Stoke koma í heimsókn á Anfield.

 

Eins og það er leiðinlegt að setja frábært podcast neðar á síðuna þá er aðeins sólarhringur í leikinn gegn Stoke og tímabært að hita upp. Svo hlusta að sjálfssögðu allir á podcastið sem ekki hafa gert það nú þegar.

Kl. 11:30 á laugardag fáum við fallbaráttulið Stoke í heimsókn. Stoke sitja í næstneðsta sæti deildarinnar með 29 stig eftir 35 leiki, jafnmörg stig og lið Southampton og fjórum stigum frá Swansea en bæði þau liðin hafa leik á Stoke þar sem þau hafa aðeins leikið 34 leiki. Það er því morgunljóst að Stoke hafa engu að tapa og munu koma eins dýrvitlausir og þeir geta í leikinn og freista þess að sækja að minnsta kosti eitt stig á Anfield. Eins og ég persónulega mundi ekkert gráta það ef Stoke fellur um deild þá eru þrjú stig fyrir okkur það sem skiptir höfuðmáli, því með sigri erum við komin með níu og hálfan fingur á öruggt sæti í Meistaradeild Evrópu næsta vetur.

Liverpool er ekki þekkt fyrir að fara auðveldu leiðina og þurfti að hleypa smá spennu í lokabaráttuna með þessu hundfúla jafntefli gegn WBA síðustu helgi en nú er einfaldlega ekkert annað en sigur í boði.

 

Andstæðingarnir

Stoke eru eins og áður sagði í næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins 29 stig, hafa aðeins unnið sex leiki á tímabilinu, gert ellefu jafntefli og tapað átján leikjum. Stoke eiga einnig þann heiður að hafa fengið flest mörk skoruð á sig eða 65 talsins en hafa skorað 32. Markatalan þeirra er áberandi verst allra liða í deildinni eða í mínus 33. Í síðustu fimm leikjum þeirra er leikformið LLLDD. Stoke skiptu um stjóra í janúar þegar þeir ráku Mark Hughes og réðu Skotann Paul Lambert í hans stað til að freista þess að hífa liðið upp töfluna en sá kapall hefur ekki gengið sem skyldi fyrir þá þar sem þeir voru í átjánda sæti þegar þeir ráku Hughes en í því nítjánda í dag. Vörnin er þeirra mesti veikleiki sem ætti að henta okkur ágætlega.

 

Liverpool

Eftir þetta magnaða þriðjudagskvöld gegn Roma þarf Klopp bæði að halda mönnum einbeittum og jafnframt að velja það lið sem er bæði til þess fallið að vinna leikinn og dreifa álaginu fyrir stóra verkefnið í Róm næstkomandi Miðvikudagskvöld. Nú er það ljóst að Alex Chamberlain spilar ekki meira með á tímabilinu og mun jafnframt missa af HM með Englendingum næsta sumar eftir meiðslin sem hann hlaut gegn Roma. Vægast sagt ömurlega svekkjandi fyrir hann fyrst og fremst og mjög vont fyrir liðið þar sem hann hefur spilað frábærlega og miðjan orðin ansi þunnskipuð af leikfærum mönnum. Chamberlain hefur verið frábær fyrir okkur og er nú að missa af undanúrlitum í CL, ( Vonandi úrlitaleik),  og öðru HM í röð. Official síðan segir að það sé ekki komin nein tímasetning á  mögulega innkomu hans til baka en að nú fari í gang hefðbundið endurhæfingarprógram til að koma honum sem fyrst í fullt form fyrir næsta tímabil.

Þar sem Chamberlain er frá ásamt Lallana og Can verður miðjan nokkuð sjálfgefin að ég tel enda eingöngu þrír miðjumenn tilbúnir í leikinn og það verður hreinlega að spila þeim og taka sénsinn á að þeir meiðist ekki þar sem þessi leikur verður bara að vinnast. Woodburn kemur mjög líklega á bekkinn og vonandi þróast leikurinn þannig að hann fái síðustu 20-30 mínúturnar og þá líklega fyrir Milner sem þarf helst á hvíldinni að halda. Markmannsstaðan er sjálfgefin en vörnin er spurningamerki. Clyne gæti fengið þennan leik og Trent Alexander því fengið hvíld, já eða hreinlega að hann kæmi inná miðjuna. Miðað við frammistöður Moreno og Gomez gegn WBA held ég að þeir byrji hvorugur og Robertson spili leikinn. Ég ætla að giska á að Lovren verði hvíldur og Klavan komi inn. Mané er eitthvað tæpur, missti af æfingu í gær, en Klopp útilokar hann ekki í leiknum. Ég hef enga trú á að þar verði tekinn neinn séns og hann verði utan hóps á morgun.

Svona giska ég á liðið:

Karius

Clyne – Klavan – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Ings

Bekkur:  Mignolet, Gomez, TAA, Lovren, Woodburn, Solanke, Moreno.

Sterkt lið sem á að klára þetta verkefni og vonandi koma allir heilir frá leiknum því þeirra bíður risaverkefni á miðvikudag.

 

Spá

Af síðustu tíu heimaleikjum okkar gegn Stoke hafa átta unnist en tveir tapast svo við höfum ágætt tak á þeim á Anfield. Hef enga trú á öðru en Klopp og liðið sýni og sanni að WBA leikurinn voru mistök til að læra af og við tökum þetta 3-0 með tveimur mörkum frá Egypska Kóngnum og einu frá Firmino.

Koma svo YNWA!!

12 Comments

 1. Eina sem mig greinir á þig varðandi val á byrjunarliðinu er að Ings verði settur á vænginn. Það gaf ekki góða raun að setja hann á vænginn í stað Salah gegn Róma og það er kannski ekkert skrítið þar sem hann er miklu meiri framherji heldur en vængmaður.

