Allar færslur eftir Einar Matthías

Podcast – Eins og boxbardagi á Etihad

Þáttur kvöldsins var með aðeins breyttu sniði þar sem viðmælandinn var aðeins einn. Hann er þó blessunarlega þannig að það þarf ekkert fleiri með til að spjalla um ævintýri Liverpool. Umræðuefnið var aðsjálfsögðu stórleikur helgarinnar og frammistaða okkar manna þar. Eins tókum við smá snúning á komandi landsleikjahléi og ferðalögum okkar manna þar og enduðum á því að skoða aðeins möguleika Liverpool í baráttunni um eitt af efstu fjórum sætunum.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælælandi: Maggi.

MP3: Þáttur 145

Etihad næst á dagskrá

Andstæðingar Liverpool á morgun eru að mínu mati þeir bestu í ensku deildinni um þessar mundir. Þeir eru vissulega 10 stigum á eftir Chelsea en núna eftir áramót myndi ég frekar velja að mæta þeim bláu frekar en þeim ljósbláu. Liðið hans Guardiola var aðeins seinna í gang í vetur, þeir eru að spila mikið fleiri leiki og hafa lent í mun meiri meiðslavandræðum en þeir stefna hratt þangað sem svona ríkt lið á að vera.

City hefur aðeins tapað einum leik á Etihad í vetur og það var einmitt gegn Chelsea. Fimm leikir hafa hinsvegar endað með jafntefli og þar á meðal er síðasti heimaleikur þeirra gegn Stoke. Liverpool er aðeins einu stigi á eftir þeim í töflunni en City á leik til góða, þetta er því rándýr leikur fyrir okkar menn upp á sæti í Meistaradeildinni.

City spilaði síðast á miðvikudaginn er liðið féll eftirminnilega úr leik í Meistaradeildinni gegn frábæru liði Monaco. City menn virkuðu þreyttir á lokamínútunum í þeim leik og vonandi situr þessi skellur eitthvað í þeim er ferskt Liverpool lið mætir í heimsókn.

Vandamál City eru nákvæmlega þau sömu og Liverpool er að glíma við. Markmaðurinn er ekki nógu góður og vörnin er mikið í meiðslavandræðum og lekur allt of mikið af mörkum. Sóknarlega eru þeir hinsvegar ógnvekjandi svo vægt sé tekið til orða.

Raheem Sterling hefur verið einn af þeirra betri leikmönnum í vetur. Á hinum vængnum er Leroy Sané farin að finna fjölina en þar er á ferðinni hrikalega spennandi leikmaður. Tríóið var fullkomnað með Gabriel Jesus en eftir að hann meiddist kom Aguero bara aftur inn, besti sóknarmaður deildarinnar.

David Silva er besti leikmaður liðsins og hefur þessar sprengjur til að leita uppi, De Bryne er með honum á miðjunni ásamt annaðhvort Yaya Toure eða Fernandinho. Gundogan er meiddur. Það er því kannski ekki skrítið að þetta lið sé gott sóknarlega.

Það er samt ekkert lið sem hefur skorað meira í deildinni heldur en okkar menn og engin ástæða að fara inn í þennan leik með einhverja minnimáttarkend. Liverpool vann fyrri leik liðanna á gamlaársdag með 1-0 sigri sem reyndar útskýrði alls ekki afhverju þetta eru bestu sóknarlið deildarinnar.

Lið Liverpool 

Klopp hefur ekki marga möguleika þessa dagana og byrjunarliðið segir sig nokkuð sjálft fyrir leiki. Bekkurinn ætti þó að vera aðeins meira fullorðins í þessum leik heldur en þeim síðasta.

Lovren spilaði með U23 ára liðinu í vikunni, spilaði þar 75 mínútur og var góður. Ég tippa á að hann komi inn fyrir Klavan þrátt fyrir að hann hafi staðið sem vel gegn Burnley. Firmino á séns á að ná þessum leik skv. Klopp en ég tippa á að hann verði bara á bekknum. Henderson og Sturridge eru pottþétt ekki leikfærir.

