Allar færslur eftir Maggi

Spá Kop.is – síðari hluti

KOP.IS – pennar eru búnir með spána sína í ár!!!

Eins og fyrri ár ætlum við að rúlla yfir það hvernig við spáum um lokastöðu ensku deildarinnar vorið 2019. Við röðum allir liðunum upp í sætin frá 1 – 20 og fá þau „öfuga stigatölu“, þ.e. liðið í 1.sæti fær 20 stig og það í 20.sæti 1 stig. Við leggjum svo stigin saman til að búa til þessa sameiginlegu spá okkar.

Ég held að við séum ekkert að fara yfir okkar spádómsgáfur í gegnum árin, enda þetta algerlega til gamans gert, en þó henti það í fyrra í fyrsta sinn að lið vann þessa spá með fullu húsi stiga. Um var að ræða Manchester City lið sem að setti svo met að vori…svo að eitthvað vissum við þá!

Í síðari hlutanum rúllum við yfir liðin frá 10.sæti og upp til meistaratitils…að þessu sinni ætla ég að uppfæra eftir hvert sæti…hafa svona eins konar „live feed“ ef einhver skyldi vera að lesa núna.

Leggjum af stað…

10.sæti Wolves 81 stig

Nýliðarnir frá Wolverhampton, portúgalska nýlendan í enska boltanum er fyrsta liðið á blað þegar við horfum til efri hluta deildarinnar. Nuno Espirito Santo er klókur stjóri sem bjó til afskaplega skemmtilegt fótboltalið sem að fór býsna létt í gegnum Championshipdeildina. Í sumar hafa þeir styrkt liðið all duglega, með a.m.k. 9 öflugum leikmönnum sem margir hverjir eru landsliðsmenn öflugra landa. Markvörðurinn Rui Patricio, kantmaðurinn Diego Jota og Joao Moutinho á miðjunni bætast við nýlenduna, Armand Traore kemur á kantinn auk nokkurra annara. Liðið ætlar sér í efri hluta deildarinnar og við teljum að svo verði, nokkuð sem ætti að gleðja fyrirliðann þeirra, Scouserinn Conor Coady sem uppalinn er hjá LFC.

9.sæti Leicester 92 stig

Meistararnir frá 2016 enda í 9.sætinu í vetur, nokkuð ofan við Úlfana ef okkar spá reynist rétt. Franski refurinn Claude Puel er öflugur stjóri sem mun þó þurfa að díla við að missa stjörnuleikmanninn Ryad Mahrez, auðvitað verður það lykillinn að þeirra velgengni. Í stað Mahrez fjárfestu þeir í nokkrum leikmönnum sem eru spennandi, dýrastur sóknarmiðjumaðurinn James Maddison sem kemur frá Norwich, portúgalski bakvörðurinn Pereira kemur frá Porto og gaman verður að sjá tyrkneskan hafsent að nafni Caglar Söyüncü sem kemur til liðsins frá Freiburg, sá var undir smásjá stórliða og valdi Leicester. Hryggjarsúlan er sterk í þeim Schmeichel, Maguire, Ndidi og Vardy, það mun skila þeim í efri helminginn en þó ekki í Evrópusæti.

8.sæti West Ham 100 stig

Fyrsti mótherji okkar í deildinni, Hamrarnir frá London enda í sæti númer átta. Þeir ákváðu að losa sig við David Moyes þó hann hafi náð að halda þeim nokkuð duglega uppi og fengu í staðinn rótgróinn meistara, Manuel Pellegrini, til að stýra liðinu. West Ham hafa lengi haft stórliðsdrauma, eru komnir með geggjaðan völl á flottu markaðssvæði í London og þessi árangur er klárlega lágmarksárangur í huga eigendanna. Liðið hefur styrkt sig duglega í sumar, vængmennirnir Felipe Anderson og Yarmolenko eiga að skaffa hraða og vídd, framherjinn Lucas Perez á að skora, Lukas Fabianski verður með hanskana og til að verjast betur sóttu þeir öflugan Frakka, Issa Diop og miðjumanninn Carlos Sanchez. Stóra sagan var svo kannski að Jack Wilshere er mættur á miðjuna hjá klúbbnum sem hann studdi sem barn, töluvert gert úr því. Bætum Manuel Lanzini í jöfnuna og við erum með fínt skipað lið…og stjóri sem kann öll trikkin. West Ham verður alvöru lið.

7.sæti Everton 108 stig

Gylfi Sig og félagar enda í 7.sæti – sem gefur möguleika á Evrópusæti. Þeir létu Sam Allardyce fara þrátt fyrir að hann hafi náð að halda þeim uppi (okkur pennunum til mikillar ógleði) og sóttu í staðinn Marco Silva sem hefur náð fínum árangri í Englandi. Hann þarf að gjörbreyta leikstíl liðsins sem var beinlínis „hit and hope“ í fyrra og til þess sótti hann sex leikmenn, vængmennina Richarlison og Bernard, bakvörðinn Digne, sóknarmiðjumanninn André Gomes, bakvörðinn Lucas Digne og miðverðina Kurt Zouma og Yerry Mina. Gylfa er víst ætlað hlutverk á miðju félagsins, allt þetta leiðir okkur til þeirrar ályktunar að liðinu muni ganga býsna vel og ná sínu klassíska toppsæti. Þeir ætla sér miklu stærri skref í framtíðinni vissulega en þetta ætti að gleðja þá í bili…satt að segja held ég að þeir hafi náð sínum draumum þegar Allardyce var látinn fara!

