Spá Kopverja er mætt!

Já mín kæru.

Enn eitt árið setjumst við niður til að skutla inn okkar spá fyrir tímabilið sem hefst föstudaginn 11.ágúst þegar meistarar City mæta til nýliða Burnley og Vincent Kompany. Það er vissulega býsna bratt að henda í spá þegar enn eru rúmar þrjár vikur eftir af glugganum og kannski rétt núna bara að koma hraði í leikmannakaup liðanna en við gerum það nú samt. Fyrst er þó ágætt að rifja upp spádómana okkar frá í fyrra…eða kannski bara ekki? Júbb, kíkjum.

Við spáðum Liverpool meistaratitli, líklega ölvaðir eftir tímabilið á undan og sigur í Community Shield, sannarlega stóðst það ekki. Við spáðum City, Spurs og Chelsea hinum CL-sætunum og Bournemouth, Brentford og Fulham falli. Svo líklega hætta flestir að lesa bara núna!

Hér gefast menn ekki upp og við leggjum af stað eins og fyrr með liðin í sætum 11 – 20 og topp 10 kemur svo á fimmtudaginn. Við vorum 10 sem spáðum og röðuðum liðunum öllum upp, það lið sem hver spáði sigri fær 20 stig og það sem var neðst 1 stig. Mest hægt að ná 200 stigum og minnst 10 stig. Endilega hendið ykkar spám í athugasemdir við þessa spá okkar félaga.

Byrjum ballið!

20.sæti Luton Town 11 stig

Það er bara þannig að óháð öllum öðrum öskubuskuævintýrum EPL þá er Lutonliðið það langstærsta hingað til. Fólk þarf beinlínis að mæta þarna til að átta sig á því. Liðið er það fyrsta í sögunni sem spilar í Úrvalsdeildinni eftir að hafa leikið í utandeildinni eftir 1992 þegar EPL var stofnuð, völlurinn þeirra er sá minnsti og var í fyrra talinn í botn þremur næstefstu deildar þegar kemur að aðstöðu fyrir áhorfendur, aðgangur fyrir útivallaraðdáendur beinlínis í gegnum stigagang í íbúðaröð. Við elskum auðvitað öll slík ævintýri og ljóst mál að það verður mjög spennandi að fylgjast með liðinu sem hefur byggt upp leikmannahóp á frjálsum sölum, lánsmönnum og uppöldum strákum. Í sumar hafa þeir nú slegið kaupmet sín oftar en einu sinni, stendur nú í rúmum 5 milljónum sem þeir notuðu til að kaupa vinstri bakvörðinn Ryan Giles frá Úlfunum. Þeir keyptu leikmenn úr neðri deildunum og hafa sótt lánsmenn til að verða klárir í slag meðal þeirra bestu og nú nýjast sóttu þeir fyrrum draumstirni Everton, miðjugaurinn Ross Barkley til að taka þátt í verkefninu. Völlurinn þeirra er enn í uppfærslu til að verða leikhæfur í Úrvalsdeildina svo þeir sitja yfir í fyrstu umferðinni og við munum því þurfa að bíða fram í aðra umferð til að sjá hvernig þeir verða í stakk búnir til að standa í baráttunni. Eins og í öllum öðrum spám teljum við liðið ekki eiga séns á meðal þeirra bestu, við spáum þeim langneðsta sætinu en ég held að okkur langi öllum að það verði með þeim hætti að þeir nái að sparka aðeins frá sér og þetta skref verði til þess að liðið fari nú og byggi sér nýjan völl sem lengi hefur verið í kortunum.Það er ákveðin nostalgía að hafa liðið á meðal þeirra bestu, því á okkar gullaldarárum á níunda áratugnum var ansi skemmtilegt Lutonlið á meðal keppinautanna. Nokkuð viss um að Lutonmaður númer eitt á Íslandi muni rúlla fljótlega á leik á Kenilworth Road og upplifa efstudeildarleik þar. Upplifun held ég!

