Allar færslur eftir Maggi

Liverpool 2 – Leicester 1

Gangur leiksins

0-1 Vardy 2.mín
1-1 Salah 52.mín
2-1 Salah 76.mín

Leikurinn

Fyrri hálfleikur sem hefur sést ca. 1000 sinnum á Anfield á liðnum árum, Matip karlinn ákvað að gefa mark strax í byrjun og í framhaldi fengum við fullt af færum sem við ekki nýttum. Mo Salah átti að setja a.m.k. 2 mörk en þó dró töluvert út orkunni þegar á hálfleikinn leið og á sama tíma þagnaði völlurinn smátt og smátt.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með pressu okkar drengja sem skilaði okkur marki eftir 7 mínútur þegar Mané og Salah kombineruðu vel og klárun Egyptans geggjuð. Þegar að okkar menn virtust vera aðeins að missa tempóið frá sér kom snögg sókn, Milner með flotta snertingu og Salah enn á ný að koma nafninu sínu fast inn í heila okkar Liverpoolaðdáenda þegar hann setti á nærhorn krossfisksins Schmeichel í markinu og þvílíkt sem manni var létt!

Síðasta kortérið hirti allar manns neglur og fingrabönd og þvílík fagnaðarlæti í lokaflautinu!

Bestu menn Liverpool

Fyrri hálfleikurinn setti mann með rísandi hár yfir Salah en síðan þarf bara ekkert að ræða þetta. Maðurinn er ekki hægt og þvílíkt mikilvægur, klárlega orðinn sá mikilvægasti frá því að ákveðinn Úrú-Gæji var hjá okkur!

Að öðru leyti erfitt að pikka út leikmenn, nema endalausa hlauparann Firmino og síðan var Lovren á rétta fætinum í dag, virkilega góður. Aðrir áttu misjafna spretti, bakverðirnir flottir varnarlega en áttu að gera betur í sendingunum inn í teiginn.

Umræðan

Hvenær hættum við að horfa á svona leiki á Anfield. Við sitjum nagandi neglur, gefum mörk og nýtum illa færin. Í dag er það Matip sem býr vesenið til

Skiptingarnar hans Klopp koma seint og lítið. Við virðumst eiga í erfiðleikum með að skipta tempói í leiknum og ég hefði viljað sjá Ox miklu fyrr inná og Lallana bara líka.

Stressið í lokin er svo auðvitað ekki til útflutnings, við erum bara ekki á þeim stað að loka leikjum yfirvegað þegar við erum yfir í leiknum, linir varnarlega inni á miðju og ansi sérstakar hreinsanir eilítið ráðandi.

En…að lokum. Hvenær unnum við síðast svona leik!!!!

Það skiptir nefnilega ÖLLU MÁLI!!!!!!

Næsta verkefni

Burnley á útivelli. Sá völlur hefur ekki gefið í gegnum tíðina svo glatt…nú er kominn tími á það! Nýársdagur vonandi lýsandi fyrir betra ár framundan.

Liðið gegn Leicester

Síðasti leikur almanaksársins 2017 framundan, Leicester mættir í kuldann á Merseyside.

Klopp hefur róterað reglulega í gegnum hátíðarnar og liðið í dag lítur svona út eftir fimm breytingar:

Karius

Gomes – Lovren – Matip – Robertson

Coutinho – Can – Milner

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet , Wijnaldum , Klavan , Chamberlain , Lallana, Alexander, Solanke

 
Gríðarlega mikilvæg þrjú stig í boði sem öllu máli skiptir að ná í. Hver veit nema að við sjáum snyrtilegan Hollending í góðum rykfrakka í stúkunni í dag, það bárust allavega fréttir af því.

Við minnum á #kopis myllumerkið og umræðurnar hér að neðan.


 

Hópferð á Liverpool – Newcastle

Nú er stutt í að við leggjum af stað í hópferð á leik Liverpool og Everton með vaskan hóp Liverpool aðdáenda.

Uppselt er í þá ferð en fyrir þá sem ekki komust að er hægt að gleðja þá með því að farið er að skipuleggja þá næstu. Sú ferð verður farin fyrstu helgina í mars þegar að Rafael nokkur Benitez kemur „heim“ á Anfield með lærisveina sína hjá Newcastle.

Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu samstarfsaðila okkar hjá Úrval Útsýn sem hafa nú opnað fyrir bókanir.

Það er einfaldlega engu líkt að mæta á leik á Anfield og auðvitað bónus að berja hann Rafa okkar augum. Hér gildir auðvitað „fyrstur kemur og fyrstur fær“ – tilvalin jólagjöf fyrir Liverpoolaðdáandann!

Liverpool 1 – Chelsea 1

1-0 Salah á 64.mín
1-1 Willian á 85.mín

Leikurinn

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill þegar kemur að færum. Við byrjuðum sterkt án þess að skapa færi og þau hættulegustu komu úr skyndisóknum þeirra bláklæddu, Mignolet varði virkilega vel í tvígang og var í rauninni svolítið þannig að við gátum talið okkur bara nokkuð hafa sloppið vel með að vera með jafna stöðu eftir fyrri 45. Miðjan okkar var alveg steindauð í báðar áttir og í raun bara fremstu þrír sem keyrðu á öllum sílendrum þá.

