Allar færslur eftir Maggi

Andy Robertson mættur

Við svosem vissum öll að þetta væri að detta inn en það er komin staðfesting á leikmannakaupum númer þrjú í sumar.

Mér finnst alltaf skemmtilegast þegar maður sér fallega ritað um leikmanninn þegar hann er mættur á opinberu síðuna nú þessi ár þegar internetið sér eiginlega alfarið um það að færa fólki fréttir.

Ég var að hlusta á fyrsta viðtalið við þennan strák, sem er jú skoskur landsliðsmaður og leikmaður sem hefur oft verið orðaður við okkur. Hann sagði alla réttu hlutina og greinilega afskaplega spenntur fyrir því tækifæri sem honum er rétt hjá Liverpool.

Við sem munum áratugi til baka erum auðvitað extra glaðir með það að vera með Skota í leikmannahópnum á Anfield og miðað við verðmiða upp á 10 milljónir punda held ég að við getum bara verið yfirveguð með að hafa fengið þennan strák til okkar. Við höfum í staðinn selt Kevin Stewart til Hull og þar er talað um að mögulega sé um 8 milljóna pakka að ræða…en ótengd leikmannaskipti samt.

Robertson fer ekki til móts við liðið í Hong Kong, er með Can, Sakho og einhverjum fleirum á Melwood. Mæli alveg með því að þið kíkið á viðtölin og efnið…svona þangað til við fáum númer fjögur inn í hópinn sem verður örugglega stærra nafn.

Velkominn Andy!

Tranmere 0- Liverpool 4

Fyrsti æfingaleikur að baki, gegn nágrönnum okkar í Tranmere hinu megin við Mersey-ána.

Þeir sem vilja fá frekari skýrslu geta litið á þessa af opinberu síðunni en í stuttu máli þá er þetta útgáfan:

Milner skoraði úr víti og Marko Grujic með langskoti í fyrri hálfleik. Skipt að mestu um allt liðið í hálfleik og Chirivella skoraði fljótlega í seinni hálfleik og Woodburn úr öðru víti. Flottur leikur og á fínu tempói.

Fyrst og síðast var mjög gaman að fylgjast með ungu mönnunum, það er alveg ljóst að þeir verða ekki allir í liði og hóp en ég hef fulla trú á því að margir þarna eigi bara einhverja framtíð í boltanum, ef ekki með LFC þá í öðrum liðum.

Grujic, Ojo og Alexander Arnold fannst mér bestir, Solanke leit skemmtilega út og Woodburn var ansi beinskeyttur.

Mikið ofboðslega er nú gaman að sjá Liverpool aftur í sjónvarpi, jafnvel þó um æfingaleik sé að ræða og sá næsti er skammt undan, gegn Wigan strax á föstudaginn.

Komdu með í ferð til Liverpool

OPNAÐ FYRIR BÓKANIR

Þá er allt klappað og klárt og engin ástæða til að bíða lengur með að tryggja sér miða í fyrri kop.is-ferðina á fyrri hluta næsta leiktímabils.

Mótherjinn að þessu sinni verða nýliðar Huddersfield með svaramann Klopparans, David nokkurn Wagner við stjórnvölinn. Leikurinn er lokahelgina í október og tilvalið að skella sér í síðustu haustsólargeislana og fanga menninguna.

Allar nánari upplýsingar um ferðina er að finna á bókunarvef Úrvals Útsýnar sem er opinn frá og með deginum í dag.

Hágæðahópferð eldheitra Púlara.

KOMDU MEÐ!!!

Uppfært – Dom Solanke að mæta á Anfield

Uppfært

Opinbera heimasíðan er er búin að staðfesta að Solanke mun ganga til liðs við Liverpool FC 1.júlí næstkomandi.

Fyrstu leikmannakaup sumarsins virðast vera klár.

Samkvæmt Liverpool Echo mun Dominic Solanke ganga til liðs við okkar menn nú í sumar. Hann er að renna út á samningi hjá Chelsea í sumar og hefur samþykkt launapakka Liverpool FC. Reiknað er með að við þurfum að greiða Chelsea 3 milljónir punda í uppeldisbætur.

Hér er á ferð strákur sem hefur verið mjög eftirsóttur nú í vetur eftir að varð ljóst að hann hefði ekki þolinmæði lengur að berjast um sæti í Chelsea liðinu og nú virðumst við hafa unnið það kapphlaup.

Hann er fæddur 1997 og hefur leikið fyrir öll yngri ensku landsliðin,nú síðast U21s árs liðið. Hann hefur mest spilað uppi á toppi sem hrein nía en líka leyst kantframherjastöður og sem tía undir framherjanum. Hann hefur leikið 17 mínútur fyrir Chelsea (í 6-0 Meistaradeildarsigri gegn Maribor haustið 2015) en lék í fyrra sem lánsmaður hjá Vitesse í efstu deildinni í Hollandi og hér er að finna klippur frá veru hans þar auk þess sem á kantinum er að finna fleiri slíkar klippur.

Þessi strákur hefur verið umtalað efni og er klárlega að fara að hefja leik í U23ja ára liðinu okkar. Það er þó alveg ljóst að hann er að skipta um lið eingöngu vegna þess að hann vill fara að spila alvöru leiki og það er morgunljóst að í umræðum við LFC hefur sú umræða verið í gangi.

Það er ljóst að framherjarnir eru orðnir ansi margir ef við rúllum upp Sturridge, Ings, Origi, Woodburn og Firmino í þessa jöfnu með Solanke. Hann getur þó vissulega verið á kanti líka sem eykur líkur á því að hann fái leiki en tíminn mun leiða í ljós hvað þetta þýðir fyrir meiðslapésana okkar í þessum hópi…eða fyrir þá ungu þar.

