firmino holunni.

  Fyrri hálfleikur fór 0-0

  Seinni hálfleikur var skipaður leikmönnum  (fyrir utan Curtis Jones) sem verða líklega lítið sem ekkert í plönum Klopp á næsta tímabili. Mainz skipti reyndar sömuleiðis um lið. Williams byrjaði en hann var ekki kominn úr fríi í síðustu viku. Bradley fór því á bekkinn. Phillips kom einnig inn í liðið sem er áhugavert í ljósi þess að hann spilaði ekki í síðustu viku, veit ekki til þess að hann hafi verið meiddur. Billy The Kid var með honum í miðverðinum. Owen Beck var sprækur í vinstri bakverði og skapaði sjálfsmarkið sem gerði út um þennan leik. Pressan var fín frá miðjunni sem var skipuð Jones – Clarkson – Morton. Frammi var svo langmest spennandi að fylgjast með Kadie Gordon sem var óheppinn að skora ekki í dag en markið hans var dæmt af vegna rangstöðu í aðdragandanum.

  Leikar enduðu 1-0

  Eftir leik útilokaði Klopp nánast að við fengjum að sjá Van Dijk og Gomez í Berlín í næsta leik

  [...]
 • Væntingavísitala varðandi nýjan sóknarmann

  Eftir kaupin á Konate eru flestir best tengdu blaðamenn í Liverpool á því að nýr sóknarmaður sé forgangsatriði í sumar. Það er áhugavert fyrir það fyrsta í ljósi þess að Liverpool er nú þegar með eina bestu ef ekki bestu sóknarlínu í heimi. Diogo Jota bættist í hópinn í fyrrasumar og er í dag miklu hærra skrifaður sóknarmaður og mun nær Mané og Firmino í áliti en hann var fyrir 12 mánuðum síðan. Þetta eru fjórir hátt launaðir og mjög góðir sóknarmenn sem allir eru á hátindi ferilsins hvað aldur varðar. Það er ekkert rosalega spennandi fyrir nýjan sóknarmann að koma inn í svona sterkan hóp nema um sé að ræða einhvern af Haaland, Mbappe eða Kane kaliberi.

  Vonandi eru allir búnir að átta sig á því fyrir löngu að Liverpool módelið er ekki byggt upp á slíkum leikmannakaupum og því verður alls ekki breytt núna í kjölfarið á Covid. Ekki síst í ljósi þess að Liverpool þarf ekkert að kaupa þannig tilbúna stórstjörnu. Ef að Liverpool væri að selja Mané eða Salah á +100m væri dæmið kannski öðruvísi en á meðan svo er ekki er spurningin hvað er verið að kaupa í nýjum sóknarmanni núna?

  Fyrir mér eru raunhæfu draumakaupin einhver í nákvæmlega sama gæðaflokki og Salah, Mané, Bobby og Jota voru þegar þeir komu til Liverpool. 22-24 ára leikmaður með góða reynslu sem á eftir að springa almennilega út og gæti vaxið hratt í að verða næsti arftaki einhvers af þremenningunum. Nákvæmlega eins og Diogo Jota gæti verið að gera vs Bobby Firmino. Einhvern sóknarmann sem kemur inn í staðin fyrir eða a.m.k. framfyrir Origi, Minamino og Shaqiri.

  Hinn kosturinn sem ég sé Liverpool ekki gera væri að kaupa gamlan ref fyrir 1-2 tímabil eins og United gerði með Cavani og Zlatan eða Atheltico Madrid gerði með Suarez í fyrra og Costa þar áður.

  Minamino voru áhættulaus leikmannakaup sem Liverpool græðir líklega töluvert á fjárhagslega. En hann er alls ekki líklegur til að veita neinum af núverandi sóknarlínu alvöru samkeppni.

  Origi bara ætlar ekki að þróast einn meter í átt að Jurgen Klopp leikmanni, hann er að ég held eini leikmaður Liverpool í tíð Jurgen Klopp sem hefur farið töluvert aftur sem leikmanni. Ákaflega pirrandi leikmaður á velli því hann ætti að hafa gjörsamlega allt til að verða skrímsli fyrir framan markið. Höfum samt í huga að hann kostaði 3m meira en Minamino, vann fyrir okkur Meistaradeildina og Everton svona tólf sinnum. Liverpool mun alls ekkert tapa á honum fjárhagslega heldur.

  Shaqiri mætti svosem alveg vera áfram hjá Liverpool en hann er eins og of margir í hópnum of mikill meiðslapési og of sérstakur leikmaður til að verða nokkurntíma jafn mikilvægur fyrir Liverpool og hann er fyrir landsliðið.

