Væntingavísitala varðandi nýjan sóknarmann

Eftir kaupin á Konate eru flestir best tengdu blaðamenn í Liverpool á því að nýr sóknarmaður sé forgangsatriði í sumar. Það er áhugavert fyrir það fyrsta í ljósi þess að Liverpool er nú þegar með eina bestu ef ekki bestu sóknarlínu í heimi. Diogo Jota bættist í hópinn í fyrrasumar og er í dag miklu hærra skrifaður sóknarmaður og mun nær Mané og Firmino í áliti en hann var fyrir 12 mánuðum síðan. Þetta eru fjórir hátt launaðir og mjög góðir sóknarmenn sem allir eru á hátindi ferilsins hvað aldur varðar. Það er ekkert rosalega spennandi fyrir nýjan sóknarmann að koma inn í svona sterkan hóp nema um sé að ræða einhvern af Haaland, Mbappe eða Kane kaliberi.

Vonandi eru allir búnir að átta sig á því fyrir löngu að Liverpool módelið er ekki byggt upp á slíkum leikmannakaupum og því verður alls ekki breytt núna í kjölfarið á Covid. Ekki síst í ljósi þess að Liverpool þarf ekkert að kaupa þannig tilbúna stórstjörnu. Ef að Liverpool væri að selja Mané eða Salah á +100m væri dæmið kannski öðruvísi en á meðan svo er ekki er spurningin hvað er verið að kaupa í nýjum sóknarmanni núna?

Fyrir mér eru raunhæfu draumakaupin einhver í nákvæmlega sama gæðaflokki og Salah, Mané, Bobby og Jota voru þegar þeir komu til Liverpool. 22-24 ára leikmaður með góða reynslu sem á eftir að springa almennilega út og gæti vaxið hratt í að verða næsti arftaki einhvers af þremenningunum. Nákvæmlega eins og Diogo Jota gæti verið að gera vs Bobby Firmino. Einhvern sóknarmann sem kemur inn í staðin fyrir eða a.m.k. framfyrir Origi, Minamino og Shaqiri.

Hinn kosturinn sem ég sé Liverpool ekki gera væri að kaupa gamlan ref fyrir 1-2 tímabil eins og United gerði með Cavani og Zlatan eða Atheltico Madrid gerði með Suarez í fyrra og Costa þar áður.

Minamino voru áhættulaus leikmannakaup sem Liverpool græðir líklega töluvert á fjárhagslega. En hann er alls ekki líklegur til að veita neinum af núverandi sóknarlínu alvöru samkeppni.

Origi bara ætlar ekki að þróast einn meter í átt að Jurgen Klopp leikmanni, hann er að ég held eini leikmaður Liverpool í tíð Jurgen Klopp sem hefur farið töluvert aftur sem leikmanni. Ákaflega pirrandi leikmaður á velli því hann ætti að hafa gjörsamlega allt til að verða skrímsli fyrir framan markið. Höfum samt í huga að hann kostaði 3m meira en Minamino, vann fyrir okkur Meistaradeildina og Everton svona tólf sinnum. Liverpool mun alls ekkert tapa á honum fjárhagslega heldur.

Shaqiri mætti svosem alveg vera áfram hjá Liverpool en hann er eins og of margir í hópnum of mikill meiðslapési og of sérstakur leikmaður til að verða nokkurntíma jafn mikilvægur fyrir Liverpool og hann er fyrir landsliðið.

Miðað við fyrsta æfingaleik eru þessir þrír mögulega ekki einu sinni næsti kostur í goggunarröðinni á eftir Fab Four. Ox-Chamberlain er í prufum sem nía og eins má ekki útiloka að Klopp leiti mun frekar til Harvey Elliott.

