Allar færslur eftir Einar Matthías

Upphitun: Real Madríd í úrslitum Meistaradeildarinnar

Jurgen Klopp á ekki einn heiðurinn af því að Liverpool er komið aftur í úrslit Meistaradeildarinnar, ef að Liverpool er með þá er alltaf séns. Trú stuðningsmanna Liverpool á liðið ef það fær blóðbragð í Evrópu minnir stundum á það þegar Lloyd frétti að hann ætti séns í Mary. Strax í byrjun tímabilsins voru margir sem sáu enga ástæðu fyrir því að Liverpool gæti ekki farið langt í þessari keppni, kannski ekki í úrslit en ef þú spáir því að Liverpool komist í 8-liða úrslit er eins gott fyrir þig að trúa því að liðið geti farið alla leið. Afhverju í helvítinu ekki?

Það væri gaman að taka það saman hversu oft við höfum talað um Kiev í vetur, hvort sem er í Podcasti, Akraborginni, Fótbolta.net eða hérna á síðunni. Varfærið til að byrja með en eftir því sem liðið hefur á keppnina hefur trúin aukist. Þegar Liverpool slátraði Spartak Mosvku 7-0 og tryggði sig í 16-liða úrslit var auðveldlega hægt að finna fleiri lið sem myndu óttast Liverpool en öfugt.

Eftir að hafa verið í Porto þegar Liverpool gekk frá heimamönnum voru gistimöguleikar í Kiev aðalmálið eftir leik. Það fundu það allir sem voru í Porto að Liverpool var svo sannarlega komið aftur á stóra sviðið og maður lifandi hvað scouserinn kunni að skemmta sér af því tilefni.

Árangur Man City í Evrópu undanfarin ár ætti svo alls ekki að draga neitt úr þeim árangri sem sigurinn á því liði var. Þeir eru að rústa bestu deildinni með dýrasta hóp sögunnar og besta stjórann. Það var líka heldur betur kveikt Meistaradeildarljósin á Anfield í þeim leik, þvílík stemming og stuðningur af pöllunum. Lögin sem við lærðum í Porto komin í aðalatriði, geðveikt. Allez Allez Allez.

Anfield var rétt rúmlega til í undanúrslit og stemmingin var eftir því, sú besta sem ég hef upplifað á Anfield enda í Kop stúkunni. Það að komast í 5-0 eftir klukkutíma og vera hálfsvekktur að liðið hafi ekki nýtt öll dauðafærin er með ólíkindum. Liðið var algjörlega komið á hnén vegna meiðsla og leikjaálags en gerði mjög vel að klára einvígið og fjórða sætið í deildinni.

Porto, Man City og Roma voru ekki bara afgreidd á leiðinni í úrslit, öll einvígin voru svo gott sem búin eftir fyrri hálfleik í fyrri leiknum. Endurkoma Liverpool hefur verið með hreinum ólíkindum og nú er aðeins ein hindrun eftir, besta lið í sögu þessarar keppni.

Real Madríd hefur ekki aðeins unnið þessa keppni tólf sinnum í fimmtán tilraunum, þeir hafa unnið í þrjú af síðustu fjórum skiptum og eru enn á ný komnir í úrslit. Þessi lið mættust síðast þegar þau voru saman í riðli fyrir þremur og hálfu ári síðan. Þá var farið yfir sögu Real Madríd, vafasama fortíð þeirra, tengsl við einræðisherran Franco og hvernig hann notaði félagið ekki ósvipað og stjórnvöld í Abu Dhabi nota Man City í dag. Eins kynntum við okkur eitt stærsta og mikilvægasta nafnið í sögu félagsins, Santiago Bernabeu og hvernig staðið var að kaupunum á Ronaldo þess tíma. Það er allt að því skyldulesning að fara yfir þessa ítarlegu upphitun.

Að þessu sinni verður umfjöllunarefnið hinsvegar aðalmaðurinn í nútímasögu Real Madríd.

Florentino Perez


Continue reading

Podcast – Hugurinn er í Kiev

Síðasti þáttur fyrir einn stærsta leik í sögu Liverpool og heldur betur tilefni til að hækka standardinn enn frekar þegar kemur að viðmælendum. Það er ekki til sá íslendingur sem þekkir það betur að undirbúa sig undir stóra úrslitaleiki heldur en Ólafur Stefánsson og hann er einn af fáum hér á landi sem getur sett sig í spor leikmanna sem eru að undirbúa sig fyrir svona viðburð. Óli bjó einnig í sex ár á Spáni og þekkir vel til í Madríd. Óli spjallaði við okkur á þessum nótum fyrsta þriðjung þáttarins en í seinni hlutinn fór í frekari vangaveltur um leikinn sjálfan.

Kafli 1: 00:00 – Spjall við Óla Stefáns
Kafli 2: 25:20 – Stærsti leikur Liverpool frá upphafi
Kafli 3: 29:40 – Það kæmist enginn úr Liverpool í Real liðið
Kafli 4: 52:55 – Rosaleg reynsla í liði Real Madríd
Kafli 5: 01:00:00 – Zidane vs Klopp
Kafli 7: 01:05:00 – Leið Real Madríd í úrslit
Kafli 8: 01:12:30 – Upplegg Liverpool fyrirsjáanlegt?
Kafli 9: 01:19:30 – Hvernig tökumst við á við leikdag?
Kafli 10: 01:24:30 – Spá

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Ólafur Stefánssons margfaldur Evrópumeistari í handbolta

MP3: Þáttur 196

Podcast – Uppgjör á deildinni

Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV mætti aftur og gerði upp tímabilið á Englandi með okkur. Hugurinn er auðvitað að mestu kominn til Kiev og eitthvað horft þangað einnig. Nóg að ræða og þáttur í lengra lagi sem er í góðu lagi enda ekki eins og við Íslendingar séum mikið út í sólinni um þessar mundir.