6.sæti Arsenal 127 stig

Wenger horfinn frá, eftir tæplega 30 ár. Það verður stórt hjá skyttunum í Norður London og nokkuð sem margir stuðningsmenn biðu eftir. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með Arsenal eftir Wenger og getur farið í allar áttir. Stjórinn er auðvitað þrælreyndur og hörkuflottur, Unai Emery hefur unnið titla þar sem hann hefur verið og hefur reynslu af toppslag. Kaupin þeirra í sumar minna svolítið á LFC fyrir Klopp, verið að reyna að finna óslípaða demanta í hillunni þar sem að þarf að leita. Vissulega eru Lucas Torreira, Bernd Leno, Sokratis og Lichtsteiner leikmenn sem hafa verið í stórum liðum og/eða deildum en þeir eru engir ásar svona að sjá fyrirfram. Árangurinn mun ráðast hvernig tekst að virkja og svo finna stöðugleika hjá sóknarmönnununm Özil, Lacazette, Aubemyang og Mkhitaryan. Ef þeir verða í standi munu Arsenal gera atlögu að Meistaradeildarsæti. En það mun ekki ganga…eyðimörk Arsenal hverfur ekki með Wenger.

5.sæti Chelsea 130 stig

Annar Lundúnarisi teljum við að verði utan Meistaradeildar. Chelsea ákvað að reka Antonio Conte eftir lengsta skilnaðarferli fótboltasögunnar. Sá kvaddi Chelsea eftir að hafa skilað meistaratitli og bikar. En það var öllum ljóst að allt var gallsúrt hjá bláum í fyrravor, Roman var hundfúll að horfa á liðið sitt spila fótbolta og stjórinn var grautfúll með starfsumhverfið. Maurizio Sarri var sóttur til Napoli, stjóri sem vill að sín lið spili hápressu sóknarfótbolta…jább…nefnilega það. Það verður verk fyrir hann eftir Mourinho og Conté! Stóru kaupin voru dýrasti markmaður knattspyrnusögunnar, Kepa Arrizabalaga sem á að baki eitt tímabil í La Liga og á að fylla í skarð Courtois og síðan tveir býsna öflugir miðjumenn, þeir Jorginho og Mateo Kovacic. Serri virkar býsna hress og flottur gaur sem ætlar sér svo sannarlega að uppfylla óskir eigandans um árangursríkan OG áferðarfallegan fótbolta. Þar mun margt standa og falla með því að fá Eden Hazard til að vera með…við reiknum með að það takist en það muni ekki duga Chelsea til að ná sæti í Meistaradeildinni 2019.

4.sæti Tottenham 133 stig

Sigurvegari Lundúnadeildarinnar í vetur verð Tottenham. Eins og þið sjáið munar býsna litlu í spádómsstigunum milli þessara þriggja liða svo að við teljum að þau muni berjast hatrammlega um síðasta sætið sem enska deildin gefur í Meistaradeildinni. Tottenham breytti einfaldlega engu í sumar. Missti engan sem máli skipti og keypti engan. Samt höfum við trú á þeim. Ástæðan er einföld…Mauricio Pochettino. Þar fer stjóri sem við höfum mikla trú á og alger lykill að öllu hjá Spurs. Fótboltinn sem hann spilar er afar skemmtilegur og leikmenn njóta þess að spila fyrir hann. Vissulega mega þeir lítið við meiðslum lykilmanna eins og Kane, Alli, Erikson, Dier og Lloris en á sama hátt er hörkuflott lið á ferð þegar þessir eru allir heilir. Við munum opna nýja völlinn þeirra, sá hefur áhrif á kaupgetu liðsins en ætti að skila þeim fleiri stigum en Wembley gerði. Spurs komast í Meistaradeild en munu missa Pochettino til Spánar í kjölfarið.

3.sæti Manchester United 138 stig

Já. Mourinho og félagar falla um eitt sæti milli ára. Gríðarlega sterkur leikmannahópur, sá dýrasti í deildinni og fullur af hæfileikamönnum en mixið er skrýtið. Stjórinn virðist hafa borðað skipsfarm af súrum gúrkum og hent öllum hárvörunum sínum í sumar og opinbert rifrildi við yfirmenn hans í lok gluggans tóku mikið pláss. Kannski var Móri bara að blása upp leikþátt til að berja sínum mönnum orku í brjóst, hver veit. Hins vegar held ég að allir séu sammála um það að United var ekki að styrkja lið sitt á þeim stöðum eða með þeirri týpu af leikmönnum sem við reiknuðum með. Ef að Pogba, Sanchis, Martial, Lukaku…getum haldið áfram töluvert…ná að uppfylla sína hæfileika verður United ofar og gæti tekið titilinn. Til þess þurfa allir að toga í sömu átt. Það virðist alls ekki vera á ferðinni, United endar í 3.sæti og Mourinho klárar ekki tímabilið á Old Trafford. Zidane bíður eftir símhringingunni….

2.sæti LIVERPOOL 153 stig

Jebb. Allverulega ofan við United, Spurs, Chelsea og Arsenal en náum ekki titlinum. Við erum allir óskaplega ánægðir með sumargluggann með Fabinho, Keita, Allison og Shaqiri…kannski mest því að missa engan stórlax…og höfum óbilandi trú á Klopp og þjálfarateyminu. Við munum gera alvöru atlögu að titlinum og vinna eina bikarkeppni á meðan, en erum ekki alveg tilbúnir að verða meistarar. Það eru þó tveir okkar sem trúa á titilinn, þeir Beardsley og Einar Matthías. Vonandi munu þeir hafa rétt fyrir sér!