19.sæti Sheffield United 25 stig

Sverðin (The Blades) úr stálborginni í Jórvíkurskíri komu nokkuð á óvart í fyrra. Það voru ekkert margir sem spáðu þeim góðu gengi en hægt og rólega varð ljóst að liðið væri á meðal þeirra sterkustu og svo fór að þeir fóru örugglega upp í deild þeirra bestu á ný. Þeirra markahæsti maður Ndiaye var svo seldur til Marseille í kjölfarið og nú bara í dag fór þeirra sterkasti maður, hinn norski Sander Berge, til Burnley að hægt verði að styrkja fleiri leikstöður, nokkuð sem þeir sannarlega þurfa og hafa lítið náð að gera í sumar en strax við sölu Berge þegar þeir sóttu Brasilíumanninn Sousa til Belgíu – en fleiri þurfa að koma í kjölfarið. Stjórinn Paul Heckingbottom hefur sagt veturinn í vetur vera ævintýri sem liðið ætli að nýta til að styrkja klúbbinn upp til lengri tíma og hefur alla trú á því að þeir nái góðum árangri. Þeir eru með innanborðs þrjá leikmenn sem fóru í gegnum okkar yngri liða starf sem gaman verður að fylgjast með. Fallið var töluvert hjá Rhian Brewster sem við seldum þeim fyrir töluverðar upphæðir og hann hefur lítið náð að festa sig í sessi hjá þeim, hvað þá skorað! Um vinstri bakvarðarstöðuna í vetur slást þeir Jack Robinson sem var á sínum tíma yngstur til að spila fyrir LFC og nýliðinn Larouchi sem þeir fengu lánaðan í sumar frá Troyes en fór frá LFC fyrir tveimur árum. Þrátt fyrir þessa tengingu höfum við enga trú á því að þeir nái að halda sæti sínu, það vantar einfaldlega of mikið uppá í leikmannahópnum og þeir fara beint niður. Það er nokkuð líklegt að þarna verði skipt um stjóra ansi fljótlega!

18.sæti Bournemouth 46 stig

Töluverður stigamunur er frá Bournemouth og í liðin fyrir neðan enda fórum við víða um þriðja liðið til að falla en flestir sammála um þau sem fengu sæti 19 og 20 í spánni. Það er nokkur frétt og ákveðinn sigur kannski fyrir suðurstrandarliðið að vera ekki lengur minnsta liðið í ensku deildinni, það breyttist þegar Luton vann sér sæti á meðal þeirra bestu. Eftir býsna gott gengi Suðurstrendinga síðasta leiktímabil kom ansi óvænt ákvörðun nú í vor þegar þeir ákváðu að reka Gary O‘Neill og réðu Spánverjann Andoni Iraola í hans stað. Sá spænski náði góðum árangri með Rayo Vallecano á síðustu leiktíð og hann á að koma með „aðra gerð af fótbolta“til Bournemouth miðað við fréttir vorsins. Sjáum til hvernig það gengur en í sumar hafa þeir verið að sækja leikmenn úr neðri deildum Englands á lágar upphæðir og frjálsar sölur í bland. Það er ljóst að ef að árangur á að nást mun nýji stjórinn þurfa að ná í töluvert af leikmönnum áður en glugginn lokar. Við sjáum svo til hver leikstíllinn verður, því það var jú sennilega það sem varð til þess að stjóraskipti urðu og Gary O‘Neill tók við. Það er þó okkar skoðun að liðið muni ekki ráða við það verkefni að lifa annað árið í stærstu deildinni og falli á sínu „second season syndrome“ en þó með baráttu fram á síðustu stund – semsagt fallspá frá okkur annað árið í röð en það var vissulega bara fínt fyrir þá í fyrra. Miðað við skyndirekstur stjórans í fyrra eftir risatap á Anfield hugsum við að töluverður skjálfti sé á meðal Suðstrendinga að mæta þangað í fyrsta útileik tímabilsins, eigum við ekki að bara segja endurtekning og stjórinn fýkur strax…og þó.

