Spá Kopverja – efri hluti

Í gær sýndum við á spáspilin okkar varðandi neðri hluta deildarinnar og dæmdum Luton, Sheffield United og Bournemouth til að falla. Í dag er það svo efri hlutinn sem við setjum upp í rétta röð eins og kollurinn okkar leyfir. Minni auðvitað á að spárnar okkar hafa haft tilhneigingu til að ganga ekki upp og skora á lesendur að skutla hér að neðan inn sinni spá í athugasemdum. Sérstaklega væri gaman að fá spána um okkar menn sem ég get strax lekið að eru í efstu 10 sætunum í spánni!

Hér kemur þá röðin á sætum 1 – 10, talið neðan frá. Við vorum 10 sem spáðum og röðuðum liðunum öllum upp, það lið sem hver spáði sigri fær 20 stig og það sem var neðst 1 stig. Mest hægt að ná 200 stigum og minnst 10 stig. Endilega hendið ykkar spám í athugasemdir við þessa spá okkar félaga.

10.sæti West Ham 100 stig

Með nákvæmlega helming stiga sitja Hamrarnir sem áttu sannarlega offdaga í deildinni á síðasta ári en magnaður sigur þeirra í Euro Conference League þýðir að David Moyes hélt starfinu og er að verða einn langlífasti stjórinn í starfi. Sigur þar þýddi sæti í Europa League sem inniheldur þá þrjú ensk lið, við þ.á.m. Augljósasta leyndarmál leikmannakaupa var opinberað í sumar þegar þeir seldu fyrirliðann sinn til Arsenal. Skarð Declan Rice er vandfyllt, þar fór langbesti leikmaður liðsins og heilmikill leiðtogi innan vallar sem utan. Upphæðin var ansi há, dýrasta í sögu enska boltans, en West Ham hefur gengið erfiðlega að eyða þessum peningum, eru að eltast við leikmenn í ólíkar stöður en hafa í dag ekki náð að landa neinum en sterkir orðrómar eru að Edson Alvarez eigi að leysa stöðuna sem Rice skilur eftir sig og þessa dagana eru þeir að ræða við Harry Maguire og James Ward Prowse um samninga eftir að hafa fengið samþykkt tilboð. Stjórinn hefur sagt enn meiri styrkingu á leiðinni, liðið ætli sér að vera í efri helmingi deildarinnar og mikil reynsla þeirra í Evrópukeppnum muni skila þeim góðum árangri. Því má búast við fleiri leikmönnum inn á næstu vikum enda ljóst að sæti Moyes er alveg vel volgt og ef illa gengur í byrjun verður að telja miklar líkur á að hans ferill í Austur London verði ekki mjög langur. Við teljum West Ham verða í miðjumoðinu og auðvitað ekki vinna Evrópudeildina, ergo Moyes out. Líklega fyrr en síðar og þá verði enn á ný gerð tilraun til að fá stærra nafn til að leiða liðið hærra. Völlurinn er byggður fyrir stórlið og Hamrarnir telja sig vera lið af þeirri stærðargráðu að vera alltaf í topp 6 – 8 og farsæla í bikarkeppnum. Ekki í ár. Sorry.

9.sæti Brighton 119 stig

Klárlega mesta spútniklið síðasta tímabils af þeim nokkrum. Stjórinn De Zerbi tók liðið hans Graham Potter og lyfti því á hærra stig, spiluðu flottan fótbolta og enduðu í 6.sæti sem að gefur þeim þátttökurétt í Evrópudeildinni. Liðið hefur hægt og rólega fært sig í þessa stöðu með öflugri uppbyggingu sem sækir í frábæra innkaupastefnu og leikstíl sem einkennist af magnaðri pressu og ótrúlegri elju. Þeir vissulega misstu einn af sínum lyklum til okkar og mögulega verður þeim erfitt að halda Calceido en nú hefur De Zerbi fyrsta sumargluggann og hann hefur verið duglegur. Byrjaði á stálkarlinum James Milner sem ætlað er leiðtogahlutverk, sótti annað gott frjálst í Mahmoud Damoud og kaupin hafa verið spennandi, vængmaðurinn Joao Pedro kemur frá Watford og brasilíski hafsentinn Igor frá Fiorentina. Það verður erfiðasta verkefnið líklega að blanda saman deildarkeppni og Evrópu og við teljum það verða til þess að þeir nái ekki sama árangri þetta árið og verði utan Evrópusætanna í kjölfarið á leiktíðinni þar á eftir. Það er svo bara ansi líklegt að horft verði til stjórans þegar stóru félögin reka sinn mann næst, það er alveg klárt að þar fer einn mest spennandi stjórinn í boltanum í dag. Brighton er hins vegar félag sem er vel rekið og er að verða næstmesta uppáhaldslið ansi margra sem fylgja með enska boltanum, þó að De Zerbi stígi inn á önnur svið er ansi líklegt að annar öflugur myndi fljótt mæta á staðinn. Sérlega verður gaman að fylgjast með því hversu marga leiki töffarinn James Milner spilar í vetur. Hann þarf 14 leiki í deildinni til að fara fram úr Ryan Giggs í 2.sæti yfir flesta leiki í EPL og með 34 leikjum færi hann á toppinn fram úr Gareth Barry!

