Það er ekki oft sem Liverpool dregst í Evrópukeppni gegn liði sem maður hefur svo lítið heyrt af að maður veit ekki einu sinni frá hvaða landi liðið er. Það er því kannski við hæfi að strax í fyrsta leik Liverpool í þessari keppni síðan liðið spilaði til úrslita árið 2016 bíði einmitt slíkt lið. LASK frá Linz í Austurríki sem er í norðurhluta landsins á bökkum Dónár skammt frá landamærunum að Tékklandi.
Þegar Man Utd var dregið gegn þeim fyrir þremur árum setti Lineker þessa færslu á Twitter
Stuðningsmenn LASK svöruðu vel í næsta leik á eftir og sungu í 90 mínútur “Who the fuck are Man United?”
Linz er þriðja stærsta borg Austurríkis og nokkurnvegin í miðri Evrópu sem gerir það kannski enn aðdáunarverðara hversu lítið þeir hafa afrekað í knattspyrnu, LASK hefur einu sinni unnið deildina (1965) og tvisvar hafnað í öðru sæti.
Mögulega hefði vægi Linz orðið enn meira í Austurríki og Evrópu hefði seinni-heimsstyrjöldin farið öðruvísi því að Adolf Hitler flutti til borgarinnar sem barn og taldi Linz vera sinn heimabæ og hugðist setjast þar í ellinni. Adolf Eichmann var raunar líka búsettur í Linz sem barn. Rétt fyrir og á meðan stríðinu stóð lagði Hitler áherslu á uppbyggingu og mikilvægi Linz og vildi hann gera borgina að menningarborg hans útópíska þriðja ríkis, eina af fimm aðalborgum alls ríkisins og fjölgaði íbúum töluvert rétt fyrir stríðið. Skömmu áður en nasistar hertóku Austurríki hafði Hitler verið fagnað sem hetju í borginni og hafði mikil áform fyrir borgina sem flest urðu ekki að veruleika vegna þess hvernig stríðið þróaðist.
Töluverð vopnaframleiðsla og annar iðnaður tengdur stríðsrekstri var í Linz sem var auðvitað vel staðsett og aðgengileg á bökkum Dónár, uppbygging þessu tengd var að stórum hluta unnin af stríðsföngum í 77 verkamannabúðum í borginni, eins voru nasistar með stórar útrýmingarbúðir í Mauthausen sammt frá Linz. Það var líka til þess að borgin var fórnarlamb 22 loftárása á árunum 1944/45 sem varð tæplega 1.700 manns að bana.
Eftir striðið var svæðinu skipt milli Bandaríkjamanna og Sovétríkjanna eftir bökkum Dónár. Linz var að mestu leiti á svæði Bandaríkjamanna. Strax eftir stríðið var breytt 39 götuheitum í Linz frá nasistatengdum heitum.
Hitler vildi sjá Linz vaxa og standa framar Vínarborg á öllum sviðum en entist blessunarlega ekki ævin til að koma Linz neitt sérstaklega á kortið satt að segja. Borgin vann sér það þó til frægðar að vera menningarborg Evrópu árið 2009 með Vilníus, ári eftir að Liverpool bar þann titil. Linz er í dag lífleg háskólaborg og viðskiptamiðstöð með líflegu lista og menningarlífi en það verður seint sagt að þetta sé áhugaverðasta ferðalag sem stuðningsmenn Liverpool hafa lagt.
LASK (Linzer Athletik Sportklub)
LASK var árið 1965 fyrsta liðið utan Vínarborgar til að vinna efstu deild í Austurríki. Síðan þá hafa nokkuð mörg lið unnið titilinn utan höfuðborgarinnar en aldrei LASK. Reyndar á valdatíma Vínarliðanna voru þetta þó 2-3 lið sem voru að skipta á milli sín titlunum, Austurríska deildin í dag er ennþá meira þrot enda eitt lið með ansi hressilegt samkeppnisforskot. RB Salzburg hefur núna unnið 14 af síðustu 17 titlum og þar af tíu í röð og eru á toppnum núna með fullt hús stiga eftir sex umferðir. Deildin er leiðinlegri en sú skoska.
LASK er rosalega mikið þriðja besta liðið í Austurríki í dag. Deildin er 12 liða og eftir 22 umferðir á síðasta tímabili var LASK í þriðja sæti 17 stigum á eftir Salzburg. Þá var deildinni skipt í tvær sex liða deildir og eftir 10 leiki þar var LASK líka í þriðja sæti, núna sex stigum á eftir Salzburg. Eftir sex umferðir af þessu tímabili er LASK jú auðvitað í þriðja sæti.
LASK er alveg fornfrægt lið í Austurríki og jafnan verið í efstu deild en félagið varð gjaldþrota árið 2012 og féll við það niður í þriðju deild og var einfaldlega á barmi þess að hætta starfsemi. Fjárfestahópur skipaður fjórtán stuðningsmönnum liðsins búsettum í Linz keyptu félagið í sameiningu og hefur félagið síðan þá verið í nokkuð mögnuðum uppbyggingarfasa, á Austurrískan mælikvarða auðvitað. Nýir eigendur voru þrjú tímabil að koma þeim aftur upp og gerðu það með því að ráða fyrrum leikmann liðsins sem stjóra fyrir tímabilið 2015-16, Oliver Glasner.
