Benfica – portúgalski risinn

Það er frekar óhefðbundið að stór upphitun sé fyrir “European home” hjá okkar mönnum í CL og það líka að ég sé búinn að stelast til að verða sá sem skrifa doðrantinn um mótherja í Evrópuleik en ástæðan er algerlega mín. Annars vegar er það að ég myndi telja Benfica fast að því vera næstmesta uppáhaldslið mitt utan Íslands og því fæ ég að stela verkefninu af Evrópu-Einari og svo biðst ég forláts að hafa frestað verkinu, það vantaði einfaldlega uppá klukkustundirnar í síðustu viku hjá mér undirrituðum til að gera þessu ansi hreint magnaða liði almennileg skil…og því tökum við þessa beygju, þ.e. að skoða þá fyrir síðari leikinn, sem er jú heimaleikur okkar eftir öflugan 1-3 sigur í fyrri leik.

Upphafið

Benfica er einn þriggja risa portúgalska fótboltans ásamt nágrönnum sínum í Sporting og norðanveldinu Porto. Þessi lið hafa borið ægishjálm yfir íþróttina heimafyrir, alltaf leikið í efstu deildinni og af 87 meistaratitlum í sögu efstu deildarinnar hafa þessi lið samtals unnið 85 titla, einungis Belenenses (1946) og Boavista (2001) hafa náð að brjóta upp þá hefð þríhöfða risans.

Liðið er stofnað árið 1904, eða fyrirrennarinn sem bar nafnið Sport Lisboa, þegar hópur manna kom saman í apóteki í Belémhverfinu í vesturhluta Lissabonn borgar og ákvað að kominn væri tími á að stofna fótboltalið. Búningurinn var valinn rauðar treyjur, hvítar buxur og rauðir sokkar, ákveðið var að merki félagsins yrði örn með útbreidda vængi og á þeim tíma var doldið í tísku að velja sér innblásnar setningar úr latínu til að fanga baráttuandann og Sport Lisboa völdu sér “E pluribus unum” sem útleggst á íslensku u.þ.b. “einn af mörgum”. Þetta var ekkert endilega sérlega frumlegt þar sem bæði örninn og setningin voru í upphaflegu innsigli Bandaríkjanna þegar fyrstu 13 ríkin mynduðu ríkjasamband á 18.öld og er hugmyndin sú sama, að um væri að ræða vettvang sem væri sterkari sameinaður en sundraður.

Nóg um það – liðið hóf keppni í borgarkeppnum og á landsvísu sem voru útsláttarkeppnir og ótalmargar. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ekki upp á marga fiska í borginni og lið Sport Lisboa áttu sérstaklega erfitt með sinn malarvöll. Árið 1907 gerðist það að sjö sterkir leikmenn ákváðu að yfirgefa liðið og ganga til Sporting Lisboa vegna mun betri aðstæðna á þeim bænum og varð þá úr mikill rígur milli liðanna sem stendur að sjálfsögðu enn! Þetta varð þó til þess að ráðamenn Sport Lisboa fóru á stúfana og fundu nágrannalið sem átti fínan völl en frekar slakan leikmannahóp. Það var liðið Grupo Sport Benfica, félag sem var ekki með sterkt knattspyrnulið en hjólreiðar voru þeirra aðalsport. Í september 1908 varð samruni félaganna, nafnið varð einfaldlega Sport Lisboa Benfica, búningur S.L. hélt sér og í merki félagsins var sett hjól sem örninn sat á og textinn magnaði vafðist um, skammstöfunin S.L.B. réð miðju merkisns og varð skammstöfunin. Heimavöllurinn var ekki lengur malarmoldarvöllurinn sem S.L. léku á áður heldur mun betri malarvöllur í Benfica hverfinu norður af miðborginni. Þar átti þó liðið eftir að flakka töluvert um hverfið áður en endanleg staðsetning heimavallarins var ákveðin.

