Liverpool – Bournemouth 3-1 (leikskýrsla)

Gangur leiks
0-1 Semenyo 3.min
1-1 Diaz 27.mín
2-1 Salah 37.mín
Rautt spjald MacAllister 58.mín
3-1 Jota 62.mín

Hvað þýða úrslitin? Fyrsti sigurinn þetta tímabilið staðreynd. Vissulega var hann ekki jafn öruggur og maður bjóst við og vonaðist eftir fyrir leik en þrjú stig eru þrjú stig. Rauða spjaldið hans MacAllister þýðir það að hann verður ekki með á St James Park um næstu helgi (nema ákvörðuninni verði breytt eftir leik, enda ansi strangur dómur svo vægt sé tekið til orða), sem er virkilega slæmt. Vonandi verðum við búnir að bæta við hópinn fyrir þann leik, þurfum svo sannarlega á frekari styrkingu að halda.

Hvað réði úrslitum? Sóknin er stutta svarið. Við vitum að þetta lið getur skorað alveg heilan helling af mörkum. Sóknin mun samt sem áður ekki blómstra almennilega fyrr en við náum betra jafnvægi í þetta lið og stigasöfnin samkvæmt því. Við þurfum að komast á þann stað að eitt mark geti unnið leiki því ef við þurfum alltaf tvö til þrjú, að lágmarki, þá munum við tapa stigum þar sem við ættum ekki að tapa þeim.

Bestu frammistöður? Szoboszlai var okkar besti maður að mínu mati. Vann vítaspyrnuna einn síns liðs, var virkilega ógnandi og tæknilega sterkur. Mikilvægt að koma varnarsinnuðum miðjumanni inn á völlinn með þeim MacAllister og Szoboszlai svo þeir geti spilað meira á sínum styrkleikum. Diaz var einnig ógnandi á köflum og Alisson stóð fyrir sínu, sérstaklega síðasta korterið eða svo.

Mætti vera betra? Varnarleikur liðsins. Helsta hættan sem skapaðist í dag var þegar við töpuðum boltanum á slæmum stað (t.d.Trent í markinu) eða þegar varnarleikur liðsins var ekki eins og þú myndir búast við frá topp liði. Það er merkilegt hvað við erum oft gripnir við að horfa á boltann í stað þess að loka á mann/svæði – bæði Virgil og Trent voru sekir um þetta í dag og ekki þeim að þakka að það endaði ekki með marki, þó sá fyrrnefndi hafi verið mikið betri heilt yfir 90 mínútur en Trent var. Betur má ef duga skal – ég er alveg harður á því að vörnin er stórt vandamál í þessu liði og það verður ekki eingöngu leyst með varnarsinnuðum miðjumanni, þó það hjálpi vissulega!

Hvað gerist næst? Næsta verkefni er stórt, heimsókn á St James Park gegn Newcastle í leik sem skiptir strax miklu máli!

Lokamolar

  • Endo fékk sínar fyrstu mínútur í rauðu treyjunni í dag. Bar svo sem ekki mikið á honum en hann er strax orðinn okkur mikilvægur, sérstaklega ef rauða spjaldi AM verður ekki snúið við.
  • Ég vil tileinka þessa leikskýrslu honum föður mínum, Guðjóni Engilbertssyni, sem féll frá í vikunni. Hann var mikill púllari sem missti hvorki af leik né skýrslu/pistli á þessari síðu. Hann kom mér á bragðið fyrir rúmum þremur áratugum og ég veit að hann sat í dag á besta stað í stúkunni, jafnvel með einn ískaldann sér við hlið hrósandi happi yfir því að þurfa ekki að borga sig inn á leikinn, styðjandi liðið áfram eins og honum einum var lagið.

Þar til næst.

YNWA

60 Comments

  1. Ef þetta er rautt þá verða nú mörg rauð spjöld í deildinni í vetur. allt í lagi frammistaða, eftir ryðgaða byrjun, og Trent átti nú þetta mark sem við fengum á okkur. Slæmt að missa Mac Allister í næsta leik, en áfram gakk.

    4
  2. Góður sigur.
    Rauðaspjaldið var óþolandi.
    Þetta er mjög slakkt að dómaratríóið gangi svona frá málunum.
    Gullt og farðu farlega…

    Sobo er geggjaður !
    Frábær kaup

    Meira er það ekki í bili…

    7
  3. Ef að frumraun Endo er fyrirheit fyrir tímabilið, þá held ég að það þurfi að hringja í Jóa í Múlakaffi og fá hann til að skipuleggja sokkahlaðborð fyrir þorra seasonið.

