Latest stories

 • Kvennaliðið fær Arsenal í heimsókn

  Jæja, það kom loksins að því að kvennaliðið og karlaliðið væru ekki að spila á nákvæmlega sama tíma. Núna kl. 12:30 hefst leikur Liverpool og Arsenal á Prenton Park. Staða liðanna í deildinni er nokkuð ólík, Arsenal er að slást við City og Chelsea á toppnum á meðan okkar konur sigla nokkuð lygnan sjó í 8. sæti deildarinnar. Lesendur síðunnar muna e.t.v. eftir því að fyrsti leikur tímabilsins var einmitt á móti téðum Arsenal konum, og tapaðist svo illa að þáverandi stjóri liðsins hætti og Vicky Jepson tók við (ok, mögulega spiluðu aðrir hlutir inn í).

  Uppstillingin er ekki alveg augljós, þó ég telji líklegt að það sé verið að spila með 3 leikmenn í öftustu línu. Gerum a.m.k. tilraun til að raða þessu upp svona:

  Bekkur: Kitching, Hodgson, Kearns, Blanchard

  Aftur er bekkurinn fámennur, Kearns á bekk þriðja leikinn í röð eftir að hafa átt frumraun sína með liðinu á móti Chelsea, og enn saknar liðið nokkurra lykilleikmanna eins og Jesse Clarke sem hefur ekki náð að spila leik eftir að hafa endurnýjað samninginn við félagið, Leandra Little er hvergi sjáanleg og Jasmine Matthews ekki heldur, en hún á reyndar afmæli í dag. Ég efast samt um að afmælisundirbúningurinn sé að stoppa hana af, því hún hefur líka verið frá upp á síðkastið.

  Undirrituðum er ekki kunnugt um að leikurinn sé sýndur neins staðar opinberlega, en ef eitthvað streymi finnst þá verður slíkt að sjálfsögðu sett í athugasemdir. Við uppfærum svo færsluna með úrslitum og stöðu síðar í dag.


  Leik lokið með sigri Arsenal, 1-5. Þær skoruðu 2 mörk með stuttu millibili eftir rúmlega 20 mínútna leik í fyrri hálfleik, og svo aftur tvö mörk með stuttu millibili í kringum 60. mínútu. Þegar um korter var eftir var Yana Daniels felld í teignum, Courtney Sweetman-Kirk fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi í vinkilinn. Nokkrum mínútum fyrir leikslok skoruðu svo Arsenal konur fimmta markið. Það var svosem vitað að leikurinn yrði erfiður, enda er þetta lið sem hefur fengið fá mörk á sig í deildinni í vetur, og komust upp í fyrsta sætið í deildinni með sigrinum, og eiga samt leik til góða á City. Ef við horfum á björtu hliðarnar, þá náðu okkar konur a.m.k. að setja eitt mark, og svo fengu ungu stelpurnar allar dýrmætar mínútur. Ashley Hodson kom inná fyrir Babajide, Bo Kearns kom inná fyrir Kirsty Linnett og átti góðar rispur, og að lokum átti Annabel Blanchard frumraun sína með aðalliðinu. Allar þrjár koma úr akademíu Liverpool, og nokkuð ljóst að núna er planið að gefa þeim og fleiri ungum og efnilegum leikmönnum dýrmæta reynslu fyrir næstu leiktíðir.

  Næsti leikur verður eftir viku en þá mætir liðið City aftur, en leikur liðanna um síðustu helgi var í bikarkeppninni.

  [...]
 • Gullkastið – München

  Mættir aftur heldur betur ferskir eftir góða ferð til München í síðustu viku, helst á dagskrá var auðvitað München og leikurinn gegn Bayern, torveldur sigur á Fulham og næstu mótherjar í Meistaradeildinni. Heiðar Bræðslustjóri kom með okkur út og var að sjálfsögðu líka með okkur í þætti vikunnar.
  (more…)

  [...]
 • Hvað munu margir skila sér úr akademíunni?

  Unglingalið Liverpool (U18 ára) er komið í bikarúrslit unglingabikarsins og af því tilefni skoðaði Liverpool Echo þá leikmenn sem voru í liðinu sem vann þessa keppni síðast fyrir Liverpool, bæði árið 2006 og 2007.

