Allar færslur eftir Eyþór Guðjónsson

Liverpool – Spartak Moscow 7-0

0-1 Coutinho (víti) 4′
0-2 Coutinho 15′
0-3  Firmino 19′
4-0  Mané 47′
5-0  Coutinho 50′
6-0  Mané 75′
7-0  Salah 86′

Leikurinn

Jahérna! Þvílíkur leikur!

Leikurinn byrjaði í raun með látum og má segja að við höfum klárað hann (eða þú veist, tryggt jafnteflið þar sem þetta er Liverpool) á fyrstu 20 mínútunum og hefðum getað verið í 5-0 eftir hálftíma.

Liverpool fékk vítaspyrnu á fjórðu mínútu þegar Dzhikiya braut afskaplega klaufalega á Salah sem fékk sendinguna talsvert bakvið sig og var lítið að fara gera. Persónulega fannst mér þetta frekar „soft“ víti en ekki kvarta ég. Inn á vellinum voru Firmino og Salah, sem báðir klikkuðu á síðustu vítum, en upp steig fyrirliði dagsins og kláraði örugglega, Coutinho 1-0.

Gestirnir virkuðu alveg sprækir á mann í þessum fyrri hálfleik, sérstaklega þó fram á við. En eftir frábæra spilamennsku þá tvöfaldaði Liverpool°forystu sína. Liverpool sundurspilaði þá vörn Spartak og Firmino sendi óeigingjarnt út í teig á Coutinho sem bætti við sínu öðru marki, 2-0. Firmino bætti svo við þriðja markinu eftir að sending frá Mané hafði farið í varnarmann Spartak, 3-0.

Moreno meiddist því miður á ökla undir lok fyrri hálfleiks og Milner kom inn í hans stað. Verður væntanlega ekki með um helgina sem er mikill missir. Þrátt fyrir hræðilegar 15 mínútur gegn Sevilla þá verður ekki tekið af honum að fyrir utan það hefur hann verið mjög öflugur.

Liverpool byrjaði síðari hálfleik eins og þann fyrri. Milner átti frábæra fyrirgjöf á Mané á 47 mínútu sem tók boltann viðstöðulaust og hamraði í netið, 4-0!

Aðeins þremur mínútum síðar bætti Coutinho við marki (skráð sem hans mark fyrst um sinn a.m.k.) og þar með þrenna hjá fyrirliðanum. Milner var aftur með stoðsendinguna eftir gott samspil við Firmino (auðvitað), sendi boltann inn á miðjan teiginn þar sem Coutinho kom með hlaupið, tók boltann með sér og skaut í varnarmann og í nærhornið, 5-0!

Mané bætti við sjötta markinu eftir að Senegalinn vann boltann, sendi á Salah sem kom boltanum áfram á Sturridge. Sturridge átti frekar slaka sendingu inn á teig fyrir aftan Mané sem náði þó til boltans og kláraði vel, 6-0.

Salah vildi ekki vera útundan og bætti við sjöunda markinu. Fékk boltann í miðjum teignum, setti tvo varnarmenn á rassinn og skoraði örugglega upp í vinkilinn, 7-0, ótrúlegar tölur!

Bestu menn Liverpool

Hvar á að byrja eftir svona veislu? Coutinho er auðvitað klárlega maður leiksins. Fyrirliði í dag, var mikið í spilinu og skoraði þrennu. Þar fyrir utan var Mané með tvennu og alltaf ógnandi, Firmino var frábær (er okkur svo gríðarlega mikilvægur), Milner með tvær stoðsendingar og Salah með eitt mark og alltaf hættulegur. Meira og minna allt liðið átti frábæran leik.

Umræðan

Liverpool er komið í 16 liða úrslit og ég held að það séu nokkur lið þarna úti sem vilja forðast það að mæta okkur.

Þessi sókn! Það eru forréttindi að horfa á þetta lið spila fótbolta þegar það er í þessum gír. Nú er liðið búið að spila þrjá leiki á einni viku, vinna þá alla og með markatöluna 15-1!

Mér er alveg sama hvað fólk segir um þetta Spartak lið (sem er fínt lið), það að vinna 7-0 í CL er ótrúlega öflugt. Ef það væri auðvelt þá væri það væntanlega gert oftar, ekki satt? Liverpool tapaði ekki leik í riðlakeppninni og skoraði 23 mörk sem er rétt tæp 4 mörk að meðaltali í leik. Það er ótrúleg tölfræði!

Liverpool er annars á virkilega góðum stað. Nú er bara að halda þessu áfram. Það er hellingur af leikjum framundan.

