Upphitun: Síðasti heimaleikur tímabilsins vs. Aston Villa

Síðasti heimaleikur Rauða hersins fer fram á Anfield um helgina er þeir taka á móti Birmingham-búunum í Aston Villa. Leikur í næst síðustu umferð deildarinnar þar sem bæði lið eru í bardaga um þátttöku í Evrópukeppnum á næsta tímabili. Efni í toppleik sem þarfnast upplífgandi upphitunar!

Mótherjinn

Velgengni Aston Villa hefur tekið stakkaskiptum frá því þeir skiptu um knattspyrnustjóra snemma veturs. Liverpool-goðsögnin Steven Gerrard var látinn fara eftir 40 leiki í starfi með liðið í 16.sæti og eingöngu 32,5% vinningshlutfall sem var nær nákvæmlega helmingi verri sigurprósenta en í fyrra starfi með Glasgow Rangers (64,8%). Inn kom Unai Emery sem hafði átt misjöfnu gengi að fagna með Arsenal í Úrvalsdeildinni en ávallt sérlega úthugsaður og sigursæll á spænskri grundu sem og í Europa League með 4 titla í þeirri keppni.

Uppsveiflan hjá AVFC hefur verið öflug og eftir 25 leiki undir stjórn Emery er vinningshlutfallið 56% og með því hefur liðið náð að brjótast upp í efri hluta deildarinnar. Sem stendur er liðið í 8.sæti en gerir sér vonir um góðan endasprett til að landa sæti í Evrópukeppni næsta vetur. Þeir hafa því að miklu að keppa á Anfield á morgun sem gerir þá hættulegri andstæðinga fyrir vikið.

Línuleg velgengni Villa hefur legið upp á við

Unai Emery hefur stýrt samtals 4 liðum (Sevilla, Arsenal, Villareal og Aston Villa) gegn Liverpool í 4 mismunandi keppnum og í öllum skiptum hefur Klopp verið við stjórnvölinn hjá rauðliðum. Samtals eru það 8 leikir þar sem Liverpool hafa unnið 5 leiki, jafnteflin eru tvö talsins og bara eitt tap en það var því miður dýrkeypt niðurstaða í Europa League Final árið 2016. En ef þessu leiðir að Emery hefur aldrei unnið leik á Anfield og vonandi heldur sú tölfræði áfram.

Leikir Liverpool undir Klopp gegn Unai Emery

Emery hefur beitt frekar hefðbundnu 4-4-2 leikkerfi frá því að hann tók við og var sú raunin í fyrri leik liðanna á annan í jólum er Liverpool vann 1-3 útisigur. Það má því fastlega gera ráð fyrir því að sama taktík verði uppi á teningunum út tímabilið en lítið er um meiðsli í leikmannahóp gestanna. Þó er líklegt að Philippe Coutinho verði ekki leikfær það sem eftir lifir tímabils og því muni litli töframaðurinn ekki vera með galdrasýningu á sínum gamla heimavelli. Gestirnir geta stillt upp í næstum sitt sterkasta byrjunarlið og það yrði þá eftirfarandi:

Liðsuppstilling Aston Villa í leikskipulaginu 4-4-2

Gullspjall við gullkálfinn Jóa Kalla um tíma hans hjá Aston Villa.

Liverpool

Rauði herinn hefur farið með himinskautum upp á síðkastið og gert afar ólíklega endurkomu í topp 4 að fræðilegum möguleika. Sá möguleiki byggist á að vinna síðustu tvo leikina og vonast eftir að bananahýði leynist í lokin fyrir keppinautana en því miður færðust Newcastle skrefi nær CL með sigri í gærkvöld. Sigur á morgun myndi engu að síður gulltryggja 5.sætið og þar með sæti í Europa League sem miðað við ástandið fyrr í vetur væri ásættanleg sárabót.

Fyrir utan mikilvægi 3ja stiga á morgun að þá gæti leikurinn verið tilfinningaþrunginn þar sem að a.m.k. 4 leikmenn eru að klára sína samninga sem ekki verða endurnýjaðir og það hefur verið staðfest varðandi Milner, Firmino, Oxlade-Chamberlain og Keita. Flestir þeirra fjögurra gætu komist á bekkinn en enginn er líklegur til að byrja frá upphafi þar sem að frammistaða liðsins í síðasta leik var það góð að líklegast verður sama byrjunarlið og hóf leik gegn Leicester City. Allir fá þó hefðbundinn göngutúr á grasinu að síðasta heimaleik loknum og Klopp leyfist að rölta með þeim þrátt fyrir að vera í leikbanni í stúkunni á meðan á leik stendur.