Ef að sóknarmaður er svona augljóslega næsta áhersluatriði hjá Liverpool væri sóknarmaður í þessum 30-50m verðflokki augljósasti valkosturinn og Edwards hefur sannarlega ferilsskrá til að ávinna honum traust í slíkum leikmannakaupum. Ef að orðrómurinn væri um sóknarmann af hærra kaliberi eru allar líkur á að Mané eða Salah færu í staðin.

Nýjasta nafnið í slúðrinu varðandi nýjan sóknarmann er Jarrod Bowen frá West Ham. Leikmaður sem er að mínu viti alveg rosalega svipað kaliber og Diogo Jota var í fyrra og viðbrögðin við þessum orðrómi alls ekki ósvipuð og þegar Jota var kynntur í fyrra. Þetta slúður er ekki orðið nógu alvarlegt til að maður nenni að velta sér upp úr því en þetta er nákvæmlega aldursbilið, tegund af leikmanni og profile sem ég held að Liverpool sé að leita að í stað Origi/Minamino/Shaqiri. Ef hægt er að kaupa slíkan leikmann með enskt ríkisfang er það ennþá betra.

Vandamálið við að kaupa svona leikmenn er að sannfæra þá um að nánast fórna einu tímabili því þeir koma allir inn sannfærandi á eftir núverandi sóknarmönnum í goggunarröðinni. Liverpool þarf engu að síður klárlega einn í viðbót inn í þennan hóp sem gefur liðinu mun meira en Origi og Minamino gerðu á síðasta tímabili.

Annað sem skiptir gríðarlega miklu máli við kaup á nýjum leikmanni er hvaða áhrif það hefur á þróun leikmanna eins og t.d. Harvey Elliott og Curtis Jones. Elliott verður 19 ára þegar næsta tímabil klárast og það er ekki séns að hann sætti sig við að vera 6.-8. valkostur hjá Liverpool lengi. Því síður trúi ég því að hann sé svo aftarlega í huga Klopp. Elliott í stað Shaqiri væri að mínu viti eðlileg og góð þróun á meðan nýr sóknarmaður í stað Origi og Minamino er ástæðan fyrir því að svo mikill fókus virðist vera á þessa stöðu næst. Balagizi og Musialowski eru svo báðir 18 ára og fara að banka á sömu dyr og Elliott mjög fljótlega, Kadie Gordon er 17 ára. Þetta er strákar sem eru svipað mikil efni og Raheem Sterling var á sínum tíma að spila fyrir þjálfara og eigendur sem leggja gríðarlega áherslu á að þróa og móta sína eigin leikmenn.

Miðjan

Þetta er ekkert ósvipað á miðjunni fyrir utan að þar var Liverpool að missa út algjöran lykilmann og eins má ekki horfa fram hjá því að Milner er ekkert að yngjast. Hans hlutverk minnkar með hverju tímabilinu. Eins hafa verið miklu meiri og alvarlegri meiðsli á miðjunni en í sóknarlínunni undanfarin ár. Hvaða leikmaður finnur mest fyrir því ef Liverpool kaupir nýjan leikmann í stað Wijnaldum?

Curtis Jones er vonandi á barmi þess að springa út sem leikmaður, hann á töluvert eftir í sitt þak sem leikmaður en þarf séns til að sýna það líkt og t.d. Foden, Saka, Rashford o.s.frv. hafa verið að fá undanfarin ár.

Miðjan hjá Liverpool núna segir sig nokkuð sjálf með Fabinho, Henderson og Thiago, allt leikmenn sem meiðast mikið. Jones, Keita og Milner eru þá í næsta hópi og miðað við meiðslasöguna er alltaf einhver að þeim að fara spila. Þarna er alveg hægt að styrkja hópinn, veita byrjunarliðinu meiri samkeppni og hefja undirbúning brottfarar Milner (og jafnvel Henderson).

Þetta held ég að sé ástæðan fyrir því að Liverpool er orðað við aðeins hærra kaliber og dýrari leikmenn í þessari stöðu en í sókninni. Hér er verið að skipta út Wijnaldum, ekki varavara sóknarmanni. Nauhaus er ekki þekkt nafn í enska boltanum en þetta er þýskur landsliðsmaður. Niguez frá Athletico Madríd væru risastór leikmannakaup, Tielemans hjá Leicester er klárlega í sama klassa og Gini.