1.sæti Manchester City 158 stig

Fáum á óvart auðvitað. City bætti bara við sig einum stórum, fengu Ryad Mahrez frá Leicester en þeir halda sama liði, leikmann fyrir leikmann, sem settu öll met möguleg í ensku deildinni og með síhungraðan Pep Guardiola við stjórnvölinn munu þeir ná að verja titil sinn, sem ekki hefur gerst lengi á Englandi. Þeir munu hins vegar þurfa að hafa miklu meira fyrir því en í fyrra og ef þeir misstíga sig ætlum við að grípa gæsina um leið og hún gefst – en þó höfum við ekki trú á að það muni gerast. Ljósbláir vinna.

Og þar með má þetta hefjast. Fyrsta upphitun fyrir leik er rétt undan og fjörið byrjar á sunnudag.

Þetta verður ROSALEGT!!!!!

Spá Kop.is – fyrri hluti

Þá er komið að því krakkar mínir!

KOP.IS – pennar eru búnir með spána sína í ár!!!

Eins og fyrri ár ætlum við að rúlla yfir það hvernig við spáum um lokastöðu ensku deildarinnar vorið 2019. Við röðum allir liðunum upp í sætin frá 1 – 20 og fá þau „öfuga stigatölu“, þ.e. liðið í 1.sæti fær 20 stig og það í 20.sæti 1 stig. Við leggjum svo stigin saman til að búa til þessa sameiginlegu spá okkar.

Ég held að við séum ekkert að fara yfir okkar spádómsgáfur í gegnum árin, enda þetta algerlega til gamans gert, en þó henti það í fyrra í fyrsta sinn að lið vann þessa spá með fullu húsi stiga. Um var að ræða Manchester City lið sem að setti svo met að vori…svo að eitthvað vissum við þá!

Dembum okkur í þetta, við vorum 8 sem spáðum svo hæsta mögulega stigaskor var 160 stig en það minnsta 8 stig. Eins og venjulega skiptum við í tvo hluta og byrjum á 11. – 20.sæti…neðan frá.

20.sæti Cardiff City 15 stig

Hæ Neil minn Warnock og bless Neil minn Warnock. Við þekkjum öll boltann hjá Warnock sem er sennilega ýktasta long-ball útgáfan af fótbolta með djúpum varnaleik og honum öskrandi brjáluðum á hliðarlínunni. Vissulega er okkar ástkæri landsliðsfyrirliða á meðal leikmanna Welska liðsins en það er bara ekki nóg til að við öðlumst trú á lið sem öskrar á okkur Championship gæði.

19.sæti Huddersfield 19 stig

Lærisveinar David Wagner voru í frjálsu falli eftir áramót í fyrra en héldu sér uppi á góðum fyrriparti. Við höfum töluverða trú á að þeir muni verða fórnarlamb „second season syndrome“ og vanti einfaldlega gæði til að ná að vera áfram á meðal þeirra bestu. Wagner hefur þó unnið aðdáunarverða vinnu og alls ekkert víst að hann fari niður með þeim…er jafnvel dark horse að fá stærra lið ef einhver yrði rekinn.

18.sæti Brighton 39 stig

Ef við lesum í stigatöluna má telja nokkuð ljóst að við erum allir á því að Cardiff og Huddersfield ströggli en það er töluvert stökk upp í næstu lið. Brighton fær þriðja sætið í spánni okkar en það skiptist til helminga okkar á milli, helmingur telur þá bjarga sér og helmingur spáir falli. Hughton er að reyna að láta þetta lið spila fallegan fótbolta og á liðnu tímabili tókst það nokkuð vel. Þeir hafa í sumar keypt erlenda leikmenn, lítt þekkta, frá meginlandi Evrópu svo kokteillinn á að verða svipaður. Við semsagt teljum að hann verði súr að lokum.

17.sæti Southampton 41 stig

Við semsagt teljum að nágrannar Brighton á suðurströndinni verði í sætinu ofan við þá, naumlega…ræðst líklega bara í síðustu umferð og þar munu mörk Danny Ings skipta þá miklu máli. Mark Hughes hefur átt í bölvuðu basli sem stjóri undanfarin ár og þarf virkilega að fara að beygja upp á við en satt að segja þá virkar það ekki þannig að klúbburinn sé á réttri leið og kaupin í sumar (utan Ings) eru á leikmönnum sem eru frekar lítt þekktir og ekki með mikla reynslu í toppfótbolta, þó má vissulega nefna hafsentinn Jannik Vestergaard sem leikmanns sem horfa má til. Dýrðlingarnir rétt sleppa við fall og líklega verður Hughes ekki til loka tímabilsins þar!

16.sæti Fulham 49 stig

Nýliðarnir frá London munu verða í fallbaráttu en halda sér uppi. Jean Michael Seri, André Schurrle, Alexander Mitrovic…allt býsna öflug kaup hjá nýliðunum sem geta sótt í digra sjóði eigandans aftur í janúar ef þarf til. Áhugaverður knattspyrnustjóri, Slavisa Jokanovic vill að liðið spili hraðan sóknarfótbolta og innan þeirra raða er eitt mesta efni enska fótboltans, Ryan Sessegnion, sem hefur m.a. verið orðaður reglulega við Liverpool í gegnum tíðina. Vert er svo að muna að Fulham er eitt „Íslendingaliðanna“ í deildinni, Jón Ágúst Þorsteinsson hefur farið mikinn með unglingaliðum félagsins og eygir von um að vera í leikmannahópnum í vetur. Það yrði skemmtilegt!