Grujic ætti að koma aftur inn í hópinn, hann var mjög góður í miðri viku með U23 ára liðinu og virðist vera búinn að ná sér af meiðslum.

Trent Alexander-Arnold er farinn að pressa fast á sæti Clyne í liðinu, hann var maður leiksins með U23 ára liðinu um daginn og rúmlega það.

Ben Woodburn var settur inná um síðustu helgi þegar hálftími var eftir og það fyrir Coutinho sem var ekki meiddur. Það segir líklega töluvert um það hversu nálægt liðinu hann er kominn.

Ef að Monaco getur spilað eins og þeir gera með 18-22 ára stráka ættu þessir gríðarlega efnilegu leikmenn Liverpool að geta gert sér vonir um sénsa, sérstaklega undir stjórn Klopp.

Spá:

Alltaf finnst manni að þetta góða gegni gegn toppliðunum geti ekki gengið endalaust og af öllum leikjum tímabilsins held ég að þetta sé sá erfiðasti á pappír. Það eru samt veikleikar á liði City sem henta okkar mönnum mjög vel og þeir eru vonandi ekki búnir að jafna sig bæði líkamlega og andlega eftir ferðalagið til Frakklands í miðri viku.

Spái því 2-3 sigri okkar manna. Coutinho kemst aftur í gang og skorar ásamt Origi og Matip.

 

Upphitun: Liverpool – Burnley

Staða Liverpool sem einhvers furðulegasta liðs í sögu Ensku Úrvalsdeildarinnar breyttist ekkert um síðustu helgi. Á góðri  íslensku er liðinu best lýst sem ´reverse flat track bullies´.

Tímabilið byrjaði með frábærum sigri á Arsenal þar sem okkar menn spiluðu glimmrandi fótbolta. Helgina eftir töpðu okkar menn gegn nýliðum Burnley. Þessar tvær viðureignir lýsa tímabilinu í heild fullkomlega. Síðustu æfingaleikir Liverpool fyrir þessa fyrstu tvo deildarleiki tímabilsins voru 4-0 sigur á Barcelona sem var fylgt eftir daginn eftir með 4-0 tapi gegn Mainz. Þetta er lið okkar er stórundarlegt og hafa margir reynt að greina vanda liðsins í vetur. Niðurstaða úr þeim rannsókum er nokkuð afgerandi.

Continue reading

Eru FSG nógu öflugir eigendur?

Jurgen Klopp kom inn á það á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Arsenal að óstöðugleiki liðsins kæmi sér ekkert allt of mikið á óvart:

„I don’t like the fact that inconsistency is part of the deal with development. But it’s part of the deal, we have to keep on going. I can understand sometimes people lose a little bit of patience but this is a long-term project. We do everything we can.“

Erfitt að mótmæla því og Klopp er klárlega sá þjálfari sem flestir treysta best til að byggja liðið upp. Vandamálið er að félagið er farið að reyna töluvert mikið á þolinmæði stuðningsmanna liðsins. Það er ekki sanngjanrt gangvart Klopp auðvitað en fyrir stuðningsmönnum Liverpool er þetta 27. árið sem farið er fram á þolinmæði og á þeim tíma er þetta svona tíunda uppbyggingarferlið.

Continue reading

Podcast – Hinsti dans Arsene Wenger á Anfield?

Það er staðreynd að vinnuvikan er betri helgina eftir að Liverpool vinnur Arsenal og stemmingin í þætti kvöldins var svo sannarlega hressari en eftir síðasta leik. Að þessu sinni var aðeins skoðað stöðu Wenger hjá Arsenal en hann var líklega á Anfield í síðasta skipti, eins var spáð aðeins í áhugaverðu liðsvali hans fyrir þennan leik. Þar fyrir utan var umræðan öll um Liverpool, Emre Can, Klopp, leiðtogar o.m.fl. Leikurinn sjálfur var ekki krufinn sérstaklega niður reyndar enda við séð þennan leik margoft undanfarin misseri.

Stjórnandi: Einar Matthías.
Viðmælendur: Kristján Atli, Maggi og SSteinn.

MP3: Þáttur 143