Upphitun: Brentford á Anfield & Gullkast með Guðna

Brentford býflugurnar munu lenda á Anfield Road í Liverpool á sunnudaginn til að takast á við Rauða herinn á heimagrundu í seinni deildarleik liðanna á þessu tímabili. Það verður nágrannaslagur úr Norður-Evrópu þegar að Þjóðverjinn Jürgen Klopp teflir sína refskák við Danann Thomas Frank og vonandi verður markaleikur að nýju en þó með mörkin okkur í hag fyrir 3 heimastig.

Mótherjinn

Ofangreindur pistlahöfundur hitaði einnig upp fyrir fyrri leik liðanna í september síðastliðnum og skrifaði frá sér allt það vanþróaða vit sem hann hafði á Brentford á þeim tímapunkti. Takmörkuð vitneskja hefur bæst við á tæpum fjórum mánuðum liðnum og því bráðnauðsynlegt að leita út fyrir sitt háfleyga heilahvel í leit að liðsstyrk úr listrænni átt.

Við tókum því tali útvarpsöðlinginn ómþýða, Íslandsmeistara úr 5.flokk síðustu ísaldar og sinfóníusérfræðinginn skeggfagra: Guðna Tómasson dagskrárgerðarmann á Rás 1, listfræðing og léttleikandi Liverpoolara! Í spjallinu förum við yfir víðan fótboltavöll í fortíð, nútíð og framtíð þar sem afhausanir Hinriks áttunda í nágrenni rúgbý-hverfisins Brentford ber á góma ásamt Santa Barbara í Moskvu og ýmsu öðru stórmerkilegu.

Meistarinn & Margaríta af Móaflötinni! Gullinhærður og glaðbeittur Guðni knattspyrnukóngur á góðri stund fagnar í Frostaskjólinu með Stjörnuprýddu liði (kórónuklæddur fyrir miðri mynd). Einnig má sjá glitta í Einar Örn Einarsson, einn stofnenda Kop.is (neðst vinstra megin).

Gullkastið með Guðna Tómassyni:

Hvað á Guðni Tómasson sameiginlegt með Steven Gerrard í þrefaldri fótboltastaðreynd? Við þeim leyndardómi má finna svör með áheyrn á suðupunkts-upphituð Gullkastið!

Að öllu hlaðvarpspjalli afhlöðnu að þá skoðum við liðsuppstillingu Brentford en þeir töpuðu 4-1 fyrir Southampton í sínum síðasta deildarleik sem fór fram í miðri viku. Veruleiki jólavertíðarinnar er eilítið að minna á sig hjá nýliðunum en þeir hafa tapað 3 af síðustu 4 deildarleikjum en eru þó þægilega staðsettir rétt fyrir neðan miðja deild með 23 stig. Það verður að teljast nokkuð gott fyrir Brentfjarðarbúa sem seint teljast til sagnfrægra og sigursælla liða en sanna hvað hægt er að gera með samstilltri og skynsamri nálgun.

Fyrrum Liverpool-leikmaðurinn Sergi Canós á séns á endurkomu úr meiðslum til þess að ná að spila gegn sínum fyrrum félögum og spái ég því að Thomas Frank taki áhættuna á því að byrja með Spánverjann inná. Liðsuppstillingin myndi því líta svona út með sérlega skandinavísku skipulagi:

Líkleg liðsuppstilling Brentford í leikskipulaginu 3-5-2

Liverpool

Eftir leiftrandi leiðinlegt og ferlega frústrerandi markalaust jafntefli við Arsenal í deildarbikarnum að þá fær Liverpool annað tækifæri á Anfield til að brjótast í gegnum rammbyggðan varnarmúr. Nú reynir á Rauða herinn að sýna meiri sköpun og skerpu í sóknarleiknum til að halda áfram toppformi í toppbaráttunni.

Minamino var minimalískur í sinni frammistöðu og því veðja ég á að Curtis Jones fái að spreyta sig í framlínunni með Firmino og Jota, í það minnsta til að byrja með. Þá ætti Oxlade-Chamberlain að fá séns á miðjunni til að auka sóknarþungann þaðan á kostnað James Milner. Ég gæti einnig séð Matip fá taktíska róteringu með Konate sem hafsentinn sem kæmi inn en að öðru leyti er liðið hið sama og á fimmtudaginn var.