    14
  4. Þetta rauða spjald var út í hött. Liverpool maður fékk takka í bringuna frá Chelsea-leikmanni í síðasta leik, og það var bara gult spjald!

    Er hinn VARasami Paul Tierney með brúnt umslag í vasanum? Er hægt að áfrýja spjaldinu? Questions, questions…

    Sóbóslæ var alveg brilljant. Setja hann í vítin líka, takk.

    4
  5. “First impression” varðandi Endo … áberandi skelfileg hröðun (og hraði) í hans eina alvöru spretti aftur … var skilinn eftir í rykinu … einbeittur, og fljótur í ákvarðanatöku … allavega einu númeri of lítill fyrir Liverpool

    5
    • Ég ætla að fullyrða það að Fab var ekki hraðari en Endo og afhverju að skjóta svona á mannin þegar hann er að koma inn í liðið á leikdegi hefur varla æft eina mínútu hann verður góður leikmaður hjá Liverpool mundu að þú last það fyrst hér í þessu commenti

      YNWA

      24
      • Fabinho er hægur en samt ekki eins hægur og spretturinn hans Endo, sem var beinlínis sjokkerandi. Fabinho er líka hávaxinn og fínn tæklari sem kemur sér vel þegar hann þarf að elta og stöðva (hraðari) leikmenn … þessi eiginleiki bætir svolítið upp skort á hraðanum. Skortur á hröðun og hæð hjá Endo sást vel þegar hann reyndi sína einu tæklingu í leiknum, var langt frá því að snerta boltann og var skilinn eftir af sóknarmanninum.

        Þó svo hann sé ekki búinn að æfa mínútu með liðinu þá bitnar það ekkert á líkamlegum burðum hans (t.d. styrk og hraða) heldum fyrst og fremst á að læra á leikkerfið og samherjana.

        Endo á örugglega eftir að vera fínn á sínum mælikvarða, blasir hins vegar ekkert við að hann muni ráða vel við hraða og flínka leikmenn í topp sex liðunum.

        1
  6. Fín þrjú stig miðað við aðstæður. Mér fannst rauða spjaldið ansi harður dómur, atvikið var slysalegt og engin ásettningur.

    Næsti leikur mun segja mun meira um hvar við stöndum, ansi vont að missa Mac Allister í bann fyrir þann leik.

    4
  7. Eyþór takk fyrir skýrsluna. Samhryggist þér með föður þinn.

    YNWA

    17
    • Ósammála því að lítið hafi borið á Endo. Fannst hann þvert á móti mjög áberandi og öruggur á sínu, fyrir utan það að vera étinn í eitt skipti og gefa eina aukaspyrnu á slæmum stað. Uppspilið var allt annað með hann inni á vellinum, þó liðið væri manni færri á þeim tímapunkti. Stöðugt bjóðandi sig. Grimmur þegar boltinn tapaðist, þá annaðhvort vaðandi í manninn með boltann eða beint í stöðu við hálfmánann. Fannst þessi fyrsti leikur gefa góð fyrirheit og held hann hafi klárlega gæðin til að vera squad playerinn sem liðið var farið að sárvanta.

      13
      • Þetta átti að vera svar við leikskýrslunni en ekki til þín Tryggvi. Afsakið.

        3
  8. Förum varlega í að dæma Endo eftir 30 mín. Maðurinn ekki búinn að ná einni almennilegri æfingu með liðinu. Efadt um að hann þekki nöfnin á mörgum leikmönnum ennþá.

    Góður sigur en þetta rauða spjald er eitthvað annað. Hefði viljað sjá leikmenn Liverpool gera meiri aðsúg að dómaranum og mótmæla meira. Alla vega þannig að fá þetta skoðað í VAR. Það virkar amk hjá Utd í þeim leik sem ég horfi á nú. Þarna var einhver nýr ungur dómari sem ætlaði svoleiðis aldeilis að sýna að hann hefði hugreki að taka risa ákvörðun. En sorry hún var kolröng.

    4
  9. Við sátum öll lemstruð hér á Ystu Nöf þegar Mac Allister fékk rautt. Þetta var aldrei rautt en sem betur fer var Guð og gæfan með okkur. Frábær sigur. Áfram gakk eins og hann Jesús minn oná vatninu.

