Sparta Prag – Liverpool 1-5

Fyrri leikurinn í 16-liða úrslitum gegn Sparta Prag en auðvitað bara upphitun fyrir leikinnn um helgina. Öruggur sigur en eins og eftir alla leiki Liverpool í vetur má þetta ekki vera of jákvætt, það er stórt EN eftir þennan leik þar sem Konate fór meiddur af velli.

Mörk

0-1  (7.mín) Mac Allister

0-2 (25.mín) Nunez

0-3 (45+3.mín) Nunez

1-3 (46.mín) Bradley

1-4 (53.mín) Diaz

1-5 (90+4) Szoboszlai

Hvað gerðist helst markvert í leiknum?

Sparta kom fullt sjálfstrausts inn í leikinn enda liðið í rosalegu formi á heimavelli í bæði deild og Evrópu, settu tóninn strax og mættu okkar mönnum hátt á vellinum. Sem voru auðvitað þeirra fyrstu mistök.

Mac Allister var búinn að næla í víti og skora úr því eftir rúmlega fimm mínútur. Sparta sótti eftir það og var mun betri í 20 mínútur eða þar til Darwin Nunez setti sleggju fyrir utan teig, beint á markið reyndar en markmaður Prag var víðsfjarri því að verja. Mark númer 1.000 hjá Klopp sem stjóri Liverpool. Klárlega Kelleher að þakka að Liverpool var ekki að jafna þar frekar en komast í 0-2. Sparta áttu fullt af færum í fyrri hálfleik og varnarleikur Liverpool alls ekki sannfærandi en sluppu með það

Þegar leið á leikinn fór vindurinn að fara út Tékkunum og nýtti Nunez sér það með síðustu spyrnu hálfleiksins, frábært mark hjá frábærum leikmanni og staðan 0-3 þó gangur leiksins gæfi ekki alveg tilefni til.

Bradley kom inná í seinni hálfleik og hans fyrsta snerting var að skora nokkuð sannfærandi í eigið net. Stuttu seinna kom svo stóra helvítis áfallið þegar Konate fór meiddur af velli og verður að teljast mjög tæpur fyrir helgina. Van Dijk kom inná enda Gomez þá farin af velli í hálfleik.

Diaz setti fjórða markið stuttu seinna og koma Liverpool aftur í þriggja marka forystu, níu leikmenn Liverpool tóku þátt í uppbyggingunni á þeirri sókn. Salah mætti svo inná fyrir Diaz þegar korter var eftir af leiknum til að ná smá leikformi.  Hann skoraði að því er virtist gott mark þegar fimm mínútur voru eftir sem var dæmt af vegna rangstöðu sem var vægast sagt tæp.

Szoboszlai lenti hinsvegar ekki í neinu slíku þegar hann kláraði leikinn og setti fimmta mark Liverpool í síðustu spyrnu seinni hálfleiks.

Hvað réði úrslitum?

Liverpool er miklu betra lið en Sparta Prag, þeir voru sprækir og hefðu sannarlega getað skorað meira í þessum leik en sama má segja um Liverpool. Þetta virkaði samt kannski ekki alveg 1-5 leikur en svonalagað gerist jafnan þegar lið þora að sækja á okkar menn.

Hverjir stóðu sig best?

Darwin Nunez skoraði tvö frábær mörk sem tryggja honum nafnbótina maður leiksins.

Kelleher á reyndar líka skilið að vera maður leiksins því hann bjargaði Liverpool oft vel í fyrri hálfleik.

Mac Allister hefur verið frábær undanfarið og hélt því áfram í þessum leik, hefur vaxið rosalega eftir því sem líður á tímabilið (sem leikmaður, ekki bókstaflega) og þá sérstaklega eftir að hann fékk Endo til að græja DMC stöðuna fyrir sig.

Elliott fær svo skráðar á sig heilar þrjár stoðsendingar í dag og var eðli málsins samkvæmt mjög öflugur.

Hvað hefði mátt betur fara?

Klopp hefði sannarlega mátt skipta Konate út í hálfleik og ég held að það sé bara enginn sem var búinn að benda á það. Allt of mikil áhætta að spila honum eða Van Dijk í þessum leik og hvað þá meira en 45.mínútur. Stór skuggi á þessum annars flotta sigri. TNT var reyndar að tala um það í seinni hálfleik að mögulega hefðu Gomez og Nunez líka farið af velli vegna meiðsla en óvíst hvort þeir hafi eitthvað fyrir sér þar.

Varnarleikur Liverpool var annars alls ekki sannfærandi í þessum leik fyrir utan Kelleher, skipti engu í dag og Sparta skoraði tæknilega séð ekki, en þetta er auðvitað alls ekki í boði um helgina.

Umræðan eftir leik

  • Konate – er hann að fara missa af þessum City leik? Bara í alvöru er engin botn á meiðslavandræðum Liverpool?
  • Salah sneri aftur og fékk ekki markið sitt skráð í dag, hann á því inni tvö um helgina. Þetta virkar þannig!
  • Szoboszlai fékk líka mikilvægar mínútur og þarf heldur betur að vera klár um helgina.
  • Frábært annars að kála þessu einvígi í fyrri leiknum. Klopp getur þá notað hópinn betur en hann gerði í kvöld og haft liðið urrandi klárt fyrir bikarleikinn gegn Man Utd.

