Allar færslur eftir Maggi

Liverpool 2 – Sevilla 2

0-1 Ben Yedder 5.mín
1-1 Firmino 21.mín
2-1 Salah 37.mín
2-2 Correa 72.mín

Leikurinn

Tveir hálfleikir. Sá fyrri mjög góður, gáfum reyndar mark en það gerum við oft en eftir það geggjaður sóknarleikur, tvö mörk sem áttu að verða þrjú en vítið sem við klúðruðum á 42.mínútu reyndist dýrkeypt. Ég pirraði mig mjög á aðhlaupi og framkvæmd spyrnunnar hjá Firmino. Í hálfleik virtist allt vera í góðu.

Seinni hálfleikurinn var einfaldlega slakur. Allt önnur orka, Sevilla færðu varnarlínuna sína og djúpa miðjumanninn aftar og skyndilega áttum við engin svör sóknarlega. Þeir jafna eftir barnalegan varnarleik okkar upp úr innkasti og svo voru það þeir sem hefðu getað stolið sigri þegar þeir sluppu einir í gegn í uppbótartíma en brenndu af algeru dauðafæri. Við vorum ráðvilltir og lélegir síðustu 20 mínúturnar og innkoma Coutinho breytti engu.

1 stig niðurstaðan á Anfield. Ekki gott.

Bestu menn Liverpool

Fyrri hálfleikurinn var góður. Mér fannst frábært að sjá Moreno sóknarlega og Salah var á flottum stað. Salah hélt höfði allan leikinn og mér fannst Wijnaldum koma vel út allan leikinn en ansi margir í okkar liði áttu mjög erfitt að halda orkunni allan leikinn.

Vondur dagur

Ég sagði á laugardag að þessi leikur segði svolítið til um veturinn. Eftir stóran skell kemur í ljós hvað í þig er spunnið. Í kvöld var varnarleikurinn a.m.k. jafn lélegur á köflum og gegn City. Fyrra markið þá eru Can og Gomez með lina vörn og Lovren hittir ekki rútínubolta. Seinna markið er innkast, Gomez gleymir sér, Can og Hendo eru gripnir við „ball-watching“ og svæðið milli hafsentanna til að vinna í var svakalegt. Ömurlegur varnarleikur. Meira síðar. Gomez lét svo reka sig útaf í blálokin. Hann átti arfaslakan dag elsku karlinn.

Umræðan

Það þarf ekkert að bíða eftir umræðuefninu.

Lið sem verst svona nær engum árangri. Punktur. Ég veit ekki hvað mér finnst um markmannsskiptin því við kennum ekki Karius um þessi mörk. Varnarlína skipuð Gomez, Lovren, Matip og Moreno féll á þessu prófi ásamt þeirri varnarvinnu sem á að fara fram á miðsvæðinu en sást ekki í kvöld.

Klopp hefur að sjálfsögðu völdin hjá Liverpool og hans verkefni fram í janúar verður að vinna úr þessum hóp einhvern varnarleik. Ég held að við verðum að sætta okkur við það að vera enn á ný skítstressuð í hvert sinn sem lið fer í sókn gegn okkur. Bakverðirnir okkar gefa mikil svæði fyrir aftan sig og bilin milli hafsentanna annars vegar og svo á milli varnar- og miðjulínu eru hreinlega sláandi. Menn ákváðu að kaupa ekki hafsent eða djúpan miðjumann.

Eftir tvo síðustu leiki er ég skíthræddur um að það hafi verið rosaleg mistök því okkar frábæri blitzkrieg-sóknarleikur er að týnast í harakiri-varnarleik.

Næst er Burnley á Anfield.

Það er SKYLDUSIGUR!!!

Spá kop.is – síðari hluti

Þá er komið að seinni hluta spárinnar fyrir ensku deildina hér á kop.is.

