Upphitun: Brentford býflugurnar á útivelli

 

Nýliðar Brentford hafa komið skemmtilega á óvart í byrjun tímabils með líflegum leik og flottum úrslitum sem hefur skilað þeim í efri hluta úrvalsdeildarinnar. Heimamenn taka á móti ósigruðu toppliði Rauða hersins á laugardagseftirmiðdegi í Vestur-Lundúnum með þrjú stig í boði sem nýta má til titilbaráttu eða fallbjörgunar. Fyrir slíkar höfðinglegar heimsóknir sem gerast sérlega sjaldan í sögulegu samhengi þá þarf almennilega upphitun!

Mótherjinn

Það verður seint sagt að Brentford FC séu þjakaðir af sagnfræðilegri velgengni í sinni nærri 132 ára sögu sem enskt knattspyrnulið. Hæst hefur liðið komist í 5. sæti í efstu deild á Englandi og það var stuttu fyrir seinni heimstyrjöld árið 1936 en liðið féll niður um deild við fyrsta tækifæri eftir stríðslok. Liðið er loks núna að komast aftur á meðal hinna bestu í fyrsta sinn í 74 ár og af því leiðir að Brentford hefur sjaldan verið í sömu deild og Liverpool til þess að etja við kappi stórveldið.

Þróun merkis Brentford FC frá sverðblöðum til býflugna

Eingöngu 15 keppnisleikir eru skráðir milli liðanna og þar af 10 deildarleikir en sá síðasti var háður 17. maí 1947 og endaði með 1-1 jafntefli á Griffin Park. Leikurinn var sá þriðji síðasti það tímabilið og hlutskipti liðanna hefði vart getað verið með ólíkara móti þar sem Brentford féllu niður um deild en Liverpool urðu Englandsmeistarar með einu stigi meira en Manchester United. Í meistaraliði Liverpool þann dag léku meðal annars Bob Paisley og Albert Stubbins undir stjórn George Kay en ég ætla að ekki að gera mér upp falska þekkingu á leikmönnum heimamanna.

Peter Beardsley gegn Brentford vorið 1989.

Síðustu 74 árin frá titiltímabilinu góða árið 1947 hafa liðin mæst nokkrum sinnum í bikarkeppnum og síðasti leikur þeirra í millum var í mars 1989 á Anfield í 6.umferð FA bikarsins er Liverpool vann þægilegan 4-0 sigur, meðal annars með tveimur mörkum frá Peter nokkrum Beardsley. Hægt er að horfa á hálftíma highlights-myndband af leiknum hérna:

Sá bikarsigur átti eftir að reynast afdrifaríkur þar sem að Liverpool komst áfram í næstu umferð FA Cup til þess að mæta Nottingham Forest á Hillsborough leikvanginum í Sheffield þann 15. apríl 1989 með þeim hörmulegu afleiðingum sem öllum Púlurum eru sorglega kunnar. #JFT97

Liverpool sigraði bikarkeppnina þetta árið í frægum framlengdum úrslitaleik við Everton sem þó var lítil huggun eftir harmleikinn en þræðir okkar við sögu Brentford er ansi áhugaverðir þó að sögubókin sé stutt. Fáir leikmenn hafa spilað fyrir bæði lið en helst má nefna Stephen Wright, João Carlos Teixeira og Sergi Canós í seinni tíð. Sá síðastnefndi skoraði einmitt gegn Arsenal í fyrsta leik þessa tímabils og var það fyrsta úrvalsdeildarmark Brentford í þeirra sögu. Canós fór fyrst á láni frá Liverpool til Brentford en snéri síðan þangað aftur er hann var keyptur frá Norwich City árið 2017 og hefur samtals spilað 210 leik fyrir Býflugurnar og skorað 33 mörk.

