Flokkaskipt greinasafn: Slúður

Sumarglugginn 2018

Þar með höfum við það leikmannamarkaðurinn er lokaður og ensk lið geta ekki keypt fleiri leikmenn. Þetta var vægt til orða tekið áhugaverður gluggi og þá helst fyrir það hvað liðin gerðu ekki frekar en hvað þau gerðu. Rennum lauslega yfir þetta.

Liverpool

Af toppliðunum hljótum við stuðningsmenn Liverpool að vera ánægðastir með þennan glugga og raunar leikmannakaup ársins 2018 í heild. Verum alveg róleg samt með að taka ekki full Everton á þetta sem „unnu“ leikmannagluggan í fyrra en það er allt í lagi að vera jákvæð.

Liverpool eyddi mest allra í deildinni í sumarglugganum (£175m) en þetta er í fyrsta skipti í 20 ár sem það hefur gerst. Þessar fjárhæðir voru líka mjög vel nýttar enda kominn punktur fyrir aftan umræðu um markmann, varnartengilið og miðjumenn. Miðvarðarvandræðin voru leyst í janúar og Liverpool þurfti ekki að eyða krónu sumar til að laga bakvarðastöðurnar sem hafa verið eilífðarvandamál.

Ennþá mikilvægara var að Liverpool heldur öllum sínum bestu leikmönnum fyrir utan Emre Can, hans skarð er vel hægt að fylla og ef allt er eðlilegt styrkir Fabinho þessa stöðu. Salah og Firmino eru nýbúnir að gera nýjan samninga og Mané er líklegur til að gera það líka bráðlega. Keita, Van Dijk og Alisson eru allt nýjir leikmenn sem allir voru eftirsóttir af toppliðunum.

Glugginn er auðvitað ekkert fullkominn en við erum aðalega að svekkja okkur á því að breiddin sé tæp í nokkrum stöðun. Það var ekki tekið viðtal við stuðningsmann Man City í fyrra sem talaði ekki um að hópurinn væri tæpur í 1-2 stöðum, samt náði Man City 100 stigum. Stuðningsmenn eru líklega aldrei 100% sáttir við hópinn. Persónulega er ég svekktur að hinn mjög svo spennandi Fekir hafi dottið uppfyrir, sérstaklega úr því það var komið eins langt og það var. Eins vegna þess að mér lýst alls ekkert á að fara inn í enn eitt tímabilið með Sturridge í mikilvægu hlutverki, sama hvað hann hefur skorað í sumar.

Liverpool er miklu sterkara í dag en liðið var fyrir 12 mánuðum og svo má ekki gleyma þeim risafaktor sem Klopp er. Við höfum séð flesta leikmenn bæta sig töluvert undir hans stjórn og allar líkur á að núverandi leikmenn haldi áfram að bæta sig.

Man Utd

Það hefur engin talað meira um hversu ömurlegt sumarið var hjá United heldur en stjóri liðsins sem er í mikilli herferð að tala niður væntingar til liðsins. Fyrir sumarið hefði ég aldrei trúað því að Fred yrði eina bætingin við aðallið United þó hann sé vissulega góð viðbót.
Continue reading

Lokadagur gluggans

Jafnvel þó svo að glugganum hafi verið lokað, þá er ennþá smá séns að Danny Ings fari til Southampton að láni. Það er víst búið að skila inn nauðsynlegum pappírum, en afgangurinn þarf að klárast á næstu 2 tímum (tæplega) til að þetta geti gengið eftir.


Þá er runninn upp lokadagur sumargluggans 2018, bjartur og fagur (a.m.k. hér á skerinu).

Ekki er búist við að það gerist neitt sérlega markvert hjá okkar mönnum, Pearce ku þvertaka fyrir að það sé von á neinum leikmönnum til liðsins, mögulega gætu einhverjir farið. Það er líka rétt að muna að þó svo glugginn loki núna seinnipartinn, þá á það aðeins við um kaup og sölur milli liða á Englandi. Glugginn lokar að jafnaði í lok ágúst í Evrópu, og það má selja/lána leikmenn þangað á meðan sá gluggi er opinn. Semsagt, þó svo að Mignolet, Origi, Markovic og fleiri verði ennþá leikmenn Liverpool í lok dags, þá er ekkert víst að þeir verði það í lok ágúst.

Við uppfærum færsluna jafn óðum og nýjar fréttir berast, bæði af okkar mönnum og eins ef áhugaverðar fréttir af okkar helstu andstæðingum berast, en annars er orðið laust.


Opinn þráður: Helstu fréttir

Það er lokaleikur Ameríkuferðarinnar annað kvöld gegn Manchester United og sat Klopp fyrir svörum í dag og fór um nokkuð víðan völl.

