Liverpool 1-1 Newcastle.

 

Mörkin

29′ Coutinho 0-1

36′ Joselu 1-1

 

Leikurinn

Maður veit varla hvað maður á að segja um þennan leik. Ef eitt orð ætti að súmmera hann upp fyrir mig væri það orðið leiðindi. Liverpool voru eins og venjulega meira með boltann án þess að skapa sér svo til nokkuð. Benitez kom með sína taktík inní leikinn þ.e allir þeirra leikmenn vörðust fyrir aftan bolta og markið þeirra kom eftir eina flotta sendingu í gegn og sofandi miðja og miðverðir réðu ekki við það.  Coutinho kom okkar mönnum yfir með frábæru skoti vel fyrir utan teig áður en Newcastle jöfnuðu. Miðverðir okkar litu oftar sem áður illa út í markinu en Shelvey á heldur ekki að fá þennan tíma og pláss á miðjunni til að stinga boltanum í gegn. Að öðru leyti er fátt um leikinn að segja. Ef vörnin var döpur má segja að sóknin hafi verið skelfileg. Engin af okkar sóknarmönnum steig upp og bjó eitthvað til, menn virkuðu áhugalausir og hugmyndasnauðir.  Við hefðum átt að fá víti þegar Lovren og Matip er haldið inni í teig en fengum ekki og við slíkt mótlæti svara góð lið með mörkum en þetta var hreinlega steingelt hjá okkar mönnum í dag.

 

Bestu menn Liverpool

Allt liðið var í meðalmennsku í dag og engin einn sem stóð uppúr að mínu mati. Helst fannst mér baráttuandi í Joe Gomez ( mér fannst hann reyna) og Henderson átti ágæta kafla og nokkrar góðar tæklingar. Coutinho náttúrlega skorar markið fallega og átti nokkrar góðar rispur svo hann fær nafnbótina besti maður Liverpool í dag.

 

Vondur dagur

Sóknarlínan eins og hún lagði sig var hrikalega döpur. Mest er rætt um Sturridge og það er eðlilegt þar sem að hann var að fá sénsinn hjá Klopp en gerði fátt, en mér fannst Mané áberandi lélegastur í dag. Miðverðirnir gleyma sér sem oft áður og ég hefði viljað sjá Can inná fyrir Wijnaldum snemma í síðari hálfleik. Liðið var heilt yfir bara lélegt í dag og miðað við spilamennskuna hlakka ég ekkert sérstaklega til að mæta erkifjendum okkar eftir landsleikjahlé.

 

Umræðan eftir leik

Við erum alltaf að ræða sömu hlutina eftir leiki. Vörnin gerir mistök leik eftir leik, við getum ekki haldið hreinu og við getum ekki brotið niður góð varnarleg taktísk lið. Nú erum við að detta inní landsleikjahlé og förum með þetta í veganesti. Þar á eftir tökum við á móti Man Utd þann 15. október og Guð minn eini ég hlakka ekkert sérstaklega til þess. Umræðan snýr líka að Sturridge sem ég held hreinlega að sé búinn sem markaskorari. Það er alveg ljóst að aðdáendur Liverpool eru orðnir pirraðir. Það er samt stutt á milli í fótbolta og nú þarf bara að gjöra svo vel og þjálfari og leikmenn þurfa hver og einn að fara í algjöra naflaskoðun. Með sigri gegn Man Utd í næsta leik værum við með í baráttunni aftur en ef sá leikur tapast er staðan orðin grafalvarleg.  Þangað til YNWA!!

67 Comments

 1. Þetta er ekki boðlegt. Er ekki best að fá Benites aftur?

 2. Guð minn góður.

  Hvernig stendur á því að liðið okkar er orðið svona lélegt? Enn einn ömurlegur seinni hálfleikur. Sóknarleikurinn svo steingeldur að það hálfa væri nóg.

  Við erum úr leik í titilbaráttunni. Er heldur ekki sannfærður um að við verðum nálægt topp4, því miður. Það er eitthvað mjög mikið að hjá liðinu. Það sér hver maður.

 3. 12 stig af 21 mögulegum. Eitt mark í plús í goal difference. Þetta verður solid barátta um 4-7 sætið. Hey já og keyptum ekki striker því við höfum Sturridge. Þú þrjóski Klopp.

 4. Jesus kristur hvað þetta er dapurt lið og það á móti Newcastle og hvernig verður það á móti Man Utd eða Chelsea

  Okkur verður slátrað.

 5. Keyptum jú Solanke, sem þykir nú einn heitasti enski framtíðarbitinn í boltanum, ekki satt.

  Hrikalega vont að sjá liðið okkar ekki klára þessa skítaleiki. Erum á góðri leið með að henda frá okkur tímabilinu í deildinni, í bili amk… Fjandinn hafi það!

  Áttum reyndar að fá víti, mikið er þetta pirrandi!

 6. Jurgen Klopp heldur áfram að valda vonbrigðum. Ofmetinn þverhaus þar til annað kemur í ljós.

 7. Vandamálið augljóst. Liðin pakka öll í vörn á móti okkur vegna hraða framlínunnar og svæðin til að spila í nánast engin. Liðið mun fá á sig 30 svona lið í vetur. Þá VERÐUR AÐ NÝTA FÆRIN SEM MAÐUR FÆR VEGNA ÞESS AÐ AÐALVANDAMÁLIÐ er svo hinum megin á vellinum. Bolta er dúndrað fram 40m á milli tveggja ömurlegra hafsent og úr því verður mark. Newcastle fékk eitt horn í seinni hálfleik og Liverpool svona 50 og Newcastle skoraði næstum því úr því.