Fyrstu titlarnir

Mjög fljótlega eftir samruna félaganna tveggja varð kjarni nafnsins Benfica, vísunin í heimahverfið sterk og einfaldlega miklu þjálla á allan hátt fyrir stuðningsmennina að búa til hvatningaróp út frá því. Þeir eru kallaðir “Benfiquistas”, styðja lið sitt af krafti og þeir eiga sinn einkennissöng sem heitir “O glorioso” og fjallar um það að hafa unnið sig upp úr hógværum bakgrunni í að verða risar. Félagið er risalið á heimsvísu þó sérstaklega í fyrrum nýlendum Portúgal, stuðningsmannaklúbbarnir í Mozambique, Angóla og Brasilíu telur milljónir auk þess að vera langvinsælasta liðið í heimalandinu þar sem að hinir risarnir tveir hafa rætur í yfirstéttinni á meðan Benfica er lið hins venjulega Portúgala. Þekkjum við svoleiðis?

Portúgölsk knattspyrna var að verða til samhliða stofnun Benfica, um var að ræða svæðakeppnir þar sem í raun er ekki hægt að tiltaka hverjir voru meistarar því þær gátu alveg verið nokkrar hvert ár. Það varð þó breyting á árið 1922 þegar að sett var upp lokakeppni með sigurliðum svæðakeppnanna með keppnisfyrirkomulagi þar sem lið léku heima og heiman þar til eitt lið stóð uppi. Þessi keppni var kölluð Campeonato de Portugal en árið 1938 var hún endurnefnd sem Taca de Portugal, eða portúgalska bikarkeppnin. Benfica var það lið risanna þriggja sem síðast kvaddi sér hljóðs sem sigurvegari þessarar keppni, þeir unnu hana ekki fyrr en 1930 þegar þeir sigruðu Barreirense 3-1 í framlengdum leik á malarvellinum Campo Grande í heimaborginni. Fyrsti titillinn mættur í hús – og þeir hafa verið nokkrir síðan.

Árið eftir unnu þeir aftur og nú voru það risarnir í Porto sem lutu í gras fyrir Benficaliðinu sem hafði nú fengið viðurnefnið “Ernirnir” (ekki aukastig fyrir að fatta hvers vegna) og árið 1935 unnu þeir Sporting 2-1 í úrslitaleik keppninnar og í kjölfar sigursins á erkifjendunum í þessum stærsta leik hvers leiktímabils var tveggja daga veisla í Benficahverfinu til að halda upp á það merkisverk, hefð sem að vissulega hefur reglulega dottið upp þegar Lissabonnbróðirinn hefur verið fórnarlamb tapleiks. Þetta tímabil var orðin sú breyting að nú var búið að stofna landsdeildarkeppni í anda þess sem að farið var í gang í flestum Evrópulöndum. Sú fyrsta var með 8 liðum út frá árangri þeirra í fjórum svæðakeppnum landsins og var það hátturinn fyrst um sinn. Porto unnu fyrstu deildarkeppnina, Sporting varð í 2.sæti og Benfica í því þriðja. Það var svo árið eftir sem Benfica vann sinn fyrsta portúgalska meistaratitil eftir harða baráttu við hina risana tvo, sérstaklega gladdi þá að sigurinn var tryggður með 2-4 sigri á Sporting sem kallaði að sjálfsögðu á hefðbundin hátíðahöld í Benficahverfinu! Liðið vann svo titilinn næstu tvö ár og tryggðu sér “titlaþrennu” í fyrsta en ekki síðasta sinn. Portúgalska deildin var ein fárra sem hélst í gangi á stríðsárunum öllum og eftir að liðið tók aðra þrjá meistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla á stríðsárunum var Benfica orðið sigursælasta lið Portúgals og vinsældir þess í heimalandinu margfölduðust milli ára, náði nú langt út fyrir heimahverfið og heimaborgina. Enda er það þannig í Portúgal að í því fótboltaóða landi velja allir sér það hvaða lið risanna þriggja er þeirra lið, líka þeir sem að halda upp á sín heimalið, allir þurfa að taka afstöðu til slagsins milli Benfica, Porto og Sporting.

