Allar færslur eftir Maggi

West Ham 0 – Liverpool 4 (skýrsla)

0-1 Daniel Sturridge 35.mín
0-2 Coutinho 57.mín
0-3 Coutinho 61.mín
0-4 Divorck Origi 76.mín

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Algerlega frábær frammistaða hjá öllum í liðinu, það er augljóst þegar þú ferð með lið á útivöll gegn liði sem hefur valdið þér vandræðum undanfarið að þegar þú slátrar leiknum svo 4-0 að þar hafa allir 11 skilað sínu. Mignolet þurfti að verja og grípa inní og það gerði hann vel, vörnin var fín utan við eitt horn og miðjan tikkaði vel í demantinum. Hins vegar er það alveg klárt að það voru tveir leikmenn sem báru af. Fyrst er að nefna Daniel Sturridge sem er auðvitað bara heimsklassa framherji þegar hann er heill. Þegar hann var kominn einn í gegn var ekki vafi í manns huga hvað væri að fara að gerast – hann einfaldlega klárar svona færi. Kvikur og líflegur og stanslaus hausverkur fyrir varnarmenn West Ham. Hann mun skipta miklu máli um næstu helgi gegn varnarmúr á Anfield.

Hinn er svo auðvitað maður leiksins Coutinho. Flott sending á Daniel í marki 1 og svo þvílík yfirvegun í mörkum 2 og 3. Þessi leikmaður vill vera í Meistaradeildinni á næsta ári og þar á hann auðvitað að vera. Þetta leikkerfi er auðvitað smíðað fyrir hann og í dag þegar vörn mótherjanna þurfti að vera aftarlega vegna láta Sturridge fékk hann það svæði og næði sem hann þarfnast til að gera sitt. Sem hann heldur betur gerði. Heimsklassa fótboltamaður!

VONDUR DAGUR

Sumir leikir gefa ekkert tilefni til að velja einhvern sem á vondan dag hjá Liverpool. Þessi var einn slíkur.

Kannski á maður að vera bara pínu kaldhæðinn og minnast á Swarbrick sem að sleppti augljósu víti á okkur og stoppaði ekki leik við höfuðmeiðsl í atvikinu sem leiddi svo til þess að við fengum skyndisókn og skoruðum mark númer þrjú. En það var bara fínt að fá ýmislegt til baka sem við höfum lent í þennan veturinn í flautumálunum.

UMRÆÐAN EFTIR LEIK

* Ótrúlegt gengi á erfiðum útivöllum að undanförnu. Stoke, WBA, Watford og West Ham verið lögð og það er bara ekki sjálfgefið neitt! Alveg ljóst að það er til að auka sjálfstraust til framtíðar að ná slíkum úrslitum og í fyrsta sinn töpuðum við engum leik í London á tímabilinu – aftur eitthvað til að byggja á til framtíðar.

* Leikkerfið. Á viku held ég að þjálfarateymið hafi lært margt. Upplegg leiksins síðast var að halda bolta og fókus og ákveðin varkárni í gangi með 4-2-3-1 kerfið en í dag kom 4-4-2 með aggressívum sóknarleik og hápressu. Það þýddi auðvitað opnari leik en áður og með menn eins og Sturridge og Coutinho í þessum gír steinliggur það. Að mínu mati er þetta a.m.k. plan B fyrir okkar menn til framtíðar, við vitum öll að Sturridge er tæpur en Mané er smíðaður í framherjann í þessu kerfi. Öflugur senter (sækjum bara Suarez krakkar)sem tekur til sín í hinni framherjastöðunni og við erum klár í slaginn.

* Hápressan. Velkomin aftur. Góður fyrri hálfleikur þar sem við náðum að vinna boltann nokkrum sinnum hátt en fyrstu 25 mínútur seinni hálfleiks var með því besta sem við höfum séð þetta tímabilið. Ofboðsleg óþreytandi pressa sem át orku West Ham upp.

* Daniel Sturridge. Hvernig værum við eiginlega stödd ef hann væri heill. Sennilega er hann að kveðja Anfield eftir næsta leik, sem er auðvitað mikil synd því þetta er frábær leikmaður. Þessi frammistaða í dag minnir vel á hann og verður a.m.k. til þess að við munum fá stórt tilboð í hann…kannski frá West Ham bara???

NÆSTU VERKEFNI

Fyrst við unnum þá erum við komin í úrslitaleik – og nú á heimavelli.

