Latest stories

 • Hvað nær Liverpool mörgum stigum í vetur?

  Gefum okkur að Liverpool kaupi ekki neinn í sumar og fari inn í tímabilið með nokkurnvegin núverandi hóp, hvað telur þú raunhæft að liðið nái mörgum stigum?

  Hvað nær Liverpool mörgum stigum í vetur með óbreyttan hóp?

  Skoða niðurstöður.

  Loading ... Loading ...

  Síðasta tímabil var svo sturlað mikið betra en okkar menn hafa verið að vinna með undanfarin ár að það er erfitt að meta hvort 97 stig sé nálægt hinu nýja normi eða hvort liðið gefi eftir í vetur. Aðaláhyggjuefnið er að Man City gaf lítið sem ekkert eftir ári eftir 100 stiga tímabilið.

  Undanfarin tvö tímabil brengla einnig allt norm sem áður var í ensku deildinni. Ef við skoðum síðustu tíu tímabil sést að deildin hefur tvisvar unnist á 80-81 stigi. Bara núna undanfarin þrjú tímabil hafa meistararnir náð í 90+ stig.

  Þróunin í deildinni á tíma FSG

  (more…)

  [...]
 • Liverpool 2-2 Sporting

  Liverpool lauk ferð sinni um Bandaríkin með titli er liðið landaði Western Union bikarnum ásamt Sporting eftir að liðin gerðu 2-2 jafntefli á Yankee Stadium í New York. Hljómar þetta kjánalega? Gott, því þetta var nokkuð kjánalegt.

  Það var nokkuð sterk liðið sem byrjaði hjá Liverpool í dag. Vörnin sem endaði síðustu leiktíð byrjaði fyrir framan Mignolet í markinu. Fabinho, Milner og Henderson voru á miðjunni og Chamberlain, Origi og Wijnaldum í sókninni. Augljóst hvar vantar í liðið þarna og ber það þess alveg merki.

  Mignolet var í gjafastuði og Bruno Fernandes sem mikið hefur verið talað um í vor og sumar skoraði með langskoti sem fór beint á Mignolet og skoppaði af honum og inn. Glatað hjá Mignolet sem átti þó nokkrar góðar vörslur í leiknum svo hann var ekki alslæmur en ömurleg mistök þarna.

  Sporting fengu svo Barcelona meðferðina þegar Origi skoraði ansi svipað mark og hann gerði gegn Barcelona. Henderson komst inn fyrir vörn Sporting en skot hans af stuttu færi var varið beint fyrir Origi sem skoraði. Það má gagnrýna Origi fyrir ýmislegt og hann er ekki alveg nógu “on it” í opnu spili á köflum en fjárinn hafi það hann er baneitraður í boxinu!

  Það var svo geggjuð sending frá Chamberlain inn á Wijnaldum sem skoraði með skoti sem átti viðkomu í varnarmann. Vel gert hjá báðum en þeir áttu báðir fínan leik.

  Í seinni hálfleik jafnaði svo Sporting eftir góða sókn þar sem Bruno Fernandes lagði upp fyrir Wendell, sem var líka ansi öflugur í þessum leik. Þar við sat og leikurinn endaði með jafntefli.

  Liverpool hefði getað skorað fleiri mörk og voru Matip og sérstaklega van Dijk mjög öflugir í föstum leikatriðum og voru örugglega tvisar ef ekki þrisvar sinnum ansi nálægt því að skora. Leikur liðsins var annars nokkuð kafla skiptur, það voru góðar rispur innan um slæmar. Miðjan var fín en samt líka ekki nógu góð á ákveðnum sviðum og fékk Fernandes að stjórna leknum aðeins of auðveldlega.

