Allar færslur eftir Eiríkur Rúnarsson

Stoke koma í heimsókn á Anfield.

 

Eins og það er leiðinlegt að setja frábært podcast neðar á síðuna þá er aðeins sólarhringur í leikinn gegn Stoke og tímabært að hita upp. Svo hlusta að sjálfssögðu allir á podcastið sem ekki hafa gert það nú þegar.

Kl. 11:30 á laugardag fáum við fallbaráttulið Stoke í heimsókn. Stoke sitja í næstneðsta sæti deildarinnar með 29 stig eftir 35 leiki, jafnmörg stig og lið Southampton og fjórum stigum frá Swansea en bæði þau liðin hafa leik á Stoke þar sem þau hafa aðeins leikið 34 leiki. Það er því morgunljóst að Stoke hafa engu að tapa og munu koma eins dýrvitlausir og þeir geta í leikinn og freista þess að sækja að minnsta kosti eitt stig á Anfield. Eins og ég persónulega mundi ekkert gráta það ef Stoke fellur um deild þá eru þrjú stig fyrir okkur það sem skiptir höfuðmáli, því með sigri erum við komin með níu og hálfan fingur á öruggt sæti í Meistaradeild Evrópu næsta vetur.

Liverpool er ekki þekkt fyrir að fara auðveldu leiðina og þurfti að hleypa smá spennu í lokabaráttuna með þessu hundfúla jafntefli gegn WBA síðustu helgi en nú er einfaldlega ekkert annað en sigur í boði.

 

Andstæðingarnir

Stoke eru eins og áður sagði í næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins 29 stig, hafa aðeins unnið sex leiki á tímabilinu, gert ellefu jafntefli og tapað átján leikjum. Stoke eiga einnig þann heiður að hafa fengið flest mörk skoruð á sig eða 65 talsins en hafa skorað 32. Markatalan þeirra er áberandi verst allra liða í deildinni eða í mínus 33. Í síðustu fimm leikjum þeirra er leikformið LLLDD. Stoke skiptu um stjóra í janúar þegar þeir ráku Mark Hughes og réðu Skotann Paul Lambert í hans stað til að freista þess að hífa liðið upp töfluna en sá kapall hefur ekki gengið sem skyldi fyrir þá þar sem þeir voru í átjánda sæti þegar þeir ráku Hughes en í því nítjánda í dag. Vörnin er þeirra mesti veikleiki sem ætti að henta okkur ágætlega.

 

Liverpool

Eftir þetta magnaða þriðjudagskvöld gegn Roma þarf Klopp bæði að halda mönnum einbeittum og jafnframt að velja það lið sem er bæði til þess fallið að vinna leikinn og dreifa álaginu fyrir stóra verkefnið í Róm næstkomandi Miðvikudagskvöld. Nú er það ljóst að Alex Chamberlain spilar ekki meira með á tímabilinu og mun jafnframt missa af HM með Englendingum næsta sumar eftir meiðslin sem hann hlaut gegn Roma. Vægast sagt ömurlega svekkjandi fyrir hann fyrst og fremst og mjög vont fyrir liðið þar sem hann hefur spilað frábærlega og miðjan orðin ansi þunnskipuð af leikfærum mönnum. Chamberlain hefur verið frábær fyrir okkur og er nú að missa af undanúrlitum í CL, ( Vonandi úrlitaleik),  og öðru HM í röð. Official síðan segir að það sé ekki komin nein tímasetning á  mögulega innkomu hans til baka en að nú fari í gang hefðbundið endurhæfingarprógram til að koma honum sem fyrst í fullt form fyrir næsta tímabil.

Þar sem Chamberlain er frá ásamt Lallana og Can verður miðjan nokkuð sjálfgefin að ég tel enda eingöngu þrír miðjumenn tilbúnir í leikinn og það verður hreinlega að spila þeim og taka sénsinn á að þeir meiðist ekki þar sem þessi leikur verður bara að vinnast. Woodburn kemur mjög líklega á bekkinn og vonandi þróast leikurinn þannig að hann fái síðustu 20-30 mínúturnar og þá líklega fyrir Milner sem þarf helst á hvíldinni að halda. Markmannsstaðan er sjálfgefin en vörnin er spurningamerki. Clyne gæti fengið þennan leik og Trent Alexander því fengið hvíld, já eða hreinlega að hann kæmi inná miðjuna. Miðað við frammistöður Moreno og Gomez gegn WBA held ég að þeir byrji hvorugur og Robertson spili leikinn. Ég ætla að giska á að Lovren verði hvíldur og Klavan komi inn. Mané er eitthvað tæpur, missti af æfingu í gær, en Klopp útilokar hann ekki í leiknum. Ég hef enga trú á að þar verði tekinn neinn séns og hann verði utan hóps á morgun.