  Miðað við fyrsta æfingaleik eru þessir þrír mögulega ekki einu sinni næsti kostur í goggunarröðinni á eftir Fab Four. Ox-Chamberlain er í prufum sem nía og eins má ekki útiloka að Klopp leiti mun frekar til Harvey Elliott.

  Ef að sóknarmaður er svona augljóslega næsta áhersluatriði hjá Liverpool væri sóknarmaður í þessum 30-50m verðflokki augljósasti valkosturinn og Edwards hefur sannarlega ferilsskrá til að ávinna honum traust í slíkum leikmannakaupum. Ef að orðrómurinn væri um sóknarmann af hærra kaliberi eru allar líkur á að Mané eða Salah færu í staðin.

  Nýjasta nafnið í slúðrinu varðandi nýjan sóknarmann er Jarrod Bowen frá West Ham. Leikmaður sem er að mínu viti alveg rosalega svipað kaliber og Diogo Jota var í fyrra og viðbrögðin við þessum orðrómi alls ekki ósvipuð og þegar Jota var kynntur í fyrra. Þetta slúður er ekki orðið nógu alvarlegt til að maður nenni að velta sér upp úr því en þetta er nákvæmlega aldursbilið, tegund af leikmanni og profile sem ég held að Liverpool sé að leita að í stað Origi/Minamino/Shaqiri. Ef hægt er að kaupa slíkan leikmann með enskt ríkisfang er það ennþá betra.

  Vandamálið við að kaupa svona leikmenn er að sannfæra þá um að nánast fórna einu tímabili því þeir koma allir inn sannfærandi á eftir núverandi sóknarmönnum í goggunarröðinni. Liverpool þarf engu að síður klárlega einn í viðbót inn í þennan hóp sem gefur liðinu mun meira en Origi og Minamino gerðu á síðasta tímabili.

  Annað sem skiptir gríðarlega miklu máli við kaup á nýjum leikmanni er hvaða áhrif það hefur á þróun leikmanna eins og t.d. Harvey Elliott og Curtis Jones. Elliott verður 19 ára þegar næsta tímabil klárast og það er ekki séns að hann sætti sig við að vera 6.-8. valkostur hjá Liverpool lengi. Því síður trúi ég því að hann sé svo aftarlega í huga Klopp. Elliott í stað Shaqiri væri að mínu viti eðlileg og góð þróun á meðan nýr sóknarmaður í stað Origi og Minamino er ástæðan fyrir því að svo mikill fókus virðist vera á þessa stöðu næst. Balagizi og Musialowski eru svo báðir 18 ára og fara að banka á sömu dyr og Elliott mjög fljótlega, Kadie Gordon er 17 ára. Þetta er strákar sem eru svipað mikil efni og Raheem Sterling var á sínum tíma að spila fyrir þjálfara og eigendur sem leggja gríðarlega áherslu á að þróa og móta sína eigin leikmenn.

  Miðjan

  Þetta er ekkert ósvipað á miðjunni fyrir utan að þar var Liverpool að missa út algjöran lykilmann og eins má ekki horfa fram hjá því að Milner er ekkert að yngjast. Hans hlutverk minnkar með hverju tímabilinu. Eins hafa verið miklu meiri og alvarlegri meiðsli á miðjunni en í sóknarlínunni undanfarin ár. Hvaða leikmaður finnur mest fyrir því ef Liverpool kaupir nýjan leikmann í stað Wijnaldum?

  Curtis Jones er vonandi á barmi þess að springa út sem leikmaður, hann á töluvert eftir í sitt þak sem leikmaður en þarf séns til að sýna það líkt og t.d. Foden, Saka, Rashford o.s.frv. hafa verið að fá undanfarin ár.

  Miðjan hjá Liverpool núna segir sig nokkuð sjálf með Fabinho, Henderson og Thiago, allt leikmenn sem meiðast mikið. Jones, Keita og Milner eru þá í næsta hópi og miðað við meiðslasöguna er alltaf einhver að þeim að fara spila. Þarna er alveg hægt að styrkja hópinn, veita byrjunarliðinu meiri samkeppni og hefja undirbúning brottfarar Milner (og jafnvel Henderson).

  Þetta held ég að sé ástæðan fyrir því að Liverpool er orðað við aðeins hærra kaliber og dýrari leikmenn í þessari stöðu en í sókninni. Hér er verið að skipta út Wijnaldum, ekki varavara sóknarmanni. Nauhaus er ekki þekkt nafn í enska boltanum en þetta er þýskur landsliðsmaður. Niguez frá Athletico Madríd væru risastór leikmannakaup, Tielemans hjá Leicester er klárlega í sama klassa og Gini.