17.sæti Everton 52 stig

Blánefirnir eru að fara inn í síðasta tímabilið sem litli nágranninn okkar, vorið 2024 lokar Goodison Park hurðunum í síðasta sinn og liðið færir sig niður á Dokkina við Merseyána á nýjan völl. Það verður svo að koma í ljós hvort að sá völlur verður vettvangur Úrvalsdeildarinnar frá næsta hausti því það er sannarlega þannig að Everton hefur bara alls ekki verið á góðu róli síðustu ár. Peningamálin eru afskaplega óviss, bæði kostar völlurinn háar upphæðir en þeir hafa enn ekki fengið inn fjárfesti eftir að þeirra aðalmaður var eignafrystur vegna tengsla við Rússland. Þeir hafa því ekki náð að styrkja liðið af viti síðustu ár og sama hefur verið uppi á teningnum í sumar eftir að vera nærri því fallnir í fyrra. Stóru kaupin hjá stjóranum Dyche hingað til er Ashley Young, toppiði það! Það hefur auðvitað ekki hjálpað þeim að þeirra besti maður, Calvert Lewin er nánast alltaf meiddur og því sóknarleikurinn verulega bitlaus sem ekki svo batnar við það að Demarai Gray hefur neitað að mæta til æfinga og ætlar burt. Það er mikil óvissa framundan hjá þeim bláklæddu en við teljum þá muna sleppa naumlega við fall og endi í 17.sæti annað árið í röð eftir fallbaráttu til lokaumferðar, sennilega bara á betri markatölu! Ef við hörfum til lengri tíma hjá Everton verður þetta óttalegt bras þar til nýtt fjármagn kemur inn í klúbbinn, jafn flottur og völlurinn virðist verða og staðsetningin góð.

16.sæti Wolves 56 stig

Klárlega óskrifaðasta blaðið þetta sumarið og það sést hjá okkur spámönnunum. Fjórir okkar spá þeim falli en þeir ná alveg í 10. og 11.sæti hjá öðrum, nokkuð sem er skýr birtingarmynd þess farsa sem verið hefur í sumar. Þeir seldu Ruben Neves á yfirverði og þá var stjóranum Lopetegui lofað upphæðum til að eyða, nokkuð sem svo er að koma í ljós að virkar ekki þar sem eigendurnir virðast ekki tilbúnir að setja mikinn pening í leikmannakaup. Stjórinn Lopetegui sannarlega ekki ekki sáttur þar sem hann er töluvert stærra nafn en klúbburinn og náði mjög góðum árangri eftir að hafa komið í brúna á Molineux vellinum sem er sterkt vígi sem skilar þeim flestum sinna stiga. Enda fór það svo að nú í vikunni ákvað hann að nóg væri komið enda ljóst að hans nafn hefur nú meira vægi í Englandi og hann ekki í vanda með að finna starf. Ljóst er að þetta hefur legið fyrir í einhvern tíma því strax á eftir eiginlega var tilkynnt að Gary O‘Neill tæki við og þá líkamnast nú markmið eigendanna líklega, vinna fallbaráttuslag og fá að vera áfram á meðal þeirra bestu. Auk Neves seldu þeir Jimenez til Fulham en hafa enn bara fengið einn nýjan leikmann inn, bakvörðinn Matt Doherty en þó vissulega keypt tvo af lánsmönnum síðasta tímabils í þeim Cunha og Traore. Lokaniðurstaða spárinnar er að Úlfarnir haldi sæti sínu og endi í Gleðibankasætinu númer 16 sem myndi teljast afskaplega ásættanlegt eins og farsinn stendur núna en við teljum að það eigi eftir að senda eina 9 sæta vél með leikmönnum frá Portúgal að venju sem landi þessu – og útaf Liverpool tengingu nýja stjórans sem sannarlega vill sanna sig eftir góða niðurstöðu Bournemouth undir hans stjórn síðasta tímabil. Lopetegui verður hins vega mjög líklega fyrstur inn þegar losnar starf hjá liði sem á séns á efri helmingi deildarinnar.

