Brentford – Liverpool 3-1

1-0 Konate (sjálfsark), 19 min
2-0 Wissa, 42 min
2-1 Ox, 49 min
3-1 Mbeumo, 84 min

Klopp gerði 3 breytingar frá því í sigurleiknum gegn Leicester s.l. föstudag. Inn komu Konate, Tsimikas og Fabinho í stað Robertson, Matip og Henderson.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en fyrsta dauðafæri leit dagsins ljós á 7 mínútu þegar Salah sendi frábæra sendingu á Nunez sem kom á miklum hraða, náði boltanum framhjá Raya í markinu en Mee náði að bjarga á línu. Nunez hefði mátt líta upp þarna en gerði frábærlega í aðdragandanum.

Á 18 mínútu fengu heimamenn sitt  fyrsta alvöru færi þegar þeir komust í skyndisókn. VVD var aðeins á afturfótunum og gaf Mbeumo ágætis forskot (sem hann reyndar vann svo upp) en Alisson varði vel í horn úr frekar þröngu færi eftir að VVD náði að trufla Mbeumo. Það var úr þeirri hornspyrnu sem að fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Konate fékk boltann í hnéð og setti boltann í eigið mark. Viðbjóðsslegt mark og staðan 1-0.

Tsiikas fékk mjög gott færi nokkrum mínútum síðar eftir frábæra hælsendingu frá Ox en skot hans á nærstöngina var varið. Brentford skoraði svo á 26 mínútu eftir frábærar vörslur Alisson eftir hornspyrnu en markið var réttilega dæmt af sökum rangstæðu.

Við gerðum afskaplega lítið eftir þetta nema að reyna fyrirgjafir með engum árangri, eitthvað sem hentaði Brentford afskaplega vel og þeir greinilega lagt upp með. Brentford skoraði svo þriðja markið sitt, sem aftur var dæmt af vegna rangstöðu þegar að hornspyrna barst á Wissa sem var aleinn í miðjum teig (ég skil ekki ennþá hvernig hann gat verið svona einn og óvaldaður) en skot hans fór í leikmann Brentford, sem var í rangstöðu, og framhjá Alisson en markið var réttilega dæmt af.

Mínútu síðar (eða varla það) vann Brentford boltann – maður sá einhvernveginn skipulagsleysið og panikkið í liði Liverool þegar þeir léku boltanum út á kannt, fyrirgjöf á Wissa sem aftur var aleinn á fjærstöng og skallaði í nærhornið (Alisson náði að verja en boltinn fór inn), 2-0. Dekkunin þarna í vörninni í tvígang…. ég á bara ekki orð. Ekki bara á nærstönginni heldur líka viljinn til þess að stoppa fyrirgjöfina, ekki til staðar!

Verðskulduð forysta í hálfleik, gæti auðveldlega verið 4-0, sem sýnir svart á hvítu hve litlu máli possession skiptir heldur hvað lið gera þegar þau eru með boltann. Það var engin ákefð í leik okkar, ekkert hugmyndaflug, enginn vilji til þess að verjast og algjört skipulagsleysi.

Síðari hálfleikur

Klopp gerði þrjár breytingar í hálfleik. Robertson, Matip og Keita komu inn í stað Tsimikas, VVD og Elliot sem allir höfðu verið hver öðrum slakari.

Nunez náði að skora á 48 mínútu en var naumlega (og réttilega) dæmdur rangstæður  eftir að hafa klárað færið sitt vel einn gegn Raya. Mínútu síðar fékk TAA boltann hægra megin, lagði hann á vinstri fótinn og sendi frábæra sendingu fyrir á Ox sem skallaði í fjærhornið, 2-1!

Bestu menn Liverpool

Pass. Ég sagði í byrjunarliðsþráðinum að ég hafði vonda tilfinningu fyrir þessum leik en þessu átti ég ekki von á. Þessi spilamennska sem að liðið er að sýna leik eftir leik, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð er ekki boðleg. Við virkum bæði óskipulagðir, erum að hlaupa minna en við höfum gert á síðustu árum, minna en andstæðingurinn viku eftir viku og ákefðin er bara ekki til staðar.

Auðvelda svarið er að það vantar leikstjórnandan okkar – þ.e. pressuna og ákefðina. Miðjan er bara engan vegin að virka, er orkulaus (eins og liðið svo sem allt), vörnin er óörugg og sóknarleikur liðsins hugmyndasnauður. Erfiða svarið er eflaust mikið stærra og flóknara en það sem ég hef orku í að fara ofaní í leikskýrslu eftir þessa hörmung.

Ekki byrjar árið vel – en fall er fararheill sagði einhver. Vonum að það sé eitthvað til í því, þó ég eigi afskaplega erfitt með að sjá það í augnablikinu.

Umræðan

  • 1. Fyrsta stoðsendingin hjá Trent á tímabilinu kemur í janúar. Af sem áður var.
  • 9. Liverpool hefur tapað 9 stigum gegn Nottingham Forrest, Leeds og Brentford. Lið sem ætlar sér meistaradeildarsæti (hvað þá toppbaráttu) getur ekki leyft sér þennan lúxus. Það þarf mikið að breytast ef lið ætlar að ná evrópukeppni í vor…. ég er þá ekki að tala um CL.