  Eins eru ekki eins rosalega mikil efni að koma úr akademíunni á miðri miðjunni og eru í sóknarlínunni (Elliott, Balagizi og Musialowski eru allir sóknartengiliðir eða sóknarmenn).

  Hvernig er staðan hvað sölu leikmanna varðar?

  Brottför Wijnaldum skilur eftir pláss á launaskrá fyrir nýjan leikmann í byrjunarliðsklassa.

  Kamil Grabara fór til FC Köbenhavn á 3m, Marko Grujic fór til Porto á 11m og Taywo Awonyi til Union Berlin á 6,5m. Allir líklega með klásúlu um næstu sölu einnig. Þarna eru strax 20,5m í sölu á leikmönnum sem höfðu engin áhrif á hóp Liverpool. 

  Harry Wilson og Nat Phillips eru mjög líklega næstir út. Fulham var í byrjun vikunnar sagt leiða kapphlaupið um Wilson og mögulega kæmu fréttir af því í þessari viku. Brighton gæti svo horft til Nat Phillips í stað Ben White. Phillips spilaði ekkert í fyrstu æfingaleikjum tímabilsins sem er kannski einhver vísbending? Fleiri lið hafa jafnframt verið orðuð við báða.  Söluverð þeirra er líklega einhversstaðar í kringum 15m hvor. Neco Williams hefur verið orðaður sterklega í burtu í sumar þó lítið hafi heyrst af því undanfarið. Allt leikmenn sem hafa lítil sem engin áhrif á núverandi hóp en gætu skilað 50-60m í ný leikmannakaup.

  Sala á einhverjum af Origi, Minamino og Shaq (ef ekki öllum) er svo líklega ekki síður mikilvæg til að skapa pláss fyrir erlenda leikmenn í hóp og hún er til að fjármagna kaup á nýjum leikmönnum. Origi er erfiðastur þar enda var Edwards líklega ennþá þunnur eftir Madríd 2019 þegar hann samdi við hann.

   

  [...]
 • Gullkastið – Æfingaleikir, sölur og samningar

  Æfingaleikjatímabilið hófst með óvenjulegum hætti í dag þegar Liverpool spilaði tvo hálftíma leiki í Austurríki. Það er svo venjulegur leikur á föstudaginn gegn Mainz. Liverpool seldi tvo leikmenn í þessari viku og það gæti verið stutt í sölu á fleiri mönnum. Eitthvað sem gæti losað um fyrir kaupum á nýjum mönnum. Svo voru áhugaverðar fréttir af samningsmálum lykilmanna.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 339

  [...]
 • Tveir hálftíma æfingaleikir í dag

  Það má segja að undirbúningstímabilið hafi byrjað fyrir alvöru með tveim leikjum í dag. Reyndar hófst dagurinn á tilkynningu á brottför tveggja leikmanna: Marko Grujic er farinn endanlega til Porto, og Taiwo Awoniyi er farinn til Union Berlin. Sá síðarnefndi fékki aldrei sénsinn hjá aðalliði Liverpool þrátt fyrir að hafa verið hjá klúbbnum lengur en margir núverandi aðalliðsmenn, en atvinnuleyfið var alltaf að þvælast fyrir honum. Þessar tvær sölur ættu að hafa skilað sirka 17 m punda í kassann, og báðir eru víst með “sell-on” klausu sem gæti skilað einhverjum aurum síðar meir.

  Hvað um það. Leikirnir tveir voru 30 mínútna langir hvor um sig, og uppstillingin var sem hér segir:

  Karius

  Trent – Matip – Davies – Beck

  Cain – Clarkson – Morton

  Gordon – Origi – Minamino

  Semsagt, afskaplega óreynd miðja, og liðið í heild sinni svosem afar óreynt.

  Seinna liðið var svona skipað:

  Adrian

  Bradley – Konate – R.Williams – Tsimikas

  Milner – Keita – Elliott

  Salah – Ox – Mané

  Á bekknum sátu (í báðum leikjum) Harvey Davies varamarkvörður, Neco, Harry Wilson og Billy the kid Koumetio. Neco og Harry komu bara inn í hópinn í gær og því varla komnir úr sundskýlunni eftir sumarfríið.

  Allnokkrir leikmenn komu ekki við sögu, t.d. eru hvorki VVD né Gomez orðnir leikfærir og munu ekki sjást í æfingaleiknum gegn Mainz á föstudaginn. Aðrir leikmenn sátu og horfðu á: Kelleher, Woodburn, Curtis, Musialowski, Nat Phillips og hugsanlega einhverjir fleiri sem ég er að gleyma.

