Hérna er ætlunin að safna saman því sem við mælum með í Liverpool-borg og einnig upplýsingum um það hvernig maður á að nálgast miða, hvar er best að sitja á vellinum og svo framvegis.

Ef þú ert með góðar ábendingar eða vilt bæta við þennan texta endilega settu inn komment og við bætum því við textann, sem okkur finnst eiga heima þar.

Hótel

Mercure Liverpool Atlantic Tower Hotel er okkar hótel í Liverpool um þessar mundir, hér förum við í Kop.is ferðunum. Fínt hótel sem er nýbúið að taka í gegn og staðsetningin er fín. **** hótel. (EMK)

Casartelli Posh Pads er íbúðahótel í Liverpool City One, eða eins mikið í miðbæ Liverpool og hugsast getur. Þetta eru íburðarmikil og frábær herbergi með frábærri aðstöðu og staðsetningu. Oft erfitt að fá herbergi þarna en mælum mikið með þessu. (EMK)

Titanic Hotel er eitt flottasta hótel sem flestir okkar hafa farið á og einmitt það hótel sem gestaliðin eru helst farin að nota. Herbergin eru líklega 50-60fm og lofthæðin mjög mikil. Staðsetningin er fín, þetta er við höfnina, taxinn er svona £5 í miðbæinn. (EMK)

Liverpool Inn er í eigu stórvinar okkar og mjög vel staðsett. The Vines barinn sem við höfum mikið notað í okkar ferðum er þar beint á móti. Mögulega er hægt að spyrja eigendur þarna um miða á leiki plús gistingu ef menn eru í vandræðum. (EMK)

Base 2 Stay er fínt hótel á mjög góðum stað í hjarta Liverpool-borgar – veitingastaðir og næturklúbbar eru í göngufjarlægð. Herbergin eru lítil en fín og verðið á þeim er gott. Allt frekar nýlegt, en ekki er boðið uppá morgunmat á hótelinu – þó það sé boðið uppá kaffi á herbergjum og öðru hvoru birtist Nespresso vél í lobbíinu. (Einar Örn)

Crowne Plaza er lítið og frábært hótel niðri við höfnina, við enda miðbæjarins á besta stað. Allt í göngufjarlægð og góður veitingastaður á hótelinu sjálfu líka. Húsið er nýlegt og allur innbúnaður eins og best verður á kosið. Boðið er upp á morgunmat og herbergisþjónustu sem og netsamband. Viðráðanlegt verð. (Kristján Atli)

Jury’s Inn er besta „value“ hótel sem þú færð í Liverpool.  Er við Albert Dock og mjög nýlegt, en bjóða góð verð.  Frábær staðsetning, ágætur veitingastaður og góður hótelbar.  Fínn morgunverður, þrálaust net og allt sem menn þurfa.  Echo Arena tónleikahöllin fyrir utan hótelið, sem og Parísarhjólið.  Þetta er það hótel sem langmest er notað af Íslendingum sem fara til borgarinnar. (SSteinn)

Mariott í miðbæ Liverpool er frábærlega staðsett hótel og eitt af þeim hótelum sem gestaliðin hafa  stundum notað. Gæða hótel en líklega jafnan frekar dýrt eins og þessi keðja er jafnan. (EMK)

Malmaison er virkilega flott hótel rétt við Albert Dock sem er reyndar frekar dýrt.  Frábær veitingastaður á hótelinu og fín staðsetning, hár klassi og verðið eftir því.  (SSteinn)

Down the Hatch á Duke Street er frábær Vegan veitingastaður. Hvort sem eru borgarar, bulsur eða veganskálar fylltar góðgæti, klárlega máltíðir líka fyrir þann sem er ekki Vegan en er til í að prófa slíkan mat. (Maggi)

Premier Inn eru low cost hótel, en snyrtileg og fínt að vera þar.  2 slík eru í borginni og get ég mælt með þeim báðum.  Annað er í Albert Dock en hitt við Vernon Street í miðborginni.  Ekkert extra, bara fín gisting á mjög góðu verði.  Morgunmatur, aðrar veitingar á báðum hótelum. (SSteinn)

Radisson Blu er mjög flott hótel, en í dýrari kantinum.  Allt sem alvöru hótel hafa upp á að bjóða, en matsöustaður og bar með há verð í samanburði við önnur hótel.  Staðsetningin ágæt, stutt að rölta í miðbæinn (10 mín á labbi). (SSteinn)