Rifjum upp að það eru 10 pennar sem spáðu, 1.sæti gefur 20 stig á meðan 20.sæti gefur 1 stig. Röðun ræðst frá samtölu alls hópsins, mest hægt að fá 200 stig og minnst tíu.

10.sæti Southampton 100 stig

Van Dijk…eða ekki Van Dijk. Það er sennilega spurningin á suðurströndinni núna, þar verða nú þrjú lið í deildinni í sumar og því nokkrir derbyleikir á ferð. Eftir mörg góð þar á undan náðu Southampton sér ekki á strik liðinn vetur í deildinni og þó að þeir færu alla leið í úrslit deildarbikarsins ákváðu eigendurnir að skipta um stjóra. Við starfinu tók fóstursonur Rafans okkar, Mauricio Pellegrino. Hann ætlar sér stóra hluti en hefur enn sem komið er lítið bætt við leikmannahóp Dýrðlinganna. Telja má líklegt að þeir láti Van Dijk fara og muni nota peninginn til að styrkja liðið sitt frekar en orðið er, hingað til hafa þeir sótt sér einn stóran leikmann, varnarmiðjumanninn Mario Lemina frá Juventus. Þeir þurfa að a.m.k. bæta í vörnina hjá sér, ef það tekst verða þeir í efri helmingi deildarinnar, annars gæti vera Pellegrino stoppað jafn stutt og Puel.

9.sæti Leicester 114 stig

Meistarar sem heimurinn tók eftir vorið 2016, skíthælar vorið 2017 þegar þeir spörkuðu Ranieri. Hvað gefur næsti vetur ólíkindatólunum í Leicester? Ekki-leikskáldið Shakespeare fær að halda völdum í Leicester eftir að hafa náð ágætum árangri í lok síðasta tímabils. Hann hefur verið nokkuð iðinn við að styrkja liðið í sumar, stærsta nafnið án vafa Iheanacho frá City auk þess að sækja djúpan miðjumann frá Spáni að nafni Vicente Iborra og síðan varnarjaxlinn Harry Maguire. Allt útlit er þó fyrir að Mahrez yfirgefi svæðið og þó að hann hafi ekki náð sama flugi og áður liðinn vetur þarf Leicester að fylla hans skarð og fá fleiri sóknarmöguleika. Evrópa mun ekki þvælast fyrir þeim næsta tímabil og það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu Öskubuskumeistaraklúbburinn tekur, við höldum þó að hann endi í efri hlutanum þetta árið.

8.sæti West Ham 118 stig

Rétt ofan við Leicester röðum við Hömrunum hans Slaven Bilic. Þeir áttu býsna erfiðan vetur síðast eftir flotta frammistöðu þar á undan og ljóst mál að þeir ætla sér stóra hluti á ný á þessu tímabili. Það er ekki spurning að eitt lykilatriði vandræðanna var flutningur þeirra yfir á Ólympíuleikvanginn í útborg London en þar fengu þeir ansi fá stig framan af mótinu. Það var þó á réttri leið undir lokin og við höldum að þeir haldi áfram á betri braut. Þeir hafa einn skemmtilegasta sóknarmiðjumann deildarinnar í sínum röðum þar sem Manuel Lanzini fer og í sumar bættu þeir við sig tveimur flottum sóknarvopnum í Arnautovic frá Stoke og Chicarito frá Leverkusen. Til að styrkja liðið aftar á vellinum sóttu þeir Joe Hart og Pablo Zabaleta frá City, leikmenn sem hafa reynslu af toppslag. Bilic er gríðarlega metnaðar- og ástríðufullur stjóri sem hikar ekki við að stilla miðið hátt. Við erum á því að West Ham verði á góðu róli í vetur og ekki langt frá baráttu um Evrópusæti.