Svona giska ég á liðið:

Karius

Clyne – Klavan – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Ings

Bekkur:  Mignolet, Gomez, TAA, Lovren, Woodburn, Solanke, Moreno.

Sterkt lið sem á að klára þetta verkefni og vonandi koma allir heilir frá leiknum því þeirra bíður risaverkefni á miðvikudag.

 

Spá

Af síðustu tíu heimaleikjum okkar gegn Stoke hafa átta unnist en tveir tapast svo við höfum ágætt tak á þeim á Anfield. Hef enga trú á öðru en Klopp og liðið sýni og sanni að WBA leikurinn voru mistök til að læra af og við tökum þetta 3-0 með tveimur mörkum frá Egypska Kóngnum og einu frá Firmino.

Koma svo YNWA!!

Liverpool 3-0 Bournemouth.

Mörkin

Sadio Mané ‘7

Mohamed Salah ‘ 69

Roberto Firmino ‘ 90

 

Leikurinn

Liverpool unnu nokkuð léttan og þægilegan sigur í dag þegar lærisveinar Eddie Howe mættu á Anfield. Leikurinn fór fjörlega af stað og strax á 3. mínútu gáfu þeir tóninn þegar Trent Alexander átti frábæra sendingu innfyrir á Salah en hann klikkaði í dauðafæri. Nánast í næstu sókn slapp Mané næstum í gegn en náði ekki að gera sér mat úr því. En á 7. mínútu kom fyrsta mark leiksins og eina mark fyrri hálfleiks þegar Henderson átti virkilega góða sendingu inn fyrir vörnina á Mané sem var einn á auðum sjó og náði skallanum sem Begovic varði en missti boltann frá sér og Mané var eldsnöggur að átta sig og þrumaði boltanum auðveldlega í markið 1-0.  Sautjánda mark Mané í vetur og það tíunda í deildinni.  Eftir þetta róaðist leikurinn töluvert en fór nánast allur fram á vallarhelmingi Bournemouth. Bournemouth fengu engan frið á boltanum á meðan Liverpool fengu nokkur hálffæri. Bestu færi Liverpool eftir þetta í fyrri hálfleik voru annars vegar þegar Mané  átti magnaða sendingu innfyrir á Salah sem klikkaði aldrei þessu vant á fyrstu snertingu og ekkert varð úr þessu færi, en þetta hefði orðið geggjað mark, og hinsvegar skallaði Robertson fyrir markið en aðeins of hátt fyrir Mané sem náði ekki til knattarins. Fyrri hálfleik lauk því með 1-0 forystu Liverpool sem hefði átt að vera mun meiri enda 10-1 í marktilraunum og er maður aldrei í rónni með aðeins eitt mark í forskot. Henderson var besti leikmaður vallarins í fyrri hálfleik þar sem hann át miðjuna, var virkilega yfirvegaður og átti margar frábærar sendingar. Chamberlain, Robertson og Mané áttu líka mjög góðan hálfleik. Liðið allt var bara rock solid svo við slettum smá en það vantaði aðeins meiri greddu til að ná inn öðru markinu.

