íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Gullkastið – Bullandi mótvindur

  Liverpool upplifir janúarmánuð jafnan eins og við hin enda langleiðinlegasti mánuður ársins. Mánudagur mánaðanna. Hann er blessunarlega búinn og vonandi betri tíð í vændum. Tvö jafntefli í vikunni á meðan City og Spurs unnu sína leiki og því um að ræða verstu viku tímabilsins það sem af er vetri. Fínt að vera þrátt fyrir það ennþá á toppnum með 2,48 stig að meðaltali í leik. Það var af nægu að taka í þætti vikunnar.

  00:00 – Janúar, kalt, meiðsli, snjór og flensa.
  21:00 – Klopp og hans sýn á leikmannahópinn
  33:20 – Leicester og West Ham
  44:00 – Hefði Clyne spilað síðustu leiki?
  51:00 – Toppbaráttan eftir þessa viku
  59:40 – Bournemouth

  Stjórnandi: Einar
  Viðmælendur: SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 226

  Punktar í þætti:
  (meira…)

 • West Ham 1-1 Liverpool

  Liverpool missteig sig annan leikinn í röð þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við West Ham á útivelli í 25.umferð og er því aðeins með þriggja stiga forskot á toppnum sem verður að teljast afar pirrandi þar sem möguleiki var á að liðið gæti komist sjö stigum fyrir ofan Man City í síðustu umferð þegar þeir töpuðu ansi óvænt gegn Newcastle. Það gekk ekki upp og Liverpool tapaði fjórum stigum í leikjum sem hefðu átt að teljast nokkuð líklegir til að skila inn sex stigum.

  Leikur Liverpool í dag var ekki nægilega góður og bar alveg þess merki að það vanti ansi marga mikilvæga leikmenn inn í liðið um þessar mundir. Það vantaði auðvitað enn Trent Alexander-Arnold, Joe Gomez og Dejan Lovren í vörnina og þá vantaði líka Gini Wijnaldum og Jordan Henderson á miðjuna. Þetta eru ansi stórir og mikilvægir hlekkir í þessu Liverpool liði og þegar öllu er á botnin hvolft er kannski skiljanlegt af hverju ákveðnir þættir í liðinu eru ekki eins og þeir voru fyrir nokkrum vikum síðan. Það afsakar hins vegar ekki allt og vill maður sjá aðra leikmenn standa upp og taka sín tækifæri.

  Það tók ekki langan tíma til að fá mann til að pirrast rækilega yfir þessum blessaða leik. Liverpool var að spiila of hægt og miðjan og vörnin var ekki beint í takti við leikinn. West Ham fóru mjög snemma að ógna Liverpool með skyndisóknum og fengu nokkur ágætis færi, til að mynda eitt úr skyndisókn og eitt eftir fast leikatriði en skotin fóru rétt framhjá. Liverpool átti svo sem sæmileg augnablik líka en það var Sadio Mane sem braut ísinn rétt fyrir miðjan fyrri hálfleik með kolólöglegu marki. Lallana tók hátt í sjö Cruyff snúninga við hliðarlínuna og sendi boltann innfyrir á Milner sem var örugglega tveimur metrum frá varnarlínunni en línuvörðurinn sem var þremur metrum frá Milner sá það ekki. Milner kom boltanum á Mane sem skoraði.

  Það virkaði eins og smá fargi hafi verið létt af herðum Liverpool við markið en það entist ekki lengi þegar Liverpool gaf nokkuð ódýra og óþarfa aukaspyrnu sem West Ham spiluðu vel úr og bölvaður Michail Antonio skoraði fimmta markið sitt gegn Liverpool á ferlinum!

  Liverpool reyndi að brjóta West Ham niður aftur en það gekk ekki eftir, West Ham minntu á sig hinu meginn en ekki var mikið um einhver dauðafæri. Á einhvern hátt var Liverpool kannski bara heppið að sleppa með stigið í dag en á jákvæðu nótunum þá er þetta eitt stigið í safnið og enn í okkar höndum.

  Bestu menn Liverpool
  Það er nú því miður ekki úr miklu að taka þarna en leikmenn sýndu fína takta inn á milli en heilt yfir voru flestir hverjir nokkuð slakir í kvöld. Lallana og Keita áttu fín moment á miðjunni en líka nokkur frekar döpur. Mér fannst Keita reyndar ansi flottur fram á við og var einn af fáum björtum puktum Liverpool í sókninni. Fabinho fannst mér nokkuð fínn þarna með þeim og Van Dijk var fínn. Besti, eða segjum skársti, leikmaður Liverpool í dag var eflaust Sadio Mane.

