Upphitun: Liverpool mætir á Tottenham Hotspur Stadium

Rauði herinn mætir á heimavöll Tottenham eftir Meistaradeildarmiðrarvikumæðu og stóra spurningin er hvort að alþjóðlega Evrópuþynnkan alræmda muni þjaka þynnildisþolendur á þunnudagseftirmiðdegi. Til þess að spá í þau spil þarf að hita upp!!!

Mótherjinn

Hinir liljuhvítu Lundúnaliðsverjar hafa byrjað tímabilið á góðu pari miðað við vonir og raunhæfar væntingar með því að vera í 3. sæti eftir 13 leiki með 26 stig og einungis 5 stig frá Nallara-nágrönnum sínum á toppi deildarinnar. Það er heilum 10 stigum frá okkar mönnum í 9.sæti þó að vissulega eigum við leik til góða en sú varhugaverða staða gerir þennan leik að gríðarlegu mikilvægu einvígi út frá samhengi hlutanna um Meistaradeildarsæti í lok leiktíðar.

Talandi um Meistaradeildina að þá spiluðu bæði liðin sína lokaleiki í riðlakeppninni sl. þriðjudag og unnu bæði sigra, þó að Tottenham hafi verið öllu dramatískari með sínum 1-2 sigri í Marseille og þau úrslit dugðu þeim til að vinna sinn riðil. Sú hörkurimma átti þó eftir að reynast þeim dýrkeypt þar sem að annar aðalmaður þeirra, Son Heung-min, meiddist illa og þurfti að gangast undir aðgerð vegna augntóftarbrots. Hann verður því ekki með um helgina og óvíst er með þátttöku hans með suður-kóreska landsliðinu á HM 2022 í Katar sem hefst þann 20. nóvember nk.

Fyrrum Everton-leikmaðurinn Richarlison er einnig meiddur og verður ekki leikfær sem veldur því væntanlega að margur Púlarinn grætur þurrum krókódílatárum yfir örlögum hans. Varnarmaðurinn Romero er með þeim sonunum á meiðslalistanum en meiri líkur eru á að Svíinn Kulusevski verði nægilega heilsuhraustur til að vera í leikmannahópnum.

Rimmur á milli Antonio Conte og Jürgen Klopp hafa hingað til verið miklar refskákir og allar líkur eru á að það sama verði upp á teningunum í þetta skiptið. Á síðasta tímabili enduðu báðir leikir liðanna með jafnteflum og í þeim 6 leikjum sem Klopp hefur mætt Conte þá hafa 4 þeirra endað jafnt að leikslokum með sitt hvorum sigrinum deilt á hvorn stjóra. Nálgun Conte í stórleikjum hefur oftast verið sú að treysta á þéttan varnarleik með þremur miðvörðum og beitt hröðum skyndisóknum. Að hafa ekki Son og Richarlison í boði er vissulega högg fyrir heimamenn en þeir hafa þó Kane, Moura og Perisic sem sína hættulegustu sóknarmenn fram á við.

Uppstilling byrjunarliðsins ætti því að vera á þessa leið:

Líkleg liðsuppstilling Tottenham í leikkerfinu 3-5-2

Liverpool

Sigur okkar manna á Napoli var góður fyrir sjálfstraustið þó að ekki hafi hann dugað til að ná efsta sæti riðilsins. Flestir sem spiluðu í þeim leik ættu að hafa fengið nægilega góða hvíld í þeim 5 dögum sem er milli leikjanna til að vera til í tuskið gegn Tottenham en einn sem missir þó að leiknum er Milner sem fékk höfuðhögg og er ekki valhæfur sökum reglna um hugsanlegan heilahristing. Fyrirliðinn Henderson ætti þó að vera valkostur að nýju eftir að hafa ekki tekið þátt gegn Napoli sökum varúðarráðstafana en langtímameiðslalistinn inniheldur ennþá Matip, Jota, Diaz, Keita og Arthur.

Byrjunarliðið ætti þó að vera með sterkasta móti og mín ágiskun er sú að Darwin Nunez fái tækifærið frá byrjun eftir líflega innkomu og markaskorun í síðasta leik. Klopp er því líklegur til að stilla byrjunarliðinu svona upp:

Líkleg liðsuppstilling Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Kloppvarpið

Klopp mætti fyrir framan sjónvarpsvélarnar og svaraði spurningum fréttamanna á blaðamannafundi fyrir leik:

Tölfræðin

  • Liverpool hefur ekki tapað fyrir Tottenham í 10 leikjum í röð í öllum keppnum.
  • Liðin hafa mæst 179 sinnum í keppnisleikjum og hafa LFC unnið 87 þeirra leikja (48,6% vinningshlutfall) en á heimavelli Tottenham hafa gestgjafarnir unnið 40 af 88 leikjum spiluðum (45,5% vinningshlutfall).
  • Liverpool tapaði síðast á heimavelli Spurs fyrir nær nákvæmlega 10 árum í nóvember 2012.
  • Tottenham hafa fengið á sig a.m.k. 2 mörk í síðustu 3 deildarleikjum.
  • Liverpool hafa ekki náð að sigra í sínum 5 síðustu deildarleikjum.

Upphitunarlagið

Hinn friðdjammandi Jamaíka-maður Bob Marley ku hafa verið aðdáandi Tottenham á sínum tíma sökum ástfóstri hans við argentínska leikmann þeirra Ossie Ardiles. Það er því vel við hæfi að hita upp með Bob Marley og & The Wailers er þeir spiluðu lagið Get Up, Stand Up á tónleikum í Lundúnum árið 1977. Við vonum svo sannarlega að Rauði herinn okkar hífi sig upp og standi uppréttir í leiknum í London:

Spaks manns spádómur

Það er ekki seinna vænna en að Liverpool fari að rífa sig í gang í deildinni og þá er enginn betri tími en gegn beinum keppinaut um Meistaradeildarsæti. Sigrar gegn Man City og West Ham reyndust falskar vonir og væntingar þar sem í kjölfarið fylgdu tveir sérlega svekkjandi tapleikir í deildinni gegn neðrihlutaliðinum Nott Forest og Leeds United. Ef ekki á að fara illa  á þessu tímabili að þá er nauðsynlegt að landa 3 stigum á erfiðum útivelli og fara á góðu nótunum inn í HM-hléið.

Við munum líklega vera meira með boltann þar sem Tottenham verða væntanlega varnarsinnaðir í upphafi leiks og við þurfum að vona að við verðum nógu skapandi til að opna þéttan varnarmúr heimamanna. Ég ætla að leyfa mér að vera nógu vongóður til að spá 1-2 útisigri okkar manna þar sem Mo Salah og Darwin Nunez munu annast markaskorun en Harry Kane mun setja mark sitt á leikinn fyrir hönd síns liðs.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

Gullkastið – Þungarokkið dottið í Bon Jovi!

Villa heimsækja stelpurnar okkar