Næstu verkefni

Úff. Getum við ekki fengið HM aftur bara? Eina sem fær mig mögulega til að vilja kveikja á sjónvarpinu um næstu helgi er möguleikinn á að sjá Gakpo gegn Wolves n.k. laugardag.

Þetta verður erfið vika….

Þar til næst

YNWA

49 Comments

  1. Ég elska lagið frábæra Hey Jude, en nákvæmlega núna þoli ég ekki að heyra það. Svo þætti mér fróðlegt að sjá eins og eina æfingu með Liverpool liðinu og vita hvað Jurgen Klopp er að pæla þar.

    8
  2. Ömurleg frammistaða, einfalt mál, Salah bara svipur hjá sjón miðað við áður.

    6
    • Það væri frábært fyrir Klopp! Hann hefur aldrei unnið Conference League! Verðugt markmið að ná nýrri dollu í skápinn. #djöfulsinshroðbjóður

      5
    • Að öllu gamni sleppt..að nokkrum úfff og já bara vonleysis tuði..og ranti.
      það er bara erfitt að fylgjast með Liverpool í dag maður veit ekkert hvað er í gangi þetta er eins og vél sem fær vitlaust eldsneyti á tankinn bara virkar ekki.

      Þegar ég sá byrjunarliðið þá vissi ég að þetta yrði hörmung..að Ox hafi svo skorað eina markið hjá Liverpool er svo meira eins og spark í punginn og sýnir á hvaða stað Liverpool FC eru.

      Brentford…kjöldróg Liverpool með fokking capital letters..þeir skoruðu 5 fokkings mörk gegn okkur þar sem 2 voru naumlega dæmd af sökum rangstöðu.

      Hvað eru Klopp og co að æfa á nyja æfingasvæðinu ..er menn bara í slökun í pottinum og spjalla ? hvað er eiginlega í gangi eru menn sáttir við þessa skitu sem er í boði trekk í trekk.
      Er 1 miðjumaður að fara bjarga þessu ? EF hann kæmi inn þar að segja samkvæmt Klopp þá er þetta bara allt í gúddí og bara frábært allt saman.

      Fokk hvað maður er pirraður að horfa á Liverpool vera spila jafn illa og þeir hafa verið að gera á þessu tímabili ..eigum ekki skilið að fara í meistaradeildina höfum ekki erindi þangað með svona spilamennsku !

      YNWA

      12
  3. Lélegast leikur LFC á þessari leiktíð, við vorum eins og smákrakkar á móti fullorðnum. Hornspyrnur virka eins og vítaspyrnur og engin að dekka menn sem eiga svo bara fríann skalla og mark !
    Hvað er eiginlega að þessari vörn ? Hvað kom fyrir ? Hvað segir Klopp ? Hvað segir VVD sem ætlaði að bæta fyrir frammistöðu síðasta leiks ? Einn Gakpo bætir ekki svona skitu !

    8
  4. 1. Varnarleikurin er hræðilegur.
    Fengum varla horn á okkur nema það kæmi þark úr því. En helmingurin reyndar dæmdur af.

    2. Spilið er svo hægt þessar hægufærslur eins og handknattleikslið að setja upp í kerfi. Svo þegar boltinn hefur farið 5-7 sinnum framm og aftur þá endar hann oftar en ekki hjá trent á miðjum vallarhelmingi heimaliðsins sem sendir fallhlífarbolta inn í teig…

    3. Það reynir enginn að fara framhjá mönnunum sínum menn eims og t.d Salah menn alveg niðurnjörfaðir eins og í pinna fótboltaspili.

    4. Finnum miðjumann strax! Og hann þarf bara að geta pressað og varist þarf ekki að vera frábær á öðrum sviðum. Gini bara plís komdu og hjálpaðu til.
    Við getum ekki horft á lið keyra yfir okkur á ákveðnum stöðum á vellinum.
    Keita kom flottur inn en er ekkert í sérstöku leikformi svo dróg hratt af honum en jákvætt.

    5. Verst af öllu að þessi frammistaða kom manni ekkert sérstaklega á óvart.
    Sem er áhyggjuefni að þjálfarateymið skuli hafa óbilandi trú á sömu aðferðunum og leikmönnum leik eftir leik.

    7
  5. Vörnin átti slæman dag en það er erfitt að horfa ekki í að þeir fá bara alltof marga sóknir og leikmenn á sig útaf miðjunni. Hún er alltof þung, hæg og aum. Það vantar power og við þurfum bara að fara í 3-4 kost (td Caicedo?) ef ekki á að fara illa. Fab og Thiago geta ekki spilað saman og hvað þá Hendo með þeim. Ég held að tími Fab sé runninn upp. Vond staða sem mun ekki batna í janúar. Enn og aftur þrjóska Klopp að koma í bakið á okkur.

    7
  6. Karma gefur og karma tekur. Fengum gefins tvö mörk gegn Leicester og gefum tvö í þessu. Perfectly Balanced as all things should be. Liverpool lið er enn og aftur komið í hróa hattar búninginn og gefur litlu liðunum stig.