  Sepp van den Berg kom inn á í fyrsta skiptið á sínum Liverpool ferli og fékk mikinn stuðning úr stúkunni sem var gaman að sjá. Lallana var kominn aftur eftir meiðslin, flestir “aðalliðsmenn” sem byrjuðu leikinn fengu uþb 60-70 mínútur nema held ég Matip sem fór út eftir 85.mínútu og Fabinho og Milner sem kláruðu leikinn. Það er því fínt að þessir menn fái mínútur í skrokkinn á sér.

  Maður getur ímyndað sér að það sé aðeins að byrja að móta fyrir því hvernig Liverpool hyggst byrja leiktíðina og hvernig fyrstu byrjunarlið þeirra gætu komið til með að líta út. Nú fer að taka við æfingabúðir í Frakklandi þar sem línurnar verða lagðar enn betur fyrir leiktíðina og fleiri leikmenn bætast í hópinn.

  Salah, Firmino, Alisson munu allir mæta til Frakklands. Mig rámar í að reiknað sé með að Keita komi líka þangað en ég veit ekki með Shaqiri, vonum það. Mane snýr svo til baka eftir Góðgerðaskjöldinn. Það má því með sanni segja að það þurfi ekki að örventa þó úrslitin í Bandaríkjunum hafi ekki verið þau bestu því það eru svo sannarlega kannónur á leiðinni í þennan hóp.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Sporting Lisbon

  Síðasti æfingaleikur Rauða hersins á amerískri grundu þetta sumarið fer fram á hinum sögufræga hafnaboltavelli Yankee Stadium rétt upp úr miðnætti. Mótherjarnir eru Sporting Clube de Portugal oftast kenndir við höfuðborgina Lissabon en Liverpool hefur aldrei spilað leik gegn hinum grænþverröndóttu og því má líta svo á að um tímamótaleik sé að ræða.

  Tengsl liðanna eru þó öllu meiri í leikmannamálum og 7 leikmenn hafa spilað fyrir bæði lið þegar þetta er skrifað. Von bráðar má bæta Rafael Camacho á þann lista en hann mun þó ekki spila í kvöld gegn sínum fyrri félögum og er ekki í leikmannahóp Sporting. Hins vegar verða hafsentarnir Coates og Ilori í hjarta varnarinnar ef allt er eðlilegt og verður áhugavert að endurvekja þau kynni.

  Leikmenn bæði Liverpool FC og Sporting Lisbon. Heimild: LFChistory.net

  Liverpool hafa þó spilað áður á Yankee Stadium og lögðu Man City að velli þar eftir 2-2 úrslit og sigur í vítaspyrnukeppni árið 2014. Í þeim leik í Alþjóðlegu Guinness Meistarakeppninni skoraði Raheem Sterling annað mark Liverpool og James Milner spilaði fyrir ljósbláa liðið. Margur Guinness hefur runnið til sjávar síðan sá leikur var spilaður.

  Þetta er ekki í eina skiptið sem að leikmenn Liverpool hafa heimsótt heimsborgina New York en fyrir 55 árum síðan sendi Bill Shankly liðið í 5 vikna ferðalag um Norður-Ameríku og þar á meðal í Stóra-Eplið. Sumarið 1964 voru Liverpool að fagna fyrsta Englandsmeistaratitli sínum frá 1947 og því tilvalið að leggja land undir fót. Sér í lagi var vel til fundið að skoða heimssýninguna sem haldin var það árið í New York og margt í deiglunni. Liverpool gerðust víðförlir þetta sama sumar og ferðuðust til Reykjavíkur í ágúst sama ár til að etja kappi við Stórveldið í fyrsta Evrópuleik beggja liða eins og frægt er orðið.

  Í gær bárust þær gleðifregnir að Yasser Larouci væri að öllum líkindum ekki alvarlega meiddur eftir grófa líkamsárás í miðborg Boston en hann er augljóslega ekki valkostur í leik kvöldins. Þá var rétt að detta inn sú frétt að Sepp van den Berg hefur loks fengið leikheimild og er í leikmannahóp í kvöld. Af öðrum fréttum dagsins þá gerir Einar Matthías þeim góð skil hérna. Af leikmannakaupum að frétta þá er allt rólegt á vesturvígstöðvunum og búið að fínkemba eyðimörkina í leit að góðum kaupum.

