Upphitun: Rauði herinn í Brentford í ársbyrjun 2023

Við óskum öllum Kop-verjum nær og fjær gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir öll hin Liverpool-liðnu!

Fyrsti leikur ársins 2023 er á útivelli gegn baráttuglöðu býflugunum í Brentford en Liverpool-liðið er í sigurhrinu sem þarf að viðhalda í von um meistaradeildarsæti að vori. Upphitun í upphafi árs!

Mótherjinn

Brentford hafa sáralítið þjáðst af hinu klassíska seinna tímabils heilkenni sem herjar oft á lið sem áttu gott nýliðatímabil í Úrvalsdeildinni árið áður. Thomas Frank hefur því staðið undir síbatnandi orðspori sínu sem öflugur og úthugsaður knattspyrnustjóri sem kallar ekki allt “hans bedstemor” og hefur haldið sínu liði á góðu róli um miðja deild það sem af er tímabili. Undirritaður upphitaði báða leiki milli liðanna í fyrra með gylltu Gullkasti með Guðna Tómassyni og sögulegri yfirferð þar á undan þannig að við einbeitum okkur að því sem hefur gerst á núverandi tímabili hjá heimamönnum í þessari yfirferð.

Í sumar keypti klúbburinn þrjá unga leikmenn rétt um tvítugsaldurinn sem allir spila mest megnis vinstra megin vallarins en þetta eru skoski bakvörðurinn Aaron Hickey (16,5 m evra), enski vængmaðurinn Keane Lewis-Potter (19 m evra) og Daninn Mikkel Damsgaard (15 m evra). Engum þeirra hefur þó hingað til tekist að setja mark sitt á sitt lið og má segja að allir séu enn í aðlögunarferli að Úrvalsdeild hinna bestu. Besta sumarinnkoman var þó hinn reynslumikli varnarjaxl Ben Mee sem kom á frjálsri sölu frá fallistum Burnley en hann hefur staðið vaktina vel í vörninni og verður næsta örugglega í byrjunarliðinu á morgun.

Aðalmaður Brentford þessa leiktíðina hefur verið framherjinn Ivan Toney sem hefur byggt hressilega ofan á fína leiktíð í fyrra með því að vera í fantaformi það sem af er árs og hefur nú þegar skorað jafn mörg mörk og allt tímabilið 2021/2022 en á helmingi styttri mínútu- og leikjafjölda. Hans 12 deildarmörk gerir hann að þriðja markahæsta leikmanni deildarinnar með einungis Haaland og Kane á undan sér en markahæstu leikmenn Liverpool, Salah og Firmino, hafa eingöngu skorað 7 mörk hingað til.

Framherjinn hefur þó verið í umdeildum málum síðustu mánuði, fyrst um það hvort hann ætti að vera í landsliðshóp Englands á HM en upp á síðkastið hefur enska knattspyrnusambandið ásakað Toney um hátt í 300 brot á veðmálareglum deildarinnar og hefur hann til 4. janúar nk. til að svara þeim ákærum. Ef hann verður fundinn sekur um slíkt ógnarmagn af brotum að þá má hann búast við löngu leikbanni sem gæti haft alvarleg áhrif á gengi liðsins á tímabilinu enda mörkin hans verið gríðarlega mikilvæg og gert gæfumuninn það sem af er. Það er þó spurningamerki hvort að Toney verði leikfær á morgun þar sem að hann fór meiddur af velli í síðasta leik þó að Frank vilji ekki útiloka hans þáttöku en við sjáum hvað setur þegar leikskýrslan verður birt.

Talandi um leikuppstillingu þá hefur Thomas Frank flakkað nokkuð jöfnum höndum á milli þessa að stilla upp í þriggja hafsenta 3-5-2 leikkerfi eða hið Klopplega 4-3-3. Miðað við frábær úrslit í 3-5-2 leikskipulaginu í síðustu 3 leikjum liðsins þar sem sigrar hafa unnist á Man City og West Ham á útivelli ásamt jafntefli heima gegn Tottenham að þá spá ég því klárlega að Frank sé enginn Klovn og haldi áfram með það sem hefur svínvirkað og stilli svona upp:

Líklegt byrjunarlið Brentford í leikskipulaginu 3-5-2

Liverpool

Okkar menn hafa haldið áfram sigurgöngu sinni í deildinni eftir HM-hléið með tveimur sigurleikjum sem gerir 4 sigra í röð í deildinni þrátt fyrir deildarbikartap inná milli. Það verður þó seint sagt að frammistaðan hafi verið alfarið sannfærandi með fyrri hálfleikinn gegn Aston Villa ágætan en með hríðversnandi frammistöðu þaðan í frá. Við þurftum sögulega slembilukku sjálfsmarka gegn Leicester til að bjarga 3 stigum og í leiknum leit stór hluti leikmanna ansi letilega út með miðjuna áberandi liðleskjulega. Við getum þó aldrei þessu vant þakkað leikjaniðurröðuninni að einhverju leyti þar sem við höfum fengið fína hvíld á milli allra leikja um hátíðirnar og með menn í meiðslaveseni eða nýkomna frá HM að þá hjálpar það vissulega til.