Lagt af stað í Evrópukeppnir

Uppúr síðari heimsstyrjöld fór af stað hreyfing í samfélögum almennt sem kallaði til þeirra verka að sameina álfuna með markvissari hætti en áður til að koma í veg fyrir sambærileg átök. Alls konar ólíkar stjórnmálastofnanir voru settar á fót, ekki má gleyma Eurovision en knattspyrnuhreyfingin tók málefnið strax föstum tökum og stofnaði til keppna milli bestu landa álfunnar. Fyrst í stað voru svæðakeppnir settar af stað og í tilviki Portúgals voru þeirra bestu lið sett í keppni sem kölluð var “Latin cup” og innihélt auk þeirra bestu lið Spánar, Frakklands og Ítalíu. Fyrsta keppnin var haldin árið 1949 og tóku meistarar hvers lands þátt í keppninni sem leikin var sem útsláttarkeppni og keppt um 1. – 4.sæti. Benfica vann þessa keppni árið 1950 eftir mikið einvígi við Bordeaux þar sem að leika þurfti tvisvar, fyrst gerðu liðin 3-3 jafntefli en Benfica vann svo 2-1 í framlengdum leik. Leikurinn var sögulegur á þann hátt að staðan var 1-1 eftir 120 mínútur og þar sem ekki var enn farið að huga að vítakeppni var sett á önnur framlenging þar sem markavélin Julinho skoraði sigurmarkið á 26.mínútu annarrar framlengingar, eða 146. mínútu í raun. Þessi Julinho var stærsta stjarna Benfica á þessum tíma, þegar hann lauk ferli sínum í treyjunni hafði hann skorað 198 mörk í 197 leikjum sem er jú ágætis framtak!

Þessi ágæta keppni lifði í 8 ár og varð Benfica eina portúgalska liðið sem sigraði hana, spænsku risarnir Real og Barca, auk AC Milan fengu tvær slíkar dollur hver og franska liði Reims náði einni. Svipaðar keppnir voru um Evrópu og svo fór að lokum að ákveðið var að setja á fót stærri keppni, Evrópukeppni meistaraliða, og hóf hún göngu sína haustið 1955. Portúgal var eitt af sextán stofnlöndum keppninnar en Benfica var ekki þar, erkifjendurnir Sporting urðu fyrstu fulltrúar landsins í keppni þeirra bestu í Evrópu. Þeir urðu Portúgalsmeistarar árið 1957 og tóku þar með þátt í keppni þeirra bestu frá því hausti.

Stórveldistímabil í Evrópu

Stjórnkerfi portúgalskra knattspyrnuliða er eins og hjá stöllum þeirra á Spáni, forsetakosningar reglulega þar sem þeir sem að hreppa hnossið stjórna öllum þáttum klúbbsins. Árið 1957 vann þessar kosningar maður að nafni Maurício Vieira de Brito og hann hafði háar hugssjónir fyrir félagið sem stóð vissulega a.m.k. stutt frá bestu félögum álfunnar. Liðið var þá tiltölulega nýflutt á nýjan völl, Stadio da Luz, og hans fyrsta verk var að taka duglega til þar, lagaði stúkuna, setti upp fljóðljós og kom vellinum sjálfum í það stand að allir tóku eftir.

Það voru þó mannaráðningar de Brito sem ullu þáttaskilum hjá félaginu. Eftir að liðinu mistókst að ná titlinum fyrstu tvö tímabil í stjórnartíð hans þá tók hann sig til og sótti stjóra meistaranna sem þá voru FC Porto. Það var Ungverjinn Béla Guttmann sem tók þetta óvænta skref milli erkifjenda og hann átti svo sannarlega eftir að setja svip sinn á félagið. Eftir um viku hjá félaginu hafði kappinn einfaldlega rekið 20 leikmenn aðalliðsins, þar á meðal leikmenn sem höfðu náð mikilli hylli og í staðinn sótti hann leikmenn úr yngra starfi Benfica og einnig leikmenn sem hann þekkti til. Langstærsta nafnið sem Guttmann kallaði til varð alheimsstjarna og þekktasti leikmaður í sögu félagsins.

