Allar færslur eftir Eiríkur Rúnarsson

Southampton á sunnudag.

Á morgun bregða okkar menn sér suður á bóginn, ekki þó strax til Portúgal, heldur til Southampton og etja þar kappi við lærisveina vinar okkar Mauricio Pellegrino. Oft var þörf en nú er nauðsyn á þremur stigum í seinni hluta mótsins og línur munu skýrast nokkuð í næstkomandi leikjum.

 

Sagan

Tölfræðin er Liverpool í hag þegar kemur að leikjum gegn Southampton. Liðin hafa mæst 107 sinnum í öllum keppnum um ævina og hafa Liverpool sigrað í 52 skipti, tapað 30 sinnum og í 25 skipti hafa liðin skilið jöfn. Ef við horfum á seinustu tuttugu skipti sem liðin hafa mæst eru úrslitin ekki sérstök því sigrar og töp hafa skipst nánast jafnt á milli liðanna þar sem Liverpool hafa sigrað níu sinnum, Southampton átta sinnum og þrisvar hafa liðin skilið jöfn. Í fimm af þessum átta leikjum höfum við tapað á þeirra heimavelli og því er ljóst að við eigum erfitt með Dýrðlingana suður frá.

Þessar tölur segja að sjálfsögðu ekkert um leikinn á morgun og eru mest settar inn til að hafa gaman af. Rússibanalið Liverpool jarðar flesta tölfræði þessi misserin.

Þegar sagan á milli þessara liða er skoðuð er vart komist hjá því að minnast á leikmannakaup á milli liðanna. Viðskiptin hafa nær eingöngu farið fram í aðra áttina utan þess þegar Bruce Grobbelaar fór frítt til þeirra árið 1994 eftir farsælan feril á Anfield. Liverpool hafa samtals verslað leikmenn frá Southampton fyrir 174 milljónir punda og eru gárungar farnir að kalla Southampton Liverpool B.  Þessir leikmenn hafa verið keyptir frá Southampton síðan 2005:

Peter Crouch 7 milljónir punda 20. júlí 2005

Rickie Lambert 4,5 milljónir punda 2. júní 2014

Adam Lallana 25 milljónir punda 1. júlí 2014

Dejan Lovren 20 milljónir punda 27. júlí 2014

Nathaniel Clyne 12,5 milljónir punda 1. júlí 2015

Sadio Mané 30 milljónir punda 28. júní 2016

Virgil Van Dijk 75 milljónir punda 1. janúar 2018

Flest þessara kaupa eru að mínu mati góð utan Rickie Lambert sem þó kostaði ekki mikið. Crouch skilaði ágætu verki, Lallana hefur verið fínn sérstaklega á síðasta tímabili en verið mikið meiddur á þessu, utan þess sem hann myndi sjálfssagt kosta 50 milljónir í dag verandi enskur landsliðsmaður. Lovren er ekki sá afgerandi leikmaður sem vonir stóðu til og vantar enn stöðugleika í leik sinn eftir þrjú ár hjá félaginu en hann er góður í hóp og spurning hvort Klopp ætli honum framtíðarstöðu við hlið Van Dijk. Clyne var oftar en ekki jafnbesti maður liðsins og spilaði flest alla leiki fyrir þessi löngu meiðsli sem hann hefur þjáðst af allt þetta tímabil fyrir utan að verðið sem hann fékkst á er djók sé miðað við daginn í dag. Hann er svo kominn í meistaradeildarhópinn og við skulum vona að hann sé að ná sér og nái fullum styrk á ný. Mané hefur verið frábær sérstaklega á síðasta tímabili og 30 milljónir eru ekki mikið fyrir leikmann af hans kaliberi. Hann lenti að vísu í leiðindameiðslum í haust og hefur átt aðeins erfitt síðan en við vitum öll hvað hann getur og bara spurning hvenær hann dettur í fimmta gír. Virgil Van Dijk er svo ennþá önnur umræða þar sem sú upphæð gerði hann að dýrasta varnarmanni heims og tíminn verður að leiða í ljós hvort hann verði það legend sem við vonumst eftir. Ég hef a.m.k fulla trú á honum.  Af þessum sökum eru stuðningsmenn Southampton ekkert að elska Liverpool og má búast við miklu bauli úr þeirra röðum á morgun. Eigendurnir aftur á móti hafa nokkrum sinnum farið brosandi í bankann.