Seinni hálfleikur fór nokkuð varlega af stað. Áfram héldu Liverpool boltanum og stjórnuðu leiknum frá A til Ö. Það fyrsta markverða sem gerðist í seinni hálfleik gerðist á 56′ mínútu þegar Dijk negldi boltanum af einhverjum 35 metrum en yfir fór boltinn. Ágætis tilraun og ljóst að hann má alveg skjóta meira enda með þvílíkar sleggjur. Á 62′ mínútu átti Trent Alexander frábæran sprett upp allan völlinn og fann Salah sem reyndi máttlaust skot en hefði getað gefið hann aftur á Trent sem hóf sóknina. Á 67′ mínútu ýtti Ake aðeins í bakið á Salah sem vildi víti eins og Herra Klopp en dómarinn dæmdi ekki. Alls ekki ósvipað og Lovren atvikið gegn Everton fyrr í vetur sem við vorum virkilega ósátt við enda verulega soft en það er samt alveg kominn tími á að enskir dómarar velji sér línu til að dæma eftir og dæmi eins. Á 69′ mínútu kom svo mark leiksins. Trent Alexander átti stórkostlega sendingu innfyrir á Salah sem slúttaði eins og kóngurinn sem hann er og skallaði yfir Begovic í markinu, flikkaði honum í bláhornið, algjörlega geggjað mark 2-0 og Salah kominn með 30 mörk í deildinni og 40 alls. Fleiri færi litu dagsins ljós, Mané átti skot framhjá og Firmino slapp einn í gegn en reyndi máttlaust skot sem var auðvelt fyrir begovic að verja. Bournemouth vöknuðu aðeins til lífsins á 82′ mínútu og áttu nokkur hálffæri ásamt fyrsta skoti sínu á rammann sem Karius varði vel en þessi ákefð þeirra Bournemouth manna varði stutt og var aldrei nein alvöru ógn. Á 90′ mínútu kláruðu Liverpool leikinn með pompi og prakt þegar Firmino skoraði fallegt mark eftir stoðsendingu Chamberlain 3-0 og leikurinn búinn. Lovren fór eitthvað lemstraður útaf í lokin en við krossleggjum fingur og vonum að það sé ekki neitt neitt, við megum bara alls ekki við því á þessum tímapunkti að hann verði eitthvað frá.

 

Bestu menn Liverpool

Það voru allir góðir í dag og skiluðu sínu. Henderson var bestur á vellinum í fyrri hálfleik að mínu mati en miðjan var heilt yfir mjög góð og örugg í öllum sínum aðgerðum. Vörnin var að sama skapi skotheld og hin heilaga þrenning skoruðu allir í dag en þurftu fannst mér aldrei að setja í fimmta gír. Ég gef Trent Alexander nafnbótina maður leiksins að þessu sinni. Það sem drengurinn hefur verið að spila vel undanfarið er unun að horfa á og hann var frábær allan leikinn í dag ásamt þessari mögnuðu sendingu á Salah í marki tvö. Að eiga uppalinn svona góðan dreng er gulls ígildi, gæinn er 19 ára við skulum ekki gleyma því. Ég hefði líka getað nefnt Chamberlain sem var frábær í dag.

 

Umræðan

Það voru svosem engin sérstök atvik sem þarf sérstaklega að ræða eftir þennan leik nema hvað þetta virkaði svakalega auðvelt eitthvað. Ég bjóst við sterkara Bournemouth liði í dag en okkar menn yfirspiluðu þá á öllum sviðum fótboltans. Áfram er Salah eðlilega í umræðunni enda nú kominn með 40 mörk í öllum keppnum og er aðeins þriðji leikmaður Liverpool sem tekst að komast í 40 mörkin. Hinir eru Rush 47 mörk og Hunt 42 mörk. Við eigum enn eftir að minnsta kosti sex leiki eftir og vonandi sjö og gæti Salah vel slegið hið magnaða met Ian Rush. Hin heilaga þrenning Salah, Mané og Firmino eru nú  komnir með 82 mörk samanlagt í öllum keppnum og Mané var með marki sínu í dag markahæsti Senegali ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 44 mörk. Það er svo gaman að vera Púllari í dag og við skulum njóta þess í botn. Liðið virkar með sjálfstraust uppá 100 og fátt sem maður er hræddur við nema þá helst ef Lovren ætlar að fara detta í einhver meiðsli núna. Ef við höldum Can ásamt því að fá inn Keita og heimsklassa miðvörð ásamt heimsklassa sóknarþenkjandi leikmanni verður þetta lið svo gott að maður fær sæluhroll við tilhugsunina. Einhverjir vilja kaupa markmann á metupphæðir en eins og staðan er í dag finnst mér það algjör óþarfi eins og Karius er að spila.

 

Næsta verkefni

Leikmenn fá vikuhvíld áður en þeir heimsækja botnlið West Brom um næstu helgi og geta farið langt með að tryggja meistaradeildarsæti með sigri þar. Þar á eftir eru svo undanúrslitin gegn Roma en við komum að þeim leik síðar.

Þangað til næst YNWA!!!

 

 

 

Liðið gegn Bournemouth.

