Endurkoma Nördanna (Staðfest)

Michael Edwards að snúa aftur

Uppfært
Staðfest – Michael Edwards snýr aftur til Liverpool og hans fyrsta verk verður að ráða Richard Hughes
Þetta eru mjög jákvæðar og spennandi fréttir.


Fyrir mánaðarmót skrifaði Paul Joyce, áreiðanlegasti íþróttablaðamaður Liverpool Samfélagsins frétt þess efnis að FSG væri að freista þess að fá Michael Edwards aftur til liðs við Liverpool. Þetta var í meira lagi áhugavert í ljósi þess að Edwards var þekktur fyrir það á tíu ára ferli hjá Liverpool að senda ekkert frá sér nema það væri frágengið. FSG skrúfaði fyrir alla leka nánast um leið og þeir keyptu félagið og Paul Joyce skrifar jafnan ekkert á Twitter nema til að nánast tilkynna eitthvað sem þegar er frágengið.

Hver var eiginlega að leka þessu og afhverju? Edwards er yfirburða langmest eftirsótti yfirmaður knattspyrnumála í knattspyrnuheiminum í dag eftir feril sinn hjá Liverpool og þá sérstaklega undir stjórn Jurgen Klopp. Hann hefur gefið út að hann vilji ekki gamla starfið sitt aftur og hefði líklega getað tekið við hvaða félagi sem er í boltanum undanfarin tvö ár.

Paul Joyce kom svo aftur með frétt í gær um að Liverpool væri í viðræðum við Edwards og þá í mun viðtækara hlutverk en bara yfirmaður knattspyrnumála, hann yrði sá sem ræður yfirmann knattspyrnumála og stjóra liðsins. Kannski nær því að taka við af Mike Gordon og/eða Billy Hogan sem báðir komu til félagsins sem fulltrúar FSG og hafa haft yfirumsjón með rekstri félagsins.

Eins kom tilkynning í þessari viku frá Bournemouth um að Richard Hughes myndi hætta sem yfirmaður knattspyrnumála hjá þeim eftir tímabilið. Hann hefur í nokkur ár verið orðaður við stærri félög og þekkir vel til Edwards eftir að þeir unnu saman hjá Portsmouth. Það fylgdi fréttinni að komi Edwards vilji hann ráða Hughes. Það að hann sé að tilkynna brottför sína í þessari viku ofan í þessar fréttir af Edwards gefur til kynna að þetta sé nokkurnvegin frágengið.

David Ornstein kom svo með þessa frétt í kvöld, hann er einnig talin mjög áreiðanlegur blaðamaður og vel tengdur. Satt að segja held ég að úr því þetta sé að leka í fjölmiðla þá sé búið að ganga frá þessu. Edwards lekur ekki og FSG alls ekki.

Höldum samt alveg í hestana, endurkoma Edwards bakvið tjöldin í hlutverki sem við þekkjum ekki mikið hvernig virkar er ekki eins og Klopp hafi verið að tilkynna að hann sé ekki lengur syfjaður og ætli að halda áfram með liðið. Jurgen Klopp er rosalega stór ástæða fyrir því hversu góð ímynd Edwards er sem yfirmaður knattspyrnumála. Ef að Edwards klúðrar því að ráða réttan mann til að stýra Liverpool er hans orðspor undir. Rétt eins og bæði Edwards og Klopp hafa margítrekað er þetta allt teymisvinna og allt teymið þarf að vera meira og minna á sömu blaðsíðu.

Það að missa Klopp setur okkur í mestu óvissu sem við höfum upplifað síðan félagið var hársbreidd frá því að verða gjaldþrota og Roy Hodgson var í brúnni. Ekki bara er Klopp að fara heldur klúðraði FSG ráðningu á eftirmanni Edwards laglega og endaði með svona Kenny Dalglish ráðningu í það starf. Mann sem þeir treysta (sérstaklega Klopp) en alltaf ljóst að hann væri ekki framtíðarlausn. Jörg Schmadtke verður ekki áfram til að brúa bilið fyrir félagið inn í nýja tíma og eins stendur ekki til að viðhalda því frábæra starfi sem er í gangi á æfingasvæðinu því allir helstu þjálfarar liðsins eru að hætta með Klopp. Þetta er svo úr takti við það hvernig FSG segjast vilja hafa hlutina, ef að einn hættir fer ekki allt á hliðina heldur grípur teymið það og maður kemur í manns stað.