Sergi Canós kom einmitt mikið við sögu á síðasta tímabili er Brentford komust upp úr Championship deildinni með því að sigra úrslitaleik umspilsins gegn Swansea á Wembley. Spánverjinn knái ætti að vera á kantinum í byrjunarliðinu gegn sínum fyrri félögum en hann spilaði einn opinberan keppnisleik á sínum tíma fyrir Liverpool. Við þurfum einnig að hafa góðar gætur á Ivan Toney sem hefur verið ógnandi í framlínunni og átti stórleik gegn Wolves um síðustu helgi með marki og stoðsendingu. Áhugavert verður einnig að fylgjast með Norðmanninum Kristoffer Ajer í vörninni en hann kom frá Glasgow Celtic í sumar og var lengi orðaður við Liverpool. Þá skoraði finnski framherjinn Marcus Forss áhugaverða fernu fyrr í vikunni í 7-0 deildarbikarsigri á Oldham en er ólíklegur til spilunar nema komandi af bekknum.

Daninn Thomas Frank mun væntanlega halda áfram með sitt 3-5-2 leikskipulag sem hefur gefið góða raun og líklegt er að hann stilli upp sínu sterkasta liði eitthvað á þessa leið:

Líklegt byrjunarlið Brentfort með leikskipulagið 3-5-2

Snakkandi um dansk & dejlige að þá hefur stjórinn Thomas Frank náð frábærum árangri síðan hann kom til Brentford frá Brøndby árið 2016, fyrst sem aðstoðarþjálfari en svo sem aðalmaðurinn frá 2018. Hinn 47 ára gamli stjóri þykir hinn líflegasti karakter og hefur náð að heilla leikmenn og stuðningsmenn Brentford með sér í straumi jákvæðni, ástríðu og vandaðra vinnubragða. Dönsku áhrifanna gætir sterklega í leikmannahóp Brentford en heilir 7 Danir eru á bókunum hjá þeim þó að mest beri á einum þeirra, Christian Nørgaard, á miðri miðjunni.

Nordisk samarbejde stoppar ekki þar en fulltrúa frá Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og auðvitað Íslandi með markvörðinn Patrik Gunnarsson sem er núverið á láni hjá Viking Stavanger. Þess ber einnig að geta að Stöðfirðingurinn óstöðvandi, Ívar Ingimarsson, spilaði 135 leiki fyrir Brentford á árunum 1999-2002 og skoraði á þeim tíma 11 mörk og einnig lék Hermann Hreiðarsson rúmt tímabil þar árið 1998-1999 og spilaði 48 leiki samtals. Sjá má skemmtilegt viðtal við þá kappa við endurkomu til Brentford fyrir 4 árum í þessari frétt Fótbolti.net. Svo vinsæll var Ívar hjá áhangendum að indie rokk-bandið The Bluetones gaf út instrúmental B-hliðarlag að nafni Ingimarsson þar sem gítarleikarinn Adam Devlin var sérlegur áhangandi Býflugnanna. Geri aðrir betur!

Ívar Ingimarsson í brjáluðum bardaga fyrir Brentford

Leikstíll Brentford í byrjun tímabils í leikskipulaginu 3-5-2 er þó ekki jafn líflegur og stjórinn á hliðarlínunni en uppleggið byggir á góðu skipulagi, vinnusemi og hröðum skyndisóknum þar sem meiri áhersla er lögð á að fá ekki á sig mark heldur en að halda boltanum. Þetta er breyting frá þeirri hugmyndafræði sem kom þeim upp úr Championship í fyrra með frjálsara leikflæði og áferðarfallegri spilamennsku, en viðsnúningurinn er hinn pragmatíski raunveruleiki sem þeir hafa kosið í von um að verja sæti sitt í deildinni og hugsanlega hefðu nýliðar Norwich betur gert álíka stefnubreytingu.

Þá fjallaði Kop-meistarinn Einar Matthías um eigandann Matthew Benham í pistli sínum um Midtjylland á síðasta ári en það er lyginni líkast hvernig honum hefur tekist að breyta 700 þúsund punda láni í 300 milljón punda verðmæti. Það hefur hann gert með aðstoð grjótharðrar tölfræðilegrar nálgunar þar sem Brentford hefur verið óhrætt við að selja dýrt, líkt og sumarið 2020 er þeir seldu Ollie Watkins og Saïd Benrahma fyrir samanlagt 57 mill. punda og keypt óþekktari leikmenn í staðinn út frá nútímalegum greiningaraðferðum sem Liverpool kannast vel við.