15.sæti Burnley 60 stig

Að mörgu leyti spennandi pæling í gangi rétt norðan við okkar dásemdarborg. Vincent Kompany var ráðinn þegar Burnley féll og hann gjörbreytti hugmyndafræði og spilamennsku þeirra frá iðnaðarboltanum byggðum á líkamsburðum og löngum sendingum í það lið sem var klárlega best spilandi liðið í næstefstu deild, sóknarbolti og töluverður hraði sem skilaði liðinu stigameti og því að vera komnir upp langt fyrir lok tímabilsins. Það er sannarlega stórt skref á milli þessara deilda og það verður alveg spennandi að sjá hvernig þetta mun virka á töluvert hærra getustigi, Kompany hefur alveg gert það klárt að þeir muni byggja á sama uppleggi í ár. Stjórinn hefur verið mjög aktívur i sumar, þegar þetta er skrifað hafa níu leikmenn skrifað upp á þátttöku með þeim í vetur og dreifing leikstaðna í þeim kaupum mikil. Enski U21s árs markmaðurinn James Trafford kemur frá City, svissneski landsliðsframherjinn Amdoumi frá Basel og þeir tóku þrjá af öflugustu leikmönnum Championship með sér, hafsentinn O‘Shea frá WBA, framherjann Obafemi frá Swansea og nú nýjast norska landsliðsmanninn Sander Berge frá Sheffield United. Kompany hefur sagt þá ekkert hætta að horfa í styrkingu og markmiðið sé að vera í topp 10, sæti sem á að byggjast á sömu aðferðarfræði og í fyrra. Við teljum það vera of langt skref en þeir halda sætinu í deildinni nokkuð örugglega einir þeirra liða sem koma upp. Væntanlega sem svo þýðir að Kompany fær stórlið í deildinni fljótlega! Það verður klárlega gaman að sjá þá kljást við City í fyrsta leik deildarinnar á föstudagskvöldið!

14.sæti Nottingham Forest64 stig

Okkar gömlu Skógarfjendur áttu ansi áhugavert tímabil. Skiptu bara hreinlega um lið fyrir tímabilið og lögðu af stað í brasi en unnu sig vel á og voru satt að segja aldrei í neinni hættu að falla. Bjuggu til heilmikið vígi á City Ground þar sem þeir tóku flest sín stig í gríðarlegum hávaða og fjöri. Gamli unglingaþjálfarinn okkar Steve Cooper orðinn einn af spennandi stjórunum, virkaði sterkur taktískt og bætti liðið eftir því sem á tímabilið leið. Þetta sumar hefur hann ekki bætt sama haugnum af mönnum við liðið og segist ætla að byggja á kjarnanum frá síðasta tímabili, hefur keypt Elanga og Wood í framlínuna og nýjast landsliðsmarkmann USA, Matt Turner frá Arsenal. Forest er auðvitað gamalt stórveldi og ætla sér að gera liðið að stabílu Úrvalsdeildarliði sem hægt og rólega nái fyrri sess. Það er sannarlega saga af ríg milli þeirra og okkar og góðvinur okkar Kopfélaga hann Matty segir bestu tilfinningu heims vera að hirða þrjú stig þar, nokkuð sem ekki tókst í fyrra. Við teljum frændur Hróa Hattar verða á sama róli í fyrra í neðri hlutanum en ekki í alvarlegri fallhættu, heimavöllurinn er feykilega sterkur og spennandi leikmenn inn á milli í liðinu í bland við líkamlega sterka varnarjaxla. Stjórinn verður væntanlega á ferðinni fljótlega ef svona fer, því hann hefur umturnað klúbbnum sem hann tók við í fallsæti næstefstu deildar fyrir einungis tveimur árum!

