íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Upphitun: Chelsea á Brúnni

  Svo fór um deildarbikar-sjóferð þá. Súrt í broti að tapa eftir að hafa verið komnir með forystu á heimavelli og með góð færi til að klára dæmið. En þessi vínber eru hvort sem er súr á bragðið og eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna. Það er komið að seinni hluta tvíleiksins gegn Chelsea þessa vikuna og tímabært að hita upp. Þetta er alvaran!

  Mótherjinn

  Sarri fær seint verðlaun fyrir fatastíl á hliðarlínunni en hann bætir það upp með stórglæsilegum leikstíl og tóbakslausum filter.

  Eftir getgátuleik síðustu daga um liðsuppstillingu bláliða í deildarbikarnum er von á hefðbundnari mannavali í þetta skiptið. Chelsea munu stilla upp sínu allra sterkasta liði á heimavelli og reyna að spila Sarri-sóknarleik til sigurs. Ef eitthvað er þá voru fleiri lykilmenn í byrjunarliðinu í miðri viku en búist var við en Willain, Kovacic, Cahill og Azpilicueta eru allir líklegir til að halda sæti sínu á laugardaginn. Þeim tveimur fyrstnefndu var reyndar skipt útaf í fyrri hluta seinni hálfleiks en vonandi munu einhverjar harðsperrur herja á þá sem mest hafa spilað í síðustu leikjum.

  Það þarf vart að fjölyrða um hversu miklum breytingum Maurizio Sarri hefur náð á stuttum tíma með hina áður massífu varnarmaskínu sem var undir járnaga Mourinho og Conte. Þeir þjálfarar náðu vissulega frábærum árangri með sitt hvorn Englandsmeistaratitil á síðustu 4 árum en áferðafallegur og leiftrandi fótbolti var ekki þeirra aðalsmerki. Það er sem Sarri sé að hleypa beljunum út á vorin og leikmenn að njóta þess að sletta úr klaufunum með sókndjörfu leikkerfi þar sem boltanum er ríghaldið innan liðsins.

  Svo vel að Chelsea er núna með næsthæsta possession í úrvalsdeildinni með 65,7% og einungis Man City eru rétt fyrir ofan þá með 66,3%. Í fyrra voru Chelsea 54,4% með boltann yfir tímabilið þannig að þetta er gríðarleg breyting á leikstíl á milli ára. Til samanburðar þá hafa Liverpool verið með 55,4% possession það sem af er þessu tímabili og heldur hógværir miðað við mótherja sína í þessum efnum. Enda voru það Chelsea sem voru meira með boltann á miðvikudagskvöldið í deildarbikarnum eða með 53,8% en það var þó Liverpool sem átti  fleiri skot að marki enda erum við ögn beinskeyttari með mörgum hraðaupphlaupum og minna að klappa boltanum út í hið óendanlega. Við megum vel gera ráð fyrir að þetta verði raunin á Stamford Bridge þar sem við treystum á að okkar sterkasta varnaruppstilling haldi aftur af heimamönnum og svo sækjum við hratt á þá með okkar sprækustu sóknarlínu.

  Á síðustu 10 árum hefur Liverpool náð betri tökum á því að spila á Brúnni og við höfum unnið síðustu 5 af 11 úrvalsdeildarleikjum þar frá árinu 2008. Þrír af þessum 11 voru jafntefli og einungis 3 enduðu með sigri heimaliðsins en þar á meðal var síðasti leikur liðanna síðastliðið vor. Á þeim tíma hélt sá sigur lífi í von Chelsea um að ná Liverpool í kapphlaupi um 4.sætið en á endanum höfðum við blessunarlega betur í þeim stólaleik. Núna er annað og meira uppi á teningunum og að þessu sinni er þeim kastaði í sannkölluðum stórleik og uppgjöri toppliðanna í deildinni. „Alea iacta est“ mælti Caesar er hann hélt með her sinn yfir Rubicon-fljót og hið sama þarf keisari Klopp að predika fyrir sínum Rauða her er við marserum yfir ánna Thames.

  Svona verður óvinaherinn væntanlega uppstilltur:

  Líklegt byrjunarlið Chelsea í leikkerfinu 4-3-3

  Liverpool

  Það þýðir ekki að hengja haus þrátt fyrir hálf klaufalegt tap í miðri viku þar sem enginn VAR vinur okkar (looking at you Kevin Friend). Nú þarf bara að þurrka blóðið úr munnvikunum og henda sér aftur í bardagann með eld í æðum. Í síðasta leik skelltum við okkur í DeLorean-tímavélina og ferðuðumst 2 ár aftur í tímann með varnarlínuna en því miður var ekki hægt að breyta sögunni hvað þau gömlu varnarvandamál varðar. Þá eru Keita og Fabinho enn í starfsnámi og ekki búnir að klára Klopp-fræðin varðandi að loka á réttu svæðin á miðjunni þannig að úr varð opnari leikur en við höfum fengið að venjast frá andstæðingum okkar síðustu misseri. Shaqiri var aftur okkar besti maður annan leikinn í röð en hann verður í ofurhetju-hlutverkinu sem super-sub af bekknum.