  Liverpool munu frumsýna sinn splunkunýja hvíta varabúning í leiknum og eru klæðin sérlega smekkleg smíð þetta árið. En byrjunarliðin fyrir miðnæturmessuna eru klár og eftirfarandi:

  Liverpool: Mignolet, Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Henderson, Milner, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain, Origi.

  Bekkurinn: Lonergan, Atherton, Lovren, Gomez, Lallana, Brewster, Kent, Lewis, Phillips, Jones, Hoever, Woodburn, Wilson, Duncan, Van den Berg.

  Allt öflugir A-liðsmenn og framlínan vekur ákveðna furðu en miðað við að hina heilögu þrenningu vantar ennþá þá er þetta kannski eðlilegt. Klopp vill greinilega gefa sínum helstu lykilmönnum byrjunarliðsleik og svo kemur í ljós hvernig verður með varamennina. Lallana hefur í það minnsta jafnað sig á “dead leg” og er mættur á tréverkið ásamt fleirum.

  Lið Sporting er einnig komið á hreint og það er sem hér segir

  Sporting: Renan, Borja, Mathieu, Neto, Ilori, Wendel, Doumbia, Vietto, Raphinha, Bruno, Luiz.

  Okkar fyrrum maður Tiago Ilori er í vörninn og hinn margumræddi Bruno Fernandez sem mikið er linkaður við helstu topplið Evrópu er í sóknarhlutverki. Áhugavert að fylgjast með þeim tveimur og vonandi kemur Coates inná í seinni hálfleik.

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.

  [...]
 • Tímabilið búið áður en það byrjar hjá Clyne

  Karlgreyið! Clyne sem var loksins að ná sér áægtlega á strik og ná æfingatímabilinu frá fyrsta degi sleit krossband og verður frá a.m.k. 6 mánuði (lágmark). Hvort sem hann hefði verið áfram hjá Liverpool sem back-up valkostur eða faraið annað er þetta fyrst og fremst rosalega svekkjandi fyrir hann. Eins þarf Liverpool væntanlega að bregðast við og styrkja hópinn enda leysir hann tvær stöður í vörninni. Réttara sagt þarf væntanlega að fylla skarð bæði Clyne og Moreno.

  Clyne var áður en hann meiddist fyrir tveimur árum aldrei búinn að meiðast og nánast spila hverja mínútu hjá sínum liðum bróðurpart ferilsins. Hann var leikjahæsti leikmaður Liverpool fyrir 3-4 árum. Þetta er jafnframt lokaárið á samningi hans hjá Liverpool.

  Annað í fréttum í dag er að Mamadou Sakho hefur kært alþjóðlega lyfjaeftirlitið. Eitthvað sem getur ekki komið á óvart enda er það ekki gleymt þegar hann var settur í bann fyrir að falla á lyfjaprófi sem hann féll svo ekkert á. Mannorðið fór illa á þessu, hann missti af úrslitaleik Europa League, missti sæti sitt í Liverpool liðinu og komst fyrir vikið ekki í hópinn hjá Frökkum. Hann hafði verið á góðu róli fram að því þó líklega hafi hann aldrei verið í framtíðarplönum Klopp. Síðan þá hefur ferillinn bara legið niður á við og er hann núna að spila undir stjórn Roy Hodgson!

