Hver tekur við Liverpool?

Könnun neðst í færslu

Síðast þegar FSG þurfti að leita að nýjum stjóra fyrir Liverpool náðu þeir bókstaflega að sannfæra þann besta sem var í boði. Klopp var búinn að vera undir smásjánni hjá þeim frá því þeir keyptu félagið og þegar hann var staðfestur var hann strax svo gott sem óumdeild ráðning með öllu, stemmingin hér var sannarlega góð.

Krafan núna er augljóslega að endurtaka leikinn. Liverpool er mætt aftur á efsta þrep fæðukeðjunnar og á ekki að bjóða neinum að taka við liðinu nema þeim besta í faginu. Vandamálið er bara að núna er alls ekki jafn auðvelt að skilgreina hver það ætti að vera og hvaða stjóri hentar Liverpool best?

Gefum okkur auðvitað að Pep Guardiola er ekki í boði, fyrir utan hann væri erfitt að svara þessu þó við mættum velja frjálst úr hópi allra annara stjóra í heimsfótboltanum, satt að segja er Liverpool líklega ekki langt frá því að geta gert einmitt það eins og staðan er núna.

Hvaða kröfur gerir FSG?

FSG hefur alveg sýnt það í hafnabolta að þeir eru tilbúnir að leggja traust sitt á óþekkta aðila ef þeir kaupa það sem viðkomandi hefur að selja. Það á þó mögulega frekar við um líklegan yfirmann knattspyrnumála frekar en næsta stjóra. Hlutverk sem líklega verður ekki síður mikilvægt á ný eftir að Klopp tók undanfarin ár meiri og meiri ábyrgð utanvallar og við horfuðum á eftir mönnum eins og Michael Edwards og Julien Ward án þess að fylla þeirra skarð.

Reynsla af því að stjórna stórliði eða a.m.k. reynsla af stórliði er líklega á listanum. Þekkja það að spila tvisvar í viku megnið af tímabilinu o.þ.h. FSG er núna tólf árum seinna vaxið upp úr því að velja á milli stjóra Swansea eða stjóra Wigan sem báðir voru vissulega að gera sæmilega spennandi hluti með sín lið á þeim tíma.

Höfum samt alveg hugfast að Arteta, Zidane og Guardiola eru allt dæmi um stjóra sem höfðu ekki reynslu af stjórastarfi, hvað þá hjá risaliði áður en þeir gengu í slíkt starf og náðu strax fótfestu. Allir höfðu tengingu við félagið sem þeir tóku við og voru búnir að taka smá reynslutíma bak við tjöldin sem stjórar B-liða eða sem aðstoðarstjórar.

Nútíma hugmyndafræði hvað leikstíl varðar, einhvern sem fellur undir skilgreininguna að vera snjallari en andstæðingurinn. Árangur Liverpool undir stjórn Klopp er lygilegur í samanburði við eyðslu helstu keppinauta og næsti stjóri þarf að bjóða upp á eitthvað sem sker Liverpool úr innan vallar. Eins þarf viðkomandi að passa við það sem Liverpool 2024 er að gera og vilja nota það sem er til staðar nú þegar hjá félaginu.

FSG er líklega ekki mikið að spá í tengingu við Liverpool og vilja líklega forðast það að lenda aftur í þeirri stöðu að þurfa að segja upp goðsögn eins og Kenny Dalglish sem dæmi. En stjóri Liverpool þarf að vera persónuleiki sem skilur félagið og stuðningsmenn þess. Frumskilyrði er líklega að kunna ensku ágætlega.

Þetta er langt í frá tæmandi listi og líklega er ekkert eitt rétt svar.

Hvaða nöfn eru helst til umræðu?

Alonso er langefstur hjá veðbönkum núna fyrstu dagana sem segir mögulega eitthvað um þennan markað í dag. Stjórar eins og Klopp og Guardiola eru svo rosalega miklar undantekningar í dag því flestir knattspyrnustustjórar eru aðeins 2-3 ár í sama starfinu núorðið og því erfiðara að skilgreina hver er afgerandi bestur líkt og þeir tveir hafa verið í áratug.