    6
  7. Endurtekið efni, svona frammistöður hafa verið allt of margar, eru orðnar venjan en ekki undantekningin, því miður.
    Þetta lið er orðið svo lélegt að það hálfa væri hellingur.
    Hvað er að valda þessu er engin leið að segja en þetta gengur ekki svona lengur, þetta er bara ekki hægt.
    Menn geta ekki mætt með svona hugarfari aftur og aftur, menn verða að fara að girða sig í brók, þetta er ekki boðlegt.

    7
  8. Úff þetta var vond frammistaða.

    Skil ekki alveg skiptinguna á Van Dijk en Elliot og Tsmikas áttu hreint út sagt skelfilegan fyrri hálfleik.

    Hef reyndar ekki séð lakari spilamennsku hjá miðjumanni hja Liverpool en hjá Elliot í dag. Framlag hans til leiksins var ekkert og varnarlega er hann eiginlega verri en enginn. Velti alvarlega fyrir mér hvort hann sé í Liverpool klassa og það var ofboðslegur gæðamunur á spilamennsku hans og Keita í leiknum.

    Við eigum 4 góða miðjumenn sem eru í heimsklassa, Fab, Hendo, Alcantara og Keita, ÞEGAR ÞEIR ERU HEILIR, en þar fyrir utan vantar sárlega gæði á miðjuna. Chamberlain er reyndar búinn að vera fínn frammi í undanförnum leikjum en Jones gerir ekkert fyrir liðið að mínu mati. Bajcetic er jú efnilegur en það er líklega a.m.k. 2-3 ár í hann verði heimsklassa.

    Svo erui meiðslin í liðinu áhyggjuefni og verulegt umhugsunaratriði hvernig þau eru að tilkomin. Að menn séu endalaust að meiðast á æfingasvæðinu eða togna án þess að komið var við þá í leikjum er bara langt frá því að vera í lagi.

    Áfram Liverpool!

    8
  9. Hvað finnst ykkur um Nat. Phillips? Mér finnst hann alltaf standa sig svo vel. Ber kannski, og væntanlega, vitneskju um vanþekkingu mína en ég hef aldrei skilið hversu lítið hlutverk hann hefur fengið. Ég myndi stilla honum upp í flestum byrjunarliðum. Hann gjörsamlega bjargaði okkur þarna um árið og mér finnst hann sýst lakari en tugmiljóna leikmenn. Er eitthvað neikvætt eða takmarkandi við hann sem ég ekki skil eða eru allir bara á einhverjum vagni til að tilheyra fjöldanum?

    13
  10. Oj, oj og aftur oj.

    Glæpsamlegt hvernig þeir hafa vanrækt að endurnýja liðið.

    Hreinræktuð skemmdarverk.

    Nunez ætlar ekki að finna markfætur sína. Hann gæti ekki hitt hörpuna frá bílastæðinu. Kemst e.t.v. í gang á þessu tímabili og bætist svo á meiðslalistann. Er það ekki fyrirsjáanlegt. Svo var ég að reyna að gíra mig í eitthvert Keita-stuð en þá lætur hann kjöta sig á miðjunni og upp úr því kemur fáránlegt mark #3 (eða #5).

    8
  11. Maður veltir fyrir sér, hvað voru menn eiginlega að gera í HM-fríinu í Dubai? Fréttir bárust af endalausum myndbandsfundum þar sem farið var yfir hvað hefði klikkað það sem af væri tímabili og hvað hefði gengið vel á síðasta tímabili. Stór hluti liðsins fór ekki á HM og þeir sem fóru spiluðu ekkert sérstaklega mikið þannig að liðið ætti að vera þokkalega úthvílt miðað við mörg önnur. Menn hlaupa hins vegar um völlinn eins og þeir séu með blý í skónum og skipulagið er ekkert. Þetta hlýtur að skrifast á þjálfarana, þeir virðast ekki hafa nein svör við þessari krísu. Annaðhvort það eða leikmenn eru hættir að hlusta. Þetta er bara endurtekið efni frá því fyrir HM. Einn miðjumaður eða framherji breytir þessu ekki, það þarf að fara í allsherjarendurskoðun þar sem enginn leikmaður er undanskilinn, nema Alisson.

    Því miður er þetta lið ekki að fara í Meistaradeildina á næsta tímabili, til þess er alltof mikið að hjá því. Margir nefna miðjuna sem veikan blett en mér finnst margir lykilleikmenn bregðast á ögurstundum, t.d. Mo og Van Dijk í þessum leik og Henderson og Robertson í þeim síðasta, bara til að nefna dæmi. Það er ekki hægt að ætlast til að Elliot, Nunez eða Konate beri þetta lið uppi, til þess eru þeir of ungir, en liðinu virðist sem heild fyrirmunað að eiga góðan leik.

    Ætli maður verði ekki bara að þakka fyrir síðustu tímabil, sem hafa verið ógleymanleg, og búa sig undir langt umbreytingaskeið hjá liðinu.

