Latest stories

 • Heimsókn til Lincolnshire

  Þrátt fyrir að vitað hafi verið að þetta tímabil yrði bæði furðulegt og þétt setið, þá var samt ákveðið að bikarkeppnirnar fengju að halda sér þetta árið. Fyrsti leikur okkar manna í deildarbikarnum verður á fimmtudagskvöldið þegar liðið ferðast í austurátt og mætir á Sincil Bank í Lincoln borg í samnefndri sýslu.

  Eða það er a.m.k. staðan eins og hún er núna. Í kvöld átti að fara fram leikur Tottenham og Leyton Orient í sömu keppni, en þar sem liðin í neðri deildunum eru ekki sett í COVID próf eins og úrvalsdeildarliðin ákváðu Spursarar að splæsa í próf á andstæðinga sína. Og viti menn, það voru víst eitthvað yfir 10 úr hópnum sem voru smitaðir. Reyndar virðist það hafa verið vitað fyrir síðasta leik Leyton Orient, því einhverjir leikmenn voru látnir spila með einkenni gegn Mansfield. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það sé mikil ánægja hjá Mansfield. Sagan segir að planið sé að Liverpool útvegi líka próf fyrir leikmenn Lincoln City, en greinarhöfundi er ekki kunnugt um að niðurstöður úr slíkum prófum liggi fyrir. Nú og svo hafa borist fréttir af smitum víðar, þá sérstaklega hjá West Ham þar sem David Moyes og tveir leikmenn reyndust smitaðir. Allavega endaði það þannig að Spurs var dæmdur sigur þar sem Leyton náðu ekki að smala í ósýkt lið. Við vonum nú að það séu engin smit hjá okkar andstæðingum og að leikurinn fari fram eins og áætlað er.

  Víkur þá sögunni að fyrri viðureignum þessara liða. Samkvæmt internetinu hafa liðin att kappi 23svar áður, Liverpool haft betur í 13 leikjum, en 5 hafa endað með jafntefli og 5 með sigri Lincoln. Það eru ekki nema rétt tæp 60 ár síðan að liðin léku síðast, eða í febrúar 1961, og þá unnu okkar menn nokkuð sannfærandi 2-0 sigur. Mér skilst að bæði lið verði að mestu með breyttan mannskap síðan þá.

  Lincoln City er sem stendur í “League One”, sem myndi teljast vera 3ja efsta deildin. Í þeirri deild sjáum við nokkur nöfn sem ættu að hringja bjöllum, nöfn eins og Hull, Sunderland, Wigan, AFC Wimbledon, MK Dons og fleiri. Það voru einmitt MK Dons sem voru síðustu mótherjar Lincoln City, en sá leikur fór 2-0 fyrir Lincoln. Á síðasta ári urðu Lincoln í 16. sæti af 24 liðum (þó aðeins 23 hefðu klárað leiktíðina), voru semsagt nokkuð fjarri því að gera atlögu að næstefstu deild. Sæti í næstefstu deild er líka besti árangur liðsins, og meira að segja náði liðið 5. sæti í þeirri deild, en það eru reyndar meira en 100 ár síðan því það gerðist veturinn 1901-1902. Þá hefur liðið lengst komist í fjórðu umferð deildarbikarkeppninnar, en það gerðist leiktíðina 1967-1968. Liðið hefur heldur ekki riðið neitt afgerandi feitum hesti frá keppninni síðustu ár, en í ár er liðið reyndar búið að vinna fyrstu tvo andstæðinga sína í keppninni, og mæta sjálfsagt dýrvitlausir til leiks með það að markmiði að jafna sinn besta árangur í keppninni hið minnsta.

  Hvað svo með okkar menn? Jú, Klopp hefur á síðustu árum sýnt að þessi keppni er talsvert aftarlega á merinni yfir þær keppnir sem hann leggur áherslu á. En á hinn bóginn er þetta vissulega einn af þeim bikurum sem Klopp á enn eftir að vinna með Liverpool, svo hver veit nema hann leggi skyndilega óvænta áherslu á þennan leik? Við skulum nú ekki gera okkur of miklar væntingar um slíkt. Lang líklegast er að hann gefi þeim leikmönnum sem ekki eiga fast sæti í byrjunarliðinu séns á fimmtudaginn. Það er vitað að Alex Oxlade-Chamberlain er meiddur og verður enn um sinn, og eins er Joel Matip frá í einhverjar vikur. Aðrir ættu að vera leikfærir, þó svo að bæði Joe Gomez og Billy Koumetio hafi verið að glíma við smávægilegt hnjask um helgina.