Hlutabréf í Alonso eru í hámarki akkuart í augnablikinu og hann er með augljósa Liverpool tengingu. Það er alls ekkert víst að staðan verði ennþá þannig í maí. Byrjun hans hjá Leverkusen er vissulega lyginni líkust, tók við liðinu í næst neðsta sæti en skilaði þeim í 4.sæti. Vantar aðeins í þá jöfnu að liðið var að spila langt undir getu enda þriðja besta lið deildarinnar tímabilið á undan.

Byrjun Leverkusen í vetur er hinsvegar í alvöru mjög spennandi og margt af því sem hann er að gera með þetta lið er auðveldlega hægt að heimfæra á Liverpool liðið og sjá það virka. Það er líklega mun nær að horfa í það heldur en þá staðreynd að liðið er núna með 49 stig í 19 leikjum (86%) 50 mörk skoruð og aðeins 14 á sig. Eins má alveg gera ráð fyrir að Alonso sé bara rétt að byrja að þróast sem stjóri og geti bætt sig.

Alonso tók svipað og æskuvinur sinn Mikel Arteta, Guardiola og Zidane sinn tíma í að undirbúa sig undir það að verða stjóri með því að þjálfa unglingalið Real Madríd og fór svo heim til Sociedad til að stýra B-liðinu í þrjú tímabil og kom þeim m.a. upp í B-deild í fyrsta skipti í 50 ár. Mögulega horfir hann til þess sem Arteta er að gera hjá Arsenal þrátt fyrir að hafa ekki verið með reynslu sem aðalliðsstjóri áður en hann tók við Arsenal.

Alonso þekkir það svo auðvitað betur en allir að vera hjá stórliði, þekkir í raun ekkert annað og vann allt galleríið sem leikmaður og lykilmaður hjá Liverpool, Real, Bayern og landsliðinu sem var sturlað lið. Spilaði fyrir Guardiola, Ancelotti, Mourinho, Benitez og Del Bosque.

Stóra spurningin er hvort hann sé að koma fram á sjónarsviðið sem boðberi nýrra tíma og að þróa leikstíl Klopp og Guardiola sem smátt og smátt hefur orðið mainstream. Það koma alltaf nýjar kynslóðir sem þróa leikinn og koma með nýjar hugmyndir sem bylta því sem við þekkjum fyrir. Hvort Alonso sé slíkur stjóri er erfitt að greina.

FSG vona ég samt að séu að leita af því heldur en einhverju gamla skóla þroti.

De Zerbi er svosem ekkert mikið ofar en aðrir hjá veðbönkum og langt á eftir Alonso. Hann hefur engu að síður verið hvað mest í umræðunni núna fyrsta kastið og alls ekkert hægt að útiloka að Liverpool horfi til hans. Hann væri kannski nálægt Brendan Rodgers ráðningunni?

RDZ myndi klárlega koma með persónuleika og karakter sem gæti tengt vel við Anfield. Hann er eins og Alonso með nýjar og spennandi hugmyndir hvað leikstíl varðar og hefur verið að gera mjög spennandi hluti undanfarin ár með Sassoulo, Spartak Moskva og núna Brighton. Lið sem alltaf selja sína bestu leikmenn þegar þeir tengja saman sjö sendingar í röð.

Gengi Brighton má ekki vera aðalatriði þegar De Zerbi er mátaður við Liverpool, heldur hvernig hans hugmyndafræði mátast við það að stýra Liverpool? Hvernig árangri næði hann á Ferrari í staðin fyrir Sauber ef við notum Formúlu 1 samlíkingu?

De Zerbi er á fínum aldri og búinn að hlaupa af sér hornin og þróa sinn leikstíl með misjöfnun árangri sem hann hefur fram yfir Alonso. Hann mun taka við stærra lið fljótlega, spurningin er hvaða liði og hvenær? En það er erfitt að segja að hann sé meira spennandi en Xabinn okkar eftir 4-0 skell gegn Luton í þessari viku!

