íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Gomez gæti þurft aðgerð – Lovren líka meiddur

  Hroðalegar fréttir að slá okkur núna í kvöld og á afskaplega vondum tíma. Joe Gomez sem hefur verið frá undanfarnar vikur er ekkert að batna og gæti þurft aðgerð með tilheyrandi fjarveru til viðbótar. Hann var auðvitað búinn að eiga frábært mót fram að því.

  Eins er Dejan Lovren kominn aftur á meiðslalistann, það er orðið nokkuð ljóst að þar er á ferðinni gallað eintak. Hann er alltaf meiddur.

  Sú ákvörðun Klopp að fækka varnarmönnum Liverpool í janúarglugganum hefur virkað fáránleg frá byrjun en eins og staðan er núna er þetta farið að verða alveg galið. Enn verra er að það er ekkert skárra að treysta á Matip, hann er ekki sjaldnar meiddur en þeir Gomez og Lovren.

  Enn eitt helvítis árið virkar hópur Liverpool of tæpur yfir heilt tímabil og með þessu er orðið fullreynt að leggja svona mikið traust á þessa miðverði sem skiptast á að spila með Van Dijk.

  Trent Alexander-Arnold verður ekki heldur með gegn West Ham er vonandi klár eftir þann leik. Það er svo ekki langt í fyrri leikinn gegn Bayern þar sem Van Dijk er í banni.

  Fari það í kolbölvað bara

 • Lazar Markovic til Fulham (Staðfest)

  Verulega þungt högg rétt áður en glugganum lokaði, Fulham keypti Lazar Markovic!

  Þetta er búið!

  Við viljum benda þeim stuðningsmönnum Liverpool sem ekki hafa kost á sálfræðiþjónustu að styðja hvern annan til að takast á við þetta áfall. Það hjálpar að tala saman þegar svonalagað dynur á manni. Ummælakerfið hjá okkur t.a.m. alveg tilvalið.

  Þessi ungi og efnilegi leikmaður sem kostaði ekki nema 20m þrátt fyrir að vera eitt mesta efni heimsfótboltans spilaði 19 leiki fyrir Liverpool en hann hefur einmitt (að því er manni finnst) verið í 19 ár á mála hjá Liverpool.

  Vegni honum sem allra best hjá Fulham.

 • Liverpool 1 – 1 Leicester

  1-0 Sadio Mané (2.mín)

  1-1 Harry Maguire (45. mín)

  Liverpool voru ekki lengi í gang í kvöld á köldu kvöldi gegn Leicester á Anfield en eftir aðeins tveggja mínútna leik náði Robertson að koma boltanum eftir jörðinni inn í teig, þar sem boltinn barst til Sadio Mané. Hann tók frábæra fyrstu snertingu frá varnarmanninum og skaut svo boltanum í fjærhornið framhjá Kasper Schmeichel sem kom engum vörnum við. Liverpool var svo með öll völd á vellinum eftir markið, Leicester lágu aftarlega og Liverpool voru þolinmóðir og létu boltan ganga mikið en gekk illa að finna tækifærin gegnum varnarmúrinn. Fyrsta alvöru hættan kom eftir 24. mínútur þegar Jamie Vardy pressaði Alison og náði að komast inn í sendingu frá honum og boltinn barst á Albrighton á kantinum sem kom með góða fyrirgjöf á Maddison sem skallaði framhjá markinu. Eftir það náðu Leicester menn vinna sig betur inn í leikinn.

  Eftir 40.mínútna leik stal Robertson boltanum eftir eina af sóknum Leicester manna og stakk boltanum inn fyrir varnarlínuna þar sem Sadio Mané var á harðaspretti en var tekinn niður af Harry Maguire sem fékk þó aðeins gult þrátt fyrir að vera aftasti varnarmaður. Rétt áður en flautað var til leikhlés gaf Robertson klaufalega aukaspyrnu úti við hliðarlínu sem James Maddison tók og sendi fyrir eftir klafs í teignum kom skot í varnarmann en Ben Chilwell skallaði boltan aftur inn í teig þar sem Harry Maguire var gjörsamlega óvaldaður og skoraði með síðustu spyrnu hálfleiksins.

  Það voru svo Leicester liðar sem áttu fyrsta tækifæri seinni hálfleiksins þegar Chilwell náði að draga þrjá varnarmenn til sín og fann svo Maddison í góðu færi sem náði þó ekki að koma boltanum á markið. Stuttu seinna fengu þeir svo aukaspyrnu á hægri vængnum sem þeir náðu að koma inn á Maguire, sem var rangstæður en ekki flaggað, hann skallaði boltanum þvert fyrir markið í átt að Johnny Evans en Firmino náði að stinga fæti í boltann og Allison kom í veg fyrir sjálfsmark frá honum.

  Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik var loks eitthvað lífsmerki frá Liverpool þegar Keita og Firmino tóku flott þríhyrningsspil og Keita slap í gegn en Ricardo Pereira stígur á vinstri fótinn á Keita svo hann náði ekki skoti en Martin Atkinson sá það ekki nógu vel og ekkert dæmt. Það sem eftir lifði seinni hálfleiks var ekki mikið af góðum tækifærum. Schmeichel varði vel frá Firmino en annars var lítið að frétta.

  Bestu menn Liverpool

  Til að vera hreinskilinn þá var liðið slappt í dag fyrir utan fyrstu tuttugu mínúturnar. Sadio Mané var flottur í fyrri hálfleiknum og var líklega besti leikmaður liðsins í dag. Skoraði markið og var frekar líflegur á köflum. Gini Wijnaldum skilaði ágætis leik á miðsvæðinu.

  Vondur dagur

  Mo Salah var líklega slakasti maður liðsins í dag en það voru margir sem áttu ekki góðan dag. Naby Keita var óheppinn að næla ekki í vítaspyrnu en hann er hreinlega ekki að komast í takt við liðið. Hann hefur átt nokkrar rispur en þær eru bara svo alltof fáar og ég er farinn að verða hræddur um að hann nái aldrei taktinum hjá okkur, þó ég voni að sjálfsögðu að hann láti mig éta þau orð. Robertson braut klaufalega af sér þegar við fáum á okkur jöfnunarmarkið og Van Dijk týnir Maguire þegar hann er að ýta vörninni framar þegar boltinn er á leiðinni frá markinu. Eins var mjög lítil sköpun hjá sóknarmönnum liðsins.

  Umræðan

  • Slæmir dagar koma og auðvitað er mjög pirrandi að hafa ekki náð að klára þennan leik en þetta er fyrsta liðið fyrir utan topp sex sem tekur stig af okkur í ár og við vorum að bæta við okkur stigi í samkeppninni við Man City. Munurinn er nú fimm stig og þrátt fyrir að maður sé einstaklega pirraður eftir þennan leik er titillinn enn okkar að tapa.
  • Breiddin/skiptingarnar. Ég veit ekki með ykkur en ég hafði gjörsamlega enga trú á að Adam Lallana eða Daniel Sturridge væru að fara koma og bjarga þessum leik fyrir okkur. Hinsvegar var ekki mikið að velja úr á bekknum í þessum leik. Spurning hvort það komi í bakið á okkur að vera ekki með nægilega góða sóknarskiptingu á bekknum þegar við spilum með Shaqiri frá byrjun. Fabinho kom þó ágætlega inn og ég eiginlega vona að hann hafi ekki verið alveg heill eftir meiðslin í Palace því ef ekki þá skil ég ekki ástæðuna að starta ekki á honum í dag.
  • Við fórnuðum bikarkeppnum til að fá meiri hvíldartíma og eftir langa hvíld er þetta frammistaðan sem við fengum!

   

  Leikurinn mikil vonbrigði en við erum enn í bílstjórasætinu og það þýðir ekkert að gráta töpuð stig heldur þarf liðið nú að rífa sig í gang og mæta dýrvitlausir á London Stadium gegn West Ham mönnum. Það eru fjórtán leikir eftir af þessu móti, nú þarf bara gefa í og vinna þann næsta!

 • Byrjunarliðið gegn Leicester

  Henderson er að öllum líkindum hægramegin í kvöld en ef mér reiknast rétt til hefði hann verið ca. 6. kostur í þá stöðu fyrir tímabilið á eftir Trent, Gomez, Milner, Clyne og Fabinho! Wijnaldum eða Keita gætu svosem verið þar líka.

  Alisson

  Henderson – Matip – Van Dijk – Robertson

  Wijnaldum – Keita

  Shaqiri – Firmino – Mané
  Salah

  Bekkur: Mignolet, Fabinho, Lovren, Sturridge, Lallana, Origi, Camacho.

  Þetta er líklega nær 3-4-3 reyndar enda Liverpool verið að spila þannig oft á tíðum undanfarið í þeim skilningi að djúpi miðjumaðurinn fellur oft milli miðvarðanna á meðan okkar bakverðir spila mun meira sem kantmenn heldur en bakverðir.

  Hvernig svosem Klopp ætlar að sjóða þetta saman þá er þessi leikur DAUÐAFÆRI eftir úrslit gærkvöldsins og bannað að nýta það ekki. Keita fær sénsinn á miðjunni í fjarveru Fabinho sem var tæpur vegna veikinda í vikunni en þó nógu hress til að vera á bekknum. Shaqiri er í sóknarlínunni og því ljóst að það verður sótt til sigurs í kvöld.

  KOMA SVO, ANDSKOTINN HAFI ÞAÐ.

  Það er svo langt frá því að maður hafi taugar í þetta.

 • Gullkastið – RAFA BENITEZ

  Ef að Ölgerðin hannaði fótboltakvöld þar sem Liverpool á ekki leik…
  Rafa Benitez gerði sér lítið fyrir og vann Manchester City fyrir okkur og það eftir að hafa lent undir. Skítt með leikmenn Newcastle, við skrifum þennan fullkomlega á okkar mann. Liverpool hefur ekki spilað leik síðan við tókum upp síðast og því tilvalið að taka hús á Man Utd enda mikið gengið á hjá þeim undanfarið og var sómadrengurinn Skúli Brynjólfsson (bróðir SSteins) með okkur sem fulltrúi þeirra fyrsta hálftímann. Newcastle, Man City, Leicester og West Ham fá öll sinn tíma í seinni hluta þáttarins.

  06:30 – United umræða með Skúla
  38:30 – Æfingaferðir, laskað lið og leikmannaglugginn.
  48:20 – Styttu á Anfield, Rafa Benitez að faðma Klopp.
  57:00 – Algjörlega óútreiknanlegt Leicester lið
  01:06:00 – West Ham á mánudaginn

  Stjórnandi: Einar
  Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Skúli Brynjólfsson stuðningsmaður United (og bróðir Steina).

  MP3: Þáttur 225

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!