Jürgen Klopp gæti því sent inn leikskýrslu með þessari uppstillingu á sunnudaginn:

Líkleg liðsuppstilling Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Kloppvarpið

Þungarokksþjálfarinn okkar mætti fyrir framan fjölmiðlana fyrr í dag og fræddi um stöðu mála:

Thomas Frank hefði þetta að segja á sínum fréttamannafundi fyrir leikinn þar sem stórfurðulegar myndklippingar á blaðamenn í mismunandi aðstæðum skemmtu skrattanum:

Spaks manns spádómur

Líkt og fram kom á spjallvarpinu þá spáum við spekingarnir góðum 3-0 eða 2-0 heimasigri og það væri mikill léttir fyrir Liverpool að landa þeim lokatölum eftir að hafa ekki unnið deildarleik í síðustu þremur tilraunum. Við mættum alveg við því að fá sæmilegan sóknarleik með nokkrum mörkum meðan Salah og Mané spila í fjarlægri heimsálfu, sér í lagi til að fá smá sjálfstraust í sóknaruppbygginguna fyrir seinni undanúrslitaleikinn gegn Arsenal í næstu viku. Við veðjum því á góðan heimasigur um helgina hjá léttleikandi Liverpool og þökkum meistara Guðna fyrir spjallið.

YNWA

17 Comments

 1. Sæl og blessuð.

  Takk fyrir framúrskarandi upphitun og gæðaspjall.

  Ég er afar svartsýnn fyrir þennan leik svo ekki sé fastar að orði kveðið. Tel útilokað að afstaða mín hafi nokkur áhrif á gæði sendinga í leiknum, val á liði, uppstillingu, hvað þá einbeitingu sóinkarmanna á ögurstundum. Nei, þetta er bara hreinræktuð svartsýni sem búið er að berja í mann undanfarnar vikur.

  10 manna varnarmúr og tröllaslagur í teig.

  Úff. Á ekki von á góðu.

  En fylgist samt með!

  3
 2. Sælir félagar

  Takk fyrir frábæra upphitun Magnús og vonandi hefur þú rétt fyrir þér í spádómum og leikurinn vinnist á heimavelli. Ég er hinsvegar gríðarlega áhyggjufullur eftir Arsenal leikinn þar sem Liverpool liðið var algerlega bitlaust fram á við og miðjan afskaplega slök. Einhverjir vildu/vilja kenna Klopp um þar sem skiptingar komu seint og skipulagið gegn 10 Arse mönnum var alltof varnarsinnar lungann úr leiknum. En hvað um það við vonum að sigur hafist en ég reikna með 1 – 0 eða 2 – 1 í besta falli.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
 3. Ég er bjartsýn fyrir þennan leik.
  Þeir munu pakka í vörn og spila eins og Arsenal gerðu. Þeir munu líka spila eins og í fyrrileiknum að beita löngum sendingum fram og reyna að vinna seinni boltan.

  Ég hef trú á að við finnum lausnir og munum skapa nógu mörg færi til að klára þennan leik. Það er eitthvað sem segir mér að Klopp hafi legið vel og lengi yfir Arsenal leiknum og breytti aðeins upplegginu.

  Það sem lið vilja að við gerum er að spila út á kannt og koma með fyrirgjafir, þar sem þar eru þeir með fullt af varnarmönnum inn í teig – Sumir gagnrýna t.d Andy fyrir að gefa ekki oftar fyrir í þessum stöðum en það er klárlega fyrirskipað af Klopp að ekki alltaf að bíta á agnið hjá vörninni og halda áfram að finna aðra lausnir.
  Í svona þéttum varnarleik er oftar en ekki lítið pláss en það pláss sem myndast er oftast á milli bakvarðar og miðvarðar og þar skapast oft hættan.

  Við þurfum klók leikmenn í þessari stöðu sem eru góðir á boltan(Thiago hættu að vera meiddur). Mane og Salah eru snillingar að taka menn á 1 á 1 og sprengja upp varnir en núna erum við ekki með þá og þá þarfu menn að vera duglegir að taka hlaup inn fyrir frá miðsvæðinu ekki endilega til að fá boltan heldur til að opna svæði og ná að færa varnarmúrinn aðeins.

  Ég spái 3-0 Liverpool sigri þar sem við komust yfir í fyrri hálfleik og þeir þurfa að færa sig framar sem við munun nýta okkar.

  YNWA

  2
 4. Eftir sigur City á Chelsea er ljóst að þeir verða meistarar. Fjórir mánuðir eftir af mótinu ! Orðið frekar þreytt.