 8. Ég sé ekki fram á að þetta lið haldi sér í topp 4. Enn einn byrjunarreiturinn.

 9. Þetta var ekki gott.
  Sturridge lifir ekki lengur á fornri frægð. Einfaldlega lélegur. Gaf boltann frá sér í markinu og klúðraði þessu líka dauða dauðafæri.
  Miðverðirnir okkar auðvitað með brainfart.
  Wijnaldum gerði fátt.
  Sjaldan sem maður fagnar landsleikjahléi.
  Þarf tvær vikur til að jafna mig
  YNWA

 10. Mér finnst margt skrifast á Klopp núna. Ég skil mjög oft ekki skiptingarnar hjá honum og hann ber ábyrgð á varnarleik liðsins sem hann hafði heilt sumar til að bæta. Markmenn Liverpool eru engan vegin nógu góðir og það er líka slæmt að hann sé í afneitun með það eins og vörnina.

  Ég er ekki svartsýnn maður og vona að við sjáum betri leiki fljótlega. Ég hef bara ekki trú á því fyrr en við fáum miðvörð, markmann og alvöru markaskorara.

 11. Jæja hversu ósnertanlegur er Jürgen Klopp? 133 stig í 74 deildarleikjum á meðan Rodgers hafði náð í 141 stig eftir sama fjölda leikja. Fer að verða frekar þreytt og maður spyr sig hversu langan tíma hann mun fá til að snúa þessu við.

 12. Fólk verður að að hemja sig. Mane var út á þekju, hvers vegna? Núna svo til ekkert við vörnina að athuga, aðalmálið er sóknarlínan, nær bara ekki að skora. Æi ég veit ekki, hvar í fjandanum er neistinn?

 13. Það er alveg magnaður andskoti að við bara getum ekki…. tapað leik!

 14. Erum þrátt fyrir allt aðeins tveimur stigum á eftir Spurs sem er í þriðja sæti. Þannig að þótt færanýtingin sé afleit þessa dagana þá er enginn ástæða til að örvænta.

 15. Eru menn virkilega að sækjast eftir enn einu stjóraskiptunum? Þeim sömu er varla viðbjargandi.

 16. Ég er alveg að verða brjálaður!
  Mansararnir eru svo að fara að slátra okkur 0-5
  Þvílík skita og það styttist í að maður fari að venjast þessu!! Hvað á þessi þýski þverhaus að fá langan tíma til að sýna eitthvað af viti?
  #kloppout

 17. guð minn góður ! við tölum um að Man utd sé bara buið að spila við léleg lið og svo getum við ekki einu sinni unnið þessi helvitis skíta lið !!!
  óþolandi helviti ! og klopp virðist vera algjörlega clueless !! hversu lengi er klopp stikkfrír ? þetta er orðið liðið hans, sem hann vildi, buinn að fá þá leikmenn sem hann vildi og buinn að halda þeim leikmönnum sem hann vill hafa
  eigum ekki séns a topp 4 i vor ! utd, city, chelsea og tottenham eru bara langt a undan okkur !
  er algjörlega buinn að gefast upp á þessu tímabili !

 18. #23 Dolli

  Svona af forvitni, hvern myndir þú ráða í staðinn fyrir Klopp? Eini raunhæfi kosturinn sem mér dettur í hug er Ancelotti. Held að enn ein stjóraskiptin séu ekki málið.

 19. Eins pirraður og maður getur verið þá frábið ég að lesa um Klopp out… í alvöru? Ætla sömu pennar að koma hér inn og biðja um nýjan stjóra eftir sigur okkar á Man United í næsta leik? Treystum Klopp fyrir þessu, þetta er langhlaup og mótið er rétt að byrja…

 20. Ég velti fyrir mér hvort það hafi orðið miklar framfarir hjá liðinu á síðustu 18 mánuðum? Ég er ekki alveg að sjá það. Því miður.

 21. Klopp, vörninni, miðjan og sóknin out og já það má ekki gleyma að við eigum ekki markmenn heldur sem kunna eitthvað í fótbolta.
  Svona er umræðan nánast eftir hvern einasta leik.
  Ég styð stjórann og liðið eins og ég hef alltaf gert og mun vonandi alltaf gera

  Áfram Liverpool

 22. Já vissulega hrikalegt, spurning um að reka Klopp, stokka allt upp á nýtt, byrja að spila með nýju uppleggi, nýr stjóri með nýjar áherslur. Getum þá beðið eftir því dæmi næstu tvö árin. Spennandi tilhugsun.

  Fór að skoða töfluna eftir að hafa lesið þessi komment. ( sá ekki leikinn ) Við erum semsagt einu stigi á eftir Chelsa og Arsenal sem eru í 3-4 sætinu. Já og svo eru reyndar heil 2 stig í 3 sætið, getum algjörlega gleymt því, ekki nema 30 leikir eftir. Þetta er búið ! Klopp out og allt það……. ; )

 23. Það vantar bara svo helvíti mikið stability. Það gildir einu að rúlla upp Arsenal 4-0 en geta svo ekki unnið Newcastle.

  Ég vil samt gefa Klopp meiri tíma, hann er ekki á endastöð. Hann vildi VVD í sumar en eigendurnir voru klárlega ekki tilbúnir að rífa upp veskið fyrir dýrt verð. Ég veit að Ancelotti er á lausu en ég er ekki viss um að hann næði meira úr þessu liði (sem Klopp er búinn að vera byggja upp). Við þurfum ekki að fara aftur á byrjunarreit í Október.