  Hann á hverja krónu skilið frá WADA

  [...]
 • Gullkastið – Pre-Season Power Ranking

  Veltum fyrir okkur hverjir hafa verið að nýta tækifærið það sem af er æfingatímabilinu, stöðunni á hópnum og öðrum fréttum frá Ameríku sem og annarsstaðar í fótboltaheiminum. Nú er heldur betur farið að styttast í mót.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 246

  [...]
 • Liverpool 1 – 2 Sevilla

  Mörkin

  0-1 Nolito (37. mín)
  1-1 Origi (44. mín)
  1-2 Pozo (90. mín)

  Gangur leiksins

  Liverpool byrjaði nokkuð vel, en Sevilla komu svo betur inn í leikinn eftir 5-10 mínútur. Á 13. mínútu áttu þeir hættulega sókn, okkar menn náðu boltanum en Wijnaldum missti boltann á hættulegum stað, boltinn barst að vítateig en Lonegan kom út og átti vörslu sem minnti bara mjög svo á Alisson nokkurn Becker. Sevilla héldu áfram að vera hættulegri framávið og áttu nokkur hálffæri og skot/skalla framhjá. Á 37. mínútu kom Lonegan svo engum vörnum við þegar Nolito fékk sendingu inn á teig og afgreiddi boltann óverjandi í fjærhornið uppi. Við þetta hresstust okkar menn aðeins, og á 44. mínútu tók Trent hornspyrnu sem Nat Phillips skallaði í varnarmann, þaðan barst boltinn á Divock Origi og hann afgreiddi hann örugglega í netið.

  Á þessum tímapunkti var leikurinn farinn að harðna óvenju mikið í ljósi þess að um æfingaleik var að ræða, dómarinn gaf m.a. nokkur gul spjöld, og hefði átt að gefa rautt spjald skömmu fyrir leikhlé þegar Banega rak hægri olnbogann í Harry Wilson og bætti svo um betur með því að slá hann í andlitið með vinstri. Banega var á þessum tímapunkti kominn með gult og af einhverjum óskiljanlegum orsökum fékk hann ekki annað gult. Dómarinn var hugsanlega með það í huga að um vináttuleik var að ræða, en það má hins vegar ekki gleymast að það þarf engu að síður að dæma á svona brot, rétt eins og ef um hefðbundinn kappleik væri að ræða.

  Sem betur fer var stutt í hálfleik, og þá skiptu Sevilla menn 9 mönnum út af, þar á meðal téðum Banega. Okkar menn svissuðu öllu liðinu út, svo þeir sem hófu leikinn í seinni voru Mignolet í marki, Hoever, Gomez, Lovren og Larouci í vörn, Fabinho, Milner og Adam Lewis á miðju, og Kent, Jones og Brewster frammi.

  Mignolet átti nokkrar góðar vörslur en okkar menn voru ekki að skapa mikið af færum. Á 60. mínútu skiptu Sevilla síðustu tveim inná, og þá kom m.a. inná frakki nokkur að nafni Gnagnon. Hann kom heldur betur við sögu á 76. mínútu þegar Sevilla sóttu fram, Lovren braut sóknina á bak aftur og okkar menn sneru vörn í sókn. Sjálfsagt hefði verið hægt að dæma á tæklinguna hjá Lovren, a.m.k. lá leikmaður Sevilla áfram á vellinum þó þeir væru búnir að missa boltann. Larouci fékk boltann við miðlínu, sótti inn á miðsvæðið, hoppaði upp úr einni tæklingu en var þá bara sparkaður niður. Dómarinn gaf honum beint rautt spjald, og var það fyllilega sanngjarnt. Hann og aðrir Sevilla leikmenn voru eitthvað að mótmæla þeim dómi, sem er algjörlega óskiljanlegt. Larouci var borinn af velli á börum, Lewis fór í bakvörðinn og Curtis Jones á miðjuna, en Bobby Duncan kom inn á í framlínuna.

  Okkar menn voru skiljanlega áfjáðir í að sækja sigurmarkið og hefðu átt að gera það ef allt hefði verið eðlilegt, en ekki hafðist það. Curtis Jones var líklega næstur því að skora eftir góða undirbúningsvinnu hjá Brewster, en skaut beint á markvörðinn. Hins vegar sluppu Sevilla menn í gegn á 90. mínútu, varnarvinnan hjá Hoever og Gomez var ekki nógu góð, og Pozo náði að skora ósanngjarnt sigurmark.