  U21 liðið var að leika í kvöld gegn Wigan (og steinlá), þar voru Kelleher og Woodburn í byrjunarliði og við getum því nokkurnveginn slegið því föstu að þeir komi ekki við sögu á fimmtudaginn. Eins ætla ég að gerast svo djarfur að spá því að enginn þeirra sem var í byrjunarliðinu á sunnudaginn byrji á fimmtudaginn, þó við gætum alveg séð eitthvað af bekkjarandlitunum í byrjunarliði, og eins er ekkert útilokað að þeir sem byrjuðu á sunnudaginn fái einhverjir það hlutverk að vera á bekknum og geta hleypt leiknum upp í síðari hálfleik ef þörf krefur.

  Prófum a.m.k. að stilla þessu svona upp:

  Adrian

  Williams – van den Berg – Koumetio – Tsimikas

  Jones – Milner

  Elliott – Minamino – Jota
  Brewster

  Hér er prófað að henda í 4-2-3-1 uppstillingu, en auðvitað er líka vel mögulegt að það verði farið í 4-3-3 með Grujic á miðjunni. Eins kæmi ekki á óvart þó Origi fái tækifærið, mögulega Shaqiri ef hann þykir leikfær en er hann ekki meira og minna alltaf eitthvað að glíma við hnjask? Svo gætum við séð Karius á bekknum, ásamt Nat Phillips, og svo mögulega eitthvað af fyrstu 11. Og hver veit, kannski fær Harry Wilson að byrja eða vera á bekk, a.m.k. er ekki búið að selja hann ennþá.

  Annars er mín ágiskun líklega jafn mikið út í loftið eins og annarra. Það hverjir byrja getur ráðist af fjölmörgum atriðum: hversu duglegur Michael Edwards er við samningaborðið fram að leik, hvernig mönnum gengur á æfingasvæðinu á morgun og svo á leikdag, hvort mönnum takist að halda sér veirufríum o.s.frv. Þið megið endilega henda ykkar spá varðandi byrjunarliðið í athugasemdir hér undir.

  Og spá um úrslit? Við skulum a.m.k. vona að þetta gangi betur en leikurinn gegn Northampton fyrir 10 árum síðan – vill einhver rifja þann leik upp? Nei ég hélt ekki. Ég hef fulla trú á því að liðið sem gengur inn á völlinn á fimmtudaginn verði talsvert ríkara af gæðum heldur en liðið sem spilaði forðum daga. Spáum 0-2 sigri, með mörkum frá Elliott og Jota, hvort í sínum hálfleiknum. Elliott mun svo í framhaldinu fara í klippingu eins og hann er búinn að lofa að hann geri eftir fyrsta opinbera markið með Liverpool.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Gullkastið – Gleðivísitalan í hæstu hæðum

  Þvílík helgi, Thiago var staðfestur á föstudaginn, Jota staðfestur á laugardaginn og Liverpool var staðfest upp á sitt besta á sunnudaginn.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 302

  Kop.is er í samstarfi við Sportveituna FM 102,5 en podcöst okkar eru nú flutt þar einnig, sem og á Spotify-reikningi veitunnar sem finna má með því að leita að SportFM á Spotify.

  [...]
 • Liverpool 2 – Chelsea 0 – Skýrsla (Uppfærð)

  Leikmenn Liverpool fóru í heimsókn til vestur Lundúna fyrr í dag og héldu brosandi til baka með þrjú stig og hreint lak í pokanum. Sadio Mané er nú komin í nítjánda sæti yfir markahæstu leikmenn Liverpool frá upphafi, með fleiri mörk en Fernando Torres og Luis Suarez. Já og Thiago mátaði rauðu treyjuna í seinni hálfleik og leið bara vel, með fleiri sendingar í einum hálfleik en nokkur leikmaður í einum hálfleik síðan menn fóru að halda utan um sú tölfræði. Ansi góður sunnudagur svo ekki sé meira sagt.

  Fyrri hálfleikur.

  Chelsea stilltu upp liðinu sínu með gífurlega þétta miðju og ætluðu greinilega að leyfa okkar mönnum að vera með boltann. Þeir virkuðu síðan stórhættulegir í skyndisóknum. Það tók mann smá stund að venjast að sjá Fabinho í hafsentinum. Werner virtist alveg átta sig á hvorn varnarmanninn var betra að sækja og heimamenn reyndu sífellt að skapa stöður þar sem Timo var einn á móti brassanum. Þrátt fyrir að leikplan Chelsea gengi ágætlega þá náðu þeir ekki skoti á markið í fyrri hálfleik.