  Ég hef samt enga trú á að United sé að fara mæta á Anfield og vinna í næstu umferð. Þótt þeir séu við toppinn hafa þeir bara spilað við léleg lið… þið vitið, svona lið í sama flokki og Watford, Burnley, Newcastle etc. Ég er viss um að hljóðið verði allt annað hérna þegar við vinnum United sannfærandi.

  Ekkert panic núna.

 24. Það er ekki margt annað hægt að segja en “deja-vúú”
  Við höfum séð þetta áður, allt of oft. Liðin eru farin að verjast þétt, leyfa okkur að dóla með boltann og bíða átekta. Þau vita það að til þess að skora gegn Liverpool FC þarf EKKi mörg færi.

  Elsku Klopp (sjálfur er ég ekki kominn á stjóraskipti en styttist í það – því miður) hann virðist ekki hafa lausnir á þessu, ekkert plan B. Dapurt sumar, hvað varðar innkaup er að koma illilega í bakið á okkur. Sóknin er okkar sterki hlekkur en samt vantar okkur “slútter”, af hverju var ekki fjárfest í okkar Lukaku, Morata, Kane eða Aguero?? Af hverju var ekki keyptur alvöru afturliggjandi, líkamlega sterkur miðjumaður? Af hverju var ekki keyptur góður miðvörður? Af hverju var ekki fenginn vinstri bakvörður? Af hverju var ekki fenginn betri markvörður? Stór spurning.

  Er þetta FSG? Klopp? Hvað er málið.. Það veit það hver einasti maður sem eitthvert smá vit hefur á enska boltanum að Liverpool FC vantar helling af gæðum út um allan völl, beinagrind liðsins er ekki góð. Alls ekki. Ekki í námunda við þau lið sem við viljum vera að keppa við… en þá komum við að kjarna málsins. Því ver og miður hefur Liverpool ekki það sem þarf til þess að keppa við lið eins og City, United, Chelsea…

  Það er augljóst að þolinmæði okkar stuðningsmanna fer þverrandi, enda er það ekkert undarlegt. Við höfum tekið skref upp, tvö niður…. eitt upp, þrjú niður. Jó-jó er sagan okkar síðustu árin. Á meðan eru erkifjendur okkar að ná vopnum sínum aftur, þeir hafa ekki unnið PL frá 2013 en reyndar 2FA cup, league cup, UEFA cup á meðan og þeir eru í “lægð”…. Við höfum ekkert unnið á sama tíma. NKL ekki neitt. Þrátt fyrir fögur fyrirheit FSG.

  FSG out, þeir eru rót og kjarni vandans. Kunna þetta ekki, hafa ekki bolmagn í að keppa um eitt né neitt. Sorglegt en SATT.

  Klopp… úff það eru margar spurningar sem maður spyr sig um þann mann. Nú er ekki nóg að vera hnyttinn á blaðamannafundum, nú þurfa verkin að fara að tala. Þetta er liðið hans, hvergi hægt að benda fingrum.

  Nú er að krossa putta og vonast til þess að okkar menn girði sig og vinni Man Udt þann 14 október. Þá fengi maður langþráð bros á andlitið. Því úr þessu er það bara áfram City í titilbaráttunni… allt allt annað en Mourinho og United.

  Því líkurnar á að við vinnum PL 2018 eru ekki miklar, reyndar er það líklegra að Andorra komist á HM í Rússlandi.

 25. Klopp og FSG eiga klárlega skilið gagnrýni núna vegna leikmannakaupa. Maður sér það nánast á leikmönnum að þeir treysta ekki gæðunum í vörninni né framherjum til að klára færi. Þetta var hugmynd FSG. Klopp var draumaþjálfarinn þeirra. Fá mann sem þjálfar ódýra leikmenn upp og gerir þá betri. Kaupa ódýra leikmenn og selja með hagnaði. Regluleg endurnýjun og stöðug gredda. Leikmenn að spila yfir getu vegna frábærs liðsanda.

  Það er eitthvað sálrænt að plaga leikmenn Liverpool núna. Mér finnst sárlega vanta alvöru leiðtoga í Liverpool. Henderson er hörku duglegur og öskrar mikið en hefur bara enga sigurvegara áru yfir sér. Lovren eða Matip ekki heldur. Hvað þá Sturridge eða Mignolet. Það var því hryggjarsúlan upp allan miðjan völlinn í dag sem var bara algjörlega punglaus.

  Fullt af frábærum strækerum voru í boði í sumar. Við ákváðum hinsvegar að halda okkur við Sturridge og vona í einhverri örvæntingu að þetta væri tímabilið sem hann stigi aftur upp.
  Stórundarlegt hjá Klopp að eyða stórfé í einhvern ultimate squad player (Oxlade Chamberlain) þegar nauðsyn var að fá inn einhvern afgerandi leikmann í vörn eða sókn.

  Klopp ég dýrka þig enn og veit að þú munt gera Liverpool að meisturum ef þú færð tíma í alvöru uppbyggingu en í guðana bænum hættu að kaupa leikmenn eins og Ragnar Klavan og Co. Hættu að kaupa menn eins og The Ox bara því þeir áttu frábæra innkomu fyrir 5 árum síðan þegar þú varst að þjálfa Dortmund. Það er komið 2017. Núverandi lið er ekki nógu sterkt til að vinna titilinn. KAUPT ÞÚ OG FSG ÞÁ ALVÖRU LEIKMENN SEM SETJA NÚVERANDI VEIKA HLEKKI LIÐSINS Á BEKKINN! AUKTU GETU OG REYNSLU Í LIÐINU!