  Það sem helst vekur hjá manni athygli er hversu ótrúlega fáir úr þessum hópi áttu eitthvað merkilegan feril sem sýnir kannski aðeins hversu erfitt það er að verða atvinnumaður í knattspyrnu og segir manni kannski að stilla væntingar til núverandi unglinga í hóf, eða hvað?

  (more…)

  [...]
 • Fulham – Liverpool 1-2

  ATH: Forsíðan hjá okkur er aðeins í rugli þar sem HTML texti (myndir o.þ.h.) kemur ekki rétt nema farið sé inn í færsluna sjálfa. Þetta er í skoðun hjá okkur og kemst vonandi í lag bráðum.

  Mörk

  0-1 – Mané (26.mín)
  1-1 – Babel (74.mín)
  1-2 – Milner (81.mín)

  Helstu atriði leiksins

  Rosalega tæpur en sætur sigur á baráttuglöðu Fulham liði. Það hefur verið rosaleg Evrópuþynnka hjá mörgum Meistaradeildarliðum núna um helgina og Liverpool var svo sannarlega engin undantekning.

  Það var mjög lítið að frétta þar til Sadio Mané og Bobby Firmino keyrðu aðeins upp hraðann um miðjan fyrri hálfleik og sundurspiluðu sig í gegnum vörn Fulham. Bobby tók gott hlaup upp að endamörkum fékk boltann frá Mané sem tók straujið inn í teig og fékk þar boltann aftur og skilaði honum heim. Mané hefur verið okkar langbesti maður það sem af er ári og hélt áfram að undirstrika það þarna.

  Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega en svona nokkurnvegin í takt við versnandi veður á Craven Cottage fjaraði leikur okkar manna út. Fulham var svosem ekkert að gera þannig en þetta var aldrei þægilegt. Milner og Origi komu inn þegar rúmlega korter var eftir og átti Milner ömurlega fyrstu snertingu undir engri pressu og sparkaði snúningsbolta upp í loft. Ekkert vesen enda Van Dijk á svæðinu. Hann ætlaði að skalla þetta til baka á Alisson en þeim tókst að klúðra þessu svona líka hroðalega með þeim afleiðingum að Babel komst einn í gegn og skoraði í tómt markið. Alisson tekur líklega megnið af sökinni á sig í þessu tilviki en þvílík röð mistaka. Spurning hvort þetta sé þessi veikleiki Van Dijk sem Babel var að tala um? Gefum Babel þó að hann fagnaði þessu ekki enda ennþá harður púllari.

  Þetta var nákvæmlega það sem allir stuðningsmenn Liverpool höfðu óttast og ljóst að Liverpool hefur ekki efni á að tapa stigum gegn Fulham. Blessunarlega er einn leikmaður Liverpool sjóðandi heitur um þessar mundir og hann bjargaði deginum. Þökkum reyndar Rico í marki Fulham fyrir líka því hann missti klaufalega fyrirgjöf inn í teig sem féll fyrir fætur Mané. Markmaðurinn tók utan um Mané og reif hann niður, klárt víti nema því sért alveg staurheimskur Everton maður. (Tim Cahill var í settinu hjá Sky eftir leik að reyna halda því fram að þetta hafi ekki verið víti). 

  Það segir kannski allt sem þarf um formið sem Salah er í núna að Milner fór frekar en hann á punktinn og setti boltann í mitt markið. RISASTÓRT víti.

  Liverpool hélt út á lokakaflanum og voru nær því að bæta við undir restinga en þetta var aldrei nokkurntíma þægilegt og satt að segja mjög slakur leikur hjá flestum leikmönnum liðsins.

  Maður leiksins

  Það var aðeins einn leikmaður að spila á getu í dag. Sadio Mané skapaði og skoraði fyrra markið og fékk vítið sem var vendipunktur leiksins. Ekki oft svona auðvelt að velja mann leiksins.

  Vondur dagur:

  Fyrir utan Mané voru allir vel undir pari í dag og töluverð þreytumerki á liðinu. Mo Salah fær svona 3,0 í einkunn fyrir þennan leik sem verður að teljast einn af hans verri fyrir Liverpool. Hann tekur vissulega mikið til sín og er að skapa pláss fyrir Mané og Firmino en guð minn góður hvað hann hann var slakur í dag. Það er hver hægri bakvörðurinn á fætur öðrum að eiga leik lífsins um þessar mundir. Hann komst einu sinni einn í gegn þökk sé Mané en gaf boltann á markmanninn. Hann hrekkur í gang eftir landsleikjapásuna.