Portúgalska nýlendan Mozambique hafði sögu um það að þar væri að finna marga góða fótboltastráka. Öll stóru liðin áttu venslalið þar og frá þeim komu oft á tíðum leikmenn sem náðu miklum árangri. Í venslaliði Sporting var framherji sem var öskufljótur, fór 100 metrana undir 11 sekúndum og í ofanálag með mikinn stökkkraft og styrk. Sporting hafði boðið honum unglingasamning vorið 1960 og vaninn var sá að þá voru menn búnir að meika það, rúlluðu til liðanna sinna og hófu ferilinn á bekknum. Brasilískur njósnari Sau Paulo hafði farið til Mozambique til að skoða þennan strák og reyndi mjög að fá hann til Brasilíu, sem Eusebio neitaði, fannst það alltof langt. Njósnarinn, Bauer að nafni, hitti þá Guttmann óvænt á rakarastofu en sá hafði leikið með Sau Paulo undir stjórn Guttmann á sínum tíma og sagði Bauer að þar í Eusebio væri á ferð leikmaður sem væri nákvæmlega það sem hann þarfnaðist til að leiða Benficaliðið. Guttmann stökk til og bauð Eusobio fullorðinssamning sem var miklu hærri en sá sem Sporting hafði boðið honum. Á þessum tíma voru ekki stórar upphæðir að ganga á milli félaga og því var það þannig að Benfica fékk Eusebio til liðs við sig. Sporting urðu altrylltir og töldu sig hafa einkaleyfi á samningi við hann sökum vensla sinna við lið hans en það varð ekki. Lætin voru það mikil að Benfica tóku engan séns þegar kappinn var mættur til Lissabonn, þeir keyrðu honum og bróður hans suður til Lagos á Algarve, bókuðu hann inn á hótel undir leyninafninu Malosso og þar dvaldi hann í 12 daga á meðan mestu lætin gengu yfir!

Allt þetta havarí átti heldur betur eftir að borga sig. Benfica var með frábært lið sem varð Evrópumeistari meistaraliða vorið 1961 með því að leggja Barcelona í fyrsta úrslitaleiknum þar sem Real Madrid tók ekki þátt í og sigraði. Í mögnuðum leik var það miðjusnillingurinn Mario Coluna sem skoraði sigurmarkið og nú enn á ný var partý í Benficahverfinu, nú til að gleðjast yfir Evrópumeisturum. Árið 1962 voru þeir aftur mættir í úrslitaleik Evrópukeppni meistaralið og nú gegn risunum Real Madrid sem ætluðu sér auðvitað að taka bikarinn sinn aftur, lið með Di Stefano og Puskas á hátindi frægðar sinnar. Þetta varð hörkuleikur en það var nýja stjarnan Eusebio sem skildi á milli, hann skoraði tvö mörk í síðari hálfleik og breytti þá stöðunni úr 3-3 í 5-3 sem urðu lokatölurnar í svakalegum leik í Amsterdam. Þarna var Benfica einfaldlega orðið besta lið Evrópu og með annað tveggja stærstu nafna í fótboltaheiminum í sínum röðum, eingöngu Pelé var á stalli ofar Eusebio.