  Bættu veikleikana í liðinu svo meðalskussalið eins og Burnley, Spartak Moskva og Newcastle noti ekki sömu leikaðferð trekk í trekk til að skora auðveld mörk gegn okkur og minnki þannig sjálfstraust hjá okkar bestu leikmönnum. Ekki kaupa sókndjarfan vinstri bakvörð frá Hull þegar við erum þegar með ofur mistækan of sóknarþenkjandi strákling hjá okkur í þeirri stöðu. Ekki enda eins Wenger. Kauptu líka stór egó sem önnur lið hræðast. Það virkar einfaldlega í enska boltanum. Hann snýst mikið útá sjálfstraust.

  Farðu að nýta þín tengsl t.d. í þýska boltanum. Kauptu Aubemeyang frá Dortmund. Kauptu leikmenn frá Bayern Munchen og einhvern alvöru markmann og miðvörð frá Evrópu. Einhverja sigurvegara. Nóg til af þeim.

  The honeymoon is over. Við erum með frábæran kjarna fyrir næsta ár í Coutinho, Mané, Salah, Firmino og Naby Keita. Verðum með svakalegt lið á næsta ári ef við fáum alvöru Striker, miðvörð og markmann. Kauptu menn í næstu 2 gluggum í sama eða jafnvel betri standard. Hættu þessa endalausa hringli með marksmennina og hafðu Mignolet sem kost nr. 1 út tímabilið. Festu niður 2 miðverði fram að áramótum og kauptu svo alvöru leiðtoga í vörnina næsta janúar.

  Þú ert betri en þetta Jurgen Klopp.

 26. Í fyrsta skipti í mörg mörg mörg ár hlakka ég nú til að fá landsleikjahlé 🙁

 27. Eigum við enga varnarmenn í varaliði LFC sem eru pottþétt betri en lovren og matip ? Það hlýtur bara að vera. Lovren er greinilega sljór af öllu þessu pilluáti !

 28. Erum aldrei að fara að vinna Man utd með sömu hörmulegu spilamennsku og í dag.

 29. Þessi leikur er búinn og jákvætt að við töpuðum ekki og fengum bara á okkur eitt mark. Það verður að sjá björtu hliðarnar og ekki síst hjá ykkur heldur döpru stuðningsmenn sem hraunið yfir allt og alla ef ekki vinnst sigur í öllum leikjum. Sannir stuðningsmenn láta ekki einhver töpuð stig slá sig út af laginu heldur halda enn frekar með liðinu sínu þegar á móti blæs. Auðvitað má alltaf bæta hlutina og efast ég ekki um að Klopp og hans menn vinna í því dag og nótt. Ég hef sagt það áður og segi það enn, liðið okkar er hörkugott en má kannski vera örlítið meira samstillt. Sigrarnir koma og hef ég þá trú að þá komi þeir á færibandi. Áfram Liverpool.

 30. Ég er búinn að fá nóg eftir 50 ára stuðning. Það er alveg orðið ljóst að það þarf skriljónir í dag til að reka topp fótboltalið og með þessa eigendur þá erum við bara að fara niður á við. Þessi tilboð á síðustu dögum gluggans var bara til að slá riki í augu stuðningsmanna því það var alveg ljóst að þessir menn voru ekki til sölu. Það er líka ljóst að hefðu þeir selt contino þá hefði allt orðið vitlaust. Þetta er orðið jafn vitlaust og pólitík.
  Ég hef alla mína tíð haft annað lið og haldið með því frá því að þeir voru í deild no.2 í denn en hætti því þegar olíufurstanir keyptu liðið en ég sé það nú að það þar einmitt svoleiðis stórfurstar sem þarf til að búa til gott fótboltalið nú til dags. Þannig að ég er farinn af Liverpool vagninum. Hafið það öll sem allra best.

 31. þetta er alltaf sama sagan, við yfirspilum leiki án þess að skora nóg, 68% með boltan og samt bara tvö skot á mark, vonandi fer þetta að smella saman þannig að úrslit leikja verði í samræmi við yfirburðina sem við spilum alla leiki með.

 32. Guðmundur Oskarsson:
  Shankley sagði: Ef þú getur ekki stutt okkur þegar við töpum eða gerum jafntefli ekki styðja okkur þegar við vinnum.
  Farðu bara og haltu með olíufurstunum.

 33. Tek undir með skýrsluhöfundi, þessi leikur var hálfgerð leiðindi og ég átta mig ekki á þessum leikstíl lengur, þetta minnir mig mjög mikið á leiki undir stjórn BR 2015, höngum á boltanum milli miðju og varnar enda allir fullkomlega sáttir með það og í raun ekki hægt að tala um að við stjórnum þannig leikjum því flestallir andstæðingar okkar vilja að leikurinn spilist þannig og því í raun leikurinn að spilast eftir þeirra höfði.

  Við fengum þó alveg nóg af færum í þessum leik til að vinna en gæðin voru ekki til staðar í fremstu víglínu. Mané fannst mér alveg týndum í þessum leik og salah og sturridge fundu sig hvorugur. Ég er ekkert að halda niður í mér andanum hvenær Sturridge kemur sterkur inn, hann var síðast í toppformi 2014 (2018 er alveg að fara að kom) og síðan þá höfum við bara séð glefsur af hans hæfileikum og ég myndi allan tímann setja peninginn á að við sjáum ekki meira en bara einstaka glefsur af hans getu. Eðlilega fékk Sturridge þó sénsinn í dag því Firmino hefur ekkert getað í einn mánuð, það er ekki boðlegt frá manni sem á að leiða línuna.