7.sæti Everton 141 stig

Nágrannar okkar við Stanley Park hafa blásið í herlúðra í sumar. Sóttu Shrek sinn aftur heim eftir langa fjarveru, markmaðurinn Pickford, hafsentinn Keane og Gylfi „okkar“ Sig (sem er 99% mættur þangað) eru menn sem Koeman telur nýtast til að gera alvöru atlögu að efstu sætum deildarinnar. Eins og Gerrard þá teljum við það ekki vera að fara að geras.en það verður þó fróðlegt að sjá hvað öll þessi kaup skila þeim fram á veginn. Koeman virtist hafa margt fram að færa með Southampton en hann var ekki sáttur með árangur síns liðs síðasta veturs og setti heilmiklar kröfur á eigendur „Bitter Blues“ að styrkja liðið. Það hafa þeir gert og nú er pressan á Hollendingnum að sýna fram á árangur, þó má ekki gleyma því að þeirra helsti markaskorari kvaddi í sumar og það skarð er vandfyllt. Það hefur verið hávaði í bláum vinum okkar í sumar og þeir eru feykilega bjartir sýnum þessa dagana. Við skulum sjá hvað verður, við höfum enga ógnartrú á þeim sko, 9 pennar af 10 telja þá langbesta 7.sætislið deildarinnar, einungis einn okkar gaf þeim séns á 6.sæti!

6.sæti Tottenham 163 stig

Það er eiginlega fullkomlega ómögulegt að spá fyrir um gengi Spurs í vetur á þessum tímapunkti. Þegar þetta er skrifað hafa þeir misst einn af lykilmönnum sínum til City og ekkert keypt inn í liðið, bara einmitt það, ekki neitt! Umræðan hefur verið að stærsta hagsmunamál þeirra sé að halda sínum bestu leikmönnum en talað er um að stærri lið séu að horfa til Dele Alli, Kane og Eriksen meðal annarra. Það eiginlega virðist lítið horfa til betri vegar hjá silfurliði síðasta árs, sem mun að auki leika heimaleiki sína á Wembley í vetur. Nokkuð sem við teljum líklega ekki virka þeim til góða líkt og sást í leikjum þeirra í Meistaradeildinni á liðnum vetri, lið munu hafa virkilega gaman af því að spila á Wembley, ólíkt White Hart Lane. Að þessu sögðu hefur Pocchetino náð frábærum árangri með liðið undanfarin ár og það er alveg klárt að hann ætlar sér að halda því til streitu. Tottenham verður stórt spurningamerki í vetur, við höldum að þeir endi utan CL-sæta og veturinn verði þeim því vonbrigði.

5.sæti Arsenal 164 stig

Sjónarmun á undan grönnum sínum eru Skytturnar í spánni okkar (minnsti munur liða í spánni – eitt stig) og það er stórt ár framundan hjá Wenger. Í fyrsta sinn á hans Arsenal-ferli verður liðið hans ekki í Meistaradeildinni og það er alveg klárt að hann þarf heldur betur að bæta það upp á þessari leiktíð. Sigur í FA bikarnum virðist ekki telja eins mikið og hér áður fyrr, hvað þá það að hafa græjað Góðgerðarskjöldinn um liðna helgi gegn Chelsea. Arsenalfólk er vægt til orða tekið á taugum með það hvort Alexis Sanchez verður með í vetur, það er fullkomið lykilatriði til að árangur náist, sem og það að stoppa upp í leka vörn liðsins. Kaupin á Lacazette styrkja sóknarlínu skyttanna þó verulega að okkar mati en það mun þó ekki duga til meistaradeildarsætis, hvað þá að vinna titilinn eins og stjórinn er að daðra við.. Síðasta tímabil Wenger? Líklega…..