    9
  12. Eitt er að tapa leik en að tapa leik þar sem okkar menn eru gjörsamlega út á túni í rauninni leik eftir leik þrátt fyrir að við höfum slysast til að vinna með hjálp andstæðinganna er ekki boðleg.
    Ég hélt að ég myndi aldrei skrifa þetta en er Klopp kominn á endastöð með liðið?
    Ég vona ekki en eitthvað þarf að breytast svona framistaða hjá liðinu er ekki boðleg svo ekki sé meira sagt.

    6
  13. Fyrir það fyrsta þá.er þetta Brentford lið engin kettlingur hef horft er til leikja þeirra þetta seson.
    Brentford 4-0 Man United
    Brentford 3-1 Liverpool
    Man City 1-2 Brentford
    Brentford 2-2 Tottenham
    Brentford 0-0 Chelsea
    Þessi leikir er algjör skita og kjaftshögg við að enda í efstu 4 sætunum. Það hefur klárlega áhrif að við erum með þann hópi sem hefur misst flesta menn í meiðsli þetta tímabil.

    Held samt að fá inn miðjumann sé bara plástur á sárið, því okkar vandamál liggur dýpra.
    Erum búnir að missa 2 sporting directors á 18 mánuðum og á þessum 18 mánuðum var endursamið við Hendo og Milner í stað þess að versla inn miðjumenn. okkar aðal analytics maður farinn, hrófl á læknateyminu og þrekþjálfurum.
    Allt stability baksviðs er farið og ég held þetta tengist allt því að klúbburinn er til sölu og vandamálin verða til staðar þangað til nýjir eigendur koma inn því FSG eru komnir á endastöð með LFC.

    3
  14. Tek undir með Hössa, Elliot er farþegi á miðjunni, það kemur ekkert út úr honum varnarlega og sóknarlega er lítið að gerast. Í marki tvö hjá Brentford lætur hann boltann fara í gegnum klofið á sér og beint í lappirnar á leikmanni Brentford sem sendir á fjær og mark. Owen og Owen H. bentu á þetta eftir leik, skilja ekkert hvað hann var að gera.

    Miðjan hjá Liverpool er ekki með sömu gæði og pressu og hún var með fyrir 2-3 tímabilum síðan. Hlaupageta miðjumanna liðsins hefur hrunið, við hlaupum enga miðju í kaf þessa dagana. Ekki hjálpar að ungir leikmenn eins og Elliot og Jones hlaupa minna, kunna ekki að pressa og vinna ekki eitt návígi eða einn skallabolta.

    Það var ljóst í sumar að Liverpool vantaði miðjumann fyrir tímabilið, ekkert hefur breyst nema jú við þurfum tvo gæða miðjumenn ef liðið ætlar sér meistaradeild og áframhaldandi baráttu um sigur í deildinni. En hugsanlega þarf nýja eigendur til að þetta gangi eftir.

    Svo þarf að skoða þessi endalausu meiðsli hjá leikmönnum, er pressubolti Klopp að gera út af við leikmenn. Hvers vegna er Firmino meiddur ?, hann var ekki að spila á HM (álagsmeiðsli). Jota er búinn að vera meiddur allt tímabilið (álagsmeiðsli). Mane er meiddur (veit að hann er farinn til BM), afleiðingar síðasta tímabils (álagsmeiðsli). Keita búinn að spila lítið sem ekkert út af meiðslum (álagsmeiðsli), Ox mikið meiddur, bara búinn að spila 3 leiki (álagsmeiðsli), Milner er meiddur (álagsmeiðsli), Thiago spilar bara 50% leikja vegna álagsmeiðsla. Konate hefur verið mikil meiddur á þessu tímabili og bara spilað 4 leiki í deild (álagsmeiðsli).

    15
  15. Hvernig haldiði að liðinu muni ganga á móti Real Madrid? Ég get ekki einu sinni hugsað um það…

    2
  16. Sælir félagar

    Ekkert -ég endurtek EKKERT afsakar þesasa frammistöðu liðsins undanfarið. Ekkert afsakar það að hafa Alex Uxa í byrjunarliði og breytir engu þó hann hafi skorað þetta mark því frammistaða hans að öðru leyti var skelfileg allan tímann. Elliot getur ekki blautan þó hann hlaupi og hlaupi breytir það engu. Han getur ekkert lagt til leiksins, amk. eins og er. Framherjar Liverpool eru búnir að vera svo skelfilega daprir að ég man ekki eftir öðru eins. Salah gjörsamlega týndur og Darwin gæti ekki keypt sér mark fyrir öll launin sín það sem sín á síðasta ári. Það er grátlegt að horfa uppá liðið sitt spila svona leik eftir leik nog þurfa að lesa og hlusta á afsakanir sem eru einskis virði.

    Þó er ekkert sem toppar frammistöðu varnarinnar í undanförnum leikjum. Í fyrri hálfleik á móti A. Villa gáfu þeir 4 dauðafæri og bara klaufaskapur sóknarmanna Villa bjargaði okkur þar. Frammistaðan í dag og í síðasta leik toppar þó allt saman þó frammistaða sóknrinna í síðustu tveimur leikjum fari langt með það. Það er kristaltært að Klopp verður að hætta þessu rugli með að það sé ekki alveg nauðsynlegt að fá miðjumann/menn strax í jan – hvað sem það kostar. Hann verður að hætta að tala um að það sé of dýrt o. s. frv. Það bókstaflega verður að kaupa og svo má Klopp fara að taka til í hausnum á sjálfum sér og varnarmönnunum. Ég viðurkenni að ég er brjálaður yfir leik liðsins undanfarið.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  17. Þetta er ekkert Grimsævintyri sem hoppaði upp úr einhverjum gjafapappir.