Næsta verkefni

Það er RISA leikur framundan. Nágrannaslagur á Anfield og Kop.is á vellinum! Þrjú stig þar takk!

Liðið gegn Spartak Moscow

Jæja, komið að stærsta leik tímabilsins hingað til og Klopp blæs til sóknar. Mané, Salah, Coutinho og Firmino eru allir í liðinu og Coutinho jafnframt fyrirliði!
Erfitt að ætla að heimfæra þetta í eitthvað kerfi fyrirfram en svona sirka lítur þetta út:

Karius
Gomez – Lovren – Klavan – Moreno

Mané – Can – Wijnaldum – Coutinho (c)

Salah – Firmino

Fyrirfram myndi ég halda að þetta lið ætti að klára þetta verkefni örugglega. Liverpool fer aftur á móti aldrei auðveldu leiðina þannig að við sjáum hvað setur. Sama hvað, klárið bara verkefnið.

KOMA SVO!

YNWA

Brighton – Liverpool 1-5

0-1 Emre Can 30′
0-2 Firmino 31′
0-3  Firmino 48′
1-3  Murray (víti) 51′
1-4  Coutinho 86′
1-5  Dunk (sjálfsmark) 89′

Leikurinn

Leikurinn fór afskaplega rólega af stað. Brighton var með alla sína leikmenn á eigin vallarhelmingi og Liverpool átti erfitt með að finna opnanir. Firmino fékk fínt skallafæri eftir eina hornspyrnu og Brighton fékk ágætis færi stuttu síðar.

Þetta breyttist allt á 30 mínútu þegar góð hornspyrna Coutinho rataði beint á höfuðið á Can sem stakk sér á milli tveggja varnarmanna Brighton og stangaði boltann í markið, 0-1! Brighton tók miðju, Liverpool vann boltann og var komið í 0-2 innan við mínútu síðar þegar Salah, Coutinho og Firmino komust í hraðaupphlaup. Firmino skyldi boltann frábærlega eftir fyrir Salah sem bar boltann upp, sendi til vinstri á Coutinho sem sendi frábæran bolta fyrir á Firmino sem kláraði færið örugglega á nærstöng, tvö mörk á einni mínútu eftir rólegan hálftíma þar á undan.

Síðari hálfleikur byrjaði svo heldur betur fjörlega. Heimamenn fengu dauðafæri eftir að Murray skaut óvaldaður af markteig eftir góða fyrirgjöf en Mignolet varði frábærlega. Liverpool sótti hratt í kjölfarið og Salah kom boltanum innfyrir á Firmino sem skoraði örugglega, 0-3!

Á 51 mínútu fengu heimamenn hornspyrnu eftir misskilning á milli Can og Mignolet. Henderson lagði höndina á bak leikmanns Brighton og fékk dæmda á sig afar „soft“ vítaspyrnu.  Murray steig upp og skoraði örugglega, 1-3. Þetta var vissulega mjög klaufalegt hjá Henderson en var að mínu mati aldrei víti. Við getum samt lítið kvartað svo sem eftir að hafa sloppið í vikunni gegn Stoke.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta. Liverpool var að vinna boltann nokkrum sinnum ofarlega á vellinum og skapa talsverða hættu. Murray fékk einnig gott færi til að minnka muninn en skot hans fór naumlega framhjá. Ég viðurkenni það að ég var farinn að öskra á skiptingu þarna á 70 mínútu, ekki síst í ljósi þess hve sterkur bekkurinn var.

Coutinho átti svo síðasta orðið. Vann aukaspurnu rétt fyrir utan teig, tók hana sjálfa og setti boltann undir vegginn og í bláhornið, 1-4 og stigin þrjú í höfn. Þremur mínútum síðar átti hann annan sprett, skaut á markið en Dunk, varnarmaður Brighton, skallaði boltann í eigið mark. Sá ekki hvort að skotið hjá Coutinho var á leiðinni á markið en markið er a.m.k. skráð sem sjálfsmark fyrst um sinn.

Bestu menn Liverpool

Firmino var að mínu mati okkar langbesti maður. Skoraði tvö mörk og var mjög öflugur í pressunni eins og svo oft áður. Coutinho átti einnig mjög góðan dag með mark og þrjár stoðsendingar (ef fimmta markið verður skráð sem sjálfsmark). Salah skoraði ekki, aldrei eins og vant, en kom við sögu í tveimur mörkum, átti stoðsendingu í þriðja markinu og var viðloðinn annað markið einnig.