8.sæti Tottenham 132 stig

Það er höldum við býsna mikilvægt að fíla rússibana ef maður heldur með Tottenham. Ekki langt síðan þeir börðust um titilinn við Chelsea og spiluðu úrslitaleik í CL við okkur með ansi spennandi leikmannahóp. Nýr völlur hefur þýtt að þeir urðu að draga saman í leikmannakaupum og stjóraráðningarnar síðan þeir ráku Pochettino bara einfaldlega ekki gengið upp, svona í bland við hina endalausu sögu um hvort Harry Kane verður hjá liðinu eða fer. Framhaldssagan sú heldur áfram í sumar þriðja árið í röð, þegar þetta er skrifað stefnir í að hann verði um kjurrt en það gæti breyst á morgun. Enn á ný er skipt um stjóra. Nú sóttu þeir Ástralann Ange Postecoglou sem hefur leitt Celtic til gjörsigra í Skotlandi. Kappinn sá er mikill Liverpoolaðdáandi sem hefur náð árangri á minni fótboltasviðum og stígur nú inn á það stóra í Englandi. Hann leggur mikið upp úr mikilli hápressu og liðin hans eiga það sammerkt að skora mikið af mörkum, nokkuð sem hann lofar að verði áherslan í vetur. Við höfum áður minnst á Kane sem spurningamerki en hann hefur tjáð ánægju sína á leikmannakaupum sumarsins…sem hafa farið nokkuð undir radarinn. Maddison kom frá Leicester, hægri bakvörðurinn Porro er framtíðarmaður hjá Spáni, markmaðurinn Vicario gríðarlegt efni frá Ítalíu og nú allra nýjasta er hafsentinn sem við vorum lengi orðaðir við, hann Micky van de Ven kominn til Norður London. Stjórinn fær ansi marga til baka úr láni og segist ætla að gefa þeim annan séns…eða selja þá, ekki lán í boði. Við höfum takmarkaða trú á verkefninu, teljum líklegt að Kane endi hjá Bayern og nýju leikmennirnir muni ekki koma liðinu í Meistaradeildina. Niðurstaða spárinnar upp á 8.sæti myndi væntanlega þýða enn á ný nýjan mann í brúnni haustið 2024.

7.sæti Aston Villa 138 stig

Rétt ofan við Tottenham situr Birmingham liðið sem var klárlega eitt af spútnikliðum síðasta tímabils, þ.e.a.s. eftir að okkar maður Stevie G. sleppti stjórnartaumunum á Villa Park og Unai Emery tók við. Sterk lína í gegnum liðið sem hófst með Martinez í markinu, þar fyrir framan Mings, McGinn og Watkins að skora. Í sumar sóttu þeir svo sterka leikmenn, hægri vængmanninn Moussa Diaby og hafsentinn Pau Torres svo augljóslega á að byggja á góðu gengi, Evrópusæti er markmiðið hjá þeim vínrauðu og við höldum að þeir verði nálægt því og svei mér ef við fáum þá ekki í úrslit í annarri hvorri bikarkeppninni því Emery hefur náð fínum árangri í gegnum sinn feril í útsláttarkeppnum. Það sem gæti þó reynst þeim erfitt er að það er ekki mikil breidd í lykilstöðunum, sérstaklega fram á við en það er ekkert ólíklegt að þeir muni sækja styrk þar áður en glugginn lokar. Villa hefur á undanförnum árum líka verið með eitt öflugasta unglingastarfið og Emery hefur verið óspar á lýsingar þess að hann ætli sér að nota áfram unga leikmenn í vetur með það að markmiði að koma liðinu enn ofar á næstu árum. Við teljum þá ná að byggja á árangri síðasta vetrar og muni enda í 7.sæti sem gefur Europa Conference League sæti ef að liðin í topp 6 vinna bikarkeppnirnar báðar. Það gæti þýtt enn stærri skref fyrir þennan sofandi risa í næststærstu borg Englands sem hefur einn skemmtilegasta heimavöll enska boltans, alvöru gamaldags enskt stadium en af góðum gæðum. Það er þó saga félagsins í gegnum tíðina að oft þegar risið hefur verið hátt hefur komið fall í kjölfarið. Það væri ekkert óvæntasta atvik vetrarins ef svo færi, en við erum ekki á því!

