Hvað er að gerast á leikmannamarkaðnum?

Undanfarin ár hefur Liverpool verið hálf vonlaust fyrir fjölmiðla sem þrífast á leikmannaslúðri og þess háttar fréttum og eins og útlitið er núna verður þetta sumar ekkert öðruvísi. Luis Diaz sem var alltaf hugsaður sem partur af þessum glugga, Darwin Nunez, Fabio Carvalho og Carlvin Ramsey hafa bæst við hópinn hjá Liverpool og félagið hefur gefið það út að ekki verði keypt meira í sumar. Við eigum þó eitt hálmstrá inni ennþá en það er áhugi félagsins á miðjumanninum Aurélien Tchouaméni. Liverpool var tilbúið að kaupa einn stærsta bita markaðarins núna í sumar sem gefur til kynna að félagið er að huga að breytingum á miðjunni þó þessi díll hafi ekki gengið eftir.

Það er lítið að marka það þegar félagið segist ekki ætla að gera meira á leikmannamarkaðnum, Danny Ward var t.a.m. að fara verja mark Liverpool vikuna áður en Alisson kom. Liverpool var alls ekki á eftir Thiago skömmu áður en kaupin á honum voru staðfest o.s.frv.

Hvað sem gerist hjá Liverpool er hópurinn núna klárlega ekki veikari en hann var þegar síðasta tímabil hófst og ágætt að benda á að félagið spilaði til úrslita í öllum keppnum og var hársbreidd frá því að vinna deildina með þessa miðju.

Þó að það sé rólegt í kringum Liverpool núna er ljóst að hin toppliðin ætla sér stóra hluti og koma með töluvert breytt lið til leiks á næsta tímabili.

Skoðum hvernig staðan er núna í lok júní: 

Man City 

City losaði Aguero af launaskrá eftir síðasta tímabil en keypti ekki sóknarmann í staðin úr því kaupin á Harry Kane gengu ekki upp. Jack Grealish var engin eftirmaður Aguero sem dæmi. Erik Haaland er mikið frekar eftirmaður Aguero og kemur auðvitað í stað Harry Kane sem verður líklega áfram hjá Spurs úr þessu. Julian Álvarez tekur svo væntanlega við hlutverki Gabriel Jesus sem allt of góður leikmaður til að vera varamaður en launin eru hressandi.

Kalvin Phillips virðist svo vera við það að koma frá Leeds sem eftirmaður Fernandinho. Hann gæti myndað sterka miðju með Rodri í vissum leikjum eða skipt með honum verkum yfir langt tímabil.

Marc Cucurella vinstri bakvörður Brighton er sterklega orðaður við City en gæti kostað töluvert þar sem hann á fjögur ár eftir af samningi og Brighton hefur engan áhuga á að selja. City verður skv. lögum félagsins að kaupa einn rándýran bakvörð á ári og sérstaklega núna m.v. bullið sem Mendy er búinn að skapa sér.

Raheem Sterling er svo sterklega orðaður í burtu, hann á lítið eftir af samningi og er ósáttur við spilatíma hjá City. Chelsea og Arsenal eru sterklega orðuð við hann. Sama á við um Jesus sem er sagður svo gott sem kominn til Arsenal.

Annað slúður sem lítið er marktækt ennþá er t.d. að Chelsea vilji Ake aftur, Gundogan vilji fara og eins hefur Zinchenko verið orðaður við nokkur úrvalsdeildarfélög.

City virðist vera þétta hópinn hjá sér og styrkja byrjunarliðið umtalsvert með Haaland.

Chelsea

Það er alls ekki auðvelt að lesa í Chelsea eins og staðan er núna en ljóst að þeir verða að gera töluvert stórar breytingar á byrjunarliðinu (aftur). Fyrir það fyrsta er miðvarðaparið (Rudiger – Christiansen) farið, báðir samningslausir. Thiago Silva verður 38 ára í september.

Romelo Lukaku gæti toppað Kepa sem verstu kaup í sögu Úrvalsdeildarinnar en hann er farin aftur til Inter, nú á láni. Hakim Ziyech er orðaður frá félaginu, þá sérstaklega við hitt Milan liðið. Auk þess er líklegt að leikmenn eins og Alonso, Barkley o.fl. fari í sumar.