13.sæti Crystal Palace72 stig

Þegar Palaceliðið lendir í vanda þá virðist alltaf svarið vera, rekum þjálfarann sem var að reyna einhverjar kúnstir og sækjum okkur einhvern sem bara nær úrslitum no matter what…já og helst Roy Hodgson. Það gerðu þeir vissulega í fyrravor og ákváðu að staðfesta þá tímabundnu ráðningu í sumar svo að kappinn sá hefur leik í deildinni nýorðinn 76 ára gamall. Jább, það er bara þannig. Palace misstu í sumar sitt stærsta nafn í Wilfred Zaha og hafa farið óskaplega rólega á leikmannamarkaðnum. Það virðist eins og Hodgson ætli að taka sér góðan tíma í að meta leikmannhópinn en mun nú væntanlega bæta við áður en glugginn lokar. Það verður þó líklega stóra mál Suður-London manna að halda í sína lykilmenn. Þeir Doucoure, Anderson, Eze og Guehi eru eftirsóttir og alls ekkert víst að þeir verði blárauðir 1.september auk þess sem markmaðurinn þeirra Guaita er í verkfalli og vill fara. Þrátt fyrir alls konar blikur á lofti teljum við árangurinn verða svipaðan og undanfarin ár, neðan við miðju en ekkert fallstress þar sem liðið hefur orðið mikla reynslu af bardaganum í neðri hluta efstu deildar og þó við auðvitað séum ekki að senda stjóranum Hodgson nein jólakort og reynum að gleyma hans tíma á Anfield virðist kemistría hans og Palace tryggja þeim alltaf sætið á meðal þeirra bestu. Það er þó klárt að hann þarf að styrkja leikmannahópinn og mun gera það!

12.sæti Fulham 85 stig

Enn eitt spútniklið síðasta tímabils. Margir töldu þá halda áfram jójó-inu sínu milli deilda en það varð öðru nær, enduðu í 10.sæti og voru á tímabili í bardaganum um Evrópusætin. Stjórinn Silva að fá uppreisn æru eftir vesen hjá Everton og margir leikmenn gripu augað, Bernd Leno var flottur í markinu, hafsentinn Tete og mögulega bestu kaup tímabilsins var miðjumaðurinn Palinha sem kom frá Portúgal og átti frábært tímabil djúpur á miðju. Lykillinn varð þó sennilega sá að loksins tók Mitrovic sig til og skoraði mörk reglulega á efsta þrepi. Núna er því lykillinn að velgengninni að þeir haldi þessum mönnum sem er alls ekki sjálfgefið. Lengi í sumar hefur stefnt í það að Mitrovic stefni í Arabíugullið og mögulega er það þannig að það besta sem kom fyrir þá að Palinha meiddist nú í sumar og hefur því áhuginn auðvitað kólnað í bili. Bardaginn því að halda kjarnanum áfram eftir mánaðamótin og væntanlega bæta í. Hingað til hafa fáir labbað inn um dyrnar á endurgerðum Craven Cottage við Thamesána, nígeríski hafsentinn Bassey þó kominn frá Ajax og Raul Jimenez frá Úlfunum en alls konar kjaftasögur í gangi. Við teljum flugið á Fulham lækka aðeins en þeir verði töluvert frá fallströgglinu og endi um miðja deild, byggt á því að lyklarnir í liðinu verði þar áfram.

11.sæti Brentford95 stig

Við höfum lært okkar lexíu. Brentford er lið sem ræður vel við ensku úrvalsdeildina og munu alls ekki vera í neinu fallströggli heldur fara bara áfram í pakkann um miðja deild líkt og í fyrra. Stjórinn Thomas Frank er sannarlega spennandi og hefur náð alveg ótrúlega miklu út úr því verkefni sem landar hans frá Danmörku í eigendahópnum hafa lagt grunn að nú á síðustu árum. Það er vissulega þannig að hér er á ferðinni aðeins mildar útgáfa af “kick and run” skyndisóknabolta en það er þó algerlega þannig að í liðinu eru afskaplega liprir fótboltamenn, varnarmaðurinn Pinnock er öflugur, miðjan er leidd af Dönunum Nörgaard og Jensen og svo er það Toney…uuu þegar hann kemur úr veðmálabanninu. Þeir vissulega seldu markmanninn sinn Raya til Arsenal, sá átti frábært tímabil en þeir voru undirbúnir fyrir það og höfðu keypt hollenska markmanninn Mark Flekken frá Freiburg, sá hefur átt farsælan feril í Þýskalandi og hefur leikið afar vel á undirbúningstímabilinu. Auk hans keyptu þeir hafsentinn Nathan Collins frá Úlfunum og öskufljótan vængmann, Kevin Schade einnig frá Freiburg, hann mun valda mörgum skaða! Heimavöllur Brentford hefur verið mikið vígi og hafa stóru liðin hreint ekki farið vel út úr heimsóknum þaðan, við munum sannarlega vonast eftir því að slá metið okkar yfir mörk fengin á sig þar eftir að hafa lekið þremur síðustu tvö tímabil og svei mér kannski vinna þar leik! Niðurstaða Brentford er að verða efstir á neðri enda töflunnar og áframhaldandi þátttaka í efstu deildinni á Englandi.

