Allar færslur eftir Eiríkur Rúnarsson

Liverpool 1-1 Newcastle.

 

Mörkin

29′ Coutinho 0-1

36′ Joselu 1-1

 

Leikurinn

Maður veit varla hvað maður á að segja um þennan leik. Ef eitt orð ætti að súmmera hann upp fyrir mig væri það orðið leiðindi. Liverpool voru eins og venjulega meira með boltann án þess að skapa sér svo til nokkuð. Benitez kom með sína taktík inní leikinn þ.e allir þeirra leikmenn vörðust fyrir aftan bolta og markið þeirra kom eftir eina flotta sendingu í gegn og sofandi miðja og miðverðir réðu ekki við það.  Coutinho kom okkar mönnum yfir með frábæru skoti vel fyrir utan teig áður en Newcastle jöfnuðu. Miðverðir okkar litu oftar sem áður illa út í markinu en Shelvey á heldur ekki að fá þennan tíma og pláss á miðjunni til að stinga boltanum í gegn. Að öðru leyti er fátt um leikinn að segja. Ef vörnin var döpur má segja að sóknin hafi verið skelfileg. Engin af okkar sóknarmönnum steig upp og bjó eitthvað til, menn virkuðu áhugalausir og hugmyndasnauðir.  Við hefðum átt að fá víti þegar Lovren og Matip er haldið inni í teig en fengum ekki og við slíkt mótlæti svara góð lið með mörkum en þetta var hreinlega steingelt hjá okkar mönnum í dag.

 

Bestu menn Liverpool

Allt liðið var í meðalmennsku í dag og engin einn sem stóð uppúr að mínu mati. Helst fannst mér baráttuandi í Joe Gomez ( mér fannst hann reyna) og Henderson átti ágæta kafla og nokkrar góðar tæklingar. Coutinho náttúrlega skorar markið fallega og átti nokkrar góðar rispur svo hann fær nafnbótina besti maður Liverpool í dag.

 

Vondur dagur

Sóknarlínan eins og hún lagði sig var hrikalega döpur. Mest er rætt um Sturridge og það er eðlilegt þar sem að hann var að fá sénsinn hjá Klopp en gerði fátt, en mér fannst Mané áberandi lélegastur í dag. Miðverðirnir gleyma sér sem oft áður og ég hefði viljað sjá Can inná fyrir Wijnaldum snemma í síðari hálfleik. Liðið var heilt yfir bara lélegt í dag og miðað við spilamennskuna hlakka ég ekkert sérstaklega til að mæta erkifjendum okkar eftir landsleikjahlé.

 

Umræðan eftir leik

Við erum alltaf að ræða sömu hlutina eftir leiki. Vörnin gerir mistök leik eftir leik, við getum ekki haldið hreinu og við getum ekki brotið niður góð varnarleg taktísk lið. Nú erum við að detta inní landsleikjahlé og förum með þetta í veganesti. Þar á eftir tökum við á móti Man Utd þann 15. október og Guð minn eini ég hlakka ekkert sérstaklega til þess. Umræðan snýr líka að Sturridge sem ég held hreinlega að sé búinn sem markaskorari. Það er alveg ljóst að aðdáendur Liverpool eru orðnir pirraðir. Það er samt stutt á milli í fótbolta og nú þarf bara að gjöra svo vel og þjálfari og leikmenn þurfa hver og einn að fara í algjöra naflaskoðun. Með sigri gegn Man Utd í næsta leik værum við með í baráttunni aftur en ef sá leikur tapast er staðan orðin grafalvarleg.  Þangað til YNWA!!

Liðið gegn Newcastle.

Herra Klopp hefur valið liðið gegn Newcastle og það lítur svona út:

 

Mignolet

Gomez – Matip – Lovren – Moreno

Wijnaldum – Henderson – Coutinho

Salah – Sturridge – Mané

Bekkur: Karius, Klavan, Milner, Can, Oxlade-Chamberlain, Firmino, Solanke

Sterkt lið. Klopp setur Sturridge á toppinn og bekkjar Firmino. Can fer einnig á bekkinn og Trent Alexander er ekki í hóp. Henderson spilar sinn 250. leik fyrir Liverpool í dag.