4.sæti Chelsea 169 stig

Hrun 2016 og meistarar 2017. Antonio Conte hóf síðasta tímabil ekki vel og eftir 0-3 skell gegn Arsenal virtist jafnvel orðið ansi heitt undir sætinu hans stuttu eftir ráðningu. Þá sneri Ítalinn sjóðheiti dæminu heldur betur við og afraksturinn varð enski meistaratitilinn. Í sumar hefur ansi margt gengið á hjá þeim bláklæddu á Brúnni. Matic seldur óvænt til United, Terry ákveður að láta gott heita og það virðist klárt að Diego Costa yfirgefur liðið. Stærsta spurningamerkið er hvernig valdajafnvægið er á Brúnni, ef að kjaftasögur eru réttar um það að hann Roman sé enn á ný farinn að skipta sér verulega af leikmannakaupum og uppstillingu klúbbsins er fjandinn laus því stjórinn Conte mun ekki sætta sig svo glatt við það. Ein stóra ástæða titilsigursins í fyrra var útfærsla leikkerfisins 3-4-3. Það er hins vegar ljóst að nú hefur það óvænta horfið úr útfærslu þess og verkefni Conte verður að standa við þau orð sín að tímabilið verði ekki „Mourinho tímabil“ og nú sé komið að því að enskir meistarar geti á ný barist um titil árið eftir sigur. Ef hins vegar Roman verður kjáni og Conte stingur af fer enn af stað uppbyggingarferli af stað hjá CFC og þeir enda neðar en þessi spá…

3.sæti Liverpool 175 stig

Þá kom dómurinn. Þriðja sætið verður okkar hlutskipti, öruggt Meistaradeildarsæti haustið 2018 en enginn meistaratitill. Auðvitað tengist þessi spá því að við höfum leikið vel á undirbúningstímabilinu eftir fína leiktíð í fyrra en við erum líka á því að liðið þarfnist enn styrkingar, a.m.k. í vörninni en líka að auka möguleikana á miðjunni. Við teljum leikmannahópinn ekki vera tilbúinn að verða meistarar á tímabili þar sem við endurnýjum kynni okkar við Meistaradeildina og lærum það aftur (förum áfram gegn Hoffenheim) en gerum okkur von um bikar í einhverri þeirra þriggja bikarkeppna sem við leikum í þennan veturinn. Sterk kaup (við erum auðvitað að tala um Van Dijk) og það að við höldum Coutinho og sleppum vel við meiðsli…já, þá getum við látið okkur dreyma. Við röðuðum liðinu okkar á nokkra staði. Tveir spáðu 5.sæti, þrír spáðu 4.sæti, þrír spáðu 3.sæti og tveir spáðu 2.sæti. Svo á því bilinu teljum við okkur vera að horfa á klúbbinn í dag.

2.sæti Manchester United 178 stig

Mourinho slapp fyrir horn í fyrra þegar hann hirti tvo bikara eftir ansi dapurt gengi í deildinni. Auðvitað var það það sigurinn í Evrópudeildinni sem öllu máli skipti þar sem það þýðir aðgang að Meistaradeildinni. Mourinho þekkir auðvitað það að ná árangri og það yfirskyggir það að liðin hans eru álíka skemmtileg á að horfa og málarameistari á rigningardegi. Kaupin í sumar á Matic voru klárlega þau sem Móri helst vildi, sá mun verja hafsentana og koma þannig í veg fyrir mörk en á sama hátt er honum svo ætlað að gefa Pogba, Martial og Lukaku leyfi til að sækja að marki – nokkuð sem ætti að styrkja þá. Á sama hátt megum við ekki gleyma því að þeir missa stóran karakter úr klefanum með Rooney og enn er ekki víst hvað verður um Zlatan. Við teljum því að þrátt fyrir mikla eyðslu í suma og reynslu Móra muni þetta ekki duga United til að vinna enska titilinn að okkar viti, en ekki er hægt að útiloka titla til hins portúgalska leiðindapúka. Við vonum auðvitað heilshugar að þessi spá sé tómt bull og þeir verði í algeru basli í vetur…en spáin hefur talað.