Brentford Community Stadium sem tekinn var í notkun í september 2020 og kostaði 71 mill punda.

Benham hefur einnig fjárfest í uppbyggingu nýs leikvangs sem var tekinn í notkun fyrir ári síðan og tekur 17,250 áhorfendur í sæti en líklegt er að áhorfendamet vallarins verði slegið um helgina (núverandi met er 16,479 manns gegn Arsenal). Leikvangurinn er einnig nýttur af rúgbýliðinu London Irish sem leigja leikvanginn sem sinn heimavöll en vonandi hefur grjóthörð rúgbýspilun ekki áhrif á yfirborð grasflatarins. Völlurinn er staðsettur utarlega í Vestur-London eða um hálfa leið til Heathrow og á landakorti er Brentford nokkurn veginn á Lundúnískri-lengdargráðu við Wembley sem er u.þ.b. 14 km í norðurátt.

Tölfræðin

 • Liverpool hefur unnið 9 af 15 leikjum milli liðanna í öllum keppnum með markatöluna 32 gegn 18 mörkum frá stofnun liðanna.
 • Liverpool hefur unnið 9 af síðustu 10 deildarleikjum sínum og í sama hlutfalli leikja hafa þeir skorað að minnsta kosti 2 mörk í leik.
 • Liverpool hafa haldið hreinu skýrslublaði í 6 af síðustu 7 deildarleikjum sínum.
 • Liverpool hefur skorað nákvæmlega 4 mörk í hverjum leik gegn Brentford í síðustu þremur viðureignum liðanna.
 • Brentford tapaði sínum síðasta heimaleik gegn Brighton í lok leiks en þeir hafa ekki tapað tveimur heimaleikjum í röð í deild síðan 2018.
 • Liverpool hefur eingöngu tapað 1 af síðustu 27 deildarleikjum gegn nýliðum í úrvalsdeildinni en sá eini leikur var reyndar á síðasta tímabili gegn Fulham.

Kloppvarpið

Herr Jürgen mætti á blaðamannafund í morgun og ræddi meiðslastöðuna, frammistöðu ungra leikmanna í deildarbikarnum og ýmsa vinkla á Brentford. Þar staðfesti hann að Thiago og Keita séu meiddir og verði ekki með um helgina en hugsanlegt er að Firmino, Milner og TAA séu leikfærir eftir meiðsli og veikindavesen.

Thomas Frank mætti einnig í forleiksspjall og fór þar fögrum orðum um Liverpool og leikstíl okkar ásamt ítarlegri umræðu um sitt eigið lið.

Liverpool

Okkar menn hafa verið á góðri siglingu frá byrjun tímabils og unnið alla leiki í öllum keppnum að einum leik undanskildum sem var jafnteflið gegn Chelsea. Helsta áhygguefnið hefur verið mikil meiðslahrina leikmanna í næstum hverjum leik sem eru alltaf vonbrigði en að sama skapi hefur tekist að rótera mjög hressilega með hópinn og Klopp verið djarfur með það í deild og meistaradeild. Eðlilega fengu margir pjakkar og bekkjarmenn að spila í miðri viku í 0-3 deildarbikarsigrinum á Norwich þannig að miklar breytingar ættu eðlilega að vera á liðsuppstillingunni á laugardaginn.

Með annað augað á útileik gegn Porto þá er hugsanlegt að Klopp taki ákveðna sénsa með að hvíla lykilmenn gegn nýliðunum, en þó vandast málið þar sem næsti deildarleikur LFC þar á eftir er stórleikurinn gegn Man City. Því er hugsanlegt að Klopp taki öfluga City-generalprufi með því að stilla upp sterku liði núna, en róteri svo frekar gegn Porto í ljósi góðrar stöðu í B-riðli CL og stilli svo upp sínu allra sterkasta liði gegn Englandsmeisturunum.

