Upphitun: Liverpool á Tyneside í Newcastle

 

Eftir sigurinn á Everton þá færast leikar norður á bóginn upp um skoskar heiðar og Rauði herinn mætir Saudi Arabíska auðvaldinu í Newcastle United sem eru í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti. Fyrir slíkan leik þarf að hita upp!

Mótherjinn

Undirritaður hefur ekki upphitunartæklað Newcastle síðan að Rafa Benitez var byltingarhetja í bardaga við nískupúkann Mike Ashley. Síðan þá hefur liðið víðabreitt Steve Bruce tímabil sem endaði með Eddie Howe sem stjóra og liðinu sem þjóðareign Saudi-Arabíu. Um þróun mála í sportwashing og financial fair play má skrifa væna meistararitgerð en að sinni horfi ég á hinn einfalda knöttótta þátt knattspyrnunnar.

Óháð öllum fjármálum og eignarhaldi að þá hefur Eddie Howe unnið frábært starf með Newcastle United frá því að hann tók við stuttu eftir að félagið Public Investment Fund (80%) lauk sinni fjárfestingu. Hin skyndilega uppsveifla í velgengni félagsins verður ekki bara útskýrð með fjárhagslegum yfirburðum eða sykur-pabba-syndrómi. Það er helst að Eddie Howe hafi ákveðið eftir sína ævintýralegu og unglegu upprisu með Bournemouth að breyta algerlega um knattspyrnukarakter frá léttleikandi liðspili í praktískan powerplay sem hinir röndóttu stunda þessi misserin.

Sigurhlutfallið hefur líka stokkið úr 40% með AFCB upp í 49% með NUFC sem í flestum fjármálageirum þætti væn hagnaðarhækkun. Enda er svo komið að Newcastle hefur verið í alvöru baráttu um sæti í Meistaradeildinni frá upphafsspörkum tímabilsins og eru sem stendur í 4.sæti með 2 stiga forskot á næsta lið með leik til góða.

Það virðist sem Eddie Howe hafi ákveðið að hætta að spila hinn fullkomna fallega sigurleik sem predakaður er í þjálfarafræðunum og hann var frægur fyrir að fylgja yfir í það að vera pragmatískur og grjótharður stjóri sem harðneitar að láta sitt lið tapa. Enda fór taphlutfallið frá Bournemouth úr 38% yfir í 21% með Newcastle og eyðsla liðsins verið langt frá yfirgengilegheitunum hjá Chelsea eða hreinræktaða svindlinu hjá Man City. Liðið hefur líka bara fengið á sig 13 mörk í 22 leikjum og einungis tapað 1 deildarleik sem er það langbesta í deildinni.

Að því sögðu þá hefur ansi mikið hægt á blússandi velgengni í byrjun tímabilsins og markaskorun liðsins hefur þornað upp sem tálsýn fata morgana í arabísku eyðimörkinni. Newcastle hefur bara skorað 1 meira mark en Liverpool þrátt fyrir að vera vænum 9 stigum á undan þeim í töflunni. Það verður eitthvað um meiðslavesen hjá heimamönnum sem gæti vantað nokkra en þeir hafa breikkað breiddina á hópnum í síðustu kaupgluggum öfugt við okkar þannig að þeir fá enga vorkunn héðan.

Eddie Howe er líklegur til að stilla sínu liði svona upp:

Líklegt byrjunarlið Newcastle í leikskipulaginu 4-2-3-1

Liverpool

Síðasti leikur Rauða hersins var sérlega kröftug frammistaða í sigurleik í nágrannaslag gegn Everton en sú frammistaða ásamt 3 stigum var skemmtileg tilbreyting frá mörgum hörmungum leikjanna þar á undan. Það sem helst er í huga allra Púlara er nálgast fordrykkjarleiti á laugardagskvöldið er nákvæmlega hvaða Liverpool-lið ákveður að mæta til liðs það kvöldið. Ef að útivallarstemmning síðustu leikja gegn Brentford, Brighton og Wolves heldur áfram að þá er ljóst að liðið nennti bara að leggja sig fram í síðasta leik útaf smá stolti í nágrannaslag. En það sem allir okkar vonast eftir er að viðspyrnan frá botninum sé hafin og að þetta hörmungartímabil sé eftir allt saman á smá uppleið.

