Allar færslur eftir Einar Matthías

Podcast: Meistaradeild

Fjórða sæti varð niðurstaðan eftir langan og oft á tíðum erfðan vetur og við stuðningsmenn Liverpool erum í fullum rétti að fagna Meistaradeildarsæti vel eftir allt of langa bið. Þetta breytir öllu fyrir sumarið og næsta tímabil og ljóst að við horfum bjartsýnir til framtíðar í þætti kvöldins og fórum um nokkuð víðan völl.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn og Maggi.

MP3: Þáttur 153

Upphitun: Úrslitaleikur gegn West Ham

Um mikilvægi næsta leiks þarf ekkert að fjölyrða þetta er klárlega stærsti leikur tímabilsins hjá Liverpool, úrslitaleikur um sæti í Meistaradeildinni. Því miður er það einmitt það sem gerir mann hvað helst stressaðan fyrir leik því þetta lið okkar hefur fallið á gjörsamlega öllum stórum prófum undanfarin áratug. Það vantar ekki að Liverpool komi sér í úrslitaleiki eða í séns í deildinni, en að klára dæmið er eitthvað sem við treystum þeim því miður ekki ennþá til að gera. Það er pressa fyrir þennan leik og auðvitað þann næsta líka, standist liðið hana væri það risastór þröskuldur sem liðið myndi labba yfir.

Tímabilið er búið hjá West Ham og þeir koma áhyggjulausir inn í þennan leik. Þeir hafa verið að sigla lygnan sjó undanfarið sem hefur hentað þeim vel því liðið hefur ekki tapað í síðustu fimm leikjum og haldið hreinu í fjórum þessara leikja. Síðast unnu þeir Totthenham nokkuð sannfærandi og ljóst að það er hörku stemming komin í kringum þetta lið eftir mjög brösótta byrjun á nýjum heimavelli. Treystið Liverpool til að eiga þá ekki úti fyrr en það er komið í lag.

West Ham er með flesta leikmenn á meiðslalista eða níu talsins skv. physioroom.com. Mark Noble er tæpur, Kouyate er frá út tímabilið, sama má segja um Shako, Antonio og Ogbonna en allt eru þetta mikilvægir leikmenn hjá West Ham. Andy Carroll er einnig sagður tæpur rétt eins og vanalega og væri mikið gott að losna við hann að þessu sinni.

West Ham nær engu að síður að stilla upp ágætu byrjunarliðið. Bilic er farinn að spila 3-4-3 sem er satt að segja mikið nær 5-3-1-1 hjá honum og það hefur hentað liðinu vel undanfarið.

Líklegt byrjunarlið miðað við Tottenham leikinn og meiðsli leikmanna væri einhvernvegin svona:

Adrian

Fonte – Reid – Collins

Byram – Fernandes – Nordveit – Cresswell

Ayew – Calleri – Lanzini

Noble og Kouyate voru á miðjunni í síðasta leik en fari svo að hvorugur er með óttast ég að inn komi tveir djúpir miðjumenn í Fernandes og Nordveit sem hreinsi upp fyrir ansi reynda miðverði West Ham. Á köntunum eru svo bara bakverðir sem hafa spilað vörn alla ævi. Það er ekki tilviljun að þetta West Ham lið fær á sig fá mörk núna undanfarið. Þrátt fyrir öll meiðsli og þetta byrjunarlið ættu þeir ennþá Snodgrass og Fenghouli á bekknum. M.ö.o. þá er West Ham enn eitt liðið með miklu meiri breidd en Liverpool.

Liverpool endurheimtir einn leikmann fyrir þennan leik í Lallana sem þýðir að tveir aðrir eru tæpir (Firmino og Lucas). Þetta hefur verið svo gott sem lögmál í vetur en vonandi verða þeir allir leikfærir. Klopp er búinn að stilla upp sama leikkerfi allt þetta tímabil og sama liði í að verða mánuð. Þetta eru öll lið fyrir löngu búin að lesa og læra á. Því finnst mér alveg kominn tími til að hann breyti aðeins til gegn West Ham og leggi upp með að vinna þá á sóknarleik frekar en varnarleik. Þegar Liverpool verst vel er ekkert að frétta frammi og þegar Liverpool spilar sóknarbolta er allt í rugli varnarlega. Klopp hefur ekki náð að sýna svo mikið sem vott af jafnvægi þarna á milli, ekki frekar en forverar hans í starfi.