  Það er skemmst frá því að segja að báðum leikjum lauk með 1-1 jafntefli. Origi skoraði mark okkar manna í fyrri leiknum eftir full harðan vítaspyrnudóm, en Mané í þeim seinni eftir að frábær fyrirgjöf Milner hafði ratað á tærnar á Tsimikas sem renndi honum inn á markteiginn og á Mané.

  Helstu nöfnin sem maður tók eftir í fyrri leiknum voru Owen Beck og Kaide Gordon, þó hvorugur þeirra hafi átt eitthvað fullkominn leik, en voru báðir að reyna. Elliott virkaði mjög frískur í seinni leiknum, Tsimikas kom mjög sterkur inn, Keita sýndi ágæta takta á miðjunni, og Ox kom bara nokkuð vel út sem fölsk nía. Sagði einhver “new signing”?

  Eins og áður sagði verður næsti leikur á föstudaginn gegn Mainz, og það verður gaman að sjá hvernig liðið lítur þá út.

  [...]
 • Liverpool drama 2020/21

  Síðasta tímabil var ekki gott tímabil miða við tímabilin á undan og eru fjölmargar ástæður fyrir því sem við höfum margoft farið yfir.
  2018 – Úrslitaleikur í meistaradeild og 4.sæti í deild
  2019 – Evrópumeistara og 2.sæti í deild með 97 stig.
  2020 – Englands(99 stig) og heimsmeistarar
  2021 – 3.sæti í deild með 69 stig

  Samt erum við að fara nokkuð bjartsýnir inn í nýtt tímabil og er það einfaldlega af því að við náðum meistaradeildarsæti og vitum að við erum að fara að spila með miðverði í vetur.
  Það sem má ekki gleyma er hvernig við náðum í þetta blessaða meistaradeildarsæti en förum aðeins yfir endasprettinn á því ævintýri áður en við förum á fullt í nýja tímabilið.

  3.sæti Leicester 28 leikir 54 stig
  4.sæti Chelsea 28 leikir 50 stig
  5.sæti West Ham 27 leikir 48 stig
  6.sæti Everton 27 leikir 46 stig
  7.sæti Tottenham 27 leikir 45 stig
  8.sæti Liverpool 28 leikir 43 stig
  Þetta lítur bara mjög illa út og vonir margra um meistaradeildarsæti voru einfaldlega farnar á þessum tímapunkti og menn farnir að spá í hvort að það borgaði sig að ná í fimmtudagsleiki í evrópu.

  29.leikur Wolves 0 Liverpool 1 Jota með mark á 45 mín
  30.leikur Arsenal 0 Liverpool 3 Jota 64/84 mín og Salah 68 mín
  31.leikur Liverpool 2 A.Villa 1 Salah 64 mín og Trent 91 mín (A.Villa komst yfir í fyrri hálfleik)
  32.leikur Leeds 1 Liverpool 1 Mane 31 mín en Leeds jafnar 3 mín fyrir leikslok.
  33.leikur Liverpool 1 Newcastle 1 Salah 3 mín en Newcastle jafnar á 95 mín.
  Þarna héldu margir að þetta væri búið að klúðrast eftir að hafa misst niður forskot á loka mín í tveimur leikjum í röð.

  3. Leicester 33 leikir 62 stig
  4. Chelsea 33 leikir 58 stig
  5. West Ham 33 leikir 55 stig
  6. Liverpool 33 leikir 54 stig

  34.leikur  Liverpool 2 Southampton 0  Mane 31 mín og Thiago 90 mín
  35.leikur  Man utd 2  Liverpool 4     Jota 34 mín, Firmino 45/47 mín og Salah 90 mín
  36.leikur  WBA 1 Liverpool 2  Salah 33 mín og  Alisson á 95 mín
  37.leikur  Burnley 0 Liverpool 3  Firmino 43 mín, Phillips 52 mín og Ox 88 mín.
  38.leikur  Liverpool 2 Palace 0   Mane 36/74 mín

  3. Liverpool 38 leikir 69 stig
  4. Chelsea 38 leikir 67 stig
  5. Leicester 38 leikir 66 stig
  6. West Ham 38 leikir 65 stig
  7. Tottenham 38 leikir 62 stig
  10. Everton   38 leikir  59 stig
  – Þetta voru s.s öll þau lið sem voru fyrir ofan okkur þegar 10 leikir voru eftir.

  Það vantaði ekki dramað í þennan lokasprett. Töpuð stig á loka sek, Man utd staðráðnir að skemma tímabilið okkar( hvíldu allt liðið í leiknum á undan) og við þurfum Alisson mark á 95 mín til að halda í vonina en tilfinningin var mjög góð eftir lokaleikinn.

  YNWA – Við höfum en þá trú á Klopp og strákunum hans.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close