6.sæti Newcastle 149 stig

Ríkasta liðið í ensku deildinni náði afbragðs árangri á fyrsta ári eignarhalds Saudi Arabíu hjá Newcastle. Eddie Howe keypti leikmenn sem féllu vel inn í hans hugmyndafræði og þeir voru bara allan tímann í meistaradeildarsætunum fjórum og taka því þátt þar í vetur. Styrkleikarnir liggja víða, þeir eru gríðarlega sterkir líkamlega og skoruðu mikið úr föstum leikatriðum, varnarlínan mjög öflug og hraðinn framávið skapaði mikinn usla. Heimavöllurinn sá háværasti í deildinni og ekki mörg lið sem tóku stigin þaðan (sem við vissulega gerðum). Nú þarf liðið að keppa á fleiri stórum vígstöðvum og það verður stórt verkefni þar sem þeirra helsti vandi var lítil breidd. Enn sem komið er hafa þeir þó ekki farið mjög mikinn á leikmannamarkaðinum en það er vissulega þannig að þeir eru nefndir víða í leikmannaslúðri. Þeir sóttu Harvey Barnes til að bæta við sóknarleikinn, bakvörðurinn Livramento kominn frá Southampton og Sandro Tonali verður gaman að fylgjast með í enska boltanum, Ítalir svolítið annað hvort verið frábærir eða ömurlegir þar en kaupum á honum er ætlað að festa sess Bruno Guimares í sexunni með Tonali í áttunni. Báðir hæfileikaríkir sendingamenn og duglegir í báðar áttir, gæti hreint alveg gengið upp. Howe hefur sagt það að liðið verði styrkt áður en glugginn lokar og það auðvitað hefur áhrif á hvað verður. Á þessum tímapunkti teljum við þó Newcastle lækka flugið og lenda utan toppsætanna fjögurra og þá fyrst og fremst því það er ekki mikil reynsla af þátttöku í stóru Evrópuverkefni í félaginu. Kannski meiri von en vissa, það er alveg ljóst að við félagar fílum eignarhald liðsins og umgjörð bara alls ekki. Þeir munu þó samkvæmt okkur lenda í sæti sem ætti að gefa þeim EL sæti næsta leiktímabil og sjáum þá fara langt í bikarkeppnum en muni leika með okkur í EL eftir áramót, meistaradeildarbitinn of stór í fyrstu tilraun liðs og stjóra.