Days Inn er hótel í minni kantinum, nánast ekkert lobby, en þetta er ný uppgert hótel á góðum stað og á góðum verðum.  (SSteinn)

Adelphi er glæsilegt hótel að utan, en ekki svo gott að innan.  Mæli ekki með því, má muna sinn fífil fegurri.  En frábær hótelbar og þess virði að kíkja á hann þó maður gisti ekki þar.  (SSteinn)

Holiday Inn Express er hótel í Albert Dock, hef einu sinni gist þar, var ekkert sérlega hrifinn.  Góð staðsetning engu að síður.  (SSteinn)

Holiday Inn er flott hótel, í dýrari kantinum, en vel staðsett og með allt sem þú kýst að hafa í ferðum þínum (SSteinn)

Aachen hótelið er lítið hótel sem tvær systur reka.  Þetta er fyrsta hótelið sem ég dvaldi á í Liverpool og ef þú vilt heimilislega stemmningu, þá er þetta staðurinn.  Lítill bar, morgunmatur og góð staðsetning.  Fín verð.  (SSteinn)

Hard Days Night er eins og nafnið ber með sér, Bítlaþema hótel sem mikið hefur verið lagt í.  Fræga fólkið gistir oft þarna og bara til að taka það fram, þetta er ekki gefins, kostar sitt en eins og áður segir, flott.  (SSteinn)

Lord Nelson er ódýrt, og langt síðan ég gisti þarna.  En það er líka ástæða fyrir því að ég hef aldrei gist þarna aftur.  (SSteinn)

The Renshaw er lítið hótel í miðbænum.  Hreint og fínt og fínn veitingastaður og bar fast við hótelið.  Herbergin fín, en nánast ekkert lobby.  (SSteinn)

The Hilton er án vafa það flottasta í borginni, það best staðsetta og í rauninni bara besta allt.  Það kostar líka sitt, en frábært að dvelja á því.  (SSteinn)

Anfield

Á Anfield eru fjórar stúkur. Sjá teikningu hér. Kenny Dalglish Stand – Anfield Road End – Kop og Main Stand. Kop og Anfield Road eru fyrir aftan mörkin. Stuðningsmenn aðkomuliðsins sitja í Anfield Road Stand við Main Stand. Ef þú situr nálægt þeim munt þú ábyggilega heyra meira í þeim en Liverpool stuðningsmönnum. Anfield er mjög lítill völlur og það eru mörg sæti á vellinum, sem eru ekki nægilega góð.  Ef þú ert að kaupa miða á svörtum markaði, skoðaðu þá hvar á vellinum þú átt að sitja og ekki sætta þig við hvaða sæti sem er.

Miðar á leiki

Kop.is er reglulega með hópferðir á Anfield Road í samstafi við VITA-Sport og er hver ferð vel kynnt á síðunni. Bendum fólki á að taka við VITA-Sport varðandi ferðir til Liverpool.

Veitingastaðir

Bierkeller er bjórstaður sem býður upp á ekta bavaríska bjórstemningu í anda Októberfest. Setið er á trjábekknum við trjáborð og bjórinn flæðir en einnig er boðið upp á grillaðar kjötmáltíðir á kvöldin. Eftir kvöldmat umbreytist staðurinn svo í einn besta skemmtistað borgarinnar þar sem allir standa uppá bekkjum og borðum og dansa. Og ég meina ALLIR. Við mælum eindregið með að menn tékki á þessum stað á föstudags- eða laugardagskvöldi. Sýna líka frá fótboltanum á daginn.  (Kristján Atli)

Tai Pan er mjög góður kínverskur veitingastaður við Great Howard Street sem er rétt fyrir utan miðbæinn en vel þess virði fyrir flottan kínverskan mat. Stór staður sem ræður við hópa og gott verð miðað við gæði. (Kristján Atli)

Fazenda er brasilískt steikhús í Horton House við enda Castle street. Hlaðborð meðlætis og smárétta og svo koma þjónar reglulega með kjöt á grillteinum sem gestir gæða sér á þar til þeir eru saddir. Eitt verð óháð magni. (Maggi)

Pizza Express er á nokkrum stöðum í borginni en þar er gott að fá sér fljótlega og góða pítsu á góðu verði. Góður pítsustaður sem finnst m.a. niðri við Albert Docks (hjá Jury’s Inn hótelinu) og í Liverpool One verslunarmiðstöðinni. (Kristján Atli)

Viva Brazil er ágætis staður sem býður uppá brasilískt grill. Maður fær eins mikið af kjöti og maður getur mögulega borðað fyrir 24 pund (og minna á sunnudögum) (Einar Örn).

