Xabi Alonso líklega ekki næsti stjóri Liverpool

Amorim núna líklegastur? Hver er það?

Breska pressan segir öll í einum kór núna í kvöld að Xabi Alonso sé ekki skotmark hjá Liverpool í sumar, félagið hafi vitað það í þó nokkurn tíma að hann sé ólíklegur til að vilja fara frá Bayer Leverkusen í sumar og því sé ekki verið að gera ráð fyrir að ráða hann. Sömu sögu er auðvitað að segja af Bayern sem líka hefur verið sterklega orðað við Alonso.

Tökum öllum fréttum með dágóðum fyrirvara því þetta gæti allt eins verið partur af póker til að setja pressu á Alonso og hans teymi. Engu að síður þurfa þessar fréttir ekki að koma svo ýkja mikið á óvart því Alonso hefur flýtt sér hægt að byggja upp sinn stjóraferil og vill ná sér í næga reynslu áður en hann tekur skref uppá við. Hann byrjaði t.a.m. hjá U-14 ára liði Real Madríd áður en hann tók við B-liði Real Soceidad í þriðju efstu deild Spánar. Þegar hann kom þeim upp á öðru tímabili var heilmikil eftirspurn eftir honum og hann m.a. orðaður við Borussia Mönchengladbach en taldi sig ekki tilbúinn og vildi halda áfram hjá Soceidad. Þetta var heilmikill árangur fyrir félagið því B-liðið hafði ekki verið í næstefstu deild í sex áratugi.

Hjá Leverkusen hefur hann ekki ennþá klárað heilt tímabil, hann tók við þeim í fallbaráttu og náði að rétta skútuna mjög vel, hinsvegar gleymist aðeins í þeirri umræðu að það var fáránlegt hversu neðarlega Leverkusen var þegar hann tók við m.v. mannskap. Það sem hann er hinsvegar að gera í vetur gerir hann að eftirsóttasta stjóra í heimi (af þeim sem ekki hjá elítu liðunum nú þegar).

Það er því kannski hægt að skilja það að hann “þori” ekki að taka stökkið strax í mega klúbb eins og Liverpool, Bayern eða önnur elítu félög sem verða á þjálfaramarkaðnum í sumar. Hann getur verið nokkuð viss um það í landslagi þjálfara í dag að hann fær fleiri tækifæri í framtíðinni haldi hann áfram á einhverju í líkingu við það sem hann er að gera hjá Leverkusen núna.

Fúlt fyrir okkur en höfum í huga að það er alls ekkert víst að Alonso sé afgerandi efsta nafn á blaði hjá Liverpool. Það er ekkert endilega öruggt að þau tölfræðilíkön sem þeir styðja sig við geri Alonso að afgerandi kosti fyrir okkar lið og eins vinnur það mögulega aðeins gegn Alonso hversu stutt hann hefur verið stjóri í efstu deild.

Fleiri fiskar í sjónum – Reykur í kringum nafn Ruben Amorim

Undanfarið hefur verið ekki minni reykur í kringum nafn Ruben Amorim stjóra Sporting heldur en Xabi Alonso. Þeir sem best eru að sér í tölfræðipælingum hafa talað um Amorim frá því Klopp tilkynnti ákvörðun sína en núna er hans nafn einnig að verða mainstream í fjölmiðlum og hann orðinn líklegastur hjá veðbönkum.

Hans þjálfaraferill í Portúgal er engu minna áhugaverður en það sem Alonso er að gera í Þýskalandi. Hann er hinsvegar ekki eins stórt nafn í knattspyrnuheimingum og auðvitað að vinna á aðeins minna sviði.

Amorim er 39 ára eða ári eldri en James Milner en er samt á sínu fimmta ári sem stjóri í efstu deild. Hann byrjaði tímabilið 2019-20 sem stjóri Braga B en náði bara nokkrum mánuðum í því starfi áður en hann tók við aðalliðinu. Fyrsti leikur Braga undir hans stjórn var 4.janúar 2020 og vannst 7-1. Eftir níu leiki var árangurinn átta sigrar og eitt jafntefli. Þar af vann Braga undir hans stjórn Benfica, Porto og Sporting í þessum níu leikjum. Þeir unnu líka Benfica og Porto í bikarnum.

