Upphitun: Titiltoppslagur Man City vs. Liverpool

Þá er komið að stóru stundinni sem milljónir Púlarar allra landa hafa beðið eftir ásamt báðum Man City áhangendunum: stórmeistaraslagurinn mikli á Etihad þar sem enginn verður krýndur Englandsmeistari að leik loknum en ýmislegt tölfræðilega og tilfinningalega áhugavert gæti gerst í þá áttina.

Funheitir fótboltaleikir sem þessir hafa gríðarháan eðlisvarma þannig að upphitunin þarf að ná sjóðheitu suðumarki við 451 gráðu fótboltafahrenheit!! Kyndilberum knattspyrnuna, bálbrennum boltasparkið og sous vide sjóðum soccerinn!! Komið að upphitun!!

Mótherjinn

Heimamenn hituðu upp fyrir heimsókn Rauða hersins með því að vinna tæpan 1-0 sigur á Atletico Madrid í Meistaradeildinni fyrr í vikunni í hörkuleik. Þar á undan unnu þeir Burnley á útivelli og hafa í sjálfu sér verið í fínu formi á þessu almanaksári en Liverpool hafa einfaldlega verið betri á sama tíma og nýtt sér öll þau mistök sem hinir ljósbláu hafa gert með jafnteflum við Southampton og Crystal Palace ásamt tapi fyrir Spurs. Nú er svo komið að forskotið er eingöngu eitt einasta stig þannig að mikið hvílir á þessari innbyrðisviðureign toppliðanna tveggja.

Það verður sérlega áhugavert að sjá hvaða nálgun Guardiola og Klopp munu taka á leikinn, munu þeir spila sókndjarft til sigurs eða verður þetta varnarsinnaður og taktískur bardagi með áhersluna fyrst og fremst á að loka á andstæðinginn? Til að byrja með þá voru leikir liðanna undir núverandi þjálfurum opnari leikir þar sem að Man City spilaði einfaldlega sinn hefðbundna sóknarleik sem að Liverpool gekk oft vel að refsa grimmilega fyrir með hápressu og beittum skyndisóknum.

Í seinni tíð hefur Pep hins vegar orðið mun varkárari og lagt meiri áherslu á að verja stigið með tilheyrandi fjölgun á jafnteflum í viðureignum liðanna. Ég hallast að því að það verði framhald á þeirri nálgun og nú er svo komið að Liverpool hefur ekki unnið í deildinni á Etihad síðan 2015 þó að vissulega hafi innist útisigur þar í Meistaradeildinni árið 2018. Það er því kominn tími til þess að sækja þrjú góð stig á heimavöll okkar helstu keppinauta um Englandsmeistaratitilinn og tímasetningin gæti ekki verið mikið mikilvægari í hinni hárfínu toppbaráttu.

Til þess að það gerist þá þarf að komast í gegnum þá vörn sem hefur fengið á sig fæst mörk í deildinni eða 18 mörk en Liverpool hefur reyndar bara fengið á sig tveimur meira. Það ætti að hjálpa til að okkar menn hafa verið iðnir við kolann í markaskorun og hafa skorað liða mest í deildinni með 77 mörk og markamunurinn er okkur í vil gegn City svo munar 5 mörkum. Þetta er því með allra jafnasta móti sem að gerir leikinn á morgun enn meira spennandi fyrir vikið.

Í liðsuppstillingu þá ætti aftast lína að vera nokkuð sjálfvalin vegna meiðsla Ruben Dias og á miðjunni tel ég að Pep muni veðja á meiri líkamsstyrk og með það í huga þá fari hinn fýlugjarni og smávaxni Bernardo Silva á bekkinn. Framlínan tel ég að verði alfarið engilsaxnesk til að byrja með og þannig vona heimamenn að hið stóra tilefni kveiki í breska bardagaandanum. Að mínu mati mun þó mest mæða á hinum magnaða miðjumanni Kevin De Bruyne sem hefur farið hamförum upp á síðkastið og virðist vera aftur kominn í sitt besta heimsklassaform.