  Vondur dagur
  Allt. Það var eiginlega allt vont í dag. Vörnin var rosalega opin á köflum en bakverðirnir og Matip fannst mér bara ekki á sínum besta degi. Lallana og Keita áttu góðar rispur fram völlinn, sértaklega Keita, en úrslitasendingarnar voru oft slakar og þeir ekki í þeim stöðum sem þeir hefðu átt að vera í og þess háttar. Firmino fékk gott færi en átti slakt skot og hefur átt betri daga, Salah var í stífri gæslu og náði ekki að hafa mikil áhrif á leikinn.

  Umræðan
  Mikil neikvæðni og svartsýni ríkir nú á meðal stuðningsmanna Liverpool vegna þessara tapaðra stiga og skiljanlega. Það eru að ég held nokkuð góðar skýringar á ansi miklu af því sem hefur verið að fara úrskeiðis hjá Liverpool þessa dagana.

  Það er auðvitað mikið af meiðslum og þar að hrófla mikið í liðinu á milli leikja þessa dagana. Það vantar tvo mikilvæga hafsenta í vörnina og hægri bakvörðinn, í kvöld vantaði fyrirliðan og líklega einn mikilvægasta leikmann liðsins í Wijnaldum. Svona hefur staðan verið í nokkrar vikur og verður eflaust eitthvað aðeins áfram. Það að komi smá skjálfti í varnarleikinn, miðjan sé ekki upp á sitt besta, sóknarmynstrið breytist og svona er skiljanlegt þegar öllu er á botnin hvolft.

  Það sem Liverpool hefur gert hingað til á leiktíðinni er frábært og með því betra sem hefur sést í deildinni á þessum kafla og í örugglega 95% tilvika væri Liverpool nú með örugga forystu á toppnum, með átta fingur á titlinum og ekkert stress. Í ár er þó klárlega þessi 5% tími þar sem Liverpool er að etja kappi við fáranlega öflugt lið Man City sem hanga alveg í rassgatinu á þeim og sterkt og ólseigt lið Tottenham eru ekki langt frá.

  Það er byrjun febrúar og titillinn hvorki vinnst ekki né tapast á þessum tímapunkti. Þessi tvö jafntefli Liverpool er í raun fyrsta skiptið sem Liverpool „misstígur“ sig á leiktíðinni og hin tvö liðin fyrir neðan hafa nú klárlega gert slíkt hið sama í vetur. Öll þrjú liðin munu tapa einhverjum stigum í vetur og eflaust mun stöðutaflan breytast eitthvað á milli þessara síðustu þrettán umferða sem eftir eru.

  Framundan er erfitt prógram sem byrjar á skyldusigri gegn Bournemouth á Anfield, það má ekkert gefa eftir þar og við verðum að taka þrjú stigin. Þetta var ógeðslegt fúlt í dag og í miðri síðustu viku en vonandi var þetta bara smá löðrungur sem liðið vaknar við. Það er óþarfi að afskrifa allt eftir daginn í dag og vonandi verðum við ögn jákvæðari um næstu helgi.

 • Liðið gegn West Ham

  Klopp hefur valið liðið sem mun byrja leikinn gegn West Ham eftir klukkutíma og er ansi margt áhugavert í þessari uppstillingu hans. Það er enginn Henderson og enginn Wijnaldum í kvöld og því eru þeir Keita og Lallana á miðjunni með Fabinho, Milner kemur aftur í hægri bakvörðinn eftir leikbann. Lovren er ekki í hóp og Curtis Jones kemur á bekkinn.

  Alisson

  Milner – Matip – Van Dijk – Robertson

  Keita – Fabinho – Lallana

  Salah – Firmino – Mané

  Bekkur: Mignolet, Shaqiri, Moreno, Sturridge, Curtis Jones, Origi, Camacho.

  Þetta er áhugavert lið og spurning hvernig þetta verður sett upp en ég hugsa að þetta sé nokkurs konar þriggja manna miðja og Salah komi til með að vera hægra meginn í kvöld en það gæti vel verið að Lallana sé hluti af þessum þremur fyrir aftan Salah.