The Restaurant Bar & Grill er eins og nafnið ber með sér bar og grillstaður. Mikið úrval ólíkra kjötrétta, hvort sem er rautt eða fugla, sérstaklega rómuð önd. Gott úrval Veganrétta. (Maggi)

Sapporo er mjög góður japanskur staður þar sem kokkarnir koma að borðinu og matreiða fyrir framan þig. Frábær matur og matreiðslan eykur á skemmtun. Mjög góður staður fyrir stærri hópa. (Kristján Atli)

Gino D’Acampo er mjög góður ítalskur veitingastaður á Castle Street. Einn með öllu, pizzur, pasta, steikur, fiskur og smáréttir. Líf og fjör flest kvöld og frábær þjónusta. (Maggi)

Gusto er ítalskur veitingastaður og bar í Albert Dock.  Virkilega fínn staður og alls ekki ólíklegt að hitta á Liverpool leikmenn þar úti að borða á kvöldin eftir leiki.  (SSteinn)

Alma de Cuba er frábær S-Amerískur veitingastaður sem hefur verið innréttaður í gamalli kirkju.  Fínn matur og svo er þetta skemmtistaður líka.  Flott að sitja uppi og horfa niður þar sem dansgólfið er og lífið sem er oft á því.  (SSteinn)

Il Forno er ítalskur staður sem hægt er að mæla með.  Góður matur, frábær þjónusta og alveg ágætis verð. (SSteinn)

Chaophraya er algjörlega frábær Thai staður sem er í Liverpool One “Mollinu” (efstu hæð).  Frábær matur og virkilega góð þjónusta. (SSteinn)

The Living Room er fínn staður þar sem mikið líf er á kvöldin.  Góður matur, fín þjónusta og er við Victoria Street. (SSteinn)

60 Hope Street er reyndar bæði hótel og veitingastaður, hef ekki gist þar, en veitingastaðurinn er mjög fínn.  Afar góður matur og þægilegt umhverfi.  Svolítið öðruvísi staður.  (SSteinn)

China Town er gata þar sem er fullt af veitingastöðum.  Bara typical kínverskir staðir en það góða við þetta hverfi að þetta er nánast alltaf opið (á nóttinni líka, bæði virka daga og um helgar).  Þreyttir nátthrafnar geta skroppið þangað þegar búið er að djamma og geta fengið sér góða máltíð.  Hrikalega vel útilátið, fínn matur og síðast en ekki síst, ódýrt.  (SSteinn)

Annað að gera í Liverpool

Bítlasafnið er auðvitað eitthvað sem allir þurfa að sjá í Liverpool borg og eins auðvitað kíkja á sjálfan Cavern Club í Matthew Street.

Magical mystery tour er tveggja klukkustunda ferð um Bítlaslóðir borgarinnar með rútu sem stoppar á heimaslóðum fjórmenningana en líka á stöðum í borginni sem tengist lagasmíðum þeirra. Lagt af stað frá Alberts dock og endar á Cavern Club.

Fab four taxi tours er Bítlið tekið enn lengra. Hér er hægt að velja lengd ferðar og aðlaga hópinn að ferðalaginu í samráði við bílstjórann. Allar heitustu sögurnar af Bítlunum, farið víða um borgina og leiksvið hljómsveitarinnar, meira að segja hægt að vitja grafar Bob Paisley í leiðinni ef fólk vill.

Skoðunartúr um borgina, auðvitað boðið upp á slíkt í Liverpool sem og annarsstaðar en við höfum reyndar ekki farið í þennan túr sjálfir svo ég viti/muni. (EMK)

Mersey ferjutúrar eru eins og nafnið gefur til kynna siglingar á Merseyánni sem bjóða upp á frábært sjónarhorn á borginni, mislangar ferðir og með ólík þemu.