Það var nóg fyrir Sporting sem keypti hann frá Braga á €10m sem er magnað verð fyrir þjálfara í Portúgal, hvað þá 34 ára stjóra með níu leikja reynslu. Þetta er ennþá magnaðara ef menn muna eftir þeim fjárhagsvandræðum og upplausn sem var í kringum Sporting á þessum tíma.

Amorim var fjórði stjóri Sporting bara tímabilið 2019-20. Stuðnningsmenn liðsins voru síður en svo sannfærðir um að stjórn félagsins vissu hvað hún væri að gera og töldu félagið vera að sóa fé enn á ný, hvað þá í fyrrum leikmann Benfica. Amorim var þriðji dýrasti þjálfari í sögunni á þessum tíma. Hann bætti stigasöfnun liðsins aðeins þá 11 leiki sem eftir voru að tímabilinu og fékk svo sitt fyrsta undirbúningstímabil sem stjóri sumarið 2020.

Gjörsamlega galin innkoma á stóra sviðið hjá gaurnum og hann var bara rétt að byrja. Sporting er ROSALEGA mikið þriðja besta liðið í Portúgal, undanfarin 40 ára hafa þeir bara unnið deildina þrisvar sinnum en þrjátíu sinnum verið í topp þremur í deildinni. Fyrsta heila tímabil Amorim vann Sporting deildina í fyrsta skipti í 19 ár.

Árið eftir náði Sporting sama stigafjölda og árið áður en þá sá Porto við þeim með ótrúlegu tímabili þar sem þeir töpuðu bara einum leik. Sporting var því með sjóðandi heitt lið og stjóra sem var þá byrjað að orða við lið eins og Man Utd og Tottenham.

Viðskiptamódel Sporting rétt eins og hinna liðanna í Portúgal er að selja sína bestu leikmenn og Sporting þurfi heldur betur að rétta úr kútnum fjárhagslega. Sumarið 2022 seldu þeir á einu bretti:

  • Mattheus Nunes (nú hjá Man City)
  • Nuno Mendes (seldur til PSG)
  • Joao Palinha (Fulham – einn besti varnartengiliður Úrvalsdeildarinnar í fyrra)
  • Pablo Sarabia markahæsti leikmaður liðsins fór til baka úr láni (frá PSG).
  • Pedro Porro fór svo einnig á láni til Tottenham í janúar sem kláraði kaupin um sumarið

Þetta var auðvitað blóðtaka sem hafði áhrif og gengi Sporting aðeins verra fyrir vikið, fengu 11 stigum minna en árin á undan og höfnuðu í 4.sæti. Fyrsta eiginlega mótlæti Amorim sem stjóri sem svo má kalla.

Fyrir þetta tímabil misstu þeir svo Ugarte til PSG en eru heldur betur mættir aftur í toppbaráttuna og leiða eftir 25 umferðir og eiga leik inni á Benfica í öðru sæti. Eru með 65 stig það sem af er tímabili eða 2,6 stig að meðaltali í leik. (Leverkusen núna er sem dæmi með 2,69 stig að meðaltali)

Amorim hefur verið stjóri í 147 deildarleikjum með þriðja besta lið Portúgal (og Braga sem er fjórða besta liðið) en er með að meðaltali 2,41 stig í leik. Sporting undir hans stjórn er með fleiri stig en Benfica samanlagt og rétt á eftir Porto.

Það er eiginlega ekki hægt að gera mikið betur í Portúgal en Amorim er að gera þessi fyrstu fimm tímabil sem hann hefur verið stjóri. Hann er bara 39 ára og hvort sem hann fer til Liverpool eða annað er ljóst að hann tekur fljótlega við stærra liði en Sporting. Hinsvegar er mjög erfitt að meta hvort hann sé næsti Jose Mourinho eða André Villas-Bóas.

BBC birti áhugaverða grein þar sem þeir bera saman þá stjóra sem helst eru orðaðir við Liverpool (Sjá frétt hér). Það er í svona greiningum sem Amorim er að skora mjög hátt og mjög líklegt að hann tikki í flest box hjá eigendum Liverpool og nýjum yfirmönnum knattspyrnumála sem eru mjög data miðaðir í allri sinni nálgun.