  Það var þó ekki þannig að okkar menn væru að skapa neitt mikið meira hinum megin. Eina dauðafæri fyrri hálfleiks kom vegna (hörmulegra) mistaka markmanns Chelsea þegar hann ákvað að fara í kapp við Mo Salah um boltann á hægri væng Liverpool. Salah glotti, náði boltanum og gaf afar fasta sendingu á Bobby Firmino. Christiansen náði að stinga sér fram fyrir brasilímanninn og bjarg í horn.

  Það var svo á síðustu mínútu hálfleiksins sem dró til tíðinda. Alisson greip fyrirgjöf Chelsea manna og rúllaði boltanum til Jordan Henderson við vítateigslínu Liverpool, sem þrumaði boltanum inn á miðjan valarhelming Chelsea. Þar mættust Sadio Mané, Kepa og Christiansen. Daninn var langt á eftir senegalanum og brá á það ráð að rugby tækla okkar mann. Ég er reyndar ekki viss um að það sé rétt orð, því ég er nokkuð viss um að í rugby sé bannað að keyra beint í bakið á andstæðingum. Gjörsamlega glórulaus tækling. Í fyrstu vildi dómarinn bara gefa gula spjaldið en eftir að hafa skoðað brotið var honum ljóst að hann hafði rangt fyrir sér og gaf rétta litinn. Ljóst að Chelsea yrðu einum færri í heilan hálfleik.

  Seinni hálfleikur

  Klopp gerði skiptingu í hálfleik og koma nýja manninum Thiago inn á fyrir Henderson, sem hafði víst meiðst eitthvað smávægilega. Chelsea fóru í leikkerfið 6-3-0 og ljóst að þeirra eina markmið var að reyna að halda hreinu. Það gekk ekki.

  Á 52. mínútu lék sóknarþríeykið okkar sig í gegnum vörn Chelsea eins og hún væri ekki þarna. Salah og Bobby tóku frábæran þríhyrning í teig Chelsea sem kom Bobby aftur fyrir varnarmenn heimaliðsins og brassinn sendi fyrirgjöf á Mané sem tók sturlaðan skalla og boltinn söng í netinu! 1-0 fyrir góðu köllunum.

  Skömmu seinna sýndi Kepa afhverju hann er hataðasti maður Chelsea þessa stundina, allavega meðal sinna eigin stuðningsmanna. Hann fékk sendingu til baka og virtist missa hausinn þegar hann sá Mané koma hlaupandi í átt að sér. Hann gaf eins hratt og hann gat… beint á Mané sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði sitt 83. mark í rauða búningnum. 2-0 og þetta virtist bara ætla að verða öruggt. Það var á um það bil þessum tímapunkti sem pabbi ákvað að telja sendingar Liverpool í einni sókn. Hann hætti þegar okkar menn voru búnir að senda á milli fimmtíu sinnum án þess að Chelsea kæmi við boltann.

  Heimamenn voru þó ekki alveg að baki brotnir og komust í fágæta skyndisókn þegar korter var eftir. Thiago kom hlaupandi til baka og stuggaði aðeins við Werner sem lét sig falla. Ætla ekki að segja þetta hafi verið dýfa, en ef Salah hefði gert nákvæmlega þetta hefði þetta verið kölluð dýfa. Jorginho fór á punktinn. Maður sem hefur ekki brennt af vítaspyrnu síðan 2017… þangað til hann skaut á Alisson Becker sem varði víti í fyrsta sinn í Liverpool búning. 

  Werner náði svo einu skoti á markið undir lokin sem okkar maður varði líka. Þetta er það sem heimsklassa markmenn gera, geta stundum slappað af í heilan leik og svo verið tilbúnir í lokin að verja eitt þrumuskot.

  Milner kom inn á um miðjan seinni hálfleik og þétti miðjuna hjá okkur, Minamino fékk síðan nokkrar mínútur í lokin. Hvorugur breytti svo sem leiknum, enda lítið sem þurfti að bæta.

  Maður leiksins. 

  Erfitt að líta fram hjá Sadio Mané eftir þennan leik. Tvö mörk og þess fyrir utan stórhættulegur, lýst mjög vel á að hafa hann og Salah í því formi sem þeir hafa sýnt í fyrstu tveim leikjunum.

  Að lokum.

  Orðið sem kemur upp í hug eftir þessa frammistöðu er fagmennska. Okkar voru betri í fyrri hálfleik en náðu ekki að komast yfir. Í seinni hálfleik byrjuðu þeir af miklum krafti og náðu í tvö mörk, eftir það settu þeir bara í rólegan gír og spöruðu orkuna fyrir komandi átök.