Af leikmönnum sem hafa leikið fyrir bæði lið ber að sjálfssögðu líka að nefna Kevin Keegan sem fór til Southampton með viðkomu í Hamborg og Uxann okkar Chamberlain sem ólst upp hjá Southampton áður en hann fór til Arsenal.

 

Southampton

Southampton sitja í 15. sæti deildarinnar með 26 stig og mínus tíu í markatölu, hafa fengið á sig 38 mörk en skorað 28. Við unnum þá 3-0 á Anfield í nóvember síðastliðnum með tveimur mörkum frá Salah og einu frá Coutinho. Southampton hafa gengið illa að skora og þeirra markahæsti maður er Charlie Austin með sex mörk. Austin er akkúrat týpan af framherja sem okkar blessaða vörn þarf að varast, stór, sterkur og mjög góður í loftinu. Þó er óvíst með þátttöku hans í leiknum þar sem hann hefur glímt við meiðsli síðan í desember en er farinn að æfa á nýjan leik. Stjórinn þeirra er okkur vel kunnugur, Mauricio Pellegrino sem lék alls 12 leiki með Liverpool 2005 eftir að hafa komið frítt frá Valencia til að spila fyrir sinn fyrrum stjóra Rafa Benitez.

Góðu fréttirnar fyrir okkur ( eða ekki) eru að Southampton spila varfærinn fótbolta, liggja aftur og beita skyndisóknum. Þeir hafa verið að spila 4-2-3-1 með tvo djúpa miðjumenn, annars vegar hinn geysisterka Romeu. Það er morgunljóst að þetta lið er sýnd veiði en ekki gefin.

 

Liverpool

Af okkar mönnum er svosem allt gott að frétta utan hnjámeiðsla Joe Gomez sem verður ekki með á morgun. Þó er Klopp vongóður um að hann geti náð Porto leiknum á miðvikudaginn. Trent Alexander mun því halda stöðu sinni í byrjunarliðinu og á það líka skilið eftir fína frammistöðu gegn Tottenham um síðustu helgi, sérstaklega í fyrri hálfleik en lenti í smá basli þegar Spurs jóku sóknarþungann í seinni hálfleik. Það er gríðarlega mikilvægur Evrópuleikur gegn Porto á miðvikudag og því erfitt að spá í hvernig Klopp stillir upp og hvort hann hvíli leikmenn eður ei. Ég hallast nú samt að því að hann reyni að keyra á sínu sterkasta liði enda stigasöfnunin orðin gríðarlega mikilvæg. Lallana er spurningamerki, Klopp talar um að hann sé í fantaformi en samt ekki alveg tilbúinn en verði mögulega í hóp. Klopp var ekki ánægður með útspil hans í U 23 leiknum þegar hann missti sig og tók ungling Tottenham hálstaki en það hefur vonandi bara verið rætt þeirra á milli og ætti að vera búið og gleymt.

Ég ætla að tippa á sama byrjunarlið og gegn Spurs með einni breytingu að Chamberlain komi inn fyrir Milner. Liðið yrði því svona:

 

Karius

TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson

Chamberlain – Henderson – Can

Salah – Firmino – Mane

Ef þetta gengur eftir eru fjórir fyrrum Dýrðlingar í liðinu sem þurfa að halda haus við mótlæti stuðningsmanna Southampton. Sérstaklega hafa þeir talað um að láta Van Dijk heyra það. Auðvitað gæti Wijnaldum svo byrjað þennan leik en form hans á útivöllum heillar vonandi ekki Klopp og hann láti hann byrja á bekk ( mín óskhyggja) og eins er alveg líklegt að Matip byrji leikinn á kostnað Lovren.