15.sæti Crystal Palace 51 stig

Rétt ofan við Fulham er annað Lundúnalið, lærisveinar Roy Hodgson hjá Palace og mótherjar í okkar fyrsta útileik í vetur. Selhurst Park er einn erfiðasti útivöllurinn að fara á, gríðarlegur hávaði frá áhorfendum, gamaldags þröngur völlur tilvalinn fyrir Woy-boltann. Palace héldu Zaha sem skipti þá miklu máli og náðu í feitan bita á miðjuna þegar þeir náðu í Max Meyer á frjálsri sölu, hann ásamt Kouyaté sem kom frá West Ham mynda saman nokkuð sterka miðju. Þeir verða ólseigir alla leið í gegn og munu ná í þau úrslit sem þurfa til að halda sæti á meðal þeirra bestu áfram. Þrátt fyrir stjórann….

14.sæti Watford 53 stig

Í svipaðri stöðu og liðin tvö á undan. Útborgarlið frá London sem spilar kraftabolta. Misstu Richarlison yfir til Everton í sumar…reynar fyrir svakalegan pening, keyptu Deulofeu í staðinn og í raun lítið annað. Javi Garcia stjórnar hringekjunni að þessu sinni en það er eitt minnsta atvinnuöryggi fyrir stjóra deildarinnar að stýra Watford enda býsna skrautlegir eigendur þar á ferð. Watford heldur sínum kjarnamönnum eins og Deeney, Caboue og Kaboul og mun sleppa nokkuð örugglega við fall að okkar mati.

13.sæti Bournemouth 56 stig

Ævintýrið hans Eddie Howe heldur áfram og suðurstrandardrengirnir hans verða örugglega áfram í deildinni, vissulega skammt undan botnsins en samt með mörg lið fyrir neðan sig. Það er auðvitað ekkert vit að lið með 12500 manna heimavöll í smáborg nálægt risum haldist í þessari deild en þannig er það nú samt…og þar á stjórinn klárlega stærstan heiðurinn. Í raun er hálfgert blaðamál að hann hafi enn ekki verið veiddur yfir í stærra lið og hreinlega hlýtur að fara að gerast. Stóru kaup sumarsins voru í kólombíska varnarmiðjumanninum Jefferson Lerna en eins og hjá Watford liggur kraftur Bournemouth í samheldum leikmannahóp sem hélt sínum nöfnum í sumar og stjóra sem veit nákvæmlega hvernig á að ná út úr þeim því besta!

12.sæti Newcastle 59 stig

Newcastle verða um miðja deild. Fyrir því er ein ástæða…Rafael Benitez. Ef hann gefst upp á þeim sirkus sem er í kringum eiganda félagsins og ótrúlega lélegum afrakstri á leikmannamarkaðnum undanfarin ár verður leiðin niður greið. Það er í raun magnað að Rafa sé þarna enn og segir bara mest um það hversu hátt hann metur félagið sjálft og umgjörð þess, þ.e. áhorfendur og borgina. Hann þurfti í sumar að horfa til frjárlsra sala og kaupa undir 10 milljónum punda og um leið selja leikmenn á móti. Rafa hefur náð í óslípaða demanta sem falla inn í leikstíl hans í gegnum tíðina og honum mun takast það áfram. Vá hvað Newcastle gætu náð langt með því að bakka kappann upp á markaðnum!

11.sæti Burnley 75 stig

Eftir nokkuð þéttan pakka frá 12 – 16 teljum við Burnley verða nokkuð ofan við hann, en þó í neðri hlutanum. Evrópuævintýrið og það að „surprise“-faktorinn er horfinn frá Turf Moor mun sjá til þess að eilítið skref verður tekið til baka en þó mun klúbburinn sigla lygnan sjó. Jóhann Berg verður í lykilhlutverki hjá Sean Dyche í vetur en stjórinn sá hefur náð flottum árangri. Í sumar bætti hann við tveimur leikmönnum, Ben Gibson og Matej Vydra, en þeir voru lykilmenn í góðum Championshipliðum síðasta vetur og svo splæsti hann í Joe Hart á síðustu dögum gluggans. Lykilatriðið var að halda mannskapnum sem gerði svo vel í fyrra og það tókst. Burnley verða í fínum málum og halda áfram að festa sig í sessi í toppdeildinni…en svo selja þeir Jóa fyrir metfé næsta vor eftir flottan vetur!

Þar með er fyrri hluti spár okkar opinber – sá síðari (sem upplýsir trú okkar á Liverpool FC líka) birtist á morgun áður en fyrsta upphitun leiktímabilsins dettur í hús…

ÞETTA ER ALLT AÐ FARA AÐ GERAST KRAKKAR!!!!

Æfingahópur í upphafi tímabils

Eftir óvenju mikla athygli á öðrum fótbolta en enskum nú í sumar þar sem maður gekk svo langt að horfa á fótbolta í bláum búningi mæta okkar menn til æfinga núna á þriðjudag, þann 2.júlí.

Yfirleitt er það þannig á stórmótsári að ansi stór skörð eru í æfingahóp Liverpool en þetta árið er þessu þó miklu betur farið en oft áður. Bæði er það að töluvert er um að í okkar hópi séu leikmenn sem hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í sín landslið, voru ekki valdir eða að liðin þeirra voru ekki með í Rússlandi. Það er ekki úr vegi að skoða nánar þennan hóp sem mætir á Melwood á þriðjudaginn, bæði skoða lykilmennina sem eru á svæðinu en líka þá sem eru að snúa til baka úr láni eða á leið upp úr unglingaliðunum. Draga saman leikstöðurnar, hverjir verði þar áfram, hvort reikna mætti með að einhverjir þaðan hverfi á braut og þá hvort styrkingar er þörf.