Kafli 1: 00:00 – Intro og vangaveltur fyrir Kiev
Kafli 2: 11:00 – Hvaða einkunn fær þetta tímabil í deildinni
Kafli 3: 16:00 – Hvað gerist hjá Arsenal?
Kafli 4: 27:00 – Sammy Lee hoppandi kátur frá Everton
Kafli 5: 33:50 – Var búið að lesa Chelsea í vetur?
Kafli 7: 42:50 – Mourinho að hefja þriðja ár
Kafli 8: 53:00 – Man City leikur 100 stig ekki eftir aftur
Kafli 9: 56:10 – Pochettino mikilvægastur hjá Tottenham
Kafli 10: 01:02:00 – Frábært hjá nýliðunum
Kafli 11: 01:07:00 – Gamli skólinn féll, guði sé lof.
Kafli 12: 01:08:30 – Annað West Brom að koma upp.
Kafli 13: 01:11:00 – King Eddie Howe, ótrúlegur.
Kafli 14: 01:12:50 – Vel talað um árangur Roy Hodgson!!!!!!!
Kafli 15: 01:16:00 – Pellegrini til West Ham
Kafli 16: 01:21:00 – Jack Butland til Man Utd?
Kafli 17: 01:22:30 – HM hópur Englands.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV

MP3: Þáttur 195

Kudos á klúbbinn

Árshátíð Liverpool klúbbsins fór fram um síðustu helgi og vil ég fyrir hönd félaga minna á Kop.is þakka kærlega fyrir helgina. Þeir stuðningsmenn Liverpool sem aldrei hafa mætt á árshátíð klúbbsins átta sig eiginlega alveg pottþétt ekki á því hversu vegleg þessi hátíð er. Flest erum við orðin vön því að heyra árlega að eitthvað risanafn úr sögu félagsins verði heiðursgestur og tökum því nánast sem sjálfsögðum hlut.

Það þarf ekki annað en að skoða önnur félög hér á landi sem mörg halda einnig úti öflugum stuðningsmannaklúbbum til að átta sig betur á hvurslags starf klúbburinn hér hefur verið að vinna undanfarna áratugi.

Jamie Carragher var auðvitað heiðursgestur að þessu sinni og mættu um 300 manns á Grand Hótel. Hann tók frábært Q&A í um klukkutíma, svo gott að það hélst sæmilega þögn í salnum á meðan sem er að ég held einstakt eftir 22:00 á svona samkomu hér á landi.

Eyþór Ingi mætti einnig, reyndar sem Kristján Jóhannsson stórsöngvari og fór fullkomlega á kostum. Þetta er grínisti sem getur sungið mikið frekar en öfugt. Stórvinur okkar Hreimur Örn sá svo um tónlistina ásamt Rúnari Eff og sjálfum Bigga Nielsen. Villi Naglbítur gerði einnig stórvel í að stjórna samkomunni.

Ferðafélagar Carragher sem koma að styrktarstjóðnum hans (Carra23) voru svo með lottó og eins uppboð á ýmsum Liverpool tengdnum varningi, pabbi hans þar fremstur í flokki en þar er á ferðinni enn meiri meistari en Jamie. Mummi hjá LFCHistory var t.a.m. að senda montsnap af áritaða Xabi Alnoso bolnum sínum, bölvaður.

Kvöldið endaði svo á að hótelið bað okkur vinsamlega um að hætta að syngja Allez Allez Allez svona hátt í lobbý-inu.

Stórvel heppnað og alls ekki eitthvað sem við ættum að taka sem sjálfgefnu. Eins var gaman fyrir okkur sem höldum úti þessari síðu að hitta á fjöldan allan af lesendum síðunnar sem og ferðafélögum okkar til Liverpool undanfarin ár.

Frábær upphitun fyrir næstu helgi. Takk fyrir okkur.


Formaður Liverpool klúbbsins Bragi Brynjarsson (sá mikli meistari) tilkynnti á hátíðinni að hann ætlar að láta af embætti á næsta aðalfundi og er vert að þakka Braga fyrir frábært starf undanfarin ár, furðulegt að hugsa sér klúbbinn án hans.


Aðeins til að árétta að lokum, þó að því sé stundum ruglað saman þá tengist Kop.is Liverpoolklúbbnum á Íslandi ekki með neinum formlegum hætti. Steini er sá eini af okkur sem hefur starfað fyrir klúbbinn. Hinsvegar er góður kunningsskapur og við höldum auðvitað öll með sama liðinu.

Carragher áritar í Jóa Útherja

Tilkynning frá Liverpool klúbbnum á Íslandi.

Jamie Carragher áritar í Jóa útherja á laugardaginn

Liverpool goðsögnin Jamie Carragher mætir í Jóa útherja Ármúla 36 á laugardaginn frá kl. 15:30 Þar mun hann árita fyrir stuðningsmenn treyjur, myndir eða annað sambærilegt til kl.16.30

Það er ljóst að mikill áhugi er fyrir komu Carragher og er fólk því hvatt til þess að mæta tímanlega þar sem búast má við töluverðri örtröð.

Við biðjum fólk um að sýna hvort öðru tillitsemi og virða þann tímaramma sem áritunin stendur yfir. Athugið miðað er við að hver einstaklingur mæti með einn hlut til áritunar.

Við hvetjum alla til þess að nýta þetta einstaka tækifæri til þess að mæta og hitta þessa Liverpool goðsögn í návígi.