Liverpool 3 – 0 Brentford

Mörkin

1-0 Salah (38. mín)
2-0 Salah (62. mín)
3-0 Jota (73. mín)

Hvað réði úrslitum

Ef ég ætti að benda á eitthvað eitt í dag þá væri það Mo Salah. Við vitum vel, ekki síst eftir leikinn um síðustu helgi, að það er ekki nóg að skapa sér færi – það þarf að nýta þau líka og sérstaklega á réttum augnablikum í leikjum. Salah kom okkur yfir í fyrri hálfleik sem var mikilvægt. Hefði svo vel getað tvöfaldað forystuna með nánast síðustu spyrnu hálfleiksins en var óheppinn. Hann skoraði svo ótrúlega mikilvægt mark þegar við áttum líklega okkar lélegasta kafla í leiknum. Mark sem breytti andrúmsloftinu algjörlega ,einmitt þegar maður var byrjaður að leyfa efasemdunum að laumast inn.

Þegar það kemur að kveðjustund, hvenær svo sem það verður, þá er alveg ljóst að Salah verður aldrei leystur af hólmi með einhverjum einum leikmanni. Hann er einfaldlega one in a kind og við ættum að njóta egypska kóngsins á meðan við getum.

Hvað þýða úrslitin

Úrslitin þýða að Liverpool er komið í 27 stig, rétt eins og Arsenal og City (sem á leik til góða gegn Chelsea kl. 16). Koma líklega til með að sitja í öðru sæti á markatölu ef City klárar sitt síðar í dag.

Þéttur pakki og ágætis byrjun, en það er alveg ljóst að 2,25 stig að meðaltali í leik (eins og við erum með núna) er form sem ætti að skila liðinu í titilbaráttu á venjulegu ári – gallinn er bara að venjulegt ár er oftar en ekki slakt ár hjá City þar sem þeir eru ofast nær 2,5 í stigsöfnun á þessum síðustu og verstu.

Hvað hefði mátt betur fara?

Kannski var það skoðun sem ég var búinn að bíta í mig þegar ég sá uppstillinguna heldur en frammistaða þessara leikmanna í dag en ég held að það sé alveg ljóst að til lengri tíma litið þurfum við betri kost en Tsimikas í vinstri bakvörð og ég hef nákvæmlega enga trú á tilraunum með Gakpo sem miðjumann, það er bara einn Bobby Firmino og Gakpo er bara ekki í sama póstnúmeri þegar kemur að getunni að tengja saman sókn og miðju, hann er bara allt önnur týpa af leikmanni, ekki jafn tæknilega sterkur og Bobby og mér finnst hann oft hægja á leik liðsins þegar hann kemur svona til baka. Að því sögðu, við erum í miðjumannahallæri með þrjá sterka miðjumenn utan hóps í dag. Kannski er maður að skafa botninn að reyna að finna eitthvað eftir öruggan 3-0 heimasigur gegn mögulegu bananahýði.

Næsta verkefni

Það er enn eitt landsleikjahléið sem þýðir bara eitt. Liverpool á að sjálfsögðu hádegisleik næst og hann er stór í þetta skiptið. Etihad laugardaginn 25. nóvember í leik sem ætti að verða ansi forvitnilegur, jafnvel þó hann sé á hundleiðinlegum tíma.

Þar til næst

YNWA

17 Comments

 1. Þótt Timi sé ekkert spes leikmaður og við þurfum betri kost í þessarri stöðu, þá var hann nú með 2 stoð í dag og þá má alveg hrósa honum fyrir það

  16
 2. Frábær sigur allt annað að sjá þetta lið í þessum leik og ég er ekki sammála pistla höfundi með Timiskas hann var bara mjög góður í dag ekki með nema 2 stoðsendingar hann er auðvitað einginn Robertsson en ef hann spilar svona vel þá er hann flott backup

  8
 3. Salah maður leiksins og besti leikur Timma á þessu ári held ég.
  Frábær leikur og gott svar við þessari lægði gegn Luton og í frakklandi.

  10
 4. Sælir félagar

  Ansi þægilegur sigur þegar upp er staðið en mikið assgoti var ég smeikur fyrir þennan leik. Tsimikas og Endo ráku af sér slyðruorðið og Szobo hljóp alla ráðalausa ásamt Darwin. Alisson magnaður að venju en mín stig fær Mo Salah sem enn og aftur sýnir og sannar að hann á fáa sína líka. Þessi miðja sem við vorum svo ánægðir með í upphafi leiktíðar orðin ansi þunn fyrir þennan leik en hélt sínu á móti marmennri miðju Brentford. VvD orðin sjálfum sér líkur og þá eiga menn engan séns í hann og Matip skilaði sínu vel. Jota setti svo punktinn yfir með þriðja markinu svona ekta Jota mark. Þrjú stig í hús og annað sætið nokkuð örugglega sem er flott.

  Það er nú þannig

  YNWA

  17
  • Hjartanlega sammála þér Sigkarl.
   Gaman að sjá gamla skrímslið VvD.
   Það á enginn sjens í hann á svona dögum.

   10
 5. Þetta var virkilega vel þeginn sigur. Öruggur og yfirvegaður.

  Eina sem skyggir á er þessi smámunasemi þegar Nunezinn var dæmdur rangstæður. Þvílíka ruglið. Algjörlega samsíða varnarmanni.

  12
  • Sammála.
   Já hann Nunez fær ekki að njóta vafans þarna..verið að teikna línur aftur uppá eh millimetra algjörlega útí hött.
   Þarf að fara hætta þessu helvitis rugli nema þetta sé eh clear and obvious error.

   11
   • Ég var einmitt að hugsa það sama. Gamla góða samsíða reglan hefði gert þetta mark gott og gilt. Að standa í því að mæla nöglina á stórutá er hreinn og klár veisluspillir.

    8
 6. Virkilega góð úrslit í leik sem maður hálf hræddist fyrirfram.

  Annars fannst mér áhugavert að sjá að Quansah var skipt inná fyrir Trent undir lokin, og spilaði í hægri bak síðustu mínúturnar. Reikna með að þetta verði kannski ekki reglulegur viðburður, en athyglisvert ef Klopp treystir honum í þeirri stöðu auk miðvarðarstöðunnar. Ef hann heldur áfram að eiga góðar frammistöður og jafnvel í fleiri stöðum á vellinum heldur en í miðverðinum, þá aukast enn líkurnar á að hann festi sig í sessi í liðinu. Spái því að hann verði kominn með (löglegt) mark á undan Gomez.

  12
 7. Ég vona samt að Tsimikas verði ekki með á móti city.
  Væri frekar til i að sjá 3-4 miðverði inná
  Finnst Tsimikas alltof shaky til að spila á móti liði sem mun pressa hann endalaust.

  5

Liðið gegn Brentford

Gullkastið – Stemming á Anfield