Undirrituðum þótti þó sem að aðgerðaleysið í síðusta kaupglugga hafi verið hrein og klár yfirlýsing söluþenkjandi eiganda um að þessu tímabili væri ekki peninganna virði til að reyna að bjarga. Í það minnsta var engin alvara sett í það að styrkja hina augljósu veikleika liðsins á miðsvæðinu og þess í stað eru blautir draumar um Bellingham látnir duga fram á sumar. Nema að við treystum á að King Arthúr Björgvin Boltason mæti á hvítum hesti af bráðamóttökunni til að bjarga tímabilinu.

Talandi um konungdæmi að þá hefur einn af fáum ljósum punktum tímabilsins verið frammistaða hins unga prins Stefáns af Bassastöðum frá Ströndum sem hefur farið hamförum með þroskaðri langt um aldur fram. Sá ungi hefur batnað með hverjum leik í byrjunarliðinu og er ansi líklegur til að halda sæti sínu gegn röndóttum. Af meiðslavígstöðvunum þá er góður séns á að Virgil van Dijk spili sinn annan leik á árinu 2023 eftir að hafa farið útaf í hálfleik á öðrum degi ársins í tapinu gegn Brentford. Verri fréttir eru af Thiago sem verður fjarri góðu gamni næstu vikurnar og þá virðist tímabilið búið hjá hinum unga Calvin Ramsay sem hefur lítið sést frá komunni norðan skoskra heiða í sumar.

En að öllu óbreyttu þá munum við sjá litlar breytingar frá síðustu uppstillingu nema hvað að ég spái innkomu VvD í byrjunarliðið:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Kloppvarpið

Jürgen Klopp afgreiddi akamedískt korteri af spurningum frá fjölmiðlateyminu. Helst var að frétta varð

Tölfræðin

 • Newcastle hafa ekki tapað deildarleik í 17 leiki í röð!
 • Liverpool hafa unnið 1 deildarleik í “röð”!
 • Liverpool hafa unnið Newcastle í 8 af síðustu 10 leikjum liðanna í öllum keppnum.
 • Newcastle hafa gert 3 jafntefli í röð í Úrvalsdeildinni og 5 jafntefli af síðustu 6 deildarleikjum.
 • Newcastle hafa skorað samtals 3 mörk í síðustu 6 deildarleikjum sínum.
 • Síðasta lið til að vinna Newcastle í deildinni var Liverpool á Anfield í lok ágúst sl.

Upphitunarlagið

Sultuslakir súltanir sveiflunnar annast upphitun leiksins og þar er tilkallaður hinn Newcastle upon Tyne fæddi Mark Knopfler sem annast gítargrippl graðhestamúsíkgeirans fyrir hönd bandsins Skelfilegar Þrengingar (a.k.a. Dire Straits). Rauði herinn vonast til þess að þetta sé allt saman “money for nothing” í peningamálum og að þrátt fyrir allt að þá séum við allir “brothers in arms” í boltanum þegar að skorað er mark (knopfler). Sultusveiflan gjöriði svo vel:

Spakra manna spádómur

Að mörgu leyti hefur þetta tímabil farið í klósettið hjá okkur Púlurum og margir væri til í að sturta því sem fyrst niður til að byrja að nýju. Það sem bíður okkar er endurstilling og uppbygging næsta sumar og þá væntanlega undir nýjum eigendum ef einhver vill kaupa okkur. Þetta stefnuleysi og metnarleysi hefur haft mikil áhrif á liðið og þeirra frammistöðu í vetur ásamt þeim andlegu og líkamlegu timburmönnum sem fernutilraunin virðist hafa haft.