    10
  10. “Endo fékk sínar fyrstu mínútur í rauðu treyjunni í dag. Bar svo sem ekki mikið á honum ”

    Mér fanst hann virkilega góður. Það kom ró á leikinn og ég hafði einhvern veginn á tilfinningunni að Bourmouth myndi ekki takast að komast aftur inn í leikinn. Hann varði vörnina mjög vel og tók líka þátt í spilinu. Við vorum manni undir en mér fannst einhvern veginn slökkna alveg á Bourmouth eftir að hann kom inn á. Þeir sköpuðu sér reyndar hættulegt færi – en vörnin varð miklu traustari með hans tilkomu. Ég sé það strax að þetta er nákvæmlega leikmaðurinn sem okkur vantaði. Verst að það er ekki hægt að klóna hann. Verðum að kaupa annan til á miklu dýrara verði.

    12
  11. Ungi Pólverjinn lofar ekkert smá góðu, Virðist hafa þetta allt, sprengikraft og hraða, leikskilning, skot og sendingargetu og til að toppa það þá er hann duglegur. Sé framtíðarsúperstörnu þarna.

    Annars góður sigur, mjög svo shaky í byrjun eins og allir sáu. Gakpo er greinilega að spila úr stöðu, slappur í báðum leikjum. Trent aðeins off í byrjun. Fyrirliðinn og skrímslið við hliðina á honum voru góður eftir að byrjunarskjálftinn fór af.

    Fannst beint rautt mjög hart, en annað eins hefur verið dæmt.

    5
    • Szoboszlai er reyndar ungverskur, en efnilegur er hann.

      15
  12. Samhryggist þér Eyþór. Takk fyrir flotta leikskýrslu. Blessuð sé minning föður þíns.

    18
  13. Takk fyrir góða skýrslu og samúðarkveðjur til þín og ykkar, Eyþór.

    Gríðarlega þýðingarmikill sigur þarna eftir skelfilega byrjun. Kirsiberin eru sýnd veiði en ekki gefin og þarna hefði ekkert mátt fara úrskeiðis. Sly orðaði þetta vel – þeir voru svalir og skipulagðir og uppskáru samkvæmt því.

    Hörmung að AMA skuli hafa fengið reisupassann. Vonandi sjá þeir að sér – sem verður víst aldrei nokkurn tímann. Þessi dómaramafía á Englandi er okkur ekki hliðholl.

    Gott að Japaninn nýi skyldi fá tækifæri til að blómstra en þarna voru amk nokkur atriði sem maður hefði viljað sjá þá taka inn í myndina varðandi endurskoðun.

    Þurfum að fara að bæta í hópinn. Það er alveg ljóst.

    12
  14. Sobo maður leiksins að mínu mati.

    Hvort er nafnið hans borið fram sem “Szoboszlai” eða “Szaboszlai” eins og lýsandinn á Síminn Sport gerði?

    2
  15. Ætli það hafi gerst áður, að fyrirliðar fimm landsliða séu saman á vellinum í einu – og allir í sama félagsliðiði? Van Dijk, Robertson, Salah, Szoboslaj og Endo.

    20
  16. Takk fyrir skýrsluna sem maður sleppir aldrei að lesa og samúðarkveðjur. Vona að þú hafir rétt fyrir þér og maður endi með gott sæti í stúkunni með einn kaldann þegar maður kveður þennan heim. Þá þarf maður engu að kvíða 😉

    15
  17. Eyþór samhryggist með Föður yðar og ef ég þekki hann rétt hefði hann verið með te í hinni hendinni YNWA

    13
  18. Takk, Eyþór, fyrir góða skýrslu sem ég er sammála í meginatriðum. Samhryggist vegna föður þíns, YNWA.

    13
  19. Innilega samúð Eyþór. Sáu þið brotið í leik Man c og New. Mjög svipað brot og í dag en bara gult.

    10
  20. Innilegar samúðarkveðjur ??

    Frábær sigur okkar manna og ekki byrjar tímabilið vel hvað dómaramálin varðar.

    10
  21. Varðandi þetta rauða spjald… það verður að áfrýja það því þetta er aldrei meira en gult spjald. Ef þetta er línan þá verða 4-5 rauð spjöld í hverjum leik og viljum við það?

    4
  22. Hugheilar samúðarkveðjur kæri Eyþór!!

    Skál fyrir pabba þínum ??????

    Hann gengur aldrei einn ??????

    10
  23. Margt jákvætt í leiknum, ekki síst þrjú stig.
    Erfiðari leikur en reiknað var með eins og skýrsluhöfundur gerir góð skil.
    Trúi ekki öðru en rauða spjaldið verði endurskoðað.

