Heimsókn á Craven Cottage

Annar af fjórum útileikjum Liverpool í röð fer fram á sunnudaginn og það er ekki laust við að gömul lína úr Jay-z lagi rifjist upp: Shit was all good just a week ago. Það er ótrúlegt hversu miklum vonbrigðum var troðið inn í síðustu eina eða tvær vikur. Það er nánast kjánalegt hversu litla trú maður hefur á að eitthvað verði úr þessu tímabili úr þessu, en það eru áhrif þess að fara ítrekað í kapphlaup við ákveðið lið og téð lið hefur alltaf haft yfirhöndina. Allavega hingað til.

Ef einhver hefði boðið meðal stuðningsmanni Liverpool að vera tveimur stigum frá toppsætinu þegar fimm leikir væru eftir hefðum við öll gripið það með báðum höndum. En samhengi er allt. Don Hutchinson hjá BBC orðaði það ansi vel eftir vonbrigðin á Ítalíu: Þeir eru að spila eins og lið sem er stressað.

Andstæðingurinn – Fulham.

Það væri hægt að fyrirgefa leikmönnum Fulham fyrir að hafa mestar áhyggjur af hótelbókunum sumarfríssins þessa dagana. Þeir eru í tólfta sæti, algjörlega lausir við falldrauginn en eiga ekki nokkurn séns á að komast í Evrópusæti. Heilt yfir fínasta tímabil hjá þeim sama hvernig síðustu leikirnir fara.

Hvað spila menn uppá þegar þeir hafa náð markmiðum sínum? Stoltið, klárlega. Til að hafa gaman, því þetta er þegar allt kemur til alls leikur? Líklega. Uppá næsta samning? Má vera. En líka upp á tækifærið til að ná í frækna sigra gegnum stórum andstæðingum. Fulham fá að fara inn í leiki gegn bæði Liverpool og City á næstu vikum með engu að tapa og allt að vinna. Þannig íþróttamenn eiga til að spila með ákveðinni ró, stillingu og leikgleði sem er einfaldlega stór hættuleg.

Þó að Fulham hafi ekki unnið Liverpool í síðustu fimm leikjum liðanna, er langt frá því að Liverpool hafi haft yfirburði í viðureignum liðana. Tvisvar í síðustu fimm leikjum hafa liðin gert jafntefli og leikirnir þrír sem Liverpool hafa unnið hafa unnist með eins marks mun. Þetta verður fjórði leikur liðina í vetur, en Liverpool sló Fulham út í tveggja leikja rimmu núna í janúar. Venjulega er það Chelsea sem Liverpool þarf að spila við fjórum sinnum á tímabili, þetta er ágætis tilbreyting.

Þannig að… Liverpool er að fara í heimsókn til liðs sem hefur engu að tapa, eru líklega í hefndarhug, á litlum og erfiðum útivelli eftir hörmungar vonbrigði þrem sólarhringum áður. Það eru bara alls konar ástæður fyrir að Fulham menn geta verið bjartsýnir fyrir þennan leik, sem er óþægilegt.

Okkar menn.

Vonbrigði, vonbrigði og vonbrigði. Þannig má lýsa síðustu vikum hjá Liverpool. Allir tengdir félaginu finna fyrir því, frá skellinum gegn United, til skellana gegn Atalanta, Palace og aftur gegn United. Það er erfitt að ímynda sér hvernig stemningin er í klefanum þessa daga. Strákarnir eru mennskir, þeir vissu að okkur dreymdi öll um þrennu eða fernu, þeim dreymdi það líka. Þeir eru líka að kveðja manninn sem fékk okkur öll til að dreyma og trúa á draumana hjá liðinu.

Það reynir á leiðtogana í hópnum á svona stundum, nú þarf að minnka markmiðið, minna fókusinn. Það eina sem skiptir máli er að klára næsta verkefni. Eftir það þarf að klára næsta verkefni og svo framvegis. Það þarf ekki kraftaverk til að snúa tímabilinu okkur í vil, en það þurfa ákveðnir hlutir að falla með Liverpool og leikmenn verða að klára sitt.

Í allan vetur hafa þessar upphitanir verið að miklu leyti upptalningar á hvaða leikmenn eru meiddir en allt í einu eru ekki nema þrír á þeim lista og engin þeirra lykilmaður. Kannski hefur nauðsyn þess að koma mönnum í leikform haft meiri áhrif en við viljum vita síðasta hálfa mánuðinn.