 

Spá

Ég hef alltaf spáð Liverpool sigri í mínum upphitunum og breyti því ekkert. Við skulum vona að leikmenn og þjálfarar komi í þetta verkefni 100% fókuseraðir og láti leikinn gegn Porto í vikunni ekki trufla einbeitinguna. Ég spái 1-3 sigri þar sem okkar fremstu menn Firmino, Salah og Mané skipti mörkunum bróðurlega á milli sín.

Koma svo!! YNWA!

Mánudagur í Wales.

Á mánudagskvöldið fara okkar menn í ferðalag suður til Wales og freista þess að taka þrjú stig af botnliði Swansea. Liðin í kringum okkur unnu öll sína leiki um helgina ( Tottenham á eftir að spila þegar þetta er ritað) og því ekkert annað í boði en sigur og stigin þrjú.

Swansea

Síðast mættust liðin á Anfield annan í jólum s.l. og  unnu Liverpool mjög þægilegan 5-0 sigur í frábærum leik. Í þeim leik stýrði Leon Britton liði Swansea til bráðabirgða en tveimur dögum síðar eða þann 28. desember réðu þeir hinn Portúgalska Carlos Carvalhal. Carlos þessi er 52 ára og hefur þjálfað fjöldann allan af liðum, flest í heimalandi sínu en einnig Besiktas og Istanbul BB í Tyrklandi. Síðast þjálfaði hann Sheffield Wednesday og hafði verið þar frá árinu 2015 en með „samþykki“ beggja aðila var hann látinn taka pokann sinn á aðfangadag. Carlos var þó aðeins atvinnulaus í fjóra daga en Swansea réðu hann þann 28. desember sem áður segir.

Síðan Carvalhal tók við Swansea hefur þeim gengið alveg þokkalega. Hann hefur stýrt þeim í fimm leikjum í deild og bikar, unnið tvo, gert tvö jafntefli en aðeins tapað einum leik og er mikill munur á að sjá þá þessa dagana þar sem horfin gleði virðist aðeins vera að koma til baka hjá þeim. Það virðast allir leikmenn þeirra leikfærir og engin í leikbanni. Ég renni blint í sjóinn og tippa á að þeir stilli upp sama byrjunarliði og í þeirra síðasta deildarleik þegar þeir gerðu 1-1 jafntefli við Newcastle á útivelli. Liðið þeirra yrði þá svona:

 

 

Fabianski

Van Der Hoorn – Bartley – Mawson – Olsson

Dyer – Clucas – Ki – Carroll – Ayew

– McBurnie –

4-5-1 með Ki djúpan á miðjunni og hinn sterka McBurnie einan frammi. Þetta lið getur vel strítt okkar mönnum og ljóst að það má ekki fara inní þennan leik með neitt vanmat. Swansea unnu okkur einmitt 21. janúar 2017 í hörmungarleik á Anfield 2-3 en þeir eru mun veikari núna þar sem Gylfi er náttúrlega farinn en hann skoraði einmitt sigurmarkið í þeim leik.

 

Liverpool

Okkar menn eru á mikilli siglingu og hafa ekki tapað leik síðan 22. október þegar Tottenham fóru illa með okkur. Liverpool sitja í fjórða sætinu með 47 stig þremur stigum á eftir Chelsea sem sitja í því þriðja eftir stórsigur um helgina.

Af okkar mönnum er helst að frétta að Lovren er tæpur fyrir leikinn með flensu en það ætti ekki að koma að sök þar sem Virgil nokkur Van Dijk er orðinn klár og leikur að öllum líkindum í hjarta varnarinnar með Matip sér við hlið í sínum fyrsta deildarleik fyrir Liverpool. Henderson er allur að ná sér af meiðslum en fer að öllum líkindum ekki með liðinu á mánudag og sömu sögu er að segja af Moreno sem er einnig að skríða saman og þeir báðir farnir að æfa eðlilega. Salah og Klavan misstu af æfingu á fimmtudaginn vegna þessarar sömu flensu og er að hrjá Lovren en Klopp var mjög vongóður á blaðamannafundi um að Salah yrði klár í leikinn.  Clyne situr svo náttúrlega sem fastast á meiðslalistanum ásamt Sturridge sem er sagður koma til baka eftir um hálfan mánuð. Klopp gaf það svo skýrt út að Karius væri orðinn markvörður nr eitt og því mun hann byrja á mánudaginn.