Hvað er framundan?

Hver í veröldinni veit ekki hvað er framundan?

 

34 Comments

  1. Þetta verður ákveðin brekka fyrir Sparta á Anfield í næstu viku.

    8
  2. Já, alveg frábær sigur auðvitað, en í næsta leik mætir Liverpool mikið betra liði og þá reynir sko aldeilis á gæðin sem voru mikil hjá flestum leikmönnum Liverpool í kvöld. Bradley óheppinn, en ég dái drenginn. Kelleher og Nunez frábærir sem fyrr, en hvað er eiginlega málið með Gakpo, sem ekki sýnir neitt ?

    9
    • Þetta “tick” í reynslubankann hjá Bradley kom bara á góðum tíma.

      3
  3. Þvílíkir yfirburðir …vorum við á útivelli ? allavega já
    vonandi er Konate ekki mikið meiddur en kemur manni aldrei á óvart með hann því miður.

    4
    • væntanlega ekki langtímameiðsli en ég er skíthræddur um að hann missi af næsta leik.

      3
  4. Það er skrítið að vera fúll eftir 1-5 sigur en það er staðan. Að missa Konate í meiðsli í þessum leik getur gert það að verkum að við vinnum ekki Man city næstu helgi og það er rosalega dýrt. Klopp er stundum of þrjóskur en það vita allir að Konate er meiðsla pési og ætti ekki að spila svona leik eftir álagið undanfarið eða þá í mesta lagi einn hálfleik.

    Burt séð frá þessum meiðslum var gott að sjá Salah aftur og að Sly er aðeins að fara að líkjast sjálfum sér aftur.

    Andy virkaði þreyttur, Gakpo ekki að heilla,ogvarnarlínan allt of opinn.

    Liðið á móti Man city= Kelleher, Andy, Quansha, Van Dijk, Gomez, Endo, Mac Allister, Elliott, Salah, Diaz og Nunez.
    Eina spurningin er Bradley eða Gomez og Elliott eða Sly.

    3
    • Szoboszlai fram yfir Elliott ætti að vera ansi auðvelt val. Vissulega gæti fitness haft eitthvað að segja.

      8
      • Afhverju auðvelt val? Sly var búinn að vera slakur áður en hann meiðist(eftir frábæra byrjun) á meðan að Elliott hefur verið mjög góður undanfarið.

        Fyrir utan að Sly er ekki búinn að spila mikið undanfarnar vikur og í engu leikformi gegn Man city.

        Fyrir mér þá finnst mér Elliott augljósa valið og Sly óvænta.

        4
      • Vegna þess að Szoboszlai er mikið betri leikmaður en Elliott.

        Betri sendingar, mikið betri móttaka á bolta, meiri skotógn, meiri hæð og styrkur, mikið meiri hraði, getur farið framhjá varnarmönnum á hraðanum. Í raun betri í öllum þáttum fótboltans.

        Þess utan hefur Elliott sjaldan byrjað deildarleiki þegar Szoboslai er heill.

        Ástæðan er væntanlega mikill gæðamunur á þeim.

        Vissulega spurning um fitness og leikform, en S vann sig vel inn í leikinn í kvöld.

        3
    • Robbo var afar slakur í þessum leik og svarti leikmaður Spörtu flengdi hann hvað eftir annað. Spurning um Gomes þar?

      4
      • mæltu manna heilastur meistari. Robbo hefur verið skugginnaf sjálfum sér síðan hann kom til baka

        4
  5. Kelleher frábær, Nunez með geggjuð mörk og úrslitin flott en meiðsli Konate svo gott sem núlla þetta út fyrir mér.
    Tognaður aftan í læri svo 6-8 vikur frá – sem er nánast restin af tímabilinu.
    Hann er stórkostlegur varnarmaður en líkami hans virðist því miður ekki gerður fyrir þetta álag.
    Já maður hefði frekar viljað 1-1 og engin meiðsli með tilliti til leiksins á sunnudaginn.
    Nú verður það væntanlega Gomez í hafsent með Quansah til vara og enn meiri spilatími fyrir Bradley.

    En áfram gakk er það víst og nú þarf Anfield að setja nýtt heimsmet í hávaða á sunnudaginn.

    Áfram Liverpool!

    8
    • “Tognaður aftan í læri svo 6-8 vikur frá – sem er nánast restin af tímabilinu”

      Hvaðan hefur þú þessar heimidlir?

      5
      • Eru menn ekki jarðtengdir?

        Jú þetta gæti mögulega verið tognun í kálfa en það er ekki mikið skárra og svipaður tími frá.

        Varla þarf maður að geta heimilda til að koma með svona einfalda ágiskun?