  Thiago minnkaði ekkert spennuna okkar með þessari frammistöðu. Mér fannst blaðamaður BBC komast ágætlega að orði eftir leik: Thiago er eins og taktmælir á píanói, heldur öllu gangandi eins og það á að vera. Eftir að hafa séð Fabinho í hafsentinum í dag og hvernig miðjan okkar stóð sig án hans er ég ekkert viss um Klopp sjái þörfina á nýjum fjórða hafsent í stað Lovren.

  En það sem skiptir máli er að liðið er komið með sex stig eftir tvo erfiða leiki og náðu að koma í veg fyrir að öflug sóknarlína Chelsea skoraði gegn þeim. Næst á dagskrá er deildarbikar leikur gegn Lincoln City, verður afar forvitnilegt að sjá hvaða byrjunarlið fær þann leik.

  Hver er ykkar maður leiksins? Og hversu gaman er að halda með þessu liði!?!

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Chelsea klárt: Thiago á bekknum, Fabinho í hafsent

  Eftir klukkutíma endurnýja Klopp og Frank Lampard ögn erfið kynni sín á Stamford Bridge. Klopp hefur valið sinn ellefu manna hóp, nýji kallinn Thiago byrjar á bekknum (ætla að giska formlega á að hann komi inn á 75. mínútu). Það stóra óvænta er að Fabinho er í vörninni en það er minna óvænt að það sé vegna þess að Gomez og Matip eru meiddir. Hinn nýji maðurinn Jota fær að slaka á og horfa á úr stúkunni eða kannski heima hjá sér, það kemur í ljós.

   

   

  Á móti þessum hetjum og heljarmennum hefur Frank valið þetta lið:

   

  [...]
 • Aukaþáttur / Diogo Jota – nýjasti meðlimur LFC (staðfest)

  Það var flöskudagur á leikmannamarkaðnum hjá Liverpool í gær. Hentum í stuttan aukaþátt til að fara yfir þessi mjög svo spennandi leikmannakaup.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Óli Haukur og Maggi Beardsley

  MP3: Þáttur 301b


  Það er semsagt orðið staðfest sem fór hratt af stað í gærmorgun, portúgalski framherjinn Diogo Jota hefur gengið til liðs við Liverpool frá Úlfunum, kaupverðið hans 41 milljón sem vonandi hækkar upp í 45 milljónir með sigrum í Úrvals- og Meistaradeild. Litlar sögur hafa verið af áhuga okkar manna á þessum strák og því er vert að fara yfir hans feril hingað til og leita að hvað það er sem við erum að fá með honum.

  Jota er fæddur 4.desember 1996 og verður því 24ra ára á þessu ári. Hann er fæddur í Porto og bjó þar með foreldrum sínum í úthverfi þeirrar borgar og þar hófst fótboltaferill hans með litlu liði sem heitir Gondomar. Liðið þar hefur lengst af verið í C-deild portúgalska fótboltans og lifir í skugga margra fótboltaliða á Portosvæðinu. Jota spilaði lengi í yngri liðum Gondomar, allt frá 9 – 16 ára aldurs en þá náði hann athygli stærri liða á svæðinu og bæði Porto og Boavista höfðu samband við hann en hann valdi að ganga til liðs við það þriðja í nágrenni heimilisins, Pacos de Ferreira sökum þess að hann taldi mestar líkur til að hann fengi sénsa til að spila með aðalliði félagsins.

  Það fór enda þannig að hann var ekki lengi að komast inn í þann hóp, fyrsta leikinn lék hann rúmlega 17 ára og varð frá áramótum 14/15 lykilmaður í liði Pacos sem var á þessum tíma um miðja efstu deild í Portúgal sem var býsna athyglisverður árangur út frá stærð liðsins og samkeppni. Á þessum tíma náði hann augum portúgalska landsliðsins, lék fyrst U19 leiki og síðan í U21s árs landsliðinu. Stóru liðin í Portúgal og Spáni eru fljót að snuðra svona leikmenn upp og það varð töluverður slagur milli stórra nafna um hann árið 2016. Að lokum fór það svo að Atletico Madrid keypti hann en eftir að hafa æft með þeim á undirbúningstímabilinu mátu Madridingar það þannig að hann væri ekki tilbúinn í aðalliðið þeirra en vildu að hann færi í alvöru lið.

  Úr varð að helsti samkeppnisaðili þeirra um hann frá um vorið, Porto FC, fékk hann lánaðan og hann lék stórt hlutverk í liði þeirra leiktíðina 2016 – 2017 þar sem þeir urðu í 2.sæti á eftir mínum mönnum í Benfica en komust í Meistaradeild hvar þeir árið eftir féllu út eftir slæmt 0-5 tap á heimavelli með Einar Matthías og okkur Steina brjálaðan á pöllunum. Hann skoraði 8 mörk í deildinni og lék nær alla leiki með Porto, einungis meiðsli sem stoppuðu hann þar. Auk þess lék hann í Meistaradeildinni með þeim og má með sanni segja að hann hafi þarna stimplað sig vel inn.