Það er nokkuð öruggt að Trent, Robbo og Van Dijk byrji. Það er alltaf pínu erfitt að ímynda sér að Konate spili tvo leiki í röð, svo ég held að Quansha kom inn í stað frakkans knáa. Endo fékk góða hvíld í vikunni og geri ég ráð fyrir að hann komi aftur inn í liðið. Jones hefur oft verið betri en undanfarið, en ég ætla samt að spá að hann og Szobozlai byrji leikinn.

Frammi mun Salah auðvitað byrja. Gakpo verður væntanlega á bekknum víst hann spilaði allan leikinn á fimmtudaginn svo Nunez verður fremstur og svo vil ég sjá Jota okkar með þeim tveim. Mun þá líta svona út:

Spá.

Væntanlega hef ég ekki blásið upp ofgnótt af bjartsýni með þessari upphitun hingað til. Það er samt þannig að maður upplifir að það þurfi ekki mikið til að snúa gengi liðsins við. Á fimmtudaginn héldu þeir hreinu í fyrsta sinn í allt of langan tíma. Það sem vantar er fyrst fremst og síðast að klára þanna aragrúa færa og hálf-færa sem liðið skapar sér. Ég ætla að spá því að það breytist í þessum leik og hann endi 2-0 fyrir okkar mönnum þar sem seint í seinni hálfleik skora okkar menn tvö mörk með stuttu millibili og koma sér aftur á sigurbraut. Koma svo!

13 Comments

  1. Sammála með byrjunarliðið en vonandi eru leikmennirnir og Klopp meira mótiveraðir en við stuðningsmenn sem liggja flestir niðri eftir föst og ítrekuð spörk í kviðinn seinustu vikur.
    Það er erfitt að peppa sig upp þessa dagana þó að mótið sé alls ekki búið og vissulega er stærsti titillinn ennþá í augsýn þó að city sé komin með aðra höndina á hann.
    Eigum við ekki að reyna að trúa og treysta á að þetta sé ennþá séns og rífa okkur upp.

    6
  2. Þegar framherjar neita að skora úr opnum færum og vörnin fær á sig barnaleg mörk er vandi að reyna að breyta þessu með öðru skipulagi. Þetta er eitthvað í hausnum á þeim og á því þarf að vinna bug.

    6
  3. Góðar pælingar hjá skýrsluhöfundi. Því miður þarf Mac Allister líklegast einhverja hvíld í dag en þá vil ég allan daginn sjá Harvey Elliot inn í liðið fyrir Curtis Jones! Með Jones á miðjunni lítum við út eins og manni færri!

    Svo er ótrúlegt og pirrandi að lesa það að Konate geti ekki spilað meira en 2 leiki í röð, jaðrar við að vera í flokki með Naby Keita!! Konate ansi brothættur þannig að það hlýtur að vera forgangsverkefni að fá miðvörð í sumar sem getur spilað fleiri leiki yfir tímabilið!

    Vil Jota frammi að hirða upp boltana sem Nunez kemur ekki í markið!

    Þrjú stig í dag er allt sem ég bið um!

    YNWA

    3
  4. Sælir félagar

    Ég ætla ekki að segja neitt. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
      • Eru ekki allir góðir? 🙂 èg sè Jones er ekki í byrjunarliðinu þannig að það verður forvitnilegt að sjá finst miðjan samt ekki allveg sú sterkasta en við eigum Mac á bekknum.

        YNWA

        2
  5. Sæll

    Þú ræður því Daníel og er ég dálítið hissa á þessum dónaskap eins og maður megi ekki láta það vera að tjá sig meira en ég geri hér.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  6. Verðum bara að vinna leikinn, ekkert annað í boði ef við ætlum að halda spennu í mótinu áfram.
    Síðustu ca 10 leikir við Fulham hafa verið streituvaldandi og ég gerið ráð fyrir að leikurinn í dag verði það líka.

    Vinnum leikinn 2-1 eftir að lenda undir eins og í öllum leikjum á tímabilinu (þannig líður mér amk)

    YNWA

    1
  7. Klopp hvorki með Nunez eða Salah inná,eins ég vonaðist eftir og nú er að sjá hvort þessi uppstilling virki.

    Mín spá er 3-2 fyrir okkar mönnum.

    2

Stelpurnar heimsækja Bristol

Liðið gegn Fulham