    1
  18. Hef ekki miklu að bæta við þetta sem ég setti á síðuna á gamlársdag
    https://www.kop.is/2022/12/31/leikmannaglugginn-opnar-a-morgun/
    Þessi leikur var lítið annað en áframhald af því sama.

    Aðalvandamálið er endalaus meiðslalisti liðsins, það voru 10 á þeim lista í þessari viku og það hafa verið 7-10 fjarverandi allt þetta tímabil. Ox hefur núna spilað þrjá leiki á viku sem sóknarmaður í liði sem er með Diaz, Jota, Firmino og núna Gakpo á mála hjá sér. Það sem verra er að Ox var líklega bestur í dag af þeim sem spiluðu frammi.

    Miðjan er engu að síður eins og ég kom inná í pistlinum svo rosalega augljóst vandamál að Liverpool bara verður núna að ýta aftur á panic takkann og kaupa miðjumann sem þéttir miðjuna strax í janúar.
    Ekkert sama hvað hann kostar, það er nóg til af góðum miðjumönnum sem geta sannarlega styrkt Liverpool liðið án þess að það þurfi að punga út 100-120m. Ef að Liverpool er ekki með neinn slíkan í sigtinu þarf að skoða þá starfsmenn félagsins sem sjá um að finna leikmenn og kaupa leikmenn. Gott og vel að Jude Bellingham sé lelvel af leikmanni sem er ekki laus í janúar, Liverpool þarf að endurnýja 3-4 stöðgum bara á miðjunni á næstu 1-2 árum. Þessi endurnýjun átti að byrja fyrir 2 árum.

    Frá 2018 hefur Liverpool aðeins keypt Thiago, 29 ára leikmaður með mikla meiðslasögu sem átti ár eftir af samningi. Frábær viðbót sannarlega en leikmaður sem ætti að vera kom inn til að fylla skarð Keita eða Ox. Ekki taka við af Wijnaldum.

    Fabinho og Keita komu sumarið 2018, það er svo langt síðan að þetta er sama sumar og Shaqiri kom til Liverpool. Powercube var einmitt tekinn af velli í hálfleik í sínum fyrsta leik því miðjan var of opin fyrir aftan hann. Hann var frábær sóknarlega þeim leik. Ekki að sjá að það sé sami standard núna! Liðið er satt að segja óþekkjanlegt frá bestu Klopp liðinum þar sem pressan var leikstjórnandi liðsins og ákefðin þannig að andstæðingurinn fékk aldrei tíma til að anda. Liverpool spilaði eins og leikurinn væri sýndur hægt í kvöld og ekki var það neitt skrárra gegn Leicester. Satt að segja hefur aðeins einn deildarleikur ekki verið vesen í vetur. Janfnvel 2-0 yfir er Liverpool aldrei með trygga stöðu núorðið.

    Thiago hefði satt að segja átt að koma inn fyrir annanhvorn af Henderson eða Milner, ekki Wijnaldum eins og hann gerði í raun. Það er galið að semja við Henderson til fimm ára og blokka þannig eina stóra stöðu á miðjunni hjá okkur. Hann ætti nú þegar að vera búin að taka við Milner hlutverkinu á árlegum samningi. Það var hárrétt hjá félaginu að leyfa Wijnaldum að fara og frammistaða hans eftir að hann fór hefur ekki beint sagt neitt annað. Henderson ætti sömuleiðis að vera miklu aftar í goggunarröðinni núna eða farin frá klúbbnum. Hann hefur verið geggjaður sem fyrirliði og átt frábæran feril hjá Liverpool en í byrjunarliði Liverpool eiga að vera leikmenn sem eru að lágmarki í sama klassa og með sama orkulevel og Henderson og Wijnaldum voru fyrir 5-6 árum. Eðlileg þróun væri að kaupa enn betri miðjumenn til að taka við af þeim, ekki leyfa liðinu bara að eldast með þeim. Eins hugsa ég að það sé holt fyrir kröfuharðan stjóra eins og Klopp að endurnýja liðið sitt mun hraðar.

    Ox og Keita hafa verið þremur árum of lengi hjá félaginu. Liverpool hefði frekar átt að taka á sig höggið líkt og t.d. Arsenal gerði í fyrra til að losa þá af launaskrá og endurnýja liðið. Liverpool hefur ekki gert mörg stór mistök á leikmannamarkaðnum og báðir eru alveg með hæfileikana en það skiptir engu máli ef ekki er hægt að treysta neitt á þig. Sama ástæða er fyrir því að það er galið að semja við Joe Gomez aftur til fimm ára eftir fimm ár á meiðslalistanum. Já og að bæta af öllum mönnum Arthur Melo við núverandi hóp og taka sénsinn á öðruvísi líkamlegri heilsu hjá honum en allan hans feril.

    Ungu leikmennirnir sem hafa komið inn á miðjuna eiga það allir sameiginlegt að vera ekki eiginlegir miðjumenn og hafa verið fáránlega mikið meiddir í þokkabót. Elliott í kvöld var gott dæmi um hversu langt hann á í land í þessari stöðu. Hann komst ekkert nálægt leikmönnum Brentford. Hann er rosalega mikið efni og ég er langt í frá búinn að afskrifa hann en mikilvægi hans á miðjunni í vetur þarf að minnka. Hann er nota bene eldri en Jude Bellingham!

    Curtis Jones hefur spilað lúmskt mikið en ætti núna að hafa hálft ár til að sýna að hann stefni að verða Liverpool klassa leikmaður. Ekki arftaki Ox á meiðslalistanum. Fabio Carvalho er enn einn sem virðist hvergi passa í leikkerfið eins og staðan er núna. Þeir eru allir frábær viðbót við hópinn í liði sem er með 3-4 heimsklassa miðjumenn á undan þeim í goggunarröðinni.

    Fabinho er 29 ára, eðlileg þróun væri að kaupa nýjan mann inn fyrir hann næsta sumar eða þar næsta sumar. Það þarf vissulega leikmenn núna strax sem getur leyst stöðu varnartengiliðs en alls ekki fyrir Fabinho, meira með honum þar sem það eru svo margir farþegar á undan honum sem þarf að losa.

    Liverpool þarf að finna menn í staðin fyrir Keita, Ox, Milner og mögulega fleiri næsta sumar og verða í svipuðum málum með Henderson, og Thiago árið eftir. Þetta ættu að vera 2-4 ný leikmannakaup, 1-2 af þeim sem taka við keflinu kæmu þá úr yngra starfinu (Elliott – Jones – Bajcetic)

    FSG er líklega undir mestu pressu sem þeir hafa verið sem eigendur Liverpool að kaupa fleiri í janúar.
    Liðið hefur verið að glíma við sama vandamál núna frá því nokkru áður en síðasta tímabil endaði.

    27
    • Það sem mér finnst óskiljanlegt og eiginlega alveg óþolandi er hvað Klopp er blindur á ástandið. Að fullyrða það í sumar að liðið þyrfti engan miðjumann var bara galið. Kannski átti það að vera brandari en hann er þá kominn hressilega í bakið á Klopp. Er hann í burn-outi?

      6
      • Skulum nú alveg deila með tveimur þó hann verji liðið útávið, hann hefur réttilega alltaf gert það. Hann hefur í fyrsta skipti frá því í sumar gagnrýnt FSG opinberlega vegna “áhættufælni” á leikmannamarkaðnum og sá sem tók við sem Sporting Director er búinn að segja upp.

        Klopp er mjög langt í frá blindur á stöðuna og GLÆTAN að hann sé jafn dannaður bak við luktar dyr varðandi klúður á leikmannamarkaðnum.

        Partur af mikilvægi þess að styrkja liðið er einmitt til að halda Klopp rétt eins og þeim lykilmönnum sem við viljum ekki missa.

        12
    • Einar, ég er að mestu sammála þinni greiningu á leikmönnum Liverpool hvað varðar gæði
      enn ég er ekki sammála þér að aðalvandamálið liggi í meiðslunum sem Liverpool er að glíma við nú í haust, ég er ekkert alltof viss um að staðan væri svo endilega mikið betri þótt allir þeir sem eru meiddir hefðu verið heilir?
      Við eru komnir á endastöð með fullt af leikmönnum vegna lélegrar kaupstefnu FSG
      FSG er VANDAMÁLIÐ og hefur alltaf verið, menn geta hraunað yfir Klopp út af einhverri þrjósku að nota ekki þennan eða hin leikmanninn, aðalvandamálið liggur bara ekki í því.

      Hópurinn er ekki betri enn þetta, það er bara þannig!

      Það eina sem getur bjargað klúbbnum út úr þessari krísu er nýr og mun fjársterkari eigandi!

      Þetta tímabil er farið í vaskinn, við þurfum að sætta okkur við það hvort sem okkur líkar það eða ekki. Ég vona að fyrir sumarið verði kominn nýr eigandi sem vonandi bjargar því sem ég er mest smeykur um að Jurgen Klopp fari frá Liverpool í sumar

      FSG out!

      4
  19. Þetta er vera en fyrir HM hléið

    Hélt að þetta gæti ekki versnað,

    4
  20. Það er eins gott að Magnús verði á fullum hljóðstyrk í næsta Gullkasti. Ég vil ekki missa af einu orði frá honum um ástandið!

    7
  21. Real mun sparka okkur meistaradeildinni, botn liðin á Englandi munu gulltryggja að við komust ekki í too4, þetta er aðeins útaf getuleysi manna að taka réttar ákvarðanir í leikmannakaupum á síðasta ári, lítið kaupir sóknarmenn fyrir hátt í 180m punda árið 2022, engan miðjumann.

