Leicester á föstudagskvöld (upphitun)

Það er stutt stórra högga á milli. Í þetta skiptið er það Leicester á föstudagskvöldi undir ljósunum og hefjast leikar kl 20.

Það verður ekki annað sagt en að þetta fótboltaár hafi verið sveiflukennt, fyrri helmingurinn einkenndist af úrslitaleikjum og öllu sem því fylgir. Sigrar á Wembley, svekkjandi dramatísk lokaumferð í deild áður en svekkelsið í París lokaði svo tímabilinu. Liðið hefur virkað þunnt það sem af er þessarar leiktíðar, bæði hvað varðar leikmannahóp sökum meiðsla en einnig bara andlega frá síðasta tímabili. Þá er ráð að loka árinu á góðum nótum og ná að byggja á úrslitum sitthvoru megin við HM.

Sagan og formið

Þegar saga þessara liða er skoðuð (í EPL) þá er Liverpool með yfirhöndina. Í 32 leikjum hefur Liverpool unnið rétt rúmlega helming þeirra eða 17 leiki á móti 9 sigrum Leicester.

 

Árangurinn á heimavelli hefur verið sérstaklega góður. Frá því í desember 2015 þá hafa liðin spilað 8 sinnum á Anfield í deildinni þar sem að Liverpool hefur unnið 6 þeirra og 2 endað í jafntefli.

Liðin eru að koma inn í svipuðu formi, þó úrslit vikunnar endurspegli það ekki endilega. Það er líka alltaf erfitt að ætla að meta form liða útfrá leikjum sem voru spilaðir fyrir HM. Bæði lið eru að mæta til leiks með 9 stig úr síðustu 5 leikjum (3 sigrar og 2 ósigrar) en Liverpool náði á öðrum degi jóla að tengja saman þrjá deildarsigra í fyrsta sinn á leiktíðinni á meðan að Leicester átti erfiðan dag gegn Newcastle en það er þó vert að geta að þessir 2 ósigrar Leicester eru gegn tveimur af efstu þremur liðum deildarinnar á meðan okkar eru gegn Leeds og Nottingham Forrest, eitthvað sem á ekki að gerast og svíður ennþá!

Liverpool

Það verður forvitnilegt að sjá uppstillinguna fyrir þennan leik. Manni fannst gegn Aston Villa að Klopp væri mjög meðvitaður um prógramið sem væri framundan. Á móti kemur var bekkurinn okkar ansi fátæklegur og margir ennþá á hliðarlínunni. Á blaðarmannafundinum í dag (fimmtudaginn) sagði Klopp að nokkrir leikmenn hefðu verið veikir í leiknum gegn Aston Villa en væru að koma til baka.

 • Milner og Firmino eru ekki orðnir klárir en það er ekki langt í þá, sérstaklega ekki Bobby. Klopp sagði einnig að kaupin á Gakpo hefðu engin áhrif á framtíð Firmino.
 • Ox og Trent voru báðir veikir en eru orðnir góðir og ættu að vera leikfærir á morgun.
 • Diaz og Jota eru ennþá á meiðslalistanum. Diaz gekk auðvitað undir litla aðgerð fyrr í desember og verður ekki orðinn leikfær fyrr en í fyrsta lagi í mars á meðan að það er víst öllu styttra í Jota.
 • Konate æfði víst fyrir leikinn og ætti að vera klár. Mér finnst ólíklegt að hann spili þennan leik en verður væntanlega við hlið VVD gegn Toney n.k. mánudag.
 • Finnst líklegt að tveir af þeim Henderson, Thiago og Ox fái hvíld í þetta skiptið. Meiðslasagan þeim ekki hliðholl og 3 leikir á einni viku er varhugavert. Spurning þá hvort að Elliot, Keita og/eða Carvalho fái ekki tækifæri.

Ég ætla að skjóta á þetta lið, þ.e. aftasta línan verður óbreytt frá því gegn Aston Villa en Keita kemur inn á miðjunna í stað Henderson og Elliot kemur inn í stað Ox:

Alison

TAA – Matip – Virgil – Robertson

Keita – Fabinho – Thiago

Elliot – Nunez – Salah

 

Leicester

Hjá gestunum er meiðslalistinn talsvert langur. James Dustin verður frá fram á sumar, Evans er einnig frá og Praet fór útaf gegn Newcastle á meðan að Maddison kom meiddur til baka eftir HM og nær ekki leiknum á morgun. Aðrir eru nokkuð heilir og ættu að vera klárir, utan jú Caglar Soyuncu sem er í skammarkróknum og líklega á förum frá liðinu í janúar/sumar.

Ég ætla því að spá því að Rodgers stilli þessu einhvernveginn svona upp:

Ward

Thomas – Faes – Amartey – Mitchell

Tielemans – Soumare

Perez – Hall – Barnes

Vardy

 

Spá

Mér finnst ég hafa séð batamerki á liðinu okkar undanfarið (fyrir HM og sérstaklega gegn Aston Villa). Ég ætla að skjóta á að við náum fjórða sigrinum í röð í deildinni og gerum það nokkuð örugglega. Það er skrítin andi í kringum þetta Leicester lið, manni finnst Rodgers vera “dead man walking”, liðið þarf að selja leikmenn til að ná endum saman, Tielemans fer líklega í janúar eða í sumar ásamt Soyuncu. Það kæmi mér ekkert á óvart ef við skorum snemma að þetta verði þægilegt föstudagskvöld – en á móti kemur þá kæmi það mér heldur ekkert stórkostlega á óvart ef þetta yrði ströggl og við myndum þurfa að koma til baka eftir að hafa lent snemma undir.

Ég ætla að skjóta á það fyrra – við skorum snemma og endum með að landa nokkuð þægilegum 3-0 sigri. Salah með tvö og Nunez eitt.

Á meðan við minnum á gullkastið frá því fyrr í vikunni þá viljum við nota tækifærið og óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samfylgdina á árinu. Það var viðburðaríkt, eins og svo oft áður, og ég er ekki í nokkrum vafa um að það eru bjartir tímar framundan.

Þar til næst.

YNWA

4 Comments

 1. Mikið vona ég að fótboltinn sigri annað kvöld, í minningu PELE, sem er sá besti allra tíma. Liverpool valtar yfir Rodgers og hans menn 5-0 ! Salah með tvö og Nunez líka með tvö. Keita setur svo einn þrumufleyg.

  RIP PELE.

  11
 2. Nú er slúður um allskonar miðjumenn sem eru, eða eru ekki, væntanlegir til Liverpool en hefur Yunus Musah hjá Valencia ekkert verið nefndur í því samhengi? Hann var ansi fínn á miðjunni hjá USA liðinu á HM. Og ef mér skjátlast ekki gæti hann talist enskur (og þar með fyllt í innfædda kvótann) því hann ólst mikið til upp í Englandi og spilaði fyrir enska ungmennalandsliðið þangað hann skipti yfir til USA í fyrra.

  6
 3. Þá er Pele fallinn frá, hann og Maradonna eru tveir bestu knattspyrnumenn sögunar algjörir snillingar báðir tveir.

  7
 4. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina Eyþór og ég hefi svo sem engar athugasemdir við hana. Það eina sem ég vil fá er sigur hvernig sem hann vinnst. Þetta Leicester lið hefur reynst okkar mönnum banahýði á stundum og því er engin vegur að vanmeta það. Reikna með mjög erfiðum leik þar sem liðin sem mæta okkur hafa enn þá trú að þau geti unnið Liverpool. Það þarf nokkra (8 – 10) sigurleiki í röð til að lið fái í hnéin þegar þau mæta okkur því lið eins og N. Forrest og Leeds gátu unnið og það fyrir skömmu. Þá trú þarf að eyðileggja svo liðin séu hrædd og ráðalaus gegn Liverpool í sínu bezta formi. Vona að sigur vinnist og spái vona 2 – 1 eða 5 – 1

  Það er nú þannig

  YNWA

  2

Rauð jól – Gakpo kominn (staðfest!)

Byrjunarliðið gegn Leicester