5.sæti Chelsea 161 stig

Farsinn sem er þetta lið. Abramovich hættir og þá kemur bara inn eignarhald sem eyðir MEIRI peningum en hann gerði og sum kaupin stjarnfræðilega yfirborguð. Todd Boehly hafði líka lesið regluverk um FFP duglega og nýtti sér alls konar holur í því til að dreifa kaupgreiðslum á langan tíma og tók upp á þeirri nýlundu líka að gera 6 – 8 ára samninga þar sem að kostnaði var dreift. UEFA og EPL eru að gera eitthvað í því og þá allt í einu kemur inn frétt um það að eignarhald félagsins sé í raun í höndum Clearlake Capital sem Boehly á stóran hlut í…með ákveðnum sjóð sem heitir PIF og sá á Newcastle að stórum hluta og nú fjögur stærstu liðin í þeirra heimalandi. Stuttu síðar seldi Chelsea þrjú stór nöfn til Saudi og hreinsuðu vel upp launaseðilinn og miðað við fréttir þá gætu enn fleiri haldið þá leið. Nýr stjóri mættur með mikla reynslu, Pochettino þekkir auðvitað ensku deildina vel og hefur verið ákveðinn í öllum viðtölum. Chelsea á að berjast um titla og það er markmiðið. Þeir hafa verið að bæta inn í liðið, framherjarnir Nkunku (RB Leipzig) og Jackson (Villareal) stærstu nöfnin en það er alveg klárt að fleiri eiga eftir að bætast við, þeir ætla að bæta við miðjumönnum og fjölga í varnarmannahópnum og miðað við síðustu glugga gæti allt gerst. Ekki síst eftir að Fofana virðist út allt tímabilið og Nkunku meiddist illa á undirbúningstímabilinu. Við teljum Chelsea ekki ná meistaradeildarsætinu og í raun bara gæti allt gerst þarna. Heilmikið óvissustig þó við vissulega höfum trú á Pochettino. Ef fimmta sætið verður svo niðurstaðan er ekkert víst að það verði sami stjóri sem klárar á Brúnni og sá sem hefur leiktíðina!

4.sæti Manchester United 171 stig

Þið vitið, þarna liðið sem við unnum 7-0 í fyrra! United fór í talsverðan rússibana síðasta tímabil, byrjuðu á að steinliggja fyrir Brentford en komust svo á ákveðið svið. Stjórinn Ten Hag tók til í leikmannahópnum, þ.á.m. með því að láta Ronaldo fara og þeir fóru á fínt deildar rönn auk þess að vinna Carling bikarinn, fyrsta titilinn þeirra í nokkur ár. Í kjölfarið fór allt niður á við. Var ég búinn að segja að þá unnum við þá 7-0 en að lokum náðu þeir sér í meistaradeildarsæti á ný á þessari leiktíð. Í sumar hefur Ten Hag haldið áfram að leggja upp sínar áherslur og breytt leikmannahópnum í samræmi við það. Markmannsskipti hafa lengi legið í loftinu og De Gea fékk að lokum ekki nýjan samning og í stað hans er Onana mættur milli stanganna, nokkuð sem Ten Hag hafði lengi viljað gerast en á sannarlega eftir að koma í ljós hvernig gengur. Onana er mikið ólíkindatól, rosalegur línumarkmaður og flottur í fótunum en gerir reglulega töluverðar gloríur, nokkuð sem gæti orðið erfitt í þeim aðstæðum sem EPL er. Auk markmannsskiptanna keyptu United svo Mason Mount til að bæta sóknarleikinn á miðjunni og danska ungstirnið Höjlund á að taka við níunni sem þeir notuðu Wieghorst í á síðasta tímabili. Eyðsla Ten Hag helst bara í hendur við net spend síðustu ára og það er alveg klárt að miðað við þær upphæðir ætti United að vera að keppa um titil í ár eins og þau síðustu. Hann er þó þetta sumarið að reyna að losa töluvert af leikmönnum sem hann telur ekki ráða við sitt verkefni, áðurnefndur De Gea einn af þeim, Maguire á leið til West Ham, Elanga til Forest og hann ætlar a.m.k. að selja McTominay, Henderson og van de Beek til að fjármagna enn fleiri kaup og gera atlögu að því að lyfta Úrvals- eða Meistaradeildarbikar. Við teljum þá ekki vera þar en keppa við okkur um þriðja sætið í deildinni, muni tapa þeirri baráttu. Þeir endi í 4.sæti og verði því áfram í Meistaradeildinni á næsta ári, þó auðvitað við vonum öll að neikvæðu hliðarnar sem sáust reglulega hjá United liðinu í fyrra verði enn oftar í ár og þeir verði neðar.