1.sæti Manchester City 200 stig

Stórar fréttir í sögu spár okkar á kop.is. Aldrei áður hefur lið fengið fullt hús stiga í okkar spá. Jafnvel þó okkur hafi fjölgað úr sex í tíu erum við allir sammála. Ljósbláa liðið frá Manchester er sterkast og miðað við tölfræði spárinnar þá verður það með nokkrum yfirburðum.

Enda er algerlega klárt mál að Manchester City hafa sett sér það markmið að endurheimta meistaratitilinn eftir tveggja ára bið. Í raun ótrúlegar upphæðir settar í liðið enn eitt sumarið og alls ekki ólíklegt að þeir bæti við áður en glugginn lokar. Vandi þeirra á liðinni leiktíð lá í varnarleiknum og þar hafa áherslur þeirra í sumar legið, m.a. með kaupum á einum aðalleikmanni liðsins í 2.sæti. Það er fullkomlega ljóst að Guardiola hefur lokið sínum hveitibrauðsdögum á Etihad og allt annað en enski titillinn eða sigur í Meistaradeildinni mun verða til þess að nýr stjóri myndi stýra þeim ljósbláu frá næsta sumri. Guardiola var jú hundsvekktur með fyrsta árið en hefur með kaupum á þremur sóknarbakvörðum, skapandi miðjumanni og betri markmanni klárlega stígið skref til að vera með lið í þeim anda sem hann vill. Það hefur ríkt mikil umræða um feril Spánverjans sem stjóra en það er auðvitað alveg ljóst að ef að hann nær að verða meistari í ensku deildinni til að bæta við sigra í spænsku og þýsku deildunum hefur hann endanlega sannað sig í heimi hinna stóru stjóra og getur farið að hugsa um að hætta líkt og hann hefur áður rætt.

City verða meistarar krakkar, annað væri stórslys!!!

Þar með lýkur spánni þetta árið, nú er að sjá hvað viðbótin í pennahópinn skilar okkur, það verður auðvitað Daníels að gera málið upp í vor…og nú er hann samsekur!!!

Spá kop.is – fyrri hluti

Já krakkar.

Sá tími er kominn aftur – mótið handan við hornið og þá sáum við auðvitað drengirnir. Við ætlum ekki að bíða eftir gluggalokum að þessu sinni með spána, heldur ætlum við að demba okkur núna í hana þó að ljóst sé að á næstu 22 dögum munu liðin taka einhverjum stakkaskiptum.

Eins og áður röðum við liðunum í sæti 1 – 20 og stigatalan sem liðin geta fengið er svo í öfugri röð þar sem fyrsta sætið fær 20 stig og síðasta sætið 1 stig.

Með innkomu nýrra penna erum við nú tíu sem að spáum svo að hæsta mögulega stigatala út úr spánni er 200 stig og sú minnsta mögulega 10 stig.

Dembum okkur í þetta. Í dag skoðum við sæti 11 – 20 í deildinni og á morgun förum við í efri helminginn. Frá botni og niður.

20.sæti Huddersfield 19 stig

Nýliðarnir undir stjórn svaramanns Klopparans verða neðstir í deildinni. Þetta er jú nokkuð klassískt þar sem að liðið sem að kemst upp í gegnum playoffs er nú yfirleitt það sem að við setjum neðst í röðina í spánni. Stjórinn David Wagner hefur náð mögnuðum árangri með Jórvíkurskírisliðið sem hefur lifað í skugga nágranna sinna í Leeds og Sheffield lengi en er nú með þeirra bestu í fyrsta sinn síðan 1972. Árangur liðsins byggðist á gríðarlega öflugum varnarleik og frábærrar frammistöðu Danny Ward sem við lánuðum þeim og því hefur sumarið þeirra farið í það að styrkja sóknarleikinn. Stærstu kaup þeirra eru í sóknarlínunni, franski framherjinn Steve Mounie kom frá Montpellier og Tom Ince fyrrum LFC unglingur fær séns í efstu deildinni eftir að þeir keyptu hann frá Derby. Við teljum Huddersfield þó ekki ráða við þetta skref og þeirra bíði fall beint niður aftur.