Middlesboro’ eru fallnir. Það þýðir tvennt. Þeir munu koma mótiveraðir til þess að kveðja deildina almennilega sem lið og leikmenn til að reyna að fá athygli liða í deild þeirra bestu án pressu. Það þýðir líka það að stress og neikvæðni vetursins gerir vart við sig þegar þeir verða fyrir mótlæti.

Þetta vita okkar menn og uppleggið klárt. Þess utan hefur nú verið sett pressa líka á ná 3.sæti. City eiga heimaleik við WBA í vikunni einu stigi undir okkur og með einu mark betra í markatölu og enda svo í Watford. Svo að þegar við leggjum af stað í þessa viku erum við á þeim stað að geta náð 3.sætinu og þar með beint í riðlakeppni CL en líka séns á að enda í 5.sæti og EL næsta vetur.

Stór vika framundan fyrir Klopp og félaga.

West Ham 0- Liverpool 4

LEIK LOKIÐ Algerlega mögnuð frammistaða með bakið upp við vegginn…eitt skref eftir sem við eigum auðvitað að klára…við bíðum auðvitað með fagnaðarlætin þar til allt er klárt, en þessi dagur búinn að vera magnaður.

Skýrslan stutt undan…

0-4 – 76 mín Origi eftir frábæran undirbúning Sturridge sem hefur verið magnaður í þessum leik. Origi vantar upp á ýmislegt en hann er heldur betur flottur klárari þegar hann þarf að negla hann eins og þarna. Veisla í Austur London ennþá!

0-3 – 61 mín COUTINHO! Við þökkum dómaranum fyrir það að dæma ekki víti á hendi frá Wijnaldum upp úr horni, við sækjum hratt upp völlinn en okkar maður þarf að halda yfirvegun í teignum sem hann svo sannarlega gerir. Vel gert, en hér er hasar framundan. Hamrarnir brjálaðir í dómarann…með réttu, en mér er FULLKOMLEGA SAMA!!!

0-2 – 57 mín COUTINHO! Frábær byrjun á síðari hálfleik, við alveg með öll völd, heimamenn búnir að breyta um leikkerfi en það gefur okkar manni bara meira svæði til að vinna í og Brazzinn neglir í netið utan teigs. Frábært…og andrýmið sem við vildum…enn 30 mín eftir samt.

hálfleikur Við erum 1-0 yfir og það er sanngjarnt en West Ham klúðruðu sem betur fer mesta dauðafæri leiksins – TVISVAR!!! – auðvitað upp úr horni á 44.mínútu. Við vitum auðvitað að þetta er Liverpool FC og það kemur okkur ekki á óvart að þeir geta leikið eins vel og þeir hafa gert í fyrri hálfleik en líka skotið sig rækilega í fótinn. Tense 45 mínútur framundan.

0-1 – 34 mín JÁ!!!!! Daniel Sturridge að sjálfsögðu eftir magnaða sendingu frá Coutinho, átti verk eftir en þetta er hann, þvílíkur klárari. Aðeins getum við slakað á í bili, þetta þurftum við.

30 mín Hraðinn og lætin hafa minnkað, sennilega hafa aðstæður eitthvað þar um að segja, færum fækkað en við höfum náð að vinna boltann nokkrum sinnum á hættulegum stöðum og Sturridge er mjög líflegur…

15 mín Fjörleg byrjun, bæði lið búin að eiga þrjár tilraunir og sitt hvort dauðafærið, West Ham þrumuðu framhjá eftir skyndisókn og Matip skallaði í þverslá eftir horn frá Coutinho.

8 mín

Erum semsagt í demanti…

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can
Wijnaldum – Coutinho
Lallana

Origi – Sturridge

Það þýðir að á mót 3-5-2 kerfi West Ham ætti að vera mikið af svæðum fyrir bæði lið að spila inní og skapa færi og mörk.

Byrjunarlið dagsins er sem hér segir:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Wijnaldum – Can – Lallana

Origi – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Karius, Moreno, Grujic, Alexander-Arnold, Lucas, Klavan, Woodburn.

Enginn Firmino í hóp, Sturridge byrjar í fyrsta sinn síðan á síðustu öld bara held ég…bekkurinn líklega ekki mikið notaður í dag.

Þetta er mesti must win leikur tímbablisins, það er einfaldlega allt undir í dag. Koma svoooooooo!

Við minnum á tístkeðjuna okkar. Takið þátt í umræðum yfir leik með því að nota #kopis með tístum ykkar.Þá er komið að næstsíðasta leik okkar rauðliða á tímabilinu og það er stórt verkefni, að fara til austurhluta London og leika við West Ham á ólympíuleikvangi þeirra Breta.