Betur má þó ef duga skal og leikmenn og þjálfarar viðurkenndu að frammistaða líkt og í síðasta leik muni alls ekki vera nægilega gott til að landa meistaradeildarsæti í vor og að því marki gætum við séð harðákveðinn hóp mæta til leiks sem myndi gleðja Liverpool-hjörtu. Einnig hafa ýmis úrslit verið jákvæð í síðustu umferðum með Tottenham, Chelsea, Newcastle og Man City tapandi stigum og slíkar jólagjafir þarf að gernýta. Það væri gerlegt ef að við færum að nýta marktækifærin betur og þar er Darwin Nunez síógnandi en mætti bæta skotnýtinguna til að tryggja nokkra örugga sigra. Mo Salah hefur verið iðinn við kolann og skorað 7 mörk í síðustu 8 leikjum í öllum keppnum og heldur því vonandi áfram og ég veðja á að Carvalho fái tækifærið sem þriðji maður sóknartríósins en Firmino verður vonandi til taks af bekknum ef á þarf að halda.

Fabinho verður væntanlega mættur að nýju til leiks eftir að hafa staðið vaktina á fæðingarstofunni og með glænýjan gamlársdagsson sinn og Rebecu kominn í heiminn þá ætti hann að eiga afturkvæmt á fótboltavöllinn að nýju. Andy Robertson haltraði af velli í síðasta leik og því spái ég að gríski Scouserinn Tsimikas manni bakvarðavaktina ásamt því að Konate komi inn fyrir Matip. Það væri gaman ef að Cody Gakpo yrði kominn með leikheimild tímanlega en Klopp var ekki bjartsýnn á að hægt yrði að ganga frá pappírsvinnunni hjá ólíklega nýárrisulum pappírspésum í London.

Að öllu því upptöldu þá tel ég byrjunarliðið verða eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Kloppvarpið

Við birtum blaðamannaviðtalið við Klopp þegar og ef það verður í boði fyrir leik.

Tölfræðin

  • Liverpool hafa unnið fjóra síðustu deildarleiki sína.
  • Brentford hafa ekki tapað í Úrvalsdeildinni í síðustu 5 leikjum.
  • Liverpool hafa ekki haldið hreinu í síðustu 6 deildarleikjum.
  • Bæði Liverpool og Brentford hafa skorað a.m.k. 2 mörk í hverjum af sínum 4 síðustu deildarleikjum.

Upphitunarlagið

Við leitum að sjálfsögðu til hinna írsku U2 til að finna upphitunarlag fyrsta Liverpool-leiks ársins enda Rauði herinn ávallt átt frábært bakland á eyjunni grænu. Lagavalið þarfnast varla mikilla útskýringa og vonandi spila okkar menn í grænu varatreyjunum í takt við Írlands-þemað:

Spaks manns spádómur

Þetta verður klárlega erfiður leikur fyrir Liverpool og í síðustu viðureign liðanna á Brentford Community Stadium að þá enduðu leikar 3-3 milli liðanna þannig að það væri ekki óhugsandi að við fáum markaleik. Varnarvinna okkar manna hefur heldur ekki verið neitt sérstök og við höfum ekki haldið hreinu í deildinni síðan um miðjan október þannig að ég geri ekki ráð fyrir að það skáni í þessum leik miðað við formið.

Ég vona því og treysti á að sigur náist með þeim mun betri sóknarleik en til þess þarf Darwin Nunez að skora úr sínum mýmörgu færum sem hann skapar í hverjum leik. Ég hef fulla trú á kappanum og spái því að Darwin skori tvö mörk í leiknum ásamt einu frá Salah í 1-3 útisigri okkar manna.

Hvernig verður árið 2023 fyrir Liverpool?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

2 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Þetta er sannarlega dauðafæri en mikil brekka að klifra upp. Brentford eru erfiðir heim að sækja og spila þetta kerfi sem hentar okkur afleitlega – dúndrandi vörn og gargandi áhorfendur. Við trúum ekki öðru en að okkar menn taki sig á eftir hörmungarnar. Svo væri gaman að sjá nýja liðsmanninn í kvöld.

    Vonandi vaknar hr. Kaos og fer að hitta markið.

    Spái því að Salah skori snemma á leiknum (segjum á 13. mínútu). Þá þurfa heimamenn að sækja grimmt og þá opnast gáttir fyrir Nunezinn sem skorar tvö til viðbótar.

    Höldum hreinu í fyrsta skiptið á árinu….

    6
  2. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Magnús hún er mögnuð að vanda. Eins og staðan er núna þá er möguleiki á að Toney geti spilað í kvöld. Hann hefur valdið sterkum liðum gríðarlegum vandræðum og eins og vörnin okkar spilar (stundum) þá getur hann orðið martröð fyrir okkar menn. Liðið okkar spilaði skelfilega í síðasta leik og ef andstæðingurinn hefði ekki skorað tvö mörk fyrir okkur hefði sá leikur einfaldlega tapast. Ég neita að trúa því að liðið spili fleiri svona leiki á þessari leiktíð og alls ekki í kvöld.

    Hvað uppstillingu varðar þá er ég sammála Magnúsi með valið á Carvalho fram yfir Uxan sem virðist vera algerleg kominn í þrot sem fótboltamaður á þessum “level”. Vonandi kemur Fab sterkur inn og einnig verður að vona að Hendo eigi ekki annan svona leik eins og síðast. Tsimikas verður að sýna sig og sanna og ef TAA spilar jafn vel og síðast ekki hvað síst varnarlega þá vinst þessi leikur. Nunez finnur markmöskvana og Sala skorar sitt mark að venju. Spái 1 – 3 í hunderfiðum leik sem verður í járnum lengi vel. Svo gæti farið að Konate verði meður leiksins vegna afburða varnavinnu 🙂 og Gakpo komi inná og sýni takta 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

    5

Leikmannaglugginn opnar á morgun

Liðið gegn Brentford