Við heimkomuna til Lissabonn kíkti Guttmann á stjórn Benfica og bað um launahækkun í samræmi við þann árangur sem hann hafði náð. Það féll í grýttan jarðveg og var einfaldlega neitað. Afleiðingarnar voru þær að Guttmann sagði tafarlaust upp störfum, fór í viðtal og lét vita af því að það væri einfaldlega þannig að með þessum gjörningi væri ljóst að Benfica ynni ekki titil í Evrópukeppni næstu 100 árin. Ekki var nú endilega hlustað duglega á það í ljósi styrkleika liðsins en eftir að liðið tapaði í úrslitum keppninnar vorið 1963 og aftur 1965 þá fóru menn að visa í það að Guttmann væri ekki fisjað saman, hann var jú Gyðingur sem að hafði lifað af veru í fangabúðum nasista í styrjöldinni og það voru engin rök fannst mönnum að ekki væru að raðast inn Evróputitlar. Árið 1968 komst Benfica enn á ný í úrslit gegn Man United. Söguleg markvarsla markvarðar United frá Eusebio rétt fyrir lok venjulegs leiktíma og svo hrun þeirra í framlengingunni sem fylgdi gaf sögunni vængi og úr varð það sem kallað er “álög Guttmann” (Guttmann’s curse) og lifir enn í dag. Frá árinu 1962 hafa Benfica komist átta sinnum í úrslitaleiki Evrópukeppna en hafa ALLTAF tapað. Árið 1990 komust Benfica í úrslit Evrópukeppni Meistaraliða gegn AC Mílan og þar sem að leikurinn var leikinn í Vínarborg þar sem Guttmann er jú grafinn ákváðu menn að senda Eusebio út af örkinni, vitja grafarinnar og biðja Guttmann um að losa um álögin. Það tókst ekki!

Saga Benfica og Guttmann er svo sannarlega ekkert ósvipuð því sem við höfum heyrt af Bill nokkrum Shankly þar sem að í hans tíð hófst gullöld þessa risaklúbbs og hann setti þann standard sem félagið hefur reynt að fylgja síðan. Hann á það sameiginlegt með Shankly að fá minningu sína varðveitta í styttu sem stendur við leikvang félagsins með Evrópubikarana tvo sem hann vann sem stjóri.

Þrátt fyrir að Evrópukeppnin væri ekki að skila titlum og Guttmann hyrfi frá þá var sjöundi áratugurinn eign Benfica á heimavelli, þeir unnu átta af 10 meistaratitlum í Portúgal og 3 bikarmeistaratitla. Eusebio var alheimsstjarna til 15 ára sem lauk ferli sínum hjá Benfica 1976 og hafði þá skorað 727 mörk í 715 leikjum fyrir félagið. Hann og félagar hans mættu til Reykjavíkur 18.september 1968 til að mæta Íslandsmeisturum Vals í leik sem átti áhorfendamet á Íslandi í áratugi og er enn í öðru sæti yfir áhorfendatölur á Laugardalsvelli. Það voru 18.194 áhorfendur sem tróðu sér í stúkuna þetta kvöld og sáu Valsmenn ná ótrúlegu 0-0 jafntefli gegn risunum, seinni leikinn unnu þeir portúgölsku svo 8-0.

Portúgalsrisar og svo kom þurrkatíð

Benfica hélt áfram stáltökum sínum á portúgölskum fótbolta á áttunda og níunda áratugnum. Samhliða árangri inni á vellinum stækkuðu þeir völlinn Estadio da Luz í það að verða sá næststærsti í Evrópu á eftir Wembley og sá þriðji stærsti í heimi, upp á tæplega 100 þúsund. Hann var oftast stútfullur og áhangendur Benfica er taldir þeir háværustu í Portúgal þó víða væri leitað og ansi magnaðar sögur að finna um stemminguna þar. Á níunda áratugnum birtist í stjórastól þeirra ungur Svíi sem hafði náð ótrúlegum árangri með IFK Gautaborg, Sven Göran Eriksson nokkur og undir hans stjórn unnust landstitlar í deild og bikarkeppnum. Frá Benfica fór hann til Ítalíu en hefur reglulega talað um það að hjá Benfica hafi hann lært mest á ferlinum. Benfica hafi verið risaklúbburinn í fótboltaóða landinu þar sem hann þurfti að læra það að vinna með stórum nöfnum. Veldi þeirra var áfram í gangi þar til á tíunda áratug síðustu aldar þar sem að fór að draga úr árangrinum. Dýr leikmannakaup gengu ekki upp og fjárhagsleg staða portúgölsku liðanna versnaði stöðugt í takt við breytingar í Evrópuboltanum þar sem aðrar deildir voru að stinga þá portúgölsku af þegar kom að sjónvarpstekjum og árangri í Evrópukeppnum.