    Innilegar samúðarkveðjur Eyþór.

    9
  24. Sælir félagar

    Takk fyrir leikskýrsluna Eyþór og innilegar samúðarkveðjur. Að frá töldum fyrstu 10 mín má segja að Liverpool leikmenn hafi haft öll völd á vellinum í 80 mínutur +. Jafnvel eftir brottreksturinn héldu okkar menn áfram og sóttu þriðja markið einum færri. Sabo besti maður vallarins og innkoma Endo sýndi að hann stendur fyrir nákvæmlega því sem hann var keyptur til. Magnaður sigur og menn sem mættu sofandi til leiks (TAA) rifur sig upp og spiluðu bara vel eftir fyrstu 10. Markið hjá Diaz var magnað. Mörg lið eiga eftir að lenda í vandræðum með Bournemouth í vetur og gott að vinna þá svona örugglega.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  25. Smá hugleiðingar um leikinn. Með nýjum stjóra, nýjum leikmönnum og nýrri taktískri nálgun var Bournemouth óþekkjanlegt frá niðurlægingu í 9-0 tapinu sem var síðasti leikur Scott Parker fyrir 12 mánuðum síðan. Þeir náðu snemma verðskulduðu forskoti eftir linnulausa pressu í upphafi leiks sem var mætt með lélegri varnarvinnu frá Liverpool. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá á Liverpool á enn mikið verk fyrir höndum í að leysa varnarvandamálin bæði innan liðsins og í leikkerfinu. Einbeitingarleysið í byrjun var hroðalegt. Á síðasta tímabili lentum við allt of oft í vandræðum í byrjun leikja og greinilegt er að vandamálin eru ekki leyst í byrjun nýs tímabils. Rauðir fengu viðvörun aðeins nokkrum sekúndum eftir að leikurinn byrjaði en brugðust ekki við og fengu á sig fyrsta markið eftir einstaklings mistök þar sem einbeitingarleysi og sljóleiki margra leikmanna leiddu til marks. Trent Alexander-Arnold var ekki vakandi bæði í fyrsta markinu og í markinu sem dæmt var af, en sending Virgil van Dijk var alltof föst eftir misheppnaða tæklingu Andy Robertson og úthlaups Alisson sem skömmu síðar fékk næstum á sig annað mark og fékk að sjá gula spjaldið. Varnarleikurinn var ekki fullkominn eftir það en sem betur fer voru vandamálin leyst með yfirburðum okkar í sókninni. Það er ljóst að vandamálin verði ekki alltaf leyst þannig gegn sterkari andstæðingum. Stundum sótti Liverpool eins og liðið sem keyrði yfir Bournemouth 9-0 fyrir ári síðan, en á milli litu þeir út eins og kráarlið sem hafði aldrei spilað saman áður. Ef Jürgen Klopp líkar við setninguna „skipulagður glundroði“ þá var þetta bara ringulreið. Ef Cherries hefðu verið aðeins ákafari í byrjun hefðu þeir getað refsað Liverpool enn meir og þá hefði leikurinn getað tapast. Báðir stjórarnir voru óánægðir með dómgæsluna, vítaspyrna Liverpool virtist ódýr þar sem snerting Rothwells við ungverska fyrirliðan Szoboszlai var lítil. Klopp er vonsvikinn með þá ákvörðun að reka Mac Allister af velli fyrir það sem virtist vera áköf tilraun til að vinna boltann. Það virtist ekki vera neinn illur ásetningur í tæklingunni. Stuðningsmenn Liverpool bauluðu á dómarann þegar Klopp reyndi að hugga Argentínumanninn þegar hann fór ráðvilltur af vellinum eftir að hafa fengið dapurlegan endi á frumraun sinni á Anfield.

    4
  26. Caicedo að gefa víti ahahah. Chelsea ættu að kaupa fyrir annan miljarð gætu komist í top 10

    8
    • Ég maður ætti að bera saman fyrstu mínútur Caicedo og Endo er ekki spurning hver hefur vinninginn. Chelsea einum fleiri og Liverpool einum færri.

      15
  27. Þórðargleði er ekki falleg, en hvað á maður að gera þessa helgina þó að stutt sé liðið á tímabilið?