  Sumarið 2017 var Atletico enn ekki á því að hann réði við að komast í þeirra lið og þeir ákváðu að lána hann aftur. Öll stóru liðin í Portúgal vildu fá hann en nú fór svo að þeir spænsku töldu hann þurfa annars konar verkefni og þá steig inn Jorgé nokkur Mendes sem var þá orðinn umboðsmaður Jota. Sumarið 2016 var Mendes ráðinn til Wolves af nýjum eigendum þess félags, Fosun International, til að leiða þeirra atlögu að efstu deild enskrar knattspyrnu á ný. Eftir frekar rólegt fyrsta ár hjá Mendes og Fosun International réðust þeir í það að fá Nuno Espíriton Santo (gróf þýðing: Heilagur Andi Nuno) sem stjóra og Santo vildi ólmur fá Jota til liðs við sig þar sem hann taldi leikmanninn sniðinn til að koma með þann hraða í skyndisóknaleikinn sem hann vill spila. Atletico voru alls ekki sannfærðir, lið á Spáni og Frakklandi voru líka inni í myndinni og alls konar kjaftasögur eru í gangi að Mendes hafi beitt alls konar aðferðum við að troða sér framar í röðinni og svo fór að Atletico féllst á að Jota færi og spilaði í næst efstu deild Englands frá hausti 2017.Þar blómstraði hann strax og smellpassaði inn í lið sem vann deildina örugglega. Hann lék 44 af 46 leikjum deildarinnar og skoraði 17 mörk. Í janúar það tímabil var það svo tilkynnt að Úlfarnir hefðu keypt hann á 14 milljónir Evra og með einhverjum klásúlum.

  Hann var svo lykilmaður hjá Úlfunum í EPL þau tvö ár sem hann var þar. Hann lék 67 af 76 mögulegum hjá liðinu í deildinni, skoraði 16 mörk og átti 6 stoðsendingar. Það er aðkoma að 0,33 mörkum í leik sem er býsna gott hjá liði fyrir neðan efstu tvö liðin í þeirri deild. Leikstíll Úlfanna er sniðinn að styrkleikum Jota, þeir eru með massíva þriggja varnarmanna línu, þá fjóra menn á miðju þar sem þeir ystu eru hugsaðir sem kantbakverðir og eru oftast varnarmenn að upplagi en eiga þó að koma upp (nokkuð sem ég held að gæti hæft Ki Jana Hoever nokkuð vel þegar hann mætir á svæðið) en í ákveðnum leikjum var Jota látinn spila þar, í leikjum þar sem þeir pressuðu hátt á liðin. Fyrir framan þessa fjóra eru svo tveir sem oft voru Traore og Jota með Jimenez fyrir framan. Öskufljótir gaurar með klassískri níu og þessi uppskrift hefur svo sannarlega valdið mörgum vanda síðustu tvö leiktímabil og virðist eftir fyrstu umferðina ekkert vera á neinni niðurleið.

  Diogo Jota er portúgalskur landsliðsmaður. Hann var í hóp landsliðsins sem vann hina stórkostlegu Þjóðadeild á heimavelli vorið 2019 en lék þó ekki sinn fyrsta leik fyrr en í nóvember í fyrra þegar hann kom inná fyrir Cristiano Ronaldo sem kantframherji í 4-2-3-1 leikkerfi. Hann hefur síðan leikið þrjá leiki í viðbót og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í sterkum 4-1 sigri á Króatíu nú 5.september síðastliðinn.

  Það er alveg ljóst að Jota er keyptur til að veita sóknartríóinu okkar heilbrigða samkeppni og koma inn ef þeir þreytast eða meiðast. Umræðan um þessa stöðu hefur nær algerlega einskorðast við Sarr hjá Watford en þetta virkar á mig bara endurtekning á Lewis/Tsimikas umræðunni í sumar. Það er klárt mál að Klopp hefur haft augastað á Jota lengi og Pep Lijnders auðvitað gjörþekkir portúgalskan fótbolta og tengslin við Porto eru mikil þar sem einn úr þjálfaraliðinu Vitor Matos kemur þaðan og var í starfsliði þeirra hluta af leiktíðinni 2016/2017. Watford hefur verið að draga LFC á peningaeyrunum og þá var bara keyrt af krafti á Jota. Sagan er að hann hafi viljað fá nýtt verkefni og eftir að hann lék ekki með þeim í miðri viku þá virðast hlutir hafa gerst hratt, hann er orðinn leikmaður þeirra alrauðu og íslenska útgáfa aðdáendaklúbbs Portúgals (held að ég sé mögulega einn í honum samt) gleðst yfir því að fá þennan strák inn í liðið.