Stærsta spurningamerkið núna er hvernig Chelsea við fáum eftir tíma Roman? Það vantar ekki að þeir eru orðaðir við annanhvern leikmann og koma líklega til með að klára nokkra stóra samninga á næstu dögum og vikum. Sterling og Richarlison gerpið eru orðaðir við félagið. Dembele hefur verið í umræðunni í sumar sem og miðverðir eins og de Ligt hjá Juventus og Kounde hjá Sevilla.

Enn sem komið er hefur Chelsea samt ekki keypt neinn leikmann. Þeir eru að losa töluvert pláss á launaskrá í þessum glugga og eiga að vanda töluvert af leikmönnum á láni sem þeir geta selt með ágætum gróða. Einn af þeim er t.d. Conor Gallagher sem gæti eins verið nógu góður orðið til að komast bara í lið Chelsea.

Of snemmt að dæma hvort Chelsea verði sterkari á pappír fyrir þetta tímabil en þeir voru fyrir það síðasta.

Man Utd

Það er magnað hvað þörf er á mikilli tiltekt núna hjá United þrátt fyrir þróunarstarf og uppbyggingarfasa Ole Gunnar Solskjaer. Liðið er skipað leikmönnum sem Ferguson, Moyes, Van Gaal, Motormouth og Solskjaer fengu undir mismunandi formerkjum á ekki svo löngum tíma, fimm stjórar  (sex með Ragnick) og það er ekki eins og United hafi verið með DoF á þessum tíma sem hefur einhverja minnstu yfirsýn yfir leikmannakaup félagsins og framtíðarstefnu. Það var breytt um stefnu í hvert skipti sem nýr maður var settur í brúnna.

Þeir sem voru búnir með samninginn er staðfest farnir og það eru þörf á losa annan eins fjölda strax í sumar en vandamálið er að sumir þeirra eru með samning sem ekkert lið er tilbúið að borga.

Paul Pogba er auðvitað stærsta nafnið sem er farið og styrkir brottför hans strax liðið, móralinn og skapar pláss á launaskrá. Nemanja Matic og Juan Mata eru líka farnir, þeirra hátindur var sem leikmenn Chelsea, Old Trafford var elliheimilið þeirra.

Cavani er farin frá félaginu og Greenwood ógeðið kemur líklega ekkert við sögu í vetur ef hann gerir það þá nokkurntíma aftur. Fyrir utan Greenwood eru þetta allt leikmenn sem voru komnir yfir síðasta söludag, a.m.k. hjá United (guð má vita hvernig Pogba verður annarsstaðar).

Auk þeirra er næsta víst að Lingard fer annað og hefur hann t.d. verið orðaður við West Ham. Martial hlítur líka að fara loksins. Dean Henderson virðist vera að fara og spurning með menn eins og Phil Jones.

United er ekki að fá mikið inn af peningum fyrir þessa leikmenn en brottför þeirra skapar töluvert pláss í hópnum og félagið er komið með miklu betri stjóra en þeir hafa verið með undanfarin ár.

Donny van der Beek fær stjórann sem gerði hann að Donny van der Beek. Mögulega fær hann Frenkie de Jong með sér aftur á miðjuna sem eru gríðarlegt upgrade á þeim leikmanni sem Pogba hefur verið hjá United.

Lisandro Martinez (miðvörður) og Antony (kantmaður) frá Ajax hafa verið orðaðir við United, líklega vegna þess að þeir eru fyrrum leikmenn Ten Haag. Sama á við um Christian Eriksen.

Það er ljóst að United á eftir að láta hraustlega til sín taka á leikmannamarkaðnum næstu vikur en með því að skoða hópinn hjá þeim eins og hann er núna er líka helvíti mikið verk fyrir höndum. Darwin Nunez sýndi að það er ekkert sjálfgefið að þeir bestu vilji taka þátt í þessu sem hefur verið í gangi á Old Trafford undanfarið.

Það er alls ekki einkenni vel rekinna knattspyrnuliða að gera mjög miklar breytingar milli ára og augljóslega of snemmt að dæma þetta sumar hjá United, þeir geta á móti ekki versnað mikið frá síðasta tímabili.

Tottenham

Antonio Conte gæti verið nógu góður stjóri og nógu klikkaður til að þvinga Daniel Levy til að eyða smá peningum í Tottenham liðið, svona úr því að hann skilaði þeim í Meistaradeildina. Hann ætlar a.m.k. að taka töluvert til og byrjaði af krafti í janúar.

