Allar færslur eftir Eyþór Guðjónsson

Liverpool – Brighton 1-0

1-0 Salah ’22

Leikurinn

Liverpool tók á móti Brighton á Anfield í seinniparts leiknum á þessum ágæta laugardegi.

Leikurinn fór frekar rólega af stað og talsvert var um slakar sendingar hjá okkar mönnum. Salah átti fína sendingu inn á Mané á miðjum teignum á 4 minútu en skotið fór rétt framhjá. 4 Mínútum síðar átti Robertson frábæra sendingu á Firmino en skalli hans af markteig var frábærlega varinn.

Á 13 mínútu skallaði Dijk boltann á Keita sem kom hlaupandi á vörnina en var brotið á honum rétt fyrir utan teig. TAA steig upp en föst aukaspyrna hans hafnaði í þverslánni.

Á 22 mínútu kom eins mikið Liverpool mark og það gerist. Stutt aukaspyrna hjá Brighton á þeirra vallarhelmingi. Sending á Bissouma sem var étinn af Milner, boltinn fór til Mané sem sendi á Firmino, Firmino á Salah sem skaut í fyrsta stöngin inn. 1-0 í raun upp úr engu nema frábærri pressu hjá Milner og flottum einnar snertinga bolta í kjölfarið.

Það gerðist í raun lítið það sem eftir lifði hálfleiks, var í raun bara ein stór sókn Liverpool stærsta hluta hálfleiksins þar sem að Brighton átti örfáar sóknir inn á milli án þess að valda Liverpool einhverjum teljandi vandræðum. Við sköpuðum á móti ekki mikið heldur en yfirburðirnir voru samt sem áður miklir þrátt fyrir að vera ekki að spila neitt frábærlega. Brighton var með 10 menn á bakvið boltann stórann part hálfleiksins og gerði okkur erfitt fyrir. Verðskuldað 1-0 í hálfleik þar sem að Milner og Gini stóðu uppúr að mínu mati á miðjunni en Mané og Firmino hafa spilað betur.

Continue reading

Liðið gegn Brighton

Eftir tæpan klukkutíma tekur Liverpool á móti Brighton á Anfield. Gestirnir koma inn í leikinn fullir sjálfstraust (Kopararnir verða einnig fullir á leiknum) eftir sigur á United í síðustu umferð. Þetta City lið er búið að hækka viðmiðið í þessari deild, það eru því allir leikir hálfgerðir úrslitaleikir og þurfum við að ná í öll stigin í dag – ekki síst í ljósi þess að meistararnir töpuðu stigum fyrr í dag er þeir heimsóttu Wolves í jafnteflisleik, 1-1.

Klopp hefur ákveðið að stilla upp svona:

Alisson

TAA – Gomez – Van Dijk – Robertson

Keita – Wijnaldum – Milner

Salah – Firmino – Mané

Bekkur:Mignolet, Moreno, Matip, Henderson, Lallana, Shaqiri og Sturridge

Höldum sama liði og byrjaði gegn West Ham og Crystal Palace. Koma svo!!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: Liverpool heimsækir Crystal Palace

Það er bara einn leikur búinn á tímabilinu en maður er strax kominn á þann stað að geta ekki beðið eftir þeim næsta. Verkefnið sem bíður okkar er Selhurst Park kl. 19 á mánudagskvöld.

Þetta er síðasti leikur umferðarinnar þannig að það er viss pressa á liðinu, þetta er samt leikur sem að Liverpool á að vinna ætli þeir sér einhverja hluti á þessu tímabili.

Continue reading

Liverpool – Stoke 0-0

Miklar breytingar á liðinu og spilamennska liðsins bar þess merki. Liðið greinilega komið með hugann við Roma leikinn á miðvikudaginn.

Leikurinn

Leikurinn fór rólega af stað. Salah átti að koma Liverpool í 1-0 þegar Joe Allen missti boltann og Henderson sendi innfyrir á Salah sem var aleinn og hafði líklega of mikinn tíma til þess að hugsa hvað hann ætlaði að gera. Aldrei eins og vant klikkaði Egyptinn, vippaði boltanum framhjá markinu.

Ekki löngu síðar fékk Trent upplagt færi eftir sendingu frá Salah. Boltinn var þó örlítið aftarlega og var skotið hjá Trent máttlaust.

Annars gerðist lítið í hálfleiknum, ekki ólíkt leiknum gegn WBA og staðan 0-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og þeim fyrri lauk. Liverpool virtist vera að reyna að eyða eins lítilli orku og þeir komust upp með og var lítið tempó og sendingar oft ónákvæmar.