  Miðjan var öll langt frá sínu besta og þá sérstaklega Fabinho. Wijnaldum hefur stundum horfið í svona leikjum og Milner byrjaði hroðalega þegar hann kom inná. Lallana var hinsvegar sæmilegur og auðvitað frábært ef hann er að komast í leikform.

  Bakverðirnir voru nokkurnvegin á sömu línu og Salah, hvað kom eiginlega fyrir hjá þeim eftir stoðsendingakeppnina gegn Watford? Varla hitt á samherja og átti Trent sérstaklega erfitt í dag. Van Dijk og Matip héldu sóknarmönnum Fulham að mestu niðri og það er ódýrt að skamma Van Dijk of mikið fyrir markið, Milner og sérstaklega Alisson taka það meira á sig.

  Umræðan:

  • Þessi leikur verður gleymdur mjög fljótlega, skyldusigur sem var aðeins of torsóttur en góð lið vinna leiki þó þau spili ekki vel.
  • Sadio Mane er núna markahæstur í deildinni ef við tökum vítaspyrnur ekki með.
  • Tottenham næst eftir tvær vikur, síðasta landsleikjapása tímabilsins framundan.
  • Lovren var á bekknum í dag, Gomez ætti að koma aftur eftir landsleikjapásuna, Lallana er farinn að byrja leiki og Ox ætti að byrja að æfa af fullum krafti núna eftir helgina. Allt getur þetta talið á lokasprettinum.
  • Liverpool verður á toppnum næstu tvær vikur en City á auðvitað leik til góða og mæta einmitt Fulham næst.
  [...]
 • Kvennaliðið mætir City í bikarnum

  Þess er að vænta að athygli stuðningsmanna Liverpool sé fyrst og fremst á leiknum gegn Fulham sem hefst núna kl. 14:15, og þess vegna er niðurröðunin á leikjum kvennaliðsins pínku óheppileg því liðið leikur núna kl. 14 gegn City í 8 liða úrslitum FA bikarsins. Leikurinn er sýndur beint á Facebook. Liðinu er still upp svona:

  Bekkur: Kitching, Little, Kearns, Linnett, Hodson

  Aftur er Bo Kearns á bekk, en hún hlaut frumraun sína með aðalliðinu í tapinu gegn Chelsea í síðasta leik.

  Það má reikna með erfiðum leik fyrir okkar konur, þar sem City er búið að vera á siglingu undanfarna mánuði, en að sjálfsögðu vonum við að þeirri siglingu ljúki í leiknum í dag.

  Við uppfærum annars færsluna með úrslitum síðar í dag.


  Leik lokið með sigri City, 3-0. Eitt mark í fyrri hálfleik og tvö í þeim síðari.

  [...]
 • Byrjunarliðin á Craven Cottage

  Sól skín í heiði yfir höfuðborg Englands og jafnvel á Frónni líka. Vor er í lofti á grösugum knattspyrnuvöllum sem þýðir að sverfa fer til stáls í keppni um fótboltasilfrið eftirsótta.

  Liverpool FC eru mættir til Lundúnaborgar og mæta þar Fulham FC á hinum fámenna en virðulega Craven Cottage sem staðsettur er við árbakka Thames.

  Efsta sætið í deildinni er að veði fyrir Rauða herinn en yfirþyrmandi falldraugur vofir yfir heimamönnum. Scott Parker og Jurgen Klopp leiða saman hesta sína í fyrsta sinn og einnig er það í fyrsta sinn sem að Þjóðverjinn stýrir liði á þessum velli.

  Byrjunarliðin eru klár og Klopp stillir sínum rauðu herjum svona upp í dag:

  Bekkurinn: Mignolet, Lovren, Milner, Sturridge, Moreno, Shaqiri, Origi.

  Tvær breytingar eru gerðar frá byrjunarliði síðasta leiks en hinn meiddi Henderson og hinn hlaupaglaði Milner fara út en inn koma Fabinho og Lallana. Upphitunarhöfundur negldi því spánna um liðsuppstillingu hárnákvæmt í gær og vonandi verður hann jafn getspakur með úrslitin.

