Upphitun: Lokaumferð gegn Wolves á Anfield

Liverpool eru senn komnir á leiðarenda á leiktímabili þessa vetrar í ensku úrvalsdeildinni og munu ljúka keppni með lokaleik sínum á heimavelli gegn Wolverhampton Wanderers FC á hvíldardegi morgundagsins. Hvert þessi magnaða vegferð mun á endanum leiða okkar menn á enn eftir að koma í ljós en við getum ennþá lifað í veikri von fram að síðasta dómaraflauti þar sem kraftaverkin ku vera fræðilega möguleg í knattspyrnunni.

Klopp og kátir kappar hans eru klárir í slaginn og við keyrum okkur í gang með upphitun!!!!

Mótherjinn

Úlfarnir eru að ljúka sínu fyrsta tímabili undir stjórn hins portúgalska Bruno Lage sem áður hafði stýrt Benfica til sigurs í Primeira Liga árið 2019 og tók hann við taumunum af Nuno Espírito Santo síðasta sumar. Gengi liðsins hefur verið þó nokkuð sveiflukennt en á köflum hefur glitt í gæði með skipulagðan varnarleik sem endurspeglast í að liðið hefur fengið á sig fimmta fæst mörk liða í deildinni eða 40 stykki talsins. Liðin hefur þó verið verulega slakt sóknarlega með eingöngu 37 skoruð mörk og þetta hefur því skilað þeim 15 sigrum og 16 töpum en samanlagt virðulegu 8. sæti fyrir lokaumferðina með topp 10 lokaniðurstöðu tryggða.

Byrjun tímabilsins var brösótt en verulega lifnaði yfir genginu fyrir og eftir jólaleytið en upp á síðkastið virðist sem leikmenn séu komnir í sumarfrí með engan sigur í 6 leikjum í röð og síðasti sigur þeirra kom þann 2. apríl sl. eða fyrir rúmlega 1,5 mánuði síðan. Þetta veit vonandi á gott fyrir heimamenn en ekkert er gefið í fyrirfram í bestu deild í heimi og Úlfarnir munu reyna að bíta frá sér til að enda ekki tímabilið á of snubbóttan máta þrátt fyrir að eiga engan séns á að ná í Evrópusæti fyrir ofan sig.

Af helstu leikmönnum sem vert er að nefna hjá gestunum að þá er mexíkóski framherjinn Raúl Jiménez ávallt hættulegur þrátt fyrir aldur og fyrri meiðsli og er hann markahæstur sinna manna með 6 deildarmörk á tímabilinu en sú lága markatala gefur góða vísbendingu um vandræði liðsins með að þenja netmöskvana í vetur. Næst markahæstur Úlfanna er hinn suður-kóreski Hwang Hee-Chan sem hefur skorað 5 mörk og var sprækur þegar best lét hjá liðinu en hefur fjarað út eftir því sem lengra líður á hans fyrsta tímabil í deildinni.

Portúgalinn Rúben Neves heldur áfram að vera með betri varnarsinnuðu miðjumönnum deildarinnar og hefur smellt í 4 deildarmörk með sínum öfluga skotfæti. Við hlið Neves er hinn síungi samlandi hans João Moutinho sem er á sínu 36 aldursári en hann áorkaði það á tímabilinu að komast í fámennan hóp þeirra þrautseigu leikmanna sem spilað hafa yfir 1.000 opinbera fótboltaleiki á sínum glæsilega ferli. Hin portúgalska beintenging er sterk og samtals eru 7 leikmenn þess ágæta lands á bókum Wolves og til viðbótar má nefna mjög góða frumraun markvarðarins José Sá á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Síðastan en alls ekki sístan ber að nefna fyrirliðann Conor Coady sem líkt og flestir vita er uppalinn í akademíu Liverpool og spilaði einn deildarleik fyrir Rauða herinn ungur að árum áður en hann leitaði grænni grasa. Það væru væntanlega blendnar tilfinningar fyrir Coady sem fæddur er í St. Helens á Merseyside ef hann ætti þátt í að hafa bein áhrif á tæpar titilvonir síns uppeldisfélags en fyrirliðinn er fagmaður fram í fingurgóma og mun vafalítið spila sinn venjulega leik þrátt fyrir titiltilefnið. Það voru reyndar einhverjar vangaveltur um þátttöku hans á morgun þar sem að honum var skipt útaf í hálfleik gegn Norwich um síðustu helgi þannig að hugsanlegt er að meiðsli gætu verið í spilunum.