Red Bull stjórarnir

Það hefur aðeins komið á óvart hversu lágt Red Bull stjórarir skora hjá veðbönkum miðað við tengingu FSG við Red Bull og samlíkindi með hugmyndafræði.

Julien Nagelsmann auðvitað blasir við úr þeim hópi og hefur ferilsskrá sem ætti að vekja athygli FSG. Hann er bara 37 ára og hefur auðvitað lengi verið talinn helsti arftaki Jurgen Klopp í þýska boltanum. Hann tók 28 ára við Hoffenheim og náði frábærum árangri með það lið, bjargaði frá falli á fyrsta tímabili og skilaði þeim svo m.a. í Meistraradeild. Áður en hann tók við sem stjóri aðalliðsins hafði hann verið yngriflokkaþjálfari í læri hjá Ralf Ragnick.

Ralf Ragnick var maðurinn á bak við fáránlegan uppgang Hoffenheim upp allar deildir í Þýskalandi og var svo fenginn til að leiða Leipzig (og Red Bull samsteypuna) í sambærilegu verkefni. Það kom því ekki á óvart 2018 að Leipzig réði Nagelsmann.

Bayern Munchen hafði það mikla trú á Nagelsmann 2021 að þeir keyptu hann frá Leipzig á €25m. Hann var rekinn 2023 þrátt fyri að vera með betra sigurhlutfall en Tuchel hefur verið með síðan og er núna með samning við Þýska landsliðið út næsta stórmót.

Þetta er ungur stjóri sem er kominn í efstu deild. Hann er með miklu flottari ferilskrá en Alonso og De Zerbi en stendur kannski ekki fyrir jafn spennandi nýungum í leikstíl?

Nagelmann gerði þó ein stór mistök hjá Bayern…

Marco Rose sem er núverandi stjóri Leipzig er annar sem FSG þekkir vel til og hefur stjórnað báðum Red Bull liðunum, Dortmund og Borussia Mönchengladbach. Hann var auk þess leikmaður undir stjórn Jurgen Klopp hjá Mainz og hefur tileinkað sér margt úr hans hugmyndafræði í þjálfun.

Roger Schmidt sem nú er stjóri Benfica er enn einn þjóðverjinn með Red Bull tengingu, sá var reyndar líka stjóri Leverkusen fyrir nokkrum árum.

Jesse March er svo enn einn Red Bull stjórinn sem vonandi er nú ekki á radar hjá FSG.

Oliver Glasner er annar ólíklegur og svosem ekki Red Bull stjóri en stendur fyrir svipaðan fótbolta og skilaði Wolfsburg og Frankfurt í Evrópu frá 2017-2023. Frankfurt vann m.a. Evrópudeildina undir hans stjórn.

Önnur áhugaverð nöfn í umræðunni

Er Zidane hættur í fótbolta? Talar hann ensku? Á rosalega erfitt að máta hann við Liverpool og held að hann hafi ekkert alltaf verið mjög sannfærandi með Real liðið þó Meistaradeildarárangurinn tali sínu máli. Hann er allavega ennþá með það há hlutabréf að hans nafn er með í umræðunni þegar svona stjórastaða losnar. Tengi hann samt betur við PSG, Chelsea, City eða Real, lið þar sem veskið skiptir ekki máli. Já eða landslið.

Hansi Flick er enn einn þjóðverjinn sem kannski væri rétt að gefa meiri gaum? Hann var stjóri Hoffenheim þegar liðið var í neðri deildum frá 2000-2005 en var svo aðstoðarstjóri í 13 ár frá 2006-2019. Fyrst hjá RB Salzburg, svo landsliðinu og því næst hjá Bayern. Hann tók sjálfur við Bayern frá 2019-21 sem er hans eina reynsla sem stjóri aðalliðs á efsta leveli.

