West Ham í kvöld (8 liða úrslit Carabao Cup)

Það er skammt stórra högga á milli þessa daganna. Jafntefli gegn Man Utd er sjaldnast heimsendir en miðað við stöðu og spilamennsku liðanna þetta tímabilið þá sveið það að missa toppsætið eftir vonbrigða leik og úrslit gegn erkifjendunum. Það er enginn tími til að gráta þau stig, West Ham mætir á Anfield í kvöld í 8 liða úrslitum Carabao Cup áður en við tökum á móti Arsenal á Þorláksmessu, alvöru verkefni að spila við þessi þrjú lið á einni viku!

Minni annars á gullkastið frá því í gærkvöldi þar sem er m.a. farið yfir leik kvöldins.

West Ham

Gestirnir koma inn í þennan leik með alla sína leikmenn leikfæra, utan Antonio, en Alphonse Areola var að glíma við smávægileg meiðsli um síðustu helgi en ætti að taka sér stöðu á línunni í kvöld. Aðrir eru leikfærir og ljóst að West Ham mun spila á sterku liði en þeir eru að glíma við sama álag og okkar menn, þ.e. spiluðu í EL í síðustu viku, Wolves s.l. sunnudag og taka á móti Man Utd á Þorlák. Það er því frekar spurning þeirra megin hvaða (og hvort) breytingar Moyes gerir á liðinu – miðað við hvaða lið eru eftir í þessari keppni þá finnst mér líklegt að hann stilli upp sínu sterkasta liði og freisti þess að komast í undanúrslit.

Liverpool

Hjá okkar mönnum er meiðslalistinn öllu lengri. Við erum áfram án Robertson, Matip, Bajetic og Thiago og verða þeir allir frá eitthvað inn í nýja árið, mislangt þó. Mac Allister og Jota eru að nálgast en verða ekki klárir í þetta verkefni og ólíklegir gegn Arsenal og frekar búist við þeim gegn Burnley á öðru degi jóla eða gegn Newcastle á nýársdag. Mac Allister er þó nær því að verða klár og mun það væntanlega stýra tímalínunni hvernig hnéð á honum bregst við í kjölfar æfinga.

Auðvitað svekkjandi að vera án 4-5 byrjunarliðsmanna þegar álagið er þetta mikið en það voru samt ánægjulegar fréttir að Gravenberch verður klár, þetta var þreyta en ekki vöðvameiðsli eins og maður óttaðist. Maður er bara ekki vanur því að gruna vöðvameiðslu og sleppa vel – en við þiggjum það, sérstaklega í því miðjumannahallæri sem við erum að glíma við þessa daganna.

Ég ætla að skjóta á að Klopp stilli upp sterku liði í kvöld – það er ekki allt of margir möguleikar í boði að rótera án þess að veikja liðið, sem er eðlilegt þegar meiðslin eru svona mikil. Ég óttast það aðeins að mæta fersku Arsenal liði á laugardaginn ef við erum að lenda í alvöru verkefni í kvöld:

Kelleher

Gomez – Quansah – Virgil – Tsimikas

Elliot – Endo – Jones

Salah – Gakpo – Diaz

 

  • Linders staðfesti að Kelleher mun standa vaktina í kvöld
  • Tsimikas fékk hvíld gegn Sheffield á meðan að TAA hefur spilað alla leiki. Finnst því líklegt að sá síðarnefndi fái hvíld í kvöld og Gomez komi inn en Tsimikas taki þrjá leiki þessa vikuna.
  • Konate er ekki með skrokkinn í þrjá leiki í viku, finnst líklegt að Virgil verði á sínum stað en Quansah taki sér stöði við hliðiná honum.
  • Gravenberch slapp fyrir horn með meiðsli en við erum komnir inn að beini hvað meiðsli varðar. Jones og Elliot vantar mínútur og Endo líklega sá eini sem heldur sínu sæti þessa vikuna. Kæmi mér samt alls ekki á óvart ef að Szob haldi sínu sæti (spilaði bara 60 mínútur gegn Utd) og Elliot komi þá mögulega inn í stað Diaz.
  • Spurning hver af fremstu þremur fái frí í þetta skiptið. Salah er alltaf að fara að spila en það er frekar spurning hvort að Diaz eða Darwin fái sér sæti á bekknum í stað Gakpo – mögulega báðir ef Elliot spilar framar með Szob á miðjunni.

Spá

Ég er ekkert alltof bjartsýnn, viðurkenni það. Spilamennskan undanfarið hefur ekki verið sannfærandi, hópurinn að þynnast með hverri vikunni og lykilmenn ekki að mæta til leiks. Það er kominn tími á að við sjáum frammistöðu frá liðinu – þó leikirnir í desember hafi ekki verið alslæmir þá hafa þeir ekki verið sannfærandi, sóknarleikur liðsins of hægur og fyrirsjáanlegur, mörkin í framlínunni virðast standa og falla með Salah og miðjan virkar í svolitlu ójafnvægi eftir að Mac Allister datt út (og jafnvel fyrir það, enda að spila honum úr stöðu stóran hluta tímabils). Ég ætla samt að spá okkur sigri, 2-1 eftir að hafa lent undir. Diaz og Gravenberch með mörkin.

Þar til næst.

YNWA

 

Ein athugasemd

  1. Mér finnst menn svarsýnir, erum í næst efsta sæti og enn með í öllum kepnnum. Það er bara þannig í dag að þetta er drullu erfitt, sérstaklega keppnin um England, þar sem besta liðið getur tapað fyrir liðinu í neðsta sæti. Það gerist ekki oft annarstaðar en á Englandi. Hættum að tuða og treystum. Þeir eru ógeðslega góðir enn mannlegir. Það vilja allir vinna Liverpool og fá aukinn kraft er þeir leika gegn þeim. Styðjum liðið okkar í blíðu og stríðu og gerum ráð fyrir því að vinna alla leiki en verum á sama tíma meðvitaðir um að það mun aldrei gerast. Það sem er hinsvegar alveg öruggt er að það er stjórnlaus skemmtun að halda með Liverpool.

    9

Gullkastið – Lykilmenn í lægð

Byrjunarliðið gegn West Ham: Klopp stillir upp sterku liði