  Fyrir 2 árum og 12 dögum lék Liverpool á Stamford Bridge og sigraði 1-2. Sama varnarlína og í deildarbikarnum nema með Milner í vinstri bakverði.

  Inn mun koma varnarlína með næstdýrasta markvörð heims sem hefur fengið á sig fæst mörk í deildinni með hið grunsamlega kunnuglega hlutfall 14-2 í markatölu. Þeirri vörn mun stýra dýrasti varnarverkstjóri í heimi og munar um minna að fá meistara VVD að nýju við stjórnvölinn. Fyrir framan verður samhent miðja sem þekkir sitt hlutverk í Klopp-kerfinu og okkar magnaða sóknarlína á fullum hraða í framlínunni. Þetta verður ekki sami leikur og á Anfield í vikunni þar sem hálft liðið var að spila sinn fyrsta leik á timabilinu með tilheyrandi ryðblettum og taktleysi.

  Það má líka gera ráð fyrir að Klopp hafi sparað einn ás eða tvo uppí sinni ermi hvað taktík varðar og þó að ávallt sé hamrað á möntrunni um einn leik í einu þá hefur stjórinn verið að spá í sín spil lengur en það ef við þekkjum hann rétt. Hið hættulega við þennan leik er að fyrirfram er jafntefli alveg ágæt úrslit fyrir Liverpool en sú nálgun er alltaf vandasöm og vonandi spilum við einfaldlega upp á þau 3 stig sem eru í boði og sjáum hvert það leiðir okkur. Við sýndum það gegn Tottenham í höfuðborginni hversu öflugir við getum verið á okkar degi og nú þarf að endurtaka leikinn.

  Í uppstillingunni verður ekkert óvænt og öllu fínasta pússinu til tjaldað:

  Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

  Blaðamannafundi Klopp var rétt í þessu að ljúka og engar stórfréttir komu þar fram. Þeir byrjunarliðsmenn sem hafa verið tæpir í vikunni eru komnir í lag; VVD með sitt högg í rifbeinin, TAA með veikindi og Wijnaldum æfði eðlilega. Klopp lagði áherslu á að hann væri svekktur með að detta út úr deildarbikarnum þó að margir teldu það blessun í dulargervi varðandi minna leikjaálag. Hann lagði sérstaka áherslu á að þrátt fyrir fréttir um annað að þá var hann alls ekki að rífast við Shaqiri beint eftir leikinn og lofaði hans framlag í hástert. Mikið var spurt um gæðin í Hazard og Klopp gerði vel í að svara misgáfulegum spurningum blaðamanna um hvernig ætti að reyna að stoppa hann og aðra öfluga leikmenn Chelsea. Þó vildi hann taka það fram að ef að Liverpool hefði nýtt sín færi sem nóg var af að þá hefði sigur unnist og umræðan væri ögn á annan veg í dag.

  Eins og ávallt er unun að horfa á Klopp tala og hér er blaðamannafundurinn í heild sinni (hefst eftir 10 mínútur):

  Spakra manna spádómur

  Þetta verður hnífjafn leikur sem mun ráðast af því hvort liðið gerir afdrifaríkari mistök. Ég vil sjá okkar menn láta reyna á Luiz í tveggja hafsenta kerfi en það er ekki hans sterkasta hlutverk. Að sama skapi verður lykilatriði hvernig okkur frábæru bakvörðum gengur með að hemja Hazard og Willain en þeir eru stórhættulegir eins og dæmin sanna. Vonandi gaf leikurinn í deildarbikarnum Chelsea falsvonir og okkar beittustu menn mæta með blóð á milli tannanna til að svara fyrir sig.

  Ég ætla að spá því að við launum þeim lambið „bláa“ og svörum fyrir okkur með 1-2 útisigri í höfuðborginni. Markaskorun munu annast Mohamed Salah og Virgil van Dijk.

  YNWA

 • Nýtt útlit á síðunni

  Smá þjónustutilkynning: Við vorum að setja upp nýtt þema á síðunni sem ekki er búið að fínpússa endanlega eins og sjá má. Síðan verður svona í einhvern tíma á meðan. Allt það helsta á að virka engu að síður.

 • Liverpool 1-2 Chelsea

  Það kom þá að því að Liverpool tapaði en liðið missteig sig gegn Chelsea í Deildarbikarnum í kvöld á nokkuð pirrandi hátt.