Við minnum á #kopis og ummælakerfið hér að neðan á meðan leik stendur.


Liverpool – Burnley 1-1

0-1 Scott Arfield 27. mín

1-1 Mohamed Salah 30. mín

 

Leikurinn

 

Groundhog day er ágætis lýsing á þessum leik. Mér fannst ég vera staddur á síðasta tímabili og fátt hefur breyst. Við dómineruðum leikinn allan tímann, lekum óþolandi klaufamarki og getum ekki opnað þessi lið sem leggja rútunni. Hafiði heyrt þetta áður?  Á 27. mínútu eftir að við höfðum legið á Burnley skora þeir mark sem súmmerar algjörlega umræðuna um vörnina síðustu mánuði. Matip er á leið uppí boltann þegar Klavan ákveður að gera slíkt hið sama. Boltinn dettur fyrir Arfield sem þakkaði kærlega gjöfina og skoraði auðveldlega. Klavan gerði þetta svo aftur í síðari hálfleik og fékk að heyra það frá áhorfendum og liðsfélögum. Þremur mínútum síðar átti Can góða sendingu á Salah sem kláraði vel. Það sem eftir lifði leiks áttum við fjölda færa en ákvarðanatakan fremst á vellinum oftast fyrirsjáanleg ásamt því að Pope markvörður þeirra breyttist í Manuel Neuer. Burnley hefðu svo hæglega getað stolið sigrinum í lokin þegar Ben Mee fékk tvo fría skalla og okkar mönnum enn fyrirmunað að dekka í föstum leikatriðum. Einhverjir vildu sjá dómarann dæma víti eftir að Salah féll við í teignum undir lok leiks en ég veit hreinlega ekki með það. Fannst það vera á það gráu svæði að við hefðum ekki sætt okkur við það hefði það verið öfugt.

 

Bestu menn Liverpool

Á bara mjög erfitt með að útlista bestu menn eftir svona leik. Gef þó Salah þann titil sem var ógnandi og duglegur í fyrri hálfleik ásamt því að skora mjög gott mark.  Liverpool liðið í heild var að spila ágætlega og mér fannst ekkert vanta uppá dugnað en menn verða að fara að finna lausnina á að brjóta svona lið niður.

 

Vondur dagur

Færanýtingin og pirrandi ákvarðanatökur fremst á vellinum finnst mér standa uppúr.  Sóknarmenn Liverpool fengu ótal færi til að klára þennan leik en ekkert gekk upp. Mistök Klavan í markinu og svo aftur í síðari hálfleik eru náttúrlega óboðleg.  Klavan er ekki nógu góður leikmaður, það sjá allir og samherjar hans voru orðnir vel pirraðir á honum undir lokin þegar hann enn og aftur talar ekki og fer uppí skallabolta sem verða að hættulegum hornum og hættulegustu færum Burnley í leiknum.  Bakverðirnir okkar áttu ekki góðan dag. Trent átti reyndar gott skot sem Pope varði.

 

Umræðan

Umræðuefnið eftir leik hlýtur að vera hvernig okkur er fyrirmunað að knésetja þessi minni lið sem spila 8-1-1 og beita skyndisóknum. Það er búið að fara svo oft yfir þetta að það er hrikalega pirrandi að það virðist ekkert hafa breyst í þeim efnum frá síðasta tímabili. Við munum ekki gera neinar rósir með þessum varnarleik og enn og aftur spyr ég mig hvort Virgil Van Diijk var virkilega eini miðvörðurinn í heiminum sem gat bætt leik okkar.  Sama má segja um stöðu alvöru djúps miðjumanns sem við þurfum virkilega á að halda. Ég hef óbilandi trú á Klopp en varnarleikur virðist  vera hans akkilesarhæll.  Þetta er ekki svartnætti, Liverpool spiluðu ágætlega og mótið er rétt að hefjast. Nú þarf alvöru vinnu á æfingasvæðinu.