  Hvað lærðum við á leiknum?

  Það ætti að útiloka Sevilla frá vináttuleikjum. Svona framkoma er einfaldlega ekki boðleg, og að leikmaður sparki annan niður án þess að gera minnstu tilraun til að ná boltanum, og í reynd var ásetningurinn 100% að sparka okkar mann niður, þetta bara á aldrei að sjást. Allra síst í vináttuleik, en ekki í kappleikjum heldur. Ef þetta hefði verið einangrað atvik þá mætti e.t.v. skrifa þetta á augnabliks brjálæði, en það voru bara fleiri atvik þar sem leikmenn þeirra voru allt of harðir. Það væri sjálfsagt hægt að segja ýmislegt um þetta lið, en gerum orð Klopp að okkar: It is much too early in the season to create headlines by saying what I think.

  Kent er að gera alvöru tilkall til þess að vera í hóp. Hann átti nokkur ansi góð upphlaup í seinni hálfleik, og með meiri gæði í kringum sig hefði hann sjálfsagt getað átt stoðsendingu eða mark.

  Lovren og Mignolet eru ekki tilbúnir að gefast upp. Báðir áttu ágætan leik, Lovren stjórnaði vörninni eins og herforingi, og var sjálfsagt besti miðvörðurinn í kvöld, reyndar átti Nat Phillips líka ágætan leik.

  Að spila fótbolta á völlum sem ekki eru fótboltavellir í steikjandi hita er ekki endilega sniðugt. Við sáum þetta líka á föstudaginn, þar var völlurinn reyndar talsvert verri. Manni sýndist að Fenway væri í betra ásigkomulagi, engu að síður þurfti að breyta honum úr hafnarboltavöll í fótboltavöll á nokkrum dögum, og auðvitað væri best að spila bara á alvöru fótboltavöllum. Þá spyr maður sig hvaða áhrif hitinn hafi á leikmenn.

  Munum svo að þetta eru jú bara æfingaleikir, og fínt að gera mistökin í þeim leikjum, frekar en þegar alvaran er tekin við.

  Næst mæta okkar menn Sporting í New York á fimmtudaginn, og svo Napoli um næstu helgi, en þá verður liðið komið aftur til Evrópu.

  [...]
 • Sevilla – leikþráður

  Næsti æfingaleikur takk.

  Mótherjinn er Sevilla og hefst leikurinn kl. 22:00 stundvíslega. Liðið okkar er klárt og má sjá hér:

  Forvitnilegast er að Andy Lonergan fær hér mínútur í markinu. Hann er 35 ára samningslaus markmaður sem lék nokkra leiki með Rochdale í fyrra! Annað forvitnilegt er að líklega fær Harry Wilson aftur 60 mínútur í kvöld og að Nat Phillips fær mínútur með Van Dijk í hafsentinum.

  Bekkurinn: Mignolet, Atherton, Fabinho, Lovren, Milner, Gomez, Brewster, Matip, Kent, Lewis, Jones, Hoever, Duncan, Larouci.

  Sjáum hvað skemmtilegt skeður í kvöld!

  [...]
 • Sunnudagsslúðrið & Bale

  Hann er velskur, þrítugur að aldri, heimsklassa í gæðum, fastagestur á sjúkrabeddanum, á himinháum launum, gerði okkur grikk í Kiev og gengur illa að læra spænsku. Real Madrid er að þvinga sjálfa sig í brunaútsölu, Zidane er að kveikja í brúnni og umboðsmaður Bale heimtar virðingu.

  Stóra spurning þessa sunnudags er því óneitanlega:

  Á Liverpool að fá Gareth Bale til liðsins?