Amorim er sagður mjög góður maður á mann og eins taktískt. Liðið spilar 3-4-3 leikkerfi með öflugan og þéttan varnarleik sem var grunnurinn að titli Sporting 2021. Engu að síður er Sporting með mjög háa varnarlínu og pressa af miklum krafti, liðið er að skora meira á þessu tímabili en Sporting hefur gert síðan um miðja síðustu öld. Amorim er sagður mjög góður í að ná til sinna leikmanna og flestir virðast stórbæta sig undir stjórn Amorim svipað og við þekkjum hjá Klopp, eitthvað sem skorar hátt hjá FSG.

Hér er áhugaverð umföllum Amorim

Sporting féll úr leik í Evrópudeildinni í vetur eftir tap gegn Atalanta, næstu andstæðingum Liverpool. Þeir tóku hinsvegar Tottenham á síðasta tímabili á heimavelli og gerðu jafntefli í London í riðlinum sem dugði þó ekki til. Þeir voru í Evrópudeildinni eftir áramót og hentu m.a. Arsenal úr þeirri keppni og voru mjög óheppnir að slá ekki Juventus út, yfirspiluðu þá og óðu í færum en Juve tók ekta Italian Job á þá og nýtt sitt færi.

Amorim hefur engu enga reynslu af því að starfa erlendis, hann talar ágæta ensku en var í Portúgal allan sinn feril og átti bara fínan feril sem leikmaður hjá m.a. Braga og Benfica. Hann hefur ef út í það er farið varla búið annarsstaðar en í Lissabon nema eitt ár sem leikmaður og annað sem þjálfari í Braga í norðurhluta Portúgal. Það er spurning hversu vel honum tekst að koma sínum hugmyndum á framfæri í öðru landi, annarri meningu og á öðru tungumáli. Menn með verri ferilsskrá en Amorim hafa látið á það reyna og hann er klárlega kominn á tíma að prufa sig á stærra sviði.

Spennandi valkostur þegar hann er skoðaður nánar

Aðrir 

Rétt eins og með Alonso og Amorim er hægt að tala sig niður á ansi marga valkosti sem gætu alveg verið spennandi hjá Liverpool, sérstaklega ef allir aðrir hlutar tannhjólsins snúast í takt. Allir eiga þeir það þó sameiginlegt að vera ekki Jurgen Klopp. Eigendur Liverpool (og auðvitað við stuðningsmenn liðsins) þurfa að setja mjög mikið traust á menn eins og Richard Hughes og Michael Edwards sem stjórna leitinni að nýjum stjóra og greina hver hentar Liverpool best. Auðvitað horfum við bara í þann stjóra sem er að standa sig best núna en rétt eins og með leikmenn sem eru ekki endilega að hámarka sín gæði hjá einu liði þarf það ekkert að þíða að þeir geti ekki gert það annarsstaðar. Sama lögmál á við um þjálfara.

Væri Max Verstappen efstur í Formúlu 1 núna á Sauber eða Alpine bíl í stað Red Bull? Er hægt að heimafæra svona samlíkingu á einhvern knattspyrnustjóra? Lið Nagelsmann fékk t.a.m. mun fleiri stig að meðaltali í leik þegar hann var stjóri Bayern en hann náði hjá Leipzig og Hoffenheim. Gæti De Zerbi þróað og betrum bætt það sem hann er að gera hjá Brighton enn frekar hjá Liverpool og þá hversu mikið? Það sem verið er að treysta Hughes/Edwards fyrir er svolítið að finna út hvar þakið er hjá nýjum stjóra Liverpool, ekki ósvipað og þegar verið er að skoða leikmenn. Það þarf alls ekkert endilega að leiða þá að augljósasta valkostinum eins og Xabi Alonso virðist klárlega vera.

Julius Nagelsmann er sem dæmi með mun meira sannfærandi reynslu en Amorim að því leiti að hann hefur stjórnað mun stærri félögum og unnið með stærri nöfnum en Amorim. Honum hefur verið líkt við Klopp í tæplega áratug og þjálfað lið sem aðhyllast ekki ósvipaða leikaðferð og Klopp hefur verið að vinna með hjá Dortmund og Liverpool.

Það sem meira er þá er Nagelsmann þremur árum yngri en Amorim. Hann hefur þjálfað Bundesliga lið frá því hann var 29 ára eða auðvitað þýska landsliðið sem er eitt af stóru störfunum í landsliðabransanum.

Bayern keypti hann frá Leipzig á €25m (og hefðu betur bara haldið sig við hann).