    Þetta er algjörlega galið, líður eins og það se enginn markmaður í markinu og klopp sé ekki búinn að taka eftir þvi í 6 mánuði og heldur bara áfram að setja fleiri sóknarmenn inn á.

    5
  22. FSG er líklega undir mestu pressu sem þeir hafa verið sem eigendur Liverpool að kaupa fleiri í janúar.
    Liðið hefur verið að glíma við sama vandamál núna frá því nokkru áður en síðasta tímabil endaði.

    Þetta! Í Næsta Podcasti vill ég að þið komið með útskýringu á þessu afhverju!

    Það er útum allt internet að allir stuðningsmenn lfc
    Eru samála því að liðinu vantar nánast nýja miðju og fyrir löngu ætti að vera byrjað að endurnýja hana.
    Það er verið að ræða þetta í allskonar þáttum í útvarði sjónavarpi podcostum!.

    Eftir hverju er verið að býða? Frá 2021
    Diaz.gakpo.nunez eru allir mættir þarna frammi
    Samkvæmt transfermarkt eru þetta kaup fyrir 169m
    Jota kemur 2020 fyrir 44.7
    Frá árinu 2020 eru komnir framherjar fyrir yfir 200m
    Eða 213,7m (transfermarkt)

    Thiago kemur svo inn 2020 fyrir 22m
    Gini fer á móti frítt.
    Keita er búinn að ná 79 leikjum í PL
    Síðan hann kom.
    En td 3 í vetur og í heildina 95 mín.
    Þessi kaup eru löngu glötuð.
    Ox er líka löngu farinn…
    Arthur er ekki að fara hlaupa um og pressa og vinna bolta á miðjunni ef hann nær leik yfir höfuð.

    Ekki er Klopp í alvöru að fara inn í nýtt og nýtt tímabil og að treysta á þessa menn?

    Elliot,thiago og svo Arthur.

    Frá Henderson.fab.gini.milner.

    Ég er bara að spá hvenær datt ráðandi mönnum þarna í hug að best sé að hætta að leita af alvöru 8 um inn í þetta kerfi mönnum sem hlaupa úr sér lúngun til að pressa öll lið áður en þau komast fram yfir miðju?

    Bara hver er ykkar hugmynd um hvað er verið að spá með miðsvæðið þarna?

    5
  23. Á síðustu 4,5 árum hefur Liverpool keypt einn miðjumann og það var Keita. Til að bjarga tímabilinu verður Liverpool að skipta um eigendur eins og ég hef verið að tuða um í 2 ár. Því miður er líklegt að fjárfestar bíði fram á sumar við þau kaup því ef liðið kemst ekki í M-deildina þá lækkar verðið, væntanlega.

    4
    • Ég held nú að það taki góðan tíma að kaupa eins og eitt fótboltafélag. Þetta er ekki eins og fara á bæjarins bestu og kaupa eina pullu 😉
      Verðmiðinn er 90% klár en sveiflast aðeins við að LFC komist í topp 4 eða ekki. Þetta tekur tíma og ég sé ekki að það séu einhverjir væntanlegir kaupendur sem eru við það að kaupa klúbbinn, því miður.
      Verðum við ekki að vona að einhverjir sem eru ekki í “sportwashing” eða siðlausir morðingjar kaupi LFC, einhverjir sem munar ekki um að kaupa eins og einn Bellingham og einn Amrabat í janúar 🙂
      Ég lifi í voninni !

  24. Það hefur í raun allt komið fram sem þarf að koma fram hérna á síðunni. Allt liðið var til skammar í gær, ég veit vel að það var ekki dómaranum að kenna á við töpuðum þessum leik en ég verð sem að velta tveimur atriðum fyrir mér.
    Seinasta markið, þetta var soft og allt það, en eina ástæðan fyrir því að Konate missir jafnvægið er að Brentford maðurinn rekst í löppina á honum, þetta var aldrei þannig að Brentford maðurinn var bara sterkari öxl í öxl. Klaufalegt, soft og allt það, en samt alltaf brot. Líklegast hefur VAR ekki þótt þetta nógu augljóst til að breyta þessu.
    Fyrsta markið hjá Brentford, var þetta hendi í aðdragandum? Erfitt að sjá en mér fannst VAR eyða ótrúlega litlum tíma í að skoða það, kannski þekki ég reglurnar ekki nógu vel samt í þessu tilviki.
    Eins og vanalega þá var amk ótrúlegt missamræmi í dómgæslunni, þetta er algjör skandall leik eftir leik, engin lína, ekkert.

    6
  25. Þetta segir Carragher eftir skituna í gær: „Liverpool-liðið hefur verið í vandræðum allt tímabilið með lið sem eru sterk líkamlega. Við skulum ekki gleyma því að liðið hefur vanalega stært sig af því að vera lið sem er þekkt fyrir mikla ákefð. Nú lítur liðið út eins og lið sem er á endastöð.“ Það er bara einn sem ber ábyrgð á þessu og það er stjórinn. Hann heitir Klopp og virðist líka kominn á endastöð. Undir hans stjórn hefur liðið aðeins keypt einn miðjumann sl. 4 ár og hann var yfir þrítugt!