Hann nýtti það hinsvegar ágætlega og vann þrennuna á öðru tímabili (deild, bikar og Meistaradeild) og svo deildina árið eftir líka með gríðarlegum yfirburðum. Stjóri ársins 2020.

Hann bað sjálfur um að hætta eftir þriðja tímabilið til að taka við sem landsliðsþjálfari, tók við af Low. Hjá landsliðinu er hann með næst versta sigurhlufall í nútímasögu landsliðsins (1,72 stig) og var rekinn eftir tvö ár.

Erfitt að meta hvort þetta sé ferilskráin sem Liverpool er að leita að, Flick er t.a.m. þremur árum eldri en Klopp.

Luis Enrique er stjóri PSG og óvíst hvort hann sé eitthvað að fara þaðan. Var þar á undan með landslið spánverja og Barcelona. Flest hin stóru liðin á Englandi eru með spænska stjóra og þetta er sannarlega eitt af stjóru þjálfaranöfnunum á Spáni.

Ruben Amorim er nafn sem kannski ætti að vera með Alonso í umræðunni. Hann var var stjóri B-liðs Braga í 11 leiki áður en þeim varð ljóst að hann væri allt of góður fyrir það level. Hjá aðalliðinu náði hann 13 leikjum áður en Sporting keypti hann á €10m. Þetta er klárlega heitasti bitinn í Portúgal og að gera frábæra hluti með Sporting. En er þetta nýr Villas Boas eða Mourinho?

Andoni Iraola stjóri Bournemouth er að sanna sig í ensku deildinni. Einn af nokkrum frábærum stjórum baskahéraðanna. Hann er aðeins 41 árs en hefur verið stjóri frá 2018, byrjaði ferilinn á Kýpur. Kannski ekki Liverpool level strax en þetta virðist vera mjög efnilegur stjóri.

Thomas Frank hjá Berntford hefur verið líkt við Klopp hefur sannarlega sýnt fram á að hann getur náð miklu úr litlu. Var aðstoðarstjóri Brentford frá 2016-18 og tók þá við liðinu. Nei takk frá mér en hans nafn hefur alveg verið í umræðunni.

Terzic er stóri Dortmund er efnilegur stjóri sem byrjaði árið 2010 sem njósnari fyrir Jurgen Klopp hjá Dortmund og hefur verið hjá félaginu allar götur síðan. Hann átti auðvitað að vinna deildina á síðsta tímabili en Dortmund klúðraði því á markamun.

Þekkja enska boltann

Unai Emery ætti kannski að vera á lista yfir mögulega stjóra Liverpool? Fyrir utan þann skamma tíma sem hann fékk hjá Arsenal hefur hann almennt gert góða hluti með sín lið og gert þá leikmenn sem hann hefur betri.

Ljinders hefur tekið fyrir það sjáflur að hann sé að fara taka við en er eðlilega einn af þeim sem er nefndur enda verið 10 ár aðstoðarstjóri liðsins og með metnað til að taka sjálfur við liði.

Postecoglou myndi eflaust vilja taka við Liverpool enda stuðningsmaður liðsins en er líklega kominn núna á stað sem hentar honum vel. Kom þessi gaur ekki 10-15 árum of seint til Evrópu?

Marco Silva – Fínn stóri en once Everton hans touched you….

Stjórar sem eru að gera áhugaverða hluti

Arne Slot er besti stjóri Hollendinga í dag og hefur náð að byggja upp öflugt lið hjá Feyenoord. Hann hefur ítrekað verið orðaður við enska boltann og var talinn líklegur til að taka við Tottenham í sumar.

Michel Sancehz er að gera fáránlega hluti með Girona á Spáni. Fór með þá upp um deild og er núna með liðið í öðru sæti og bullandi toppbaráttu í La Liga.

Abel Ferreira væri alvöru left field ráðning en þessi Portúgali er hefur farið sigurför um Brasilíu og Suður-Amerlíku með Palmeiras og verður vafalaust fengin aftur yfir hafið á einhverjum tímapunkti.