19.sæti Brighton 24 stig

Aðrir nýliðar lenda í næst neðsta sæti í okkar spá. Þeir eru nú í fyrsta sinn á meðal þeirra bestu síðan 1984 eftir margra ára toppbaráttu í næst efstu deildinni. Lærisveinar Chris Hughton náðu loksins langþráðum áfanganum og ætla sér stóra hluti. Borgin er jú stór ferðamannaborg og ber toppdeildarlið. Þeir opnuðu nýjan völl árið 2011 sem ber nafnið American Express stadium og tekur tæplega 31 þúsund áhorfendur. Þeir hafa spilað léttleikandi fótbolta undanfarin ár og þeir ætla sér að halda í þann stíl. Enn sem komið er hafa þeir ekki bætt við mörgum leikmönnum en eru orðaðir við ansi hreint marga og þá ekki síst lánsmenn frá stóru liðunum. Markvörðinn Matthew Ryan og hollenski miðjumaðurinn Davy Propper eru stærstu kaupin enn sem komið er. Það er líkt og með Huddersfield, við teljum þetta skref vera of stórt fyrir Brighton menn og hlutskipti þeirra verði að falla niður strax. Hins vegar er þetta lið að ná góðum grunni og við höldum að það verði oftar í efstu deild á næstu árum. Stutt stopp núna.

18.sæti Swansea 29 stig

Við gefum okkur það vissulega að Gylfi Sigurðsson yfirgefi Svanina í sumar og þó að þeir fái mikinn pening fyrir hann þá verður skarðið alltof stórt enda dró hann welska vagninn næstum því einn síðasta tímabil. Þjálfararót undanfarinna ára og eigendaskipti eru alls ekki að hjálpa neitt til og það er í raun alveg ótrúlegt að þeir hafa í raun ekki stigið inn á markaðinn ennþá, einungis spænskur miðjumaður, Rogue Mesa, mættur til leiks. Paul Clement náði fínum tökum á liðinu en það var fyrst og fremst samstarf Gylfa og Llorente sem hélt þeim uppi. Vera Swansea í efstu deild verður ekki lengur um sinn, það er einfaldlega of mikið af veikum hlekkjum til að því verði bjargað fyrir gluggalok.

17.sæti Burnley 32 stig

Segja má að Burnley séu efstir í fjögurra liða fallbaráttukeppninni hjá okkur. Þessi fjögur lið voru í neðstu fjórum sætunum hjá níu pennum af tíu og skera sig því nokkuð úr í fallbaráttunni í deildinni. Burnley eru kynlegir kvistir í sumar, hafa selt lykilmenn eins og Keane og Gray en hafa í staðinn sótt reynslumenn eins og Phil Bardsley og Jon Walters, einu stóru kaupin Jack Cork frá Swansea. Þeir hafa ungan og skemmtilegan stjóra í Sean Dyche og náðu frábærum árangri á heimavelli, þar sem nær öll stigasöfnun þeirra fór fram og þeir voru í raun aldrei í alvöru fallhættu. Það verður upp á teningnum að okkar mati en þeir munu halda sér naumlega uppi, líklega í stressi alveg fram á síðustu umferð. Þeir eiga þó örugglega eftir að fara inn á markaðinn áður en glugginn lokar og gætu þá mögulega farið aðeins ofar.