Roberto De Zerbi er svo klárlega ekkert búið að stroka út af listum yfir líklega stjóra stórliðanna þó Brighton hafi ekki náð sama flugi og þeir náðu í fyrra. Ekki það að þeir eru núna með 42 stig eftir 28 leiki en voru með 46 stig eftir sama leikjafjölda á síðasta tímabili. Það sem gæti hafa kostað þá þessi fjögur stig er mögulega að þeir seldu Mac Allister, Caiceido og Sanchez í sumar og tóku í fyrsta skipti þátt í Evrópudeildinni núna í vetur. Þetta meinta hrun þeirra er nú ekki verra en það.

En úr því að Alonso virðist vera stimpla sig út í þessum slag, ætli þessir þrír verði ekki helst til umræðu næstu vikur. Bet365 er komið með Amorim sem þann líklegasta núna

Best væri nú bara ef Klopp sæi að sér og hætti við að hætta enda er þetta bölvað bull í karlinum.

9 Comments

  1. Já, kannski smá bull í karlinum, okkar frábæra Klopp, en ætli hann viti ekki sinn vitjunartíma eins og aðrir toppeinstaklingar. Núna finnst manni blauta tuskan sem fylgdi afsögn hans aðeins vera að þorna og spennandi óvissa framundan. Það væri sumpart ágætt að sjá Ljinders þarna í ár á meðan Klopp flytur inn í Majorca-húsið sitt og slakar aðeins á, kæmi svo aftur að ári liðnu, en það má spyrja sig hvort sá fyrrnefndi teldi það ekki fyrir neðan sína virðingu – að bíða í aðalhlutverkinu til að fara aftur í aukahlutverkið. Og hvort við fylgjendur biðum ekki bara líka á meðan og þetta yrði einhvers konar biðstaða eða frestun á leit að nýjum veruleika. Klopp getur ekki snúið aftur næsta vetur. Það yrði algjört mess og höggstaðurinn stór eftir allt sem á undan er gengið. Þegar breytingar verða er allt eins gott að taka þeim og leggja allt í sölurnar til þess að þær heppnist sem best. Nýjum tímum fylgir hreinsun og ný trú á nýtt verkefni. Þess vegna er svo mikilvægt að þessi stjóraskipti heppnist vel.

    Klopp er snilldarstjóri en það eru líka margir af þeim sem nefndir eru sem eftirmenn hans, að minnsta kosti hvað taktíkina og fótboltainnsýnina varðar.

    Framkomuhlutverkið virðist orðið skipta meira máli en í gamla daga og líkt og fram hefur margsinnis komið, bæði í Gullköstunum hér og athugasemdum við þau og aðra pistla, þá ber Klopp af í því hlutverki. Karisma hans er hluti af velgengninni. Klopp er meira kúl en flestir forsetar vestrænna lýðvelda. Yfirvegun í bland við mikla ástríðu og augljósa væntumþykju í garð þess starfs sem hann vinnur. Þess vegna horfum við til þess að næsti stjóri hafi sambærileg manneskjugæði til að bera, þessa blöndu af 100% sjálfstrausti og sigurvegaraelementi við einhvern sammannlegan, mildan og húmorískan presens sem vinnur alla fylgjendur á sitt band.

    Það sem maður vonar er að næsti stjóri, með sinn karakter, nái að skapa sér ímynd innan félagsins og út á við sem viðlíka leiðtogi, jafnvel þótt hann hafi annars konar framkomueiginleika til að bera. Við munum byrja að elska þann gaur líka ef hann veldur hlutverkinu, byrjar á að halda okkur í meistaradeild og siglir svo skipinu á svipaðan stað og við höfum verið á undanfarin ár.

    Við fylkjumst á bakvið næsta mann, hver sem hann verður, því án efa mun hann koma inn vitandi af áskoruninni og með metnað og hæfileika til að halda okkur áfram á meðal þeirra allra bestu.

    It’s an end of an era, en nýtt skeið er að hefjast og það felur í sér eftirvæntingu samhliða söknuðinum eftir okkar kæra Klopp.

    Við mössum þetta áfram.

    YNWA

    16
    • Vel skrifað, Sölvi.

      Manneskjugæði er orð sem lýsir Klopp vel. Vonandi verður næsti stjóri líka góður á mannlega sviðinu, það skiptir svo miklu máli.