Bissouma er komin frá Brighton og Pericic frá Inter Milan, það er ekki til meiri Conte leikmaður en hann þó hann sé reyndar meira búinn að spila wing-back undanfarið frekar en sóknarmann. Klárlega hans hlutverk áfram í 3-4-3 kerfi Conte.

Harry Kane og Son virðast ekki vera á förum og Spurs sleppur við annað svona Harry Kane sumar eins og þeir fengu að upplifa fyrir ári síðan.

Spurs eru núna sterklega orðaðir við Richarlison gerpið og jafnvel Anthony Gordon líka frá Everton. Eins hafa þeir verið orðaðir við Raphinha frá Leeds og hafa verið í viðræðum við Boro um Djed Spence, hægri bakvörðinn sem var frábær á láni hjá Nott Forest í vetur.

Daniel Levy er þó ekki gengin alveg af göflunum, hann á töluvert af góðum leikmönnum til að selja á móti frekari leikmannakaupum Conte. Harry Winks má víst leita á önnur mið, Bergwijn hefur verið í viðræðum við endurkomu til Ajax, Lo Celso hlítur að fara eftir að hafa farið á láni í janúar, sama má segja um NDoumbélé og Bryan Gil

Tottenham munu mæta sterkari til leiks í haust.

Arsenal 

Það er ljóst að það fór illa í forráðamenn Arsenal að ná ekki Meistaradeildarsæti næsta vetur. Þeir eru með efnivið sem þeir geta ekki haldið lengi án þess að vera í Meistaradeild og miðað við slúðrið í sumar ætla þeir sér stóra hluti í vetur. Þeirra tiltekt hófst reyndar rétt eins og hjá Spurs strax í janúar.

Fabio Vieira einn besti miðjumaður Portúgal er staðfest kominn á miðjuna og Gabriel Jesus er svo gott sem staðfestur einnig. Auk þeirra kom hinn ungi kantmaður Marquinhos og miðvörðurinn ungi Saliba skilaðir sér aftur úr láni hjá Marseille.

Auk þeirra er Arsenal eitt þeirra liða sem eru sterklega orðað við Rapinha og eins Lisandro Martínez frá Ajax. Á móti losa þeir líklega Torreira, Maitland-Niles og og Pablo Marí frá félaginu.

Arsenal stefnir í að koma mun öflugra til leiks í vetur með spennandi S-Ameríska sóknarlínu.

Liverpool

Liverpool er miðað við sama tíma fyrir ári síðan búið að kaupa Nunez, Diaz og Carvalho í framlínuna og bæta líklega Kadie Gordon enn meira við hana í vetur. Þeir inn í staðin fyrir Sadio Mané, Divock Origi og Minamino. Þetta er mun yngri og ferskari sóknarlína þó vissulega eigi enn eftir að fylla skarð Mané, það er meira en að segja það þó Diaz og Nunez hafi allt til alls að gera einmitt það.

Ramsey er mjög óskrifað blað og óvíst hvað hann verður stór partur af aðalliðshópnum.

Næstu leikmannakaup Liverpool verða líklega á miðjunni en ef maður skoðar núverandi hóp er ekki pláss fyrir mikið fleiri leikmenn, ekki nema einhver fari á móti. Thiago, Henderson, Fabinho og Keita eru aðal miðjumenn Liverpool og verða að berjast um 2-3 stöður í sumar. Það er öflug breidd. Jones, Ox og Milner eru kostir 5-7 þar fyrir aftan. Þróun Elliott og kaupin á Carvalho og Nunez benda svo til að Klopp ætli sér að breyta leik liðsins á næstu misserum eða a.m.k. hafa kost á því og skapa hlutverk fyrir meira sóknarþenkjandi miðjumann. Fabio Carvalho og Harvey Elliott eru báðir líklegir til að festa sig mjög fljótlega í sessi sem byrjunarliðsmenn í aðalliðinu, sérstaklega í slíku hlutverki. Slíkt hlutverk gæti líka hentað Jones og Ox mun betur.

 

Þetta eru stærstu/ríkustu félögin, West Ham, Newcastle, Aston Villa og Leicester ætla sér t.a.m. öll mun stærri hluti en á síðasta tímabili.

33 Comments

  1. Flott yfirferð, fyrir utan LFC sýnist mér Arsenal og Newcastle vera að gera bestu hlutina á leikmannamarkaðnum. Newcastle hafa t.a.m. ekki farið í risakaup enn en bæta við mönnum sem styrkja undirstöðurnar, t.d. Pope auk þess sem þeir hafa endurnýjað alla varnarlínuna það sem af er ári.