Rúllum af stað, enda stutt í fyrsta leik sem er við Chester City laugardaginn 7.júlí.

Markmenn

1. Loris Karius – 34. Adam Bogdan – 52. Danny Ward (Simon Mignolet í HM-leyfi)

Ungir: Kamil Grabara – Shamal George

Hefjum leik á hanskaþjóðinni sem mun væntanlega telja þrjá í aðalliðshóp plús einn ungan með aðkomu að Melwood, þannig hefur Klopp sett þetta upp. Satt að segja þá er óvissan mikil um þessa leikstöðu og stóra verkefnið þeirra þriggja sem hafa númer er ólíkt. Karius hefur verið ræddur í þaula og koma verður í ljós hvort hann á innkomu eftir mörkin gegn Real, þar sýnist sitt hverjum. Danny Ward er líklega besti þriðji markmaðurinn í enska boltanum og verkefni hans í sumar hlýtur að verða að komast ofar í röðina eða þá yfirgefa félagið. Hann mun fá mínútur í leikjunum í júlí án vafa og þær munu líklega ráða framhaldi hans.

Við erum svo enn með Adam Bogdan á samningi (til 2019) en ljóst er að enn eitt árið munum við reyna að koma honum út og til annars liðs. Það er ekkert víst að það takist og þá fær hann að klára samninginn, enda á góðum launum og glaður að fá að æfa hjá liðinu sýnist manni.

Kamil Grabara
Ungu mennirnir tveir eru annars vegar Pólverjinn Grabara og enski unglingurinn Shamal George. Þeir hafa skipt með sér U23ja leikjunum undanfarin ár og munu því væntanlega fá að æfa með Achterberg nú í upphafi leiktímabilsins. George fór í lán á síðasta vetri og líklegt þykir mér að hann verði á þeim vagninum aftur í vetur. Annað mál er held ég með Kamil Grabara. Þar er á ferð mikið efni sem gæti hæglega tekið stöðu þriðja markmanns hjá klúbbnum held ég. Stór og stæðilegur markmaður sem er óvenju fljótur á fótunum miðað við það og býsna góður að koma boltanum í leik. Hann mun fá mínútur og er líklegur til að velgja Ward duglega undir uggum.

Í HM-fríinu er Simon Mignolet. Ég held að ljóst sé að hann og Karius verði ekki báðir í klúbbnum og í því ljósi held ég að Liverpool muni kaupa markmann, hvort sem það verður risi eins og Allison sem slær Karius út eða þá annan sem verður með Þjóðverjanum í að slást um aðalstöðuna. Spennandi staða uppi en í fyrstu leikjunum munu Karius, Ward og Grabara skipta á milli sín mínútum.

Niðurstaða:

Loris Karius og Kamil Grabara verða áfram auk þess sem markmaður verður keyptur. Danny Ward og Simon Mignolet verða seldir, Shamal George (skammtíma) og Adam Bogdan (langtímalán) verða lánaðir í burtu, þann tíma sem George verður í burtu mun Írinn Caoimihn Kelleher fá að æfa á Melwood og spila með U23ja ára liðinu.

Varnarmenn

2. Nathaniel Clyne – 4. Virgil Van Dijk – 12. Joe Gomez – 17. Ragnar Klavan – 18. Alberto Moreno – 26. Andy Robertson – 32. Joel Matip – 56. Conor Randall (TAA og Dejan Lovren í HM-fríi)

Ungir: Conor Masterson – George Johnston – Corey Whelan

Það er morgunljóst að það er gríðarsterk varnarlína sem að mun verða við æfingar strax frá fyrsta degi. Sem er jú alveg frábært því ég hel að það muni hjálpa bara töluvert að geta teiknað enn betur upp þann hluta leiksins. Í raun er bara einn þarna sem er örugglega að fara, það er hann Conor Randall sem hefur verið að fara burt á láni undanfarin ár og mun skila einhverri milljón punda í kassann. Að auki eru nú uppi fréttir um það að Ragnar Klavan vilji skoða sína stöðu betur og það er nú alveg skiljanlegt, búinn að vera lykilmaður í öllum liðum þangað til undanfarin tvö ár en væri flottur kostur áfram númer 4 – 5 í okkar hópi og mun líklega fá mínútur í leikjunum í júlí.

Sumarið verður kærkomið fyrir Nathaniel Clyne sem missti allt síðasta tímabil í rauninni. Í millitíðinni hefur hann í raun misst stætið sitt til unglingsins Trent Alexander Arnold og það verður gríðarlega mikilvægt fyrir hann að nýta sín tækifæri í æfingaleikjunum. Í þeim munum við líklega einnig sjá Joe Gomez í hafsentastöðu sem var sú staða sem hann var keyptur til að spila í þó hann hafir meira verið nýttur sem bakvörður hingað til. Í fjarveru Dejan Lovren fær hann að spila með Virgil sér við hlið og það verður spennandi að fylgjast með þeirra samstarfi. Joel Matip hefur misst mikið af leikjum vegna meiðsla frá því hann kom en ég held að hann verði áfram partur af hópnum þó óvíst sé að hann verði tilbúinn í það aukahlutverk sem mér sýnist honum ætlað. Vinstri bakverðirnir tveir munu rúlla á milli sín mínútum. Eitthvað hefur frést af því að mögulega verði Moreno látinn fara þar sem aðeins eitt ár er eftir af samningnum hans en á móti eru sterkari raddir sem segja að við séum að framlengja samninginn við hann.