Stoke lá aftar á vellinum í síðari hálfleik en þeim fyrri en Liverpool átti í miklum vandræðum með að skapa sér einhver færi. Milner og Clyne komu inn á 65 mínútu fyrir TAA og Ings en breyttu svo sem ekki miklu.

Liverpool átti líklega að fá vítaspyrnu á 85 mínútu þegar sending Clyne fór greinilega í hendina á Peters en ekkert var dæmt. Ég er ekki mikið fyrir það að væla yfir dómaranum en m.v. vítið sem að Milner fékk á sig gegn Roma þá er þetta alltaf víti. Virkilega svekkjandi.

Mínútu síðar fékk Stoke nánast sitt eina færi í leiknum þegar þeir hefðu getað stolið öllum stigunum á lokamínútum venjulegs leiktíma en frákastið á fjærstöng fór í hliðarnetið eftir slakt skot. Sex mínútum var bætt við en allt kom fyrir ekki, 0-0.

Bestu menn Liverpool

Erfitt að segja. Liðið var í fyrsta gír, gáfu Stoke nánast engin færi en sköpuðu á móti ekki mikið sjálfir. Liverpool átti klárlega bestu færi leiksins og hefði átt að fara með forystu inn í hálfleik en annars var þetta bragðdauft.

Umræðan

Kannski mjög eðlilegt en frammistaða liðsins í síðustu tveimur deildarleikjum hefur verið mjög lituð af þessum leikjum gegn Roma. Liverpool hefur bæði verið að hvíla leikmenn, enda hópurinn orðinn ansi þunnur, sem og liðið reynt að spara orku eins og þeir hafa getað.

Þessi úrslit setja okkur í smá vandræði. Klári Chelsea þá tvo leiki sem þeir eiga inni þá eru þrjú stig sem skilja liðin að í deildinni þegar þau mætast um næstu helgi á Brúnni. Markatalan gefur þú Liverpool í raun aukastig (43 gegn 25) en nú er svigrúmið fyrir mistök orðið ekkert!

Næsta verkefni

Það þarf varla að taka fram hver næsti leikur liðsins er. Roma í síðari leik liðanna í undanúrslitum CL! Þrátt fyrir að þessi tvö mörk Rómverja hafi skyggt örlítið á annars frábæra frammistöðu liðsins síðasta þriðjudag þá er ég samt á því að það væri algjört klúður ef að við klárum ekki verkefnið á miðvikudaginn! Það verður þó ekki auðvelt.

Koma svo!

YNWA

Man Utd – Liverpool 2-1

1-0 Rashford 14′
2-0 Rashford 23′
2-1 Bailly (sjálfsmark) 66′

Leikurinn

Leikurinn fór rólega af stað. Liðin voru varkár til að byrja með og lítið að gerast. Það var svo eftir einstaklega einfalt útspark og skalla frá Lukaku sem fyrsta markið kom. Vörn Liverpool var sofandi og Rashford komst innfyrir. Í stað þess að þrengja skotrammann og leyfa Rashford að skjóta með vinstri þá fór TAA alltof hratt í hann, Rashford snéri frábærlega inn á teig og smellti knettinum í fjærhornið, 1-0.

Van Dijk fékk frábært skallafæri á 22 mínútu eftir að Matic hafði misst af honum eftir hornspyrnu en boltinn fór af öxlinni og framhjá.

Mínútu síðar eða svo var svipuð uppskrift hjá United. Langur bolti á Lukaku, Lovren hafði betur í skallaeinvíginu í þetta skiptið en heimamenn náðu frákastinu og sendu boltann innfyrir á Mata, Dijk varðist vel  en boltinn barst til Rashford sem skaut í fyrsta, boltinn fór í hælinn á TAA og þaðan í fjærhornið, 2-0 partý hjá heimamönnum. Verð að setja stórt spurningamerki við Can þarna í varnarvinnunni. Alltof mikið pláss fyrir utan teig sem heimamenn fengu pressulaust.

Það var afskaplega lítið að frétta af okkar mönnum. Engin færi sem heita getið og áttu fá svör. United var líklegra til að bæta við og fékk Mata dauðafæri en „klippa“ hans af markteig fór framhjá.

2-0 í hálfleik og Liverpool  vandræðilega lélegir og flenging líklegri á þessum tímapunkti heldur en eitthvað ótrúlegt comeback.

Liverpool liðið kom svipað ráðalaust til leiks í síðari hálfleik. Helling með boltann en sköpuðu sér lítið sem ekki neitt. Jú, við hefðum getað fengið víti þegar boltinn fór klárlega í hendina á Smalling en ekkert var dæmt.

