Liverpool – Nottingham Forest (Upphitun)

Ég skal alveg viðurkenna það að þegar við töpuðum fyrir þessu Nottingham Forest liði í október á síðasta ári þá var maður alls ekki bjartsýnn á tímabilið en sá samt engan vegin fyrir þau úrslit og þá spilamennsku sem við höfum fengið að upplifa síðustu 8 mánuðina eða svo. Á laugardaginn fáum við tækifæri til þess að bæta fyrir þá hörmung.

 

Formið og næstu vikur

Síðustu fimm leikir sýna nokkuð vel hvernig deildarformið hefur verið hjá þessum liðum þetta tímabilið. Liverpool er að koma inn í þennan leik eftir góðan sigur gegn Leeds á mánudag eftir erfiðan kafla sem kom í kjölfar 7-0 sigursins gegn Man Utd sem þýðir 5 stig af mögulegum15. Gestirnir eru á sama tíma með 1 stig af síðustu 15, það gerist varla verra.

Það er galið að hugsa til þess að þó vissulega sé stigasöfnun í þessum síðustu 5 deildarleikjum óvenjuslök, þá er hún samt ekki svo langt frá meðaltalinu okkar þetta tímabilið. Við erum með 1,6 stig að meðaltali í leik (47 stig í 30 leikjum) sem er sögulega lélegt og hefur ekki verið jafn lélegt síðan að Klopp tók við tímabilið 2015-2016.

Árangurinn á heimavelli undirstrikar hve óstöðugir við höfum verið þetta tímabilið en í 14 heimaleikjum höfum við safnað 31 stigum (2,2 að meðaltali í leik) á meðan að á útivelli höfum við sótt 16 stig í 16 leikjum (1 stig að meðaltali í leik). Jákvæði punkturinn? Kannski sá að gestirnir eru með versta útivallarárangurinn í deildinni þetta tímabilið með 6 stig í 15 leikjum (1 sigur og 2 jafntefli) sem gerir 0,4 stig að meðaltali í leik.

Við höfum vissulega lent í miklum meiðslum en það er samt sem áður erfitt að skilja hvernig stigasöfnun okkar þetta tímabilið sé 0,2 stigum per leik lakari en tímabilið sem við misstum alla miðverði félagsins í langtímameiðsli og spiluðum með varnarmenn sem komast ekki í byrjunarlið í neðri deilldunum. Sú stigasöfnun (1,8 stig í leik sem við náðum tímabilið 2020-2021) væri að skila okkar í 54 stig eftir 30 leiki sem væri 5 sæti, tveimur stigum frá Newcastle í fjórða sæti.

Liverpool

Það verður forvitnilegt að sjá uppstillinguna fyrir þennan leik. Bæði eru menn að koma úr meiðslum og að finna einhversskonar form, en að sama skapi erum við að missa menn í meiðsli.

  • Firmino. Bobby meiddist eitthvað lítilega á æfingu (vöðvameiðsli, auðvitað) og verður frá í einhverja daga/vikur. Missir líklega af næstu 2 leikjum hið minnsta skv blaðamannafundi Klopp í dag (föstudag).
  • Fabinho. Hann er einu gulu spjaldi frá því að ná sér í tveggja leikja bann.
  • Diaz. Ekkert bakslag eftir innkomuna gegn Leeds svo hann fær eflaust fleiri mínútur á laugardaginn.

Ég er ekki að sjá að leikur á mánudagskvöld hafi einhver áhrif á uppstillinguna á laugardegi (út frá álagi þ.e.). Ég er á því að Klopp stilli sama liði upp á morgun. Ef það væri einhver breyting þá gæti það verið Nunez í stað Gakpo eða Thiago í stað Fabinho eða Jones þar sem við erum væntanlega að fara vera talsvert meira með boltann. Ég ætla að skjóta á þetta lið:

Alison

TAA – Konate – Virgil – Robertson

Henderson – Fabinho – Jones

Salah – Gakpo – Jota

 

Nottingham Forest

Hjá gestunum er það helst að Henderson missir af leiknum og verður væntanlega frá í einhvern tíma. Aurier er einnig frá og hefur misst af síðustu 4 leikjum og er tæpur fyrir morgundaginn ásamt Yates sem er ennþá að jafna sig af meiðsli í öxl.

Þeir hafa verið að spika á ansi breiðum hóp og erfitt að sjá fyrir sér hvernig þeir stilla upp liðinu þennan laugardaginn en ég ætla að skjóta á einhvernveginn svona:

Navas

Williams – Felipe – Niakhate – Mckenna – Lodi

Freuler – Danilo

Johnson

Awoniyi

 

Spá

Mér finnst ég hafa séð þetta áður. Lið að koma í heimsókn með árangur á bakinu sem fær mann til að hugsa, það er ekki séns að við séum að fara að tapa þessu. Ég kaupi það, ég geri það í hvert sinn! Ég er ekki að sjá annað en að þetta verði frekar þægilegur 4-0 sigur þar sem að Salah skorar tvö, Jota eitt og Diaz kemur inn af bekknum og skorar fjórða og síðasta markið og við förum kát(ari) inn í helgina.

Þar til næst.

YNWA

Fánadagur hjá á Selfossi á laugardaginn

Gullkastið – Endaspretturinn