Talandi um frammistöður að þá vonumst við til þess að Curtis Jones haldi áfram á sinni braut en hann hefur byrjað síðustu 9 leiki sem enginn hefur tapast með 7 sigurleikjum í röð. Mikill stígandi hefur verið í hans spilamennsku sem hámarkaðist með tveimur mörkum í síðasta leik og man of the match frammistöðu. Það virðist stundum gleymast að Curtis er bara 22 ára gamall og það er því enn hellings tækifæri fyrir unga Scouserinn til að styrkjast og bæta sig fyrir framtíðina.

Leikskipulagið stórfína þar sem liðið er 4-3-3 í vörn en tilfærir Trent inn sem aukamiðjumann með boltann mun halda áfram enda hafa niðurstöðurnar verið sérlega fínar með þessari útfærslu. Því miður verður Darwin Núñez líklega óleikfær ásamt langtímameiðslapésunum Thiago, Bajcetic og Ramsay þannig að enginn þeirra kemur til greina. Byrjunarliðið verður því eftirfarandi miðað við allar fyrrnefndar forsendur:

Liðsuppstilling Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Kloppvarpið

Klopp mætti fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar og fór yfir hin ýmsu málefni, m.a. leikbann sitt á morgun, kveðjustund fráfarandi leikmanna, um Unai Emery, meiðslastöðuna o.fl.

Tölfræðin

  • Liverpool hafa unnið alla af sínum síðustu 7 deildarleikjum í EPL og samanlagt ósigraðir í síðustu 9 deildarleikjum. Í síðustu 9 leikjum er markatalan samtals 22-11.
  • Liverpool hefur unnið síðustu 5 leikina gegn Aston Villa í öllum keppnum.
  • Liverpool og Aston Villa hafa spilað 200 leiki í öllum keppnum í sögu félaganna. Liverpool hafa unnið 101 þeirra en Aston Villa sigrað 59 leiki. Á Anfield er sigurhlutfallið um 63% hjá heimamönnum með 61 sigur í 97 leikjum með 17 sigra gestanna (17,5%).
  • Jamie Carragher hefur spilað flesta leiki í sögu Liverpool gegn Aston Villa eða 31 leik samtals. Hann skoraði eitt mark gegn AVFC en það var einmitt hans fyrsta mark í sínum fyrsta byrjunarliðsleik.

Upphitunarlagið

Þar sem Birmingham-búarnir í Aston Villa eru mættir í Bítlaborgina þá er við hæfi að óskabörn Birmingham sjái um viðeigandi upphitun. Duran Duran og James Bond eru lagvissir og skotvissir að vanda og skjóta í mark eins og stórskotalið Rauða hersins:

Spaks manns spádómur

Rauði herinn hefur verið rauðglóandi heitur á endaspretti mótsins og eygja ólíklegt sæti í topp 4 til að komast í CL. Hvað sem gerist í öðrum leikjum að þá tel ég að Liverpool muni gera sitt í sínum síðustu tveimur leikjum. Ég hygg að stemmningin í síðasta heimaleiknum verði stórfín og nægi til þess að stýra okkar mönnum til 3-1 sigurs með mörkum frá Salah, Gakpo og Diaz.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

4 Comments

  1. Svo er það auðvitað þannig að þetta er ekkert eini leikur Liverpool gegn Aston Villa þessa helgina…

    Stelpurnar okkar spila sumsé sinn næstsíðasta leik á sunnudaginn, reyndar á útivelli en jújú sá leikur er líka gegn Aston Villa.

    9
  2. Ég er bara nokkuð sigurviss fyrir leikinn,þó svo að vonir um meistaradeildarsæti séu frekar þokukenndar.

    5.sætið er bara mjög viðunandi miðað við gengi liðsins í vetur og þessi sigurleikjahrina er of sein,en gefur lof um betra gengi á næsta tímabili,með von í hjarta og bætta þrá hjá öllum sem fylgjast með þessu liði

    Vil einnig koma á framfæri þakklæti til þeirra sem koma að þessari síðu en það er enginn hér á Klakanum sem kemst með tærnar þar sem þið hafið hælana hvað varðar áhuga,djörfung og þor í að halda á lofti merki félagsins. Hinar síðurnar sjást varla og við hér stöndum keikir á ást okkar á okkar góða liði sem hefur gefið okkur svo margt,síðustu ár.

    Ég vil með hvergi öðru liði halda….

    24

Hvað kaupir Liverpool marga?

Liðið gegn Villa