  4
  • Ömurlegt að hafa þennan stórkostlega þjálfara en sem eigendur bakka hann lítið upp. Búið að vera lélegt bakk upp frá eigendum síðustu 20 ár, alltaf þegar maður heldur að þetta sé að vera komið þá er ekkert byggt ofan á. Aldrei hefur maður þó verið eins svekktur og núna því við höfum sjaldan eða aldrei haft eins magnaðan stjóra.

   7
   • Algjörlega sammála þér, Sorglegt að geta ekki fylgt titlinum betur eftir en þetta. Að sjá Mshity stinga svona af á þessum tíma er ófyrirgefanlegt. Nenni ekki að hlusta á væl um þessa Africu keppni. FSG vissi að hún yrði á þessum tíma og hverja við myndum missa, Covid var en í fullum gangi og því er ekki hægt að hlusta á að þetta sé að aftra okkur í að skora og vinna leiki.
    Nú verða bara aðrir að stiga upp en mér finnst bara eins og það sé einhver þreyta, uppgjöf eða þess háttar í liðinu.
    Leikurinn í dag verður erfiiður held ég, þeir liggja í vörn og munu reyna á skyndisóknir því lfc er svo framarlega í svona leikjum.
    vonum það besta

    1
 5. Sælir félagar

  Bið afsökunar á þessu þráðráni en MC kemst í 1 – 0 á móti bláa olíuliðinu og siglir heim sigri. Liverpool kemst í 2 – 0 á móti sama liði og missir það niður í jafntefli. Þarna er ein höfuðorsök þess að M. City er með þá afgerandi forustu sem raun ber vitni um. Vörnin (les Virgil) er afgerandi veikari þessa leiktíð en undanfarin misseri (ef frá er talið síðasta tímabil eftir áramót). Allar vonir um titilinn fóru endanlega út um gluggann í dag ekki síst þar sem lið MC er algerlega laust við meiðsli og covid og siglir lygnan sjó meðan öll önnur lið eru í veseni. Því miður.

  það er nú þannig

  YNWA

  6
 6. Kominn með drullu að fylgjast með olíu liði nr 1 farma deildina þetta er orðið svo þreytt og leiðinlegt að það nær ekki nokkri átt.
  En hey Liverpool hentu handklæðinu inn eh tíman í um miðjan desember og ákvöðu að þetta væri komið gott.
  City eru með áberandi yfirburði og í raun lögreglurannsóknarefni afhverju þeir hafa ekki unnið meistara deildina hvernig í fjandanum tekst Pep að klúðra því í hvert sinn ?

  3
 7. Vá hvað City er yfirburða gott fótboltalið. Það grátlega er að Liverpool var það líka. Liverpool er auðvitað sterkt lið í dag en klárlega á niðurleið vegna innkaupastefnu eiganda.

  Ég vona bara það í hugur í mönnum að klára þetta mót af krafti. Enda sem næst besta liðið og byggja á því. Það gæti svo sannarlega verið verra.

  Ég held við séu að mæta Brentford á ágætum tíma. Sé fyrir mér leiðinlegan leik, 2-1 sigur er mín spá.

  Áfram Liverpool og áfram Klopp!

  6
 8. Eigendurnir verða bara að fara eyða peningum í leikmenn erum að detta aftur úr með þennan heimsklassa þjálfara er svo sorglega pirrandi ffp er bara bull maður er farinn að óska eftir einhverjum moldríkum eigendum sem eyða einhverju í leikmenn!

  1
  • Þeir eru ekki að fara að gera það. Fengu Ozan Kabak í fyrra og hann kemst ekki einu sinni í liðið hjá Norwich.

   2
 9. Kúturinn aldeilis með start hjá Villa! Kom inn á, gaf stoðsendingu og skoraði svo líka sjálfur og Man Utd tapaði unnum leik niður í jafntefli á aðeins fjórtán mínútum.

  4
  • Hæpið að gefa honum stoðsendingu, en vel gert í markinu. Ég var persónulega aldrei að kalla eftir hann yrði keyptur til Livepool aftur. Held hann sé finn þarna hjá Gerrard i Villa. Gaman að sjá hann i ensku.

   3
 10. Já, ég hefði svo sannarlega viljað fá Kútinn í Liverpool, en Steven G var sniðugur.

  2
 11. Agent Benitez að gera góða hluti með Everton allavega ánægður með hann.

  5

Liverpool 0 – 0 Arsenal

Byrjunarliðið gegn Brentford