Ég tippa því á liðið svona:

 

Karius

Gomez – Matip – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Can – Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Sama lið og gegn Manchester City nema að Van Dijk kemur inn í stað Lovren sem er mikil styrking. Leikmenn hafa fengið vikuhvíld og því tel ég að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði. Persónulega væri ég til að sjá Trent Arnold spila þennan leik og svo getur vel verið að Lallana komi inn í stað annaðhvort Wijnaldum eða Chamberlain. Eins er spurning hvort Salah verði 100 % og þá hvort Solanke eða Ings fái sénsinn.

 

Spá

Við eigum að vinna þetta lið þrátt fyrir að það megi alls ekki vanmeta þá, við stuðningsfólk Liverpool vitum svo að það er ekkert gefið eða auðvelt þegar kemur að okkar mönnum. Ég spái samt nokkuð öruggum sigri 1-4 þar sem Mané skorar tvö og Salah og Firmino sitt markið hvor. Koma svo!! YNWA!!

Liverpool 2-1 Everton

Mörkin:

Milner víti ’35 mín 1-0

Gylfi Sigurðsson ’67 mín 1-1

Virgil Van Dijk 84′ mín 2-1

Leikurinn

Fyrri hálfleikur einkenndist af varfærni og miðjumoði þar sem fátt gerðist. Everton gáfu strax nasaþefinn af því hvernig þeir ætluðu að nálgast leikinn þegar Rooney fékk gult fyrir tæklingu á Gomez strax á 7. mínútu. Everton leituðu mikið að Bolasie hægra megin sem átti ágætis spretti en Robertson hafði fín tök á honum þrátt fyrir tvo krossa sem virkuðu of auðveldir fyrir hann.  Liverpool fengu fyrsta sæmilega færið á 25. mínútu þegar Milner tók boltann á lofti eftir fyrirgjöf Gomez en skaut framhjá. Á 34. mínútu bauð Lallana Holgate upp í tangó sem lagði hönd á bringu hans og Madley dómari benti á punktinn. Soft víti en ekki kvörtum við og bendum á þá línu sem dómarar hafa tekið gegn okkur í vetur fyrir litlar snertingar. Úr vítinu skoraði Milner örugglega 1-0. Þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik gerðist svo ótrúlegt atvik. Holgate elti Firmino útaf vellinum og hrinti á eftir honum svo að hann datt harkalega á auglýsingaskiltin. Firmino sagði svo eitthvað við Holgate sem æstist verulega og eru fjandmenn okkar og varalesarar strax farnir að ræða um kynþáttaníð. Dómarinn var alveg ofan í þessum rifrildum svo hið sanna kemur væntanlega í ljós. Það sem er ótrúlegast í þessu er að í mínum bókum er þetta amk appelsínugult spjald en líklegast rautt, en Madley dómari ákvað að gefa ekki einu sinni gult spjald. Galin ákvörðun.

Seinni hálfleikur var ögn skemmtilegri en sá fyrri. Við fengum nokkur hálffæri og Robertson átti fínt skot úr þröngu færi sem Pickford varði. Van Dijk fékk svo frían skalla eftir aukaspyrnu Chamberlain en hann fór beint á Pickford í markinu. á 67. mínútu kom að hinu klassíska. Everton geystust fram eftir hornspyrnu okkar manna þar sem Jagielka lagði hann út á Gylfa og átti hann ekki í erfiðleikum með að leggja knöttinn í hornið. Í aðdraganda marksins var klárlega brotið á Matip svo það hefði að mínu mati aldrei átt að standa. Can er líka spurningamerki í markinu þar sem hann joggar á eftir Gylfa á miðjunni.