    Szobo og Díaz að spila sambabolta og Endo með innlit sem hafði aldeilis fallegt útlit. Á meðan eru leikmenn ManU farnir að stytta stjóratíð Seven Hag með arfaslökum tveimur fyrstu leikjum. Var eitthvað jákvætt við þessa tvo leiki frá þeirra sjónarhorni annað en að markmaður þeirra fékk að spila þann seinni eftir líkamsárásina á Old Trafford? Annars staðar mátti sá fyrrum dýrasta leikmann deildarinnar brenna af víti fyrir Chelsea, og stuttu síðar núverandi dýrasta mann deildarinnar gefa víti Í sama leik. Óvenjulegt að sjá nýríkt fólk svona gjafmilt. Munum líka að ef Chelsea kemst ekki í UCL þetta árið þá er allt eins líklegt að fjárhags spilaborgin þeirra hrynji.

    Eini skugginn er sá að jafnvel Newcastle þorir ekki að keppa við laskað City lið. Hætt við að City vinni deildina með 9 leikmönnum ef lið þora ekki að reyna að keppa við þá.

    Heimavið hef ég svo verið að stoppa í sokka sem allir eru merktir FSG með rauðum tvinna. #FSGIN eins og við köllum það fyrir þá sem þurfa að kjamsa á þeim.

    Málum kolaþorpið rautt næst.

    6
  28. Flott skýrsla segir allt sem segja þarf og Innilegar samúðakveðjur

    1
  29. Ég lít á mig sem forfallinn fótboltaáhugamann og verð yfirleitt afar spenntur þegar tímabilið í enska fer af stað í Ágúst. Þetta árið vantar hins vegar allan spenning og ég veit ekki alveg hvers vegna það er. Ég hef fylgst með Liverpool þegar þeir hafa ekkert getað og með mannskap sem var ekki upp á marga fiska en alltaf verið jafn spenntur og jafn viss um að þetta væri tímabilið. Mér finnst innkoma Saudana inn á þennan markað ömurleg og þessi grímulausa peningagræðgi sem henni fylgir líka ömurleg. Ég nennti ekki að horfa á Chelsea leikinn og get því ekki tjáð mig um hann en ég settist niður yfir þessum leik og var meira að segja nokkuð spenntur að sjá mína menn. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum eins og gefur að skilja þegar ég komst að því að liðið var ekki mætt til leiks og í stað rokk og ról fótbolta virtist bara vera boðið á ról hlutann. Ekkert flæði, engin ákefð og lítið að frétta á fyrstu mínútunum. Svo skánaði þetta nú eitthvað eftir því sem leið á leikinn. Eftir brottreksturinn sá maður loksins glitta í rokk og ról boltann og ákefðina sem hafði vantað. Frábær frammistaða einum færri.

    Jákvætt : Szoboslai og MacAlister eru góð kaup, Virgil virðist hafa fundið gamla formið og Diaz er að fara rosalega vel af stað. Miðað við að Endo fór inn á nánast beint af flugvellinum þá er ekki hægt að setja mikið út á hann. Mjög flott svar frá liðinu eftir að þeir urðu einum færri.
    Neikvætt: Auðvitað of snemmt að fara að væla en það verða að koma inn fleiri leikmenn sem bæta hópinn, breiddinn er of lítil núna. Rosalega pirrandi að byrja leikina svona og fá á sig bull mörk. Vörnin virkar enn brothætt og vantar sárlega meiri aðstoð frá miðjunni.

    Annað sem er ekki að auka áhugann eru þessi endalausu dómara mistök og dugleysi enskra dómara á VAR tækninni. Bara í fyrstu tveimur umferðunum eru mörg “vafaatriði” eða hreinlega skitur í VAR herbergjunum sem gefur ekki góð fyrirheit. Rauða spjaldið á Alexis var rugl og almennt heyrist mér lang flestir (hlutlausir) vera á sömu skoðun. Ef þetta er raut, þá verða þau ansi mörg í vetur. Mér fannst reyndar vítið á Szobo vera tæpt líka þar sem hann fer ekkert í hann, Szobo bara hendir sér niður þegar hann sér löppina. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að eiga sér stað brot til þess að dæmt sé á það, ekki sé nóg að ákveðin skilyrði séu til staðar sem gætu mögulega leitt til brots, en það er önnur saga. Vítaspyrnan hjá Salah var síðan mjög slöpp og ekki boðleg á þessu kalíberi.

    En ætli maður hlunkist ekki í sófann á sunnudaginn til að horfa á Newcastle leikinn. Vonandi verður búið að aflétta þessu rauða spjaldi og jafnvel komnir einhverjir nýjir leikmenn. Og vonandi nær Klopp og liðið að kveikja áhugann hjá manni aftur með alvöru frammistöðu.