Conor Masterson
Við munum fá að sjá unga menn. Corey Whelan var fyrirliði U23ja ára liðsins í vetur og var síðan í janúar lánaður til Yeovil þar sem hann spilaði töluvert. Hann var lengst af hafsent en hefur upp á síðkastið spilað hægri bakvörð, þar fáum við að sjá hann leysa Clyne af þangað til TAA kemur til baka. Conor Masterson er tvítugur írskur hafsent sem hefur æft á Melwood allt árið 2018 og verið í leikmannahóp í Meistaradeildinni. Hann mun fá mínútur í sumar og ef hann nýtir þær vel gæti vel farið svo að hann fengi mínútur í vetur. Til að velja „outsider“ af þeim ungu skelli ég inn hugmynd um að George Johnston fái mínútur. Getur leyst bæði stöðu hafsents og vinstri bakvarðar, grjótharður Skoti sem gæt vel náð að grípa auga þjálfarateymisins…en er þó líklegur á lánamarkaðnum næsta vetur.

Niðurstaða:

Clyne verður með TAA í bakverði næsta vetur, Joe Gomez fær hafsentspláss með Virgil og Lovren, Ragnar leitar á önnur mið og við kaupum hafsent sem gæti þýtt að Matip hugsi sinn gang. Moreno fær nýjan samning og verður bakvörður með Robertson. Corey Whelan verður lánaður í ágúst, Masterson spilar með okkur og fær mínútur í deildarbikar, Johnston spilar með U23 fram í janúar og lánaður þá.

Miðjumenn

5.Gini Wijnaldum – 7. James Milner – 8. Naby Keita – 20. Adam Lallana – 40. Ryan Kent – 50. Lazar Markovic – 54. Sheyi Ojo – 58. Ben Woodburn – 68. Pedro Chirivella – Fabinho (Jordan Henderson og Marko Grujic í HM fríi, Ox meiddur út árið)

Ungir: Rafael Camacho – Curtis Jones – Bobby Adykanye

Hér verður svo sannarlega veisla að fá að fylgjast með. Við erum strax í æfingaleikjunum með mikil gæði á miðjunni. Fyrst auðvitað verður geggjað spennandi að sjá Fabinho í dýpinu í fjarveru Hendo og svo mun þindarleysinginn Gini verða við hlið Naby Keita eða Ben Woodburn…og svo er það stoðsendingakóngurinn James Milner og vonandi heill Lallana…það kannski segir eitthvað um hann (eða mig) að ég gleymdi honum í upptalningunni hér en bæti umræðu um hann nú við eftir góða athugasemd hér að neðan. Adam hefur orðið verra meiðslahlutfall á sínum LFC ferli en Sturridge karlinn, það þarf að breytast því við vitum allir um hæfileika hans. Allir þessir munu spila mikið í æfingaleikjunum, en að auki finnst mér líklegt að við fáum að sjá allnokkrar mínútur hjá Pedro Chirivella, 21s árs Spánverja sem lék lykilhlutverk í láni hjá Willem II í Hollandi í vetur. Það er enn alveg séns fyrir hann að eiga feril hjá Liverpool, Klopp sendi lykilnjósnara sína að horfa á hann og mun gefa honum tækifærið. Það sam verður líklega ekki sagt um Kent, Markovic og Ojo sem allir áttu í basli síðasta vetur í sínum lánssamningum. Við fáum mögulega að sjá þá í fyrstu æfingaleikjunum…en það verður til þess að hægt verði að selja þá.

Curtis Jones
Af þeim ungu verður mjög líklegt að við sjáum Curtis Jones töluvert. Þessi 17 ára strákur er klárlega sá mest spennandi þeirra ungu hjá klúbbnum núna. Gríðarlega vinnusamur og grjótharður leikmaður, box-to-box miðjumaður sem skorar mörk og vinnur tæklingar. Ég hef alla trú á því að hann fái fullt af mínútum í æfingaleikjunum og ef hann nýtir þær vel mun hann verða hluti af aðalliðshópnum í vetur og fá mínútur þar. Rafa Camacho og Bobby Adykanye hafa báðir fengið töluvert að æfa á Melwood í vetur og munu fá mínútur í fyrstu leikjunum, sóknartýpur frekar en hreinræktaðir miðjumenn sem hafa gaman af því að taka menn á.

Niðurstaða:

Markovic, Kent og Ojo verða losaðir af launaskrá. Woodburn eða Chirivella fá pláss í aðalliðshópnum í vetur og hinn fer í lán hjá stóru liði. Gini, Fabinho, Hendo, Keita og Milner verða miðjan okkar næsta vetur að stærstum hluta, vonandi heill Lallana líka. Grujic verður líklega lánaður í heilt ár frekar en seldur og ég held að Curtis Jones verði hluti hópsins. Við kaupum ekki fleiri inn á miðjuna og Camacho og Adykanye verða í U23 og síðan lánaðir. Ox verður svo klár vonandi í janúar.