Árið 1994 fögnuðu Benfica meistaratitli númer 30 en framundan voru 10 ár þar sem einungis einn titill vannst, portúgalski bikarinn og á þessum tíma voru skattayfirvöld að gera alvarlega atlögu að því að einfaldlega loka félaginu og í raun má segja að sú ákvörðun að Portúgal hélt EM 2004 og það einfaldlega þótti bara ekki ganga upp að slíkur skellur yrði í portúgölskum fótbolta…það og að portúgölsk stjórnmál eru býsna skrautleg stundum og háttsettir vinir félagsins inni á portúgalska þinginu samþykktu alls konar björgunarpakka sem fæstir gengu upp. Ákveðið var m.a. að félagið fengi risa styrk til að byggja nýjan völl með sama nafni, Estadio da Luz, en á þeim velli var úrslitaleikur EM einmitt leikinn, “Grátleikurinn mikli” þar sem Grikkir hirtu dolluna af heimamönnum. Völlurinn er hið glæsilegasta mannvirki og stendur á áberandi stað í miðju heimahverfi félagsins, sérstaklega byggður á þann hátt að hljóðið úr stúkunni lokist vel inni og magnist á sem mestan hátt, sannkölluð gryfja á góðum degi.

Fönix rís á ný

Eftir þennan tíu ára hörmungartíma náðu Benfica í bikartitil vorið 2004 í leik sem varð síðasti leikur José nokkurs Mourinho sem stjóri í Portúgal þar sem þeir rauðklæddu unnu 2-1. Ég var á þessum tíma farinn að fylgjast töluvert með portúgölsku deildinni þar sem að móðir mín heitin var þarna búin að búa í Portúgal í nokkur ár og fjölskylda hennar þar voru mikið Benficafólk. Ég var staddur í Portúgal þennan maídag en náði ekki í miða, en svaf lítið þessa nótt vegna fagnaðarlátana í heimahverfinu hvar ég dvaldi á hóteli og kynntist þeim hefðum að keyra bílana með stanslausu flauti hendandi púðurkerlingum út um glugga og stanslausir söngvar sem aðallega voru áðurnefndur söngur O glorioso meðal háværari BEN – FIC – AAAAAAA.

Það var þó engin rosa gósentíð sem þarna var að hefjast, allavegana í stóru myndinni. Þeir fylgdu bikartitlinum eftir með meistaratitli vorið 2005 og árið eftir slógu þeir Evrópumeistara Liverpool FC út í 16 liða úrslitum en svo kom aftur þurrkur og liðið náði næsta titli vorið 2010. Þá var mættur við stjórnvölinn Jorgé nokkur Jesus og hann er svo sannarlega sá sem hægt er að segja að hafi rifið félagið aftur í gang. Kappinn sá leiddi félagið til vorsins 2015 og á þeim tíma hafði hann unnið þrjá meistaratitla, einn bikarmeistaratitil, fjóra deildarbikartitla og kom þeim í tvo úrslitaleiki í Evrópudeildinni þar sem þeir töpuðu fyrir Sevilla og Chelsea. Svona til að toppa allt þó þá var Jesus karlinn með mikið bras í samningsgerðinni sumarið 2015 sem kom svo í ljós að var því að Sporting vildu ná í kappann sem þeir svo gerðu en honum tókst ekki að velta Benfica af stalli sem hafa unnið þrjá titla eftir að hann kvaddi og Sporting leysti hann frá störfum 2018 við töluverða gleði þeirra rauðu.

Lið Benfica 2022

Það lið sem mætir á Anfield núna er í dálitlu basli heima fyrir. Síðustu tvö ár ekki verið í alvöru titilslag og sama er uppi á teningnum núna þar sem þeir eru 15 stigum á eftir toppliði Porto og geta þakkað góðri stöðu deildarinnar UEFA að þeir eru nokkuð öruggir að leika í Champions League á næsta ári þar sem þeir líklega enda í þriðja sæti. Það hefur ríkt töluverð óánægja á meðal stjórnar- og stuðningsmanna Benfica síðustu tímabil og síðastliðið haust henti það svo að forseti félagsins Vieira að nafni var fangelsaður vegna fjármálamisferlis og varaforsetinn ákvað að bjóða sig fram og vann nokkuð örugglega enda um goðsögn innan félagsins að ræða, Rui nokkurn Costa.