Við tóku taugaþrungnar mínútur þar sem maður fær í magann í hvert skipti sem mótherjinn kemst í skyndisókn eða fær fast leikatriði en á 84´mínútu gerðist atvik leiksins. Hvernig stimplar dýrasti varnarmaður heims sig inní hug og hjörtu stuðningsmanna Liverpool? Jú hann skorar sigurmark í baráttunni um borgina gegn Kop stúkunni í sínum fyrsta leik í elstu og virtustu bikarkeppni heims. Chamberlain tók horn, Pickford kom kærulaus útúr markinu og okkar maður átti ekki í erfiðleikum með að reka kollinn í knöttinn og stýra honum í markið 2-1 og Kop stúkan trylltist. Þetta var svo æðislegt og sennilega eitt besta moment sem skýrsluritari hefur orðið vitni að. Fátt gerðist markvert eftir þetta og endaði leikurinn 2-1.

Bestu menn leiksins:

Robertson og Gomez áttu fínan leik þrátt fyrir ein klaufamistök Gomez í seinni hálfleik, Milner hljóp um allan völl og átti fínan leik og Chamberlain sem hafði átt heldur slappan fyrri hálfleik kom vel inní leikinn í þeim síðari. Það er mögulega klisja en það er bara ekkert hægt að horfa framhjá Van Dijk sem besta manni leiksins. Hann var rock solid í flestum sínum aðgerðum og skoraði í sínum fyrsta leik og þessum líka leiknum. Hann virkar stundum  kærulaus svona eins og Raggi Bjarna en er öruggur í flestum sínum aðgerðum.

Slæmur dagur:

Óþarfi að vera að taka einhvern út fyrir sviga sem versti maður vallarins. Lallana og Can hafa átt betri dag og fátt gekk upp sóknarlega hjá Mané og Firmino. Madley þrátt fyrir vítið sem hann dæmdi okkur í hag var heilt yfir versti maður vallarins og með ólíkindum að hann hafi ekki lyft spjaldinu þegar Holgate hrinti Firmino.

Umræðan eftir leik:

Virgil Van Dijk mun stela fyrirsögnum blaðanna á morgun, þvílík byrjun hjá drengnum. Sjálfssagt á fólk eftir að velta sér uppúr því hvað Firmino á að hafa sagt við Holgate en ég hef ekki áhyggjur af því. Hvað um það við erum komin áfram í bikarnum og Salah fékk hvíld. Við erum loksins farin að vinna þessi erfiðu rútulið í leikjum þar sem barátta er ofar en fallegur fótbolti og komum til baka eftir að lið hafa jafnað gegn okkur. Greinilega er búið að fara vel í saumana á þessum hlutum á æfingasvæðinu og liðið er að bregðast frábærlega við. Þetta er allt á réttri leið.

Næsta verkefni:

Næsta verkefni er ekki af ódýrari gerðinni en þá heimsækja okkur á Anfield lærisveinar Pep Guardiola í Man City,  langbesta lið Englands. Leikmenn fá ágætis hvíld fram að þeim leik og það væri frábært að hefna fyrir niðurlæginguna á Etihad fyrr í vetur.  Þangað til næst YNWA!!!!!

Liðið gegn Everton.

Klopp hefur valið liðið gegn Everton og það lítur svona út:

 

Karius

Gomez – Matip – Van Dijk – Robertson

Milner – Can – Chamberlain

Mané – Firmino – Lallana

 

Bekkur: Ward, Wijnaldum, Lovren, Klavan, Ings, Solanke, Alexander-Arnold

Van Dijk kominn í byrjunarliðið eru gleðitíðindin í kvöld og gleðja okkur Púllara verulega. Vonum að hann standi sig vel í sínum fyrsta og engum smáleik í fallegu rauðu treyjunni. Annars er þetta nokkuð sóknarsinnað, Salah er frá eins og var nokkurnveginn vitað og tippa ég á 4-3-3 að venju þar sem Lallana verði uppi á topp með þeim Mané og Firmino og Chamberlain á miðjunni.