Framherjar

15. Daniel Sturridge – 27. Divorck Origi – 28. Danny Ings – 29. Dom Solanke – 59. Harry Wilson (Sadio Mané – Mo Salah og Bobby Firmino í HM fríi)

Ungir: Taywo Awoini – Rhian Brewster – Glen McAuley

Hérna verður líklega allfróðlegast að horfa á æfingaleikina! Þegar þetta er skrifað lítur út fyrir að Danny Ings verði farinn frá félaginu og ekki þykir mér heldur líklegt að við sjáum mikið meira til Daniels míns Sturridge í alrauða búningnum. Svo þangað til að við sjáum „The golden trio“ á ný munum við sjá í framlínunni menn sem verða að berjast hart fyrir því að vera í aðalliðshóp LFC næsta tímabil. Þar verður Dom Solanke fremstur í röðinni eftir fínan endapunkt á síðasta tímabili en ég held að við sjáum líka Harry Wilson og Divorck Origi fá fullt af mínútum í fyrstu æfingaleikjunum.

Af ólíkum ástæðum þó. Origi hlýtur að horfa til þess að fá stórt hlutverk í aðalliðshópnum hjá okkur eða fara annars varanlega frá klúbbnum en ekki á láni á meðan að Wilson mun vilja sanna það fyrir Klopp að hann geti átt hlutverk í 17 – 22 númerunum í róteringunn í vetur. Ég hlakka mikið til að sjá til þeirra, Origi átti mjög erfitt í Þýskalandi í vetur og verður einfaldlega að standa sig hrikalega vel ef hann á að fá eitthvað annað hlutverk en að styrkja peningakassann en Wilson átti frábært lánstímabil með Hull eftir að hafa verið langbesti leikmaður U23ja um nokkurt skeið. Hann hefur gríðarlega hæfileika en þarf auðvitað að sýna þá með aðalliðinu og mun fá til þess möguleika í júlí sem hann verður að taka…annars verður hann lánaður til stærra liðs en Hull City.

Rhian Brewster
Af ungu mönnunum er ljóst að Rhian Brewster mun fá mínútur. Hann skrifaði í sumar undir samning og það hefði hann alls ekki gert nema að fá sterkar vísbendingar um það að hann yrði hluti aðalliðsins. Þessi strákur er mikið efni, þrátt fyrir að vera frekar léttur er hann helvíti harður í viðskiptum með mikla alhliða tækni, góðan hraða og heilmikið markanef. Hann verður látinn spila þessa æfingaleiki í byrjun og líka þegar líður lengra fram á sumarið til að sjá hvort hann er tilbúinn í að verða í alvörunni hluti aðalliðsins í vetur, það verður mjög spennandi.

Sá sem langbesta mótið gerði í lánabransanum í vetur var Taywo Awoniyi, 21s árs nígerískur framherji sem eyddi síðasta tímabili í láni hjá Mouscron í Belgíu, skoraði þar 9 mörk og lagði upp önnur 7 í 29 leikjum. Hann hefur verið lánaður út síðustu þrjú tímabil til liða á meginlandinu og gengið nokkuð vel. Hann mun nú fá mínútur í æfingaleikjum til að það sjáist hvort það verður mögulega hann sem gæti hirt „rotation spot“ næsta vetur, verður annars seldur.

Wildcardið er svo hann Glen McAuley, 18 ára írskur strákur sem er senter af gamla skólanum og hefur raðað mörkum fyrir yngri liðin. Við sjáum hann örugglega fá smá blóð á tennurnar í þessum leikjum núna í sumar til að gera hann enn hungraðri í að ná árangri.

Niðurstaða:

Hér er leikstaða sem ég tel líklegast að verði styrkt. Ég hef ekki trú á því að Origi nái að vinna sér sess hjá klúbbnum á ný og verði seldur og hver þeirra Wilson, Brewster, Solanke og Awoniyi sem ná að spila vel í sumar held ég að þar fari bara tvö sæti sem fá mínútur í hópnum. Ég er nokkuð viss um að Solanke fær annað þeirra og í dag tippa ég á Wilson sem hitt sætið…sem yrði svo til þess að Brewster verði lánaður í Championshipdeildina en Avoniyi verði seldur til meginlandsins á ágætan pening. Ings og Sturridge fara. Hver verður svo keyptur…það kemur í ljós, óskalistinn minn kemur síðar.

SAMANTEKT

Semsagt, menn mæta á æfingar og spila svo fjóra leiki á 12 dögum í nágrenni Liverpool þar sem við fáum líklega að sjá þennan leikmannahóp sem ég hef farið yfir.

Mitt mat í dag er það að við fáum nýjan markmann og framherja, mögulega hafsent, áður en tímabilið hefst. Við munum sjá unglingana Curtis Jones og Harry Wilson fá stærri hlutverk næsta tímabil en töluverð hreinsun verður í júlí og fram í ágúst. Mér finnst líklegt að Mignolet, Ward, Klavan, Kent, Ojo, Sturridge, Ings, Origi og Avoniyi muni svo hverfa varanlega á braut.

Allavega. Fyrstu æfingar sumarsins eru alltaf frábær áminning um það að það styttist í veislu næsta vetrar.

YFIR ÞVÍ BER AÐ GLEÐJAST!

Leikjaplan og miðar á leiki

Þá er það komið út, leikjaplanið í vetur.

Það er að finna hér í fyrstu útgáfu en auðvitað á eftir að færa til leiki vegna sjónvarpsútsendinga og þátttöku í Meistaradeildinni.

Þetta er alltaf skemmtilegur dagur, West Ham koma á Anfield í fyrsta leikinn, fyrsti útileikurinn er á Selhurst og síðasti leikur heima við Úlfana. Við verðum vígslulið nýs White Hart Lane og spilum geggjaða heimaleiki í desember.

