Upphitun: Áheyrnaprufa fyrir De Zerbi á Anfield

Í kjölfarið á tilkynningu Xabi Alonso að hann ætli að vera áfram hjá Leverkusen er De Zerbi núna næst líklegastur hjá veðbönkum að taka við af Klopp eftir tímabilið sem verður ansi áhugavert þar sem hann mætir í heimsókn á Anfield með lið sitt Brighton á sunnudaginn.

Þó ég sé spenntari fyrir Amorim væri vissulega eitthvað skemmtilegt ef De Zerbi tæki við og tæki Lallana með sér. Hinsvegar geta þjálfarapælingar beðið betri dags því fyrst erum við með deild sem þarf að vinna. Leikurinn um helgina er gríðarlega mikilvægur í því samhengi því Arsenal og Man City mætast innbyrgðis strax í kjölfar okkar leiks og því mjög mikilvægt að við sigrum okkar leik. Það er þó hægara sagt en gert því fjórum sinnum höfum við mætt Brighton liði De Zerbi og gert við þá tvö jafntefli og tapað tveimur.

Það voru hinsvegar jákvæðar fréttir frá blaðamannafundi Klopp í dag þar sem meiðslalisti Liverpool fer minnkandi. Darwin Nunez og Curtis Jones eru orðnir heilir og verða með á sunnudaginn ásamt Konate og meiðslin sem Andy Robertson varð fyrir í landsleikjahléinu eru ekki jafn slæm og var haldið í fyrstu. Þeir Jota og Trent gætu svo jafnvel náð leiknum gegn Man Utd næstu helgi.

Landsleikjahléið var líka ekki svo slæmt fyrir okkar menn í þetta skiptið. Mac Allister spilaði sína leiki í Bandaríkjunum og spilaði eins 77 mínútur í tveimur leikjum. Endo byrjaði á bekknum í leik Japan og spilaði rétt rúman hálftíma á meðan að Gakpo sem hefur verið slakur að undanförnu átti góðan leik gegn Skotlandi þar sem hann lagði upp tvö mörk í sigri Hollendinga og Diaz lagði upp sigurmark Kólembíu gegn Spánverjum. Conor Bradley skoraði svo sigurmark Norður Íra gegn Skotum í leik þar sem Robertson meiddist. Kelleher var maður leiksins í markalausu jafntefli Íra við Belgíu en sat svo á bekknum í tapi liðsins gegn Sviss. Menn sem þurftu að hvíla fengu fína hvíld, fyrir utan Robertson, og menn sem þurftu sjálfstraust fengu sjálfstraust og vonandi að við tökum þetta með okkur inn í endasprettinn.

Fyrst Klopp segir Nunez vera leikfæran giska ég á þetta byrjunarlið þó við gætum séð Gakpo byrja fyrir Nunez ef þeir treysta honum ekki frá byrjun. Miðan er líkast okkar besta þessa dagana en gott að vera komnir með breiddina í Elliott, Jones og Gravenberch. Svo gætum við séð Tsimikas detta inn í vinstri bakvörðin ef Klopp telur að við þurfum að teygja á vellinum en frammistöður Gomez gera honum eftir fyrir að velja hann ekki.

Spá

Vegna tímasettningu leiksins, rétt á undan leik Arsenal og Man City væri ég til í að vinna þennan leik á annan af tveimur háttum. Annað hvort að ganga frá þeim snemma leiks með stórsigri eða að skora mjög umdeilt sigurmark á lokamínútunni aðeins til að drepa stemminguna hjá hinum liðunum tveimur en ég ætla að giska á erfiðan 2-1 sigur þar sem við komumst tveimur mörkum yfir en Brighton minnkar muninn og vera loka mínúturnar aðeins og spennandi.

 

3 Comments

  1. Gakpo er aldrei að fara byrja. Myndi frekar giska á að Jones/Elliott kæmi inn ef Nunez er ekki nógu heill að byrja og Salah færi upp á topp.
    Ekkert klúður Liverpool núna, ef við getum ekki unnið Brighton með alla þeirra bestu menn meidda eigum við ekkert skilið.

    3
  2. Brighton er lið sem hefur hentað okkur illa. Þeir vilja halda boltanum og eru þolimóðir með hann sem þýðir að þegar við erum að pressa þá líður þeim ekki allt of illa og ná oft að komast í gegnum pressuna sem galopna okkur varnarlega.

    Á móti kemur þá eru tækifæri fyrir okkur að vinna boltan mjög framarlega á vellinum því að þeir vilja spila honum á milli sýn við eigin vítateig.

    Við erum betra lið en þetta gæti verið óþægilegur leikur.

    Spá 3-2

    P.s Hefði verið geggjað að vera með Trent í þessum leik.

    4
  3. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Hannes. Eins og í upphitun og athugasemdum þá hafa máfarnir frá Brighton verið okkur erfiðir í gegnum tíðina. Ég á von á því að svo verði áfram en samt . . . Getumunur liðanna núna á að vera nægur til að landa sigri á heimavelli. Ég reikna með að vörnin haldi amk. að mestu og niðurstaðan verði tveggja marka sigur, annaðhvort 3 – 1 eða 2 – 0

    Það er nú þannig

    YNWA

    3

Xabi Alonso líklega ekki næsti stjóri Liverpool

Liðið gegn Brighton (leikþráður)