Hann var spurður út í ummæli Jose Mourinho sem er ennþá að reyna sýna dauðþreyttu hugarleiki og sló hann utanundir með þessu svari:

Jose sagði í aðdraganda leiksins við Liverpool að nú væri pressa á Klopp að skila titli í hús eftir öll innkaupin í sumar. Eins og mjög oft áður Trumpleg einföldun hjá Mourinho sem skautar aðeins framhjá aðalatriðum:

Leikurinn annað kvöld er reyndar handónýtur því líklega verður Naby Keita ennþá á meiðslalistanum. Hann meiddist við það að sitja í flugvél sem er nokkuð vel af sér vikið.

Gini Wijnaldum og Loris Karius voru ekki heldur með á æfingu í dag og verða því líklega ekki með á morgun. Það verða því unglingar í markinu allan leikinn. Shaqiri gæti hinsvegar komið eitthvað við sögu.

Þessir leikir í Bandaríkjunum eru fyrst og fremst PR hjá þessum stóru liðum og stjórar þessara liða hafa margoft sagt að þeir væru frekar til í að fara á rólegri slóðir og einbeita sér bara að æfingum. Það fær Klopp í næstu viku er hann fer með liðið til Frakklands. Alisson og Firmino bætast við hópinn þar.

Hann var auðvitað spurður út leik leikmannagluggann og hélt alveg Óla Hauk á tánum varðandi innkaup. Sló þetta ekki alveg út af borðinu.

Aðrar fréttir úr slúðurheimum snúast um leikmenn á leið frá Liverpool. Þar fara Danny Ings, Lazar Markovic og Simon Mignolet fremstir í flokki og ef eitthvað er að marka slúðrið gæti Liverpool fengið töluvert fyrir þá. Crystal Palace ætlar t.d. að halda áfram að borga okkur stórfé fyrir leikmenn sem komast ekki lengur í liðið.

Varðandi markmenn þá sagði Klopp að Liverpool hefði keypt Alisson hvort sem Liverpool hefði unnið úrslitaleikinn í Meistaradeildinni eða ekki. Þessu trúi ég mjög vel enda varla óvænt að Liverpool hafi viljað heimsklassa markmann væri slíkur fáanlegur og vinna við að fá Alisson var líklega löngu byrjuð fyrir leikinn í Kiev. Dudek fékk að kynnast þessu á sínum tíma þrátt fyrir Istanbul.

Klopp var svo spurður nánar út í úrslitaleikinn í Kiev og sagði í fyrsta skipti það sem honum virkilega fannst, þá helst um Sergio Ramos og er ljóst að hann hefur ekki mikið álit á þeim karakter, hvorki innan né utan vallar. Hann deilir alveg skoðunum okkar flestra.

Persónulega væri ég samt meira til í að hafa svona „win at all cost“ dirty týpu á meðan slíkir leikmenn komast upp með meirihlutan af því sem þeir gera af sér frekar en að vinna einhver fair play verðlaun ár eftir ár og fá ekkert fyrir það.

Endum þetta á Robbie Fowler og Mo Salah í banastuði.

Hreinsun að hefjast?

Það hefur legið augum uppi að leikmannahópur Liverpool er alltof stór eins og staðan er í dag og ansi margir í honum sem virðast ekki eiga neina alvöru langtíma framtíð hjá félaginu. Fréttir kvöldsins um að Liverpool sé búið að setja verðmiða og fengið fyrirspurnir um nokkra leikmenn sína koma því lítið á óvart.

Samkvæmt öllum þessum helstu bresku miðlum þá er listinn ansi langur og veglegur en liðið mun leita eftir því að fá hátt upp í 100 milljónir punda fyrir þennan hóp leikmanna ef þeir vilja á annað borð selja þá. Þetta eru þeir leikmenn sem hafa verið orðaðir við brottför frá liðinu en erfitt er að sjá fram á að einhver þeirra muni fá stórt hlutverk á næstu leiktíð og því yrði „skellurinn“ við brottfarir þeirra ekki mikill.
Continue reading

Emre Can til Juventus

Emre Can er mættur til Tórínó til að klára öll formsatriði áður en hann skrifar undir hjá Juventus. Hann kom sumarið 2014 og hefur undanfarin 1-2 ár neitað að skrifa undir nýjan samning hjá Liverpool þrátt fyrir að hafa nánast alltaf verið í byrjunarliðinu hjá Klopp þegar hann er leikfær.

Juventus er auðvitað risaklúbbur sem fer jafnan langt í Meistaradeildinni og er með áskrift af titlinum heimafyrir en það er enginn að fara sannfæra mig um að ítalski boltinn og Juventus sé meira spennandi en það sem er í gangi hjá Liverpool núna undir stjórn landa Emre Can. Alls ekki hlautlaust mat en verði honum bara að vind og skít af því.