Eftir leiki gærdagsins getum við lagt húsið okkar og bílinn undir að bæði Arsenal og Manchester City munu enda tímabilið með 75 stig a.m.k. svo að verkefni okkar manna er mjög skýrt. Sex stig úr síðustu tveimur leikjunum munu ákvarða tímabilið. Hvort að við munum í júní geta rifjað upp stórkostlega frammistöðu fyrir áramót og í lykilleikjunum eftir þau…eða þurfum við að velta upp í huganum ömurlegri frammistöðu í janúarmánuði og síðan nokkur epísk klúður á heimaVivelli undir lok tímabilsins. Um það snýst málið krakkar.

Við uppþræðum þennan leikþráð í gegnum daginn og breytum í atvikalýsingu. Styttist í tístkeðjuna.

Þangað til skulum við senda strauma til drengjanna í sólinni í London. Það er bara ekki annað í boði en að vinna Hamrana, nokkuð sem okkur hefur ekki tekist í síðustu sex viðureignum okkar í deild og bikar.

Watford framundan á mánudagskvöldi

Áður en ég byrja á að fara í upphitun fyrir leik okkar manna við Watford er einfaldlega ekki hægt annað en að fara yfir úrslit dagsins, enda beið ég með upphitun þar til eftir þá.

Það er skemmst frá því að segja að fótboltaguðirnir gerðu sitt til að hjálpa okkur í dag. Einn þeirra horfir þessa dagana af velþóknun á Gylfa Sig sem að tryggði Swansea stig gegn United í dag. Swansea voru einfaldlega betri aðilinn í dag en svindl Marcus Rashford tryggði heimamönnum stig. Dagurinn byrjaði vel. Þá var komið að Man. City og þeir halda áfram að vera ósannfærandi. Þeir eins hitt liðið úr borg hins illa þurftu aðstoð dómara til að fá gefins víti, þeir gegn Middlesbrough sem að gerðu í raun nóg til að vinna City lika. Þetta voru góð úrslit á tvo vegu fyrir okkur því það að heimamenn fengu bara eitt stig svona allt að því gulltryggir það að þeir koma fallnir á Anfield í síðustu umferðinni. Norður London derbyið rak svo lestina og eftir jafnan fyrri hálfleik kláruðu Spurs erkifjendurna í Arsenal og gulltryggðu veru sína í topp tveimur. Í fyrsta sinn mun Arsene Wenger horfa upp á Tottenham í lok leiktíðar. Það eykur ekki gleði Spurs aðdáenda með hann!

Eftir þunglyndi síðustu helgar hafa öll liðin fyrir neðan okkur leikið þá tvo leiki sem þau áttu inni á okkur og við erum enn í þriðja sæti. Staðan í þeirri keppni svona:

3.sæti Liverpool 66 stig og plús 28 mörk
4.sæti Man City 66 stig og plús 28 mörk
5.sæti Man United 65 stig og plú2 26 mörk
6.sæti Arsenal 60 stig og plús 22 mörk (einum leik færra en hin liðin)

Semsagt, við erum aftur komin með örlögin í eigin hendur eftir skitu síðustu helgar, ansi magnað í raun og gerir þennan leik ennþá mikilvægari en áður!

Mótherjinn í Watford

Ef við horfum á töfluna áfram þá sitja mótherjar okkar núna í 13.sæti með 40 stig. Eftir sigur í síðasta heimaleik eru þeir nær öruggir um áframhaldandi veru sína í deild þeirra bestu þriðja árið í röð sem er ansi magnaður árangur. Frábær árangur Leicester í fyrra og spræk útkoma B’mouth og WBA í vetur skyggja enn eilítið á afrek liðsins að vera að festa sig í sessi í Úrvalsdeildinni, eins og þau tvö er umgjörð liðsins ekki með mikla reynslu af toppdeildinni á meðan að stærri lið eins og Sheffield Wednesday, Nottingham Forest, Aston Villa og Leeds með miklu meiri möguleika á umgjörð verða áfram í næstefstu deild þá er þessi fjölskylduklúbbur úr úthverfi London að marka sér góða stöðu. Hef stundum rætt það að við gætum horft til þess að Afturelding ætti lið í Pepsideildinni, auðvitað ekki ómögulegt en flottur árangur að ná og halda sér í.

Fyrri leikur liðanna í vetur var slátrun og ég varð vitni að henni live. 6-1 úrslit þar sem Watford töpuðu á því að fara ofarlega með liðið sitt og fá það rækilega í andlitið. Ég er handviss um að Walter Mazzarri stjóri liðsins lærði af því, sem og síðustu misstígum Liverpool fyrir leikinn. Hann mun liggja aftarlega á vellinum og treysta á skyndisóknir. Það kemur okkur varla á óvart…en nú verðum við að bregðast við á almennilegan hátt.