  Hér er á ferð öskufljótur og aggresívur framherji sem hefur spilað pressufótbolta í háum gæðum á Englandi í þrjú ár, þekkir allt sem þarf að þekkja á þessari ágætu eyju og ekki nokkur ástæða til að ætla annað en að hér sé á ferðinni töluvert upgrade í “backup” fyrir tríóið okkar magnaða hið minnsta. Þetta er mikill karakter og með gríðarlegan sigurvilja, var fyrirliði U21s árs liðs Portúgals síðustu tvö árin sín þar og ætlar sér að taka við kórónu Ronaldo þegar hún verður lögð til hliðar í því dásemdarlandi – þetta skref ætti að hjálpa til við það að hrifsa hana frá öðrum manni sem er að gera tilkall til hennar með að skora fullt af mörkum úr vítum, nóg um það!

  Með þessum kaupum hafa farið í gang sögur að bæði Brewster og Origi verði seldir…sjáum til hvernig það allt fer en eftir þurratíð í leikmannakaupum í sumar hreinlega rignir leikmannaslúðri í því magni að mér skilst að Óli Haukur verði í fríi í vinnu næstu vikuna því hvað vitum við hvað hendir næst!

  Velkominn Diogo Jota!!!

  [...]
 • Upphitun: Chelsea á brúnni

  Á morgun er annar í titilvörn þegar við mætum bláliðum í Chelsea á Stamford Bridge. Leikir þessara liða hafa yfirleitt verið mjög spennandi og áttum við erfitt með þá í þeim fjórum leikjum sem við spiluðum við þá á síðasta ári. Lokaleikurinn var líklegast minnistæðastur en eftir þann leik lyftum við loks Englandsmeistaratitlinum eftir 30 ára bið en leikurinn minnti meira á handboltaleik en fótbolta og endaði 5-3 okkur í hag. Við unnum hinn deildarleik liðanna einnig en sá leikur fór 2-1 þar sem við skoruðum tvö mörk snemma leik en vorum svo undir mikilli pressu í seinni hálfleik en náum að halda út. Síðan mættust liðin bæði í Ofurbikarnum þar sem Liverpool vann í vítaspyrnukeppni og í FA bikarnum þar sem Chelsea hafði betur 2-0.

  Í gær var sérstakur dagur en eftir sumar af orðrómum, og jafnvel staðfestingum, þess efnis að við þyrftum að selja til að kaupa og að veirutímar hefðu farið illa með fjárhag Liverpool þá virðist vera að allstórt peningabúnt hafi fundist við þrif á skrifstofum í gær. Nokkrum klukkutímum eftir að Klopp sagði á blaðamannafundi að það væri lítið í gangi en það væri þó ekki öruggt að enginn kæmi í glugganum voru tveir menn staðfestir í Thiago og Diogo Jota og orðrómar um að sá þriðji sé langt kominn varnarmaðurinn Ozan Kabak.

  Með þessa menn innanborðs er ekki hægt að segja annað en að breiddin hjá okkar mönnum er farinn að líta ansi vel út á pappír en við fáum að láta á það reyna á næstu vikum þegar leikjaprógramið fer að þéttast allverulega og þessir menn þurfa þá að sýna okkur hvað í þá er spunnið.

  Mótherjinn

  Á meðan hafa mótherjar okkar á morgun verið að henda peningum í alla sem eru til í að taka símtöl frá Frank Lampard í sumar en þeir hafa þegar eitt rúmlega 200 milljónum í sumar. Þeir kaupa þrjá flotta leikmenn í formi Haverts, Werner og Zyiech og náðu svo í einhverja varnarstyrkingu með Thiago Silva og Ben Chilwell og svo er markmaðurinn Edouard Mendy á leið frá Rennes í þokkabót fyrir um 20 milljónir. Chelsea heilluðu marga í fyrra með her ungliða sem hafði áður ferðast um álfuna á láni í nokkur ár áður en Chelsea lennti í félagsskiptabanni síðasta sumar og var þá tekinn ákvörðun að treysta á strákana. Þeir stóðu undir því að flestu leiti komust í meistaradeildarsæti og voru virkilega góðir á köflum en eins og oft með ung lið að þá var óstöðugleiki þeirra helsta vandamál. En þrátt fyrir flottar frammistöður í fyrra verður líklegast lítið traust á sömu ungu menn í ár. Mount og James fá líklegast enn einhverjar mínútur en traustið verður á nýju dýru leikföngum Lampards í ár.

