Botnbaráttuslagur á Old Trafford

Rauði herinn frá Bítlaborginni mætir sínum fornu fjendum í formi Rauðu djöflanna frá Manchester þegar að þessi stórveldi enska boltans mætast á Old Trafford á mánudagskvöldið. Bæði lið eru í þeirri óvenjulegu stöðu að vera ansi neðarlega í stigatöflunni en vissulega er leikurinn bara þeirra þriðji á tímabilinu. Engu að síður hefur byrjun beggja verið með verra móti og enginn sigur kominn ennþá sem gerir leikinn enn mikilvægari fyrir vikið. Hitum upp fyrir stórhátíðina!

Mótherjinn

Man Utd eru að ganga í gegnum miklar breytingar og skarta nýjum knattspyrnustjóra við stjórnvölinn en Hollendingurinn Erik ten Hag kom frá Ajax í sumar. Á undirbúningstímabilinu var liðið að gera ágæta hluti og gátu United-menn verið að einhverju leyti bjartsýnir um að von væri á skárri tímum eftir þrautagöngu síðustu ára. Þeir unnu meðal annars okkar menn 4-0 í Bangkok í júlí en reyndar voru liðin á sitt hvorum staðnum hvað æfingaprógram varðandi þannig að mælikvarðinn á þeim úrslitum var ekki mikill eða marktækur.

Illa hefur þó gengið að versla á leikmannamarkaðnum og inn hafa komið Christian Eriksen, Lisandro Martínez, Tyrell Malacia og nú síðast Casemiro frá Real Madrid. Sá síðastnefndi er ólíklegur til að vera skráður tímanlega sem nýr leikmaður fyrir þetta einvígi en það verður áhugavert að sjá hvernig hinn þrítugi Brassi mun aðlagast hraðanum og átökunum í ensku úrvalsdeildinni. Helsta skotmarkið þeirra hefur þó verið Frenkie de Jong sem er í sérstakri og farsakenndri stöðu hjá Barcelona en ef taka á fréttir trúanlegar þá hreinlega vill hann ekki fara til United og þá sér í lagi þar sem liðið er ekki í Meistaradeildinni. Það er því af sem áður var að leikmenn kepptust við að ganga til liðs við rauða liðið í Manchester.

Strögglið á leikmannamarkaðnum var fyrirboði er í fyrsta deildarleikinn var komið þegar að Brighton sigruðu heimamenn 1-2 á Old Trafford og síðan kom afhroðið úti gegn Brentford í 4-0 tapi um síðustu helgi. Fyrst að Graham Potter og Thomas Frank gátu tekið ten Hag í taktíska kennslustund að þá ættum við að hafa ágætar vonir um að meistari Jürgen Klopp geti teflt öfluga refskák líkt og síðustu tímabil.

Sjálfstraustið virðist einnig vera af skornum skammti og andrúmsloftið þrælþungt í búningsklefanum með Cristiano Ronaldo í fýlukasti og sína framtíð hjá klúbbnum í óvissu. Erik ten Hag er hreinskilinn að hollenskum sið í viðtölum en það er spurning hvaða viðbrögð það mun vekja hjá leikmannahópnum að vera teknir þannig fyrir í fjölmiðlum. Hörkutóls-nálgunin getur virkað ef hann nær snemma tökum á agastjórnuninni en það er einnig hætt við að slíkt verði olía á eld með tilheyrandi sprengingum.

Hápressan sem ten Hag er þekktur fyrir er ennþá verk í vinnslu og varnarleikurinn hefur ekkert skánað frá síðasta tímabili miðað við fyrstu tvo leikina. Það er spurning hvort að afsláttur verði gefinn á hreintrúnni með að spila frá marki sem virðist alls ekki henta de Gea eða mörgum varnarmönnum liðsins. Miðað við vægi einvígisins að þá kæmi ekki á óvart ef að heimamenn myndu jafnvel fara ansi varnarsinnað inn í þennan leik af einskærum ótta við að tapa og jafnvel að tapa stórt líkt og á síðasta tímabili sæll minninga.

Ég ætla því að giska á þetta verði byrjunarlið United þar sem Harry Maguire yrði dömpað á bekkinn en Ronaldo fær að byrja:

Líklegt byrjunarlið Man Utd í leikskipulaginu 4-3-3

Liverpool

Okkar menn hafa ekki byrjað tímabilið nógu vel en í þessum tveimur jafnteflum þá var frammistaða liðsins sveiflukennd og enn vorum við að ströggla við að fá á okkur fyrsta markið í leikjum. Það veldur því að við erum alltaf í björgunarleiðangri við að bjarga stigunum og stundum er það verkefni einfaldlega of torsótt, sér í lagi þegar að við erum einum færri. Skallapoppið hans Darwin var ekki eingöngu blóðugt í þeim leik heldur er einnig mjög slæmt að nýi strækerinn okkar er að byrja sitt 3ja leikja bann og það er að koma á óheppilegum tíma út frá meiðslastöðu hópsins. Jota, Ox, Matip, Konate, Curtis, Thiago, Ramsey og Kelleher eru allir meiddir en sem betur fer ætti Bobby Firmino að vera heill heilsu til að byrja inná og hugsanlega er Keita í boði líka.

Það má lengi ræða það hvort að kaupa hefði átt fleiri leikmenn í sumar og sú staðreynd að helmingur útileikmanna á okkar bekk í síðustu umferð voru 20 ára eða yngri (þ.m.t. tveir 17 ára) að þá er ljóst að við erum að tefla á tæpasta vað með að treysta á að sögulega heilsutæpir leikmenn haldist ómeiddir. Meistari Klopp var pirraður yfir spurningum um styrkingar á miðsvæðinu fyrr í sumar en hugsanlegt er að sá pirringur sé uppruninn í því að það er meira en lítið sannleikskorn í því að þörf sé á öflugum miðjumanni til skemmri og lengri tíma.

En því verður ekki breytt fyrir stórleikinn og við munum bara þurfa að notast við það sem við höfum tiltækt og byrjunarliðið ætti í sjálfu sér að vera nokkuð sterkt þrátt fyrir öll meiðslin. Það eru allar líkur á því að Joe Gomez komi inn í byrjunarliðið í stað Nat Phillips og Bobby verður líka í framlínunni í stað Darwin. Helsta vangaveltan gæti verið hvort að Keita komi inn á miðjunna í staðinn fyrir Elliott en aðrar stöður ættu að segja sig sjálfar.

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Tölfræðin

 • Liverpool eru ósigraðir í síðustu 21 deildarleikjum sínum.
 • Man Utd hafa tapað sínum 4 síðustu deildarleikjum.
 • Liverpool hefur ekki tapað á Old Trafford í síðustu 4 heimsóknum sínum þangað með tvo sigra og tvö jafntefli.

Kloppvarpið

Okkar maður mætti fyrir framan myndavélarnar og fór yfir stöðu mála fyrir leikinn:

Erik ten Hag hafði þetta að segja varðandi sitt lið:

Spaks manns spádómur

Það má vel velta fyrir sér hvort að þetta sé sérlega góður tími til að mæta Man Utd í ljósi hversu illa þeir eru að spila en einnig er alltaf ákveðið element af særðu dýri sem er mjög desperat í að tapa ekki fyrir sínum erkifjendum. En Liverpool hefur einnig ýmislegt að sanna eftir töpuð stig í fyrstu umferðunum og verða að snúa jafnteflum í sigra til að halda í við toppbaráttuna.

Þess vegna er líklegt að fyrsta mark leiksins gæti haft mjög mikið um það að segja hvort að heimamenn brotna ef þeir lenda undir eða ef þeir fá mikið sjálfstraust ef þeir komast yfir með forskot til að verja. Því miður höfum við verið mikið að leka fyrstu mörkum okkar leikja upp á síðkastið en varnarleikur og markvarsla hjá Man Utd hefur verið arfaslök þannig að þeir eru ekkert sérstaklega líklegir til að halda hreinu.

Mín spá er sú að við verðum vel mótíveraðir og einbeittir fyrir þennan leik og okkar gæði og skipulag sé einfaldlega mun meira en gestgjafanna. Mo Salah hefur oft lifnað við í þessum leikjum og ég spá því að hann setji 2 mörk ásamt einu marki frá Luis Diaz í 1-3 útisigri.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

15 Comments

 1. Vinna þetta utd drasl. Það er allt sem ég vill. Þessi stjóri þeirra virkar alls ekki vel á fjölmiðlafundi, kann varla ensku, ég hélt að allir Hollendingar væru með ensku sem jafnvel fyrsta tungumál. Hann talar um að þeir hafi ekki rétt hugarfar, vonandi heldur það áfram á morgun. Rúllum yfir þetta drasl. Áfram USA;-)
  Keyrum á þetta og vinnum aftur 0-5 !

  3
 2. Ég er sammála pistlahöfundi að við eru að tefla á tæpasta vað í leikmannamálum. Við megum ekki sitja hnípin með hendur í skauti og tefla í tvísýnu. Við verðum að taka áhættu og kaupa mann og annan. Láta slag standa og tefla djarft. Breikka hópinn. Taka séns og tefla á tæpustu vöð. Það er þannig sem við vinnum deildina.

  7
 3. Sæl og blessuð.

  Á einhverjum tímapunkti hefði ég fyllst svartsýni – gamall særður risi vaknar til lífsins og á leik aldarinnar gegn okkar liði, sem hefur verið mistækt undanfarið.

  En … ef við lítum á andstængana þá eru þeir:

  1. Varnarlausir
  2. Miðjulausir
  3. Sóknarlauir
  4. Stjórnlausir
  5. Stuðningslausir.

  Við hljótum að vinna þennan leik. Og það stórt.

  10
 4. Sæl öll,

  þetta held ég verði mjög erfiður leikur fyrir okkur Liverpool menn. Miðjan hjá okkur er búin að vera í miklu brasi í upphafi móts og liðið virðist þurfa að fá á sig mark til að vakna og byrja leiki, CP leikurinn var undantekning frá því mynstri. Hjá utd hlýtur ten Hag að setja upp í 3 half-centa kerfi með Martines á milli Varane og Maguire og þeir eru svo sannarlega með leikmenn sem geta komið hratt upp í skyndisóknir.

  Liverpool er með bakið upp við vegg og verður að vinna þennan leik!

  5
  • Nákvæmlega það sem ég vildi segja. Við höfum fáar lausnir gegn liðum sem pakka í vörn með öskufljóta framherja…….. cp?

   3
 5. Eins lélegt og Manchester United er núna, þá eiga þeir að vera að minnsta kosti jafn góðir ef ekki betri en Fulham og Crystal Palace. Þannig að við þurfum að vera betri en við höfum verið í síðustu tveimur leikjum ef við eigum að vinna – sem við verðum að gera og ég er viss um að við gerum.

  Við eigum alveg að geta þraukað með þann mannskap sem við höfum, en ég er sammála, það væri betra ef við fengjum einn góðan og meiðslalausan miðjumann – verst að þeir sem eru nógu góðir fyrir okkur eru fáir og því alls ekki víst að einhver neyðarkaup myndu virka.
  Ef engin kaup verða, vona ég og held að minni spámenn í varaliðum Liverpool stígi upp.

  3
 6. Vondar fréttir af Gini. Fótbrotinn, nýkominn til Roma. Spilar ekki næstu mánuðina.

  1
  • (afsakið, ég kenndi bara alltíeinu í brjósti um hann. grasið er ekki alltaf grænna osfrv.)

   2
 7. Það er langt síðan þessir erkióvinir mættust þegar bæði lið voru í toppbaráttunni og það er skrýtið að sjá Liverpool í 15 sæti og united í 19 sæti þegar þessi lið mætast.
  Gríðarlega mikilvægt að vinna þennan leik og skila united niður í 20 sæti aftur.
  Vonandi er Firmino klár í að leiða sóknina fyrir okkur en annars hlýtur Salah að vera fremstur með Elliot og Diaz sé við hlið.

  5
 8. Giska á að united vinni, hef enga trú á liverpool eftir 2 síðustu leiki.

 9. Ég hef mikla trú á okkar mönnum. Þetta er búið að vera stöngin út en þetta dettur núna!! Ég er engu að síður sammála um að Liverpool getur ekki treyst á þessa meiðslapésa sem skipa miðjuna í dag og þarf að taka einn í viðbót inn.

  1
 10. Sælir félagar

  Þrátt fyrir slæma stöðu MU er ekkert gefið í þessum leik. Afar mikilvægt er að láta MU alls ekki skora fyrsta markið. Vörnin og miðjan verða að gjöra svo vla og halda í þessum leik þannig að Liverpool verði ekki að elta eins og í síðustu leikjum. Þetta verður hunderfitt því MU koma alveg trylltir inn í leikinn og berjast af hörku á öllum svæðum. Krafan er einfaldlega að vinna leikinn, hvort sem það er með einu marki eða fleirum.

  Það er nú þannig

  YNWA

  1

Gullkastið – Copy/Paste

Byrjunarliðin klár, vesen í kringum völlinn