Egypski kóngurinn vinnur enn titil!

Nú hafa allir þeir leikmenn mætt á æfingar sem munu ganga í gegnum hasarinn sem er settur upp fyrstu dagana eftir sumarfríin, einungis Curtis Jones og Harvey Elliott er ekki enn komnir á svæðið en þar sem að þeirra frí verður styttra sökum fótboltaþátttöku fara þeir ekki allan skalann.

Það er frægt víða að frá því að Jurgen Klopp tók við eru fyrstu æfingadagarnir ansi strangir og beðið með eftirvæntingu eftir lactate hlaupaprófinu sem hann innleiddi og James Milner vann ÖLL sín ár hjá félaginu undir Klopp. Það var ljóst að nýr yrði krýndur og gárungarnir höfðu talað um að Joe Gomez og Andy Robertson hefðu verið nærri Millie í gegnum tíðina.

Það bárust svo fréttir í morgun af niðurstöðum prófsins sem var þrískipt. Joe Gomez vann fyrsta riðilinn með þeim sem að mættu fyrstir og í gær var hinum síðari skipt í tvo hópa. Nýliðinn Szoboszlai sýndi það að hann er í toppstandi og vann sinn riðil en það var hins vegar sigurvegari fyrri riðils þess dags sem kom best út og það virtist koma hópnum á óvart að kóngurinn eini og sanni, Mo Salah vann þann riðil og á þann hátt sigra það samanlagt. Stutt á eftir honum var fyrirliðinn Hendo sem líka hefur bætt sig milli ára. Þessir tveir hafa verið að sýna myndir af sínum æfingavenjum í sumar og eru greinilega staðráðnir í að leiðrétta ömurlegt gengi síðasta árs.

Kóngurinn sjálfur

Undanfarna daga hafa borist af því fréttir að Arabagullliðin hafi áhuga á því að kaupa Mo Salah. Kemur auðvitað engum á óvart enda maðurinn stærsta íþróttanafn þess heimshluta, átrúnaðargoð hundruða milljóna manna! Á sumum spjallþráðum hafa einhverjir aðdáendur talið það bara ágætis hugmynd.

Sjitt hvað ég er ósammála því!!!

Mo Salah er besti knattspyrnumaður Liverpool FC þessa dagana og hefur verið í nokkur ár. Hann er mesti markaskorari liðsins síðan Ian Rush var og þar á undan er ekkert nafn nema Roger Hunt í hans klassa. Fyrir utan það að vera markaskorari er hann líka frábær sendingamaður og hefur bætt sig mjög varðandi liðsþáttinn, hann var vissulega eigingjarn um of fyrstu árin en 12 stoðsendingar á síðasta ári var það hæsta hjá félaginu. Síðasta leiktímabil var nýtingin hans ekki alveg á þeim stað sem hún hafði verið áður, hann klikkaði á vítum og færum en það er fyrsta skrefið sem horft er til hvort leikmaður kemur sér í færi og þar ber hann algerlega af. Hann er líka sá framherja okkar sem mest getur unnið með einstaklingsframtakið þó að undanfarin ári hafi það orðið erfiðara því að það eru minnst tveir varnarmenn andstæðinganna uppteknir af því að dekka hann.

Í gegnum tíðina höfum við séð menn nálægt hans gæðum hverfa frá klúbbnum og við einfaldlega ekki náð að stilla okkur af. Torres fór og við vitum hvað það þýddi. Þegar Suarez fór til Barca voru raddir að reyna að telja það bara mál sem væri skiljanlegt. Einmitt.

Ég er eftir fréttirnar af árangri kóngsins í þrektestinu bara enn sannfærðari um það hversu ógeðslega mikilvægur Mo Salah er þessu félagi. Fyrir utan hæfileikann er hann algerlega titlaóður og gerir þær kröfur á aðra í kringum sig og hikar ekki við að ýta við félaginu varðandi þann metnað, eins og við sáum vel í fyrravor. Það er líka gaman að heyra viðtöl við ungu leikmennina okkar sem nefna hann sérstaklega sem þann leikmann sem duglegastur er að koma til þeirra og gefa ráð og alltaf tilbúinn að bakka þá upp. Hann er líka undantekningalítið enn síðastur af æfingum, tekur alltaf sér.

Frábær fótboltamaður og fyrirmynd sem félagið á að halda í mest af öllum. Ef við eigum að vinna titla í vetur þurfum við Mo Salah í toppgír. Það er bara þannig, “James Milner – titillinn” er hans, vonandi sá fyrsti af mörgum í vetur.

6 Comments

 1. Síðan Jurgen Klopp tók við hefur liðið ekki þurft að selja bestu mennina sína nema í einstöku sinnum og allir þeir sem fóru komust fljótlega að grasið væri ekki grænna hinum megin.

  1
 2. Það er lítið hægt að bæta við allt þetta lof frá Magga. Frábær fótboltamaður og sprettari þ.e.a.s. Mo Salah, ég er ekki að meina Maggi. Svo lítur Salah ótrúlega vel út í nýja grænhvíta búningnum sem er by the way flottasti varabúningur Liverpool ever. Ég finn ilm af nýslegnu grasi.

  3
  • Ég er sammála Eyvindi varðandi fyrri hluta athugasemdarinnar en get ekki tekið undir niðurlag hennar, þar er hann kominn á ystu nöf.

   2
 3. Aldrei selja Salah nema þá í skiptum fyrir Mbappe (sem á fleiri ár eftir). Ég sé ekki annan leikmann geta fyllt í skarð hans, nema kannski þennan Junior hjá Real sem lék okkur grátt í vetur. Hvorugt er að fara að gerast.

  Að auki hefur Salah alltaf sýnt félaginu mikla virðingu, er með hjartað á réttum stað og virðist vera auðmjúk og góð manneskja. Með brjálaðan metnað til viðbótar. Og alla hæfileikana. Slík blanda er fágæt og miðað við lífsstílinn og formið á honum gæti hann vel spilað á sama leveli í 3-4 ár í viðbót.

  No brainer að halda honum.

  4
 4. Snillingur, meiðslalaus og nánast alltaf með stöðuga markaframleiðslu.

 5. Einfaldlega okkar besti maður og ég sé ekki hver ætti að geta komið í staðinn fyrir Salah en að því sögðu þá nagaði ég á mér neglurnar af angist þegar litli kúturinn okkar fór til Barcelona eins með Suares þegar hann fór og sá bara svartnætti fram undan en eins og alltaf þá kemur maður í manns stað en ég get ekki annað en treyst því að Klopp geri það besta í stöðunni og geri allt sem í hans valdi stendur til þess að halda í Salah sem lengst.

Nýir leikmenn smá saga 1991-1999 part 1

Nýir leikmenn smá saga 2000 – 2009 Part 2