Lionel Scaloni er landsliðsþjálfari Argentínu og náðu auðvitað að gera það lið að heimsmeisturum.

Enzo Maresca er annar aðstoðarstjóri Pep Guardiola sem er að gera góða hluti sem stjóri. Maresca tók við Leicester fyrir tímabilið og er að rústa Championship deildinni spilandi öflugan fótbolta.

Vincenzo Italiano hefur verið stjóri Fiorentona frá 2021 og oft verið orðaður við stærri lið þó Liverpool sé líklega ekki eitt af þeim. Hann er samt einn af stjórunum í dag sem talinn er vera á uppleið og auðvitað á besta aldri.

Aðrir

Þessi listi inniheldur stjóra sem hefði kannski verið meira spennandi fyrir 7-10 árum en maður á erfitt með að máta við Liverpool. Tuchel hefur nú vonandi vit á því að taka ekki einn eina ferðina við af Klopp, er það ekki?

Hugsa sér hvað Gerrard greyið er langt frá því að vera talin líklegur. Hefði hlutabréf í honum verið hærri hefði hann haldið áfram að vinna sig upp innan Liverpool eins og hann var byrjaður að gera?

Önnur nöfn sem gætu komið meira inn í svona umræðu á næstu árum eru t.d. Francesco Farioli 34 ára gamall stjóri Nice og Sebastian Hoeneß stjóri Stuttgart og frændi Uli hjá Bayern.

En endum þetta á könnun

Hvern myndir þá helst vilja sjá taka við af Klopp?

 • Alonso (76%, 341 Atkvæði)
 • Ljinders (8%, 35 Atkvæði)
 • Nagelsmann (6%, 25 Atkvæði)
 • Annar (2%, 10 Atkvæði)
 • De Zerbi (2%, 10 Atkvæði)
 • Zidane (2%, 8 Atkvæði)
 • Emery (1%, 6 Atkvæði)
 • Hansi Flick (1%, 5 Atkvæði)
 • Ruben Amorim (1%, 4 Atkvæði)
 • Thomas Frank (1%, 3 Atkvæði)
 • Marco Rose (0%, 2 Atkvæði)

Fjöldi atkvæða: 449

Loading ... Loading ...

26 Comments

 1. Datt allt í einu Pochettino í hug yfir leiknum á miðvikudaginn. Hann er kannski dæmi um hversu fljótir hlutirnir eru að breytast. Hann hefði verið topp kandídat í fyrrasumar. Held hann geti ekki beðið eftir að komast út úr þessu Chelsearugli.

  2
 2. Alanso fær mitt atkvæði.
  Það eru margir flottir á þessum lista, fullt af mönnum sem ég hefði viljað sjá taka við þessu Liverpool liði t.d. hefðu þeir verið þarna þegar Rafa hætti.
  málið í dag er hinsvegar það að ég myndi aldrei skipta út snjallsímanum mínum fyrir heimasíma!.
  en mér finnst eins og það sé verið að neyða mig til þess núna. en lífið heldur áfram og ég verð að velja einhvern og ætla þá bara að sýna öll spilin og gambla og taka ungan stjóra sem hefur tengingu inn í félagið.
  allt eða ekkert gaur! annað hvort viðheldur hann þessu með sínum hætti eða drullar uppá bak.
  ég tek sénsin…

  5
 3. Ég tel mikilvægt að það verði ekki gerðar einhverjar hallabyltingar. Þá á ég við að ég vil að næsti stjóri spili svipað leikkerfi og Klopp og haldi áfram að gefa ungum mönnum tækifæri á að spila sig inn í byrjunarliðið. Mér finnst þetta tímabil vera það merkilegasta undir stjórn Klopp. Liðið er að gefa mikið af strákum tækifæri á sama tíma og liðið er á toppnum í deildinni. Þessi þróun verður að halda áfram undir stjórn næsta stjóra. Sama hver það er.