Undanfarin ár hefur:

 • Mike Gordon hætt til að einbeita sér að sölu félagsins og svo snúið aftur
 • Yfirmaður knattspyrnumála vesen síðan Edwards hætti
  • Michael Edwards hætt eftir 12 mánaða aðlögunartímabil fyrir Julian Ward
  • Julian Ward entist varla eitt ár sem var vægast sagt spes og benti til að ekki væri alveg allt með felldu.
  • Núna er svo Schmadtke að hætta eftir stuttan tíma líka. Þetta er hlutverkið þar sem á að vera stöðugleiki og yfirsýn á þróun liðsins.
  • Richard Hughes verður fjórði yfirmaður knattspyrnumála á u.þ.b. tveimur árum reynist þessar fréttir réttar. Það er bara alls ekki jákvæð þróun og vonandi verður hann það góður að þarna erum við að fá inn mann til framtíðar.
 • Ofan á þetta er allt þjálfarateymi Klopp að fara með honum
 • Billy Hogan er líka að fara upp í fæðukeðju FSG (mögulega víkja fyrir Edwards)
 • Félagið var sagt til sölu að hluta eða öllu leiti fyrir ekki svo löngu síðan.

Jurgen Klopp var satt að segja á síðasta tímabili nokkurnvegin það eina sem hélt félaginu saman og einhverjum trúverðugleika í stefnu FSG. Án hans er því afar jákvætt að Edwards sé að koma aftur inn. Pressan á FSG að klúðra ekki aftur ráðningu á yfirmanni knattspyrnumála er gríðarleg og svona séð úr sófanum er erfitt að sjá hvað þeir geta gert betur akkuart núna en að fá Michael Edwards aftur inn og láta hann hafa yfirumsjón með þessu. Þetta er einn af fáum sem stuðningsmenn Liverpool geta treyst og þekkja.

Dómur sögunnar

Það er annars áhugavert að sjá viðbrögð stuðningsmanna Liverpool við þessum orðrómi um Edwards. Sérstaklega þeirra sem hafa viljað FSG í burtu. Ekki viss um að menn muni alveg eftir Liverpool á leikmannamarkaðnum í hans tíð, því að sagan hefur dæmt Edwards töluvert betur en mjög margir gerðu um það leiti sem Liverpool keypti suma af þeim leikmönnum sem komu í hans tíð. Kaupverð leikmanna Liverpool undanfarin ár en fáránlega lágt miðað við árangur og samanburð við sambærileg félög.

Edwards er basicly Billy Beane fótboltans í tíð FSG. Það er mikilvægt að átta sig á að hann leiddi teymi sem var ótrúlega gott í að finna leikmenn með hærra virði en hægt var að fá þá fyrir. Leikmenn sem voru kannski góðir hjá sínum liðum, en höfðu svigrúm til að stórbæta sig og jafnvel skila allt öðru hlutverki hjá Liverpool en þeir gerðu annarsstaðar. Edwards er ekki gaurinn sem njósnar um leikmann, fer og skoðar hann og semur við umboðsmanninn í kjölfarið. Hann vann sig upp úr því að vera sá sem les í tölfræðina og þróaði forrit til að einfalda þá vinnu upp í það að hafa yfirumsjón með þessum hópi sem eru mun stærri en við líklega áttum okkur á.

Edwards hefur hinsvegar sagt það sjálfur að hann er góður þegar kemur að samningsviðræðum við umboðsmenn og forsvarsmenn leikmanna. Sala leikmanna Liverpool í tíð Edwards er ekki síður gæðastimill á hans tíma hjá félaginu en leikmannakaupin.

Hjálpar við leit að þjálfara

FSG eru góðir eigendur og enganvegin þekkir fyrir að vera skrautlegir karakterar líkt og við þekkjum hjá fjölmörgum liðum. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir þjálfara þegar kemur að því að velja sér næsta lið. Þeir stjórar sem ættu að koma til greina í staðin fyrir Klopp eru allir í þannig gæðaklassa að hin elítu liðin vilja líka ráða þá. Nóg verður af liðum í sumar sem vantar nýjan stjóra.

Með því að ráða Edwards er ljóst að FSG eru ekkert að fara breyta um stefnu sem var auðvitað viðbúið. Vonandi eru reglubreytingar um eignarhald og vafasama auglýsinga samninga eitthvað að fara jafna leikinn utan vallar og eins ef loksins á að fara eitthvað eftir FFP reglugerðinni. Það rusl fær engan trúverðugleika fyrr en tekið verður á Man City og Chelsea.

Ef að FFP heldur áfram að bíta og ramminn verður þrengri fyrir landslið Saudi Arabíu og Abu Dhabi að dæla peningum í reksturinn gætum við líklega ekki verið betur sett en með Michael Edwards að stjórna leikmannamálum Liverpool.