3.sæti Liverpool 178 stig

Jæja, þá sjáiði hvar okkar menn lenda. Tímabilið í fyrra klárlega mesta vonbrigðatímabilið frá því Klopp kom, meistaravonir horfnar í október, félllum snemma út úr bikarkeppnum, í 16 liða úrslitum CL og eftir smá von um að ná meistaradeildarsæti varð endirinn 5.sætið. Langt frá vonum og væntingum, þ.á.m. okkar sem spáðum jú titlinum í síðustu spá. Einn okkar gerir það í ár, Maggi Beardsley hefur tröllatrú á verkefninu og telur titilinn, bikarlyftingu og opinrútutúr í uppsiglingu. Við höfum losað 7 leikmenn og fengið inn 2 í staðinn, eftir alls konar yfirlýsingar í vor um að risagluggi væri framundan er enn stórum spurningum ósvarað. Við munum fara inn í fyrsta leik án varnarmiðjumann sem reynslu og í æfingaleikjunum hefur varnarleikurinn litið hroðalega út. Þeir tveir sem voru keyptir hafa þó litið vel út og munu Mac Allister og Szoboszlai spila lykilhlutverk í liðinu og þurfa að verða tilbúnir frá fyrsta leik, sóknin lítur dásamlega út en varnarhlutverkin verða að fá styrkingu áður en glugginn lokar ef markmið um að ná aftur meistaradeildarsæti eiga að nást. Við höfum tröllatrú á stjóranum okkar og teljum það muni fyrst og fremst vegna hans takast nokkuð örugglega sem hópur en við fórum víða í spánum okkar. Einar og Steini spá 2.sæti, Siggi, Daníel og Óli segja 3.sæti, Ingimar og Hannes segja 4.sæti en Maggi og Eyþór eru svartsýnastir og telja 5.sætið verða niðurstöðuna. Það eru þrjú ár eftir af tíma Klopp og hann vill ná bikurum, það væri skemmtilegast að vinna Europa League af bikurunum og þar með komast í CL óháð deildargengi. Það mun allt standa og falla með því að Klopp fái þá leikmenn sem hann vill. Ef það tekst ekki og við fáum tímabil í líkingu við það síðasta þá verður nú líklega enn fjölmennari hópurinn sem öskrar FSG mennina út og burt!

2.sæti Arsenal 188 stig

Jafn erfitt og það er þá eru Arsenal menn að okkar mati aftur mættir sem stabílt topplið í enska boltanum, við söknuðum þeirra ekki neitt úr þeirri baráttu og satt að segja er stjórinn þeirra á góðri leið með að ná vinsældum Móra og Pep á meðal stuðingsmanna LFC, enda óskaplega upptekinn af því að tala okkar klúbb niður. Frábært tímabil Skyttanna í fyrra endaði á súru gengi sem varð til þess að þeir misstu af titlinum eftir að hafa verið efstir í 26 umferðir af 38. Þetta sumarið hafa Arsenal sannarlega horft til þess að styrkja leikmannahópinn verulega og markmiðið augljóst, Arteta ekkert hikað við að staðfesta það að þeir ætla að verða meistarar. Liðið spilar hápressufótbolta með áherslu á sóknarleik og ef að nýju mennirnin Haverts og Declan Rice smella inn í þetta lið fara þeir nálægt markmiðinu, það er klárt. Það er alveg klárt að áhangendur Arsenal eru spenntari en allir aðrir þetta haustið, viðsnúningur liðsins síðustu tvö ár er mikill og Arteta er að ná svipuðum sess hjá þeim og Klopp er hjá okkur. Auk nýju leikmannanna eru mikil gæði í þessum leikmannahóp og þeir vita nákvæmlega hvers er ætlast af þeim af þjálfarateyminu. Við þó teljum önnur silfurverðlaun framundan í Norður London og þá aðallega vegna þess að við teljum baráttu þeirra á stóru vígstöðvunum tveimur samtímis, EPL og CL, verði þeim þungt í skauti. Það er þó þannig að einn okkar telur þá geta orðið meistara, Ingimar tippar á fögnuð á Emirates í vor og frekari landvinninga Skyttanna (Gunners) í framhaldinu.