Þá lýkur yfirferðinni yfir neðri hlutann. Á morgun kemur efri hlutinn og þ.á.m. það sæti sem við teljum okkar menn lenda í. Ég ítreka það að það væri virkilega gaman að fá ykkar spár í athugasemdir við þennan pistil krakkar!

Ein athugasemd

  1. Spáin frá mér persónuleg fyrir 11-20. sæti var svona

    Liverpool tapaði 24 stigum gegn liðunum sem enduðu fyrir neðan miðju á síðsta tímabili!

    11. Wolves – Töluverðar breytingar hjá Wolves í sumar sem kominn var tími á. Gætu vel náð upp takti og endað ofar, eiga að vera nokkuð safe hvað fallbaráttu varðar. (Spá áður en þjálfarinn hætti btw)
    12. Nottingham Forrest – Annað tímabil er oft erfitt hjá nýliðum en það á kannski hvað síst við um Forest enda skiptu þeir alveg um lið fyrir ári síðan. Eru með góðan stjóra sem ætti á nái betri stöðugleika með miklu færri breytingum á hópnum milli tímabila nú. Eins er þetta bara nokkuð sterkur hópur hjá þeim.
    13. West Ham – Mjög erfitt að spá fyrir um West Ham enda ekki búnir að eyða krónu af Rice peningnum. Allir sem hafa verið orðaðir við þá eru ótrúlega David Moyes leg leikmannakaup og með hann held ég að þetta lið ætti ekki að fara mikið ofar en 13. sæti (spáð áður en JWP og Magiure komu og staðfestu þetta!). Höfum þó í huga að væntingar fyrir síðasta tímabil var Evrópusæti og jafnvel Meistaradeild en endaði með fallbaráttu mest allt tímabilið.
    14. Everton – Nei þeir falla því miður ekki, Dyche ógeðisbolti og áfram uppskrúfaðir nágrannaslagir við þá bláu.
    15. Burnley – Einu nýliðarnir sem halda sér. Kompany að gera spennandi hluti með þetta áður drepleiðinlega lið og hefur verið að styrkja hópinn í sumar.
    16. Crystal Palace – Hodgson tók við þegar Vieira var búinn með fáránlega erfitt leikjaprógramm og áttu framundan miklu þægilegri leiki. Það fegraði endurkomu hans mjög. Zaha er loksins farinn og núna binda þeir allar sínar vonir við Eze og Olise sem báðir eru líklega að fara spila sín síðustu tímabil hjá Palace.
    17. Fulham – Saudi Arabar hafa verið að pissa utan í stjórann í sumar og hafa algjörlega snúið hausnum á Mitrovic. Palinha byrjar mótið meiddur. Rosalega erfitt að spá fyrir um nokkurn skapaðan hlut hjá Fulham í byrjun ágúst, tippa samt á að annað árið í deildinni verði miklu þyngra fyrir þá.
    18. Bournemouth – Mjög erfitt að spá fyrir um Bournemouth, voru að ráða 41 árs Spánverja (Andoni Iraola) og hafa keypt leikmenn fyrir €70m nú þegar. Held samt að hópurinn sé ekki nógu sterkur og þeir klári það sem átti að gerast í vor, falla.
    19. Sheff Utd – Ekkert keypt spennandi og seldu sinn besta sóknarmann sem kom að 25 mörkum í fyrra.
    20. Luton – Skemmtilegt ævintýri hjá þeim og magnað run undanfarin ár en þetta er leveli of hátt.

    3

Hvað er betra núna en fyrir ári síðan?

Spá Kopverja – efri hluti