Lallana kom inná í stað Ox, ég get ekki sagt að ég hafi verið sammála þessu. Tveimur mörkum undir og Can og Milner báðir búnir að vera slakir og Ox líklega sá mest sóknarsinnaði af miðjumönnum okkar, þó hann hafi ekki verið að gera mikið heldur.

Það var svo upp úr nákvæmlega ekki neinu (eins og fyrra mark Utd) sem að Liverpool minnkaði muninn. Mané fór upp vinstramegin, sendi boltann fyrir en Bailly sem ætlaði að hreinsa boltann í burtu fékk knöttinn í hælinn í staðinn og meira að segja De Gea var ráðalaus í markinu þó hann væri vissulega í boltanum. 2-1.

Á 81 mínútu hefði Liverpool átt að fá víti. Mané tók þríhyrning með Firmino en þegar Mané kom í boltann eftir hælspyrnu Firmino ætlaði Fellaini að sækja sér stöðu fyrir framan Mané en fór þess í stað aftan í hann og svo í boltann. Klárt víti að mínu mati en ekkert dæmt. Ég er nú ekki mikið fyrir að ræða dómarann en ansi margt sem var farið að fara gegn okkur á þessum tímapunkti.

Sex mínútum var bætt við en Liverpool fann ekki jöfnunarmarkið þrátt fyrir nokkur hættuleg tækifæri og einhverjar þrjár eða fjórar hornspyrnur. Sigur Man Utd í höfn og eru þeir nú fimm stigum fyrir ofan okkur í öðru sæti.

Þessir stóru leikir standast sjaldnast væntingar og leikurinn í dag var engin undantekning frá því. Það er oftast þannig í þessum leikjum að liðið sem gerir færri mistök vinnur. United var það lið í dag, því miður.

Bestu menn Liverpool

Erfitt. 75% af leiknum fannst mér við ekki vera gera neitt. Barnarleg mistök í varnarleik og hugmyndasnauðir í sókn. Miðjan í raun ekki til staðar lengi vel.

Mané fannst mér vera slakur í fyrri hálfleik, rétt eins og allt liðið, en skánaði í síðari hálfleik og var einn af fáum sem tók á skarið í síðari hálfleik. Átti „stoðsendinguna“ í sjálfsmarki Bailly og átti að fá víti seint í leiknum. Flestir voru daufir í dag. Gekk erfiðlega að ná stjórn á knettinum, sendingar voru lélegar og við náðum aldrei almennilegu flæði í okkar leik. Sérstaklega fannst mér þó TAA, Lovren og Can vera slakir í dag.

Afskaplega erfitt að velja bestu menn leiksins að þessu sinni, segi pass í þetta sinn.

Umræðan

Vandræðileg viðtöl. Klúbburinn hlýtur að fara og taka sig til og banna Lovren að fara í viðtöl fyrir leiki. Finnst eins og í hvert sinn sem að hann fer í viðtöl og er með yfirlýsingar þá á hann slaka leiki í kjölfarið. Hann leit ekki vel út í fyrri hálfleik, þó vissulega hafi hann ekki verið einn um það.

3-14 í skotum, 1-12 í hornspyrnum og 68% með boltann. Þessi tölfræði gefur okkur nákvæmlega ekki neitt en ég man ekki eftir svona tölfræði eftir heimsókn okkar á Old Trafford. Þetta er aftur á móti nákvæmlega það sem að JM er svo góður í, hann stillir sínum liðum upp til að ná úrslitum og er alveg nákvæmlega sama um skemmtanagildið. Þetta snýst um úrslit þegar uppi er staðið.

Pawson/VAR/Vítaspyrnur. Dómarinn, ef og hefði, það gerir nákvæmlega ekkert fyrir okkur en þegar við erum farin að fá smjörþrefin af VAR mun umræðan snúast um þessa tækni þegar vafaatriði eru til staðar. Liverpool hefði átt að fá eina ef ekki tvær vítaspyrnur í þessum leik en af einhverjum orsökum fengum við ekki neitt. Jafntefli hefði verið flott úrslit úr því sem komið var. Eins þreytt og það er þá fannst mér Pawson ekki eiga góðan dag og mun umræðan (Liverpool megin a.m.k.) væntanlega snúast talsvert um hann þessa helgina.

Næsta verkefni

Næsta verkefni er Watford eftir viku (laugardaginn 17. mars) á Anfield og það er bara krafa að liðið vinni þann leik, sérstaklega eftir þessi úrslit. Annað  sætið er ekkert útilokað, þó það sé erfitt eftir úrslit dagsins, en að sama skapi eru topp fjórir ekki heldur í hús.

Það er alltaf hundleiðinlegt að tapa gegn United. Staðan hefur aftur á móti oft verið verri og munurinn á liðunum meiri.

Það kemur dagur eftir þennan dag.

We go again.