Upphitun: Alvöru verkefni! Manchester City úti.

Á hádegi á laugardag bíður okkar alvöru verkefni. Leikur gegn Manchester City og engin spurning að um gríðarlega mikilvægan leik er að ræða fyrir komandi toppbaráttu. Við pennarnir á Kop.is spáðum allir Manchester City Englandsmeistaratitlinum næstkomandi vor, og skyldi engan undra. Guardiola hefur eytt stjarnfræðilegum upphæðum í leikmenn og vonar að honum sé að takast að fullmóta liðið sitt eins og hann vill sjá það. Þrátt fyrir að stutt sé liðið á mótið er allt undir í þessum leik fyrir bæði lið og með sigri hjá hvoru liðinu sem er verða send skýr skilaboð inn í tímabilið.

Sagan

Liverpool og Manchester City hafa mæst tvöhundruð og sex sinnum í öllum keppnum. Í þessum viðureignum höfum við unnið hundrað og einu sinni, City hafa unnið fimmtíu og þrisvar og fimmtíu og tveir leikir hafa endað með jafntefli. Í síðustu tíu deildarleikjum hafa City unnið tvo leiki, þrír hafa endað með jafntefli og við unnið fimm. Fjórir af þessum fimm sigurleikjum okkar unnust á Anfield en aðeins einn á Etihad, en þá hafði Jurgen Klopp verið í stjórastólnum í um einn og hálfan mánuð og handverk hans kom berlega í ljós þegar við slátruðum City 1-4. Klopp hefur stýrt Liverpool fimm sinnum gegn City síðan hann tók við og aðeins tapað einu sinni. Það tap kom í úrslitum deildarbikarsins á Wembley eftir svekkjandi vítaspyrnukeppni.

Á milli Liverpool og Manchester City ríkir engin sérstakur kærleikur enda um nágrannaborgir að ræða. Þó er rígurinn á milli þessara liða ekkert í líkingu við ríginn á milli Liverpool og Manchester United, enda þau tvö sigursælustu lið Englands, og City tiltölulega nýorðið stórt lið með fúlgur fjár.  Það þykir ekki vinsælt að leikmenn spili fyrir bæði Liverpool og Manchester United en ef við horfum á Liverpool og Manchester City blasir annar veruleiki við. Frá stofnun úrvalsdeildarinnar hafa fjórtán leikmenn spilað fyrir bæði liðin. Þeir eru, í engri sérstakri röð: David James, Kolo Touré, Dietmar Hamann, Daniel Sturridge, Steve McManaman, Raheem Sterling, Craig Bellamy, Nigel Clough, Mario Balotelli, Nicolas Anelka, James Milner, Albert Riera, Mark Kennedy og sjálfur Guð A.K.A Robbie Fowler. Þar fyrir utan má ekki gleyma Steve McMahon. Peter Beardsley og Matt Busby. Þetta er engin smá listi og eru mennirnir á honum misdýrkaðir af okkur Liverpoolmönnum.

 

Manchester City

Manchester City eru með sjö stig eins og við. Þeir unnu Brighton 0-2 úti í fyrsta leik, gerðu 1-1 jafntefli heima gegn Everton og lentu í smá basli með Bournemouth úti í síðasta leik en náðu að knýja fram 1-2 sigur. Ég hef ekkert séð um meiðsli hjá þeim nema að Kompany missti af landsleik 3. sept vegna smávægilegra meiðsla en á að vera orðinn klár í slaginn. Ef ekki tekur Otamendi stöðu miðvarðar með Stones. Sterling vinur okkar er svo í banni fyrir að fagna of ákaft gegn Bournemouth. Gundogan hefur æft að fullu undanfarið en ég býst ekki við honum í byrjunarliðinu strax.

Svona tippa ég á að City stilli upp:

Ederson

Walker – Kompany – Stones – Mendy

Silva – Fernandinho – De Bruyne

Sane – Aguero – Jesus

 

Yaya Toure gæti svosem fengið stöðuna inni á miðri miðjunni en ég skýt á Fernandinho frekar.

 

Liverpool

Risastóra spurningin er hvort Coutinho verði í byrjunarliðinu eða bara í hóp yfirhöfuð. Moreno póstaði mynd af sér með honum skælbrosandi og engu líkara en hann hafi farið til tannhvítunarfræðingsins hans Firmino. Eins hafa birst nokkrar myndir af honum af Melwood skælbrosandi. Þetta er bara jákvætt og vonandi er hægt að salta þessa leiðindarumræðu í bili. Þó tel ég að Klopp hendi honum ekki strax í byrjunarliðið enda væru það sérstök skilaboð til frábærrar miðjunnar í síðasta leik. Ég skýt á að hann byrji á bekknum ásamt okkar nýjasta leikmanni Oxlade-Chamberlain. Fréttir bárust af einhverjum meiðslum Salah um helgina en hann spilaði allan leikinn með Egyptum gegn Uganda á þriðjudaginn svo hann er klár. Ég held að Trent Alexander taki sæti hægri bakvarðar á nýjan leik og Mignolet fari aftur í rammann eftir að Klopp sagði skýrt í viðtölum eftir Arsenal leikinn að hann væri markvörður nr. eitt.

Svona spái ég byrjunarliðinu hjá okkar mönnum:

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

 

Bekkur: Karius, Klavan, Gomez, Milner, Coutinho, Chamberlain, Sturridge

Nánast sami kjarni sem byrjar og undanfarna leiki en gleðifréttirnar eru breiddin. Þessi bekkur er mjög öflugur og ennþá eigum við Lallana og Clyne inni. Ward, Grujic og Solanke missa sæti sitt í hópnum í bili.

 

Spá

Ég er mjög bjartsýnn fyrir þennan leik. Klopp hefur ekki tapað á Etihad með Liverpool og við virkum á góðri siglingu. City hafa ekki virkað neitt svakalega sannfærandi sem af er en það er bara tímaspursmál hvenær þeir setja vélina á fulla ferð. Vonandi bíða þeir eitthvað  með það, a.m.k. fram yfir þennan leik. Við erum alltaf að fara fá á okkur mark eða mörk en þeir líka og tel ég að bakverðir þeirra lendi í miklum vandræðum gegn skruggufljótum Mané og Salah. Miðjan þarf að eiga góðan leik og hjálpa vörninni allan tímann ásamt að tengja vel við efstu þrjá. Þetta verður erfitt en með hundrað prósent einbeitingu eigum við vel að geta unnið þetta City lið. Ég segi að við vinnum leikinn 2-3 og sigurmarkið verði dramatískt undir lok leiksins. Okkar mörk skora Mané 2 og fyrirliðinn Henderson 1. Hjá þeim setja Aguero og Jesus sitt markið hvor.

Koma Svo!!! YNWA!!

 

42 Comments

 1. Síðan svona 2012 hafa þetta verið þeir leikir sem ég hlakka mest til á hverju tímabili. Liðin vilja bæði spila fótbolta, það er ekki þetta stress sem virðist alltaf fylgja leikjum við hitt liðið í hinni borginni og svo hafa þetta nánast alltaf verið stórskemmtilegir leikir. Spenntur og spái Liverpool 2-0 sigri, þar sem Mané setur fyrsta og Coutinho skorar úr aukaspyrnu þegar lítið er eftir, en hann kemur inn sem varamaður.

 2. Sammála því að Coutinho er ekki að fara að byrja þennan leik. Það er jafnvel möguleiki að Klopp verðlauni Woodburn og láti hann taka sæti á bekknum í stað Coutinho. Hins vegar getur líka verið að Klopp ætli sér að passa mjög vandlega að hlífa Woodburn (The prince of Wales eins og er farið að kalla hann) við pressunni sem fylgir of mikilli athygli of snemma.

  Held það sé alveg ljóst að ef Coutinho kemur inn á, þá mun hann skora. Hann er ekki að hata það að skora á móti City, og þá helst mörk af dýrari gerðinni.

 3. Þó Coutinho sé einn af bestu mönnum liðsins þá vil ég sjá hann á bekkunum um helgina. Can, Winjaldum og Henderson voru stórkostlegir á móti Arsenal og verðskulda að halda sínum sætum. Einnig verður líka að passa bakið á coutinho 🙂
  Þetta verður erfiður leikur en ég hef trú á því að við fáum allavega stig um helgina sem væri alls ekki slæmt.

 4. Man City er klárlega það lið í deildinni sem eru með mestu einstaklingshæfileika og breydd. Þeir spila flottan sóknarbolta og eru að mínu mati líklegustu meistaraefnin.
  Man City eru búnir með þrjá leiki í deild.
  Brighton úti 0-2 sigur þar sem þetta var frekar sanfærandi og þeir klúðruðu fullt af færum.
  Everton heima 1-1 þar sem þeir voru manni færi stóran part af leiknum en voru mun betri og fengu fullt af færum.
  Bournemouth úti sigur 1-2 þar sem þeir voru að fá fullt af færum en heimamenn gerðu þeim lífið leit.
  Man City skapar fullt af færum í öllum sínum leikjum en hafa ekki verið að nýta þau vel og vonar maður að það haldi áfram.
  Í sambandi við okkar lið þá nánast velur það sig sjálft. Klopp var búinn að tala um að Mignolet tæki aftur byrjunarliðsætið og tel ég nokkuð víst að Coutinho byrjar á bekknum á laugardaginn ásamt okkar nýjasta liðsmanni og erum við komnir með rosalegan bekk og eru samt lykilmenn meiddir.
  Ég á vona á virkilega skemmtilegum leik en ég er ekki eins bjartsýn og margir hérna og spái að þetta verður 3-3 steindautt jafntefli.

 5. Get ekki beðið eftir þessum leik, spái 6 – 2 fyrir liverpool. Mané og Bobby með tvö og Salah og Hendo með eitt.

 6. Held að Gomez muni halda sæti sínu. Fíla TAA í botn en Gomez er betri varnarmaður og átti hörkuleik gegn Arsenal og það veitir ekki af gegn Mendy fljúgandi upp vinstri kantinn. Kannski væri skynsamlegt að hringla ekki í hópnum og hafa Coutinho utan liðs, fyrst liðið er að spila blússandi bolta. Hann er allavega aldrei að fara að byrja.

  Spái 4-1, Salah, Mane, Firmino og Can með mörkin. City með 65% possession en Lfc með flest færin, aðallega úr deadly skyndisóknum.

 7. Sælir félagar

  Það er litlu við að bæta eftir góða upphitun og að mestu sammála athugasemdir. Ég tel það veikja MC að Sterling er ekki í hópnum hjá þeim þó hann hafi svo sem ekki verið að gera rósir á móti Liverpool síðan hann fór fýldur. Til að koma með eitthvað nýtt þá veðja ég á sigur okkar manna og spái 2 – 4 Hverjir skora mörkin er ekki alveg víst en ég tel að Salah muni núna opna markareikning sinn fyrir alvöru og setja amk. 2 ef ekki 3. Mané með 1 og Firmino eitt ef Salah skorar bara 2. En hvað veit ég sosum annað en þetta verður svaðalegur leikur.

  Það er nú þannig

  YNWA

 8. Það var mikið að lífið fer aftur í réttar skorður.

  Auðvitað verður þetta fjörugur leikur og nóg af marktækifærum.

  1-2 fyrir okkur þar til á 86 mínútu eftir þungar sóknir City.
  Kútur tekur auka eftir að hafa komið inn sem varamaður og smyr honum.

  Faðmaður í kaf og allir brosa hringinn. Málið dautt.

  YNWA

 9. Er að mestu sammála Eiríki með liðið nema hvað ég býst við Jóa í hægri bakverði og TAA fer á bekkinn.
  Önnur breyting verður líka á bekknum, það er ekki pláss fyrir Chamberlain, Solanke þarf sitt sæti svo hann geti komið inn á í seinni hálfleik og sett eitt mark.
  Hvort það verði eina mark leiksins eða eitt af tíu í sigri Liverpool (4-6) veit ég ekki fyrr en á morgun.

 10. Nr. 6 Já ég er í alvörunni bara að spá því. 🙂

 11. Smá útúrdúr en nú eru tímamót því KOP.is bookmarks’ið mitt, http://www.eoe.is/liverpool er hætt að virka :/ -Var ég eini sem notaði það ennþá? ??

  Takk fyrir frábæra síðu í gegnum tíðina! Uppfæri nú bookmarks hjá mér

 12. Ég er sammála því að Coutinho verði ekki í byrjunarliði á laugardaginn en hann kemur inn á í seinni hálfleik og skorar sigurmarkið 2-3.

  Svo verður hann í byrjunarliði á móti Sevilla í meistaradeildinni í næstu viku og allir eiga eftir að gleyma þessu drama með Barcelona í glugganum. Svei mér þá ef hann á ekki eftir að skora líka á móti Sevilla.

 13. Ég var kominn með fráhvarfseinkenni.

  Ég er alltaf smeykur við þetta City lið. Sá þá kaffæra Everton manni færri í seinni hálfleik og knýja fram jafntefli. Þá fannst mér þeir óhugnanlega góðir. Reyndar örugglega það sama og Arsenal stuðningsmenn hugsuðu allan leikinn á móti okkur þannig að þetta bara hlýtur að verða skemmtilegur leikur.

  Spái 5 mörkum, megi þau sem flest vera skoruð af okkar mönnum.

 14. Ef ég væri að tippa þá mundi ég þrítryggja þennan leik. Co. kemur ekki inná fyrr en á heimavelli og þá gegn Sevilla og mun fá peppið og fyrirgefningu frá áhorfendum. Man. City er gríðalega öflugt lið sem á eftir að spila sig saman eftir allar breytingarnar í sumarglugganum, en okkar lið er nánast með sömu mennina og í fyrra, nema þeir eru árinu eldri og þar af leiðandi reyndari. Ég sagði að við þyrftum ekki að kaupa marga menn því við ættum mikil efni sem ætti eftir að sprýnga út í vetur. Það er röng skilaboð til ungra leikmanna að gefa þeim aldrei tækifæri. Þá er starf akademíunnar ekki til neins. Hvað eru margir leikmenn hjá Man. City uppaldir hjá félaginu í þessum 25 manna fyrsta hóp? Ég held það sé enginn!
  Ég hlakka mikið til leiksins eins og ávalt þegar okkar menn eru að spila.

 15. Þetta verður trykki leikur, alveg pottþétt. Bæði lið vilja gera sig gildandi í framhaldinu. Jafntefli væri svona la la fyrir bæði lið, en eithvað segjir mér að viljinn verði sterkari hjá okkar mönnum, svo lengi sem allir séu klárir, sem léku síðasta leik. Coutiniho verður í hópnum, og sannast sagna væri ég ekkert ofurhissa á að hann byrji, aðallega til að kveða allt ruglið í “kútinn”því Klopp vill tjalda því besta sem við höfum í þennan leik, OG VINNA.
  Ég spái 2-1 fyrir LFC, hverjir skora, einhverjir ólíklegir eftir snildarsendingar.
  YNWA

 16. Myndi alltaf setja 1 x 2 á þennan leik. Er hræddur við lið City finnst þeir líta ótrúlega vel út en ætla að halda áfram að trúa á Klopp og hans menn . Spái 1-2 í hörkuleik. Uxinn með sitt fyrsta mark sem verður sigurmarkið.

 17. Skít hræddur við þennan leik eins og venjulega, en staðreyndin er bara sú að við erum búnir að vera frábærir á móti svona sóknarliðum eins og City undanfarin misseri. Afhverju ætti það að breytast. Við erum með betur smurða vél en City en það getur svosem allt gerst í þessu.

  Spái þessu 2-1 fyrir okkar mönnum. Salah og Mane með mörkin.

 18. Nokkuð sterkur bekkur er eitthvað sem maður tekur eftir, eitthvað sem hefur oft á tíðum vantað síðustu ár. Breyting til batnaðar.

 19. Klopp búinn að staðfesta að Coutinho verði ekki í hóp. Þá ætla ég að veðja á annaðhvort Solanke eða Woodburn, en yrði svosem ekki hissa þó Grujic yrði fyrir valinu.

 20. Þetta verður rosalegur leikur. City búnir að styrkja sig helling og ég er skíthræddur við þá.
  En Borgarnesbúar ! Mælið þið með einhverjum sportbar þar sem ég verð í Borgarnesi á morgun? Langar rosalega að sjá leikinn og langar að losna við það að horfa á hann í símanum mínum.

 21. Veit einhver hvar er hægt að horfa á leikinn í heimsnaflanum Akureyri?

 22. Hahaha heitir í alvöru gaur í citty Jesú? Haha pabbans pottþétt svindlað honum í liðið. Skiftir ekki máli, Sala trúir ekki á Jesú og mun bara skora sammt.

  Sveimjer já! Spenningin er að fara yfirum í mér. Mér finnst allir hérna segja rosa flott um að við skulum vinna með böns af mörkum á móti ekki mjög böns frá þeim.

  Cotinho kannski ennþá þikjast vera með krippu og getur ekki spilað, ekkert ves! Allir hinir sem rassaskeindu Arsinal atla bara að girða niðrum Citty líka. Vinjandum ætlar jafvel kannski að skora ef boltinn er ekki of límdur við skóna hans. Þá bara hleypur hann inní markið í staðinn. 5-1 fyrir Liverpool staðreind.

  Koma svo

  Það er sko þàleiðis
  NEWER WALK ALONE

 23. Þetta verður stál í stál. 2-2, sem eru fín úrslit. Reyndar rifjast upp fyrir mér hvað ég hef oft orðið fúll yfir jafnteflum við “stórliðin” þar sem við höfum haft algjöra yfirburði. En nóg af því núna,. Jafntefli eru flott úrslit fyrirfram.

  Óvæntir markaskorar. Moreno og Sturridge af bekknum. Týpískir frá City, Aguero með eitthvað vibba pot og hitt úr soft víti? Kæmi mér ekki á óvart.

  Ég vona að City haldi boltanum töluvert. Þá veit ég að það er gameplanið okkar og við munum eiga deadly skyndisóknir. Liverpool getur haldið boltanum gegn öllum og það er alltaf gaman þegar hinir halda að þeir séu svona mikið betri en við. Það veitir lika oft á gott.

  Klopp og strákarnir virka svo léttir og kátir að ég í alvöru held að við, ásamt City verðum að berjast um toppsætið eftir svona 35 umferðir. United verður þá farið að hellast rækilega úr lestinni enda að ofmeta sig í botn og london liðin verða í einhverju svipuðu bulli.

  Ánægjulegt að hópurinn sé breiður, þó meisðli séu að hrá okkur og það mun bara koma sér vel fyrir þegar leikjaplanið þéttist í köldum desember.

  YNWA

 24. Ég bjalla oft í konuna hans Coutinho, og reyndar Klopp líka. Hún hefur verið afar svekkt með bakmeiðsli Coutinho og að hann hefur ekki getað sinnt hennar þörfum, hún hefur látið mig heyra það. Hún er afar ánægð með hann núna. Steinin tók þó úr þegar hún heyrði þetta:
  I decided to leave him out of the squad for City so we can use these four or five days for real and proper training.

 25. Mæti á Paddys point á mrg á Zenia og öskra á írana þar ef að leikurinn verður lágt stilltur en nei ætla drekka nóg af Guinness og hvetja mína menn áfram. YNWA

 26. Hahahhaha….hvaða grínisti er þetta #24?
  Er þetta einhver United maður.

 27. Keita með þvílíkan screamer í kvöld í Hamborg og besti maður vallarins.

 28. Fuuuu þetta var rosalegt mark hjá Keita í kvöld, mæli með að menn kíki á það.

 29. @32. Ef þú þekkir ekki hinn góða dreng, Plumbus, ertu nýr á kop.is. Plumbus er fagur sem Flanagan, nema talsvert feitari, og ritsnilld hans er okkur öllum innblástur. Þekking hans á íþróttinni er nánast takmarkalaus. Sennilega er hér á ferð þjálfari í fremstu röð, sem ritar undir dulnefni. Grátlegt að hann sé ekki einn af hinum föstu pistlahöfundum hér, en það er huggun harmi gegn að hann riti þó a.m.k. reglulega athugasemdir.

 30. Plumbus, eða “píparabíll” eins og hann myndi kalla sig á íslensku, er góður á sínum forsendum.:-)

  Þessi leikur verður rosalegur. Heavy metal fótbolti Klopps á móti, tja, kannski jazz fusion fótboltanum hans Pep. Metallica á móti Weather Report. Verður ekki betra fyrir þá sem vilja alvöru stöff.

  Við gætum alveg unnið þennan leik ef Klopp hittir á réttu taktíkina. Mér finnst MC ekki hafa verið sannfærandi fram að þessu öfugt við suma aðra hér á þessum þræði. Flautumark á móti Bornemouth og jafntefli heima við Everton. Pep var a.m.k. ekki búinn að finna réttu leikfræðina í þessum leikjum hvað sem gerist í dag.

  Þannig að ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn en hóflega samt. Þessi leikur er ótrúlega áhugaverður ekki bara vegna þess að hér mætast tvö af skemmtilegustu liðum PL heldur mun hann sýna svart á hvítu hvað Klopp er kominn langt með Liverpool borið saman við það besta sem er í boði.

 31. Bjóst ekki við Klavan þarna.

  Starting XI: Mignolet, Alexander-Arnold, Klavan, Matip, Moreno, Henderson, Wijnaldum, Can, Salah, Mane, Firmino.

  Subs: Karius, Lovren, Milner, Gomez, Sturridge, Oxlade-Chamberlain, Solanke.

 32. Er domarinn myndi halda linu i þessum leik, Það væru þrir leikmenn city farnir utaf fyrir að snerta markvorðinn

Breytingar á hópnum

Byrjunarliðið gegn City (leikþráður)