  Vörnin og miðjan eru síðan bara almennt séð slök enda engin yfirburðarleikmaður í neinum stöðum þar nema Coutinho en ég horfi nú meira til þess að hann sé sóknarmaður.

  Ég átta mig samt ekki á því hvað gerist milli landsleikjahléanna, liðið fór fullt sjálfstrausts inn í síðasta landsleikjahlé en hefur komið alveg kengbogið til leiks í september. Var eitthvað áfall innan hópsins við lokaniðurstöðu leikmannagluggans.

  Að lokum held ég að maður verði að vera raunsær, klúbbur sem hefur eitt ca. 30m nettó í leikmenn á ári síðan 2011….er hann líklegur til þess að vera að berjast um eitthvað? Svarið mitt er nei. Það eru algerar undantekningar ef lið gera það og síðustu 20 árin í Englandi er Leicester eina liðið sem kemur upp í hugann minn. Kannski er það ekki skrítið að ég upplifi liðið spila svipað og hjá BR, hann fékk ca. sömu fjárhæðir í leikmannakaup nettó (að ég held, væri reyndar gaman að taka þetta saman með nákvæmum hætti)

  FSG hafa fært mikinn stöðugleika inn í klúbbinn og þar við situr amk í dag. Ég held að klúbburinn hafi algerlega misstigið sig í sumar með að taka skref upp á við og þar á ég við að styrkja ekki vörn, miðju og mögulega fá topp striker.

  Margir tala um að það sé of fljótt að panikka og vissulega er stutt í 3 og 4 sætið. Staðreyndin er hinsvegar sú að lið sem leyfa sér að spila svona marga dapra leiki framanaf tímabili eiga yfirleitt ekkert erindi í toppbaráttuna, varla í topp 4 m.v. hvað deildin er sterk þetta season.

 34. Ef andstæðingarnir myndu fá öll þessi færi sem Liverpool er að fá…..hvað værum við eiginlega að fá á okkur mörg mörk þá?

 35. Ég get ekki gert það upp við mig hvort Sturridge er gimsteinn með brotinn gírkassa eða sjálfselskur haugur sem ætti að vera löngu búið að selja.

 36. Sæl og blessuð.

  Hef svo sem litlu við þetta að bæta nema að þessi færi átti að klára og það þurfti engan Kane eða Aguero til þess arna. Nú skrifa ég eftir minni þessi dauðadauðafæri sem við fengum:

  Lovren hitt’ann ekki fyrir opnu marki og ,,gaf” svo á þann sem stóð á línunni í stað þess að lyfta honum aðeins. Salah keyrir einn á markmanninn og lætur fiska hann frá löppunum á sér. Sturridge fær hann í lappirnar eftir kiks í vörninni og skýtur beint á markmanninn. Salah þrumar honum yfir, með markmanninn liggjandi á jörðinni etc etc etc.

  Svona hafa allir leikirnir verið. Súperspil og allt lagt fyrir lappirnar á framlínunni en einhvern veginn gerist ekki neitt þegar þangað er komið. Hefðum t.a.m. átt að vinna Arsenal átta núll og hinir leikirnir áttu að steinliggja. En þetta klikkar.

  Svo er það markið sem við fengum á okkur! Víðáttuheimska að stíga gaurinn ekki rangstæðan eða þá að faðma hann bara að sér frá báðum hliðum. Það var EKKERT annað í gangi. Tókuð þið svo eftir því að Lovren hætti bara að hlaupa í átt að markinu eftir þessa hafsentaskitu #500. Boltinn hefði getað farið í Mignó og út, eða farið ögn hægar í átt að markinu. Nei, okkar maður stendur bara kyrr og reynir ekki einu sinni að bjarga því sem bjargað verður. Hvaða pillur er annars hann að taka?

  Miðjan er að standa sig. Það er bara þetta tvennt sem ekki virkar. Já, þeir hefðu átt að kaupa nýja hafsenta og afturliggjandi miðjumann. Aldrei að eyða peningum í Chambo. Hvílíkt rugl sem það nú var. Enn einn spriklandi, hlaupandi og kiksandi leikmaðurinn. Gaur sem lét Moreno líta út eins og varnartröll!

  Það er magnað að ef við skorum eitt mark þá fáum við á okkur eitt. Ef við skorum tvö þá koma tvö. Leikurinn gegn Leicester var undantekningin frá reglunni en þá var líka víti varið sem hefði s.k. þessu átt að vera þriðja markið þeirra.

  Hvaða rugl er þetta?

  Nú vil ég sjá öfugan performans m.v. í fyrra. Janúar VERÐUR að vera turningpoint. Ég vil fá alvöru hafsent og má alveg henda inn góðum slúttara. Keita þarf að koma. Þá er aldrei að vita nema að tíðin núna verði spegilmynd þeirrar í fyrra og við tökum okkur á í ,,seinni hálfleik” þegar stóru liðin fara að hökta. Vonandi.