    Um daginn var grein á Guardian um hvernig kaup á stórstjörnum klikka oftar en ekki, Lukaku og Ronaldo síðasta sumar eru frábær dæmi. Ef City ætla ekki að gera frekari breytingar tel ég þá vera að veikja sig, að því gefnu að Jesus og Sterling fari og Haaland komi (+ Álvarez). Hvað ef Haaland meiðist t.d. í nokkra mánuði? Þeir tveir fyrrnefndu hafa verið mikilvægur partur af sigursælum hóp undanfarin ár og kæmi t.d. ekki á óvart að sjá fyrirsagnir um upprisu Jesus á nýjum stað á næsta tímabili. Kalvin Philips hefði hljómað mun betur fyrir þá síðasta sumar, ekki sýnt mikið á nýliðnu tímabili en meiðsli eflaust verið hluti af því. Sé hann fyrir mér sem vonbrigði fyrir þá eins og Grealish hefur verið hingað til.

    6
  2. Sæl og blessuð.

    Virkilega góð samantekt. Hvað miðjuna varðar þá verður að játast að Hendó er ekki sama orkuverið og hann var áður og Keita skortir þann stöðugleika sem maður vill sjá á miðjunni. Hann á virkilega góða leiki/spretti en svo týnist hann á löngum köflum. Á móti kemur að ungu leikmennirnir eru að nálgast sitt blómaskeið og það að geta mótað leikmenn inn í ákveðið kerfi er ómetanlegt.

    Milner hefur stigið inn í leiðtogahlutverkið þegar Hendo hefur ekki verið inni á vellinum. Það segir sig sjálft að þeir þurfa nú að ala upp nýjan karakter af þeim toga. Hendo var nú ekki burðugur þegar hann kom til liðsins á sínum tíma en svo þroskaðist hann inn í þetta hlutverk og var um tíma alveg ómetanlegur. Mögulega leynist sambærilegt efni í einhverjum þessara ungu leikmanna.

    Annars lítur þetta vel út og það er einmitt góður punktur að ,,súperstjörnurnar” skila ekki alltaf því sem vonir standa til.

    Svo getur maður áfram ornað sér við mislukkað gengi mu. Nú á að gera liðið að einhvers konar Ajax-Bretlandseyja – sum sé – enn ein u-beyjan á þeim bænum. Dásamlegt.

    3
  3. Flott grein um stöðu mála.

    Fyrir hvert tímabil þá sér maður nokkur af þessum stóru liðum styrkja sig að maður telur en á hverju tímabili þá virðist alltaf eitt eða tvö af þeim taka skref til baka þótt að maður taldi að þau væru með sterkari hóp en árið á undan sjá t.d Man utd á síðasta tímabili með Sancho, Ronaldo og Varane og þeira drullu.

    Það lið sem maður horfir mest til er auðvita Man City og þeir voru að næla sér í alvöru framherja en það mun líka þýða að þeir munu þurfa að spila smá öðruvísi því að Haaland er ekki þessi sóknarmaður sem vill detta mikið í Firmino hlutverkið að draga sig til baka og byggja upp spil heldur er hann líkari eldri útgáfuni af Harry Kane(þessari sem var ekki að draga sig svo mikið til baka). Man City verða en þá á þessum elít stalli og vonar maður að við getum fylgt þeim eftir alla leið aftur.

    Arsenal eru að gera fína hluti en þeir eru svo langt í burtu frá okkur í getu að þeir verða lítil ógn þótt að þeir gætu alveg náð meistardeildarsæti í vetur.
    Tottenham eru að gera virkilega flotta hluti og verða hættulegir en þeir eru samt ekki á Man City og Liverpool stalli.
    Chelsea er stórt ? því að þeir hafa misst leiðtoga úr vörn en eru samt með gríðarlega sterkt lið á pappír og ég tel að þeir eru rétt að byrja á leikmanna markaðinum eins og Einar nefnir.
    Man utd geta því miður ekki farið mikið neðar( maður má samt láta sig dreyma) og munu taka skref fram á við í vetur en hversu stórt kemur í ljós en meistardeildarsæti er líklega það hæðsta sem þeir geta dreymt um.

