Conte kemur í heimsókn

Hliðar saman hliðar er nokkuð öflugt dansspor sem er jú undirstaða ólíkra dansafbrigða.

Þessa dagana eru okkar drengir í LFC í slíkum dansi við ljósbláa liðið úr borginni illu rétt austan við okkar, City-liða Pepparans Garðars. Eins og um síðustu helgi stígum við fyrsta skrefið í dansinum þessa helgina þegar lærisveinar Antonio Conté í Spurs mæta á svæðið, City fær Newcastle svo í heimsókn á sunnudaginn, vonandi 2 stigum á eftir okkar mönnum fyrir þann slag og með pressu á sér eftir að hafa klúðrað CL enn eitt árið.

Tottenham mæta fyrir framan laugardagsljósin seinni part þann 7.maí í hörkubaráttu um síðasta CL sætið. Eftir að West Ham féll úr Evrópudeildinni er endanlega ljóst að það sæti mun gefa sæti í Meistaradeildinni næsta ár og þar er auðvitað að miklu að slægjast. Gárungarnir vilja meina það að það muni öllu ráða um framtíð Conté hvort að Lundúnaliðið verði í þeirri keppni næsta haust, hann geti valið um lið í sumar sem verður í þeirri keppni. Svo hann kemur stemmdur og strákarnir hans líka.

Þeir hafa komist á kaf í baráttuna aftur með því að taka 7 stig af 9 mögulegum í síðustu þremur leikjum, nú síðast með 3-1 sigri á Leicester…og á meðan að öll liðin í kringum fjórða sætið virðast hrasa í kapphlaupinu gætu Tottenham með sigri komist í þetta sæti með aðeins þrjár umferðir eftir.

Leikplan Conté hefur á köflum fallið ágætlega að Spurs. Hann er skyndisóknarþjálfari sem vill þéttan varnarleik og hraða í upphlaupin. Hann hefur auðvitað algera draumamenn í það í mönnum eins og Kane, Son og Lucas Moura auk þess sem Svíinn Kulusevski hefur verið vaxandi leikmaður og verður líklega keyptur í sumar frá Juve. Miðjan stendur og fellur með Höjberg karlinum að öllu leyti en vandi Spurs hefur legið í því að þeir eru ekki að verjast í þeim anda sem Ítalinn knái myndi vilja sjá. Þeir eru einfaldlega afsakplega mistækir varnarlega, eiga mjög erfitt með að verjast föstum leikatriðum og maður veit aldrei hvort Lloris karlinn leikur kóng eða trúð í markinu. Hann hefur þó sjaldnast leikið kóng á Anfield, vonum að svo verði áfram.

Okkar menn koma með sjálfstraustið í botni eftir einn mesta “game of two halves” sem ég hef upplifað. Algert andlát í fyrri hálfleik en svo verulega sterkur seinni í Villareal og farmiði til Parísar staðreynd, nokkuð sem við erum eiginlega orðin kjánalega vön að hendi, en ánægjulegt á allan hátt.

Eins og vaninn verður í lokahrinu mótsins er stutt í næsta leik. Við eigum deildarleik við Aston Villa á þriðjudagskvöldið og svo rúllum við í úrslitaleik á Wembley þann 14.maí svo að stjórinn mun þurfa að spila hópnum sínum eitthvað. Það er þó alveg ljóst að þessi leikur er mikið bananahýði og Klopp mun svo sannarlega ekki vanmeta eitt eða neitt við lið sem Conté þjálfar, hvað þá þegar við rifjum upp fyrri leikinn sem lauk 2-2 eftir dómaraþvælu sem gæti orðið ansi stórt atvik í titilbaráttunni þetta tímabil.

Það var heilmikill hasar og tempó í Villareal svo það er alveg viðbúið að einhver breyting verði á liðinu…og ég er nokkuð viss um að þeir sem spila mikið gegn Spurs verða látnir spila minna við Villa. Ég skýt á þetta lið:

Við fáum Matip inn til að eiga við Kane, þurfum að halda Trent og Robbo vegna hraða Spursarann, Fab verður hvíldur og Mané líka þrátt fyrir slaka frammistöðu Jota. Í vikunni held ég að a.m.k. annar bakvörðurinn fái hvíld, Thiago og Salah sem verði lagt upp fyrir næstu bikarárás.

Þetta er stór leikur eins og allir sem verða í gangi út þennan mánuð. Það verður hörkufjör á Anfield, stemmingin er góð á kvöldleikjum við Walton Breck Road og eins og gengið er núna er það enn meira stuð. Völlurinn mun skoppa og það mun skipta máli. Spurs hafa að miklu að keppa og ég er handviss um að þetta verður háspennu leikur.

Við vinnum 3-2 og tökum skref til hægri, vonandi taka City vinstra skref og ná bara í stig eða hreinlega misstíga sig falla til gólfs eftir kröftugt dansspor Skjóranna frá Newcastle.

KOMA SVOOOOOOOOOOOOOOO!!!

4 Comments

 1. Sæl og blessuð

  Takk fyrir pistilinn. Gott að lesa þessa bjartsýni. Held þetta verði einn af leikjum tímabilsins – opið og örvæntingarfullt Tottenham-lið á móti opnu og reynslumiklu liði Liverpool. Held að Klopp muni reyna að hjóla í angistina sem býr undir þunnri hvítri skáninni á andstæðingum – keyra á þá á öllum kalíberum og halda svo yfirhöndinni í spili og stöðum út leikinn. Ekki spillir fyrir að vörnin sem var mistæk fyrir er nú löskuð vegna meiðsla.

  Reynslan sem þetta lið okkar hefur aflað sér er á við þrettánda leikmanninn. Þeir hafa vaðið strauma, klifið fjöll, bjargað sér úr skriðum og klofað yfir glóandi hraun. Ekkert mun koma þeim á óvart þegar titlarúið Tottenhamlið manar þá í einvígið. Nei, leikurinn gegn Villareal sýndi það hversu óralangt þetta lið hefur ferðast frá því á árdögum Klopps með fagurrauðum.

  Ætla því að taka undir bjartsýni pistlahöfundar og spá okkar mönnum sigri 4-2.

  9
 2. Þetta verður vonandi skemmtilegur leikur, þó hann sé ansi mikilvægur fyrir bæði lið.
  Liverpool er vissulega betra, en ef við missum okkur niður á planið sem við vorum á móti Villareal í fyrri hálfleik, þá gætu meistari Son og Kane refsað okkur.
  Held við tökum þetta samt 2-1

  2
 3. Við vinnum 2-1. Fabinho og Salah byrja, ekki Keita og Jota. Mörkin koma frá þeim.
  Conte (áherslan er á næst síðasta atkvæði og þess vegna er ekki ritað Conté) mun rífa hár sitt og skegg eftir tapið og tekur við Juve í sumar.

 4. Fínasta upphitun í gangi hjá Brighton og einhverju rauð-hvítu liði.

  1

Aldrei gleyma

Byrjunarliðið gegn Tottenham