 37. Sorry. Maður á ekki að koma hérna inn strax eftir leik og blása. Þetta er búið að vera liðið mitt síðan ‘77 í gegnum súrt og sætt en ég er alveg að verða vitlaus á þessu.
  Held að Herr Klopp sé ekki að höndla djobbið. Kröfurnar eru miklar og stuðningurinn frá FSG er enginn.
  Þó hann dragi einhverjar kanínur úr ristlinum á sér og nái upp geggjaðri stemmningu með gegenpressen og heavy metal bolta þá getum með heppni náð 5 sætinu og 16 liða úrslitum með þennan hóp. Ef kútur, Mane eða Salah meiðast þá er þetta alveg búið.
  Allt annað hjal er að mínu mati óraunhæft og barnalegt!

 38. Gaf Guðmundi Óskars #39 upp-þumal.
  Bara vegna þess að ég get væntanlega treyst því að sjá hann ekki aftur á síðu fyrir stuðnungsfólk Liverpool 🙂

  Takk fyrir skýrsluna Eiríkur.

 39. Fast skotið hjá D.Hamann.
  Lovren segist taka 5 verkjatöflur fyrir hverm leik til að geta spilað.
  Hamann segist taka 8 töflur til að geta horft á Lovren.

  hahaha algjörlega spot ON

 40. Guðmundur Óskar hvert er þitt rétta nafn ? Annað lið hlýtur að vera annað nafn ? Er ekki alveg á sama máli og skýrsluhöfundur varðandi Gomes enn annars sammála öllu öðru í skýrslunni. Held að pirringur okkar stuðningsmanna sé réttmætur í alla staði enn ætla samt að halda áfram að styðja eina liðið sem ég hef haldið með í ensku deildinni og í raun eina liðið í allri veröldinni sem ég get sagt með vissu að ég hafi taugar til, enn fyrir suma er þetta svona eins og skipta um nærbuxur enn sem betur fer eru til ekta stuðningsmenn með hjartað á réttum stað. Man U verður leikurinn sem snýr blaðinu við. LFC er mátturinn og dýrðinn að eilífu amen…..

 41. Ég trúi á Liverpool FC! Ég trúi að við munum gjörsigra M**Utd! Ég trúi! Ef ég gæti ekki trúað þá hefði ég ekki verið stuðningsmaður öll þessi ár.

 42. Jæja. Ég sneri umræðunni aðeins við til þess að fá baráttuandann í stuðningsmennina. Nei, ég mun aldrei yfirgefa Liverpool. Verð alltaf stuðningsmaður. Öll lið eiga eftir að ganga í gegn um svona tímabil og það er bara betra að það sé á þessum tímapunkti í keppninni.
  Y.N.W.A,

 43. Ef við töpum gegn Manutd þá þarf mun ég þurfa að láta setja mig inn á geðdeild í heilan mánuð til að recovera mig í friði í spennutreyju. Ég hata að tapa gegn Manutd meira en allt!

 44. Mansteinn nr. 31 skrifaði “Hann vildi VVD í sumar en eigendurnir voru klárlega ekki tilbúnir að rífa upp veskið fyrir dýrt verð.”

  Þetta er alrangt. Eigendurnir voru tilbúnir að borga nánast hvað sem er, eitthvað hálfgert heimsmet í verði fyrir miðvörð, nánast óendanlega háa fjárhæð. Það var Southampton sem vildi ekki selja.

  Aron nr. 16 skrifar “Jæja hversu ósnertanlegur er Jürgen Klopp? 133 stig í 74 deildarleikjum á meðan Rodgers hafði náð í 141 stig eftir sama fjölda leikja.”

  Þetta er mjög ósanngjarn samanburður. Inni í þessum tölum hjá Rodgers er tímabilið þar sem Suarez gerði okkur nánast að Englandsmeisturunum og enginn vildi að Rodgers færi á þeim tíma. Ég held að Klopp fari fljótlega fram úr Rodgers þegar talin eru stig per leik á Liverpool ferlinum, en kúrvan framundan eftir 74 leiki hjá Rodgers fór hratt niður.

  FSG voru góðir í sumar. Þeirra sterkustu “kaup” voru að hafna himinháum tilboðum í Coutinho. Hvar værum við án hans núna? Það eru fáir sem hafa staðið eins sterkt í lappirnar gegn kauptilboðum hátt yfir 100 milljónir.

  Svo vil ég bæta því við að þó ég sé óánægður með gengið hingað til, þá eru aðeins 7 leikir búnir í deild. Einn hefur tapast. Árangurinn á leiktíðinni hingað til eru vissuelga vonbrigði, en þar sem Liverpool komst í riðlakeppnina í meistaradeildinni eftir glæsilega sigra á Hoffenheim, og eru enn einhvers staðar í sjónmáli við topp 4 hópinn, þá er hægt að umbera stöðu mála að svo stöddu. Það væri ekki fyrr en liðið héldi áfram að tapa óendanlega mörgum stigum áfram , t.d. ef gengið verður svona fram að jólum, sem ég færi að ókyrrast verulega. Liðið á ekki guðlegan rétt á að vinna lið eins og Newcastle á útivelli, eða Watford. Þessi lið eru ekki “drasl”. Við erum sterkari, en bilið á milli er minna en margir stuðningsmenn halda. Við ættum að vinna svona lið oftar en ekki, en það er óumflyjanlegt að einhver jafntefli og töp detti inn… það hefur bara verið að gerast of oft að undanförnu. En leiktíðin er enn ung, og ég bíð með minn dóm.

 45. Jújú “við getum ekki opnað varnir liða sem liggja aftarlega á vellinum”… sú helvítis mantra byrjuð…

  Ég gat ekki annað séð en að við höfðum átt dauða-dauða færi í þessum leik og það er sama uppi á teningunum í flestum, ef ekki öllum, leikjum okkar þar sem “við getum ekki opnað varnir liða sem liggja aftarlega á vellinum”.