Við minnum á myllumerkið #kopis á twitter og umræðurnar hér að neðan. Koma svo!! YNWA!


 

 

Arsenal 3-3 Liverpool

Mörkin

26′ Coutinho 0-1

52′ Salah 0-2

53′ Sanchez 1-2

56′ Xhaka 2-2

58′ Özil 3-2

71′ Firmino 3-3

Jæja enn og aftur er maður hálforðlaus eftir leiki með okkar mönnum en þrátt fyrir allt er maður orðinn vanur því að sitja í Liverpool rússíbananum.

 

Leikurinn

Eins og svo oft áður í vetur byrjuðu Liverpool leikinn vel og héldu boltanum ágætlega sín á milli. Á níundu mínútu meiddist Henderson og inn fyrir hann kom Milner, varafyrirliði fyrir fyrirliða. Það var ekki nóg liðið af leiknum til að geta dæmt ef eða hvað en Milner kom fínn inn og stóð fyrir sínu. Ómögulegt þó að ræða hvernig eða hvort leikurinn hefði þróast á annan veg hefði Hendo ekki meiðst. Á 22′ mínútu átti Firmino fyrsta góða færið þegar hann skallaði á markið en Chech varði vel. Á 24’mínútu átti Firmino svo annan skalla eftir frábæra sendingu Coutinho en sneiddi hann rétt framhjá fjær stönginni.  Á 26′ Mínútu kom fyrsta mark leiksins, Milner átti frábæra sendingu á Salah uppí hægra hornið sem reyndi að renna boltanum á Coutinho, en með viðkomu í varnarmanni Arsenal skoppaði boltinn fyrir Coutinho sem gerði vel í að halda hlaupinu áfram og skallaði hann yfir Chech í markinu 0-1. Á 32′ mínútu átti Firmino bylmingsskot rétt yfir. á 44′ mínútu átti Milner sendingu sem Koscielny kinksar og Salah komst einn í gegn en Chech varði, boltinn hrökk til Mané sem reyndi að klippa boltann en setti hann yfir. Strax á eftir á Mané sendingu á Salah sem kinksar boltann í ákjósanlegu færi og Everton leikurinn frá því um daginn farinn að hringja óþægilegum jólabjöllum. 0-1 var staðan þegar fyrri hálfleikur var flautaður af en hefði vel getað verið 0-4. Liverpool hreinlega betri á öllum sviðum og Arsenal fengu ekki færi í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði af sama kraftinum hjá okkar mönnum og drápseðlið til staðar. Salah fékk gott færi á 48´mínútu sem Chech varði en á 52´mínútu hefur Salah sókn, sendir á Firmino sem skilur hann aftur eftir fyrir Salah sem keyrði á vörn Arsenal og lætur vaða. Boltinn hafði viðkomu í varnarmanni Arsenal og í bláhornið 0-2. Chech hefði sennilega átt að taka þennan bolta en við kvörtuðum ekki. Ef einhver hélt að Adam væri í paradís á þessari stundu hefði hann átt að minna sig á með hvaða liði við höldum. Í hönd fóru ótrúlegar og pirrandi 388 sekúndur. á 53′ mínútu kom sending á fjærstöng fyrir mark Liverpool eftir varnarklafs og Gomez ákvað að gefa rándýra jólagjöf þegar hann horfði á Sanchez skjótast framfyrir sig og skalla boltann í netið 1-2. Ótrúlega lélegt hjá Gomez sem hafði verið alveg ágætur fram að þessu. Á 56′ lét Xhaka vaða á markið, fast skot en beint á Mignolet sem var ekki í síðra jólaskapi en Gomez og reyndi sjónvarpsmarkvörslu með annarri sem lak í netið 2-2. Ótrúleg ákvörðun en Arsenal þökkuðu gjöfina.  Á 58′ mínútu léku Özil og Lacasette sér í gegnum vörn Liverpool og Özil búin að skora 3-2. Sókn Arsenal var röð mistaka þar sem Robertson tapaði boltanum og Can hætti að elta Özil. Mignolet hefði svo mögulega getað gert betur. Miðja, vörn og mark í tómum vandræðum. Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins en Klopp sá ekki ástæðu til að bregðast við með skiptingu. Á þessari stundu vildi ég fá Lallana og Chamberlain inn fyrir frekar slappan Mané og Coutinho sem átti ekki góðan seinni hálfleik.  Á 71′ mínútu jöfnuðum við leikinn þegar Can renndi innfyrir á Firmino sem skaut föstu skoti beint á Chech. Chech ákvað að gefa okkur jólagjöf líka þar sem hann átti að verja boltann en hann lak í markið 3-3.  Klopp skipti loks Mané út á 80′ mín og inn kom Wijnaldum. Coutinho færðist framar en fór útaf fyrir Chamberlain á 84’mín. Liðin skiptust á að sækja en leikurinn fjaraði út. Niðurstaðan hundsvekkjandi 3-3 jafntefli.