16.sæti Watford 60 stig

Eins og sjá má kemur nú nokkuð stökk frá hörðustu fallbaráttunni og upp í liðin sem verða neðan við miðju en líklega ekki í alvöru fallbaráttu. Fyrst er þar nefnt til sögunnar liðið sem verður mótherji okkar manna í fyrstu umferð, Watford. Við erum flestir að horfa til þess að stjórinn þeirra er býsna spennandi, Portúgalinn Marco Silva var ekki langt frá því að halda drepleiðinlegu Hull City liði uppi á síðasta ári og við höfum trú á þessum strák. Watford hafa styrkt sig í gegnum sumarið. Hinn endalaust efnilegi Will Hughes kemur loks inn í efstu deild, þeir festu kaup á Tom Cleverley sem var hjá þeim í láni, keyptu Brassann Richarlison frá Fluminese á kantana og nú nýjast sóttu þeir stóran framherja til að vera með Deeney frammi í Andre Gray frá Burnley. Liðið er gríðarlega sterkt líkamlega og mun byggja á því sinn leik. Það mun skila þeim öryggi og áframhaldandi veru í efstu deild sem byggir klúbbinn upp áfram, en sennilega ekki endilega búa til sterkan lýsingarorðaflaum um leikstílinn.

15.sæti Bournemouth 72 stig

Það er ekkert lógískt við það að lið með 12000 manna heimavöll frá snoturri strandarborg sé að hefja sitt þriðja tímabil í deild ensku risanna. Það sem meira er, við teljum þá munu sigla ansi lygnan sjó lærisveina Eddie Howe í Bournemouth. Talandi um spennandi stjóra þá er hann nú sennilega stærsta von Breta um að eiga upprennandi stjóra. Hann er gríðarlega sterkur taktískt og hefur sett saman lið sem er hlaðið orku og fullt af skemmtilegum leikmönnum, það lið sem við fengum fæst stig af í fyrra, aðeins eitt talsins. Þeir sóttu sér markmann til Chelsea þar sem Begovic var og hann mun styrkja þá töluvert. Nathan Ake kom til þeirra á ný og nú varanlega frá sama liði og Jermain Defoe valdi þá úr stórum hópi liða til að leika með. Ævintýrið er ekkert að klárast og litla liðið með stóra hjartað verður áfram í deildinni að lokinni þessari leiktíð.

14.sæti WBA 78 stig

Hvernig toppar maður það að hafa Tony Pulis sem stjóra? Jú, ráðum fokking GARY MEGSON sem aðstoðarstjórann. Hvað getur maður sagt, varnarstíllinn og háloftaboltinn mun fá enn meiri vigt en áður og var nú nóg samt. Pulis fellur aldrei og mun alltaf verða Liverpool FC erfiður, það er bara þannig. Án vafa minnst spennandi liðið í deildinni, Pulis tókst það á mettíma með WBA. En þeir verða öruggir um sæti sitt. Sjitt, get ekki skrifað meira um þá!!!

13.sæti Stoke 83 stig

Mark Hughes sest sæti ofar en fyrirrennarinn Pulis hjá Stoke. Hughes hefur verið að reyna að breyta leikstílnum í áferðarfallegri fótbolta en hefur kannski ekki náð þeim árangri sem hann hefur ætlað sér. Hann hefur verið mjög duglegur að hreinsa út leikmenn úr gamla stílnum þar sem Bardsley, Walters, Whelan og Arnautevic hafa róið á önnur mið. Í staðinn hafa þó ekki hrannast inn nöfn, hann fékk Darren Fletcher til sín frá WBA og síðan Kurt Zouma í láni frá Chelsea. Þessa dagana fara víða sögur af þeim nöfnum sem Hughes vill fá til Stoke og þar er lykillinn að því sæti sem við setjum hann hér í. Liðið er orðið rútinerað á meðal þeirra efstu og getur klárlega bætt í leikmannahópinn sinn og mun gera það. Sérstaklega vantar þá að finna markaskorara, það hefur þá vantað nú um langa stund. Ef Hughes nær ekki í sterka leikmenn fyrir lokun gluggans gæti veturinn hins vegar orðið Stoke býsna erfiður.