Áætlanir hans eru þær að byrja á að endurheimta lykilstöðu félagsins heimafyrir en hefur líka látið það frá sér að á hans tíma ætli hann að grafa “Guttmann-grýluna” í Evrópu. Fyrsta stóra ákvörðunin var ansi mögnuð, félagið hafði ákveðið að ráða Jorgé Jesus til starfa aftur en eftir slæmt gengi í haust rak hann Jesus í desember og réð stjóra varaliðsins, Nélson Varrisimo. Það hefur verið gefið út að hann stjórni til sumars en þá verði stærra nafn sótt.

Sama á við um leikmannahópinn. Þar ætla menn sér stærri hluti og öflugri bita. Liðið er með frekar háan meðalaldur og lyklarnir í varnarleiknum Otamendi og Vertonghen auðvitað komnir yfir hæðina að mestu leyti. Stóra nafnið í leikmannahópnum á meðal áhangenda er vængframherjinn Rafa Silva sem hefur haldið tryggð við klúbbinn þrátt fyrir tilboð frá liðum í “stærri” löndum og landsliðsmaður Portúgals, auk þess er gríski markvörðurinn Vlachodimos öflugur og úrúgvæski framherjinn Darwin Núnez var keyptur frá Almeria haustið 2020 og hefur sprungið út í vetur. Costa hefur talað um að hann verði sá leikmaður sem byggt verður á næstu ár. Kjaftasögur hafa þó verið á kreiki bæði um það að Dortmund og Bayern séu að horfa til hans og slúðrið í Portúgal sagði Man United hafa spurt um hann í janúar, Guð forði blessuðum drengnum frá því.

Til að höfðinginn Rui Costa nái markmiðum sínum er þó ljóst að félagið þarf ekki á því að halda að selja bestu mennina. Portúgalska deildin hefur nú náð nokkuð örugglega sessinum sem topp fimm deild í Evrópu og stöðugur fjöldi risanna þriggja í Meistaradeildinni er að skila því að félögin séu stöðugt að verða samkeppnishæfari um leikmenn á heimsvísu. Hvort að Benfica nær því að verða reglulega í lokaumferðum Meistaradeildar á eftir að koma í ljós en metnaður félagsins í orði er svo sannarlega sá nú. Fyrsta sem verður forvitnilegt verður hvaða stjóri leiðir skútuna, augljósa kjaftasagan er Mourinho (sem væri vís til þess að mæta og gera Portoaðdáendur sem dýrka hann snarvitlausa) og Nuno Espirito Santo sömuleiðis. Costa hefur sagt að sú ráðning muni vekja athygli heimsins á því hvaða leið Benfica ætlar. Sjáum til!

Niðurlag

Eftir alla þessa yfirferð er ljóst að við erum að tala um evrópskan risa með rætur í verkamannasamfélag og heilmikla ástríðu. Vissulega ekki náð sömu hæðum og á liðinni öld, en verðugur mótherji. Við sáum þó í fyrri leiknum að gæðamunur liðanna er töluverður og við eigum að sjá til þess á Anfield að Guttmanngrýlan í Evrópu lifi góðu lífi.

Takk fyrir þátttökuna Benfica, ykkar leið lýkur hér þennan veturinn, en pistlahöfundur vonar svo sannarlega að ykkar tími í heimalandinu og Evrópu sé handan við hornið.

19 Comments

 1. Takk fyrir upphitunina, Maggi. Ert þú ekki eini Íslendingurinn með 63 klukkustundir í sólarhringnum?

  4
 2. Takk fyrir skemmtilegan pistil.
  Saga Benfica flott og vonandi gengur þeim allt í haginn eftir næsta leik.