Bestu menn Liverpool

Þetta var leikur tveggja hálfleikja. Það reyndi ekki mikið á vörnina eða Mignolet í fyrri hálfleik og Coutinho átti spretti. Svo hrynur allt í síðari hálfleik. Heilt yfir var Firmino okkar besti maður þrátt fyrir mark og stoðsendingu frá Salah. Maður er orðinn svo fordekraður af Salah að maður býst alltaf við stjörnuleik. Firmino hljóp um allan völl og losaði um menn ásamt því að jafna leikinn og leggja uppá Salah í marki 2.

Slæmur dagur

Mignolet ásamt Gomez hljóta að fá nafnbótina að þessu sinni þrátt fyrir að fleiri hafi ekki átt sinn besta leik. Enn og aftur vantar alvöru stjórnanda í vörn og á miðjuna og ég hef orðið töluverðar áhyggjur af Mané. Þetta eru orðnir nokkrir leikir í röð sem hann er ekki á sínu besta, er með mislukkaðar sendingar, erfið fyrsta snerting og á það til að hengja haus ásamt döprum ákvörðunum samanber þessa klippu þegar hann hefði annaðhvort getað gefið aftur á Salah eða reynt að ná honum niður fyrir sig. Coutinho var svo ekki góður í dag og þetta eru þeir menn sem maður gerir mestar kröfurnar til. Það er lenska að kenna einum manni um eftir leiki og taka hann af lífi en það þarf meira en barnalega ákvörðun Mignolet til að missa 0-2 leik niður í 3-2. Þar með er ég ekki að segja að Mignolet sé ekki skúrkur dagsins ásamt Gomez.

Tölfræðin

Coutinho var að leika sinn 150. deildarleik. Salah er kominn með 15 mörk í deildinni þremur mörkum betur en Kane sem er með 12. Enn sitjum við í fjórða sætinu og munum að öllum líkindum gera enn á annan í jólum þegar við tökum á móti Swansea á Anfield.

Umræðan eftir leik

Mignolet er að stela og mun stela flestum fyrirsögnum ásamt Gomez eftir þennan leik.  Ekkert var hægt að kvarta yfir dómgæslu að mínu mati svo það er ágætt að sleppa við þá umræðu. Aðdáendur Liverpool sjá glasið ýmist hálffullt eða hálftómt. Niðurstaðan er þrátt fyrir hundsvekkjandi jafntefli eitt stig á Emirates og fjögur gegn Arsenal í vetur og við sitjum áfram í fjórða sætinu. Enn og aftur þá er maður svekktur en veit sem er að þetta er ekkert svartnætti. Mikið væri ofboðslega gaman að fá góðan hafsent í þetta lið í janúar og ef ekki núna þá veit ég ekki hvenær Karius fær alvöru sénsinn. Einnig verður unun að fá Keita inní þetta lið. Umræðan um karakter og að missa niður forskot verður gegnum gangandi í vetur og Klopp verður að finna lausn á þessu.

Að þessu sögðu óska ég ykkur öllum Gleðilegra Jóla.