Ég geri þó ráð fyrir að Bruno Lage stilli upp liði sínu á eftirfarandi hátt miðað við staðfestar meiðslafregnir og helstu upplýsingar:

Líklegt byrjunarlið Wolves í leikskipulaginu 3-4-2-1

Liverpool

Okkar menn hafa undir magnaðri leiðsögn meistarar Klopp gert stórkostlega hluti á þessu tímabili og eru enn í keppni um frábæra fótboltafernu með sinni einstöku liðsheild og þrautseigju. Sama hvernig fer á næstu 7 dögum að þá ber að virða þetta Liverpool-lið sem eitt það sterkasta sem sést hefur í enskri og evrópskri knattspyrnusögu. Eftir álag síðustu mánaða þá er skiljanlegt að þreyta og meiðsli sé að hrjá mannskapinn en við höfum sjaldan verið með jafn mikla breydd í hópnum til að takast á við þau vandamál sem koma upp.

Mo Salah og Virgil van Dijk þurftu á meiðslaskiptingu að halda í bikarúrslitaleiknum en náðu að æfa í vikunni þannig að þeir gætu verið leikfærir fyrir lokaleikinn. Mér finnst þó líklegast að litlar áhættur verði teknar með úrslitaleik Meistaradeildarinnar handan við hornið og hugsanlega sitja þeir báðir á bekknum til taks ef þörf krefur. Við ættum að hafa nóg af öflugum mönnum til að manna stöðurnar og einnig til að leysa fjarveru Fabinho sem mun vonandi jafna sig tímanlega.

Mín tilfinning er að flestir af fastamönnunum komi aftur inn í byrjunarliðið eftir hvíld gegn Southampton í miðri viku og að liðsuppstillingin verði á þennan máta:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Tölfræði

  • Liverpool hafa unnið 15 af sínum síðustu 17 deildarleikum.
  • Wolves hafa ekki unnið sigur í neinum af sínum síðustu 6 deildarleikjum.
  • Liverpool hafa unnið Wolves í síðustu 10 deildarleikjum liðanna og þar af hefur LFC haldið hreinu í 8 af þessum 10 sigurleikjum.
  • Liðin hafa mæst 52 sinnum í öllum keppnum á Anfield. Heimamenn hafa unnið 35 þeirra leikja (67,3%), 7 endað í jafntefli (13,5%) og gestirnir unnið 10 leiki (19,2%) með heildarmarkatöluna 93 mörk gegn 45 mörkum.

Kloppvarpið

Jürgen Klopp mætti í sinni síðasta blaðamannafund fyrir deildarleik á tímabilinu og brosti sínu breiðasta meðan hann upplýsti um meiðslastöðu leikmanna, baráttunni um gullskóinn, Steven Gerrard, Wolves, goðsögnina Divock Origi o.fl. Alltaf vel þess virði að hlusta og horfa á snillinginn:

Spaks manns spádómur

Liverpool þurfa að vinna sína heimavinnu með öflugum heimasigri á Anfield til að gera sér tölfræðilega tæpar titlilvonir á lokadegi leiktímabilsins. Það myndi æra óstöðugan að velta því of mikið fyrir sér hvað mun gerast á Etihad og því fylgir upphitunarhöfundur hinni ágætu uppskrift meistara Klopp að einbeita sér að sínu eigin verkefni en annað utan okkar stjórn mun hafa sinn gang. Vonir okkar og væntingar verða þó auðvitað þær að Steven Gerrard, Coutinho og Ings muni gera okkur gylltan greiða en sama hvað gerist þá stöndum við með okkar mönnum fram í Liverpool-rauðan dauðann og það mun koma annar leikdagur eftir þennan eða nánar tiltekið eftir slétta viku í París. Því fer sem fer.

Spekingsleg spá mín fyrir morgundaginn er sú að okkar menn haldi áfram sínu grjótharða og góða gengi við að gera nógu mikið til að klára sína leiki með fagmannlegum sigrum. Að mínu mati verður það svo vel framkvæmt að okkar menn munu sigra leikinn örugglega með 3-0 lokatölum og varðandi markaskorun þá mun Sadio Mané sjá um að opna markareikninginn og síðan munu varamennirnir Salah og Origi tryggja sigurinn í seinni hálfleik. Það dugar vonandi Egyptanum einstaka til að tryggja sinn gullskó og einnig gefa goðsögninni Divock Origi gullmarki í kveðjuleik sínum á Anfield.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

11 Comments

  1. Eðlilega er allt sem mælir á móti því að AV nái amk jafntefli, en halló allt getur gerst. Aðallega að okkar menn standi sína plikt, betur er ekki hægt að gera. 2-0 fyrir okkar mönnum.

    YNWA

    2
  2. Sælir félagar

    Var að koma af dásamlegum tónleikum Andrea Bocelli í Kórnum og auðvitað söng hann YOU’LL NEVER WALK ALONE sem er auðvitað merki um sigur í deildinni á morgun. Vonin lifir!

    Það er nú þannig

    YNWA

    19
    • Snilldin ein vinur þvílíkur snillingur sem þessi maður er.
      Vonin lifir alltaf!

      3
  3. Eina sem myndi virkilega svekja mig á morgun væri ef Man City myndi ekki sigra og við myndum ekki gera það heldur.
    Maður lifir í von um að við verðum meistara en maður telur líklegt að svo verður ekki( segjum 10% líkur á því).
    Maður er bara svo stoltur af þessu liði að vera að berjast á öllum vígstöðum og ná að halda í við þetta Man City lið líka allt til enda og finnst manni að við séum einfaldlega ekki síðri en þeir.

    Ef við sigrum á morgun þá eru það 92 stig sem hefði hér áður fyrr verið slátrun á deildinni en ekki í dag.

    YNWA – Vonast eftir sigri og mun klappa fyrir liðinu þegar þeir ganga hring með fjölskyldunni sinni á Anfield eftir leik, hvort sem þeir verða með bikar í hönd eða ekki.

    p.s Það væri helvíti kaldhæðnislegt að KDB og Foden fengu einstaklingsverðlaun ef þeir sætu eftir með 0 bikara og við 4 😉

    9
    • Nákvæmlega sama sló inn hjá mér í gær. Ég held að verðlaunin þeirra geti orðið að áhríni í dag. SIGUR hjá okkur, JAFNTEFLI hjá City!

      4
  4. Sæl og blessuð.

    Er þetta ekki það sem er skemmtilegast við að eiga sér þetta eftirlætislið? Spenna, spenna, dramatík, örlagastundir já og nefndi ég … spennu? Aldrei dauð stund.

    Hvernig sem fer í dag, þá er það þetta sem Klopp og garpar hans hafa látið okkur í té. Þegar langflest lið deildarinnar eru tutlandi í meðalmennskunni eða löngu fallin – þá fylgjumst við með gangi mála, stóreyg og spennt og lifum okkur inn í hverja sekúndu sem líður þar til úrslitin liggja svo fyrir seinna í dag.

    Ég segi bara, takk fyrir mig – hvernig sem fer.

    5
  5. * Árangur Aston Villa á útivelli í vetur: lélegur
    * Síðustu 10 leikir City og Villa á Etihad: 10 heimasigrar
    * Markatalan í síðustu 10 leikjum City vs Villa á Etihad: 34-4
    * Úrslit í lokaleikjum City síðustu 5 tímabil: 5 sigrar
    * Hvíldartími City fyrir leikinn: 7 dagar vs 3 hjá Villa

    ÉG TRÚI!!!!

    6
    • Á endanum mun öll svona tölfræði brotna saman. Í dag er sá dagur uppruninn.

      1
  6. Ótrúlega mikil spenna og sama hvernig fer þá ráðast úrslitin á toppi og fallsæti í lokaumferð. Allt eins og það á að vera. J Moutinho er greinilega ótrúlegur með sína rúmlega 1000 leiki. Milner hefur bara leikið 944 opinbera leiki.

    2

Liverpool 90 stig +

Liðið fyrir lokaleikinn – verður þetta risa dagur í sögu Liverpool?