Empire theatre er í Lime Street rétt hjá lestarstöðinni. Leikhús sem sýnir söngleiki, leikrit og stórar stand-up sýningar reglulega. Frábær staðsetning þýðir að maður hleypur bara yfir götuna í miðbæinn þegar að sýningu lýkur.

Peaky Blinders túrinn er 4 klukkustundir og kíkt víða. Á heimili Adu og Polly, litið inn á The Garrison og aðra upptökustaði þessara frábæru þátta sem eru alfarið teknir upp í borginni.

Skoðunarferð um Anfield – Best að panta tíma áður en farið er út til að vera viss um að það sé opið. Lokað á leikdögum.

Liverpool Cathedral er ekki bara stærsta kirkja Englands heldur fimmta stærsta kaþólska kirkja í heimi. Hún tók 77 ár í byggingu og er eins og flestar slíkar byggingar með ótrúlega magnaðan arkitektúr inni sem úti. Hægt er að fara í turninn sem er 101 metrar á hæð og býður upp á stórbrotið útsýni.

Echo Arena – Alltaf einhverjir viðburðir í gangi í Echo Arena sem vert er að skoða þegar verið er að bóka ferð. Þarna eru oft stórir tónleikar eða bestu stand up grínistar breta (og þ.a.l. í heiminum). Staðsett við hliðina á Jury´s Inn hótelinu.

Stuðgötur

Þegar leitað er að næturlífi eru það tvær götur (torg) sem öruggast er að leita í.

Mathew Street í Cavernhverfinu rétt við Liverpool One er full af börum og þar er helsti vettvangur lifandi tónlistar, hvort sem um er að ræða trúbadora eða hljómsveitir. Svo má mæla sérstaklega með diskótekinu Rubber Soul en það hefur náð sérstakri hylli í kop.is ferðum, þar verður á köflum allt vitlaust í stemmingu. Cavern Club stendur auðvitað við þessa götu.

Concert Square er staðurinn ef þú ætlar að henda þér í klúbb sem vakir fram á morgun. Á torginu er risa útisvæði tengt klúbbunum sem standa í kringum torgið. Beatið berst þangað úr klúbbum með risadansgólf jafnvel á mörgum hæðum með ótal möguleika á öflugum hristingi.

Casino eru nokkur í borginni, hér er að finna fimm þau vinsælustu.

Hér að neðan geta lesendur komið ábendingar um hvað er hægt að gera í Liverpool sem ekki eru hér á þessum lista.

22 Comments

 1. Annað að gera í Liverpool: Heimsækja Cavern Club og taka Magical Mystery Tour rútuna um bítlaslóðir í Liverpool-borg ! PRICELESS

 2. Ég má til með að benda á Meet, Argentinean Restaurant við Brunswick Street. C.a 5-10 mín ganga frá Jury’s Inn við Albert Dock.

  Við félagarnir fórum þangað þegar við vorum í Liverpool og fengum mest djúsí (og stærstu) nautasteik sem ég hef smakkað.

  http://www.meetrestaurant.co.uk/

  • Klikkar ekki hef borðað þrisvar þarna, steikin og þjónustan fær toppeinkun.

 3. Hef farið 3. sinnum á Il Forno og hef ég alltaf endað með lasagna fyrir framan mig enda alveg hrikalega gott hjá þeim, ætla reyndar alltaf að prufa eitthvað annað en man þá hvað lasagna var gott síðast þegar ég kom þar.
  Þetta er flottur staður og góð þjónusta þar og verðið bara ágætt þar, mæli með þessum stað.

 4. Allir þekkja auðvitað Park barinn en kannski vita færri að þar er fínasta stemming eftir leiki. Í stað þess að drífa sig í alla traffíkina er fínt að tylla sér og fá sér 2-3 öl og ræða um leikinn. Í þau skipti sem ég hef gert það þá hefur verið frekar rólegt, líka eftir frábæra leiki og ekkert mál að fá sæti.

 5. Tek undir með Indverskastaðinn Mayur! ÉG villtist inn á hann síðast þegar ég var í Liverpool og var ekki svikinn. Gaman að fara í hóp og panta marga rétti til að smakka sem mest, því að það er svo mikið af góðum réttum í boði. Þjónarnir voru frábærir og vildu allt fyrir mann gera til þess að upplifunin okkar væri sem best.

 6. Sælir. Er einmitt nýkominn úr ferð til okkar Mekka. Alltaf er nú jafn gaman að fara þarna sama hvernig leikurinn fer (var á Wiggan leiknum…).