  Ég kalla þetta því leitina að “Bob Paisley” sem viðhélt árangri Liverpool er hann tók við af Bll Shankly. Þannig stjóra viljum við. Manni með sínar áherslur en er samt ekki að reyna að finna upp reiðhjólið á meðan honum stendur til boða að fara sinna leiða á Harley Davidson motorhjólinu sem Klopp hannaði fyrir hann.

  Alonso er að ná virkilega góðum árangri í þýskalandi en það sem veitir mér bakþanka er leikkerfið sem hann spilar. Hvað verður um bakverðina okkar ef hann skiptir í þriggja miðvarðakerfi ?

  Svo spyr ég mig hvort við spilum í raun mjög svipað kerfi og Alonso er að spila. Varnatengilðir okkar í gegnum tíðina, sér í lagi Fabinho og Endo -skila t.d mjög miklum varnarskildum og bakverðir okkar hafa verið að spila sem hálfgerðir væng miðjumenn þegar Liverpool sækir. Kannski væri möguleiki á því að Alonso gæti notast við Leikkerfið sem er fyrir en síðan hægt og bítandi færst sig yfir í sitt leikkerfi á nokkrum árum eða jafnvel fundið einhverja blöndu.

  En ef það þýddi að það þyrfti að kaupa aragrúa af nýjum leikmönnum, skipta hágæðaleikmönnum út eins og Andy Robertson, Trent Alexsander, Conor Bradley, Endo, þá myndi ég frekar vilja fá stjóra sem er með svipaðan leikstíl og Klopp og nær að nýta þessa leikmenn.

  Livepool er mjög spennandi lið að taka við fyrir rétta stjórann. Spurningin er hver það er. Ég væri alveg jafn opinn fyrir stjóra hjá minni klúbbi sem hefur náð fáranlega góðum árangri, ekki ósvipað því og Klopp gerði þegar hann var með Mainz. Það eru nokkrir stjórar þarna úti sem eru í þannig stöðu.

  En þetta eru áhugasamir tímar. Sér í lagi ef við kveðjum Klopp með meistaratitli.

  9
  • Flott greining Brynjar. Er þér sammála.
   Paisley var aðstoðarmaður Shankly.

   Liverpool hefur verið að bæta liðið með því að ala upp leikmenn sem taka síðan við þegar að staða losnar.

   Ljinders! Já takk.

   4
  • Eir etthvað sem bendir til þess að það henti ekki bakvörðum okkar að spila wing back?

   Myndi halda að það kerfi væri sniðið fyrir þá alla nema Gomez.

   5
   • Alls ekki neitt. Tuchel notaði chillwell og James í þessu hlutverk og þeir tveir voru sóknarleikur chelsea áður en sjúkrabekkurin tók við þeim.
    Og eins Brynjar segir að ofan. Þá eru menn af miðjunni nánast oft að dekka þessi svæði í dag sem Hafsteinn myndi gera ef þeir eru 3.
    532 og 433 eru bara leikkerfi á blaði og svo eru það hlutverk og hreyfingar inná vellinum annað mál.
    En svo ég ræði aðeins pep Ljinders þá hef ég oft hugsað það. Og spáði oft í því þegar ég hélt að Klopp yrði mikið lengur að pep tæki bara svo við og héldi áfram.
    En núna veit ég hreinlega ekki hvað svægi gæinn hefur. Væri þetta allt bara eins og hjá Klopp nema Klopp væri ekki? Klopp er hrikalega fyrirferðarmikill karakter og spurning hversu mikið það telur í núverandi umhverfi.

    Svo er það Zidane ef hann talar ensku. Það er gæi sem fengi strax rísa virðingu allra í liðinu með svakalegt svægi og hefur unnið þetta allt .
    Ég sé hann samt ekki sem möguleika veit ekki afhverju

    2
 4. Ljinders, mér finnst hann augljós valmöguleiki, en ef hann tekur þetta ekki að sér þá er Alonso ágætis valmöguleiki sem tilraun – hann fengi allavega gott svigrúm hjá Liverpool að gera liðið að sínu..