    Í sambandi við okkur þá tel ég að við eigum eftir að sakna Mane mikið. Ekki bara að hann er góður heldur að hann var alltaf til staðar. Það er nefnilega allt annað fyrir Diaz og Nunez að koma inn í lið með Salah/Mane í lykilhlutverkum og þurfa svo að fylla upp í Mane skarðið með allri þeirri ábyrgð og pressu að þurfa að standa sig í hverri viku og vera til taks í hverri viku( þetta er meira en að segja það).
    Maður er samt mjög bjartsýn á að Klopp og hans fólk finnur lausnir og ég held að fólk gerir sér ekki grein fyrir hversu góð kaupinn á Carvalho eru.

    Spennandi tímar framundan en það eru aðeins 32 dagar í góðgarskjöldinn gegn Man City.

    5
  4. Þá er hægt að leggja frá sér símann í dag. Allt á einum stað.

    Mér finnst spennandi starf í gangi hjá bæði Arsenal og Tottenham og öfunda ekki stuðningsmenn Man U og Chelsea þessa dagana (reyndar aldrei). Ég hræðist smá Richarlison í Tottenham, held hann gæti verið flottur þar. Það er oft þannig með þessa leikmenn sem maður hatar mest, maður hræðist þá líka.

    City og Liverpool haldast í hendur, bæði lið að breyta smá og City augljóslega liðið til að vinna. Eins og fyrri daginn.

    Þetta verður skemmtilega barátta stóru liðana á næstu leiktíð.

    5
  5. Skil ekki alveg þegar menn segja að við séum ekki veikari en í fyrra, við misstum einn besta leikmann liðsins í mane og fáum alveg óskrifað blað í nunez í staðinn.
    Nunez á eitt tímabil.
    Auk þess hafa margir S-amerikumenn átt erfitt uppdráttar í ensku deildinni

    3
    • var þá Nunez ekki neitt þegar Benfica greiddu 24m evra fyrir hann?

      7
    • Það þarf samt að taka Diaz inn í þessa jöfnu líka, hann kom í janúar en var hugsaður sem sumar (2022) kaup. Eftir að hann kom inn í liðið spilaði hann hlutverkið sem Mané hafði haft fram að því og Mané fór í nýja stöðu. Miðað við ágúst 2021 er Liverpool með Diaz og Nunez í staðin fyrir Mané og það breytir jöfnunni talsvert.

      3
  6. Takk Einar gaman og fróðlegt að lesa.
    Ég er nú svo bjartsýnn að ég hræðist ekki neitt þessi lið sem eru að berjast við okkur heldur treysti ég á að Klopp og held að það hafi verið kominn tími á breytingar á framlínunni hjá okkur.
    Með breyttum mannskap þá hefur Klopp möguleiki á því að breyta liðinu og spila fleiri kerfi.
    Ég held að Nunez eigi eftir að reynast okkur vel, stór, nautsterkur og snöggur framherji akkurat það sem okkur hefur vantað.
    Fabio Carvalho gæti komið á óvart virkar flottur leikmaður en hvort hann verði tilbúin strax veit eg ekki og Carlvin Ramsey þekki ég ekki en hann var víst að standa sig vel í skotlandi.

    4
  7. Sælir félagar

    Takk fyrir pistilinn Einar hann er góður og upplýsandi fyrir skaula eins og mig. 🙂

    3
  8. Sammála að miðja Liverpool er dálítil óvissa. Held reyndar LFC láti reyna á þennan hóp og framkvæmi stöðumat í des. Stærsta spurning sumarsins er lúmir enn yfir LFC og er að verða þrúgandi fyrir alla hjá fèlaginu. Persónulega held èg að best sè fyrir LFC að selja Salah núna svo hægt verði að byggja og horfa framávið. Formið á Salah eftir áramót rèttlætti ekki súperstjörnusamning sem brýtur launastrúktúr fèlagsins.

