Leicester í kvöld (Upphitun)

Vonin er það síðasta sem deyr, sagði einhver einhvern tímann. Það eru orð að sönnu því á einhvern fáránlegan hátt þá er maður ennþá í þeirri stöðu að geta ekki útilokað meistaradeildarsæti á næstu leiktíð. Guð minn góður hvað við eigum það ekki skilið en ég myndi ekki slá hendinni á móti því – það verður aftur á móti allt að ganga upp næstu 2 vikurnar eða svo og það byrjar með úrslitaleik í kvöld, í raun fyrir bæði lið þegar Liverpool sækir Leicester heim kl. 19.

Sagan og formið

Líklega munum við einna helst eftir 0-4 sigrinum um árið. Það er bara komið helvíti langt síðan en það var í desember 2019. Eftir það hefur uppskeran verið heldur dræm. 3-1 tap í febrúar 2021 og 1-0 tap á síðustu leiktíð, eitthvað sem var ansi dýrt þegar uppi var staðið.

Það er óhætt að segja að þessi leiktíð hafi verið vonbrigði fyrir bæði lið, þó þau séu að basla á sitthvorum enda töflunnar. Leicester hafa gengið í gegnum ákveðna fjárhagserfiðleika, þjálfaraskipti og allt þar á milli og eru nú í raunverulegri áhættu á að missa sæti sitt í úrvalsdeildinni.

Þau koma inn í þetta einvígi úr ólíkum áttum. Liverpool er að koma á sínu besta „rönni“ það sem af er tímabils með 15 stig af 15 mögulegum úr síðustu 5 leikjum. Auðvitað eru úrslitin það eina sem skiptir máli en það verður seint sagt að þessir 5 leikir hafi verið sannfærandi, allt eins marks sigrar og spilamennskan svolítið upp og niður, eins og leiktíðin kannski í heild sinni. Leicester koma á sama tíma inn í leikinn með 5 stig af 15 mögulegum, eini sigurinn kom gegn Wolves á heimavelli. Síðasta umferð var heldur ekki jákvæð, lentu 4-0 undir gegn Fulham, náðu þó að klóra aðeins í bakkann og var 5-3 tap niðurstaðan.

Horfandi til baka þá hefur Liverpool gengið nokkuð vel í þessum leikjum, 18 sigrar í 33 leikjum. Síðan Leicester kom aftur í efstu deild þá hafa liðin mæst á King Power 8 sinnum og skipt úrslitunum bróðurlega á milli sín með sitthvora 4 sigrana.

Það hefur oft verið hærra flugið á heimamönnum þegar þeir hafa tekið á móti okkur síðastliðinn ár. Það eru ekki bara þessi 13 sæti sem skilja liðin að heldur hafa heimamennirnir í Leicester ekki haldið hreinu  nema í 6 skipti í  35 tilraunum. Árangurinn heimafyrir hefur heldur ekki verið neitt mikið skárri, eru með næst slakasta heimavallarárangurinn með innan við stig per leik að meðaltali eða 16 stig í 17 leikjum. Ef þetta var ekki nægilega slæmt þá er liðið auðvitað í virkilega erfiðari stöðu, situr í 19 sæti deildarinnar með 30 stig, 2 stigum frá öruggu sæti þar sem þeir eru með hagstæðara markahlutfall en Everton. Síðustu þrír leikir liðsins eru gegn Liverpool. Newcastle og West Ham og því ljóst að þeir þurfa að ná góðum frammistöðum ef ekki á að fara illa.

Finnst ég hafa skrifað sambærilega upphitun áður, inna við stig að meðaltali í leik, halda nánast aldrei hreinu, skora lítið. Örugg 3 stig, eða hvað?