Watford vantar lykilmenn í leikinn, Younes Kaboul og Mauro Zarete verða pottþétt ekki með og Craig Cathcart er tæpur. Þeir töpuðu illa síðast, í Hull 0-2 þar sem þeir voru einum fleiri í 65 mínútur. Eftir þann leik lét fyrirliðinn og sóknartröllið Troy Deeney sína menn heyra það, sagði þá lina og verða að átta sig á að tímabilið er ekki búið. Auk hans eru lykilmenn þeirra að leiknum miðjumaðurinn Tom Cleverley sem hefur náð þeim ógeðsáfanga að hafa spilað bæði með United og Everton og síðan Etienne Capoue og Sebastian Prodl. Cleverley ákvað að gefa Klopp smá auka séns á mótiveringu þegar hann gaf það út að hann teldi ekki líklegt að við enduðum í topp fjórum. Takk Tom minn…

Við munum vel eftir síðustu heimsókn okkar á Vicarage Road, 0-3 skell þar sem við einfaldlega gátum ekki neitt. Watfordaðdáendur muna eftir þeim líka og það er alveg klárt að heimaliðið verður vel gírað þegar Craig Pawson flautar til leiks.

Okkar lið

Við vitum of vel hversu fúl við ennþá erum eftir síðasta leik. Klopp hefur nú haft átta daga á æfingavellinum til að vinna með það sem þarf til að lagfæra það sem mistókst síðustu 50 mínúturnar gegn öðru líkamlega sterku skyndisóknaliði Palace.

Stóru fréttirnar eru auðvitað þær að Adam Lallana hefur æft nú um sinn þessa viku og taldar góðar líkur á því að hann geti byrjað leikinn, þó auðvitað sé það töluverður séns að taka. Daniel Sturridge hefur líka náð að æfa og verður í hópnum auk þess sem að varnarlínan virðist öll hafa náð bata eftir mismikil „hnjösk“ að undanförnu. Klopp gaf víst sjaldséð frí í upphafi vikunnar til að láta menn aðeins stilla fókusinn eftir að hann lét þá víst heyra það í klefanum eftir tapið síðast og mikið verið unnið með andlega þáttinn.

Alveg ljóst að eftir leiki dagsins er pressan umtalsverð á okkur en sigur í þessum leik gæfi verulegan byr í vængi Meistaradeildardraumsins.

Ég held að Klopp viti a.m.k. jafnvel og við um þýðingu leiksins og hann mun án vafa leggja allt í sölurnar. Því ætla ég að tippa á þetta lið hér:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Lallana – Firmino – Coutinho

Þetta lið miðar að því að ná að verjast löngu boltunum upp völlinn og því heldur Lucas sætinu til að verja hafsentana ef að Watford verður með 4-4-2 í grunninn. Origi hefur verið í basli undanfarið og því held ég að Lallana verði látinn byrja. Ef að Klopp treystir honum ekki þá byrjar Belginn og við höfum sama lið og tapaði síðast.

Samantekt og spá

Eftir leiki dagsins og allt sem á undan er gengið hef ég enga trú á neinu öðru en hörkuleik þar sem mikið mun ganga á allt frá upphafi til enda. Eftir þunglyndi síðustu viku hefur vikan vissulega lyft á manni brúninni og bara þess vegna ætla ég að vera bjartsýnni en ég var lengi vel.

Ég held að við vinnum þennan leik 1-2 með bardaga allt til enda.

KOMA SVOOOOOOOOOOOOOOOO!!!!

Nokkur orð um stöðugleika

Stöðugleiki. Á ensku „consistency“.

Eftir því sem á veturinn hefur liðið þá hef ég stöðugt argað hærra og hærra það ágæta orð milli leikja. Til að ná árangri í deildarkeppni þarf að öðlast stöðugleika, augljós staðreynd. Þann stöðugleika sáum við hjá okkar mönnum allt fram í síðasta leik fyrri hluta deildarinnar gegn Man. City en um leið og við stigum inn í næsta leik á Leikvangi ljóssins í Sunderland þá má segja að sá stöðugleiki hafi eilítið horfið okkur sjónum reglulega.

Nema þá auðvitað ef við köllum þann óstöðugleika sem við höfum sýnt á þessum tíma bara stöðugleika í sjálfu sér.