  Það vantar helling í þetta lið hjá Liverpool þar sem það er enginn Trent, Gomez, Lovren, Henderson né Wijnaldum og það eru ansi stór skörð en stórt tækifæri fyrir menn eins og Keita og Lallana til að vinna sér inn fleiri sénsa.

  Við erum sem stendur með tveggja stiga forskot á toppnum fyrir þennan leik og þetta er algjör skyldusigur því við viljum komast aftur fimm stigum á undan Man City.

 • Upphitun: Mánudagur í Lundúnum.

  Myndaniðurstaða fyrir olympic stadium London controversy

  Það er aldrei slæmur tími til að vinna fótboltaleik, en það er stundum mjög góður tími til þess. Núna væri virkilega góður tími fyrir Liverpool að vinna fótboltaleik. Annað kvöld halda rauðliðar suður til Lundúna, heimsækja Hamrana á Ólympíuleikvangnum og freista þess að halda bilinu á milli sín og City í fimm stigum í allavega eina umferð í viðbót. Síðustu ár hafa Liverpool haft hreðjartak á West Ham, skorað fjögur gegn þeim í síðustu fjórum leikjum en það er ekki laust við að það sé kvíði í manni fyrir leiknum.

  West Ham.

  West Ham eru skrýtið lið. Fyrir 10 árum hefði ég lýst þeim sem stærri útgáfu af Crystal Palace, hverfislið í Lundúnum, oftast í efstu deild og spiluðu mjög enska knattspyrnu, háir boltar og svo framvegis. Þeir voru síðast í annarri deild árin 2011-12, tóku eitt tímabil og komu strax aftur upp. Þeir eru líklega frægastir fyrir hlutverk þeirra í myndinni Green Street Hooligans, sem er fínasta B-mynd. Þeir voru oftast um miðja deild og áttu til að gera góðverk eins að kaupa Andy Carroll án þess að fatta að hann yrði meiddur í um það bil öðrum hverjum leik.

  Árið 2016 stökkbreyttist klúbburinn og hann er enn þá að jafna sig á þeim breytingum. Arsenal og Tottenham þurftu að hafa gífurlega fyrir því að byggja nýja velli og Chelsea eru ekki búnir að láta draum eigandans um nýjan leikvang rætast. Það er einfaldlega drulluerfitt að byggja í London og hrikalega dýrt. En West Ham fengu bara Ólympíu leikvanginn frá 2012 svo gott sem gefins. Hvernig það gerðist er löng saga og eitthvað af henni ekki orðið opinbert en í stuttu máli var mjög óljóst hvað ætti að gera við leikvanginn eftir Ólympíuleikana. Eftir alls konar drama og vesen endaði hann hjá West Ham af því að ekkert annað fótbolta lið kom lengur til greina. West Ham fékk ekki að kaupa hann, en geta huggað sig við að leigusamningurinn var þeim svo hagstæður að borgarstjóri London, Sadiq Khan, skipaði rannsóknarnefnd til að fara yfir málið. Hún komst að því að fyrri borgarstjórar hefðu verið út á þekju, en ekki væri við West Ham að sakast fyrir að reyna að fá sem besta dílinn. Einhverjar eftirmálar gætu orðið með tíð og tíma en líklegast er málinu lokið í bili.

  Flutningurinn gekk skelfilega. Fyrsta árið voru stöðug mótmæli, öðru hverju brutust út slagsmál milli áhorfenda og vallarvarða og árangurinn á vellinum var ekki til þess fallinn að bæta skap áhorfenda. Það hjálpaði mjög lítið að sífellt var verið að skipa fólki að setjast og jafnvel að vera ekki að með hávaða svo það truflaði ekki. Íslendingar þekkja það manna best að þó að völlur sé mjög góður frjálsíþróttavöllur er hann ekki endilega góður fótboltavöllur.

  Núna er liðið á þriðja ári á vellinum og búið að vinna úr eitthvað af vandamálunum. Með flutningum lýstu eigendurnir því yfir að þeir ætluðu að gera liðið að Evrópuveldi. Það hefur gengið brösulega en þeir eru að reyna og réðu Pelligrini fyrir þetta tímabil. Hann er byrjaður að byggja upp sóknarsinnað lið sem minnir ögn á ódýrari útgáfu af City liðinu sem hann stjórnaði. Það mun taka sinn tíma fyrir að hann að koma liðinu þangað sem það vill komast, en ég hugsa að það væru margir verri stjórar til að vera með.