  3
 3. Sælir er leikurinn ekki syndur a Viaplay? Vitið þið hverjir syna leikinn

  1
 4. Já Villareal búnir að slá út Bayern, þannig að við mætum þeim ef við sláum út Benfica.

  4
   • Ég held reyndar að Bayern hafi sagt nokkurnveginn þetta eftir að þeir sáu hvaða mótherja þeir fengu í 8 liða úrslitum (a.m.k. varðandi sæti í undanúrslitum).

    3
 5. Hvað er málið með viaplay að vera bara með annan leikinn?!?
  Stöð2 er á bakvið þetta hvorteðer. Sýna svo city leikinn? Það horfir enginn á hann!

  3
 6. Viapley að gera vel að hafa tvo að lýsa leikjum…síminn sendir heila herdeild út til að taka viðtöl og eitthvað sprell en geta ekki haft tvo í búrinu að lýsa leikjunum….sky var með 3 að lýsa city og lfc….

  3
 7. Frábær upphitun. Það eru forréttindi að hafa aðgang að þessari síðu.
  Juventus hafa líka tapað síðustu fimm úrslitaleikjum í CL
  Það stefnir allt í það að við mætum gula kafbátnum. Þeir eru ólseigir og það verður ekki auðvelt.

  5
  • Það hefur nú gengið hræðilega hjá þeim í deildinni í vetur. 7. sæti með 46 stig. Sociedad eru í 6. sæti með 54.

   3
 8. Vissulega betra að mæta villareal en Bayern ef við klárum okkar skyldu í kvöld en las í gærkvöldi að ef undan er skilið Emery með PSG hefur hann ekki tapað í 2 leikja einvígi í Evrópu í 22 skipt í röð. Það er galið. Vann Evrópudeildina náttúrulega 3 með Sevilla og vann okkur a fyrsta seasoni klopp þegar Liverpool þurfti bara að vinna leikinn og verða þá Evrópu meistari félagsliða og um leið komast í meistaradeildina en töpuðum leiknum og eigum harma að hefna gegn Emery. En ef allt er eðlilegt klárum við gula kafbátinn og eigum bullandi möguleika á að vinna þessa keppni og ekkert ólíklegt að við mætum City enn einu sinni í úrslitaleik, veit ekki hvort er betra að mæta City eða real Madrid, city með enga hefð og sögu og ekki tekist að vinna þetta en real þekkir ekkert nema að vinna þetta en vill Samt held ég frekar real, eigum harma að hefna þar líka heldur betur. En best væri ef Atletico myndi klára City í kvöld, setja eitt mark og verjast svo fram að vítakeppni, ef eitthvað lið kann það eru það þeir svo það getur allt gerst ennþá í því einvígi.

  4
 9. Er ekki rétt að bíða eftir úrslitum kvöldsins áður en við erum farin að spá í hvaða liði við mæum í undanúrslitunum hvað þá úrslitunim ? Erum klárlega með pálman í höndunum en þetta er langt frá því í höfn en lítur ágætlega út

  5
 10. Ég er allavega kominn á Park með ískaldan í hönd, spennan byrjuð að magnast upp

  3
 11. Sæl og blessuð.

  Held við séum í toppmálum með þetta benfica lið og byrjenda-gæfan hlýtur að fara að yfigefa þá fagurgulu í Villareal.

  Þá ætti leiðin til Parísar að vera nokkuð greið. Er það ekki annars?

  2
 12. Ef við komumst áfram þá er ekki séns í helvíti að Klopp leyfi nokkrum manni að komast upp með vanmat sem klárlega átti sér stað hja Þýsku meisturunum í gær.

  Heyri hann hlæja af commentum fréttamanna þegar hann verður spurður hvort hann sé ekki ánægður með mótherjana.

  1
  • Emery hvíldi allt byrjunarliðið sl. helgi og mun örugglega gera það sama fyrir næsta leik í CL.

   Hefur ekki að neinu að keppa í deildinni á Spáni.

   2

Gullkastið – Status Quo

Liðið heima gegn Benfica