  En varðandi Mourinho og kaup hans á Salah til Chelsea.

  Ég fylgdist grant með Salah þegar Liverpool gerði sig líklega til þess að kaupa hann á sínum tíma. Mér fanst hann passa algjörlega inn í leikstílinn hjá Liverpool undir stjórn Rodgers, teknískur, fljótur og hvergi banginn. Þegar hann endaði hjá Chelsea var það mín upplifun að hann myndi ekki passa inn í leikstílinn hjá liðinu á nokkurn hátt og reyndist það vera hárrétt.

  Eins og þetta lítur út fyrir mér þá ákvað Chelsea fyrst og fremst að kaupa hann til að koma í veg fyrir að Liverpool næði að styrkja sig, því þeir voru í samkeppni við þá um Englandsmeistaratitilinn og kannski líka í þeim tilgangi að verma sætið á varamannabekknum sem Mata skildi eftir sig. þessi kaup voru fullkomnlega tilgangslaus.

  Ég man greinilega eftir viðtali á Fótbolti.net þar sem Mourino sagði eitthvað á þá vegu að enski boltinn hentaði ekki Salah og ítalski boltinn ætti betur við hann. Verr og miður finn ég ekki þetta viðtal þrátt fyrir þónokkra leit.

  Hið rétta er nátturulega að hann passar illa inn í varnarsinnuð ensk fótboltalið. Mourinho var aldrei að fara að gefa honum tækifæri.

 2. Bráðnauðsynlegt að klára þennan leik. Verður vont að fara Stamford Bridge ef við töpum stigum í þessum leik. Töpuðum nefnilega stigum gegn Everton og WBA þegar Klopp var að rótera liðinu. Breiddin er bara svo lítil að við ráðum varla við svona róteringar og það verður vonandi lagað í sumar.

 3. Flott upphittun

  Stoke er að berjast fyrir lífi sínu og verður þetta því erfitt. Ég gæti séð Woodburn byrja þennan leik til þess að hvíla einn af okkar miðjumönnum(sem gæti svo komið inná til þess að hvíla annan miðjumann síðasta hálftíman).

  Ég held að menn átti sig margir hverjir ekki á mikilvægi þessa leiks. Liðið VERÐUR að fá að minnsta kosti 1 stig úr þessum leik því að annars er meistaradeildarsætið komið í hendur Chelsea.

  Þetta verður erfiður 2-1 sigur spái ég þar sem Salah og Henderson skora fyrir okkur en Crouch fyrir gestina.

 4. Ég ætla að skjóta á þetta lið.
  Karius
  Gomez, VD,Klavan
  Clyne, Wijnaldum, Henderson, Moreno
  Ings, Solanke,Woodburn

  Clyne og Moreno skiptast á að vera hátt uppi eða hjálpa 3ja manna varnarlínu.

  Dugir alveg gegn Stoke.
  YNWA

 5. Sælir félagar

  Þetta verður strögl en vinnst samt nokkuð örugglega. Mín spá er 3 – 1 og eitt af fjórum efstu sætunum klárt, ekki síst eftir að við vinnum Chelsea. Arsenal rekur af sér slíðruorðið og vinnur MU nokkuð örugglega líka núna um helgina. Það verður gaman.

  Það er nú þannig

  YNWA

 6. —————–Karius———
  Clyne—Gomez—Dijk—Moreno
  ———-Hendo—Winjaldum
  Salah——-Firmino—-Woodburn
  ————Danny Ings————
  Ég vona að liðið verði einhvern veginn svona

 7. Það væri svakalega sterkt að vinna þennan leik, þá þarf chelsea að vinna alla sína leiki til að toppa okkur. Þar sem að fyrri leikurinn gegn Roma var á þriðjudaginn og seinni leikurinn er á miðvikudegi þá býst ég ekki við því að Klopp geri mikið af skiptingum. Eins og aðrir hafa sagt er breiddin okkar orðin hrikalega lítil, þetta þarf að laga í sumar. En fyrst þurfum við að klára þetta tímabil, og það vonandi með bikar!! Spái 4 – 0 sigri á morgun, Salah setur tvö, og Firmino og Ings setja sitt hvort markið. Það verða svo gerðar skiptingar snemma og kjúklingarnir fá að spreyta sig.

 8. Við þurfum 3 stig þ.a. við þurfum að tjalda öllu til. Sterkasta liðið þarf að byrja. Ef Mane er tæpur, sem ég býst við, verður hann ekki með. Woodburn kemur inn á miðjuna fljótlega í seinni hálfleik ef staðan er góð.

  Karius
  TTA – Lovren – van Dijk – Robertson
  Wijnaldum – Henderson – Milner
  Salah – Ings – Firmino

  3-0 Salah skorar a.m.k. eitt og Robertson finnur loksins markið

 9. Karius – Trent – Van Dijk – Klavan – Gomez – Moreno – Henderson – Winjaldum – Salah – Firmino – Ings

  Milner og Robertson hvíldir

 10. Þetta verður alvöru slagur og erfitt að spá fyrir um úrslit. En ég vona.

 11. Halló, er enginn vaknaður? Liverpool leikur!!
  Byrjunarlið Liverpool: Karius, Alexander-Arnold, Van Dijk, Klavan, Gomez, Moreno, Henderson, Wijnaldum, Firmino, Salah, Ings.
  (Varamenn: Mignolet, Clyne, Lovren, Milner, Robertson, Solanke, Woodburn)
  Koma svo!

Podcast – Roma rústað

Byrjunarlið gegn Stoke