  Mr. Parker hefur spunnið sinn vef og leikskýrslan hans er svona rituð:

  Líkt og velt var vöngum yfir í upphitun gærdagsins þá hefur Jean Michael Seri fengið endurkomu í byrjunarliðið og það gæti verið hugsað sem leynivopn Scott Parker í dag. Babel og Mitrovic í fremstu víglínu en óvænt þá er Sessegnon settur á bekkinn og fær ekki að byrja gegn sínu æskuliði.

  Til að stytta stundirnar fram að leik og koma sér á fullt í vígaHam fyrir Fulham þá skal allt sett í botn! Upphitunarlag dagsins eru hamfarir í hæsta gæðaflokki og vonandi verður partý í bæ hjá Púlurum að leik loknum! Hækkið í græjunum og keyrum um fjörið:

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


  [...]
 • Upphitun: Fulham á útivelli

  Ferskir frá fræknum sigri í landi frankfúrtera þá snýr Rauði herinn aftur á enska grundu og fær það verkefni að ná í 3 stig í toppbaráttunni gegn fallkandídötunum í Fulham. Verða það fúlar hamfarir eða fullt stím fram á við í forystu fótboltafélaga? Hitum upp og spáum í spilin!

  Mótherjinn

  Fulham eru fallnir! Dánarvottorðið er óútgefið en þeir eiga ekki raunhæfan séns á að halda sér í deild hinna bestu ensku þó að stærðfræðilega séð þá eigi þeir enn von. Í þeirri fullyrðingu er engin vanvirðing enda hefur liðið verið í tómu basli í allan vetur með eingöngu 17 stig úr 30 leikjum. Miklum fjárhæðum var eytt í mannskap fyrir tímabilið en máske voru of miklar mannabreytingar frá liðinu sem tryggði sér uppgang úr Championship árið áður. Þriðji þjálfari tímabilsins tók við til bráðabirgða fyrir 3 vikum en það er Scott Parker, fyrrum miðjumaður hjá Lundúna-liðinu eftir að Ranieri og Jokanovic voru látnir taka pokana sína fyrr í vetur.

  Heimamenn hafa tapað 6 deildarleikjum í röð og eingöngu fengið 3 stig á árinu 2019 sem var sigur á Brighton í janúar. Auðvitað er auðvelt að vanmeta lið sem er í þessari stöðu og afar slæmum málum en Liverpool má ekkert við slíku. Þrátt fyrir töpin þá hefur verið lífsmark með spilamennskunni hjá Fulham upp á síðkastið og sér í lagi hefur fyrrum Púlarinn Ryan Babel hleypt lífi í sóknartilburði liðsins með sínum alþekkta hraða og lipurð þó að lokahnykkurinn vefjist oft fyrir honum. Babel lét hafa eftir sér í gær að hann viti um leynilegan veikleika hjá varnartröllinu Virgil van Dijk sem hann hygðist gernýta sér í vil í leiknum á morgun. Bætti einnig við að VVD væri bara að spila á 70% raunverulegrar getu sinnar (fínar fréttir fyrir LFC að hann eigi frábær 30% inni til viðbótar) og að hjarta hans lægi hjá Liverpool í toppbaráttunni. Kærar þakkir fyrir þessar upplýsingar herra Babel og gott að vita. So long and thanks for all the babel fish!

  Ryan Babel er ýktur tappi með Liverpool-rauða lokka.

  En varnarlega þá eru Fulham hriplekir og aldrei líklegir til að halda hreinu, sér í lagi gegn toppliði eins og okkar. Scott Parker er líklegur til að halda Jean Michael Seri utan byrjunarliðsins þriðja leikinn í röð en Seri var keyptur síðastliðið sumar fyrir 30 milljónir punda og Parker ekki verið ánægður með hans frammistöðu frá því að hann tók við stjórastöðunni. Hugsanlega gert til að kveikja undir afturendanum á leikmanninum eða máske er miðjumaðurinn Parker ekki hrifinn af hans leikstíl eða framlagi. En gæti einnig verið óvænt leynivopn sem væri hent í miðjubaráttuna gegn okkur mönnum sem væru ögn lúnir eftir hetjudáðina í Munchen.