  Mörkin
  1-0 Daniel Sturridge 59.mín
  1-1 Emerson 79.mín
  1-2 Eden Hazard 86.mín

  Leikurinn
  Bæði lið mættu með mjög róteruð en sterk lið í kvöld og leikurinn bar þess merki á köflum. Chelsea voru meira á boltanum en Liverpool reyndi að pressa á réttu augnablikunum og notuðust við hraðar og beinskeyttar sóknir. Það er í raun ekkert sem kom á óvart í þeim efnum. Sarri og Chelsea vilja hanga á bolta og reyna að stýra tempói en Liverpool vill komast inn í sendingar og nota leiftursóknir. Þetta verður eins á laugardaginn.

  Liverpool liðið byrjaði svolítið út um allar trissur og þá sérstaklega á miðsvæðinu en Chelsea gekk of vel að komast þar í gegn og keyrðu mikið upp hægri kantinn til að notfæra sér það sem er oftar en ekki talið veiki bletturinn í varnarleik Liverpool en það er Moreno í vinstri bakverðinum.
  (meira…)

 • Liðið gegn Chelsea – Fabinho byrjar!

  Klopp hefur valið byrjunarliðið fyrir leikinn sem hefst í kvöld þegar Liverpool fær Chelsea í heimsókn í Deildarbikarnum og líkt við er að búast hefur hann róterað ágætlega í liðinu en það er þó ansi öflugt heilt yfir.

  Mignolet

  Clyne – Matip – Lovren – Moreno

  Milner – Fabinho – Keita

  Shaqiri – Sturridge – Mane

  Bekkur: Grabara, Curtis Jones, Henderson, Salah, Gomez, Firmino, Solanke

  Mignolet kemur í markið og Lovren er kominn til baka úr meiðslum. Öftustu fimm eru nú eitthvað sem við höfum séð áður og sýnir hve langt liðið er komið þegar megnið af þessum fimm eru nú orðnir „varamenn“.

  Nýju miðjumennirnir tveir byrja saman í dag ásamt hinum magnaða James Milner en þetta er fyrsti leikurinn sem Fabinho byrjar og hefur hann nú varla sést það sem af er liðið leiktíðar svo það verður spennandi að sjá hann loksins. Sturridge byrjar fremstur og fær aðstoð frá þeim Sadio Mane og Shaqiri sem fór á kostum í fyrri hálfleiknum gegn Southampton um síðastliðna helgi.

  Bekkurinn einnig öflugur og lykilmenn þar í bland við unga leikmenn eins og Grabara, Curtis Jones og Solanke. Ég er heilt yfir mjög sáttur með þetta lið og þetta nokkuð í þá átt sem ég reiknaði með. Mikil reynsla og gæði í þessu liði sem vonandi dugar til að slá Chelsea út í kvöld.

  Liðið hjá Chelsea lítur svona út en þeir rótera líka ágætlega:

  Caballero

  Azpi – Christensen – Cahill – Emerson

  Fabregas – Kovacic – Barkley

  Moses – Morata – Willian

  Bekkur: Bulka, Luiz, Zappacosta, Kante, Jorginho, Hazard, Hudson-Odoi

  Einnig öflugt lið hjá Chelsea en þeir hvíla einnig sína helstu lykilmenn í Hazard, Jorginho og Kante.

 • Gullkastið – „Van Dijk gæti gert Moreno að miðverði“

  Southmapton var ekki vandamál og Liverpool fer á fullri ferð í tvær viðureignir við Chelsea. Hin toppliðin eru á meðan í misjafnlega góður standi. Fórum yfir allt það helsta úr síðustu viku og höfðum Svenna Waage í banastuði með okkur. Hann fer að hafa hashtagið sitt í hástöfum bráðum #meistararívor.

  Kafli 1: 00:00 – #meistararívor
  Kafli 2: 09:30 – Shaqiri stækkaði úr 1,54 í 1,63
  Kafli 3: 19:40 – Matip spilaði eins og hann sé 1,95m á hæð.
  Kafli 4: 22:30 – Fækkar hratt músahjörtunum í liðinu
  Kafli 5: 27:00 – Besta Úrvalsdeildarlið Liverpool?
  Kafli 6: 34:20 – Alisson snarlagar varnartölfræði
  Kafli 7: 38:30 – Hvað er líklegast af United, Spurs og Arsenal?
  Kafli 6: 54:10 – Chelsea eru alvöru í vetur

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og Sveinn Waage

  Við bendum hlustendum á að nú er hægt að finna þáttinn á Spotify undir Kop.is eða Gullkastið. Eins erum við á Itunes og öðrum podcast veitum.

  Gullkastið er þáttur í boði Egils Gull (léttöl)

  MP3: Þáttur 208

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!