Næst eigum við Leicester úti í deildarbikar og þar má búast við að við fáum að sjá gjörbreytt lið og ungu strákarnir fái góðan spilatíma.  Þangað til. Slökum aðeins á.

YNWA!!

 

 

 

 

Liðið gegn Burnley.

Þá er búið að tilkynna liðið sem mætir Burnley og það lítur svona út:

Mignolet

TAA – Matip – Klavan – Robertson

Can – Milner – Coutinho

Salah – Sturridge – Firmino

Bekkur: Karius, Wijnaldum, Lovren, Henderson, Moreno, Oxlade-Chamberlain, Solanke.

Klopp gerir fjölmargar breytingar en ánægjulegast er að sjá Coutinho í byrjunarliðinu á nýjan leik.  Henderson og Wijnaldum hvíldir og Milner kemur inn. Uxinn hefði örugglega vijað fá sénsinn á miðjunni en Klopp tekur Milner fram yfir hann. Klavan vinur okkar fær svo sénsinn í dag.

Við minnum á #kopis á twitter og ummælakerfið hér að neðan.


Upphitun: Alvöru verkefni! Manchester City úti.

Á hádegi á laugardag bíður okkar alvöru verkefni. Leikur gegn Manchester City og engin spurning að um gríðarlega mikilvægan leik er að ræða fyrir komandi toppbaráttu. Við pennarnir á Kop.is spáðum allir Manchester City Englandsmeistaratitlinum næstkomandi vor, og skyldi engan undra. Guardiola hefur eytt stjarnfræðilegum upphæðum í leikmenn og vonar að honum sé að takast að fullmóta liðið sitt eins og hann vill sjá það. Þrátt fyrir að stutt sé liðið á mótið er allt undir í þessum leik fyrir bæði lið og með sigri hjá hvoru liðinu sem er verða send skýr skilaboð inn í tímabilið.

Sagan

Liverpool og Manchester City hafa mæst tvöhundruð og sex sinnum í öllum keppnum. Í þessum viðureignum höfum við unnið hundrað og einu sinni, City hafa unnið fimmtíu og þrisvar og fimmtíu og tveir leikir hafa endað með jafntefli. Í síðustu tíu deildarleikjum hafa City unnið tvo leiki, þrír hafa endað með jafntefli og við unnið fimm. Fjórir af þessum fimm sigurleikjum okkar unnust á Anfield en aðeins einn á Etihad, en þá hafði Jurgen Klopp verið í stjórastólnum í um einn og hálfan mánuð og handverk hans kom berlega í ljós þegar við slátruðum City 1-4. Klopp hefur stýrt Liverpool fimm sinnum gegn City síðan hann tók við og aðeins tapað einu sinni. Það tap kom í úrslitum deildarbikarsins á Wembley eftir svekkjandi vítaspyrnukeppni.

Á milli Liverpool og Manchester City ríkir engin sérstakur kærleikur enda um nágrannaborgir að ræða. Þó er rígurinn á milli þessara liða ekkert í líkingu við ríginn á milli Liverpool og Manchester United, enda þau tvö sigursælustu lið Englands, og City tiltölulega nýorðið stórt lið með fúlgur fjár.  Það þykir ekki vinsælt að leikmenn spili fyrir bæði Liverpool og Manchester United en ef við horfum á Liverpool og Manchester City blasir annar veruleiki við. Frá stofnun úrvalsdeildarinnar hafa fjórtán leikmenn spilað fyrir bæði liðin. Þeir eru, í engri sérstakri röð: David James, Kolo Touré, Dietmar Hamann, Daniel Sturridge, Steve McManaman, Raheem Sterling, Craig Bellamy, Nigel Clough, Mario Balotelli, Nicolas Anelka, James Milner, Albert Riera, Mark Kennedy og sjálfur Guð A.K.A Robbie Fowler. Þar fyrir utan má ekki gleyma Steve McMahon. Peter Beardsley og Matt Busby. Þetta er engin smá listi og eru mennirnir á honum misdýrkaðir af okkur Liverpoolmönnum.