    6
  26. Sælir félagar

    Allt ber að sama brunni í athugasemdum hér og svo er um veröld alla. Stuðningsmenn Liverpool um allan heim eru brjálaðir yfir vesaldómi liðsins og kaupstefnu og aumingjahætti eigenda LFC. Ég hefi lengi verið beggja blands um eigendur Liverpool klúbbsins og þar kemur fyrst og fremst uppbyggingin á aðstöðu liðsins og svo stækkun á Anfield ásamt þeirri stefnu að halda hinum sögufræga leikvangi. En nú er mér nóg boðið. Þessar framkvæmdir í heild kosta svona eins og tveir leikmenn úr næst efstu hillu og allt er þetta í reynd ódýrara en byggja nýjan leikvang og æfinga aðstöðu. Aðstaðan segir heldur ekki allt. MU liðið er að vinna á velli og æfinga aðstöðu sem er nánast ónýt en eru samt vel fyrir ofan Liverpool í töflunni.

    Af öllu þessu leiðir að ég vil FSG út, burt með þá og allt þeirra hyski, hræsnina og yfirdreps skapinn. Ég vil fá nýja fjársterka eigendur sem leggja peninga í liðið, í mannskap sem getur spilað á hæsta stigi með árangri. Það vinnur ekkert lið leiki með því að dúlla sér í flottri æfinga aðstöðu án nokkurs árangurs á leikvanginum sjálfum. Það er líka afar athyglivert að meiðslasaga leikmanna liðsins er legíó eftir að liðið fékk þessa stórkostlegu aðstöðu. Getur verið að flottræfilsháttur þar sé svo mikill að leikmönnum líði eins og milljónerum sem ekkert þurfa á sig að leggja heldur bara að njóta. En hvað veit ég sosum.

    Það er nú þannig

    FSG burt

    YNWA

    8
  27. Megum ekki taka neitt af Brentford , voru flottir í gær tóku okkar menn á Yppon og virðist þessi stjóri hjá þeim vera helv flottur. Spurning ef Klopp gefst upp hvort þetta væri ekki gæji fyrir Liverpool ?
    Sammála flestu því sem fram hefur komið hér að ofan mér fannst Elliot því miður ekki vera að gera gott mót í gær, Uxinn með skárra móti en bæði Salah og Nunes voru slakir og það er lögreglumál hvað Núnes er slakur í að klára færin sín. Grikkinn var slakur en Robertsson sýnu betri. Við verðum í vandræðum að ná í topp fjóra í vor og þá má búast við að það verði ekki auðveldara að fá inn þá toppleikmenn sem við þurfum nauðsynlega á að halda sem eru tvímælalaust mun yngri og ferskari miðjumenn, Rice og Bellingham er mín ósk en það gerist ekki undir þessu eignarhaldi því miður.
    Ekki þýðir að velta sér upp úr þessu endalaust, komið með næsta lið.

    1
  28. Liverpool kom algjörlega óundirbúið í þennan leik, allir leikmennirnig, líka varamennirnir. Nú er bara að krossa fingur og vona að FSG opni budduna, eða hypji sig.

    3
  29. Ef að maður skilur JK rétt þá er ekki mikið meira budget í leikmenn í janúar en það sem fór í Gakpo. Ef það er rétt hvers vegna í andskotanum er verið að kaupa hann þegar það öskrar á mann að það vantar miðjumenn? Vissulega eru tveir meiddir en væntanlega koma þeir e-h tíma til baka. Þá verðum við með allt of marga sóknarmenn sem er að vissu leiti ágætt enda meiðslapésar allir saman.

    Það hefði alveg verið hægt að eyða þessum peningum í öflugan miðjumann sem hefur lappir í að spila Klopp bolta.

    5
  30. Brighton eru að spæla Everton báðum megin með lauk. Komnir í 4-0 og það er varla liðinn klukkutími. Ekki endilega góð tilhugsun að þurfa að sækja þá heim í næsta deildarleik.

    1
    • Brighton mun vinna Liverpool í næsta deildarleik svo einfalt er það.
      Staðan í deildinni núna hvað varðar topp fjóra gæti verið uppröðunin í vor, það þarf eitthvað mikið að gerast til að það muni breytast, ég sé það ekki gerast.
      Tottenham hefur ekki mannskap til að berjast við þessi fjögur lið sem eru fyrir ofan þá.

      3
  31. Segir þeta ekki allt sem segja þarf?
    “True reality now is for Liverpool they have massively over-achieved given the money spent by FSG. They are mid-table spenders trying to compete with the games biggest spenders the Money ball model doesn’t work anymore we are fed up.The Boston Red Sox fans are fed up it’s Time Fenway Sports Group Please Sell Up.”

    6
    • Ekki flóknari en þetta. Styrktu liðið ekkert á toppnum og nú er þetta á niðurleið. Glæpur

      3
  32. VVD meira meiddur en þeir héldu fyrst…vá hvað þetta kemur á óvart.

    Ekki að það skipti miklu máli lekum mörkum með VVD inná líka en þetta tímabil er að breytast í lestarslys.

    6

Liðið gegn Brentford

Gullkastið – Endurvekja þungarokkið takk!