  Loading ... Loading ...

  Ræðið málið í kommentakerfinu og ykkar ástæður og rökstuðning fyrir því af hverju Bale ætti að koma eða ekki að koma.

  Í öðrum sunnudagsfréttum þá er að aukast hiti í söluumræðu fyrir Clyne til Crystal Palace en slíkur díll hefur legið í loftinu frá því að Wan Bissaka var seldur og laus staða opnaðist í hægri bakvarðastöðunni. Þá er látið fylgja með í öðrum miðlum að Palace vilji frekar selja Zaha til LFC heldur en Arsenal og þar sem Mignolet hefur líka verið linkað við sama lið þá má dreyma sunnudagdrauma um margslunginn skiptidíl milli höfuðborginnar og Bítlaborgarinnar.

  Þá er talað um að Nicolas Pepe sé að tefja Napoli á svörum í von um að Liverpool komi með tilboð í sig en Anfield er auðvitað draumastaðurinn fyrir alla knattspyrnumenn þetta sumarið. Að sama skapi segir Liverpool Echo að við höfum nákvæmlega engan áhuga á Pepe og hann yrði því að bíða lengi.

  Talandi um biðtíma þá er Steven Gerrard mikill áhugamaður um Samuel Beckett og ætlar að skrifa doðrantinn “Beðið eftir Kent” þetta sumarið en SteG mun bíða fram á síðustu sekúndu í von um að endurheimta besta unga leikmann skosku deildarinnar.

  YNWA

  [...]
 • Liverpool 2 – 3 Dortmund

  Gangur leiksins

  Leikurinn fór fram síðdegis, en þó var hitinn líklega í kringum 35 gráður. Sólin skein þó ekki á leikmenn, en erfiðar aðstæður engu að síður. Enda sást að leikmenn voru farnir að kófsvitna strax á fyrstu mínútum. Til að bæta gráu ofan á svart þá var völlurinn ekki góður, þetta er gervigrasvöllur að upplagi en það var lagt alvöru gras yfir gervigrasið fyrr í vikunni.

  Okkar menn byrjuðu á því að sækja fyrstu 2 mínúturnar, en svo komust Dortmund í sókn og skoruðu fyrsta markið á 3. mínútu eftir slappan varnarleik, fyrst og fremst hjá Clyne en Matip hefði sjálfsagt getað gert betur sömuleiðis. Í framhaldinu tóku menn sig saman í andlitinu og gerðu harða hríð að marki Dortmund, þannig að Hitz þurfti að taka á honum stóra sínum. Fljótlega eftir markið átti Milner hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Matip, en hann átti fínan skalla rétt framhjá. Næsta færi kom þegar okkar menn áttu hratt upphlaup, Ox átti fína fyrirgjöf sem Origi rétt missti af en rataði til Kent á markteigshorninu, en Hitz varði vel. Wilson fékk svo gott færi þegar Milner átti fína sendingu inn fyrir vörnina en aftur gerði Hitz vel þegar hann kom út úr markinu og lokaði snyrtilega. Hann kom þó engum vörnum við á 34. mínútu þegar Fabinho átti góða sendingu inn á teig sem virtist vera eyrnamerkt Kent, en hann lét boltann fara og þá var Wilson á auðum sjó og skoraði laglega í fjærhornið. Vel gert hjá þeim þremur. Kent átti svo hálffæri nokkru síðar en náði ekki almennilega skoti. Síðasta færi hálfleiksins áttu Dortmund menn, en þá komst Götze einn inn fyrir en Mignolet varði vel.

