Latest stories

 • Gullkastið: EVRÓPUMEISTARAR

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Hr. Evrópumeistari, Maggi, Maggi Beardsley, Daníel, Ingimar og Óli Haukur

  MP3: Þáttur 242

  Eigum við ekki að segja að þetta sé fyrsti þátturinn af nokkrum þar sem við reynum að gera þessum fáránlega sæta sigri í Meistaradeildinni 2019 einhver skil því við erum ekki nærri því hættir að tala um þennan mikilvæga áfanga.

  Leikurinn var ekki fyrir hlutlausa, öllum hjá Liverpool er skítsama um hina hlutlausu enda búið að skemmta þeim nóg. Það sást líka í vetur að það er enginn hlutlaus þegar kemur að Liverpool. Óttinn við lætin í okkur ef við myndum vinna eitthvað var sannarlega raunverulegur og nú er líka eins gott fyrir okkur að standa undir því.

  Skítt með “hlutlausa” og skemmtanagildi leiksins, sigur var það eina sem skipti máli. Þessi sigur setur hinsvegar ljóskastara á öll þau moment sem þurfti til að koma okkur til Madríd. Leiðin þangað var allt annað en leiðinleg.

  Bobby labbaði bara í gegnum vörn PSG til að kála endurkomu þeirra á Anfield. Alisson hélt draumnum lifandi gegn Napoli með markvörslu á 89.mínútu. Moment á stærð við endurkomuna gegn Olymipakos árið 2005.

  Bayern ætlaði að ganga frá einvíginu heima í Munchen eins og þeir hafa gert svo oft áður. Fyrir þeim er allt undir 5-1 sigri heima gegn ensku liði vonbrigði. Þeir áttu ekki glætu á Allianz og voru hálf sjokkeraðir eftir leik. Ferð okkar til Þýskalands var fullkomlega frábær en fær ennþá meira vægi á tímabili þar sem titlinum var landað.

  Önnur ferð til Porto var bara sanngjörn enda geggjuð borg.

  Endurkoman gegn Barcelona er svo Istanbul moment þessarar leiktíðar. Besta kvöld Anfield Road frá upphafi sem er rosalegt shout miðað við að félagið var stofnað á þarsíðustu öld og völlurinn er þekktur fyrir rosaleg kvöld.

  Innkoma Wijnaldum og sigurmark Origi skipta núna öllu máli öfugt við t.d. sigurmörk Lovren gegn Dortmund og Coutinho gegn Man Utd árið 2016.

  Trúi ekki öðru en að styttan af Divock Origi sé að verða tilbúin. Sigurmarkið hans á 96.mínútu gegn Everton er bara í þriðja sæti yfir hápunkta tímabilsins hjá honum þrátt fyrir að hafa bara spilað nokkrar mínútur. Mark sem var svo rosalegt að Klopp tók sprett inn á miðjan völl til að fagna því með steinhissa Alisson.

  Klopp vann sitt heittelskaða Dortmund Lovren kvöldið 2016. Það var ekki alveg sama lovefestið þegar Suarez og Coutinho mættu aftur á Anfield talandi um að ætla ekki að fagna af virðingu við stuðningsmenn Liverpool. Þeim var ekki gefin ein einasta ástæða til að fagna og ekki sýnd ein einasta virðing á Anfield, hvorki innan né utanvallar. Að henda þeim úr Meistaradeildinni og vinna hana svo fullkomnar alveg þessa endurkomu sem stóð alveg fyrir undir nafni sem sú besta í sögu Anfield

  Liverpool vann þann sjötta á tímabili þegar Man Utd endar í sjötta. En það sem er svo miklu mikilvægara er að þessi sigur staðfestir endanlega endurkomu Liverpool.

  Það var við hæfi að vinna þetta í Madríd, ná í helvítis bikarinn sem við áttu svo skilið að vinna í fyrra. Þegar nafn Liverpool var grafið á bikarinn var jafnframt grafið nafn allra leikmanna liðsins í sögubækurnar, þeir verða alla tíð goðsagnir hjá Liverpool.

  Innilega til hamingju og gleðilegt sumar.

  [...]
 • Besti dagur internetsins…

  Internetið hefur aldrei verið skemmtilegra en akkurat í dag fyrir okkur stuðningsmenn Liverpool. Gærkvöldið er svo risa risa risastórt fyrir félagið og okkur stuðningsmenn að maður á aðeins í basli með að ná utan um þetta. Fjórtán ára bið á enda þar sem Liverpool hefur endað í öðru sæti, jafnvel oftar en einu sinni í öllum þeim keppnum sem félagið hefur tekið þátt í og skipta einhverju máli. Liverpool fór svo gott sem á hausinn í byrjun þessa áratugar og endar hann með svona stæl.

  Það er Gullkast í kvöld en til að reyna ná aðeins utan um stemminguna hendum við brot af því sem komið hefur á safélagsmiðla í dag.

  Byrja á mynd frá því þegar Jurgen Klopp tók við Liverpool árið 2015

  Þetta er Heavy Metal fótboltinn sem við vildum sjá.

  Stemmingin í Madríd fyrir leik var í ruglinu

  Viðbrögð okkar allra þegar Origi skoraði, guð minn góður.

  Horfið vel á fyrstu fimm sekúndurnar af þessu

  (more…)

  [...]
 • Sjötti Evróputitillinn í höfn

  Liverpool eru sigurvegarar Meistardeildarinnar 2019. Sá sjötti er í höfn!

  Mörkin

  0-1 Salah (2. mín., víti)
  0-2 Origi (87. mín)

  Gangur leiksins

  Það voru líklega ansi margir rétt svo búnir að koma sér fyrir og kannski einhverjir enn að sækja snakkið eða Ribena safann þegar dró til tíðina. Liverpool tók miðju, eftir örfáar snertingar fékk Henderson boltann á miðjunni, vippaði inn fyrir á Mané sem lék inn í vítateiginn, þar var Sissoko að gefa einhverjar bendingar til annarra í vörninni. Fyrirgjöfin frá Mané fór semsagt í handarkrikann á Sissoko og rúllaði svo eftir höndinni á honum, og dómarinn gat einfaldlega ekki annað en dæmt víti. Það verður seint hægt að halda því fram að höndin á Sissoko hafi verið í eðlilegri stöðu, enda kíkti VAR á þetta sömuleiðis og sá ekki ástæðu til að breyta dómnum. Þar sem Milner var ekki inná var Salah kallaður til. Spyrnan var föst, en hvorki mjög há né mjög fjarri miðjunni. Lloris fór í rétt horn en kom ekki hönd á boltann sem söng í netinu. 1-0 eftir rúma mínútu! Þetta setti vissulega svip sinn á leikinn, því það var eins og okkar menn bökkuðu og leyfðu Spurs að hafa frumkvæðið. Ekki það að þeim hafi tekist að gera neitt við það frumkvæði, því þeir náðu ekki skoti á markið. Trent átti hins vegar mjög efnilegt skot á 17. mínútu af 25-30 metra færi sem fór rétt framhjá markinu. Skömmu síðar þurfti svo að gera örstutt hlé á leiknum þegar léttklædd kona hljóp inn á völlinn, að því er virtist til að auglýsa einhverja Youtube rás hjá rússneskum grínista. Þessi stúlka reyndist vera sú eina sem komst framhjá Virgil van Dijk í leiknum, og verður sjálfsagt komin í leikmannahóp einhvers úrvalsdeildarliðsins á næstu leiktíð fyrir vikið. Á 38. mínútu fékk svo Robertson boltann á miðjum eigin vallarhelmingi með nokkuð auða flugbraut fyrir framan sig, hljóp upp að vítateig og hlóð þar í skot sem Lloris varði yfir. Fleira markvert gerðist líklega ekki í þessum hálfleik, sem má segja að hafi einkennst af góðum varnarleik hjá okkar mönnum og mögulega af yfirspenntum taugum.

  Seinni hálfleikur byrjaði svipað eins og sá síðari, þ.e. Spurs voru meira með boltann án þess að gera neinar sérstakar rósir. Eftir tæpan stundarfjórðung fór svo Firmino út af og Origi kom inn á í staðinn, og skömmu síðar kom Milner inná fyrir Wijanldum. Þeir tveir sem fóru útaf höfðu líklega verið sístir af annars jöfnu liði, og nokkuð ljóst að Firmino var ekki búinn að ná upp leikæfingu, en var þó sá leikmaður sem hljóp mest af okkar mönnum í fyrri hálfleik. Milner var ekki búinn að vera lengi inná þegar hann rak endahnútinn á góða sókn en skot hans smaug naumlega framhjá. Pressan frá Spurs fór nú að aukast, og síðasta korterið gerðu þeir harða atlögu að marki okkar en lentu þar á vegg sem heitir Alisson Becker. Á 75. mínútu átti Son gott hlaup í gegnum vörnina, og var nálægt því að komast framhjá Virgil, en hann náði að hreinsa í horn þegar þeir voru báðir komnir inn í teig. Fimm mínútum síðar átti Son gott skot fyrir utan teig sem Alisson varði til hliðar, boltinn barst aftur inn á teig þar sem Lucas Moura var staddur nálægt vítateigspunktinum en náði ekki mjög föstu skoti svo Alisson varði aftur. Fjórum mínútum síðar fengu Spurs aukaspyrnu alveg upp við vítateig vinstra megin, Eriksson átti mjög gott skot en Alisson varði fimlega í horn.

  Það var svo á 87. mínútu sem okkar menn gerðu í raun út um leikinn. Milner tók hornspyrnu, varnarmenn Spurs reyndu að skalla frá en boltinn lenti fyrir fætur Matip sem renndi honum á Origi sem var óvaldaður vinstra megin í teignum. Færið sem hann fékk var fjarri því að vera eitthvað auðvelt, en hann átti frábært og hnitmiðað skot í fjærhornið, óverjandi fyrir Lloris. Staðan 2-0, og jafnvel þó svo Spurs hafi náð að vinna upp tveggja marka forskot Ajax í seinni undanúrslitaleiknum, þá áttu þeir einfaldlega ekki roð í vörn Liverpool. Gomez kom inná fyrir Mané og fór í hægri bakvörðinn, sem þýddi að Trent fór framar. Gomez var ögn ryðgaður og missti einn mann framhjá sér en því var bjargað af restinni af vörninni. Það voru 5 mínútur í uppbótartíma en það kom ekkert færi sem Alisson réð ekki nokkuð auðveldlega við, og þegar dómarinn flautaði til leiksloka brutust út gríðarleg fagnaðarlæti hjá okkar mönnum og áhangendum á pöllunum og líklega um allan heim.

  Menn leiksins

  Það er erfitt að taka einhvern einn leikmann út úr þessari gríðarlega sterku liðsheild. Þeir einu sem hafa hugsanlega átt betri leik voru Firmino og Wijnaldum, en þeir voru samt að vinna fyrir alla liðsheildina. Vörnin var að spila upp á 9,5 eins og svo oft áður. Eigum við eitthvað að ræða þetta bakvarðarpar okkar? Trent átti t.d. frábæra varnarvinnu einn á móti Son í fyrri hálfleik, átti svo skot sem hefði með smá heppni getað endað í netinu, og var síógnandi. Svipað má segja um Robertson, vann vel varnarlega, átti gott skot, og átti líka fína fyrirgjöf í seinni hálfleik sem Lloris gerði vel að fara út í teig og hirða því sú var á leiðinni á tærnar á Mané. Miðvarðarparið okkar var líka að eiga afskaplega góðan leik, Matip átti jú stoðsendingu í seinna markinu og var afskaplega traustur varnarlega þar fyrir utan. Satt að segja er erfitt að sjá þetta miðvarðarpar fara eitthvað á næstunni, Klopp segist vera ánægður með það mannaval sem hann hefur í þessa stöðu, og það má segja að það sé alveg rétt hjá honum, bara svo lengi sem þeir haldast heilir #krossafingur. Nú og svo var það Alisson. Ekki nóg með að hann varði allt sem á markið kom, heldur gerði hann það á þann hátt að annaðhvort greip hann boltann, eða þá að hann blakaði honum yfir í svæði þar sem enginn sóknarmaður Tottenham var staddur. Þetta sáum við reyndar líka í leiknum á móti Barcelona á Anfield, og því ekkert nýtt þar svosem. Ég tilnefni því Alisson sem mann leiksins. Að sjálfsögðu þarf að minnast á sóknarlínuna sömuleiðis. Salah og Mané voru síógnandi, og Origi heldur áfram að stimpla sig inn sem költ-hetja í Liverpool. Að lokum er svo rétt að tala um Fabinho og Milner, sem báðir voru sérlega áreiðanlegir eins og svo oft áður.

  Rétt er að minnast sérstaklega á tvo aðra einstaklinga.

  Jordan Henderson hefur þurft að þola alls konar gagnrýni, stundum réttmæta en lang oftast ósanngjarna. Hann var núna að lyfta Meistaradeildarbikarnum sem fyrirliði Liverpool. Hann var sívinnandi allan leikinn, bæði í vörn og sókn, og hafi einhver einstaklingur átt það skilið að lyfta þessum bikar þá var það Hendo.

  Hinn einstaklingurinn er Jürgen Norbert Klopp. Eftir 6 úrslitaleiki, þrjá með Dormund og þrjá með Liverpool, þá kom loksins sigur. Sjaldan hefur nokkur knattspyrnustjóri átt jafn mikið skilið að vinna úrslitaleik eins og þennan. Því miður er fótboltinn ekki sanngjörn íþróttagrein, því Klopp hefði átt að vera löngu búinn að vinna bikara. En í kvöld réð sanngirnin ríkjum. Það er líka rétt að minnast á að í kvöld var Klopp fljótur að bregðast við og gera breytingar á liðinu. Við höfum oft séð hann halda sig við þá leikmenn sem byrja leikinn og ekki skipta fyrr en í rauðan dauðann, en í kvöld var ekki liðinn klukkutími þegar Firmino var kominn út af.

  Umræðan eftir leik

  Nú verður fagnað í einhverja daga og jafnvel vikur. Við þurfum að skipta út “we won it five times” söngnum fyrir nýjan, og vonandi getum við svo skipt þeim út aftur fljótlega. Það er a.m.k. trú undirritaðs að þetta lið eigi eftir að sækja einhverjar dollur á næsta tímabili. Það er ljóst að liðið fær næg tækifæri til þess, því það verða 6 bikarar í boði á næsta tímabili: Enska deildin, enski bikarinn, enski deildarbikarinn, meistaradeildin, góðgerðarskjöldurinn, og meistarar meistaranna.

  Liverpool hefur of oft þurft að þola það að missa einhvern af sínum bestu leikmönnum eftir að hafa verið á barmi þess að komast á toppinn. Núna er maður ekki að sjá það gerast. Af hverju ættu leikmenn að fara frá Liverpool til að vinna bikara? Því nú er það ljóst að það eru fá lið með meiri möguleika til að vinna bikara en einmitt Liverpool. Svo getum við bara spurt menn eins og Coutinho hversu vel það hafi gefist að fara frá klúbbnum.

  Það er líka gaman að liðið hafi náð þessum bikar í hús, þó ekki sé nema fyrir leikmenn sem hafa verið í aukahlutverki í vetur, eins og Sturridge, Moreno og Mignolet. Þeir tveir fyrstnefndu fara í sumar þar sem samningarnir við þá renna út, og ekki útséð með Mignolet. En allir hafa þeir spilað sína rullu, sem hefur verið sú að vera tilbúnir að koma inn þegar þess hefur verið krafist, og gleymum ekki að Sturridge skoraði t.d. mark á móti PSG á Anfield í haust. Án þess marks hefði liðið ekki komist í úrslitaleikinn. Þeir hafa líka sinnt sínu hlutverki án þess að vera með eitthvað vesen, og gleymum ekki heldur að þessi bikar er afrakstur vinnu síðustu þriggja ára, þar sem þeir hafa á köflum spilað mun stærra hlutverk en í vetur.

  Gefum líka Tottenham kredit fyrir sína spilamennsku. Það var engin Ramos-frammistaða hjá þeim, heldur voru menn einfaldlega að spila sinn fótbolta.

  Nú tekur við langþráð frí hjá okkar mönnum, og við sjáum liðið ekki aftur fyrr en á undirbúningstímabilinu sem hefst einhverntímann í júlí. Gleymum samt ekki að glugginn er opinn, og það kæmi svakalega lítið á óvart þó við sæjum einhverjar tilkynningar á næstu dögum eða vikum um leikmannakaup. Það þarf jú að fylla þau skörð sem Moreno og Sturridge skilja eftir sig, og svosem ekki ólíklegt að það verði einhverjir leikmenn seldir, þó ekki sé nema þeir leikmenn sem verið hafa á láni undanfarið: Ojo, Kent, Wilson, Ings, Karius, Clyne og fleiri.

  Þó tímabilinu sé formlega lokið verður nóg að gera hjá okkur hér á kop.is á næstunni, það þarf að gera upp þennan meistardeildarsigur, sem og tímabilið í heild sinni, og svo munum við skoða vel og vandlega hvað er framundan hjá liðinu.

  En í augnablikinu skulum við njóta þess að LIVERPOOL ER SIGURVEGARI MEISTARADEILDARINNAR!

  [...]
 • Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar – liðið gegn Tottenham

  Jæja börnin góð. Þá er komið að því. Annar úrslitaleikur Meistaradeildarinnar hjá Klopp og lærisveinum hans, og nú á að taka þann sjötta með sér heim.

  Rétt eins og fyrir úrslitaleikinn 2005 þá er undirritaður búinn að vera að smíða í allan dag. Eldhús þá, svalir nú. Ég reikna nú samt með að horfa á leikinn núna, ólíkt þá, en hver veit nema frjáls framlög geti orðið til að breyta því (sendið mér bara skilaboð á Twitter). Það hafa svosem engar vísbendingar fundist um að þessar smíðar hafi áhrif á leikmenn eða á úrslit leiksins, og talandi um það: hafa hlustendur einhverja hjátrú varðandi leiki liðsins? Og þá sérstaklega úrslitaleiki Meistaradeildarinnar?

  Nóg um það. Liðin hafa verið tilkynnt, og okkar menn stilla svona upp:

  Í stuttu máli þá negldi Maggi Beardsley uppstillinguna í annars ágætri upphitun fyrir leikinn.

  Bekkurinn er fjölmennari en áður, en á honum eru nokkurnveginn allir leikfærir aðalliðsmenn og einhverjir kjúklingar til viðbótar: Mignolet, Lovren, Milner, Gomez, Sturridge, Moreno, Lallana, Oxlade-Chamberlain, Shaqiri, Brewster, Origi, Kelleher.

  Liðið hjá Spurs er ekki fjarri því sem Maggi ímyndaði sér. Þó er Lucas Moura á bekknum, á meðan Son og Kane byrja frammi, og Winks er á miðjunni í stað Wanyama.

  Hafi spennustigið einhverntímann verið hátt, þá er það núna!

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Gullkastið – Forsætisráðherra á lokaorðið

  Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar er í Madríd annað kvöld, það er loksins komið að þessu. Til að  reka endahnútinn í upphitun Kop.is fyrir þennan risaviðburð héldum við félagarnir í Stjórnarráðið á fund Forsætisráðherra sem er að sjálfsögðu stuðningsmaður Liverpool.

  Stjórnandi: Einar Matthías

  Viðmælendur: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 241
   
  Bónusefni – Sneak preview á Hellirinn og miðinn á leikinn í Istanbul
  (more…)

  [...]
 • Upphitun: Liverpool vs. Tottenham í Madrid

  Frá því að flautað var til leiksloka á Anfield kvöldið 7. maí þá hafa Púlarar beðið óþreyjufullir eftir fyrsta degi nýs mánaðar til þess að geta háð lokaorustuna um Evrópumeistaratitilinn árið 2019. Meðan Barcelona brynnir músum marserar Rauði herinn að meistarabikar segir máltækið og messíasinn Messi mun missa af meistarartign í Madrid. C’est la vie.

  Vettvangur er tryggður á nýuppgerðum heimavelli Atletico Madrid og þó að allt of fáum Púlurum sé tryggður miði þá erum við handvissir um að kórréttir söngvar munu hljóma um allar spænskar Kop-agrundir! Allez, allez, allez!

  Þetta er okkar tími. Þetta er okkar stund. Hitum upp!

  Mótherjinn

  Þrautaleið Tottenham Hotspur í úrslitaleikinn voru gerð góð skil í úttekt gærdagsins hjá meistara Hannesi og því óþarft að tvítaka það. Við þá ágætu ádrepu má þó bæta einvígi okkar við Spurs í deildinni á síðasta tímabili og jafnvel fyrri viðureignum þar á undan. Á vetri líðandi mættum við Lundúna-drengjunum hvítklæddu í tvígang og í bæði skiptin var niðurstaðan 2-1 fyrir rauðliða. Hörkuleikir þar sem að ekki var auðséð með úrslitin fyrr en seint og síðar meir.

  Horft aftur í tímann þá höfum við haft ansi gott tak á þeim og í raun er 1-4 tapið á Wembley í október 2017 alger undantekning frekar en regla. Frá árinu 2012 höfum við bara tapað þeim eina leik fyrir Spurs í 14 leikjum spiluðum og sú tölfræði gefur vonandi góð fyrirheit fyrir stórleikinn á spænskri grundu.

  Stóra spurningin sem kastað var fram eftir að Lucas Moura skoraði á síðustu andartökunum í Amsterdam var hvort að biblíudrengurinn Kane yrði Able (leikfær). Læknavísindum hefur fleygt fram síðan að blauti undrasvampurinn læknaði öll fótboltasár og svo virðist sem að Harry prins þeirra Spurs-manna verði takkaskóklæddur á leikdegi. Um það hafa sparkspekingar og tölfræðingar deilt hvort að liðið spili betur með eða án Citizen Kane en þeirri stóru og háspekilegu spurningu verður hugsanlega svarað í þessum leik.

  Myndin tengist upphituninni ekki með beinum hætti

  Innkoma óskasonarins Kane hefur þau áhrif að eitthvað þarf undan að láta og allar líkur á að Son þurfi frá að hverfa til bekkjarsetu. Lúxus sem Tottenham geta leyft sér og hættumerki fyrir Liverpool ef sú innáskipting á sér stað. Liðið er þó vel skólað, skipulagt og skilar sínu á vinnuskýrslunni þannig að þar mun skóinn seint kreppa.

  Horfandi á valkosti señor Pochettino fyrir þennan leik þá ætti uppstillingin að líta svona út:

  Liðsuppstilling Tottenham í leikkerfinu 4-3-1-2

  Liverpool

  Hvað er hægt að segja um okkar frábæra lið sem ekki hefur verið sagt nú þegar? Einstök 97 stig í deildarkeppni vetrarins og bara fjármálasvindli frá því að vera krýndir verðugir Englandsmeistarar. Komnir í úrslit Meistaradeildarinnar eftir mikla þrautagöngu líkt og Ólafur Haukur fjallar listilega um. Þetta magnaða Liverpool-lið á verðug verðlaun skilið en fótbolti er grimmur leikur sem útdeilir ekki ávallt eftir sanngirni.

  Heilbrigðisstéttir hafa útfyllt læknisvottorðin og svo virðist sem að við höfum allt okkar sterkasta byrjunarlið leikfært ásamt vel völdum varamannabekk. Það gerir val þjálfarans að sumu leyti erfiðara en slíkur lúxus er velkominn eftir síðustu tvo úrslitaleiki Evrópukeppna þar sem meiðsli og úrvinda hefur spilað stóran þátt í lokatölum leiksins. Helsta ákvarðanataka verður með miðjumennina en undirritaður hallast að því að fyrirliðinn Henderson, hinn fantaflotti Fabinho og markamaskínan Wijnaldum hefji leikinn en maraþon-maðurinn Milner bíði taktískrar innáskiptingar til að skora úr vítaspyrnu. Matip hefur verið frábær á árinu 2019 og hann ætti því að vera sjálfvalinn í varnarlínuna.

  Kop-kanslarinn Klopp er því líklegur til að skila inn leikskýrslu í takt við þetta fyrir úrslitaleikinn:

  Liðsuppstilling Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

  Fyrir áhugasama þá er stórfínn blaðamannafundur meistara Klopp, Matip og Wijnaldum verðugt áheyrnarefni til að fylla tómu stundirnar fram að upphafssparki:

   

  Spakra manna spádómur

  Þetta verður alvöru leikur á milli tveggja öflugra, vel mannaðra og vel þjálfaðra liða. Okkar von og viska segir að Liverpool verði hænufetinu framar og síðustu úrslit þessara liða gefa vísbendingu um tæpan sigur. Ég mun gera spádóm eðal-Strandamannsins Þórarins Magnússonar að mínum eigin en hefð er fyrir því að hann spái Liverpool 2-1 sigri í öllum leikjum allra keppna. Tölfræðilega er sú spaka spá ansi líkleg og vonandi verður það niðurstaðan fyrir okkar blóðrauða Liverpool-lið.

  Undirritaður á ekki auðsótt með að mæta til Madrid að þessu sinni en mun láta sér Liverpool-Rauða Ljónið duga til áhorfs. Þar verður Eiðistorgið gernýtt með stórum skjám til að taka á móti mannfögnuðnum og vonandi til að fagna frækilegum sigri að auki. Allt í góðfúslegu boði Egils Gull að sjálfsögðu sem vonandi færir okkur Evrópu-Gull heim í hús.

  Come on you REDS!

  You’ll Never Walk Alone

  JFT96

  [...]
 • Leið Tottenham til Madrídar

  Innskot: Minni á Gullkastið í færslunni hér fyrir neðan fyrir þá sem hafa ekki enn hlustað á það en þar er hitað vel upp fyrir úrslitaleikinn með formanni Tottenham klúbbsins á Íslandi.

   

  Við tókum fyrir á sunnudaginn okkar leið í úrslitaleikinn og því liggur beinast við að skoða aðeins hvaða leið andstæðingar okkar í Tottenham fóru til að tryggja sinn farmiða til Madrídar.

  Meistaradeildarárangur þeirra í fyrra

  Á síðasta tímabili komust Liverpool alla leið í úrslitaleik keppninnar líkt og í ár en árangurinn var aðeins annar hjá Tottenham. Þeir voru í öðrum styrkleikjaflokki fyrir riðlakeppnina en dróust í gríðarlega erfiðan riðil með Real Madrid og Dortmund þar sem APOEL átti að vera fallbyssufóður riðilsins. Tottenham átti þó ekki í erfiðleikum með þennan riðil sem þeir toppuðu enduðu riðilinn taplausir en vonbrigði riðilsins voru Dortmund sem enduðu með aðeins tvö stig og rétt komust inn í Evrópudeildina með betra markahlutfall en APOEL.

  Í sextán liða úrslitum dróust Tottenham svo gegn Juventus og þar endaði þeirra vegferð. Eftir gott 2-2 jafntefli í Torino töpuðu þeir heima fyrir og gerði Chiellini grin af þeim eftir leik og sagði að það væri skrifað í sögu Tottenham að klúðra hlutunum þegar mest væri í húfi, vonum að það eigi við um helgina.

  Riðlakeppnin

  Annað árið í röð dróst Tottenham í einn af erfiðari riðlum keppninnar en þetta skiptið mættu þeir Barcelona, Inter og PSV Eindhoven. Fyrsti leikurinn var úti í Ítalíu á San Siro og vakti aftur upp umtal um umæli Chiellini frá árinu áður en Tottenham var þá með unninn leik í höndunum gegn Inter voru marki yfir eftir að Eriksen kom þeim yfir eftir tæplega klukkutíma leik en á síðustu fimm mínútum leiksins fengu þeir á sig tvö mörk og töpuðu leiknum. Ekki skánuðu hlutirnir þegar Messi kom og átti stórleik á Wembley þegar Barcelona unnu þá sannfærandi 4-2 . Tottenham menn þurftu því nauðsynlega sigur þegar þeir mættu PSV í Hollandi. Þeir lenntu undir eftir rúman hálftíma eftir afleit mistök hjá Alderweireld en komust aftur inn í leikinn og voru 2-1 yfir þegar Hugo Lloris lét reka sig útaf og eftir fygldu tíu skelfilegar mínútur hjá Tottenham þar sem PSV skoraði jöfnunarmark og 1 stig eftir 3 leiki varð að raunveruleika og möguleikar þeirra í Meistaradeildinni dauðir.

  Þegar þarna var komið við sögu hofðu flestir afskrifað möguleika Tottenham í Meistaradeildinni og jók það ekki trú manna þegar eftir aðeins tvær mínútur í fyrsta leik í seinni umferðinni, þá heima gegn PSV, skoraði Luuk De Jong en hetja þeirra Tottenham manna, Harry Kane, stóð undir nafni í þessum leik. Hann skoraði tvö mörk, það sienna á 89. mínútu sem skilaði sigrinum eftir að Tottenham hafði legið á hollendingunum án árangur en Tottenham átti 29. skot í leiknum. Fyrsti sigurinn í hús og örlítil von um endurkomu í riðlinum að vakna. Það var einnig áhugavert að Argentínumaðurinn Paulo Gazzaniga var í markinu hjá Tottenham í þessum leik þar sem Lloris var í banni og varð þá þriðji markmaðurinn til að spila fyrir Tottenham í Meistaradeildinni þetta árið í aðeins fjórum leikjum.

  Það var þá orðið ljóst að Tottenham þyrfti að sigra Inter á Wembley í fimmtu umferð til að eiga raunhæfa möguleika að komast upp úr riðlinum. Leikurinn var frekar jafn framan af en þegar leið á leikinn fóru Tottenham að taka völdin leiddir áfram af stórkostlegri frammistöðu hjá hinum óreynda miðjumanni Harry Winks en það var ekki fyrr en á 80. mínútu sem þeim tókst að brjóta ísinn þegar Eriksen, sem hafði komið inn sem varamaður tíu mínútum fyrr, lyfti boltanum yfir Handanovic í marki Inter og það þýddi að Tottenham voru að vinna Inter í innbyrgðis viðureignum með fleiri mörk skoruð á útivelli og því það eina sem Tottenham þurfti að gera til að komast áfram var að jafna árangur Inter í lokaumferðinni. En það var enn stór stein í vegi þeirra því andstæðingurinn á lokadeginum var Barcelona!

  Hinsvegar var Barcelona þegar komið áfram og nýtti tækifærið og hvíldi leikmenn. Í þeirra liði var enginn Messi eða Suarez, enginn Pique eða Ter Stegen og í byrjunarliðinu var fyrrum ungstyrnið Munir El-Haddadi sem ég verð að viðurkenna að fram að þessum leik hélt ég að hann hefði yfirgefið Barcelona fyrir nokkrum árum. Þetta var þó alls ekki gefins og voru það Barcelona sem komust yfir í leiknum þegar Dembele skoraði eftir sjö mínútna leik en aftur voru það varamenn Tottenham sem björguðu málunum því Lucas Moura jafnaði leikinn á 85. mínútu og endaði leikurinn 1-1 sem voru sömu úrslit og á San Siro og ótrúleg endurkoma Tottenham í riðlakeppninni orðinn að veruleika!

  Sextán liða úrslit

  Tottenham dróust svo gegn Dortmund í sextán liða úrslitunum, liðinu sem þeir gerðu lítið úr í riðlakeppninni árið áður. Umræðan var þó mikil um Dortmund liðið sem hafði yngt svolítið upp hjá sér og var á flugi í þýsku deildinni þegar dregið var. Bæði lið komu hinsvegar inn í fyrri leikinn í verra formi en þau höfðu verið í þegar drátturinn átti sér stað en enn voru Dortmund taldnir líklegri þó þetta væri líklega eitt jafnasta einvígið í sextán liða úrslitunum fyrir fram. Fyrri leikurinn var á Wembley og var fyrri hálfleikur frekar jafn og voru Dortmund menn jafnvel óheppnir að vera ekki yfir í hléi en eftir að liðinn komu aftur út á völl var allt annað Tottenham lið sem mætti til leiks. Menn voru grimmari, fljótari og beinskeittari og enduðu á að vinna leikinn 3-0 þar sem Jan Vertongen var maður leiksins að spila í vinstri vængbakverði og lét það líta út fyrir að hann hefði aldrei gert annað.

  Seinni leikurinn var nánast formsatriði þar sem Harry Kane skoraði eina mark leiksins og fóru Tottenham áfram í átta liða úrslit með 4-0 sigri í heildina.

  Átta liða úrslit

  Tottenham fékk svo hrikalega erfiðan drátt í átta liða úrslitum þegar þeir dróust á móti Manchester City. Það varð svo ekki auðveldara þegar eftir tíu mínútur í fyrri leik liðanna fengu þeir á sig VAR-víti þegar Danny Rose fékk boltan í höndina innan vítateigs. Sergio Aguero steig á vítapunktinn en Hugo Lloris varði frá honum en Lloris hefur fengið á sig 3 víti á árinu 2019 og varið þau öll! Leikurinn var svo í miklum járnum og klárt mál að bæði lið vildu ekki klúðra neinu og eiga möguleika í seinni leiknum. Það var svo eftir tæpan klukkutíma þegar annnað áfallið skall á þegar Harry Kane meiddist og þurfi að yfirgefa völlinn og hefur enn ekki spila leik síðan það gerðist. Þetta erfiða verk Tottenham manna varð að vinna án hetjunnar.

  Sem betur fer fyrir Tottenham eiga þeir þó mann sem virðist tvíeflast þegar Kane er ekki á vellinum og þegar rétt um stundarfjórðungur var eftir steig Son upp og skoraði sigurmark fyrir Tottenham og þeir þá í góðri stöðu fyrir seinni leik liðanna á Ethiad.

  Á Ethiad varð ein mesta rugl byrjun á knattspyrnuleik sem ég hef upplifað. Ég sat og reyndi að horfa á leik Liverpool og Porto en á skjá fyrir aftan var verið að sýna þennan leik og augun dróust alltaf að þeim skjá þegar mörkunum fór að rigna inn. Raheem Sterling kom City yfir eftir aðeins fjórar mínútur en svo var Son búinn að skora tvisvar áður en Bernardo Silva jafnaði leikinn á 11. mínútu. Það voru 11. mínútur búnar og staðan var 2-2!

  Leikurinn róaðist svo í markaskorun en alls ekki í dramanu. Sterling kom City í 3-2 eftir 21. mínútu og Aguero kom þeim í 4-2 eftir 59. mínútur áður en Fernando Llorente skoraði enn eitt varamannamark Tottenham á tímabilinu. Staðan var því 4-3 þegar loka mínúturnar hófust og Tottenham á leiðinni áfram á markahlutfalli þegar Eriksen átti afleita sendingu tilbaka sem átti viðkomu í Silva áður en boltinn barst á Aguero sem gaf boltan á Sterling sem kláraði þrennuna sína en eftir að VAR leit á atvikið kom í ljós að Aguero var rangstæður þegar boltinn fór í Silva og markið dæmt af City úr leik og Guardiola tók sína bestu Platoon eftirhermu.

  Undanúrslit

  Í undanúrslitum fengu Tottenham menn sputnik lið Ajax sem hafði þegar slegið út Real og Juventus. Flestir voru því komnir á þá skoðun að Ajax og Barcelona myndu mætast í úrslitaleik keppninnar þegar bæði lið unnu fyrri leikna í undanúrslitum. Ajax vann 1-0 með marki frá Donny Van der Beek. Daginn fyrir seinni leik liðanna varð ljóst að ekkert myndi verða af þeim úrslitaleik vegna frammistöðu okkar manna gegn Barcelona en Ajax ætlaði sér enn í úrslitaleikinn og mættu af krafti í seinni leik liðanna á Johan Cruyff vellinum í Amsterdam og komust snemma í 2-0. Tottenham hefur hinsvegar sýnt það að þeir eru frábærir upp við vegg og í enn eitt skiptið þetta árið snýttu þeir ummælum Chiellini með magnaðri endurkomu nú í boði Lucas Moura sem setti tvö með litlu millibili á 55. og 59. mínútu og kláraði svo einvígið á 96. mínútu og komnir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn!

  Endalausar endurkomur og nýjar hetjur í hvert skipti Lloris, Vertongen, Winks, Moura, Kane, Eriksen, Llorente og Son hver sem er virtist geta komið og breytt leiknum og Tottenham mönnum hlýtur að finnast eins og það sé skrifað í skýinn að þeir vinni titilinn í ár – líkt og okkur fannst í fyrra. Því það er ekki spurt að því hvað gerðist í undanförnum leikjum í úrslitaleikjum þeir eru einsdæmi og geta farið á báða vegu en vonandi mun þessi enda hjá okkur.

   

  [...]
 • Gullkastið – Lokaleikurinn!

  Dagarnir hafa verið lengi að líða eftir lokaumferðinni í deildinni lauk en núna loksins er síðasta vika tímabilsins runnin upp og stutt í stærsta viðburð ársins. Fókusinn var á Tottenham í þessum fyrri þætti vikunnar og samanburð á liðunum. Formaður Tottenhamklúbbsins var með okkur til að ræða sína menn.

  Stjórnandi: Einar Matthías

  Viðmælendur: Maggi, SSteinn og Birgir Ólafsson formaður Tottenham klúbbsins á Íslandi.

  MP3: Þáttur 240

  [...]
 • Leið Liverpool til Madrídar

  Nú fer loks að koma að því að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar muni fara fram og á næstu dögum munum við hita vel upp fyrir leikinn frá hinum ýmsum sjónarhornum. Við byrjum á því að renna aðeins yfir leiðina sem Liverpool fór til að komast í annan úrslitaleikinn í röð.

  Riðlakeppnin
  Það var enn ákveðið hype í kringum Liverpool og Meistaradeildina eftir árið áður og það sem hafði gerst var svo sannarlega ofarlega í huga allra þegar dregið var í riðlana fyrir leiktíðina. Liverpool var í potti númer þrjú og að dragast gegn Liverpool var ekki ofarlega á óskalista hinna liðana í keppninni.

  Liverpool dróst á móti PSG, Napoli og Rauðu Stjörnunni. Forseti Napoli fór til að mynda á flug með allskonar samsæriskenningar og óréttlæti þess að þeir skuli hafa dregist gegn Liverpool sem átti ekki að hafa verið í potti númer þrjú og þess háttar.

  Riðlakeppnin hófst með góðu kvöldi á Anfield þegar Liverpool vann dramatískan 3-2 sigur á PSG. Daniel Sturridge og James Milner komu Liverpool í 2-0 og Liverpool var að rúlla yfir PSG, Thomas Meunier náði að koma marki inn fyrir PSG rétt fyrir hálfleik. Liverpool var nálægt því að klára leikinn þegar Kylian Mbappe sleppur í gegn og jafnar í 2-2 á 83. mínútu. Hrikalega fúlt og jafntefli í augsýn en eineygður Roberto Firmino kom inn á sem varamaður og skoraði laglegt mark á 92.mínútu sem tryggði Liverpool sigurinn.

  Embed from Getty Images

  Í næsta leik fór Liverpool til Ítalíu og mætti Napoli. Þetta var líklega einn léleagsti leikur Liverpool í vetur og það var ekkert sem gekk upp hjá Liverpool. Vörnin var slök, miðjan var hreinlega ekki með og sóknin var eins og bitlaus skeið. Það stefndi í afar ósanngjarnt jafntefli fyrir Napoli þegar Lorenzo Insigne skoraði sigurmark þeirra á 90.mínútu.

  Þá tóku við tveir leikir gegn Rauðu Stjörnunni og sá fyrri var á Anfield. Klopp stillti upp sókndjörfu liði sem rúllaði yfir Serbana og vann 4-0 með tveimur mörkum frá Salah og sitt hvoru frá Mane og Firmino. Seinni leikurinn í Serbíu var hins vegar ekki alveg af sama toganum og eflaust ákveðið vanmat í gangi hjá Liverpool og Serbarnir ansi ákveðnir í að bæta upp fyrir rasskellinguna úr fyrri leiknum. Klopp róteraði aðeins í leiknum og Liverpool tapaði öðrum útileiknum í röð, 2-0.

  Þrátt fyrir tvö töp þá var Liverpool í góðum séns á að tryggja sig upp úr riðlinum og jafnvel tryggja sér fyrsta sætið í riðlinum þegar liðið mætti til Parísar. Úrslitin voru ekkert rosalega positív og Liverpool tapaði 2-1, PSG komust í 2-0 og James Milner minnkaði muninn úr vítaspyrnu en lengra komst Liverpool ekki og því ljóst að Liverpool átti hreinan og beinan úrslitaleik í lokaleik riðilsins um að komast áfram.

  Í síðasta leiknum mætti Napoli á Anfield og Liverpool þurfti að vinna leikinn til að komast áfram og það var alls konar útivallarmarkaflækja í þessu svo hvaða sigur sem er skipti . Leikur Liverpool var frábær og Salah skoraði stórglæsilegt mark sem kom Liverpool yfir. Liðið fékk fullt af færum í leiknum en tókst ekki að gera algjörlega út um leikinn. Vörnin og miðjan var virkilega öflug og Napoli leit aldrei út fyrir að vera líklegt til að skora fyrr en í blálok leiksins þegar boltinn fer inn fyrir vörn Liverpool og Alisson átti frábæra markvörslu eftir skot Milik, framherja Napoli. Þessi varsla var gífurlega mikilvæg og Liverpool komst upp úr riðlinum og var í seinni pottinum þegar dregið var í sextán liða úrslitin.

  Embed from Getty Images
  (more…)

  [...]
 • Gullkastið – Lognið á undan storminum

  Það eru ennþá heilir 11 dagar í veisluna í Mddríd sem verða góða 48 daga að líða. Fókusinn var því ekki á Madríd í þessum þætti heldur meira hvað sé næst hjá okkar mönnum á leikmannamarkaðnum. Eins snertum við aðeins á vandamálum Man City utanvallar, þrumuskitu UEFA þegar kemur að úrslitaleikjunum í báðum Evrópukeppnunum og enduðum á því að skoða aðeins Arsenal og Chelsea.

  Stjórnandi: Einar Matthías

  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 239

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close