Samstarf við Norwegian Sports Travel

Nú á dögunum var gengið frá því að ferðaskrifstofan Norwegian Sports Travel mun geta aflað lesendum kop.is opinbera miða á alla leiki Liverpool á Anfield í vetur og hóteli í tengslum við leikina. Við munum fljótlega búa til flýtihnapp hér á síðuna sem flytur lesendur yfir á þeirra síðu en þangað til er hægt að smella á þennan hlekk hér og hann mun flytja ykkur yfir á bókunarsíðuna.

Allir deildarleikir tímabilsins eru komnir í sölu hjá þeim frá og með deginum í dag. Nú um helgina munum við láta vita af þeim leikjum sem munu verða fyrir valinu sem „Kop.is-ferðir“ með því prógrammi sem þar hefur fylgt undanfarin ár og þá verður líka komin leiðbeiningasíða um hvernig fara á um bókunarvef þeirra.

Athugið að það er tilboð hjá þeim á fyrsta leik tímabilsins við West Ham fyrir þá fyrstu sem bóka þar

Mig langar þó sérstaklega að benda á að fyrir fyrstu kaup á síðunni þarf að skrá sig inn (register) með helstu upplýsingum. Til að fara framhjá kvöð þeirra norsku um að fljúga frá Osló og fá Kop-afslátt þá þarf að slá inn afsláttarkóðann „kopis“ á fyrsta skrefi lokagreiðslunnar (ekki gæsalappir).

Hér er um opinberan söluaðila að ræða, miðar eru allt e-miðar sem eru sendir í tölvupósti til hvers kaupanda strax eftir kaup og með aðgengi að Reds Bar frá 3 klukkutímum fyrir leik og 1 klukkutíma að leik loknum, sæti í Kenny Dalglish stand. Tvær nætur á Premier Inn eru innifaldar og rúta til og frá leikstað, hins vegar þarf að kaupa flug sér og það að koma sér til hótels í Liverpool er á ábyrgð hvers og eins!

Að öðru leyti vísa ég bara í það að fólk smelli á hlekkinn og fari að skipuleggja ferð á völl allra valla. Þegar að leikir í Meistaradeild og bikarkeppnum eru klárir koma þeir líka inn á síðu Norðmannanna.

SIR Kenny Dalglish

Þær ánægjulegu fréttir bárust í gær að breska krúnan hefði tekið ákvörðun um að aðla King Kenny Dalglish og verður það staðfest nú á næstu vikum þegar drottningin kallar hann til sín, dúkkar sverði á axlir og staðfestir riddaratign hans.

Við gerum okkur held ég ekki grein fyrir því hversu stórt er litið á þessa orðu. Með virðingu fyrir okkar Fálkaorðu þá erum við færri um þá hitu og henni fylgir ekki sú tign í hjörtum fólks og er í Bretlandi. Dalglish-nafnið er nú komið í breska annála sem ná langt út fyrir íþróttakreðsuna og verður þar löngu eftir að við höfum hætt að skrifa inn á síðuna.

Dalglish sjálfur er hógværðin uppmáluð að venju og bendir á aðra íþróttamenn og stjórnendur sem hefðu verið a.m.k. jafn verðir þessa titils en um leið greinum við auðvitað þann heiður sem hann upplifir að fá titilinn.

Ég held að enginn núlifandi vera sé meiri táknmynd Liverpool FC en King Kenny Dalglish. Hann fékk það stóra hlutverk að fylgja í skó Kevin Keegan og það segir eiginlega allt bara að ári síðar voru bara allir búnir að gleyma þeim geggjaða hrokkinhærða framherja og frá fyrsta degi varð KD7 elskaður í Liverpool. Við sem munum eftir frammistöðum hans getum ornað okkur við gríðarmargar minningar um sigrana hans, mín sterkasta var FA Cup úrslitaleikurinn 1986 þegar hann fór fyrir liðinu sínu sem framkvæmdastjóri og tryggði einu „The double“ í sögu félagsins. En vá hvað margar aðrar eru til.

Sem stjóri bjó hann til lið sem var þess tíma langskemmtilegasta „pass-and-move“ lið í Evrópu en vegna bannsins á ensk lið náðu þeir ekki nema í heimatitla. Dagurinn sem hann hætti var dimmur en sá þegar hann kom til baka bjartur. Ég grenjaði báða dagana, af ólíkum ástæðum.

Fyrir utan fótboltann hefur karlinn heldur betur tekið til sín í samfélagsmálum. Dagarnir í kringum Hillsboroughslysið voru heldur betur prófraun fyrir félagið okkar og þar fór King Kenny fremstur í flokki, fór á allar jarðarfarir sem hann mögulega gat ásamt magnaðri eiginkonu sinni Marinu og kom fram fyrir hönd félagsins þaðan frá á ótal stöðum þegar farið var yfir málið.

Hann er fæddur sigurvegari, náði árangri með Blackburn Rovers og Celtic í stjórastólnum og síðasti bikar sem settur hefur verið í geymslu kom undir hans stjórn, deildarbikarinn 2012. Þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið að halda áfram með liðið og röng ráðning hafi komið í hans kjölfar þá sáu FSG til þess að hann yrði áfram á stalli klúbbsins okkar og á liðnu leiktímabili var nafn hans sett á næststærstu stúkuna á Anfield, sem var virðingarvottur við hæfi.

Ég mun ekkert fella tár þegar orðin „Arise Sir Kenny Dalglish“ verða sett í loftið en það er virkilega ánægjulegt að King Kenny sé settur á þann stall sem honum ber, á meðal breska aðalsins. Þar eiga Kóngar heima!!!