Tímabilið 2013/14 var Liverpool í titilbarátti allt til enda spilandi 4-4-2 með tígulmiðju. Leikkerfi sem auðveldlega var hægt að brjóta upp í margar aðrar útfærslur eftir aðstæðum í leikjunum. Afhverju þetta kerfi hefur síðan nánast ekki sést skil ég ekki en miðað við þá leikmenn sem eru í boði núna og þörf fyrir mörk myndi ég vilja sjá Klopp fara í þessa átt. Svona myndi ég vilja sjá liðið gegn West Ham:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Moreno

Can
Wijnaldum – Lallana
Coutinho

Firmino – Sturridge

Ef Lallana er ekki klár í byrjunarliðið myndi ég færi Coutinho niður á miðju og Firmino í holuna fyrir aftan Sturridge og Origi. Coutinho spilaði á miðjunni með Henderson og Gerrard fyrir aftan 2013/14 og var frábær. Sterling var í holunni og Suarez og Sturridge frammi. Hann ætti að mínu mati að vera þar líka núna, leikur Liverpool ætti að snúast um að koma boltanum á Coutinho (á miðsvæðinu) mikið frekar en Wijnaldum og Can og hvað þá Lucas eins og verið hefur undanfarið. Hafa þann sem er líklegastur til að skapa eitthvað í leikstjórnanda hlutverkinu. Þegar hvorki Lallana eða Henderson eru til taks ætti þessi maður að mínu mati klárlega að vera Coutinho.

Já og ég myndi klárlega taka Milner út og setja Moreno í bakvörðinn. Moreno rétt eins og í fyrra er eini tiltæki leikmaður liðsins með einhvern alvöru hraða og það er einmitt það sem þarf gegn varnarmúr eins og þeim sem West Ham er líklegt til að leggja upp með. Rétt eins og nánast öll lið hafa gert undanfarið og gegnið vel. Varnarleikur Liverpool myndi nákvæmlega ekkert versna við það að missa dauðþreyttan Milner með eina hraðastillingu út núna.

En ég hef enga trú á að Klopp fari að mínum óskum hvað þetta varðar og svona spái ég byrjunarliðinu á morgun:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Wijnaldum – Can – Lallana

Firmino – Sturridge – Coutinho

Lallana kemur vonandi inn á miðjuna aftur og Lucas á bekkinn. Hann er sagður vera meiddur en ég vill fá hann á bekkinn hvort heldur sem er. Eins held ég að Sturridge hljóti að vera líklegur til að taka sæti Origi ef hann er heill heilsu þ.e.a.s.

Það er ekki úr miklu að velja hjá Klopp en engu að síður nokkrir möguleikar í stöðunni.

Spá:
Ég treysti þessu Liverpool liði bara enganvegin og ekkert í leik liðsins eftir áramót finnst mér gefa til kynna að þeir ætli að standast pressuna. Þetta lið hefur alltaf fallið á prófinu og ég óttast mikið að þeir geri það einnig núna. Klopp fór inn í þetta tímabil með fáránlega lítinn hóp, bæði miðað við sögu Liverpool undanfarin ár og ekki síst reynslu Klopp sjálfs hjá Dortmund þar sem hálft liðið var sífelt í meiðslum. Það er bara stórhætta á að þetta komi hressilega í bakið á okkur. Ég tippa á 0-0 jafntefli í þessum leik.

Yrði auðvitað meira en himinlifandi með hvaða tegund af þremur stigum úr þessum leik sem er. Sigur sama hvað það kostar er númer eitt tvö og þrjú en þar fyrir utan er ég farinn að sakna þess óskaplega að sjá Liverpool eiga góðan leik þar sem mótherjinn er yfirspilaður fyrir alvöru.

Podcast: Leiðinlegir leikir

Það er óhætt að segja að þetta hafi verið mikið basl hjá okkar mönnum eftir áramót og á því varð lítil breyting í leikjunum gegn Watford og Southampton. Spilamennska Liverpool hefur ekki verið svipur á sjón miðað við hvernig málin voru fyrir áramót og nánast allir mótherjar Liverpool leggja upp með að pakka í vörn, útkoman oft á tíðum ansi bragðdaufir leikir, jafnvel leiðinlegir. Anfield hefur skilað of litlu undanfarið og það er ástæðan fyrir því að Meistaradeildarsæti er ekki í höfn. Þetta var umræðuefni þáttarins ásamt því að spáð var í spilin fyrir leikinn gegn West Ham sem er augljóslega orðinn stærsti leikur tímabilsins hjá Liverpool.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn og Kristján Atli

MP3: Þáttur 151

Podcast: Kaldur, blautur gúmmíhanski í smettið

„Ég get ekki hætt að hugsa um þennan helvítis Crystal Palace leik“ sagði Klopp á síðasta tímabili og það breyttist heldur betur ekkert á þessu tímabili. Tapið núna var jafnvel ennþá verra og meira pirrandi. Við félagarnir náðum þó alveg að halda ró okkar í umræðu um þennan bölvaða leik og fórum svolítið um víðan völl í þætti kvöldsins. Um að gera kanna það, þér líður betur á eftir.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Kristján Atli og Maggi

MP3: Þáttur 150