Glasner bað Ralf Ragnick um vinnu árið 2012 hjá Red Bull samsteypunni og var í tvö ár aðstoðarþjálfari Roger Schmidt þar til Schmidt fór til Þýskalands. Glasner fylgdi honum ekki þangað heldur tók við öðru liði í neðri deildum Austurríkis. LASK hafði samband við hann eftir eitt tímabil sem stjóri og tók hann liðið strax upp um deild. Glasner var bæði yfirmaður knattspyrnumála og stjóri liðsins.
Strax á fyrsta tímabili í efstu deild náði LASK fjórða sæti og komst þannig í Evrópu á ný eftir tæplega 20 ára pásu. Magnaður árangur í ljósi þess að félagið var í þriðju deild fimm árum áður. Árið eftir það hélt Glasner veislan áfram og liðið endaði í öðru sæti sem er eins og við vitum nokkurnvegin titillinn í Austurríki (ef við teljum Red Bull ekki með).
Af öllum mönnum var það svo Jörg Schmadtke sem eyðilagði partýið þegar hann náði í Glasner til Wolfsburg. LASK hefur síðan þá verið með fimm stjóra á fjórum árum (fastráðna og tímabundið ráðna. Núverandi stjóri liðsins tók við í sumar, það tekur því ekki að leggja á minnið hvað hann heitir. Glasner var aðeins eitt ár hjá Wolfsburg áður en hann tók við Frankfurt þar sem hann hefur verið að gera mjög góða hluti.
Undanfarin ár þökk sé uppgangi félagsins undir stjórn Glasner hefur LASK verið að spila í Evrópukeppnum og féllu m.a. úr leik í 16-liða úrslitum árið 2020 gegn Man Utd. Það ár vann liðið riðil með Sporting, PSV og Rosenborg og lagði svo AZ í 32-liða úrslitum. Tímabilið 2020-21 var LASK með Tottenham í riðli og náðu 3-3 jafntefli í heimaleiknum en töpuðu 3-0 í London. Á síðsta tímabili náðu þeir í 16-liða úrslit Conference League.
Til að komast svo í riðlakeppnina á þessu tímabili lögðu þeir Zrinjski Mostar í úrslitaleik um sæti í riðlakeppninni, bosníska liðið sem lagði Breiðabil 6-3 samanlagt í sumar.

Þeir stuðningsmenn Liverpool sem ferðast til Austurríkis fá að fara á hinn glænýja Raiffeisen Arena sem var opnaður í upphafi árs. Völlur sem tekur rúmlega 17.þús manns á Evrópuleikjum og tæplega 20.000 á deildarleikjum og hefur verið draumur eigendahópsins frá því þeir keyptu félagið. Það má því búast við hörku stemmingum á pöllunum í Austurríki. Enn einn völlurinn í Evrópu sem væri geggjaður þjóðarleikvangur hér á landi.
Liverpool
Kannski ekki alveg með fullri virðingu en LASK er einmitt lið sem maður horfir til sem eðal tækifæri til að nýta hópinn og gefa lykilmönnum pásu. Gangi þetta ekki í þessum útileik eru fimm leikir eftir til að leiðrétta það. Það þarf að leggja þetta verkefni upp með það í huga að það er mun stærri leikur á sunnudaginn.
Fyrir það fyrsta verður fróðlegt að sjá hvort Kelleher fái sénsinn í þessum leik og mögulega þessari keppni. Riðlakeppnin ætti að vera tilvalið tækifæri til að viðra hann og Liverpool þarf að finna töluvert af mínútum fyrir hann til að halda honum og eins til að hann staðni ekki sem leikmaður.
Vörnin gæti ég trúað að verði bara óbreytt frá Wolves leikjum nema Tsimikas komi inn fyrir Robertson. Mögulega þó kemur Van Dijk inn þar sem hann missti af síðustu tveimur leikjum. Gomez verður að vera áfram hægri bakvörður þar sem Liverpool er fáránlega þunnskipað í þeirri stöðu og Quansah á klárlega skilið annan leik ef hann er í standi.
Það er erfitt að skilja tilganginn með kaupunum á Endo úr því hann spilaði ekkert í Wolves leiknum, Mac Allister var bókstaflega með öndurnarbúnað eftir leik í Bólivíu á þriðjudaginn og kom ekki til Liverpool fyrr en daginn fyrir leik og byrjaði samt gegn Wolves. Eins var hægri bakvörðurinn meiddur og laust pláss í miðverði sem Klopp treysti Quansah frekar fyrir. Að því sögðu þá bara hlítur Klopp að spara Mac Allister núna og gefa Endo sexuna.
Szoboszlai er sömuleiðis strax orðin allt of mikilvægur til að fara ekki varlega með, þetta er tilvalin leikur fyrir Gravenberch myndi maður ætla og Elliott á klárlega skilið byrjunarliðssæti eftir mjög góðar innkomur undanfarið.
Frammi hugsa ég að Salah fari fram á að byrja en vonandi verður tækifæri í leiknum til að gefa Doak mínútur. Nunez og Jota tippa ég á að verði með honum frammi.

Aðrir sem Klopp hefði þá úr að velja væru þá Alisson, Robertson, Alexander-Arnold, Van Dijk, Konate, Mac Allister, Szoboszlai, Jones, Bajcetic, Thiago (mögulega), Gakpo, Diaz, Doak og Clark
Spá
Góður 0-3 sigur. Ágætt samt að hafa í huga að þetta er einn stærsti leikur í sögu LASK og liðið mætir væntanlega til leiks í samræmi við það, þetta er klárlega stærsti leikurinn sem LASK hefur spilað á þessum nýja velli sínum.
[...]