  Myndaniðurstaða fyrir manuel pellegrini

  Þeir vilja sækja, halda boltanum og eyddu 100 milljónunum punda í leikmenn í sumar. Að spila við þá í fyrsta leik tímabilsins gaf okkur líklega vitlausa mynd af þeim. Eftir því sem leið á tímabilið fóru þeir að spila betur og ná í fínustu úrslit en meiðsli hafa verið að hrjá þá í janúar. Tímabilið þeirra náði líklega lágpunkti í síðustu viku þegar þeir voru slegnir út úr bikarnum af AFC Wimbledon, sem eru í þriðju deild. Þeir hafa tapað síðustu þrem leikjum en það er lítið um að þeir séu að kalla eftir að Manuel sé rekin, en það gæti breyst ef þeir fara ekki að ná aftur í punkta.

  Meiðslalisti West Ham er ansi langur og margir lykilmenn á honum. Það eru spurningamerki við Cresswell, Wilshere, Yarmolenko, Fabianski, Balbuena, Nasri, Lanzini og Arnautovic. Sá síðastnefndi er byrjaður að æfa aftur og það mun breyta leiknum helling ef hann getur byrjað. Austuríkismaðurinn er komin með 7 mörk á tímabilinu og er stórhættulegur. Ef hann spilar mun ég breyta spá minni um að Liverpool haldi hreinu laki í þessum leik. Að sama skapi væri ég helmingi stressaðari fyrir leiknum ef þeir gætu teflt fram sínu sterkasta liði, sem þeir geta ekki.

  Okkar menn.

  Meiðslakrísan í vörninni heldur áfram. Bæði Lovren og Gomez fengu bakslög í vikunni, hreinlega óvíst hvenær þeir koma aftur inn í liðið. Ég held að Klopp hljóti að vera farin að leita að nýjum miðverði, það gengur bara ekki að vera með þrjá meiðslapésa sem annan kost við hlið Van Dijk. Á móti kemur að Trent nálgast liðið og sem betur fer getum við sett Milner í hægri bakvörðinn aftur eftir að þetta leiðinda leikbann. Það er eiginlega bara ein varnarlína sem kemur til greina: Andy, Van Dijk, Matip og Milner.

  Svo er það miðjan. Já. Hvernig á hún að vera? Ég held að Fabinho sé búin að stimpla sig inn sem lykilmaður á miðjunni, Shaqiri er búin að vera frekar slappur síðustu vikur og ég er farinn að hallast að því að hann sé best geymdur á bekknum þangað til líður á leikinn og hann getur komið inn og sprengt upp leiki. Mig langar rosalega að Keita fái að byrja en hann hefur bara ekki komist í takt við liðið og virðist þurfa meiri tíma. Spurning hvort Klopp gefi honum næstu tvo leiki til að spila sig í gang. Efa það, en hver veit.

  Ég ætla að giska á Fabinho, Henderson og Gini á miðjunni og svo segir sóknarlínan sig sjálf. Ekki alveg viss um hvernig er best að teikna þetta upp, þar sem Salah verður að öllum líkindum upp á topp, en einhvern vegin svona:

  Grái kallinn er Ribena maðurinn.

   

  Spá:

  Þessi leikur er svo stór. Liverpool eru ekki búnir að vera sannfærandi á árinu 2019 og ólíkt í haust þá eru þeir að leka mörkum í ósannfærandi leikjunum. City voru rétt í þessu að sigra Arsenal og ég meiri trú á að svín fljúgi en að Everton reynist þeim erfiðir á miðvikudaginn. Við þurfum að svara fyrir þessa leiðinda vitleysu gegn Leicester. Eins leiðinlegt og það er að segja það, þá held ég að það hjálpi liðinu að leikurinn sé ekki á Anfield, stuðningsmenn þar voru aðeins of stressaðir gegn Leicester og það smitaðist á völlinn.

  West Ham munu líklega vilja sækja, þeir kunna illa við að pakka í vörn og það mun henta okkar mönnum fínt. Ég ætla að vera svo brattur að segja að við klárum þetta 3-0, Salah vantar 2 mörk til að vera komin með 50 hjá Liverpool, spái því að hann klári það í þessum leik og svo mun hann Bobby okkar bæta þriðja við.

  KOMA SVO!

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!