    8
    • Sammála með Salah og vítið. Ekki það fyrsta sem hann klúðrar upp á síðkastið. Ég vil sjá Szobozlai fá tækifæri á punktinum.

      2
      • Þetta var eins lélegt víti og hægt er að hafa það. Með hans getu til að sparka í bolta, þá hlýtur að vera hægt að gera kröfu á aðeins meira en þetta. Ég veit að það er stress að taka víti, en samt.

        2
    • Sammála þér með flest, en ekki vítið sem Szobo fékk.
      “Szobo bara hendir sér niður þegar hann sér löppina”

      Þetta er alrangt, það var greinilegt högg á fótinn þó vissulega hann hafi svo farið niður með fullmiklum tilþrifum 🙂

      1
      • Og það er allt í lagi að vera ósammála 😉 Mér finnst (persónulega) allt of oft einblínt á hvort að það hafi verið “snerting” en ekki hvort að téð snerting hafi í raun orðið til þess að leikmaður féll. Ég geri mér líka grein fyrir því að leikmenn fá ekkert ef þeir láta sig ekki falla þó svo að þeir hefðu mögulega getað staðið af sér “snertinguna”. Salah er ágætis dæmi um þetta, það er ekki litið sem er djöflast í honum og sjaldan dæmt. En varðandi Szobozlai þá sá ég enga snertingu. Þó svo að skilyrði væru til staðar fyrir brot, löpp sett út sem leikmaðurinn hefði getað hlaupið á, þá gat ég ekki merkt að það hefði sannarlega átt sér stað. Ég hef svo sem ekki skoðað þetta í þaula, sá bara endursýninguna á meðan á leiknum stóð. Ef þetta hefði verið Bruno Fernandes á Anfield þá hefði mér örugglega ekki þótt þetta vera víti 🙂

        3
  30. Ég var að skoða hvort eitthvað væri í gangi á Anfield Road endanum en svo var ekki og nú er það dæmi stopp og enginn virðist vita hverrsu lengi ,en verktakinn greinilega búinn að vera og á meðan beðið er eftir uppboði hjá sýslumanni gerist ekkert. Það virðist eins og FSG hafi klúðrað þessu og mögulega pressað prisinn lengra niður en gott var og sitja nú í súpunni með ókláraða stúku og fá enga aukapeninga inn á meðan. Mér finnst eins og klúbburinn sé kominn á furðulegan stað þar sem hvert klúðrið kemur í ljós á nánast öllum stöðum á þessu sumri. Ég horfði á leikinn á laugardaginn og þótt sigurinn hafi verið sætur þá sést langar leiðir að þetta lið er ekki að fara að gera stóra hluti í vetur til þess vantar nokkra góða leikmenn og ef Trent og Dias eru meiddir og ef Macallister verður i banni kemur fyrsti tapleikurinn um helgina .Vonandi hef ég rangt fyrir mér en ég er eins og kominn með eitthvað súrt í hálsinn út af Saudi innrásinni i enska boltann.

    2
    • Ekki nokkur spurning að rauða spjaldið sem MacAllister var sko klárlega FSG klúður líka, ásamt því eiga þeir heilmikla sök á rigningunum í Bandaríkjunum, og falli Wow air. Getum við ekki öruggleg kennt þeim um eitthvað meira????

      6
    • Er það nú orðið FSG að kenna að einhver verktaki hafi farið á hausinn? Ef verktaki býður of lágt í verkefni að þá er það engum að kenna nema verktakanum. Var þetta eina verkefnið sem þessi verktaki var að sinna annars?

      Ekki vera svona kjánalegir.

      2
  31. Varðandi Slabo, þá eru hans viðbrögð þau, sem við höfum oft kallað eftir, enda nánast allir sem gera það sama, falla innan teigs! Rétt hjá honum, nei en, þetta einfaldlega gera allir. Varðandi Macalister, þá var þessi dómur í einu orði fáránlegur.

    YNWA

    2
  32. Hvað segiði um nýjasta miðjumanns-slúðrið: Kalvin Phillips? Er hann eitthvað? Virkar svolítið áhugalaus á mig.

    2
  33. Æji það er nýtt nafn daglega núna.
    Vona að menn séu ekki hættir á þessum markaði.
    Og það sé verið að klára eitthvað mjög spennandi dæmi.
    Og er ekkert svakalega spenntur fyrir Philips er hann ekki alltaf meiddur.?

    2

Liðið gegn Bournemouth

Æfingaleikur hjá kvennaliðinu gegn Birmingham