    4
  9. Ég verð að gagnrýna stjórnendur Liverpool fyrir að láta svona marga samninga enda 2023.
    Salah, Mane, Firmino og Keita ásamt mögulega fleiri voru/eru allir með samning til 2023.
    Mane er farinn, Salah fer annað hvort frítt næsta sumar eða verður seldur í sumar og Firmino er eftirsóttur af Juventus.
    Það væri alvöru skellur að missa þá alla 3 á sama sumrinu

    6
  10. Ég treysti Klopp algerlega fyrir leikmannamálum, hann og hans teymi hafa verið hálfgerðir galdramenn í að finna leikmenn og búa til LIÐ. Eina sem ég er ósáttur við er að Mane skyldi fara. Að mínu mati einn allra besti leikmaður okkar síðustu ár. Fjölhæfur fram í fingurgóma og meiðist aldrei. Ég skil eiginlega ekki alveg hvað lítið fjaðrafok hefur verið í kringum brottför hans og margir virðast bara sáttir því það fékkst peningur fyrir hann. Ég vildi alls ekki missa Mane, ætli hann hefði ekki átt 4 jafnvel 5 góð Liverpool ár eftir. Og þá er enn langt í land að ná Milner að árum! Mig grunar að Klopp hafi verið verulega ósáttur við að missa Mane og það hafi sko ekki verið inni í neinum plönum.

    Varðandi umræðu um nýjan miðjumann, þá væri nú kannski ekki úr vegi að hringja í Gini W og athuga hvort hann sé ekki alveg búinn að fá nóg af PSG…Hann gæti fyllt í skarðið þangað til næsta sumar. Reyndar virðist Klopp aldrei taka leikmenn til baka sem fara frá honum.

    • Nei takk Cini vildi fara og verður bara að bíta í það súra epli að hans tími hjá Liverpool er liðin, ég er ekki viss um að það komi fleiri leikmenn nema eins og Einar segir að það séu fleiri á útleið frá klúbbnum og ef svo er þá væri gott að fá skapandi miðjumann með góðan skotfót.

      2
  11. Framlenging um 3 ár ??
    350.000£ á viku
    Hæstlaunaðisti lfc leikmaður ever

    4
    • Framlenging um tvö ár. Samningurinn rennur út 2025 en ekki á næsta ári, 2023.

      4
      • Já ok, er á síðasta árið sem var eftir af samningnum leyst upp og gerður nýr til þriggja tímabila?
        Af Echo:
        The Egyptian’s contract had been set to expire in the summer of 2023, however, he has now agreed a new three-year-deal to commit his future to the club until 2025.

  12. Þetta er gott núna þarf ekki að hugsa um þetta meir..Salah ánægður Liverpool ánægðir og ég ætla rétt vona að stuðningsmenn séu það líka ég er það allavega !
    Vorum ALDREI að fara láta Salah fara frítt frá okkur!
    YNWA

    7
  13. Átti að vera upphópunarmerki!!!

    Maðurinn verður bara Kóngurinn!!!!

    4
  14. “Salah fer annað hvort frítt næsta sumar eða verður seldur í sumar”

    Ansi mikið af svona færslum sem ég les á þessu komentakerfi. Digurbarkalegar fullyrðingar. Rop. Svona eins og viðkomandi sé alvitur sjálvaldur með spákúluaugu eða þangað til hann er rukkaður um fullyrðinguna, þá er viðkomandi oftast staddur fyrir utan þjónustusvæði.

    Ég er með ráð til viðkomandi. Hvað með að þú farir núna strax inn í þvottahús og takir tvö pör af táfýlusokkum og troðir þeim upp í kjaftinn á þér. Eða nei – hafðu pörin frekar þrjú.

    3
    • Rosalega ertu harður maður, í staðinn fyrir að fagna undirskrift Salah eins og allir aðrir þá finnurðu pósta til að drulla yfir. Vel gert hjá þér.

      15
  15. Erum sterkara lið með Salah simple as that þessi leikmaður á allt lof og hrós skilið !
    Vildi hann meiri money ? sure en hvaða stórstjörnur eru ekki að biðja um laun í þessum heimi í dag..svarið er mjög fáir.
    Það er verið að borga þessum mönnum ALLTOF mikla peninga en það er varla okkur stuðningsmönnum að kenna um eða hvað og skiptir engu hvar þeir eru.

    FSG hafa hingað til verið með góða launa stefnu ekki ofborgað mönnum þrátt fyrir að vera með besta lið evrópu síðustu ár. EN þeir sendu stórt statement í dag með að tryggja Salah áfram á risa launum og ef ég á alveg að vera hreinskilinn þá er mér slétt sama um hvað Salah fær ég vill bara hafa hann áfram hjá Liverpool PUNKTUR !

    4
  16. Nú er nokkuð ljóst af hverju enginn verði keyptur nema einhver seldur.
    Ekkert að trufla salah í vetur er bara geggjað.

    3

Mané og Minamino að fara, hverjir næst?

Salah framlengir (Staðfest!)