Þá er byrjunarliðið í dag orðið ljóst og stillir Klopp svona upp í dag:

Karius

TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Milner, Klavan, Moreno, Ings, Solanke, Woodburn.

Sama byrjunarlið og gegn City í vikunni nema að fyrirliðinn Henderson kemur aftur inn og Milner fær hvíld.  Þetta lið á að klára verkefnið í dag.

Fyrir leik verður Hillsborough harmleiksins minnst með mósaík í Kop stúkunni en á morgun eru 29 ár liðin frá harmleiknum.

Koma svo!!

 

Við minnum svo á #kopis á Twitter og athugasemdakerfið hér að neðan.


Crystal Palace 1-2 Liverpool.

Mörkin

Luka Milivojevic 1-0 víti ’13

Sadio Mane 1-1 ’49

Mohamed Salah 1-2 ’84

Leikurinn

Fyrri hálfleikur var virkilega dapur á allan hátt. Leikurinn byrjaði rólega þar sem menn voru að slípa sig eftir landsleikjahlé og fátt markvert gerðist fram að 8. mínútu þegar Saha komst einn í gegnum vörn Liverpool en Karius gerði sig breiðan og varði virkilega vel. á 11. mínútu skallaði Van Dijk á markið eftir horn en Mané var fyrir og flikkaði honum framhjá. Spurning hvort sá bolti hefði endað í netinu. Strax í næstu sókn kom sending inn fyrir sem Benteke flikkaði á Saha og Karius óð út úr markinu og felldi Saha. Víti réttilega dæmt á Karius en Trent Arnold leit illa út ásamt Matip sem gerði alls ekki nóg til að hjálpa hinum unga bakverði. Uppleggið var greinilega sama uppskrift og Man Utd notuðu um daginn að vinna skallaboltana og flikka inn á fljótan vængmann gegn Trent og af þessu þurfa menn að læra. Trent er virkilega efnilegur en það vantar enn töluvert uppá aga í varnarleiknum. Karius lærir svo vonandi af þessum mistökum sínum því þetta óðagot var algjörlega óþarft. Úr vítinu skoraði Luka Milivojevic örugglega 1-0.

Á 24. mínútu fékk Mané spjald fyrir dýfu en í endurtekningum sást klárlega að hann hefði átt að fá víti en hann dettur klaufalega aðeins eftir að hafa staðið af sér tæklinguna. Mané var svo aftur á ferðinni þegar hann skoraði á 30. mínútu en markið réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Salah reyndi máttlaust skot og Mané átti fínan skalla í lok hálfleiksins sem Hennessey varði vel. Benteke var svo að djöflast í hælunum á Van Dijk og fékk gult en stuttu síðar fór hann aftur aftan í Van Dijk og vildu einhverjir rautt en í það skiptið tel ég um óhapp að ræða. 1-0 var staðan í hálfleik og liðið var hreint út sagt virkilega andlaust í fyrri hálfleik. Miðjan steingeld, einföldustu sendingar rötuðu ekki á samherja og ekkert gekk upp. Trent Arnold átti líklega verstu frammistöðu hálfleiksins en Mané, Van Dijk og Robertson voru okkar menn skárstir.