  Nokkur forföll eru í Chelsea liðinu en nýju mennirnir Hakim Ziyech, Ben Chillwell og Thiago Silva eru allir á meiðslalistanum og verða líklega ekki með á morgun en sama á við um Christian Pulisic sem við áttum erfitt með í seinni deildarleik liðanna í fyrra. Auk þeirra var Timo Werner eitthvað tæpur eftir Brighton leikinn en Lampard hefur staðfest að hann verði með á morgun.

  Okkar menn

  Á morgun verður undarlegur dagur fyrir okkar menn því í fyrsta sinn síðan í október 2018 munum við spila við lið sem er fyrir ofan okkur í töflunni. Það er þó aðeins ein umferð búinn svo það er ólíklegt að okkar menn láti það eitthvað trufla sig. Þó stöndum við klárlega frammi fyrir dágóðu vandamáli sem er varnarleikur liðsins. Lokahluti síðasta tímabils var ekki sterkur varnarlega og við byrjum tímabilið í ár að fá á okkur þrjú mörk gegn nýliðum Leeds og það er orðið ljóst að þetta er eitthvað til að hafa áhyggjur af, sérstaklega gegn jafn góðu sóknarliði og Chelsea. Á hinn boginn vitum við hvað leikmennirnir í þessum stöðum hafa mikil gæði og þjálfarateymið hefur margoft sýnt okkur hvað þeir eru góðir að bregðast við vandamálum að vonandi sjáum við lagfæringu á þessu strax á morgun því annars gæti illa farið.

  Það er lítið um forfoll í okkar liði, einungis Oxlade-Chamberlain á meiðslalistanum en auk hann er ólíkegt að nýju mennirnir verði með á morgun.

  Góðu fréttirnar hjá okkar mönnum er leikurinn sem Mo Salah átti gegn Leeds þar sem hann var hrikalega flottur og ætlar greinilega að reyna sækja gullskóinn sinn aftur sem hann lánaði Jamie Vardy á síðustu leiktíð.

  Ég tel að það verði litlar breytingar á liðinu fyrir þennan leik, í raun aðeins það að Fabinho komi inn á miðjuna til að hjálpa varnarleiknum annars verði þetta sama lið og við sáum gegn Leeds.

  Spá

  Það verður spennandi að sjá hvort Marcos Alonso verði áfram í vinstri bakverðinum hjá Chelsea eða hvort Lampard setji Azpilicueta þar yfir. Ef ég væri Chelsea maður væri ég allavega skíthræddur að mæta Salah í þessum ham gegn Alonso. Ég ætla að spá 2-1 sigri Liverpool í mjög erfiðum leik þar sem Salah setur eitt og Van Dijk annað en Timo Werner skori fyrir Chelsea.

  [...]
 • Ki Jana farinn – Jota í læknisskoðun

  Nú rétt í þessu staðfesti opinbera heimasíða LFCað Ki-Jana Hoever hefði verið seldur til Wolves. Kaupverðið er sagt vera 9 milljónir punda sem geti farið upp í 13,5 milljónir ef honum og Úlfunum gengur vel.

  Hann birti þessa mynd á Instagram rétt áðan:

  Hoever kom til LFC fyrir tveimur árum og hefur á þeim tíma leikið 4 leiki með liðinu og skorað 1 mark. Upphaflega var hann keyptur sem hafsent en hefur lengst af tímans hjá LFC leikið sem hægri bakvörður. Hann virðist hafa tapað samkeppninni fyrir Neco Williams um aðalliðssæti og það er í raun mjög eðlilegt að leikmaður eins og hann vilji fara að spila reglulega, það að hann er seldur en ekki lánaður kannski kemur á óvart og ekki er talað um neina endurkaupsklásúlu í pakkanum svo við óskum honum góðs gengis. Leikaðferð Úlfanna með þrjá hafsent og sóknarbakverði held ég að hæfi honum einstaklega vel.

  Óskum Hoever alls góðs nema í leikjum á móti okkur!

  Samkvæmt öðrum fréttum er Diogo Jota að klára læknisskoðun og annað smálegt og formlegrar staðfestingar á kaupum á honum að vænta síðar í dag. Þá hendum við inn pistli um hans feril og innkomu í lið Liverpool, hann kemur um leið og (staðfest) kemur frá Liverpool FC.

  [...]
 • Liverpool að kaupa Diogo Jota og Hoever fer til Wolves

  HVAÐ ER AÐ FUCKING FRÉTTA?!?