  5
 5. Kaus Xabi Alonso.
  Finnst hann mest spennandi kostur fyrir okkur í dag.
  Mögulega er gömul ást mín á honum sem leikmanni að hafa einhver áhrif.

  Skil reyndar ekki af hverju Pep Ljinders hefur afskrifað sjálfan sig úr jöfnunni?
  Hann gjörþekkir allt sem snýr að félaginu.

  YNWA

  4
  • Finnst einhver eigin að Pep hafi fengið þau skilaboð að hann sé ekki með í jöfnunni.
   Talar um að hann skuldi Liverpool allt en klúbburinn skuldi hinum ekki neitt…

   3
 6. Eitt er alveg á hreinu, það er ekki til stjóri eins og Klopp. Ég tel hins vegar að að næsti stjóri fær í hendur leikmannahóp, sem kann rulluna mjög vel. Þess vegna þarf næsti stjóri að vera opinn fyrir því að spila sambærilegt leikskipulag, umbylting á leikskipulagi ylli bara glundroða. Alonso tel ég vera góðan kost, er sennilega ekki búinn að festa í sig eitthvert eitt leikskipulag, og sjái væntanlega kost í því að viðhalda núverandi leikskipulagi, jafnvel þróa það áfram með leikmönnum sem kunna það upp á 10.

  YNWA

  3
 7. Ég væri til í að Pep Lijnders tæki við í eitt ár á meðan að klopp færi í Hveragerði í góða endurhæfingu og kæmi svo aftur endurnýjaður eftir ársleyfi.

  10
   • Hveragerði er heimsins besti staður, það áttu að vita Einar minn Matthías. HNLFÍ er að setja saman sérstaka Klopp dagskrá.

    Elskum hrepparíginn og berjumst fyrir sameiningu.

    2
   • Haha Náttúrulækningafélagið er tilvalið fyrir hann, leirböð og sundleikfimi í 2 mánuði. Síðan beint í sólina í nýja húsið sem hann var að kaupa í afslöppun með Ullu í hálft ár. Ég er ekki að segja að hann megi ekki kíkja aðeins á Selfosd í nýja miðbæinn áður en fer út aftur, þar er sjálfsagt og bara gaman fyrir hann að fá smá tilbreytingu.

    1
 8. Sælir félagar

  Ég kaus Alonso og það eru fyrst og fremst tilfinningarök fyrir því kjöri held ég. Þó verður að taka undir það að hann hefur skilað mjög góðum árangri í sínum stjóra störfum og engin ástæða til að hann geri það ekki áfram hjá Liverpool. Það er nákvæmlega sama hver tekur við, sá mun ekki verða Klopp því KLopp er einfaldlega einstakur maður og stjóri, á allan hátt. Hinsvegar held ég (hvað veit ég sosum) að Alonso geti alveg tekið við keflinu og þróað sig og liðið áfram til sigurbrautar í framtíðinni.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
 9. Ég vil fá Mourinho í eitt ár meðan Alonso tekur Leverkusen eins og Klopp gerði með Dortmund.

  Áður en allir verða brjálaðir, hlustið aðeins. Móri er fullkominn til að taka við Klopp. Hann þolir pressuna, getur fengið stuðningsmenn til að elska sig, ef vel gengur. Ef ekki þá fer hann eftir eitt ár, ekki með starfslokasamning eins og oft áður. Ef hann stendur sig og vinnur eitthvað, gott og vel. En sigtum á Alonso, leyfum blessuðum að æfa sig við stjórn áður en við hendum honum í hyldýpið sem Klopp skilur eftir sig. Alonso á það skilið að það verði smá hlé á Klopp, og enginn er persónuleiki, nema Móri til að taka við þessari pressu. Þess óska ég engum… nema Mourinho.

 10. Ég skil það mjög vel. Síðan Klopp tilkynnti að hann væri að hætta er maður bara í ruglinu reynandi (championshipmanager) að finna einhverskonar áframhald á þessum draumi sem við höfum upplifað.

