Upphitun: Liverpool mætir Leeds á Anfield

Það verður baráttuleikur liða úr sitt hvorum enda ensku úrvalsdeildarinnar á miðvikudagskvöldið kemur. Rauði herinn hefur endurreist sitt öfluga heimavígi tiltölulega tímanlega fyrir titilbaráttuna með hverjum heimasigrinum á fætur öðrum en Leeds hefur gengið illa á hinu alræmda tímabili tvö eftir uppkomuna úr Championship. Með sigri gæti Liverpool haldið áfram að nálgast Man City á toppi deildarinnar og haldið örlögum meistaratitilsins í sínum höndum á meðan Leeds berjast á útopnu fyrir Úrvalsdeildarlífi sínu. Það þarf því að hita vel upp fyrir sjóðheit herlegheitin!

Mótherjinn

Eftir örstutta uppsveiflu í byrjun nýs árs þá hafa hvítliðarnir frá Jórvíkurskíri tekið aðra dýfu niður á við með 3 töpum í síðustu 4 leikjum ásamt einu jafntefli. Slík stigasöfnun er ávísun á alvarleg vandræði og Leeds eru að sogast niður í alvöru fallbaráttu með eingöngu 5 stig fyrir ofan öryggið. Þeim til málsbóta þá hefur leiktímabilið leikið þá grátt varðandi meiðsli og Covid-smit sem hafa valdið lemstruðum leikuppstillingum og frestun leikja en einvígið á Anfield er einmitt ein slík frestun.

Stemmningin í kringum meistara Marcelo Bielsa hefur einnig dofnað og á köflum virðist þrjóska hins þaulreynda þjálfara vinna gegn hagsmunum liðsins. Í síðasta leik var Raphina látinn byrja á bekknum gegn erkifjendunum í Man Utd en Brasilíumaðurinn hefur verið þeirra besti maður á tímabilinu með 9 mörk og einn af fáum leikmönnum sem hafa haldið haus á milli ára. Eftir að hafa komið af bekknum og skorað í síðasta leik þá myndu flestir gera ráð fyrir þau augljósu mistök yrðu leiðrétt með byrjunarliðssæti á Anfield en þegar ólíkindartólið Bielsa er annars vegar að þá er aldrei að vita hverju von er á.

Eitt sem er öruggt er að máttarstólparnir Patrick Bamford og Kalvin Phillips verða fjarri góðu gamni vegna meiðsla og það sama gildir um varnarsinnana Liam Cooper og Robin Koch en hinn síðarnefndi fór blóðgaður af velli með höfuðmeiðsli í síðusta leik. Að öllu ofantöldu teknu fram að þá spái ég að byrjunarlið gestanna verði eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Leeds United í leikskipulaginu 4-2-3-1

Liverpool

Okkar menn eru á fljúgandi siglingu eftir smávegis magatruflanir að lokinni jólasteikinni og hafa núna unnið 8 leiki í röð í öllum keppnum og eru ósigraðir í 11 leikjum. Það dugar heldur ekkert minna en stanslausar sigurframmistöður þegar að barist er á öllum vígstöðvum um alla bikara í boði en það er einmitt úrslitaleikur í deildarbikarnum gegn Chelsea næsta sunnudag. Sú staðreynd gæti haft bein áhrif á liðsvalið gegn Leeds ef að Klopp kýs að taka sparnaðarróteringu á einhverja lykilleikmenn.

Ég myndi veðja á að fyrirliðinn Jordan Henderson fái að hvíla lúin bein á bekknum þar sem hann hefur strögglað í seinni tíð með að spila marga leiki í röð án þess að lenda í meiðslavandræðum. Það myndi heldur ekki á óvart ef að einhver af bekkjarbreiddinni meðal Minamino, Curtis Jones eða jafnvel Origi myndu byrja leikinn til þess að halda sem flestum ferskum.

Ég spái því að Konaté taki stöðu Matip sem toppaði frekar slaka frammistöðu gegn Norwich með slysalegu sjálfsmarki en báðir bakvarðavarabekkjarbræðurnir Gomez og Tsimikas stóðu sig vel og hugsanlegt að annar þeirra haldi sínu sæti. Sér í lagi væri óvitlaust að halda Gomez inni til að vera ögn varnarsinnaðir þeim megin vallarins til að loka á hættulegast vopn gestanna í formi Raphina.

Í meiðslafréttum er það helst að framherjarnir Jota og Firmino eru ennþá óleikfærir þannig að liðsuppstillingin gæti orðið eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3.

Kloppvarpið

Klopp saß heute vor den Fernsehkameras und sprach mit Reportern über das Fußballspiel:

Marcelo Bielsa también se sentó frente a las cámaras de televisión y habló sobre el partido de fútbol:

Tölfræðin

  • Liverpool hefur unnið síðustu 7 heimaleiki í Úrvalsdeildinni.
  • Liverpool hefur unnið síðust 8 af 10 leikjum gegn Leeds í öllum keppnum.
  • Leeds hefur fengið á sig a.m.k. 3 mörk í síðustu 3 deildarleikjum sínum.
  • Liverpool hafa skorað a.m.k. 2 mörk gegn Leeds í síðustu 4 heimaleikjum í öllum keppnum.

Spaks manns spádómur

Liljuhvítir Leedsarar fái degi styttri hvíld en heimamenn eftir að hafa spilað regnblautan og rauðblóðugan erkifjendaslag við United-lið Manchesterborgar. Í þokkabót hafa þeir verið að mígleka mörgum mörkum í tíðum töpum upp á síðkastið og í raun á megninu af tímabilinu. Á sama tíma hafa rauðliðar Liverpool verið að vinna leiki annað hvort sannfærandi eða með ódrepandi ólseiglu.

Getspeki mín spáir því öruggum sigri heimamanna í miklum markaleik þar sem öll framlína Díaz, Mané og Salah skorar aftur eitt mark á kjaft að viðbættu varnarmarki frá Konaté í 4-0 stórsigri.

Hvernig fer leikurinn gegn Leeds?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

YNWA

6 Comments

  1. Ég ætla bara rétt að vona að Struijk fari ekki með fallhamar og kúbein á neinn úr okkar liði. Hann var svakalega sóðalegur á móti MU í úrhellinu um daginn.

    4
  2. Sælir félagar

    Sigur er það eina sem er í boði í þessum leik. Til að svo fari verða leikmenn að mæta til leiks algerlega einbeittir bæði í vörn og sókn, frá fyrstu mínútu og halda svo leiknum í heljargreipum allt til leiksloka. Ég spái 4 – 1 þar sem öll framlínan skorar og svo kemur Virgil með eitt. Þetta er mitt leikplan og von mín og spá.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  3. Rjúkandi góð upphitun maestro

    Ofboðslega mikilvægt að klára þennan leik vel og manni er aðeins farið að lengja eftir Liverpool í alvöru banastuði. Langt síðan liðið tók alvöru slátrun.

    Hugsa svo að Origi gæti hafið leik í þessum, svakalegt álag á Mané undanfarið og hann byrjar klárlega gegn Chelsea.

    5
  4. Sæl öll.
    Ekki vill svo til að þið þekkið einhvern í lLiverpool sem hefur áhuga á að fara á leikinn í kvöld?
    Það vill nefnilega svo vel til að ég hef þrjá miða lausa í Kop sem mig langar að koma út.
    Ef svo er viljið þá hafa samb í síma 8645995 YNWA

  5. Fimm breytingar á liðinu.

    Liðið: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Thiago, Jones, Diaz, Salah, Mane.

    Varamenn: Kelleher, Konate, Milner, Keita, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Minamino, Tsimikas, Origi.

Gullkastið – Game on!

Liðið gegn Leeds