 

Manchester City

Manchester City eru með sjö stig eins og við. Þeir unnu Brighton 0-2 úti í fyrsta leik, gerðu 1-1 jafntefli heima gegn Everton og lentu í smá basli með Bournemouth úti í síðasta leik en náðu að knýja fram 1-2 sigur. Ég hef ekkert séð um meiðsli hjá þeim nema að Kompany missti af landsleik 3. sept vegna smávægilegra meiðsla en á að vera orðinn klár í slaginn. Ef ekki tekur Otamendi stöðu miðvarðar með Stones. Sterling vinur okkar er svo í banni fyrir að fagna of ákaft gegn Bournemouth. Gundogan hefur æft að fullu undanfarið en ég býst ekki við honum í byrjunarliðinu strax.

Svona tippa ég á að City stilli upp:

Ederson

Walker – Kompany – Stones – Mendy

Silva – Fernandinho – De Bruyne

Sane – Aguero – Jesus

 

Yaya Toure gæti svosem fengið stöðuna inni á miðri miðjunni en ég skýt á Fernandinho frekar.

 

Liverpool

Risastóra spurningin er hvort Coutinho verði í byrjunarliðinu eða bara í hóp yfirhöfuð. Moreno póstaði mynd af sér með honum skælbrosandi og engu líkara en hann hafi farið til tannhvítunarfræðingsins hans Firmino. Eins hafa birst nokkrar myndir af honum af Melwood skælbrosandi. Þetta er bara jákvætt og vonandi er hægt að salta þessa leiðindarumræðu í bili. Þó tel ég að Klopp hendi honum ekki strax í byrjunarliðið enda væru það sérstök skilaboð til frábærrar miðjunnar í síðasta leik. Ég skýt á að hann byrji á bekknum ásamt okkar nýjasta leikmanni Oxlade-Chamberlain. Fréttir bárust af einhverjum meiðslum Salah um helgina en hann spilaði allan leikinn með Egyptum gegn Uganda á þriðjudaginn svo hann er klár. Ég held að Trent Alexander taki sæti hægri bakvarðar á nýjan leik og Mignolet fari aftur í rammann eftir að Klopp sagði skýrt í viðtölum eftir Arsenal leikinn að hann væri markvörður nr. eitt.

Svona spái ég byrjunarliðinu hjá okkar mönnum:

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

 

Bekkur: Karius, Klavan, Gomez, Milner, Coutinho, Chamberlain, Sturridge

Nánast sami kjarni sem byrjar og undanfarna leiki en gleðifréttirnar eru breiddin. Þessi bekkur er mjög öflugur og ennþá eigum við Lallana og Clyne inni. Ward, Grujic og Solanke missa sæti sitt í hópnum í bili.

 

Spá

Ég er mjög bjartsýnn fyrir þennan leik. Klopp hefur ekki tapað á Etihad með Liverpool og við virkum á góðri siglingu. City hafa ekki virkað neitt svakalega sannfærandi sem af er en það er bara tímaspursmál hvenær þeir setja vélina á fulla ferð. Vonandi bíða þeir eitthvað  með það, a.m.k. fram yfir þennan leik. Við erum alltaf að fara fá á okkur mark eða mörk en þeir líka og tel ég að bakverðir þeirra lendi í miklum vandræðum gegn skruggufljótum Mané og Salah. Miðjan þarf að eiga góðan leik og hjálpa vörninni allan tímann ásamt að tengja vel við efstu þrjá. Þetta verður erfitt en með hundrað prósent einbeitingu eigum við vel að geta unnið þetta City lið. Ég segi að við vinnum leikinn 2-3 og sigurmarkið verði dramatískt undir lok leiksins. Okkar mörk skora Mané 2 og fyrirliðinn Henderson 1. Hjá þeim setja Aguero og Jesus sitt markið hvor.

Koma Svo!!! YNWA!!