Langbesti kaflinn okkar voru fyrstu 20 mínútur seinni hálfleiks. Allt önnur orka í öllu liðinu, Moreno gríðarlega aggressívur sérstaklega og Coutinho náði nokkrum upphlaupum sem sköpuðu hættu, úr einu slíku datt boltinn á fætur Chamberlain sem stakk inn á Mo Salah sem kláraði vel fyrir sínu fimmtánda marki í tuttugu leikjum og Anfield algerlega sprakk úr hávaða. Egyptinn fagnaði ekki markinu af virðingu við 300 samlanda sína sem létust í hryðjuverki þar í landi í gær – respect á það.

Næstu 5 – 10 mínútur var í járnum en um leið og Conte fór að skipta inná breyttist leikurinn og Chelsea einfaldlega náði öllum tökum. Jöfnunarmarkið kom fimm mínútum fyrir leikslok þegar Willian vippaði boltanum ansi veglega í fjærhorn langt úti í teignum…veit ekki hvort um var að ræða skot eða sendingu, en óverjandi var það. Það sem eftir lifði leiks kom lítið upp merkilegt í leiknum en þó þurfti Courtois að verja einu sinni ansi huggulegt skot Salah. Jafntefli niðurstaðan og enn og aftur missum við niður unnin leik.

Bestu leikmenn Liverpool

Mo Salah langbestur einfaldlega, vel klárað og stanslaust að láta vita af sér. Leikmaðurinn er einfaldlega yfirburðarmaður í okkar hóp þessa dagana…by a mile eins og Bretinn segir. Mignolet átti flottan leik og Chamberlain var fullur orku og átti verulega huggulegan þátt í markinu. Sá er allur að koma til. Moreno átti flotta „endurkomu“ í liðið eftir erfiða útkomu í Sevilla og hinu megin var Joe Gomez lengstum í fínum málum.

Slæmur dagur

Miðjan átti mjög erfitt, Milner var alveg útúr fannst mér í fyrri hálfleik og lenti í brasi eftir að Fabregas kom inn. Coutinho var mjög takmarkað að ná einhverju gripi á leiknum og Hendo var ekki að heilla. Matip og Klavan voru fannst mér býsna ótraustir en sluppu með skrekki á nokkrum stöðum. Kaflaskiptur leikur í rauninni.

Umræðan

Nokkrir punktar held ég.

* Liðsvalið, fimm breytingar frá Sevilla og þ.á.m. valið að hvíla bæði Mané og Firmino. Leit ágætlega út þar til á 85.mínútu en að lokum er það klárt mál að Klopp þarf að svara fyrir það.
* Innáskiptingarnar okkar ef horft er til mótherjanna. Á meðan Chelsea náði klárlega að breyta töluvert sínum leik með að setja sína menn inná þá beið Klopp enn á ný mjög lengi með að breyta okkar liði í staðinn. Við vorum algerlega lentir upp við vegginn og það vara nú ekki mikil sannfæring í kolli manns að við héldum þetta út. Það leit afskaplega illa út að þeir Klopp og Lallana stóðu spjallandi á meðan leikstoppið leið. Lallana ekki inná, breytingin ekki átt sér stað (átti að koma inn á miðju, Gomez yrði hafsent og við með 5 manna varnarlínu) og Chelsea skoraði jöfnunarmarkið á meðan. Sá var settur í kápuna á ný en svo úr henni aftur eftir 2 mínútur og skiptingin okkar kom á 88.mínútu. Klopp hefur einfaldlega ekki náð að mastera innásiptingar sem ætlað þá er að loka leikjum. Það þarf að fara að gerast.
* Leikur nr. 22 frá því Klopp tók við þar sem við höfum misst niður unnan leik. Það er umtalsvert held ég.
* Klopp og Mané á að hafa lent saman inni á vellinum eftir leik, rifist á miðjunni og Klopparinn þurfti að svara fyrir í viðtalinu eftir leik…og gerði lítið úr því. Svosem ekkert stórt en ljóst að það var mikill pirringur að leik loknum.

Næsta verkefni

Stoke úti á miðvikudagskvöld. Það er ekkert stórslys að gera jafntefli við Chelsea á heimavelli en það gerir það enn mikilvægara að taka stigin þrjú sem verða þar í boði. Hefði verið magnað að komast upp fyrir Tottenham í dag…en við verðum að stóla á að taka þau á Brittania.

Chelsea. Byrjunarliðs- og leikþráður

Liðskipan dagsins klár…og töluvert frábrugðin því sem reiknað var með.

Spái því að við séum að sjá 4-4-2 útfærslu þar sem Coutinho leysir inn…en sjáum til:

Mignolet

Gomez – Matip – Klavan – Moreno

Chamberlain – Henderson – Milner – Coutinho

Salah – Sturridge

Bekkur: Karius, Winjaldum, TAA, Firmino, Robertson, Lallana, Mané

Lovren og Can eru tilkynntir meiddir…munið svo að vera með á tístinu og setja #kopis í tístið ykkar til að vera með í keðjunni.