Seria A hentar Emre Can samt mun betur en Enska Úrvalsdeildin, það er ekki sami hraðinn og hjá Juventus fær hann mun fleiri leiki leiki sem eru töluvert ójafnari en gengur og gerist á Englandi. Lucas Leiva er ágætt dæmi um þetta enda hentaði hraðinn á Ítalíu honum töluvert betur en á Englandi. Samlíkingar á Can við Titanic þegar hann er að snúa sér voru stundum full nærri lagi.

Allan tíma Can hjá Liverpool hefur maður haft á tilfinningunni að þetta sé leikmaður sem er á barmi þess að springa út sem heimsklassa leikmaður og það er auðvitað mjög svekkjandi að missa hann á frjálsri sölu 24 ára eftir að hann hefur tekið út sinn þroska hjá Liverpool með tilheyrandi magni af mistökum og óstöðugleika. Samt held ég að ef Liverpool hefði ekki getað séð framtíðina fyrir sér án Emre Can þá væri hann ennþá leikmaður Liverpool. Eitthvað hafa borist fréttir af því að hann hafi ekki alveg tekið tilsögn þjálfarateymisins og væri ósáttur við hlutverk sitt hjá Liverpool. Liverpool var fyrir ári síðan búið að kaupa leikmann sem spilar nákvæmlega sömu stöðu og Klopp hefur verið nota Can í og byrjar þennan glugga á að bæta öðrum við sem líklega er töluvert betri en Can.

Fyrir mitt leiti er engin rosaleg eftirsjá af Can þó ég hafi alltaf haldið upp á þennan leikmann og haft trú á honum. Finnst þetta alveg magnað move hjá honum að neita að skrifa undir hjá Liverpool akkurat núna enda liðið með þýskan þjálfara og augljóslega á uppleið. Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar og sæti í Meistaradeild tvö ár í röð ágætis vísbending. Það er mjög gott að hann fari til Ítalíu en ekki í annað enskt lið eins og Man City eða United enda alltaf best að losna við þessa menn úr landi þegar þeir yfirgefa Liverpool.

Hlutverk Emre Can hefur aldrei verið nákvæmlega á hreinu á miðjunni hjá Liverpool, er þetta djúpur miðjumaður, er þetta box-to-box eða fremsti miðjumaður? Það er ljóst að þetta er ekki bakvörður en hann hefur leyst hlutverk aftast ágætlega í nokkrum leikjum, þá helst í þriggja manna vörn. Get alveg séð hann færast aftar seinna á ferlinum eða bara hjá Juve. Þeir sem koma í staðin eru alls ekki svona, Fabinho getur leyst nokkur hlutverk en þar er Liverpool fyrst og fremst að kaupa varnartengilið. Henderson gæti færst framar með komu Fabinho og eignað sér box-to-box hlutverkið sem er líklega hans besta staða. Keita er einnig miðjumaður sem auðvelt er að staðsetja á miðjunni og klárlega leikmaður sem ætti að vera Klopp að skapi, raunar er erfitt að finna leikmann sem er mikið meira „Klopp leikmaður“ en Keita enda var lögð svívirðileg áhersla á að fá hann.

Emre Can vann ekkert á tíma sínum hjá Liverpool, liðið hefur undir stjórn FSG farið eins nálægt því að vinna allar keppnir sem í boði eru án þess að vinna þær, deild, báðar bikarkeppnir og báðar Evrópukeppnirnar. Á Ítalíu er Can klárlega að fara vinna einhverja titla en maður hefur enga sérstaka virðingu fyrir leikmönnum sem er ekki tilbúnir að hjálpa Liverpool að ná árangri sérstaklega þegar svona lítið vantar uppá, afhverju ætti maður að hafa það?

Hef ekkert þannig séð á móti Can þó hann ákveði að taka þetta skref núna en bæði held og vona að maður eigi ekki eftir að muna hann lengi sem leikmann Liverpool. Hann lagði sig samt alltaf fram þegar hann var í búningi Liverpool og kostaði félagið ekki mikið þó ekkert fáist fyrir hann núna.

Best finnst mér samt að sjá Liverpool núna kaupa 23-25 ára tilbúna miðjumenn í staðin fyrir Can sem kom 20 ára. Liverpool þarf tilbúna leikmenn í byrjunarliðið í stað þess að þróa aftur nýjan mann í 4-5 ár og missa svo á frjálsri sölu. Nóg er nú af ungum leikmönnum sem verið er að þróa hjá félaginu. Þetta sýnir kannski aðeins hversu stór skref Liverpool hefur tekið á tíma Can hjá félaginu.