      5
  2. Þessi bransi er óútreiknanlegur, nú horfum við flest til Alonso sem vænlegasta arftakans, ekki ósvipaðar væntingar til hans núna og maður hafði til Gerrard fyrir örfáum árum. Ég verð vonsvikinn ef Alonso kemur ekki en á sama tíma pínu feginn. Held að það væri betra að fá einhvern “millibilsmann” í staðinn sem tekur sjokkið sem fylgir brotthvarfi Klopp. Næsta tímabil mun mjög líklega einkennast af óstöðugleika sem fylgir því þegar nýr þjálfari er að innleiða sína hugmyndafræði. Kæmi mér ekkert á óvart að arftaki Klopp verði ekki langlífur í starfi. Arfleifð Klopp er RISAVAXIN og enginn, held ég, sem getur fyllt skarðið sem hann skilur eftir. Spái því að Nagelsmann verði fenginn inn “tímabundið” en Alonso verði áfram rækilega undir smásjánni og muni færa sig til okkar að ári liðnu.

    4
  3. Frábært, heitasti gæinn er 35 ara krakki fra portugal með lelega ensku

  4. Takk fyrir þessa samantekt.

    Xabi búinn að staðfesta annað tímabil hjá Leverkusen.
    Flott hjá honum finnst mér, honum liggur ekkert á að stækka við sig.

    Ég á erfitt með að mynda mér skoðun á hver af þessum þremur líklegustu kitla mig mest, treysti Edvards til að reikna sig á rétta manninn.
    Spennandi tímar framundan, aldrei logn.

    YNWA

    4
  5. Þetta var það sem ég var mest hræddur um að myndi gerast 🙁

    Það er algjört möst að landa deildatitlinum í ár, það gæti orðið löng bið í þann næsta.

    Ég hef blendnar tilfinningar fyrir tímanum eftir Klopp, ég verð nú að segja það eins og staðan er núna eftir að hafa heyrt þessar fréttir með Alonso að ég er nú ekkert alltof bjartsýnn.

    • Við getum þó huggað okkur við að innviðirnir eru í fínu lagi. Þar er traust undirlag fyrir nýjan stjóra og allt hans fólk til að byggja á. Það hættulega er þegar súrnar í leikmannahópnum og menn fara að telja sig of stóra fyrir þennan eða hinn stjórann. Andi Klopps hefur ekki leyft svoleiðis neikvæðni og vonandi heldur nýr stjóri þétt um taumana og krefur hópinn um jákvætt hugarfar og virðingu fyrir liðsheildinni. Við höfum víti til varnaðar í Man Utd, þar sem ónefndir leikmenn hafa bitið af sér hvern stjórann á fætur öðrum og ekkert gengur að komast upp úr hjólförunum. Það ríður á fyrir Edwards að tapa ekki niður því sem Klopp hefur skapað á Anfield.

      1
      • Henderson14, ég er nú sammála þér að staffið hjá Liverpool hefur verið gott undanfarin ár og ég ætla að vona að Edwards muni hafa góða stjórn á þessu áfram.
        Trú mín á staffinu er mun meiri enn á FSG, þannig að ég ætla samt að vona að við séum ekki að fara detta aftur í sömu hjólförin og við vorum í þegar Klopp tók við af Brendan Rodgers.

        Man Utd er nú ekki eini klúbburinn með skemmdu eplin, mér hefur nú ekki sýnst að hlutirnir hafi verið eitthvað betri hjá Chelsea.

        1
      • Vissulega rétt hjá þér Ari að ekki er allt með felldu hjá Chelsea. En það er ekki hið sk. player-power sem er að eyðileggja fyrir þeim, heldur miklu frekar ævintýraleg óstjórn í leikmannakaupum og peningamálum hjá núverandi eigendum. Svo ekki sé minnst á yfirvofandi vofur frá tíma Abramovich sem gætu leitt til stigamissis fljótlega. Og enn mistókst þeim í dag að komast upp úr neðri hluta deildarinnar. Sennilega á allt eftir að enda í kaldakoli hjá þeim og það fyrr en síðar. Átta ára samningar við leikmenn og ekkert ljós í sjónmáli á næstunni. Úff!

        1

Gullkastið – Þjálfaraleit stóru liðanna

Upphitun: Áheyrnaprufa fyrir De Zerbi á Anfield