Hver er Richard Hughes?

Edwards er áhugaverður þar sem við þekkjum hann frá tíma hans hjá Liverpool og vitum að hann er á sömu línu og eigendur félagsins. Það er voðalega erfitt fyrir okkur annars að vita hver er málið þegar kemur að yfirmanni knattspyrnumála og meta þá sem eru orðaðir við það starf.

Monchi hjá Sevilla er t.d. gott dæmi um þetta, hann byggði upp frábært lið með litlum tilkostnaði sem vann ítrekað Evrópudeildina. Hann stóð sig svo vel að Roma keypti hann í nýtt og spennandi verkefni sem þeir voru að smíða undir nýju eignarhaldi. Þar entist hann bara tvö ár af fjögurra ára samningi og fór á endanum aftur heim til Sevilla.

Richard Hughes er t.a.m. ekkert ofboðslega spennandi á pappír fljótt á litið, hann er fæddur 1979 hefur verið hjá Bournemouth frá 2014 og sem yfirmaður knattspyrnumála síðan 2016, byrjaði á sama tíma og Edwards tók við því hlutverki hjá Liverpool.

Hughes var leikmaður hjá Bournemouth á sama tíma og Eddie Howe var leikmaður og fyrirliði liðsins. Hann fór svo til Portsmouth ásamt Eddie Howe þar sem Michael Edwards var starfsmaður. Howe var meiddur í tvö ár frá Portsmouth og fór aftur heim til Bournemouth en Hughes var í níu ár með þeim bláu. Hughes og Howe hafa verið góðir vinir frá því þeir voru unglingar en þarna kynntust þeir Edwards og hafa þessir þrír verið góðir vinir síðan. Hughes og Howe fóru svo að vinna aftur saman hjá Bournemouth þegar Howe var við það að koma þeim í Úrvalsdeild. Það er t.a.m. vanmetið afrek að festa það félag í sess sem Úrvalsdeildarlið.

Eddie Howe undir handleiðslu Hughes hefur t.a.m. átt í töluverðum viðskiptum við Liverpool frá 2016 og augljóslega tengingar milli félaga. Hann keypti Ibe t.a.m. sem gekk ekki upp en líklega vinna þeir það tap aftur til baka með sölu á Solanke. Eins átti Harry Wilson gott lánsár hjá þeim frá Liverpool.

Leikmannakaup eða sölur Bournemouth undir stjórn Hughes öskra ekkert á mann að þennan mann verði Liverpool að fá. Nettó eyðsla félagsins er €245m sem er nú bara helvíti vel i lagt fyrir Bournemouth sem var tvö af þessum tímabilum í Championship deildinni. Nettó eyðsla Liverpool á sama tíma er €383m sem jafnframt segir okkur kannski aðeins afhverju endurkoma Edwards er svona spennandi. Sjáið liðið sem Liverpool er búið að byggja upp fyrir um €140m (nettó) hærri fjárhæð í leikmannakaup en Bournemouth frá sumrinu 2016! Þarna má auðvitað ekki vanmeta hversu miklar tekjur félagið hefur skapað með sölu leikmanna.

Nokkrir af þeim leikmönnum sem Bournemouth hefur verið að selja undanfarin ár hækkuðu líklega um ca. helming í virði daginn eftir að þeir skrifuðu undir hjá nýju liði, Ake, Mings, Danjuma, Wilson, Ramsdale sem dæmi. En þetta eru líka nánast allt leikmenn sem komu fyrir skít á priki til Bournemouth.

Undanfarin tvö tímabil hefur Hughes svo í mjög auknum mæli leitað á markaðinn í Evrópu og gert góð kaup þar

Nettó eyðsla frá 2016 (komu út í hagnaði 2019 og 2020)

Það sem vinnur með Hughes er klárlega það að nördarnir kunna vel að meta hvað hann er að gera og sjá klárlega fyrir sér að hann rétt eins og leikmenn geta gert mun betri hluti á hærra leveli. Roma og Liverpool hafa t.a.m. bæði sýnt áhuga og það eru tveir mjög tölfræðimiðaðir eigendahópar.

En einu meðmælin sem þarf að spá í er að ef Edwards treystir honum er galið fyrir okkur að gera það ekki. Höfum satt að segja ekki hundsvit á hvað gengur á bak við tjöldin og hvernig starfið er nákvæmlega.

Eitt af því sem kannski gæti verið spennandi við að fá Hughes til að leiða viðræður við nýjan stjóra er að hann hefur nýlega unnið með umboðsmanni Xabi Alonso

Last summer, Hughes brought Andoni Iraola to Bournemouth as the club’s new head coach. It will surely be helpful to Hughes and by extension to Liverpool that Iraola is represented by the same management agency as Alonso.