Mig langaði aðeins að rýna í það hvaða þættir mér finnst styðja stöðugleika hjá fótboltaliði og þá um leið skoða hvort að þar er mögulega að finna ástæðurnar fyrir stöðugleikaskortinum. Þeir sem vilja spá með mér geta smellt hér á…

Continue reading

Liverpool – C.Palace 1-2 (leikskýrsla)

1-0 Coutinho 24.mín
1-1 Benteke 42.mín
1-2 Benteke 75.mín

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Veit ekki hvað maður á að segja. Coutinho skoraði frábært mark og átti mögulega að fá víti og bar af fannst mér. Wijnaldum var duglegur og ágætt framlag hjá Firmino inn á milli. Mignolet ekki kennt um mörkin, annað ekki.

VOND FRAMMISTAÐA

Margt hægt að draga þar upp. Lovren með hræðilega vörn í marki eitt og var almennt óöruggur og slakur. Fór svo útaf meiddur, var mögulega ekki leikfær…en það er engin afsökun. Eftir flotta leiki að undanförnu var Emre Can hræðilegur og varnarleikurinn hans í sigurmarki Palace var sjokkerandi. Milner og Clyne skiluðu engu fram á við og svæðin á bakvið þá nýttu Palace svakalega. Lucas átti vondan dag og Origi vill ég eiginlega ekki hafa of mörg orð um. Hann er að mínu mati einu númeri of lítill í það að leiða sóknarlínu LFC og það svosem vita þeir hér sem að hlusta á podcöstin okkar. Frammistaðan í dag er nákvæm ástæða þessarar skoðunar minnar á honum. Svo auðvitað verðum við að ræða það hvort að frammistaða þjálfarateymisins er ekki vond. Enn einn ganginn virkum við ráðalitlir í leikjum gegn liðum sem parkera til baka og sækja hratt.

UMRÆÐAN EFTIR LEIK

Fínir punktar i okkar umræðu við þráðinn og flesta höfum við lesið áður. Einhæfur sóknarleikur, nýtum ekki færin, höldum bolta vel en sköpum lítið. Barnaleg varnarmistök gefa mark og eins og Big Sam sagði veit allur heimurinn að við erum lélegir að verjast hornum…og það virðist bara ekkert ætla að lagast hjá Klopp og liðinu. Svo auðvitað er það að horfa á bekk rúmlega 70 leikja reynslu í EPL í svona úrslitaleik. Það auðvitað verður að skoða út frá tvennu. Annars vegar er 5 -7 manna meiðslalisti yfir heilt tímabil ekki tilviljun. Annað hvort er of mikið álag eða of mikið af meiðslapésum í hópnum og hvort sem er þarf að leiðrétta. Hins vegar þarf að velta fyrir sér enn og aftur hvers vegna ekki var keypt meira af gæðaleikmönnum síðasta sumar og engu bætt við í vor. Mig langar svo líka til að ræða hér stuttlega lykilorð sem þarfnast sér pistils sem vonandi kemur úr tölvunni minni núna þegar ég næ úr mér hrollinum eftir daginn.

STÖÐUGLEIKI

Lykilorð liðs sem ætlar að ná árangri er í þessu orði falið. Það höfðum við í fyrri umferðinni og vorum þá heldur betur að líta vel út. Frá áramótum hefur þetta einfaldlega ekki verið uppi á teningnum og er ástæða þess að við kvíðum heimaleikjum gegn liðum sem berjast og ástæða þess að Anfield tæmdist snemma enn einn ganginn nú að undanförnu. Það eru ákveðin atriði sem þarf að skoða þegar kemur að stöðugleika en það er ekki hægt á svona kvöldi. Sá pistill er í smíðum…

NÆSTU VERKEFNI

Með þessu tapi núllast út frábær sigur síðustu helgar og hefur gefið United og Arsenal nýja von. Ég ætla þó enn að standa við það að 75 stig geti gefið 4.sætið og 76 stig geri það pottþétt. Ef liðið hrekkur aftur í gang, vonandi fáum við Hendo og Lallana inn í hóp fyrir Watford leik eftir átta daga og við komumst aftur með hausinn upp úr sandinum. Steini talaði um fyrir þennan leik að framundan væru bara úrslitaleikir.

Eftir leiki dagsins í deildinni er það algerlega ljóst að svo er. Mikið vona ég að þjálfarateymið finni lausnir með þessum leikmannahóp og vinni þau stig sem þarf til að þetta tímabil líti ekki illa út og setji gríðarlega pressu á sumarið. En er ég sannfærður? Í dag er það alls ekki…