Leicester

Heimamenn hafa úr nokkuð heilum hóp að velja, af þeim sem hafa verið að spila eitthvað af ráði er það bara Iheanacho sem er frá vegna meiðsla. Eftir frekar daprar frammistöður upp á síðkastið er frekar erfitt að lesa í liðið hjá gestunum. Ég ætla að skjóta á þessa uppstillingu:

:

Iversen

Castagne – Faes – Soyuncu – Kristiansen

Barnes – Soumare – Praet – Tielemans – Maddisson

Vardy

 

Liverpool

Það hefur oft verið auðveldara að lesa í liðið en nú. Meiðslalistinn verið ansi þétt skipaður þorrann af tímabilinu en lítur bara nokkuð eðlilega út þessa vikuna. Þar eru þó usual suspects eins og Thiago, Keita og Firmino, þó það sé líklegt að við sjáum þann síðastnefnda eitthvað áður en tímabilið klárast og fáum að kveðja hann almennilega. Aðrir eru nokkrir heilir og ætla ég að skjóta á að liðið verði nokkuð svipað og í síðustu leikjum:

Alison

TAA – Konate – Virgil – Robertson

Henderson – Fabinho – Jones

Salah – Gakpo – Jota

 

Spá

Það er allt sem að öskrar á mann þrjú stig þegar maður skoðar stöðuna í deildinni, tölfræðina, formið og liðin sjálf. Það er einmitt í þeim tilvikum þar sem ég er reglulega sleginn niður á jörðina, leikirnir þar sem ég sé ekki annað en þægileg þrjú stig.

Ég er alveg viss um að það verður ekkert þægilegt í þessum leik. Ef heimamenn ætla að gera einhverja tilraun til þess að bjarga sér þá verða þeir að byrja í kvöld. Þeir koma til með að mæta, völlurinn verður með þeim en ég ætla samt að skjóta á að okkar menn mæti og sæki þrjú stig og haldi meistaradeildardraumnum lifandi. 1-2 sigur þar sem að Salah skorar úr víti og Jota potar einu inn snemma í leiknum

Koma svo!

YNWA

5 Comments

 1. Sælir félagar

  Sigur er það eina sem ég fer fram á. Þessi leikur verður bölvað basl og það fer eftir því hvernig leikmenn Liverpool mæta inn á völlin hvernig leikurinn fer. Okkar menn eiga alltaf að vera betra liðið en að mæta liði sem er að bjarga lífi sínu í deildinni verður alltaf erfitt. Ég vonast samt eftir sigri í hunderfiðum leik sem líklega vinnst með einu marki.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 2. Ég væri nú til í að sjá Diaz byrja í kvöld, en fyrir hvern ?
  Auðveldari ákvörðun að hafa Nunez á bekknum enda ekki alveg verið að finna sig, hann kemur vonandi sterkur inn í undirbúningstímabilið fyrir næsta tímabil.
  Salah – Jota – Diaz væri sóknarlínan sem ég myndi vilja sjá byrja þennan leik
  Mögulega Gakpo þar fyrir aftan en þar sem þetta er útileikur þá er það ólíklegt.
  En sigur er það eina sem skiptir máli.

  5
 3. Miðað við öskrandi formið á Brighton er alveg ljóst að sigur í þessum leik er ekki aðeins nauðsynlegur til að halda í vonina um CL sæti – EL gæti líka verið í húfi.

  Ég rétt vona að okkar menn mæti rétt stemmdir til leiks og gefi ekkert eftir. Þetta verður hörkuviðureign.

  5
 4. Reikna með því að Leicester menn komi dýrvitlausir í þennan leik og ekki kæmi mér á óvart ef Vardy setti eina sleggju í fyrri hálfleik, hann elskar að skora flott mörk gegn okkur. Klárum þetta með tveimur mökum í síðari hálfleik, Diaz setur annað á 68 mín og Salah klárar þetta á 89 mínutu úr óverðskuldaðri vítaspyrnu ? Leikur sem hreinlega verður að vinnast en þetta verður einn af erfiðari leikjum okkar manna en vonandi kemur liðið með hausinn rétt skrúfaðan á ekki veitir af.

  2
 5. Ég sá drjúgan hluta Leicester – Everton um daginn sem endaði 2 – 2, Leicester í þeim leik arfaslakir varnarlega og rúmlega það. Fá svo á sig 5 mörk á móti Fulham í síðustu umferð þannig að…..

  ….. ef allt er eðlilegt í þessum fótboltaheimi þá eiga okkar menn að rúlla yfir þetta í kvöld og raða inn mörkum!

  Leyfi mér bjartsýni……… 0 – 4 og Meistaradeildarvonin lifir!

  3

Steven Gerrard markið gegn West Ham á afmæli í dag.

Byrjunarliðið gegn Leicester: Diaz og Hendo byrja