Flokkaskipt greinasafn: Slúður

Fekir vonbrigði sumarsins?

Það er líklega ekkert meira pirrandi þegar kemur að leikmannaglugganum en þegar stóru leikmannakaup sumarsins falla á læknisskoðun. Fréttaflutningur af kaupum Liverpool á Nabil Fekir hafa verið alveg einstaklega ruglandi og pirrandi núna um helgina en niðurstaðan virðist vera sú að hann hafi fallið á læknisskoðun. Ef það er raunin er að sjálfsögðu lítið við því að gera, þetta er einmitt ástæðan fyrir því að leikmenn fara í ítarlega læknisskoðun.

Það virðast vera einhver vonbrigði á leikmannamarkaðnum á hverju sumri þegar kemur að Liverpool og ef að Fekir féll á læknisskoðun eru það klárlega vonbrigði. Hversu mikil vonbrigði þetta eru fer eftir því hvernig Liverpool vinnur úr þessu. Það var svosem ljóst fyrir en núna fer ekkert á milli mála að Klopp vill fá leikmann í þær stöður sem Fekir leysir.

Síðasta sumar voru það Van Dijk og Keita sem klikkuðu. Keita var keyptur með ársfyrirvara sem var svosem betra en ekkert á meðan við fórum miðvarðarlaus og í óvissu inn í tímabilið eftir ótrúlegt fíaskó í kringum Van Dijk.

Fekir hefur ekki verið mikið meiddur undanfarin ár og þessir 10 leikir sem hann hefur misst af hafa ekki verið vegna hnémeiðsla. Hann hinsvegar missti af tímabilinu fyrir þremur árum eftir að hafa slitið krossband.

Þetta minnir alveg rosalega á Loic Remy blessaðan sem ég var búinn að bjóða velkominn fyrir nokkrum árum en hann féll á læknisskoðun. Væri fróðlegt að sjá hversu mörg af þessum stóru leikmannakaupum klikka vegna þess að leikmenn falla á læknisskoðun?


Fekir er sá eini sem er staðfest að Liverpool er að reyna að kaupa og eftir Fabinho er nokkuð ljóst að menn eru fullkomlega að giska og geta í eyðurnar með rest. Sá sem hefur verið hvað háværastur undanfarið er Xherdan Shaqiri sem ku vera falur frá Stoke fyrir 12m sem er ekkert verð fyrir leikmann í þeim gæðaflokki. Hann er 26 ára og átti auðvitað aldrei að dúkka upp í Stoke City. Hann væri líklega ekki hugsaður sem byrjunarliðsmaður svona til að byrja með en klárlega kaup sem færu í svipaðan flokk og Andy Robertson og Ox-Chamberlain. Ef einhver getur unnið með þá hæfileika sem Xherdan Shaqiri býr yfir er það stjóri Liverpool. Tölfræðin sýnir líka að hann er betri sóknarmaður með betri mönnum í kringum sig. Ótrúleg staðreynd auðvitað að sóknarmaður komi betur út hjá Bayern en Stoke :)

Eitthvað hefur verið talað um að Lanzini hafi verið númer tvö á listanum á eftir Fekir, glætan samt að nokkur maður hafi hugmynd um það og því síður að Liverpool hafi lekið því. En hvað sem því líður þá sleit Lanzini krossband núna í vikunni og því klárlega ekki að fara neitt í sumar. Hversu rosalega hefði Liverpool samt toppað sig ef Lanzini hefði komið í stað Fekir og meiðst í sömu vikunni?

Sá sem sér um að búa til slúður þegar kemur að markmönnum er svo klárlega geðklofi því eina stundina er það Allison frá Roma eða jafnvel Oblak frá A.Madrid en svo verður til alveg nýr karakter sem fer að orða okkur við Butland, Pope eða McCarthy. Stundum er þetta sett saman í sömu slúður fréttinni.

Kaup Liverpool á Fabinho komu fullkomlega upp úr þurru og sýndu okkur að blaðamenn hafa engan aðgang að Liverpool þegar kemur að leikmannakaupum, sérstaklega ekki enskir blaðamenn. Þeir fá bara það sem klúbburinn vill að leki. Þetta var svona líka í fyrra og jafnan samlandar þeirra leikmanna sem Liverpool er orðað við sem vita meira. Því ættum við að taka öllum fréttum með verulegum fyrirvara og getum alveg verið róleg enn sem komið er. Keita og Fabinho einir og sér stökkbreyta miðjunni hjá okkur strax. Van Dijk hefur svo aðeins verið leikmaður Liverpool í 6 mánuði, dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Fréttir af Nabil Fekir eru síðan svo óljósar ennþá að það er ekkert víst að þessi díll sé dauður, Lyon kom t.a.m. með yfirlýsingu á sinni heimasíðu aðeins til að taka hana út aftur. Vonandi féll þetta bara á tíma fyrir HM og verður klárað eftir að Frakkar vinna HM í sumar.

Samþykkt tilboð í Fekir!