Eins eru ekki eins rosalega mikil efni að koma úr akademíunni á miðri miðjunni og eru í sóknarlínunni (Elliott, Balagizi og Musialowski eru allir sóknartengiliðir eða sóknarmenn).

Hvernig er staðan hvað sölu leikmanna varðar?

Brottför Wijnaldum skilur eftir pláss á launaskrá fyrir nýjan leikmann í byrjunarliðsklassa.

Kamil Grabara fór til FC Köbenhavn á 3m, Marko Grujic fór til Porto á 11m og Taywo Awonyi til Union Berlin á 6,5m. Allir líklega með klásúlu um næstu sölu einnig. Þarna eru strax 20,5m í sölu á leikmönnum sem höfðu engin áhrif á hóp Liverpool. 

Harry Wilson og Nat Phillips eru mjög líklega næstir út. Fulham var í byrjun vikunnar sagt leiða kapphlaupið um Wilson og mögulega kæmu fréttir af því í þessari viku. Brighton gæti svo horft til Nat Phillips í stað Ben White. Phillips spilaði ekkert í fyrstu æfingaleikjum tímabilsins sem er kannski einhver vísbending? Fleiri lið hafa jafnframt verið orðuð við báða.  Söluverð þeirra er líklega einhversstaðar í kringum 15m hvor. Neco Williams hefur verið orðaður sterklega í burtu í sumar þó lítið hafi heyrst af því undanfarið. Allt leikmenn sem hafa lítil sem engin áhrif á núverandi hóp en gætu skilað 50-60m í ný leikmannakaup.

Sala á einhverjum af Origi, Minamino og Shaq (ef ekki öllum) er svo líklega ekki síður mikilvæg til að skapa pláss fyrir erlenda leikmenn í hóp og hún er til að fjármagna kaup á nýjum leikmönnum. Origi er erfiðastur þar enda var Edwards líklega ennþá þunnur eftir Madríd 2019 þegar hann samdi við hann.

 

10 Comments

 1. Ekki svosem stór upphæð sem vantar (rúm milljón punda held ég), en Liam Millar fór líka frá klúbbnum núna í vor og til FC Basel í Sviss.

  1
 2. Takk

  Þú telur upp 4 alvöru sóknarmenn fyrir 3 stöður. H. Elliott er spennandi og fær væntanlega einhverjar mins. Erfitt að gera kröfu á kaup á world class ef Origi, Minamino og Shaq verða áfram. Vona samt að þeir verði allir seldir og inn komi miðjumaður og striker, ekki kantari sbr. Bowen heldur bonafide striker. Eftir síðasta tímabil er morgunljóst að það vantar einhvern slúttara. Við hljótum öll að hafa séð það. Þannig að ég geri væntingar um flottan target striker. 5 gæjar að berjast um 3 stöður og Elliott verður groomaður fyrir 22/23.

  Það gengur ekki að Utd nái í Sancho, City í Kane og Chelsea í Haaland og Liverpool voni að Bobby fari að setja plús15mörk í deild. Getum gleymt epl titli ef svo verður. Algjörlega kominn tími á statement frá þessum klúbbi yfir þessu fiasko í vor. Finnst hálfpartinn að það sé 2010 og öll hin stóru liðin ná í eftirsóttustu bitana og LFC þarf fyrst og fremst að selja fyrst, kaupa svo, og treysta á kjúklingana. Ok, slaka, það er bara júlí ennþá. Sjáum til hvað gerist.

  8
 3. Takk fyrir góðan pistil, skemmtilegar pælingar.
  Ég er á því að miðjan þurfi mestu styrkinguna en síðan væri ekki leiðinlegt að fá einn striker líka.