  Áhugavert verður að fylgjast með örfætta 18 ára táningnum Ryan Sessegnon sem hefur lengi verið skotmark LFC og annarra toppliða. Stráksi hefur ekki beint brillerað í vetur en mikið rót hefur verið á því hvar hann spilar, frá bakverði og upp allan vinstri vænginn fram í vængframherjastöðuna. Afar efnilegur Englendingur þó að illa hafi gengið hjá honum og hans liðsmönnum en honum hefur þó tekist að skila 5 stoðsendingum í bankann. Þegar örlög liðsins hans verða ráðin í vor þá er spurning hvort að hann verði til sölu og gæti verið fjölhæf lausn fyrir Liverpool sem varaskeifa fyrir Robertson. Til viðbótar þá á hann eingöngu eitt ár eftir af sínum samningi og ku hafa haldið með LFC frá æsku.

  Stormsenterinn serbneski Aleksandar Mitrovic hefur verið besti maður Fulham í vetur og skorað 10 mörk í vetur en verið sveiflukenndur inn á milli. Ef hann dettur í stuð á góðum degi þá er hann erfiður viðureignar og því til sönnunar hefur hann þrisvar skorað tvennu í vetur og í öll skiptin voru það sigurleikir fyrir Fulham. Hann er því sá lykilmaður sem Fulham þurfa að fá í gang í þessum leik til að eiga nokkurn séns á sigri. Ólíklegt þykir að André Schürrle spili og þá eru Mawson og Bettinelli á meiðslalistanum.

  Penni Parkers mun pára eftirfarandi leikmenn á liðsskýrsluna á morgun:

  Líklegt byrjunarlið Fulham í leikskipulaginu 4-2-3-1

  Liverpool

  Eftir stórleiki í CL þá er alltaf möguleiki á hinni alræmdu Evrópu-þynnku en Klopp og Rauði herinn hans eru einbeittir í titilbaráttunni og ekki líklegir til að vanmeta slíkan leik þegar mikilvæg stig eru í boði. Vitandi að eftir þennan leik er landsleikjahlé þá munum við líklega stilla upp okkar sterkasta liði og spila sóknarleik til sigurs. Sögulega séð þá höfum við 59% vinningshlutfall gegn Fulham í öllum leikjum liðanna og ættum því ekki að óttast þá almennt.

  Jurgen Klopp hélt blaðamannafund í gærdag og upplýsti að Henderson sé meiddur á ökkla en ekki alvarlega og væntanlegur til baka eftir landsleikjahlé. Naby Keita er líklegri til að vera leikfær og Oxlade-Chamberlain allur á uppleið í sinni endurkomu. Þjóðverjinn brosmildi fór yfir ýmis mál með sinni einstöku kerskni og klókum tilsvörum sem vert er að horfa á hér fyrir neðan.

  Í ljósi þessara liðsupplýsinga frá stjóranum þá tel ég að liðið verði stillt upp eitthvað í áttina að þessu liði og um að gera að ræða um innkomu Adam Lallana í því samhengi á siðprúðan hátt. Hugsanlegt er að Keita eða Lovren eigi séns á að byrja en að mínu mati þá er þetta líklegast lendingin á liðsvalinu:

  Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

  Spakra manna spádómur

  Rauði herinn hefur sýnt mátt sinn og megin í síðustu tveimur leikjum með 7 skoruðum mörkum og með meira flæði í sóknarleiknum. Við höfum bara tapað einum deildarleik í vetur og þrátt fyrir nokkur óheppileg jafntefli þá erum við réttilega í toppbaráttunni sem annað af tveimur liðum í sérflokki í vetur. Það verður sérstakur hvati fyrir okkar menn að komast aftur í efsta sætið og setja þannig pressu á Man City en leikurinn sem frestast hjá þeim verður grannaslagur gegn Man Utd á Old Trafford.

  Ég set því á mig spádómshattinn og hygg að Liverpool vinni leikinn 1-4 gegn Fulham og um markaskorun muni sjá Salah með tvö mörk, Mané eitt og Fabinho með eitt. Babel setur sárabótarmark fyrir heimamenn.

  YNWA

  [...]
 • Porto í 8 liða úrslitum

  Það var verið að draga í átta liða úrslit og undanúrslit Meistaradeildar Evrópu nú rétt í þessu og dróst Liverpool á móti Porto. Liðin mættust í sextán liða úrslitunum í fyrra þar sem Liverpool flaug í gegn eftir 5-0 útisigur í fyrri leiknum.

  Takist Liverpool að slá út Porto mun liðið mæta Barcelona eða Manchester United í undanúrslitunum. Fyrri leikurinn verður á Anfield 9. eða 10.apríl og seinni leikurinn viku seinna. Undanúrslitin eru svo 30.apríl eða 1.maí, takist Liverpool að komast áfram í þá umferð verður seinni leikurinn á Anfield.

  Hér er drátturinn í heild sinni:
  Ajax – Juventus
  Liverpool – Porto
  Tottenham – Man City
  Man Utd – Barcelona

  Undanúrslitin munu svo raðast svona:
  Man Utd/Barcelona – Liverpool/Porto
  Tottenham/ Man City – Ajax/Juventus.

  Það er erfitt að kvarta mikið eftir þennan drátt, Liverpool fékk einn “slakasta” mótherjann í pottinum ef svo mætti að orði komast og allt í lagi hugsanlega undanúrslitarimmu. Man City fá erfiðasta bikardrátt sinn í allan vetur og takist þeim að komast í gegnum Tottenham fá þeir Juventus, tvær hugsanlegar hörku rimmur í þéttum og erfiðum mánuði fyrir þá.

  Næsta verkefni er leikur gegn Fulham á sunnudaginn, nú vitum við hverjir mótherjar okkar í næstu umferð verður og þá fer fókusinn á deildina næstu vikurnar.

  [...]
 • Dregið í 8-liða úrslitum

  Við félagarnir eru komnir heim frá München og er óhætt að fullyrða að sú borg stóðst allar væntingar og vel það. Algjörlega frábært partý innan sem utan vallar og þjóðverjarnir flottir gestgjafar. Fyrir leik var ljóst að þeir voru alls ekkert að fara tapa þessu einvígi og voru nokkuð vel cocky enda á heimavelli og eru alls ekkert vanir að tapa þar. Allur banter var engu að síður á léttu nótunum og sem dæmi var nákvæmlega ekkert skilið stuðningsmenn liðanna að fyrir eða eftir leik.

  Við ræðum þennan leik og ferðina út betur í Gullkastþætti í næstu viku, það er dregið á morgun klukkan ca 11:30 og fylgjumst við að sjálfsögðu með því. Byrjum samt á því að taka stöðuna á því hvaða liði menn vilja mæta?

  Hvaða liði viltu að Liverpool mæti í 8-liða úrslitum?

  Skoða niðurstöður.

  Loading ... Loading ...
  [...]
 • Bayern 1-3 Liverpool

  0-1 Sadio Mané 26.mín

  1-1 Joel Matip 39.mín(sjálfsmark)

  1-2 Virgil Van Dijk 69.mín

  1-3 Sadio Mané 84. mín

  Liverpool mætti á Allianz Arena í München  í kvöld og mætti þar þýsku risunum Bayern Munchen. Leikurinn hófst varnfærnislega og var greinilegt að hvorugt liðið ætlaði að fá mark á sig á upphafsmínútunum en fyrsta færi leiksins var á áttundu mínútu þegar Firmino gaf lélega sendingu rétt fyrir utan eigin vítateig og tíaði upp í skot fyrir Thiago sem skaut yfir. Tveimur mínútum síðar fór Lewandowski auðveldlega niður í vítateignum og vildi fá víti en ítalski dómari leiksins var handviss um að brotið væri lítið og skoðaði ekki einu sinni atvikið og veifaði leikinn áfram. Á tólfu mínútu þurfti fyrirliðinn, Jordan Henderson, að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og kom Fabinho inn í hans stað.

  Á 24. mínútu var fyrsta tækifæri Liverpool þegar Firmino fann sér smá svæði rétt fyrir utan teig en skot hans fór framhjá markinu. Tveimur mínútum sienna kom svo fyrsta mark leiksins. Virgil Van Dijk átti frábæran langan bolta upp völlinn á Sadio Mané sem tók við boltanum með tvo varnarmenn fyrir framan sig og Neuer að pressa á hann. Mané tók geggjaðan snúning með boltan lék þá alla úr leiknum og kom boltanum í netið. Eftir markið fóru Bayern að taka meiri völd á leiknum og áttu Liverpool menn erfitt með að koma boltanum milli manna þegar þeir nálguðust miðjulínu. Á 38. mínútu átti Süle sendingu upp hægri kantinn og Gnabry náði að snúa Robertson af sér aðeins og auðveldlega sendi svo lága fyrirgjöf fyrir markið þar sem Matip setti boltan í eigið mark. Einstaklega óheppilegt en Lewandowski var fyrir aftan Matip og hefði klárað færið ef Matip hefði ekki reynt við boltann. Liverpool átti erfitt með spil þar sem eftir leið fyrri hálfleiks og átti Fabinho sérstaklega erfitt með að losa boltan, sem er ekki honum líkt.

  Jafnt í hálfleik en Liverpool enn á leið áfram í þeirri stöðu. Það voru hinsvegar allt önnur lið sem mættu til leiks í seinni hálfleik. Liverpool voru jafnvel grimmari og áreiðnari en í fyrri hálfleiknum og Bayern liðið virtist hreinlega þreytast eftir um klukkutímaleik. Þeir voru þó nálægt því að komast yfir rétt áður því 60. mínútu náði Gnabry aftur að hafa betur gegn Robertson og átti keimlíka sendingu og þá sem skilaði markinu en í það skiptið var enginn nægilega nálægt til að klára færið. Á 68. mínútu fékk Liverpool hornspyrnu, sína fimmtu í leiknum. Trent hafði tekið hinar fjórar en James Milner steig upp til að taka þessa. Inni á teignum var Virgil Van Dijk sem gaf merki um að hann vildi fá boltan á ennið og Milner hlýddi og Van Dijk kom Liverpool í 2-1. Það var svo að sjálfsögðu Sadio Mané sem innsiglaði sigurinn á 84. mínútu með skalla eftir stórkostlega sendingu frá Mo Salah og Mané því kominn með 9 mörk í síðustu 9 leikjum!

  Bestu menn Liverpool

  Þó margir hafi spilað vel í dag koma hér aðeins tveir menn til greina og það eru Sadio Mané og Virgil Van Dijk markaskorarar dagins og ásamt því varðist Van Dijk eins og kóngur, þó það séu engar fréttir.

  Vondur dagur

  Robertson nældi sér í spjald undir loks leiks sem verður til þess að hann er í leikbanni í fyrri leiknum í átta liða úrslitum ásamt því átti hann á tímum mjög erfitt með Gnabry á kantinum. Einnig átti Fabinho ekki góða innkomu í dag fram að hálfleik en var töluvert betri í seinni hálfleiknum.

  Umræðan

  • Eftir slaka útileiki í Evrópu í vetur var búið að búa til þá mýtu að Liverpool væru lélegir á útivelli í Evrópu og það var slökkt á því í dag.
  • Vonandi eru meiðsli Henderson ekki slæm, 8 deildarleikir og vonandi 5 meistaradeildarleikir eftir og það væri vont að missa breiddina á miðjunni á þessum tíma árs.
  • Djöfull hvað Virgil Van Dijk er ógeðslega góður í fótbolta!
  • Liverpool hefur ekki tapað tveggja leikja útsláttarrimmu undir stjórn Klopp í níu tilraunum í Evrópu og á ferlinum hefur hann unnið 16 af 20 útsláttarrimmum.
  • Mané búinn að taka við keflinu af Salah í markaskorun. Í deildinni er Mané með 16 mörk ,tveimur á eftir Aguero, gætum við séð nýjan markakóng frá Liverpool í vetur?

  Á föstudaginn klukkan 11 verður dregið í 8-liða úrslit þar verða öll ensku liðin ásamt Porto, Barcelona, Ajax og Juventus, hverja viljiði sjá dragast gegn okkur? Ég vil allavega ekki fá ensku liðin það er eitthvað sem er ekki jafn sexy. Auk þess vil ég ekki fá Juve, nenni ekki öllu Haysel tali og veseninu sem gæti verið í kringum stuðningsmenn, annars bara bring it on!

   

   

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close