12.sæti Crystal Palace 85 stig

Velkomnir til nútímans Palace! Eftir magnaðan stjóralista (Warnock – Pulis – Pardew – Allardyce…er þetta bara hægt!!!) beygðu þeir skarpt á aðra braut í vor þegar þeir sóttu Frank de Boer frá hollenska stórliðinu Ajax og tilkynntu um leið að þeir ætluðu sér stóra hluti á komandi árum. Sammy okkar Lee er enn að aðstoða og mikið er ég nú ánægður fyrir hans hönd með breytingu á yfirmanni. Enn sem komið er hefur de Boer verið að horfa til þeirra leikmanna sem hann er nú með og hefur keppst við að hrósa mönnum eins og Zaha, Cabaye og Benteke. Úrslitin í sumar hafa svolítið verið út um allt og hann virðist ekki alveg vera kominn með það lið sem hann ætlar sér að hafa. Þó hefur það verið gefið út að leikmennirnir fái margir fram í janúar til að sanna sig og að gríðarlega mikil vinna hafi farið fram á æfingavellinum því de Boer ætlar sér stærri hluti og stærra lið, metnaðarfullur fullkomnunarsinni þar á ferð. Suður London drengirnir eru með magnaðan heimavöll sem mun hjálpa þeim til að sigla lygnan sjó um miðja deild þetta árið…og byggja klúbbinn upp til að verða topp tíu material á næstunni.

11.sæti Newcastle 96 stig

Tvö orð. Rafa Benitez. Á hans persónu byggjum við þessa spá. Rafa er hundósáttur með sumarið hingað til og hefur ekki fengið þá leikmenn til sín sem hann óskar sér til að taka þátt í baráttunni í efri hlutanum. Einungis Jacob Murphy (frá Norwich)og Florian Lejeune (frá Eibar) eru að bætast við í leikmannahópinn sem er í lykilhlutverki og við það þarf vissulega að bæta. Newcastle hafa verið jójólið nú í nokkra áratugi og þurfa einfaldlega að fara algerlega að óskum stjórans síns til að ná þeim árangri sem liðið og áhangendur verðskulda. Rafa hefur áður stigið frá félagi sem ekki hefur farið að óskum hans og því teljum við líklegt að við leikmannahópinn bætist og galdrakarlinn okkar góði eyði þessari leiktíð í að ná stöðugleika í efstu deild og það muni takast. Ef hann hins vegar fær ekki stuðning gæti hæglega farið illa. Sennilega stærsta spurningamerki vetrarins???

Þetta var fyrri helmingur spárinnar okkar, seinni hlutinn birtist fyrri part fimmtudags áður en upphitun fyrir fyrsta leik dettur inn!

Verðlækkun á kop.is ferð!

Þær ánægjulegu fréttir voru að berast að tekist hefur að ná verði hópferðar okkar á leik Liverpool og Huddersfield niður.

Allar upplýsingar um ferðina er að finna á bókunarvef Úrvals Útsýnar. Ekki þarf að taka fram að verðlækkunin mun að sjálfsögðu eiga við um þá sem þegar hafa bókað sig.

Hlökkum til að sjá samferðalanga í borg Guðanna í októberlok!

Uppfært: Hoffenheim framundan í CL / Lallana meiddur

Þá er komið í ljós hver mótherjinn verður í umspili fyrir Meistaradeildina.

Það er ekki einfalt verkefni að þessu sinni, þýska liðið Hoffenheim verður fyrirstaðan í því að við komumst inn í riðlakeppnina.

Við hefjum leik í Þýskalandi 15. eða 16.ágúst og síðari leikurinn er á Anfield viku síðar.

Það er bara ekkert sem heitir…við verðum að klára þetta dæmi!


Uppfært: Adam Lallana meiddur
Opinber heimasíða félagsins var að staðfesta það rétt í þessu að Adam Lallana verður meiddur í 2-3 mánuði vegna meiðsla sem hann hlaut eftir síðasta leik. Enganvegin fréttir sem Liverpool mátti við og pressan er ekkert minni núna á félaginu að bæta við nýjum leikmönnum. Þessi neglir þetta vel: