íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Bournemouth 0 – Liverpool 4

  0-1 Salah á 25.mín
  0-2 Salah á 48.mín
  0-3 Cook (sm) á 68.mín
  0-4 Salah á 77.mín

  Gangur leiksins

  Okkar menn komu sterkt inn í leikinn, réðu hreint lögum og lofum fyrsta hálftímann án þess þó að ná að opna heimamenn svo glatt eða skapa færi. Það var á 25.mínútu að við tókum forystuna, Firmino átti skot að marki sem Begovic sló út í teig þar sem Salah mætti og setti boltann í markið…og við verðum að viðurkenna að það mark átti ekki að standa þar sem að Mo karlinn var rangstæður. Eftir þetta náðu Bournemouth að koma sér inn í leikinn en staðan í hálfleik í roki og rigningu á suðurströndinni 0-1

  Mo Salah stóð svo af sér tæklingu frá Cook vini sínum til að setja mark 2 í upphafi síðari hálfleiks og þá varð game over. Cook mun svo ekki horfa á endursýningu frá þessum leik, fyrst setti hann sjálfsmark eftir sendingu Robertson og svo fullkomnaði Mo þrennu sína þegar hann stakk Cook af, ákvað að sóla Berkovic tvisvar áður en hann setti boltann í markið.

  Frábær frammistaða – annað árið í röð förum við frá Vitality Stadium með þrjú stig og 4-0 sigur. Toppsætið okkar um stund.

  Bestu leikmenn Liverpool

  Að mínu mati besta frammistaða LFC á útivelli í vetur og bara allt liðið gott. Alisson þurfti að grípa inní og gerði það sko heldur betur, vörnin var rokk solid og miðjan náði að tengja vel. Frammi var pressan mögnuð og færanýtingin að þessu sinni góð. Eftir 60 mínútur voru Bournemouth einfaldlega bara étnir og við einfaldlega keyrðum yfir þetta lið utan við síðustu 15 í seinni hálfleik.

  En auðvitað var einn langbestur af góðu liði. Mo Salah. Geggjaður…meira í umræðupunktunum um hann síðar…

  Slæmur dagur

  Enginn slæmur, þó átti Keita pínu erfitt sóknarlega en sívinnandi og var mjög góður í því að loka á skyndisóknamöguleika Bournemouth. Hann kemur, sannfærður um það…er bara að læra inn á hvernig leikstíllinn virkar.

  Umræðupunktar

  – Mo Salah. Nefnilega það, „one season wonder“ – „eitthvað mikið að“ og fleira hefur verið sagt hingað til í vetur. Með mörkunum hans í dag er hann efstur í deildinni, jafn Raheem Sterling, þegar talið er saman mörk og stoðsendingar. Klárun í marki þrjú var náttúrulega ótrúlegt, lék tvisvar á markmanninn og beið svo eftir að Ake kæmi af línunni. Frábært að hann er farinn að klára aftur á þann hátt og algerlega klárt að hann er besti framherjinn í enska boltanum.

  – James Milner lék í dag leik númer 500 í Úrvalsdeildinni…og leysti í dag stöðu hægri bakvarðar! Þegar Rodgers sótti þennan leikmann held ég að engan hafi órað fyrir því hvað hann ætti eftir að leysa mörg hlutverk hjá okkur og miðað við formið í vetur gæti hann örugglega sótt aðra 100 í viðbót.

  – Breidd! Fyrir þessa viku vorum við að spá í hvernig gengi að nota hópinn. 6 stig á erfiðum útivöllum og Matip, Lallana, Shaqiri, Origi og fleiri fengið mínútur. Klár bæting frá síðasta ári.

  – Frábær frammistaða heilan leik eftir flottan hálfleik á Turf Moor, díselvélar eru seinar í gang en ganga svo örugglega, er það ekki bara við núna!

  – Við erum í efsta sæti, ef City var að vona að við misstigum okkur þá var það ekki að fara að gerast, koma nú Chelsea!!!

  Næsta verkefni

  Þriðjudagsleikur…Napoli…úrslitaleikur um áframhald í Meistaradeild.

  Let’s bring another amazing European night to Anfield….

 • Liðið gegn Bournemouth

  Þá er búið að tilkynna hvaða leikmenn byrja inná á móti Bournemouth núna eftir tæpan klukkutíma:

  Alisson

  Milner – Matip – Virgil – Robertson

  Wijnaldum – Fabinho – Keita

  Salah – Firmino – Shaqiri

  Bekkur: Mignolet, Mané, Henderson, Sturridge, Lallana, Origi, Trent

  Semsagt, Mané er ekki treyst til að spila allan leikinn, en er nógu hress til að vera á bekknum. Ég set Milner í bakvarðarstöðuna, en svo gæti líka verið að þetta sé meira 3-4-3 með Fabinho milli Matip og Virgil.

  Merkið endilega twitter innlegg tengd leiknum með #kopis tagginu.

  KOMA SVO!

 • Upphitun: AFC Bournemouth – Liverpool

  Á suðurströnd Englands stendur 200.000 manna smábærinn Bournemouth, heimili Eddie Howe og lærissveina hans. Liðið er fyrir margar sakir merkilegt. Eddie er sá þjálfari sem hefur verið lengst með sama liðið í úrvalsdeildinni, tók við þeim í þriðju deild á því herrans ári 2012 og náði árið 2015 að stýra liðinu alla leið upp í úrvalsdeild í fyrsta sinn í sögu þess.

  Bournemouth er lang minnsta liðið í deildinni ef miðað er við stærð vallarins en Dean Court tekur 11.500 í sæti, næsti völlur fyrir ofan (Vicarage Road hjá Watford Wat) tekur tæplega 21.000. Það er í raun þannig að Dean Court væri einn minnsti völlurinn bæði í annarri og þriðju deild en ekki skilja þetta þannig að Bournemouth séu einhverjir krúttlegir túristar í efstu deild.  Þeir hafa verið klárað um miðja deild síðustu tvö ár og eru eftir fimmtán leiki í sjötta til áttunda sæti deildarinnar ásamt Everton og Manchester United. Það þrátt fyrir að hafa tapað fjórum af síðustu fimm. Þeir hljóta vera farnir að hafa Evrópudeildar sæti sem markmið á tímabilinu, sem væri ótrúlegt afrek.

  Lið andstæðinganna

  Bournemouth spila sóknarbolta en eru brothættir baka til, búnir að fá á sig rúmlega eitt og hálft mark í leik það sem af er tímabils. Fraser og Wilson eru komnir með samtals fjórtán mörk og þrettán stoðsendingar það sem af er tímabils og Joshua King er komin með 5 mörk og eina stoðsendingu. Ekkert að því. Ef litið er aðeins neðar á markaskoraralistann þeirra, finnst Jordan nokkur Ibe með tvö mörk en hann hefur ekki mikið spilað, það eru verri menn til til að hafa á bekknum til að sprengja upp leikinn.

  Miðjumaðurinn Lewis Cook meiddist illa á móti Huddersfield í vikunni og verður væntanlega frá út tímabilið og það eru spurningarmerki við miðjumanninn Dan Gosling. Fyrir utan þá tvo er vitað að Adam Smith er áfram frá. Bournemouth fá einn auka dag í hvíld en fjórir dagar eru samt ekki mikið á milli leikja, það er spurning hversu mikið Eddie Howe vill hrófla í hópnum sem sigraði Huddersfield.

  Bournemouth leggja almennt upp með að halda boltanum og spila sig í gegnum varnir andstæðinganna. Það ætti að henta okkar mönnum vel sem sýndu í lok leiksins gegn Burnley að þeir kunna listina að tæta lið í sundur með gagnáras. Ætla að spá byrjunarliði heimamanna svona:

  Okkar menn

  Liverpool eru búnir að vinna fjóra leiki í deildinni í röð og eru ósigraðir í síðustu 16 leikjum (þar er talinn með síðasti leikurinn í fyrra). Met Liverpool á úrvalsdeildartímabilinu eru 17 leikir ósigraðir. Handan við hornið eru tveir risaleikir, Napólí og meistaradeild og svo heimsókn frá José Mourinho í næstu viku. Klopp verður að nota hópinn líkt og gegn Burnley en spurninginn er hvort hann leggi meiri áherslu á að hvíla menn eða spila þeim saman fyrir Napólí.

  Við vitum að Gomez spilar ekki næstu sex vikur eða svo eftir meiðslin gegn Burnley. Lovren verður ekki með vegna vægs heilahristings svo að Matip kemur í miðvörðinn við hlið Van Dijk (sem einhvern tímann hlýtur að fá að hvíla en guð má vita hvenær það verður). Mané er ekki byrjaður að æfa aftur með liðinu vegnar skurðar á fæti, Clyne er horfinn á ný. Robbo er hins vegar aftur komin inn (samkvæmt Klopp fékk hann heila átta tíma í pásu, æfði um morguninn á leikdegi en fór ekki með til Burnley) þannig að hann kemur væntanlega inn í bakvörðinn.

  Svo er spurningin með miðjuna. Ef Milner spilar mun það vera hans fimmhundraðasti leikur í efstu deild.  En ég held að Klopp geymi hann aðeins fyrir Napólí leikinn ásamt Hendo. Bæði Keita og Fabinho eru búnir að spila sitthvorn flotta leikinn í vikunni en ég ætla að giska á að þeir spili ekki báðir þennan leik.  Líklega kemur Gini okkar inn fyrir Keita, Fabinho fær aftur að spreyta sig og fyrir framan þá verður Firmino og svo Salah upp á topp. Ég held að Shaqiri taki annan kantinn og svo haldi Klopp áfram að koma á óvart með að leyfa Lallana að spreyta sig hinum megin. Reyndar gæti maður alveg eins giskað með píluspjaldi, þetta er sá árstími.

  Spáin

  Þú getur gleymt því að ég spái einhverju öðru en Liverpool sigri í minni fyrstu upphitun. Þetta er fyrsti leikurinn lengi þar sem okkar menn spila á undan City og munu þeir vilja koma pressunni yfir á bláa liðið til tilbreytingar. Ég held að liðið haldi áfram þar sem frá var horfið undir lokin gegn Burnley. Okkar menn munu liggja aðeins til baka til að byrja með en svo finna taktinn um miðjan fyrri hálfleik og skora tvö mörk, Salah með annað og Firmino hitt. Þegar líður á seinni hálfleik mun Sturridge svo koma inn fyrir Salah og gera út um leikinn, nokkuð þægilegur 3-0 sigur og við höldum brosandi inn í risa vikuna sem er framundan.

 • Tímabilið furðulega

  Hið gullfallega og jafnframt forljóta mark Divock Origi gegn Everton á sunnudaginn var fullkominn súmmering á þessu tímabili hjá Liverpool. Stuðningsmenn voru orðnir pirraðir og byrjaðir að missa von, Van Dijk neglir í boltann og vonin tapast en svo gerist kraftaverk og ólíklegasta hetjan á vellinum nær að pota honum inn og en og aftur vinnur Liverpool.

  Divock Origi er búinn að spila 72 mínútur í deildinni á árinu og komin með mark og stoðsendingu sem verður að teljast ansi gott fyrir leikmann sem sumir héldu að væri á láni, svo gleymdur var hann. Belginn er langt frá því að vera eini leikmaður liðsins sem hefur stígið upp það sem af er tímabils. Maður er ótrúlegt en satt farin að vona (allt, allt of snemma) að hann muni leika mikilvægt hlutverk hjá liðinu í vetur.

  Núna er rúmlega þriðjungur liðin af tímabilinu og Liverpool eru taplausir í deild. Liðið er að spila bestu vörn sem það hefur spilað á úrvalsdeildartímanum, er með hæsta stigafjölda á því tímabili og aðeins þrjú lið í deildinni hafa skorað fleiri mörk það sem af er tímabils. Þetta þrátt fyrir erfiðasta leikjaprógramm toppliðanna og þrátt fyrir að vera í dauðariðli í Evrópu. Þar hefur árangurinn ekki verið jafn glæsilegur, en þrátt þrjú ömurleg klúður á faraldsfæti eru örlög liðsins enn þá í eigin höndum.

  Stuðningsmenn ættu að vera svo miklu kokhraustari en þeir eru. En þeir eru það ekki og þegar það leit úr í smá stund út fyrir að liðið myndi missa stig gegn Burnley var maður næstum búin að afskrifa tímabilið. Sem er náttúrulega fáránlegt.

  Það á eftir að koma í ljós hvort þessi díssæti sigur á bláa liðinu og endurkoman gegn Burnley breyti umræðunni í kringum liðið, en ég á ekki von á því. Öll stemning stuðningsmanna virðist vera blanda af varkárni og neikvæðni nema rétt eftir sigranna. Maður fann það hjá sjálfum sér þegar Burnley skoraði í gærkvöld. „Jæja, það hlaut að koma að því að gamla Liverpool myndi detta inn, missa stig gegn liði fallbaráttu…“ og svo framvegis.

  Þá setti liðið loksins í hærri gír og Klopp gerði svolítið sem hann hefur ekki verið þekktur fyrir, gjörbreytti leiknum með skiptingum. Það eru ekki bara leikmenn sem eru að batna hjá Klopp, ég held að flestir séu sammála um að hann sé orðin betri þjálfari en hann var þegar hann tók við liðinu.

  Maður skynjaði það strax í upphafi tímabils að menn vildu ekki endurtaka vonbrigðin 2013-14. Í byrjun var smá vígareifur yfir mönnum. Síðan þá hefur stemningin hægt og rólega súrnað og satt besta segja myndi maður stundum halda að liðið væri um miðja deild. Rauðu mennirnir hafa samt sýnt það ítrekað að þeir tapa ekki svo glatt og núverandi stigasöfnun myndi skila þeim vel yfir 90 stiginn í lok árs. Hvað veldur því að við erum svona ófær um að njóta þess að sjá liðið sigra hvern leikinn á fætur öðrum?

  Vörn vinnur…

  Einhver hluti ástæðunnar er hinn nýi leikstíll liðsins. Pressan hefur færst aftar á völlinn, liðið treystir meira á vörn og sóknarleikur liðsins er ekki sama brjálaða flugeldasýning og þegar leið á síðasta tímabil. Hvað er langt síðan að Liverpool lið gat treyst vörninni sinni? Allavega áratugur. Síðast þegar liðið reyndi við deildartitilinn var óopinbert mottó liðsins „F*** it, við skorum bara fleiri en þeir.“ Síðustu ár hefur leikur liðsins byggt á sókn, þegar liðinu hefur gengið vel hefur það verið vegna þess að sóknarleikurinn var svo góður að hann bætti upp fyrir brothætta vörn og meðalgóða markmenn. Liðið þarf að spila þessa fanta vörn lengi til þess að stuðningsmenn hætti að vera með hjartað í brókinni í hvert sinn sem andstæðingur fær horn.

  Það eru tvær stórar ástæður fyrir nýfundnum gæðum bakatil en brassinn í rammanum og hollenska tröllið eru ekki það eina sem hefur breyst. Trent og Robbo hafa spilað meira eða minna frábærlega síðasta eitt og hálfa árið og leikskipulagið gengur meira út á að stjórna leiknum og kæfa hann en það gerði þegar Klopp byrjaði. Þjóðverjinn geðþekki er að fikra sig í átt að jafnvægi milli sóknar og varnar, ætla ekki að segja að það sé orðið fullkomið en það er teikn á lofti um að það sé alveg að finnast. Ef honum tekst að finna rétta blöndu milli sóknar og varnar verður liðið því til næst ósigrandi.

  Smá útúrdúr: Mér finnst Klopp ekki fá nóg hrós fyrir hvernig hann hefur bætt varnarleik liðsins. Man einhver eftir því, í einhverri liðsíþrótt nokkur tímann, að lið hafi tekið sinn lang stærsta veikleika og ekki bara lagað hann, heldur gert hann met góðan. Á innan við ári. Vörn Liverpool er ekki bara góð, miðað við fyrsta hluta þessa tímabils er hún ein af bestu vörnum í sögu efstu deildarinnar. Þessi umbreyting er ótrúleg. Það er ekki furða að það taki smá tíma að venjast henni.

  Katalónski fíllinn í herberginu.

  Við vitum öll ástæðu þess að við púllarar erum ekki bjartsýnni en raun ber vitni. Hann er 47 ára, fæddur og uppalinn í Barcelona og stýrir lang dýrasta liði í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Pep Guardiola.

  Það er ekki City sem slíkir sem eru að skelfa deildina, þeir eru búnir að vera eitt af bestu liðum deildarinnar í mörg ár án þess að vekja núverandi óhug hjá andstæðingum sínum. Pep er búin að breyta þeim í mulningsvél. Flest lið sem mæta þeim þessa daganna eru búin að gefast upp áður en þau koma inn á völlinn.

  Það er ekki að ástæðulausu að Pep og lið hans vekja þennan ótta í andstæðingum sínum. Síðan hann byrjaði að þjálfa aðallið Barcelona árið 2008 hefur hann tvisvar ekki unnið deildina sem hann spilar í og til þess að sigra hann setti Real Madrid stigamet. Þar ofan á bætast tveir meistaradeildar titlar og ógrynni minni bikara. Hann hefur alltaf fengið í hendurnar frábæran efnivið og alltaf gert liðin að skrímslum. Ef núverandi stigasöfnun heldur áfram mun liðið bæta frammistöðu sína frá því fyrra og enda með 103 stig. Ekki að ég að segja peningarnir sé ástæðan fyrir árangri hans, hann fær fjármuni vegna þess að hann hefur sýnt að hann kann að nota þá.

  Það eru ekki mörg spurningarmerki yfir City. Öll lið segjast vilja vinna allt sem er í boð, City segir það og maður trúir því að þeir geti það. Að vinna þrennu (eða fernu) á Englandi er miklu erfiðara en á Spáni eða Þýskalandi en eins og stendur er það raunhæft markmið fyrir City.

  City komu inn í þetta tímabil af krafti og hafa haldið honum. En það er hrikalega erfitt að halda þessum geggjaða gír sem þeir eru í, stóra vonin er að þegar þeir eru komnir djúpt í Evrópu og bikarkeppnum detta þeir aðeins niður.

  Þeir hafa líka sjaldan þurft að elta lið í toppsætið síðan Pep tók við þeim. Hver veit, ef þeir ná að misstíga sig í jólageðveikinni og Liverpool skýst upp fyrir þá mun það fara að hafa áhrif á hausinn í þeim. Við sáum það í byrjun tímabils að þeim líður ekki vel í öðru sæti, það hlýtur að vera ótrúlega pirrandi fyrir leikmenn liðsins að líta yfir öxlina á sér og sjá okkar menn alveg ofan í hálsmálinu á þeim. Þessi tvö lið eru að draga fram það besta í hvor öðru.

  Hvað næst?

  Það er hægt að gera ótrúlega langan lista yfir það sem gengur vel hjá Liverpool. Vörnin er það augljósasta og vörn vinnur titla. Sturridge og Origi eru betri menn til að eiga sem varaskeifur en flest lið geta státað af. Fabinho og Keita spiluðu báðir frábærlega í vikunni og munu væntanlega bara vaxa í sínu hlutverki. Salah er með 7 mörk og fimm stoðsendingar og það á að heita lægð. Mané virkar hættulegri en í fyrra. Milner eldist eins og vín og Klopp er ótrúlegt en satt að verða betri þjálfari. Liðið er að vinna leiki jafnt fullkomlega verðskuldað og líka öðru hverju leiki sem fyrir ári hefðu dottið í jafntefli. Anfield er orðin raunverulegt virki. Alisson.

  Það stærsta jákvæða er samt að liðið er að batna. Við ættum að vera að detta inn í 2013-14 stemninguna. Við ættum að vera kokhraust. En við erum það ekki, ekki ennþá allavega. Þess vegna er þetta tímabil svo furðulegt. Katalóníski snillingurinn er að halda henni niðri hjá okkur. Það er ótrúlega skrýtið að fagna sigri leik eftir leik og líta svo á töfluna og hugsa „Andskotinn sjálfur.“

  Ég ætla að vera svo mikil Pollýanna að segja að það sé gott að liðið sé ekki með fyrsta sætið og þurfi að elta. Pressan á að vinna deildina er meiri hjá Liverpool en hjá nokkru öðru liði. Ef hún fengi marga mánuði til að byggjast upp grunar mig að hún yrði einhverjum leikmönnum liðsins óbærileg. Eins og stendur er liðið ekki að eltast við titilinn, það er að elta City. Sem er fáranlega erfitt en líklega auðveldara andlega en að eltast við 28 ár af vonbrigðum.

  Tengd mynd

  Núna eru tveir leikir búnir af jólageðveikinni. Tölvan sem gerði leikjaprógrammið gerði okkur enga greiða frekar en fyrri daginn en það eru fleiri en við sem eiga erfitt prógramm. Klopp sýndi það í fyrra að hann er orðinn betri í að rótera hópnum, nú þarf hann að sýna að hann getur komið liðinu í gegnum desember og síðan haldið dampi inn í nýja árið. Ef liðið er enn þá á hælunum, eða jafnvel komnir yfir City í janúar mun trúin fara að gegnumsýra stuðningsmenn liðsins.

  Við vitum öll hvernig Anfield er þegar mikið er undir, ég myndi engan annan heimavöll frekar hafa þegar kemur fram á vor. Hægt og rólega mun umræðan umbreytast úr „geta Liverpool haldið í við City“ og í „geta City haldið þetta út.“ Tala nú ekki um ef Liverpool fer að finna gírinn sem við sáum í lok Burnley leiksins aftur og aftur.

  Að Liverpool séu ekki efstir eftir þessa fyrstu fimmtán leiki er fáránlegt. Að City séu ekki stungnir af eftir sína fyrstu fimmtán er líka fáránlegt. Til að vinna titilinn í ár mun líklega þurfa svo gott sem stigamet og liðið í öðru sæti mun að öllum líkindum vera lang stigahæsta lið í öðru sæti í sögu deildarinnar. Þetta er fáránlegt tímabil sem stefnir í að verða æsispennandi fram í maí.

  Það væri rangt að vera sigurviss núna, en það er verra að geta ekki notið vegna þess að maður heldur að eitt jafntefli muni eyðileggja allt. Þetta lið er eitt það besta sem spilað hefur á Anfield og það verða fleiri „OOOOOOOORIGI“ augnablik. Hvort það dugar til verður að koma í ljós, en hrikalega er þetta búið að vera gaman hingað til ekkert að gera nema njóta.

 • Burnley 1 – 3 Liverpool

  Liverpool skruppu norður til Turf Moor í kvöld og unnu góðan 1-3 sigur á heimamönnum í Burnley. Með þessum sigri hefur liðið náð besta árangri sem Liverpool hefur náð í upphafi leiktíðar í sögu félagsins. Hvorki meira né minna. Leikurinn fór fram í kjölfar talsverðra rigninga, svo völlurinn var rennblautur. Vætan hafði haft þau áhrif að leikur kvennaliðs Liverpool og Everton sem átti að fara fram fyrr um kvöldið á Prenton Park var frestað vegna vatnselgsins.

  Mörkin

  1-0 Cork (54. mín.)
  1-1 Milner (62. mín.)
  1-2 Firmino (69. mín.)
  1-3 Shaqiri (90+2 mín.)

  Leikurinn

  Klopp gerði 7 breytingar frá síðasta leik, aðeins Alisson, Virgil, Gomez og Shaqiri héldu sæti sínu í liðinu, og þar af voru tveir þeirra í annarri stöðu en í leiknum á undan. Mögulega var verið að spila leikkerfi í ætt við 4-4-2 með Sturridge og Origi frammi, en Sturridge var þó alltaf svolítið dýpri og var duglegur að koma niður á miðjuna, svo kannski var þetta meira 4-4-1-1.

  Fyrri hálfleikur var satt að segja frekar tíðindalítill. Liðið leit út fyrir að vera hálf bitlaust, og ef eitthvað var leit Burnley út fyrir að vera líklegra til að skora. Liðið gerði það svosem undir lok hálfleiksins, en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Aðal tíðindi hálfleiksins voru hins vegar þau að það þurfti að bera Gomez af velli á 20. mínútu eftir að hann átti gott hlaup upp kantinn, en var tæklaður (löglega) upp við endalínu og rann útaf. Við vonum auðvitað að meiðslin séu ekki alvarleg og að hann komi fljótt til baka, en fyrstu viðbrögð úr herbúðum liðsins eru þó á þá leið að hann gæti verið eitthvað frá, það kemur betur í ljós á morgun eftir að ökklinn verður skoðaður. Trent kom inn á, þó svo að planið hafi örugglega verið að hvíla hann eins og hægt væri.

  Það var hins vegar allt annað að sjá liðið í síðari hálfleik. Sturridge átti gott skot fyrir utan teig sem Hart varði naumlega í horn. Skömmu síðar átti Keita frábært hlaup sem hófst rétt fyrir framan miðju, og endaði rétt fyrir utan teig með góðu skoti sem Hart varði aftur, núna í stöng og í horn.

  Á 54. mínútu dró svo til tíðinda hinum megin á vellinum. Jóhann Berg tók horn, það náðist ekki að hreinsa boltann sem dansaði eitthvað á markteig. Alisson hafði hönd (hendur?) á boltanum, en boltanum var sparkað frá honum, og Cork náði að pota boltanum inn. Það verður nú að segjast að þetta mark var afar vafasamt, og hefði ekkert endilega staðið ef VAR hefði fengið tækifæri til að skoða þetta betur. En hugsanlega var þetta nóg til að kveikja í okkar mönnum því þeir settu í næsta gír eftir þetta mark.

  Það liðu 8 mínútur þar til gestirnir voru búnir að jafna. Liðið sótti upp vinstri kantinn, boltinn barst til Origi inni í teig sem skýldi boltanum vel, renndi svo út á Milner sem átti hnitmiðað skot milli lappa á einum varnarmanni Burnley og í fjærhornið, algörlega óverjandi fyrir Hart. Skömmu síðar var svo gerð tvöföld skipting, Firmino og Salah komu inná fyrir Origi og Moreno. Mér sýndist Milner fara niður í vinstri bak, og Firmino á miðjuna. Þar með má segja að bæði hann og Sturridge hafi verið í holunni, og liðið mögulega að spila e.k. 4-3-2-1 með Salah upp á topp. Eins og alltaf voru fremstu menn þó afar fljótandi og ekki alveg gott að festa fingur á leikskipulaginu. Firmino sást út um allan völl, og gat allt eins dúkkað upp milli miðvarðanna eins og í teignum.

  Firmino og Salah höfðu svo ekki verið lengi inná þegar liðið náði forystunni. Sturridge vann aukaspyrnu aðeins fyrir utan vítateig. Mögulega kom útfærslan á spyrnunni beint af æfingasvæðinu, því Trent gaf boltann inn á markteig, rétt vinstra megin við markið, þar var Virgil mættur, sendi boltann inn á markteig þar sem Firmino bókstaflega gat ekki annað en rennt boltanum í markið með sinni fyrstu snertingu í leiknum.

  Liðið gaf svo ekkert mikið eftir þrátt fyrir að vera komið í forystu. Svipaða sögu var að segja um Travelling Kop sem var í roknastuði, söng m.a. „Merry Christmas Everton“ ásamt fleiri söngvum, og yfirgnæfðu heimamenn oft.

  Á 82. mínútu áttu okkar menn svo góða sókn sem var með ólíkum kindum að skyldi ekki enda með marki. Fjögur skot náðust á markið, tvö varin af Hart, tvö blokkeruð af vörninni, og sóknin endaði með hornspyrnu sem ekkert varð svo út.

  Á 91. mínúta var svo gert út um leikinn. Burnley átti sókn, og áttu skot að marki sem stefndi í vinkilinn, en Alisson greip inn í af miklu öryggi og átti meistaramarkvörslu. Boltinn barst aftur út, og var svo um það bil á leið aftur fyrir hliðarlínu þegar hann kom aftur og hirti boltann. Hann var svo ekkert að tvínóna við að koma boltanum í leik (eitthvað sem maður sá Mignolet ALDREI gera), boltinn barst til Sturridge sem stakk boltanum fram á Salah, hann vippaði yfir varnarmann beint í lappirnar á Shaqiri sem var á auðum sjó og skoraði.

  Góður dagur

  Það eru í raun nokkrir leikmenn sem geta gert tilkall til þess að hljóta nafnbótina maður leiksins. Keita kom afar sterkur inn, kom með mikla ógn inn af miðsvæðinu og var hársbreidd frá því að skora eitt eða jafnvel tvö mörk. Sturridge er vissulega ekki sá leikmaður sem hleypur mest eða er mest í því að taka menn á, en maður skynjar að leikskilningur hans sé eins og hjá manni sem er búinn að vera í töttöguogfemm ár í bransanum. Hann átti margar sendingar sem sköpuðu hættu, og virðist vera að finna sig mjög vel í þessu hlutverki í holunni. Virgil átti góðan leik sem endranær, átti stoðsendingu annan leikinn í röð (jú kiksið í Everton leiknum telst sem stoðsending…). Firmino kom sterkur inn af bekknum, og maður spyr sig hvort hann og Sturridge séu ekki bara ágætir saman þarna fyrir aftan fremsta mann, sífellt að detta dýpra að sækja boltann ef þess þarf. Salah gerði vel, hann er jú klárlega að draga til sín varnarmenn eingöngu með því að vera inni á vellinum, og svo átti hann stoðsendingu. Origi var að byrja sinn fyrsta leik í guðmávitahvað langan tíma, og þrátt fyrir að hafa kannski ekki verið alveg jafn eitraður og hann reyndist vera í síðasta leik, þá átti hann góða spretti og átti sinn þátt í fyrsta markinu. Nú og svo má ekki gleyma Alisson, markvarslan undir lok leiksins og það hversu fljótur hann var að koma boltanum í leik þýddu hugsanlega 3-1 sigur í staðinn fyrir 2-2 jafntefli. Munar um minna. Þá var Trent síógnandi upp hægri kantinn. Við skulum gefa Keita nafnbótina, en eins og áður sagði koma margir aðrir sterkir inn og í raun var þetta sigur liðsheildarinnar og þess karakters sem býr í liðinu og sýndi sig þegar liðið lenti undir.

  Vondur dagur

  Að sjálfsögðu mun það hafa talsvert að segja ef Gomez verður frá í einhvern tíma vegna meiðsla. Hann hefur jú verið sá sem hefur verið að rótera með Trent í hægri bak, en núna reynir á Lovren og Matip í hinni miðvarðarstöðunni með Virgil. Svo var líka algjör óþarfi að fá á sig þetta mark, ég hefði alveg þegið enn eitt hreint lak í línskápinn.

  Umræðan eftir leik

  Nú tekur við endurheimt hjá leikmönnum fyrir næsta leik sem er á móti hinum stjóranum í deildinni sem lengst hefur verið við stjórnvölinn, þ.e. Eddie Howe hjá Bournemouth. Þar er lið sem er sýnd veiði en ekki gefin, liðið er í 7. sæti í deildinni með jafnmörg stig og Everton og United. Það verður því hörku erfiður leikur, og ekki verður svo leikurinn þar á eftir mikið auðveldari enda mæta þá Napoli á Anfield í leik sem einfaldlega verður að vinnast.

  Það er ljóst að liðið stóðst þetta „rotation“ próf, það var nauðsynlegt að hvíla allnokkra leikmenn, og alveg klárt að það þarf að passa vel upp á hópinn á næstunni. Robertson og Mané mega alls ekki vera lengi frá, og ef Gomez verður frá í einhvern tíma verða Lovren, Matip og jafnvel Clyne að vera standby, því Trent er sjálfsagt ekki að fara að spila hvern einasta leik sem eftir lifir desember í hægri bak.

  Önnur úrslit féllu svo alveg ljómandi vel með okkar mönnum. Arsenal og United töpuðu bæði tveim stigum, Everton gerði jafntefli, og Úlfarnir náðu að snúa leiknum sér í vil og unnu Chelsea. Hins vegar eru það auðvitað úrslitin hjá City sem skipta lang mestu máli, og þeir virðast ekkert vera að missa dampinn. Jafnframt unnu Spurs sinn leik gegn Danny Ings og félögum, en nú er staðan sú að Liverpool er með þægilegt 6 stiga forskot á liðið í þriðja sæti. Við höfum því minnstar áhyggjur af liðunum fyrir neðan okkur, og óskum þess nú sem heitast að ljósbláa liðið frá Manchester fari nú að misstíga sig eins og einusinni eða tvisvar. Það má líka alveg snúa þessu aðeins við: pælið í að vera í sporum City, hafa byrjað þessa leiktíð betur heldur en þá síðustu, en vera samt ekki búnir að hrista Liverpool af sér?

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!