Allir áreiðanlegustu miðlar Englands og Frakklands virðast slá í sömu strengi í kvöld en samkvæmt því eiga Liverpool og Lyon að hafa komist að samkomulagi um kaupverð á sóknartengiliðnum Nabil Fekir. Mikil pressa hefur verið á Liverpool að ná að klára þennan díl fyrir HM en leikmaðurinn var nokkuð „óvænt“ valinn í landsliðshópinn þegar Dimitry Payet meiddist í úrslitum Evrópudeildarinnar.

Áhugi Liverpool á leikmanninum hefur ekki verið leyndarmál en bæði Fabinho, nýjasti leikmaður Liverpool, og Sadio Mane hafa svarað spurningum um leikmanninn á síðustu vikum. Forseti Lyon hefur alltaf gefið í skyn að Lyon liggur ekkert á að selja fyrirliða sinn og þá síðasta bara í dag sagði hann að ólíklegt væri að þeir myndu selja leikmanninn fyrr en eftir HM ef þeir myndu þá gera það.

Hins vegar er Liverpool staðráðið í að klára kaupin fyrir HM og geta fókuserað á næstu kaup sín og virðist það ætla að ganga í gegn komist hann í gegnum læknisskoðun. Samkvæmt helstu miðlum er kaupverðið 48 milljónir og aðrar fjórar milljónir í bónusgreiðslur sem verður að teljast mjög góður díll fyrir þennan leikmann sem var einn sá allra efnilegasti í Evrópu áður en hann meiddist á hné árið 2015 en hann hefur komið flottur til baka eftir það. Franskir miðlar vilja meina að kaupverðið sé nær sextíu milljónum punda en eflaust er þetta einhvers staðar þarna á milli.

Við komum með aðeins nánari umfjöllun um leikmanninn sjálfan og uppfærum þetta eftir því sem eitthvað gerist í þessum málum.

Hugsanlega gæti Liverpool farið á fullt við að ná að klára kaup á Alisson markverði Roma og Xerdan Shaqiri leikmanni Stoke en báðir munu þeir fara út til Rússlands í næstu viku.

Opinn þráður – Karius, slúður og Lijnders

Á yfirborðinu er ansi rólegt hjá okkar mönnum þessa dagana en við fengum auðvitað óvænta sprengju í síðustu viku þegar félagið tilkynnti kaupin á Fabinho frá Monaco.

Rétt til að renna yfir það helsta í slúðrinu þá er lítið að frétta af Nabil Fekir. Viðræður á milli liðana ganga hægt og spurning hvort takist að klára kaupin fyrir HM en Frakkland heldur til Rússlands á fimmtudaginn svo tíminn er orðinn ansi naumur.

Roberto Firmino og Dejan Lovren leiddu saman hesta sína á Anfield um helgina þegar Brasilía og Króatía léku æfingaleik fyrir HM. Leiknum lauk með 2-0 sigri Brasilíu og Roberto Firmino kom inn á sem varamaður og að sjálfsögðu skoraði hann í blálok leiksins með góðu marki fyrir framan Kop stúkuna.

Slúðrið frá brasilískum miðlum segir að Liverpool hafi nýtt tækifærið og rætt við fylgdarlið markvarðarins Alisson sem er sagður vera ofarlega á forgangslista Liverpool í sumarglugganum. Real Madrid hefur líka áhuga á Alisson og er sagt að valið standi á milli Liverpool og Real Madrid. Bæði lið heilli en á ólíkan hátt. Sjáum hvað setur, líkt og með Fekir þá er tíminn til að klára kaupin fyrir HM að verða ansi naumur.

Í kvöld var Liverpool óvænt orðað við 22ja ára nígerískan kantmann frá Gent í Belgíu. Hann heiti Moses Simon… nei, notum fullt nafn. Hann heitir Moses Daddy-Ajala Simon. Alltaf kaupa mann sem heitir Daddy!

Þekki nú ekkert til þessa Simon en hann er hraður og leikinn kantmaður og er einn þeirra sem Liverpool er að fylgjast með og mun jafnvel reyna að fá í sumar. Hann er talinn kosta tíu milljónir punda og á ár eftir af samningi sínum við belgíska liðið. Sjáum hvað setur en eftir að hafa heyrt Leon Bailey, Pulisic, Ousmane Dembele, Malcom og Wilfried Zaha oraða við Liverpool í kantstöðurnar þá er þetta ákveðin „skellur“ ef þetta yrði sá sem félagið kaupir. Meira um það ef af þessu verður.

Hann hefur verið í nígeríska landsliðshópnum en missir því miður (kannski ekki fyrir okkur Íslendinga) af HM þar sem hann meiddist á mjöðm um daginn og nær ekki að vera klár í tæka tíð. Skellur fyrir strákinn en ef Liverpool kaupir þennan strák þá gætum við séð tvo Nígeríumenn bætast í æfingahópinn í sumar.