Ráðning Iraola er einnig áhugaverð og eitthvað sem var nokkuð umdeild í sumar en virðist hafa verið góð ákvörðun sem leidd var af Hughes. Gary O´Neil stóð sig frábærlega í fyrra að bjarg Bournemouth en fékk samt sparkið. Hughes hafði meiri trú á hugmyndafræði Iraola.

Hughes sem á fimm landsleiki fyrir Skotland er alin upp í Mílan á Ítalíu og var í akademíu Atalanta þar til hann flutti 14 ára til London og var í unglingaliðum Arsenal í fimm ár. Hann fékk ekki samning þar og fór þá til Bournemouth. Hann talar því eðli málsins samkvæmt ítölsku reiprennandi og á fjóra ítalska veitingastaði í London með bræðrum sínum.

Þetta er allt þræl áhugavert og vonandi að félagið tlkynningu um ráðningu beggja eftir góðan sigur á Man City um helgina.

12 Comments

 1. Frábærar fréttir ef rétt reynist ……. svo ná í Xabi, = plástur á sálartetrið eftir brotthvarf meistara Jurgen Klopp.

  6
 2. Edwards inn aftur eru bestu fréttir frá því að Klopp tilkynnti að hætta. Eins ógeðslega að maður var svekktur og svartsýnn með það þá bæs þetta upp nýja von í brjósti.
  Here we go again! Nýtt ævintýri !

  4
  • FSG eru alvöru eigendur…….þótt ég vildi helst að við stuðningsmenn ættum klúbbinn einsog Madrid og Barcelona…..

   1
   • Myndi nú ekki vilja treysta á að breska ríkið (sérstaklega ekki núverandi stjórnvöld) myndu baila Liverpool jafnoft út oft spænska ríkið hefur gert fyrir Real í gegnum tíðina. Hvað þá núna þegar búið er að þrengja að spænsku risunum og jafna t.d. sjónvarpsréttargreiðslur sem þau nánast einokuðu áður.

    Þýska módelið líklega raunhæfara og ekki eru þau lið beint að bully-a leikmannamarkaðinn

    6
 3. Frábærar fréttir, hlakka til að sjá þetta staðfest.

  Takk fyrir þessa flottu samantekt Einar Matthías.

  3
 4. Hljómar vel, það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði þetta var einmitt að hann myndi hjálpa til við að finna þann sem tekur við, þannig frábærar fréttir og takk Einar

  2
 5. Takk fyrir frábæra grein, þetta kjarnar ágætlega stöðuna eins og hún var núna fyrir helgi og bíðum við nú spennt eftir því að tilkynnt verði um þetta formlega.

  Grunnurinn að velgengni Liverpool í dag var lagður í tíð Edwards í góðu samstarfi með Klopp og sýnir að góður þjálfari og góður stjóri skipta sköpum um gott gengi inn í framtíðina. Þó svo að Klopp sé frábær þá efast ég um að hans árangur væri sem raun ber vitni ef hann hefði ekki haft Edwards með sér. Sama má segja um Edwards. Ef Klopp hefði ekki komið til okkar þá værum við eflaust ekki að tala um Edwards í þessu samhengi núna.

  Nú vonum við bara að tvennt gerist; að þetta raungerist að Edwards og Hughes komi um borð og að það muni skila okkur þjálfara sem smellur saman með þeim og leggur sannarlega grunninn að áframhaldandi heimsyfirráðum okkar!

  Áfram að markinu – YNWA!

  5
 6. Þetta er geggjað!

  En er enginn séns á því að þegar Klopp tilkynnti stjónr LFC í nóvember að hann ætlaði að hætta að þeir hafi farið á fullt og jafnvel klárað málin með nýjum stjóra þá?

  Er ekki séns að Alonso sé hreinlega klár ?? Já eða einhver annar.

  2
 7. Já, nú er Kop.is heldur betur að sanna sig sem fréttaveitu. Ég er að sjá staðfestingu á ráðningu Edwards hérna inni 🙂 er þá ekki næsta skref að síðan verði komin undir væng Blaðamannafélags Íslands?

  Þetta eru frábærar fréttir og sýnir okkur hér á ekki að vera neinn monkey business í þessu moving forward.

  Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en gæti þessi ráðning mögulega opnað dyrnar á að Edwards og Hughes séu með eitthvað nafn þarna úti sem er þeirra #1 target en hefur ekki verið í umræðunni áður?

  4

One Ping

 1. Pingback:

Sparta Prag – Liverpool 1-5

Upphitun fyrir leikinn stóra