Umræðan

Ég var smá stressaður þegar ég sá liðið. Miklar breytingar á milli leikja og varnarlínan ekki beint traustvekjandi á pappír. Það verður að hrósa liðinu og Klopp fyrir þessa viku. Búinn að ná að hvíla lykilmenn, glíma við meiðsli og veikindi en samt sækja sex stig á tvo erfiða útivelli og skora í þeim átta mörk.

Tottenham heldur lægð sinni áfram og tapaði stigum í dag, Burnley tapaði gegn Leicester og Liverpool því komið í fjórða sætið, þremur stigum frá Chelsea og Man Utd, og heldur því a.m.k. þar til að leikur Arsenal og Man Utd klárast.

Það fer svo væntanlega að koma að því að menn fari að ræða slaka frammistöðu fyrirliðans ef hann heldur þessari spilamennsku áfram. Á meðan við erum að vinna og það nokkuð örugglega þá bíður sú umræða betri tíma.

Annars bara jákvætt. Virkilega góð vika og Liverpool nú náð í 16 stig af 18 mögulegum í síðustu 6 deildarleikjum eftir tapið gegn Tottenham!

Næsta verkefni

Það er RISA vika framundan. Hreinn úrslitaleikur á Anfield gegn Spartak Moskva á miðvikudag. Nokkrum dögum síðar skellir Kop.is sér á Anfield og taka á móti Everton!

Liðið gegn Brighton

Þá er liðið klárt og Klopp heldur áfram að rótera. Moreno tekur sér sæti á bekknum, Gomez er veikur, Matip meiddur og Klavan kemur aftur á bekkinn eftir veikindi.

Veit ekki hvað mér finnst um þetta. Lovren og Can í miðverði og Robertson að spila sinn fyrsta leik í vinstri bak í einhverja þrjá mánuði. Mané svo á bekknum

Mignolet

TAA – Can – Lovren – Robertson

Henderson – Wijnaldum – Milner

Salah – Firmino – Coutinho

 

Bekkur: Karius, Klavan, Grujic, Oxlade-Chamberlain, Mane, Solanke, Sturridge

Koma svo, ekkert annað en þrjú stig koma til greina!

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


 

YNWA

Liverpool – Huddersfield 3-0

Gríðarlega mikilvægur sigur í dag í leik tveggja hálfleika gegn nýliðum Huddersfield. Eftir grútleiðinlegan fyrrihálfleik hresstust leikar og Liverpool skoraði þrjú góð mörk og landaði stigunum þremur.

Leikurinn

Fyrri hálfleikur minnti um margt á Liverpool á síðustu leiktíð Rodgers. Enginn ákefð í spilamennsku liðsins, hreyfanleiki lítill og færasköpun eftir því. Það kom því svolítið upp úr engu þegar Liverpool fékk réttilega dæmda vítaspyrnu eftir að varnarmaður gestanna hafði húkkað sér farm með Firmino og rifið hann niður. Á vítapunktinn fór Salah (skil reyndar ekki enn afhverju Milner tók ekki vítið, þó hann hafi klikkað á einu víti í fyrra var hann virkilega öruggur fram að því) en slök spyrna hans var auðveldlega varinn.

Ég blótaði liðinu það mikið í hálfleik að þeir komu tvíefldir til leik í þeim síðari. Allt annað að sjá liðið og hefðu mörkin í raun getað verið fleiri þegar uppi var staðið.

Sturridge kom okkur á bragðið eftir mistök í vörn gestanna áður en Firmino skoraði úr skalla eftir hornspyrnu og heimavallar-Gini skoraði svo þriðja og síðasta mark liðsins.

Bestu menn Liverpool

Erfitt að velja einhvern einn, fannst enginn bera af. Það reyndi ekki mikið á vörnina í dag en hún var mjög örugg í öllum sínum aðgerðum. Gomez fannst mér flottur í dag. Salah var ógnandi, Firmino pressaði vel, skoraði og fékk víti og miðjan virkaði ágætlega á mig í síðari hálfleik.

Vondur dagur

Þetta á svo sem ekkert við, nenni ekki að röfla eftir kærkominn 3-0 sigur.

Umræðan

Þrátt fyrir slaka byrjun, mikil meiðsli og enn meiri pirring þá er liðið eingöngu þremur stigum frá fjórða sæti. Það er auðvitað alveg hellingur sem þarf að laga en m.t.t. að við erum búnir að vera án Coutinho og Mané stóran hluta mótsins þá er þetta ekki alslæmt.

Það væri samt svo týpískt Liverpool að bjarga starfi Bilic um næstu helgi en næsti deildarleikur er einmitt útileikur gegn West Ham. Nú þarf að fylgja þessu eftir.

Og jú, jákvæð markatala! Það er eitthvað!

YNWA!