  Síðari hálfleikur hófst með nánast nýju Dortmund liði, en á þeim bænum var skipt um 8 leikmenn, án þess að Klopp gerði neinar breytingar. Það kom fljótt í ljós að óþreyttir Dortmund menn höfðu talsvert forskot á okkar menn sem voru búnir að leggja 45 mínútur að baki í steikjandi hitanum, því á fyrstu 13 mínútum síðari hálfleiks skoruðu Dortmund tvö mörk. Fyrra markið var tæpt rangstöðulega séð, og það síðara kom vegna reynsluleysis Larouci (að miklu leyti a.m.k.). Eftir það mark skipti Klopp öllum nema Mignolet inn á, með Trent, Lovren, Virgil og Robbo í vörninni, Hendo, Gini og Adam Lewis á miðjunni, og Woodburn, Brewster og Curtis Jones fremstir. Mögulega var setupið meira í ætt við 4-2-3-1.

  Ungu strákarnir sköpuðu svo næsta mark. Adam Lewis átti mjög góða fyrirgjöf sem bæði Jones og Brewster voru nálægt því að komast í, en boltinn féll fyrir Woodburn sem var felldur og víti dæmt. Milner var farinn útaf og Brewster tók því að sér að skora sem hann gerði með stæl, setti boltann snyrtilega í samskeytin.

  Liverpool sóttu svo frekar stíft það sem eftir lifði leiksins, og fengu einhver hálffæri, en Dortmund menn voru þéttir fyrir og náðu að leysa úr sóknarþunganum. Reyndar var það svo að þeir áttu líklega hættulegasta færið á síðustu mínútunum, en Mignolet varði afar vel gott skot frá vítapunktinum.

  Umræðan

  Liðið í fyrri hálfleik lék almennt vel, en átti kannski erfitt að fóta sig á lélegum velli, og sendingarnar voru skrautlegar – reyndar hjá báðum liðum. Undirrituðum fannst Oxlade-Chamberlain vera sýnu ferskastur, en Kent og Wilson sýndu líka fínustu takta. Í síðari hálfleik var Lewis að koma skemmtilega á óvart af miðsvæðinu, og átti fínar sendingar inn á teiginn sem minntu um margt á sendingar frá Andy Robertson.

  Það er einna helst að Clyne hafi sýnt af hverju hann er ekki fyrsti kostur í hægri bakvörðinn, bæði með varnarmistökunum í upphafi, og eins var hann ekki að sýna neitt sérstakt fram á við. Þá má líka segja að liðið sé ennþá að leita að bakvörðum til vara fyrir Trent og Robbo, Larouci og Lewis eru alveg kandídatar en ennþá frekar óslípaðir.

  Brewster minnti svo enn á sig, og ef hann heldur heilsu og sýnir áfram þetta attitude, þá á hann alveg heima í sóknarlínu liðsins.

  Næsti leikur er svo á sunnudaginn á Fenway Park, þar sem liðið mætir Sevilla.

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Dortmund

  Þá er komið að næsta æfingaleik okkar manna, en núna á miðnætti hefst leikur gegn fyrrum lærisveinum Klopp hjá Dortmund. Spilað verður á Notre Dame vellinum, en hann ku vera staðsettur í Indiana fylki í Bandaríkjunum, ekki svo fjarri Chicago. Það er reiknað með um 40.000 áhorfendum á leikinn í steikjandi hita sem nú ríkir þar um slóðir.

  Næsti leikur er svo strax kl. 22 á sunnudagskvöld, eða u.þ.b. 44 klst. eftir að þessi leikur verður blásinn af. Þetta ætti því að vera sæmileg æfing fyrir mannskapinn.

  Liðið sem byrjar leikinn á eftir lítur svona út:

  Bekkur: Lonergan, Atherton, Van Dijk, Wijnaldum, Lovren, Henderson, Brewster, Robertson, Lewis, Phillips, Jones, Hoever, Woodburn, Alexander-Arnold.

  Semsagt: Lallana og Brewster byrja ekki eins og í fyrstu tveim leikjunum, en Fabinho og Origi koma inn í staðinn.

  Við fjöllum svo um leikinn í annarri færslu, mögulega dettur hún ekki inn fyrr en í fyrramálið.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close