Seinni hálfleikur byrjaði vel og Liverpool náðu fínum fyrstu tíu mínútum. Milner kom mun ferskari inn eftir dapra frammistöðu í fyrri hálfleik og átti þessa fínu stoðsendingu á Mané á 49. mínútu sem átti ekki í erfiðleikum með að skora og jafnaði þar með Demba Ba í markaskorun yfir Senegala í úrvalsdeildinni, 43 mörk. Salah hefði skorað eitt af mörkum tímabilsins hefði skot hans á lofti gengið upp en boltinn fór vel yfir.  Eftir þessar c.a tíu góðu mínútur komust Crystal Palace aftur inní leikinn og átti Benteke tvö dauðafæri eftir sofandahátt í vörninni og sjaldséð mistök Van Dijk. Sem betur fer fyrir okkur var hann ekki á skotskónum í dag frekar en fyrr í vetur. Mané átti svo að fá rauða spjaldið þegar hann greip boltann til sín. Hann taldi sig fá aukaspyrnu sem og hann átti að fá en dapur dómari leiksins dæmdi ekki og greip Mané í boltann í kæruleysi og átti þar með að fá sitt annað gula spjald. Dómarar á Englandi sýna það í hverri viku hversu vanhæfir þeir eru en í þetta skipti sem betur fer fyrir okkur.  Klopp gerði tvöfalda skiptingu á 64′ mínútu. Mané fór út fyrir Chamberlain og Lallana kom inná fyrir virkilega dapran Wijnaldum. Tveimur mínútum síðar meiddist Lallana aftan í læri og leit það alls ekki vel út. Ég tippa á að tímabilið sé búið hjá honum. Í hans stað kom Lovren inná sem eftir á að hyggja ég tel hafa verið góða ákvörðun til að þétta leik okkar aftast á vellinum. Salah fékk svo dauðafæri á 77. mínútu eftir góðan undirbúning Milner en náði ekki til knattarins. Við eigum svo Egypska kónginn Mohamed Salah sem hafði lítið sést í leiknum. Á 84′ mínútu fékk hann knöttinn í teignum eftir sendingu Robertson, snéri af sér Sakho og lagði hann snyrtilega framhjá Hennessey í markinu 1-2. Leikurinn fjaraði svo út án mikilla tíðinda. Ekki besti fótboltaleikur sem maður hefur séð en gríðarlega mikilvæg þrjú stig í baráttunni um sæti 2-4. Við öndum léttar og þökkum Fowler fyrir að Roy Hodgson hafi ekki eyðilegt fyrir okkur páskana.

 

Bestu menn Liverpool

Það var hreinlega engin neitt frábær í dag og liðið náði ekki að spila sinn frábæra fótbolta gegn þessu Palace liði. Þetta var allt frekar erfitt og spurning hvort leikurinn gegn City á miðvikudaginn hafi verið eitthvað að trufla. Ég held þó ekki og fagna því að liðið hafi troðið inn þremur stigum gegn erfiðu liði í botnbaráttu eftir langt og leiðinlegt landsleikjahlé og mögulega með hugann við miðvikudaginn. Set engan sem besta mann í dag en gef liðinu kredit fyrir vinnusigur. Van Dijk var að mestu góður en átti skelfileg mistök í seinni hálfleik sem hefði getað kostað okkur þessi stig.  Liðið var heilt yfir dapurt og færi ég nánar í að úttala mig um lélegustu menn okkar hefðu úrslitin verið önnur en þrjú stigin eru í húsi og það er það sem skiptir öllu máli. Þó er morgunljóst að liðið þarf að girða sig allverulega í brók fyrir leikina gegn City og deildarleikinn gegn Everton.

 

Umræðan

Fyrirsagnirnar held ég að munu fyrst og fremst snúa að Mo Salah og hversu mikill happafengur drengurinn er fyrir okkur. Apríl er rétt að hefjast og hann hefur skorað 37 mörk í öllum keppnum sem er ótrúleg tölfræði. Til að setja hlutina í samhengi og kannski finna mann til að bera hann saman við samanber stöðuna sem hann spilar gætum við tekið McManaman sem skoraði 66 mörk á níu árum með Liverpool og þótti nú bara frekar góður. Auðvitað er kerfið annað og Salah að spila mun framar en hann er samt ekki senter.

Umræðan verður einnig á dómaranum en það gleymist fljótt því nú fer öll einbeiting á leikinn gegn City í meistaradeild Evrópu.

 

Næsta verkefni

Næst er það Man City á Anfield á miðvikudaginn í átta liða úrslitum meistaradeildar Evrópu. Þessi leikur verður vonandi taumlaus skemmtun og hávaðinn á Anfield í hámarki sem mun leiða okkur til góðra úrslita. Þessi leikur verður svakalegur og allir fótboltaáhugamenn missa ekki af honum. En meira um hann í upphitun eftir helgi. Þangað til YNWA!!

 

Liðið gegn Palace.

Góðan dag og gleðilega páska. Þá hefur Klopp valið liðið gegn palace og lítur það svona út:

Karius

TAA – Matip – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Mané

Bekkur:  Mignolet, Clyne, Lovren, Moreno, Lallana, Oxlade-Chamberlain, Ings.

Sterkt lið og virkilega gaman að sjá Clyne á bekknum eftir gríðarlöng meiðsli. Can er frá eins og búist var við og Milner kemur inn á miðjuna.

Við minnum á #kopis á Twitter og athugasemdakerfið hér að neðan.