  Staðreyndin er sú að við erum ekki nógu klíniskir – en það kemur og það er ekki langt í að við förum að flengja lið

  YNWA

 46. Sælir félagar

  Ég var svo heppinn að vera á góðum fundi norður í Bjarkarlundi og missti af leiknum. Missti? Það er ef til vill ekki rétta orðalagið miðað við skýrslu og athugasemdir. Ég sem sagt slapp við að horfa á þessa sem að mér sýnist – hörmung. Það er farið að gusta um Koeman hjá litla liðinu í Liverpool og ekki laust við að þeir nöpru vindar andi á Klopp, okkar mann.

  Efrier að hafa lesið það sem hér fyrir ofan stendur fer maður að hafa áhyggjur af tvennu. Í fyrstalagi að sá heimskukór sem kyrjar “Klopp out” fari að láta til sín taka og svo auðvitað af liðinu okkar sem við stöndum með í gegnum súrt og sætt en getum samt, eða þess vegna, orðið svo reiðir við. Reiðir, sárir og svekktir því áraraða vonbrigði bíta þegar til lengdar lætur.

  Ég ætla fyrst aðeins að víka að hinu fyrra atriði sem ég nefndi “Klopp out” kórinn. Þeir sem ganga í þann kór núna á fyrri hlita leiktíðar eru einfaldlega ekki í lagi að mínu mati. Þegar við fengum Klopp til Liverpool var hann einn heitasti bitinn á markaðnum og er það í reynd enn. Fyrir mína parta segi ég þetta. Stjóri af hans kaliber er eitthvað sem ber að þakka og styðja amk. 3 leiktíðir fullar og helst margar. Það er bara ekkert vit í öðru en gefa honum frið og tíma þó maður skilji hann ekki alltaf og verði stundum brjálaður út í hann. Það er samt ekki næg ástæða til að ganga í þennan skítakór.

  Hvað hið seinna varðar “liðið okkar” þá er það nú þannig að ég hefi stutt þetta lið í gengum súrt og sætt í yfir 50 ár. Ég hefi séð glæsta sigra, bikara og dásamlegan fótbolta en líka andstyggilega skitu undan farinna tveggja áratuga sem utan eins risatitils hafa verið nánast ein samfelld hörmungarsaga. Samt hefir aldrei, ég endurtek aldrei, hvarflað að mér að hætta stuðningi við þetta lið. ALDREI. Hvað sem á gengur.

  Ég hfi gefist upp á stjórum og verið því samþykkur í sumum tilfellum þegar þeir hafa verið látnir fara. (Souness, Evans, Houllier, Hodgson og Brendan Rodgers. Af seinni tíma stjórum eru það anzi margir sem maður hefir verið sáttur við að væru látnir fara og í öllum tilfellum nema einu verið ósattur við skipti (Hodgson). R. Bénitez vildi ég að fengi ráðrúm með nýjum eigendum, K. Dalglish vildi ég á sínum tíma að yrði áfram og svo núna Klopp sem ég vil að verði stjóri hjá Liverpool lengi.

  Því þó ég hafi svo sem orðið brjálaður út í Klopp fyrir eitthvað í einstökum leikjum og fyrir að geta ekki rifið þetta lið upp úr meðalmennsku og vesaldómi þá er það samt þannig að ég hefi trú á kallinum og ég trúi að hann muni þegar á líður gera liðið okkar að meisturum. Við verðum bara að hafa þolinmæði til að bíða – og þrek til að standa af okkur erfiðleika líðandi stundar.

  Það er nú þannig

  YNWA

 47. Sæl og blessuð.

  Það er út í hött að kenna því um að ekki sé hægt að komast í gegnum varnarmúra. Sérstaklega í fyrri hálfleik þá renndum við í gegnum vörnina þeirra eins og heitur hnífur í gegnum lint smjör.

  Það er bara ruglið að nýta ekki færin. Hvað á Klopp að segja við hinn reynda Sturridge þegar hann fær hann beint í lappirnar fyrir framan markmanninn og skýtur beint á’ann? Eða Salah sem skýtur yfir opið mark? eða Lovren sem sparkar út í loftið fyrir framan opið mark og gefur svo laust á varnarmann sem stendur á línunni? Eða Salah sem missir hann of langt frá sér með markmanninn einan og Mané æðandi við hlið sér?

  Og svo þessi beisíkk mistök í vörninni, hafsentar, tíu metra hvor frá öðrum og sóknarmaður í miðjunni…

  ,,Strákar… þið vitið … vanda sig pínu … tala saman … og ekki gera einhvern aulaskap …”

  ha?

 48. Það eru nokkrar ástæður fyrir bröltinu á tímabilinu. Liverpool er búið að spila ágætlega en hefur þurft að sætta sig við jafntefli eftir klaufagang í ansi mörgum leikjum. Báðir leikirnir í meistaradeildinni, 3 jafntefli gegn slakari liðum. Í öllum þessum leikjum eru ekki rauð gleraugu á þegar sagt er að Liverpool hefði hæglega getað unnið alla þessa leiki.

  Coutinho fór seint af stað, Lallana og Clyne er long term meiddir, Lovren að spila meiddur, Mane fór í bann, liðið er núna í meistaradeildinni með miklu meira álag á menn. Núna þarf að rótera og hafa breiðan hóp. Það er allt annað að vera á cruise control með sama liðið viku eftir viku.