        Maður þurfti nú ekki annað en að einfaldlega horfa á leikinn, hlusta á lýsendur, hlusta á umræðu eftir leik ásamt því að byggja á eigin reynslu og þeim mörg hundruð ef ekki þúsund leikjum (og meiðslum) sem maður hefur séð í gegnum árin, til þess að telja allar líkur á að um vöðvameiðsli sé að ræða.

        En jú auðvitað vonar maður það besta.

        8
      • tja maður spyr sig hvar vanti jarðtenginguna?

        Í fyrstal agi þá setur þú ekki fram ágiskun um tognunina,, heldur fullyrðingu.

        Raunin er sú að þú hefur ekki græna glóru um hvort Konate er tognaður eða ekki.

        Hvers vegna kemur þú þá með fullyrðingu um að hann sé frá út tímabilið?

        Ef þú varst að hrofa á leikinn þá sástu vel að Konate gekk eðlilega af velli og í viðtali eftir leik þá segir Klopp að þetta hafi verið fyrirbyggjandi ráðstöfun.

        Vissulega er ekkert hægt að fullyrða núna og Konate gæti misst af næsta leik, en það er ekkert sem bendir til að hann verði frá í 8 vikur.

        9
      • þess utan þá hefur þú litlar forsendur til að meta meiðslin.

        Konate einfaldlega hægir á sprettinum.

        Þú tekur þér einfaldlega skáldaleyfi.

        Væri um alvarlega tognun að ræða þá hefði Konate væntanlega haltrað af velli.

        6
    • Klopp: “Ibou said to me ‘if I do another sprint, it could be set’. Should be fine but we don’t know.

      3
      • “if I do another sprint then it could be bad”

        semsagt varðúðarráðstöfun að taka hann að velli en ekki frá út tímabilið vegna tognunar aftan í læri?

        6
    • Indriði slaka… það þarf engar heimildir hér til að tala hér ennþá ? Það leit svo sannarlega út fyrir að okkar maður hafi tognað aftan í læri. Held að það hafi nánast allir hugsað það. Svo aað það hafi ekki gerst er bara dásamlegt.

      5
      • já ég tel eðilegt að menn hafi eitthvað fyrir sér annað en grillur úr eigin höfði þegar leikmaður er afskrifaður í 6-8 vikur.

        Og nei þetta leit alls ekki illa út. Þið sáuð vel að Konate haltraði ekki af velli sem voru augljós merki um að ekki var um neina tognun að ræða. Sjálfur hef ég tognað aftan í læri og veit hvað ég er að tala um.

        Nú er komið í ljós að það sem Konate fann fyrir var eitthvað smávægileg og verður hann mögulega í byrjunarliðinu um helgina.

        En vissulega má reyna að búa til smá drama. Kom samt ekki vel út í þessu tilviki.

        1
  6. Sælir félagar

    Niðurstaða þessa leiks var mögnuð og langt um fram vonir. Þetta gerir það að verkum að seinni leikurinn verður leikur hópsins og hægt að hvíla marga. Mér fannst Konate byrja frekar illa en var kominn í gott form áður en hann meiddist. Robbo var lélegur í vinstri bak og sóknarmaður Spörtu tók hann í nefið hvað eftir annað. Allir aðrir fínir og flottir og í raun hefi ég engar áhyggjur af framtíðinni enda veit nokkur hvað er framundan 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  7. Klopp sagði að Konate hefði verið tekinn útaf í varúðarskyni, hann var ekki meiddur, sem betur fer. Nú er bara að vona að einhverjir fleiri verði klárir í LEIKINN á sunnudaginn !
    Trent verður ekki til, en vonandi Jones og Gravenberch. Nú bíður maður bara !
    SUNNUDAGUR til sigurs !

    7
  8. Frábær sigur. Vonum það besta með Konate!

    Hvar finn ég háljósin úr leiknum?

    4
  9. Ibou said to me ‘if I do another sprint, it could be set’,” the Liverpool boss said. “Should be fine but we don’t know. Joe Gomez [who came off at half-time] is fine, played a lot, rotation. So let’s see with Ibou.”

    4
  10. Öll aðalatriði máls, eftir þennan leik !!!

    Við erum ennþá svo mikið, mikið inni í 3 keppnum!! .
    … ekki 4 keppnum, heldur BARA 3 því við erum búin að vinna 1 titil á leiktíðinni !!!!!!!!

    … tökum ALLT sem að höndum ber !!

    Áfram Liverpool, YNWA!!!

    12
  11. Það kom frétt á Liverpool Echo í morgun að FSG væru núna í viðræðum við Michael Edwards um að hann komi til baka. Þar var nefnt að Edwards fengi mögulega meira Senior hlutverk hjá félaginu. Í fréttinni kom einnig fram að Edwards og Ian Graham væru í dag að reka greiningarfyrirtæki fyrir fótboltafélög. Einhverra hluta vegna er þessi frétt horfin á fréttamiðlinum, og spurning hvað veldur, en það er allavega mikið í gangi á bak við tjöldin hjá félaginu og ljóst að FSG þurfa að vinna þetta hratt og vel.

    8

Liðið gegn Sparta Prag

Endurkoma Nördanna (Staðfest)