  Sama hver tekur við, það verður seint sama stemmning á Anfield, ekki sami kraftur. Þess vegna nefni ég Mourinho, hann held ég sé eini maðurinn sem er á lausu sem getur virkilega talað við sína stuðningsmenn og peppað upp us vs them.

  Ég óska engum þess myllusteins að taka við Klopp eins og ég sagði, nema Móra.

  • “Ég óska engum þess myllusteins að taka við Klopp eins og ég sagði, nema Móra.”

   fair enough, jú, plan C eða D.

   2
 11. Ég er engu nær um það hver væri besti kosturinn fyrir Liverpool en af einhverri ástæðu hræðist ég það að ráða Xabi Alonso þar sem honum skortir meiri reynslu á stóra sviðinu sem þjálfari, við sáum hvernig fór fyrir Steven Gerrard og Frank Lampard.
  Ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér hvort Unai Emery gæti verið rétti maðurinn, hann hefur reynsluna og hefur náð mjög góðum árangri sem stjóri fyrir utan tímann hjá Arsenal en hvort hann sé að spila eins skemmtilegan bolta og Klopp efast ég um enda eru ekki margir sem geta farið í skónna hans Klopp hvað það varðar.

  2
 12. Skarðið sem Klopp skilur eftir er ómögulegt að fylla held ég. Maðurinn er einfaldlega svo risastór karakter að það mun myndast mikið tómarúm þegar hann fer. Og það er ekki til að minnka höggið að allt teymið hans sé líka á útleið.
  Þetta gæti vel komið losi á leikmannahópinn, ekkert endilega víst að þeir leikmenn sem eru komir á seinni hluta síns ferils séu til í að eyða seinustu árum sínum sem leikmenn í uppbyggingarferli hjá nýjum stjóra. Næsta tímabil gæti því hæglega orðið niðursveifla í gengi liðsins. Er Alonso tilbúinn að stíga inn í þessar aðstæður á þessum tímapunkti á sínum stutta þjálfaraferli? Gerrard var á allra vörum sem augljós valkostur á eftir Klopp fyrir örfáum misserum en sú staðreynd að hann kemst vart á blað í dag sýnir hvað hlutirnir geta breyst hratt í þessum heimi. Alonso er að mörgu leyti í svipaðri stöðu núna og Gerrard var þegar hann fór frá Rangers til Villa. Það gæti verið frábært skref fyrir hann að fara til Liverpool en kannski er þetta of stórt á þessum tímapunkti fyrir hann. Gerrard var stór karakter á vellinum og byrjaði ágætlega sem þjálfari en svo fjaraði fljótt undan honum. Sú staða sem verður uppi hjá Liverpool næsta sumar verður krefjandi fyrir hvern sem tekur við, hvað þá ungan og óreyndan þjálfara eins og Xabi og ég er ekkert endilega viss um að hann sé tilbúinn í það á þessum tímapunkti. En spennandi yrði það, heldur betur.

  1
 13. Ef við skoðum þjálfaraferil Pep Guardiola, þá tók hann við Barcelona 37 ára eftir að þjálfa varalið félagsins eitt ár. Þannig að ég átta mig ekki á því af hverju meint reynsluleysi ætti að há Xabi Alonso. Og ef einhver óttast að TAA (eða CB) og AR geti ekki spilað vængbakverði í kerfi Xabi, þá spyr ég hvaða stöðu hefur TAA verið að spila hjá Klopp ca 270 leiki af þessum 300 sem hann hefur spilað? Lið þróast og aðlaga sig milli ára og ég held að Alonso gæti alveg aðlagað Liverpool 2.0 að sínum stíl – og sinn stíl að Liverpool 2.0.

  Stóra vandamálið er veðurfar í norðvestur Englandi!
  Svo væri auðvitað hægt að kaupa serial-winner í Arnari Gunnlaugssyni frá Víkingi! Hann og fjölskyldan ættu að þola veðurfarið.

  7

Gluggavaktin

Upphitun: Arsenal á útivelli