Þess vegna grunar mig að bæði lið virði sátt með kraftjafntefli og þar verði nákvæmlega núll mörk skoruð. Ekki magnaðasti spádómur sem fram hefur komið en hann verður að duga þar til annað kemur ljós.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

6 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir skemmtilega upphitun að vanda Magnús og um hana er fátt að segja nema pass – eins og þú segir reyndar líka í spá þinni um leikslok. Flest munum við taka jafntefli sem góðum úrslitum eftir slakt gengi það sem af er ársins en ekkert er gefið og jafnteflis spá getur verið jafn vitlaus (eða rétt eftir atvikum) og hver önnur. Því ætla ég að vera ósammála Magnúsi í minni spá sem er auðvitað minni spá en spá Magnúsar.

  Þessi leikur verður hunderfiður gegn óbrotgjörnu liði Eddie Howe en hvað með það. Okkar menn rifu sig upp úr drulludamminum í síðasta leik og komust upp á bakka þeirrar fúlu tjarnar sem þeir höfðu velst í undanfarið. Það ætti að vera léttara að standa í lappirnar á bakkanum en ofaní damminum. Því spái ég 1 – 2 sigri okkar manna í mjög erfiðum og baráttþrungnum leik þar sem nýfengin baráttugleði okkar manna mun ríða baggamuninn.

  Það er nú þannig

  YNWA

  Að lokum legg ég til: FSG out og það STRAX

  5
 2. Þetta er leikurinn sem Liverpool verður að vinna það er nú bara þannig!

  Ég er með óbragð í munninum yfir því að lesa það að Man utd sé að vera komið með kaupanda af klúbbnum enn ekki Liverpool, hvernig í anskotanum stendur á því, það er svo einkennilegt að Liverpool skuli ekki vera búnir að vera í viðræðum við fjársterkan og góðan eiganda. Það versta sem gæti komið fyrir Liverpool er að klúbburinn sitji uppi með FSG og verði ekki seldur, þetta mun þýða jarðarför á einhvern árangur fótboltalega séð næstu árin!

  FSG out og það STRAX!

  2
 3. Hvernig eru FSG að standa að þessu?
  MU er með loka dagsetningu sem var í gær 17 feb.
  Og eru allavega tvö staðfest tilboð.

  Liverpool tilkynntu söluferli á undan en lítið að frétta sem er svosem í takt við það sem FSG hafa unnið hluti hingað til lítið í fréttum en svo bæng !

  En hvernig er FSG að gera þetta? Er einhver með eitthvað?

  4
 4. Hvernig er það hefur ekki yfirleitt gengið betur með Henderson inn á en ekki?
  Þó hann sé farinn að eldast…
  Hann hefur t.d. verið alveg sérdeilis fínn í bikarlyftingum – er að spyrja fyrir vin.

  3
 5. Ef okkar menn vinna í dag þá er alveg kominn möguleiki á fjórða sætið . Ég veit ekki með ykkur en ég er kominn með trúnna á Klopp aftur og hvernig sem þetta fer með eigandaskiftin þá held ég að liðið sé búið að ná áttum á ný og vinni á eftir.

  1
 6. Sæl og blessuð.

  Ég veit ekki hvað skal segja. Hausinn er fullur svartsýni enda engin skynsemi sem segir manni að við séum að fara að setja einhver mörk á þessa svarthvítu rimla í vörninni. Kviðurinn segir að þetta geti endað jafnt – en það væri þá of-lítið-of-seint og við ættum fullt í fangi með að ná fjórða sætinu.

  Hjartað segir svo að við rísum upp eins og fönixar upp úr stónni og höfum þetta með erfiðismunum en óskaplegri baráttu. Svo styttist meiðslalistinn og þá er aldrei að vita nema að við fáum staðfestuna aftur.

  2

Gullkastið – Loksins lífsmark á Anfield

Liðið gegn Newcastle