  4
 4. Sælir félagar

  Takk fyrir góðan pistil Einar og opnun á vonandi skemmtilegri umræðu.

  Alvöru miðjumaður eins og Niguez eða Nauhaus eru á mínum lista en ég vil ekki sjá Tielemans. Hann er of latur og of hægur fyrir minn smekk og skortir stöðugleika. Ég hefi raunar aldrei skilið þessa Tielemans umræðu sem minnir anzi mikið á Ross Barkley á sínum tíma sem var lang ofmetnasti miðjumaður í heimi á sínum tím en er nú metinn að verðleikum sem squad leikmaður fyrir West Ham og önnur góð miðlungslið.

  Sóknarmaður sem á möguleika í liðinu er ekki til nema fyrir stórfé (100p+) og við eigum stráka sem eiga jafn mikla möguleika á því að verða heimsklassa sóknarmenn eins og Jarrod Bowen. Elliot, Balagizi og Musialowski eru allt strákar sem eru gríðarleg efni svo við verðum að líkindum rólegir þar. Það vantar aftur á móti “bakkup” fyrir TAA en Tsimikas virðist vera lofandi sem “bakkup” fyrir Robbo. Sölur á Origi, Minamino og Saq ættu að gefa pening í kassann ásamt Wilson og Nat. Því eiga kaup á dýrum fullþroskuðum miðjumanni ekki að vera klúbbnum ofraun.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
  • Ég sé að það eru fleiri en ég sem ruglast á búningum West Ham og Aston Villa, sérstaklega eftir að WH lögðu náttfötunum frá 19/20.

 5. Reyndar eigum við ótrúlega öflugan sóknarmann í honum Diogo Jota, hann hefur sýnt að hann er mjög góður leikmaður.
  Ég held svo að Elliot fái töluvert af spilatíma hjá Liverpool, hann getur spilað á miðjunni og í stöðunni hans Salah.
  Auðvitað er þessi hópur nokkuð góður en það þarf samt að endurnýja þannig að liðið standi ekki í stað, fá inn ferskann vind í liðið.
  Við erum á þeim stað að það á að vera nóg að kaupa inn 1 stk alvöru leikmann fyrir hvert tímabil.
  Liðið má ekki verða of gamalt.
  En hvort að þessir vesælu eigendur muni gera eitthvað að viti það efast ég um, nema jú að selja fyrst og kaupa fyrir afganginn.
  Ég er ekki rétti maðurinn til að segja í hvaða stöðu liggur mest á að fá inn alvöru mann. Þ.e.a.s hvort að það eigi að vera sóknarþekjandi miðjumaður eða pjúra sóknarmaður en ég veit að það þarf að fá inn góðann leikmann.

  6
 6. Takk fyrir góða yfirferð.

  Að mínu viti verðum við að vera í takt við önnur stórlið og bæta við okkur alvöru leikmanni ef við ætlum að gera atlögu að deildinni.

  Selja Bobby og taka inn risa nafn í hans stað, þetta myndi hafa svipuð áhrif á hópinn og AB/VVD.

  LFC er búið að sýna það með kaupum s.l. 3 ár að þeir geta keypt fyrir metfjár.

  4
 7. Hrikalega líst mér vel á Konaté! Cool as you like í leiknum í dag. Kloflangur með afbrigðum og fljótur að éta metrana, ef einhver sleppur framhjá. Slef-spennandi að sjá hann og VVD saman!

 8. Þarna er eg sammála miðjan þarf langmest á að halda manni sem spilar 90 prósent deildarleikja þvingað gerði wijnaldum.

  Sóknin alveg verið verri. Hofum farið inni þessara sokbarlinu mínus nota inni heilt tímabil það eftir við unnum meistaradeildina og tímabil þar áður líka en ég vill samt einn góðan sóknarmann

  1

Gullkastið – Æfingaleikir, sölur og samningar

Liverpool – Mainz 1-0