  Mér var bent á einn stað sem er í One verslunarmiðstöðinn í miðbænum en það er tælenski veitingastaðurinn Yee Rah http://www.yeerah.co.uk Suddalega góður og fínt að fara þangað eftir að hafa nánast tæmt veskið sitt í Official Liverpool store sem er á hæðinni fyrir neðan. Hægt að fá rótsterkan andskota þarna þannig að svitinn sprettur út úr furðulegustu stöðum í andliti eða bara milt og gott sem rennur ljúflega í maga.

  Síðan er einn japanskur staður sem er hluti af keðju í UK en sá heitir Sapporo Teppanyaki http://www.sapporo.co.uk/ Það er alveg drullufyndið að borða á þeim stað en þar eldar einhver Samurai-inn fyrir framan mann og hendir m.a. matnum upp í mann, hendir svo hnífum og drasli upp í loft og svaka stuð. Fínt fyrir hópa að fara á svoleiðis stað.

 7. Spectrum Apartments er svona íbúða hotel nálægt Liverpool One og er alveg ljómandi fínt fyrir peninginn.

  Svona dýrari íbúðar hotel er Premier Apartments sem er einnig í miðbænum alveg hrikalega fínar íbúðir.

  Það er eitthvað þægilegt við það að vakna og rölta bara inn í stofu kveikja á imbanum og fá sér einn öl áður en haldið er út 😉

 8. Mayflower Restaurant á Duke Street. Mæli með honum kínverskur matur sem er á fínu verði

 9. #10 Var akkurat á premier apartments seinast þegar að ég fór út , mjög fínar íbúðir og hiklaust hægt að mæla með þessu fyrir hópa eða fjölskyldur sem fara saman út

 10. Við fjölskyldan fórum á Wigan leikinn um helgina (vorum á Tenerife og tókum einn Liverpool leik á leiðinni heim) ;-), við keyptum miðana núna í byrjun mars beint frá miðasölunni á Anfield ( 7 manns), við gistum 2 nætur á Holiday Inn express í Albert Dock og vorum mjög ánægð, frábær staðsetning 🙂 Þetta var svo frábært (þrátt fyrir lélegan leik hjá okkar mönnum) að það er strax farið að skipuleggja næstu ferð 🙂

 11. Við fórum nokkrir félagar á Bem Brazil á Hanover Street síðasta vor. Það var virkilega gaman og gott að borða þarna en um er að ræða brasilískt steikhús þar sem þjónarnir bera í þig steikurnar af hvers kyns skepnum þar til þú hefur fengið nóg – meðlætið er svo á hlaðborði. Ekki skemmdi fyrir að við hittum þrjá leikmenn Liverpool á staðnum og fengum mynd af okkur með einum þeirra (Lucas Leiva). Við spurðum starfsfólkið út í þetta og okkur var sagt að leikmenn komi reglulega að borða þarna, sér í lagi þeir suður amerísku. Skemmtileg upplifun fyrir sanngjarnt verð.

  http://www.bembrasilrestaurants.com/conteudo.php?caminho=bar_restaurants/10/liverpool.html

 12. Svo er alveg hægt að mæla með Red Hot Buffet veitingastaðnum sem staðsettur er í Liverpool One mallinu. Hægt að velja máltíðir frá öllum heimshornum, hlaðborð, borgar eitt verð (innan við 15 pund, fer eftir hvenær þú mætir) og svo er bara borða eins og þú getur. Þarft að borga fyrir hvern drykk.

  Svo mæli ég eindregið með Sapporo sem áður hefur verið nefndur. Það að borða er eitt en svo er skemmtunin sem kokkarnir eitthvað allt annað og getur verið algjörlega ógleymanleg

 13. Fór á Chaopraya í fyrra og hann var það hrikalega góður að ég fór aftur kvöldið eftir. Besti Thai matur sem ég hef smakkað

 14. Frábært framtak. Gott að deila info um allar upplifanir í Liverpool. Tek undir commentið frá Steina um Adlephi. Þaðan eigum við margar góðar minningar. Say no more.

  1
 15. Mæli með að taka ferjuna, Mersey Ferries ef maður vill fá besta útsýni yfir helstu kennileiti borgarinnar.

2 Pings & Trackbacks

 1. Pingback:

 2. Pingback: