Roman Abramovich tíminn á enda

Áhrif hans á fótbolta munu vara áfram

Það er svartur blettur á enskum fótbolta að Roman Abramovich hafi í 19 ár fengið að eiga Chelsea án þess að vera spurður einnar einustu gagnrýninnar spurningar um það hvernig hann eignaðist svo mikin auð að honum var nokkuð sama hvort að þessi fjárfesting hans skilaði gríðarlegu tapi, eða afhverju í veröldinni hann vildi leggja svona mikin pening í Chelsea. Það sem hann hefur fengið út úr kaupunum á Chelsea er ekki endilega mælt í fjárhæðum og nei, hann keypti Chelsea ekki útaf því að hann er svo óforbetranlegur fótboltaáhugamaður eins og vinur hans Ólafur Ragnar Grímsson orðaði það að í hlaðvarpsþáttum sínum Hetjusögur Af Sjálfum Mér.

Bakgrunnur Abramovich


Þegar Abramovich var 25 ára árið 1992 var gefin út handtökuskipun á hann af saksóknaranum í Moskvu fyrir að stela olíuflutningalest á leiðinni til Síberíu. Gerði það með því að falsa skjöl og breyta ferðaáætlun lestarinnar til Riga í Lettlandi þar sem hann seldi olíuna. Þetta kannski gefur til kynna í hverskonar starfsemi og slagtogi hann var í heimalandinu. Málið á hendur honum var seinna fellt niður, án sjáanlegra skýringa. Hann var engin stórlax á þeim tíma en vann sig upp (m.a. svona) og hafði snemma háleit markmið. Rússland var svolítið eins og villta vestrið eftir fall Sovétríkjanna og Roman vildi komast í olíuauðlindir landsins fyrir alvöru.

Hann er sagður vera arkitektin af viðskiptafléttu sem hann setti upp ásamt viðskiptafélaga sínum Boris Berezovsky sem byggði að mestu á því að nýta tengsl Berezovsky í Kreml og múta stjórnmálamönnum gegn því að fá að kaupa ríkisrekið olíufyrirtæki á fölsku uppboði þar sem fyrirfram var búið að ákveða hver fengi að kaupa og á hvaða verði.

Roman hafði engin tengsl inn í Kreml öfugt við það sem hann hefur í dag en Berezovsky var einn fyrsti ólígarki Rússlands og m.a. eigandi Stöð 1 í Rússlandi. Gamla ríkissjónvarpsstöðin var ansi öflugt tól sem hægt var að nota til að hjálpa mönnum í framboði og hafa þannig áhrif á stjórnmálamenn. Þessi sama sjónvarpsstöð er ennþá eitt helsta tól stjórnvalda í Kreml til að heilaþvo rússnesku þjóðina líkt og við sjáum bersýnilega afleiðingarnar af um þessar mundir.

Fyrsta skrefið til að koma áætlun Abramovich til framkvæmdar var að ráðleggingum Berezovsky að múta háttsettum embættismanni í Kreml $10m og það var Amramovich sem fjármagnaði þá greiðslu. Planið gekk upp og Abramovich keypti félagið (Sibneft) á skít og kanil fyrir lánsfé sem var fjármagnað af ríkinu sjálfu. Kaupverðið var um $250m, raunvirði a.m.k. $2,7b.

Eftir nútímavæðingu og uppbyggingu á félaginu í áratug vildi Kreml, nú með Pútín við völd fá olíuauðlindirnar og völdin sem þeim fylgja aftur til ríkisins. Pútín var þarna í “kosningabaráttu” fyrir sínu öðru kjörtímabili og lagði ofuráherslu á að fá orkufyrirtæki aftur til ríkisins og skapa félag sem er vel þekki í dag, Gazprom. Roman seldi rússneska ríkinu því Sibneft aftur á $13B árið 2005.

Þar eru auður Romans, þarna varð hann svona rosalega ríkur. Hann var í innsta hring og lykilmaður í Kreml á tíma Jeltsín og hefur verið það allar götur síðan, miklu meira í tíð Pútín.  Gazprom sem m.a. var aðal styrktaraðili Meistaradeildarinnar þar til fyrir rúmlega mánuði varð einmitt stærsta olíufyrirtæki landsins í kjölfarið á kaupunum á Sibneft

Megnið af þessum upplýsingum leit dagsins ljós í réttarhöldum í London árið 2011 þar sem Berezovsky kærði Abramovich og fór fram á $6B greiðslu sem hann sagði Roman skulda sér sem hans hluta í Sibneft. Abramovich vitnaði þar í raun til um að auður hans er tilkomin á grunni fáránlegrar spillingar í heimalandinu þar sem hann fékk að díla með þjóðarauðlindir í áratug á kostnað almennings í Rússlandi. Hann vann málið í raun á þeim grunni því pappírar sem áttu að sína fram á eignarhlut Berezovsky voru líka gjörspilltir. Málið komast varla í fréttir í Rússlandi, að hluta til vegna þess að Abramovich sá óbent um að segja fréttirnar og bretar voru fljótir að horfa í hina áttina enda að baða sig í þessum peningum frá Rússlandi.

Eins og gefur að skilja voru Boris Berezovsky og Roman Abramovich mikilvægir bandamenn Boris Jeltsín fyrsta forseta Rússlands, hann heimilaði jú söluna á Sibneft á sínum tíma og því kemur kannski ekki á óvart að Jeltsín beitti sér fyrir því að láta rannsóknargögn um kaupin á Sibneft hverfa rétt eins og þjófnaðinn á olíulestinni nokkrum árum áður. Saksóknarinn sem var að vinna málið gegn Abramovich var látin hætta í kjölfar mjög hentulega tímasetts skandals. Roman ásamt auðvitað þáverandi viðskiptafélaga sínum Berezovsky var undir verndarvæng forsetans, rétt eins og hann hefur verið undir stjórn núverandi forseta Rússlands.

Ef eitthvað er þá styrktist samband Abramovich við Kreml eftir að Pútín tók við völdum og er raunar talið að það hafi verið Abramovich sem lagði til við Jeltsín að beita sér fyrir því að gera Pútín að eftirmanni sínum. Pútín gerði enda Abramovich m.a.s. að ríkisstjóra í einu af fylkjum Rússlands í átta ár. Það þarf engan vísindamann til að átta sig á afhverju hann nýtur slíkrar verndar eða afhverju hann hefur jafnvel verið talin vera veski Pútíns. Valadímír Pútín er talin vera moldríkur og það er í gegnum ólígarka eins og Roman Abramovich.

Sömu sögu er ekki alveg að segja af Boris Berezovsky og sambandi hans við Kreml. Berezovsky keypti eins og áður segir Stöð 1 í Rússlandi í upphafi tíunda áratugarins og var einn helsti bakhjarl stjórnmálaflokksins sem Pútín tilheyrði þegar hann byrjaði í pólitík. Hann varð hinsvegar fljótt einn helsti gagnrýnandi Pútín og var í kjölfarið dæmdur sekur þar í landi fyrir spillingarmál og annað (þó auðvitað ekki í tengslum við Sibneft). Hann var þá fluttur til Bretlands sem neitaði að framselja hann til Rússlands, þetta varð að töluverðri milliríkjadeilu á sínum tíma. Berezovsky var eins og gefur að skilja óþægilegur fyrir ólígarka eins og sinn gamla félaga Abramovich sem og auðvitað Pútín. Það vandamál hætti er hann fannst hengdur í íbúð sinni í London árið 2013. Ákaflega hentugt að vanda og auðvitað ekkert saknæmt í gangi. Alexander Litvinenko annar harður gagnrýnandi Pútín og raunar ólígarka eins og Berezovsky og Abramovich hlaut einmitt svipuð örlög sjö árum áður, einnig í London.

Roman Abramovich keypti annað orkufyrirtæki af ríkinu árið 2002 á “uppboði” þar sem búið var að ákveða kaupanda fyrirfram. Kínverskir aðilar ætluðu að fjárfesta í félaginu fyrir helmingi hærri fjárhæð en Abramovich, en fulltrúa kínverska félagsins var rænt þegar hann kom til Rússlands og var ekki sleppt fyrr en uppboðið var afstaðið. Ef að kínverjarnir hefðu keypt félagið hefðu fullt af embættismönnum í Kreml ekki fengið þær greiðslur sem þeim hafði verið lofað. Abramovich og félagar urðu á endanum einu kaupendur félagsins sem heitir Slavneft.

Megnið af þessum upplýsingum hafa verið aðgenilegar í rúmlega áratug og jafnvel lengur. Abramovich keypti Chelsea með illa fengnu ríkisfé frá Rússlandi en í stað þess að vera meinaður aðgangur að þó ekki væri nema enska boltanum var honum jafnvel hampað í kjölfarið á kaupunum. Chelsea er þannig séð bara peð í hans viðskiptamódeli, hann á líklega snekkjur að andvirði svipaðrar fjárhæðar og Chelsea skuldar honum eftir þessi 19 ár fjáraustri.

Það hefur verið mikið til umræðu núna í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu að um 2.500 rússar hafi fengið svokölluð Golden VISA (ríkisborgararétt) undanfarin ár gegn því að fjárfesta í Bretlandi. Það fer eftir fjárhæðum hversu hratt framfyrir röðina þeir fá að fara. Rússarnir hafa sjaldnast þurft að gefa upp hvaðan peningarnir þeirra komu í raun og veru og hafa í áratugi þvegið peninga í gegnum hagkerfið í London. Þessir fjársterku rússar hafa keypt dýrustu fasteignir landsins, fullt af fjölmiðlum, reynt að hafa gríðarleg áhrif á kosningar í fjölmörgum evrópulöndum með ýmiskonar áróðri og auðvitað myndað fjölmörg óeðlilega sterk tengsl við stjórnmálamenn. Brexit og Donald Trump er meðal þess sem rússar hafa lagt mikla áherslu á undanfarin ár og lagt í mikið fjármagn. Marie Le Pen forsetaframbjóðandi í Frakklandi er annað dæmi um evrópskan stjórnmálamann sem nýtur mikilla styrkja, beinna og óbeinna frá rússum.

Hér er nota bene aðeins verið að snerta á tengslum Roman Abramovich við stjórnvöld í sínu heimalandi. Hann hefur rétt eins og aðrir ólígarkar verið með sterk tengsl við stjórnmál í öðrum löndum líka, megnið af því hefur líklega ekki ratað í fréttir. Hann hefur átt heilmikil viðskipti við Trump hyskið í gegnum tíðina, hann keypti sér ríkisborgararétt í Portúgal og á Englandi, hann býr auðvitað í Ísrael og mokar peningum í mismunandi málefni þar. Forseti Íslands fyrrverandi m.a.s. er annað og öllu minna dæmi.

Tengsl Abramovich við Pútín og stríðið í Úkraínu

Það er vægast sagt mikið björgunarstarf í gangi hjá Roman Abramovich til að bjarga ímynd sinni. Það er eins og við sáum í aðdraganda Úkraínu og núna á meðan stríðinu stendur ekkert að marka það sem kemur frá rússum, hvorki Pútín né ólígarka vinum hans og jafnvel ekki heldur ólígarka óvinum hans. Eitt er þó alveg ljóst, það fær engin að vera þetta ríkur og voldugur í Rússlandi í tvo áratugi án þess að vera í mjög góðu sambandi við Kreml.

Abramovich hefur alla tíð neitað fyrir nánast því allt sem um hann hefur verið skrifað, þ.á.m. tengsl hans við bæði Jeltsín og Pútín, nema auðvitað þegar það hentaði honum í réttarsal. Hver sá sem hefur rannsakað feril hans trúir þeirri staðhæfingu hans auðvitað ekki eina sekúndu.

Snemma á sínum stjórnmálaferli boðaði Pútín alla helstu ólígarka landsins til Kreml og kom þeim í skilning um að gegn því að gefa upp alla pólitíska drauma sem þeir kynnu að hafa fengju þeir að halda áfram að hagnast á orkufyrirtækjum sínum og mis vafasamri starfsemi. Aðal krafan var bara að draga ekki völd Pútín í efa. Þannig hafa þeir í 20 ár lítið sem ekkert skipt sér af pólítík en náð á sama tíma að komast í hóp ríkustu manna í heimi, flestir búsettir megnið af árinu utan Rússlands auðvitað.

Putín dugði auðvitað ekki aðeins loforð um að láta pólitík eiga sig, hinn parturinn af dílnum var að umbuna honum og það all hressilega. Líklega er ekki vitað um nema brotabrot af vafasömum viðskiptasamningum rússneskra oólígarka og hvað þá hver raunveruleg auðæfi Pútín eru. En uppljóstarar hafa t.a.m. sagt frá þessu sem rússneski rannsóknarblaðamaðurinnn Maria Pevchikh
greindi frá í twitter þræði um Abramovich:

Hún kom líka inná að þar til núna nýverið átti Roman Abramovich samhliða ríkinu Stöð 1 í Rússlandi sem Boris heitinn vinur hans átti forðum. Það er ein mesta uppspretta áróðurs í heiminum líkt og viðbrögð rússa við innrásinni í Úkraínu sína, þeir trúa bara í alvöru að nazistarnir í Úkraínu hafi kosið yfir sig gyðing sem forseta. Abramovich, þessi voðalega hægláti og saklausi rússi hefur tekið þátt í að skapa þetta. Hann er búinn að eiga þessa stöð í 20 ár.

Roman er með PR lið að reyna mála sig sem tengilið fyrir hönd Úkraínumanna í friðarviðræðum milli landanna. Hann var á dögunum partur af sendinefnd Rússa sem er samþykkt af Pútín og hefur enn sem komið er ekki sagt stygðaryrði um þennan stríðsrekstur rússa og hefur raunar aldrei nokkurntíma gagnrýnt Pútín. Hann væri ekkert í Rússlandi og hvað þá utan Rússlands ef hann væri ekki partur af klíkunni.

Áhrif hans á fótbolta

Líklega hefur enginn haft meiri áhrif á enska boltann það sem af er þessari öld heldur en Roman Abramovich. Þegar stuðningsmenn Liverpool syngja “Fuck off Chelsea FC, you ain´t got no histroy” er verið að vísa í þetta Chelsea lið nútímans. Árangur félagsins á tíma Roman Abramovitch krefst lítillar sem engrar virðingar og við erum að sjá það ennþá betur núna þegar rússneska spilaborgin er að falla.

Chelsea gerði ekki neitt sérstakt, þetta var nokkuð gott lið sem náði einmitt 4. sæti á kostnað Liverpool tímabilið 2002/03 mánuði áður en Abramovich keypti það með stolnu ríkisfé frá Rússlandi. Kaup hans á Chelsea og sú frægð sem enski boltinn gaf honum hefur opnað margar dyr á Bretlandseyjum og hefur Chelsea verið gríðarlega gott sportwashing tól fyrir hann og bara rússneska auðmenn almennt. Enn í dag ver stór hluti stuðningsmanna Chelsea hann með kjafti og klóm sem er einmitt einn angi af því sem kallað er sportwashing.

Munurinn á góðu liði Chelsea 2002/03 og 2004/05 var eins og hakka Football Manager og svindla aðeins. Frá sumrinu 2003 til 2005 keyptu Abramovich leikmenn fyrir samtals €336m en seldi á móti leikmenn fyrir alveg €4m. Nettó eyðsla upp á €332m væri gjörsamlega galið hátt í dag og sprengir FFP skala flestra liða áður en við förum að ræða launakostnað en þetta var bara stjarnfræðilegt á markaðnum á þessum árum.

Chelsea með hjálp rússneska ríkisins skipti einfaldlega um lið. Flestir máttarstólpar liðsins sem komu félaginu í Meistaradeildina 2003 hættu eða fóru á frjálsri sölu en í staðin komu menn eins og Crespo, Duff, Verón, Makalélé, Mutu, Parker, Joe Cole, Glen Johnson, Bridge og hinn rússneski Smertin. Þetta var bara glugginn 2003!

Árið eftir komu Drogba, Robben, Cech, evrópumeistararnir Carvalho og Ferreira ásamt auðvitað þjálfaranum sem var heitasti og dýrasti bitinn á markaði þá, Jose Motormouth.

Abramovich var að spila á allt öðru leveli fjárhagslega en eigendur annarra enskra liða. Það er ekki nokkur maður að halda því fram að eigendahópurinn hafi verið frábær á þessum tíma og eins eru allar líkur á að erlendir fjárfestar hefðu alltaf komið inn í enska boltann óháð Abramovich. En það var sett bæði fáránlegt og hættulegt fordæmi. Englendingar súpa ennþá seiðið af að gera ekki strax frá upphafi ríkari kröfur á Abramovich að sýna fram á hvaðan hann fékk sín auðæfi og kanna betur tengsl hans við stjórnvöld í Moskvu. Það er galið að leyfa ríkisfyrirtækjum, sama hversu óbeint endurskoðendur þeirra láta þau líta út fyrir að vera að vera með í enska boltanum.

Man City er auðvitað bara ein af afleiðingum kaupa Abramovich á Chelsea og ennþá verra dæmi ef eitthvað er. Þeir eru bókhaldslega stærsta og arðbætasta félagslið í heimi í dag, en geta á sama tíma ekki fyllt sinni helming af Wembley í undanúrslitaleik bikarsins. Væri umræðan eins ef t.d. þýska ríkið með öll sín auðæfi tæki þá ákvörðun að kaupa enskt lið, snarbrengla markaðinn og beita öllum sínum pólitískum vopnum í valdabaráttu innan íþróttarinnar?

Chelsea er með fjölmarga stuðningsmenn um allan heim, alla Evrópu, allar Bretlandseyjar stóran hluta af London og er rétt eins og önnur knattspyrnulið mikilvægt í sínu samfélagi. Með svona beinum tengslum við pólitíkina og hvað þá í löndum þar sem stjórnarfarið er vægast sagt vafasamt og stjórnvöld meira en til í að leggja töluverðar fjárhæðir í að kaupa sér betri ímynd er auðvelt að sjá hvernig árekstar geta orðið.

Það er satt að segja ekkert sanngjarnt við það að Chelsea sé undanskilið af þeim eignum Roman Abramovich og hvað þá að hann geti með einu pennastriki afksrifað €1,5B af skuld félagsins eftir að hafa skekkt alla samkeppni í 20 ár og spilað eftir öðrum leikreglum en flestir aðrir. Það að bresk stjórnvöld séu að leyfa það segir töluvert um það hversu stór enski boltinn er og jafnframt hversu vont að leyfa svona eignarhald.

Verður þetta eins þegar Abu Dhabi og Saudi Arabía fara að ráðast á Evrópulönd, þau hafa komist upp með það hingað til að ráðast á nágrannalönd sín með jafnvel verri afleiðingum en við erum að horfa á í Úkraínu. Eins hafa þau komist upp með að myrða óþægilega einstaklinga jafnvel þó þeir séu búsettir í Evrópu.

Eigendur enskra liða 2003

Tímabilið 2002/03 voru nánast öll Úrvalsdeildarliðin í eigu breskra aðila eða erlendra aðila eins og Al Fayed sem hafði búið í áratugi á Bretlandseyjum. Liverpool og Arsenal sem dæmi höfðu verið í eigu sömu fjölskyldna í hálfa öld. Eftir að Roman keypti Chelsea og sprengdi alla skala hvað kaupverð og laun varðar seldu þessir aðilar hver af öðrum. Fljótt á litið er Joe Lewis sem þá var nýlega búinn að kaupa Tottenham og Steve Gibson hjá Boro þeir einu sem eiga sín lið ennþá.

Sumir af þessum eigendum voru moldríkir viðskiptamenn sem hefðu vel getað sett mun meiri pening í sín lið en enginn þeirra hafði áhuga á viðskiptamódeli Abramovich þar sem það skipti nákvæmlega engu máli hversu mikið tapið væri. Það þyrfti nýja aðila inn til að keppa við slíkt.

Þannig opnaðist leiðin fyrir bandaríska hrægammasjóði, einn slíkur keypti t.a.m. Man Utd í kjölfar þess að Alex Ferguson lenti hressilega upp á kannt við þáverandi eigendur Man Utd vegna veðhlaupahests. Gillett og Hicks voru af sama sauðhúsi hjá Liverpool.

Seinna hafa svo einræðisherrar í olíuríkjum tekið módelið sem Abramovich opnaði á upp á næsta level og gert það ennþá verra.

Nánast enginn þeirra er að kaupa félag vegna þess að hann er svo rosalega harður stuðningsmaður. Hvort sem það skipti máli er svo annað mál. En við hljótum samt að gera töluverðan greinarmun á viðskiptamönnum hvort sem þeir eru umdeildir eða ekki og svo einræðiherrum eða undirmönnum slíkra manna sem eru að kaupa ensk lið með ríkisfé og þurfa að hneygja sig og beygja í takti við það.

Framhaldið hjá Chelsea

Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað gerist hjá Chelsea núna í kjölfar Abramovich. Það virðist alls ekki vera neinn skortur á áhugasömum fjárfestum enda ljóst að fótboltinn opnar fjölmargar dyr fyrir ólíka viðskiptamenn.

Nokkrum spurningum er einnig ósvarað varðandi hvernig svona sala getur átt sér stað. Má bara afskrifa £1,5b skuld með einu pennastriki án afleiðinga á Financial Fair Play reglur sem öll lið (fyrir utan Man City, PSG og Chelsea) hafa þurft að vinna eftir undanfarin ár? Hver fær söluandvirðið sem talið er geta numið £3-4B?

Chelsea er líklega þökk sé Abramovich of stórt til að falla ef svo má segja, sérstaklega ef hann ætlar að afskrifa £1,5B skuld félagsins? Þeir eru með leikmannahóp og rekstur sem ætti alveg að standa ágætlega undir sér næstu árin. Það er ekkert sem bendir til að þeir verði næsta Leeds og sem dæmi er Everton í miklu verri málum virðist vera en Chelsea þrátt fyrir að missa Abramovich.

Þeir sem kaupa Chelsea verða engu að síður að leggja gríðarlegar fjárhæðir í kaupin á félaginu og taka strax við stóru vandamáli sem er heimavöllur félagsins. Rekstur Chelsea heldur ekki í við rekstur Arsenal, Tottenham, Liverpool og United til lengdar án Abramovich á óbreyttum Stamford Bridge.

Undir stjórn Abramovich skipti ekki öllu máli að reksturinn stæði undir sér, Chelsea skuldar honum £1,5b eftir 19 ár og er ekki einu sinni komið með nýjan heimavöll sem part af þessari fjárhæð. Það þýðir ekki að hann hafi rekið félagið eins og Man City, undanfarin ár hefur Chelsea alveg verið vel rekið en það er ólíklegt að nýjir eigendur vilji ekkert í staðin nema aðgang að mörkuðum og vernd sem var aðalatriði hjá Roman.

Svona eru leikmannaviðskipti Chelsea á tíma Roman Abramovich hjá Chelsea í samanburði við Liverpool.

Það er auðvitað ekkert eðlilegt við það að Chelsea sem er töluvert minna félagslið á heimsvísu sé með helmingi meiri eyðslu nettó heldur en Liverpool. Eins má taka inn í jöfnuna að þeir hafa haldið úti mjög öflugu neti lánsmanna og rakað inn töluvert af söluhagnaði af leikmönnum sem komu ekki nálægt aðalliðinu.

Brotið niður í fjögur tímaskeið má sjá að nettó eyðsla Chelsea var 4,4 sinnum meiri en eyðsla Liverpool frá því Abramovich keypti félagið til 2006. Það er ennþá verið að blása upp hvað Mourinho var mikill sérfræðingur að ná árangri með þetta lið btw!  Liverpool vann Meistaradeild Evrópu á þessu tímskeiði nota bene.

FFP og aðrar strangari hömlur hafa svo jafnað leikinn örlítið síðan þá en þarna sést ágætlega það fáránlega flugstart sem stolin olíuauður rússa gaf Chelsea.

Rekstur Liverpool þarf að standa undir leikmannakaupum félagsins, stærstur hluti af framkævmdum við heimavöllinn og nýtt æfingasvæði er einnig fjármagnað með rekstri félagsins og lántöku sem gert er ráð fyrir að standa skil af. Ef að aðal afleiðingar þess að brotthvarf Abramovich verði til þess að einum af þessum svindlliðum fækkar á markaði er það í það allra minnsta jákvætt.

Chelsea er ekkert að fara í bráð hugsa ég enda með allt að bera til að verða vel rekið félag og vel staðsett í Lundúnum. En þeir verða varla ónæmir fyrir mistökum á markaði áfram og þurfa vonandi að nálgast markaðinn með allt öðrum hætti.

Þeir þrír fjárfestingahópar sem ennþá eru orðaðir við kaupin á Chelsea eru engan vegin sykurpabba eigendur að því er virðist, engu að síður allt fjárfestar sem þekkja það að reka íþróttafélög og sjá klárlega tækifæri í því að eignast Chelsea.

Sama mátti svosem segja um Hicks og Gillett, Glazer, Stan Kroneke o.s.frv.

 

 

 

 

 

 

 

 

24 Comments

  1. Þetta er góður pistill Einar. Allt þetta peningasvindl og viðbjóður innan íþrótta þarf að útrýma. Maður á að vera stoltur af hvernig heilbrigt fjármálaumhverfi virðirst vera í kringum klúbbinn okkar (þó svo alltaf eigi að gagnrýna fjðarmálaöfl) en hvaða klúbbur í heiminum hefur annar náð eins langt með fair play og ekkert helvítis undirmakks viðbjóð? Ég HATA Man City alveg útí hið óendalega alveg HATA þá meira en pólítíkina á íslandi. Eftir leikinn í gær við Man Utd. varð maður frekar hálf sorgmæddur. Þessi lið eiga alltaf að vera að berjast til enda mínútu hvar sem liðin eru í töflunni. Þegar þessi bölvaða elíta heimsins af há miðaldra og rúmlega karlpungum sem stjórna innan siðleysis og spillinga ár eftir ár sem eru í raun að skemma fótboltann fyrir ungviðnum sem nennir engan veginn að horfa á neitt tengt fótbolta nema í boði tiktok 10 sekúndna video brota að þá er stutt í að gamanið verði á enda. Viðbjóðurinn sem hefur fengið að grasseera frá komu Abramovich til Man City, PSG og svo núna Newcastle er til skammar fyrir þessa dásamlegu íþrótt. Ef þetta mun ekki breytast í bráð að þá er stutt í hrun fótboltans sem er kannski bara það besta sem gæti komið fyrir hann.

    10
  2. Rosalegur pistill, Einar Matthías. Ég verð samt að gera eina athugasemd. Orðið olíugarki er ekki til. Hugtakið oligarki tengist allsekki olíu, heldur þýðir það „fámennisstjórn”.

    1
  3. “Skemmtileg” lesning… en ef á að henda svona fram þá þurfa að vera heimildir!!!!! Ekki hægt að dæma einn né neinn og því síður lið af óstaðfestm sögum

    4
    • Þetta kalla ég sýndarmennsku, hroka og menntasnobb hjá þér Börkur. Þess er yfirleitt ekki krafist að heimilda sé getið þegar unnið er úr efni sem er í mikilli almennri dreifingu um alnetið, (APA).
      Hér hefur Einar sett saman skemmtilegt blogg úr fréttum og öðrum bloggum, hafi hann bestu þakkir fyrir. Þetta er einmitt eitt af því sem gerir KOP.is að þessari dásamlegu afþreyingu, þar sem skoðana- og tjáningarfrelsið er óskert. Okkar er það líka Börkur en ég er bara ekki sammála þér og færi fyrir því rök, afsakaðu hörkuna í upphafi.

      21
  4. Sælir félagar

    Þetta er magnaður pistill Einar Matthías og þörf lesning öllum sem áhuga hafa á enska boltanum. Takk fyrir að draga þessar upplýsingar saman á einn stað og gera það svona vel.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  5. Frábær grein og verðugt umfjöllunarefni, það er ekki auðvelt að eiga við þetta.

    Liðin 20 í PL eru að greiða 1,35 milljarða punda í laun á þessu tímabili til leikmanna sinna. Það þýðir að þessir leikmenn eru að greiða 600m punda í tekjuskatt í ríkiskassa hennar hátignar. Hvað ætli sé hægt að halda uppi mörgum hjúkrunarfræðingum, kennurum, lögreglumönnum, strætisvagnabílstjórum (og stjórnmálamönnum) fyrir þessa upphæð, sem nota bene kemur frá skattgreiðslum 500 manna hóps.

    Ég myndi allan daginn vilja losna við þessar nöðrur í Chelsea/City/Newcastle, en fyrir þann stóra hluta almennings í Englandi og Wales, sem hefur engan áhuga á fótbolta, þá finnst þeim bara fínt að það séu til einhverjir auðmenn tilbúnir til að sturta fé inn í landið.

    1
    • Þannig að allir peningar eru fínir, sama þó þeir séu teknir af fátækum börnum í Rússlandi? Okkur vantar fjármagn í vegi, brýr og sjúkrahús; spurning um að bjóða mafíunni aðstöðu á Íslandi, bara á meðan þeir borga skatta?

      10
  6. Það er sturlun að leggja eignarhald Abu Dhabi á Man City (olíupeningar en FFP brot) , Saudi Aramco á Newcastle (olíupeningar en engin stór fjármögnun enn orðin né FFP brot), og svo eignarhald og fjármögnun Roman á Chelsea (spilling, oligarchy og FFP brot), allt að jöfnu eins og þetta sé sami hluturinn. Þetta eru allt ólíkar aðstæður. Það er ekki ólöglegt að verða moldrík af olíu í eyðimörk. Og þótt bandarískt eignarhald í íþróttum sé sannarlega skrefinu fjær ástandinu í Mið Austurlöndum þá má svo sannarlega færa rök fyrir því að efnahagslíf USA sé að hluta fjármagnað með endalausum stríðsrekstri erlendis td í ríkjum þar sem olíu auðlindir er að finna. Það er magnað og í senn hlægilegt hvað greinarhöfundur setur sig á háan stall og slær sig til réttlætis riddara í þessari grein, samtímis og hann afskrifar þrjú stór fan base og tvö þeirra án rökstuðnings.

    4
  7. @HG. Svo það er þannig sem þið reynið að réttlæta þetta sportwashing sem er í gangi fyrir ykkur sjálfum. Oft spáð í þessu.

    4
  8. Jæja HG…
    M.City er í eigu Abu Dhabi sem er í hernaðarbandalagi með Sádi Aröbum sem eru að murka lífið úr saklausu fólki í Jemen.
    Sorglega langan lista mannréttindabrota ráðamanna í Abu Dhabi er að finna á heimasíðu Amnesty International.
    Newcastle er í eigu Sádi Araba…sem því miður hafa verið enn duglegri en nágrannar þeirra að murka lífið úr fólki, styðja við hryðjuverk og svo framvegis.
    Ef á að telja þeim til bóta að vera ekki ENN búnir að brjóta FFP reglur þá það. En það réttlætir ekki þeirra voðaverk sem komu knattspyrnu ekkert við.
    Ef þig vantar lesefni varðandi þetta og veist ekki hvar þú átt að byrja bendi ég aftur á heimasíðu Amnesty International.
    Ég á erfitt með að sjá af hverju það er sturlun ad beita þessum samanburði. Finnst aftur á móti sturlað að þú sért að eyða orku í að ráðast á greinarhöfund í stað þess að lesa þér til um staðreyndir málsins á veraldarvefnum. Sumt sem kemur fram í greininni ætti svo sem að vera almenn vitneskja og þegar öllu er á botninn hvolft þá eru greinarnar hérna ekki ritgerðir í Háskólanum.

    Vill annars þakka Einari fyrir þessa samantekt.

    Þú arkar aldrei einn

    13
    • “Verður þetta eins þegar Abu Dhabi og Saudi Arabía fara að ráðast á Evrópulönd” – Þessi hluti greinarinnar frá pistlahöfundi leggur að jöfnu innrás Pútíns annars vegar, og til dæmis Saudi sem er vinaþjóð BNA og Íslands. Þetta eru sorgleg ummæli hjá Einari. En til hamingju með John W Henry, einn ríkasta mann jarðar, ríkisborgara Bandaríkjanna (mesta imperíalist ríki jarðar) og stuðningsmann Donald Trump.

      2
  9. Góður frændi minn sagði einu sinni…afhverju geta ekki allir verið vinir….

  10. Af því að það er talað um samkeppni í grein Einars og hvernig endalaust fjármagn Roman í gegnum Chelsea hefur skekkt samkeppni í boltanum. Ykkar ameríski eigandi og aðrir kanar í Premier League voru forsprakkar og stofnendur European Super League – einkadeild þar sem ekkert lið fellur og raunar lokaður einkaklúbbar eldri félaga með sögulegan árangur. Þessi deild var kölluð einhver mesta atlaga að Enska fótboltanum skv. sérfræðingum Sky til dæmis. John W Henry og aðrir ameríkanar í PL börðust svo ötullega gegn því innan Premier League að nýjir breskir og saudi fjárfestar fengju að kaupa pl klúbb (af Mike Ashley), því þeir vissu að því fylgdi mikið og löglegt fjármagn og ógn við top six – en töpuðu þeirri baráttu eftir málarekstur fyrir samkeppnisdómstól í UK. Þessi tvö atriði sem gerðust bara í fyrra, voru mestu tilraunir síðustu áratuga til þess að koma í veg fyrir samkeppni og vernda Big Six. Tyllið ykkur vinsamlegast á jörðina takk og niður úr fílabeinsturninum.

    3
    • Það fer þér því miður ekki vel að tjá þig HG. Ég þykist viss um að þú hefur marg oft rekið þig á það á lífsleiðinni. Vona að þér beri gæfa til að draga þig svolítið til baka og lýta í eigin barm. Farnist þér annars sem best.

      1
      • Sannleikurinn um John Henry er þér greinilega erfiður og bersýnilega nýjar fréttir fyrir þér. Það er ekkert til að skammast sín fyrir, fleiri en eigendur Liverpool lögðu stein í götu smærri liða í ensku úrvalsdeildinni með ofurdeildinni og þar áður samráði. Kynntu þér endilega málið nánar og gangi þér bara vel Kristján á þinni vegferð til upplýsingar. Batnandi manni er best að lifa.

        3
    • HG, nú kemur ekkert nánar um þig. Ef ég fer inn á rauðudjöflana tek ég fram að ég sé Liverpoolmaður, veit að fleiri gera það. Það að upp komi hugmynd um útlistun á, segjum ofurdeild, þá kom fljótlega upp andstaða. Upphafið er RM, sem sárlega vantar pening, enda félag sem í áratugi hefur verið áskrifandi að ef ekki opinberu fé þá með öðrum hætti. Liverpool er ekki undir neinum kringumstæðum í einhverjum fílabeinsturni, allar tölur segja þér það sama. En þangað til að þú gerir grein fyrir þér ertu marklaus!

      6
  11. Góð grein, maður veltir stundum fyrir sér hvort sumt af því sem á sér bakvið tjöldin jaðri ekki hreinlega við AML lög, öll lönd hafa sína eigin reglugerð venjulega sem er byggð á evrópu reglugerðinni. í UK þykir hún einstaklega ströng. Smá útskýring hér:
    https://www.investopedia.com/terms/a/aml.asp
    Það er meiri og meiri áhersla lögð á þetta í öllum löndum sérstaklega varðandi fólk sem er pólítískt tengt eins og Abromovich, maður veltir fyrir sér hvernig það er hreinlega hægt að sýna fram á það að öllum AML lögum og reglugerðum sé fylgt þegar svona Politically exposed persons (PIP) um ræðir. Það gildir það sama um PSG, Newcastle og City og öll þessi félög. Þannig þetta snýst ekki endilega bara um Financial fair paly

    • Væri ánægður með öll comment á þetta með ykkar view, manni finnst tæpt að svona gjörningar geti staðist AML lög þegar dýpra er grafið

  12. Sýndarmennska, hroki og menntasnobb!!! Nú langar mig að vita hvar þessar þrjár fullyrðingar rúmast í þeim þremur línum+ sem ég setti fram … pistillinn hjá Einari er virkilega góður og gaman að lesa hann en við þurfum samt að horfa í heimildir og ekki dæma eitt, tvö, þrjú eða fleiri lið út af markaðnum (væri t.d. gaman að vita hvaðan auðæfi bandaskrískra eigenda liða í ensku deildunum koma í grunninn)…. sem betur fer erum við Kopverjar fólk sem setjum fram gagnrýni án þess að úthrópa skoðanir annara (er það ekki?)

    2
    • #kristján
      Þetta var svar til Kristjáns en tölvukunnátta mín (né menntun (menntasnobb)) er ekki meiri en sú að ég náði ekki að svara undir réttum þræði ?

      2
      • Sæll og afsakaðu ef ég var ósanngjarn. Mér fannst bara HROKI gagnvart höfundi , MENNTASNOBB í að greinin væri ekki samkvæmt einhverum menntavísindum og SÝNDARMENNSKA að þykjast vita betur.

        1
  13. Takk fyrir þessa fróðlegu og skemmtilegu yfirferð. Aldrei má horfa framhjá því að Bretarnir (og Íslendingar) elska þessa peninga. Því er auðjöfrunum gert kleift að kaupa knattspyrnulið eða dæla peningum á annan hátt inn í hagkerfið. Meðan yfirvöld og almenningur fá einhverja brauðmola loka þau báðum augum og horfa til hliðar. Það er svo voðalega vont að vera á móti því að peningar komi. Síðan er þessu liði hampað hægri vinstri eins og sást á Íslandi fyrir hrunið. Því stórtækari þjófur því meira hampað og fólk segir: Hann er svo óskaplega duglegur og sniðugur maðurinn. Ekki vantaði að fólk slefaði yfir RA en hver maður sem hefði nennt að hugsa hlaut að sjá að það var eitthvað dularfullt við þessi auðævi öll. Mammon stjórnar því miður öllu.

    6

Liverpool 4 – 0 Manchester United

Upphitun: Nágrannaslagur á Anfield