  Eins og það að opinbera Thiago Alcantara sé ekki nógu spennandi á föstudegi þá eru að birtast fréttir þess efnis um að Liverpool og Wolves hafi komist að samkomulagi um kaupverð á sóknarmanninum Diogo Jota sem mun koma til Liverpool á 41 milljón punda og aðrar fjórar geta bæst við út frá árangri hans og liðsins. Á sama tíma hefur Liverpool selt Ki-Jana Hoever til Wolves á níu milljónir og aðrar 4 og hálf milljóng punda geta bæst við út frá hans árangri ásamt því að Liverpool fær 15% af næstu sölu á honum. Því má segja að Liverpool sé í raun aðeins að kaupa Jota á einhverjar þrjátíu milljónir punda eða svo. Þá er greiðsludreifing Liverpool í dílnum ansi hagkvæm fyrir félagið sem er mikill bónus.

  Þetta er frábær díll fyrir Liverpool en þessi 23 ára gamli sóknarmaður og portúgalski landsliðsmaður hefur farið mikinn í liði Wolves undanfarnar tvær leiktíðir. Hann spilar einna helst sem vinstri kantmaður en getur leyst af stöður í gegnum miðsvæðið líka. Hann er fljótur, leikinn, með auga fyrir marki og nokkuð skapandi. Í raun nokkuð fullkominn prófíll fyrir sóknarmann Liverpool og er mjög spennandi að hann sé á leið til liðsins.

  Þetta er í annað skipti á ekki löngum tíma sem Liverpool kaupir leikmann sem hefur Jorge Mendes sem umboðsmann nokkurn veginn upp úr engu en eins og margir kunna að muna kom Fabinho eins og þruma úr heiðskýru lofti.

  Á næstu dögum munum við vonandi sjá hann staðfestan af félaginu og pósandi í búningi Liverpool. Michael Edwards hefur fundið fyrirtækja kreditkortið og er heldur betur farinn að opna veskið. Tsimikas, Thiago og nú Jota er bara ansi magnaður gluggi hingað til og ég held að Liverpool sé ekkert endilega búið að versla.

  [...]
 • Thiago til Liverpool (Staðfest!)

  Það er loksins búið að staðfesta orðróminn sem er búinn að vera í gangi síðustu vikur: einn besti miðjumaður heims, nýbúinn að vinna meistaradeildina með Bayern, er kominn til Liverpool og verður hér næstu 4 árin.

  Hann fær treyju númer 6 sem Lovren skildi eftir sig í sumar (nú vantar bara að finna út hver eigi að fá tvistinn!)

  Það er óhætt að segja að þetta sé mikil búbót fyrir klúbbinn, og talsvert síðan að Liverpool keypti leikmann sem var nýbúinn að vinna meistaradeildina. Eða hefur það yfirhöfuð gerst áður svo við vitum til?

  Þetta er leikmaður sem getur spilað nánast hvar sem er á miðjunni: við hliðina á Fabinho/Hendo í 4-2-3-1, sem box-to-box í 4-3-3, framliggjandi miðjumaður o.s.frv., og ætti bara að auka valkostina sem Klopp og Lijnders hafa yfir að ráða í uppstillingu. Þá er áhugavert að ekkert hefur verið talað um að Wijnaldum þurfi að fara, það eru allar líkur á að hann verði hjá klúbbnum a.m.k. þetta tímabil, hver veit nema hann framlengi á næstu vikum. Við látum það bara koma í ljós.

  Á sama tíma lítur út fyrir að Ki-Jana Hoever sé á leiðinni til Wolves fyrir 10+ milljónir punda, en á móti sé Liverpool að sverma fyrir Diego Jota hjá sama liði. Þetta kemur frá Pearce, Reddy et al., og því mjög miklar líkur á að þetta séu ekki bara einhverjar þreifingar heldur að þarna sé um að ræða samninga sem séu mjög langt komnir. Diego var t.d. ekki í leikmannahóp Úlfanna í gær. Auðvitað er það tvíbent að missa unga og efnilega leikmenn frá klúbbnum, hvort sem um er að ræða Hoever, Brewster eða einhvern annan, en við treystum á að það séu góðar endurkaupsklásúlur í sölusamningunum, og að leikmennirnir séu til í að koma til baka eftir að hafa spilað sig í form með öðrum klúbbum.

  [...]
 • Blákastið – Liverpool umræða

  Endilega tékkið á nýjasta þætti af Blákastinu sem er hlaðvarp Chelsea manna hér á landi. Fór ferskur með Thiago fréttirnar í þátt hjá liðinu sem er búið að kaupa alla hina spennandi bitana á markaðnum í sumar. Hressandi umræða um Liverpool, leikinn um helgina og boltann almennt.


  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close