Það virðist allavega vera rétt sem Klopp sagði um það að Liverpool yrðu snemma á leikmannamarkaði sumarsins.

Velkominn Dom, megirðu vera óvænti demanturinn í okkar liði næsta leiktímabil!

West Ham 0 – Liverpool 4 (skýrsla)

0-1 Daniel Sturridge 35.mín
0-2 Coutinho 57.mín
0-3 Coutinho 61.mín
0-4 Divorck Origi 76.mín

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Algerlega frábær frammistaða hjá öllum í liðinu, það er augljóst þegar þú ferð með lið á útivöll gegn liði sem hefur valdið þér vandræðum undanfarið að þegar þú slátrar leiknum svo 4-0 að þar hafa allir 11 skilað sínu. Mignolet þurfti að verja og grípa inní og það gerði hann vel, vörnin var fín utan við eitt horn og miðjan tikkaði vel í demantinum. Hins vegar er það alveg klárt að það voru tveir leikmenn sem báru af. Fyrst er að nefna Daniel Sturridge sem er auðvitað bara heimsklassa framherji þegar hann er heill. Þegar hann var kominn einn í gegn var ekki vafi í manns huga hvað væri að fara að gerast – hann einfaldlega klárar svona færi. Kvikur og líflegur og stanslaus hausverkur fyrir varnarmenn West Ham. Hann mun skipta miklu máli um næstu helgi gegn varnarmúr á Anfield.

Hinn er svo auðvitað maður leiksins Coutinho. Flott sending á Daniel í marki 1 og svo þvílík yfirvegun í mörkum 2 og 3. Þessi leikmaður vill vera í Meistaradeildinni á næsta ári og þar á hann auðvitað að vera. Þetta leikkerfi er auðvitað smíðað fyrir hann og í dag þegar vörn mótherjanna þurfti að vera aftarlega vegna láta Sturridge fékk hann það svæði og næði sem hann þarfnast til að gera sitt. Sem hann heldur betur gerði. Heimsklassa fótboltamaður!

VONDUR DAGUR

Sumir leikir gefa ekkert tilefni til að velja einhvern sem á vondan dag hjá Liverpool. Þessi var einn slíkur.

Kannski á maður að vera bara pínu kaldhæðinn og minnast á Swarbrick sem að sleppti augljósu víti á okkur og stoppaði ekki leik við höfuðmeiðsl í atvikinu sem leiddi svo til þess að við fengum skyndisókn og skoruðum mark númer þrjú. En það var bara fínt að fá ýmislegt til baka sem við höfum lent í þennan veturinn í flautumálunum.

UMRÆÐAN EFTIR LEIK

* Ótrúlegt gengi á erfiðum útivöllum að undanförnu. Stoke, WBA, Watford og West Ham verið lögð og það er bara ekki sjálfgefið neitt! Alveg ljóst að það er til að auka sjálfstraust til framtíðar að ná slíkum úrslitum og í fyrsta sinn töpuðum við engum leik í London á tímabilinu – aftur eitthvað til að byggja á til framtíðar.

* Leikkerfið. Á viku held ég að þjálfarateymið hafi lært margt. Upplegg leiksins síðast var að halda bolta og fókus og ákveðin varkárni í gangi með 4-2-3-1 kerfið en í dag kom 4-4-2 með aggressívum sóknarleik og hápressu. Það þýddi auðvitað opnari leik en áður og með menn eins og Sturridge og Coutinho í þessum gír steinliggur það. Að mínu mati er þetta a.m.k. plan B fyrir okkar menn til framtíðar, við vitum öll að Sturridge er tæpur en Mané er smíðaður í framherjann í þessu kerfi. Öflugur senter (sækjum bara Suarez krakkar)sem tekur til sín í hinni framherjastöðunni og við erum klár í slaginn.

* Hápressan. Velkomin aftur. Góður fyrri hálfleikur þar sem við náðum að vinna boltann nokkrum sinnum hátt en fyrstu 25 mínútur seinni hálfleiks var með því besta sem við höfum séð þetta tímabilið. Ofboðsleg óþreytandi pressa sem át orku West Ham upp.

* Daniel Sturridge. Hvernig værum við eiginlega stödd ef hann væri heill. Sennilega er hann að kveðja Anfield eftir næsta leik, sem er auðvitað mikil synd því þetta er frábær leikmaður. Þessi frammistaða í dag minnir vel á hann og verður a.m.k. til þess að við munum fá stórt tilboð í hann…kannski frá West Ham bara???

NÆSTU VERKEFNI

Fyrst við unnum þá erum við komin í úrslitaleik – og nú á heimavelli.

Middlesboro’ eru fallnir. Það þýðir tvennt. Þeir munu koma mótiveraðir til þess að kveðja deildina almennilega sem lið og leikmenn til að reyna að fá athygli liða í deild þeirra bestu án pressu. Það þýðir líka það að stress og neikvæðni vetursins gerir vart við sig þegar þeir verða fyrir mótlæti.

Þetta vita okkar menn og uppleggið klárt. Þess utan hefur nú verið sett pressa líka á ná 3.sæti. City eiga heimaleik við WBA í vikunni einu stigi undir okkur og með einu mark betra í markatölu og enda svo í Watford. Svo að þegar við leggjum af stað í þessa viku erum við á þeim stað að geta náð 3.sætinu og þar með beint í riðlakeppni CL en líka séns á að enda í 5.sæti og EL næsta vetur.

Stór vika framundan fyrir Klopp og félaga.