Liðinu verður því væntanlega stillt upp á þennan máta:

Líkleg liðsuppstilling Man City í leikkerfinu 4-3-3

Liverpool

Hið magnaða tímabil Rauða hersins heldur áfram með einn nettan bikar í bakpokanum en ennþá með þrjú glitrandi gullverðlaun í augsýn. Frábært sigurinnlegg í fyrri leiklegg gegn Benfica í Lissabon gefur góðar vonir um að framvinda sé í vændum yfir í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Þessi apríl-mánuður okkar manna hlýtur að teljast með þeim erfiðari sem að um getur þar sem að öllum hugsanlegum hindrunum er safnað saman gegn okkur:

Von er á páskahreti í apríl með skafrenningi á fjallvegum og eingöngu vel útbúnum fótboltaliðum er ráðlegt að vera á faraldsfæti.

Tvö skylduverkefni búin en stóra prófið bíður okkar í nærliggjandi sveitarfélagi. Eftir ágætis róteringu og vel valdar hvíldarskiptingar í síðustu leikjum að þá eru okkar menn í fínu formi með allan leikmannahópinn heilbrigðan til að vera valdir á völlinn af Klopp. Í vörninni þá ætti Joel Matip að endurheimta sæti sitt af Konaté og þá tel ég að fyrirliðinn Jordan Henderson komi einnig inn í byrjunarliðið á kostnað Keita.

Stærsta spurningin um mannaval er í framlínunni þar sem við höfum núorðið frábært úrval og breidd til að velja úr. Sadio Mané hefur verið að finna taktinn að nýju og með mark í síðasta leik í Lissabon að þá ætti það að duga honum til að halda sínu sæti. Mo Salah hefur klárlega ekki verið upp á sitt besta upp á síðkastið en það vita allir hversu miklir heimsklassa hæfileikar búa honum þannig að allar líkur eru á því að hann fá tækifæri tl að láta ljós sitt skína líkt og hann gerði í fyrri deildarleik liðanna í vetur.

Síðasta sóknarsætið er helsta vangaveltan en þar má færa góð rök fyrir því að það ætti að fara til Firmino út af hans reynslu og óeigingjörnu vinnslu er hann fyllir í glufur á miðjunni sem fölsk 9. Einnig væru vel hægt að rökstyðja að hin mikla markaskorun Diogo Jota ætti að tryggja hans aðkomu frá upphafi enda mikilvægt að spila til sigurs og til þess þarf mörk. Ég hallast þó að því að Klopp muni veðja á Kólumbíumanninn Luis Díaz sem fór hamförum í síðasta leik með marki og stoðsendingu. Sprengikraftur hans, hraði og snerpa gæti raskað ró Pep og City og verið ákveðinn óvissuþáttur sem þeir hafa ekki mætt áður í einvígum liðanna.

Liðsuppstillingin væri því á þessa leið:

Líkleg liðsuppstilling Liverpool í leikkerfinu 4-3-3.

Kloppvarpið

Jürgen Klopp rumdi rámri wiskíröddu: “Now it’s City time”! Okkar maður var hipp og kúl í hettupeysu og tæklaði spurningar snurðu á engilsaxnesku og þjóðversku. Enginn meiddur og allt í lukkunnar velstandi á öllum tungumálum:

Josep “Pep” Guardiola Sala svaraði spurningum fyrir hönd síns liðs og þvertekur fyrir að vera besti þjálfari alheimsins sama hvað Jürgen Klopp heldur fram. Hann hafði sitt að segja á blaðamannafundinum og vonandi gengur hans liðsmönnum jafn vel á leikdegi:

Upphitunarlagið

Til þess að krifja knattspyrnuleik af þessum krafti þá þarf að kljúfa kjarnorkuna í örsmáar öreindir, mínimalismaðann mólikúlisma og gríðarlega vel ígrundaðar guðeindir. Þess vegna dugar ekkert minna en hið segulmagnaða lag Nick Cave & The Bad Seeds enda er magnaðrar snilligáfu þörf til að sigra stærstu stórleikina. Guðseindin verður því klofin í herðar niður og það verður blússandi ljósblár blús í upphitunarlaginu:

Tölfræðin

  • Liverpool hafa unnið síðustu 10 deildarleiki sína.
  • Man City hafa unnið 8 af sínum síðustu 9 heimaleikjum.
  • Liverpool hefur haldið hreinu í sínum síðustu 5 deildarleikjum.
  • Man City hafa haldið hreinu í 5 af síðustu 7 deildarleikjum sínum.
  • Bæði lið hafa skorað a.m.k. 2 mörk í 5 af sínum síðustu 6 leikjum.
  • Liverpool hafa unnið 19 Englandsmeistaratitla og aldrei gróflega brotið fjármálareglur UEFA eða FA.
  • Man City hafa unnið 7 Englandsmeistaratitla, þ.m.t. 5 titla síðasta áratug.

Spaks manns spámennska

Öllum sparkspekingum kemur saman um það að um verði að ræða hörkuleik með hámarks hamförum milli tveggja langbestu liða Englands. Þegar stálin stinn mætast á þann máta þá verður niðurstaðan oft hógværari og ég hallast að frekar hefðbundinni markatölu okkar mönnum í hag.

Ég spái því að Mo Salah muni dusta englarykið af heimsklassa sínum og skora eitt geggjað mark ásamt því að Virgil van Dijk muni hamra annað inn með höfðinu eftir hornspyrnu. Kevin De Bruyne mun minnka muninn fyrir heimamenn en ég spái 1-2 útisigri fyrir Liverpool sem lokatölum.

Hvernig fer leikurinn gegn Man City?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

9 Comments

  1. Sælir félagar

    Leikurinn fer 1 – 3 og ekkert meira um það að segja Salah, Mané og Diaz með mörkin. Foden skorar eitt fyrir City.

    Það er nú þannig

    YNWA

    7
  2. Takk takk,

    Vel skrifuð upphitun. Ætti svo sem ekki að útmála svartsýni mína hér en þetta verður ströggl. Segi ekki meira.

    Eina vonin er að Salah rífi sig í gang á hárréttum tíma. Það gæti riðið baggamuninn!

    3
  3. Spennan farin að magnast all hressilega, við megum alls ekki tapa þessum leik en jafntefli væri alls ekkert slæmt. Tap myndi trúlega færa City titilinn.
    Þessi sóknarlína sem við höfum til taks er ótrúlega sterk og ég veit ekki hvaða leikmenn ég myndi vilja sjá byrja þennan leik, Salah hefur verið slakur frá áramótum en við vitum að hann getur klárað svona leiki upp á sitt einsdæmi. Firmino er sterkur varnarlega og bindir sóknina vel við miðjuna.
    Diaz hefur hraðan og áræðnina og Mane líka, Jota er svo einn markahæsti leikmaður deildarinnar og hálfómissandi.
    Ég vona að Klopp velji rétt í dag.

    4
  4. Ef Liverpool vinnur þennan leik verður liðið meistari. Tvö fáránlega góð lið að mætast. Vonandi lætur Kyle Walker reka sig útaf á 14.mínútu. Salah og Mane sjá til þess að við skorum. Spurningin er bara hvort við skorum meira heldur en þeir. Spái sigri 2-1
    Njótið dagsins púlarar með sterkum ávaxtasafa eða
    Doet Coke. Við vinnum þennan leik.

    3
  5. Mér finnst það stórkostlegt að okkar menn í LIVERPOOL gera jafntefli við mc án þess að að spila vel, á meðan mc átti mjög góðan leik. Það er síðan áhyggju efni að sumir af okkar leikmönnum voru hreinlega á hælunum, til dæmis Van D, og Robbo. Kannski klókindi fyrir næsta leik gegn mc?

    2

Nýr samstarfsaðili Kop.is – Sólon Bistro bar

Man City – Liverpool