  Það sem er pirrandi er að menn hefðu átt að vita þetta. Það virðist allavega hafa verið of stórt stökk að fara í meistaradeildina og ætla fara að brillera á öllum vígstöðvum.

  En ég hef bullandi trú á liðinu og þótt að liðið sé að hiksta þá er það samt mjög sterkt í grunninn. Ég held að þetta lansleikjahlé sé himnasending og Liverpool komi mjög sterkir tilbaka.

 49. Ég er með kenningu.
  Klopp er svo mikið keppnis að hann gírar menn upp í yfirgír fyrir leiki.
  Fyrir vikið eru menn alltaf sekúndubroti of ákafir fyrir framan markið. Vantar smá yfirvegun.
  Eða eins og gamla nautið sagði við ungnautið. Röltum niður í rólegheitum og tökum þær allar.
  YNWA

 50. Klopp gerði flotta hluti með Borussia Dortmund
  gleymum því ekki.

  segjum sem svo að það verði vonbrigðartímabil í ár þá segi ég fyrir mitt leyti að ég nenni ekki að horfa uppá önnur þjálfaraskipti með þeim hefst en ein vinnan í að búa til lið.

  Ég myndi vilja sjá Klopp taka á þeim og horfa á leikmannahópin hjá sér og spyrja sig hverjir eru að bregðast honum?
  hverjir eru raunverulega karekterar til að spila þarna.

  liðið er alls ekki að fúnkera eins og stendur og að mínu viti er enginn lukka með því í bland við náttla einbeitingarskort.
  og öll umræða er þess efnis að liðið er lélegt þessi pressa er komin inn í hausin á mönnum og virðist klopp vera reyna að ræða þetta jákvætt til að snúa þeirri hugsun við.
  ég trúi því að þetta muni smella og vonandi fyrr en seinna.

 51. Það er nokkuð ljóst að við söknum okkar aldrei góða og aldrei lélega Clyne. Um leið og hann kemur inn, sem ég vona að það sé ekkert allt of langt í, þá verða strax batamerki á vörninni. Við erum að spila með óreyndan hægri bakvörð og ungan miðvörð þar atm. Ætla ekki að ætlast til að þeir séu með leik undir pari í hvert skipti. Spurning hvað gerist með Lovren þegar hann nær sér úr sínum meiðslum. Greinilega ekki 100% í toppstykkinu en lélegur er hann ekki. Það sést langar leiðir (kikksið vs Sevilla td) að hann er ekki 100% fókúseraður. Matip finnst mér alltaf góður. Svo er spurning hvort Millner þurfi ekki að fá smá spiltíma í bakverðinum.

  Mig minnir að Lovren hafi stigið upp þegar hann færði sig í hægri hafsenta stöðuna á einhverjum tímapunkti í fyrra. Gæti það verið að Klopp treysti Matip þar betur við hliðin á ungu strákunum og það komi niður á Lovren hinumeginn, sem spilar ekki með besta bakverðinum þar meginn? Það er hægt að pæla fram og til baka í þessu en það er enginn að segja mér að þið mynduð skipta einhverjum úr vörn Burnley, Newcastle eða Spartak fyrir okkar menn.

  Það er einhver blanda sem er að virka ágætlega framan af en klikkar á augnabliki. Eru bakverðirnir of hátt uppi þegar hin liðin ná valdi á boltanum? Eru miðjumennirnir okkar að tala ekki nógu vel saman? Eru sóknarmennirnir að loka of illa á sendingamöguleika andstæðingana?

  Eins ógeðslegt og mér fannst mark Newcastle þá pirraði Sturridge klúðrið einn á einn og lúðrið hjá Salah yfir eftir það miklu miklu meira. Það hjálpaði ekki heldur sturridge að missa boltan í lappirnar á Shelvey sem fékk að vera óvaldaður og stinga boltanum inn á Joselu.

  Sjálfstraustið er í molum. Liðið er ekki svona lélegt. Vonandi skánar það í landsleikjahléinu enda verðugt verkefni framundan í deildinni. Sigur þar og við ekki svo langt frá þessari frábæru byrjun United.

 52. jæja ok. Ég var ósanngjarn, FSG eru góðir, hafa ausið peningum í liðið og bakkað alla þeirra þjálfara 100% upp. Þegar ég hugsa betur um málið þá er ljóst að er ekkert sem hefði getað sannfært S’ton um að selja VVD (sem var búinn að biðja um sölu í fryztiklefanum).

  Það er allavega landsleikjahlé og svo koma móri og félagar. Það er allavega á hreinu, að þegar united kemur í heimsókn skiptir engu máli hvar liðin standa í deildinni, það verður allt lagt í þann leik. En ef sá leikur vinnst ekki er farið að hitna vel undir Klopp.

 53. Hvernig er hægt að væla yfir Mignolet eftir þennan leik!?

  Sóknin klikkaði í þessum leik og ég dundaði mér í fifa 18 í seinni hálfleiknum,því ég sá strax í fyrri hálfleik í hvað stefndi.

  Fyrirsjáanlegt og hundleiðinlegt….steingelt jafnvel – cup of tea,anyone?

 54. Það eina sem við vitum í lífinu er að það verður lífsógnandi hjartatryllir að horfa á Liverpool-Crystal Palace.

 55. Eins og Man U hefur verið að spila undanfarið þá er ekki séns að Liverpool vinni þá á Anfield væri gott ef að við næðum jafntefli en hallast frekar á að Man U vinni leikinn sannfærandi.

Liðið gegn Newcastle.

Landsleikjahlé – opinn þráður