Mín uppástunga að slíku uppstilltu liði er því eftirfarandi með Curtis Jones í byrjunarliðinu:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Spaks manns spádómur

Spútniknýliðarnir í Brentford verða sýnd veiði en ekki gefin enda með bullandi sjálfstraust eftir flotta byrjun í deild og bikar. Það verður brjáluð stemmning á pöllunum í Brentford á eftirmiðdag laugadags þó að varla sé þetta ljónagryfja sem að Liverpool ætti að óttast með sín gæði og reynslu.

Að öllum líkindum verður LFC mikinn meirihluta leiksins með boltann sem er staða sem við gjörþekkjum og þurfum að hafa þolinmæðina í það en þurfum auðvitað að huga vel að beinskeyttum skyndisóknum frá Býflugunum. Oft snúast slíkir leikir um að ná fyrsta markinu tímanlega til þess að leikurinn þróist í þá átt að heimamenn verði að opna sig meira og hægt að nýta sér betur veikleikana.

Mín spá er góður útisigur með markatölunni 1-3 þar sem Salah, Jones og Mané sjá um að setja mörkin en auðvitað skorar Sergi Canos sárabótamark fyrir Býflugurnar.

YNWA

9 Comments

 1. Við megum ekki vanmeta þetta lið.

  Þeir eru með gríðarlega sterka vörn og framherjarnir tveir vinna mjög vel saman og elska baráttu(hvort sem er í lofti eða jörðu).
  Ég spái þrjóskum heimamönnum sem munu verjast aftarlega og við munum ekki skapa mörg opinn tækifæri en klárum þetta 0-1 með marki frá Jota.

  YNWA

  4
 2. Sæl og blessuð.

  Þeir falla kylliflatir fyrir fagmennsku, úthaldi og aggressjón okkar manna. Hrynja eins og lúsmý undan öruggum slætti viftunnar.

  ynwa
  ls

  2
 3. Ljómandi góð upphitun Beardsley, þetta er vonandi skemmtilegra lið en ruddarnir í Midjylland. Held að orðspor þeirra sem léttleikandi lið úr Champioship deildinni sé að einhverju leiti innistæðulaust, mjög pragmatískt lið og kraftmikið.

  Algjör skyldusigur fyrir því.

  2
 4. Úrvals upphitun. Eina sem vantar í hana að með liði Brentford spilaði hinn knái Stöðfirðingur og Liverpool aðdáandi Ívar Ingimarsson vel yfir 100 leiki fyrir 20 árum eða svo.

  3
  • Satt er það og slæmt þegar öflugan Stöðfirðing vantar á blað. Ég hef gert íslenska Ívars-uppfærslu til að leiðrétta þetta. Takk fyrir ábendinguna.

   YNWA,
   Beardsley

   3
 5. Komnir á toppinn án þess að spila! Eins gott að menn haldi haus seinnipartinn.

  3
 6. Sælir félagar

  Þetta verður hunderfitt og mun leggja mikið á liðið. Ef vörn og markvarsla halda þá ætti þessi leikur að vinnast eitt eða tvö núll. Ég er þó ekki viss um að Toney poti ekki einu marki þó Matip og Virgil hafi tekið álíka framherja í nefið í Chelsea leiknum. Ég held að Salah og Mané setji sitt hvor en treysti vörninni til að halda hreinu. Sem sagt 0 – 2

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 7. Ég náði seinni hálfleik í MU-AV.

  Það er ekkert hungur í Utd, vantar allt kapp í seinni bolta og eld í iljarnar. Líkamstjáning leikmanna segir svo mikið, t.d. vansældarsvipurinn á DeGea. Liðsandinn virðist ekki vera í botni hjá mönnum Óla í augnablikinu.

  Spurningin er hvort hann er hreinlega nægilega sterkur karakter til að knýja hvern einasta mann að toppgetu og hungri? Ég held ekki. Án þess að fara nánar út í valdastyrk milli Ole og Ronaldo (sem hlýtur að vera dálítið spes staða)…

  1

Gullkastið – Gamla góða formið

Byrjunarlið: Bobby á bekknum