Taiwo Awoniyi hefur verið á mála hjá Liverpool síðan 2015 en hefur ekki fengið leikheimild í Englandi síðan þá og verið lánaður til félaga í Hollandi, Þýskalandi og í Belgíu. Hann var síðast á láni hjá Mouscron í Belgíu og gerði vel, var í myndinni fyrir landsliðshópinn fyrir HM en náði ekki í næst síðasta úrtakshópinn. Hann hefur fengið leyfi til að dvelja með Liverpool í Bandaríkjunum þar sem það verður í æfingaferð í sumar og gæti verið með hópnum þar. Hann er talinn skrifa undir nýjan samning og fara á láni til stærra liðs sem spilar í Evrópudeildinni og hefur Anderlecht verið nefnt til sögunnar. Gangi það eftir gæti hann fengið atvinnuleyfi í Englandi og loksins komist til Liverpool.

Liverpool sendi Loris Karius í skoðun til sérfræðina í höfuðmeiðslum á sjúkrahúsi í Boston þar sem kom í ljós að hann hafi hlotið heilahristing eftir samstuð (árás) Sergio Ramos í úrslitum Meistaradeildarinnar. Kannski útskýrir það eitthvað mistök hans í leiknum en kannski ekki, staðreyndin að minnsta kosti sú að hann hlaut heilahristing eftir atvikið.

Pepijn Lijnders hefur aftur tekið við stöðu í þjálfarateymi Klopp fyrir komandi leiktíð. Lijnders þekkir nú mjög vel til Klopp og Liverpool enda búinn að vera í félaginu í einhver 4-5 ár núna og verið stór partur í þjálfarateyminu hjá Klopp síðan hann tók við. Hann er mikils metinn þjálfari bæði hjá Liverpool og í bransanum en hann yfirgaf klúbbinn fyrr á leiktíðinni og tók við starfi í hollensku 1.deildinni. Lið hans rétt missti af sæti í efstu deild og var hann látinn fara. Klopp var ekki lengi að bjóða honum að koma aftur heim til Liverpool en ekki er enn búið að gefa upp hvert hlutverk hans verður. Buvac fór í „frí“ undir lok leiktíðar og óvíst er með framhaldið hjá honum hjá félaginu, nákvæmt hlutverk Lijnders gæti orðið skýrara þegar ljóst verður hvort Buvac snýr aftur eða ekki.

Þetta er svona það allra helsta sem hefur verið að frétta síðustu daga, vonandi fáum við einhverjar stórar og jákvæðar fréttir af klúbbnum á næstu dögum. Annars er þetta opinn þráður og þið megið ræða það sem þið viljið (innan siðsamlegra marka!!) hérna.

Podcast – Helvítis

Það gat ekki mikið meira farið úrskeiðis hjá okkar mönnum í Kiev og niðurstaðan rosalega svekkjandi. Úrslitaleikurinn var eðlilega stór partur af dagskrá en eins horfðum við til framtíðar og veltum fyrir okkur leikmannakaupum Liverpool. Félagið byrjaði leikmannagluggann heldur betur með látum.

Kafli 1: 00:00 – Úrslitaleikurinn í Kiev
Kafli 2: 42:10 – Liverpool risi sem er að vakna
Kafli 3: 51:30 – Fabinho
Kafli 4: 01:03:00 – Micheal Edwards frábær Sporting Director
Kafli 5: 01:06:20 – Tilboð í Nabil Fekir?
Kafli 6: 01:13:40 – Markmaður í stað Karius

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn og Maggi

MP3: Þáttur 197

Podcast – Uppgjör á deildinni

Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV mætti aftur og gerði upp tímabilið á Englandi með okkur. Hugurinn er auðvitað að mestu kominn til Kiev og eitthvað horft þangað einnig. Nóg að ræða og þáttur í lengra lagi sem er í góðu lagi enda ekki eins og við Íslendingar séum mikið út í sólinni um þessar mundir.

Kafli 1: 00:00 – Intro og vangaveltur fyrir Kiev
Kafli 2: 11:00 – Hvaða einkunn fær þetta tímabil í deildinni
Kafli 3: 16:00 – Hvað gerist hjá Arsenal?
Kafli 4: 27:00 – Sammy Lee hoppandi kátur frá Everton
Kafli 5: 33:50 – Var búið að lesa Chelsea í vetur?
Kafli 7: 42:50 – Mourinho að hefja þriðja ár
Kafli 8: 53:00 – Man City leikur 100 stig ekki eftir aftur
Kafli 9: 56:10 – Pochettino mikilvægastur hjá Tottenham
Kafli 10: 01:02:00 – Frábært hjá nýliðunum
Kafli 11: 01:07:00 – Gamli skólinn féll, guði sé lof.
Kafli 12: 01:08:30 – Annað West Brom að koma upp.
Kafli 13: 01:11:00 – King Eddie Howe, ótrúlegur.
Kafli 14: 01:12:50 – Vel talað um árangur Roy Hodgson!!!!!!!
Kafli 15: 01:16:00 – Pellegrini til West Ham
Kafli 16: 01:21:00 – Jack Butland til Man Utd?
Kafli 17: 01:22:30 – HM hópur Englands.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV

MP3: Þáttur 195