1.sæti Manchester City198 stig

Æ. Hvað á maður að segja. Fyrir alla aðra en City-aðdáendur er þetta lið bara grútleiðindin uppmáluð. Hafa sýnt það að með því að kaupa bestu leikmenn í boði og borga þeim sultuhá laun er hægt að búa til besta lið í heimi. Svosem ekki síst með því að sveigja og beygja (brjóta) alls konar eignarhaldsreglur sem virðast ekki pappírsins virði. Það þarf þó að byggja upp klassalið með stórstjörnum og það er Manchester City einfaldlega. Stjórinn er ekki að fara að fá nein vinsældarverðlaun frá okkur en hann hefur náð að búa til liðsheild úr öllum þessum stjörnum og alltaf náð að bæta við leikmannahóp þegar lykilmenn hafa farið. Í sumar hafa þeir horft á eftir Mahrez og Gundogan auk þess sem þeir munu væntanlega kveðja fleiri. Í staðinn keyptu þeir Kovacis frá Chelsea og sóttu mest spennandi hafsent, Gvardiol, frá Leipzig. Við vitum svo öll að þegar líður á gluggann er alveg viðbúið að City hendi inn tilboðum í risanöfn, það hafa þeir bara alltaf gert og eru fullt eins líklegir til að gera það áfram. Við teljum enda liðið vinna titilinn örugglega, þann fimmta á sex árum og halda bara áfram að vera óþolandi sigursælir. Æji, ojbara og fokk!

Og með því er hægt að flauta keppnina á – Kopverjar hafa talað! Á næstu dögum kemur inn byrjunarpodcastið okkar, fyrsta upphitun og leikskýrsla. Það er alltaf kitl þegar liðið hefur stillt sér upp í rásmarkið og við vonum og treystum því að framundan sé heilmikil skemmtun.

Come on you Reds!

7 Comments

  1. Að spá Liverpool þriðjasæti er nátturulega bara draumur kopverja 🙂
    Minn draumur væri að sjálfsögðu að spá Liverpool titlinum.

    Mín spá fyrir átta efstu byggð á stöðunni miðað við mannskap núna.
    1 Man City
    2 Arsenal
    3 Chelsea
    4 Man Utd
    5 Newcastle
    6 Aston Villa
    7 Tottenham
    8 Liverpool

    Ég hef nú grun um að þessi fimm stóru munu vera í sérflokki og slíta sig frá hinum liðunum

    5
  2. Ætli Einar og Steini séu ekki sekir um að smita spána sína töluvert með vonum þetta árið….Það væri í það minnsta mjög gaman að heyra þá rökstyðja afhverju þeim finnst það líklegra en ekki að LFC endi fyrir ofan Arsenal á tímabilinu sem er að hefjast. Ég vonast auðvitað eftir því að við verðum meistarar en ég myndi ekki setja pening á það….Ef allt gengur upp þá tel ég að við gætum náð í þriðja sætið en því miður finnst mér 5-6 sætið líklegasta niðurstaðan….að því sögðu þá þarf að koma FSG frá!

    3
  3. Liverpool vinnur deildina að sjálfsögðu. Ekkert kjaftæði strákar. Trúa fram í rauðan …..

    2
  4. 1: liverpool
    2: man city
    3: arsenal
    4: newcastle
    5: chelsea
    6: tottenham
    7: man utd
    8; everton

    verðum komnir með lavia í næstu viku og einn í viðbót fyrir lok ágúst, kæmi mér ekki á óvart að einhver sem enginn vissi af yrði kynntur á næstu dögum.

    dreg andann rólega, ég hef engar áhyggjur af chelsea um helgina, rusl lið sem endaði hvað í 10 sæti á síðustu leiktíð og búnir að hvað endurnýja allt liðið aftur, ekki séns að þeir séu með samstilltan hóp í leikinn um helgina, skellti captain á salah í fantasy.

    1
  5. Liverpool í fyrsta sæti
    .
    Man United í sjötta sæti
    .
    Everton í átjánda sæti

    • Höskuldur ertu ekki full bjartsýnn með gengi man utd og Everton?
      Everton lenda í síðasta sæti og man utd fara af taugum og verða búnir að reka stjórann fyrir áramót eins og þeir gerðu við Ola hinn norska sem þó skilaði þeim betri stöðu í deildinni en núverandi stjóri tímabilið á undan, áður en hann fékk óvænt í fangið portúgölsku prinsessuna og varð að fara að reyna að nota hana í liðið.

      1
  6. 1. Liverpool
    2. City
    3. Newcastle
    4. Arsenal
    5. Aston Villa
    6. Chelsea
    7. Brighton
    8. man utd
    9. Tottenham
    10. Crystal Palace

Spá Kopverja er mætt!

Gullkastið – Barátta við Chelsea innan sem utan vallar